Hæstiréttur íslands

Mál nr. 289/2005


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Aðilaskipti


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. desember 2005.

Nr. 289/2005.

Ferðaskrifstofa Akureyrar ehf.

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Knúti Óskarssyni

(Helgi Birgisson hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Aðilaskipti að fyrirtækjum.

K réði sig til starfa sem framkvæmdastjóri hjá Í ehf. með ráðningarsamningi árið 2001. F keypti síðan hluta af starfsemi Í ehf. með kaupsamningi í febrúar 2004. Vegna þessara viðskipta reis ágreiningur um réttarstöðu K. K reisti kröfur sína á hendur F á því að öll réttindi og allar skyldur samkvæmt ráðningarsamningi sínum hefðu færst yfir til F. Slíkt leiddi beint af ákvæðum framangreinds kaupsamnings en ella af ákvæðum laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. F taldi hins vegar að ekkert ráðningarsamband hefði stofnast milli aðila. Þegar ákvæði kaupsamningsins voru skoðuð í ljósi viðmiðana laga nr. 72/2002, Evróputilskipunar um sama efni og athugasemda með frumvarpi til laganna, var talið ótvírætt að með kaupsamningnum hafi orðið aðilaskipti að rekstrinum í merkingu laganna. Þá skyldi K njóta réttarstöðu starfsmanns við aðilaskiptin. Var kröfu F um sýknu því hafnað. Af meginreglu laga nr. 72/2002 var talið leiða, að ráðningarkjör samkvæmt ráðningarsamningi flyttust til framsalshafa við aðilaskiptin. Var F því talinn bundinn af ákvæðum ráðningarsamnings K við Í ehf., þar á meðal ákvæði um uppsagnarfrest. Einnig var fallist á með K að bifreiðahlunnindi hans samkvæmt ráðningarsamningi væru hluti af ráðningarkjörum hans, auk þess sem orlofsréttindi hans hefðu flust til F við aðilaskiptin. Var varakröfu F um lækkun á kröfu því einnig hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða honum 6.057.417 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2004 til greiðsludags. Hann krefst staðfestingar á málskostnaðarákvörðun héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í kröfu stefnda felst að hann unir niðurstöðu héraðsdóms, en hefur lækkað þá liði kröfugerðar sinnar er lúta að 6% framlagi áfrýjanda í lífeyrissjóð og 2% framlagi hans til viðbótarlífeyrissparnaðar samtals um 33.580 krónur til samræmis við niðurstöðu héraðsdómara um aðra þætti kröfugerðar hans, en það hafði héraðsdómara láðst að gera.

I.

Stefndi réði sig til starfa sem framkvæmdastjóri hjá Ísland DMC ehf. og dótturfyrirtækjum þess með ráðningarsamningi 20. ágúst 2001. Ákvæði samningsins um ráðningartíma og launakjör eru rakin í héraðsdómi. Auk þess var í ákvæði samningsins um starfssvið kveðið á um að stefndi bæri ábyrgð á daglegum rekstri gagnvart stjórn félagsins, í ákvæði um starfsskyldur að hann skyldi láta félaginu í té starfskrafta sína óskipta og í ákvæði um vinnutíma að fastur vinnutími væri frá  klukkan 9 til 17 fimm daga vikunnar en einnig skyldi hann vinna utan þess tíma ef þörf krefði, nema brýnar ástæður hamli. Stefndi var hluthafi í Ísland DMC ehf. og átti 9,9% hlutafjár þess samkvæmt ársreikningi 2003.

Bifreiðastöð Íslands ehf., aðaleigandi Ísland DMC ehf., mun hafa selt áfrýjanda sinn hlut í félaginu með samningi í desember 2003 með svonefndum áreiðanleikafyrirvara en áfrýjandi rift þeim samningi að fenginni niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Meðal gagna málsins er endurskoðaður ársreikningur Ísland DMC ehf. fyrir árið 2003, sem stefndi undirritaði 7. febrúar 2004 sem framkvæmdastjóri þess. Sýnir ársreikningurinn mjög bága stöðu félagsins. Hluthafafundur var haldinn í félaginu 9. febrúar 2004. Í fundargerð kemur meðal annars fram að í framhaldi riftunar áfrýjanda á fyrrnefndum samningi við Bifreiðastöð Íslands ehf. um hlutafjárkaup hafi stjórn síðarnefnda félagsins og stjórn áfrýjanda tekið upp viðræður um kaup áfrýjanda á rekstri Ísland DMC ehf. og hafi þeim viðræðum lokið með samkomulagi 5. febrúar 2004. Á dagskrá fundarins var meðal annars tillaga um að fela stjórn félagsins að selja rekstur þess og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að loka félaginu. Var sú tillaga samþykkt. Eru framangreind atriði nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi.

Þann 15. febrúar 2004 gerðu áfrýjandi og Ísland DMC ehf. með sér kaupsamning „um hluta af starfsemi seljanda og tilgreindar eignir hans...“  Í 1. grein samningsins segir að hér sé nánar um að ræða „rekstur ferðaskrifstofu... ásamt hluta af tækjum og búnaði, starfssamningum, viðskiptasamningum, viðskiptasamböndum og öðru sem tilgreint er í samningi þessum. Samningurinn tekur þannig til: 1. Ferðaskrifstofurekstrar, ásamt öllu prentuðu og útgefnu kynningarefni, heimasíðu, léns, tölvupósts heimilisfanga og símanúmera. 2. Viðskiptasambanda og viðskiptavildar, þar með talin vörumerkin Island DMC, Destination Iceland, Safaríferðir, Come 2 Iceland og Íslenskar ævintýraferðir. 3. Ráðningarsamninga við starfsfólk samkvæmt kjarasamningum. Kaupanda er ekki skylt að endurráða starfandi framkvæmdastjóra eða annað starfsfólk, sem ekki vill sætta sig við að semja við kaupanda um áframhaldandi eða breytt störf á nýjum kjörum. Kaupandi áskilur sér rétt til að hafna yfirtöku ákveðinna ráðningarsamninga með öllu eða eiga kröfu á seljanda á þeim mismun sem kann að myndast á milli gildandi starfssamninga og þeirra sem hann gerir í tengslum við rekstrarlega endurskipulagningu starfseminnar. 4. Áhöld, tæki og innréttingar samkvæmt lista, sem unninn verður af aðilum...“ Í 3. grein samningsins segir að seljandi skuli reyna að tryggja að viðskiptavild flytjist til kaupanda.  Samkvæmt 4. grein var kaupverðið 20.000.000 krónur og var fjórðungur þess endurgjald fyrir viðskiptavild en þrír fjórðu fyrir áhöld, tæki og innréttingar. Skyldi yfirtaka á eignum miðast við 1. janúar 2004.

Vegna þessara viðskipta reis ágreiningur um réttarstöðu stefnda. Taldi hann að öll réttindi og allar skyldur samkvæmt ráðningarsamningi sínum hefðu færst yfir til áfrýjanda en áfrýjandi að ekkert ráðningarsamband hefði stofnast milli þeirra. Blandaðist Eskihlíð ehf. inn í þær deilur, en Eskihlíð ehf. var nýtt nafn þess félags sem áður hét Ísland DMC ehf. Eru bréfaskipti er að þessu lúta rækilega rakin í hinum áfrýjaða dómi.

II.

