Hæstiréttur íslands

Mál nr. 365/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing


Þriðjudaginn 6

 

Þriðjudaginn 6. september 2005.

Nr. 365/2005.

Þorsteinn Hjaltested

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

gegn

Þorsteini Sigmundssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kærumál. Þinglýsing.

Talið var að ÞH hefði ekki fært fram nægjanleg rök fyrir því að hann kynni að eiga þau réttindi, sem hann krafðist dóms fyrir í máli á hendur ÞS og var kröfu hans um þinglýsingu stefnu í málinu því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. ágúst 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að stefnu í máli hans á hendur varnaraðila megi þinglýsa á fasteignina Elliðahvamm í Kópavogi. Kæruheimild er í 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að þinglýsa stefnunni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Þar sem varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti getur framangreind krafa hans um endurskoðun á ákvæði úrskurðarins um málskostnað ekki komist að fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og  nánar er rakið í hinum kærða úrskurði seldi Magnús Hjaltested Félagi íslenskra símamanna á leigu 10.000 m² spildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda með samningi í júlímánuði 1931. Er fasteign þessi nefnd Elliðahvammur. Endurgjald skyldi vera 150 krónur á ári. Í samningnum var kveðið á um að stæði leigutaki ekki skil á afgjaldinu á réttum gjalddaga eða innan 15 daga frá honum að ítrekaðri greiðslukröfu eiganda jarðarinnar gæti eigandi hennar sagt samningnum upp, en ella væri hann óuppsegjanlegur. Telur varnaraðili til réttinda yfir leigulandinu frá 6. janúar 1966 á grundvelli óslitinnar raðar framsala frá upprunalegum leigutaka. Magnús Hjaltested og varnaraðili gerðu viðauka við leigusamninginn 12. desember 1974. Enn gerðu þeir viðbótarsamning 14. febrúar 1988 þar sem stærð hinnar leigðu landspildu var tvöfölduð. Í þessum viðbótarsamningi var sérstaklega kveðið á um að heildarleigusamningurinn skyldi vera með sömu uppsagnarákvæðum og upphaflegi samningurinn og að framan eru rakin. Þá var samið um hækkun árlegs leigugjalds og skyldi leiga greidd 1. apríl fyrir yfirstandandi leiguár. Með skiptayfirlýsingu 21. nóvember 2000 var jörðin Vatnsendi færð yfir á nafn sóknaraðila á grundvelli ákvæða í erfðaskrá Magnúsar Hjaltested. Með bréfi 8. mars 2002 krafði sóknaraðili varnaraðila um vangreidda leigu fyrir landið vegna áranna 1996 til 2000. Þann 13. mars 2003 höfðaði sóknaraðili mál þar sem hann krafði varnaraðila um leigu fyrir landið vegna áranna 1999 til 2002. Tók varnaraðili til varna og krafðist aðallega sýknu af leigukröfum sóknaraðila. Á meðan á rekstri þess máls stóð fyrir héraðsdómi ritaði sóknaraðili varnaraðila bréf 9. september 2003. Tók hann fram að leiga væri ógreidd vegna áranna 1996 til 2002 og að leiga vegna ársins 2003 yrði tekin til innheimtu næstu daga. Áskildi hann sér rétt til að segja leigusamningnum upp í samræmi við fyrrgreint ákvæði hans yrði leigugreiðslum ekki komið í skil innan 15. daga. Dómur í framangreindu máli var upp kveðinn 2. desember 2003. Í forsendum dómsins kemur meðal annars fram að varnaraðili hafi aldrei greitt leigu fyrir umrædda spildu og ekki verið krafinn um hana fyrr en í aðdraganda málshöfðunarinnar. Lagði héraðsdómari til grundvallar niðurstöðu sinni að samningur byggður á persónulegum ástæðum hafi legið fyrir milli Magnúsar Hjaltested og varnaraðila um að sá síðarnefndi greiddi ekki leigu fyrir landið. Var það niðurstaða dómsins að ekki skyldi greiða leigu fyrir landið fyrr en frá og með árinu 2000 og var varnaraðili í samræmi við það dæmdur til að greiða leigu vegna áranna 2000 til 2002. Varnaraðili sótti með bréfi 26. febrúar 2004 um leyfi til áfrýjunar málsins en tildæmd leiga samkvæmt dóminum náði ekki áfrýjunarfjárhæð. Daginn eftir ritaði sóknaraðili varnaraðila bréf, sem birt var fyrir honum degi síðar, þar sem lóðaleigusamningnum var sagt upp með vísan til fyrrgreinds samningsákvæðis enda hafi leiga ekki verið greidd frá 1996. Að fenginni neikvæðri umsögn sóknaraðila hafnaði Hæstiréttur umsókninni um áfrýjunarleyfið 17. mars 2004. Greiddi varnaraðili dómskuldina 19. mars 2004. Þann dag greiddi hann einnig innheimtuseðil vegna lóðaleigu fyrir árið 2003. Þann 24. júní 2005 höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðila. Krefst hann þess að viðurkennt verði með dómi að framangreind uppsögn sín 27. febrúar 2004 á margnefndum lóðaleigusamningi fyrir Elliðahvamm sé lögmæt. Við þingfestingu málsins 28. júní 2005 krafðist sóknaraðili þess að stefnunni yrði þinglýst á umrædda eign. Þeirri kröfu hafnaði héraðsdómari með hinum kærða úrskurði.

