Hæstiréttur íslands

Mál nr. 653/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Aðfararheimild
  • Fjármálaeftirlit


                                                         

Þriðjudaginn 14. desember 2010.

Nr. 653/2010.

Sparisjóður Mýrasýslu

(Helgi Sigurðsson hrl.)

gegn

Sparisjóðabanka Íslands hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Aðfararheimild. Fjármálaeftirlit.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu SM um að hrundið yrði kröfu SÍ um fjárnám í eignum SM. Sýslumaður hafði frestað gerðinni í kjölfar þess að hann ákvað að gerðin mætti fara fram. Í héraðsdómi sagði að án tillits til þess hvort efni hefði staðið til að fresta gerðinni yrði ákvörðunin borin undir dóminn eftir ótvíræðu orðalagi 2. mgr. 85. gr. laga um aðför nr. 90/1989. SM hélt því m.a. fram að Arion banki hf. hefði yfirtekið skuldbindingu sína gagnvart SÍ með samningi og að Fjármálaeftirlitið hefði jafnframt tekið ákvörðun um slík skuldaraskipti kröfunnar. Í dómi héraðsdóms var því hafnað að Fjármálaeftirlitið hefði tekið ákvörðun sem fæli í sér skuldaraskipti þannig að Arion banki hf. hefði tekið við skuldbindingu SM. Vísað var til þess að í ákvörðuninni kæmi fram að almennar kröfur, eins og krafa SÍ, yrðu greiddar með þeim hætti og að því marki sem greindi í kaupsamningi bankans og sóknaraðila. Ekki var fallist á að SÍ hefði með tölvupósti samþykkt skuldaraskipti þótt SÍ hefði þar fallist á tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu sóknaraðila og samruna við Nýja Kaupþing banka, síðar Arion banka hf. Af þessum sökum var SM talinn skuldbundinn gagnvart SÍ samkvæmt þeim nauðasamningi sem samþykktur hafði verið fyrir dómi vegna SM. Af hálfu SM var því einnig haldið fram að SÍ væri ekki réttur viðtakandi greiðslu samkvæmt nauðasamningi SM. Vísaði SM til ákvarðana Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun skuldbindinga og eigna SÍ til Arion banka hf. og Seðlabanka Íslands en fyrir lá að þessir aðilar deildu við SÍ um uppgjör vegna yfirtöku þeirra á innstæðum hjá SÍ. Í dómi héraðsdóms var talið að hvað sem liði þessum ágreiningi lægi fyrir að krafa SÍ á hendur SM væri ekki meðal þeirra eigna sem ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tók til. Af þessum sökum yrði ekki fallist á það með SM að SÍ hefði misst forræði á kröfunni. Héraðsdómur hafnaði þess vegna að kröfu SÍ um fjárnám yrði hrundið og staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð með vísan til forsendna hans. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. nóvember 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hrundið yrði ákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi 20. júlí 2010 um fjárnám í eignum sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hrundið verði framangreindri ákvörðun sýslumanns. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í úrskurði héraðsdóms greinir frá því að Fjármálaeftirlitið hafi 23. desember 2009 breytt fyrri ákvörðun sinni 21. mars sama ár um ráðstöfun eigna og skulda varnaraðila með þeirri skýringu að forsendur fyrri ákvörðunar hafi breyst. Með síðari ákvörðun sinni lagði stofnunin fyrir skilanefnd varnaraðila að flytja tilteknar eignir til Seðlabanka Íslands og Nýja Kaupþings banka hf., sem síðar varð Arion banki hf., til viðbótar þeim, sem áður höfðu verið færðar til þeirra sem endurgjald fyrir yfirteknar innlánaskuldbindingar. Meðal eigna varnaraðila, sem þannig skyldu afhentar öðrum, voru „önnur útlán til sparisjóða að fjárhæð u.þ.b. 452 m.kr. sem ekki voru flutt yfir.“ Í bréfi Fjármálaeftirlitsins, þar sem þessari ákvörðun er lýst, kemur fram að umrædd krafa er vegna útlána varnaraðila til þriggja nafngreindra sparisjóða, en sóknaraðili er ekki meðal þeirra. Með þessari skýringu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sparisjóður Mýrasýslu, greiði varnaraðila, Sparisjóðabanka Íslands hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.                                       

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. nóvember 2010.

