Hæstiréttur íslands
Mál nr. 457/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
- Lögheimili
|
|
Fimmtudaginn 4. september 2008. |
|
Nr. 457/2008. |
K(Marteinn Másson hrl.) gegn M(Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Lögheimili.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að ekki væru efni til að verða við kröfu hvors málsaðila um sig um forsjá sonar þeirra til bráðabirgða. Hins vegar var talið að það væri drengnum fyrir bestu að hafa lögheimili hjá K þar til sérfræðingar hefðu lagt mat á forsjárhæfni foreldranna, en að hann nyti umgengnisréttar við M aðra hverja helgi, frá föstudegi til sunnudagskvölds. -Þá var M gert að greiða einfalt meðlag með drengnum frá uppsögu dómsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hjördís Hákonardóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. ágúst 2008, þar sem leyst var úr kröfum aðilanna um bráðabirgðaforsjá sonar þeirra, A, umgengni við hann, lögheimili og um meðlagsgreiðslur. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að henni verði úrskurðuð til bráðabirgða forsjá drengsins og að umgengni varnaraðila við hann verði aðra hverja helgi frá föstudegi til sunnudags. Þá krefst hún þess að varnaraðila verði gert að greiða einfalt meðlag með drengnum frá 4. febrúar 2008 þar til endanlegur dómur gengur í forsjár- og skilnaðarmáli aðila. Til vara krefst hún þess að sameiginleg forsjá aðilanna standi áfram en að lögheimili drengsins verði hjá henni. Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Fram að samvistarslitum aðila bjó fjölskyldan um eins árs skeið að [...] í Reykjavík, en hafði áður búið í Kópavogi allt frá fæðingu drengsins 2001. Vegna fyrirhugaðs flutnings fjölskyldunnar til Hafnarfjarðar var drengurinn látinn sækja [...] í Hafnarfirði fyrsta árið sitt í grunnskóla veturinn 2007-2008. Við samvistarslitin 4. febrúar 2008 flutti sóknaraðili með drenginn á heimili vinkonu sinnar, en um mánaðamót mars og apríl til bróður sóknaraðila að [...] í Reykjavík. Sóknaraðili segir drenginn hafa að jafnaði verið í umgengni hjá varnaraðila aðra hvora helgi á þessu tímabili, en þó einnig vikurnar 3. til 10. apríl, 6. til 13. júní og svo aðra hvora viku frá 20. júní síðastliðnum. Um mánaðamót júlí og ágúst flutti sóknaraðili til Akureyrar. Varnaraðili hefur verið búsettur að [...] í Hafnarfirði frá miðjum febrúar. Samkvæmt ákvörðun Þjóðskrár 15. ágúst 2008 skal lögheimili málsaðila og drengsins skráð að [...] í Reykjavík þar til úrlausn dómstóla liggur fyrir.
II
Sóknaraðili heldur því meðal annars fram, til stuðnings staðhæfingu sinni um að það sé drengnum fyrir bestu að hún fari ein með forsjá hans, að áfengisneysla varnaraðila sé verulegt vandamál og hafi hann tvívegis farið í áfengismeðferð, fyrst árið 2005 en síðar haustið 2007, en í það skiptið hafi hann sjálfur útskrifað sig eftir 10 daga. Þá eigi hann við skapgerðarbresti að stríða og hafi sýnt af sér verulegt hömluleysi undir áhrifum áfengis og oft beitt hana líkamlegu ofbeldi. Hinn 4. febrúar 2008 hafi hann gengið í skrokk á henni, en sonur þeirra hafi verið í næsta herbergi þegar árásin átti sér stað. Hún hafi kært árásina og í skýrslu varnaraðila hjá lögreglu 14. maí 2008 hafi hann játað að hafa beitt hana líkamlegu ofbeldi í umrætt sinn. Hafi þetta atvik orðið til þess að hún flutti frá varnaraðila. Sóknaraðili kveðst vera reglusöm og ekki eiga við skapgerðarbresti að stríða. Hún segist vera í mjög góðum tengslum við son sinn og hafa alla tíð sinnt öllum grunnþörfum hans. Hún sé með góða atvinnu á Akureyri, hafi ágætis íbúð á leigu og geti á allan hátt veitt syni sínum öruggt og gott heimili og skapað aga og festu í lífi hans.