II.

Við þingfestingu málsins gerði sóknaraðili kröfu um þinglýsingu stefnu í málinu sbr. 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga sem varnaraðili mótmælti. Tók héraðsdómari þá kröfu til umfjöllunar í þinghaldi daginn eftir og til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 4. júlí sama árs. Var héraðsdómara rétt að úrskurða um þessa kröfu þegar eftir þingfestingu málsins og áður en hann tók afstöðu til kröfu varnaraðila um frávísun þess.

Úrræði 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga um þinglýsingu á stefnu eða útdrætti úr henni hefur það markmið að gera viðsemjendum þinglýsts eiganda viðvart um ágreining sem varðar réttindi yfir fasteign. Í athugasemdum með frumvarpi til þinglýsingalaga kemur fram að til þess að rétt sé að taka til greina kröfu um þinglýsingu stefnu þurfi aðstæður að vera svipaðar því sem kveðið er á um í 2. mgr. 27. gr. laganna.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um gildi uppsagnar sóknaraðila 27. febrúar 2004 á lóðarleigusamningi aðila um Elliðahvammsland. Ekki verður tekin afstaða til þess ágreiningsefnis við meðferð þessa kærumáls, enda verður það gert og á það lagður dómur eftir að það hefur verið skýrt við meðferð málsins fyrir dómi. Verður ekki talið að sóknaraðili hafi fært fram nægileg rök fyrir kröfu sinni til að fullnægt sé skilyrðum 28. gr. þinglýsingalaga til að taka til greina kröfu hans um þinglýsingu stefnu.

Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Málskostnaður og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur sérstaklega fyrir þennan þátt málsins.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2005.

Stefnandi málsins er Þorsteinn Hjaltested, [kt.], Vatnsenda, Kópa­vogi, en stefndi er Þorsteinn Sigmundsson, [kt.], til heimilis að Elliða­hvammi, Kópavogi.

