Hæstiréttur íslands

Mál nr. 256/2012


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur


                                     

Fimmtudaginn 13. desember 2012.

Nr. 256/2012.

Kristján B. Þórarinsson

(Sveinn Guðmundsson hrl.)

gegn

Valitor hf.

(Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.)

Ráðningarsamningur.

K krafði V hf. um greiðslu bóta sem jafngiltu launum í uppsagnarfresti eftir að hann lauk störfum hjá félaginu. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að aðilum hefði verið heimilt að gera tímabundinn ráðningarsamning og hefði hann samkvæmt efni sínu runnið út án þess að til hefði þurft að koma uppsögn. Þá var ósannað að í samningnum hefði verið kveðið á um lakari starfskjör en leiddi af kjarasamningi. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um sýknu V hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. apríl 2012. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.034.167 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 31. maí 2008 til 31. október sama ár, en af framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að samningur aðila 30. apríl 2007 hafi verið ráðningarsamningur og eigi að hafa réttaráhrif sem slíkur. Stefndi andmælir þessu ekki og verður það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Það hefur ekki sérstaka þýðingu í málinu hvers eðlis fyrri samningar um sömu vinnu voru, en þeir voru milli stefnda og Almítra ehf., félags sem var í eigu áfrýjanda. Verður fallist á það sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi að málsaðilum hafi verið heimilt að gera tímabundinn ráðningarsamning og að hann hafi samkvæmt efni sínu runnið út 30. apríl 2008, án þess að til hafi þurft að koma uppsögn. Ekkert ákvæði var um sjálfkrafa framlengingu samningsins og ekkert er fram komið um að stefndi hafi fallist á slíka framlengingu. Ósannað er að í samningnum hafi verið kveðið á um lakari starfskjör áfrýjanda til handa en leiðir af kjarasamningi þeim, sem um starfið gilti. 

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kristján B. Þórarinsson, greiði stefnda, Valitor hf., málskostnað fyrir Hæstarétti, 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 16. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristjáni B. Þórarinssyni, Fálkahöfða 6, Varmá, á hendur Valitor hf., Laugavegi 77, Reykjavík, með stefnu dagsettri 24. ágúst 2011.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld, 3.344.067 kr. auk dráttarvaxta skv. 6. gr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 236.112 kr. frá 31.5.2008 til 30.6.2008, af 472.226 kr. frá þ.d. til 31.7.2008 s.á., af 708.336 kr. frá þ.d. til 31.8.2008 s.á., af 944.448 kr. frá þ.d. til 30.9.2008 s.á., af  1.180.560 kr. frá þ.d. til 31.10.2008 s.á., af 3.344.067 kr. frá þ.d. til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málavextir

Á árinu 1994 stofnaði stefnandi einkahlutafélagið Almítra ehf. Samningar hafa verið gerðir milli þess félags og stefnda, eða fyrirrennara hans, um að einkahlutafélagið annaðist nánar tiltekin verkefni fyrir stefnda. Endurgjaldið fyrir störfin runnu til einkahlutafélagsins en stefnandi var einn eigandi þess sem og eini starfsmaðurinn. Á árinu 2006 urðu þær breytingar að hætt var að greiða einkahlutafélaginu endurgjaldið heldur var stefnanda greitt fyrir vinnu þá er hann innti af hendi fyrir stefnda.

Hinn 30. apríl 2007 gerðu stefnandi og fyrirrennarar stefnda samning á þá leið að stefnandi myndi annast nánar tilgreind verk fyrir stefnda. Í samningnum eru laun hans síðan tilgreind. Í lok samningsins segir að hann gildi frá 1. maí 2007 til 1. maí 2008.

Í úrskurði frá 17. nóvember 2010 nr. 0725/2010 endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld Almítru ehf., vegna gjaldáranna 2005 og 2006 og byggðist endurákvörðunin á því að vinnusamband hefði verið milli stefnanda og stefnda og stefnandi hafi í raun verið launþegi.

