Hæstiréttur íslands

Mál nr. 517/2013


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn


                                     

Þriðjudaginn 17. desember 2013.

Nr. 517/2013.

K

(Gunnar Ingi Jóhannsson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn

Barnaverndarnefnd R krafðist þess að K yrði svipt forsjá sonar síns. Með vísan til álitsgerðar dómkvadds matsmanns í öðru máli, þar sem K hafði verið svipt forsjá dóttur sinnar, langrar sögu hennar um geðræna erfiðleika, sem höfðu ásamt langvinnri áfengis- og vímuefnamisnotkun valdið því að hún gæti ekki annast eldri börn sín, var á það fallist að forsjárhæfni K væri verulega skert. Þótti skilyrði d. liðar 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 því uppfyllt í málinu. Þá höfðu verið færðar fram nægar vísbendingar um að K væri vegna langvarandi persónuleikaraskana ekki fær um að vinna bug á þeim annmörkum sem drægju úr hæfni hennar til að bera ábyrgð á barni. Var því talið að ekki væri unnt að beita öðrum og vægari úrræðum en forsjársviptingu til að tryggja öryggi og velferð sonar hennar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Var krafa um forsjársviptingu því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. júlí 2013. Hún krefst þess að hafnað verði kröfu stefndu um að hún skuli svipt forsjá sonar síns, A. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms.

Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að verulegir annmarkar hafi verið meðferð málsins hjá barnaverndaryfirvöldum og talið að hún hafi í ýmsum atriðum brotið í bága við ákvæði barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þótt fallast megi á að nokkrir hnökrar hafi verið á málsmeðferðinni hjá stefndu eru þeir ekki þess eðlis að málið liggi ekki fyrir í því horfi að dæmt verði um kröfu stefndu um að áfrýjandi verði svipt forsjá sonar síns. Er þess jafnframt að gæta að hér fyrir dómi eru ekki til endurskoðunar athafnir barnaverndaryfirvalda heldur hinn áfrýjaði dómur um forsjána. Þessi atriði sem lúta að málsmeðferðinni hjá stefndu skipta því samkvæmt framansögðu ekki máli þegar metið er hvort fullnægt sé lagaskilyrðum fyrir sviptingu forsjár. Samkvæmt þessu og með vísan til forsendna í 3. lið niðurstöðukafla hins áfrýjaða dóms verður tekin til greina krafa stefndu um að áfrýjandi verði svipt forsjánni á grundvelli d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Verður dómurinn því staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 600.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2013.

I.

         Mál þetta, sem var dómtekið 25. júní sl., er höfðað 15. apríl 2013 af Reykjavíkurborg fyrir hönd Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Ráðhúsinu við Tjarnargötu í Reykjavík, gegn K, Reykjavík.

         Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði svipt forsjá sonar síns, A, kt. [...]-[...], sbr. a- og d-liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

         Stefnda krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

         Mál þetta hefur sætt flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. fyrirmæli 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002.

II.

         Málið lýtur að forsjá drengsins A sem er fæddur [...] sl. Móðir hans, stefnda, K, er rúmlega [...] ára gömul og á langa sögu um vímuefnaneyslu auk geðrænna erfiðleika. Í gögnum málsins kemur fram að stefnda hafi ung byrjað að neyta áfengis og fíkniefna. Þá var skólaganga hennar brokkgeng. Barnaverndaryfirvöld höfðu afskipti af henni og fjölskyldu hennar í æsku, en ljóst er að samskipti stefndu við móður sína hafa alla tíð verið erfið. Árið 1994 var hún lögð inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, þar sem hún greindist með „atferlis- og tilfinningalegar truflanir“ auk þess sem spurningar vöknuðu um „latent geðklofa“. Í sálfræðiskýrslu frá þeim tíma kemur fram að próf hafi sýnt erfið tengsl við aðra en að hún sé með nokkuð meðvitaða tengslaþörf. Þá segir í skýrslunni: „Sjálfsmynd er tvískauta, annars vegar léleg þar sem stúlkan treystir sér illa og býst við höfnun. Hins vegar ber á „gradios“ hugmyndum um hana sjálfa. Þetta leiðir hugann að því að um narcissistika truflun sé að ræða. Tilfinningaleg stjórn er lítil og varnarhættir frumstæðir. Vitsmunalega mælist K á tornæmisstigi. Sálfræðileg próf, þar með talinn taugasálfræðileg próf, benda til misþroska og athyglisbrestur er nokkuð greinilegur.“ Stefnda dvaldist í æsku um skeið á meðferðarheimilum. Þá hefur hún lagst ítrekað inn á meðferðarstofnanir vegna vímuefnaneyslu sinnar.

         Stefnda á tvö eldri börn. Hún eignaðist son er hún var 18 ára gömul, en hann hefur, með samþykki stefndu, verið í varanlegu fóstri hjá móðurömmu sinni og sambúðarmanni hennar frá árinu 2000. Árið 2007 eignaðist stefnda stúlku. Afskipti barnaverndaryfirvalda af högum hennar hófust þá um vorið meðan stefnda gekk með barnið. Stefndu mun hafa verið fylgt eftir og áfram stutt við hana eftir fæðingu stúlkunnar. Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 29. janúar 2008 var málinu lokað þar sem allt virtist ganga vel hjá stefndu.

         Í desember 2008 hófust afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum stúlkunnar að nýju. Þau afskipti lágu niðri meðan stefnda dvaldist með þáverandi sambúðarmanni sínum, C, í Danmörku frá janúar 2009. Meðan þau dvöldu þar höfðu dönsk barnaverndaryfirvöld afskipti af fjölskyldunni. Afskipti stefnanda af umönnun hennar hófust fljótlega að nýju eftir að þau fluttu til Íslands í ágúst 2010. Í janúar 2011 var stefnda flutt í Kvennaathvarfið að hennar ósk. Þar kvaðst stefnda ekki treysta sér til að hafa stúlkuna í sinni umsjá vegna fíkniefnaneyslu og annarra erfiðleika. Svo fór að stúlkan var, með samþykki stefndu, vistuð á vegum Barnaverndar Reykjavíkur frá 3. til 22. febrúar 2011 og síðan kyrrsett á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga. Stefnda samþykkti 28. febrúar 2011 að stúlkan yrði vistuð utan heimilis í sex mánuði og undirritaði í kjölfarið meðferðaráætlun, sem fól meðal annars í sér að gert yrði forsjárhæfnismat á henni.

         Davíð Vikarsson sálfræðingur skilaði forsjárhæfnismati 27. júlí 2011. Þar kemur fram að niðurstöður sálfræðilegra prófa bendi meðal annars til þess að greind stefndu sé á stigi tornæmis. Niðurstöður persónuleikaprófs hafi leitt í ljós veikleika í hegðun og persónugerð hennar, þar sem einkenni andfélagslegra persónuleikaeinkenna hafi komið fram, tortryggni og gremja. Þá hefði stefnda tilhneigingu til að hafa lítið innsæi í eigin vanda og leita skýringa á því sem út af bæri í utanaðkomandi orsökum. Þá sýndu niðurstöður prófa óstöðugan persónuleikastrúktúr þar sem tilfinningasveiflur væru miklar, allt frá tortryggni og reiði í garð annarra, yfir í mjög sjálfmiðaða hugsun og mikla trú á eigin getu. Niðurstöður prófana bentu ekki til tilfinningalegra erfiðleika, kvíða eða þunglyndis. Í matinu segir aftur á móti að fram hafi komið umtalsverð frávik á klínískum undirkvörðum er mæli einkenni örlyndis (mania – grandiosity), ofsóknarhugmynda (paranoia – hypervigilance, persecution), samskiptavanda (borderline – negtative relationships) og andfélagslegrar hegðunar (antisocial behaviors, egocentricity). Ekki hafi hins vegar komið fram einkenni geðrofs. Þá hafi stefnda uppfyllt greiningarskilmerki amerísku geðlæknasamtakanna (DSM-IV) fyrir fíknivanda (substance dependence) auk þess sem vísbendingar væru um einkenni geðhvarfa með örlyndi (bipolar I dosorder).  Fram kemur í matinu að svör stefndu hafi borið þess merki að fíkniefni hefðu lengi verið uppspretta erfiðleika í lífi hennar, samskiptavanda og afbrotahegðunar. Hefði hún sterka tilhneigingu til að nota vímuefni til að takast á við álag, streitu og vanlíðan. Þá gæfu svör hennar til kynna að hún hefði tilhneigingu til að sýna hvatvísa og óábyrga hegðun þar sem hana virtist skorta hæfni til að hugsa lengra en um líðandi stund eða spá fyrir um afleiðingar gjörða sinna. Þess vegna hefði hún tilhneigingu til að taka kæruleysislega áhættu og væri líklegri en aðrir til að hegða sér með óábyrgum hætti. Svör hennar hafi einnig bent til þess að hún hafi takmarkað innsæi í eðli vandans og hafi frekar tilhneigingu til þess að gera lítið úr ábyrgð sinni á vandamálinu. Í matinu segir þó einnig að ákveðnir styrkleikar hafi komið fram, svo sem sterkur vilji stefndu til að taka sig á og gera betur auk þess sem hún virtist að vissu marki gera sér grein fyrir því að hún hefði gert mistök. Þá tók sálfræðingurinn fram að á því tímabili sem hann hafi verið í samskiptum við stefndu hefði hún verið allsgáð og sótt fíkniefnameðferð reglulega auk þess sem hægt væri að greina aukinn stöðugleika í samskiptum. Þá hafi stefnda virst vera í ágætu jafnvægi. Virtist hún „um þessar mundir vera staðráðin í því að ráða bót á persónulegum högum sínum og hefur markvisst unnið að því að bæta stöðu sína“ í því augnamiði að fá stúlkuna til sín á ný. Þó að ýmis merki væru fyrir hendi er gæfu von um bata var það mat sálfræðingsins að vegna veikleika stefndu yrði forsjárhæfni hennar að teljast verulega skert. Þyrfti stefnda að gefa sér mun lengri tíma til að koma undir sig fótunum og vera lengur allsgáð og ná meiri stöðugleika og aðlögun að samfélaginu í slíku ástandi.

         Í ágúst 2011 hafnaði stefnda því að stúlkan yrði lengur í vistun á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Í kjölfarið var hún kyrrsett á fósturheimilinu í allt að 14 daga. Með úrskurði barnaverndarnefndar 6. september 2011 var ákveðið að hún skyldi vistuð á heimilinu í tvo mánuði og borgarlögmanni falið að gera kröfu um vistun hennar á grundvelli 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2011 var fallist á kröfu stefnanda um tímabundna vistun stúlkunnar utan heimilis til 1. maí 2012.

         Síðar á því ári taldi stefnandi hagsmunum stúlkunnar best borgið með því að hún yrði í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs og fól borgarlögmanni að gera kröfu um að stefnda yrði svipt forsjá hennar á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Undir rekstri málsins um forsjá stúlkunnar var aflað mats dómkvadds matsmanns, sálfræðingsins Guðrúnar Oddsdóttur, um forsjárhæfni stefndu. Matsgerð hennar er dagsett 12. desember 2012. Í matsgerðinni var dregið í efa að stefnda væri fær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi stúlkunnar og talið að velferð hennar yrði ekki tryggð með öðrum hætti en að hún yrði áfram í fóstri og í mjög takmörkuðum tengslum við móður sína. Um matsspurningu er laut að forsjárhæfni stefndu, meðal annars með tilliti til persónueinkenna matsbeiðanda, tilfinningaástands hennar og tengslahæfni, víkur matsmaður að afar erfiðum tengslum stefndu við móður sína. Þá getur hann þess að stefnda eigi sögu frá mjög ungum aldri um erfiðleika í námi, hegðun og geði. Eftir að hún hafi verið greind með atferlis- og geðraskanir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans hafi hún „strítt við alvarlegan geðrænan- og fíkniefnavanda“. Síðan segir í matsgerðinni: „Á persónuleikaprófum koma fram skýr merki um geðræna erfiðleika, ofsóknarhugmyndir, andfélagslegar truflanir, tortryggni, árásargirni, skort á innsæi, mikinn samskiptavanda og lélega félagsmótun. Á greindarprófum má sjá að K stríðir við mikinn misstyrk í greind þar sem málleg geta hennar er í neðri mörkum meðalgreindar en geta í óyrtum þáttum er mun slakari og að einhverju leyti á stigi þroskahömlunar.“ Þó er tekið fram að stefnda hafi staðið sig vel um margra mánaða skeið, stundað vinnu og verið edrú. Þá virtist matsmanni sem henni liði nokkuð vel að því frátöldu að hún saknaði stúlkunnar. Síðan segir eftirfarandi í matinu: „Tengslahæfni K er mjög skert. Hana skortir innlifunarhæfni og því getur hún ekki sett þarfir barns framar sínum eigin. Þetta sést meðal annars á lýsingum af því að þegar K líður illa og D vaknar á nóttunni eða grætur, þá vaknar ekki samkennd hjá D heldur óþolinmæði og pirringur þannig að hún ræður ekki við að sefa barnið heldur snýst gegn því með hótunum og ofbeldi.“ 

         Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar sl. var stefnda svipt forsjá stúlkunnar á grundvelli a- og d- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

         Afskipti Barnaverndar Reykjavíkur af stefndu vegna meðgöngu A hófust eftir að hún upplýsti starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur um að hún væri ólétt. Í málinu liggur fyrir tilkynning starfsmannsins, dags. 22. ágúst 2012, þar sem segir um ástæðu „beiðni“ að „Heilsa eða líf ófædds barns [] í hættu“ og er þar vísað til 30. gr. barnaverndarlaga. Þar er þess getið að stefnda eigi sögu um neyslu vímuefna og geðræns vanda. Hún sé nú þunguð og að áætlaður fæðingardagur barnsins sé 20. febrúar 2013. Þá liggur fyrir í málinu skjal, dags. 3. september 2012, sem ber yfirskriftina „Könnun máls sbr. 21., 22. og 43. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002“. Kemur þar fram að málið varðaði stefndu og að könnunin hefði hafist 29. ágúst 2012. Þar er þess getið að áætluð lok könnunarinnar yrðu 29. nóvember sama ár. Færi hún þannig fram að leitað yrði upplýsinga frá heilsugæslu og lögreglu og við það miðað að stefnda myndi mæta í viðtöl á skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur eftir samkomulagi. Eftirlit yrði haft með aðbúnaði barnsins í gegnum heilsugæslu og mæðraeftirlit. Stefnda undirritaði skjalið.

