Hæstiréttur íslands

Mál nr. 351/2012


Lykilorð

  • Aðfinnslur
  • Skuldamál
  • Málsforræði
  • Gjaldþrotaskipti


                                     

Fimmtudaginn 17. janúar 2013.

Nr. 351/2012.

 

Gjáhella 5 ehf.

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Skuldamál. Gjaldþrotaskipti. Málsforræði. Aðfinnslur.

G ehf. krafðist þess að L hf. yrði gert að endurgreiða sér tiltekna fjárhæð sem fyrrnefnda félagið hafði lagt inn á reikning T ehf. nokkrum dögum eftir að T ehf. hafði verið úrskurðað gjaldþrota. Byggði G ehf. á því að um hefði verið að ræða lán til T ehf. og að L hf. hefði verið óheimilt að taka fjárhæðina til greiðslu upp í kröfu sína á hendur félaginu. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að G ehf. reisti kröfu sína eingöngu á nánar tilgreindum reglum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem lytu að kröfum á hendur þrotamanni sem lýsa bæri í þrotabú hans og leyst væri úr í samræmi við ákvæði þeirra laga. Krafa G ehf. á hendur L hf. ætti sér ekki stoð í lögunum og var þegar af þeirri ástæðu staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu L hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2012. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 25.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málavextir eru þeir helstir að á árinu 2007 gerði einkahlutafélagið Tarsis svonefndan framkvæmdalánasamning við stefnda um byggingu iðnaðarhúsnæðis á lóðinni Gjáhella 5 í Hafnarfirði, en áfrýjandi er eigandi lóðarinnar og annaðist sölu þess húsnæðis sem byggt var á henni. Stefndi lánaði Tarsis ehf. fyrir öllum  byggingarframkvæmdunum og gaf félagið út tvö tryggingarbréf, annað að fjárhæð 40.000.000 krónur og hitt að fjárhæð 120.000.000 krónur til tryggingar lánveitingunni. Framkvæmdirnar munu hafa gengið erfiðlega vegna mikillar skuldsetningar Tarsis ehf., en samkomulag tókst að lokum milli félagsins og stefnda um að hinn síðarnefndi myndi lána því áfram fyrir verkinu að því tilskildu að gengist yrði í sjálfskuldarábyrgð fyrir 30.000.000 krónum vegna yfirdráttar á tilgreindum tékkareikningi félagsins. Var orðið við þessum áskilnaði stefnda með því að þrír einstaklingar, sem tengdust Tarsis ehf., og eiginkonur þeirra rituðu 7. desember 2007 undir yfirlýsingu þess efnis að þeir ábyrgðust sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar in solidum greiðslu yfirdráttar á umræddum tékkareikningi Tarsis ehf. sem næmi allt að 30.000.000 krónum. Áður hafði áfrýjandi 2. júlí 2007 sett að handveði innstæðu á  tilteknum bankareikningi sínum til tryggingar öllum skuldum Tarsis ehf. við stefnda. Fyrirsvarmaður Tarsis ehf. og prókúruhafi var Stefán Hákonarson, en hann sat einnig í stjórn áfrýjanda á árunum 2007 og 2008 og var þar jafnframt framkvæmdastjóri. Var hann einn þeirra einstaklinga sem rituðu undir fyrrgreinda sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu. Bróðir hans, Bjarni Hákonarson, tók síðan 10. ágúst 2009 við formennsku í stjórn áfrýjanda og varð jafnframt framkvæmdastjóri félagsins. Með tölvubréfi lögmanns Tarsis ehf. 19. febrúar 2009 til stefnda var óskað eftir fundi með hinum síðarnefnda þar sem rætt yrði um að starfsemi, sem hefði verið undir kennitölu Tarsis ehf., yrði færð undir kennitölu áfrýjanda, skuldbreytt yrði lánum sem hvíldu á Tarsis ehf. og þau færð yfir á áfrýjanda og jafnframt yrði skuldbreytt lánum vegna Breiðhellu 16 ehf., sem væru með veði í Gjáhellu 5, og þau færð yfir á áfrýjanda. Ekki varð af þeim ráðstöfunum sem fundarbeiðni laut að. 

Tarsis ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 24. mars 2009 og innköllun birt tveimur dögum síðar. Af hálfu áfrýjanda voru 1. apríl 2009 lagðar 25.000.000 krónur inn á fyrrnefndan tékkareikning Tarsis ehf. hjá stefnda og degi síðar lagði Breiðhella 16 ehf. 3.000.000 krónur inn á sama reikning. Í beinu framhaldi af þessum innborgunum var Stefáni Hákonarsyni afhent frumrit fyrrnefndrar sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingar hans og fimm annarra einstaklinga vegna yfirdráttarheimildarinnar á reikningnum. Þáverandi lögmaður Breiðhellu 16 ehf., sem af gögnum málsins verður ráðið að einnig hafi verið lögmaður áfrýjanda, ritaði skiptastjóra þrotabús Tarsis ehf. tölvubréf 8. september 2009 þar sem sagði meðal annars: „Þessi greiðsla kr. 3.m. frá Breiðhellu 16 ehf. var lögð inná þennan reikning til að aflétta sjálfskuldarábyrgðum sem voru á tryggingarbréfi hjá Landsbankanum í Hafnarfirði en Tarsis var skuldari á því bréfi. Átti þetta að vera lán til Tarsis ehf., en auðvitað var aðalmálið að aflétta þessum ábyrgðum sem nú er búið þannig að umbjóðandi minn er mikið í mun að fá þessa greiðslu til baka. Mistökin sjálf voru þau að greiða þessa greiðslu eftir úrskurðardag en hún var greidd þann 2. apríl sl. inná reikning Tarsis en Tarsis var úrskurðað gjaldþrota þann 24. mars sl. Þetta var greitt vegna ókunnugleika um stöðu Tarsis en Tarsis á ekkert tilkall til þessarar greiðslu en ég get komið með vottaða yfirlýsingu um það frá honum Stefáni fyrrum stjórnarformanni Tarsis sem veit um þetta mál.“ Með bréfi áfrýjanda til stefnda 26. maí 2010 var farið fram á endurgreiðslu þeirra 25.000.000 króna, sem lagðar höfðu verið 1. apríl 2009 inn á áðurnefndan tékkareikning Tarsis ehf. hjá stefnda, en þeirri beiðni var hafnað með bréfi 3. júní 2010. Stefndi hafði á hinn bóginn endurgreitt Breiðhellu 16. ehf. framangreindar 3.000.000 krónur 11. september 2009. Áfrýjandi ritaði skiptastjóra þrotabús Tarsis ehf. tölvubréf 14. júlí sama ár og fór fram á samþykki skiptastjórans á að fjárhæðin yrði endurgreidd „af hálfu Landsbankans.“ Mistök hafi verið gerð með því að inna greiðsluna af hendi eftir að bú Tarsis ehf. hafði tekið til gjaldþrotaskipta, en greiðslan „átti að vera lán til Tarsis ehf. til að aflétta ábyrgðum.“ Skiptastjórinn svaraði erindinu samdægurs og samþykkti beiðnina „með þeim fyrirvara að Landsbankinn samþykki að endurgreiða.“ Um ástæðu endurgreiðslunnar til Breiðhellu 16 ehf. vísar stefndi til þess að hann hafi verið með fullnægjandi tryggingu fyrir eftirstöðvum yfirdráttarskuldarinnar á tilteknum reikningi áfrýjanda hjá stefnda.