Ágreiningur málsins lýtur að því að stefnandi telur sig eiga rétt á launagreiðslum í sex mánaða uppsagnarfresti, þ.e. frá maí 2008 til október sama ár.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Aðalkröfur sínar um greiðslu launa í uppsagnarfresti byggir stefnandi í grundvallaratriðum á því, að um launþegasamband hafi verið að ræða milli hans og stefnda. Hann hafi í raun verið launamaður en ekki verktaki. Beri starfssamband hans og stefnda öll einkenni þess að teljast launþegasamband en ekki verktakasamband. Því til stuðnings bendir stefnandi á eftirfarandi:

- Í málinu liggi fyrir úrskurður ríkisskattstjóra frá 17. nóvember 2010 nr. 0725/2010, þess efnis að starfssamband stefnanda og stefnda hafi verið grundvallað á vinnusamningi. Hafi skattstjóri talið flest rök hníga að því að fara yrði með greiðslur stefnda til gjaldanda annars vegar og stefnanda hins vegar á árunum 2004-2008 sem launagreiðslur til stefnanda, sbr. 1. tölulið a-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

- Samningssamband stefnanda og stefnda hafi verið mjög langt en það bendi alla jafna til þess í vinnurétti að um launþegasamband á grundvelli vinnusamnings sé að ræða.

- Stefnandi hafði umrætt starf að aðalstarfi og vann fullt starf við það. Ekki hafi verið um vinnu í hjáverkum að ræða.

- Ekki hafi verið greitt óreglulega og eftir árangri verks, heldur hafi verið um að ræða reglulegt uppgjör líkt og um launþegasamband væri að ræða, en stefnandi hafi fengið greitt skv. fjölmörgum samstarfssamningum, sem gerðir höfðu verið oft og reglulega til þriggja ára og með ákvæði um mánaðarlaun í 13. mánuði.

- Orlof og dagpeningar hafi verið greiddir líkt og í hefðbundnu starfi.

- Útlagður kostnaður stefnanda vegna vinnu sinnar hafi verið greiddur af stefnda. Samningar hafi alla jafna verið með ákvæði um greiðslu vegna afnota af vinnubifreið. Einnig hafi stefnandi fengið greidda fjármuni að hluta vegna kostnaðar við notkun farsíma. Leiði það frekari líkur að því að um launþegasamband hafi verið að ræða.

- Yfirmenn innan starfssviða stefnanda hafi haft eftirlit með starfi stefnda.

- Búnaður og varningur tengdur starfi stefnanda, t.d. posar, límmiðar, mottur o.fl., hafi verið í eigu stefnanda. Bendi það til þess að um launþegasamband hafi verið að ræða milli stefnda og stefnanda.

- Stefnandi hafi reglulega haft viðkomu á starfsstöð stefnda til að lesta og afferma bíl.

- Umræddir samningar, dags. 19. apríl 2004 og 30. apríl 2007, sem séu að mestu leyti samhljóða, kveði á um að samningslok séu ekki miðuð við framgang eða lok ákveðinna verka líkt og algengt sé í starfssambandi verktaka og verkkaupa. Þá hafi ekki verið samið um einstök verk heldur hafi stefnanda verið falið að sinna ákveðinni tegund verkefna fyrir stefnda.

- Starf stefnanda hafi eingöngu falist í því að sinna viðskiptavinum stefnda og meðhöndla varning stefnda.

- Samkeppnishömlur hafi verið settar að frumkvæði stefnda á þann hátt að stefnandi mátti ekki þjónusta samkeppnisaðila stefnda.

- Reglulegir fundir hafi verið haldnir með stefnda sem bendi til þess að stefnandi hafi að einhverju leyti lotið stjórnunarvaldi forsvarsmanna stefnda og bendi slíkt eindregið til launþegasambands.

- Skv. svörum stefnda hafði stefnandi haft ákveðna yfirburðastöðu við samningsgerð aðila. Komi þetta til vegna þess að stefnandi þekkti ákveðna söluaðila og hafi átt „goodwill“ hjá þeim sem stefndi vildi ekki eiga á hættu að missa sem viðskiptavini. Framangreint þyki benda eindregið til þess að ætlast hafi verið til þess og sóst eftir því að stefnandi sinnti starfi sínu fyrir stefnda persónulega. Þyki því ljóst að umrædd viðskiptatengsl stefnanda hafi verið persónubundin við hann og hafi ríkisskattstjóri ekki talið unnt að líta á greiðslur fyrir slík störf sem greiðslur til einkahlutafélags.