Mál þetta var þingfest 26. ágúst 2010 og tekið til úrskurðar 29. október sama ár. Sóknaraðili er Sparisjóður Mýrasýslu, Digranesgötu 2 í Borgarnesi, en varnaraðili er Sparisjóðabanki Íslands hf., Rauðarárstíg 27 í Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að hrundið verði kröfu varnaraðila um fjárnám í eignum sóknaraðila. Jafnframt gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að aðfarargerðinni hjá sóknaraðila verði fram haldið og sóknaraðila gert að greiða málskostnað.

I

Um mitt ár 2008 var eigið fé sóknaraðila komið undir lögbundin mörk fjármálafyrirtækja og var því gripið til ráðstafana í samráði við stærstu lánardrottna í því skyni að endurskipuleggja fjárhaginn. Meðan á þessu stóð var gert samkomulag við stærstu kröfuhafa um frystingu á greiðslum, en aðgerðirnar miðuðu að því að Arion banki hf. (þá Nýi Kaupþings banki hf.) yfirtæki starfsemi sóknaraðila. Hinn 3. apríl 2009 gerðu Arion banki hf. og sóknaraðili með sér kaupsamning þar sem bankinn leysti til sín allar eignir sóknaraðila. Kaupin voru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins, en atbeini þess samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, var nauðsynlegur til að hrinda þessari ráðagerð í framkvæmd. Fyrir liggur að flestir stærstu lánardrottnar sóknaraðila, þar með talið varnaraðili, voru fylgjandi þessu uppgjöri.

Hinn 3. apríl 2009 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun í samræmi við kaupsamning sóknaraðila og Arion banka hf., sem gerður var sama dag. Í forsendum ákvörðunarinnar kemur meðal annars fram að fjárhagsleg endurskipulagning sóknaraðila feli í sér uppgjör á kröfum með tilteknu móti. Einnig er rakið að þessi endurskipulagning sé reist á því að nauðasamningur fyrir sóknaraðila komist á í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Þá er í forsendunum vikið að kaupsamningi sóknaraðila og Arion banka hf. og tekið fram að sá samningur feli í sér að Arion banki hf. kaupi rekstur og eignir sóknaraðila gegn því að yfirtaka forgangskröfur samkvæmt 111. og 112. gr. laga nr. 21/1991, auk þess sem bankinn skuldbindi sig til að greiða sóknaraðila fjármuni og hlutafé til að standa lánardrottnum skil samkvæmt þeirri tillögu sem meginþorri þeirra hafi samþykkt og gert sé ráð fyrir að verði staðfestur sem nauðasamningur. Á þessum grundvelli tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002 um að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar sóknaraðila og ákvað meðal annars að Arion banki hf. yfirtæki í einu lagi þau réttindi og eignir sem kaupsamningur bankans og sóknaraðila gerði ráð fyrir. Jafnframt var ákveðið að bankinn tæki yfir skuldbindingar sóknaraðila, en í því fólst að bankinn yfirtók veðkröfur og forgangskröfu samkvæmt 111. gr. og 112. gr. laga nr. 21/1991 og almennar kröfur með því móti og að því marki sem greindi í kaupsamningnum. Meðal almennra krafna á hendur sóknaraðila voru kröfur varnaraðila. Fjármálaeftirlitið gerði síðan breytingu á þessari ákvörðun 15. júní 2009 að því er varðaði greiðslufyrirkomulag.

