Hæstiréttur íslands
Mál nr. 546/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Innstæða
- Skuldskeyting
- Skaðabætur
- Aðildarskortur
|
|
Fimmtudaginn 27. mars 2014. |
|
Nr. 546/2013.
|
Íslandsbanki hf. (Stefán A. Svensson hrl.) gegn Steingrími Wernerssyni (Sigmundur Hannesson hrl.) og gagnsök |
Fjármálafyrirtæki. Slit. Innstæða. Skuldskeyting. Skaðabætur. Aðildarskortur.
S seldi hlutabréf í G hf. 19. maí 2006 og var söluandvirði bréfanna lagt inn á tékkareikning hans hjá bankanum, en síðar sama dag færði G hf. fjárhæðina af tékkareikningi S yfir á reikning M ehf. hjá bankanum. S höfðaði mál og krafði Í hf. um fjárhæðina sem millifærð hafði verið. Var ágreiningur með aðilum um það hvort G hf. hefði í heimildarleysi og án vitneskju S framkvæmt millifærsluna og ef svo hefði verið hvort Í hf. bæri að endurgreiða S fjárhæðina. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að Í hf. hefði með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 yfirtekið innstæðu S á tékkareikningi miðað við stöðu innstæðunnar og áunna vexti á nánar tilgreindu tímamarki framsals samkvæmt ákvörðuninni. Taldi Hæstiréttur ljóst að fjárhæð sú sem færð hafði verið af tékkareikningi S 19. maí 2006 hefði hvorki getað verið hluti innstæðu tékkareiknings hans á tímamarki framsals né talist til skuldbindinga vegna hennar. Gæti S því ekki átt kröfu á hendur Í hf. um greiðslu fjárhæðarinnar á þeim grundvelli að hún hefði verið innstæða sem Í hf. hefði tekið yfir og bæri að standa skil á. Þá hefði S ekki leitt að því haldbær rök að Í hf. hefði með samningi eða á annan hátt skuldbundið sig til greiðslu kröfunnar. Þá væri og ljóst af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 að kröfur viðskiptavina G hf. um skaðabætur á hendur þeim banka hefðu ekki verið meðal þeirra skuldbindinga sem fluttust yfir til Í hf. með ákvörðuninni. Gæti S því ekki heldur beint kröfu sinni að Í hf. á þeim grundvelli. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var Í hf. því sýknaður af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. nóvember 2014. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en vexti. Krefst hann dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. maí 2006 til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Gagnáfrýjandi stofnaði á árinu 1998 tékkareikning í Íslandsbanka hf. sem var viðskiptabanki hans. Nafni Íslandsbanka hf. var síðar breytt í Glitnir banki hf. Gagnáfrýjandi seldi 19. maí 2006 hlutabréf þau er hann þá átti í Glitni banka hf. að nafnverði 23.201.856 krónur. Söluandvirði hlutabréfanna var 398.799.997 krónur og var því ráðstafað inn á fyrrgreindan tékkareikning en þá hafði söluþóknun bankans verið dregin frá. Meðal gagna málsins er kvittun sem gagnáfrýjanda mun hafa verið send sama dag vegna viðskiptanna með hlutabréfin og kom þar jafnframt fram að andvirði þeirra hefði verið lagt inn á áðurnefndan tékkareikning. Ágreiningslaust er að þennan sama dag færði Glitnir banki hf. af tékkareikningi gagnáfrýjanda 398.799.997 krónur og lagði sömu fjárhæð inn á reikning Milestone ehf. í sama banka. Heldur aðaláfrýjandi því fram að millifærsla þessi hafi verið liður í fjármögnun kaupa Milestone ehf. á 33,4% hlutafjár í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Því andmælir gagnáfrýjandi en hann var á þessum tíma einn af þremur stærstu hluthöfum í Milestone ehf. og stjórnarmaður í félaginu.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því var á grunni Glitnis banka hf. stofnaður nýr banki, Nýi Glitnir banki hf., sem nú ber heiti aðaláfrýjanda. Fjárhagslegur grundvöllur að starfsemi nýja bankans var einkum lagður með flutningi eigna hans úr gamla bankanum. Á móti tók nýi bankinn með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 yfir tilteknar skuldbindingar þess eldri en þar var fyrst og fremst um að ræða innstæður í útibúum bankans hér á landi.
