Hæstiréttur íslands
Mál nr. 259/2007
Lykilorð
- Vátrygging
- Samningsgerð
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2008. |
|
Nr. 259/2007. |
Sigþrúður Sigfúsdóttir(Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn Kaupþingi líftryggingum hf. (Anton B. Markússon hrl.) |
Vátrygging. Samningsgerð.
Eiginmaður S var vátryggingartaki hjá líftryggingarfyrirtækinu K. Árið 2005 var eiginmaður S bráðkvaddur og krafði S þá K um bætur úr líftryggingu eiginmanns hennar. Er K aflaði gagna til að leggja mat á bótakröfu S kom fram að eiginmaður S hefði gefið rangar upplýsingar í umsókn sinni. Var talið að samkvæmt gögnum málsins væri engum vafa undirorpið að eiginmaður S hefði við töku líftryggingarinnar vísvitandi gefið rangar upplýsingar um atvik sem hann hefði mátt ætla að skiptu máli fyrir K. Var K sýknað af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 13. mars 2007, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 25. apríl 2007 og var áfrýjað öðru sinni 11. maí sama ár. Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 9.075.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. september 2005 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétti er fram komið að nafni stefnda fyrir héraðsdómi, KB líftrygginga hf., hafi verið breytt í Kaupþing líftryggingar hf.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sigþrúður Sigfúsdóttir, greiði stefnda, Kaupþingi líftryggingum hf., 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2006.
Mál þetta var höfðað 27. júní 2006 og dómtekið 12. þ.m.
Stefnandi er Sigþrúður Sigfúsdóttir, Þverbraut 1, Blönduósi.
Stefndi er KB Líftryggingar hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 9.075.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. og 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. september 2005 til greiðsludags auk málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar verulega og í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi hennar.
Eiginmaður stefnanda, Skúli Garðarsson, f. 19. febrúar 1955, sótti um líftryggingu að fjárhæð 6.500.000 krónur 22. september 1995 hjá Alþjóða líftryggingarfélaginu hf. Í apríl 2005 keypti Kaupþing banki hf. allt hlutaféð í félaginu og var nafni þess þá breytt í KB Líf hf. Haustið 2005 var nafni félagsins breytt aftur og heitir það nú KB Líftryggingar hf.
Við umsóknina fyllti Skúli út og undirritaði eyðublað líftryggingarfélagsins. Í 4. lið voru spurningar varðandi heilsufar sem var svarað með því að merkja í viðeigandi reiti við jákvætt eða neikvætt svar. Meðal annars svaraði Skúli neitandi spurningum um hvort hann reykti eða hefði reykt síðastliðna 12 mánuði og hvort hann tæki einhver lyf að staðaldri. Einnig svaraði hann neitandi spurningunni: „Hefur þú nú eða áður haft/orðið fyrir: a) Hjarta- eða æðasjúkdóma, háan blóðþrýsting?“ Hann svaraði játandi spurningunni: „Telur þú þig nú vera heilsuhraustan?“
Skúli undirritaði yfirlýsingu í umsókninni þar sem segir m.a.: „Ég hef svarað spurningum þessarar umsóknar og samþykki að hún ásamt líftryggingarskilmálum Alþjóða líftryggingarfélagsins, sem ég hef kynnt mér, séu undirstaða og grundvöllur líftryggingarsamnings milli mín og félagsins . . . Ég geri mér grein fyrir að rangar eða ófullkomnar upplýsingar um heilsufar mitt geta valdið missi bótaréttar að hluta eða að öllu leyti og því að greidd iðgjöld tapast . . . Ég hef lesið yfirlýsinguna og lýsi því hér með yfir að öll svör við spurningum umsóknarinnar eru ítarleg og rétt.“ Undir umsókn Skúla er ritað 28. september 1995 að útreiknað ársiðgjald sé 18.644 krónur.
Í 1. gr. líftryggingarskilmála Alþjóða líftryggingarfélagsins segir: „Grundvöllur líftryggingarsamningsins eru skilmálar þessir, upplýsingar á umsóknareyðublaðinu og önnur gögn sem tengjast samningnum, bæði við upprunalega gerð hans og síðar hafi ábyrgð félagsins fallið niður eða takmarkast og þess óskað að tryggingin taki gildi aftur. Ef rangar upplýsingar hafa verið gefnar eða leynt hefur verið upplýsingum, sem kynnu að hafa breytt áhættumati félagsins, fer um ábyrgð félagsins eftir ákvæðum laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.“ Í 9. gr. segir um gildistíma að líftryggingin gildi frá útgáfudegi og endurnýist til 70 ára aldurs hins tryggða.
