Hæstiréttur íslands
Mál nr. 265/2012
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Vinnuslys
Skaðabætur. Líkamstjón. Vinnuslys.
A krafði S hf. um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir við vinnu hjá B hf., er stigi sem hann var í féll undan honum. Byggði A á því að vinnuaðstæður og verkstjórn hjá B hf. hefðu verið ófullnægjandi, auk þess sem stiginn sem hann hefði notað hefði verið vanbúinn. Hæstiréttur taldi að slysið yrði hvorki rakið til saknæmrar vanrækslu starfsmanna B hf. né vanbúnaðar á stiga. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstaða héraðsdóms um sýknu S hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2012. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 34.603.042 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.379.320 krónum frá 7. mars 2008 til 24. mars 2010, en af 30.208.100 krónum frá þeim degi til 2. desember 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 34.603.042 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 24. mars 2010 að fjárhæð 255.766 krónur og 74.172 krónur, 2. september sama ár að fjárhæð 1.911.523 krónur og 28. nóvember 2011 að fjárhæð 1.247.355 krónur. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 25.859.733 krónur en að því frágengnu 19.179.989 krónur, í báðum tilvikum með sömu vöxtum og frádrætti og greinir í aðalkröfu. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi varð áfrýjandi fyrir líkamstjóni í starfi sínu hjá B hf. 7. mars 2008. Slasaðist áfrýjandi þegar hann var að fara niður stiga sem féll undan honum. Stóð stiginn á tengivagni og hafði áfrýjandi notað stigann til að komast upp á gám, sem var á vagninum, til að festa króka í gáminn svo hann yrði hífður niður af vagninum. Við slysið brotnaði vinstri lærleggur áfrýjanda auk þess sem hann fékk áverka á vinstra hné. Áfrýjandi beinir kröfum sínum að stefnda en B hf. var með ábyrgðartryggingu hjá félaginu. Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að vinnuaðstæður og verkstjórn hjá B hf. hafi verið ófullnægjandi, auk þess sem stiginn er áfrýjandi notaði hafi verið vanbúinn.
Vinnueftirliti ríkisins var tilkynnt um slysið og kom fulltrúi þess á vettvang skömmu eftir að áfrýjandi hafði verið fluttur á spítala með sjúkrabifreið. Í skýrslu vinnueftirlitsins, sem rituð er síðar sama dag, segir að öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir verkið hafi verið tekin saman, en þar komi fram að festa skuli alla lausa stiga og þá skuli nota rétt. Í þessari áætlun fólst áhættumat í skilningi 65. gr. a laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Einnig staðfesti áfrýjandi í aðilaskýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hann hefði um mitt ár 2006 sótt námskeið á vegum vinnuveitanda um öryggi á byggingasvæðum og að samstarfsmaður hafi túlkað það sem fram fór yfir á móðurmál áfrýjanda. Á því námskeiði var meðal annars fjallað um notkun lausra stiga. Þá er þess að gæta að ekki var þörf á því að verkstjóri á vinnustað fylgdist með og gæfi fyrirmæli um hvernig stigi væri notaður við þessar aðstæður. Er þá haft í huga að áfrýjandi er lærður húsasmiður og hefur um árabil starfað við þá grein. Mátti honum vera ljós sú hætta sem var fyrir hendi og var honum í lófa lagið að kalla til samstarfsmann til að styðja við stigann. Loks verður með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á þá niðurstöðu að á stiganum hafi ekki verið vanbúnaður sem þýðingu geti haft. Samkvæmt þessu verður slysið ekki rakið til saknæmrar vanrækslu starfsmanna vinnuveitanda áfrýjanda og verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Eftir atvikum er rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur er óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 17. janúar 2011, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, búsettum í […], með stefnu birtri 25. nóvember 2010, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 34.603.042 krónur, ásamt 4,5% vöxtum af 3.379.320 krónum frá 7. mars 2008 til 24. mars 2010, en af 30.208.100 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 34.603.042 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, samtals að fjárhæð 3.488.816 krónur. Verði ekki orðið við aðalkröfu stefnanda gerir stefnandi þá dómkröfu til vara, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 25.859.733 krónur, ásamt 4,5% vöxtum af 3.379.320 krónum frá 7. mars 2008 til 24. mars 2010, en af 21.464.791 krónu frá þeim degi til þingfestingardags, og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 25.859.733 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, samtals að fjárhæð 3.488.816 krónur. Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 19.179.989 krónur, með 4,5% vöxtum af 3.379.320 krónum frá 7. mars 2008 til 24. mars 2010, en af 14.785.047 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 19.179.989 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, samtals að fjárhæð 3.488.816 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, en til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður falli niður.