Málið er höfðað með stefnu, sem árituð er af lögmanni stefnda um birtingu hinn 24. júní sl. Það var þingfest hér í dómi 28. sama mánaðar. Lögmaður stefnanda krafðist þess þá, að dómurinn veitti stefnanda heimild með úrskurði til að láta þinglýsa stefnu málsins, en lögmaður stefnda mótmælti þeirri kröfu og krafðist þess að henni yrði hafnað. Málinu var frestað til 29. júní sl. og lögmönnum málsaðila gefinn kostur á að skýra viðhorf umbjóðenda sinna. Þegar málið var tekið fyrir þann dag, óskaði lögmaður stefnda eftir því að gera skriflega grein fyrir sjónarmiðum umbjóðanda síns og fór fram á frest í því skyni. Frestur var veittur af því tilefni til 4. júlí sl. og einnig var ákveðið, að málið yrði þá flutt munnlega. Gekk hvort tveggja eftir og var málið tekið til úrskurðar um tilgreindan ágreining málsaðila að afloknum munnlegum málflutningi.

Dómkröfur aðila í þessum þætti málsins eru þessar:

Stefnandi krefst þess, eins og áður er lýst, að dómurinn veiti honum heimild til að þinglýsa stefnu málsins á eignina Elliðahvamm í Kópavogi með vísan til 28. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. 

Í greinargerð og við munnlegan flutning málsins gerði stefndi eftirfarandi kröfur: Aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að synjað verði beiðni stefnanda um að stefnu málins verði þinglýst á fasteignina Elliðahvamm í Kópavogi. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnanda í þessum þætti málsins. Til þrautavara krefst stefndi þess, verði fallist á kröfu stefnanda um þinglýsingu stefnu, að hennar verði aðeins getið í athugasemdadálki í þinglýsingarvottorði undir „kvaðir og önnur eignabönd“ og í athugasemdadálki fasteignabókar en hrófli ekki að öðru leyti við eigendaskráningu lögbýlisins Elliðahvamms eða veðböndum eignarinnar.

Í stefnu málsins krefst stefnandi viðurkenningar dómsins á lögmæti uppsagnar hans á lóðarsamningi við stefnda (svo) frá árinu 1931 með síðari breytingum, sem dagsettar eru 12. desember 1974 og 14. febrúar 1988, samkvæmt tilkynningu dags. 27. febrúar 2004, sem birt var fyrir stefnda 28. sama mánaðar.

Málavextir

Málið varðar lóðarsamning frá júlí 1931, sem Magnús Hjaltested, þáverandi eigandi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi, gerði við Félag íslenskra símamanna um eins hektara (10.000 m²) landspildu í Vatnsendalandi. Félagið framseldi Pétri V. Snædal leiguréttinn, sem aftur framseldi hann menntamálaráðuneytinu, sem loks fram­seldi hann stefnda hinn 6. janúar 1966. Magnús Hjaltested, faðir stefnanda, og stefndi gerðu tvo viðaukasamninga við fyrri leigusamning, annan, dags. 27. desember 1974 en hinn, dags. 14. febrúar 1988. Í niðurlagi fyrri viðbótarsamningsins segir svo:  Til viðbótar og skýringar á fyrri samningi svo og í samræmi við notkun Elliðahvamms í dag er það hér með staðfest, að sérhver leigutaki að Elliðahvammi hefur heimild til að reka þar alifuglabú og garðrækt svo og má hann hafa þar heimilishesta. Einnig má hann hafa á svæðinu nauðsynleg mannvirki í þessu sambandi. Samningur þessi skoðast viðauki við fyrri samning og þannig hluti hans.

Efni samningsins frá 14. febrúar 1988 er tvíþætt. Annars vegar fól hann í sér stækkun leigulandsins í tvo hektara (20.000 m²) en hins vegar var afgjald landsins ákveðið og skyldi það nema 150 dagvinnustundum verkamanns samkvæmt hæsta taxta Dagsbrúnar, sem í gildi væri 1. apríl ár hvert. Árlegur gjalddagi leigugjaldsins skyldi vera 1. apríl.

Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnda í mars 2003 og krafðist greiðslu lóðarleigu fyrir árin 1999 til og með 2002, samtals að fjárhæð 332.818 kr. auk dráttarvaxta (mál nr. 3694/2003). Stefndi krafðist aðallega sýknu en til vara lækkunar á dómkröfum stefnanda. Stefndi byggði sýknukröfu sína á því, að í samningi þáverandi eiganda Vatnsenda við Félag ísl. símamanna sé ákvæði um að samningurinn sé óuppsegjanlegur af landeiganda hálfu og fylgi sú kvöð samningnum til síðari lóðarleigutaka.  Auk þess byggði stefndi m.a. á því, að hann hafi aldrei verið krafinn um leiguafgjald frá því hann keypti eignina Elliðahvamm á árinu 1965, og hefði samningurinn frá 14. febrúar 1988 engu breytt í því sambandi.  Dómur var kveðinn upp í málinu hinn 2. desember 2003 og var stefndi dæmdur til greiðslu lóðarafgjalds fyrir árin 2000 til og með árinu 2003, samtals 255.761. kr. auk dráttarvaxta en hvor málsaðila skyldi bera sinn kostnað af málinu. Hinn 26. febrúar 2004 sótti stefndi um leyfi Hæstaréttar til að fá að áfrýja málinu, en þeirri bón hans var hafnað á þeirri forsendu að dómkröfur málsins næðu ekki lögmæltri lágmarks­fjárhæð. Að sögn lögmanns stefnda var lögmanni stefnanda tilkynnt um ósk stefnda og afstöðu hans óskað til umsóknarinnar hinn 27. febrúar s.á.

Sama dag eða 27. febrúar 2004 sendi lögmaður stefnanda stefnda símskeyti, og sagði upp leigusamningnum frá júlí 1931 og áðurnefndum tveimur viðbótar­samningum frá árinu 1974 og 1988. Vísað var til þess, að stefndi hefði ekki greitt lóðarleigu frá árinu 1996, þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir og beinlínis lýst því yfir að hann myndi ekki greiða umkrafða leigu. Í niðurlagi símskeytisins segir m.a. svo: Samkvæmt skilmálum leigusamnings er ekki kaupskylda á umbj. mínum að endurbótum á jörðinni. Þá er nokkur hluti endurbótanna gerður án samþykkis umbj. míns eða forfeðra hans. Vegna þessara skýru skilmála ber yður að rýma spilduna án tafar og afhenda hana nú þegar án veðbanda. Umbj. minn er reiðubúinn til að veita yður hæfilegan frest skv. nánara samkomulagi til þessa. Samkvæmt skilmálum samnings var framleiga samningsins óheimil án samþykkis landeiganda. Svo virðist sem þér hafið einnig framleigt samninginn sem er alvarlegt brot gegn skilmálum samningsins. Fasteignir í eigu annarra en lóðaleiguhafa eru landeiganda óviðkomandi og á yðar ábyrgð gagnvart viðkomandi aðilum...

Stefndi greiddi í mars 2004 lóðarleiguskuld sína, samkvæmt dómi Hæstaréttar og hefur síðan staðið í skilum með greiðslu lóðarleigu. Þá mótmælti stefndi sérstaklega uppsögn stefnanda í bréfi til lögmanns hans, dags. 29. apríl s.á. Stefnandi tók við leigugreiðslum stefnda, en lýsti því samtímis yfir, að hann héldi fast við uppsögn sína á leigusamningnum.  Nokkur bréf gengu milli lögmanna málsaðila án þess að niðurstaða fengist um ágreining þeirra og var mál þetta síðan höfðað, eins og áður er lýst.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að hann sé eigandi jarðarinnar Vatnsenda. Hann hafi sagt upp lóðarleigusamningi stefnda vegna langvarandi vanskila hans, en þá hafi leiga ársins 2000 til og með árinu 2003 verið ógreidd. Gjalddagi leiguafgjalds sé 1. apríl ár hvert. Málið sé höfðað til viðurkenningar á gildi uppsagnarinnar. Stefnandi hafi mikilsverða hagsmuni af því að tryggt sé, að réttindi hans yfir fasteigninni skerðist ekki á meðan beðið sé dóms héraðsdóms í málinu. Því sé leitað heimildar dómara til að fá leyfi til að þinglýsa stefnu málsins sem kvöð á viðkomandi eign, svo að forða megi réttarspjöllum meðan á rekstri málsins standi. 