II
Í máli þessu deila aðilar í fyrsta lagi um hvort Glitnir banki hf. hafi í heimildarleysi og án vitneskju gagnáfrýjanda framkvæmt umrædda millifærslu 19. maí 2006. Verði svo talið er í öðru lagi ágreiningur um hvort aðaláfrýjanda beri að standa gagnáfrýjanda skil á andvirði millifærslunnar með endurgreiðslu sömu fjárhæðar.
Málatilbúnaður gagnáfrýjanda er á því reistur að fjárhæð millifærslunnar, 398.799.997 krónur, hafi verið hluti innstæðu á fyrrgreindum tékkareikningi hans 19. maí 2006, en vegna millifærslunnar hafi innstæðan rýrnað um þá fjárhæð sem millifærslunni nam. Þar sem millifærslan hafi verið Glitni banka hf. heimildarlaus hafi bankanum verið skylt að bæta gagnáfrýjanda rýrnun innstæðunnar með endurgreiðslu sömu fjárhæðar. Sú krafa sé í eðli sínu um endurgreiðslu innstæðu, eins og það hugtak sé skilgreint í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, og með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 hafi aðaláfrýjandi tekið þá innstæðuskuldbindingu yfir. Verði aðaláfrýjandi á hinn bóginn ekki talinn hafa tekið þá skuldbindingu yfir er krafa gagnáfrýjanda í annan stað á því reist að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda vegna þess tjóns sem starfsmenn Glitnis banka hf. hafi valdið honum með saknæmum og ólögmætum hætti þegar þeir framkvæmdu umrædda millifærslu í heimildarleysi og án hans vitneskju.
Aðaláfrýjandi andmælir því í fyrsta lagi að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 hafi hann tekið yfir þá skyldu Glitnis banka hf. til endurgreiðslu, sem gagnáfrýjandi haldi fram að sé til staðar, enda verði slík skylda ekki leidd af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Í öðru lagi telur aðaláfrýjandi millifærsluna hafa verið í þágu gagnáfrýjanda, enda framkvæmd að beiðni eða í það minnsta með vitund hans og vilja og því á engan hátt heimildarlaus. Verði sú ekki talin reyndin telur aðaláfrýjandi í þriðja lagi að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á mistökum sem starfsmenn Glitnis banka hf. kunni að hafa bakað viðskiptamönnum bankans, enda leiði slíka ábyrgð hvorki af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins né öðrum heimildum. Þá telur aðaláfrýjandi í öllu falli að hafi gagnáfrýjandi öðlast kröfu af framangreindu tilefni á hendur aðaláfrýjanda sé hún fallin niður fyrir fyrningu eða tómlæti gagnáfrýjanda.
III
Á grundvelli lögbundinnar heimildar tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 14. október 2008 að flytja nánar tilgreindar skuldbindingar Glitnis banka hf. til aðaláfrýjanda. Í 7. tölulið ákvörðunarinnar sagði meðal annars að Nýi Glitnir banki hf. tæki yfir „skuldbindingar í útibúum Glitnis banka hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum.“ Innstæður skyldu flytjast yfir miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals samkvæmt 5. tölulið ákvörðunarinnar, en þar kom fram að Nýi Glitnir banki hf. tæki frá og með 15. október 2008 klukkan 9 við þeirri starfsemi sem Glitnir banki hf. hefði haft með höndum. Ágreiningslaust er að fjárhæð sú er gagnáfrýjandi átti 19. maí 2006 á tékkareikningi í Glitni banka hf. var í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 innstæða sem til var komin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi. Þá er hvorki um það deilt að umræddar 398.779.997 krónur voru hluti innstæðunnar þann dag né að innstæðan lækkaði síðar sama dag um sömu fjárhæð vegna millifærslunnar.