- Fyrirliggjandi samningar milli stefnda og stefnanda bendi eindregið til þess að umrætt starfssamband hafi verið launþegasamband en ekki verktakasamband.

- Skv. dómafordæmum hafi ásýnd aðila, eða það hvað þeir kalla sig í viðkomandi samningssambandi, ekki úrslitaáhrif við mat á því hvort starfssamband sé launþega- eða verktakasamband. Gildi í raun einu hvað þeim finnst eða þykir, heldur skuli leggja heildstætt mat á efni og framkvæmd samnings, sem og samband aðila. Hér skipti máli hvað samningur sé í eðli sínu. Ljóst sé að virtu heildarmati að stefnandi sé launamaður og hafi átt í launþegasambandi við stefnda.

Gerð sé krafa um greiðslu vangreiddra launa í uppsagnarfresti sem nemi 6 mánuðum. Byggir stefnandi kröfu sína á ákvæðum laga og kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd banka og sparisjóða og Sambands íslenskra bankamanna 1. október 2004 til 1. október 2008 og starfssamningum. Vísist um réttindi stefnanda aðallega til 4., 6.1.4 og 11. kafla umrædds kjarasamnings. Jafnframt sé vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl., laga nr. 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl. Byggt sé á því að stefndi hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við stefnanda með því að greiða ekki umsamin laun og uppfylla ekki aðrar samningsskyldur sínar. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum er greiðsluskylda stefnda ótvíræð. Um sönnun er jafnframt vísað til stjórnunarréttar stefnda og þess að hann er bókhaldsskyldur að lögum. Stefnandi telur að leggja beri til grundvallar, við útreikning á launum í uppsagnarfresti, launakjör skv. síðasta gildandi samstarfssamningi milli stefnanda og stefnda. Stefnanda beri að fá greidd óskert laun í uppsagnarfresti skv. skilgreiningu 6.1.4 kafla kjarasamnings SSF.

Stefnandi telur að byggja eigi á umræddum kjarasamningi, hvað varði réttindi og skyldur stefnanda. Stefnandi telur rétt að byggja á umræddum kjarasamningi sökum þess að kjarasamningur nái ekki aðeins til félagsmanna stéttarfélags, heldur hafi hann mun víðtækari réttaráhrif. Skv. 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 skuli laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því, er samningurinn taki til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar kveða á um skuli vera ógildir. Skv. þessu skipti ekki máli hvort einstaklingurinn sé félagsmaður í stéttarfélagi eða ekki, né hvort atvinnurekandi sé aðili að samtökum atvinnurekenda eða ekki. Kjarasamningurinn skuli kveða á um lágmarkskjör.

Í ljósi 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 sé því ekki óvarlegt að álykta að ef gerður hefði verið lögmætur samstarfssamningur við stefnanda þá hefðu skilmálar þágildandi kjarasamnings SSF átt við um stefnanda. Því til stuðnings megi benda á að stefnandi hafi starfað fyrir fjármálafyrirtæki og einnig sé ljóst að stefndi hafi starfsmenn sína í umræddu stéttarfélagi. Einnig hafi stefndi vitnað í umræddan kjarasamning í samstarfssamningi frá 30. apríl 2007, undir „annað” en þar segi að ef breytingar myndu verða hjá SÍB á liðnum 5 og 6 frá viðmiðum sem hafi verið 1. maí 2007 skyldi leiðrétta þá liði sem því nemi. Telur stefnandi skírskotun til breytinga hjá SÍB varðandi liði samnings vera vísbendingu um að stefnandi sjálfur hafi haft að leiðarljósi að einhverju leyti kjarasamningsbundin atriði SÍB. Hafi laun stefnanda t.d. verið miðuð meðal annars við umræddan kjarasamning.

