Hæstiréttur íslands
Mál nr. 708/2009
Lykilorð
- Mengun
- Skipulag
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 4. nóvember 2010. |
|
Nr. 708/2009.
|
Straumsbúið sf. Sigurður B. Markússon Íslenskir aðalverktakar hf. Sína Þorleif Þórðardóttir Leifur Sörensen Gréta Elín Sörensen og Birgir Sörensen (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Alcan á Íslandi hf. Alcan Holdings Switzerland Ltd. (Skarphéðinn Pétursson hrl. Sigurður Snædal Júlíusson hdl.) íslenska ríkinu og (Óskar Thorarensen hrl.) Hafnarfjarðarkaupstað (Þórdís Bjarnadóttir hrl. Margrét Gunnlaugsdóttir hdl.) |
Mengun. Skipulag. Skaðabætur.
S o.fl. höfðuðu mál gegn A o.fl. og kröfðust viðurkenningar á því að A. o.fl. væru hver um sig skaðabótaskyldir vegna þeirrar skerðingar sem starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík hefði í för með sér á verðmæti hluta af landi S. o.fl. innan jarðarinnar Óttarsstaða í Hafnarfirði. Landsvæðið féll annars vegar undir svokallað svæði takmarkaðrar ábyrgðar, sem kveðið var á um í samningi frá 28. mars 1966 um álbræðsluna í Straumsvík, og hins vegar þynningarsvæði vegna mengunar frá henni, sem afmarkað var í aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Í aðalkröfu lögðu S o.fl. til grundvallar að spillt væri fyrir þeim öllu landi Óttarstaða sem ættu undir svæði takmarkaðrar ábyrgðar, að viðbættu svæði sem væri innan þynningarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi H, eða samtals 450,181 hekturum. Til vara var miðað við 247,2814 hektara lands sem féll innan þynningarsvæðisins. Í dómi Hæstaréttar kemur meðal annars fram að með samningi íslenska ríkisins við A 28. mars 1966 hafi ekki verið lagðar kvaðir á notkun lands innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar aðrar en þær að menn, sem síðar tækju þar upp búskap eða garðyrkju, gætu ekki krafið A um skaðabætur vegna tjóns, sem þeir kynnu að bíða í slíkri starfsemi af völdum loftmengunar frá álbræðslunni. S o.fl. hefðu ekki borið því við að þessi takmörkun á skaðabótaábyrgð hafi ein og sér orðið þeim til tjóns. Nokkur íbúðarbyggð hefði verið komin við gildistöku aðalskipulags H innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og í skipulaginu hefði verið gert ráð fyrir talsverðri aukningu hennar. Ekki væru því efni til að líta svo á að afmörkun á svæði takmarkaðrar ábyrgðar innan merkja Óttarsstaða stæði því í vegi að H gæti ákveðið í skipulagi að þar rísi íbúðarhúsnæði eða að afmörkunin skerti á annan hátt heimildir S o.fl. til nota af landinu, enda hefðu þau ekki borið við að þau hefðu hug á að ráðstafa því til búskapar eða garðyrkju. Þegar af þessum ástæðum gæti krafa S. o.fl. um viðurkenningu á skaðabótaskyldu A o.fl. ekki tekið til alls svæðisins, sem greindi í aðalkröfu þeirra. Hvað varðaði hið svokallaða þynningarsvæði vegna álbræðslu A segir í dómi Hæstaréttar að í 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002 væri lagt bann við því að íbúðarhús væru á þynningarsvæði atvinnurekstrar við álframleiðslu. Samkvæmt gögnum málsins hefði land innan merkja Óttarsstaða, sem félli undir þynningarsvæði vegna álbræðslu A, aldrei á fyrri stigum verið afmarkað í aðalskipulagi sem byggingarland fyrir íbúðarhúsnæði eða til afnota við aðra starfsemi, sem nú yrði útilokuð vegna þynningarsvæðisins, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. S o.fl. hefðu ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að verðmæti þessa lands, að því leyti sem það hefði verið eða kynni í framtíðinni að vera skipulagt fyrir iðnað, þjónustustofnanir og hafnarstarfsemi, yrði minna en ef nýta mætti það undir íbúðarbyggð, landbúnað eða matvælaframleiðslu, en ekki stoðaði þeim að bera því við að slíkt væri alkunnugt í skilningi 3. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. S. o.fl. hefðu því ekki sýnt fram á að það hefði þegar orðið þeim til tjóns að ákvæði 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002 og aðalskipulag H kæmi í veg fyrir að hluti þessa lands Óttarsstaða yrði að öðru óbreyttu nýttur á framangreindan hátt. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu A. o.fl. af köfum S o.fl. í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 10. desember 2009. Þau krefjast viðurkenningar á því að stefndu „séu hver um sig skaðabótaskyldir gagnvart áfrýjendum vegna þeirrar skerðingar ... sem starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík hefur í för með sér“ á verðmæti hluta af landi áfrýjenda innan jarðarinnar Óttarsstaða í Hafnarfirði, aðallega 450,181 hektarar að stærð en til vara 247,2814 hektarar, sem nánar eru tilgreindir með hnitasetningu. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess hver fyrir sitt leyti að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjendum gert í sameiningu að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt yfirlýsingu áfrýjenda 14. nóvember 2008 eiga þau í óskiptri sameign jörðina Óttarsstaði í Hafnarfirði, sem greind er í tvær hálflendur, Óttarsstaði I, sem tilheyrir áfrýjendunum Straumsbúinu sf., Sigurði B. Markússyni og Íslenskum aðalverktökum hf., og Óttarsstaði II, sem aðrir áfrýjendur eiga, allt í nánar tilteknum hlutföllum. Eftir mælingum stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar mun land innan merkja Óttarsstaða vera samtals 1.360 hektarar, en samkvæmt gögnum málsins hefur verið skipt úr því níu spildum í eigu annarra en áfrýjenda og eru þær samtals 6,0186 hektarar að stærð.
Stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður gerði 28. júní 1966 samning við stefnda Alcan á Íslandi hf., sem þá hét Íslenska álfélagið hf., um leigu á 370.000 m2 lóð undir álbræðslu. Lóðin nær ásamt hafnarsvæði að austanverðri Straumsvík, en vestan víkurinnar mun vera land Straums, sem austurmörk Óttarsstaða liggja að. Áður hafði stefndi íslenska ríkið gert samning 28. mars 1966 við stefnda Alcan Holdings Switzerland Ltd., sem þá hét Swiss Aluminium Ltd., um ýmis atriði í tengslum við byggingu álbræðslu við Straumsvík og rekstur hennar, sem Íslenska álfélagið hf., nefnt ISAL í samningnum, hefði á hendi, en um hann voru sett lög nr. 76/1966 um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík. Í 12. gr. hans sagði meðal annars eftirfarandi: „ISAL skal bera fulla ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýzt af gastegundum og reyk frá bræðslunni, utan við svæði með ummáli reiknuðu frá miðju bræðslukerjasalarins í fyrsta áfanga bræðslunnar ... ISAL tekst á hendur fulla ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýzt af gastegundum og reyk frá bræðslunni innan slíks svæðis, á eignum eða öðrum hagsmunum manna, sem nú búa þar eða eiga þar eignir, svo og gagnvart þeim, sem síðar kunna að öðlast framsal frá þeim, að svo miklu leyti sem um er að ræða núverandi afnot þess eða afnot í framtíðinni, önnur en búskap og garðyrkju. Aðrir þeir, sem héðan í frá taka sér bólfestu innan ofannefnds svæðis eða eignast þar eignir, taka með því á sig áhættu á hvers konar tjóni að því er varðar búskap og garðyrkju, er hlýzt af gastegundum eða reyk frá bræðslunni, og ISAL skal ekki bera ábyrgð á því.“ Landið, sem þetta ákvæði tók til, mun vera 1.835 hektarar að flatarmáli og hafa kallast svæði takmarkaðrar ábyrgðar, en það var afmarkað á uppdrætti á fylgiskjali með samningnum. Samkvæmt mælingum stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar falla 452,4 hektarar af landi innan merkja Óttarsstaða undir þetta svæði og eru þar meðtaldar fyrrnefndar níu landspildur í eigu annarra en áfrýjenda.
Umhverfisráðherra veitti Íslenska álfélaginu hf. starfsleyfi 7. nóvember 1995 til tíu ára á grundvelli laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og mengunarvarnarreglugerðar nr. 48/1994. Í starfsleyfinu sagði meðal annars: „Þynningarsvæði ISAL vegna loftmengunar, sbr. 30. gr. mengunarvarnarreglugerðar nr. 48/1994 er sett til bráðabirgða í samræmi við niðurstöður dreifingarspár fyrir heildarflúoríð nánar tilgreint á uppdrætti í fylgiskjali. Mörk þynningarsvæðis skal endurskoða að loknum mengunarmælingum og dreifiútreikningum sem fram skulu fara á öðru ári eftir að framleiðsla er hafin í 170.000 tonna áfanga stækkunar.“ Uppdráttur, sem þar var vísað til, liggur ekki fyrir í málinu, en í 2. gr. reglugerðar nr. 48/1994 var orðið þynningarsvæði skilgreint þannig að það væri „sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og eftirlitsaðilar með reglugerð þessari samþykkja, að mengun megi vera yfir viðmiðunarmörkum.“ Starfsleyfi var aftur veitt fyrir álver stefnda Alcan á Íslandi hf. af umhverfisstofnun 7. nóvember 2005 og gildir það til 1. nóvember 2020. Í starfsleyfinu, sem gefið var út eftir lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, segir meðal annars eftirfarandi: „Þynningarsvæði, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði, fylgi gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 varðandi brennisteinsdíoxíð og svifryk. Svæði takmarkaðrar ábyrgðar gildir varðandi flúoríð, sbr. ákvæði 12. greinar í Aðalsamningi, sem staðfestur var með lögum nr. 76/1966, um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., um álbræðslu við Straumsvík.“ Í aðalskipulagi stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem vísað var til í síðarnefnda leyfinu, var þynningarsvæðið afmarkað á uppdráttum, en í skýringum með skipulaginu sagði meðal annars um þetta svæði: „Í samningum um álverið í Straumsvík er kveðið á um að innan ákveðins radíusar frá verksmiðjunni beri ÍSAL ekki ábyrgð á hugsanlegu tjóni af völdum mengunar. Mælingar 1989 og 1990 benda eindregið til að engin hætta stafi af mengun á svæðum sem eru ætluð sem íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Starfsleyfi fyrir rekstur álvers með 170.000 tonna ársframleiðslu er nú, í ársbyrjun 1997, til umfjöllunar á vegum umhverfisráðuneytis. Þar til mælt hefur verið raunverulegt mengunarálag á öðru ári rekstrar hefur Hollustuvernd ríkisins sett bráðabirgðamörk þynningarsvæðis áætlaðrar loftmengunar eða loftkennds flúors 0,3 míkrógrömm á m3. Hámark leyfilegrar mengunar samkvæmt heilbrigðisreglugerð er 0,4 mgr./m3. Á mynd 3.9 má sjá áætlaða loftmengun skv. mati á umhverfisáhrifum og fyrrnefnd mörk þynningarsvæðis. Innan marka þessara er t.d. ekki gert ráð fyrir búsetu eða landbúnaði neins konar. Á þynningarsvæðinu verða m.a. takmarkanir á framleiðslu matvæla og munu ákvæði þar að lútandi vera í undirbúningi hjá Hollustuvernd ríkisins. Deiliskipulag og byggingarleyfi á þessu svæði verða háð þessum ákvæðum.“ Í skýringum við núgildandi aðalskipulag stefnda Hafnarfjarðarbæjar, sem tekur til áranna 2005 til 2025, segir meðal annars eftirfarandi: „Hafnarfjarðarbær hefur ákveðið að sýna „núverandi“ þynningarsvæði fyrir álverið í Straumsvík áfram eins og það var birt sem bráðabirgðaþynningarsvæði á gildandi aðalskipulagsuppdrætti samkvæmt afmörkun Hollustuverndar 1997. Þetta þynningarsvæði á eingöngu við það framleiðslumagn og mengunarvarnir sem nú er fyrir hendi í álverinu í Straumsvík.“ Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort rætt hafi verið um þynningarsvæði í eldri heimildum fyrir starfrækslu álbræðslu stefnda Alcan á Íslandi hf. eða í aðalskipulagi stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna fyrri tímabila en að framan greinir. Samkvæmt mælingum stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar er heildarstærð þessa þynningarsvæðis 966 hektarar og eru þar af 253,3 hektarar innan merkja Óttarsstaða. Þessi hluti jarðarinnar mun jafnframt vera innan áðurnefnds svæðis takmarkaðrar ábyrgðar, sem um ræddi í 12. gr. samningsins frá 28. mars 1966, að frátöldum 3,829 hekturum.
Áfrýjendur kveða eigendur Óttarsstaða hvorki hafa samþykkt né samráð verið haft við þá um gerð samningsins frá 28. mars 1966 um álbræðsluna í Straumsvík eða afmörkun á þynningarsvæði, sem var sýnt á sama veg í aðalskipulagi Hafnarfjarðar fyrir árabilið 1995 til 2015 og í núgildandi skipulagi fyrir árin 2005 til 2025. Þessum ráðstöfunum hafi fylgt skerðing á eignarréttindum áfrýjenda, enda sé lagt bann við því í 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. fylgiskjal I með lögum nr. 7/1998, að íbúðarhúsnæði sé á þynningarsvæði, sem fylgir álverksmiðjum. Af þessum sökum fari áfrýjendur á mis við að nýta hluta af landi Óttarsstaða undir slíka byggð og sé það þeim til tjóns. Í samræmi við dóm Hæstaréttar 6. febrúar 2009 í máli nr. 2/2009, þar sem að hluta var felldur úr gildi úrskurður héraðsdóms 3. desember 2008 um frávísun málsins frá dómi, krefjast áfrýjendur þess nú að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu við sig af þessum sökum. Í aðalkröfu leggja áfrýjendur til grundvallar að í þessu tilliti sé spillt fyrir þeim öllu landi Óttarsstaða, sem eigi undir svokallað svæði takmarkaðrar ábyrgðar, 452,4 hekturum, að viðbættum 3,8 hekturum, sem séu utan þess svæðis en innan þynningarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar, og að frádregnum áðurnefndum níu spildum úr jörðinni, sem aðrir eigi og eru að flatarmáli samtals 6,019 hektarar, en alls gera þetta 450,181 hektara. Í varakröfu er á hinn bóginn miðað við að 253,3 hektarar úr landi Óttarsstaða falli innan fyrrnefnds þynningarsvæðis, en frá dragist 6,0186 hektarar, sem tilheyri öðrum, og verði áfrýjendur þannig fyrir tjóni vegna samtals 247,2814 hektara. Í málinu er ekki ágreiningur um flatarmál lands, sem þessar dómkröfur áfrýjenda taka til.
II
Í samningi stefnda íslenska ríkisins 28. mars 1966 við stefnda Alcan Holdings Switzerland Ltd. var sem fyrr segir mælt fyrir um að skaðabótaábyrgð stefnda Alcan á Íslandi hf. vegna tjóns af gastegundum og reyk, sem stöfuðu frá álbræðslu þess síðastnefnda, yrði háð takmörkunum á nánar tilteknu landsvæði, sem alls mun vera 1.835 hektarar að stærð. Með samningnum, sem lög nr. 76/1966 voru sett um, voru ekki lagðar kvaðir á notkun lands innan þessa svæðis, sem kennt hefur verið við hina takmörkuðu ábyrgð, aðrar en þær að menn, sem síðar tækju þar upp búskap eða garðyrkju, gætu ekki krafið stefnda Alcan á Íslandi hf. um skaðabætur vegna tjóns, sem þeir kynnu að bíða í slíkri starfsemi af völdum loftmengunar frá álbræðslunni. Áfrýjendur hafa ekki borið því við að þessi takmörkun á skaðabótaábyrgð hafi ein og sér orðið þeim til tjóns. Af gögnum málsins verður ekki séð að ákvæði um loftmengun í starfsheimildum fyrir álbræðslu stefnda Alcan á Íslandi hf. við Straumsvík hafi sérstaklega verið tengd við svæði takmarkaðrar ábyrgðar ef frá er talið áðurnefnt starfsleyfi, sem umhverfisstofnun gaf út 7. nóvember 2005, en þar sagði meðal annars í sérstökum lið um „þynningarsvæði vegna loftmengunar“ að „svæði takmarkaðrar ábyrgðar gildir varðandi flúoríð“. Þrátt fyrir þetta verður að gæta að því að í aðalskipulagi stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir tímabilið 2005 til 2025, sem staðfest var af umhverfisráðherra 18. maí 2007, hefur greinilega verið gengið út frá því að þessi ummæli í starfsleyfinu snúi ekki að þynningarsvæði í skilningi 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002, enda var þá þegar komin til nokkur íbúðarbyggð innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar við gildistöku skipulagsins og jafnframt var gert þar ráð fyrir talsverðri aukningu hennar. Að þessu virtu eru ekki efni til að líta svo á að afmörkun á svæði takmarkaðrar ábyrgðar innan merkja Óttarsstaða standi því í vegi að stefndi Hafnarfjarðarkaupstaður gæti ákveðið í skipulagi að þar rísi íbúðarhúsnæði eða að afmörkunin skerði á annan hátt heimildir áfrýjenda til nota af landinu, enda hafa þau ekki borið við að þau hefðu hug á að ráðstafa því til búskapar eða garðyrkju. Þegar af þessum ástæðum getur krafa áfrýjenda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefndu ekki tekið til alls svæðisins, sem greinir í aðalkröfu þeirra.
Þynningarsvæði vegna álbræðslu stefnda Alcan á Íslandi hf. í Straumsvík er sem áður segir sýnt í aðalskipulagi stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar og mun það ná yfir samtals 966 hektara, þar af 253,3 hektara í landi áfrýjenda. Í málinu liggur ekki annað fyrir um hvernig ákvörðun hafi verið tekin um afmörkun þessa svæðis en það, sem getið er í áðurgreindum skýringum með aðalskipulagi. Þar kom fram að Hollustuvernd ríkisins hafi fyrir gildistöku aðalskipulags vegna áranna 1995 til 2015 ákveðið bráðabirgðamörk þynningarsvæðisins á þennan hátt og þessi mörk verið tekin upp óbreytt í núgildandi aðalskipulagi fyrir tímabilið frá 2005 til 2025. Þótt að öðru leyti sé ekkert fram komið í málinu um hvort loftmengun af þessari starfsemi stefnda Alcan á Íslandi hf. sé í reynd slík að hætta geti stafað af henni innan þessa svæðis verður að líta til þess að með áðurnefndri 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002, sbr. fylgiskjal I með lögum nr. 7/1998, er lagt bann við því að íbúðarhúsnæði sé á þynningarsvæði atvinnurekstrar við álframleiðslu. Að auki var í skýringum við aðalskipulag stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir árin 1995 til 2015 tekið fram að á þynningarsvæðinu væri ekki gert ráð fyrir búsetu eða neins konar landbúnaði, auk þess sem takmarkanir yrðu þar á framleiðslu matvæla, og yrði deiliskipulag og byggingarleyfi háð þessum ákvæðum. Í þessu aðalskipulagi var land Óttarsstaða, sem átti undir þynningarsvæðið, skilgreint að hluta sem svæði á náttúruminjaskrá og að hluta sem iðnaðarsvæði, sem að nokkru væri frestað að skipuleggja, en annars var það fellt undir svokölluð „opin svæði / almenn græn svæði“. Í aðalskipulagi sama stefnda fyrir tímabilið 2005 til 2025 var land Óttarsstaða innan þynningarsvæðisins að hluta talið náttúruverndarsvæði, að hluta var það ætlað undir blandaða notkun fyrir iðnað og þjónustustofnanir og að nokkru var það skilgreint sem opið svæði, en að stærstum hluta var skipulagi þar frestað, þar sem til athugunar væri að leggja landið undir hafnarstarfsemi. Til slíkrar frestunar á skipulagi stendur heimild í 20. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda sé ákvörðun um frestun skipulags tímabundin. Að því verður að gæta að samkvæmt 16. gr. sömu laga ber sveitarfélagi að gera aðalskipulag um notkun lands innan marka sinna. Þótt sveitarfélagi sé í þessum efnum skylt að leita eftir föngum sjónarmiða og tillagna þeirra, sem hagsmuna eiga að gæta, sbr. 4. mgr. 16. gr. og 4. mgr. 9. gr. laganna, er það ekki bundið af afstöðu þeirra til væntanlegra landnota. Á hinn bóginn er þeim, sem verður fyrir tjóni af því að verðmæti fasteignar lækki vegna gildistöku skipulags, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því, sem áður var heimilt, eða hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, áskilinn réttur í 33. gr. skipulags- og byggingarlaga til skaðabóta úr hendi sveitarfélagsins eða til að krefjast að það leysi eignina til sín. Samkvæmt gögnum málsins hefur land innan merkja Óttarsstaða, sem fellur undir þynningarsvæði vegna álbræðslu stefnda Alcan á Íslandi hf., aldrei á fyrri stigum verið afmarkað í aðalskipulagi sem byggingarland fyrir íbúðarhúsnæði eða til afnota við aðra starfsemi, sem nú yrði útilokuð vegna þynningarsvæðisins. Áfrýjendur hafa heldur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að verðmæti þessa lands, að því leyti sem það hefur verið eða kann í framtíðinni að vera skipulagt fyrir iðnað, þjónustustofnanir og hafnarstarfsemi, yrði minna en ef nýta mætti það undir íbúðarbyggð, landbúnað eða matvælaframleiðslu, en ekki stoðar þeim að bera því við að slíkt sé alkunnugt í skilningi 3. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu öllu virtu hafa áfrýjendur ekki sýnt fram á að það hafi þegar orðið þeim til tjóns að ákvæði 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002 og aðalskipulag stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar komi í veg fyrir að sá hluti lands Óttarsstaða, sem hér um ræðir, verði að öðru óbreyttu nýttur á þann hátt, sem að framan greinir. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefndu af kröfum áfrýjenda.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2009.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 16. október 2009 var höfðað 25. júní 2008. Stefnendur eru Straumsbúið sf., Straumi, Hafnarfirði, Sigurður B. Markússon, Óðinsgötu 32b, Reykjavík, Íslenskir aðalverktakar hf., Höfðabakka 9, Reykjavík, Sína Þorleif Þórðardóttir, Hjallahlíð 31, Mosfellsbæ, Leifur Sörensen, Smyrlahrauni 20, Hafnarfirði, Gréta Elín Sörensen, Bragagötu 30, Reykjavík og Birgir Sörensen, Kirkjuteigi 18, Reykjavík. Stefndu eru Alcan á Íslandi hf., Straumsvík, Hafnarfirði, Alcan Holdings Switzerland Ltd., Max Högger-Strasse 6, Zürich, Sviss, íslenska ríkið, en iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra og umhverfisráðherra er stefnt fyrir hönd þess, og Hafnarfjarðarkaupstaður, Strandgötu 6, Hafnarfirði.
Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að viðurkennt verði með dómi að stefndu séu hver um sig skaðbótaskyldir gagnvart stefnendum vegna þeirrar skerðingar á verðmæti 450,181 hektara lands stefnenda í jörðinni Óttarsstaðir, sem starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík hefur í för með sér, en landið er afmarkað með eftirfarandi hnitum:
|
X= |
Y= |
|
349190,569 |
397357,851 (punktur 19 á korti, dómskjal 27) |
|
349383,098 |
396140,046 (punktur 3 á korti) |
|
351214,421 |
393104,581 (punktur 2 á korti) |
|
351716,230 |
393407,327 (punktur 1 á korti) |
|
351167,160 |
394537,040 (punktur 11 á korti) |
|
350792,370 |
395517,360 (punktur 10 á korti) |
|
350638,670 |
396253,270 (punktur 9 á korti) |
|
350845,250 |
396762,400 (punktur 8 á korti) |
|
350894,980 |
396911,650 (punktur 7 á korti) |
|
350961,840 |
397339,530 (punktur 6 á korti) |
|
|
(alls: 452,4 ha.) |
Við landsvæðið innan ofangreindra hnita bætist 3,8 hektara svæði við vesturmörk ofangreinds svæðis, sem fellur innan svokallaðs þynningarsvæðis en utan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og afmarkast af punktunum:
|
X= |
Y= |
|
349383,098 |
396140,046 (punktur 3 á korti) |
|
349453,000 |
395726,293 (punktur 5 á korti) |
og skurðarpunkti svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis.
Frá landinu innan ofangreindra hnita dragast eftirfarandi landspildur samtals 60.186 m2 eða 6,0186 hektarar að stærð, sem ekki eru í eigu stefnenda:
- Sumarbústaðaland.
Lóðarauðkenni: 9998-5300
Landnúmer 123117
Stærð: 2816 m2
- Ræktunarland.
Lóðarauðkenni: 9999-5140
Landnúmer 123173
Stærð: 6370 m2
- Ræktunarland.
Lóðarauðkenni: 9999-5130
Landnúmer 123172
Stærð: 1460 m2
- Óttarsstaðagerði.
Lóðarauðkenni: 9998-5800
Landnúmer 123121
Stærð: 10.000 m2
- Landspilda við sjó.
Lóðarauðkenni: 9999-5150
Landnúmer 123174
Stærð: 900 m2
- Ræktunarland.
Lóðarauðkenni: 9999-5120
Landnúmer 123171
Stærð: 4910 m2
- Land Bryngerðar Bryngeirsdóttur.
Lóðarauðkenni: 9998-5100
Landnúmer 123115
Stærð: 1360 m2
- Óttarsstaðir III.
Lóðarauðkenni: 9999-5110
Landnúmer 123170
Stærð: 6370 m2
- Óttarsstaðir eystri.
Lóðarauðkenni: 9999-2100
Landnúmer 123169
Stærð: 2,6 ha.
Stefnendur gera þær dómkröfur til vara að viðurkennt verði með dómi að stefndu séu hver um sig skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna þeirrar skerðingar á verðmæti 247,2814 hektara lands stefnenda í jörðinni Óttarsstaðir, sem starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík hefur í för með sér en landið er afmarkað með eftirfarandi hnitum:
|
X= |
Y= |
|
349190,569 |
397357,851 (punktur 19 á korti, dskj.27) |
|
349453,000 |
3957263293 (punktur 5 á korti) |
|
350766,851 |
395639,545 (punktur 4 á korti) |
|
350638,670 |
396253,270 (punktur 9 á korti) |
|
350845,250 |
396762,400(punktur 8 á korti) |
|
350894,980 |
396911,650 (punktur 7 á korti) |
|
350961,840 |
397339,530 (punktur 6 á korti) |
|
|
(alls: 253,3 ha.) |
Frá landinu innan hnita þessara dragast sömu 9 landspildur og í aðalkröfu, samtals 60.186 m2 eða 6,0186 hektarar að stærð, sem ekki eru í eigu stefnenda.
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi hvers hinna stefndu um sig að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Dómkröfur allra stefndu eru að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnenda og að stefnendum verði gert að greiða þeim málskostnað.
II
Hinn 28. mars 1966 rituðu ríkisstjórn Íslands og Swiss Aluminium Limited (Alusuisse), síðar Alcan Holdings Switzerland Ltd. undir samning (aðalsamning), þar sem dótturfélag Alusuisse, Íslenska álfélagið, þá ISAL, nú Alcan á Íslandi hf., tók að sér byggingu og rekstur álbræðslu í Straumsvík í Hafnarfirði. Samhliða gerð samnings þessa gerðu annars vegar Landsvirkjun og ISAL og hins vegar Hafnarfjarðarkaupstaður og ISAL með sér samninga, (rafmagnssamning og hafnar- og lóðarsamning). Með samningunum var samið um ýmis atriði sem við komu rekstri álvers á Íslandi. Í aðalsamningi var samið um flest þau atriði sem helst voru talin skipta máli varðandi byggingu og rekstur álversins, s.s. um byggingartíma, afköst og umfang starfseminnar, öryggi í rekstri, tolla- og gjaldeyrismál, starfslið hennar, innlend viðskipti o.fl. Með samningnum var sérstaklega samið um að ISAL myndi grípa til allra eðlilegra ráðstafana til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri álversins auk þess sem ISAL skuldbatt sig til að byggja, útbúa og reka álverið og halda því við í samræmi við lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti og skyldi álverið í þessum efnum vera háð eftirliti viðeigandi opinberra stofnana.
Í aðalsamningi, grein 12.01, var ISAL veitt ákveðin undanþága frá ábyrgð á tjóni sem hlytist af gastegundum og reyk frá álverinu innan svæðis svokallaðrar takmarkaðrar ábyrgðar eins og það var nánar skilgreint í ákvæðinu og fylgiskjali C með hafnar- og lóðarsamningi. Í rafmagnssamningi var samið um afhendingu og sölu á rafmagni frá Landsvirkjun til ISAL og með hafnar- og lóðarsamningi var ISAL látin í té lóð undir álverið í Straumsvík í landi Hafnarfjarðarkaupstaðar og hafnaraðstaða í víkinni. Samhliða þessu var ritað undir svonefnda aðstoðarsamninga milli ISAL og Alusuisse þar sem ISAL var tryggð tæknileg, viðskiptaleg og stjórnarleg aðstoð af hálfu Alusuisse við byggingu og rekstur álbræðslunnar. Að lokum var ritað undir samninga um framkvæmdatryggingu milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse þar sem Alusuisse lagði fram sérstaka tryggingu fyrir því að fyrsti áfangi álversins yrði byggður á réttum tíma. Einnig voru stofnskrá og samþykktir ISAL samþykktar á þessum tíma og gerðar að fylgiskjölum með aðalsamningi.
Aðalsamningi var veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 76/1966 um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu í Straumsvík. Framleiðsla hófst í álverinu á árinu 1969 en álverið var formlega vígt á árinu 1970. Frá þeim tíma hafa sex viðaukasamningar verið gerðir við aðalsamninginn, sem allir hafa hlotið lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 19/1970, nr. 42/1976, nr. 104/1984, nr. 111/1985, nr. 155/1995 og nr. 112/2007.
Núgildandi starfsleyfi stefnda, Alcan á Íslandi hf., var gefið út af umhverfisráðherra 7. nóvember 2005 og gildir það til 1. nóvember 2020. Í starfsleyfinu, sem gefið var út á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, segir meðal annars að þynningarsvæði, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði, fylgi gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 varðandi brennisteinsdíoxíð og svifryk. Svæði takmarkaðrar ábyrgðar gildi varðandi flúoríð, sbr. ákvæði 12. greinar í aðalsamningi.
Stefnendur kveða eign sína í jörðinni Óttarsstöðum í Hafnarfirði vera í óskiptri sameign þótt hún sé greind í tvær hálflendur, Óttarsstaði I, sem tilheyri stefnendunum Straumsbúinu sf., Sigurði B. Markússyni og Íslenskum aðalverktökum hf., og Óttarsstaði II, sem aðrir stefnendur eigi í nánar tilteknum hlutföllum. Samkvæmt gögnum málsins er land innan merkja Óttarsstaða talið samtals 1.360 hektarar að stærð. Kveða stefnendur að níu spildum, samtals 6,0186 hektarar að stærð, hafi verið skipt úr landi jarðarinnar og séu þær í eigu annarra.
Þá kveða stefnendur að elstu heimildir um jörðina Óttarsstaði séu frá 1379. Hafi hún, að minnsta kosti að hluta, komist í eigu Viðeyjarklausturs 9. september 1457. Um miðja 16. öld hafi jörðin komist í konungseign. Óttarsstaðir hafi verið seldir úr konungseign 28. ágúst 1839 og verið í einkaeign síðan. Kveða stefnendur að jörðin Óttarsstaðir II hafi verið óslitið í eigu sömu fjölskyldunnar í tæpa öld og hafi eigendaskipti orðið fyrir arf og skipti. Óttarsstaðir I hafi hins vegar komist í eigu núverandi eigenda árin 1974 og 1999.
Stefnendur kveðast hafa áformað að taka land sitt til eðlilegra afnota og hagnýtingar sem byggingarland eftir því sem íbúðabyggð í Hafnarfirði hafi þróast í átt að Straumsvík og landi Óttarsstaða. Hafi þeim orðið ljóst eftir viðræður við stjórnvöld í Hafnarfirði að þeir fengju ekki að nota landið í þeim tilgangi. Með samningi stefnda, íslenska ríkisins, við stefnda, Alcan á Íslandi hf., og með samþykki stefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, hafi verið komið í veg fyrir að landið yrði nothæft til íbúðabyggðar. Hafi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði synjað stefnendum um byggingarleyfi á jörðinni.
Lögmaður stefnenda óskaði með bréfi 5. júlí 2005 eftir viðræðum við stefnda, Alcan á Íslandi hf., um hugsanleg kaup hans á landi stefnenda. Þá sendi lögmaður stefnenda iðnaðarráðherra bréf 29. nóvember 2005 og benti meðal annars á að eigendur Óttarsstaða hygðust skipuleggja íbúðabyggð á landinu og krafðist þess að stefndi, íslenska, ríkið léti stöðva rekstur álverksmiðjunnar í Straumsvík eða að minnsta kosti þann þátt starfseminnar sem ylli mengun á landi stefnenda. Var stefndu, Alcan á Íslandi hf. og Hafnarfjarðarkaupstað, sent afrit bréfsins daginn eftir. Þá ritaði lögmaður stefnenda umhverfisráðherra bréf 13. janúar 2006 og gerði grein fyrir því að svo virtist sem lögð hefði verið kvöð á land Óttarsstaða og að sú kvöð væri hvorki samkvæmt samningi við eigendur jarðarinnar né hefði stefndi, íslenska ríkið, keypt landið eða tekið það eignarnámi. Sama dag sendi lögmaður stefnenda iðnaðarráðherra bréf og vakti athygli á að svar hefði ekki borist við bréfinu frá 29. nóvember 2005 auk þess sem hann sendi honum afrit af bréfi sínu til umhverfisráðherra.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið ritaði lögmanni stefnenda bréf 13. febrúar 2006 þar sem því var lýst að ekki væri unnt að verða við kröfum stefnenda um að stöðva rekstur álverksmiðjunnar í Straumsvík og hann teldi að hugsanlegum bótakröfum vegna verksmiðjunnar skyldi beina að fyrirtækinu en ekki íslenskum stjórnvöldum. Lögmaður stefnenda ritaði stefnda, Alcan á Íslandi hf., bréf hinn 3. mars 2006 þar sem afrit af bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins frá 13. febrúar 2006 var meðfylgjandi. Var óskað eftir afstöðu stefnda, Alcan á Íslandi hf., til hugsanlegra kaupa á landinu. Stefndi, Alcan á Íslandi hf., ritaði lögmanni stefnenda bréf 24. mars 2006 þar sem kröfum stefnenda var hafnað að svo stöddu. Eftir ítrekun með bréfi lögmanns stefnenda 14. nóvember 2006 var kröfum stefnenda endanlega hafnað með bréfi stefnda, Alcan á Íslandi hf., 14. desember 2006.
Hinn 27. mars 2007 var þingfest mál stefnenda á hendur stefndu í þessu máli að undanskildu móðurfélaginu Alcan Holdings, þar sem þess var meðal annars krafist að óheimilt væri án samþykkis stefnenda að reka álbræðslu þannig að frá starfseminni stöfuðu gastegundir og reykur sem mengaði loft, vatn og/eða land á jörð stefnenda að Óttarsstöðum. Þá var krafist viðurkenningar á því að sú takmörkun sem fælist í 12. gr. aðalsamnings milli íslenska ríkisins og Alusuisse á ábyrgð Alcan á tjóni innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar í landi Óttarsstaða væri ólögmæt og ógild gangvart stefnendum. Þá var þess samhliða krafist að stefndu væru skyldir til að kaupa af stefnendum eða greiða þeim skaðabætur fyrir andvirði landsins sem takmörkuð væru afnot af. Þá var þess krafist að stefndu væru hver fyrir sig skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna þeirrar skerðingar á notum landsins sem rekja mætti til álbræðslunnar á tímabilinu frá 1. apríl 1997 til dómsuppsögudags. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 23. október 2007, var málinu vísað frá dómi og með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 5. desember 2007, var sá úrskurður staðfestur.
Í máli þessu kröfðust stefnendur þess í upphafi að viðurkennt væri með dómi að stefndu væri gert skylt að kaupa nánar til greindan eignarhluta úr landi stefnenda í jörðinni Óttarsstaðir, til vara að viðurkennt væri með dómi að stefndu væru skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna skerðingar á verðmæti nánar til greinds eignarhluta stefnenda í landinu. Þá var þess krafist í öllum tilfellum að viðurkennt væri með dómi að stefndu væru skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna tjóns sem starfsemin í Straumsvík hafi valdið stefnendum frá 1. júlí 1998 til dómsuppkvaðningardags vegna skerðingar á nýtingarmöguleikum þeirra á nánar til greindum eignarhlut stefnenda í Óttarsstaðalandinu. Stefndu kröfðust þess aðallega að máli þessu væri vísað frá dómi. Með úrskurði 3. desember 2008 var fallist á frávísunarkröfur stefndu. Með dómi Hæstaréttar 6. febrúar 2009 var sá úrskurður felldur úr gildi að hluta og hafa stefnendur lagfært dómkröfur sínar í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar.
III
Stefnendur kveða stefndu hvorki hafa óskað eftir né hafa fengið heimild stefnenda til hagnýtingar eða skerðingar á notum jarðarinnar Óttarsstaða. Virðist stefndi, íslenska ríkið, hafa heimilað stefnda, Alcan á Íslandi hf., að haga starfsemi sinni þannig að hún mengi loft, jörð og/eða vatn á 452,4 hektara svæði, svokölluðu svæði takmarkaðrar ábyrgðar, innan marka Óttarsstaða, án þess þó að afla heimildar landeigenda og án þess að bera ábyrgð á því tjóni sem menguninni fylgi innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar. Þá hafi stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjaðarkaupstaður, ennfremur heimilað stefnda, Alcan á Íslandi hf., að menga land innan svonefnds þynningarsvæðis, en það sé í heild 969 hektarar og þar af séu 253,3 hektarar innan marka lands Óttarsstaða og sé það svæði allt að undanskildum 3,8 hekturum innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar í Óttarsstaðalandi. Stefndi, íslenska ríkið, hafi heimilað þessa mengun í samningum við eiganda álbræðslunnar og í starfsleyfi til verksmiðjunnar og hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, heimilað hana með lóðarleigusamningi og samkvæmt skipulagi fyrir svæðið.
Hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, hagsmuna að gæta af starfsemi stefnda, Alcan á Íslandi hf., Jörðin Óttarsstaðir sé innan lögsagnarumdæmis stefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem fari með skipulagsvald á svæðinu og hafi hann meðal annars með skipulagsvaldi sínu komið í veg fyrir að stefnendur geti hagnýtt landið með eðlilegum hætti, en óumdeilt sé að eðlileg þróun íbúðabyggðar á þessum slóðum væri vestur með ströndinni, meðal annars í umræddu landi Óttarsstaða. Hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, samið við eiganda álbræðslunnar um starfsemina, meðal annars um mengunarsvæðið, og þar með tekist á hendur ábyrgð gagnvart honum þess efnis að honum sé heimilt að nota land stefnenda með framangreindum hætti. Þá beri stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, einnig ábyrgð gagnvart stefnendum sem eigandi landsins, þar sem álbræðslan sé rekin með leyfi stefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda.
Stefnendur kveða jörðina Óttarsstaði II hafa verið óslitið í eigu sömu fjölskyldunnar í tæpa öld og hafi eigendaskipti orðið fyrir arf og skipti. Óttarsstaðir I hafi hins vegar komist í eigu núverandi eigenda árið 1974 og 1999. Álbræðslan í Straumsvík hafi hafið starfsemi sína í smáum stíl árið 1969. Hafi stefndu ekki aðra og betri réttarstöðu gagnvart eigendum Óttarsstaða I en eigendum Óttarsstaða II vegna þess að hinir fyrrnefndu hafi eignast hlutdeild í jörðinni eftir að álbræðslan hóf starfsemi sína. Þeir hafi eignast hlutdeild sína í jörðinni með öllum gögnum, gæðum og réttindum og engin réttindi verið undanskilin. Í yfirfærslugerningum sé ekki að finna neinar takmarkanir á þeim réttindum sem tilheyrt hafi afsalsgjöfum. Því hafi núverandi eigendur eignast allan þann rétt sem forverar þeirra hafi átt yfir landinu.
Stefnendur hafi ætlað sér að taka land sitt til eðlilegra afnota og hagnýtingar sem byggingarland eftir því sem íbúðabyggð í Hafnarfirði þróaðist í átt að Straumsvík og landi Óttarsstaða. Hafi þeim orðið ljóst af viðræðum við stjórnvöld í Hafnarfirði að þeir fengju ekki að nota landið í þeim tilgangi. Hafi einn stefnenda sótt nokkrum sinnum um byggingarleyfi á jörðinni en byggingar- og skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafi synjað um slíkt leyfi.
Hafi stefndi, Alcan á Íslandi hf., fengið heimild stefndu, íslenska ríkisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar, til að haga starfsemi sinni við álbræðslu þannig, að loft, jörð og/eða vatn, á 452,4 hektara svæði takmarkaðrar ábyrgðar innan merkja jarðarinnar og síðar 456,2 hektara svæði takmarkaðrar ábyrgðar að viðbættu 3,8 hektara þynningarsvæði utan fyrrnefnda svæðisins úr landi jarðarinnar, hafi verið mengað með eitruðum lofttegundum frá álbræðslunni. Þessi mengun útiloki að hægt sé að nota landið í fyrrgreindum tilgangi.