Samkvæmt orðum 7. töluliðar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 tók aðaláfrýjandi yfir innstæðu gagnáfrýjanda á tékkareikningi hans miðað við stöðu innstæðunnar og áunna vexti á tímamarki framsals samkvæmt 5. tölulið ákvörðunarinnar. Af gögnum málsins verður ekki séð hver var fjárhæð innstæðu gagnáfrýjanda á tékkareikningnum klukkan 9 að morgni 15. október 2008. Hitt er þó ljóst að þær 398.779.997 krónur, sem færðar voru af tékkareikningnum 19. maí 2006 yfir á reikning Milestone ehf., gátu eftir millifærsluna hvorki verið hluti innstæðu tékkareiknings gagnáfrýjanda klukkan 9 að morgni 15. október 2008 né talist til skuldbindinga vegna hennar. Getur gagnáfrýjandi því ekki átt kröfu á hendur aðaláfrýjanda um greiðslu umræddrar fjárhæðar á þeim grundvelli að hún sé innstæða sem aðaláfrýjandi hafi tekið yfir og sé skylt að standa skil á. Þá hefur gagnáfrýjandi heldur ekki leitt að því haldbær rök að aðaláfrýjandi hafi með samningi eða á annan hátt skuldbundið sig til greiðslu kröfunnar. Af þessu leiðir að gagnáfrýjandi getur ekki beint kröfu sinni í málinu að aðaláfrýjanda á þeim grunni að bankinn hafi vegna skuldskeytingar orðið nýr skuldari kröfunnar. Þá er og ljóst af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 að kröfur viðskiptavina Glitnis banka hf. um skaðabætur á hendur þeim banka vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi starfsmanna hans voru ekki meðal þeirra skuldbindinga sem fluttust yfir til aðaláfrýjanda með þeirri ákvörðun. Getur gagnáfrýjandi því heldur ekki á þeim grunni beint kröfu sinni í máli þessu á hendur aðaláfrýjanda. Samkvæmt þessu verður aðaláfrýjandi með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri máls þessa í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Íslandsbanki hf., skal sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Steingríms Wernerssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2013.
I.
Mál þetta var höfðað 17. janúar 2013 og dómtekið 24. apríl 2013 að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er Steingrímur Wernersson, til heimilis í London, en stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða honum 398.799.997 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. maí 2006 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 19. maí 2007 en síðan árlega þann dag. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur verði lækkaðar. Stefndi krefst jafnframt málskostnaðar.
II.
Málsatvik:
Þann 19. maí 2006 millifærði viðskiptabanki stefnanda, Glitnir banki hf. (nú Íslandsbanki hf.) 398.799.997 krónur af einkareikningi stefnanda við bankann númer 0526-26-[...]66 inn á reikning í eigu Milestone ehf. í sama banka.
Með tölvubréfum stefnanda til Glitnis banka hf. á haustdögum 2010, óskaði stefnandi eftir upplýsingum hjá stefnda um greinda millifærslu og hver hefði óskað eftir að hún væri framkvæmd.
Í svarbréfi stefnda, dags. 16. nóvember 2010 til stefnanda eru rakin í tímaröð viðskipti stefnanda með hlutabréf í Glitni banka hf. á tímabilinu janúar 2004 til janúar 2007. Um þá millifærslu sem um er deilt í máli þessu segir í sama bréfi að stefnandi hafi þann 19. maí 2006 selt bréf að nafnvirði 23.201.856 krónur. Þá tók stefndi eftirfarandi fram í svarbréfinu: Beiðnin hefur ekki enn komið í leitirnar, en er meðal þess sem við vonumst til að fá útúr tölvupóstleitinni. Andvirði sölunnar að frádreginni þóknun, samtals kr. 398.799.997 er lagt inn á reikning þinn númer 0526-26-[...]66 og síðan millifært yfir á reikning í eigu Milestone.
Í greinargerð stefnda kemur fram að þennan sama dag, þ.e. þann 16. maí 2009, hafi Milestone ehf. selt öll hlutabréf sín í Glitni banka hf. og keypt hlutabréf í Sjóvá hf. af Glitni banka hf. og að kaupverðið hafi að mestu verið greitt með peningum.
Á þeim tíma sem hin umdeilda millifærsla fór fram af reikningi stefnanda inn á reikning Milestone ehf. var stefnandi einn af þremur stjórnarmönnum Milestone ehf. og var eignarhlutur hans í því félagi 32%, sbr. upplýsingar sem liggja fyrir í gögnum málsins frá Kauphöll Íslands, dags. þann 19. maí 2006.