Hinn 27. apríl 2009 var sóknaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar og 2. júlí sama ár skipaði Fjármálaeftirlitið sparisjóðunum bráðabirgðastjórn í samræmi við reglur laga nr. 161/2002. Samkvæmt kaupsamningi Arion banka hf. við sóknaraðila hafði bankinn skuldbundið sig til að greiða almennum kröfuhöfum sóknaraðila 67,6% krafna ef nauðasamningur kæmist á fyrir sóknaraðila. Á þeim grundvelli var óskað eftir heimild til að leita nauðasamnings og var sú heimild veitt 30. september 2009. Tilskilinn meirihluti lánardrottna samþykkti frumvarp sóknaraðila að nauðasamningi og var samningurinn staðfestur með úrskurði dómsins 15. desember sama ár. Samkvæmt samningnum kom fyrrgreint hlutfall almennra krafna til greiðslu þannig að 11,3% yrðu greidd með hlutabréfum í Arion banka hf., sem átti að afhenda 31. desember 2009. Ef bréfin yrðu ekki afhent á þeim degi átti þessi greiðsla að breytast í peningakröfu til greiðslu sama dag. Til viðbótar átti að greiða 3,1% af kröfunni með peningum 30 dögum eftir staðfestingu samningsins. Loks átti að greiða 53,2% krafna með skuldabréfi útgefnu af Arion banka hf. með nánar tilgreindum skilmálum.

II

Þegar eigið fé sóknaraðila fór undir lögboðin mörk haustið 2008 var það sama uppi á teningnum hjá varnaraðila. Af því tilefni veitt Fjármálaeftirlitið varnaraðila ítrekað frest til að bæta úr í samráði við lánardrottna. Fór svo að bankaráð varnaraðila óskaði eftir því að Fjármálaeftirlitið gripi til úrræða samkvæmt lögum nr. 161/2002. Samkvæmt þessu og á grundvelli 100. gr. a laganna tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 21. mars 2009 um að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og ákvað meðal annars að Seðlabanki Íslands tæki yfir skuldbindingar varnaraðila vegna innistæðu sparisjóða en Arion banki hf. tæki yfir skuldbindingar vegna annarra innistæðna. Á þessu voru þó gerðar ákveðnar takmarkanir sem óþarft er að rekja nánar hér. Endurgjald fyrir yfirtöku á innlánsskuldbindingum var ákveðið þannig að varnaraðili framseldi útlán sín til sparisjóða alls að fjárhæð um 10,7 milljarðar króna auk skuldabréfakröfu á hendur Byr-sparisjóði að fjárhæð 2,75 milljarðar króna eða samtals um 13,45 milljarðar króna. Viðtakendur þessarar greiðslu voru Arion banki hf. og Seðlabanki Íslands, en bankarnir áttu að annast uppgjör sín á milli og standa varnaraðila skil á mismun á milli yfirtekinna skuldbindinga og eigna ef einhver var. Í niðurlagi ákvörðunarinnar var svohljóðandi fyrirvari:

Ákvörðun þessi byggir á fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum. Reynist hún byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, forsendur ákvörðunarinnar bregðast verulega eða Fjármálaeftirlitið telur að önnur skipan mála sé nauðsynleg getur Fjármálaeftirlitið gert hvers konar breytingar á ákvörðun þessari, þ.m.t. að fella hana úr gildi í heild eða að hluta, eða fresta einstökum þáttum hennar.

   

Hinn 3. apríl 2009 ritaði bankastjóri Arion banka hf. bréf til fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins og óskaði eftir viðræðum um hvernig tryggja mætti að bankinn yrði ekki fyrir tjóni reyndust eignirnar ekki nægja til að standa undir yfirteknum skuldbindingum. Afrit af þessu bréfi var sent til skilanefndar varnaraðila og Seðlabanka Íslands. Ekki liggur fyrir í málinu hvort þessu erindi var svarað.