Vangreidd laun í uppsagnafresti. Vegna háttalags stefnanda og stefnda á stéttarfélagsmálum sé ljóst að leggja beri til grundvallar, eða hafa til viðmiðunar, uppsagnarákvæði þeirra kjarasamninga sem mögulega geti átt við starfssamband stefnda og stefnanda. Í kjarasamningi SSF segi um uppsagnarfresti í kafla 11.2.3 að gagnkvæmur uppsagnarfrestur fastráðinna starfsmanna séu þrír mánuðir frá byrjun næsta mánaðar að telja. Uppsögn skuli vera skrifleg. Starfsmanni, sem starfað hafi a.m.k. í 10 ár í fjármálafyrirtæki eða náð hafi 45 ára aldri, verði þó ekki sagt upp með skemmri uppsagnarfresti en sex mánuðum. Ljóst sé að stefnandi hafi verið 65 ára gamall þegar honum hafi verið sagt upp störfum í lok apríl árið 2008, og hann hafi unnið hjá stefnda í yfir 10 ár. Eigi stefnandi því rétt á launum sem nemi 6 mánaða uppsagnarfresti. Stefnandi telur sig eiga rétt á að fá greidd óskert laun í uppsagnarfresti skv. skilgreiningu 6.1.4 kafla kjarasamnings SSF. Þannig beri stefnanda að fá greidda, sem nemi hlutfallslega í sex mánuði, samningsbundna yfirvinnu skv. 2. kafla samstarfssamnings stefnda og stefnanda, en þar segi að stefnandi skuli fá greidda yfirvinnu fyrir 450 tíma á 2.361 kr., samtals 1.062.458 kr. á ári. Einnig beri stefnanda að fá greidd, sem nemi hlutfallslega í sex mánuði, samningsbundin launatengd gjöld skv. 4. kafla samstarfssamnings. Einnig beri stefnanda að fá greidda, sem nemi hlutfallslega í 6 mánuði, dagpeninga skv. 5. kafla samnings. Stefnandi gerir ekki kröfu til greiðslu vegna ákvæða 6. kafla í umræddum samstarfssamningi sem fjallar um greiðslu fyrir afnot af bifreið og farsíma.

Þó að í fjölmörgum samstarfssamningum stefnda og stefnanda séu ekki ákvæði um uppsagnarfrest sé ljóst að kjarasamningar kveði á um lágmarkskjör. Samstarfssamningar stefnda og stefnanda hafi þannig kveðið á um minni rétt en stefnanda hafi borið m.t.t. þágildandi kjarasamnings, sem hafi verið í gildi í apríl 2008, á þeim tíma er stefnanda hafi verið sagt upp störfum. Einnig bendir stefnandi á að hann hafi verið launamaður en ekki verktaki í umræddu vinnusambandi. Mánaðarlaun fyrir maí til október 2008 séu samtals 1.416.672 kr. (6 x 236.112 kr.)

Yfirvinna. Gerð sé krafa um greiðslu yfirvinnu á öll vangreidd laun. Byggist krafan á að stefnanda beri að greiða stefnda óskert laun í uppsagnarfresti. Föst yfirvinna sé hluti af umræddum samstarfssamningi stefnanda og stefnda og sé í honum gert ráð fyrir greiðslu af þessari tegund. Yfirvinna fyrir sex mánuði í uppsagnarfresti sé 531.229 kr.

Vangreitt orlof. Gerð sé krafa um greiðslu orlofs á öll vangreidd laun. Byggist krafan á því að stefnandi eigi rétt á að fá greidd óskert laun í uppsagnarfresti skv. skilgreiningu 6.1.4 kafla kjarasamnings SSF. Í samstarfssamningi stefnanda og stefnda, 3. Kafla, sé kveðið á um rétt til greiðslu orlofs. Orlof og orlofsuppbót sé samtals 336.535 kr. á ári. Stefnandi gerir því einnig kröfu um greiðslu orlofs í uppsagnarfresti sem samtals nemi hlutfallslega sex mánuðum miðað við ákvæði samstarfssamnings, eða 168.267 kr.

Launatengd gjöld skv. samningi. Gerð sé krafa um greiðslu launatengdra gjalda. Byggist krafan á því að launatengd gjöld séu hluti af óskertum launum skv. umræddum samstarfssamningi. Fyrir sex mánuði í uppsagnarfesti séu greiddar 309.900 kr.