Með tölvubréfi stefnanda, dags. 29. desember 2010, ítrekar stefnandi beiðni sína til stefnda þar sem óskað er upplýsinga um hver bað um þessar færslur, og sérstaklega hver heimilaði útafgreiðslu af mínum persónulega bankareikningi. Með bréfum lögmanns stefnanda, dags. 21. janúar 2011 og 4. október 2011, voru kröfur stefnanda til stefnda um greindar upplýsingar ítrekaðar.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki (neyðarlögin), sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið þann 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar Glitnis banka hf., vék stjórn hans frá og setti skilanefnd yfir bankann. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 14. sama mánaðar, sem reist var á sömu lagaheimild, var eignum og skuldum bankans ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf.
Í 7. tölul. í greindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins segir svo: Nýi Glitnir banki yfirtekur skuldbindingar í útibúum Glitnis banka hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Innstæður flytjast yfir miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals skv. 5. tl. Ekki er þörf á innköllun eða auglýsingar vegna þeirrar færslu.
Í 8. tölul. ákvörðunarinnar segir svo: Nýi Glitnir banki hf. yfirtekur skuldbindingar samkvæmt inn- og útflutningsábyrgðum, ábyrgðir vegna efnda fyrirtækja og einstaklinga er tengjast reglubundinni starfsemi. Nýi Glitnir banki hf. yfirtekur ekki ábyrgðir Glitnis banka hf. vegna: a) skuldbindinga dótturfélaga erlendis, b) fyrirtækja í greiðslustöðvun, undir nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum, c) skuldbindinga þeirra sem eiga virkan eignarhlut í Glitni banka hf. og tengdra aðila, d) skuldbindinga við íslensk fjármálafyrirtæki; e) aðrar sérstaklega tilgreindar ábyrgðir samkvæmt upptalningu í samantekt að nýjum stofnefnahagsreikningi.
Þann 2. júlí 2002, undirritaði stefnandi umsókn einstaklings og yfirlýsingu vegna viðskipta með óskráð verðbréf við Íslandsbanka hf. Í texta umsóknarinnar segir m.a. að umsækjandi geri sér grein fyrir því að verðbréfaviðskipti séu í eðli sínu mjög áhættusöm og byggi að verulegu leyti á væntingum um framtíð útgefanda verðbréfa. Þá staðfesti stefnandi með undirritun sinni yfirlýsingu, dags. 1. júlí 2002, þar sem fram kom að tilgreindur starfsmaður stefnda staðfesti að hann ynni sem ráðgjafi fyrir stefnanda varðandi ýmiss konar afleiðuviðskipti á verðbréfa- og gjaldeyrismarkaði, svo sem varðandi framvirka samninga, skiptasamninga og valréttarsamninga. Kom fram í yfirlýsingunni að slíkar stöðutökur væru alfarið teknar á grundvelli ráðgjafar starfsmannsins í samráði við stefnanda og á engan hátt á ábyrgð viðkomandi fjármálastofnunar sem gengi frá slíkum samningum.
Þann 27. janúar 2004, undirritaði stefnandi handveðsyfirlýsingu, þar sem hann setti stefnda að handveði hlutabréf í Íslandsbanka hf. að nafnverði 35.000.000 (ISB). Segir m.a. í yfirlýsingunni að veðsetningin taki til hvers konar vaxta, arðs og afborgana sem falli til. Fjárhæðum þeim sem bankinn veiti viðtöku sé heimilt að ráðstafa til fullnustu gjaldfallinna vaxta og höfuðstóls skuldbindinga veðsala gagnvart bankanum. Sé veðsett skjal innleyst megi bankinn veita viðtöku og halda hjá sér innlausnarfjárhæðinni til tryggingar ógjaldföllnum hlutum skuldbindinga veðsala. Veðsetningin taki einnig til þeirra jöfnunarhlutabréfa, sem kunni að verða gefin út á grundvelli hinna veðsettu bréfa og enn fremur bréfa, sem kunni að verða gefin út í þeirra stað, svo sem vegna samruna eða skiptinga hlutafélagsins.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Að því er aðild málsins varðar byggir stefnandi á því að stefndi hafi tekið yfir allar skuldbindingar sem tengjast einkabankareikningi stefnanda við hrun íslenska bankakerfisins árið 2008. Stefnandi hafi stofnað einkabankareikning sinn hjá Íslandsbanka á árinu 1998. Nafni bankans hafi síðan verið breytt í Glitnir banki hf. Við hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008 hafi eignum og skuldum Glitnis banka hf. verið ráðstafað til nýja Glitnis banka hf. nú Íslandsbanka hf., sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að stefndi beri fjárhagslega ábyrgð á útborgun að fjárhæð 398.799.997 krónur af einkabankareikningi hans, sem framkvæmd var af starfsmanni eða starfsmönnum stefnda sem stefnandi beri alfarið ábyrgð á. Útborgun þessi hafi verið framkvæmd einhliða af stefnda og án samráðs og samþykkis stefnanda. Krafa stefnanda sé um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem tekin hafi verið út af einkareikningi hans. Auk þess telur stefnandi að hann eigi rétt til greiðslu skaðabóta er nemi stefnufjárhæð vegna þess tjóns sem starfsmaður eða starfsmenn stefnda og stefndi beri ábyrgð á og hafi valdið stefnanda með því að taka fjármuni út af einkareikningi hans hjá stefnda.