Með lögum nr. 76/1966 hafi samningur milli ríkistjórnarinnar og Swiss Aluminum Ltd., nú Alcan Holdings Switzerland Ltd., verið staðfestur og samkvæmt 12. gr. þess samnings sé fjallað um mengun og mengunaráhrif og segi þar meðal annars að ISAL, nú Alcan á Íslandi, skuli bera fulla ábyrgð á tjóni sem hljótist af gastegundum og reyk frá bræðslunni á eignum eða öðrum hagsmunum manna sem þar búi eða eigi eignir svo og gangvart þeim sem síðar kunni að öðlast framsal frá þeim, að svo miklu leyti sem um sé að ræða núverandi afnot þess eða afnot í framtíðinni önnur en búskap og garðyrkju. Að mati stefnenda sé ljóst að samkvæmt 1. gr. laga nr. 76/1966 hafi aðeins aðalsamningurinn öðlast lagagildi en ekki fylgiskjölin með honum.
Um skilgreiningu á hugtakinu mengun vísist til 5. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og gr. 3.9 í reglugerð nr. 787/1999 um loftgæði. Í lagaákvæðinu sé mengun skilgreind þannig, að með henni sé átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valdi óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun taki einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
Auk svæðis takmarkaðrar ábyrgðar hafi umhverfisstjórnvöld ákvarðað svonefnt þynningarsvæði álbræðslunnar vegna loftmengunar. Í starfsleyfi ISAL, útgefnu af umhverfisráðuneytinu 7. nóvember 1995, sem miði við framleiðslu á allt að 200.000 tonnum af áli, sé um þynningarsvæði verksmiðjunnar vísað til 30. gr. mengunarreglugerðar nr. 48/1994 og sé þynningarsvæðið samkvæmt leyfinu sett til bráðabirgða í samræmi við niðurstöður dreifingarspár fyrir heildarflúoríð og vísað til fylgiskjals með leyfinu. Í starfsleyfi, útgefnu af Umhverfisstofnun 7. nóvember 2005, fyrir framleiðslu á allt að 460.000 tonnum af áli, sé þynningarsvæði varðandi brennisteinsdíoxíð og svifryk, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði, sagt fylgja gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015. Útlínur þynningarsvæðis muni vera ákvarðaðar með það fyrir augum að loftmengun fari ekki yfir umhverfismörk utan þess. Þynningarsvæðið sé samtals 969 hektarar að stærð, en þar af séu 253,3 hektarar innan marka jarðarinnar Óttarsstaða. Tekið sé fram í starfsleyfinu, að svæði takmarkaðrar ábyrgðar gildi um flúoríð. Þynningarsvæðið sé að mestu innan marka takmarkaðrar ábyrgðar, en þó ekki að öllu leyti. Á þynningarsvæðinu sé fortakslaust bann við íbúðabyggð, sbr. 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti.
Við stefnendur hafi ekkert samráð verið haft né leitað leyfis þeirra við gerð samninga um takmörkun ábyrgðar eða afmörkun þynningarsvæðis með þeim eignaskerðingum, sem þeim ráðstöfunum hafi fylgt fyrir stefnendur. Með samningi stefnda, íslenska ríkisins, við stefndu, Alcan á Íslandi hf. og móðurfélag þess, og með samþykki stefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, hafi verið komið í veg fyrir að landið verði nothæft til íbúðabyggðar. Slík afnotatakmörkun verði ekki ráðin af skipulagsgögnum Hafnarfjarðar fyrir tímabilið 1968-1983. Það sama eigi við um aðalskipulag Hafnarfjarðar 1980-2000. Það sé fyrst í aðalskipulagi 1995-2015, sem sjá megi uppdrátt með afmörkun bráðabirgðamarka þynningarsvæðis. Sé rétt að geta þess að ekki hafi á upphafsárum álbræðslu í Straumsvík verið tilefni til þess að hefjast handa um skipulag og þróun íbúðabyggðar á landi jarðarinnar á fyrrgreindu svæði takmarkaðrar ábyrgðar, heldur hafi fyrst á síðari árum gefist tilefni til að huga að þróun landsins sem íbúðasvæðis eftir því sem byggð í Hafnarfirði hafi færst í vestur.
Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafi synjað stefnendum um byggingarleyfi á jörðinni en stefnendur hafi lagt fyrir skipulagsyfirvöld skipulagshugmyndir um allt að tuttugu þúsund manna byggð í landi Óttarsstaða og óskað eftir afstöðu bæjarins. Hafi þeir ekki fengið svar. Af þessu verði annaðhvort ráðið að skipulagsyfirvöld vinni enn að málinu eða að svarleysið merki í raun synjun, en stjórnvöld bæjarins treysti sér ekki til að rökstyðja synjunina. Fáist jákvæð afstaða til tillögunnar muni stefnendur leggja fram fullunnar deiliskipulagstillögur um svæðið, nema bæjaryfirvöld synji um leyfi til notkunar landsins samkvæmt tillögunum eins og þau hafi gert að undanförnu.
Í úrskurði Skipulagsstofnunar ríkisins 26. júlí 2002 um mat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar álvers í Straumsvík sé meðal annars vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar þar sem segi, að innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar verði ekki heimiluð íbúðabyggð. Athygli veki að í úrskurðinum komi fram að í matsskýrslu vegna stækkunarinnar segi, að utan þynningarsvæðisins verði ekki um takmörkun á landnotkun að ræða miðað við þá landnotkun sem fyrirhuguð sé samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Í þessu virðist felast að landnotkun utan þynningarsvæðis takmarkist, en þegar hafi verið tekið tillit til þess í skipulagi.
Frá því að fyrrnefndur aðalsamningur var gerður árið 1966 hafi verið gerðir sex viðaukasamningar við samninginn og hafi stefnendur á síðari árum orðið þess áskynja að stefndi, íslenska ríkið hafi, heimildarlaust og andstætt lögum, í samningum við eigendur álbræðslunnar í Straumsvík, lagt kvöð á land Óttarsstaða í þágu álbræðslunnar án fyrirvara um eignarrétt stefnenda og forvera þeirra. Með þessu hafi stefndi, íslenska ríkið, brotið gegn einu af meginhlutverkum sínum, sem sé að vernda borgarana fyrir mannréttindabrotum. Skylda þessi verði meðal annars leidd af VII. kafla stjórnarskrárinnar um mannréttindi, þar á meðal af því ákvæði 72. gr. sem mæli fyrir um friðhelgi eignarréttar.
Meðal fylgiskjala aðalsamnings sé svokallaður hafnar- og lóðarsamningur milli stefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, og Íslenska álfélagsins hf. Samkvæmt honum hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, undirgengist víðtækar skuldbindingar gagnvart eiganda álbræðslunnar, þar á meðal um að ISAL skuli hafa full og ótakmörkuð afnot af bræðslulóðinni á gildistíma samningsins í þeim tilgangi einum að byggja þar og reka bræðsluna. Í samningnum sé samið um ýmis konar gjöld til stefnda Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna álbræðslunnar en hvergi sé vikið að gjöldum til eigenda Óttarsstaða. Með samningi þessum hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, tekist á hendur skuldbindingar, meðal annars vegna svæðis takmarkaðrar ábyrgðar, og beri því ábyrgð gagnvart stefnendum sem landeigendum á sama hátt og aðrir stefndu.
Um þynningarsvæðið segi í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 að ekki sé gert ráð fyrir búsetu innan marka þess og að eigandi álbræðslunnar beri ekki ábyrgð á tjóni innan merkja svæðis takmarkaðrar ábyrgðar. Í 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti segi meðal annars að íbúðasvæði skuli ekki vera á þynningarsvæði. Að mati stefnenda megi færa að því rök að ábyrgð eiganda álbræðslunnar á tjóni vegna mengunar frá bræðslunni teljist til hlutlægrar fébótaábyrgðar, en gildissviðið sé takmarkað gagnvart samningsaðilanum, stefnda, íslenska ríkinu, samkvæmt 12. gr. aðalsamningsins.
Þegar samningar stefndu um álbræðslu við Straumsvík hafi verið gerðir árið 1966 og þegar hún hafi verið byggð og tekin í notkun hafi verið í gildi skipulagslög nr. 18/1964, sem kváðu meðal annars á um skipulagsskyldu. Þeirra ákvæða hafi ekki verið gætt við skipulag í Straumsvík og ekkert skipulag fyrir Hafnarfjörð hafi verið gert á þeim tíma. Aðalskipulag hafi fyrst verið samþykkt fyrir Hafnarfjörð á árinu 1982. Þar hafi verið lýst hugmyndum um iðnaðaruppbyggingu á Straumsvíkursvæðinu og lagt til að skipulagningu svæðisins yrði frestað. Árið 1997 hafi verið staðfest nýtt aðalskipulag fyrir Hafnarfjörð 1995-2015. Þar sé tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir búsetu eða landbúnaði neins konar innan þynningarsvæðis. Augljóst sé að sú ákvörðun byggist á hættulegri loftmengun frá álverksmiðjunni á þynningarsvæðinu, sem geri það ónothæft undir íbúðabyggð.
Að mati stefnenda sé auðsætt að á landi Óttarsstaða innan greindra svæða, svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis, hefði risið eitt heppilegasta íbúðarsvæði í þéttbýlinu á suðvesturhluta landsins og án álbræðslunnar hefði íbúðabyggðin þróast áfram í vestur með ströndinni frá Hvaleyrarholti, sem nú sé fyrir löngu fullbyggt, og um land Óttarsstaða. Sú mengun sem liggi yfir landi Óttarsstaða frá álverinu komi því í veg fyrir slíka hagfellda þróun byggðar þar. Það sé ekki hlutverk stefnenda að bera kostnaðinn af því að stefndu hafi komið í veg fyrir þessa notkun landsins.
Sé niðurstaðan því sú að skipulagsmálum á svæðinu hafi verið háttað þannig að hagsmunir álbræðslunnar hafi haft forgang. Verksmiðjunni sé heimilt að haga rekstrinum þannig, að mengun frá rekstrinum berist yfir á lönd nágranna, þar á meðal land stefnenda, og hafi þannig skert notagildi þess og þar með verðmæti þess. Stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður hafi skuldbundið sig gagnvart eigendum álbræðslunnar til að haga skipulagi á svæðinu þannig að hagsmunir stefnenda séu fyrir borð bornir. Með þessu samkomulagi sé verksmiðjunni tryggt að hún þurfi ekki á eigin kostnað að afla heimilda á grannlandinu eða fjárfesta í mengunarbúnaði, sem takmarki mengunaráhrif við verksmiðjulóðina.
Enda þótt aðgerðir stefndu, íslenska ríkisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar, hafi þannig sparað verksmiðjunni verulegan kostnað, hafi þessir aðilar ekki tekið þennan kostnað á sig, heldur velt honum yfir á stefnendur.
Sé á því byggt að stefnda, Hafnarfjarðarkaupstað, sé óheimilt að haga skipulagi einungis með hagsmuni álbræðslunnar í huga og ennfremur sé óheimilt að fresta skipulagi nema um stundarsakir, sbr. til dæmis 20. gr. skipulagslaga nr. 73/1997. Skilyrði þess að fresta skipulagi séu ekki uppfyllt. Ótímabundin frestun á skipulagi í svo langan tíma jafngildi í raun eignarnámi og sé andstæð eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Með því hafi sveitarfélagið gerst bótaskylt gagnvart stefnendum, en sú bótaskylda eigi einnig við um aðra stefndu, sem hafi samið um það sín á milli á hvern hátt skuli haga skipulagi á svæðinu.
Stefndi, íslenska ríkið, hafi gert umræddan aðalsamning við móðurfélag ISAL árið 1966 og heimilað að áhrifasvæði mengunar frá álbræðslunni næði langt út fyrir mörk lóðar verksmiðjunnar og yfir á landareignir annarra óviðkomandi aðila. Hafi þetta verið liður í samningum aðilanna og hafi stefndi, íslenska ríkið, litið svo á að það hafi verið hagsmunir þess að láta álbræðslunni í té þau réttindi að mega haga starfsemi sinni þannig að hún hefði í för með sér óheimila, hættulega og löglausa mengun og þar með komið í veg fyrir eðlileg not landsins undir íbúðabyggð. Stefndi, íslenska ríkið, hafi því fengið greitt fyrir þessa hagsmuni með einum eða öðrum hætti. Séu stefnendur ekki í aðstöðu til að gera grein fyrir hverja hagsmuni stefndi, íslenska ríkið, hafi fengið sem samningsaðili fyrir þessa kvöð á landi stefnenda. Stefndi, íslenska ríkið, hafi ekki aflað heimildar hjá stefnendum eða forverum þeirra sem eigendum landsins og hafi skuldbinding ríkisins gagnvart eiganda álbræðslunnar því með öllu verið óskuldbindandi fyrir stefnendur. Kvöðinni á landið hafi ekki verið þinglýst eða tilkynnt stefnendum. Þar sem stefndi, íslenska ríkið, hafi þannig í raun svipt stefnendur þeim mikilvægu eignarráðum á landinu að geta ákveðið not þess í samræmi við lög sé því skylt að greiða stefnendum skaðabætur fyrir tjón þeirra. Jafnframt hafi stefndi, íslenska ríkið, heimilað öðrum afnot landsins og sé því skylt að þola dóm þess efnis sem greini í dómkröfum málsins. Með þessum samningum og aðgerðum hafi stefndi, íslenska ríkið, jafnframt átt hlutdeild að skipulagsaðgerðum, sem séu bótaskyldar samkvæmt skipulagslögum nr. 19/1964, nú skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Dugi stefnda, íslenska ríkinu, ekki að bera fyrir sig að stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður hafi tekið hinar formlegu skipulagsákvarðanir.
Með því að heimila stefnda, Alcan á Íslandi hf., þau not lands jarðarinnar Óttarsstaða, sem að framan sé lýst hafi stefndi, íslenska ríkið, heimildarlaust og andstætt lögum ráðstafað landareign stefnenda. Þessar aðgerðir eða ráðstafanir stefnda, íslenska ríkisins, séu ólögmætar og gerðar á laun og af ásetningi. Skipti ekki máli hvort stefndi, Alcan á Íslandi hf., hafi verið í góðri trú eða ekki enda séu stefnendur þinglýstir eigendur og forverar þeirra hafi verið það einnig. Hafi stefndi, íslenska ríkið, með því að semja heimildarlaust við eiganda álbræðslunnar um að hann mætti haga starfsemi sinni þannig, að til stórfellds tjóns væri fyrir eigendur nágrannalandsins, gerst sekur um ólögmæta háttsemi. Sé vakin athygli á 1. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem fram komi að refsivert sé meðal annars að svipta mann eigum hans, en athafnir stefnda, íslenska ríkisins, séu einmitt í því fólgnar að svipta stefnendur eigum þeirra eða að minnsta kosti verulegum hluta eignarráða þeirra.
Stefndi, íslenska ríkið, hafi veitt stefnda Alcan á Íslandi hf. starfsleyfi og í starfsleyfum, bæði eldri og yngri, hafi stefndi, íslenska ríkið, farið út fyrir heimildir sínar með því að heimila eigendum álbræðslunnar að haga starfsemi hennar þannig að landið hafi orðið óhæft til þeirra nota sem stefnendur fyrirhugi að hafa af því. Einnig hafi stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, ábyrgst að tekið skyldi tillit til starfsemi álbræðslunnar utan bræðslulóðarinnar við gerð skipulags, sbr. grein 2.02 í hafnar- og lóðarsamningi 28. mars 1966.
Ekki sé um almennar takmarkanir á eignarráðum stefnenda að ræða, sem aðrir sem eins eða líkt sé ástatt um, verði einnig að hlíta. Þvert á móti sé um sértækar takmarkanir á eignarráðum stefnenda að ræða. Eignarréttindi stefnenda séu skert til hagsbóta fyrir stefnda, Alcan á Íslandi hf. Samskonar skerðingar séu ekki felldar á aðra landeigendur en eigendur landa við bræðslulóðina. Hefðu stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, átt að tryggja nægilegt land umhverfis álbræðsluna í Straumsvík áður en þeir heimiluðu starfsemi hennar. Þar sem stefndu hafi vikist undan þeirri skyldu sinni verði ekki hjá því komist að dómur gangi um skyldur þeirra til að greiða skaðabætur vegna tjónsins.
Með vísan til þess sem að framan sé rakið hafi engin réttindi flust til stefnda, Alcan á Íslandi hf. Sé því um að ræða vanheimild og verði stefndi, Alcan á Íslandi hf., að tryggja réttindi yfir svæðinu með samningum við stefnendur. Sé núverandi notkun andstæð lögum og felist í henni heimildarlaus ágangur á lögvernduð eignarréttindi stefnenda og hafi stefndi, Alcan á Íslandi hf., því valdið stefnendum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Það sé ekki hlutverk stefnenda að greiða niður kostnað af rekstri álbræðslunnar með því að leggja henni endurgjaldslaust til land. Með þessu hafi stefndi, Alcan á Íslandi hf., því einnig auðgast með óréttmætum hætti á kostnað stefnenda og séu kröfur stefnenda því jafnframt byggðar á hinni ólögfestu reglu íslensks réttar um óréttmæta auðgun.
Það sé forn réttarregla og ný, að landeigandi skuli fara með eignarrétt sinn að landi þannig, að ekki sé til skaða fyrir land nágranna. Eignarráðum fasteignaeigenda séu verulegar skorður settar um not fasteigna sinna af tilliti til fasteigna í grenndinni. Mörk milli leyfilegra og óleyfilegra athafna ráðist samkvæmt reglum nábýlisréttar af því hve mikil óþægindi þær hafi í för með sér fyrir nágranna. Í því tilviki, sem hér sé til umfjöllunar, sé ljóst að þær athafnir að menga loft, jörð og/eða vatn á landi stefnenda gangi verulega lengra en stefnendum sem eigendum lands Óttarsstaða sé skylt að þola að lögum, enda leiði athafnirnar til þess að landið verði ónothæft til eðlilegra nota.
Af framangreindu leiði að stefnda, Alcan á Íslandi hf., sé óheimilt að haga starfsemi álbræðslunnar þannig að hún valdi mengun sem geri landið ónothæft til eðlilegra afnota. Verði því ekki hjá því komist að viðurkennt verði að stefndi, Alcan á Íslandi hf., sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnendum vegna skerðingar á notagildi og verðmæti lands stefnenda. Um ábyrgð stefnda, Alcan á Íslandi hf., vísi stefnendur einnig til þeirrar mikilvægu meginreglu umhverfisréttar sem nefnd hafi verið greiðslureglan og feli í sér að sá sem mengi beri þann kostnað sem hljótist af því að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum mengunar. Vísist um þetta meðal annars til 2. mgr. 73. gr. EES-samningsins.
Móðurfélag stefnda, Alcan á Íslandi hf., stefndi Alcan Holdings Switzerland Ltd., sé eigandi alls hlutafjár í félaginu og ráði því lögum og lofum í félaginu og breyti engu að stefndi, íslenska ríkið, tilnefni tvo stjórnarmenn félagsins af sjö. Allar meiriháttar ákvarðanir séu því í raun teknar af móðurfélaginu. Móðurfélagið hafi gert aðalsamninginn við stefnda, íslenska ríkið, og fengið því framgengt, að ákvæðið um að heimila mengun yfir á grannlönd hafi verið tekið upp í 12. gr. samningsins. Enda þótt ákvæðið heimili stefnda, Alcan á Íslandi hf. (áður ISAL), að spara sér kostnað við landakaup eða fjárfestingu í fullkomnari mengunarbúnaði til að unnt væri að halda mengun innan bræðslulóðar, þá hafi þetta verið gert til hagsbóta fyrir móðurfélagið. Það hafi dregið úr stofnkostnaði álbræðslunnar og því hafi upphafsstofnkostnaður orðið minni en ella og sama eigi við um rekstrarkostnað eftir að starfsemin hófst. Þar sem sú afstaða eigenda bræðslunnar, að þeim sé heimilt að skerða afnot og verðmæti grannlanda með tilgreindu fyrirkomulagi rekstrar, verði rakin til ákvæða í aðalsamningi, sem móðurfélagið eigi aðild að, beri það félag ábyrgð gagnvart stefnendum á tjóni þeirra og sé því einnig skylt að greiða bætur. Hafi móðurfélagið verið í vondri trú varðandi heimildir stefndu, íslenska ríkisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar, til að leyfa mengun á svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Hafi félaginu eins og öðrum stefndu verið kunnugt að landið væri í einkaeign samkvæmt opinberum þinglýstum skrám og að það gæti ekki öðlast meiri og betri rétt yfir landi stefnenda en heimildarmenn þess, stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, hafi átt. Beri móðurfélagið því ábyrgð gagnvart stefnendum á tjóni því sem rekstur álverksmiðjunnar, andstætt reglum nábýlisréttar, hafi valdið þeim.