Hinn 22. júní 2005 varð Skúli Garðarsson bráðkvaddur. Ekkja hans, stefnandi máls þessa, krafði stefnda um bætur úr líftryggingu Skúla sem hafði verið í gildi og iðgjöld verið greidd.
Í svarbréfi stefnda, dags. 9. september 2005, segir að félagið hafi aflað gagna frá læknum og sjúkrastofnunum til þess að geta lagt mat á bótakröfuna. Í þeim gögnum komi meðal annars eftirfarandi fram:
„1. Skúli hafi fengið kransæðastíflu fyrir töku tryggingarinnar, sbr. færslur í sjúkraskrá þann 07.09.1995, læknabréf Böðvars Arnar Sigurjónssonar dags. 07.09.1995, læknabréf Magnúsar Karls Péturssonar dags. 27.12.1995 og gögnum vegna áreynsluprófs framkv. af Jóni Þór Sverrissyni dags. 25.10.1995.
2. Skúli hafi verið á lyfjum vegna þessa, sbr. færslu í sjúkraskrá dags. 07.09.1995 og læknabréfi Böðvars Arnar Sigurjónssonar dags. 07.09.2005.
3. Skúli hafi verið stórreykingarmaður og reykt um einn og hálfan til tvo pakka á dag en hætt því er hann fékk kransæðastífluna, sbr. læknabréf Böðvars Arnar Sigurjónssonar dags. 07.09.2005, læknabréf Magnúsar Karls Péturssonar dags. 27.12.1995 og gögnum vegna áreynsluprófs framkv. af Jóni Þór Sverrissyni dags. 25.10.1995.
4. Skúli hafi þurft að taka a.m.k. 8-10 vikna hvíld frá vinnu vegna kransæðastíflunnar, sbr. færslu í sjúkraskrá þann 28.09.2005.“
Síðan segir í bréfinu að hefðu þessar upplýsingar legið fyrir við umsókn um áðurgreinda líftryggingu hefði umsókninni verið synjað samkvæmt vinnureglum félagsins. Með vísan til ofangreindra atriða, skilmála tryggingarinnar og 4.-6. greina laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 hafni félagið bótagreiðslu.
Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins hafði Skúli fengið kransæðastíflu 29. ágúst 1995, verið á lyfjum vegna þess og að auki þurft að taka sér a.m.k. 8-10 vikna hvíld frá vinnu. Hann hafði verið stórreykingamaður, reykt um einn og hálfan til tvo pakka af sígarettum á dag, en hætt er hann fékk kransæðastífluna.
Málinu var skotið fyrir Tjónanefnd vátryggingarfélaganna en nefndin er skipuð einum fulltrúa frá hverju þriggja stærstu vátryggingarfélaganna. Samkvæmt tilkynningu nefndarinnar 31. janúar 2006 var niðurstaða hennar sú að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að vátryggingartaki hafi gefið rangar upplýsingar um heilsufar sitt þegar hann sótti um líftrygginguna. Þegar litið sé til eðlis þessara röngu upplýsinga í heild sinni og þágildandi reglna um áhættumat félagsins sé nægilega í ljós leitt að stefndi hefði ekki tekið að sér að veita líftrygginguna í greint sinn, sbr. 1. mgr. 6. gr. VSL nr. 20/1954. Í ljósi þeirrar niðurstöðu þyki ekki sérstök ástæða til að taka afstöðu til þess hvort atvik málsins falli undir 4. gr. nefndra laga.