Stefnandi kveðst styðja kröfur sínar við meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, sbr. einnig VI. og VII. kafla laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Um gjalddaga kröfunnar er vísað til 49. gr. sömu laga. Stefnandi vísar einnig til meginreglna skaðabótaréttar og til laga um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann sé ekki réttur aðili að málinu og beri að sýkna hann af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Byggir sú afstaða á því að stefndi hafi ekki tekið við þeirri skuldbindingu sem hugsanlega hafi hvílt á Glitni banka hf. vegna vanefnda á samningi við stefnda. Kröfuréttur á hendur stefnda byggi því hvorki á samningi, lögum né annars konar bindandi ákvörðunum stjórnvalda. Nýi bankinn hafi einungis yfirtekið innlendar eignir og innlendar innstæður Glitnis banka hf., sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008. Krafa stefnanda geti ekki talist til innlána, ábyrgða eða verðbréfa sem Glitnir banki hf. gaf út eða veðskulda áhvílandi á fullnustueignum. Það hefði þurft að koma skýrt fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins ef ábyrgð vegna skaðabótakrafna og annarra skulda, sem kynnu að hafa stofnast til í tíð Glitnis banka hf., hefðu átt að flytjast yfir til Íslandsbanka hf.
Teljist umrædd kröfuréttindi hafa flust yfir til stefnda er á því byggt að stefnandi hafi með aðgerðarleysi sínu fyrirgert öllum rétti sem hann kunni að hafa átt hvort sem stefnandi hafi haft vitneskju um millifærslurnar á því tímamarki er þær voru gerðar eða nokkru síðar auk þess sem krafan væri fallin niður vegna fyrningar. Stefnandi hafi fengið sendar margar kvittanir og yfirlit vegna viðskipta sinna með hlutabréf, fengið nokkrum sinnum greiddan arð inn á reikning sinn auk þess sem hlutabréfin hafi legið inni á vörslureikningum yfir nokkur áramót og ættu því að hafa komið fram á skattframtali stefnanda sem og hreyfingar á öðrum reikningum. Auk þess hafi stefnandi skrifað undir umsókn og yfirlýsingu Glitnis banka hf. vegna viðskipta með óskráð verðbréf, þar sem hann staðfesti að hann hafi þekkingu og reynslu í viðskiptum á verðbréfamarkaði. Einnig hafi stefnandi lagt fram yfirlýsingu, dags. 1. júlí 2002, þar sem fram komi að tilgreindur aðili, vinni sem ráðgjafi fyrir stefnanda, varðandi ýmiss konar afleiðuviðskipti á verðbréfa- og gjaldeyrismarkaði og að slíkar stöðutökur séu á engan hátt á ábyrgð viðkomandi fjármálastofnunar sem gangi frá slíkum samningum. Allt styðji þetta þá fullyrðingu að viðskipti stefnanda með hlutabréf í Glitni banka hf. og umdeild millifærsla hafi verið með fullri vitund og samþykki stefnanda.