Eins og rakið hafi verið hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, gert hafnar- og lóðarsamning við eiganda álversins meðal annars um hagsmuni bæjarfélagsins af rekstri þess. Bæjarfélagið hafi og samþykkt að eigendum álversins væri heimilt að haga starfsemi sinni þannig, að hún mengi land, loft og/eða vatn á umræddu svæði takmarkaðrar ábyrgðar innan marka jarðarinnar Óttarsstaða. Þá hafi bæjarfélagið og hagað skipulagi landsvæðisins við Straumsvík þannig að hagsmunir álverksmiðjunnar hafi verið í fyrirrúmi, en hagsmunir stefnenda verið sniðgengnir og skertir. Gerð slíks skipulags brjóti í bága við jafnræðisreglu og vernd eignarréttar.
Í hafnar- og lóðarsamningi milli stefndu, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Alcan á Íslandi hf., 28. júní 1966 komi meðal annars fram að stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, takist sameiginlega á hendur þá skuldbindingu að haga málum þannig að bræðslan geti starfað á þann hátt að mengun frá starfsemi hennar berist yfir á nágrannalönd, þar á meðal land stefnenda. Þessa skuldbindingu hafi greindir stefndu ekki getað staðið við gagnvart stefnda, Alcan á Íslandi hf., þar sem þá skorti heimildir á landinu. Ef stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, hefði ekki samþykkt byggingu og rekstur álverksmiðjunnar í Straumsvík væri land Óttarsstaða nú að öllum líkindum fullbyggt íbúðasvæði eða íbúðasvæði í byggingu stefnendum í hag. Á fyrrnefndum gerðum sínum beri kaupstaðurinn ábyrgð gagnvart stefnendum. Dugi stefnda, Hafnarfjarðarkaupstað, ekki að bera fyrir sig að skipulagsástæður ráði för við skipulagsákvarðanir um afnot umrædds lands á svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Þá beri stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, bótaábyrgð gagnvart stefnendum á skipulagsákvörðunum þeim sem hafi valdið því að verðmæti landsins hafi orðið að engu eða skerst verulega, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 29. gr. þágildandi skipulagslaga nr. 19/1964. Regla þessi endurspegli grunnreglu sem standi í nánum tengslum við 72. gr. stjórnarskrárinnar og á þeirri reglu sé byggt gagnvart öðrum stefndu.
Þar sem sveitarfélagið hafi leyft rekstur álbræðslunnar með þeim hætti sem lýst sé, geti það aðeins staðið við leyfisveitingar sínar að það afli sér heimildar á umræddu landi. Hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, fjárhagslega hagsmuni af því að heimila að starfsemi álbræðslunnar sé hagað með þeim hætti, að mengun frá henni berist út fyrir lóðarmörk bræðslunnar og yfir á lönd annarra. Bendi gögn í málinu til þess að stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, hafi haft tekjur af því að heimila stefnda, Alcan á Íslandi hf., að menga land stefnenda og beri honum að skila stefnendum þeim leigutekjum. Þá hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, ekki aðeins komið fram gagnvart stefnda Alcan á Íslandi hf. sem handhafi stjórnvalds, heldur einnig sem eigandi lands þess eða lóðar, sem álbræðslan standi á. Þegar lóðarleigusamningur milli stefndu, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Alcan á Íslandi hf., hafi verið gerður hafi stefnda, Hafnarfjarðarkaupstað, mátt vera það ljóst að fyrirhuguð starfsemi á lóðinni myndi valda spjöllum á nágrannalandi, þar á meðal á landi stefnenda. Á þessum gerningi og afleiðingum hans beri stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, ábyrgð gagnvart stefnendum samkvæmt almennum skaðabótareglum. Sem landeigandi beri stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, sömuleiðis ábyrgð á grundvelli óskráðra reglna nábýlisréttar. Hann geti aðeins leyst sig undan þeirri ábyrgð með því að greiða stefnendum skaðabætur.
Samkvæmt fyrrgreindum aðalsamningi hafi stefndi, íslenska ríkið, tekið ábyrgð á að stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, efndi lóðarsamninginn gagnvart álbræðslunni. Þannig sé stefndi, íslenska ríkið, meðábyrgur stefnda, Hafnarfjarðarkaupstað, að því er varði skuldbindingar samkvæmt lóðarsamningnum og beri á honum fulla ábyrgð gagnvart stefnendum. Ein af forsendum aðalsamningsins hafi verið að gerður yrði lóðarsamningur sem heimilaði afnot af eða skerðingu á grannlöndum með þeim hætti sem lýst hafi verið. Í samningsgerð þessari hafi falist réttarbrot gagnvart stefnendum, sem allir stefndu beri ábyrgð á. Eina leiðin til að starfsemi álbræðslunnar geti talist samræmast lögum sé að álbræðslan og meðstefndu afli heimilda hjá stefnendum til að haga starfsemi sinni með framangreindum hætti. Hafi stefnendur lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningu á þessum rétti sínum gagnvart stefndu hverjum fyrir sig.
Sem lagaákvæði sé 12. gr. aðalsamningsins alls ekki nægjanlega skýr til þess að teljast heimild til takmörkunar á eignarréttindum stefnenda. Séu dómkröfur stefnenda um bótaskyldu stefndu meðal annars á því reistar að samningurinn bindi ekki stefnendur og forvera þeirra. Ennfremur byggi stefnendur á því að tjón þeirra falli efnislega utan ramma ábyrgðartakmörkunarinnar í 12. gr. aðalsamningsins. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins beri stefndi, Alcan á Íslandi hf., fulla ábyrgð á tjóni að svo miklu leyti sem um sé að ræða land innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar eða afnot í framtíðinni, önnur en búskap og garðyrkju. Sömuleiðis komi fram í ákvæðinu að þeir sem eftir gerð samningsins taki sér bólfestu innan svæðisins taki með því á sig áhættu af hvers konar tjóni að því er varði búskap og garðyrkju. Tjón stefnenda tengist hvorki búskap né garðyrkju, heldur heimild til þess að hagnýta land sitt í þágu íbúðabyggðar. Þannig nái ábyrgðartakmörkunin ekki yfir tjón stefnenda og geti stefndu því ekki borið ákvæðið fyrir sig auk þess sem í ljósi meginreglna eignarréttar og skaðabótaréttar beri að skýra slíkar ábyrgðartakmarkanir þröngt.
Stefndi, Alcan á Íslandi hf., virðist telja, að verði honum bannað að haga starfsemi sinni þannig að henni fylgi mengun, myndi það hafa í för með sér að óhjákvæmilegt yrði að loka álbræðslunni og það myndi leiða til taps fjárfestingar og framtíðarhagnaðar. Vera kunni að hagsmunir stefnda, Alcan á Íslandi hf., af því að reka álbræðsluna í óbreyttri mynd séu meiri en hagsmunir stefnenda af því að halda óskertum eignarrétti sínum að landinu og eðlilegri hagnýtingu landsins sem byggingarland undir íbúðarhús. Til að gæta slíkra hagsmuna þurfi stefndi, Alcan á Íslandi hf., að afla sér eignarheimildar á viðkomandi landi.
Enda þótt stefndi, Alcan á Íslandi hf., og þar með móðurfélagið, hafi lagt greint land undir starfsemi sína án þess að hafa til þess heimildir að lögum, verði ekki fram hjá því litið, að stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, hafi hvor um sig og sameiginlega stuðlað að og átt hlutdeild í að stefndi, Alcan á Íslandi hf., hagaði starfsemi sinni með tilgreindum hætti. Því beri þeir einnig ábyrgð gagnvart stefnendum og séu bótaskyldir hvor um sig á sama hátt og stefndu, Alcan á Íslandi hf. og móðurfélagið. Verði komist að þeirri niðurstöðu, að einungis tveir hinna stefndu, eða jafnvel einn þeirra, séu bótaskyldir gagnvart stefnendum falli það undir kröfugerð þeirra í málinu.
Enda þótt þess sé ekki krafist að dómstóllinn taki afstöðu til verðmætis greinds landsvæðis, þyki rétt vegna hugsanlegs hagsmunamats í málinu að leggja fram gögn um líklegt verðmæti lands á svæðinu. Svo vilji til að stefndi, Alcan á Íslandi hf., hafi keypt af stefnda, Hafnarfjarðarkaupstað, samkvæmt kaupsamningi og afsali 30. desember 2003 51,95 hektara á samtals 290.323.000 krónur eða 5.588.508 krónur hvern hektara. Samkvæmt afsali 3. nóvember 2004 hafi stefndi, Alcan á Íslandi hf., keypt 10.350,7 fermetra lands á þessu svæði fyrir 34.000.000 króna eða 32.848.020 krónur hvern hektara. Þá hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, keypt hinn 2. júlí 2003 40.603 fermetra lands, upphaflega úr landareignum Þorbjarnarstaða, Straums og Litla- Lambhaga, á 30.573.000 krónur eða 7.530.000 krónur hvern hektara. Frá árinu 2003 hafi landverð undir byggingar, einkum íbúðabyggingar, hækkað verulega. Gefi þetta til kynna verðmæti hvers hektara lands á svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Framangreindar fjárhæðir frá 2003 og 2004 þurfi þó að framreikna með hliðsjón af þróun landverðs. Eftirsókn eftir landi á þessum slóðum sé mikil og sjáist best á því að verktakafyrirtæki hafi keypt hálfa jörðina Lónakot vestan Óttarsstaða og jörðina Hvassahraun þar fyrir vestan í því skyni að skipuleggja og byggja þar íbúðabyggð.
Stefnendur haldi því ekki fram að þeir hafi verið sviptir formlegum eignarheimildum sínum að jörðinni Óttarsstöðum. Þeir hafi hins vegar verið sviptir þeim meginþætti eignarréttarins að jörðinni að ráða því á hvern hátt land jarðarinnar við standlengjuna innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis sé hagnýtt. Sé það láglendið við ströndina sem sé kjarni lands jarðarinnar og þar séu hentugustu aðstæðurnar fyrir byggingarland undir íbúðarhús og jafnframt sé sá hluti landsins hinn verðmætasti. Hann hafi verið lagður undir mengun frá álverinu án heimildar stefnenda.
Stefnendum sé ekki skylt í viðurkenningarmáli sem þessu að sýna fram á hvert tjón þeirra sé heldur nægi að færa líkur að því að þeir hafi orðið fyrir tjóni. Stefnendur hafi sýnt fram á og sannað að umráðaréttur þeirra yfir landinu, sem kvaðirnar hafi verið lagðar á í þágu álversins, hafi verið afnuminn eða verulega skertur. Þeim sé óheimilt að nota landið á hagkvæmasta og verðmætasta háttinn. Þannig hafi stefnendur nægilega sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir tjóni.
Hafi skipulagsákvarðanir á svæðinu tekið mið af starfsemi álversins og áhrifum þess utan bræðslulóðar enda geti stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, ekki annað en hagað skipulagi þannig að stefnendur fái ekki notið eignarréttar síns yfir landinu með þeim heimildum sem honum fylgi. Á því beri þeir ábyrgð gagnvart stefnendum. Þær takmarkanir á eignarrétti manna er stafi frá opinberum aðilum þurfi að uppfylla ákveðnar kröfur í ljósi eignarréttarákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sé meðal annars um að ræða kröfur um nauðsyn, meðalhóf og jafnræði. Þá þurfi slíkar takmarkanir að vera almennar í eðli sínu. Með því að kröfur þessar geti ekki talist uppfylltar geti stefndu ekki borið þær fyrir sig.
Ráðstafanir stefndu, íslenska ríkisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar, í þágu stefndu, Alcan á Íslandi hf. og móðurfélagsins, sem leitt hafi til afnáms eða stórfelldrar skerðingar á nýtingarrétti stefnenda á umræddu landsvæði, jafngildi eignarnámi án greiðslu eignarnámsbóta. Það inngrip sem felist í losun álversins á hættulegum mengunarefnum á land stefnenda eigi sér ekki stoð í lögum. Skilyrði lögmætisreglunnar séu ekki uppfyllt. Ákvæði 12. gr. aðalsamnings heimili ekki slíkt inngrip í réttindi stefnenda, enda verði takmarkanir á mannréttindum að eiga sér skýra og afdráttarlausa lagastoð. Stefnendur hafi ekki notið andmælaréttar. Ekki hafi verið sýnt fram á að inngripið stefni að lögmætu markmiði. Ekki sé gætt jafnvægis milli almannahagsmuna og hagsmuna stefnenda. Meðalhófs sé ekki gætt og ekki sýnt fram á að ekki megi ná þeim markmiðum sem að sé stefnt með öðrum hætti en gert hafi verið.
Með vísan til framanritaðs sé ljóst að stefnendur eigi lögvarða hagsmuni í máli þessu. hafi dómstólar ekki aðeins vald til að dæma um sakarefnið samkvæmt 24. gr. laga um meðferð einkamála, heldur sé þeim það og lögskylt samkvæmt sömu lögum og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Dómkröfur stefnenda séu skýrar og afdráttarlausar og lúti að vernd mannréttinda stefnenda.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísa stefnendur sérstaklega til 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði, aðildar-, varnar- og málskostnaðarákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo og ákvæða sömu laga um viðurkenningarmál, lögvarða hagsmuni og dómhæfi krafna, laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, hinnar ólögfestu almennu skaðabótareglu og meginreglna skaðabótaréttar að öðru leyti, meðal annars um hlutlæga bótaábyrgð og ólögfestra meginreglna eignarréttar. Um varnarþing vísa þeir til 3. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga.
IV
Málsástæður og lagarök stefndu, Alcan á Íslandi hf. og Alcan Holdings Switzerland Ltd. Stefndu kveðast hafa samið á sínum tíma við ríkisstjórn Íslands, Landsvirkjun og Hafnarfjarðarbæ um starfrækslu álversins í Straumsvík. Aðalsamningurinn ásamt fylgiskjölum hafi jafnframt verið lagður fyrir Alþingi til samþykktar og hafi hann verið samþykktur sem lög nr. 76/1966. Í samningi þessum hafi verið sérstaklega samið um að ISAL, nú Alcan á Íslandi hf., myndi grípa til allra eðlilegra ráðstafana til þess að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri álversins í samræmi við það sem almennt hafi tíðkast um rekstur slíkra álvera auk þess sem ISAL hafi skuldbundið sig til þess að byggja, útbúa og reka álverið og halda því við í samræmi við þágildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti. Þá væri álverið háð eftirliti viðeigandi opinberra stofnana. Síðan álverið hafi tekið til starfa hafi strangar kröfur verið gerðar til starfsemi þess, meðal annars varðandi mengunarvarnir. Álverið hafi ávallt verið háð eftirliti viðeigandi yfirvalda hverju sinni og hafi starfsemin uppfyllt þær kröfur sem gerðar hafi verið til hennar í lögum, auk þess sem hún sé í fullu samræmi við skipulag í Hafnarfirði.
Sé því ljóst að heimildir til starfrækslu álversins og nýtingar lóðarinnar í Straumsvík sæki stefndu til samninga við meðstefndu, íslenska ríkið og Hafnafjarðarkaupstað, auk þeirra laga sem um starfsemina gildi, þar á meðal laga nr. 76/1966 með síðari breytingum. Sé stefnda, Alcan á Íslandi hf., beinlínis heimilt með lögum að losa ákveðnar gastegundir og reyk út í andrúmsloftið í tilteknu magni án samþykkis stefnenda. Því sé ljóst að stefndi, Alcan á Íslandi hf., hafi allar þær heimildir sem hann þarfnist til þess að starfrækja álbræðsluna í núverandi mynd. Þar sem starfsemin sé lögmæt og starfrækt á grundvelli heimilda stjórnvalda beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda.
Hafi stefndu mátt treysta því að viðsemjendur þeirra hefðu allar þær heimildir sem til hafi þurft til að rekstur álversins gæti hafist, ef ekki þegar við samningsgerðina þá að minnsta kosti áður en rekstur álversins hæfist, enda hafi frá upphafi verið ljóst að frá álverinu kynnu að stafa lofttegundir sem gætu haft áhrif á nánasta umhverfi þess. Vegna þess meðal annars hafi verið tekið upp sérstakt ákvæði í aðalsamningi um takmarkaða ábyrgð stefnda, Alcan á Íslandi hf., á tjóni innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar, sbr. grein 12.01. Það hafi því verið forsenda af hálfu móðurfélagsins, stefnda Alcan Holdings Switzerland Ltd., fyrir samningsgerðinni og rekstri álversins að heimilt væri að frá álverinu stöfuðu tilteknar lofttegundir. Auk þess hafi viðsemjendur stefndu meðal annarra verið meðstefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, sem hafi í krafti opinbers valds síns getað tryggt sér nauðsynlegar heimildir hafi þær ekki verið fyrir hendi við samningsgerðina. Hafi stefndi, Alcan á Íslandi hf., frá upphafi leigt land undir álverið af meðstefnda, Hafnarfjarðarkaupstað, samkvæmt hafnar- og lóðarsamningi og hafi það því verið undir bæjarfélaginu komið, sem eiganda landsins, að tryggja sér þær heimildir sem til hafi þurft til starfrækslu álversins á sínum tíma. Þá hafi stjórnvöld heimildir til að veita starfsleyfi á borð við það sem hér um ræði, taka stjórnvaldsákvarðanir um þynningarsvæði, sem og að taka skipulagsákvarðanir. Sé ljóst að allar þess konar ákvarðanir geti haft áhrif á not manna af eignum sínum. Beri þegar af þessum ástæðum að sýkna stefndu af kröfum stefnenda.
Þá sé því sérstaklega mótmælt að útblástur gastegunda eða reyks frá álverinu takmarki not stefnenda af landinu. Það sé stefndu að meinalausu þótt stefnendur skipuleggi lóð sína undir íbúðarhúsnæði eða annars konar byggð og hafi stefndu ekki staðið í vegi fyrir því að slíkar áætlanir næðu fram að ganga. Þá sé ósannað að losun gastegunda og reyks frá álverinu, en einkum sé um að ræða brennisteinsoxíð, ryk og flúor, sé yfirleitt í svo miklu magni að það komi í veg fyrir íbúðarbyggð í landi Óttarsstaða.
Það sé ekki á ábyrgð stefndu að sett hafi verið lög og reglur sem takmarki íbúðabyggð innan svokallaðra þynningarsvæða, sbr. 23. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, sem sett hafi verið með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ekki verði betur séð en að um sé að ræða löggjöf sem setji almennar takmarkanir við notkun eigna sem varði jafnt þá aðila sem eins sé ástatt um. Á svæði takmarkaðrar ábyrgðar felist hins vegar engin takmörk á nýtingu lands og gætu stefnendur auðveldlega, að minnsta kosti með tilliti til mengunarsjónarmiða og heilsuverndar, skipulagt það land sitt sem falli undir svæði takmarkaðrar ábyrgðar undir íbúðabyggð, ef það félli að öðru leyti að skipulagssjónarmiðum meðstefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Í stefnu sé því haldið fram að svæði takmarkaðrar ábyrgðar sé í raun þynningarsvæði vegna loftmengunar af völdum loftkennds flúors og sé bannað að taka land svæðisins til íbúðabyggðar. Þetta kveða stefndu ekki vera rétt. Svæði takmarkaðrar ábyrgðar teljist ekki til þynningarsvæða þar sem ekki sé heimilað að hafa íbúðabyggð samkvæmt ákvæði 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002 enda sjáist það glögglega af aðalskipulagi meðstefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, fyrir árin 2005 til 2015 að nú þegar sé gert ráð fyrir íbúðabyggð innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar.
Séu það helst skipulagsákvarðanir meðstefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem fari með skipulagsvald á svæðinu í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem standi í vegi fyrir áætlunum stefnenda um fyrirhugaða nýtingu landsins. Samkvæmt fyrrgreindu aðalskipulagi fyrir Hafnarfjörð 2005 til 2015 virðist bærinn þegar hafa ákveðið að hluti Óttarsstaðalandsins, þ.e. sá hluti sem liggi innan þynningarsvæðis sunnan Reykjanesbrautar, skuli nýtast undir iðnaðar-, verslunar- og þjónustusvæði. Land það sem liggi innan þynningarsvæðis norðan Reykjanesbrautar alveg að sjó hafi hins vegar enn ekki verið skipulagt og sé í fresti samkvæmt 20. gr. skipulags- og byggingarlaga. Óljóst sé því hvernig fari um það svæði. Vera kunni að hluti þess sem sé á náttúruminjaskrá verði friðlýstur samkvæmt lögum um náttúrvernd nr. 44/1999. Þá sé hugsanlegt að landsvæðið verði, í heild eða að hluta, skipulagt sem svæði undir atvinnustarfsemi eða jafnvel hafnarstarfsemi. Land undir slíka starfsemi sé síst verðminna en land sem nýtt sé undir íbúðabyggð, sérstaklega það landsvæði sem nýta megi undir hafnarstarfsemi. Hafi stefnendur ekki sýnt fram á að þeir hafi fram til þessa orðið fyrir nokkru tjóni né heldur að þeir séu líklegir til þess. Verði þá einnig að hafa í huga skyldu þeirra til þess að takmarka tjón sitt eða afstýra því. Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af kröfum stefnenda.