Stefndi reisir kröfu sína á því að áfrýjandi hafi við kaupin á rekstri Ísland DMC ehf. yfirtekið réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi sínum við síðarnefnda félagið. Leiði það beint af ákvæðum framangreinds kaupsamnings en ella af ákvæðum laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Áfrýjandi krefst sýknu vegna aðildarskorts enda hafi aldrei stofnast ráðningarsamband milli aðila. Hann hafi keypt hluta af rekstri Ísland DMC ehf. og hafi sérstaklega verið tekið fram í samningnum að honum væri ekki skylt að yfirtaka ráðningarsamning við stefnda, enda hafi seljandi óskað eftir að stefndi starfaði áfram hjá honum. Þá eigi ákvæði laga nr. 72/2002 ekki við þar sem viðskiptin með rekstur Ísland DMC ehf. falli ekki undir aðilaskipti í merkingu laganna. Stefndi njóti að auki ekki réttarstöðu starfsmanns samkvæmt lögunum þar sem hann hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra félagsins og verið hluthafi í því. Vísar hann í því efni til túlkunar Hæstaréttar Danmerkur á ákvæðum hliðstæðrar löggjafar þar í landi.

Í lögum nr. 72/2002 eru reglur sem svara til ákvæða tilskipunar nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar. Í 2. gr. laganna eru orðskýringar og í 4. tölulið greinarinnar segir að með aðilaskiptum sé átt við aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um sé að ræða aðal- eða stoðstarfsemi. Í athugasemdum með lagafrumvarpinu segir að í ljósi fordæmis Evrópudómstólsins verði við mat á því hvort aðilaskipti falli undir gildissvið fyrrnefndrar tilskipunar meðal annars að líta til hvort áþreifanleg verðmæti séu framseld, hvert sé verðmæti óhlutbundinna verðmæta þegar aðilaskipti fara fram, hvort meiri hluti starfsmanna flytjist til hins nýja vinnuveitanda og hvort framsalshafi haldi viðskiptavinum framseljanda. Þegar framangreind ákvæði kaupsamnings áfrýjanda og Ísland DMC ehf. eru skoðuð í ljósi þessara  viðmiðana er ótvírætt að með honum hafi  orðið aðilaskipti að rekstrinum í merkingu laga nr. 72/2002.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 72/2002 gilda þau um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Áfrýjandi hefur ekki bent á ákvæði í íslenskum lögum eða réttarframkvæmd sem stutt gætu það að staða stefnda sem framkvæmdastjóri gæti valdið því að hann teldist ekki starfsmaður í skilningi laganna. Í ljósi ákvæða framangreinds ráðningarsamnings stefnda og Ísland DMC ehf. verður sú niðurstaða héraðsdóms að stefndi njóti réttarstöðu starfsmanns við aðilaskiptin staðfest með vísan til forsendna hans. Tilvísun áfrýjanda til 4. gr. laga nr. 72/2002 er haldlaus, enda er ekki í máli þessu deilt um rétt áfrýjanda til að beita heimild til uppsagnar stefnda.

Varakröfu sína reisir áfrýjandi í fyrsta lagi á því að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 sé framsalshafa einungis skylt að virða ákvæði kjarasamninga varðandi réttindi starfsmanns en ekki betri rétt hans, sem byggist á einstaklingsbundnum ráðningarkjörum. Stefnda beri því einungis laun á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt ákvæðum kjarasamnings milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr laga nr. 72/2002 færast réttindi þau og skyldur, sem samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi eru fyrir hendi þegar aðilaskipti verða yfir á framsalshafa. Leiðir það beint af orðalagi þessarar meginreglu laganna að ráðningarkjör samkvæmt ráðningarsamningi flytjast til framsalshafa. Er áfrýjandi því bundinn af ákvæðum ráðningarsamnings stefnda við Ísland DMC ehf. þar á meðal ákvæðinu um  uppsagnarfrest.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti hélt áfrýjandi því fram að miðað við starfstíma stefnda leiddi ákvæði 2. greinar áðurnefnds ráðningarsamnings til þess að uppsagnarfrestur hans væri átta mánuðir en ekki níu eins og miðað er við í kröfugerð stefnda. Stefndi mótmælti þessari málsástæðu sem of seint fram kominni. Með vísan til 2. mgr 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994, verður að fallast á með stefnda að þessi málsástæða komist ekki að fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 5. grein ráðningarsamnings stefnda og Ísland DMC ehf. skyldi félagið leggja framkvæmdastjóra til bifreið og greiða allan kostnað við rekstur hennar. Verður að fallast á það með stefnda að þetta sé hluti af ráðningarkjörum hans.

Loks verður að telja að meðal þeirra réttinda stefnda sem fluttust til áfrýjanda við aðilaskiptin hafi verið ótekin orlofsréttindi hans á yfirstandandi orlofsári auk orlofsréttinda vegna uppsagnarfrestsins.

Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur um annað en málskostnað með þeim breytingum sem leiða af kröfum stefnda fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Ferðaskrifstofa Akureyrar ehf., greiði stefnda, Knúti Óskarssyni, 6.057.417 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2004 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. apríl 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Knúti Óskarssyni, kt. 230252-3009, Leirutanga 18, Mosfellsbæ gegn Ferðaskrifstofu Akureyrar ehf., kt. 411101-2580. Ráðhústorgi 3, Akureyri, með stefnu, sem birt var 14. maí 2004.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.510.750 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2004 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda.  Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins.

Helstu málavextir eru að 20. ágúst 2001 var stefnandi ráðinn sem framkvæmdastjóri hjá Íslandi DMC ehf. og dótturfyrirtækjum þess „þ.e. Ferðaskrifstofa BSÍ ehf., kt. 711079-0339, Safarí ferðir ehf., kt. 590392-2869, Viðarhöfða 6 ehf., kt. 651099-2509, Íslands og Skandinavíuferðir, kt. 540794-2009 og BSÍ hraðflutningar ehf., kt. 460701-2950.“  Um ráðningartíma segir í 2. gr. ráðningarsamningsins:

Ráðningasamningurinn er ótímabundinn og gildir frá 1. maí 2001, sem er fyrsti starfsdagur.  Starfsuppsögn af beggja hálfu skal vera sex mánuðir.  Uppsagnarfrestur lengist um einn mánuð fyrir hvert starfsár þar til hann hefur náð tólf mánuðum að sex árum liðnum.  Starfsuppsögn skal vera skrifleg og bundin við mánaðamót.

Um launakjör segir í 5. gr. ráðningarsamningsins:

Föst mánaðarlaun framkvæmdastjóra eru kr. 450.000,- á mánuði.  Greiðsla fyrir vinnu utan reglulegs vinnutíma er innifalin í ofangreindum mánaðarlaunum.

Laun og önnur launakjör skulu endurskoðuð árlega með hliðsjón af almennum launabreytingum og árangri í starfi.

Fyrirtækið leggur framkvæmdastjóra til bifreið og greiðir allan kostnað við rekstur hennar.

Fyrirtækið greiðir allan eðlilegan kostnað á ferðalögum erlendis auk dagpeninga skv. reglum ferðakostnaðarnefndar ríkisins.

Framkvæmdastjóri greiðir 4% iðgjald af heildarlaunum sínum í Lífeyrissjóð verslunarmanna og vinnuveitandi 6% af sömu upphæð.  Framkvæmdastjóri greiðir 4% iðgjald í lífeyrissparnað og vinnuveitandi mótframlag skv. ákvæðum almennra kjarasamninga.

Fyrirtækið greiðir iðgjald líf-, sjúkra-, slysa- og starfstryggingar hjá (Tryggingarfélagi) fyrir framkvæmdastjóra.

Um orlof, veikindi, slys og tryggingar fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum miðað við lengstan starfsaldur í kjarasamningi SA og Verslunarmannafélags Reykjavíkur.

Laun eru greidd inn á launareikning framkvæmdastjóra mánaðarlega síðasta virka dag hvers mánaðar.