Varnaraðili byggir á því að enga brýna nauðsyn beri til að raska högum drengsins, sem flutningur norður í land með móður hans myndi óhjákvæmilega gera. Hann kveðst ekki kannast við að sóknaraðili sé í nánum tengslum við ættingja sína þar. Hann kveðst einnig hafa annast dreginn alla tíð og hafi ábyrgðin meira hvílt á honum eftir því sem drengurinn varð eldri. Drengurinn hafi átt stöðugleika vísan hjá honum, en móðirin hafi flutt margoft eftir samvistarslitin. Telur hann að erfiðara yrði um vik fyrir drenginn að halda sambandi við vini sína og fjölskyldu ef hann flytti til Akureyrar. Drengurinn hafi sjálfur tjáð sig skýrt um það að hann vilji ekki flytja norður. Varnaraðili mótmælir þeirri áherslu sem sóknaraðili leggur á atvikið 4. febrúar síðastliðinn og ásökunum um óreglu og ofbeldishneigð. Áréttar hann að drengnum stafi engin ógn af sér. Telur hann viðtal Þorgeirs Magnússonar sálfræðings við drenginn renna styrkum stoðum undir þetta.
III
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga hefur dómari heimild til að úrskurða til bráðabirgða hvernig fara skuli með forsjá barns að því gættu hvað barninu sé fyrir bestu. Hafni dómari kröfu um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár meðan forsjármál er til meðferðar fyrir dómi getur hann kveðið á um lögheimili barns, umgengni og meðlag til bráðabirgða. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að barnalögum segir að almennt megi líta svo á að æskilegt teljist að forsjá haldist sameiginleg meðan máli er ráðið til lykta.
Ekki liggja fyrir á þessu stigi málsins ítarleg gögn sem varpað geta ljósi á forsjáhæfni aðila og þá um leið hjá hvoru þeirra hagsmunum drengsins yrði best borgið til framtíðar. Þykir ekki tilefni til annars en að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdóms að láta sameiginlega forsjá foreldranna haldast þar til deilu um forsjá drengsins verður endanlega ráðið til lykta.
Við ákvörðun um hvar drengurinn skuli hafa lögheimili er á hinn bóginn ekki á þessu stigi unnt að líta framhjá þeirri háttsemi varnaraðila sem lýst er í II. kafla að framan og hann hefur gengist við að einhverju leyti. Sóknaraðili kveðst hins vegar vera reglusöm og hafa engin gögn verið lögð fram í málinu sem benda til annars. Í skýrslu Þorgeirs Magnússonar sálfræðings 9. júlí 2008 kemur fram að drengurinn sé nátengdur báðum foreldrum sínum. Ber drengurinn föður sínum vel söguna, telur hann gera meira fyrir sig og líða meira en móðirin fyrir aðskilnað við sig og lýsir vilja til að búa frekar hjá föður en móður. Það dregur þó úr gildi þessarar yfirlýsingar drengsins að augljóst er að hann hefur sterka samúð með föður sínum og óttast að missa tengsl við ættingja og vini flytji hann til Akureyrar. Í lok skýrslunnar bendir sálfræðingurinn á að drengurinn hafi flækst persónulega í togstreitu foreldranna og finni fyrir þrýstingi til að taka afstöðu. Telur hann ekki varlegt að viðhorf drengsins ráði ein og sér niðurstöðu málsins.
Ekki er unnt að fallast á þá forsendu héraðsdóms að það myndi raska svo högum drengsins að flytja af höfuðborgarsvæðinu, að það sé honum því fyrir bestu að hafa lögheimili hjá varnaraðila í Hafnarfirði. Drengurinn hefur aldrei haft fasta búsetu í Hafnarfirði og skólaganga þar gekk ekki að öllu leyti snurðulaust. Með reglulegri umgengni má og halda eðlilegum tengslum við vini og ættingja. Í ljósi alls þess sem að framan greinir verður þvert á móti talið að það sé drengnum fyrir bestu að lögheimili hans sé hjá sóknaraðila þar til sérfræðingar hafi lagt mat á forsjárhæfni foreldranna, en að hann njóti umgengnisréttar við varnaraðila frá lokum skólatíma annan hvorn föstudag fram til kl. 20 á sunnudagskvöldi.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila einfalt meðlag með drengnum frá uppsögu þessa dóms.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað í þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Sóknaraðili, K, og varnaraðili, M, skulu á meðan forsjármál er rekið fara sameiginlega með forsjá sonar þeirra, A.
