Hæstiréttur íslands

Mál nr. 152/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 27

 

Þriðjudaginn 27. apríl 2004.

Nr. 152/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. og d. liðir 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 19. maí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili  kæri úrskurðinn í þeim tilgangi að hann verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2004.

                Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæslu­varðhaldi þar til máli hans er lokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 19. maí 2004, kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 20. janúar sl. hafi Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðað í máli nr. [...] að X skyldi sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000. Samkvæmt greindum úrskurði sé X óheimilt í 9 mánuði að koma á eða í námunda við heimili A, Z, á svæði sem afmarkist við 50 metra radíus umhverfis Z.  Jafnframt hafi verið  lagt bann við því í 9 mánuði að X komi á eða í námunda við heimili B, Q, á svæði sem afmarkist við 50 metra radíus umhverfis Q.  Enn fremur hafi  X verið bannað í 9 mánuði að veita A og B eftirför, nálgast þau á almannafæri, hringja í heima-, vinnu- og farsíma þeirra eða setja sig á annan hátt beint í samband við þau.  Úrskurður héraðsdóms hafi verið birtur fyrir X þann 3. febrúar sl.

Samkvæmt geðheilbrigðisvottorði Kristófer Þorleifssonar, geðlæknis, frá 6. janúar sl., komi m.a. fram að X sé haldinn cyclothymia eða tvílyndi, hann sé mjög persónuleikaraskaður með andfélagslega persónuleikaröskun svo og persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum, hann hafi mjög laka hvatastjórn, sé hvatvís, reiðigjarn og ofstopafullur en hann sé algerlega meðvitaður um hvað hann geri og hann sé ekki haldinn neinum geðsjúkdómi sem afsaki gjörðir hans í reiðiköstum og hann því fullkomlega sakhæfur.  Í vottorðinu komi einnig fram að X sé talinn hættulegur öðrum enda sé hann þekktur af líkamsmeiðingum og hótunum, en síður eða ekki hættulegur sjálfum sér.

                [...]

                Þann 25. mars sl., sama dag og kærði hafi verið handtekinn, hafi Kristófer Þorleifsson, geðlæknir, verið kvaddur til að leggja mat á hvort ástæða væri til að kærði sætti nauðungarvistun skv. III. kafla, sbr. 7. gr., lögræðislaga nr. 71/1997.  Í vottorði læknisins hafi komið fram að kærði væri algjörlega rauntengdur, ekki með ranghugmyndir eða ofskynjanir en dómgreind hans hins vegar biluð, dapur, í jafnvægi en haldinn tvílyndi.  Að öðru leyti hafi mat læknisins verið hið sama og fram kemur í vottorði hans frá 6. janúar sl. sem að framan greinir, þ.e. að kærði væri hættulegur öðrum, enda þekktur af líkamsmeiðingum og hótunum.  Það var mat læknisins að ástand kærða væri ekki það sjúklegt að nægjanlegar forsendur væru fyrir nauðungarvistun á lokaðri geðdeild.  Helgi Guðbergsson, héraðslæknir, hafi einnig verið kallaður til og var mat hans hið sama og Kristófers, að ekki væru forsendur fyrir nauðungarvistun á lokaðri geðdeild.

                Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 30. mars sl., í máli nr. 129/2004, hafi verið fallist á kröfu lögreglu um að kærði sætti gæsluvarðhaldi til 23. apríl nk. og hann sætti geðrannsókn. Taldi Hæstiréttur að fyrir hendi væru skilyrði gæsluvarðhalds á grundvelli c- og d- liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Hæstiréttur staðfesti þar með úrskurð héraðsdóms frá 26. s.m. og tók sérstaklega fram að kærði lægi undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 232. gr., 233. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eftir að honum hafi verið gert að sæta nálgunarbanni.  Vísaði Hæstiréttur einnig til framangreinds læknisvottorðs Kristófers Þorleifssonar, geðlæknis, frá 26. mars 2004, þar sem fram hafi komið að kærði væri hættulegur öðrum.