Málavextir
Stefnandi, sem er lærður húsasmiður í heimalandi sínu, […], hóf störf hjá B hf. hinn 20. janúar 2006. Hann var metinn sem fulllærður trésmiður hér á landi af menntamálaráðuneytinu í mars 2007 og fékk í kjölfarið inngöngu í Trésmíðafélag Reykjavíkur. Hinn 7. mars 2008 varð stefnandi fyrir slysi við vinnu sína í […] í […]. Slysið varð er stefnandi og annar starfsmaður B, C, unnu að því að hífa gámaeiningar af tengivagni vöruflutningabifreiðar. Í lögregluskýrslu, dagsettri sama dag, kemur fram að stefnandi hafi farið upp stiga til að festa á gáminn þar til gerða hífingarkróka, en stiginn hafi runnið undan honum og hann fallið niður á pall tengivagnsins. Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, sem einnig var rituð samdægurs, er atvikum lýst þannig að stefnandi hafi tyllt 4 m háum stiga upp við gáminn, sem stóð á tengivagninum. Stiginn hafi verið staðsettur u.þ.b. 90 cm frá gámnum og staðið í um 19° halla. Hafi stiginn runnið undan stefnanda, þegar hann var að stíga niður úr honum, og stefnandi fallið á pallinn. Sjónarvottur telji að stefnandi hafi staðið í 5. þrepi stigans þegar hann féll, sem sé í 140 cm hæð.
Stefnandi var fluttur á slysadeild Landspítala og reyndist hann hafa hlotið kurlað og mikið tilfært brot í vinstri lærlegg, auk áverka á vinstra hné. Hann gekkst undir aðgerð samdægurs. Samkvæmt matsgerð D dr. med., dagsettri 26. ágúst 2010, eru varanlegar afleiðingar áverka stefnanda viðvarandi verkir í vinstri mjöðm, læri og hné, auk hreyfiskerðingar. Þá megi gera ráð fyrir ótímabærri þróun slitgigtar í hnélið. Er tímabundin óvinnufærni metin 100% frá slysdegi til 24. mars 2010 og varanlegur miski talinn 25%.
Fyrir liggur að B hf. hafði keypt slysatryggingu launþega og frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda og hefur stefnandi fengið greiddar bætur vegna launþegatryggingar. Með tölvubréfi stefnda til lögmanns stefnanda, dagsettu 3. nóvember 2009, var hins vegar hafnað kröfu um bætur vegna ábyrgðartryggingar. Stefnandi skaut málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem komst að þeirri niðurstöðu með úrskurði 22. desember 2009, að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu vegna slyssins.
Stefnandi gaf skýrslu í málinu og gerði grein fyrir menntun sinni, en hann kvaðst vera lærður húsasmiður, með próf frá tækniskóla í heimalandi sínu. Hann hefði starfað við byggingarvinnu hjá B hf. Daginn sem um ræðir hefði hann farið með verkstjóra sínum, E, að byggingarsvæði við […], í því skyni að setja þar upp vinnubúðir. F hefði verið verkstjóri á staðnum og hefði hann gefið þeim C fyrirmæli um verkið. Stefnandi kvaðst hafa skilið hvað hann átti að gera og hefði hann einnig vitað hvernig átti að vinna þetta verk. Hann hefði sjálfur stillt stiganum upp á pall vörubifreiðarinnar, eins og venjulegt væri þegar svona verk eru unnin. Þetta hefði verið venjulegur álstigi með grófu áklæði undir, svo að hann hefði ekki átt að renna í hálku. Ekki hefði verið brýnt fyrir honum að festa stigann og enginn sérstakur búnaður hefði verið tiltækur í því skyni. Stefnandi kvaðst hafa setið fræðslufund um öryggismál á byggingarsvæðum hjá B um mitt ár 2006 og hefði […] samstarfsmaður séð um að túlka fyrir landa sína á fundinum.