Lögheimili drengsins skal vera hjá sóknaraðila.
Þar til leyst hefur verið endanlega úr um forsjá drengsins til frambúðar skal drengurinn njóta umgengni við varnaraðila aðra hverja helgi, frá föstudegi til sunnudagskvölds.
Varnaraðili skal greiða einfalt meðlag með syni aðila frá uppsögu þessa dóms.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. ágúst 2008.
Mál þetta var höfðað 28. maí 2008 um kröfu sóknaraðila um lögskilnað og lífeyri og kröfu um forsjá og meðlagsgreiðslur sonar hennar og varnaraðila, fæddan [...]. 2001. Fyrir liggur í málinu að af hálfu beggja aðila er gerð krafa um bráðabirgðaforsjá barnsins og er sá þáttur hér til úrlausnar.
Sóknaraðili, K, er með lögheimili að [...] í Hafnarfirði, en dvalarstað að [...], Akureyri. Varnaraðili, M, er með lögheimili og dvalarstað að [...] í Hafnarfirði og er lögheimili drengsins á sama stað.
Munnlegur málflutningur um gagnkvæmar kröfur um bráðabirgðaforsjá var miðvikudaginn 6. ágúst sl.
Sóknaraðili krefst þess að hún fái til bráðabirgða forsjá drengsins þar til endanlegur dómur gengur í skilnaðar- og forsjármáli foreldra hans. Þá er þess krafist að úrskurðað verði að regluleg umgengni varnaraðila við drenginn verði aðra hverja helgi, frá föstudegi til sunnudags, og að varnaraðili greiði einfalt meðlag með drengnum frá 4. febrúar 2008 og allt þar til endanlegur dómur gengur. Verði kröfu sóknaraðila um bráðabirgðaforsjá hafnað þá krefst sóknaraðili þess að sameiginleg forsjá standi áfram en úrskurðað verði að lögheimili sonar síns verði hjá sér. Þá krefst sóknaraðili hæfilegs málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum reikningi.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að henni verði úrskurðuð forsjá drengsins til bráðabirgða þar til að endanlegur dómur gengur í máli aðila og að varnaraðila verði úrskurðuð forsjá drengsins á meðan forsjármálið er rekið fyrir dómstólum en til vara að aðilar skuli á meðan forsjármálið er rekið fara með sameiginlega forsjá og að lögheimili drengsins verði áfram hjá varnaraðila. Jafnframt er þess krafist að varnaraðila verði dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila.
I.
Aðilar gengu í hjónaband þann 24. september 2005 og áttu þá fyrir einn son, fæddan [...] 2001, en slitu samvistum þann 4. febrúar 2008. Sóknaraðili sótti um lögskilnað hjá sýslumanninum í Reykjavík þann [...] 2008 en vegna ágreinings aðila var þeirri kröfu vísað frá sýslumannsembættinu þann 9. maí sl. og er sú krafa nú rekin fyrir dómstólnum. Bú aðila var tekið til opinberra skipta með úrskurði þann 26. júní sl.
Þegar aðilar slitu samvistum bjuggu þau í Reykjavík en þar sem þau hugðust flytja innan tíðar í Áslandshverfið í Hafnarfirði þá sótti sonur þeirra á þeim tíma fyrsta bekk í [...]skóla. Ekki varð úr þeim flutningum. Að undangengnum samvistarslitum aðila flutti sóknaraðili, ásamt syni sínum, til vinkonu sinnar í Hafnarfirði en því næst fluttu mæðginin til bróður sóknaraðila í Breiðholtinu. Einungis hafi verið um bráðbirgðahúsnæði að ræða þar sem sóknaraðili hafði ráðgert að flytja að [...] í Hafnarfirði, en eignin er þinglýst eign sóknaraðila. Ekki varð úr þeim flutningum þar sem varnaraðili dvelst þar. Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hún hafi ráðgert að flytja að [...] í Hafnarfirði heldur hafi hún ráðgert að selja eða leiga eignina og því hafi varnaraðili ákveðið að flytja sjálfur í eignina. Þá hefur sóknaraðili tekið á leigu íbúð á Akureyri þar sem hún hefur búið og starfað allt frá síðastliðnum mánaðarmótum.