Stefnandi kveðst höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til ákvæðis í upphaflegum samningi frá árinu 1931. Hann vísar til 28. gr. laga nr. 39/1978 til stuðnings kröfu sinni.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi styður kröfu sína um frávísun þeim rökum, að báðir málsaðilar séu búsettir í sveitarfélaginu Kópavogur og að fasteignin Elliðahvammur tilheyri Kópavogi. Stefnanda hafi því borið að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjaness, sbr. 8. tl. 2. gr. laga nr. 15/1998, enda hafi stefndi ekki samþykkt annað. Í öðru lagi byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því, að stefnanda hafi borið að beina beiðni sinni um þinglýsingu stefnunnar að báðum þinglýstum eigendum Elliðahvamms, en Guðrún Alísa Hansen sé einnig eigandi umræddrar fasteignar að hálfu.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu stefnda byggir stefndi kröfu sína um að synja beri um þinglýsingu stefnunnar á eftirfarandi málsástæðum:

Í fyrsta lagi, að Hæstiréttur hafi þegar dæmt um, að þinglýsingarstjóra við embætti Sýslumannsins í Kópavogi hafi borið að synja um þinglýsingu yfirlýsingar stefnanda um uppsögn lóðarleigusamnings, sem stefna í máli þessu lúti fyrst og fremst að. Þegar af þeirri ástæðu beri að synja beiðni stefnanda.

Í öðru lagi hafi stefnandi látið hjá líða að fylgja eftir uppsögn sinni og hafi því sýnt af sér aðgerðarleysi og tómlæti. Ekki verði séð, að stefnandi verði fyrir tjóni við það, að stefnu málsins verði ekki þinglýst. Stefndi bendir á, að fasteignamat lóðar sé u.þ.b. 4% af heildarfasteignamati Elliðahvamms.

Í þriðja lagi liggi ljóst fyrir, að útilokað sé fyrir stefnda að bera úrlausn dómsins undir Hæstarétt, ef fallist verði á kröfu stefnanda um að þinglýsa megi stefnu málsins. Því hljóti að vera rétt, að stefndi njóti vafans í þessu tilliti.

Í fjórða lagi bendir stefndi á það, að uppsögn stefnanda sé ólögmæt og marklaus með öllu, þar sem hann hafi m.a. ekki gætt ákvæða Jarða- og ábúðarlaga við uppsögnina, en Elliðahvammur sé lögbýli, þar sem stefndi sé skráður ábúandi í um 30 ára skeið og eignin sé þinglýst eign hans og eiginkonu hans, sbr. framlögð skjöl.

Í fimmta og síðasta lagi sé stefndi í fullum skilum um greiðslu lóðarafgjalds og fyrir liggi staðfesting um greiðslugetu og greiðsluvilja stefnda.

Niðurstaða.

Fyrst verður tekin afstaða til kröfu stefnda um frávísun þessa þáttar málsins.

Stefndi byggir kröfuna í fyrsta lagi á því að Héraðsdómur Reykjaness hafi lögsögu í málinu og því sé það höfðað fyrir röngum dómstól. 

Ekki verður heldur skorið úr um það í þessum þætti, hvaða áhrif það hafi á niðurstöðu málsins eða kröfu stefnanda um að þinglýsa megi stefnu, að láðst hafi að stefna Guðrúnu Alísu Hansen, eiginkonu stefnda og eiganda Elliðahvamms að hálfu, samkvæmt framlögðum gögnum, til að þola dóm með stefnda. Sá dómari, sem málið fær til úrlausnar mun taka afstöðu til þessara beggja málsástæðna þegar stefndi hefur skilað greinargerð, lýst kröfum og öll gögn málsins þess liggja fyrir.