Í stefnu segir að Bifreiðastöð Íslands ehf. sé aðaleigandi Íslands DMC ehf. með 75% hlutafjár, stefnandi eigi um 10% og um 15% hlutafjár skiptist á nokkra aðila.  Bifreiðastöð Íslands ehf. hafi 4. desember 2003 selt stefnda öll hlutabréf sín í Íslandi DMC ehf.  Kaupsamningurinn hafi verið með áreiðanleikafyrirvara og í framhaldi af áreiðanleikakönnun endurskoðunarskrifstofu hafi stefndi rift þessum kaupsamningi.  Stjórnafundur Bifreiðastöðvar Íslands ehf. 3. febrúar 2004 hafi fallist á að skilyrði sölunnar væri ekki uppfylltur og samþykkt riftunina.

Í áritun endurskoðenda 2. febrúar 2004 til stjórnar og hluthafa Íslands DMC ehf. í endurskoðuðum ársreikningi félagsins fyrir árið 2003 segir m.a.:

Við viljum vekja athygli á því að eigið fé félagsins er neikvætt um rúmlega 60,2 m. kr. í árslok.  Í ljósi þess má draga í efa hæfi félagsins til áframhaldandi reksturs, nema tilkomi aukið hlutafé og/eða veruleg niðurfelling skulda þess. ...

Undir fyrirsögninni Áritun og skýrsla stjórnar í ársreikningi félagsins fyrir árið 2003 segir m.a.:

Samkvæmt rekstrarreikningi Íslands DMC ehf. nam tap ársins 2003 kr. 20.517.599.  Hrein eign Íslands DCM ehf. í árslok var neikvæð um kr. 60.219.018.  Er þá meðtalið hlutafé að fjárhæð kr. 10.000.000, þar af eigin bréf að fjárhæð kr. 870.000.

 

Hluthafar í árslok voru 5.  Einn hluthafi átti meira en 10% hlutafjár í félaginu, Ferðaskrifstofa Akureyrar með 75% eignarhlutdeild.

 

Stjórn Íslands DMC ehf. og framkvæmdastjóri staðfesta hér með ársreikning félagsins fyrir árið 2003 með undirritun sinni.

Þessi yfirlýsingu er dagsett 7. febrúar 2004 og undirrituð af stjórnarmönnunum Baldri Guðnasyni og Herði Gunnarssyni.  Þá ritar stefnandi einnig nafn sitt undir yfirlýsinguna.

Í bókun hluthafafundar hjá Íslandi DMC ehf. 9. febrúar 2004 segir að mættir séu Guðmundur Arnaldsson í umboði stjórnar Bifreiðastöðvar Íslands ehf. sem fari með 82,155 virkan eignarhlut og í umboði stjórnar Ferðaskrifstofu Íslands sem fari með 4,44% virkan eignahlut, Vigdís Jóhannsdóttir, sem fari með 2,46% virkan eignarhlut, og Helga B. Jónsdóttir, sem fari með 0,11% virkan eignarhlut.  Þá segir að stefnandi hafi símlega tilkynnt að hann geri engar athugsemdir við boðun fundarins eða afgreiðslu fundarins á þeim málum sem taka eigi fyrir, hann hafi þegar samþykkt ársreikninga félagsins fyrir árið 2003 með undirritun sinni, en hann óski eftir því að sitja hjá við allar atkvæðagreiðslur „aðrar en áður er getið“.

Í fundargerðinni segir m.a.:

Stjórn BSÍ [Bifreiðastöðvar Íslands ehf.] hefur síðan á stjórnarfundi 3. febrúar 2004 fjallað um þetta mál [riftun kaupsamnings Bifreiðastöðvar Íslands ehf. og stefnda frá 4. desember 2003], en þá lá fyrir endurskoðaður ársreikningur DMC ehf. fyrir árið 2003.  Stjórn BSÍ féllst á að skilyrði sölunnar væru ekki uppfyllt og samþykkti riftunina.  Í framhaldi af þessari stöðu tók stjórn BSÍ upp viðræður við stjórn FA [stefnda] um kaup þeirra á rekstri DMC ehf.  Þeim viðræðum lauk með samkomulagi 5. febrúar 2004, sem var háð samþykki hluthafafundar DMC ehf.  Á grundvelli þessa samkomulags er nú boðað til hluthafafundar til þess að uppfylla ákvæði í samkomulaginu með því að samþykkja nýjar samþykktir fyrir DMC ehf., kjósa stjórn og endurskoðendur. ...

Á dagskrá fundarins var m.a. tillaga um að fela stjórn félagsins að selja reksturinn og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar væru til þess að loka félaginu í samræmi við gildandi lagaákvæði um einkahlutafélög, rekstur þeirra og stjórnun.  Í fundargerð er bókað að tillagan hafi verið samþykkt með 86,7% atkvæða, Vigdís hafi setið hjá en stefnandi greiði ekki atkvæði.

Í bréfi lögmanns stefnanda til stjórnarformanns stefnda 13. febrúar 2004 segir m.a.:

Þau aðilaskipti hafa orðið á Íslandi DMC ehf. að Ferðaskrifstofa Akureyrar ehf. hefur tekið yfir reksturinn með samningi við Bifreiðastöð Íslands ehf., sem meirihlutaeiganda.  Með þessum aðilaskiptum færðust yfir á Ferðaskrifstofu Akureyrar ehf. öll réttindi og skyldur starfsmanna Íslands DMC ehf. samkvæmt ráðningarsamningum þeirra, sbr. 3. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002.  Með því hefur Ferðaskrifstofa Akureyrar ehf. yfirtekið ráðningarsamning umbj. míns frá 20. ágúst 2001.  Samkvæmt 4. gr. sömu laga er Ferðaskrifstofu Akureyrar ehf. óheimilt að segja umbj. mínum upp störfum vegna aðilaskiptanna nema fyrir hendi séu þau skilyrði sem greinir í ákvæðinu.

Umbj. minn lýtur því svo á að hann sé í ráðningarsambandi við Ferðaskrifstofu Akureyrar ehf. þrátt fyrir ummæli þín fimmtudaginn 5. febrúar s.l. um að ekki stæði til að yfirtaka ráðningarsamning hans.

Í dag er aðstaðan sú að umbj. mínum hefur verið gert að rýma skrifstofu sína og afhenda öll gögn sem hann hafði undir höndum og tengdust starfi hans.  Hann sér sig því knúinn til að óska leiðbeininga og upplýsinga um framhaldið og stöðu sína innan fyrirtækisins.

Þann 15. febrúar 2004 sömdu stefndi og Ísland DMC ehf. um kaup stefnda á hluta af starfsemi og ákveðnum tilgreindum eignum Íslands DMC ehf. í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu rekstrarins svo sem þar er nánar lýst, sbr. dskj. nr. 7.

Þann 23. febrúar 2004 svaraði stefndi bréfi lögmanns stefnanda frá 13. sama mánaðar með bréfi á netinu.  Þar segir m.a. að ekkert ráðningarsamband hafi stofnast milli stefnanda og stefnda og eftirfarandi rakið:

Í fyrsta lagi skal bent á að Ísland DMC ehf. er enn starfandi félag og er ráðningarsamningur Knúts Óskarssonar milli þess fyrirtækis og hans því væntanlega í gildi.

Í öðru lagi er skýrt tekið fram í kaupsamningi Ferðaskrifstofu Akureyrar á hluta af starfsemi Íslands DMC ehf. að viðskiptin nái ekki til starfssamnings við framkvæmdastjóra.

Í þriðja lagi skal tekið fram, að jafnvel þótt ofangreind atriði væru ekki til staðar og litið væri svo á að lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum ættu við, eru a.m.k. tvö atriði sem gera það að verkum að umbjóðandi þinn getur ekki átt neinar kröfur á hendur okkur vegna málsins.

Annars vegar var hann framkvæmdastjóri Íslands DMC ehf., ásamt því að vera hluthafi í félaginu, og hafði því stöðu fulltrúa atvinnurekanda á staðnum en ekki launþega.