         Með vísan til þessarar könnunar aflaði Barnavernd Reykjavíkur upplýsinga m.a. frá Heilsugæslunni Efra-Breiðholti sem svaraði með bréfi 14. september 2012. Í svörum ljósmóður kemur fram að stefnda hafi komið tvívegis í mæðraskoðun. Í síðari heimsókninni hafi hún skilað þvagprufu fyrir fíkniefnapróf af fúsum og frjálsum vilja og hafi engin fíkniefni greinst í prufunni. Stefnda hafi komið vel fyrir og sagt opinskátt frá stöðu sinni, vímuefnaneyslu og löngun til að standa sig í foreldrahlutverkinu. Þá er í bréfinu innslag frá heimilislækni þar sem fram kemur að miklar breytingar til hins betra hafi orðið á stefndu frá því hann hafi séð hana fyrst 3. janúar 2012 þangað til hann hafi séð hana 7. maí sama ár. Hún væri „eins og ný manneskja“.

         Í málinu liggja ekki fyrir frekari gögn um eftirlit með meðgöngu stefndu fyrr en í janúar 2013. Hinn 18. þess mánaðar var hringt í heilsugæsluna þar sem staðfest var að stefnda hefði hvorki mætt í tíma hjá lækni 2. janúar né í mæðraeftirlit 10. sama mánaðar þar sem hún hafi verið með ælupest og flensu. Í stefnu er því lýst að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi farið að heimili stefndu 18. janúar og viljað ræða við hana en hún ekki viljað hleypa þeim inn þar sem illa stæði á hjá henni. Hún samþykkti hins vegar að koma í viðtal 24. janúar. Þann dag mun stefnda hafa hringt og látið vita að hún kæmist ekki en féllst á að taka á móti starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur á heimili sínu. Tveir starfsmenn heimsóttu stefndu þennan sama dag. Af skjali, dags. 24. janúar 2013, sem ber yfirskriftina „Eftirlit“, má ráða að stefnda hafi svarað spurningum þeirra greiðlega. Þvertók hún fyrir að hafa verið í neyslu í janúar, heldur verið veik og ítrekað slegið niður. Því hafi hún hvorki getað nýtt sér umgengni við dóttur sína né mætt til læknis eða í mæðravernd. Tók hún fram að daginn eftir færi hún í mæðraeftirlit, þar sem tekið yrði vímuefnapróf, sem og 26. janúar þegar hún færi í umgengni. Í skjalinu kemur fram að stefnda hafi lýst vilja sínum til „fullrar samvinnu“ er borið var undir hana hvort hún væri til samvinnu um gerð meðferðaráætlunar. Hún hafi hins vegar ekki viljað skrifa undir neitt nema í samráði við lögmann sinn. Hún teldi þó ekki neitt tilefni til barnaverndarafskipta. Myndi hún „samþykkja óboðað eftirlit, edrúmennsku, vímuefnapróf og greiningu og ráðgjöf heim“, en ekki að fara á vistheimilið með barnið. Í niðurlagi skjalsins segir að stefnda hafi í lok samtalsins orðið æst og vísað starfsmönnum út með þeim orðum að „kannski yrði hún ekki til neinnar samvinnu“.

         Í málinu liggur fyrir staðfesting ljósmóður, dags. 25. janúar 2013, um að stefnda hafi komið í mæðraeftirlit þann dag. Þvagsýni til fíkniefnaprófs hafi verið tekið og skilað að ljósmóðurinni viðstaddri. Þvagsýnið hafi reynst vera neikvætt.

         Í tengslum við umgengni stefndu við dóttur sína 26. janúar 2013 var fyrst tekið munnpróf af stefndu og síðan þvagpróf. Munnprófið reyndist jákvætt gagnvart kannabis, en þvagprófið var hins vegar neikvætt. Er niðurstaða þess lá fyrir fór umgengnin fram.

         Mál stefndu var tekið fyrir á meðferðarfundi hjá Barnavernd Reykjavíkur 4. febrúar 2013. Þar var bókað að starfsmenn teldu nauðsynlegt að fylgjast með því hvort stefnda væri í neyslu. Kom þar og fram að þvagprufa, sem gerð hafði verið 26. janúar, gæti ekki talist marktæk, þar sem ekki hefði verið staðið yfir stefndu þegar hún skilaði prufunni. Myndi starfsmaður gera meðferðaráætlun um vímuefnapróf og óboðað eftirlit fram að fæðingu barnsins. Yrði meðferðaráætlunin send lögmanni hennar og óskað eftir því að hann athugaði hvort stefnda væri til samvinnu.

         Fyrir liggja gögn um tölvupóstsamskipti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur og lögmanns stefndu um fyrrgreinda meðferðaráætlun. Sama dag og meðferðarfundurinn var haldinn sendi starfsmaðurinn lögmanni stefndu skeyti með bókuninni og drögum að meðferðaráætlun þar sem gert var ráð fyrir undirritun stefndu fyrir samþykki. Fram kom í drögunum að markmið áætlunar væri að tryggja öryggi og heilbrigði barnsins og að móðir væri edrú. Í þessu skyni var við það miðað að stefnda myndi taka vímuefnapróf og tæki á móti óboðuð eftirliti starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur. Þá myndi Barnavernd Reykjavíkur vera heimilt að afla upplýsinga frá mæðravernd á heilsugæslustöð. Var við það miðað að áætlunin yrði endurmetin eftir fæðingu barnsins. Í tölvuskeytinu til lögmannsins óskaði starfsmaðurinn eftir því að hann kynnti stefndu efni bókunarinnar og meðferðaráætlunarinnar og fengi svar frá henni um það hvort hún vildi vera í samvinnu við Barnavernd Reykjavíkur. Í tölvuskeyti lögmanns hennar frá 7. febrúar 2013 kemur fram að hann yrði í sambandi daginn eftir með afstöðu til meðferðaráætlunarinnar en tók jafnframt fram að „í grófum dráttum“ gæti hann sagt að stefnda yrði til samstarfs.

         Stefnda undirritaði ekki framangreinda meðferðaráætlun. Aðilum ber ekki saman um ástæður þess. Kveður stefnandi að engin skýr svör hafi komið frá lögmanninum þegar á eftir þeim hafi verið gengið. Þá hafi í símtali við stefndu 21. febrúar komið fram að hún ætlaði ekki að skrifa undir neitt fyrr en afstaða Hæstaréttar Íslands í forsjármáli er laut að dóttur hennar lægi fyrir. Af hálfu stefndu er þessari lýsingu mótmælt. Í greinargerð hennar kemur fram að lögmaður hennar hafi gert starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur grein fyrir því að óskað væri eftir nýrri meðferðaráætlun þar sem ekki væri gert ráð fyrir óboðuðu eftirliti á heimili stefndu. Slík endurskoðuð meðferðaráætlun hefði ekki litið dagsins ljós og hafi síðar komið fram hjá starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur að þess hafi verið vænst að lögmaðurinn myndi útbúa slík drög. Beiðni um það hafi hins vegar aldrei komið fram.

         Í bréfi ljósmóður, dags. 15. febrúar 2013, sem var móttekið af hálfu stefnanda 21. sama mánaðar, kom fram að stefnda hefði í viku hverri mætt stundvíslega í mæðraskoðunartíma. Hún hafi gefið þvagsýni í hvert skipti og skilað því að ljósmóðurinni viðstaddri, og hafi þau ávallt verið neikvæð. Fram kom að enginn grunur hefði komið upp um neyslu stefndu í þessum síðustu skoðunum.

         Eins og áður greinir fæddist A [...] 2013. Mál stefndu var tekið fyrir sama dag á meðferðarfundi hjá Barnavernd Reykjavíkur. Samkvæmt bókun af þeim fundi var farið yfir atriði úr matsgerð Guðrúnar Oddsdóttur sem talin voru til marks um að stefnda væri ekki fær um að annast drenginn. Þá var vísað til þess að starfsmönnum hafi þótt óljóst hvort hún ætlaði að vera til samvinnu um gerð meðferðaráætlunar. Væri tilefni til að hafa alvarlegar áhyggjur af barninu í umsjá stefndu. Talið var að líkamlegri og andlegri heilsu þess væri hætta búin færi stefnda með forsjá þess og að ekki þýddi að reyna stuðning. Sá stuðningur sem reyndur hefði verið hefði ekki skilað árangri og teldi hún sig ekki vera í þörf fyrir meðferð t.d. geðlæknis eða sálfræðings. Þá hefði grunur vaknað um neyslu hennar í janúar og hafi vímuefnapróf, sem tekið hefði verið 26. þess mánaðar, verið jákvætt varðandi kannabis. Töldu starfsmenn mikilvægt að stefnda væri edrú, en að það væri ekki nóg til að tryggja öryggi barnsins. Komist var að þeirri niðurstöðu á fundinum að stefnda væri óhæf til að annast barnið og var lagt til að það færi í „varanlegt fóstur til að tryggja óskilyrtan rétt þess til verndar og umönnunar“.

         Samkvæmt skriflegri lýsingu starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur, dags. [...] 2013, var haft samband símleiðis frá Landspítalanum og látið vita að stefnda væri að fara að fæða. Í þeim samskiptum hafi komið í ljós að stefnda hafi sagt annan mann vera föður barnsins en hún hafði tjáð starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur. Faðirinn væri E og hafi hann verið viðstaddur fæðinguna. Skömmu eftir fæðingu drengsins komu tveir starfsmenn á fæðingardeildina ásamt lögreglumönnum. Hafi lögreglumennirnir beðið fyrir utan stofuna meðan starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur ræddu við stefndu. Í lýsingunni segir orðrétt eftirfarandi: „K tók dreng sinn í fangið og settist í hægindastól með hann þegar stm. komu inn. Hún sagði strax að barnavernd myndi ekki fá að taka af henni barnið. Stm. ræddu rólega við hana og reyndu að útskýra fyrir henni að það væri hvorki í hennar höndum né þeirra að hreyfa við ákvörðun sem hefði verið tekin. Stm. sagði henni að samvinna væri ávallt af hinu góða en að hún yrði á endanum að ákveða hvort hún vildi samþykkja vistun barnsins eða að velja hinn kostinn, að barnið yrði neyðarvistað. Henni var gerð grein fyrir að málið yrði tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 12. mars nk. Yfirlýsing um vistun barnsins væri því dagsett til 12. mars.“ Fram kemur í lýsingunni að rætt hafi verið um að fá lögmann hennar á staðinn en að hún hafi ekki haft símanúmer hans. Hafi hún verið spurð hvort starfsmennirnir ættu að reyna að hafa samband við hann, en hún hafi ekki svarað því játandi. Því hafi það ekki verið gert. Í greinargerð stefndu er þessu mótmælt og því haldið fram að þar sem stefnda hafi ekki haft símanúmer lögmannsins hafi henni verið tjáð að ekki væri hægt að kalla hann á staðinn. Í lýsingu Barnaverndar Reykjavíkur kemur einnig fram að starfsmennirnir hafi rætt símleiðis við föður A, E, þar sem honum hafi verið gefnar upplýsingar um réttindi hans. Hann hafi verið kurteis og lagt sitt af mörkum til að „ná fram samvinnu“. Hafi hann mælt með því við stefndu að skrifa undir vistun og það hafi hún að lokum gert. Stefnda hafi síðan fengið nokkrar mínútur til að kveðja drenginn, en að því loknu hafi verið farið með hann á aðra deild.

         Í málinu liggur fyrir undirrituð yfirlýsing þar sem stefnda veitir samþykki sitt fyrir því að Barnavernd Reykjavíkur visti drenginn á vistheimili frá 5. mars til 12. mars 2013, sbr. 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga. Farið var með A á Vistheimili barna 6. mars 2013. Á meðferðarfundi hjá Barnavernd Reykjavíkur sama dag var ákveðið að umgengni stefndu við A skyldi vera tvær klukkustundir á dag undir eftirliti Barnaverndar Reykjavíkur þar til málið yrði tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 12. mars sama ár. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gekk umgengni þessa daga vel.

         Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 12. mars 2013. Þar lá fyrir tillaga Barnaverndar Reykjavíkur um að A færi í „varanlegt fóstur með eða án samþykkis móður til að trygga barninu óskilyrtan rétt þess til verndar og umönnunar“. Jafnframt lá þar fyrir greinargerð stefndu, dags. 12. mars 2013, sem er undirrituð af lögmanni hennar. Þar er þess krafist að kröfu Barnaverndar Reykjavíkur verði hafnað og óskað eftir samstarfi við barnaverndaryfirvöld er miðaði að því að stefnda fengi notið samvista við drenginn. Í greinargerðinni eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð Barnaverndar Reykjavíkur og dregið í efa að skilyrðum sé fullnægt til að verða við kröfu um ótímabundið fóstur. Þá er því mótmælt í greinargerðinni að stefnda hafi ekki verið tilbúin til að eiga samstarf við barnaverndaryfirvöld og því lýst yfir að hún væri reiðubúin til að samþykkja það eftirlit sem þætti nauðsynlegt, meðal annars að flytjast tímabundið með barnið á vistheimili. Jafnframt var því mótmælt að stefnda hefði neytt fíkniefna á meðgöngu og því haldið fram að hún hafi tekið af alvöru á þeim fíkniefnavanda sem hún hefði glímt við og náð góðum árangri. Þá hafi hún verið í meðferð hjá geðlækni sem meti það svo að stefnda hafi náð góðum tökum á lífi sínu. Einnig sé hún reiðubúin að þiggja sálfræðiráðgjöf sem komið yrði á af hálfu barnaverndaryfirvalda.