Frá samvistarslitum hefur drengurinn að meginstefnu til dvalið hjá móður sinni en hjá föður sínum um helgar. Um tíma dvaldist drengurinn í viku og viku í senn hjá hvoru þeirra.
Í málinu liggur fyrir skýrsla Þorgeirs Magnússonar, sálfræðings, þar sem afstaða drengsins til framtíðarheimilis og skólagöngu er könnuð. Í skýrslunni, dags. 9. júlí 2008, segir að um sé að ræða dreng sem enn eigi í kreppu eftir skilnað foreldra sinna. Hann sé meðvitaður um ágreining og óttist sennilega stöðugt að átök blossi upp milli foreldra hans. Hann virðist nátengdur foreldrum sínum og ættingjum en hafi því miður flækst persónulega í togstreituna og finni fyrir þrýstingi að taka afstöðu. Hann gylli fyrir sér veruna hjá föðurnum og hafi auk þess sterka samúð með honum, telji að honum líði verr en móður í kjölfar skilnaðarins og að hann sé m.a. þess vegna í meiri þörf fyrir nálægð sína. Auk þess hafi drengurinn fyrir sér að fylgi hann móður sinni komi það til með að hafa þær afleiðingar að tengsl við ættingja og vini muni rofna. Þá segir í ályktun skýrslunnar að ekki sé varlegt að þessi viðhorf piltsins ráði ein og sér niðurstöðu málsins.
Í málinu liggja fyrir skýrslur lögreglunnar vegna meintrar líkamsárásar varnaraðila á sóknaraðila þann 4. febrúar 2008, dagettar 7. febrúar og 14. maí sama ár, áverkavottorð vegna atviksins, dagsett 22. febrúar sama ár, og greinargerð sóknaraðila, lagða fram í Héraðasdómi Reykjavíkur þann 7. júlí s.l. í bótamáli sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna sama atviks. Atvik þetta er enn til rannsóknar hjá þartilbærum yfirvöldum og dregur það mjög úr gildi þeirra ekki síst þegar litið er til skýrslu Þorgeirs Magnússonar sálfræðings sem áður er vísað til.
Líkt og fram hefur komið höfðaði sóknaraðili mál þetta þar sem hún krefst lögskilnaðar og lífeyrisgreiðslna og að henni verði dæmd forsjá drengsins og meðlagsgreiðslur vegna hans. Þá telur sóknaraðili enn fremur nauðsynlegt að krefjast forsjár drengsins til bráðabirgða þar til að endanleg niðurstaða gengur í málinu.
Aðilar komu fyrir dóm og gáfu skýrslur þann 6. ágúst sl., er málið var tekið til úrskurðar, og verður framburður þeirra rakinn eftir því sem ástæða er til.
II.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um forsjá drengsins til bráðabirgða á því að hann þurfi á góðu atlæti og öryggistilfinningu að halda sem sé nauðsynlegt fyrir heilbrigði og þroska hans. Sóknaraðili telur sig vera mjög færa að veita barninu það skjól, hlýju og öryggi sem barn á þessum aldri þarf á að halda og til að vernda hann gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Sóknaraðili telur sig geta búið drengnum gott heimili, þar sem hann muni dafna og njóta sín.
Sóknaraðili telur atburð þann sem gerð er grein fyrir í framangreindum lögregluskýrslum sýna að varnaraðili eigi mjög erfitt með að stjórna skapsmunum sínum. Atburðurinn hafi átt sér stað þrátt fyrir að drengurinn væri staddur í næsta herbergi og gat ekki komist hjá því að heyra og verða var við það sem átti sér stað.
Sóknaraðili telur sig hafa mun betri möguleika og aðstöðu en varnaraðili til að búa drengnum það atlæti sem hæfir þörfum hans.
Þá telur sóknaraðili að meðan skilnaðarmál aðila sé óútkljáð sé nauðsynlegt að föst skipan verði á forsjá drengsins, þ.e. að skýrar reglur gildi milli aðila um umgengni og meðlagsgreiðslur drengsins.