Samkvæmt skipulaginu sé lína sú sem afmarki núverandi þynningarsvæði sögð vera til bráðabirgða. Óvíst sé því að núverandi þynningarsvæði verði sömu stærðar í framtíðinni og geti verið að hægt verði að skipuleggja landið undir íbúðabyggð í samræmi við óskir stefnenda. Ekkert virðist því á þessu stigi liggja fyrir um það hvernig framtíðarnýtingu Óttarsstaðalandsins verði háttað og því alls óljóst hvort stefnendur verði fyrir einhverri skerðingu á notum þess eða fyrir tjóni. Þá verði heldur ekki séð að hugmyndum stefnenda um íbúðabyggð á svæðinu hafi verið hafnað með stjórnvaldsákvörðun auk þess sem hugmyndir þeirra um íbúðabyggð og skipulag á svæðinu séu lítt unnar og óljósar. Því beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum stefnenda. Í öllu falli sé ljóst að jafnvel þó stefndu væri unnt að haga starfsemi álversins með þeim hætti að frá því stafaði ekki gastegundum og reyk sem berist yfir land Óttarsstaða, þýði það ekki að stefnendur hafi þar með tækifæri til að skipuleggja land sitt með þeim hætti sem þeim þóknist.
Sé ljóst samkvæmt framangreindu að allar takmarkanir á notum á landi stefnenda verði raktar til heimilda í lögum og reglum sem settar hafi verið með stoð í þeim, sem takmarki með almennum og málefnalegum hætti nýtingarrétt allra þeirra sem eins sé ástatt um, en ekki til atvika sem séu á ábyrgð stefndu. Hafi stefndu því ekki bakað stefnendum tjón eða skert hagsmuni þeirra með öðrum hætti.
Í 12. gr. aðalsamnings milli íslenska ríkisins og Alusuisse frá 1966, sbr. lög nr. 76/1966, sé sérstaklega fjallað um ábyrgð stefnda, Alcan á Íslandi hf., á mengun innan og utan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar. Af ákvæði þessu sé ljóst að ábyrgð stefnda, Alcan á Íslandi hf., geti aðeins náð til tjóns á hagsmunum sem varði samskonar starfsemi og fram hafi farið innan þess svæðis á þeim tíma sem samningurinn hafi verið gerður, þ.e. á árinu 1966, sbr. orðalagið „...að svo miklu leyti sem um er að ræða núverandi afnot þess [lands sem er innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar] eða afnot í framtíðinni...“ Í málinu séu settar fram kröfur vegna tiltekinnar skerðingar á nýtingu Óttarsstaðalandsins sem ekki hafi verið til staðar eða fyrirhuguð þegar aðalsamningurinn hafi verið gerður árið 1966. Ákvæði þetta sem fest hafi verið í lög hér á landi með lögum nr. 76/1966, og skuldbindi því stefnendur rétt eins og aðra borgara þessa lands, undanþiggi stefnda, Alcan á Íslandi hf., því ábyrgð á nokkru því tjóni sem kunni að stafa af gastegundum og reyk frá álbræðslunni innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar. Sé stefndi, Alcan á Íslandi hf., því samkvæmt lögum sérstaklega undanþeginn ábyrgð á kröfum vegna tjóns sem rekja megi til gastegunda og reyks frá álverinu, og geti því ekki borið ábyrgð á þeim meintu skerðingum á notkun lands Óttarsstaða sem stefnendur kveðist þurfa að þola. Hafni stefndu þar með þeim skýringum stefnenda að ábyrgðartakmörkunin í 12. gr. taki bara til búskapar og garðyrkju en bendi jafnframt á að jafnvel þótt sá skýringarkostur yrði ofaná geti hugtakið „búskapur“ tekið til almennrar íbúðarbyggðar innan svæðisins. Beri þegar af þessum ástæðum að sýkna stefndu af kröfum stefnenda.
Í stefnu sé því haldið fram að í 12. gr. aðalsamningsins sé vísað til uppdráttar um stærð og legu svæðisins en þar sem uppdráttur þessi hafi ekki verið birtur með lögunum hafi hann ekkert lagagildi. Því sé 12. gr. aðalsamningsins sem lagaákvæði ekki nægjanlega skýr til þess að teljast heimild til takmörkunar á eignarréttindum stefnenda. Þessu séu stefndu ósammála enda vísi ákvæði 12. gr. skýrlega til uppdráttar á fylgiskjali C með hafnar- og lóðarsamningi. Ekki þurfi því að velkjast í vafa um stærð og legu svæðisins. Þá verði að hafa í huga að stefnendur miði kröfur sínar við það landsvæði Óttarsstaða sem falli að meginstefnu til undir svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Byggi stefnendur því sjálfir kröfur sínar á svæði takmarkaðrar ábyrgðar eins og það komi fram á umræddu fylgiskjali C með hafnar- og lóðarleigusamningi. Ef ekki er hægt að miða takmörkun þá sem felist í 12. gr. aðalsamnings við svæðið eins og það sé tilgreint í umræddu fylgiskjali, geti stefnendur heldur ekki miðað bótaskyldu stefndu við sama landsvæði.
Þá telja stefndu að bótaskylda þeirra geti aldrei náð til alls þess svæðis sem getið sé um í aðalkröfu heldur í mesta lagi til þess svæðis sem sannanlega sé ekki hægt að nýta undir íbúðabyggð vegna útblásturs og reyks frá álverinu. Þannig geti skyldan í mesta lagi náð til þynningarsvæðisins í kringum álverið, þ.e. varakröfu stefnenda, sem þeir telji vera 247,6 hektara að stærð, enda séu aðeins takmarkanir á því hvað varði íbúðabyggð. Engar takmarkanir séu hins vegar á því að hafa íbúðabyggð á svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Stefndu haldi því reyndar fram að út frá sjónarmiðum um mengun sé það ósannað að eitthvað sé því til fyrirstöðu að skipuleggja íbúðabyggð í landi Óttarsstaða innan þynningarsvæðisins. Verði því engar takmarkanir á notkun landsins raktar til stefndu.
Þá byggi stefndu jafnframt á því að meginregla í nábýlisrétti sé að nágranni geti ekki amast við notkun eignar sem honum sé að meinalausu. Þá geti nágranni ekki amast við þeim óþægindum sem stafi frá annarri eign sem hann hafi mátt búast við er hann eignaðist sína eign. Þessi regla eigi við að því leyti sem núverandi eigendur hafi ekki verið eigendur á þeim tíma sem samið hafi verið um starfrækslu álversins og það hafi hafið starfsemi sína, þ.e. á árunum 1966 til 1969.
Að mati stefndu eigi bótakröfur stefnenda ekki við nein rök að styðjast. Hafi stefnendur hvorki sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir tjóni né hafi þeir gert það sennilegt að svo hafi verið. Tölur um verðmæti lands á nálægum jörðum segi ekkert enda byggi stefnendur á því að tjón þeirra liggi í því að þeir geti ekki nýtt landið undir íbúðabyggð. Fyrir liggi hins vegar að þeir geti nýtt landið, eða að minnsta kosti hluta þess, undir atvinnustarfsemi og þá hugsanlega hafnarstarfsemi. Málatilbúnaður stefnenda ætti því með réttu að beinast að því að sýna fram á eða gera líklegt að það sé í raun mismunur á milli verðmætis lands undir atvinnustarfsemi og lands undir íbúðabyggð. Ekkert liggi hins vegar fyrir um það heldur sé einungis fullyrt að svo sé. Slíkar fullyrðingar séu ekki nægar til að það teljist sannað eða að líkur teljist fyrir því að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni. Þá sé óljóst hvernig fari um nýtingu landsins til framtíðar og því allsendis óljóst hvort stefnendur verði fyrir tjóni og þá hvert tjónið sé. Ekki liggi fyrir að stefnendum hafi verið neitað um nýtingu landsins í samræmi við hugmyndir þeirra og ekkert liggi fyrir um að skerðing á nýtingu landsins verði rakin til stefndu. Þá liggi ekkert fyrir um það, jafnvel þótt starfsemi álversins hefði ekki komið til, að stefnendum hefði verið heimilt að skipuleggja land sitt undir íbúðabyggð.
Þá sé byggt á því að stefndu hafi öðlast rétt til nýtingar lands stefnenda fyrir hefð samkvæmt. 2. gr. laga nr. 46/1905 þar sem stefndi, Alcan á Íslandi hf., hafi í fullan hefðartíma, eða í 20 ár, haft þau umráð eða nýtingarrétt yfir landi stefnenda sem stefnendur geri nú athugasemdir við, án vitneskju um að þau not kynnu að stangast á við meintan betri rétt stefnenda. Í það minnsta verði að telja að stefndu hafi unnið ósýnilegt ítak í landi stefnenda samkvæmt 8. gr. sömu laga, enda notkunin verið við lýði í 40 ár samfleytt. Sömuleiðis sé á því byggt að með aðgerðaleysi sínu hafi stefnendur samþykkt skerðingar á notum á landi sínu, eða stefndu unnið þar nýtingarrétt vegna þegjandi samþykkis, í krafti traustfangsreglna eða fyrir venju. Ef ekki verði talið að stefndu hafi öðlast rétt til núverandi nýtingar með stoð í framangreindum sjónarmiðum byggi þeir á því að stefnendur hafi með tómlæti og afskiptaleysi fyrirgert rétti sínum, verði á annað borð fallist á að einhver réttur hafi verið fyrir hendi.
Hér verði að hafa í huga að samningar um starfsemi álversins hafi verið undirritaðir 28. mars 1966 og hafi álverið tekið til starfa um þremur árum síðar. Hafi það því starfað í tæplega 40 ár áður en nokkrar athugasemdir eða kröfur hafi komið fram af hálfu stefnenda, sem fyrst hafi komið til vitundar forsvarsmanna stefnda, Alcan á Íslandi hf., um mitt ár 2005. Sé ljóst að á þessum langa tíma hafi eigendum Óttarsstaða gefist fjölmörg tækifæri til þess að gera athugasemdir við að gengið væri á eignarrétt þeirra, um að starfsemin væri óheimil vegna hagsmuna þeirra eða að koma að kröfum sínum um bætur vegna skerðingar á eignarráðum landsins. Engum slíkum athugasemdum, mótmælum eða kröfum sýnist hafa verið hreyft fyrr en nærri fjörutíu árum eftir setningu laga nr. 76/1966.
Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun skuli allur slíkur atvinnurekstur hafa gilt starfsleyfi og sé óheimilt að hefja starfsleyfisskyldan atvinnurekstur án þess að slíkt starfsleyfi hafi verið gefið út. Samkvæmt 24. gr. sömu reglugerðar skuli útgefandi starfsleyfis tryggja að almenningur eigi greiðan aðgang að starfsleyfisumsóknum og skuli umsókn liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar ásamt starfsleyfistillögu og sé heimilt að gera athugasemdir við tillöguna innan tiltekins frests. Samkvæmt sama ákvæði skuli útgefandi starfsleyfis auglýsa á tryggan hátt að starfsleyfistillaga sé komin fram, hvers efnis hún sé og hvar hún liggi frammi. Einnig skuli tilgreina frest til þess að gera skriflegar athugasemdir við tillöguna innan átta vikna frá auglýsingu.
Hinn 7. nóvember 2005 hafi Umhverfisstofnun gefið út starfsleyfi til stefnda, Alcan á Íslandi hf., til reksturs allt að 460.000 tonna álvers. Í starfsleyfinu sé gert ráð fyrir að stærð þynningarsvæðis verði óbreytt og svæði takmarkaðrar ábyrgðar skuli fara eftir ákvæði 12. gr. aðalsamnings. Þá sé þar að finna ítarlega skilmála um varnir til að draga úr mengun ytra umhverfis, meðal annars kveðið á um tiltekin viðmið við losun gastegunda, ryks, hávaða o.s.frv. Starfsleyfið gildi til 1. nóvember 2020 með endurskoðun að jafnaði á fjögurra ára fresti. Starfsleyfisumsókn ásamt starfsleyfistillögu Umhverfisstofnunar hafi legið frammi á skrifstofu stofnunarinnar, auk þess sem hún hafi verið auglýst í Lögbirtingablaðinu og Morgunblaðinu hinn 10. ágúst 2005. Ekki verði séð að nokkrar athugasemdir hafi komið fram af hálfu stefnenda. Þá hafi engar athugasemdir heldur komið fram frá stefnendum þegar starfleyfi hafi verið gefið út vegna reksturs álversins árið 1995 eftir því sem næst verði komist. Þá verði ekki séð að athugasemdir á grundvelli skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi komið fram fyrr en með bréfi lögmanns stefnenda 26. apríl 2006.
Sé því ljóst að stefnendur hafi haft mörg tækifæri á þeim tæplega 40 árum sem álverið hafi verið starfrækt til þess að koma á framfæri kröfum eða sjónarmiðum vegna hinnar meintu skerðingar á notum á landi þeirra. Ekki verði séð að neinar slíkar athugasemdir hafi komið til vitundar stefnda, Alcan á Íslandi hf., fyrr en á miðju ári 2005, er lögmaður þeirra hafi sett sig í samband við stefnda, Alcan á Íslandi hf., og boðið honum land Óttarsstaða til kaups. Eigendur Óttarsstaðalandsins hafi ekki gripið til neinna þeirra úrræða sem fyrir hendi hafi verið til að gæta hagsmuna sinna þegar starfræksla álversins hófst. Hafi stefnendur því með sinnuleysi sínu og tómlæti fyrirgert öllum kröfum á hendur stefndu vegna hugsanlegrar skerðingar á notum þeirra af landi Óttarsstaða, hafi þær á annað borð einhvern tímann verið fyrir hendi. Jafnframt hafi tómlæti þeirra veitt stefndu réttmætar væntingar til þess að geta haft not af umtalsverðum fjárfestingum sínum hér á landi og hagað rekstri álversins áfram með sama hætti og hingað til, svo lengi sem sú notkun og sá rekstur sé innan marka laga og reglna.
Þá verði að hafa í huga að meirihluti stefnenda, að minnsta kosti eigendur Óttarsstaða I, hafi ekki eignast land sitt fyrr en löngu eftir að álverið hafði hafið starfsemi sína. Hafi þeim þá mátt vera ljóst að frá álverinu stöfuðu gastegundir og reykur sem dreifðist um nærliggjandi svæði. Það stoði því ekki fyrir þessa sömu stefnendur nú að krefjast bóta vegna þeirrar skerðingar sem þeir telji starfsemi álversins hafa í för með sér fyrir nýtingu lands þeirra, þegar þeir hafi vitað eða mátt vita um starfsemi álversins og þær hugsanlegu takmarkanir sem starfsemi þess hefði í för með sér. Þá stoði þessa sömu aðila ekki að kvarta yfir því að aðalsamningurinn eða starfsemi álversins og þær kvaðir sem þeir telji felast í starfsemi þess hafi ekki verið kynnt þeim, leitað samþykkis, gefinn kostur á andmælum eða samráði, enda hafi þeir ekki verið landeigendur á þeim tíma sem hér um ræði.
Þá sé jafnframt byggt á því að allar kröfur stefnenda, hafi þær einhvern tíma verið fyrir hendi, séu fyrndar. Hafi þau orðið fyrir einhverju tjóni hafi það átt sér stað fyrir um 40 árum síðan þegar álverið hóf starfsemi sína og svæði takmarkaðrar ábyrgðar hafi verið skilgreint. Í síðasta lagi geti meint tjón stefnenda hafa átt sér stað árið 1995 þegar þynningarsvæði hafi verið skilgreint og þeirri reglu komið á að engin íbúðabyggð skyldi vera innan slíks svæðis. Sé því 10 ára fyrningarfrestur liðinn samkvæmt lögum nr. 14/1905, hvað þá 4 ára fyrningarfrestur samkvæmt núgildandi fyrningarlögum nr. 150/2007.
Sé því alfarið hafnað að skilyrði séu fyrir hendi til að fallast á kröfur stefnenda á grundvelli ólögfestra sjónarmiða um óréttmæta auðgun. Hafi stefndu ekki hagnast á kostnað stefnenda í þessu máli auk þess sem alls ósannað sé að stefnendur hafi orðið fyrir nokkru tjóni vegna starfsemi álversins.
Þá sé því sömuleiðis mótmælt að greiðslureglan svokallaða, sbr. 2. mgr. 73. gr. EES-samningsins, geti leitt til þess að taka skuli kröfur stefnenda til greina, enda felist í ekkert annað í henni en að sá sem valdi tjóni með mengun skuli bera ábyrgð á því eftir almennum reglum, þ.e. samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Eins og hér hafi verið rakið sé ekki um neina saknæma eða ólögmæta háttsemi að ræða af hálfu stefndu eða tjón sem stefnendur hafi orðið fyrir og því sé ekkert tilefni til að taka kröfur stefnenda til greina.
Þá sé því alfarið hafnað að stefndu beri ábyrgð á grundvelli hlutlægra ábyrgðarreglna, en engin sjónarmið séu færð fram þessu til stuðnings í stefnu, önnur en fullyrðingar um að stefndu beri ábyrgð á hlutlægum grundvelli án frekari skýringa. Ekki hafi verið vísað til settra lagareglna sem geti leitt til þeirrar niðurstöðu, en engin rök séu til þess að fella hlutlæga bótaábyrgð á stefndu án slíkrar lagaheimildar.
Málatilbúnaður stefnenda byggi á því að mengun frá starfsemi álversins í Straumsvík takmarki not þeirra af landi sínu að Óttarsstöðum. Ljóst sé hins vegar að sú starfsemi sé rekin af stefnda, Alcan á Íslandi hf., en ekki móðurfélagi þess, stefnda Alcan Holdings Switzerland Ltd. Þrátt fyrir það að stefndi, Alcan á Íslandi hf., sé að öllu leyti í eigu móðurfélagsins, sé hér um tvo aðskilda lögaðila að ræða. Því beri að sýkna stefnda Alcan Holdings Switzerland Ltd. af öllum kröfum stefnenda í málinu, enda standi hann ekki fyrir þeirri starfsemi sem stefnendur setji út á, nema sem hluthafi í stefnda Alcan á Íslandi hf. Aðild móðurfélagsins að aðalsamningi um starfrækslu álversins skipti engu í þessu máli, enda ekki gerðar dómkröfur sem varði gildi þess samnings.
Sé ljóst af öllu ofangreindu að ekkert tilefni sé til þess að taka kröfur stefnenda til greina og beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda í málinu.
Um lagarök til viðbótar því sem að framan er rakið vísa stefndu til 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, sbr. einnig 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísa þeir til 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og varðandi málskostnað til 129., sbr. 130. gr. þeirra laga. Þá vísa stefndu til ólögfestra reglna nábýlisréttar, venjuréttar og reglna um traustfang sem og meginreglna kröfuréttar um óréttmæta auðgun.
Málsástæður og lagarök stefnda, íslenska ríkisins.
Stefndi kveður að í 3. gr. aðalsamnings sé fjallað um ábyrgðir af hálfu ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse, en samkvæmt gr. 3.01 ábyrgist stefndi efndir Landsvirkjunar samkvæmt rafmagnssamningi og efndir meðstefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt hafnar- og lóðarsamningi gagnvart meðstefnda, Alcan á Íslandi hf. Í aðalsamningi sé hins vegar ekki að finna nein ákvæði um ábyrgð stefnda gagnvart þriðja aðila. Í 12. gr. aðalsamningsins sé fjallað um mengun og ábyrgð meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., á tjóni af völdum mengunar. Í niðurlagi gr. 12.01 segi að aðrir þeir sem frá gildistöku samningsins taki sér bólfestu innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar eða eignist þar eignir, taki með því á sig áhættu á hvers konar tjóni að því er varði búskap og garðyrkju, er hljótist af gastegundum eða reyk frá bræðslunni. Af orðalagi ákvæðisins verði ráðið að það takmarki ekki á nokkurn hátt eignarráð landeigenda á svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Í 2. kafla hafnar- og lóðarsamnings sé fjallað um bræðslulóðina, en skilgreining á henni komi fram í 2. gr. Í gr. 2.03 sé kveðið á um aðgang meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., að bræðslulóð þar sem gerð sé krafa um að ekki skuli önnur mannvirki til íbúðar byggð á bræðslulóðinni en íbúðarhúsnæði fyrir varðmenn og starfsmenn er vera þurfi til taks í viðlögum. Frá þessari reglu sé gerð undantekning varðandi íbúðabyggingar til bráðabirgða og skyldum mannvirkjum meðan á byggingaframkvæmdum standi. Í skýringum við fylgisamningana, sem birt hafi verið sem fylgiskjal með frumvarpi til laga um lagagildi samningsins, sé nánar fjallað um bræðslulóðina. Þar komi meðal annars fram að ekki sé heimilt að hafa annan atvinnurekstur á bræðslulóðinni en tiltekið sé í 1. gr. aðalsamnings. Stefndi bendi enn fremur á þá staðreynd að samkvæmt núverandi aðalskipulagi hafi meðstefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, skipulagt íbúðarhúsnæði innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og á því svæði standi nú þegar íbúðarhúsnæði.