         Lögmaður stefndu ásamt stefndu sjálfri komu einnig á fund barnaverndarnefndar 12. mars 2013. Þar var áréttuð yfirlýsing stefndu um vilja hennar  til samstarfs um önnur úrræði en ótímabundna vistun drengsins, þar á meðal að fara á vistheimili með barnið. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur kvað upp úrskurð sinn sama dag. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum drengsins væri best borgið með því að hann færi í varanlegt fóstur til 18 ára aldurs. Ákveðið var að drengurinn yrði vistaður á vegum Barnaverndar Reykjavíkur í allt að tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga og borgarlögmanni falið að gera kröfu um að stefnda yrði svipt forsjá sonar síns, sbr. a- og d-liði 1. mgr. 29. gr. sömu laga. Í úrskurðinum kemur fram að í ljósi forsögu málsins, gagna þess og fyrri samskipta við móður, sé ekki unnt að treysta því að móðir standi við þær yfirlýsingar, sem hún hafi gefið um samstarf. Þá var talið að frekari stuðningsaðgerðir gætu ekki breytt forsjárhæfni stefndu til hins betra í ljósi þess að vandi stefndu væri svo djúpstæður og langvarandi.

         A fór 13. mars 2013 á fósturheimili. Ákvörðun var tekin á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur um að umgengni stefndu við drenginn yrðu tvær klukkustundir á mánuði undir eftirliti í húsnæði stofnunarinnar, en skilyrði væri að stefnda væri edrú og gengist undir vímuefnapróf fyrir umgengni. Í úrskurði barnaverndarnefndar 16. apríl 2013 var tekin afstaða til kröfu stefndu um meiri umgengni. Niðurstaðan varð á þá leið að umgengni skyldi vera eins og verið hefði, tvær klukkustundir á mánuði undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur, með sömu skilyrðum og verið höfðu.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi byggir kröfu sína um forsjársviptingu á því að ákvæði a- og d- liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu uppfyllt. Að mati stefnanda sýni gögn málsins að stefnda sé óhæf til að annast son sinn með viðunandi hætti. Stefnandi hafi á fyrri stigum gripið til allra mögulegra stuðningsúrræða, sem undir eðlilegum kringumstæðum hefðu átt að gera stefndu kleift að sinna hlutverki sínu sem forsjáraðili. Stuðningsaðgerðir sem reyndar hafi verið til að bæta forsjárhæfni stefndu séu fullreyndar og hafi ekki megnað að breyta með ásættanlegum hætti hæfni stefndu þannig að hún teljist fær um að fara með forsjá barns. Til þess sé vandi stefndu of djúpstæður og langvarandi auk þess sem hana skorti innsæi í eigin vanda. Þá telur stefnandi að stuðningsaðgerðir á grundvelli laganna dugi ekki til að tryggja öryggi drengsins og fullnægjandi uppeldisskilyrði sem hann eigi skýlausan rétt til, til frambúðar, í umsjá stefndu. Að mati stefnanda sé ekki unnt að beita vægari úrræðum á grundvelli barnaverndarlaga til að tryggja öryggi drengsins og þroskavænlegar uppeldisaðstæður. Stefnanda beri skylda til, í samræmi við 12. gr. barnaverndarlaga, að beita þeim úrræðum sem nauðsynleg séu til að tryggja vernd drengsins. Forsjársvipting sé eina ráðstöfunin sem verði að teljast tæk til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt og því sé krafa stefnanda sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Að mati stefnanda beri brýna nauðsyn til að skapa drengnum til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem hann eigi rétt á að búa við lögum samkvæmt.

         Að mati stefnanda hefur verið leitast við að eiga eins góða samvinnu við stefndu og frekast sé unnt. Stefnda hafi ekki verið til samvinnu og hafi hafnað allri samvinnu í samtali við starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur 21. febrúar sl. Þá hafi stefnda ekki verið til samvinnu við Barnavernd Reykjavíkur til að tryggja öryggi og heilbrigði ófædds barns síns og neitað að samþykkja meðferðaráætlun sem starfsmenn hafi lagt til.

         Stefnandi telur hagsmuni drengsins mæla eindregið með því að stefnda verði svipt forsjá hans og að hann verði vistaður á heimili á vegum stefnanda, þar sem vel verði hlúð að honum og réttur hans til viðunandi uppeldis, umönnunar og öryggis sé tryggður. Krafa stefnanda byggi á því að of mikil og óforsvaranleg áhætta felist í því að láta stefndu fara með forsjá drengsins og þjóni slík áhætta ekki hagsmunum hans. Stefnandi telur að gögn málsins sýni enn fremur að velferð drengsins sé stefnt í tvísýnu fari stefnda með forsjá hans. Með hagsmuni drengsins að leiðarljósi og með tilliti til ungs aldurs hans telur stefnandi mikilvægt að tryggja honum framtíðarheimili og umönnun þar sem öryggi hans og þroskavænlegar uppeldisaðstæður séu tryggðar. Telur stefnandi því að hagsmunum A sé best borgið með því að hann verði í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs.

         Stefnandi tekur fram að það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Stefnandi telur að það hafi sýnt sig að stefnda sé óhæf til að tryggja syni sínum þá vernd og umönnun sem hann eigi skýlausan rétt á. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á, séu hagsmunir barnsins, hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Þessi regla kveður stefnandi að sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd, eins og kveðið sé á um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum, nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.

         Með skírskotun til alls framanritaðs, meginreglna í barnaverndarrétti sbr. 4. gr. barnaverndarlaga og gagna málsins, og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi, geri stefnandi því þá kröfu að stefnda verði svipt forsjá sonar síns, A, sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, enda muni önnur og vægari úrræði ekki skila tilætluðum árangri.

2. Málsástæður og lagarök stefndu

         Stefnda byggir í fyrsta lagi á því að málsmeðferð barnaverndaryfirvalda hafi brotið gegn lögum. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu stefnanda um forsjársviptingu. Í því sambandi leggur stefnda áherslu á að þetta mál sé nýtt mál, sem tengist ekki máli dóttur hennar, og beri að fara með það sem slíkt, sbr. m.a. 4. mgr. 14. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, nr. 56/2004. Stefnda vekur athygli á því að samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga hefjist barnaverndarmál með svonefndri könnun máls. Slík könnun geti hafist á grundvelli tilkynningar þriðja aðila eða á grundvelli upplýsinga sem barnaverndarnefnd berist með öðrum hætti. Samkvæmt 4. mgr. 21. gr. laganna skuli ekki hefja könnun máls nema að rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess. Mál teljist síðan barnaverndarmál þegar ákvörðun hafi verið tekin um að hefja könnun, sbr. 5. mgr. 21. gr. laganna. Í handbók Barnaverndarstofu um meðferð barnaverndarmála frá árinu 2006 komi fram að við ákvörðun um hvort hefja skuli könnun máls eða ekki, verði að hafa í huga að öll afskipti barnaverndaryfirvalda séu til þess fallin að trufla einkalíf fjölskyldu. Barnaverndarnefndir þurfi því að geta rökstutt afskipti og öll íhlutun barnaverndarnefnda verði að styðjast við heimild í lögum.

         Stefnda byggir á því að ákvörðun um að hefja könnun máls 29. ágúst 2012 hafi ekki verið tekin af þar til bærum aðila, þ.e. af barnaverndarnefnd. Þá hafi tilgangurinn með könnun máls hins ófædda barns ekki verið rökstuddur grunur barnaverndaryfirvalda um að líkamlegri eða andlegri heilsu barnsins væri hætta búin vegna framferðis foreldris, svo sem lögin áskilji, heldur einungis að fylgjast almennt með stefndu og virkja eftirlitsheimildir laganna. Eins og fram komi í 44. gr. barnaverndarlaga hafi könnun máls m.a. þau réttaráhrif að ýmsum opinberum aðilum verði skylt að láta barnaverndaryfirvöldum í té persónuupplýsingar um þann sem könnunin beinist að. Á grundvelli þessarar lagaheimildar hafi Barnavernd Reykjavíkur aflað ýmissa gagna um stefndu. Þau gögn hafi gefið til kynna að meðganga gengi vel og stefndu lýst sem „nýrri manneskju“.

         Stefnda bendir á að áætluð lok könnunar máls hafi verið þremur mánuðum frá því hún hófst. Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga eigi ákvörðun um beitingu viðeigandi úrræða að jafnaði að liggja fyrir innan þriggja mánaða og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ákvörðun hafi verið tekin um að hefja könnun. Ekki liggi annað fyrir en að könnun málsins hafi lokið á tilsettum tíma og afskiptum af stefndu hafi þá átt að ljúka. Engin ný könnun hafi hafist eftir þetta. Barnavernd Reykjavíkur hafi þó haldið áfram að afla persónuupplýsinga um stefndu. Stefnda telur að þessi gagnaöflun frá heilsugæslu hafi brotið gegn 44. gr. barnaverndarlaga, þar sem engin könnun máls hafi verið í gangi á þessum tíma. Vottorð ljósmóður á heilsugæslunni hafi heldur ekki gefið tilefni til rökstudds gruns barnaverndaryfirvalda um að ástæða væri til að hafa áhyggjur af hinu ófædda barni. Í því komi fram að stefnda hafi afboðað sig vegna veikinda í einn tíma, en mætt 25. janúar og gefið þvagprufu að ljósmóður ásjáandi, sem hafi mælst neikvæð. Heldur léttara hafi verið yfir stefndu en í síðustu skoðun.

         Upplýsinga hafi aftur verið leitað án lagaheimildar frá heilsugæslunni 12. febrúar 2013. Þá hafi verið lögð fram meðferðaráætlun, sem hafi átt að gilda fram að fæðingu barnsins, á fundi hjá Barnavernd Reykjavíkur 4. febrúar 2013. Upplýsingaöflunin, sem og ákvörðun um að leggja fram meðferðaráætlun, hafi að mati stefndu brotið gegn lögum þar sem þessar aðgerðir hafi ekki verið samþykktar í barnaverndarnefnd og engin könnun máls hafi þá staðið yfir.

         Stefnda mótmælir öllum fullyrðingum í stefnu um að hún hafi ekki ætlað að vera til samvinnu. Barnavernd Reykjavíkur ákvað að kynna fyrir stefndu drög að meðferðaráætlun sem skyldi gilda fram að fæðingu barnsins. Hafi lögmaður stefndu þá bent á að áætlað væri að barnið kæmi í heiminn tveimur vikum síðar og að stefnda gengi vikulega til ljósmóður. Þangað hefði stefnda alltaf mætt stundvíslega og sýnt fram á edrúmennsku. Hafi því verið óskað eftir breytingu á meðferðaráætluninni á þann veg að í stað óboðaðs eftirlits skyldi stefnda mæta stundvíslega til ljósmóður. Engin afstaða hafi verið tekin til þessa af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur og hafi ósk um að undirrita meðferðaráætlunina óbreytta aldrei verið sett fram. Á meðan hafi stefnda mætt vikulega til ljósmóður og enginn grunur hafi vaknað um vímuefnaneyslu hjá henni.

         Af hálfu stefndu er á það bent að meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga sé úrræði sem barnaverndaryfirvöld megi beita gefi könnun máls tilefni til þess. Hafi barnaverndaryfirvöld að hámarki fjóra mánuði til að leggja fram skriflega meðferðaráætlun eftir að könnun máls hefjist. Sem fyrr segir byggir stefnda á því að könnun máls hafi lokið undir lok ársins 2012 og engin ný könnun hafi hafist eftir það. Krafa á stefndu um undirritun skriflegrar meðferðaráætlunar hafi því ekki átt sér stoð í lögum á þeim tíma sem hún hafi verið sett fram. Að auki beri barnaverndarnefnd samkvæmt 24. gr. laganna að semja einhliða áætlun um framvindu máls og kynna foreldrum, náist ekki samkomulag við þá. Það hafi aldrei verið gert, enda hafi engin lagaskilyrði verið til þess. Það staðfesti einnig að mati stefndu að tilraunir barnaverndar til að fá hana til að samþykkja meðferðaráætlun hafi brotið gegn barnaverndarlögum.

         Stefnda byggir einnig á því að samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga skuli viðkomandi barnaverndarnefnd taka ákvarðanir á grundvelli laganna, svo sem að hefja könnun máls, gera skriflegar meðferðaráætlanir og ákveða hvort ráðstafa eigi barni í fóstur. Stefnda bendir á að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi aldrei fjallað um mál hins ófædda barns áður en hún samþykkti að svipta stefndu forsjá barnsins 12. mars 2013. Ekki liggi fyrir að Barnavernd Reykjavíkur hafi verið heimilt á grundvelli 14. gr. barnaverndarlaga að ákveða að hefja könnun máls án þess að barnaverndarnefnd heimilaði það. Slíkt framsal þurfi að vera rækilega skilgreint í reglum barnaverndarnefndar, sem ekki liggi fyrir. Ekki liggi heldur fyrir ákvörðun barnaverndarnefndar um að útbúin skyldi áætlun um meðferð máls í febrúar 2013, sem ætlunin hafi verið að stefnda undirritaði. Þá liggi fyrir að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi hvorki ákveðið né samþykkt eða heimilað þær aðgerðir sem ráðist hafi verið í á fæðingardeild Landsspítalans að kvöldi 5. mars 2013. Allar framangreindar aðgerðir hafi verið ákveðnar af starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur, sem ekki liggi fyrir að hafi haft lögformlegt umboð barnaverndarnefndar. Fram hafi komið að aðgerðirnar á fæðingadeildinni hafi verið ákveðnar í ætluðu samtali formanns barnaverndarnefndar og framkvæmdastýru Barnaverndar Reykjavíkur. Stefnda telur að heimild til þessa felist ekki í 14. gr. barnaverndarlaga.