Dagpeningar. Gerð sé krafa um greiðslu dagpeninga. Byggist krafan einnig á því að dagpeningar séu hluti af óskertum launum skv. samstarfssamningi og stefnanda beri að fá umræddan launaflokk greiddan svo hann teljist hafa fengið greidd óskert laun í uppsagnafresti. Laun fyrir yfirvinnu í sex mánaða uppsagnarfresti séu 917.999 kr.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks o.fl., og laga nr. 19/1979, um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl., og laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980, einkum 1. gr. þeirra.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. og V. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi gerir þá kröfu aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Sýknukrafan byggist á því að stefndi skuldi stefnanda enga þá fjárhæð sem hann krefjist í máli þessu. Ekki sé fyrir að fara neinu því samningssambandi milli aðila sem leiði til að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda um greiðslu launa í uppsagnarfresti eða aðrar fjárhæðir sem hann krefjist úr hendi stefnda.

Tekið skuli fram að þar sem ekki sé af stefnda hálfu gerður ágreiningur um það í málinu hvort samningssamband aðila sé launþegasamband eða verktakasamband þyki ekki ástæða til að fjalla um þá málsástæðu sem stefnandi reifi í stefnu og virðist einna helst byggja málatilbúnað sinn á, að á milli þeirra hafi verið vinnusamband launþega og vinnuveitanda. Hins vegar skuli áréttað að í þessu felist ekki nein viðurkenning af stefnda hálfu á því að samband þeirra hafi verið ráðningarsamband í skilningi vinnuréttar þó skattyfirvöld telji það vinnusamband í skattalegu tilliti.

Bendir stefndi á að það að samningssamband aðila teljist launþegasamband dugi ekki til þess að réttur til launa í uppsagnarfresti stofnist. Til að svo sé, þurfi að vera til staðar ráðningarsamningur sem mögulegt sé að segja upp og þá annað hvort kveðið þar á um uppsagnarfrest eða byggt um það á kjarasamningi.

Því sé ranglega haldið fram í stefnu að stefndi hafi sagt stefnanda upp störfum og sé þeirri fullyrðingu alfarið mótmælt sem rangri.

Í málinu liggi fyrir samningur milli aðila sem ágreiningslaust sé að hafi verið síðasti samstarfssamningur sem aðilar hafi gert sín á milli. Samningurinn sé dags. 30. apríl 2007 og segi þar að hann gildi frá 1. maí 2007 til 1. maí 2008. Ekki sé þar kveðið á um framlengingu að samningstíma loknum né heimild til uppsagnar á samningstíma nema um brot samningsaðila sé að ræða.

Eins og áður sagði geti réttur til launa í uppsagnarfresti eingöngu myndast ef ráðningarsamningi sé sagt upp á samningstíma. Fyrir liggi í málinu að samningur aðila hafi verið tímabundinn og hafi lokið 1. maí 2008 eins og þar hafi verið kveðið á um.

Gildi hér sú almenna meginregla samningaréttar að tímabundnir samningar gildi samkvæmt efni sínu þann tíma sem þeim sé ætlaður líftími. Þegar því tímamarki sé náð fellur samningurinn niður og þar með samningssamband milli aðila án þess að nokkurra aðgerða sé þörf af hálfu samningsaðila, nema samningurinn kveði á um annað.

Nefndur samningur, sem stefnandi virðist byggja rétt sinn á, hafi einmitt verið tímabundinn samningur sem skyldi ljúka á ákveðnu tímamarki. Hvergi sé þar kveðið á um uppsagnarfrest sem skilyrði þess að samningnum sé slitið og í raun hafi engra aðgerða verið þörf hvorki af hálfu stefnda eða stefnanda heldur hafi nægt að það tímamark að samningurinn skyldi líða undir lok væri komið. 