Stefnandi hafi á þessum tíma átt 23% hlut í Milestone ehf. og setið í stjórn félagsins, auk þess sem hann hafi átt 31,7% hlut í Leiftri Ltd. sem átti 32% hlut í Milestone ehf. Þá skipti máli að sala bréfa í Glitni banka hf. í eigu stefnanda hafi farið fram sama dag og á sama gengi og Milestone ehf. seldi bréfin sín í Glitni banka hf. á og sama dag og Milestone ehf. keypti síðan 33,4% hlut í Sjóvá-almennum tryggingum hf. af Glitni banka hf. Það sé því ljóst að stefnandi hafi verið beggja megin borðsins í greindum viðskiptum og að sú millifærsla á fjármunum sem um er deilt hafi verið færð af einkareikningi stefnanda inn á reikning í eigu félags tengdu honum og í hans þágu. Telur stefndi að stefnanda hafi mátt vera ljóst að hann hafi átt umrædd hlutabréf í Glitni banka hf. og að öll viðskipti með þau og hreyfingar og færslur hvort tveggja af vörslureikningum og einkareikningi hans hjá Glitni banka hf. hafi verið í hans umboði og með hans samþykki. Fullyrðingar hans um annað hafi verið ósannar.
Þá er því mótmælt að hin meinta krafa teljist vera skuld. Stefndi hafi einungis haft milligöngu um sölu á hlutabréfum stefnanda í Glitni banka hf. og farið að fyrirmælum stefnanda um að andvirði þeirra yrði millifært af reikningi hans og inn á reikning Milestone ehf., sem væri félag í eigu stefnanda.
Stefndi telur enn fremur að verði komist að þeirri niðurstöðu að umrædd kröfuréttindi hafi í raun verið flutt til stefnda sem skuldbinding, þá sé um að ræða kröfu um skaðabætur sem stefnandi kjósi að setja fram sem kröfu um efndir fjárskuldbindinga. Mótmælir stefndi því að skilyrði sakarreglunnar hafi verið uppfyllt í málinu, þ.e. að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og að tjónið sé sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni enda hafi hinir umdeildu fjármunir runnið til félags í eigu stefnanda og því með óbeinum hætti til hans sjálfs.
Varakrafa stefnda er sett fram til öryggis og er byggð á svipuðum eða sömu sjónarmiðum og sýknukrafan. Málatilbúnaður stefnanda virðist vera rekstur einhvers konar bótamáls á hendur stefnda. Það geri þá kröfu til stefnanda að hann sanni tjón sitt. Slík sönnunarfærsla hafi ekki komið fram.
Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda að því er varðar upphafstíma dráttarvaxta og krefst þess að þeir verði ekki reiknaðir fyrr en í fyrsta lagi frá og með dómsuppkvaðningu.
Stefndi vísar til stuðnings dómkröfum sínum til 2. mgr. 16. gr. og e- og g-liða 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, almennu skaðabótareglunnar, reglna um sönnunarbyrði kröfuhafa, fyrningarlaga nr. 14/1905, ólögfestra ákvæða um áhrif tómlætis, 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
IV.
Niðurstaða
Um aðild málsins
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi tekið yfir allar skuldbindingar er tengjast einkareikningi hans við Glitni banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008. Stefndi telur að hann hafi ekki tekið við meintum skuldbindingum Glitnis banka hf. Málinu sé því ranglega beint að stefnda og beri að sýkna hann vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Í máli þessu kemur fyrst til skoðunar hvort endurgreiðslukrafa stefnanda sem millifærð var af innlánsreikningi hans yfir á reikning Milestone ehf. hinn 19. maí 2006, teljist innlán í skilningi ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 og hafi þar með verið tekin yfir af stefnda með ákvörðun eftirlitsins. Samkvæmt 7. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum yfirtók Nýi Glitnir banki skuldbindingar í útibúum Glitnis banka hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum o.fl. Samkvæmt 2. máls. 7. tölul. greindrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins flytjast innstæður yfir miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals þ.e. hinn 15. október 2008.
Um túlkun á því hvað teljist innstæða samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins ber að vísa til orða 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þar segir m.a. að með innstæðu sé átt við inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá innlánsstofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum, og millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum og umsömdum skilmálum, og hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun. Hugtakið innstæða á samkvæmt þessu einkum við um almenning og fyrirtæki sem setja sparifé sitt inn á sérstaka reikninga. Hugtakið er þó ekki takmarkað við þessi tilvik. Aðalatriðið er þó hér það að engin rök hafa verið færð fram í máli þessu fyrir því að einkareikningur stefnanda hjá Glitni banka hf. hafi falið í sér annað en innstæðueign þar sem tilgangur stefnanda hafi eingöngu verið sá að geyma fé sitt í bankastofnun til þess að ávaxta það og geta síðan tekið það út þegar honum hentaði eða eftir nánar ákveðinn tíma.