Skiptum á þrotabúi Tarsis ehf. lauk 27. október 2010 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.

II

            Áfrýjandi reisir endurgreiðslukröfu sína á reglum laga nr. 21/1991 og vísar þar einkum til 72. – 74. gr., 1. mgr. 109. gr. og 117. gr. laganna.

            Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. fyrrgreindra laga tekur þrotabú skuldara við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti, nema annað leiði af réttarreglum, eðli réttindanna eða löggerningi sem verður ekki hnekkt vegna gjaldþrotaskiptanna. Í 1. mgr. 73. gr. er kveðið á um að meðan á gjaldþrotaskiptum stendur eignist þrotabúið þau fjárhagslegu réttindi sem ella hefðu fallið til þrotamannsins með nánar tilteknum undantekningum. Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 74. gr. að þrotamaðurinn missi rétt sinn til að ráða yfir réttindum, sem falla til þrotabúsins eftir 72. og 73. gr., svo þýðingu hafi gagnvart því, og þá segir í 2. mgr. sama ákvæðis að þrotamaður missi rétt til að stofna til skuldbindinga svo þýðingu hafi gagnvart þrotabúinu. Jafnframt eru fyrirmæli í 3. mgr. ákvæðisins um að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. geti sá, sem hvorki vissi né mátti vita um gjaldþrotaskiptin, unnið rétt á hendur þrotabúinu vegna ráðstöfunar þrotamannsins sem á sér stað áður en innköllun hefur birst vegna skiptanna. Í 117. gr. laganna er mælt fyrir um að sá, sem vill halda uppi kröfu á hendur þrotabúi, skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra á þann hátt sem í ákvæðinu greinir. Að lokum er kveðið á um það í 1. mgr. 109. gr., sem er í XVII. kafla umræddra laga, en þar er fjallað um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, að afhenda skuli eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim.

            Með greiðslu þeirri, sem áfrýjandi innti af hendi að eigin frumkvæði 1. apríl 2009 inn á tékkareikning Tarsis ehf. hjá stefnda, átta dögum eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta, lækkaði yfirdráttarskuld þrotabúsins við stefnda sem þeirri fjárhæð nam. Af því leiðir að engin eign myndaðist í þrotabúinu með greiðslunni, heldur rann hún beint til stefnda og lækkaði þar með skuldir búsins. Eignaðist þrotabúið því engin fjárhagsleg réttindi með þessari ráðstöfun sem ella hefðu fallið til þrotamanns.

            Samkvæmt  1. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómara óheimilt að byggja dóm á öðrum kröfum eða málsástæðum en aðilarnir hafa borið fyrir sig. Eins og áður greinir reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn á því að hann hafi greitt fjármuni til Tarsis ehf. í því skyni að veita félaginu lán. Stefndi hafi ranglega tekið fjármuni þessa til greiðslu upp í kröfu sína á hendur félaginu. Áfrýjandi reisir kröfu sína eingöngu á tilgreindum reglum laga nr. 21/1991, en þær lúta að kröfum á hendur þrotamanni sem lýsa ber í þrotabú hans og leyst er úr í samræmi við reglur þeirra laga. Krafa áfrýjanda á hendur stefnda á sér ekki stoð í fyrrgreindum lögum. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað sætir ekki endurskoðun hér fyrir dómi og verður því staðfest.  

Eftir úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda  málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Mál þetta var dómtekið í héraði 29. apríl 2011 og endurupptekið til munnlegs málflutnings að nýju 11. janúar 2012. Var þá bókað að dómsuppsaga hefði dregist vegna anna dómara. Dómara tókst heldur ekki að ljúka dómi á málið innan lögmælts frests samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 eftir dómtöku síðarnefndan dag. Var bókað við uppkvaðningu héraðsdómsins 23. febrúar 2012 að lögmenn lýstu því yfir að þeir teldu óþarft að flytja málið að nýju. Samkvæmt framansögðu liðu um tíu mánuðir frá dómtöku málsins þar til dómur gekk í því. Verður ekki annað séð en dómurinn beri þess nokkur merki. Í hinum áfrýjaða dómi voru málavextir reifaðir eins og þeir horfðu við frá sjónarhóli beggja málsaðila. Þessi háttur á samningu dóms er í andstöðu við d. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, en þar segir að í dómi skuli greina stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því. Er aðfinnsluvert hvernig staðið var að málsmeðferð og samningu dóms.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Gjáhella 5 ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2012.

Mál þetta, sem upphaflega dómtekið var 29. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri samkvæmt ódagsettri áritun lögmanns stefnda og þingfest 30. nóvember 2010. Það var endurupptekið og flutt að nýju hinn 11.janúar sl. með því að dómur varð ekki lagður á það innan lögmælts frests vegna mikilla anna dómara.