         Stefnda telur samkvæmt framansögðu að málsmeðferð barnaverndaryfirvalda í máli sínu hafi brotið í verulegum atriðum gegn barnaverndarlögum og reglugerð nr. 56/2004 um málsmeðferð barnaverndarlaga. Tilgangur málsmeðferðarreglna í barnaverndarmálum sé að tryggja að þessi mikilvægu mál fái vandaða meðferð, þannig að hafið sé yfir allan vafa að úrlausn og niðurstaða þeirra sé rétt. Þegar málsmeðferðarreglur séu brotnar og ekki farið að lögum, svo sem í þessu máli, fáist engin trygging fyrir því að ákvarðarnir valdbeitingarhafa, í þessu tilviki barnaverndarnefndar, séu réttar. Þvert á móti séu verulegar líkur á því að þær séu rangar. Þetta sé sérstaklega brýnt þegar um svo mikilvæga ákvörðun sé að ræða eins og forsjársviptingu. Barnaverndarmál þetta hafi ekki komið með formlegum hætti inn á borð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur fyrr en 12. mars 2013. Fyrir þann tíma hafi átt sér stað fjölmargar ólögmætar ákvarðanir og afskipti Barnaverndar Reykjavíkur af málefnum stefndu, s.s. könnun máls, ákvörðun um meðferð máls, öflun persónuupplýsinga og krafa um fósturvistun barnsins. Í ljósi þess hversu vel stefnda hafi staðið sig telur hún að ástæða hafi þótt til að hagræða sannleikanum og gera stefndu tortryggilega á allan hátt að ósekju. Skákað hafi verið í skjóli þess að trúverðugleiki hennar væri minni en Barnaverndar Reykjavíkur.

         Stefnda tekur fram að hún hafi mótmælt tillögum Barnaverndar Reykjavíkur um ótímabundið fóstur, en lýst yfir fullri samvinnu við barnaverndaryfirvöld, eins og hún hafi alltaf lýst yfir fram að því. Á sama fundi hafi stefnda skilað inn vottorði ljósmóður, dags. 10. mars 2013, um neikvætt fíkniefnaþvagpróf. Sama dag og málið hafi verið lagt í fyrsta sinn fyrir barnaverndarnefnd hafi nefndin ákveðið að gengið skyldi lengra en tillögur barnaverndar hafi gert ráð fyrir, með því að gera kröfu um forsjársviptingu. Ákvörðun barnaverndarnefndar hafi m.a. byggst á því að stefnda hafi ekki verið til samvinnu um meðferðaráætlun, sem áður sé getið um en nefndin sjálf hafði aldrei samþykkt. Einnig hafi verulega mikið verið gert úr því atviki sem komið hafi upp í janúar 2013 um jákvætt munnvatnspróf, en tvö þvagsýni hafi staðfest að stefnda hefði ekki neytt vímuefna. Stefnda telur að ákvörðun barnaverndarnefndar um forsjársviptingu byggi að verulegu leyti á hinni ólögmætu málsmeðferð barnaverndaryfirvalda, rangtúlkunum, misskilningi og afbökuðum staðreyndum. Ákvörðunin sé af þessum sökum byggð á röngum forsendum. Með tilliti til alls þessa beri að hafna kröfu stefnanda.

         Jafnframt er vísað til þess af hálfu stefndu að ákvörðun stefnanda um forsjársviptingu hafi verið reist á því að allar stuðningsaðgerðir hafi verið reyndar og þær ekki borið viðunandi árangur. Fullvíst megi telja að ómögulegt sé að bæta forsjárhæfni stefndu. Þessu mótmælir stefnda alfarið og telur þetta alrangt eins og rakið verði hér á eftir.

         Stefnda vísar til þess að ekki sé heimilt að krefjast forsjársviptingar fyrir dómi nema skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga séu uppfyllt. Stefnda byggir á því að svo sé ekki í þessu máli og að ósannað sé af hálfu stefnanda að skilyrðin séu uppfyllt. Þá byggir stefnda á því að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga í málinu.

         Stefnda tekur fram að samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, sbr. sérstaklega 29. gr. barnaverndarlaga, skuli ekki gera kröfu um sviptingu forsjár barns á hendur foreldri, nema því aðeins að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða að slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Stefnda byggir á því að ekki hafi reynt á það í málinu hvort vægari úrræði, sem að gagni geti komið, hafi verið fullreynd í málinu. Þá sé enn fremur rangt að árangur af úrræðum, sem beitt hafi verið, sé ekki viðunandi, auk þess sem ekkert liggi fyrir um það hvað teljist vera viðunandi árangur í málinu að mati barnaverndaryfirvalda.

         Stefnda byggir á því grundvallaratriði, að það séu fyrst og fremst foreldrar barna sem skuli taka ákvarðanir sem varði hag þeirra. Þetta sé í samræmi við almennt viðurkenndar grundvallarreglur um friðhelgi fjölskyldu og einkalífs, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 8. gr., sbr. lög nr. 62/1994 og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. l. nr. 19/2003. Með ákvæðum þessum sé tryggt að fjölskylda fái notið samvista og að foreldrar fái að fara með forsjá og annast uppeldi barna sinna án þess að utanaðkomandi aðili skipti sér af því. Þetta séu grundvallarreglur samfélagsins. Samkvæmt 7. gr. laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013, eigi barn rétt á því frá fæðingu, eftir því sem unnt er, að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Ekki sé tilefni til þess að víkja þessum mikilvægu grundvallarreglum til hliðar í málinu. Á stefnanda hvíli að færa skýr og afgerandi rök fyrir því að skilyrði séu til að víkja þessum réttindum til hliðar. Ekki nægi að byggja á því eina atriði að stefnanda sé heimilt að taka ákvarðanir sem hann meti að sé barni fyrir bestu. Ákvörðun um forsjársviptingu þurfi að byggja á fleiri og sterkari rökum. Að öðrum kosti væru heimildir barnaverndarnefnda til afskipta af einkalífi fólks allt of víðtækar og þeim heimilt að svipta foreldra forsjá barna sinna á þeim eina grundvelli að finna megi þeim betra heimili annarsstaðar.

         Stefnda telur að í stefnu sé mjög einblínt á og byggt á neikvæðum þáttum í gögnum málsins. Jafnvel séu dæmi um að staðreyndum sé vísvitandi hagrætt til að láta atvik líta illa út. Fyrir vikið fáist ekki hlutlæg mynd af málinu. Til að mynda sé mikið gert úr vímuefnaneyslu stefndu og sé forsjársviptingarkrafan raunar að hluta á því reist að velferð barnsins sé ógnað vegna fíkniefnaneyslu foreldris. Stefnda viðurkennir að á tímabili hafi hún átt í erfiðleikum með fíkniefni. Eins og fram komi í gögnum málsins séu mörg ár liðin frá því hún hafi neytt „harðra“ fíkniefna, en með hörðum fíkniefnum sé almennt átt við önnur fíkniefni en kannabis. Síðustu 24 mánuði hafi stefnda gengist undir fjölda fíkniefnaprófa á vegum stefnanda, sem öll hafi verið neikvæð, fyrir utan tvö skipti, þar sem hún hafi mælst jákvæð fyrir neyslu kannabis og viðurkennt það. Annað tilvikið hafi verið í desember 2011. Því sé augljóst að allt of mikið sé gert úr fíkniefnaneyslu hennar og telur stefnda að það sé með öllu ósannað að barninu sé hætta búin vegna slíkra atriða. Stefndu hafi gengið mjög vel að halda sig frá fíkniefnum síðustu tvö ár. Hún hafi ekki mælst jákvæð fyrir fíkniefnum í eitt ár og þá lítillega fyrir kannabis. Stefnda mótmælir þess vegna því að krafa um forsjársviptingu geti byggst á því að velferð barnsins sé ógnað vegna vímuefnaneyslu foreldis, sbr. d-lið 29. gr. l. nr. 80/2002. Það sé ósannað.

         Stefnda vísar til þess að hin umdeilda ákvörðun byggi mjög á atvikum sem hafi komið upp í janúar 2013. Stefnda hafi þá fengið flensu, líkt og þúsundir annarra landsmanna. Gengin átta mánuði með barnið hafi hún afboðað sig í umgengni við dóttur sína. Stefnda tekur fram að Barnavernd Reykjavíkur hafi skömmu áður krafist þess fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur að umgengni stefndu við dóttur hennar yrði stytt úr þremur klukkustundum í tvær aðra hverja viku, þar sem sýnt þætti að þetta væri of langur tími fyrir stefndu í hennar ástandi; hún væri bersýnilega of þreytt til að halda út í þrjár klukkustundir. Þegar stefnda hafi afboðað sig í umgengni vegna flensu, gengin átta mánuði á leið, hafi Barnavernd Reykjavíkur talið það gefa tilefni til þess að gruna stefndu um neyslu. Í raun sé ástæðulaust að dvelja við atvikið, þar sem munnvatnssýni hafi gefið vísbendingu um jákvæðni fyrir kannabis, hinn 26. janúar sl. Eins og fram hafi komið hafi verið teknar tvær þvagprufur á sama tíma, ein daginn fyrir og önnur sama dag, sem báðar hafi reynst neikvæðar. Þar af hafi önnur verið framkvæmd að ljósmóður ásjáandi daginn fyrir munnvatnssýnið, en þeirri staðreynd hafi stefnandi reynt að leyna og ekki sé minnst á það í stefnu. Í raun sé óskiljanlegt að ennþá sé verið að byggja á því í málinu af hálfu stefnanda að þessi atvik geti haft þýðingu í málinu. Sannað sé með þvagprufunum að stefnda hafi ekki neytt vímuefna á þessu tímabili, þrátt fyrir ásetning stefnanda um að gera stefndu tortryggilega með því að afbaka sannleikann og sleppa því að minnast á staðreyndir.

         Stefnda mótmælir því einnig að greindarfarsleg staða hennar geti haft nokkur áhrif í máli þessu. Greindarfar stefndu sé ekki þess eðlis að ástæða sé til að svipta hana forsjá barnsins. Stefnda hafi t.d. ekki mælst seinfær í vitsmunaþroska, en eins og kunnugt sé fari foreldrar með slíkt greindarfar sjálfir með forsjá barna sinna. Stefnda sé fullfær um að annast barnið út frá greindarfarslegum viðmiðum.

         Stefnda byggir einnig á því að á síðasta ári hafi orðið miklar breytingar í lífi hennar til batnaðar. Sá tími sem liðinn sé frá því að barn stefndu hafi verið vistað utan heimilis hafi nýst henni vel til að gera þær breytingar á lífi sínu, sem nauðsynlegar hafi verið til að hún gæti tekist á við forsjárskyldur sínar gagnvart barninu. Á þessum tíma hafi að mati stefndu ekkert gerst sem gefi stefnanda tilefni til þess að krefjast forsjársviptingar í málinu.

         Stefnda mótmælir þeim rökum að baki ákvörðun stefnanda að stuðningsaðgerðir hafi verið fullreyndar og ekki borið viðunandi árangur. Í raun hafi litlar sem engar stuðningsaðgerðir verið boðnar stefndu og í því máli sem hér um ræði hafi engar stuðningsaðgerðir verið reyndar eða boðnar. Í ákvörðunum barnaverndaryfirvalda séu að engu leyti reifaðar þær stuðningsaðgerðir sem eigi að hafa verið reyndar í málinu. Frá því málið hafi hafist í september 2012 virðist aldrei hafa komið til tals að beita eða láta reyna á nokkur stuðningsúrræði. Því séu það gróf ósannindi að mati stefndu að halda því fram að allar stuðningsaðgerðir hafi verið reyndar og að árangur þeirra hafi verið óviðunandi eða að ómögulegt sé að eiga samstarf við stefndu. Allt stangist þetta á við staðreyndir og sé í engu samræmi við þann góða árangur sem stefnda hafi náð sem og ítrekaðar yfirlýsingar hennar um að hún vilji eiga samstarf við barnaverndaryfirvöld. Við blasi að mati stefndu að barnaverndaryfirvöld hafi aldrei haft í huga að eiga samstarf við stefndu, svo sem um að bjóða upp á stuðningsaðgerðir eða aðstoð af einhverju tagi, sem teldust viðeigandi. Þörfin á slíku hafi ekki einu sinni verið metin. Það sé hins vegar andstætt lögum, enda forsenda kröfu um forsjársviptingu að reyna öll önnur úrræði fyrst.