Stefnandi upplýsti að hann hefði starfað sem húsasmiður í heimalandi sínu um 30 ára skeið. Hefði hann um árabil starfað sem verkstjóri á byggingarsvæðum og haft yfir 20 til 40 mönnum að segja þegar mest var. Hann kvaðst að jafnaði hafa notað stiga í störfum sínum hér á landi, sem í […], stundum nokkrum sinnum á dag, stundum sjaldnar, eftir því hvaða verk var verið að vinna. Hann hefði oft þurft að leiðbeina undirmönnum sínum um notkun stiga.
Vitnið, C, kvaðst hafa starfað við byggingarvinnu hjá B hf. hér á landi og setið námskeið um notkun stiga og önnur öryggismál sem haldið var 11. júlí 2006. Kennsla hefði farið fram á íslensku, en […] starfsmaður fyrirtækisins hefði túlkað jafnóðum fyrir samlanda sína. Vitnið kvaðst hafa skilið vel það sem kom fram hjá túlkinum. Meðal annars hefði verið fjallað um notkun lausra stiga. Hefði komið fram að ef starfsmaður væri einn að vinna með lausan stiga skyldi hann festa hann. Ef tveir starfsmenn væru að vinna saman skyldi annar styðja við stigann þegar hinn færi upp í hann. Þá hefði þeim verið leiðbeint um í hvaða halla stigum skyldi stillt upp. Á námskeiðinu hefðu verið sýndar glærur og myndir sem leiðbeindu um notkun lausra stiga.
Vitnið F, jarðvinnuverkstjóri hjá B hf., kvaðst hafa verið verkstjóri á byggingarsvæðinu við […]. Vitnið kvað vinnu hafa staðið yfir á svæðinu í marga mánuði þegar slysið varð og hefðu verkfæri því verið á staðnum. Staðið hefði fyrir dyrum að reisa vinnubúðir á svæðinu og hefðu stefnandi og C, sem báðir voru trésmiðir, verið fengnir til verksins. Hefði hann gefið þeim fyrirmæli um verkið, en ekki verið viðstaddur þegar slys varð. Vitnið kvað sennilega hafa verið frost þegar þetta var, en pallur vörubifreiðarinnar hefði verið hreinn þótt ekki vissi vitnið hvort hann hefði verið saltaður. Hann kvað stefnanda hafa verið fenginn í þetta verk vegna kunnáttu sinnar sem smiður. Hefði stefnandi auðveldlega getað tryggt öryggi sitt með því að fá C eða kranamann á dráttarbifreiðinni, til að styðja við stigann.
Vitnið E kvaðst að jafnaði hafa haft verkstjórn yfir stefnanda. Stefnandi væri reyndur maður og hefði hann unnið við smíðavinnu hjá B í rúm tvö ár þegar slys varð. Hann hefði verið fenginn í þetta verkefni vegna menntunar sinnar og reynslu og hefði hann margsinnis unnið sambærileg verkefni áður. Um væri að ræða hefðbundið verk, sem trésmiðir ættu að geta leyst úr á eigin spýtur. Þá hefði stefnanda verið í lófa lagið að fá samstarfsmann sinn, eða ökumann dráttarbifreiðarinnar, til að styðja við stigann. Vitnið kvað timbur og verkfæri hafa verið tiltæk á staðnum svo að unnt hefði verið að negla bakvið stigann til að festa hann.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að vinnuveitandi sinn, B hf., hafi ekki fullnægt lagaskyldu sinni til að tryggja að gætt væri fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og öryggis á vinnustað. Telur stefnandi að vinnuaðstæður hafi verið óforsvaranlegar og vísar í því sambandi til lögregluskýrslu og umsagnar Vinnueftirlitsins, þar sem komi fram að orsök slyssins hafi verið sú að verið var að vinna í lausum stiga, þrátt fyrir að samkvæmt öryggis- og heilbrigðisáætlun skyldi festa alla lausa stiga og nota þá á réttan hátt. Þá komi fram að bleyta og aur á palli vörubifreiðarinnar hafi getað átt einhvern þátt í slysinu. Hafi Vinnueftirlitið mælt fyrir um úrbætur í þá veru að alla lausa stiga skyldi festa, auk þess sem vísað hafi verið til 13. gr. og 37. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, um framkvæmd vinnu og skyldur atvinnurekanda í því sambandi. Jafnframt vísar stefnandi til 13. gr., 14. gr., 37. gr., sbr. 42. gr. og 1. mgr. 65. gr. a. laga nr. 46/1980, reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006, 5. gr. og 8. gr. reglugerðar um notkun tækja nr. 367/2006 og 4. gr. II. viðauka við þá reglugerð, 8. gr. reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum nr. 547/1996 og 19. gr. B. hluta IV. viðauka þeirra reglna.