Hins vegar er ástæða sölunnar efnahagslegar og skipulagslegar breytingar, sem losa atvinnurekanda undan skyldu á yfirtöku starfsmanna skv. 4. gr. laganna. ...

Lögmaður stefnanda svaraði þessu síðast nefnda bréfi á netinu 23. sama mánaðar.  Kvað hann réttarstöðu stefnanda vera skýra og gæti stefndi ekki skotið sér undan lögbundnum skyldum sínum gagnvart stefnanda með einhliða kaupsamningsákvæði.

Í bréfi stjórnarformanns Eskihlíðar ehf..- er áður hét Ísland DMC ehf. - til stefnanda 27. sama mánaðar segir m.a.:

Efni: Uppsögn ráðningarsamnings

Í framhaldi af fundi fulltrúa og umboðsmanns stjórnar félagsins með þér um ofnagreint efni föstud. 6. febrúar síðastliðinn, með þér og lögmanni þínum laugard. 7. febrúar og með þér fimmtud. 12. febrúar, þar sem þú m.a. tilkynntir að þú mundir koma til vinnu og samninga um starfslok þín hjá félaginu mánud. 16. febrúar, sem þú hefur ekki gert, sér stjórn félagsins sig tilneydda að segja þér hér með upp ráðningarsamningi þínum, sem dagsettur er 20. ágúst 2001, frá og með næstu mánaðarmótum að telja, saman ber 2. grein ráðningarsamningsins. ...

Lögmaður stefnanda svaraði bréfi stjórnarformanns Eskihlíðar ehf. með bréfi 1. mars 2004.  Þar segir m.a.:

Þar sem Ferðaskrifstofa Akureyrar ehf. hefur tekið yfir rekstur Íslands DMC ehf. færðust réttindi og skyldur umbj. míns skv. ráðningarsamningi yfir á hana, sbr. 3. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002.  Umbj. minn er því ekki lengur í ráðningarsambandi við Eskihlíð ehf., áður Ísland DMC ehf., og er framangreint uppsagnarbréf því markleysa.

Óhjákvæmilegt er að gera athugsemdir við bréf ykkar þar sem ranglega segir að umbj. minn hafi fallist á að koma til vinnu mánudaginn 16. febrúar s.l.  Hið rétta er að umbj. minn hitt stjórnarformann félagsins, Ómar Óskarsson, föstudaginn 13. febrúar sl., og afhenti honum afrit af hjálögðu bréfi til Ferðaskrifstofu Akureyrar ehf., dagsett sama dag.  Jafnframt hringdi hann í Einar Steinþórsson, stjórnarmann Eskihlíðar ehf. og greindi honum frá efni bréfsins.  Í bréfinu kemur fram að umbj. minn líti svo á að hann sé í ráðningarsamningi við Ferðaskrifstofu Akureyrar ehf. og óskar hann leiðbeininga og upplýsinga um stöðu sína innan fyrirtækisins.

Stefnandi byggir á því stefndi hafi tekið yfir réttindi og skyldur Íslands DMC ehf. gagnvart honum og öðrum starfsmönnum fyrirtækisins, sbr. 3. gr. laga nr. 72/2002.  Með því að stefndi hafi virt að vettugi þessar skyldur gagnvart honum og með því í raun rift ráðningarsamningi hans, hafi stefndi bakað sér skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda og valdið stefnanda fjártjóni sem honum beri að bæta.

Tölulega gerir stefnandi með eftirfarandi hætti grein fyrir kröfunni:

1. Laun 01.02.04 – 30.11.04

 

10 x 477.405

4.774.050 kr.

2. Bifreiðahlunnindi frá 01.03.04

 

9 x 59.833

538.497 kr.

3. Orlof            01.05.02-30.04.03

7,327% af

477.504 x 12

419.753 kr.

               01.05.03-31.04.04

12,07% af

477.504 x 12

689.755 kr.

               01.05.04-30.11.04

12,04% af

477.504 x 7

402.357 kr.

 

 

 

6.824.412 kr.

4.          Orlofsuppbót 2004

 

 

15.900 kr.

5.          Desemberuppbót 2004

 

 

43.700 kr.

 

 

 

6.884.012 kr.

 

6.          Lífeyrissjóður VR

6% af 6.285.915 (6.824.412-538.497)

377.155 kr.

7.          Viðbótarsparnaður

2% af 6.285.915

125.718 kr.

 

 

7.386.885 kr.

8.          Til frádráttar laun í uppsagnarfresti 

876.135 kr.

 

6.510.750 kr.

Um lið 1 segir:

Samkvæmt 2. gr. ráðningarsamnings stefnanda voru umsamin mánaðarlaun hans í febrúar 2004 kr. 477.405.  Uppsagnarfrestur skyldi vera 6 mánuðir og lengjast um einn mánuð fyrir hvert starfsár þar til hann hefur náð 12 mánuðum að 6 árum liðnum.  Þegar ráðningu stefnanda var slitið með ólögmætum hætti í febrúar 2004 hafði hann áunnið sér uppsagnarfresti í 9 mánuði.  Þá á hann inni hjá stefnda vangreidd laun vegna febrúar 2004.  Samtals er því gerð krafa um bætur sem nemur tíföldum mánaðarlaunum.

Um lið 2 segir:

Samkvæmt ráðningarsamningi lagði vinnuveitandi stefnanda til bifreið og greiddi allan kostnað við rekstur hennar.  Stefnanda var gert að skila bifreiðinni í lok febrúar 2004.  Uppsagnafrestur hans rann hins vegar ekki út fyrr en 9 mánuðum síðar.

Um lið 3 segir:

Samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda fer um orlof o.fl. samkvæmt ákvæðum um lengstan starfsaldur í kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Verzlunarmannafélags Íslands.

Um liði 4 og 5 segir:

Að öðru leyti en greindi í ráðningarsamningi fór um starfsréttindi stefnanda samkvæmt kjarasamningi VR og SA frá maí 2000.  Samkvæmt ákvæði  1.4 í kjarasamning á stefnandi rétt á sérstakri desember- og orlofsuppbót 2004, þeirra fjárhæða sem að framan greinir, sbr. kjarasamning VR og SA frá 212. apríl 2004, sem framlengdi gildandi kjarasamning aðila frá 2000.

Um liði 6 og 7 segir:

Samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda skyldi vinnuveitandi greiða 6% af heildarlaunum í lífeyrissjóð og viðbótarframlag samkvæmt kjarasamningi.  Frá 1. janúar 2002 var viðbótarframlag samkvæmt kjarasamningi.  Frá 1. janúar 2002 var viðbótarframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð 2%, sbr. ákvæði 10.3.5 í kjarasamningi VR og SA.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti.  Stefndi sé ekki og hafi ekki verið í ráðningarsambandi við stefnanda.  Málinu hafi verið stefnt gegn röngum aðila.

Vísað er til þess að með kaupsamningi stefnda og Íslands DMC ehf. frá 15. febrúar 2004 hafi stefndi einungis keypt hluta af rekstri hins síðarnefnda; í þeim samningi komi skýrt fram að stefndi yfirtaki ekki ráðningarsamning við framkvæmdastjóra seljanda.  Ísland DMC ehf. hafi haldið áfram rekstri og óskað eftir því við stefnanda, að hann sinnti starfsskyldum sínum við félagið, en þar sem stefnandi hafi ekki orðið við þeirri kröfu, hafi honum verið sagt upp starfi.