Við uppkvaðningu dóms er gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi er Gjáhella 5 ehf. Laugavegi 178, Reykjavík.

Stefndi er NBI hf., Austurstræti 11, nú Landsbankinn hf., Reykjavík. 

Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 25.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 1. apríl 2009 til greiðsludags.  Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 1. apríl 2010.

Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Að auki er krafist málskostnaðar.

MÁLSATVIK

Stefnandi kveðst hafa hafið starfsemi sína í upphafi árs 2007 og hafi tilgangur félagsins verið kaup á lóðum og sala iðnaðarhúsnæðis.  Bankaviðskipti stefnanda hafi verið hjá stefnda.  Einkahlutafélagið Tarsis ehf. hafi annast byggingu þess húsnæðis, sem stefnandi hafi staðið að og selt.  Fjármögnun byggingarframkvæmdanna hafi verið í höndum stefnda og hafi Tarsis ehf. verið með sérstakan framkvæmdarlánsreikning hjá stefnda.  Tarsis ehf. hafi verið mjög skuldsett á þessum tíma og hafi stefnandi verið háður Tarsis ehf. um byggingarframkvæmdir.  Stjórn stefnanda hafi ákveðið að veita Tarsis ehf. lán upp á framtíðarviðskipti.  Hinn 1. apríl 2009 hafi stefnandi lagt lán að fjárhæð 25.000.000 króna inn á framkvæmdalánsreiknings Tarsis ehf. nr. [...]-[...]-[...]09 í útibúi stefnda í Hafnarfirði.  Nokkru áður eða hinn 24. mars 2009 hafi Tarsis ehf. verið úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur og Þuríður Kr. Halldórsdóttir hdl., skipuð skiptastjóri.  Úrskurðurinn hafi verið auglýstur í Lögbirtingablaðinu hinn 24. mars 2009 samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra.  Greiðslan hafi verið lögð inn á reikning Tarsis ehf. án þess að stefnanda væri kunnugt um að búið væri að úrskurða Tarsis ehf. gjaldþrota og því ljóst að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrir mistök inn á reikning félagsins hjá stefnda.  Greiðslan hafi farið til lækkunar á yfirdrætti á reikningi Tarsis ehf. sem staðið hafi í 28.700.000 krónum þann dag.

Daginn eftir eða hinn 2. apríl 2009 hafi félagið Breiðhella 16 ehf. lagt 3.000.000 króna inn á reikning Tarsis ehf. nr. [...]-[...]-[...]50, við sama útibú stefnda í Hafnarfirði, sem hafi jafnframt átt að vera lán til Tarsis ehf. til uppgreiðslu á framangreindum yfirdrætti á reikningi nr. 6909 en hluti greiðslunnar, 300.000 krónur, hafi átt að fara til greiðslu launa.  Með tölvupósti hinn 8. september 2009, hafi skiptastjóri Tarsis ehf., Þuríður Kr. Halldórsdóttir hdl. samþykkt að endurgreiða mætti Breiðhellu 16 ehf. 3.000.000 króna svo framarlega sem stefndi myndi samþykkja endurgreiðsluna. Af hálfu stefnda hafi endurgreiðslan verið samþykkt og fjárhæðin verið lögð. ásamt vöxtum inn á reikning þáverandi lögmanna stefnanda hinn 11. september 2009.  Hafi endurgreiðslan verið samþykkt af hálfu beggja aðila þ.e. skiptastjóra þrotabúsins og stefnda í ljósi þess, að greitt hefði verið inn á reikning Tarsis ehf. eftir úrskurðardag um gjaldþrot félagsins og með vísan til 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, þar sem lagagreinin eigi við um endurgreiðslu til þriðja aðila sem greitt hafi til þrotabús.  Þar sem greitt hafi verið til þrotabús eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta eigi ákvæði gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 við um endurkröfumál þetta.

Ef vitneskja stefnanda hefði verið til staðar um gjaldþrot Tarsis ehf. hefði greiðslan aldrei verið innt af hendi með þessum hætti.  Stefndi hafi leyst þessa greiðslu til sín og, að því er virðist, án atbeina og samþykkis skiptastjóra.  Stefndi hafi neitað að endurgreiða fjárhæðina.  Telja megi víst að starfsfólk stefnda hafi vitað eða mátt vera kunnugt um gjaldþrot Tarsis ehf. þar sem stefndi reki bæði innheimtu- og lögfræðideild og fylgist því með Lögbirtingablaðinu.

Endurgreiðsla sú sem samþykkt hafi verið af hálfu stefnda og skiptastjóra til Breiðhellu 16 ehf., sbr. framangreint, og endurgreidd hafi verið af hálfu stefnda sé af sömu rót runnin og með sömu lagalegu forsendurnar og endurgreiðsla sú sem krafist sé í stefnu þessari, þ.e. til greiðslu á yfirdrætti Tarsis ehf. hjá stefnda.  Hafi þess því verið krafist með bréfi lögmanns stefnanda, frá 26. maí 2010, að stefndi endurgreiddi stefnanda framangreinda stefnufjárhæð.  Stefndi hafi hafnað kröfu stefnanda með bréfi dags. 3. júní 2010.  Hafi stefnandi þá sent stefnda annað bréf hinn 20. júlí 2010 og ítrekað gerða kröfu en án árangurs.

Í máli þessu sé sú staða uppi að það hafi ekki verið þrotamaður sem hafi greitt inn á skuld sína hjá stefnda heldur þriðji maður sem hafi ætlað að lána Tarsis ehf. féð.  Skiptastjóri þrotabúsins hafi samþykkt að endurgreiðslan færi fram og sé stefnandi því réttur aðili að þessu máli.  Hagsmunir þrotabúsins séu því engir enda hafi þrotabúinu ekki verið stefnt í máli þessu.