Þá er byggt á því að stefnandi tali hvorki íslensku né ensku og hafi yfirmönnum hans því sérstaklega borið að gæta þess að leiðbeiningar vegna verksins kæmust örugglega til skila. Stefnandi hafi setið fund um notkun stiga á vegum fyrirtækisins, en þar hafi einn af verkamönnunum túlkað fyrir viðstadda, en ekki löggiltur túlkur. Telur stefnandi kennslu hafa verið áfátt vegna þessa. Enn fremur er vísað til þess að samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980 sé verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda á vinnustað og beri honum að sjá til þess að allur búnaður sé góður og öruggt skipulag sé þar ríkjandi. Vísar stefnandi jafnframt til 1. mgr. 23. gr. laganna í því sambandi.
Telur stefnandi að atvinnurekandi og verkstjóri hafi vanrækt skyldur sem á þeim hvíla varðandi öryggi á vinnustöðum. Vinnuveitandi stefnanda hafi átt að hafa eftirlit með því að notkun lausra stiga samrýmdist skilyrðum laga og reglna. Þá hafi verið brotið gegn fjölda reglna sem á starfssviðinu gilda. Með hliðsjón af framansögðu telur stefnandi að verkstjóri á vinnusvæðinu hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Sé því um að ræða bótaskylda háttsemi á grundvelli hinnar ólögfestu meginreglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð og eigi stefnandi rétt á greiðslu úr ábyrgðartryggingu B hf.
Dómkröfur stefnanda byggja á matsgerð og sundurliðast þannig:
|
1. Bætur skv. 2. gr. skaðabótalaga |
4.394.942 krónur |
|
2. Bætur skv. 3. gr. skaðabótalaga (705 x 1.530 = 1.078.650 kr.; 42x 2.835 = 119.070 kr.) |
1.197.720 krónur |
|
3. Bætur skv. 4. gr. skaðabótalaga (25% af 8.726.400 kr.) |
2.181.600 krónur |
|
4. Bætur skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga (8.064.000 x 1.08/319,8 x 369,0 = 10.048.985 x 7,628 x 35%) |
26.828.780 krónur |
|
Samtals: |
34.603.042 krónur |
|
Frádráttur: |
|
|
Bætur úr launþegatryggingu |
- 1.911.523 krónur |
|
Örorkulífeyrir frá TR |
- 255.766 krónur |
|
40% reiknaðs eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum |
- 74.172 krónur |
|
Greiðsla frá Sjúkratryggingum Íslands |
- 1.247.355 krónur |
|
Samtals: |
- 3.488.816 krónur |
|
Samtals: |
31.114.226 krónur |
Krafa um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga styðst við niðurstöðu matsgerðar um óvinnufærni stefnanda frá 7. mars 2008 til 24. mars 2010. Þá skuli þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga reiknast í 747 daga, en þar af hafi stefnandi verið rúmliggjandi í 42 daga. Krafa um miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga er byggð á mati um 25 stiga varanlegan miska. Loks var varanleg örorka samkvæmt 5. til 7. gr. skaðabótalaga metin 35% og miðast kröfugerð stefnanda viða það.