Hvað bræðslulóðina varði hafi það verið stefna ríkisstjórnarinnar í upphafi viðræðna milli íslenska ríkisins, Alusuisse og Hafnarfjarðarkaupstaðar um álver í Straumsvík að ríkið eignaðist þær lóðir sem verksmiðjan yrði reist á, og myndi síðan leigja þær fyrirtækinu. Hafi þáverandi bæjarstjórn ekki getað fellt sig við þær hugmyndir. Hafi hún talið að verksmiðja, sem reist yrði í landi Hafnarfjarðar, væri orðin hafnfirskt fyrirtæki, sem bærinn ætti að hafa hag af á sama hátt og af öðrum fyrirtækjum í lögsagnarumdæmi kaupstaðarins. Það hafi einnig verið þeirra álit að við þá bæri að semja um aðstöðuna í Straumsvík, hvort heldur væri um lóð eða höfn að ræða. Þá hafi meðstefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, einnig gert kröfu um að í þeirra sjóð rynni ákveðið hlutfall af gjöldum fyrirtækisins. Lyktir hafi orðið þær að hafnar- og lóðarsamningur um starfsemi álvers í Straumsvík hafi verið gerður milli meðstefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar og ISAL, nú Alcan á Íslandi hf., 28. mars 1966 og hafi verið samið um hlutdeild bæjarins í framleiðslugjaldi því sem ISAL greiddi til ríkisins. Með þessari aðgerð hafi stefndi dregið sig út úr öllum afskiptum af hafnar- og lóðarmálum í landi meðstefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Virðist engar skipulagskvaðir hafa verið lagðar á landareignir vestan Straumsvíkur í fyrstu. Hafi aðalskipulag Hafnarfjarðar fyrir árin 19681983 ekki tekið afstöðu til landnýtingar á þeim slóðum. Þetta styðji þá skoðun stefnda að aðalsamningur hafi ekki falið í sér neinar takmarkanir á eignarráðum landeigenda. Í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1980-2000, 1995-2015 og 2005-2025 hafi landið vestan Straumsvíkur verið skipulagt fyrir höfn og hafntengda starfsemi. Virðist því vera opin leið fyrir landeigendur að gera tillögur um landnýtingu með ýmsum hætti öðrum en til íbúðabygginga.
Í tillögum að aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 gæti nokkurrar óvissu um svæðið vestan Straumsvíkur. Hafi meðstefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, ákveðið að fresta í allt að 4 ár skipulagi á 160 ha svæði vestan Straumsvíkur í samræmi við 20. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Tillaga að aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 hafi verið auglýst samkvæmt lögum og hafi athugasemdafresti lokið 2. maí 2006. Bæjarstjórn hafi samþykkt tillöguna að teknu tilliti til athugasemda sem borist hafi 16. maí 2006, þar á meðal frá landeigendum vestan Straumsvíkur. Það veki því furðu að eigendur Óttarsstaða geri tillögu, í erindi 3. nóvember 2006, til bæjarstjórnar um deiliskipulag á þessu svæði fyrir byggingu þúsunda íbúða. Hins vegar séu fordæmi fyrir því að þegar eftirspurn myndist fyrir nýtingu lands innan leyfilegra marka, svo sem fyrir iðnað og höfn, þá þurfi að semja um afnot af eða kaup á landinu við landeigendur.
Stefndi bendir á að hluti lands Óttarsstaða sé bundinn af lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, sbr. bls. 11 í Náttúruminjaskrá, sjöunda útgáfa 1996. Um sölu jarða sem séu á náttúruminjaskrá vísist til 69. gr. laga nr. 44/1999. Í tillögu að aðalskipulagi Hafnarfjarðar 20052025 sé fjallað um þetta og hverfisverndarákvæði. Um hverfisverndarsvæðin gildi þau almennu ákvæði að þar megi ekki raska landi né spilla minjum og sé í kafla 4.22 í skipulagsreglugerð gerð grein fyrir gildi þeirra og sérákvæðum um vernd þar sem það eigi við. Allar framkvæmdir eða breytingar á hverfisverndarsvæðum séu háðar umfjöllun í umhverfisnefnd, skipulags- og byggingarráðs sem og staðfestingu bæjarstjórnar, sbr. skipulags- og byggingarlög. Sé skipulagsvald í höndum sveitarstjórna samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og vísist meðal annars til 2. kafla laganna til 2. mgr. 3. gr. og 12., 13., 16., 18., 20., 23. og 25. gr. Vald til skipulagningar bæjarins sé hjá meðstefnda, Hafnarfjarðarkaupstað. Í lögunum sé að finna ákvæði um bætur vegna skipulags og yfirtöku eigna o.fl., sbr. 33. gr. laganna. Af framangreindu sé ljóst að skipulagsyfirvöld sem og náttúruverndarsjónarmið setji ákveðnar kvaðir á umrætt landsvæði um nýtingu þess til íbúðabygginga. Því séu ekki með öllu ljós mörk þess svæðis innan lands Óttarsstaða þar sem heimilt sé að reisa íbúðarhúsnæði og um leið hvort til þess fáist samþykki yfirvalda. Til að reisa mannvirki þurfi að afla byggingarleyfis hjá viðkomandi sveitarfélagi samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Auk þess sé gerð sú krafa í 43. gr. laganna að framkvæmdirnar séu í samræmi við staðfest aðalskipulag eða staðfest deiliskipulag. Það sé því alls ekki sjálfgefið að í rétti landeiganda til að ráðstafa eign sinni felist ótakmarkaður réttur til framkvæmda, ef slíkt fari í bága við staðfest aðal- eða deiliskipulag. Ósannað sé með öllu, og því sé jafnframt mótmælt, að land Óttarsstaða innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis sé eitt heppilegasta íbúðarsvæði í þéttbýlinu á suðvesturhluta landsins og að án álbræðslunnar hefði íbúðabyggð þróast áfram í vestur með ströndinni frá Hvaleyrarholti.
Hafi landið vestan Straumsvíkur verið hugsað fyrir höfn og hafnsækinn iðnað frá því að meðstefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, hóf að skipuleggja svæðið seint á áttunda áratug síðustu aldar. Frá þeim tíma hafi verið óheimilt að byggja þar íbúðarhús. Margar tilraunir hafi verið gerðar á undanförnum áratugum af hálfu opinberra- og einkaaðila til þess að byggja upp hafnsækinn iðnað og stækka Straumsvíkurhöfn til vesturs. Þær tilraunir hafi ekki borið árangur. Landeigendur virðist hafa sýnt skipulagsmálum, mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfisveitingum á svæðinu lítinn áhuga og tómlæti þegar tækifæri hafi gefist til að gera athugasemdir við stjórnvaldsaðgerðir þar til á allra síðustu misserum.
Komi til þess að fjárfestar vilji hefja uppbyggingu á svæðinu liggi í augum uppi að semja þurfi við landeigendur um afnot eða kaup á viðkomandi landi. Þangað til það gerist verði að líta svo á að eftirspurn skorti til þess að nýta landið þannig að eigendur hafi af því fjárhagslegan ávinning. Fordæmi séu fyrir því að land í einkaeigu sem skipulagt sé fyrir iðnað og höfn hafi verið selt fyrir gott matsverð og ekki lakara en land fyrir íbúðabyggð. Til þess að það gerist þurfi að vera markaður fyrir slík viðskipti.
Með lögum nr. 50/1981 hafi verið komið á heildstæðum lagabálki sem ætlað hafi verið að tryggja landsmönnum heilnæm lífsskilyrði. Hafi lög þessi verið endurútgefin sem lög nr. 81/1988 og með stoð í síðarnefndu lögunum hafi mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 verið sett af umhverfisráðherra. Á þessu tímabili hafi yfirstjórn mengunarvarna farið frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra yfir til nýstofnaðs ráðuneytis umhverfismála, sbr. 8. gr. laga nr. 47/1990. Í 2. gr. reglugerðar nr. 48/1994 hafi verið kveðið á um þynningarsvæði sem þar hafi verið skilgreint. Samkvæmt 4. gr. hafi Hollustuvernd ríkisins borið að annast eftirlit með atvinnurekstri og nánar til greindri starfsemi, þar með talið álframleiðslu. Í 5. kafla reglugerðar nr. 48/1994 hafi verið kveðið á um varnir gegn loftmengun. Í reglugerðinni hafi verið kveðið á um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem gæti haft í för með sér mengun. Reglugerð nr. 785/1999 hafi síðan komið í stað reglugerðar nr. 48/1994.
Með lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hafi yfirstjórn hollustu- og mengunarmála verið endanlega færð í hendur umhverfisráðherra. Þar hafi verið skerpt á stjórnsýslu varðandi útgáfu starfsleyfa. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. a. laga nr. 7/1998 skuli allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. Vísist í þessu sambandi einnig til 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Áður en starfsleyfi sé gefið út skuli Umhverfisstofnun tryggja aðgang almennings að starfsleyfisumsóknum, sbr. 1. mgr. 24. gr., en almenningi sé heimilt að gera athugasemdir við umsóknina innan tiltekins frests. Óheimilt sé að hefja starfsleyfisskyldan atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. a. sé útgefanda leyfis heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess sé liðinn vegna breyttra forsendna. Sé því ekki loku skotið fyrir það að það bráðabirgðaþynningarsvæði, sem ákvarðað hafi verið af Hollustuvernd ríkisins árið 1997, með stoð í starfsleyfi meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., frá árinu 1995, verði tekið til endurskoðunar er kunni jafnvel að leiða til minnkunar þess svæðis. Umhverfisráðherra hafi frá setningu laga nr. 7/1998 staðfest ýmsar mengunarvarnareglugerðir með stoð í fyrrnefndum lögum þar sem kveðið sé á um þynningarsvæði.
Umhverfisráðherra fari með yfirstjórn mála samkvæmt lögum nr. 7/1998, sbr. 9. gr. Í 4. gr. reglugerð nr. 785/1999 komi fram að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerðinni og samkvæmt 5. gr. hafi Umhverfisstofnun yfirumsjón með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt. Vísist meðal annars til 1. og 2. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 787/1999. Nánar sé kveðið á um þynningarsvæði í reglugerð nr. 941/2002 en samkvæmt 23. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að íbúðarhúsnæði skuli ekki vera á þynningarsvæði.
Tvö formleg starfsleyfi haf verið gefin út fyrir álverið í Straumsvík, árið 1995 af umhverfisráðuneyti og árið 2005 af Umhverfisstofnun. Starfsleyfi umhverfisráðuneytis fyrir Íslenska álfélagið hf. vegna verksmiðjunnar í Straumsvík hafi verið gefið út 7. nóvember 1995. Hafi þeim sem hagsmuni höfðu af útgáfu starfsleyfa verið veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum um fram komna tillögu til starfsleyfis. Ekki verði séð af gögnum málsins að stefnendur hafi gert athugasemdir við framangreinda starfsleyfistillögu.
Reglugerð nr. 48/1994 hafi síðar verið leyst af hólmi með reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Núgildandi lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, hafi svo leyst af hólmi lög nr. 81/1988.
Stefnendur haldi því fram að ekkert samráð hafi verið haft við þá eða leitað leyfis þeirra við gerð samninga um takmörkun ábyrðar eða afmörkun þynningarsvæðis. Hvað snertir afmörkun þynningarsvæðis kveður stefndi að tillaga að starfsleyfi fyrir meðstefnda Alcan á Íslandi hf. hafi verið auglýst 10. ágúst 2005 í Lögbirtingablaðinu og í Víkurfréttum sem dreift sé í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi, í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Athugasemdafrestur hafi verið til 5. október 2005. Á þeim tíma hafi öllum aðilum, almenningi svo og mögulegum rétthöfum gefist gott tækifæri til að koma að athugasemdum við tillögu að starfsleyfi. Áður hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þar sem gefist hafi kostur á því að koma að athugasemdum. Ekki sé gerð krafa um það í gildandi lögum eða reglugerðum að haft sé samráð umfram það við eigendur og mögulega rétthafa. Ekki sé heldur gerð krafa um að umsækjandi um starfsleyfi sendi inn upplýsingar um eigendur og rétthafa eða að útgefandi afli slíkra upplýsinga.
Hvað snertir starfsleyfi það sem Umhverfisstofnun gaf út 7. nóvember 2005 kveður stefndi að réttaráhrif varðandi landnotkun innan þynningarsvæðis álversins í Straumsvík miðist við gildistöku skipulagsins og að engin viðbótarréttaráhrif hafi orðið hvað varði mögulega byggingu íbúðarhúsnæðis við útgáfu starfsleyfisins.
Bæði framangreind starfsleyfi hafi verið auglýst í samræmi við lög og reglur þar að lútandi og hafi verið veittur hæfilegur frestur til að skila athugasemdum við tillögur að starfsleyfum í samræmi við þær reglur sem giltu þegar starfsleyfin voru auglýst. Ekki verði séð af gögnum málsins að athugasemdir hafi borist frá stefnendum við auglýstar starfsleyfistillögur og hefur starfsleyfum þessum ekki verið hnekkt.
Þynningarsvæðið sé sett til bráðabirgða og því ekki um endanlega stærð þess að ræða enda háð breytingum á loftmengun á hverjum tíma. Samkvæmt tillögu að aðalskipulagi fyrir Hafnarfjarðarbæ 20052025 sé umrætt þynningarsvæði skilgreint sem „bráðabirgða þynningarsvæði“ og því ekki loku skotið fyrir endurskoðun á mörkum þess svæðis, þ.e. við gerð aðalskipulags.
Vegna ákvæðis starfsleyfis um endurskoðun þess, bendir stefndi á að samkvæmt rannsókn Iðntæknistofnunar frá árinu 2005 hafi magn flúoríðs í gróðri við álverið í Straumsvík náð þeim náttúrulegum mörkum sem þar hafi verið fyrir tíma álversins. Samkvæmt rannsókninni hafi magn flúoríðs aukist frá þeim tíma sem álverið tók til starfa en með bættri tækni og mengunarvörnum hafi tekist að ná tökum á útblæstri með fyrrgreindum árangri. Með öðrum orðum þá hafi dregið úr magni flúoríðs á því svæði sem skilgreint hafi verið sem þynningarsvæði frá árinu 1997.
Í umhverfismati vegna álversins fyrir stækkun í 200.000 tonn árið 1995 sé fjallað í frummatsskýrslu um landeigendur og samráð við umsagnaraðila. Þar sé minnst á land Óttarsstaða og Lónakots vestan Straumsvíkur. Ekki komi fram í frummatsskýrslunni að landeigendur þessara jarða séu umsagnaraðilar. Í úrskurði skipulagsstjóra frá 11. september 1995 komi fram að leitað hafi verið eftir umsögnum þriggja opinberra aðila, þ.e. Náttúruverndar ríkisins, Náttúruverndarráðs og bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Í úrskurðinum komi einnig fram að framkvæmdin hafi verið auglýst opinberlega í þar til greindum blöðum og að frummatsskýrslan hafi legið frammi til kynningar hjá embætti skipulagsstjóra, á bæjarskrifstofum Hafnarfjarðarbæjar og á bókasafni Hafnarfjarðar. Alls hafi borist 4 athugasemdir á kynningartíma. Hvergi komi fram í úrskurðinum að landeigendur jarða vestan Straumsvíkur hafi sent inn athugasemdir þrátt fyrir opinbera kynningu frummatsskýrslunnar. Engar kærur hafi borist umhverfisráðuneytinu vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar.
Í umhverfismati fyrir stækkun álversins í 460.000 tonn árið 2002 sé fjallað í matsskýrslu um jarðirnar Lónakot og Óttarsstaði í tengslum við fjárbúskap og landnýtingu. Ekki hafi verið haft samband sérstaklega við eigendur þessara jarða. Við afgreiðslu umhverfismatsins hafi landeigendur Óttarsstaða og Lónakots ekki verið á meðal umsagnaraðila Skipulagsstofnunar. Á kynningartíma umhverfismatsins hafi borist 3 athugasemdir frá jarðeigendum. Það hafi verið frá eigendum Óttarsstaða Vestri, Sigurjóni Ragnarssyni, einum eigenda Óttarsstaða, og Kornelíusi Jónssyni, eiganda helmings jarðarinnar Lónakots. Öllum þessum athugasemdum hafi verið svarað sérstaklega og svör send Skipulagsstofnun. Í úrskurði Skipulagsstofnunar 28. október 2002, með síðari breytingum, sé minnst á athugasemdir jarðeiganda Lónskots og Óttarsstaða. Í úrskurðinum segi meðal annars að komi ekki til þess að þynningarsvæði verði stækkað telji Skipulagsstofnun að stækkun álversins eigi ekki að hafa frekari takmarkanir á landnotkun í för með sér utan núverandi þynningarsvæðis. Engar kærur hafi borist umhverfisráðuneytinu vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar.
Með vísan til þess sem að framan sé rakið um lagagrundvöll þeirra starfsleyfa sem gefin hafi verið út frá árinu 1995 fyrir álverið sé á því byggt að starfsleyfin, ákvörðun þynningarsvæðis og aðrar ákvarðanir stjórnvalda hafi verið fyllilega lögmætar og sé öðru mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Stefnendur hafi sönnunarbyrði fyrir því að umrædd leyfi og umræddar ákvarðanir hafi verið ólögmætar. Öll leyfi og ákvarðanir hafi byggst á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Þá skuli á það bent að núverandi lína þynningarsvæðis sé aðeins til bráðabirgða. Að mati stefnda sé ákvörðun um þynningarsvæði ákvörðun sem sé ekki íþyngjandi fyrir landeigendur og sé hún almenn. Starfsleyfi sé opinber staðfesting yfirvalda um að mengunarmál séu í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í lögum og reglugerðum.
Stefnendur hafi ekki hnekkt þessum starfsleyfum og ekki nýtt rétt sinn til andmæla. Sé á því byggt að umrætt þynningarsvæði eða starfsleyfi til álversins takmarki ekki eignarrétt stefnenda að nokkru leyti. Starfsleyfin og ákvarðanir umhverfisráðuneytis og forvera þess, svo og Umhverfisstofnunar, hafi verið ítarlega rökstudd. Sé rangt og ósannað að stefndi hafi í starfsleyfum farið út fyrir heimildir sínar.
Stefndi mótmælir því að í aðalsamningi hafi falist ráðstöfun á landareign stefnenda í þeim skilningi sem þeir leggi til grundvallar og því hafi samningurinn ekki kallað á að stefndi aflaði sér heimilda eins og stefnendur byggi á. Sé því mótmælt að landareign stefnenda hafi verið bundin kvöðum. Hvorki í aðalsamningi né í öðrum gerðum stefnda felist skerðing eða svipting á eignarrétti stefnenda á umræddu svæði. Stefnendur hafi því ekki orðið fyrir neinu tjóni af völdum ákvæða aðalsamningsins. Sé því mótmælt að á stefnda hvíli bótaskylda á grundvelli ákvæða í aðalsamningi eða á öðrum grundvelli, enda engin skilyrði til þess.
Eins og fram komi í stefnu hafi jörðin Óttarsstaðir II verið óslitið í eigu sömu fjölskyldunnar í tæpa öld og hafi eigendaskipti orðið fyrir arf og skipti. Jörðin Óttarsstaðir I hafi komist í eigu núverandi eigenda árið 1974 og 1999 en þá hafði álbræðslan í Straumsvík þegar hafið starfsemi sína. Sé því ljóst að sömu reglur geti ekki átt við eigendur Óttarsstaða I og eigi við um eigendur Óttarsstaða II, meðal annars með vísan til 12. gr. aðalsamnings. Stefnendur hafi eignast jarðirnar á mismunandi tímum og megi gera ráð fyrir því að væntingar þeirra sem eignuðust Óttarsstaði II upphaflega og væntingar þeirra sem eignuðust Óttarsstaði I árin 1974 og 1999 hafi verið talsvert ólíkar. Hefði eigendum Óttarsstaða I verið í lófa lagið að kynna sér upplýsingar um álbræðsluna á sínum tíma.
