Hæstiréttur íslands
Mál nr. 413/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Útlendingur
- Gæsluvarðhald. 15. gr. laga nr. 45/1965
|
|
Mánudaginn 11. október 1999. |
|
Nr. 413/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn Marewan Mostafa (Sigurbjörn Þorbergsson hdl.) |
Kærumál. Útlendingar. Gæsla.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem M var gert að sæta gæslu samkvæmt 15. gr. laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum í eina viku. Talið var að ekki hefði verið sýnt nægilega fram á að þörf væri á gæslu M og að ekki væru tiltækar léttbærari aðgerðir til að tryggja návist hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæslu samkvæmt 15. gr. laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum allt til miðvikudagsins 13. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að kröfu um gæslu verði hafnað og að úrskurðað verði að hann skuli látinn laus úr gæslu. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ekki hefur verið nægilega sýnt fram á, að þörf sé á gæslu varnaraðila á grundvelli 1. mgr. 15. gr. laga nr. 45/1965, og að ekki séu tiltækar aðrar léttbærari aðgerðir til að tryggja návist hans. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurbjörns Þorbergssonar héraðsdómslögmanns, 35.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 1999.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að maður sem kveðst heita Marewan Mostafa og segist vera fæddur 1. janúar 1972 og segist vera frá Íran, sem lögreglan handtók í gær kl. 19.40, verði látinn sæta gæslu samkvæmt 15. gr. laga um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965 ásamt síðari breytingum, allt til miðvikudagsins 13. október nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að hún rannsaki nú hver þessi maður sé og hvernig hann hafi komið til landsins. Lögreglan hafi í gær um kl. 17.40 fengið tilkynningu um að erlendur ríkisborgari væri staddur í gistihúsinu Dúnu og hann væri þangað kominn fyrir milligöngu Rauða Kross Íslands. Lögreglan hafi farið á staðinn og spurst fyrir um manninn og verið tjáð að hann hefði farið út af heimilinu um kl. 18.00 og starfsmaður gistiheimilisins sagst ekki vita hvert hann hefði farið eða hvenær hann væri væntanlegur til baka. Hafin hafi verið leit að manninum en þá hafi lögreglu verið tilkynnt frá gistiheimilinu að maðurinn væri kominn aftur og hafi lögregla haft tal af honum þar um kl. 19.40. Hann hafi virst átta sig á að þeir væru lögreglumenn. Reynt hafi verið að ræða við hann en án árangurs og hann hvorki virst skilja ensku, þýsku eða Norðurlandamál og enga tilraun gert til að eiga við þá orðastað. Þeir hafi fengið manninn til að fylgja þeim á lögreglustöðina þar sem þeir hafi gert ítrekaðar tilraunir til að ræða við hann en án árangurs. Leitað hafi verið á manninum og í farangri hans til að sannreyna hver hann væri. Í veski hans hafi fundist skírteini með mynd af honum og samkvæmt því sé nafn hans Maroiwan S. og fæðingarár 1972. Þegar maðurinn hafi verið beðinn að skrifa nafn sitt, fæðingardag og heimaland hafi hann gefið upp Marewan Mostafa 01011972, Íran. Hann hafi verið ljósmyndaður og tekin af honum fingraför. Þessi gögn hafi verið framsend til Alþjóðardeildar ríkislögreglustjóra með beiðni til erlendra lögregluyfirvalda til að staðreyna hver maðurinn sé. Hann hafi verið vistaður í fangageymslu vegna frekari rannsóknar málsins. Hann hafi strax fengið réttargæslumann, Sigurbjörn Þorbergsson hdl. og í dag hafi hann verið yfirheyrður með aðstoð túlks sem tali kúrdísku og hafi verið fenginn frá miðstöð nýbúa. Hinn handtekni hafi ekki getað gert grein fyrir sér.
Lögreglan kveður rannsókn máls þessa ekki vera lokið. Sé henni því nauðsynlegt að krefjast þess að manni þessum verði gert að sæta gæslu til að koma í veg fyrir að hann strjúki áður en upplýst verði hver hann er og hvaðan hann kom, hvenær og í hvaða tilgangi. Lögreglan bíði eftir upplýsingum frá Interpol um hvort fingraför þessa manns komi heim og saman við fingraför eftirlýsts manns á þeirra vegum. Þá sé beðið eftir upplýsingum frá lögregluyfirvöldum á Norðurlöndum og í Þýskalandi um hvort fingraför þessa manns komi saman við mann í stöðu pólitísk flóttamanns eða eftirlýstan einstakling af lögreglu.
Varðandi lagarök segir lögreglan að henni beri að trygga návist útlendings þar til úrskurður falli um það hvort meina beri honum landgöngu eða vísa honum úr landi svo og til framkvæmdar slíkrar ákvörðunar. Önnur ráðstöfun en gæsla veiti eigi fullnægjandi öryggi fyrir návist hans sbr. 15. gr. laga um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965 ásamt síðari breytingum sbr. lög nr. 19/1991 sbr. XIII kafla um gæsluvarðhald og skyldar ráðstafanir í lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 með síðari breytingum. Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé þess farið á leit að krafa þessi nái fram að ganga.
Hér fyrir dómi hefur Marewan gefið óljós svör um það hvernig hann hafi komist til landsins og hvaðan svo og hvað hann ætlist hér fyrir. Hann kvaðst hafa eyðilagt vegabréf sitt og farseðil við komuna til landsins. Hann er peningalaus og hefur engan ákveðinn stað til að dveljast á.
Af hálfu Marewans hefur fram kominni kröfu verið mótmælt.
Niðurstaða úrskurðar þessa er sú að fallist er á fram komna kröfu lögreglustjórans í Reykjavík. Skal maður sá er kveðst heita Marewan Mostafa og vera fæddur 1. janúar 1972, sæta gæslu skv. 15. gr. laga nr. 45/1965 allt til miðvikudagsins 13. október nk. kl. 16.00.
Úrskurðinn kveður upp Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Maður sá sem kveðst heita Marewan Mostafa og vera fæddur 1. janúar 1972 skal sæta gæslu skv. 15. gr. laga nr. 45/1965 allt til miðvikudagsins 13. október nk. kl. 16.00.