Að því er varðar kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku heldur stefnandi því fram að tekjuviðmið samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi ekki við, þar sem óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi í skilningi 2. mgr. sömu lagagreinar. Miklar breytingar hafi orðið á högum stefnanda er hann kom hingað til lands árið 2006 og hafi hann haft hug á að halda áfram störfum hjá B hf., helst við stjórnun mannvirkjaframkvæmda. Launatekjur þriggja síðustu ára fyrir slys séu því ekki góður mælikvarði á framtíðartekjur stefnanda. Krefst stefnandi þess að miðað verði við meðaltekjur iðnlærðra byggingarsmiða og verkstjóra árið 2007, samkvæmt launatöflum Hagstofu Íslands, uppfært miðað við launavísitölu við stöðugleikapunkt. Til vara krefst stefnandi þess að við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku verði miðað við meðaltekjur iðnaðarmanna árið 2007, samkvæmt launatöflum Hagstofu Íslands, uppfært miðað við launavísitölu við stöðugleikapunkt. Nemur kröfufjárhæð þannig reiknuð 18.085.471 krónu og fjárhæð bótakröfu samtals 25.859.733 krónum, eða 22.370.917 krónum að frádregnum innborgunum. Til þrautavara krefst stefnandi þess að miðað verði við tekjur hans síðustu tvö ár fyrir slysið eftir að tekjur ársins 2006 hafa verið uppreiknaðar til heils árs, miðað við launavísitölu við stöðugleikapunkt. Nemur kröfufjárhæð þannig reiknuð 11.405.727 krónum og fjárhæð bótakröfu samtals 19.179.989 krónum, eða 15.691.173 krónum að frádregnum innborgunum.
Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga vegna þjáningabóta og varanlegs miska frá slysdegi fram að stöðugleikapunkti 24. mars 2010, en frá þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku fram til þingfestingardags, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags, að frádregnum innborgunum.
Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra ólögfestra reglna íslenks réttar um skaðabætur, þ. á m. sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006, reglugerðar um notkun tækja nr. 367/2006 og reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996. Um vaxtakröfu vísar stefnandi til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og um kröfu um dráttarvexti til 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi reisir aðalkröfu sína um sýknu á því að ósannað sé að tjón stefnanda megi rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanna B hf., eða annarra atvika sem félagið beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Tjón stefnanda verði annað hvort rakið til óhappatilviljunar eða eigin sakar hans sjálfs. Stefndi hafnar því að slysið verði rakið til þess að vinnuaðstaða hafi verið óviðunandi, gáleysis stjórnenda B hf., eða að brotið hafi verið gegn skyldum sem á félaginu hvíla samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglum samkvæmt þeim.
Stefndi hafnar því að slysið megi rekja til þess að yfirmenn hjá B hf. hafi með einhverjum hætti vanrækt að tryggja góðan aðbúnað eða öryggi á vinnustaðnum. Bendir stefndi á að öryggis- og heilbrigðisáætlun hafi legið fyrir á vinnustaðnum, þar sem m.a. komi fram að festa skuli lausa stiga. Þá hafi B hf. staðið fyrir sérstökum námskeiðum um notkun stiga, þar sem þetta var áréttað og hafi stefnandi setið slíkt námskeið. Þá hafnar stefnandi því alfarið að nokkurt orsakasamband hafi verið á milli slyssins og þess að ekki var löggiltur túlkur á námskeiðinu, en samlandi stefnanda, sem sé […]- og íslenskumælandi, hafi túlkað fyrir hann. Þá hafi leiðbeiningar um festingu lausra stiga verið settar fram í einföldu máli og með myndrænum hætti. Ekkert sé fram komið um að slysið megi rekja til þess að stefnandi hafi ekki skilið þær leiðbeiningar sem honum voru veittar. Búnaður sem notaður var til að festa stiga hafi verið tiltækur á vinnustaðnum og hafi stefnanda verið fullkunnugt um það. Þá sé að mati stefnda með öllu ósannað að slysið megi með einhverjum hætti rekja til þess að B hf. hafi láðst að sinna eftirliti og viðhaldi á stiganum eða öðrum búnaði. Enn fremur mótmælir stefndi því sem ósönnuðu að verkstjóri stefnanda hafi brugðist lagaskyldum sínum. Ekkert sé fram komið um að verkstjóri hafi vanrækt að tryggja örugg starfsskilyrði. Til þess verði einnig að líta að um tiltölulega einfalt verk hafi verið að ræða, sem stefnandi hafi auk þess haft ríka þekkingu á hvernig eigi að sinna. Því hafi verið minni þörf á ítarlegri verkstjórn. Ótækt sé að skýra lagaákvæði um skyldur verkstjóra svo rúmt að ætlast sé til að þeir fylgist með sérhverju verki starfsmanna sinna og stýri framkvæmd þess. Loks telur stefndi ósannað að slysið megi með einhverjum hætti rekja til þess að bifreiðarstjóri vöruflutningabifreiðarinnar hafi vanrækt að salta pall bifreiðarinnar.