         Stefnda bendir á að barnaverndarnefndir sveitarfélaga skuli hafa tiltæk ákveðin stuðningsúrræði samkvæmt reglugerð nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Sem dæmi megi nefna almenn úrræði samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar um að foreldrum sé leiðbeint um uppeldi og aðbúnað barns, fjölskyldu sé útvegaður tilsjónarmaður eða persónulegur ráðgjafi. Þá skuli vera tiltæk úrræði til að aðstoða þungaða konu við að leita sér meðferðar vegna persónulegra vandamála. Í því felist m.a. að aðstoða viðkomandi við að leita sér sálfræðiþjónustu eða annarrar þjónustu. Ekkert af þessu hafi nokkru sinni komið til tals, jafnvel þótt lögmaður stefndu hafi ítrekað óskað eftir því að barnaverndaryfirvöld hefðu milligöngu um að koma á sálfræðitímum fyrir stefndu. Stefnda hafi margoft lýst því yfir að hún væri reiðubúin til slíks ef þörf væri talin á því, en hún hefði hins vegar ekki efni á að standa í því upp á eigin spýtur. Samkvæmt 22. gr. reglugerðarinnar sé einnig hægt að tilnefna tilsjónarmann, sem hafi það hlutverk að aðstoða foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best henti hag og þörfum barns. Aldrei hafi komið til tals af hálfu barnaverndaryfirvalda að reyna þetta úrræði. Með tilliti til alls þessa sé fráleitt að halda því fram að öll möguleg úrræði hafi verið reynd í málinu og þau ekki borið viðunandi árangur.

         Stefnda vísar til þess að samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga skuli barnaverndaryfirvöld gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Þá hvíli sú skylda á barnaverndaryfirvöldum að gera aðeins ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Regla þessi sé í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga sem sé ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Stefnda vísar og til þess að afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum barns og fjölskyldu þess sé oftar en ekki afar viðkvæmt mál. Af þessu leiði að einungis sé réttlætanlegt að grípa til sérstakra ráðstafana af hálfu barnaverndaryfirvalda ef nauðsyn ber til vegna hagsmuna barnsins, sbr. þær grundvallarreglur um friðhelgi einkalífs í stjórnarskrá og alþjóðasáttmálum, sem áður hafi verið nefndar.

         Stefnda kveður það leiða af síðari hluta 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga að beiting þvingunarráðstafana sé háð því að aðrar leiðir hafi verið reyndar fyrst og að beinar þvingunarráðstafanir séu því aðeins réttlætanlegar að hagsmunir barnsins verði ekki nægjanlega tryggðir með öðrum hætti. Þessi meginregla sé einnig fortakslaust skilyrði forsjársviptingar, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Þar komi fram að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Eins og rakið hafi verið telur hún ekkert liggja fyrir í málinu um að aðrar leiðir en forsjársvipting tryggi ekki hagsmuni barnsins nægjanlega eða að þær hafi verið reyndar í málinu. Um málið hafi enda aldrei verið fjallað af hálfu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur áður en það hafi komið inn á borð hennar 12. mars 2013, þar sem samþykkt hafi verið sama dag, eftir örstutta yfirferð á vafasömum og röngum upplýsingum barnaverndar, að svipta stefndu forsjá. Það eitt, að barnaverndarnefnd hafi ekki fjallað um málið áður, sé að mati stefndu nægjanleg staðfesting þess, að aðrar leiðir hafi aldrei verið reyndar og að aldrei hafi komið til álita að reyna þær. Því séu ekki uppfyllt skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga, þess efnis að reyna verði aðrar leiðir, og sömuleiðis sé útilokað að fullyrða, að árangur af slíkum aðgerðum, sem aldrei hafi verið reyndar eða ræddar, sé ekki viðunandi. Þegar af þessari ástæðu brjóti ákvörðun barnaverndarnefndar með alvarlegum hætti í bága við lög og því beri að hafna kröfunni, enda uppfylli hún ekki lagaskilyrði. Þá sé fullkomlega óljóst hvað stefnandi telji vera „viðunandi árangur“, eða hvort eitthvert slíkt mat hafi farið fram. Fyrir liggi sú staðreynd að stefnda hafi tekið miklum framförum í lífi sínu og bætt aðstæður sínar mjög mikið frá því dóttir hennar hafi verið vistuð utan heimilis.

         Stefnda heldur því fram að í stefnu sé ekki rökstutt með málefnalegum hætti hvernig a- og d- liður 29. gr. barnaverndarlaga eigi við í málinu. Fyrir þetta mál skipti mestu þau atvik sem hafi gerst síðastliðin tvö ár og hvernig stefndu hafi tekist að ná tökum á lífi sínu síðan þá. Atvik frá árinu 2010 og fyrr geti ekki haft jafn mikil áhrif í málinu. Í byrjun árs 2011 hafi stefnda samþykkt vistun dóttur sinnar að hennar frumkvæði, enda hafi hún borið hagsmuni barnsins fyrir brjósti er hún hafi óskað eftir þeim afskiptum. Stefnda hafi í kjölfarið undirritað meðferðaráætlun. Hinn 28. apríl 2011 hafi stefnda farið í meðferð á Vogi og lokið henni. Frá þeirri meðferð hafi stefndu tekist að halda sig að mestu frá vímuefnum. Stefnda hafi síðan samþykkt, að kröfu barnaverndaryfirvalda, að gangast undir forsjárhæfnismat, sem sé frá 27. júlí 2011. Í því komi réttilega fram að fíkniefni hafi verið uppspretta erfiðleika í lífi stefndu. Fram komi í forsjárhæfnismatinu að stefnda hafi sterka tilhneigingu til að nota vímuefni til að takast á við álag, streitu og vanlíðan. Af hálfu stefndu er á því byggt að nú, þegar þessar breytur hafi verið lágmarkaðar í lífi stefndu, gangi henni vel að halda sig frá vímuefnum. Allir séu sammála um að því lengri tími sem líði þannig, þeim mun líklegra sé að stefndu takist að snúa við blaðinu varanlega. Auk framangreindra atriða hafi stefnda átt margvíslegt samstarf við barnaverndaryfirvöld og ítrekað óskað eftir frekara samstarfi.

         Stefnda telur að matsgerð Guðrúnar Oddsdóttur frá því í desember 2012 geti aðeins haft mjög takmarkað vægi við úrslausn þessa máls. Matsgerðin sé afar hlutdræg og niðurstöður hennar séu í ósamræmi við mat annarra aðila. Ljóst sé að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi lítið byggt á matsgerðinni í niðurstöðu sinni frá 31. janúar sl., enda sé margt í henni sem hafi orkað tvímælis. Grundvallaratriðið sé þó að þeirrar matsgerðar hafi verið aflað í öðru máli. Matsmaður hafi fyrst og fremst verið beðinn um að leggja mat á hæfni stefndu til að fara með forsjá dóttur sinnar og tengsl mæðgnanna. Eins og niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur hafi byggst á og matsgerðin fjalli um, hafi miklu ráðið um niðurstöðuna í því máli að talið var að rof hefði orðið á tengslum milli stefndu og dóttur hennar, m.a. vegna atvika sem komið hafi upp í lífi mæðgnanna. Þá hafi einnig verið litið til þess langa tíma sem barnið hafi verið í vistun. Það hafi verið talið barninu fyrir bestu að það yrði áfram hjá fósturforeldum og stefnda færi ekki með forsjá þess. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar séu aðstæður með allt öðrum hætti. Matsskýrsla Guðrúnar Oddsdóttur sé að sjálfsögðu að engu leyti sérfræðiálit um hæfni stefndu til að fara með forsjá þessa nýja barns. Barnið sé einungis nokkurra mánaða gamalt og því séu ekki í myndinni sömu forsendur og ráðið hafi mestu um að stefnda var svipt forsjá dóttur sinnar. Því geti matsgerðin um tengsl stefndu við dóttur sína og niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í því máli að engu leyti haft áhrif við úrslausn þessa máls.

         Að lokum byggir stefnda á því að hún hafi lýst E föður barnsins og hann gengist við því. Stefnda og E hafi sótt um sameiginlega forsjá barnsins hjá sýslumanni áður en forsjársviptingarkrafa stefnanda hafi litið dagsins ljós. Ekki hafi tekist að afla gagna um stöðu málsins fyrir greinargerðarskil í málinu, en með vísan til 57. gr. barnaverndarlaga sé áskilinn réttur til að færa fram nýjar málsástæður ef í ljós kemur að barnið lúti einnig forsjá föður síns. Þá blasi við að bæði vistun barnsins utan heimilis og aðrar aðgerðir barnaverndaryfirvalda, sem aðeins hafi beinst að öðru foreldri, en hafi átt að beinast að þeim báðum, séu haldnar slíkum verulegum ágalla að fella beri þær allar úr gildi og hafna kröfu um forsjársviptingu.

         Stefnda vísar máli sínu til stuðnings til ákvæða laga nr. 80/2002, einkum 29. gr. laganna. Þá sé vísað til 71. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013. Um málskostnað sé vísað til 129., sbr. 130. gr. XXI. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

IV.

Forsendur og niðurstaða

1. Almennt um forsjársviptingarkröfu stefnanda

         Stefnandi, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, krefst þess að stefnda, K, verði svipt forsjá sonar síns, A, sem er fæddur [...] sl. Ekki liggur annað fyrir en að stefnda fari ein með forsjá drengsins, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003. Eins og rakið hefur verið var drengurinn vistaður á vegum barnaverndaryfirvalda þegar í kjölfar fæðingarinnar.

         Forsjársvipting er í eðli sínu það lögmælta úrræði í barnaverndarstarfi sem gengur lengst við að skerða friðhelgi fjölskyldulífs, en sú friðhelgi nýtur verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Sérstaklega ríkar ástæður, er taka mið af hagsmunum og þörfum barnsins, þurfa að réttlæta þá skerðingu. Í samræmi við almennar reglur um meðalhóf verður einnig að liggja fyrir að vægari úrræði hafi ekki dugað til að tryggja þá hagsmuni eða að augljóst sé að þau úrræði muni ekki koma að gagni.

         Fjallað er um efnisleg skilyrði forsjársviptingar í 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þar segir í a-lið 1. mgr. greinarinnar að barnaverndarnefnd sé heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar skuli sviptir forsjá ef hún telur að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska. Samkvæmt d-lið sömu málsgreinar er einnig heimilt að krefjast forsjársviptingar ef talið er fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.

         Eins og rakið hefur verið er krafa stefnanda reist á báðum þessum töluliðum. Dómurinn bendir á að sökum aðgerða stefnanda hefur stefnda aldrei annast um son sinn, A, eða verið í samskiptum við hann, nema í þeirri umgengni sem fram fór skömmu eftir fæðingu hans, undir eftirliti af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum kom ekkert fram við þá umgengni sem gefur tilefni til þeirrar ályktunar að umönnun stefndu eða samskiptum hennar við son sinn hafi verið alvarlega ábótavant, sbr. a-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Af þessum sökum kemur einungis til álita fyrir dómi hvort fullvíst megi telja að líkamlegri eða andlegri heilsu sonar stefndu eða þroska hans sé hætta búin sökum þess að stefnda sé augljóslega vanhæf til að fara með forsjá hans, sbr. d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

         Í 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga er sérstaklega áréttað að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki séu unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Þessi regla byggist á áðurnefndri grundvallarreglu um meðalhóf við beitingu opinbers valds sem skerðir mannréttindi borgaranna, sbr. enn fremur 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meðalhófsreglan kemur einnig fram í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og er því ein af meginreglum barnaverndarstarfs. Kemur það í hlut dómsins að leggja mat á það hvort rétt  hafi verið að beita öðrum og vægari úrræðum í máli þessu.

         Í barnaverndarlögum eru jafnframt fyrirmæli um meðferð barnaverndarmála auk þess sem þar er kveðið á um einstök úrræði sem miða að því að börn fái notið þeirrar verndar og umönnunar sem þau eiga rétt til. Þannig er 21. og 22. gr. laganna ákvæði um upphaf barnaverndarmáls, þar sem einkum er fjallað um svonefnda könnun máls. Í VI. kafla laganna er jafnframt mælt fyrir um þær ráðstafanir sem grípa má til í þágu markmiða laganna. Þar eru í 23. gr. meðal annars ítarleg fyrirmæli um samningu greinargerðar við lok könnunar máls og um svonefnda áætlun um meðferð máls, sem ber að gera, bendi könnunin til þess að þörf sé á því að beita sérstökum úrræðum laganna. Takist ekki að ná samkomulagi við foreldra um slíka áætlun skal barnaverndarnefnd semja einhliða áætlun um framvindu málsins og beitingu úrræða laganna, sbr. 4. mgr. 23. gr. þeirra. Í kaflanum er síðan gerð nánari grein fyrir ýmsum úrræðum, sem hægt er að beita, ýmist með eða án samþykkis foreldra og eftir atvikum barns. Sérstaklega er í 30. gr. laganna kveðið á um úrræði barnaverndarnefnda vegna þungaðra kvenna, leiði könnun máls í ljós að verðandi móðir stofni heilsu eða lífi ófædds barns í hættu með líferni sínu. Þá er í 31. gr. laganna heimild til að grípa til neyðarráðstafana án undangenginnar málsmeðferðar samkvæmt VIII. kafla laganna, ef vinda þarf bráðan bug að ráðstöfun sem heyrir undir barnaverndarnefnd.

         Ákvæði um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefndum eru í VIII. kafla laganna. Þar segir í 1. mgr. 38. gr. að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi um könnun barnaverndarmáls og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd með þeim frávikum sem greini í lögunum. Þar segir enn fremur að málsmeðferðarreglur þessar gildi einnig, eftir því sem við eigi, þegar barnaverndarnefnd undirbúi og taki ákvörðun um málshöfðun fyrir dómi til að koma fram ráðstöfunum samkvæmt 28., 29. og 37. gr. laganna. Í 41. gr. laganna er sérstaklega vikið að rannsóknarreglu og málshraða við meðferð barnaverndarmála. Þar er í 1. mgr. kveðið á um að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þessi regla er efnislega sú sama og kemur fram í 10. gr. stjórnsýslulaga. Í 2. mgr. 41. gr. laganna eru hins vegar gerðar tilteknar kröfur um tímalengd rannsóknar. Þar segir að könnun barnaverndarmáls eigi ekki að vera umfangsmeiri en nauðsyn krefur og skuli hraða henni svo sem kostur er. Skuli ákvörðun um beitingu viðeigandi úrræða að jafnaði liggja fyrir innan þriggja mánaða og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að hefja könnun á máli.