Breyti engu um uppsögn og uppsagnarfrest að um ráðningarsamning sé að ræða. Enda sé heimilt að hafa ráðningarsamninga tímabundna, sbr. lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna. Stefndi bendir sérstaklega á skilgreiningu a-liðar 1. mgr. 3. gr. laganna þar sem hugtakið „starfsmaður með tímabundna ráðningu“ sé skilgreint sem „starfsmaður með ráðningarsamning við vinnuveitanda þar sem lok samningsins ráðast af hlutlægum ástæðum, til dæmis tiltekinni dagsetningu...“. Tímabundnum ráðningarsamningnum ljúki því á tiltekinni fyrir fram ákveðinni dagsetningu eins og almennt sé með tímabundna samninga. Ráðningarslit verði þá þegar sú dagsetning sé komin og ljúki þar með samningssambandi samningsaðila. Engrar uppsagnar sé þörf í því skyni að rjúfa ráðningarsambandið. Leiði af því að ekki sé um neinn uppsagnarfrest að ræða þar sem eðli málsins samkvæmt sé ekki um neina uppsögn að ræða sem gefi slíkan rétt.

Ágreiningslaust sé að samningur aðila hafi runnið sitt skeið og hafi lokið hinn 1. maí 2008, án þess að einhverra aðgerða væri þörf af hálfu samningsaðila. Eftir það tímamark sé ekki fyrir að fara samningssambandi milli aðila enda hafi ekki verið gerður nýr samstarfssamningur.

Það að samningssamband endi með því að samningstíma ljúki sé ekki það sama og ef samningi er sagt upp á samningstíma. Stefnandi virðist hins vegar halda því fram, og byggja kröfur sínar á því, að umræddum samningi hafi verið sagt upp af stefnda hálfu. Stefndi mótmæli því alfarið sem röngu enda engum gögnum til að dreifa um það í málinu. Þá hafi uppsögn ekki verið möguleg þar sem engin ákvæði um slíka heimild sé að finna í samningnum, nema um brot samningsaðila væri að ræða. Ágreiningslaust sé að svo hafi ekki verið í þessu tilviki.

Af málatilbúnaði í stefnu megi ráða að stefnandi byggi einnig á því að í hinum tímabundna samstarfssamningi aðila hafi átt að kveða á um uppsagnarfrest, að öðrum kosti væri þar um lakari kjör að ræða en kjarasamningur kveði á um. Óljóst sé hvað stefnandi eigi við með þessari málsástæðu sinni og sé henni alfarið hafnað af hálfu stefnda. Megi ætla að stefnandi haldi því fram að samningslok samningsins beri að skoða sem uppsögn af stefnda hálfu og þá byrji uppsagnarfrestur að líða sem gefi stefnanda rétt á launum næstu 6 mánuði eftir samningslokin.

Þessu hafni stefndi alfarið sem röngu og telur það byggt á misskilningi af stefnanda hálfu. Ljóst sé að samningurinn hafi eingöngu gilt í eitt ár, um það hafi verið samið milli aðila. Hafi þurft uppsögn til að slíta samningssambandinu hefði samningnum verið sagt upp 6 mánuðum áður en hann skyldi renna út og uppsagnarfrestur verið út samningstíma. Kjör stefnanda hafi þannig á engan hátt verið lakari en samkvæmt kjarasamningi.

Stefnandi hafi ekki sýnt fram á og sannað að óheimilt hafi verið að gera tímabundinn starfssamning þeirra á milli enda geri lög nr. 139/2003 ráð fyrir að starfsmenn séu ráðnir tímabundið og gildi það um allar starfsstéttir.

Rétt þyki að árétta varðandi starfssamband aðila að lengst af hafi það verið einkahlutafélag í eigu stefnanda sem hafi verið samningsaðili og fengið greitt fyrir þá vinnu sem stefnandi hafi innt af hendi sem starfsmaður þess félags. Stefndi hafi þannig enga ástæðu til að líta svo á að um ráðningarsamband hafi verið að ræða enda geti einkahlutafélag ekki talist starfsmaður í skilningi vinnuréttar. Vakin sé athygli á því að þetta fyrirkomulag hafi verið að ósk stefnanda sjálfs. Það sé ekki fyrr en löngu síðar að stefnandi hafi farið fram á að gerður yrði samningur við hann persónulega og þá með formerkjum verktakasambands. Sá samningur sé frá 30. apríl 2007 og hafi hann verið til eins árs, til 1. maí 2008. Í öllum öðrum tilvikum hafi samningssambandið verið á milli Almítra ehf. og stefnda.