Slitameðferð á búi varnaraðila hófst 22. apríl 2009 og var honum skipuð slitastjórn 19. maí sama ár af Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hinn 21. október 2009 ritaði Fjármálaeftirlitið bréf til varnaraðila í kjölfar fundar með Fjármálaeftirlitinu og fulltrúum skilanefndar og slitastjórnar varnaraðila um yfirteknar innlánsskuldbindingar hjá varnaraðila. Í bréfinu kom fram að vafi léki á raunverulegu verðmæti endurgjaldsins, enda einungis miðað við bókfærða stöðu krafna á ákvörðunardegi 21. mars 2009. Í bréfinu var þetta rakið nánar í einstökum atriðum og tekið fram að upphaflegar forsendur ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins kynnu að hafa breyst. Af þeim sökum hefði Fjármálaeftirlitið í hyggju að taka til endurskoðunar ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda varnaraðila. Í ljósi þessarar óvissu um verðmæti eigna þyrfti að láta meta þær og eftir atvikum að ráðstafa frekari eignum ef mat gæfi til kynna að verðmæti eignanna væri minna en þær skuldbindingar sem við var tekið. Áður var aðilum þó gefinn kostur á að ná samkomulagi um endurgjaldið og veittur frestur í því skyni til 21. nóvember 2009. Ella yrði aflað verðmats á yfirteknum eignum og eftir atvikum tekin ákvörðun um viðbótarendurgjald á grundvelli þess mats.

Varnaraðili svaraði erindi Fjármálaeftirlitsins með bréfi 24. nóvember 2008, en þar var því haldið fram að varnaraðili hefði fullnægt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 með yfirfærslu skuldbindinga og greiðslu endurgjaldsins. Afhendingin hefði farið fram 27. apríl sama ár og móttaka endurgjaldsins verið staðfest af Seðlabanka Íslands 28. sama mánaðar án fyrirvara af hálfu viðtakenda. Einnig var tekið fram að ákvörðun fjármálaeftirlitsins hefði augljóslega verið reist á þeirri forsendu að andvirði endurgjaldsins hefði á þeim tíma verið ríflegt, enda aðeins gert ráð fyrir að standa ætti varnaraðila skil á mismuni. Þá var því haldið fram að það færi í bága við meginreglur gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og reglur um slitameðferðina að ráðstafa meira af eignum varnaraðila til að bæta viðtakendum endurgjaldsins hugsanlegan mismun milli yfirtekinna eigna og skuldbindinga. Einnig var tekið fram að Seðlabanki Íslands hefði af þessu tilefni lýst kröfu við slitameðferðina, en það væri að mati varnaraðila réttur vettvangur til að leysa úr þessum ágreiningi. Loks var tekið fram að mat á eignum væri ýmsum vandkvæðum bundið.

Hinn 23. desember 2009 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda varnaraðila til Arion banka hf. og Seðlabanka Íslands. Í ákvörðuninni er rakið að forsendur fyrri ákvörðunar hafi breyst nokkuð frá upphaflegri ákvörðun 21. mars 2009 sökum þess að innistæðuskuldbindingar hjá varnaraðila hefðu hækkað verulega, auk þess sem ekki hefðu verið yfirfærðar frá varnaraðila allar þær eignir sem gert var ráð fyrir. Í niðurlagi ákvörðunarinnar segir svo:

 

Ljóst er af fyrri ákvörðun eftirlitsins og þeim ákvæðum laga nr. 125/2008 sem hún byggði á að móttakandi þeirra skuldbindinga sem Fjármálaeftirlitið mælir fyrir um að verði fluttar frá fjármálafyrirtæki á að vera skaðlaus af þeirri aðgerð, þ.e. hann á að fá í hendur verðmæti sem duga til að mæta þeim skuldbindingum sem til hans eru fluttar, hvorki hærri né lægri.

Fjármálaeftirlitið telur að ákvörðunin hafi ekki verið að öllu leyti framkvæmd á fullnægjandi máta og í samræmi við þær forsendur sem fyrir lágu í upphafi. Fjármálaeftirlitið leggur það því fyrir skilanefnd Sparisjóðabanka Íslands að flytja til samræmis við fyrri ákvörðun eftirtalda eignaliði yfir til viðtakenda endurgjaldsins:

Öll útlán Sparisjóðabankans til Sparisjóðsins í Keflavík að fjárhæð u.þ.b. 490 m.kr., en þau voru áætluð u.þ.b. 470 m.kr. í upphaflegri ákvörðun.