Verði hins vegar litið svo á að lög um aðilaskipti að fyrirtækjum eigi við í þessu tilviki, er á því byggt, að lög nr. 72/2002 leiði ekki til þess að stefnandi eigi kröfur á hendur stefnda.  Í fyrsta lagi vegna þess að stefndi var framkvæmdastjóri Íslands DMC ehf. og hluthafi í félaginu.  Hafi hann því ekki haft réttarstöðu launþega heldur stöðu fulltrúa atvinnurekanda.  Í öðru lagi hafi ástæða umræddrar sölu 15. febrúar 2004 verið þörf á efnahagslegum og skipulagslegum breytingum, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, sem leiði til þess að stefnda sé ekki skylt að taka yfir ráðningarsamning stefnanda við Ísland DMC ehf.

Á það er bent að stefnanda hafi verið kunnugt um að Ísland DMC ehf. var tæknilega gjaldþrota frá því að bráðabirgðauppgjör lá fyrir í október 2003.  Nauðsynlegt hafi því verið að bregðast við vandanum þá þegar og hafi það staðið næst stefnanda að sinna því verkefni fyrir félagið.  Hann hafi hins vegar gengið út úr félaginu og hafnað því að koma frekar að störfum við nauðsynlegar aðgerðir svo sem samningum við lánardrottna og innheimtu á útistandandi kröfum.

Varakröfu sína byggir stefndi á því að kröfufjárhæð stefnanda eigi einungis að miða við þriggja mánaða laun frá stefnda að frádregnum launum sem stefnandi hafi aflað sér frá öðrum á sama tíma.  Þó að í ráðningarsamningi stefnanda og Íslands DMC ehf. sé kveðið á um 6 mánaða uppsagnarfrest, sem lengist um einn mánuð fyrir hvert starfsár þar til fresturinn hafi náð 12 mánuðum að 6 árum liðnum, og uppsagnarfrestur þannig orðið 9 mánuðir í febrúar 2004, sé það fráleitt að stefndi yfirtaki þær skyldur á grundvelli laga 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.  Stefndi vísar til 2. mgr. 3. gr. laganna í þessu sambandi.  Bent er á að stefnandi reisi kröfur sínar á kjarasamningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins frá maí 2000 og apríl 2004, en kjarasamningurinn geri ráð fyrir að uppsagnarfrestur geti lengstur orðið 3 mánuðir.  Einungis í fáum undantekningartilvikum sé kveðið á um lengri uppsagnarrétt og þá í tengslum við háan aldur og langan starfsaldur viðkomandi launþega.  Þessar undantekningar eigi ekki við um stefnanda.  Yfirtaka á ákvæðum um uppsagnarfresti ákvarðist í kjarasamningi, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002, en ekki af afbrigðilegum ákvæðum í ráðningarsamningi stefnanda og Íslands DMC ehf., sem ekki eigi sér stoð í kjarasamningi.  Þá er vísað til ákvæða laga nr. 7/1936, einkum 36. gr., um að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.

Stefndi hafnar því að félaginu sé skylt að standa straum af bifreiðahlunnindum stefnanda í uppsagnarfresti.  Stefndi hafi ekki krafið stefnanda um vinnuframlag í uppsagnarfresti og hafi stefnandi því ekki haft þörf fyrir afnot bifreiðar í vinnu hjá stefnda þann tíma.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hafi ráðist til starfa hjá Íslandi DMC ehf. er þrjár ferðaskrifstofur hefðu verið sameinaðar eða félög í þessa einu ferðaskrifstofu.  Kvaðst hann hafa haft með eina af þessum þremur ferðaskrifstofum að gera.  Samhliða þessari rekstrarlegu sameiningu hafi hann verið ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri fyrir Ísland DMC ehf. af stjórn félagsins.  Hafi verksvið hans verið almenn framkvæmdastjórn.  Guðmundur Reykjalín, stjórnarmaður félagsins, hafi staðið að fjármálum og sameiningu félagana, fyrst í maí 2001, og síðan sem stjórnarformaður eftir fyrsta aðalfund félagsins 2002.  Hafi Guðmundur og haft með höndum fjármálin ásamt því að vinna fyrir aðaleigenda félagsins BSÍ.  Stefnandi kvaðst aldrei hafa setið í stjórn Íslands DMC ehf. meðan hann starfaði fyrir félagið, en hann hafi átt eignarhlut í félaginu.  Eignarhluti þessi hafi komið með þeim hætti félagið, Ísland og Skandinavíuferðir, sem hann hafi haft með að gera og komið hafi inn í Ísland DMC ehf., hafi verið metið sem eignarhluti hans í Íslandi DMC ehf.  Þessi eignahluti hafi síðan  farið minnkandi og farið niður fyrir 10% í lok árs 2003.

Lagt var fyrir stefnanda dskj. nr. 3, sem er myndrit af ráðningarsamningi Íslands DMC ehf. og stefnanda frá 20. ágúst 2001.  Stefnandi sagði að þessi samningur hafi verið saminn af stjórn Íslands DMC ehf.  Hafi Guðmundi Reykjalín verið falið af stjórn félagsins að gera við hann ráðningarsamning og taldi hann víst að Guðmundur og stjórnin hafi samið skjalið.

Stefnandi áréttaði að BSÍ hafi verið stærsti eigandi Íslands DMC ehf.  Hann sagði að BSÍ hafi og tengst sérstaklega Íslandi DMC ehf. viðskiptalega vegna þess að sérleyfishafarnir, sem mynduðu hópferðabílafélag BSÍ, sáu um allan akstur fyrir félagið, auk þess sem eitt aðalverkefni félagsins hafi að öðru leyti verið störf fyrir sérleyfishafana.  Sköpun aukinna verkefna fyrir félagið hafi að mestu verið reynt að sníða að viðskiptum við sérleyfishafana.  Þá hafi stór viðskiptaskuld við aðaleigendur Íslands DMC ehf. við sameiningu ferðaskrifstofanna 2001 verið færð á félagið og allan rekstrartíma félagsins hafi sú skuld fylgt því.  Tap hafi verið á félaginu fyrsta hálfa árið og síðan á árinu 2002 og 2003.

Stefnandi sagði aðspurður að Ísland DMC ehf. hafi ekki verið tæknilega gjaldþrota, þegar bráðabirgðauppgjör lá fyrir í október 2003, eins og haldið er fram í greinargerð stefnda.  Bráðabirgðauppgjör, er gert var fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2003, sýndi 8.000.000 kr. hagnað.  Viðameira uppgjör hafi verið gert fyrir fyrstu tíu mánuði ársins, sem unnið var af þáverandi endurskoðendum félagsins, sem sýndi 17.300.000 kr. hagnað.  Stærsti eigandi félagsins hafi þá framselt nýjum aðilum öll hlutabréfin í nóvember það ár, nýir endurskoðendur hafi verið kvaddir til, sem hafi gert upp félagið og lagt fram ársreikninga, sem svokallað áreiðanleikamat byggðist á.  Þar hafi aukning á niðurfærðum afskriftum numið um 20.000.000 til 21.000.000 kr. og félagið verið gert upp með 25.000.000 kr. tapi, þar af um 8.000.000 kr. frá dótturfélögum og 12.000.000 kr. af reglulegri starfsemi félagsins.

Stefnandi kvaðst strax og hann sá reikninga félagsins hafa spurt að því, hvort þetta væri gert með fullri vitund eigenda félagsins, hafi honum verið tjáð að svo væri, enda hafi endurskoðandi, er þá var kominn að félaginu, Steingrímur Pétursson, ákveðið þær reikningsskilaaðferðir er notaðar voru við endurskoðunina og hvaða niðurfærsluaðferðir yrðu farnar í félaginu.  Sjálfur kvaðst stefnandi hafi verið þeirra skoðunar að félagið yrði gert upp með 5.000.000 til 10.000.000 kr. hagnaði í árslok 2003, yrði sömu reikningaskilaaðferðum haldið og verið hafði áður.