Það hafi því fyrst verið með samningnum frá 30. apríl 2007 að gerður hafi verið tímabundinn samningur milli stefnda og stefnanda sem skattyfirvöld hafi nú ákveðið að skuli líta á sem ráðningarsamband í skattalegu tilliti. Um þann samning gildi þá lög nr. 139/2003 og teljist stefnandi því hafa verið starfsmaður með tímabundna ráðningu í skilningi a. liðar 1. mgr. 3. gr., þ.e. með ráðningarsamning þar sem lok samningsins ákvarðist af tiltekinni dagsetningu.

Það að ekki hafi verið kveðið á um uppsagnarfrest í tímabundna samningnum teljist ekki lakari starfskjör en kjarasamningur kveði á um enda þurfi eðli málsins samkvæmt ekki að segja upp samningi sem hafi tiltekinn afmarkaðan gildistíma. Megi um það vísa til 4. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr. Hlutlægar ástæður séu t.d. lok samnings við tiltekna dagsetningu og mismunur á kjörum starfsmanna með tímabundna og ótímabundna ráðningu telst réttlætanleg á grundvelli hlutlægra ástæðna.

Verði litið svo á að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda, hvort sem það sé um greiðslu skuldar eða greiðslu launa í uppsagnarfresti í 6 mánuði frá því samningurinn hafi runnið út, sé þess krafist til vara að stefnukröfur verði lækkaðar.

Kröfugerð stefnanda byggist á því að réttur sé til óskertra launa í uppsagnarfresti og séu í stefnu nánar taldir upp þeir liðir sem stefnandi telji falla þar undir. Stefndi telur hins vegar eitt og annað athugavert við þá kröfugerð og hún að ýmsu leyti allt of há. Nánar geri stefndi eftirfarandi athugasemdir við einstaka liði í kröfugerð stefnanda.

Yfirvinna. Gerð sé krafa um 531.229 kr. vegna yfirvinnu í 6 mánuði. Stefndi hafnar þessum lið alfarið. Bent skuli á að stefnandi hafi ekki unnið fyrir stefnda í þeim uppsagnarfresti sem krafa hans snúist um. Þó að í samningi aðila sé kveðið á um ákveðinn tímafjölda yfirvinnu á tilteknu tímabili þá felist ekki í því að stefnandi eigi rétt til greiðslu fyrir „óunna yfirvinnu“. Réttur til greiðslu fyrir yfirvinnu stofnist eingöngu fyrir þá yfirvinnu sem sannanlega hafi verið unnin og þar sem stefnandi hafi ekki unnið í uppsagnarfresti eigi hann ekki slíkan rétt. Jafnvel þó að litið verði svo á að stefnandi eigi rétt til greiðslu fyrir einhverja yfirvinnu þá beri að hafna þessum lið sem ósönnuðum. Stefnandi hafi ekki framvísað neinum gögnum um þá yfirvinnu sem hann almennt hafi unnið á samningstíma en sönnunarbyrðin sé alfarið hans. Í því sambandi sé vakin athygli á því að á samningstíma hafi stefnandi starfað sem verktaki og hafi því einn allar upplýsingar um vinnutíma sinn.

Launatengd gjöld. Gerð sé krafa um 309.900 kr. Þessum lið sé alfarið hafnað enda greiði starfsmenn ekki launatengd gjöld af launum sínum heldur sé það vinnuveitenda að gera það. Stefnandi eigi því sem launþegi ekki rétt á slíkri greiðslu.

Dagpeningar. Gerð sé krafa um 917.999 kr. Þessum lið sé alfarið hafnað. Réttur til greiðslu dagpeninga stofnist eingöngu þegar starfsmaður sé á ferðalögum vegna vinnu sinnar. Eins og áður var nefnt hafi stefnandi ekki unnið þann uppsagnarfrest sem krafa hans snúist um. Þar af leiðandi hafi hann ekki verið á vinnutengdum ferðalögum þann tíma og eigi því ekki rétt til greiðslu dagpeninga.