Önnur útlán til sparisjóða að fjárhæð u.þ.b. 452 m.kr. sem ekki voru flutt yfir.

Þá telur Fjármálaeftirlitið að viðtakandi endurgjaldsins eigi rétt til þeirra eigna sem eru á svokölluðum stórgreiðslureikningi og IG reikningum Sparisjóðabankans hjá Seðlabanka Íslands sem hafa komið til vegna innlána viðskiptavina á innlánsreikningum þeirra hjá Sparisjóðabankanum á tímabilinu 21. mars 2009 og þar til sömu reikningar voru fluttir yfir til Nýja Kaupþings baka hf. (nú Arion banki hf.), Byrs sparisjóðs eða Seðlabanka Íslands enda hækkuðu þessi innlán yfirteknar innlánsskuldbindingar viðtakanda þeirra án frekara endurgjalds. Sparisjóðabankanum er falið að greina þessar eignir í samráði við Seðlabanka Íslands.

Með bréfi 13. janúar 2010 andmælti varnaraðili ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Til stuðnings því var vísað til þess að móttaka endurgjaldsins hefði verið staðfest án fyrirvara. Jafnframt var því haldið fram að breyttar forsendur eftir að upphafleg ákvörðun Fjármálaeftirlitsins kom til framkvæmda væru á áhættu viðtakanda endurgjaldsins. Þá kom fram að skilanefnd varnaraðila teldi sig ekki hafa heimild til að ráðstafa eignum í samræmi við fyrirmæli Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt væri um að ræða málefni sem leysa yrðu úr á vettvangi slitameðferðarinnar.

Hinn 5. febrúar 2010 lýsti Arion banki hf. yfir skuldajöfnuði með gagnkröfu samkvæmt víxli í kerfi Verðbréfaskráningar Íslands hf. að fjárhæð samtals 5.470.564.786 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði til efnda á ógreiddum kröfum varnaraðila samkvæmt nauðasamningi sóknaraðila. Nánar tiltekið var um að ræða kröfu um skuldabréf frá Arion banka hf. og kröfu um peningagreiðslu sem inna átti af hendi í stað hlutabréfa í bankanum.

III

Með bréfi 7. apríl 2010 krafðist varnaraðili greiðslu samkvæmt nauðasamningi úr hendi sóknaraðila. Var um að ræða peningagreiðslu sem koma átti í stað hlutabréfa í Arion banka hf. Fjárhæð kröfunnar nemur 52.508.998 krónum og svarar það til 11,3% af kröfu varnaraðila. Þessari kröfu var hafnað með bréfi lögmanns Arion banka hf. 25. apríl 2010, en röksemdum sem bankinn setti fram í því erindi svaraði varnaraðili með bréfi 18. maí sama ár.

Með aðfararbeiðni 4. júní 2010 krafðist varnaraðili þess að sýslumaðurinn í Borgarnesi gerði fjárnám hjá sóknaraðila fyrir kröfunni á grundvelli aðfararheimildar í 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Með beiðninni fylgdi úrskurður dómsins frá 15. desember 2009 um staðfestingu nauðasamnings fyrir sóknaraðila og yfirlit yfir samþykktar kröfur við nauðasamningsumleitanir, en þar á meðal er krafa varnaraðila að fjárhæð 464.681.400 krónur.