Aðspurður kvaðst stefnandi hafa staðfest ársreikninga félagsins fyrir árið 2003 með undirritun sinni.  Kvaðst hann hafa verið kallaður á fund 7. febrúar 2004, ásamt fulltrúa þáverandi meirihluta eigenda, Baldri Guðnasyni, og séð ársreikningana þá í fyrst skipti.  Hafi honum verið tjáð að þarna kæmu fram þær niðurfærsluaðferðir sem endurskoðendur í samvinnu við eigendur hefðu notað.

Nokkrum mínútum eftir að hann staðfesti ársreikninga félagsins með undirritun sinni á fundinum 7. febrúar 2004, kvaðst stefnandi hafa fengið að vita, að kaupum stefnda á hlutabréfum BSÍ í Íslandi DMC ehf. hafði verið rift og sú ákvörðun tekin af stjórn félagsins að selja rekstur félagsins til stefnda.  Stefnandi kvaðst hafa óskað eftir fundi með aðilum, þar sem lögmaður hans yrði viðstaddur, til að fara yfir þessa stöðu.  Daginn eftir hafi fundur verið haldinn og farið yfir málið.  Í framhaldi að því hafi Guðmundur Arnaldsson boðið honum að leggja fram kröfur á félagið, Eskihlíð ehf., sem áður var Ísland DMC ehf.  Þá hafi Guðmundur farið þess á leit að stefnandi færi í samninga með honum við alla sem ættu kröfur á félagið m.a. til að fá þær niðurfærðar í 30% og þar með talin launakrafa stefnanda.  Jafnframt hafi hann óskað eftir að stefnandi ynni með honum að því að loka félaginu á launum er fælust einnig í þessum 30% af launakröfu stefnanda á hendur félaginu.  Þetta hafi verið óaðgengilegt og kvaðst stefnandi hafa hafnað þessu.  Kvaðst stefnandi hafa tilkynnt Guðmundi að hann hefði ekki lengur vinnuskyldur gagnvart Eskihlíð ehf. því að með aðilaskiptum á rekstrinum hefðu skyldur hans færst yfir á stefnda.

Stefnandi kvaðst hafa leitað til stefnda og óskað eftir að fá leiðbeiningar, hvernig hann mætti uppfylla vinnuskyldur sínar hjá stefnda.  Ekkert svar hafi borist fyrr en eftir því var gegnið, en þá hafi svarið verið, að hann ætti að snúa sér til Eskihlíðar ehf. með allar sínar óskir.  Í framhaldi af þessu hafi honum borist furðulegt bréf - sem lögfræðingur hans hafi þegar mótmælt - um að hann hefði samþykkt og viðurkennt vinnuskyldu og skuldbundið sig til að mæta til vinnu 16. febrúar hjá Eskihlíð ehf.

Stefnandi sagði, að eftir að hann hætti störfum hjá Íslandi DMC ehf., hafi hann á miðju ári 2004 farið að vinna hjá fyrirtæki konu sinnar, endurhæfingarfyrirtæki, og séð um bókhald og fjármál.

Aðspurður um umsaminn ráðningartíma hans, kvaðst stefnandi hafa haft ótrygga stöðu [við sameiningu ferðaskrifstofanna] sem minnihlutaeigandi í Íslandi DMC ehf., þar sem eitt félag var meirihlutaeigandi, BSÍ, og einnig var fyrirséð, að BSÍ átti stórar eigin kröfur á Ísland DMC ehf.  Hafi hann því strax í upphafi óskað eftir því að tekið yrði sérstaklega á þessu máli við ráðningu sína.  Hafi hann lagt fjármuni inn í félagið og vildi gæta hagsmuna sinna.  Ákvæði um ráðningartíma hans í ráðningarsamningnum hafi komið til í viðtali við Guðmund Reykjalín um samninginn.

Stefnandi kvað aðspurður fyrst eftir að hann hafði skrifað undir ársreikning Íslands DMC ehf. fyrir árið 2003 að honum hafi verið gert kunnugt um að hann yrði ekki áfram framkvæmdastjóri.

Guðmundur Arnaldsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann starfi sem sérfræðingur í fyrirtæki [Rekstrarverktak ehf.], sem hann og fjölskylda hans eiga að meirihluta.  Þetta sé viðskipta- og ráðgjafaskrifstofa.  Verksvið hans sé aðallega samninga- og verkefnastjórn á sviðum skattamála og rekstrarmála fyrirtækja.  Kvaðst hann hafa fengið upphringingu um miðjan nóvember 2003.  Hafi þá staðið yfir stjórnarfundur hjá félagi sem heitir Bifreiðastöð Íslands hf.  Þar hafi verið til umfjöllunar félag sem Bifreiðastöð Íslands hf.  átti 75% eignarhluta í, Ísland DMC ehf.  Hafi hann komið á þennan fund.  Þar hafi setið stjórn Bifreiðastöðvar Íslands hf.  Fyrir hafi legið bréf frá Ferðaskrifstofu Akureyrar ehf. um að félagið hefði áhuga á að ganga til samninga við Bifreiðastöð Íslands hf. um kaup á eignarhluta hins síðarnefnda í Íslandi DMC ehf. með því skilyrði að allt hlutaféð fengist keypt.

Sumir af stjórnarmönnum Bifreiðastöðvar Íslands hf., kvað Guðmundur, höfðu áður verið viðskiptavinir viðskipta- og ráðgjafaskrifstofu hans.  Hafi hann því ekki verið óþekktur á þessum vettvangi.  Hafi hann tekið að sér að vinna fyrir þeirra hönd, stjórnar BSÍ, að stýra viðræðum við Ferðaskrifstofu Akureyrar ehf. um þessi kaup og leiða málið til lykta.  Þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar voru að annað hvort myndi takast að semja við þessa aðila um kaup og yfirtöku á þessum rekstri eða hann yrði lagður niður þar sem um taprekstur var að ræða á árum áður.  Um hafi verið að ræða mjög háar kröfur frá nokkrum fólksflutningafyrirtækjum, sem aðilar í stjórn Bifreiðastöðvar Íslands hf. áttu, en þeir höfðu í raun fjármagnað rekstur Íslands DMC ehf.

Eftir að hann hóf samningaviðræður fyrir hönd stjórnar BSÍ við Ferðaskrifstofu Akureyrar ehf. kvað Guðmundur að til hafi orðið samningur.  Ráðgjöf hans hafi falist til dæmis í því hvernig staðið yrði að þessum samningi við ferðaskrifstofuna.  Forráðamenn Ferðaskrifstofu Akureyrar ehf. höfðu lýst áhuga á að kaupa hluta af starfsemi Íslands DMC ehf. og hefðu talið að kannanir á hinum ýmsu þáttum hefðu sýnt að vera kynni inni í félaginu þannig mál að erfitt yrði að taka við hlutafénu sjálfu.  Hann hafi hins vegar talið ríka hagsmuni eigenda BSÍ og raunar einnig annarra eigenda Íslands DMC ehf. að samningur næðist um sölu á hlutafénu.

Guðmundur sagði að í viðræðunum hafi m.a. verið rætt um stöðu allra launþega Íslands DMC ehf., þar á meðal framkvæmdastjórans.  Taldi hann, að fyrir 5. desember 2003, þegar fyrsti samningur var undirritaður, hafi legið fyrir að yfirlýsingar um að staða framkvæmdastjórans kynni að verða önnur í höndum stefnda heldur en hún hefði verið, en hluti af þeim samningaviðræðum, sem hann stóð fyrir, hafi verið að tryggja stöðu framkvæmdastjórans í söluferlinu eins og annarra starfsmanna.  Á hinn bóginn kvaðst honum hafa verið ljóst að stefndi ætlaði í skipulagsbreytingar.  Framkvæmdastjórinn hafi verið þekkt persóna í ferðaþjónustu og almennt hafi farið af honum gott orð á þeim vettvangi.  Þó hefði hann heyrt orðróm um að fjármálstjórn hans á fyrirtækinu væri ef til vill áfátt að einhverju leyti, og fyrirsvarsmenn stefnda hefðu áskilið sér rétt til að stokka það allt upp.