Af hálfu stefnda er atvikum lýst svo að Tarsis ehf. hafi gert framkvæmdalánasamning við stefnda á árinu 2007 um byggingu iðnaðarhúsnæðis á lóðinni Gjáhellu 5, Hafnarfirði. Eigandi lóðarinnar hafi verið stefnandi, eins og sjáist á afriti af veðbandayfirliti eignarinnar dags. 15. október 2007.  Stefndi hafi lánað Tarsis ehf. 100% fyrir byggingarframkvæmdunum og félagið gefið út tvö tryggingarbréf, að fjárhæð 40 milljónir króna og 120 milljónir króna, til stefnda til tryggingar lánveitingunni. Félaginu hafi gengið bygging húsnæðisins illa og hafi Tarsis ehf. ákveðið að selja félaginu F7 ehf. byggingarframkvæmdirnar. Sú sala hafi ekki gengið eftir og í framhaldinu hafi aðilar frá Tarsis ehf. og stefnanda átt fundi með starfsmönnum stefnda um stöðu málsins og hvort Tarsis ehf. gæti klárað byggingarframkvæmdirnar. Ákveðið hafi verið að stefndi myndi áfram lána til verksins með því skilyrði að eigendur félagsins ásamt eiginkonum sínum gengju í sjálfskuldarábyrgð fyrir 30 milljónum króna. Þeir hafi samþykkt það og hinn 7. desember 2007 hafi sjálfskuldarábyrgð verið gefin út en þar hafi Stefán Hákonarson, Elín Árnadóttir, Herbein Fjallsbak, Erna Sigrún Hákonardóttir, Ilona Guzewicz og Marek Guzewicz gengið sameiginlega (in solidum) í ábyrgð fyrir 30 milljónum króna vegna skulda Tarsis ehf. við stefnda.

Framkvæmdirnar hafi síðan gengið þokkalega og í byrjun árs 2009 hafi skuldir Tarsis ehf. vegna byggingarframkvæmdanna verið um 28 milljónir króna sem verið hafi í formi yfirdráttar á tékkareikningi stefnanda, reikningi nr. [...]-[...]-[...]09. Forsvarsmenn Tarsis ehf. hafi látið starfsmenn stefnda vita að þeir ættu eftir að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingarframkvæmdunum og færi hann langt með að gera upp yfirdráttarskuldina.

Tarsis ehf. og stefnandi séu í eigu sömu aðila og sömu fjölskyldu og hafi félögin haft náið samstarf sín á milli. Sjáist það m.a. á því að Stefán Hákonarson, sem hafi alla tíð setið í stjórn Tarsis ehf. og haft prókúruumboð fyrir félagið, hafi einnig setið í stjórn stefnanda á árunum 2007 og 2008, verið framkvæmdastjóri þess og farið með prókúrumboð fyrir það félag. Bjarni Hákonarson, bróðir og samstarfsmaður Stefáns við byggingarframkvæmdirnar að Gjáhellu 5, Hafnarfirði, hafi tekið við sem formaður stjórnar og framkvæmdastjóri og farið með prókúruumboð stefnanda frá 10. ágúst 2009.

Þetta nána samstarf félaganna, þar sem sömu aðilar eru framkvæmdastjórar og prókúruhafar þeirra beggja og félögin auk þess í eign sömu fjölskyldunnar, komi einnig vel fram í tölvupósti lögmanns Gjáhellu 5 ehf. og Tarsis ehf. til starfsmanna stefnda, frá 19. febrúar 2009, mánuði áður en Tarsis ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota. Þar óski lögmaðurinn eftir fundi með starfsmönnun stefnda til að ræða það að færa alla starfsemi Tarsis ehf. undir kennitölu Gjáhellu 5 ehf. og færa lán Tarsis ehf. yfir á kennitölu stefnanda. Ekki hafi orðið af því að stefnandi tæki yfir skuldir Tarsis ehf. 

Náið samstarf félaganna komi einnig fram í því að stefnandi hafi hinn 2. júlí 2007 gefið út handveð í bankareikningi sínum, reikningi [...]-[...]-[...]04, til tryggingar öllum skuldum Tarsis ehf. við stefnda. Stefán Hákonarson og Elín Árnadóttir kona hans hafi einnig gengið í sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 15 milljónir króna fyrir stöðu á tékkareikningi Tarsis ehf. nr. [...]-[...]-[...]09. Handveðsyfirlýsingin sé gefin út hinn 28. júní 2007 og á þeim tíma hafi Stefán verið í stjórn Tarsis ehf. og stefnanda og jafnframt verið framkvæmdastjóri þeirra beggja og farið með prókúruumboð þeirra.            

Stefnandi haldi því fram að stefndi hafi ekki mátt taka við greiðslu stefnanda inn á tékkareikning Tarsis ehf. þar sem félagið hafi verið gjaldþrota. Stefndi hafnar þessu og bendir á að það sé skylda stefnda sem viðskiptabanka að taka við inn- og útborgunum af reikningum viðskiptavina sinna og skipti engu máli hvort þeir hafi verið úrskurðaðir gjaldþrota eða ekki. Ástæða innborgunar á reikninga í vörslum stefnda skipti ekki máli, hans skylda sé að taka við greiðslu og geyma þangað til eigandi fjármunanna ákveði að ráðstafa þeim sjálfur. 

Sama dag og stefnandi hafi lagt inn 25 milljónir króna á tékkareikning Tarsis ehf. og lækkað þannig stöðu yfirdráttarskuldarinnar hafi Stefán Hákonarson, stjórnarmaður í Tarsis ehf., komið í útibú stefnda í Hafnarfirði, sagt að umræddar 25 milljónir hefðu verið greiddar inn á yfirdráttarskuld félagsins og krafist þess að fá afhenta sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 30 milljónir króna sem hann ásamt fleirum hafi verið í vegna skulda Tarsis ehf. við bankann.

