Hæstiréttur íslands

Mál nr. 314/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                                     

Mánudaginn 4. maí 2015.

Nr. 314/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni, var felld úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfest yrði ákvörðun hans 23. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni í sex mánuði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fallist verði á framangreinda kröfu hans.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 23. apríl 2015 um nálgunarbann reist á beiðni brotaþola 22. sama mánaðar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011. Ákvörðunin var því ekki byggð á heimild lögreglu til að leggja bannið á að eigin frumkvæði, sbr. 3. mgr. sömu greinar, og ekki rökstudd á þeim grundvelli í samræmi við 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Að þessu gættu og þar sem brotaþoli hefur fallið frá kröfu sinni verður að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 23. apríl 2015 þess efnis að X, kt. [...] skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...] að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan hafi verið send að  að [...] í Reykjavík vegna yfirstandandi líkamsárásar hinn 22. apríl um hádegisbil. Þar hafði fyrrverandi sambýlismaður ráðist á brotaþola A í bifreið fyrir utan [...]. Brotaþoli A hafi verið inni í bifreið sinni [...].  Hafi brotaþoli verið í miklu uppnámi, hafi grátið og skolfið þegar lögregla hafi komið á vettvang. Hafi mátt sjá áverka á brotaþola aftan á höfði, mar fyrir aftan hægra eyra og húðblæðingu og mar á hálsi.  A hafi sagst hafa verið inni í bifreið sinni að tala í símann þegar  fyrrverandi sambýlismaður hennar, X, hafi komið, opnaði hurðina á bifreið hennar og veist að henni í bifreiðinni. Kvað A  að hann hefði kastað sér til og frá í bifreiðinni og að hún hefði skollið með höfuðið í harða hluti í bifreiðinni. A hafi sagt að hann hefði haldið um hálsinn á sér svo hún hefði átt erfitt með að ná andanum og kýlt hana í höfuðið. A hafi sýnt lögreglunni  skilaboð sem hún hefði fengið frá X kvöldinu áður á facebook þar sem hann hafi sagt, „núna stoppar mig ekkert“.  Teknar hafi verið myndir af áverkum  á brotaþola og hafi brotaþoli leitað á slysadeild til læknis. Kvaðst brotaþoli hafa verið hrædd og sér stafi ógn af kærða.  Brotaþoli hafi sagt að kærði hefði tekið ófrjálsri hendi húslykla og bíllykla, sem hún hefði í bifreiðinni.

Vitni hafi gefið sig á tal við lögreglu og eitt þeirra hefði ekið X að [...] þann dag. Kvaðst hann hafa séð þegar kærði X hefði verið búinn að spenna A milli framsæta. Hann hafi þá verið að þrýsta henni í gólfið og verið að berja hana. Vitnið hefði þá stöðvað X og tekið hann út úr bifreiðinni. Hafi kærði þá hlaupið á brott. 

Annað vitni kvaðst vera nágranni A og kvaðst hann hafa verið að koma heim til sín þegar hann hafi séð mann berja A inni í bifreið. Hann hafi þá flautað á þau úr bifreiðinni. Hafi þá komið annar maður og stöðvað átökin með því að draga X úr bifreiðinni.

          Kærði, X, hafi verið farinn af vettvangi þegar lögregla hafi komið á staðinn, en  skömmu eftir að árásin hafi átt sér stað hafi verið óskað eftir lögreglu að meðferðarheimilinu Vogi. Þar hafi kærði X verið ásamt vini sínum. Kærði X hafi verið handtekinn 22. apríl um kl. 13.30  og fluttur í fangaklefa á Hverfisgötu. Tekin hafi verið skýrsla af kærða og játi hann að hafa verið á staðnum en neiti að hafa veist að brotaþola. Segist hann hafa verið að ná í farsíma af brotaþola. Fyrir liggi áverkavottorð frá 22. apríl, en þar komi fram að brotaþoli hafi hlotið rifbrot, og yfirborðsáverka á hálsi og höfði.  Kærði sé grunaður um líkamsárás, sbr. 218. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og  þjófnað eða gripdeild, sbr.  244., eða 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og muni lögregla ljúka rannsókn málsins á næstu dögum.

          Lögreglan hafi tvisvar síðustu þrjár vikurnar farið á [...] vegna heimilisofbeldis af hálfu fyrrverandi sambýlismanns á barnsmóður sína. Þessi útköll hafi verið dagana 16. apríl sl., og 27. mars sl., en þar hafi brotaþoli tilkynnt um ógnandi hegðan kærða, húsbrot og hótun og ætlað ofbeldi.