Í stefnu komi fram af hálfu stefnenda að ekkert samráð hafi verið haft við þá eða leitað leyfis þeirra við gerð samninga um takmörkun ábyrgðar eða afmörkun þynningarsvæðis með þeim eignarskerðingum sem þeim ráðstöfunum hafi fylgt fyrir stefnendur. Hafi stefnendum ekki verið tilkynnt um að stefndu, íslenska ríkið og eigandi álbræðslunnar, hefðu komist að samkomulagi um að álbræðslunni í Straumsvík væri heimilt að haga starfsemi sinni þannig að hún útilokaði eðlileg afnot og hagnýtingu jarðarinnar að hluta. Þessu mótmæli stefndi. Þrátt fyrir eftirgrennslan hafi stefnda ekki tekist að afla upplýsinga um hvort samskipti hafi átt sér stað milli stefnda og landeigenda Óttarsstaða. Hins vegar telji stefndi það engu máli skipta. Miklar umræður hafi átt sér stað bæði í samfélaginu og á Alþingi um álverið og allt sem því tengdist. Þetta, auk staðsetningar og eðlis starfseminnar, hljóti að hafa orðið þess valdandi að landeigendum hafi verið ljóst hvað væri á ferðinni. Þá hafi aðalsamningurinn öðlast lagagildi og verið birtur í A-deild Stjórnartíðinda. Auk þess sé rangt að aðalsamningur hafi á sínum tíma útilokað eðlileg afnot og hagnýtingu jarðarinnar að hluta. Sé á því byggt að aðalsamningur, viðaukasamningar og fylgiskjöl, þar með taldir uppdrættir, hafi öðlast lagagildi.
Stefnendur haldi því fram að með samningi stefnda við meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., og með samþykki meðstefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, hafi verið komið í veg fyrir að landið verði nothæft til íbúðabyggðar. Stefndi telur að slík afnotatakmörkun verði ekki ráðin af skipulagsgögnum Hafnarfjarðar fyrir tímabilið 1968-1983 og það sama eigi við um aðalskipulag Hafnarfjarðar 1980-2000. Það sé fyrst í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 sem sjá megi uppdrátt með afmörkun bráðabirgðamarka þynningarsvæðis.
Stefndi hafni því alfarið að með samningi hans við meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., hafi verið komið í veg fyrir að landið yrði nothæft til íbúðabyggðar. Enga slíka takmörkun sé að finna í aðalsamningi. Þetta útskýri hvers vegna engin afnotatakmörkun verði ráðin af skipulagsgögnum Hafnarfjarðar fyrr en með aðalskipulagi 1995-2015. Séu dæmi um að íbúðabyggð hafi verið skipulögð og risið á öðrum stöðum innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar, sbr. aðalskipulag Hafnarfjarðarbæjar 2005-2025. Skipulagsvald sé í höndum sveitarstjórna samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og beri sveitastjórn ábyrgð á því að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Vísist um þetta meðal annars til 2. kafla laga nr. 73/1997. Í ofangreindum lögum sé að finna ákvæði um bætur vegna skipulags og yfirtöku eigna, sbr. 33. gr. Stefndi verði ekki gerður bótaskyldur vegna þessa.
Til að reisa mannvirki þurfi að afla byggingarleyfis hjá viðkomandi sveitarfélagi samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Auk þess sé gerð sú krafa í 43. gr. laganna að framkvæmdirnar séu í samræmi við staðfest aðalskipulag eða staðfest deiliskipulag. Það sé því alls ekki sjálfgefið að í rétti landeiganda til að ráðstafa eign sinni felist ótakmarkaður réttur til framkvæmda, ef slíkt fari í bága við staðfest aðal- eða deiliskipulag. Ósannað sé með öllu, og því sé jafnframt mótmælt, að á landi Óttarsstaða, innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðis, hefði risið eitt heppilegasta íbúðarsvæði í þéttbýlinu á suðvesturhluta landsins og án álbræðslunnar hefði íbúðabyggð þróast áfram í vestur með ströndinni frá Hvaleyrarholti.
Þá mótmæli stefndi því að hann hafi heimildarlaust og andstætt lögum í samningum við eigendur álbræðslunnar í Straumsvík lagt kvöð á land Óttarsstaða í þágu álbræðslunnar án fyrirvara um eignarrétt stefnenda. Stefndi hafi ekki lagt kvöð á land Óttarsstaða. Í aðalsamningi sé ekki að finna neina kvöð á land Óttarsstaða í þágu álbræðslunnar eða að öðru leyti. Því sé mótmælt að um kvöð hafi verið að ræða sem þarfnast hefði þinglýsingar eða tilkynningar til stefnenda. Þá hafi samningurinn og framkvæmdin sem slík fylgt í einu og öllu gildandi lögum. Einnig hafni stefndi þeirri fullyrðingu að hann hafi brotið gegn einu af meginhlutverkum sínum að vernda borgarana fyrir mannréttindabrotum. Hafi ekki verið brotið gegn VII. kafla stjórnarskrár, þar með talið 72. gr. hennar.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnenda að með því að ekki hafi risið ágreiningur um nauðsyn þess að afmarka eldra þynningarsvæði (svæði takmarkaðrar ábyrgðar) fyrir flúoríð á sama hátt og fyrr og að það sé óbreytt frá upphaflegri afmörkun 1966, hafi falist viðurkenning á þeirri hættu sem stafi af mengun á því svæði. Sé svæði takmarkaðrar ábyrgðar, svo sem það sé skilgreint í aðalsamningi, ekki þynningarsvæði.
Þá mótmæli stefndi því að hann hafi í aðalsamningi heimilað að áhrifasvæði mengunar frá álbræðslunni næði langt út fyrir mörk lóðar verksmiðjunnar og yfir á landareignir óviðkomandi aðila og þannig komið í veg fyrir eðlileg not landsins undir íbúðabyggð. Hafi samningurinn verið í alla staði í samræmi við gildandi lög og hafi rekstur álbræðslunnar verið í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma. Staðhæfingar um óheimila, hættulega og löglausa mengun séu úr lausu lofti gripnar. Þá hafi í tengslum við starfsleyfisútgáfu verið tryggt að rekstur álbræðslunnar væri í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma. Sérstaklega sé mótmælt að útblástur gastegunda/reyks frá álveri mengi loft, vatn og/eða land á jörð stefnenda þannig að það takmarki not þeirra af landinu. Samningnum, og síðari viðaukasamningum við hann, hafi verið veitt lagagildi. Landeigendur hafi engar athugasemdir gert við ákvæði samningsins áratugum saman og sé ekki um neinar takmarkanir á eignarráðum stefnenda að ræða.
Á þeim tíma sem aðalsamningur hafi verið gerður hafi ekki verið í gildi þær takmarkanir sem nú gildi varðandi loftmengun.
Þá mótmæli stefndi því sem röngu og ósönnuðu að hann hafi komið í veg fyrir að stefnendur geti notfært sér land sitt á sem hagkvæmastan hátt samkvæmt eigin ákvörðun.
Þá skuli á það bent að í aðalsamningi hafi verið fjallað ítarlega um skyldu meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., til greiðslu framleiðslugjalds, sem komið hafi í stað nánar tilgreindra skatta og gjalda. Með sjötta viðaukasamningi hafi skylda meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., til greiðslu framleiðslugjalds verið felld niður en fyrirtækinu í staðinn gert skylt að standa skil á þeim sköttum og gjöldum sem almennt sé kveðið á um í lögum. Stefnda sé ekki kunnugt um að um aðrar greiðslur hafi verið að ræða, en greiðslur þessar hafi verið almenns eðlis.
Þá kveður stefndi að takmarkanir vegna þynningarsvæða gildi jafnt um alla sem eigi land innan slíkra svæða. Þá hafi hvorki stjórnvöld né álfyrirtæki keypt upp eða greitt fyrir land sem falli innan þynningarsvæða annarra álvera. Bendi stefndi á að ríkissjóður hafi orðið að þola slíkt án greiðslu þegar um ríkisjarðir innan þynningarsvæða sé að ræða. Þá mótmæli stefndi því að með þeim aðgerðum að heimila meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., umrædd not lands jarðarinnar Óttarsstaða hafi ríkið heimildarlaust og andstætt lögum ráðstafað landareign stefnanda. Þá mótmæli stefndi því að hann eigi hlutdeild að skipulagsaðgerðum sem séu bótaskyldar samkvæmt skipulagslögum nr. 19/1964, nú lögum nr. 73/1997. Sé ábyrgð stefnda vegna skipulags mótmælt.
Byggi stefndi á því að allar ákvarðanir hans og stofnana hans í máli þessu hafi verið lögmætar, að formi og efni til. Verði talið að ákvarðanir og aðgerðir stefnda hafi falið í sér takmarkanir á eignarrétti stefnenda þá sé á því byggt að þær hafi verið almennar og innan þeirra marka sem allir þurfi að sæta.
Stefndi kveður fullyrðingar stefnenda um eðlilega nýtingu landsins rangar. Hafi þeir ekki sjálfsákvörðunarrétt um skipulagsmál. Byggi kröfur stefnenda þannig á einhliða spám þeirra sjálfra um þróun íbúðabyggðar sem þeir geti ekkert fullyrt um. Þá sé fullyrðingum stefnenda um verð jarða/lóða mótmælt. Liggi ekki enn fyrir svar frá sveitarfélaginu um erindi stefnenda um skipulagshugmyndir þeirra og sé ósönnuð sú fullyrðing stefnenda að bæjaryfirvöld hafi synjað þeim um byggingarleyfi.
Þá sé á því byggt af hálfu stefnda að tómlæti stefnenda sé stórfellt. Aðalsamningur hafi verið gerður fyrir rúmum 40 árum og honum veitt lagagildi. Þá sé vísað til verulegrar umræðu í þjóðfélaginu um álverið í aðdraganda aðalsamnings og allar götur síðan. Tómlæti stefnenda sé jafnframt stórfellt varðandi allar síðari ákvarðanir sem teknar hafi verið varðandi starfsleyfi, umhverfismat, skipulag bæjarins o.fl. Hafi stefnendur átt einhverja kröfu í málinu sé hún fallin niður fyrir tómlæti.
Þá sé á því byggt af hálfu stefnda að allar kröfur stefnenda, hafi þær verið til staðar, séu löngu fyrndar, en bótakröfur fyrnist á 10 árum samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905. Vísist um þetta að öðru leyti til fyrningarlaga nr. 14/1905, sbr. nú lög nr. 150/2007.
Stefndi mótmælir því að ákvæði 33. gr. laga nr. 73/1997 endurspegli grunnreglu um friðhelgi eignarréttarins, sbr. 72. gr. stjórnarskrár sem leiða eigi til þess að stefndi beri skyldu til að greiða skaðabætur. Stefnendur hafi auk þess ekki sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir tjóni en þeir hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem skaðabótakröfum þeirra viðkomi. Byggi stefndi á því að ekki sé fullnægt skilyrðum skaðabótaréttar fyrir kröfum stefnenda samkvæmt almennu skaðabótareglunni eða öðrum bótareglum. Sé öllum bótakröfum mótmælt og séu engin skilyrði til að taka kröfu stefnenda til greina. Hafi stefnendur ekki orðið fyrir neinu tjóni af völdum stefnda og sé tjón þeirra algerlega ósannað. Byggi málatilbúnaður stefnenda að verulegu leyti á spá um framtíð og um þróun byggðar í Hafnarfirði. Geti stefnendur alls ekki spáð fyrir um og enn síður fullyrt að skipulag hefði orðið með öðrum hætti en nú sé ef ekki hefði komið til samningurinn um álverið. Þá sé á það bent að stærð verksmiðjunnar í dag sé 180.000 tonn þó starfsleyfi hafi verið gefið út fyrir 460.000 tonnum. Sé alls óvíst hvort af slíkri stækkun verði og einnig sé óljóst hve lengi starfsemin verði þar en starfsleyfi séu tímabundin. Þá gildi aðalsamningur til ársins 2014. Kröfugerð stefnenda miðist hins vegar við áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar um aldur og ævi sem ekki standist að mati stefnda. Þá telur stefndi algerlega ósannað að land undir atvinnuhúsnæði eða hafnarsvæði sé verðminna en fyrir íbúðarhúsnæði. Telji stefndi að lóðir fyrir atvinnuhúsnæði og lóðir vegna hafnarsvæðis séu verðmætar á þessum stað. Ekkert mat á verðmætum hafi verið lagt fram í málinu.
Þá séu dómkröfur stefnenda settar fram með þeim hætti að krafa um bótaskyldu miðist við allt svæðið sem krafa nái til. Þessu sé mótmælt enda felist í kröfugerð stefnenda að þeir eigi að fá bótaskyldu viðurkennda fjórfalt. Stefnendur ráði ekki yfir svo stóru svæði.
Þá bendi stefndi á að 12. gr. aðalsamningsins feli aðeins að hluta í sér takmarkaða ábyrgð ISAL. Fjalli meginhluti greinar 12.1. um ábyrgð ISAL á hverju því tjóni sem hljótist af gastegundum og reyk frá bræðslunni á þar til greindu svæði. Þá sé einnig bent á eftirfarandi ákvæði 12. gr.: „Aðrir þeir, sem héðan í frá taka sér bólfestu innan ofannefnds svæðis eða eignast þar eignir, taka með því á sig áhættu á hvers konar tjóni að því er varðar búskap og garðyrkju, er hlýst af gastegundum eða reyk frá bræðslunni “ Ákvæði 12. gr. aðalsamnings sé skýrt um að stefndi beri ekki bótaábyrgð á tjóni sem kunni að hljótast af framangreindu. Stefndi beri heldur ekki ábyrgð að neinu leyti á þeim atriðum sem kröfur stefnenda lúti að. Að mati stefnda sé hann ekki réttur aðili til að beina kröfum að í þessu máli og beri meðal annars að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Þá mótmæli stefndi því að hafa brotið gegn óskráðum reglum nábýlisréttar og séu engin skilyrði til að tengja íslenska ríkið við þessa málsástæðu. Stefndi hafi hvorki verið eigandi landsins né reki álbræðsluna. Þá sé því mótmælt að um vanheimild hafi verið að ræða og að stefndi hafi valdið stefnendum tjóni vegna vanheimildar. Þeirri málsástæðu stefnenda að ráðstafanir ríkisins jafngildi eignarnámi án greiðslu eignarnámsbóta sé mótmælt sem fráleitri. Fullyrðingum um ólögmæti, ásetning eða gáleysi sé harðlega mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þá mótmæli stefndi því að hann sé meðábyrgur stefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, að því er varði skuldbindingar samkvæmt lóðarsamningi. Þá sé því mótmælt að skilyrði lögmætisreglunnar séu ekki uppfyllt. Ekki hafi verið brotið gegn sjónarmiðum um nauðsyn, meðalhóf og jafnræði eins og stefnendur haldi fram. Þá sé því mótmælt að stefndi beri ábyrgð samkvæmt svokallaðri „greiðslureglu“ og að brotið hafi verið gegn stjórnarskrá, meðal annars 65. og 72. gr. eða 1. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sé tilvísun til 1. og 2. mgr. 257. gr. laga nr. 19/1940 mótmælt. Sé ósannað að það svæði sem stefnt sé út af sé gróðurríkasta og fegursta land jarðarinnar og sá hluti sem sé verðmætastur.
Stefnendur hafi ekki hnekkt aðalsamningum, viðaukasamningum og fylgiskjölum sem hafi verið veitt lagagildi. Þá hafi þeir heldur ekki hnekkt þeim starfsleyfum sem gefin hafi verið út.
Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Stefndi kveðst ekki hafa verið aðili að þeim samningi sem gerður hafi verið 28. mars 1966 og ekki haft nein áhrif á efni hans. Sé samningurinn milli íslenska ríkisins og Swiss Aluminum Limited sem sé forveri meðstefnda Alcan Holdings Switzerland. Þessi samningur hafi svo hlotið lagagildi með lögum nr. 76/1966. Þau takmörk og réttaráhrif sem stefnendur haldi fram að felist í 12. gr. samningsins séu ekki á ábyrgð stefnda. Í grein 2.02 í hafnar- og lóðarsamningi milli stefnda og íslenska álfélagsins frá 28. júní 1966, þess efnis að kaupstaðurinn og ríkisstjórnin hafi í hyggju að taka viðeigandi tillit til þarfa bræðslunnar og muni ekki ráðstafa neinum hluta þess svæðis með leigu eða afsali án þess að gera ISAL áður viðvart, sé átt við leigu eða afsali á landi stefnda en ekki jörðum annarra sem stefndi hafi enga heimild til þess að leigja eða afsala. Þessu ákvæði hafi ekki verið fylgt í framkvæmd. Stefndi verði, eins og önnur sveitarfélög í landinu, að fara að lögum við skipulagsgerð og meðal annars að virða efni nefndra laga nr. 76/1996 sem átt hafi við í skipulagi á þessu umrædda svæði.
Sömu sjónarmið eigi við um starfsleyfi verksmiðjunnar. Núgildandi starfsleyfi fyrir álverið frá 7. nóvember 2005 hafi verið útgefið af Umhverfisstofnun með stoð í lögum en ekki af stefnda. Í starfsleyfinu sé hið svonefnda þynningarsvæði ákvarðað með stoð í 23. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 sem sett hafi verið með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sé svæðið eðlilega afmarkað í núgildandi aðalskipulagi en það sé ákvarðað til bráðabirgða og geti enginn sagt til um það nú hver mörkin verði þegar umræddur hluti Óttarsstaða verði deiliskipulagður. Sé ekki útilokað að þynningarsvæði muni ekki ná inn á land Óttarsstaða. Samkvæmt framanskráðu eigi að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Kveður stefndi að ekkert liggi fyrir um það á þessu stigi hvernig Óttarsstaðaland verði skipulagt og því sé óvíst hvort stefnendur verði fyrir tjóni eða skerðingu á landnotum. Ekki sé útilokað að íbúðabyggð verði skipulögð á umræddu svæði því hugsanlegt sé að þynningarsvæðið verði minna í framtíðinni. Að mati stefnda hafi stefnendur ekki fært sönnur fyrir því að íbúðarbyggð sé verðmeiri en atvinnuhúsnæði og ef þetta svæði verði skipulagt sem hafnarsvæði sé líklegt að það verði verðmeira en ef þar væri skipulögð íbúðabyggð. Séu lóðir á hafnarsvæðum í Reykjavík og Hafnarfirði dýrustu lóðirnar í þeim sveitarfélögum. Sé meint tjón stefnenda því ósannað.
Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að hafi stefnendur átt þann rétt sem þeir nú krefjist viðurkenningar á, séu þeir búnir að fyrirgera þeim rétti með tómlæti og aðgerðar- og afskiptaleysi. Svæði takmarkaðrar ábyrgðar hafi verið lögfest með lögum frá árinu 1966 og hafi álverið starfað í um 40 ár þegar stefnendur hafi fyrst sett fram kröfur sínar. Þá hafi stefnendur ekki gert athugasemdir við starfsleyfi meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., sem þau þó höfðu tækifæri til að gera, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, og auglýsingar í Lögbirtingablaðinu og Morgunblaðinu 10. ágúst 2005. Þá sé krafan einnig fyrnd.
Hinn 13. maí 1966 hafi lög nr. 76/1966 um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aliuminium Ltd. um álbræðslu í Straumsvík verið samþykkt á Alþingi. Fjalli 12. gr. þess samnings um mengun og mengunaráhrif. Núverandi eigendur hafi allir eignast hlut sinn í Óttarsstöðum mörgum árum eftir að samningurinn hafi hlotið lagagildi og hafi þeim verið kunnugt um efni 12. gr. samningsins. Þeir hafi því eignast hluti sína með þeim takmörkunum sem þar greini og geti ekki borið fyrir sig að þeim hafi verið ókunnugt um efni samningsins.
Stefndi mótmælir því að hann beri bótaábyrgð gagnvart stefnendum með skipulagsákvörðunum sínum á umræddu svæði. Skipulag svæðisins sé í bið og 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 (29. gr. eldri laga nr. 19/1964) eigi ekki við í þessu máli þar sem ekki liggi fyrir að verðmæti landsins hafi verið eða verði lækkað. Einnig sé það rangt að ekki verði séð að stefnendum hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um álverið og áhrif starfseminnar. Eigendum Óttarsstaða hafi gefist tækifæri, eins og öðrum, til að tjá sig um skipulag þessa svæðis þegar núgildandi aðalskipulag hafi verið í skipulagsferli og hafi verið auglýst eftir athugasemdum við það eins og við starfsleyfið.
Stefndi vísar að öðru leyti til málsástæðna meðstefndu til stuðnings sýknukröfunni.
Um lagarök, að öðru leyti en að framan er rakið, vísar stefndi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um friðhelgi eignarréttar og 1. gr. l. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísar hann til 17. og 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til 129., sbr. 130. gr. sömu laga varðandi málskostnaðarkröfu.
V
Stefnendur krefjast þess í máli þessu að viðurkennt verði með dómi að stefndu séu skaðabótaskyldir gagnvart þeim vegna þess að verðmæti lands þeirra í jörðinni Óttarsstöðum sé skert vegna starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík. Byggja stefnendur á því að allir stefndu beri ábyrgð á þeirri skerðingu.
