Hæstiréttur íslands
Mál nr. 746/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. október 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 9. nóvember 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 27. nóvember 2015 klukkan 16.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 2. október 2015 vegna innflutnings fíkniefna. Verður fallist á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Samkvæmt gögnum málsins er rannsókn þess umfangsmikil en vel á veg komin. Snýr rannsóknin meðal annars að því að kanna þátt hugsanlegra vitorðsmanna varnaraðila í innflutningi fíkniefnanna og því má ætla að varnaraðili muni torvelda rannsókn málsins fari hún frjáls ferða sinna. Þá er til þess að líta að varnaraðili er erlendur ríkisborgari og hefur engin tengsl við Ísland. Er því fullnægt skilyrðum a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi og verður krafa varnaraðila tekin til greina eins og hún er fram sett.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 27. nóvember 2015 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. október 2015.
I
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist þess í gær að X, [...] ríkisborgara, sem fædd er árið [...], yrði gert að sæta áframhaldandi gæzluvarðhaldi allt til „föstudagsins 28. nóvember 2015“ klukkan 16:00. Vísaði lögreglustjórinn til a og b liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, 173. gr. a laga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 til stuðnings kröfu sinni.
Lögreglustjóri segist hafa til rannsóknar innflutning kærðu á ætluðum ávana- og fíkniefnum. Laust eftir miðnætti föstudaginn 2. október 2015 hafi borizt tilkynning frá tollgæzlu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um að kærða kynni að hafa fíkniefni í fórum sínum. Við líkamsleit hafi fundizt í nærbuxum hennar pakkningar með ætluðu kókaíni, tæplega 600 grömm. Hafi hún verið handtekin og síðan sætt gæzluvarðhaldi, fyrst samkvæmt úrskurði upp kveðnum 2. október en svo samkvæmt úrskurðum sem upp hafi verið kveðnir 13. október og 20. október.
Lögreglustjóri segir rannsóknina hafa verið nokkuð umfangsmikla en hún sé þó vel á veg komin. Sé gert ráð fyrir að kærða hafi flutt töluvert magn ávana- og fíkniefna til landsins og hafi það verið ætlað til sölu og dreifingar. Við rannsóknina hafi verið leitazt við að upplýsa um hlutverk kærðu í innflutningnum, aðdraganda hans og fjármögnun. Jafnframt telji lögreglustjóri að kærða hafi ekki staðið ein að innflutningnum og hafi verið leitazt við að upplýsa um vitorðsmenn hennar.
Lögreglustjóri segir að málið snúist um innflutning hættulegra ávana- og fíkniefna sem hingað hafi verið flutt til sölu til ótiltekins fjölda fólks. Sé rökstuddur grunur um að kærða hafi gerzt brotleg við ákvæði laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Lögreglustjóri segist telja að uppfyllt séu lagaskilyrði fyrir því að kærðu verði gert að sæta gæzluvarðhaldi á meðan mál hennar sé til meðferðar. Gangi hún laus megi ætla að hún kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Jafnframt sé hætta á að hún reyni að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar. Hún sé erlendur ríkisborgari og virðist ótengd landinu, eigi hér ekki fjölskyldu og augljóst sé að hún hafi ekki hugsað sér að setjast hér að. Kveðst lögreglustjóri vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 595/2011.
II
Kærða kom fyrir dóm. Mótmælti hún ekki kröfunni.
III
Ljóst er að kærða er undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins stendur enn yfir, þar á meðal á þætti hugsanlegra vitorðsmanna kærðu. Verður fallizt á með lögreglustjóra að enn sé hætta á að kærða torveldi rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á hugsanlega samseka menn, gangi hún nú laus.
Gæzluvarðhald er úrræði sem ekki má beita lengur en nauðsyn krefur hverju sinni. Þótt fallast megi á með lögreglustjóra að rannsóknarhagsmunir málsins kalli enn á framlengingu gæzluvarðhalds kærðu hefur ekki verið sýnt fram á í málinu, eins og það liggur fyrir, að vægari úrræði en gæzluvarðhald komi ekki að haldi til að tryggja að kærða komi sér ekki undan hugsanlegri málsókn og í framhaldi af henni fullnustu refsingar ef til slíks kæmi.
Í ljósi alls framanritaðs verður kærðu nú gert að sæta áfram gæzluvarðhaldi en þó ekki lengur en til mánudagsins 9. nóvember kl. 16:00.
Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærða, X, sæti áfram gæzluvarðhaldi en þó ekki lengur en til mánudagsins 9. nóvember 2015 kl. 16:00.