         Í 2. mgr. 38. gr. barnaverndarlaga er mælt fyrir um að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um meðferð mála hjá barnaverndarnefnd. Það hefur hann gert með reglugerð nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Þar eru nánari fyrirmæli um framangreind atriði, svo sem könnun máls, sem ber að ljúka með skriflegri greinargerð að jafnaði innan þriggja mánaða og ekki síðar en fjórum mánuðum eftir að könnunin hefst. Jafnframt er þar kveðið nánar á um gerð áætlunar um meðferð máls gefi könnun á máli tilefni til þess.

         Stefnanda bar að fylgja framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum við meðferð og úrlausn á máli stefndu vegna meðgöngu hennar og eftir fæðingu A. Þessi fyrirmæli miða að því að tryggja að ákvarðanir í barnaverndarmálum, þar á meðal ákvörðun um málshöfðun til forsjársviptingar, séu reistar á réttum forsendum í þágu hagsmuna barna og að teknu tilliti til réttinda foreldra. Verði verulegur misbrestur á því að fylgja þessum reglum er ekki lagður viðhlítandi grundvöllur að málshöfðun um forsjársviptingu.

2.      Málsmeðferð barnaverndaryfirvalda í Reykjavík

2.1    Upphaf athugunar Barnaverndar Reykjavíkur

         Eins og rakið hefur verið hófst könnun á máli stefndu snemma á meðgöngunni eða 29. ágúst 2012. Af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur var útbúið skjal um upphaf málsins og verður að líta svo á að stefnda hafi, með undirritun sinni á það, samþykkt að gangast undir könnunina eins og henni var þar lýst. Í ljósi atvika og í samræmi við gögn málsins ber að ganga út frá því að upphaf málsins hafi miðað að því að athuga hvort stefnda stofnaði heilsu eða lífi hins ófædda barns í hættu með líferni sínu. Tilefni könnunarinnar var langvinn saga stefndu um neyslu vímuefna auk geðræns vanda. Í því ljósi þykir ekki ástæða til að draga í efa að tilefni hafi verið til að hefja könnun á málinu, sbr. 4. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga. Með vísan til 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga og framlagðra reglna um könnun og meðferð einstakra barnaverndarmála eða málaflokka hjá starfsmönnum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sbr. 1. gr. þeirra reglna, var ákvörðun um að hefja athugunina tekin af þar til bærum aðila.

         Eins og rakið hefur verið voru áætluð lok könnunarinnar 29. nóvember 2012, sbr. 2. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga, sem áður er getið, og 3. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 56/2004. Fram að þeim tíma virðist takmarkaðra gagna hafa verið aflað um líferni stefndu. Þau gögn sem þó lágu fyrir bentu ekki til þess að stefnda stofnaði lífi eða heilsu ófædda barnsins í hættu. Eigi síðar en 29. desember 2012 átti greinargerð um niðurstöðu könnunarinnar og tillögur að heppilegum úrræðum, ef því var að skipta, að liggja fyrir, sbr. 1. mgr. 23. gr. og 2. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga og 2. og 3. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 56/2004. Engin greinargerð af því tagi var tekin saman. Ekki var heldur bókað á meðferðarfundi hjá Barnavernd Reykjavíkur um nauðsyn áframhaldandi könnunar málsins eða lok þess. Stefndu var af þessum sökum hvorki tilkynnt um niðurstöður könnunarinnar, eins og hún mátti vænta, sbr. 21. gr. fyrrgreindrar reglugerðar, né var henni gefið færi á að taka afstöðu til skriflegrar áætlunar um frekari meðferð málsins samkvæmt 2. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga og VI. kafla reglugerðarinnar. Þessi málsmeðferð af hálfu stefnanda stangast á við fyrrgreind ákvæði barnaverndarlaga og fyrirmæli reglugerðar nr. 56/2004. Lausatök af þessu tagi eru jafnframt til þess fallin að valda vafa um heimild barnaverndaryfirvalda til frekari afskipta af foreldri eftir að lögmæltur frestur er liðinn til að ljúka könnun málsins.

2.2    Aðgerðir Barnaverndar Reykjavíkur fram að fæðingu A

         Barnavernd Reykjavíkur tók mál stefndu upp að nýju um miðjan janúar 2013 vegna grunsemda sem þá höfðu vaknað um fíkniefnaneyslu stefndu á meðgöngu. Sú athugun byggðist ekki á áætlun um meðferð máls, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga og VI. kafla reglugerðar nr. 56/2004. Þá verður ekki séð að formlega hafi verið stofnað til nýrrar könnunar á því hvort beita skyldi úrræðum 30. gr. barnaverndarlaga. Stefnda heldur því fram að sú athugun sem hófst í janúar 2013, þar sem gagna var aflað um meðgöngu stefndu, hafi ekki haft stoð í lögum. Af þessu tilefni tekur dómurinn fram að stefnda hafði í fyrri hluta janúarmánaðar hvorki mætt í viðtal hjá lækni né í mæðraskoðun. Í ljósi sögu stefndu um misnotkun vímuefna var því tilefni til að hefja könnun á aðstæðum stefndu að nýju með tilliti þess hvort líferni hennar ógnaði lífi eða heilsu hins ófædda barns, sbr. 4. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga.

         Athugun málsins á þessu stigi virðist sem fyrr hafa beinst að ætlaðri vímuefnanotkun stefndu á meðgöngu. Þegar starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur vitjuðu stefndu á heimili hennar 24. janúar 2013 kvaðst hún hafa verið veik framan af janúarmánuði. Hún mætti í mæðraskoðun daginn eftir og þar var tekið þvagpróf af henni sem mældist neikvætt fyrir fíkniefnum. Munnvatnspróf, sem tekið var af henni fyrir umgengni við dóttur hennar 26. janúar, mældist jákvætt fyrir kannabis, en þvagpróf, sem tekið var í kjölfarið var neikvætt. Þar sem umgengni fór fram er ljóst að niðurstaða þvagprófsins var lögð til grundvallar, en skilyrði hennar var að stefnda mældist ekki jákvæð fyrir fíkniefnum. Að mati dómsins hefur stefnandi ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að niðurstaða munnvatnsprófsins styrki grunsemdir um vímuefnaneyslu stefndu öndvert við niðurstöður beggja þvagrannsóknanna. Í því sambandi verður að hafa í huga að þvagsýnið 25. janúar var gefið að ljósmóður viðstaddri, eins og gögn málsins gefa til kynna. Með ólíkindum er sú skýring, sem vísað var til af starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur við skýrslutökur fyrir dómi, að stefnda hafi eftir mæðraskoðunina neytt kannabis, vitandi af því að hún væri að fara í vímuefnapróf daginn eftir, og að það hafi einungis mælst í munnvatni en ekki í þvagi. Önnur vímuefnapróf, sem tekin voru af stefndu við reglulegt mæðraeftirlit fram að fæðingu, voru neikvæð. Við athugun málsins kom því ekkert fram sem gat, gegn staðfastri neitun stefndu, rennt stoðum undir grunsemdir um fíkniefnanotkun hennar á meðgöngu

         Eins og rakið hefur verið var samþykkt á meðferðarfundi hjá Barnavernd Reykjavíkur 4. febrúar 2013 að gera meðferðaráætlun um vímuefnapróf á stefndu og óboðað eftirlit fram að fæðingu barnsins. Þessi niðurstaða var reist á grunsemdum sem ekki fengust staðfestar við könnun málsins, eins og að framan greinir. Ekki var tekin saman önnur greinargerð um niðurstöðu könnunarinnar en bókun meðferðarfundarins. Hún var send lögmanni stefndu ásamt meðferðaráætlun sem gerði ráð fyrir samkomulagi við stefndu í samræmi við 2. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga. Stefnda samþykkti ekki áætlunina eins og rakið er í kafla II. Verður að ganga út frá því að ástæðan hafi verið kvöð um óboðað eftirlit af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Það var á ábyrgð stefnanda að ganga úr skugga um hvort stefnda myndi samþykkja áætlunina. Honum bar síðan að taka einhliða ákvörðun um gerð áætlunar um framvindu málsins í samræmi við 4. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga. Gegn fyrirmælum laganna var það ekki gert. Því reyndi aldrei á það hvort stefnda myndi fylgja slíkri áætlun.

         Að mati dómsins einkennist þessi málsmeðferð, sem lýst hefur verið í kafla 2.1 og 2.2, af ómarkvissum viðbrögðum við grunsemdum um vímuefnanotkun stefndu á meðgöngu sem aldrei var sýnt fram á að ættu við rök að styðjast. Þegar ákveðið var að lokum að grípa til formlegra aðgerða samkvæmt fyrirmælum barnaverndarlaga var málinu ekki fylgt eftir á þann hátt sem lögin kveða á um með því að gera einhliða áætlun um meðferð máls. Samkvæmt því og í ljósi atvika mátti stefnda reikna með að ekki væri fyrirhugað að svo stöddu að fylgja málinu eftir af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Ekki er hins vegar fallist á það með stefndu að ákvarðanir, sem teknar voru á þessu stigi málsmeðferðarinnar, hafi verið teknar af starfsmönnum sem ekki voru til þess bærir, sbr. 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga og fyrrgreindra reglna um meðferð barnaverndarmála hjá Reykjavíkurborg.

2.3 Íhlutun Barnaverndar Reykjavíkur eftir fæðingu A

         A fæddist [...] 2013. Á meðferðarfundi hjá Barnavernd Reykjavíkur sama dag var lagt til að barnið færi „í varanlegt fóstur til að tryggja óskilyrtan rétt þess til verndar og umönnunar“. Ýmsar ástæður eru tilgreindar í bókun fundarins fyrir þessari tillögu. Í fyrsta lagi var byggt á niðurstöðu matsgerðar Guðrúnar Oddsdóttur um verulega veikleika í persónugerð stefndu. Í öðru lagi var vísað til þess að við vinnslu máls stefndu hafi verið áberandi hversu lítið innsæi hún hefði í eigin vanda og að nánast ógerlegt hefði verið að eiga samvinnu við hana. Hafi sá stuðningur, sem reyndur hefði verið, ekki skilað árangri og hafi stefnda ekki verið til samvinnu um meðferð t.d. hjá geðlækni eða sálfræðingi. Í þriðja lagi er þar vísað til grunsemda um vímuefnaneyslu stefndu á meðgöngu í ljósi hegðunar hennar í janúar og niðurstöðu munnvatnsprófs 26. janúar 2013. Dómurinn telur ástæðu til athugasemda við hluta af þessum forsendum, sbr. að nokkru umfjöllun hér að framan. Nánari grein verður gerð fyrir þeim atriðum síðar í dóminum í tengslum við umfjöllun um úrskurð barnaverndarnefndar.

         Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hefur bæði í gögnum málsins sem og í skýrslu fyrir dómi lýst því að framkvæmdastjóri og formaður stefnanda hafi heimilað, sama dag og A fæddist, að farið yrði á fæðingardeild í því augnamiði að taka barnið úr umsjá stefndu. Til þess voru þessir aðilar bærir, sbr. 31. gr. barnaverndarlaga, 4. mgr. 14. gr. sömu laga og 13. gr. fyrrgreindra reglna um meðferð barnaverndarmála hjá Reykjavíkurborg. Eins og rakið er í kafla II var íhlutun þessi framkvæmd með þeim hætti að stefndu var gefinn kostur á því að samþykkja vistun barnsins þar til málið yrði tekið fyrir hjá barnaverndarnefnd 12. mars 2013, ellegar yrði einhliða ákvörðun tekin um vistun barnsins. Dómurinn telur að skilyrði neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga hafi þurft að liggja fyrir svo heimilt hafi verið að grípa með þessum hætti inn í mál stefndu. Breytir engu í því efni þó að stefnda hafi samþykkt vistun barnsins enda ljóst að ákvörðun sama efnis hefði verið tekin hefði hún neitað að samþykkja ráðstöfunina. Beiting neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga felur í sér frávik frá hefðbundinni málsmeðferð samkvæmt VIII. kafla barnaverndarlaga. Því fékk stefnda hvorki tækifæri til andmæla né fékk hún aðgang að gögnum málsins áður en barnið var tekið úr umsjá hennar. Eins og segir í 31. gr. barnaverndarlaga kemur heimild þessi því ekki til álita nema að nauðsynlegt sé að vinda bráðan bug að ráðstöfun sem heyrir undir barnaverndarnefnd. Fæðingin átti sér venjulegan aðdraganda og af hálfu stefnanda hafði verið fylgst með meðgöngu stefndu í marga mánuði. Fæðingin kom því starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur ekki á óvart. Þá er ekkert í gögnum málsins sem gefur til kynna að barnið hafi beinlínis verið í hættu í umsjá stefndu strax á fæðingardeildinni eða fyrstu vikurnar eftir að heim væri komið. Dómurinn fær því ekki séð að skilyrðum hafi verið fullnægt til að beita mætti neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga. Því var ekki unnt að ákveða vistun barnsins nema að undangenginni hefðbundinni málsmeðferð þar sem stefnda nyti lögmæltra réttinda, eins og andmælaréttar.

2.4    Úrskurður barnaverndarnefndar og ákvörðun um að höfða forsjársviptingarmál

         Stefnda byggir jafnframt á því að úrskurður barnaverndarnefndar 12. mars 2013 sé reistur að verulegu leyti á röngum forsendum, m.a. um að hún hafi ekki verið til samvinnu um áætlun um meðferð máls, auk þess sem mikið sé gert úr jákvæðu munnvatnsprófi er stangist á við tvö þvagsýni.