Stefnendur kveða að stefndi, íslenska ríkið, beri ábyrgð á tjóni þeirra þar sem hann hafi heimilað stefnda, Alcan á Íslandi hf., að haga starfsemi sinni þannig að hún mengi loft jörð og/eða vatn á svokölluðu svæði takmarkaðrar ábyrgðar án þess að afla heimildar landeigenda og án þess að bera ábyrgð á tjóni sem menguninni fylgi. Þá hafi stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, heimilað stefnda, Alcan á Íslandi hf., að menga land á svokölluðu þynningarsvæði. Hafi stefndi, íslenska ríkið, heimilað þessa mengun í samningum við eiganda álbræðslunnar og með útgáfu starfsleyfis til hennar en stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, hafi heimilað hana með lóðarleigusamningi. Hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, samið við eiganda álbræðslunnar um mengunarsvæðið og þar með tekist á hendur ábyrgð gagnvart honum. Þá beri stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, einnig ábyrgð gagnvart stefnendum sem eigandi landsins þar sem álbræðslan sé rekin.
Kröfu sína á hendur stefnda íslenska ríkinu byggja stefnendur meðal annars á því að íslenska ríkið hafi gert svokallaðan aðalsamning við forvera stefnda, Alcan Holdings Switzerland Ltd., og með honum heimilað að áhrifasvæði mengunar frá álbræðslunni næði langt út fyrir mörk lóðar verksmiðjunnar og yfir á landareignir annarra. Það hafi stefndi, íslenska ríkið, gert án þess að afla heimildar stefnenda eða forvera þeirra. Hafi stefndi, íslenska ríkið, þannig sett kvöð á eign stefnenda án þess að henni væri þinglýst eða stefnendum tilkynnt um hana. Með því hafi stefnendum ekki verið gefinn kostur á andmælum eða samráði. Með þessu hafi stefndi, íslenska ríkið, komið í veg fyrir að stefnendur geti nýtt landið eins og þeir kjósi og svipt þá mikilvægum eignarráðum yfir landinu. Þannig hafi stefndi, íslenska ríkið, brotið gegn meginhlutverki sínu að vernda borgarana gegn mannréttindabrotum.
Samningur stefndu, íslenska ríkisins og Alcan Holdings, var undirritaður 28. mars 1966. Auk hans voru undirritaðir fylgisamningar sem voru fylgiskjöl með aðalsamningi, sbr. grein 1.02. Meðal þeirra voru rafmagnssamningur milli Landsvirkjunar og ISAL, forvera stefnda Alcan á Íslandi hf. og hafnar- og lóðarsamningur milli stefnda Hafnafjarðarkaupstaðar og ISAL. Eins og fram er komið var aðalsamningi veitt lagagildi með lögum nr. 76/1966.
Í aðalsamningi er í 3. gr. fjallað um ábyrgðir samningsaðila en samkvæmt grein 3.01 ábyrgist stefndi, íslenska ríkið, gagnvart Alusuisse, nú Alcan Holdings, og ISAL efndir Landsvirkjunar samkvæmt rafmagnssamningi og efndir stefnda, Hafnafjarðarkaupstaðar samkvæmt hafna- og lóðasamningi. Þá er í samningi þessum samið um að ISAL gripi til allra eðlilegra ráðstafana til þess að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri álversins í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Ekki verður séð að í aðalsamningi sé að finna ákvæði um ábyrgð stefnda, íslenska ríkisins, gagnvart þriðja aðila. Þá verður ekki ráðið af þessum samningi að stefndi, íslenska ríkið, hafi verið að ráðstafa landareign stefnenda sem stefnendur hefðu þurft að samþykkja eða að samráð hefði þurft að hafa við þá til að gefa þeim kost á andmælum. Þá verður heldur ekki af samningi þessum ráðið að stefndi, íslenska ríkið hafi með honum bundið landareign stefnenda kvöðum sem þurft hefði að þinglýsa á eignina. Þá liggur ekkert fyrir annað en að umræddur samningur hafi verið í samræmi við gildandi lög og að rekstur álbræðslunnar hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma. Þá verður ekki séð að fullyrðingar stefnenda, um að mengun sú sem stafar frá álbræðslunni sé óheimil, hættuleg og löglaus, séu studdar haldbærum gögnum. Þykja stefnendur því ekki hafa sýnt fram á það með óyggjandi hætti að með umræddum aðalsamningi hafi stefndi, íslenska ríkið, gerst sekur um ólögmæta háttsemi og ennþá síður að hann hafi svipt stefnendur eigum sínum og þannig gerst sekur um refsiverða háttsemi, sbr. 1. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þá telja stefnendur að stefndi íslenska ríkið hafi farið út fyrir heimildir sínar í starfsleyfum til stefnda, Alcan á Íslandi hf., með því að heimila eigendum álbræðslunnar að haga starfsemi hennar þannig að hún mengi loft, jörð og/eða vatn á eignarlandi stefnanda á þann hátt að landið verði óhæft til þeirra nota sem stefnendur vilji. Samkvæmt gögnum málsins hafa tvö formleg starfsleyfi verið gefin út fyrir álverið í Straumsvík. Fyrra starfsleyfið var gefið út 7. nóvember 1995 á grundvelli þágildandi laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og hið síðara 7. nóvember 2005 á grundvelli laga nr. 7/1988 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. a síðagreindra laga skal allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi. Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að bæði starfsleyfin hafi verið auglýst og kynnt í samræmi við lög og reglur og að frestur hafi verið veittur til að gera athugasemdir við útgáfu leyfanna. Verður því ekki séð að með útgáfu leyfanna hafi stefndi íslenska ríkið farið út fyrir heimildir sínar.
Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið verður ekki fallist á það með stefnendum að stefndi, Alcan á Íslandi hf., geti ekki borið fyrir sig samning þann sem hann gerði við stefnda, íslenska ríkið, þar sem sá síðarnefndi hafi framselt önnur og meiri réttindi en hann hafi haft forræði yfir og þar sem stefndi, íslenska ríkið, hafi ekki haft forræði yfir landi stefnenda hafi engin réttindi flust yfir til stefnda, Alcan á Íslandi hf. Verður því ekki fallist á að um vanheimild eða um heimildarlausan ágang stefnda, Alcan á Íslandi hf., sé að ræða á lögvernduðum eignarréttindum stefnenda sem þannig hafi valdið stefnendum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Þá verður með sömu rökum ekki fallist á það með stefnendum að stefndi, Alcan á Íslandi hf., hafi auðgast með óréttmætum hætti á því að stefnendur séu að greiða niður kostnað af álbræðslunni með því að leggja henni til land án endurgjalds.
Þá telja stefnendur að stefndi, íslenska ríkið, hafi ásamt stefnda, Hafnarfjarðarkaupstað, ábyrgst að tekið skyldi tillit til álbræðslunnar utan bræðslulóðarinnar við gerð skipulags, sbr. grein 2.02 í hafnar- og lóðarsamningi 28. mars 1966. Séu eignarréttindi stefnenda með þessu skert til hagsbóta fyrir stefnda, Alcan á Íslandi hf., og sé um að ræða sérstakar takmarkanir en ekki almennar. Séu samskonar skerðingar ekki felldar á aðra landeigendur en eigendur landa við bræðslulóðina. Hafi stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, vikist undan þeirri skyldu sinni að tryggja nægilegt land umhverfis bræðslulóðina.
Framangreint ákvæði í hafnar- og lóðarsamningi fjallar um hugsanlegt skipulag þess landssvæðis sem liggur fast að bræðslulóðinni og að kaupstaðurinn og ríkissjóður hafi í hyggju að taka viðeigandi tillit til bræðslunnar og muni ekki ráðstafa neinum hluta þess svæðis með leigu eða afsali án þess að gera ISAL áður viðvart. Verður ákvæði þetta ekki skilið á þann veg að með þessu hafi stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, skuldbundið sig gagnvart stefnendum til að tryggja nægilegt land umhverfis bræðslulóðina og að þeir geti byggt bótarétt á hendur þeim verði ekki staðið við það.
Stefnendur kveða að eignarráðum fasteignaeigenda séu verulegar skorður settar um not fasteigna sinna af tilliti til fasteigna í grenndinni. Ráðist mörk milli leyfilegra og óleyfilegra athafna samkvæmt reglum nábýlisréttar af því hve mikil óþægindi þær hafi í för með sér fyrir nágranna. Byggja stefnendur á því að stefndi, Alcan á Íslandi hf., mengi land þeirra meira en stefnendum sé skylt að þola og leiði þær athafnir til þess að landið verði ónothæft til eðlilegra nota. Eins og rakið hefur verið hefur stefndi, Alcan á Íslandi hf., fengið starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Gert er ráð fyrir að starfsleyfið sé að jafnaði endurskoðað á fjögurra ára fresti en það var síðast gefið út af Umhverfisstofnun 7. nóvember 2005 og gildir til 1. nóvember 2020. Með því að stefndi, Alcan á Íslandi hf., hefur fengið starfsleyfi frá til þess bærum yfirvöldum til reksturs álversins þykir ljóst að starfsemi þess sé í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Verður því ekki fallist á að stefndi, Alcan á Íslandi hf., hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnendum að þessu leyti. Þá eru engin rök færð fyrir því í málatilbúnaði stefnenda að ábyrgð eiganda álbræðslunnar á meintu tjóni vegna mengunar frá verksmiðjunni kunni að vera hlutlæg. Að þessu virtu og með vísan til þess sem að framan er rakið um að stefndi, íslenska ríkið, hafi ekki ráðstafað eignum stefnenda með aðalsamningi, verður heldur ekki fallist á að stefndi, Alcan Holdings Switzerland Ltd. beri ábyrgð á meintu tjóni stefnenda, en stefnendur byggja kröfur sínar á hendur honum einkum á því að sú afstaða eigenda álbræðslunnar að heimild þeirra til að skerða afnot og verðmæti grannlanda verði rakin til ákvæða í aðalsamningi sem stefndi, Alcan Holdings, hafi verið aðili að og að hann hafi verið í vondri trú um heimildir stefndu, íslenska ríkisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar, til að leyfa mengun á svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Hafi stefndi, Alcan Holdings, því ekki getað öðlast meiri og betri rétt yfir landi stefnenda en heimildarmenn þess hafi átt.
Þá verður ekki séð hvernig ábyrgð stefnda, Alcan á Íslandi hf., verði byggð á greiðslureglu 2. mgr. 73. gr. EES samningsins sem feli í sér að sá sem mengi beri þann kostnað sem hljótist af því að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum mengunar.
Stefnendur byggja kröfur sínar á hendur stefnda, Hafnarfjarðarkaupstað, meðal annars á því að hann hafi gert hafnar- og lóðarsamning við eiganda álversins og samþykkt að eigendum sé heimilt að haga starfsemi sinni þannig að hún mengi land, loft og/eða vatn á umræddu svæði takmarkaðrar ábyrgðar innan marka jarðarinnar Óttarsstaða. Þá hafi bæjarfélagið hagað skipulagi landsvæðisins við Straumsvík þannig að hagsmunir álversins hafi verið í fyrirrúmi en hagsmunir stefnenda sniðgengnir og heimildarlaust skertir. Brjóti slíkt skipulag í bága við jafnræðisreglu og vernd eignarréttar. Þessu til stuðnings vísa stefnendur til greinar 2.02 í hafnar- og lóðarsamningi og telja að í henni felist að stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarbær takist sameiginlega á hendur þá skuldbindingu að haga málum þannig að bræðslan geti starfað á þann hátt að mengun frá henni berist yfir á nágrannalönd. Þetta hafi þeir ekki getað gert þar sem þá hafi skort heimildir á landinu.
Eins og að framan er rakið fjallar ákvæði þetta um hugsanlegt skipulag þess landssvæðis sem liggur fast að bræðslulóðinni og að kaupstaðurinn og ríkissjóður hafi í hyggju að taka viðeigandi tillit til bræðslunnar og muni ekki ráðstafa neinum hluta þess svæðis með leigu eða afsali án þess að gera ISAL áður viðvart. Verður ekki með nokkru móti fallist á það með stefnendum að í þessu ákvæði felist að stefndu, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarbær, séu að ráðstafa eign stefnenda. Þá hafa stefnendur engin haldbær gögn lagt fram um það að stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður hafi selt land stefnenda til leigu eða til þeirra afnota að menga land, vatn og/eða loft til stefnda, Alcan á Íslandi hf., og því beri honum beri að skila stefnendum leigutekjum af landinu.
Stefnendur telja að stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, hafi ekki aðeins komið fram gagnvart stefnda, Alcan á Íslandi hf., sem handhafi stjórnvalds, heldur einnig sem eigandi lands þess sem álbræðslan stendur á. Hafi honum mátt vera það ljóst þegar hann gerði leigusamninginn að sú starfsemi sem fyrirhuguð var á lóðinni myndi valda spjöllum á nágrannalandi, þar á meðal landi stefnenda. Beri hann því ábyrgð á tjóni stefnenda. Með því að í aðalsamningi sé kveðið á um að stefndi, íslenska ríkið, hafi tekið ábyrgð á að stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, myndi efna lóðarsamninginn gagnvart álbræðslunni sé stefndi, íslenska ríkið, meðábyrgur gagnvart stefnendum að þessu leyti. Í samningsgerðinni hafi falist réttarbrot gagnvart stefnendum sem allir stefndu beri ábyrgð á.
Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekkert annað fyrir en að rekstur álbræðslunnar sé í samræmi við lög og reglur og hefur hún gilt starfsleyfi sem ekki hefur verið hnekkt. Þar sem stefnendur þykja ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum gögnum að mengun sú sem frá álbræðslunni stafar valdi spjöllum á landi þeirra, verður ekki séð hvernig réttarbrot gat falist í þeirri samningsgerð sem lýtur að hafnar- og lóðarsamningi gagnvart stefnendum sem allir stefndu beri ábyrgð á.
Þá telja stefnendur að stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, hafi með skipulagsvaldi sínu komið í veg fyrir að stefnendur geti nýtt land sitt til íbúðabyggðar. Hafi hagsmunir stefnenda verið sniðgengnir og skertir til hagsbóta fyrir álbræðsluna. Brjóti slíkt í bága við jafnræðisreglu og vernd eignarréttar. Byggja stefnendur á því að stefnda, Hafnarfjarðarkaupstað, sé óheimilt að haga skipulagi einungis með hagsmuni álbræðslunnar í huga auk þess sem óheimilt sé að fresta skipulagi nema um stundarsakir, sbr. 20. gr. skipulagslaga. Skilyrði frestunar jafngildi í raun eignarnámi og sé andstæð eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Með því hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, gerst bótaskyldur gagnvart stefnendum og eigi það einnig við um aðra stefndu sem hafi samið um það sín á milli á hvern hátt skuli haga skipulagi á svæðinu.
Ekki verður með vissu ráðið af málatilbúnaði stefnenda á hverju hann byggir þær fullyrðingar sínar að stefndu hafi samið um það sín á milli hvernig skuli haga skipulagi á svæðinu og hefur hann ekki sýnt fram á það með gögnum. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er skipulagsvald í höndum sveitarstjórna. Er því vald til skipulagningar í Hafnarfirði hjá stefnda, Hafnarfjarðarkaupstað. Komi ekki annað til verða aðrir stefndu ekki bótaskyldir gagnvart stefnendum hafi stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, brotið á þeim með skipulagsvaldi sínu. Þá hafa þeir ekki sýnt fram á það að hagsmunir þeirra hafi verið sniðgengnir eða skertir til hagsbóta fyrir álbræðsluna þannig að fari í bága við jafnræðisreglu og vernd eignarréttar.
Samkvæmt gögnum málsins hefur stefndi, Hafnarfjarðarbær, samkvæmt aðalskipulagi fyrir Hafnarfjörð 2005-2025 þegar ákveðið að hluti Óttarsstaðalandsins, þ.e. sá hluti sem liggur innan þynningarsvæðis sunnan Reykjanesbrautar, skuli nýtast undir iðnaðar- og verslunar- og þjónustusvæði. Hins vegar hefur verið frestað skipulagningu lands sem liggur innan þynningarsvæðis norðan Reykjanesbrautar að sjó. Samkvæmt 20. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er sveitarstjórn heimilt, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og með samþykki ráðherra, að fresta um árabil, þó ekki lengur en fjögur ár í senn, gerð aðalskipulagsáætlunar fyrir ákveðið svæði ef óvissa ríkir um atriði sem geta haft veruleg áhrif á framkvæmd skipulagsins. Í fyrrgreindu aðalskipulagi eru ástæður frestunar sagðar vera tímafrekar rannsóknir sem þurfi að fara fram auk þess sem framkvæma þurfi umhverfismat á svæðinu fyrir hafnargerð. Verður því ekki annað séð en að frestunin hafi verið í samræmi við nefnt ákvæði langanna og er því alfarið hafnað að skilyrði frestunarinnar jafngildi eignarnámi svo sem stefnendur halda fram.
Þá byggja stefnendur á því að stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, sé bótaskyldur gagnvart stefnendum vegna skipulagsákvarðana sem hafi valdið því að verðmæti lands þeirra verði að engu eða skerðist verulega, sbr. 33. gr. laga nr. 73/1997, en regla þessi endurspegli grunnreglu sem standi í nánum tengslum við 72. gr. stjórnarskrárinnar og sé á þessari reglu byggt gagnvart öðrum stefndu einnig. Af málatilbúnaði stefnenda verður ráðið að þeir byggi þessa málsástæðu sína á því að þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um skipulag umhverfis álbræðsluna og áhrif hennar á not Óttarsstaða. Þá sé augljóst að eðlileg og hagnýt þróun íbúðabyggðar í Hafnarfirði hefði verið á landi stefnenda ef álbræðslan væri ekki staðsett þar sem hún er. Vegna skuldbindingar sinnar við eigendur álbræðslunnar hafi sveitarfélagið útilokað eðlilega notkun stefnenda á landi sínu.
Eins og fram er komið er fjallað um svæði takmarkaðrar ábyrgðar í 12. gr. aðalsamningsins sem veitt var lagagildi á árinu 1966 og er því vandséð að ástæða hafi verið til þess að gefa stefnendum kost á að tjá sig um þann samning. Þá hafa umhverfisyfirvöld ákvarðað svonefnt þynningarsvæði og í starfsleyfi til stefnda, Alcan á Íslandi hf., 7. nóvember 1995, er um þynningarsvæðið vísað til 30. gr. mengunarreglugerðar nr. 48/1994. Eins og að framan er lýst verður ekki annað séð en að umrædd starfsleyfi hafi verið auglýst og kynnt og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Er því ekki fallist á það með stefnendum á þeim hafi verið brotinn réttur að þessu leyti varðandi skipulag umhverfis álbræðsluna.
Í 1. mgr. 33. gr. laga nr. 73/1997 segir að ef gildistaka skipulags veldur því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða hún rýrnar svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður eigi sá sem getur sýnt fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum. Stefnendur fullyrða að þeir geti ekki nýtt umrætt land sitt undir íbúðabyggð og því hafi þeir orðið fyrir tjóni. Fyrir liggur að á svokölluðu þynningarsvæði er bannað að reisa íbúðabyggð, sbr. 23. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Ekki verður séð að slíkt sé bannað innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar, en gögn málsins bera með sér að á því svæði hafi þegar verið skipulögð íbúðabyggð. Án þess að afstaða sé tekin til þess hvort slíkt afmarkað bann á nýtingu lands sem greinir í fyrrgreindri 23. gr. leiði til tjóns fyrir landeiganda, þykja stefnendur ekki hafa sýnt fram á að gildistaka skipulags á svæðinu hafi lækkað verðmæti þess þannig að þeir eigi rétt á bótum úr hendi allra stefndu á grundelli 33. gr. laga nr. 73/1997.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefnendum ekki tekist að sýna fram á það svo óyggjandi sé að stefndu hafi með ólögmætri og saknæmri háttsemi bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart stefnendum. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna þá af öllum kröfum stefnenda í málinu.
Eftir þessum úrslitum og atvikum málsins verður stefnendum gert að greiða stefndu 250.000 krónur í málskostnað hverjum fyrir sig.
Af hálfu stefnenda flutti málið Ragnar Aðalsteinsson hrl. Af hálfu stefndu, Alcan á Íslandi hf. og Alcan Holdings Switzerland Ltd., flutti málið Sigurður S. Júlíusson hdl. Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, flutti málið Óskar Thorarensen hrl. og af hálfu stefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, flutti málið Jón Höskuldsson hrl.
Dóm þennan kveður upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Alcan á Íslandi hf., Alcan Holdings Switzerland Ltd., íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður, eru sýknaðir af öllum kröfum stefnenda, Straumsbúsins sf., Sigurðar B. Markússonar, Íslenskra aðalverktaka hf., Sínu Þorleifar Þórðardóttur, Leifs Sörensen, Grétu Elínar Sörensen og Birgis Sörensen.
Stefnendur greiði stefndu 250.000 krónur í málskostnað hverjum fyrir sig.