Á gæsluvarðhaldstímanum hafi kærði sætt geðrannsókn en skýrsla Tómasar Zoëga, geðlæknis, barst lögreglu 16. apríl sl.  Í skýrslu geðlæknisins kemur m.a. fram að kærði búi sér til sinn eigin regluheim og virðist ekki gera sér grein fyrir athugasemdum annarra og þeim hömlum sem ítrekað hafi verið reynt að setja á hegðun hans. Þar kemur einnig fram að kærði sé haldinn alvarlegri blandaðri persónuleikaröskun. Hann sé með geðsveiflur og á köflum mjög andfélagslega hegðun og hugsanagangur hans sé stundum á mörkum geðrofs og ofstækis en samt sé ekki hægt að fá fram víðtækar ranghugmyndir eða ofskynjanir.  Þrátt fyrir mjög truflaðan persónuleika sé það álit læknisins að kærði sé að öllu leyti fyllilega ábyrgur gerða sinna og sé ljóst að hann geti verið öðrum hættulegur.  Fram kemur í skýrslunni að ekki sé unnt að leggja mat á það hvort nefndur B sé í hættu þar sem kærði hafi ekki viljað tala við hann um B og tilfinningar hans gagnvart honum.  Að mati geðlæknisins sé kærði ekki haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun, rænuskerðingu eða annars samsvarandi ástands sem hafi gert hann alls ófæran um að stjórna gerðum sínum.  Truflanir þær sem kærði hafi átt við að stríða séu ekki af því tagi að þær komi í veg fyrir að viðeigandi refsing geti borið tilætlaðan árangur

Meintur brotaferill X hafi hafist þann 20. ágúst 2003 og staðið til 1. janúar sl. og verið tilefni nálgunarbannsins.  Um hafi verið að ræða röð tilvik í formi hótana og ógnana af ýmsu tagi, húsbrots, spjalla á bifreiðum, líkamsárás o.fl. í garð B og A.  Meintur brotaferill hans hafi hafist að nýju þann 9. febrúar sl. og hafi haldið áfram síðan en um sé að ræða svipuð brotatilvik og legið hafi til grundvallar nálgunarbanninu. Að mati lögreglu þyki vera fyrir hendi rökstuddur grunur um aðild kærða að hinum meintu brotum en eins og áður hafi komið fram hafi Hæstiréttur fallist á það mat lögreglu.  Ljóst sé að kærði hafi ekki virt nálgunarbannið og brot hans sýni fram á einbeittan brotavilja hans í garð nefnds B og A.  Rannsóknargögn, þ.m.t. gögn frá geðlækni, beri með sér að kærði sé hættulegur einstaklingur og nefndum B og A stafi ógn af honum.  Að mati lögreglu sé því nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi til að verja þau fyrir frekari ofsóknum hans.

                Rannsókn á meintum brotum kærða sé lokið hjá lögreglu og hafi máli hans verið vísað til dómsmeðferðar með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, útg. 21. apríl 2004, sem send var dóminum sama dag.  Að mati lögreglu megi ætla að kærði muni halda áfram brotum meðan málum hans sé ekki lokið fyrir dómi og því nauðsynlegt að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi til að koma í veg fyrir áframhaldandi brotastarfsemi hans.

 

Lögreglan kveður meint sakarefni varða við 155. gr., 1. mgr. 217. gr., 231. gr., 1. mgr. 232. gr., 233. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti brotin varðað fangelsis­refsingu ef sök sannist.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c- og d-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Í málinu liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi, eftir að honum var gert að sæta nálgunarbanni 20. janúar 2004, brotið gegn 232. gr., 233. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Hefur í dag verið gefin út ákæra á hendur honum vegna þeirra ætluðu brota kærða. Þá liggur fyrir í framlögðu læknisvottorði Kristófers Þorleifssonar geðlæknis að kærði sé haldinn andfélagslegrri persónuleikaröskun og óstöðugum geðbrigðum.  Hann sé hvatvís, reiðigjarn og ofstopafullur.  Telur hann kærða hættulegan öðrum.

Með vísan til alls framanritaðs er fallist á að hætta sé á að kærði muni halda áfram brotastarfsemi sinni.  Er því fallist á að skilyrðum c og d liðar 1. mgr. 103. gr. nr. 19/1991 um gæsluvarðhald sé fullnægt. Verður því krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og hún er fram sett.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til máli hans er lokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 19. maí 2004, kl. 16.00.