Daginn eftir, eða hinn 2. apríl 2009, hafi félagið Breiðhella 16 ehf., sem sé annað félag í eigu þeirra bræðra, greitt 3 milljónir króna inn á reikning Tarsis ehf., nr. [...]-[...]-[...]50, og hafi greiðslan verið innt af hendi svo að stefndi gæti ekki neitað að afhenda Stefáni Halldórssyni sjálfskuldarábyrgðina eins og hann hefði farið fram á. Í framhaldi af þessari greiðslu hafi Stefáni verið afhent frumrit sjálfskuldarábyrgðarinnar. Áður en stefndi hafi getað millifært þriggja milljóna króna greiðsluna inn á tékkareikning Tarsis ehf. nr. [...]-[...]-[...]09 hafi komið í ljós að búið hafi verið að úrskurða félagið gjaldþrota. Þá fyrst hafi stefndi vitað af því að Tarsis ehf. hefði verið úrskurðað gjaldþrota. Hafi greiðslan ekki verið færð á milli reikninganna. 

Fljótlega eftir að þriggja milljóna króna greiðslan hafi borist frá Breiðhellu 16 ehf. hafi borist beiðni frá félaginu um að stefndi endurgreiddi fjárhæðina þar sem eigandi reikningsins, Tarsis ehf., væri gjaldþrota. Einnig hafi legið fyrir samþykki bústjóra þrotabús Tarsis ehf. fyrir því að stefndi endurgreiddi fjárhæðina. Þar sem stefndi hafi verið með aðra tryggingu fyrir þessum þremur milljónum króna hafi hann fallist á að endurgreiða upphæðina, en stefndi hafi verið með tryggingu í innstæðu á reikningi fyrir þessari fjárhæð. Stefndi hafi fallist á endurgreiðsluna vegna þess að hann hefði aðra tryggingu fyrir þessari fjárhæð en ekki vegna þess að hann teldi sér skylt að endurgreiða fjárhæðina þar sem hún hefði verið lögð inn á reikning gjaldþrota félags eins og stefnandi haldi fram.     

Þó nokkru síðar hafi stefnandi gert sambærilega kröfu vegna innborgunar sinnar á tékkareikning Tarsis ehf. Með bréfi dags. 26. maí 2010 hafi Gjáhella 5 ehf. farið fram á það að bankinn endurgreiddi 25 milljónir króna þar sem félagið hefði verið gjaldþrota er greiðslan var innt af hendi. Rétt sé að benda á að ekki hafi verið boðist til að afhenda frumrit sjálfskuldarábyrgðarinnar, sem Stefán Hákonarson hafi fengið afhent í ljósi þess að umrædd greiðsla hefði verið lögð inn á reikning Tarsis ehf. Stefndi neitaði að endurgreiða. 

MÁLSÁSTÆÐUR

Stefnandi byggir dómkröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnda hafi verið óheimilt að taka við og nota greiðslu stefnanda til lækkunar á yfirdrætti Tarsis ehf. á reikningi nr. [...]-[...]-[...]09 sem innt hafi verið af hendi eftir úrskurðardag um gjaldþrot Tarsis ehf.  Við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti missi þrotamaður, sbr. 74. gr. laga nr. 21/1991, í þessu tilfelli Tarsis ehf., rétt til að ráða yfir réttindum þeim sem falli til þrotabúsins samkvæmt 72. og 73. gr. sömu laga.  Séu það m.a. fjárhagsleg réttindi sem hefðu ella fallið til þrotabúsins og þrotabúið missi rétt til að stofna til skuldbindinga eins og gagnvart stefnda.  Í fyrirmælum 72. gr. felist, að ein megináhrif úrskurðar um gjaldþrotaskipti séu þau að til verði sjálfstæð persóna að lögum, þrotabú, kennt við hlutaðeigandi félag.  Í máli þessu liggi fyrir að stefnandi hafi verið eigandi fjárins, sem lagt var inn á reikning hins gjaldþrota félags hjá stefnda.  Stefndi hafi tekið þetta sérgreinda fé og lækkað skuld hins gjaldþrota félags eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta þess um 25.000.000 króna.  Eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta Tarsis ehf., hinn 24. mars 2009, hafi stefnda verið óheimilt að nýta sér fé sem stefnandi hafi lagt inn á reikning Tarsis ehf.  Með því hafi einnig öðrum kröfuhöfum og lánardrottnum verið mismunað.  Ef Tarsis ehf. hefði sjálft greitt inn á yfirdráttarskuld sína við stefnda eftir úrskurðardag um gjaldþrotaskipti hefðu reglur gjaldþrotaskiptalaganna í 20. kafla þeirra um riftun ráðstafana þrotamanns um greiðslu á skuld átt við og skiptastjóri getað farið í riftunarmál og rift greiðslunni.  

Í öðru lagi sé krafa stefnanda byggð á 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, þar sem þriðja manni, í þessu tilfelli stefnanda, sé heimilt að fá afhenta eign (peninga) eða réttindi úr vörslu þrotabúsins ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim án tillits til annarra kröfuhafa gagnvart þrotabúinu.  Öðrum rétthöfum skuli með sama hætti afhenda eignir (peninga) eða réttindi sem þrotabúið eigi ekki tilkall til.  Sé hér um rétthæstu kröfurnar að ræða á hendur þrotabúi sem krafa þriðja manns um afhendingu verðmæta í vörslum búsins á grundvelli eignarréttar síns að þeim. Séu þetta kröfur utan skuldaraðar, oft nefndar sértökuréttur.  Eftir úrskurð um gjaldþrotaskipti Tarsis ehf. hinn 24. mars 2009 sé krafa stefnanda á hendur stefnda og þrotabúinu utan skuldaraðar skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, en slíkir kröfuhafar þurfi ekki að sæta því að hlutaðeigandi eign eða verðmæti verði m.a. varið til fullnustu á öðrum kröfum eftir stöðu þeirra í skuldaröð.  