Hinn 20. júlí 2010 var aðfararbeiðnin tekin á skrifstofu sýslumanns að viðstöddum lögmönnum aðila. Af hálfu sóknaraðila var aðförinni mótmælt með þeim rökum að sóknaraðili væri rangur aðili að gerðinni þar sem Arion banki hf. hefði yfirtekið skuldbindingar sóknaraðila. Auk þess var því haldið fram að varnaraðili væri ekki réttur viðtakandi greiðslunnar í ljósi ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um að ráðstafa eignum varnaraðila. Fulltrúi sýslumanns, sem fór með gerðina, tók þessi andmæli ekki til greina og taldi að fullnægt væri skilyrðum til að gerðin mætti fara fram, en færði síðan í gerðarbók svohljóðandi ákvörðun:

Fulltrúi sýslumanns ákveður, að með tilliti til aðstæðna allra og þess hvaða aðilar eru í málinu, að gerðinni skuli frestað. Fyrir slíkri frestun samkvæmt einhliða ákvörðun fulltrúa sýslumanns er sérstök heimild í 2. mgr. 85. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, sem gengur framar almennu reglunni í 4. mgr. 27. gr. sömu laga. Ákveður hann að fresta gerðinni til þriðjudagsins 14. september 2010, kl. 11.30, en þá verður henni fram haldið, eða síðar samkvæmt ákvörðun fulltrúa sýslumanns ef henni verður skotið til héraðsdóms samkvæmt reglum þar að lútandi. Lögmaður gerðarbeiðanda mótmælir frestuninni og áskilur sér rétt til að skjóta ágreiningi um ákvörðunina um að fresta málinu til héraðsdóms. Lögmaður gerðarþola lýsir því yfir, með tilvísun til 2. mgr. 85. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, að gerðarþoli muni krefjast úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun fulltrúa sýslumanns um að skilyrði laga til að gerðin megi fram fara séu uppfyllt, samkvæmt 14. kafla aðfararlaga. Gerðarþoli krefst þess að ákvörðun fulltrúa sýslumanns verði felld úr gildi og úrskurðað verði að lagaskilyrði til að gerðin megi fara fram séu ekki uppfyllt, .... Gerðarþoli áskilur sér rétt til að setja fram frekari útskýringar, málsástæður og lagarök fyrir héraðsdómi. Gerðarbeiðandi krefst þess að ákvörðun fulltrúa sýslumanns um að lagaskilyrði til að gerðin megi fara fram séu uppfyllt, verði staðfest, ... Að öðru leyti áskilur gerðarbeiðandi sér rétt til að setja fram frekari útskýringar, málsástæður og lagarök fyrir héraðsdómi.

Með bréfi sóknaraðila 26. júlí 2010 var krafist úrlausnar dómsins um ákvörðun sýslumanns um að gerðin mætti fara fram, auk þess sem dóminum voru send gögn málsins. Málið var síðan þingfest 26. ágúst svo sem áður greinir.

IV

Sóknaraðili vísar til þess að uppgjör samkvæmt nauðasamningi fyrir hann fari þannig fram að Arion banki hf. greiði kröfur samkvæmt samningnum til lánardrottna, þar með talið varnaraðila. Um þetta fyrirkomulag hafi varnaraðila verið kunnugt frá upphafi og af hans hálfu hafi verið fallist á það á kröfuhafafundi 26. mars 2009 og með tölvupósti sama dag. Einnig vísar sóknaraðili til þess að komið hafi glögglega fram í aðdraganda nauðasamningsumleitana að greiðsla kaupverðs frá Arion banka hf., sem myndar grunn að nauðasamningnum, væri bundin því að samningurinn kæmist á. Varnaraðili hafi ekki hreyft neinum athugasemdum gegn þessu, enda hafi hann verið fylgjandi tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu sóknaraðila í samstarfi við Arion banka hf. og greitt atkvæði með nauðasamningnum, sem byggði á kaupsamningi sóknaraðila og Arion banka hf. Með þessu telur sóknaraðili að varnaraðili hafi samþykkt að Arion banki hf. yfirtæki skuldbindingu sóknaraðila gagnvart varnaraðila samkvæmt nauðasamningnum. Telur sóknaraðili að þetta hafi verið öllum lánardrottnum ljóst og því beri þeim að beina kröfum sínum að Arion banka hf.

