Hæstiréttur íslands

Mál nr. 178/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Sératkvæði


Föstudaginn 30

 

Föstudaginn 30. mars 2007.

Nr. 178/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sératkvæði.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 9. maí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fram er kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið gróft brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en tilviljun ein virðist hafa ráðið því hver fyrir þessu varð. Að þessu gættu og öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi um að ætla megi að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er varnaraðili grunaður um að hafa framið brot sem varðar við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem refsing getur orðið allt að 16 ára fangelsi.

Varnaraðili hefur samkvæmt dómi Hæstaréttar 23. mars 2007 í máli nr. 168/2007 sætt gæsluvarðhaldi frá 19. til 28. mars 2007 á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Krafa sóknaraðila er nú ekki studd við rannsóknarhagsmuni enda er staða rannsóknarinnar þannig að ekki verður talið að varnaraðili geti torveldað hana úr því sem komið er. Styður sóknaraðili kröfuna um framlengingu gæsluvarðhalds eingöngu við sjónarmið um að það sé nauðsynlegt vegna almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt fordæmum Hæstaréttar eru ströng skilyrði fyrir því að sakborningar verði látnir sæta gæsluvarðhaldi á þessum grundvelli. Styðst það meðal annars við túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á 3. mgr. 5. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Hefur dómstóllinn meðal annars talið það vera skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi af þessum toga að löggæsluyfirvöld sýni fram á að það muni valda röskun á almannafriði ef sakborningi yrði sleppt. Vísast hér til dæmis til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu frá 26. júní 1991 í málinu Letellier gegn Frakklandi og 27. ágúst 1992 í málinu Tomasi gegn Frakklandi.

Með vísan til þess sem að framan greinir telst sóknaraðili ekki hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að skilyrði séu til áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir varnaraðila með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt því tel ég ekki næg efni til að verða við kröfu hans og beri því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2007.

             Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, [kt.], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 1. júní nk. kl. 16:00.

             Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að að kvöldi sunnudagsins 18. mars sl. hafi kærði verið handtekinn á heimili sínu og haldlagður hluti af þeim fatnaði er hann muni hafa verið í aðfararnótt 17. mars sl. er meintur atburður sé talinn hafa átt sér stað. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt að hafa átt samræði við meintan brotaþola en borið um að það hafi verið með hennar vilja.

             Sunnudaginn 18. mars og mánudaginn 19. mars sl. hafi A, verið yfirheyrður á lögreglustöð en hann muni hafa verið með kærða á vettvangi. Hafi hann sagt að þeir kærði hafi verið á bar á hótelinu og drukkið þar saman áfengi en síðan gengið að stiga þar sem gengið sé niður á salerni. Þar hafi meintur brotaþoli og kærði rætt saman og gengið niður stigann. Skömmu síðar hafi hann séð að einn bás á kvenna­salerninu var læstur. Eftir 10-15 mínútur hafi kærði komið til hans og sagst hafa haft samfarir við íslenska stúlku á salerninu. Hafi hann svo séð stúlkuna grátandi, kærði farið til að ræða við hana og síðan farið út af hótelinu og hlaupið í burtu út af Hótel Sögu og horfið út í náttmyrkrið.

             Við rannsókn málsins hafi verið rætt við nokkur vitni og styrki vitnisburður þeirra framburð meints brotaþola. Þá hafi lögreglu borist gögn frá Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota. Komi fram í þeirri skýrslu að meintur brotaþoli hafi haft nokkra áverka eftir ætlað brot kærða og henni m.a. blætt. Teknar hafi verið aðrar framburðar­skýrslur bæði af meintum brotaþola og jafnframt af kærða. Þá hafi verið send fyrirspurn til ríkislögreglustjóra í því skyni að komast að því hvort og hver sakarferill kærða sé.

             Eins og gögn málsins beri með sér virðist sem kærði hafi með tilviljanakenndum hætti ráðist að meintum brotaþola í því skyni að eiga við hana kynferðismök en vottorð Óskar Ingvarsdóttur, dags. 27. mars sl. beri með sér að áverkar brotaþola samrýmist kynferðismökum án samþykkis. Virðist lögreglustjóranum sem hending ein hafi því ráðið því hver hafi orðið fyrir hinni meintu árás. Lögreglustjóri telji meinta háttsemi kærða mjög alvarlega og að öðrum konum kunni að vera hætta búin gangi kærði laus. Með vísan til þess telji hann ríka almannahagmuni krefjast þess að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Telji lögreglustjórinn að meint brot kærða varði við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum en brot gegn því ákvæði geti varðað allt að 16 ára fangelsi.

             Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna, almannahagsmuna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið og öðru leyti með vísan til rann­sóknargagna er kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot er varðar við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en samkvæmt því ákvæði liggur allt að 16 ára fangelsi við broti. Í gögnum málsins kemur fram að meintur brotaþoli þekkti kærða ekkert áður en atburðir þessir gerðust og meint brot kærða er framið á almenningssalerni, þar sem meintur brotaþoli átti sér einskis ills von. Ríkir almannahagsmunir standa til þess að þegar svo stendur á sem í máli þessu og menn sem eru sterklega grunaðir um svo alvarlegt brot sem nauðgun er, gangi ekki lausir. Með vísan til framangreinds, atvika máls þessa og rannsóknargagna málsins að öðru leyti er fallist á að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi í máli þessu, og að fallast beri á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þó þannig að kærði sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 9. maí nk. kl. 16.00.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðviku­dagsins 9. maí nk. kl. 16:00.