         Ekki verður annað séð en að öll fyrirliggjandi gögn hafi verið lögð fyrir barnaverndarnefnd, auk þess sem lögmaður stefndu talaði máli hennar, ásamt henni sjálfri, og gerði grein fyrir þeim andmælum, sem hún hafði við málatilbúnaði Barnaverndar Reykjavíkur, í samræmi við fyrirmæli 45. og 47. gr. barnaverndarlaga. Í forsendum úrskurðarins er greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur rakin í megin atriðum, en þar var byggt á sömu þremur meginforsendum og gerð er grein fyrir í kafla 2.3. Þess var þó jafnframt getið að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur teldu ekki nægilegt að stefnda væri edrú til að tryggja öryggi barnsins. Allt að einu væri hún óhæf til að annast það og að stuðningsaðgerðir væru fullreyndar. Undir þetta mat var tekið af hálfu barnaverndarnefndar sem taldi fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu drengsins væri hætta búin færi stefnda með forsjá hans. Áleit nefndin að stuðningsaðgerðir til að bæta forsjárhæfni stefndu væru fullreyndar og að ekki væri unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta. Í tilefni af yfirlýsingu stefndu á fundi barnaverndarnefndar, um að hún væri reiðubúin til samvinnu um stuðning og ráðgjöf, var tekið fram að ekki væri unnt að treysta því að stefnda myndi standa við þá yfirlýsingu. Auk þess yrði að telja að frekari stuðningsaðgerðir megnuðu ekki að breyta forsjárhæfni stefndu til hins betra vegna þess djúpstæða og langvarandi vanda sem hún glímdi við.

         Í tilefni af framangreindu áréttar dómurinn að ekki lágu fyrir haldbærar vísbendingar um vímuefnaneyslu stefndu á meðgöngu þannig að unnt sé að byggja á því við úrlausn barnaverndarmálsins. Þá fær dómurinn ekki séð að ályktanir um að stefnda væri ekki til samvinnu við barnaverndaryfirvöld og að stuðningsaðgerðir væru fullreyndar, fái stoð í þeim gögnum sem lágu fyrir nefndinni. Verður hér vikið nánar að  síðargreinda atriðinu.

         Eins og áður segir lagði Barnavernd Reykjavíkur ekki fram einhliða áætlun um meðferð máls, eins og henni bar að gera, eftir að stefnda neitaði að samþykkja óboðað eftirlit á heimili sínu fram að fæðingu sonar síns. Aldrei reyndi því á það hvort stefnda myndi fylgja slíkri áætlun. Fram að því höfðu starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur verið í samskiptum við stefndu og hafði hún meðal annars tekið á móti þeim á heimili sínu í janúar 2013. Það gerði hún þrátt fyrir að könnun máls hafi þá átt að vera löngu lokið og að ekki hafi verið gert ráð fyrir því í áætlun um könnunina frá 3. september 2012 að starfsmenn vitjuðu stefndu á heimili hennar. Upplýsingar um samskipti stefndu við Barnavernd Reykjavíkur gefa því ekki tilefni til þeirrar ályktunar að á það hafi skort að stefnda hafi verið til samvinnu um að gripið yrði til viðeigandi úrræða á meðgöngunni.

         Eins og rakið hefur verið hófust afskipti barnaverndaryfirvalda af högum dóttur stefndu í desember 2008. Á þeim tíma var stefnda í sambúð með C sem einkenndist af ofbeldi og áfengis- og vímuefnaneyslu. Í forsjárhæfnismati Davíðs Vikarssonar er gerð grein fyrir þeim stuðningsúrræðum sem þá voru reynd bæði hér á landi og í Danmörku. Af því sem þar kemur fram má ráða að þau hafi ekki skilað viðunandi árangri sökum áfengis- og vímuefnaneyslu stefndu. Þar kemur jafnframt fram að stefnda hafi í fyrstu ekki verið til samvinnu við barnaverndaryfirvöld hér á landi um gerð meðferðaráætlunar eftir að hún og dóttir hennar fluttust á ný til Íslands. Í febrúar 2011 virðast ákveðin straumhvörf verða að þessu leyti. Stefnda óskaði þá sjálf eftir því að stúlkunni yrði komið fyrir í tímabundið fóstur. Þá samþykkti hún áætlun um meðferð máls sem fól meðal annars í sér að hún gengist undir vímuefnameðferð og forsjárhæfnismat. Fram kemur í vottorði Jóns G. Stefánssonar geðlæknis að stefnda hafi verið í meðferð á Vogi í apríl og maí 2011. Eftir þá dvöl hélt stefnda áfram í M-hóp, sem er eftirmeðferðarhópur á vegum SÁÁ, auk þess sem hún tengdist hjálparstarfi trúfélaga. Í dómi héraðsdóms frá 31. janúar sl. kemur fram að ný meðferðaráætlun hafi verið gerð í september 2011. Þar hafi verið lagt upp með að stefnda mætti til geðlæknis og sálfræðings auk þess að viðhalda „edrúmennsku“ sinni. Í dóminum er þess getið að stefnda hafi sótt sálfræðiviðtöl frá september til desember 2011. Hafi hún mætt í fimm viðtöl, en fjögur hafi fallið niður án fyrirvara. Þá liggur fyrir að stefnda leitaði til geðlæknis, Jóns G. Stefánssonar, 27. júní 2012, en fram kemur í dóminum að það hafi hún gert til að fá umsögn hans. Jón tók í kjölfarið þrjú viðtöl við stefndu og kemur fram í vottorði hans 28. ágúst 2012 að hún hafi mætt í þau öll á réttum tíma, hrein, snyrtileg og hraustleg. Þá kemur fram í gögnum málsins að hún hafi haldið áfram að sækja viðtöl hjá Jóni.

         Önnur stuðningsúrræði en að framan greinir hafa ekki verið reynd til að styrkja stefndu í foreldrahlutverkinu. Öll tengjast þau eldra barnaverndarmáli og komu til framkvæmda meðan dóttir stefndu var ekki í umsjá hennar. Ljóst er að stefnda var í einhverri neyslu kannabis allt fram í maí 2012. Ýmis gögn gefa aftur á móti til kynna að á meðgöngutímanum hafi stefnda sýnt skýr merki um að hún væri að taka sig á í lífinu með reglubundnara líferni. Má um það vísa til forsjárhæfnismats Davíðs Vikarssonar,vottorðs Jóns G. Stefánssonar auk gagna frá mæðraeftirliti sem og matsgerðar Guðrúnar Oddsdóttur. Þrátt fyrir það komu engar tillögur fram á vegum Barnaverndar Reykjavíkur um frekari stuðningsaðgerðir fyrir fæðingu A eða með hvaða hætti unnt væri að styðja við bakið á henni eftir hana. Því fær dómurinn ekki séð á hvaða forsendum sú ályktun er reist að stuðningsaðgerðir við stefndu hafi verið fullreyndar. Í því sambandi leggur dómurinn áherslu á að sú skylda hvíldi á stefnanda að afla nauðsynlegra upplýsinga til stuðnings ályktunum sínum, sbr. síðari málslið 1. mgr. 38. gr. og 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga.

2.5    Áhrif málsmeðferðarannmarka á forsjársviptingarkröfu stefnanda

         Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður að telja að verulegir annmarkar hafi verið á meðferð barnaverndaryfirvalda í Reykjavík á barnaverndarmáli því sem hófst 29. ágúst 2012 vegna meðgöngu stefndu. Fór málsmeðferðin á ýmsan hátt gegn ákvæðum barnaverndarlaga. Skiptir þar miklu að könnun málsins leiddi aldrei til afdráttarlausrar niðurstöðu um aðgerðir af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur, en það var á hennar ábyrgð að leiða könnunina til lykta. Án fyrirvara var síðan gripið til neyðarráðstöfunar strax eftir fæðingu A [...] sl. án þess að skilyrðum 31. gr. barnaverndarlaga væri fullnægt. Það olli því að stefnda fékk ekki notið lögbundinna réttinda við meðferð málsins, svo sem andmælaréttar og aðgangs að gögnum, áður en gripið var til þessarar harkalegu aðgerðar. Að hluta byggðist þessi ráðstöfun, sem og úrskurður barnaverndarnefndar 12. mars sl., jafnframt á ályktunum sem ekki verður séð að tekist hafi að færa viðhlítandi sönnur á, eins og rakið hefur verið. Dómurinn telur því að ekki hafi verið lagður nægjanlega traustur grundvöllur að málshöfðun stefnanda.

         Hvað sem þessu líður er í barnaverndarlögum við það miðað að dómurinn eigi einkum að meta hvort efnislegum skilyrðum fyrir kröfu stefnanda sé fullnægt, sbr. 29. gr. barnaverndarlaga. Brotalamir við undanfarandi meðferð barnaverndarmálsins leiða því ekki sjálfkrafa til þess að hafna beri forsjársviptingu, eins og stefnda byggir á. Áhersla á velferð barnsins, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, veldur því að dómurinn verður eftir sem áður að leysa úr því hvort barninu sé hætta búin við að lúta forsjá stefndu vegna vanhæfni hennar. Verður hér vikið að þeim atriðum.

3. Eru skilyrði forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga fyrir hendi?

         Eins og rakið hefur verið kemur einungis til álita hvort stefnda verði svipt forsjá A á grundvelli d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, enda liggur ekkert fyrir um að stefnda hafi vanrækt daglega umönnun, uppeldi eða samskipti við drenginn, sbr. a-lið sömu málsgreinar. Þegar hefur verið gerð grein fyrir því að samkvæmt d-lið málsgreinarinnar geti barnaverndarnefnd gert kröfu um að svipta foreldra forsjá ef fullvíst er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana eða greindarskorts eða vegna þess að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Dómurinn verður því að taka til skoðunar hvort fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um stefndu bendi til þess að hún eigi, vegna vanhæfni sinnar, svo örðugt með að veita barninu nauðsynlegt öryggi, umönnun og örvun að það ógni velferð og þroska þess. Inn í það mat fléttast óhjákvæmilega álit dómsins á því hvort vægara úrræði en forsjársvipting geti komið til álita í ljósi aðstæðna, þ. á m. forsendna stefndu til að þiggja slíka aðstoð, eða hvort slík úrræði hafi verið reynd án viðunandi árangurs, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

         Stefnandi hefur í öllum aðalatriðum reist ályktanir sínar um vanhæfni stefndu að þessu leyti á gögnum sem aflað var í öðru barnaverndarmáli, auk upplýsinga um langvarandi vímuefnavanda stefndu og samskipti við barnaverndaryfirvöld. Meðal þessara gagna er forsjárhæfnismat sem Davíð Vikarsson gerði í tilefni af barnaverndarmáli vegna dóttur stefndu, sem er dagsett 27. júlí 2011, og matsgerð dómkvadds matsmanns, Guðrúnar Oddsdóttur, dags. 12. desember 2012, í tilefni af sama barnaverndarmáli. Ýmis atriði úr matsgerðinni eru rakin í kafla II. Þau lúta í meginatriðum að persónugerð og geðrænu ástandi stefndu sem geta haft afgerandi þýðingu fyrir almenna hæfni hennar til að annast forsjárskyldur sínar. Að því leyti telur dómurinn að matsgerð Guðrúnar Oddsdóttur, sem og forsjárhæfnismat Davíðs Vikarssonar, hafi augljósa þýðingu við úrlausn á kröfu stefnanda í máli þessu, öndvert við það sem haldið hefur verið fram af hálfu stefndu fyrir dómi.

         Ljóst er af framlögðum gögnum að stefnda hefur átt við langvarandi vímuefnavanda að etja. Nokkur ár virðast vera síðan hún neytti harðari fíkniefna eins og amfetamíns. Eftir að stefnda fór í meðferð á árinu 2011 hafa komið upp tilvik þar sem hún hefur mælst jákvæð fyrir kannabis, síðast í maí 2012. Á meðgöngutímanum hefur stefnda farið reglulega í fíkniefnapróf í mæðraeftirliti sem og í tengslum við umgengni við dóttur sína. Eins og vikið var að í kafla 2.2 og 2.3 kom þar ekkert fram sem rennt gat stoðum undir það að stefnda hefði neytt fíkniefna á þeim tíma. Þessar upplýsingar gefa von um að stefnda sé á réttri leið með að vinna bug á vímuefnavanda sínum. Sá vandi er þó þess eðlis að stefnda er ávallt í hættu á að hefja neyslu vímuefna að nýju. Skipta þar meðal annars máli ákveðnir veikleikar í persónugerð stefndu sem nánar verður hér vikið að.

         Af fyrrgreindu forsjárhæfnismati Davíðs Vikarssonar, matsgerð Guðrúnar Oddsdóttur, sem og eldri gögnum um stefndu, liggur fyrir að stefnda á við djúpstæðari, geðrænan vanda að etja en svo að hann verði einungis rakinn til vímuefnanotkunar. Umsögn frá fjölskyldudeild [...] bendir til þess að sá vandi eigi rætur að rekja til frumbernsku stefndu og tengslamyndunar við móður. Greindarmæling (WAIS) sýnir að stefnda er á stigi tornæmis, sem út af fyrir sig þarf ekki að draga svo mjög úr hæfni hennar til að annast forsjárskyldur sínar. Aftur á móti koma fram á persónuleikaprófum, sem stefnda hefur tekið á síðari árum, ýmsir alvarlegir brestir í sjálfsmynd, skapgerð og samskiptahæfni stefndu. Þrenns konar persónuleikapróf hafa verið lögð fyrir stefndu á fullorðinsárum, PAI (Personality Assessment Inventory), MMPI-2 persónuleikapróf og DIP-Q.

