Hæstiréttur íslands

Mál nr. 7/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Föstudaginn 8

                                                    Miðvikudaginn 13. janúar 1999.

Nr. 7/1999.                                           Bergþóra Berta Guðjónsdóttir

                                                    (Leó E. Löve hrl.)

                                                    gegn

                                                    Ólafi Arnbjörnssyni

                                                    (enginn)

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu stefnda um að stefnanda yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu. Ekki talið að af gjaldþrotaskiptum á búi  stefnanda sem lauk tveimur árum fyrir málshöfðun yrðu leiddar líkur að því að hann væri nú ófær um greiðslu málskostnaðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 1998, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 1999. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 1998, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili setji málskostnaðartryggingu að fjárhæð 400.000 krónur. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að setja fyrrgreinda tryggingu fyrir málskostnaði, en til vara að ákveðin verði önnur lægri fjárhæð. Hann krefst og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fallist verður á með héraðsdómara, að af fjárhagsaðstæðum varnaraðila fyrir tveimur árum verði út af fyrir sig ekki leiddar líkur að því að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar í máli þessu, sem hann hefur höfðað á hendur sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 1998.

                Stefndi hefur krafist þess að stefnandi leggi fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 400.000 krónur.

                Færir hann fram þau rök að skiptum á eignalausu þrotabúi stefnanda hafi lokið fyrir tveimur árum og á þeim grundvelli verði að telja lagaskilyrði fyrir kröfu þessari uppfyllt. En krafa hans er sett fram með vísan til b liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.

                Engra gagna nýtur í málinu um núverandi ógjaldfærni stefnanda, en sönnunarbyrði hvílir að þessu leyti öll á stefnda.

                Af hálfu stefnanda hefur kröfu stefnda verið mótmælt alfarið og til vara er fjárhæð kröfunnar mótmælt.

                Að mati dómara þarf stefndi að sýna fram á að ljóst sé að stefnandi geti ekki greitt stefnda þann málskostnað sem hann gæti fyrirsjáanlega verið dæmdur til.

                Fjárhagsástæður stefnda fyrir a.m.k. tveimur árum veita ekki tilefni til þess að leiða megi líkur til þess að stefnandi sé nú ófær um greiðslu hugsanlegs málskostnaðar.

                Af þessum sökum er kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu úr hendi stefnanda hafnað. Verður málið tekið fyrir á reglulegu dómþingi þann 6. janúar 1999, kl. 0900 árdegis.

Úrskurðarorð:

Kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu er hafnað.