Þess ber að geta, að fram kemur í niðurlagi samningsins frá 1931, að mál sem rísa kunni milli samningsaðila, skuli reka fyrir gestarétti Reykjavíkur. Leyst verður úr því á síðari stigum málsins hver sé merking þessa hugtaks „gestaréttur Reykjavíkur“.

Stefndi byggir einnig á því, að Hæstiréttur hafi fjallað um ágreiningsefni málsaðila í máli nr. 477/2004, sbr. mál nr. 416/2004, og komist að þeirri niðurstöðu, að þinglýsingarstjóri hafi ranglega þinglýst yfirlýsingu stefnanda frá 27. febrúar 2004 um uppsögn lóðarleigusamningsins frá 1931 og viðbótarsamninganna tveggja og lagt fyrir þinglýsingastjóra að afmá yfirlýsinguna úr veðmálabókum. Þessi niðurstaða Hæstaréttar verði ekki túlkuð með öðrum hætti en að hagsmunir stefnanda víki að þessu leyti fyrir hagsmunum stefnda en krafa stefnanda í þessum þætti málsins hafi í för með sér samsvarandi kvöð og takmörkun á rétti stefnda og fólst í þinglýsingu yfirlýsingarinnar.

Dómurinn lítur svo á, að tilgreindir dómar Hæstaréttar verði ekki túlkaðir svo, að krafa stefnanda um þinglýsingu stefnu málsins fari ótvírætt í bága við niðurstöðu Hæstaréttar og kröfu hans beri að hafna þegar af þeirri ástæðu.

Fjórða og fimmta málsástæða stefnda byggir á mati dómsins á gildi uppsagnar stefnanda. Það mat fellur utan þess sviðs, sem dóminum er ætlað að taka afstöðu til í þessum þætti málsins, enda stendur málssókn stefnanda eða fellur með því, hvort stefnanda tekst að leiða sönnur að því, hvort skilyrði uppsagnar hafi verið fyrir hendi eða ekki.

Stefndi vísar einnig til þess, að ákvörðun dómsins um að leyfa þinglýsingu stefnunnar leiði til þess, að ekki sé heimilt að bera þá niðurstöðu undir Hæstarétt til endurskoðunar.

Það er álit dómsins, að báðir málsaðilar kunni að hafa nokkurn hag af málsúrslitum í þessum þætti málsins, eins og ávallt er þá tveir deila.

Hagsmunir stefnanda snúa ekki beint að honum sjálfum heldur tengjast fyrst og fremst hagsmunum grandlausra viðsemjenda stefnda, meðan málssókn þessi stendur yfir e.t.v. fyrir báðum réttum. Hagsmunir stefnda felast einkum í því, að þinglýsing stefnu málsins leggur kvöð á eign hans og kann að takmarka eðlilega nýtingu hennar. Ljóst þykir, að stefndi yrði skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda og grandlausum viðsemjanda, ef hann ráðstafaði eigninni í trássi við eignarheimildir stefnanda, og úrslit málsins yrðu stefnanda hagstæð. Einnig hlyti hann að sæta refsiábyrgð fyrir veðsvik, ef hann veðsetti eign sína, án þess að geta um uppsögn stefnanda og málssókn þessa.

Dómurinn hafnar kröfu stefnanda um að veitt verði heimild til að þinglýsa stefnu málins og byggir þá niðurstöðu á því, að stefnanda sé næg vörn í skaða­bótaábyrgð stefnda og hugsanlegri refsiábyrgð gagnvart honum, í ljósi þess óhagræðis, sem stefndi kann að hafa af þinglýsingu stefnu málsins og einnig með hliðsjón af því að gagnstæð niðurstaða hefur þau réttaráhrif, að málinu verður ekki skotið til Hæstaréttar til endurskoðunar.

Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið,  að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu stefnanda, Þorsteins Hjaltested, um að honum verði veitt heimild til að þinglýsa stefnu þessa máls.

Málskostnaður fellur niður.