Verði kröfu um bráðabirgðaforsjá hafnað telur sóknaraðili nauðsynlegt að kveðið verði á um að lögheimili drengsins verði hjá sér þar til endanlegur dómur gengur um forsjárkröfu hennar. Óvissa um lögheimilið geti að öðrum kosti orðið til verulegra vandræða og skapað margvíslega erfiðleika í samskiptum aðila innbyrðis og gagnvart drengnum.
Um lagarök vísar sóknaraðili til barnalaga nr. 76/2003, en krafa um bráðabirgðarúrskurð um forsjá drengsins, meðlag, umgengni og lögheimili styðst við 35. gr. laganna.
III.
Varnaraðili byggir kröfu sína, um að hafnað verði kröfu sóknaraðila um forsjá drengsins til bráðabirgða þar til endanlegur dómur gengur í skilnaðar- og forsjármáli þeirra, á því að hann sé hæfari en sóknaraðili til að fara með forsjána auk þess sem þeir feðgar séu mjög nánir.
Varnaraðili byggir jafnframt á því að hagsmunum sonarins sé betur komið hjá sér nú þegar sóknaraðili komi til með að búa á Akureyri. Sonurinn hafi nýlokið fyrsta ári í grunnskóla í Hafnarfirði þar sem varnaraðili býr. Öll fjölskylda aðila sé í raun einnig búsett í Reykjavík og nágrenni. Það myndi hafa í för með sér miklar breytingar á ytri högum drengsins yrði fallist á kröfu sóknaraðila. Varnaraðili viti ekki til þess að sóknaraðili hafi sérstök tengsl við Akureyri og töluverðar líkur eru á því að dvöl hennar þar verði ekki löng. Er það mat varnaraðila að það væri best fyrir drenginn að hann fengi forsjá hans til bráðabirgða og þar með væri stöðugleiki í búsetu og skólagöngu tryggður.
Aðstæður varnaraðila séu mjög góðar. Hann sé búsettur að [...] í Hafnarfirði sem sé eign skráð á nafn sóknaraðila en í raun í eigu föður varnaraðila. Hvernig sem fjárskiptin fari milli aðila þá sé varnaraðili öruggur með húsnæði. Drengurinn hafi eignast vini í hverfi varnaraðila. Þá sé varnaraðili í öruggri vinnu sem verktaki sem bjóði upp á sveigjanlegan vinnutíma og góðar tekjur.
Varnaraðili telur sóknaraðila ekki eyða líkt eins miklum tíma með syni þeirra og hann. Sóknaraðili láti aðra, s.s. foreldra sína, gæta sonarins þann tíma sem hann sé ekki í umsjá varnaraðila. Á meðan foreldrarnir hafi verið í hjónabandi hafi sóknaraðili ítrekað verið of sein að sækja drenginn í dagvistun eftir skóla. Undan þessu hafi verið kvartað af skólastjórnendum. Eftir að sóknaraðili hafi flutt burt með drenginn hafi mætingu hans í skólanum hrakað, hann írekað mætt of seint og heimavinna verið ábótavant.
Um lagarök vísar varnaraðili einkum til ákvæða barnalaga nr. 76/2003.
IV.
Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess að sameiginlegri forsjá málsaðilja með syni þeirra verði slitið og henni falin forsjá hans til bráðbirgða. Verði kröfu hennar hafnað krefst hún þess að úrskurðað verði að lögheimili sonar þeirra verði hjá henni.
Dómari hefur heimild til að úrskurða til bráðabirgða hvernig skuli fara um forsjá barns, eftir því sem barninu er fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá getur dómari auk þess kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða. Segir í 2. mgr. 35. gr. barnalaga að hafni dómari kröfu um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár, meðan forsjármál er til meðferðar fyrir dómi, geti hann kveðið á um lögheimili barns, umgengni og meðlag til bráðabirgða. Dómari getur enn fremur ákveðið að barn skuli búa hjá foreldrum sínum á víxl, enda þyki slíkt fyrirkomulag samræmast hagsmunum barns og er til þess að stuðla að því að barn haldi tengslum við báða foreldra sína undir rekstri málsins og draga úr líkum þess að dragist mál á langinn þá séu minni líkur á því að annað foreldrið öðlist betri stöðu en hitt. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að barnalögum segir að almennt megi líta svo á að æskilegt teljist að forsjá haldist sameiginleg meðan máli er ráðið til lykta. Þá eigi forsjá til bráðabirgða við þegar brýna nauðsyn ber til að skipa málum með þeim hætti. Í máli þessu veltur niðurstaðan fyrst og fremst hvort brýna nauðsyn beri til að breyta tilhögun forsjár drengsins á meðan mál foreldranna um forsjá til frambúðar er til lykta leitt.