Stefnandi skaut málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þar sem eiga sæti þrír fulltrúar sem valdir eru af viðskiptaráðuneytinu, Neytendasamtökunum og Sambandi íslenskra tryggingafélaga. Úrskurður nefndarinnar er dagsettur 14. mars 2006 og segir þar: „. . . Lögð hafa verið fram gögn í málinu sem sýna að S á nokkra sjúkrasögu allt frá árinu 1979. Skv. yfirlýsingu heilsugæslulæknis frá 7. september 1995 kemur fram m.a. að S hafi fengið hjartainfarct þann 29. ágúst 1995 og S reykti um einn og hálfan pakka af sígarettum á dag en hafi hætt við kransæðastífluna. Ljóst er að upplýsingar sem að S gaf við töku tryggingar um mánuði frá því tilviki sem var tilefni ofangreinds læknisbréfs eru ekki réttar og þegar af þeirri ástæðu er ekki um bótaskyldu V að ræða. M á því ekki rétt á bótum úr líftryggingu S hjá V.“
Krafa stefnanda er á því byggð að til samnings hafi stofnast milli eiginmanns hennar og stefnda um greiðslu vátryggingarbóta, vátryggingaratburður hafi orðið og stefnandi sé rétthafi greiðslu samkvæmt skilmálum tryggingarinnar. Á því er byggt að stefndi hefði veitt eiginmanni stefnanda vátrygginguna árið 1995 jafnvel þótt þær upplýsingar sem aflað var síðar hefðu legið fyrir á því tímamarki og hefði þetta í mesta lagi leitt til þess að vátryggingin hefði verið veitt með öðrum kjörum. Engin gögn liggi fyrir í málinu sem sýni fram á að eiginmaður stefnda hafi með svikum gefið rangar upplýsingar um atvik sem ætla mátti að skiptu máli fyrir félagið, sbr. 4. gr. vátryggingarsamningalaga. Rétt sé að eiginmaður stefnanda hafi fengið kransæðastíflu 29. ágúst 1995 og farið í aðgerð í kjölfarið. Hann hafi hins vegar náð sér af þessum veikindum, ekki haldið aftur af sér og unnið í fullu starfi þar til hann féll frá og ósannað sé að nokkur tengsl séu á milli þess að hann fékk kransæðastíflu 1995 og þess að hann varð bráðkvaddur 2005.
Einnig byggir stefnandi á því að stefnda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann hefði á árinu 1995 hafnað eiginmanni stefnanda um töku vátryggingar, sbr. 6. gr. VSL en samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum beri vátryggingafélagið sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu sinni.
Komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að tryggingin hefði aðeins verið veitt með öðrum kjörum beri vátryggingafélagið samkvæmt 2. mgr. 6. gr. VSL
sönnunarbyrðina fyrir því hver þau hefðu verið.
Stefnandi kveður fjárhæð dómkröfunnar vera óumdeilda og hafi upphafleg líftryggingarfjárhæð tekið breytingum í samræmi við almennar verðbreytingar, sbr. 6. og 7. gr. skilmála tryggingarinnar.
Meginmálsástæða stefnda er sú að Skúli Garðarsson hafi ekki sagt satt og rétt frá við útfyllingu umsóknar um líftryggingu heldur gefið rangar upplýsingar um atvik sem hann mátti ætla að skiptu máli fyrir félagið. Með vísan til vinnureglna félagsins sé alveg skýrt að hefðu fullnægjandi upplýsingar legið fyrir um heilsufar Skúla við tryggingartökuna hefði umsókn hans um líftryggingu verið synjað. Ljóst sé að 4. gr. laga nr. 20/1954 eigi við um háttsemi hans og að stefndi sé ekki skuldbundinn til að greiða stefnanda bætur úr tryggingunni.
Telji dómurinn atvik ekki hafa verið með þeim hætti að sannað sé að um svik hafi verið að ræða, sbr. 4. gr.VSL, sé engu að síður ljóst og óumdeilt í málinu að Skúli hafi gefið rangar upplýsingar um heilsufar sitt við töku tryggingarinnar. Stefndi hefði ekki veitt honum vátryggingarvernd hefði hann gefið réttar upplýsingar um heilsufar sitt og beri samkvæmt 6. gr. VSL að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Varakrafa stefnda er við það studd að telji dómurinn kröfu stefnanda eiga við rök að styðjast beri að lækka fjárhæðina í samræmi við 2. mgr. 6. gr. VSL samkvæmt mati dómsins. Reyndar telji stefndi slíka fjárhæð vandfundna enda sé ljóst að tryggingin hefði ekki fengist gegn hærra iðgjaldi.
Niðurstaða dómsins er sú að samkvæmt gögnum málsins sé engum vafa undirorpið að Skúli Garðarsson hafi við töku líftryggingarinnar vísvitandi gefið rangar upplýsingar um atvik sem hann mátti ætla að skiptu máli fyrir vátryggingarfélagið og á 4. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga við um háttsemi hans. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, KB Líftryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Sigþrúðar Sigfúsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.