         Niðurstöður PAI, sem stefnda tók sumarið 2011, gefa til kynna að stefnda hafi tilhneigingu til að gera lítið úr eigin vandamálum. Hún sýnir einkenni sem benda til örlyndis, ofsóknarhugmynda, samskiptavanda og andfélagslegrar hegðunar. Þá kemur þar fram tilhneiging til þess að sveiflast frá gremju yfir í magnað sjálfstraust og til þess að sýna hvatvísa og óábyrga hegðun. Þá segir í forsjárhæfnismati Davíðs Vikarssonar að persónuleikapróf þetta gefi möguleika á geðgreiningu út frá greiningarkerfi amerísku geðlæknasamtakanna (DSM-IV). Samkvæmt því uppfylli stefnda greiningarskilmerki fyrir fíkniefnavanda auk þess sem vísbendingar eru um einkenni geðhvarfa með örlyndi. Þá sýni stefnda einnig einkenni alvarlegrar persónuleikaröskunar, „bæði andfélagslegrar- og narcissistiscar persónuleika-röskunar“.

         MMPI-2 persónuleikaprófið, sem stefnda tók í nóvember 2012, gefur svipaða niðurstöðu. Þar koma fram skýrar vísbendingar um að stefnda hafi lítið innsæi í eigin veikleika og forðist að leita ráða hjá öðrum. Þetta einkenni dregur að mati hins dómkvadda matsmanns, Guðrúnar Oddsdóttur, úr líkum á því að stefnda geti nýtt sér meðferð. Þá bendi svarmynstur stefndu til þess að hún sé óáreiðanleg, sjálflæg og óábyrg og sýni sterk einkenni andfélagslegrar hegðunar og viðhorfa. Telur Guðrún það meðal annars birtast í því að hún eigi erfitt með að sætta sig við yfirvald og samfélagslegar kröfur, sem og að læra af reynslunni og skipuleggja hluti. Þá sýni hún slaka dómgreind og hvatvísi undir álagi. Í matsgerðinni segir að þeir sem svari prófinu eins og stefnda séu iðulega félagslyndir og komi vel fyrir í fyrstu, en eigi eftir sem áður mjög erfitt með að mynda náin tengsl. Þegar á reyni bregðist þeir við með reiði eða uppreisn. Í tengslum við niðurstöðu þessa prófs segir í matsgerðinni að stefndu finnist hún iðulega vera beitta órétti og sé tortryggin, hörundsár og árásargjörn. Þegar þolinmæði hennar bresti geti smáatriði síðan fyllt mælinn og hún misst stjórn á sér án fyrirvara.

         Við matsgerð var DIP-Q spurningalisti einnig lagður fyrir stefndu. Samkvæmt honum uppfyllir stefnda ekki greiningarviðmið fyrir persónuleikaraskanir. Þá var félagsmótunarpróf Gough lagt fyrir stefndu. Þar náði hún 28 stigum af 54 sem samkvæmt matsgerð bendir til lélegrar félagsmótunar.

         Auk þessara prófa voru í matsgerð Guðrúnar dregnar ályktanir af viðtali hennar við stefndu og gögnum málsins, m.a. um aðdraganda þess að stefnda óskaði eftir því að dóttir hennar færi í vistun í febrúar 2011. Er í matsgerðinni m.a. lagt út af ummælum, sem þá voru höfð eftir henni, þar sem hún kvaðst oft missa þolinmæði gagnvart stúlkunni og að hún hristi hana og rassskellti þegar hún vaknaði á nóttunni, auk þess sem hún hótaði henni ef hún sofnaði ekki aftur. Hafi stefnda lýst því yfir að hún óttaðist að missa stjórn á sér og kæfa barnið með kodda og kvaðst hafa lagt kodda yfir vit þess og þrýst að. Enn fremur er þar stuðst við athugun matsmanns á hegðun og tengslum stefndu við stúlkuna í umgengni í eitt skipti.

         Eins og rakið er í kafla II er í ljósi alls þessa dregið í efa í matsgerðinni að stefnda sé fær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi stúlkunnar. Var talið að velferð hennar yrði ekki tryggð með öðrum hætti en að hún yrði áfram í fóstri og í mjög takmörkuðum tengslum við móður sína. Þar er meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að stefnda hafi beitt stúlkuna ofbeldi og ógnunum, sem hafi komið fram í ofsahræðslu stúlkunnar við stefndu. Þá hafi tengsl mæðgnanna í umgengni verið óörugg og ruglingsleg sem rekja megi til truflana á geðtengslum þeirra meðan stúlkan hafi verið hjá stefndu. Talið var að andlegri og jafnvel líkamlegri heilsu stúlkunnar væri þó nokkur hætta búin hjá stefndu, enda hefði „hún stefnt hvoru tveggja í hættu áður með breytni sinni“.

         Guðrún Oddsdóttir gaf jafnframt skýrslu fyrir dómi í þessu máli, þar sem hún staðfesti þá niðurstöðu sem komist var að í framangreindri matsgerð. Í máli hennar kom fram að miklir gallar væru á forsjárhæfni stefndu og vísaði því til stuðnings til atriða sem rakin eru í matsgerðinni, meðal annars um skort á getu til að setja sig í spor annarra. Þá kvað hún andlega heilsu stefndu markast af svo langvarandi og alvarlegum erfiðleikum að ólíklegt væri að „eitthvað væri að breytast“. Hún væri ekki móttækileg fyrir meðferð, enda sýndi það sig að hún hefði ekki sótt sér meðferð af nægjanlegum krafti. Aðspurð taldi hún matsgerðina nothæfa við að meta hæfni stefndu til að annast önnur börn en dóttur hennar. Þar vísaði hún til þess að persónugerð stefndu, greindarfarslegar takmarkanir hennar, löng saga um andfélagslega hegðun og fíkn valdi því að foreldrahæfni hennar almennt væri mjög skert. Í svari við spurningu sérfróðs meðdómsmanns hélt hún því einnig fram að brestir í persónuleika hennar gætu valdið því að hún skaðaði ungbarn. Benti hún á að hún hefði mælst 70 í „Overcontrolled-Hostility“ í MMPI-prófinu, sem væri ansi hátt, og að hún hefði ríka tilhneigingu til að „trompast“ undir álag. Þá taldi hún sannað með stefndu að ungbarn gæti verið í lífshættu í umsjá hennar. Vísaði hún í því sambandi til þess að stefnda hefði viðurkennt að hafa sett púða fyrir vit þriggja ára dóttur sinnar.

         Matsgerð Guðrúnar Oddsdóttur er ítarleg og vel rökstudd um hæfi stefndu til að fara með forsjárskyldur sínar gagnvart dóttur sinni. Niðurstaða hennar kemur heim og saman við ýmis önnur gögn í málinu um alvarlega bresti í persónuleika stefndu sem gera henni augljóslega erfitt að axla forsjárskyldur sínar og tryggja barni sínu öryggi og vernd. Í skýrslu sinni fyrir dómi áréttaði Guðrún það mat sitt að stefndu skorti hæfni til að sinna forsjárskyldum sínum, eins og rakið hefur verið, og taldi hana geta verið hættulega barni sínu. Í þessu ljósi, og að teknu tilliti til langrar sögu um geðræna erfiðleika stefndu, sem hafa, ásamt langvinnri áfengis- og vímuefnamisnotkun, valdið því að hún hefur ekki getað annast eldri börn sín, er á það fallist að forsjárhæfni hennar sé verulega skert.

         Í kafla 2.4 er gerð grein fyrir þeim stuðningsúrræðum sem virðast hafa staðið stefndu til boða í eldra barnaverndarmáli. Eins og þar er rakið hafa þau úrræði fyrst og fremst einskorðast við vímuefnameðferð og sálfræðiaðstoð auk þess sem stefnda hefur sótt tíma hjá geðlækni. Í þessu máli var stefndu ekki boðinn neinn stuðningur á meðgöngu og var barnið vistað utan heimilis þegar eftir fæðingu þess. Engin vægari úrræði voru því reynd. Kemur því einungis til álita hvort högum stefndu sé þannig varið að ekki sé unnt að beita vægari úrræðum en forsjársviptingu.

         Í matsgerð Guðrúnar Oddsdóttur er vikið að því að vegna skorts á innsæi í veikleika sína séu líkur á því að stefnda sé ekki móttækileg fyrir aðstoð. Í svari við matsspurningu, þess efnis hvort önnur úrræði en forsjársvipting geti komið að gagni til að tryggja velferð dóttur stefndu, var einungis vísað til áfallasögu stúlkunnar í umsjá stefndu og sú ályktun dregin að ekki væri unnt að tryggja velferð hennar með öðrum hætti en forsjársviptingu. Samkvæmt þessu veitir matsgerðin ekki afdráttarlaus svör um hvort útilokað sé að stefnda geti með stuðningi náð að bæta forsjárhæfni sína. Í skýrslu sinni fyrir dómi taldi Guðrún hins vegar hæpið að einhver stuðningur gæti komið henni að gagni nema langtímameðferð og mikil atferlisþjálfun. Væri henni ekki kunnugt um að slíkt væri í boði nema hugsanlega „Móðir/barn-teymi“ á Landspítalanum. Hins vegar sæi hún ekki að slík atferlisþjálfun kæmi stefndu að gagni í ljósi aldurs hennar, erfiðrar sögu, viðhorfa til aðstoðar og skorts á innsæi í eigin vanda.

         Af þessu tilefni ber að taka fram að stefnda virðist hafa nýtt sér þann takmarkaða stuðning sem henni hefur staðið til boða þó að hún hefði mátt mæta betur í sálfræðitíma árið 2011. Gögn frá árinu 2012 og framan af þessu ári gefa jafnframt til kynna að stefnda hafi sýnt vilja til að taka sig á í lífinu. Einkenndist líf hennar af mun meiri reglusemi á þessu tíma en mörg undanfarin ár. Hún var með tryggt húsnæði og atvinnu og virðist hafa haldið sig frá vímuefnum á meðgöngunni. Þá er til þess að líta að þau tilvik, þar sem stefnda kveðst hafa beitt dóttur sína ofbeldi og sýnt henni ógnandi hegðun, áttu sér stað meðan hún var í mikilli neyslu fíkniefna og í ofbeldissambandi. Þær jákvæðu breytingar, sem urðu á högum og líferni stefndu á þessum tíma, hefðu, þrátt fyrir sterkar vísbendingar um vanhæfni hennar, átt að gefa barnaverndaryfirvöldum tilefni til að huga nánar að því en gert var hvort hún gæti axlað forsjárskyldur sínar með nauðsynlegum stuðningi og eftirliti. Verður í þessu sambandi að árétta að forsjársvipting er alvarleg skerðing á friðhelgi fjölskyldulífs sem ekki ber að grípa til nema augljóst sé að vægara úrræði komi ekki að gagni eða að þau hafi verið reynd án árangurs.

         Á hinn bóginn var dómkvaddur matsmaður, Guðrún Oddsdóttir, sem mat nýlega forsjárhæfni stefndu gagnvart dóttur sinni, mjög afdráttarlaus í skýrslugjöf sinni fyrir dómi um að ekki væru í boði úrræði sem dygðu til að gera stefndu hæfa til bera ábyrgð á barni. Þetta álit hennar var vel rökstutt og sannfærandi að mati sérfróðra meðdómenda. Niðurstöður persónuleikaprófa og fyrirliggjandi upplýsingar um lífshlaup stefndu gefa skýrt til kynna að hún eigi í miklum erfiðleikum með að setja sig í spor annarra, sé sjálfmiðuð og að mikið skorti á að hún hafi innsæi í eigin vanda. Þá hefur hún takmarkaða dómgreind og er hvatvís, sem veldur því að hún lendir oft upp á kant við fólk. Stefnda er komin á fertugsaldur og að mati hinna sérfróðu meðdómenda eru þær raskanir sem hér um ræðir þess eðlis að torvelt verður fyrir hana að vinna bug á þeim þannig að forsjárhæfni hennar verði viðunandi. Persónuleikaraskanir af þessum toga valda jafnframt því að stefnda er í meiri hættu en ella að falla á vímuefnabindindi. Þá er til þess að líta að stefnda hefur ekki nýtt sér umgengnisrétt sinn við A síðan 12. mars sl. og hefur Barnavernd Reykjavíkur ekki tekist að ná sambandi við hana síðan þá. Stefnda kom ekki fyrir dóm til að gefa aðilaskýrslu og liggja því ekki fyrir skýringar hennar á þessu eða hvernig högum hennar sé núna háttað.

         Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn ekki annað fært en að draga þá ályktun að skilyrði d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu fyrir hendi. Þá hafa verið færð fyrir dóminn nægar vísbendingar um að stefnda sé, vegna langvarandi persónuleikaraskana, ekki fær um að vinna bug á þeim annmörkum sem draga úr hæfni hennar til að bera ábyrgð á barni. Þrátt fyrir verulega annmarka á meðferð málsins af hálfu barnaverndaryfirvalda hvað þennan þátt varðar, telur dómurinn því liggja fyrir að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum en forsjársviptingu til að tryggja öryggi og velferð A, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Ber því að fallast á kröfu stefnanda.

         Stefnandi krefst ekki málskostnaðar úr hendi stefndu og verður málskostnaður ekki dæmdur. Stefnda nýtur gjafsóknar í málinu og greiðist gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Gunnars Inga Jóhannssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 900.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari og sálfræðingarnir Aðalsteinn Sigfússon og Ragna Ólafsdóttir kveða upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

         Stefnda, K, er svipt forsjá sonar síns, A.

         Málskostnaður fellur niður.

         Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Gunnars Inga Jóhannssonar hdl., 900.000 krónu.