Guðmundur sagði að hans hlutverk í söluferlinu hafi með öðru verið að tryggja stöðu framkvæmdastjórans eins og annarra launþega Íslands DMC ehf. og hafi það verið stutt af stjórn BSÍ.

Lagt var fyrir Guðmund dskj. nr. 9, sem er bréf Ómars Óskarssonar, stjórnarformanns Eskihlíðar ehf., áður Íslands DMC ehf., dags. 27. febrúar 2004, til stefnanda, er fjallar m.a. um uppsögn á ráðningarsamningi stefnanda hjá Íslandi DMC ehf. frá 20. ágúst 2001.  Vísað er til þess að þar segi, að haldnir hafi verið fundir, þar sem óskað hefði verið eftir að stefnandi kæmi og ynni tiltekin störf.

Guðmundur svaraði og sagði, að eftir áreiðanleikakönnun, sem fram fór á rekstri félagsins, hafi legið ljóst fyrir að ógerningur var að kaupandinn yfirtæki ráðningarsamning framkvæmdastjórans.  Ljóst hafi verið að annað hvort yrðum „við“ að segja honum upp eða „þeir“ yrðu að segja honum upp.  Ljóst hafi verið að „þeir“ myndu aldrei taka hann inn í áframhaldandi rekstur.  Guðmundur sagði að nýr samningur hefði verið gerður 5. febrúar 2004.  Hafi hann þá kallað stefnanda á sinn fund daginn eftir og gert honum grein fyrir stöðunni.  Hafi stefnandi óskað eftir því að fá að koma með lögmann sinn á fund til hans.  Kvaðst Guðmundur hafa orðið við því og laugardaginn 7. febrúar 2004 hafi fundur verið haldinn klukkan 11 um morguninn sem stefnandi og lögmaður hans sóttu.  Kvaðst Guðmundur hafa reynt að svara öllum spurningum þeirra um málið.

Guðmundur sagði að hlutverk hans hafi í stuttu máli verið að gera fyrirtækið upp.  Stjórn BSÍ hafði óskað eftir að fá stefnanda til samstarfs við hann næstu þrjá mánuði eða lengur til að vinna að uppgjörinu, innheimtu á útistandandi kröfum og eftir atvikum samninga við lánardrottna um uppgjör.  Ljóst hafi verið eftir áreiðnaleikakönnunin að félagið var komið í þrot.  Guðmundur sagði að stefnandi hafi tekið þessu ágætlega.  Hafi hann lýst því yfir að hann myndi koma mánudaginn 16. sama mánaðar til vinnu.  Málið hafi hins vegar tekið nýja stefnu með bréfi lögmanns stefnanda.

Aðspurður, hvort hann hefði gert stefnanda grein fyrir á hvað kjörum stefnanda væri ætlað að vinna með honum að uppgjörinu, kvað Guðmundur að ekki hefði legið fyrir annað en hann fengi sín mánaðarlaun, hugmyndin hefði verið að tryggja stefnanda að lágmarki þriggja mánaða vinnu.

Aðspurður kvaðst Guðmundur hafa séð ráðningarsamning stefnanda við Ísland DMC ehf. áður en salan fór fram.  Ljóst hafi verið á kaupendum á þeim tíma, að samningurinn hafði áhrif á ætlað kaupverð á hlutabréfunum.

Lagt var fyrir Guðmund dskj. nr. 19, sem er myndrit af launamiða, þar sem stefnandi er skráður launþegi en stefndi launagreiðandi.  Guðmundur kvaðst ganga út frá því að hér væri um að ræða janúarlaun 2004.  Hann sagði að í þeim lokasamningi, sem gerður var, hafi kaupandinn, stefndi þessa máls, yfirtekið allan rekstur Íslands DMC ehf. frá 1. janúar 2004, þar með þurfti stefndi að bera ábyrgð á því að senda út launamiða á allt starfsfólk, sem fékk greitt frá Íslandi DMC ehf. fyrir janúarmánuð 2004, enda þótt stefndi hafi ekki formlega tekið við rekstrinum fyrr en 5. febrúar 2004.  Samningurinn hafi verið afturvirkur hvað varðaði rekstur félagsins.  Laun þau, sem hér um ræðir, hafi sennilega verið greidd út mánaðamótin janúar/febrúar 2004 og séu þetta laun, sem Íslands DMC ehf. greiddi.

Guðmundur sagði að nafnið á félaginu, Ísland DMC, hafi einnig verið vörumerki.  Það hafi verið hluti af viðskiptunum að kaupa nafnið, sem leiddi til þess að breyta þurfti nafni á félaginu, sem síðar fór til uppgjörs.  Gerð hafi verið nafnabreyting og heiti félagið nú Eskihlíð.  Kvað hann það félag enn vera til.

Þegar samningurinn um kaup á rekstrinum var gerður 15. febrúar 2004, sagði Guðmundur, að ekki hafi komið til greina að kaupandinn tæki við ráðningarsamningi stefnanda við Ísland DMC ehf.  Guðmundur kvaðst hafa samið þennan samning í samráði við kaupanda og seljanda.  Hann kvaðst þó ekki hafa verið að vinna fyrir stefnda á þessum tíma.

Guðmundur sagði aðspurður að þar sem greint er í 1. gr. kaupsamningsins frá 15. febrúar 2004, að hið selda taki til tilgreindrar starfsemi seljanda, þ.m.t. starfssamninga, þar sé átt við starfssamninga þeirra starfsmanna seljanda sem kaupandi taki við.

Guðmundur var beðinn um að skýra nánar það sem segir í 1. gr. undir tl. 3 að samningurinn taki til, þ.e.:

Ráðningarsamninga við starfsfólk samkvæmt kjarasamningum.  Kaupanda er ekki skylt að endurráða starfandi framkvæmdastjóra eða annað starfsfólk, sem ekki vill sætta sig við að semja við kaupanda um áframhaldandi eða breytt störf á nýjum kjörum.  Kaupandi áskilur sér rétt til að hafna yfirtöku ákveðinna ráðningarsamninga með öllu eða eiga kröfu á seljanda á þeim mismun sem kann að myndast á milli gildandi starfssamninga og þeirra sem hann gerir í tengslum við rekstrarlega endurskipulagningu starfseminnar.

Guðmundur sagði að samið hafi verið upp á nýtt við alla starfsmenn fyrirtækisins.  Hann kvaðst ekki þekkja til þeirra samninga.  Ljóst hafi verið að kaupandinn ætlaði að endurskipleggja reksturinn.  Kvaðst hann ekki hafa hugmynd um það, hvort laun þeirra hafi verið lækkuð.  Næðust ekki samningar við starfsmann um áframhaldandi vinnu með nýjum samningi hafi kaupandinn áskilið sér rétt til að þess að seljandi tæki á sig ákveðinn mismun í sambandi við kaupverðið.  Guðmundur sagði að ekki hafi reynt á það að seljandi hefði þurft að taka á sig mismun á kaupverðinu út af þessu ákvæði kaupsamningsins.

Stefnandi gaf frekari skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann kannaðist ekki við það að Guðmundur hafi boðið honum óbreytt laun fyrir að starfa með honum að uppgjöri á Íslandi DMC ehf.  Hann kvaðst hafa átt fund með honum 12. febrúar 2004.  Þá hafi Guðmundur óskað eftir því að hann gerði kröfur í félagið eins og aðrir kröfuhafar.  Jafnframt hafi hann óskað eftir því að semja við hann þannig að hann samþykkti strax að lækka kröfurnar um 70% og jafnframt að hann ynni upp í þessi 30% sem eftir stæðu af kröfunum.  Þetta kvaðst stefnandi hafa talið algerlega óviðunandi.