Í þriðja lagi byggir stefnandi kröfu sína á því að skiptastjóri þrotabús Tarsis ehf. hafi ekki talið sig eiga tilkall til greiðslu stefnanda inn á reikning þrotabúsins hjá stefnda, þeim mun síður eigi stefndi tilkall til fjárins samkvæmt meginreglum gjaldþrotaskiptaréttar.  Eigi því stefnandi fullt tilkall til endurgreiðslu fjárins sem hann hafi greitt inn á reikning hjá stefnda en féð hafi í raun verið greitt þrotabúinu og hafi stefndi því engan rétt átt á því að taka nefnda greiðslu að fjárhæð 25.000.000 króna til sín eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta Tarsis ehf.  Með réttu sé það því skiptastjóra þrotabúsins að taka ákvörðun um hvort greiðslan rynni inn á skuld þrotabúsins eða yrði endurgreidd og hafi skiptastjóri samþykkt að greiðsluna eigi að endurgreiða stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína í fjórða lagi á því að þegar stefnandi hafi greitt 25.000.000 króna inn á reikning þrotabúsins hafi þrotabúið eignast nefnda greiðslu, þ.e. lögpersóna þrotabúsins, sbr. 73. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt hafi skiptastjóri einn verið bær um að taka ákvörðun skv. 1. og 2. mgr. 74. gr. laga nr. 21/1991, eftir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar Tarsis ehf. um réttindi þrotabúsins, stofna til skuldbindinga og greiðslna svo að áhrif hefði gagnvart þrotabúinu.  Þau réttindi sem hér um ræði sé sú fjárhæð, 25.000.000 króna, sem lögð hafi verið inn á reikning þrotabúsins og sé því eign þrotabúsins sem skiptastjóri þess hafi samþykkt að verði endurgreidd stefnanda.

Í fimmta lagi styður stefnandi kröfu sína við 1. mgr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.  Samkvæmt téðri lagagrein gjaldfalli allar kröfur á hendur þrotabúi við úrskurð um gjaldþrotaskipti án tillits til samninga, ákvarðana o.fl.  Meginreglan um það hvernig kröfuhafi (stefndi) verði að bera sig að til að framfylgja kröfu sinni eftir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar komi fram í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991.  Efnislega sé þar kveðið á um, að kröfuhafi (stefndi) sem vilji hafa uppi kröfu á hendur þrotabúi eða gjaldþrota einstaklingi eða félagi, verði að lýsa henni fyrir skiptastjóra og eigi engra annarra kosta völ til að koma henni fram, hvað þá að fá greiðslu inn á hana. Þessi meginregla geri ekki greinarmun á kröfu um greiðslu peninga eða annars efnis, og séu kröfuhafar því eins settir í því tilliti.  Með gagnályktun frá 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 sé því lagt bann við því að taka á móti greiðslu á skuld eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta og beri skilyrðislaust að endurgreiða slíka greiðslu nema 116. gr. laga nr. 21/1991 eigi við en svo sé ekki í þessu tilfelli.

Í sjötta lagi er byggt á því að stefndi hafi endurgreitt aðra greiðslu sem verið hafi að fjárhæð 3.000.000 króna, sem sé af sömu rót runnin með sömu lagaskilyrðum og stefnukrafa máls þessa.  Ætti því sama niðurstaða að gilda um stefnukröfu þessa og hina fyrri endurgreiðslu stefnda.  

Stefnandi byggir kröfu sína á lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, einkum 72.-74. gr., 117. gr. og 1. mgr. 109. gr.

Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála í héraði.  Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á aðildarskorti samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eigandi tékkareiknings nr. [...]-[...]-[...]09 sé Tarsis ehf. og geti félagið eitt heimilað stefnda að taka fé út af tékkareikningi sínum og greiða stefnanda. Stefnandi beini kröfu sinni um endurgreiðslu ekki til þrotabús Tarsis ehf. heldur að stefnda sem sé rangur aðili málsins og því sé um aðildarskort að ræða sem leiði til sýknu stefnda. 

Einnig sé ljóst að stefnandi sé rangur aðili til þess að hafa uppi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda. Stefnandi sé ekki eigandi reikningsins og geti því ekki gert kröfu á hendur stefnda um útgreiðslu af honum. Það geti félagið eitt og þar sem það sé gjaldþrota geti bústjóri þrotabúsins skv. 122. gr. gjaldþrotaskiptalaga einn gert þá kröfu á hendur stefnda. Bústjóri Tarsis ehf. sé ekki aðili að þessu máli og sé því um aðildarskort að ræða hjá stefnanda sem leiði til sýknu stefnda.

Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um það að hann hafi gert kröfu í þrotabú Tarsis ehf. um endurgreiðslu á láni til félagsins að fjárhæð 25 milljónir króna. Er hér með skorað á stefnanda að leggja fram í málinu afrit af kröfulýsingu sinni í þrotabú Tarsis ehf.

Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að hinn 1. apríl 2010 hafi stefnandi ákveðið að veita Tarsis ehf. lán að fjárhæð 25.000.000 kr. upp á framtíðarviðskipti. Fram komi á útprentun úr vanskilaskrá Creditinfo að sex sinnum hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu hinn 28. janúar 2009 og að félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota hinn 24. mars 2009. Eðlilegt sé að gera þá kröfu til stefnanda að hann kanni fjárhagsstöðu þess aðila sem hann láni 25.000.000 kr. og hafi stefnandi ekki kannað fjárhagsstöðuna beri hann sjálfur hallann af því að hafa greitt 25.000.000 kr. inn á tékkareikning gjaldþrota félags.

Samkvæmt 15. gr. samþykkta stefnanda sé óheimilt að skuldbinda félagið nema með samþykki stjórnarmanns. Engin gögn hafi verið lögð fram í málinu sem sýni fram á að stjórn félagsins hafi veitt Tarsis ehf. lán og ekki hafi verið lögð fram nein gögn sem sanni að um lánafyrirgreiðslu hafi verið að ræða af hálfu stefnanda, svo sem afrit af lánasamningi, skuldaviðurkenning eða annað.