          Eins og áður greini hafi lögregla verið kölluð til að [...] hinn 16. apríl sl., en þar hafi brotaþoli tilkynnt að hún hafi vaknað við það kærði hafi verið kominn inn í íbúð hennar, heimildarlaust, og hafi hann staðið yfir henni og tekið í úlnliði hennar það fast að hún væri aum. Einnig hafi hann hrifsað farsíma hennar úr höndum hennar. Kærði hafi verið farinn að heimilinu, en brotaþoli kvað að kærði hafi verið reiður vegna þess að hún væri kominn með nýjan sambýlismann. Einnig kvað brotaþoli að kærði hafi tekið af henni farsíma. Málið sé í rannsókn og muni lögreglan afla áverkavottorðs. Teljist þetta geta varðað við 231. gr. og eftir atvikum 217. gr. og 245.  gr. almennra hegningarlaga.

          Eins og að framan greini hafi lögregla verið kölluð til að [...] í Reykjavík 27. mars sl., vegna heimilisófriðar, en brotaþoli hafi þá kallað til lögreglu. Brotaþoli hafi setið þar í bifreið í miklu uppnámi grátandi ásamt börnum sínum. Kvaðst brotaþoli hafa orðið fyrir ofbeldi og hótunum frá kærða, m.a. líflátshótunum. Teknar hafi verið myndir af brotaþola, en ekki hafi verið sýnilegir áverkar. Samkvæmt frásögn brotaþola og vitnis, nágranna, kvað hann kærða hafa veist að A og tekið um háls hennar og hótað henni.Tekin hafi verið skýrsla af brotaþola og kvaðst hún óttast kærða og vera hrædd við hann. Kærði hafi neitað að hafa tekið hana kverkataki og neitað að hafa hótað henni. Telst þetta varða við 217. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.  Málið sé í rannsókn.

          Eldri mál sem lögregla hafi haft aðkomu að, mál nr. 007-2014-[...], frá 4. apríl 2014, en þá hafi brotaþoli komið á lögreglustöð og kært heimilisofbeldi og kveðið kærða hafi lagt á sig hendur og haft í hótunum við hana, með því að ætla að brjótast inn til hennar og kveikja í fötum hennar, en samkvæmt frásögn brotaþola hafi slitnað upp úr sambandi þeirra í febrúar 2014, en þau eigi tvö börn saman. 

                Af öllu framangreindu telji lögregla ljóst að A stafi ógn af X og ljóst sé að hún hafi undanfarið orðið að þola ofbeldi af hans hálfu, ógnandi hegðan og áreiti. Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 4. gr. laga nr. 85, 2011 séu uppfyllt enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að X hafi brotið með ofbeldi gegn  A og velferð hennar og að hætta sé á að hann haldi áfram með ógnandi hegðan og ofbeldi og raska friði hennar í skilningi 4. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

                Með beiðni þolanda, dags. 22. apríl  sl. kl. 14.00, hafi þess verið óskað að kærða yrði gert að sæta nálgunarbanni og hafi ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann verið birt fyrir kærða hinn 23. apríl sl., kl. 13.05,  sbr. gögn málsins.

                Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé það mat lögreglustjóra að skilyrði 4. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, séu uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Niðurstaða:

                Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011 getur sá maður sem misgert er við, brotaþoli, fjölskylda hans eða annar honum nákominn, borið fram beiðni um að maður, sakborningur, sem brotið hefur gegn honum eða raskað friði hans á annan hátt, sæti nálgunarbanni og eða brottvísun af heimili. Brotaþoli fór 22. apríl 2015 fram á að varnaraðili sæti nálgunarbanni en hefur nú fallið frá þeirri kröfu, sbr. það sem fram kom af hálfu réttargæslumanns hennar við fyrirtöku málsins. Sóknaraðili telur þó rétt að halda kröfu sinni um nálgunarbann til streitu og skírskotar í því sambandi til 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011.

Í ákvæðinu kemur fram að lögreglustjóri geti einnig af eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar samkvæmt lögunum ef hann telur ástæðu til. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/2011 verður ráðið að einkum geti komið til þess þegar brotaþoli treystir sér ekki til þess að leggja fram sjálfur beiðni um brottvísun eða nálgunarbann af hræðslu við þann sem krafan beinist gegn. Í því máli sem hér er til umfjöllunar er ljóst að brotaþoli hefur verið tvístígandi í afstöðu sinni til þess hvort varnaraðila verði meinað að nálgast sig og heimili sitt. Samkvæmt því sem fram kom fyrir dómi eru þau að slíta samvistum sem varað hafa um árabil og eiga tvö börn saman. Hún hefur nú með skýrum hætti fallið frá kröfu sinni um nálgunarbann. Varnaraðili á enga sögu um brotaferil. Eins og málið liggur fyrir verður ekki staðhæft að hún hafi fallið frá beiðninni af hræðslu við varnaraðila. Af þeirri ástæðu og eins og atvikum málsins er háttað að öðru leyti er kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði sæti nálgunarbanni hafnað. Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar hrl., sem ákveðst 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 200.000 krónur.  

Ásmundur Helgason héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Felld er úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 23. apríl 2015 um að varnaraðili, X, skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði.

Þóknun verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar hrl., 200.000 krónur og réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl. 200.000 krónur skal greidd úr ríkissjóði.