Jafnframt heldur sóknaraðili því fram að ákvörðun Fjármálaeftirlitins frá 3. apríl 2009 um yfirtöku Arion banka hf. á skuldbindingum sóknaraðila hafi falið í sér skuldaraskipti gagnvart lánardrottnum, þar með talið varnaraðila. Því skipti í raun ekki máli hvort varnaraðili hafi fallist á skuldaraskiptin þar sem þau leiði beint af bindandi stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Samkvæmt framansögðu telur sóknaraðili að varnaraðili ætti að réttu lagi að beina kröfu sinni að Arion banka hf. Af þeim sökum beri að hafna kröfu um fjárnám hjá sóknaraðila vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og 3. gr. laga um aðför nr. 90/1989.  

Þá reisir sóknaraðili kröfu sína á því að varnaraðili sé ekki réttur viðtakandi greiðslu samkvæmt nauðasamningi sóknaraðila. Til stuðnings því vísar sóknaraðili til ákvarðana Fjármálaeftirlitsins 21. mars og 23. desember 2009 um ráðstöfun eigna varnaraðila til Arion banka hf. og Seðlabanka Íslands. Um sé að ræða stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en ákvarðanirnar eigi lagastoð í 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008. Einnig bendir sóknaraðili á að forsendur þessara ákvarðana séu, eins og beinlínis komi fram í síðari ákvörðuninni, að móttakandi þeirra skuldbindinga sem Fjármálaeftirlitið mælir fyrir um að verði fluttar frá fjármálafyrirtæki eigi að vera skaðlaus af þeirri aðgerð. Í því felist að viðtakandi eigi að fá í hendur verðmæti sem duga til að mæta þeim skuldbindingum sem til hans eru fluttar. Þessu hafi varnaraðili hins vegar hafnað þrátt fyrir bindandi stjórnvaldsákvarðanir og telur sóknaraðili einu gilda í því tilliti þótt varnaraðili sé undir stjórn slitastjórnar eða skilanefndar. Á meðan varnaraðili hafi ekki fullnægt þessum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins telur sóknaraðili að krafa varnaraðila samkvæmt nauðasamningi, ásamt öðrum eignum varnaraðila, sé undirorpin eignarrétti Arion banka hf. og Seðlabanka Íslands. Af þeim sökum sé sóknaraðila, sem er grandsamur um ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins, ókleift að efna kröfu varnaraðila án þess að fyrir liggi staðfesting um að fullnægjandi endurgjald hafi verið innt af hendi af hálfu varnaraðila.

V

Varnaraðili andmælir því að fyrir hendi sé lagaheimild fyrir sýslumann til að fresta aðfarargerð á hendur varnaraðila á grundvelli nauðasamnings, eins og sýslumaður gerði 20. júlí 2010. Telur varnaraðili að slíka heimild sé ekki að finna í 2. mgr. 85. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, og því hefði gerðin að réttu lagi átt að ná fram að ganga. Þegar af þessari ástæðu telur varnaraðili að taka beri til greina kröfu hans um að gerðinni verði fram haldið.

Varnaraðili bendir á að málsaðilar deili ekki um að Arion banki hf. hafi keypt eignir sóknaraðila og að bankinn eigi að greiða sóknaraðila endurgjald fyrir þær eignir. Þetta breyti þó engu um ótvíræðan nauðasamnings sóknaraðila, sem feli í sér skuldbindingu gagnvart varnaraðila, en í því tilliti gildi einu þótt bankanum beri samkvæmt kaupsamningi að leggja til fé, sem ráðstafa eigi til efnda á nauðasamningnum. Telur varnaraðili að þessi innbyrðis viðskipti sóknaraðila og Arion banka hf. séu sér óviðkomandi, auk þess sem það hafi engin áhrif á skuldbindingu sóknaraðila þótt bankinn hafi vanefnt þetta samkomulag. Einnig bendir varnaraðili á að nauðasamningur fyrir sóknaraðila hafi verið staðfestur 15. desember 2009 eftir að eignum sóknaraðila var ráðstafað til Arion banka hf. og Fjármálaeftirlitið tók ákvarðanir sínar og því geti þau atvik ekki haft nein áhrif á samninginn eða túlkun hans. Þá telur varnaraðili engu skipta í þessu tilliti hvað bókað var á fundum með kröfuhöfum í aðdraganda þess að nauðasamningur komst á og vefengir varnaraðili þær fundargerðir.