Áður hafi verið rakið hvernig eignarhald sé á þessum félögum og hvernig sömu menn hafi setið í stjórnum þeirra, verið framkvæmdastjórar beggja félaganna og haft prókúruumboð fyrir þau bæði. Einnig komi fram í stefnu að félögin hafi haft samstarf um byggingu húsnæðisins að Gjáhellu 5, Hafnarfirði og að stefnandi sæi um sölu húsnæðisins. Sé því ljóst að stefnanda hafi verið kunnugt um stöðu verkframkvæmdanna og einnig um fjárhagslega stöðu byggingarinnar. Af framansögðu sé ljóst að stefnandi hafi vitað af því þegar hann lagði 25.000.000 kr. inn á tékkareikning Tarsis ehf. að félagið hefði verið úrskurðað gjaldþrota. Stefndi heldur því fram að innborgun stefnanda á 25.000.000 kr. hafi verið til þess að leysa eigendur Tarsis ehf. og maka þeirra undan því að stefndi gengi að 30.000.000 kr. sjálfskuldarábyrgð þeirra. Sama dag og innborgunin hafi átt sér stað hafi Stefán Hákonarson komið í bankann og krafðist þess að sjálfskuldarábyrgðin yrði felld niður og frumrit hennar yrði afhent honum. Stefndi bendir í þessu sambandi á tölvupóst frá lögmanni Breiðhellu 16 ehf. en þar komi skýrt fram að tilgangur greiðslunnar hafi verið að aflétta sjálfskuldarábyrgðum þeim sem stjórnarmenn Tarsis ehf. og konur þeirra hefðu tekið á sig gagnvart stefnda.

Stefndi heldur því fram að umræddar 25.000.000 kr. hafi verið sú fjárhæð sem stefnandi hafi fengið endurgreidda frá Skattstjóranum í Hafnarfirði vegna endurgreidds virðisaukaskatts af byggingarframkvæmdunum við Gjáhellu 5, Hafnarfirði. Því hafi ekki verið um lán að ræða frá stefnanda heldur innborgun á reikninginn til þess að sjálfskuldarábyrgðin yrði felld niður. Stefndi skorar á stefnanda að leggja fram gögn frá Skattinum um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem hann fékk vegna byggingarframkvæmdanna við Gjáhellu 5, Hafnarfirði. Því hafi verið um að ræða fé sem hafi stafað af byggingarframkvæmdunum og hafi átt að renna til þeirra eða uppgjörs á þeim lánum sem Tarsis ehf. hafi tekið til að geta byggt á lóðinni. Stefndi vilji árétta að verkið hafi verið fjármagnað með 100% láni frá stefnda og hafi honum því borið að fá endurgreiðslu virðisaukaskattsins til sín. 

Stefnandi haldi því fram að stefndi hafi tekið til sín 25.000.000 kr. greiðsluna án samþykkis skiptastjóra og hafi neitað að endurgreiða þá fjárhæð þrátt fyrir að starfsfólk stefnda hafi vitað eða mátt vera kunnugt um gjaldþrot félagsins þar sem stefndi rekur bæði innheimtu- og lögfræðideild. Stefndi mótmælir þessum málsástæðum stefnanda og bendir á að skiptastjóri hafi ekki gert neinar athugasemdir við ráðstöfun innborgunarinnar og skiptalok hafi verið 26. október 2010. Því verði að líta svo á að skiptastjóri hafi samþykkt ráðstöfun greiðslunnar. Hjá stefnda sé rekin innheimtudeild sem fari með innheimtu þeirra krafna sem komnar séu í 90 daga vanskil eða eldri. Þegar mál hafi verið sent í innheimtudeildina sé kennitala viðkomandi viðskiptamanns skoðuð í vanskilaskrá Creditinfo en bankinn geti ekki og megi ekki samkvæmt niðurstöðu Persónuverndar keyra saman alla viðskiptamenn bankans við vanskilaskrána. Vanskil hafi verið orðin á skuldabréfum Tarsis ehf. við stefnda en þau hafi ekki verið komin í lögfræðilega innheimtu og því hafi stefndi og starfsfólk hans ekki vitað af því að félagið hefði verið úrskurðað gjaldþrota. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn í málinu sem sanni fullyrðingar hans um að starfsfólk stefnda hafi vitað um gjaldþrot félagsins er greiðslan fór fram og því sé fullyrðingin ósönnuð.

Þá byggi stefnandi kröfu sína um endurgreiðslu innborgunarinnar á tékkareikning [...]-[...]-[...]09 á 72. og 73. gr. gjaldþrotalaga. Þær greinar fjalli um það að við gjaldþrotaskipti taki þrotabú skuldarans við fjárhagslegum réttindum hans og skyldum, nema annað leiði af réttarreglum, eðli réttindanna eða löggerningi. Stefnandi vísi einnig til 74. gr. laganna sem segi að við gjaldþrotaskipti missi þrotamaðurinn rétt til að ráða yfir réttindum sem falla til þrotabúsins eftir 72. og 73. gr. svo að þýðingu hafi gagnvart því. Einnig haldi stefnandi því fram að þar sem greiðslurnar inn á tékkareikninginn hafi ekki komið frá Tarsis ehf. sjálfu hafi bústjóri ekki getað nýtt sér reglur 20. kafla gjaldþrotalaga til þess rifta þessum greiðslum. Þessar tilvitnuðu greinar taki ekki til stefnda heldur geri grein fyrir réttarstöðu búsins og sviptingu skuldarans til að ráðstafa réttindum sem falla til búsins eftir að gjaldþrotaúrskurður hafi verið kveðinn upp. Greinarnar hafi enga þýðingu að því er varði réttarstöðu stefnanda gagnvart stefnda. Stefndi heldur því fram að bústjóri hafi getað rift greiðslunni samkvæmt 20. kafla gjaldþrotalaga hefði vilji hans staðið til þess. Svo hafi ekki verið og hafi hann þar með fallist á ráðstöfun greiðslunnar. Stefnandi hefði átt að hafa uppi kröfu gagnvart þrotabúinu um endurgreiðslu kröfunnar og jafnframt að gera kröfu um að búið rifti ráðstöfun greiðslunnar gagnvart stefnda. Það hafi hann ekki gert og beri því hallann af því.             