Verði ekki fallist á að um óhappatilviljun hafi verið að ræða byggir stefndi á því að stefnandi verði sjálfur að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Bendir stefndi á að stefnandi sé lærður húsasmiður og múrarameistari og hafi að auki lokið námi til frekari réttinda til að stjórna byggingarframkvæmdum. Hafi stefnandi borið að hann hafi unnið sem húsasmiður og múrari, við stjórnun nýbygginga og viðhaldsverkefna og sem yfirmaður 26 trésmiða. Hann hafi hafið störf hjá B hf. í janúar 2006 og fengið réttindi sem húsasmiður hér á landi hinn 5. júlí 2007. Megi ljóst vera að stefnandi hafi víðtæka þekkingu og reynslu af störfum þar sem iðulega þarf að nota stiga. Stefnandi hafi ekki farið eftir öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrirtækisins og ekki fylgt fyrirmælum um framkvæmd verksins. Þá hafi hann látið hjá líða að nota tiltækan búnað til að festa stigann og ekki gert aðrar öryggisráðstafanir, svo sem að biðja samstarfsmann um að styðja við stigann. Hafi stefnandi með þessu sýnt af sér svo mikið gáleysi að hann beri einn ábyrgð á slysi sínu. Þá hefði stefnanda verið í lófa lagið að gera athugasemdir ef hann taldi að öryggisbúnaði væri í einhverju áfátt.
Varakrafa stefnda um að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega er í fyrsta lagi reist á því að fjárhæð tekna sem stefnandi miði við til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku sé hærri en lögbundið hámark samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í öðru lagi telur stefndi að lækka eigi bætur verulega vegna eigin sakar stefnanda. Í þriðja lagi sé niðurstöðu matsgerðar mótmælt sem of hárri hvað miska- og örorkustig varðar. Í fjórða lagi sé því andmælt að sérstakar aðstæður séu fyrir hendi í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Verði skilyrði þess lagaákvæðis hins vegar talin uppfyllt byggir stefndi á því að ákvörðun bóta skuli miða við þrautavarakröfu stefnanda. Í fimmta lagi telur stefndi að upphafsdag dráttarvaxta eigi að miða við dómsuppsögu.
Um lagarök vísar stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, óhappatilviljun, gáleysi, orsakatengsl og sennilega afleiðingu og eigin sök tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Enn fremur til laga um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum nr. 46/1980. Málskostnaðarkrafa stefnda styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um það hvort stefnandi, A, eigi rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu B hf. hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að B hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglum samkvæmt þeim. Vinnuaðstæður hafi verið óforsvaranlegar í umrætt sinn, með því að örugg áhöld og tæki hafi ekki verið til staðar, stiginn, sem notaður var við verkið, hafi verið vanbúinn, og vörubifreiðarpallur háll. Þá hafi verkstjóri vanrækt eftirlitsskyldu sína á vinnustaðnum.
Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins er orsök slyssins rakin til þess að stefnandi var að vinna í lausum stiga, auk þess sem bleyta og aur á palli vörubifreiðarinnar geti hafa átt einhvern þátt. Fram kemur að fyrir lá öryggis- og heilbrigðisáætlun á vinnustaðnum, þar sem mælt var fyrir um að festa skyldi lausa stiga sem unnið var með. Í málinu liggja fyrir ljósmyndir, teknar á slysstað, af stiganum sem notaður var, og af palli vörubifreiðarinnar, þar sem sést að pallurinn var auður, en samkvæmt skýrslu vinnueftirlitsins var hann nokkuð háll.