Vaxtakrafa. Kröfu um dráttarvexti sé mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Benda skuli á að stefnandi hafi ekki fyrr en með stefnu sett fram fjárkröfu á hendur stefnda

Um lagarök vísar stefndi einkum til almennra reglna vinnuréttar, almennra reglna samninga- og kröfuréttar, almennra regla um sönnun og sönnunarbyrði og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa stefnda um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Ágreiningur málsins lýtur að því að stefnandi telur sig eiga rétt til greiðslu í sex mánaða uppsagnarfresti eftir að hann lauk störfum hjá stefnda 30. apríl 2008. Því hafnar stefndi.

Stefnandi heldur því fram að líta beri heildstætt til þess að stefnandi hafi starfað fyrir stefnda og fyrirrennara hans allt frá árinu 1992. Stefnandi byggir á því að í úrskurði ríkisskattstjóra frá 17. nóvember 2010 komi fram sú niðurstaða að um starfssamband launagreiðanda og launþega hafi verið að ræða.

Fyrir liggur í málinu að samningar stefnda (og fyrirrennara hans) vegna starfa stefnanda voru gerðir við einkahlutafélag. Þá liggur einnig fyrir að það einkahlutafélag varð gjaldþrota árið 2005. Næsti samningur sem gerður var eftir gjaldþrotið, sem jafnframt var eini samningurinn sem gerður var milli stefnanda persónulega og stefnda, er frá 30. apríl 2007. Þar er kveðið á um þau verkefni er stefnanda beri að inna af hendi fyrir stefnda svo og endurgjald það er stefnda beri að greiða stefnanda fyrir vinnu sína. Í lok samningsins eru síðan tilgreind nokkur önnur atriði. Meðal annars það að greiðsla skuli fara fram eftir á, að endurskoða skuli launaliði verði launahækkanir hjá starfsmönnum RÁS, sem og að leiðrétta skuli endurgjald til stefnanda í samræmi við hækkanir sem verði hjá SÍB. Að lokum er tekið fram að samningurinn gildi frá 1. maí 2007 til 1. maí 2008. Hann falli þó úr gildi ef annar hvor aðili brjóti ákvæði hans.

Í samningnum er ekkert kveðið á um uppsagnarfrest heldur er um tímabundinn samning að ræða sem gilti til 1. maí 2008. Slíkt samningsákvæði er í samræmi við lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna. Í a-lið 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að starfsmaður með tímabundna ráðningu sé starfsmaður með ráðningarsamning við vinnuveitanda þar sem lok samningsins ákvarðast af hlutlægum ástæðum, til dæmis tiltekinni dagsetningu, lokum afmarkaðs verkefnis eða tilteknum aðstæðum. Eins og að framan greinir kvað samningur málsaðila á um tiltekinn ákveðinn gildistíma. Hér er um hlutlæga ástæða starfsloka stefnanda að ræða. Samningur stefnanda rann út þennan dag. Ekki þurfti að segja honum upp enda er ekki um neitt uppsagnarákvæði að ræða og ósannað að honum hafi verið sagt upp. Sú túlkun skattyfirvalda sem fram kom 17. febrúar 2010, eða tæplega þremur árum eftir að stefnandi hætti störfum sínum hjá stefnda, breytir engu hér um. Sá úrskurður varðar skattalega meðferð tekna stefnanda. Stefndi aftur á móti gerði einungis einn samning við stefnanda persónulega og eins og að framan greinir var sá samningur tímabundinn.

Því er hafnað að hér sé um lakari starfskjör að ræða svo sem stefnandi heldur fram og eiga því hvorki tilvitnun stefnanda til laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks o.fl., laga nr. 19/1979, um rétt launafólks til uppsagnarfrests, né heldur þau ákvæði kjarasamnings SÍB sem stefnandi vísar til, við í málinu. Ekki er ágreinungur um það að stefndi hafi greitt stefnanda í samræmi við samninginn frá til 30. apríl 2008.

Með vísan til þess sem að framan greinir er niðurstaða málsins sú að sýkna ber stefnda af öllum kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Valitor hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Kristjáns B. Þórarinssonar. Stefnandi, Kristján B. Þórarinsson, greiði stefnda 500.000 kr. í málskostnað.