Meginmálsástæður þær sem sóknaraðili byggir hér kröfur sínar á, að hún sé hæfari til að fara með forsjá drengsins, hún verndi hann fyrir skapgerðarbrestum föður og að hún hafi yfir betri aðstöðu að ráða, eiga að meginstefnu við þegar forsjá til frambúðar verður ráðin til lykta.
Líklegt er að frekari gagnaöflun eigi eftir að fara fram í máli aðila og verður á þessu stigi ekkert fullyrt um forsjárhæfni aðila en beiðni um dómkvaðningu sérfróðs matsmanns eða matsmanna hefur ekki verið beint til dómara. Enn og aftur er lögð á það áhersla að mikilvægt er á þessu stigi málsins að sem minnst röskun verði á högum drengsins.
Verði fallist á kröfur sóknaraðila er ljóst að röskun yrði á högum drengsins sem ekki verður á þessu stigi málsins ráðið að brýna nauðsyn beri til í þeim tilgangi að vernda hagsmuni hans. Yrði drengnum gert að hefja nám í nýjum skóla og mynda vinatengsl í nýjum aðstæðum sem ekki er ljóst í hversu langan tíma munu vara. Þá má fullyrða að erfiðara yrði um vik að halda við samskiptum við varnaraðila, vini og vandamenn á höfuðborgarsvæðinu flytji drengurinn út á land. Eins og hér stendur á þykir meiri festa og reglusemi felast í því að drengurinn búi áfram á höfuðborgarsvæðinu þar sem honum gæfist kostur á að vera áfram í því umhverfi sem hann hefur átt að venjast hingað til.
Hvað varðar meint ofbeldisbrot varnaraðila á hendur sóknaraðila þá er að geta þess að umrædd brot sæta enn rannsókn lögreglunnar eins og áður segir. Um alvarlegar ásakanir er um að ræða og er að mati dómarans ekki ástæða til að ætla að drengnum stafi ógn af varnaraðila þannig að brýn nauðsyn væri til að skipa forsjá hans hjá sóknaraðila. Í þessu sambandi er bent á að dómari var viðstaddur er Þorgeir Magnússon sálfræðingur tók þá skýrslu af drengnum sem áður er vitnað til og að við skýrslutökuna hafi ekkert komið fram sem benti til þess að drengnum stæði ógn af föður sínum.
Að öllu virtu verður ekki ráðið að brýn nauðsyn sé til þess að fella niður sameiginlega forsjá drengsins og skapa þannig öðru foreldrinu betri stöðu en hinu í forsjárdeilu aðila. Verður aðalkröfum aðila um forsjá drengsins til bráðabirgða, hafnað en fallist á varakröfur varnaraðila að aðilar skuli á meðan forsjármálið er rekið fara með sameiginlega forsjá og að lögheimili drengsins skuli vera áfram hjá varnaraðila.
Þar til leyst hefur verið endanlega úr um forsjá til frambúðar skal drengurinn njóta umgengni við sóknaraðila aðra hverja helgi, frá föstudegi til sunnudags, og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila einfalt meðlag með drengnum en ráða má af málatilbúnaði að fenginni þessari niðurstöðu um bráðabirgðaforsjána sæti hið fyrrnefnda ekki ágreiningi.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.
Úrskurð þennan kveður upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfum aðila, hvors um sig, um að fá forsjá drengsins til bráðabirgða er hafnað en tekin er til greina varakrafa varnaraðila um að aðilar skulu á meðan forsjármálið er rekið fara með sameiginlega forsjá og að lögheimili drengsins verði áfram hjá varnaraðila. Þar til leyst hefur verið endanlega úr um forsjá til frambúðar skal drengurinn njóta umgengni við sóknaraðila aðra hverja helgi, frá föstudegi til sunnudags, og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila einfalt meðlag með drengnum.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.