Stefnandi er lærður húsasmiður í heimalandi sínu og hafði hlotið réttindi til að starfa sem trésmiður hér á landi. Hann hafði starfað við byggingarvinnu hjá B hf. í rúm tvö ár er slysið varð. Þá kveðst stefnandi hafa starfað sem húsasmiður í heimalandi sínu um 30 ára skeið, m.a. sem verkstjóri á byggingarsvæðum. Fram kom hjá F verkstjóra að stefnandi og C hefðu verið fengnir til verksins sem um ræðir vegna kunnáttu sinnar sem trésmiðir. Um var að ræða tiltölulega einfalt verk, sem stefnandi var þaulvanur að vinna. Þá hafði stefnandi setið námskeið á vegum vinnuveitanda síns, þar sem m.a. var fjallað um öryggismál í tengslum við notkun lausra stiga. Eru ekki efni til að ætla að námsefnið hafi ekki komist til skila þótt samlandi stefnanda hafi túlkað á námskeiðinu, en ekki löggiltur túlkur.
Af hálfu stefnanda var því haldið fram við flutning málsins fyrir dómi að stiginn, sem notaður var, hefði verið vanbúinn, en þeirri málsástæðu var mótmælt af hálfu stefnanda, sem of seint fram kominni. Þótt ekki hafi verið vikið sérstaklega að þessu atriði í stefnu verður til þess litið, þar sem málatilbúnaður stefnanda lýtur að því að vinnuaðstæður í heild hafi verið óforsvaranlegar. Í skýrslu vinueftirlitsins kemur fram að stiginn sem um ræðir var 4 m langur og segir að hann hafi verið af viðurkenndri gerð. Engar athugasemdir voru gerðar við stigann í skýrslunni. Á ljósmyndum sést að um var að ræða álstiga með grófriffluðu undirlagi. Bar stefnandi sjálfur fyrir dóminum að um venjulegan stiga hefði verið að ræða, með grófu undirlagi sem gerði það að verkum að hann ætti ekki að renna í hálku. Verður ekki fallist á það með stefnanda að stiginn hafi verið vanbúinn.
Með hliðsjón af öllu framansögðu er að mati dómsins ósannað að slysið verði rakið til þess að vinnuaðstæður í starfsemi B hf. hafi verið óforsvaranlegar og að fyrirtækið hafi með því vanrækt að tryggja öryggi á vinnustað, samkvæmt 13. gr., 14. gr., 37. gr., og 65. gr. a. laga nr. 46/1980, eða öðrum ákvæðum annarra reglna, sem vitnað er til af hálfu stefnanda. Þá verður ekki fallist á það með stefnanda að orsök slyssins verði rakin til þess að verkstjóri hafi vanrækt eftirlitsskyldu sína samkvæmt 21. gr. og 23. gr. laga nr. 46/1980. Verkstjóri á byggingarsvæðinu fól stefnanda að vinna tiltölulega einfalt verk, sem hann var þaulvanur að vinna og var hann fenginn til starfans sökum trésmíðamenntunar sinnar. Verður ekki talið að verkstjórinn hafi vanrækt starfsskyldur sínar, þó að hann hafi ekki fylgst með honum á meðan hann vann verkið.
Vegna menntunar stefnanda og reynslu hlaut honum að vera ljóst að hætta fylgdi því að klífa lausan stiga, eins og hann gerði í umrætt sinn. Var honum í lófa lagið að tryggja öryggi sitt með því að fá nefndan C eða ökumann vörubifreiðarinnar til að styðja við stigann, eða festa hann með öðrum hætti. Verður slysið rakið til gáleysis stefnanda og ber að sýkna stefnda af kröfum hans.
Með hliðsjón af atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Guðbjargar Benjamínsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 873.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði, greiðist úr ríkissjóði.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Guðbjargar Benjamínsdóttur hdl., 873.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.