Stefnandi haldi því fram að þar sem greitt hafi verið inn á reikning Tarsis ehf. eftir úrskurð um gjaldþrot félagsins leiði 1. mgr. 109. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti til þess að stefndi verði að endurgreiða stefnanda fjárhæðina. Stefnandi haldi því fram að honum sé heimilt að fá eign eða réttindi úr vörslum þrotabúsins ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Þessu hafnar stefndi alfarið og bendir á að kröfu samkvæmt umræddri lagagrein verði stefnandi að hafa uppi á hendur þrotabúi Tarsis ehf. en ekki stefnda. Einnig bendir stefndi á að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að hann eigi meint lán sem hann hafi lagt inn á reikning Tarsis ehf. Stefnanda hafi verið í sjálfsvald sett að lána Tarsis ehf. peninga. En um leið og greiðsla lánsins hafi farið fram hafi peningarnir hætt að vera eign stefnanda og orðið eign Tarsis ehf. Vilji stefnandi fá þá greidda verði hann að lýsa kröfu sinni í þrotabú félagsins og gera kröfu um að það endurgreiði lánið af eignum búsins.   

Hafi stefnandi ekki lýst kröfu í búið á grundvelli 109. gr. gjaldþrotalaga sé krafa hans fallin niður en hafi hann lýst kröfu í búið sé ljóst að skiptastjóri hafi ekki fallist á kröfu stefnanda og að stefnandi hafi ekki haft uppi mótmæli við þeirri afstöðu skiptastjóra.

Í þriðja lið málsástæðna stefnanda byggi hann kröfu sína á því að skiptastjóri þrotabús Tarsis ehf. hafi ekki talið sig eiga tilkall til greiðslunnar. Þessi málsástæða stefnanda sé í algerri andstöðu við aðrar málsástæður hans og sé óskiljanleg. Málsástæðu þessari mótmæli stefndi og bendi á að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji þessa staðhæfingu hans um afstöðu skiptastjóra. Stefnandi haldi því fram að þar sem bústjóri telji að búið eigi engan rétt til greiðslunnar eigi stefnandi rétt á henni. Ljóst sé að greiðslan hafi verið eign þrotabúsins sem tekið hafi ákvörðun um að henni yrði ráðstafað inn á kröfu stefnda. Stefnandi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að bústjóri hafi samþykkt að greiðsluna eigi að endurgreiða stefnanda. Samþykki bústjóra sé háð þeim fyrirvara að stefndi samþykki endurgreiðsluna og það geri hann ekki enda hafi hann afhent eigendum fyrirtækisins og mökum þeirra sjálfskuldarábyrgð gegn þessari greiðslu en þessir aðilar hafi ekki boðist til að skila frumriti sjálfskuldarábyrgðarinnar né að undirrita nýja sjálfskuldarábyrgð.

Stefnandi haldi því fram í stefnu að samkvæmt 117. gr. gjaldþrotalaga hafi stefndi þurft að lýsa kröfu sinni í þrotabúið til þess að fá hana greidda af eignum þrotabúsins. Stefnandi gagnálykti svo frá téðri lagagrein og haldi því fram að bann sé lagt við því að taka á móti greiðslu á skuld þrotamanns eftir úrskurðardag og beri skilyrðislaust að endurgreiða slíka greiðslu nema 116. gr. laganna eigi við en hann telji svo ekki vera í þessu tilviki. Stefndi mótmælir þessum fullyrðingum og gagnályktun stefnanda. Í 117. gr. sé fjallað um að þeir aðilar sem telji sig eiga kröfu á hendur þrotabúi og geti ekki innheimt hana í samræmi við 116. gr. laganna, t.d. með uppboði á fasteign sem kröfuhafi eigi veð í, verði að lýsa kröfu til skiptastjóra innan kröfulýsingarfrests. Stefnandi hafi ekki lýst kröfu sinni á hendur Tarsis ehf. í þrotabúið og eigi því engan rétt á greiðslu á kröfu sinni af eignum búsins. Innborgun stefnanda á 25.000.000 kr. hafi farið inn á tékkareikning sem yfirdreginn hafi verið um u.þ.b. 28,5 milljónir króna en engin yfirdráttarheimild hafi verið á reikningnum þegar innborgunin hafi átt sér stað. Innborgunin hafi því strax farið til lækkunar yfirdráttarins og hafi bústjóri enga athugasemd gert við það og samþykkt þannig ráðstöfun á eign þrotabúsins til stefnda.

Verði fallist á dómkröfur stefnanda geri stefndi kröfu um að sjálfskuldarábyrgð taki aftur gildi þar sem stefndi hafi afhent sjálfskuldarábyrgðina í trausti þess að innborgunin á reikning Tarsis ehf. væri lögmæt og kæmi til lækkunar á yfirdráttarkröfu stefnda á reikningnum.

Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um upphafstíma vaxta. Í samræmi við 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 telur stefndi að upphafstími vaxta sé mánuður frá þeim tíma er stefnandi krafði stefnda sannanlega um greiðslu.            

Um lagarök vísar stefndi til 16. gr. laga nr. 91/1991, um einkamál og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, einkum 72.-74. gr., 109 gr., 117. gr. og XIX kafla laganna.      

Krafa stefnda um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.

NIÐURSTAÐA

Ekki verður fallist á það með stefnanda að stefnda hafi verið óheimilt að taka við og nota greiðslu stefnanda til lækkunar á yfirdrætti á reikningi Tarsis ehf. nr. [...]-[...]-[...]09 vegna þess að fyrirtækið hefði þá þegar verið tekið til gjaldþrotskipta með því að ekki er sýnt fram á að stefnda hafi þá verið kunnugt um gjaldþrot Tarsis ehf. Verður sú ráðstöfun inngreiðslunar að teljast eðlileg eins og atvikum var háttað. Stefnandi hefur kosið að beina málsókn sinni að stefnda Landsbankanum hf. en ekki þrotabúi Tarsis ehf. sem hann kveður þó hafa fengið umrædda fjárhæð lánaða frá sér. Ekki er sýnt fram á að stefndi hafi bakað sér greiðsluskyldu gagnvart stefnanda með umræddri ráðstöfun né heldur að greiðsluskylda hafi stofnast á hendur honum með öðrum hætti og verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda og eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

DÓMSORÐ

Stefndi, Landsbankinn hf, skal sýkn af kröfu stefnanda, Gjáhellu 5 ehf.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.