Ályktunarorð:  Í ráðningarsamningi frá 20. ágúst 2001 milli Íslands DMC ehf., sem vinnuveitanda, og stefnanda, sem ráðinn var framkvæmdastjóri hjá félaginu, segir m.a. um starfsskyldur, að framkvæmdastjórinn skuli láta félaginu í té starfskrafta sína óskipta og sé honum óheimilt að takast á hendur önnur störf eða stjórnsetu í félögum, nema með samþykki stjórnar.  Þar er og kveðið á um ákveðinn fastan vinnutíma og föst mánaðarlaun með tilteknum skilyrðum um breytingar með hliðsjón af almennum launabreytingum og árangri í starfi.  Með þessum samningi selur stefnandi með öðrum orðum óskipt vinnuafl sitt gegn ákveðnu endurgjaldi án þess að starfið væri þáttur í sjálfstæðri starfsemi hans.  Stefnandi verður þannig að teljast hafa haft réttarstöðu starfsmanns í skilningi laga nr. 72/2002, er Ísland DMC ehf. seldi stefnda ákveðnar eignir og tilgreind réttindi sín með samningi 15. febrúar 2004.

Fyrir liggur að stjórn BSÍ, er á 75% eignarhluta í Íslandi DMC ehf., nú Eskihlíð ehf., fékk Guðmund Arnaldsson, sérfræðing á sviði skattamála og rekstrarmála fyrirtækja, til að ná samningi við stefnda um kaup á hlutafé Íslands DMC ehf., og ef það tækist ekki, þá samningi um sölu á eignum og rekstri félagsins til stefnda.  Af framburði Guðmundar og kaupsamningi stefnda og Íslands DMC ehf. verður ekki annað ráðið en að eftir söluna 15. febrúar 2004 hafi öllum rekstri lokið hjá Íslandi DMC ehf. og lítið staðið eftir af eignum þess nema einhverjar útistandi kröfur, sem þó gátu ekki staðið undir nema 30% af skuldum félagsins.  Hér urðu því aðilaskipti á efnahagslegri einingu.

Nú er óumdeilt að stefndi rifti kaupsamningi frá 4. desember 2003 við BSÍ um hlutafé BSÍ í Íslandi DMC ehf. og féllst stjórn BSÍ á riftunina á grundvelli þess að áreiðanleikakönnun endurskoðenda hefði sýnt að skilyrði sem stefndi hafði sett fyrir kaupum á hlutabréfunum hefðu ekki verið uppfyllt af hálfu BSÍ.  Ákvörðun stefnda um kaupin á rekstri og tilteknum eignum Íslands DMC ehf., en ekki félagið sjálft, var hins vegar byggð á því að miðað við rekstrarafkomu, er könnuð hafði verið, væri full þörf á efnahagslegum breytingum á rekstrinum sem kallaði einnig á breytingar á starfsmannahaldi við reksturinn.  Augljóst er að forsvarsmenn stefnda töldu ekki rekstrargrundvöll fyrir því að taka við öllum starfsmönnum Íslands DMC ehf. á óbreyttum launum og kjörum að öðru leyti.  Kemur þá til álita hvort stjórn Íslands DMC ehf. og stefnda var heimilt að semja um aðilaskipti á framangreindri efnahagslegri einingu án þess að stefnandi yrði framkvæmdastjóri hjá stefnda á að minnsta kosti sömu kjörum og hann hafði haft hjá Íslandi DMC ehf.

Ljóst er að stjórn Eskihlíðar ehf., áður Íslands DMC ehf., leit svo á að stefnandi væri starfsmaður Eskihlíðar ehf. eftir að kaupsamningurinn við stefnda var gerður 15. febrúar 2004.  Uppsögn á ráðningarsamningi stefnda við félagið er dagsett 27. febrúar 2004.  Með bréfi til stjórnarformanns Eskihlíðar ehf. 1. mars 2004 vísaði stefnandi þessari uppsögn á bug sem markleysu, þar sem stefndi hefði tekið yfir rekstur Íslands DMC ehf. og þar með ráðningarsamning stefnanda og Íslands DMC ehf. frá 20. ágúst 2001.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum er kveður á um að réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi sem fyrir hendi er á þeim degi, sem aðilaskipti eiga sér stað, færist yfir á framsalshafa.  En eins og áður sagði hafði stefnandi stöðu starfsmanns Íslands DMC ehf. á þeim tíma þegar félagið seldi stefnda skipulagða heild verðmæta, sem notuð voru í efnahagslegum tilgangi og stefnandi starfaði við.  Stefndi ber hins vegar einnig fyrir sig ákvæði 1. mgr. 4. gr. laganna sem kveða á um að framsalshafa, þ.e. stefnda í þessu tilviki, sé heimilt að segja starfsmanni upp störfum þegar efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingu á starfsmannahaldi.  Ekki liggur fyrir í málinu að stefndi hafi gert reka að því að segja stefnanda upp störfum á grundvelli framangreindrar heimildar.

Af framburði Guðmundar Arnaldssonar fyrir réttinum má ráða að forráðmönnum stefnda hafi verið kunnugt um ráðningarsamning stefnanda við Ísland DMC ehf. og að uppsagnarfrestur stefnanda var kominn upp í níu mánuði.  Taldi hann ljóst að ráðningarsamningurinn hafi haft áhrif á ætlað kaupverð á hlutabréfum félagsins á sínum tíma.  Forráðamenn stefnda gerðu hins vegar ekki reka að því að stjórn Íslands DMC ehf. segði stefnanda upp störfum áður en stefndi keypti rekstur félagsins og hljóta þannig að sæta því að hafa tekið við öllum skyldum Íslands DMC ehf. við stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi hans og Íslands DMC ehf.

Af hálfu stefnda er byggt á því að stefnanda geti aðeins átt kröfu til launa í þrjá mánuði.  Yfirtaka á ákvæðum um uppsagnarfrest miðist við ákvæði kjarasamnings, þ.e. í þessu tilviki kjarasamnings milli Verzlunarmannafélags Reykjavíkur annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar, en í 2. mgr. 3. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002 sé kveðið á um að framsalshafi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda.

Ekki verður talið að kjarasamningar fái hnekkt því að launamaður nái samningi við atvinnurekanda um betri kjör en kjarasamningar kveða á um.  Gagnkvæmur uppsagnarfrestur í ráðningarsamningnum heldur því gildi sínu gagnvart stefnda á sama máta og hann gilti áður gagnvart Íslandi DMC ehf., enda verður það hvorki talið ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju að byggja kröfu á þessu ákvæði ráðningarsamningsins.

Í 5. gr. ráðningarsamningsins, er fjallar um launakjör stefnda, segir m.a. að fyrirtækið leggi framkvæmdastjóra til bifreið og greiði allan kostnað við rekstur hennar.  Verður að telja að hér sé um hlunnindi og ígildi launa að ræða án fyrirvara um að stefnandi nyti þeirra ekki í uppsagnarfresti.

Í 2. mgr. 3. gr. laga um orlof nr. 30/1987 segir að orlofsárið sé frá 1. maí til 30. apríl.  Þá segir í 13. gr. laganna að framsal orlofslauna og flutningur þeirra milli orlofsára sé óheimilt.  Verður því fallist á með stefnda að hann eigi ekki að standa straum af kostnaði vegna ótekins orlofs stefnanda orlofsárið 1. maí 2002 til 30 apríl 2003.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 6.090.997 kr. með vöxtum eins og nánar segir í dómorði.

Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Ferðaskrifstofa Akureyrar ehf., greiði stefnanda, Knúti Óskarssyni, 6.090.997 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. febrúar 2004 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 870.000 krónur í málskostnað.