Samkvæmt framangreindu verður að mati dómsins að telja hina meintu endurgreiðslukröfu til innlána í skilningi 7. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlits, dags. 14. október 2008 og skiptir þá auðvitað engu máli þótt bankinn hafi tekið fyrrgreinda fjárhæð út fyrir gildistöku neyðarlaganna ef sú úttekt studdist ekki við löglega heimild. Með vísan til þess er ljóst að stefndi er réttur aðili að málinu og er sýknukröfu hans því hafnað á þeim grundvelli að um aðildarskort sé að ræða.
Víkur þá að endurgreiðslukröfu stefnanda.
Hér kemur til skoðunar hvort stefndi hafi þann 19. maí 2006, haft heimild eða umboð frá stefnanda til að millifæra af innlánsreikningi stefnanda 398.799.997 krónur inn á innlánsreikning Milestone ehf. í sama banka. Eins og áður hefur komið fram telur stefnandi að millifærslan hafi verið framkvæmd einhliða og án samráðs og samþykkis hans. Stefndi byggir hins vegar á því að hann hafi einungis verið að framfylgja fyrirmælum stefnanda í þessum efnum, millifærslan hafi verið í hans umboði og með hans samþykki. Þá hafi greiðslan verið færð inn á reikning félags tengt stefnanda til kaupa á hlutabréfum og þar með verið í þágu stefnanda. Auk þess sem á því er byggt af hálfu stefnda að stefnandi hafi með aðgerðarleysi sínu fyrirgert öllum rétti sem hann hafi átt auk þess sem endurgreiðslukrafan sé fallin niður vegna fyrningar.
Stefndi hefur, m.a. með vitnaskýrslu verðbréfamiðlara hjá stefnda sem gaf fyrirmæli um hina umþrættu millifærslu leitast við að renna stoðum undir þá málsvörn sína að millifærslan hafi verið gerð að beiðni stefnanda og með vitund hans. Fram kom m.a. í skýrslutökum miðlarans að millifærslur væru ávallt gerðar að beiðni viðskiptavina og það ætti einnig við um viðskipti stefnanda. Hann hefði þó ekki haft undir höndum sérstakt skriflegt umboð til þess að millifæra einstakar færslur af einkareikningi stefnanda inn á annan reikning og ekki mundi hann heldur eftir símtali frá stefnanda með ósk um millifærslu af reikningi hans. Vitnið tók fram að viðskiptin færu venjulega fram í gegnum síma. Þá kom fram að hann hefði ekki getað aflað afrits af upptöku af samtali við stefnanda.
Af framlögðum gögnum málsins og skýrslum vitna fyrir dómi þykir ekki hafa verið sýnt fram á að stefndi hafi haft samþykki eða umboð stefnanda til þess að taka út af innlánsreikningi hans hina umdeildu fjárhæð og leggja inn á reikning í eigu Milestone ehf. Hefur stefnandi hvorki getað lagt fram hljóðupptökur, tölvubréf né önnur skrifleg gögn sem veita vísbendingar um að stefnandi hafi veitt samþykki sitt fyrir hinni umþrættu millifærslu. Verður stefndi að bera hallann af skorti á sönnunargögnum í þessu sambandi.
Þá verður ekki fallist á að stefnandi hafi með aðgerðaleysi sínu glatað rétti sem hann átti til endurgreiðslu fjárhæðarinnar úr hendi stefnda eins og hér stendur á. Ekki verður heldur fallist á að endurgreiðslukrafan sé fyrnd, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. nú 4. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda.
Samkvæmt framangreindu ber stefnda að endurgreiða stefnanda 398.799.997 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 17. febrúar 2013, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þeir vextir skulu lagðir við höfuðstól með þeim hætti sem segir í 12. gr. sömu laga.
Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði stefnanda 398.799.997 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 17. febrúar 2013 til greiðsludags, sbr. 12. gr. sömu laga.
Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.