Varnaraðili heldur því fram að engin heimild hafi staðið til einhliða skuldaraskipta, sem ekkert komi fram um í nauðasamningi skuldara, auk þess sem slík ráðstöfun færi í bága við þær lagareglur sem gilda um nauðasamninga. Þar fyrir utan mótmælir varnaraðili því að í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins felist skuldskeyting, sem hann sé bundinn af, enda hafi Fjármálaeftirlitið ekki heimild að lögum til að taka slíka ákvörðun. Af þessu leiði að fjárnáminu hafi með réttu verið beint að sóknaraðila á grundvelli nauðasamnings fyrir hann.

Varnaraðili mótmælir því að uppgjör við Arion banka hf. og Seðlabanka Íslands vegna yfirtöku á innistæðum hjá varnaraðila hafi áhrif á skuldbindingu sóknaraðila, enda eigi hann enga aðild að þeim ágreiningi. Tekur varnaraðili fram í því sambandi að sóknaraðili sé sjálfstæður lögaðili sem hafi ekki runnið saman við Arion banka hf. Einnig bendir varnaraðili á að Seðlabanki Íslands hafi tekið við endurgjaldinu fyrir sína hönd og Arion banka hf. án fyrirvara. Þar fyrir utan verði ekki leyst úr ágreiningi um endurgjaldið nema á vettvangi slitameðferðar varnaraðila, enda geti Fjármálaeftirlitið ekki lögum samkvæmt ráðstafað eignum varnaraðila eftir upphaf slitameðferðar sem hófst 22. apríl 2009. Verði á hinn bóginn talið að Arion banki hf. eigi kröfu á hendur varnaraðila, sem eigi erindi inn í mál þetta, sé þess að gæta skilyrðum skuldajafnaðar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sé ekki fullnægt, enda hafi krafa bankans ekki stofnast áður en þrír mánuðir voru til frestdags varnaraðila 15. desember 2008. Þá andmælir varnaraðili því að leitt hafi verið í ljós að Arion banki hf. hafi orðið fyrir tjóni vegna yfirtöku á innistæðum varnaraðila, enda liggi ekki fyrir nein gögn því til stuðnings. Loks telur varnaraðili haldlaust með öllu að krafa varnaraðila sem og aðrar eignir séu háðar eignarrétti Arion banka hf. og Seðlabanka Íslands, auk þess sem ekki sé á forræði sóknaraðila að halda slíku fram til varnar gegn fjárnáminu.

VI

Við fyrirtöku á aðfararbeiðni varnaraðila 20. júlí 2010 féllst sýslumaður ekki á andmæli sóknaraðila og færði til bókar að fyrir hendi væru skilyrði til að gerðin næði fram að ganga. Hins vegar tók sýslumaður ákvörðun um að fresta gerðinni svo aðilum gæfist kostur á að vísa ágreiningnum til dómsins. Í kjölfarið krafðist sóknaraðili, sem var gerðarþoli við aðförina, úrlausnar dómsins.

Samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, er gerðarþola heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um einstakar ákvarðanir sýslumanns um aðfarargerð, meðan henni er ólokið, ef gerðinni hefur verið frestað í kjölfar ákvörðunarinnar. Svo sem hér hefur verið rakið frestaði sýslumaður gerðinni í kjölfar þess að hafa tekið ákvörðun um að gerðin mætti fara fram. Án tillits til þess hvort efni hafi staðið til að fresta gerðinni við svo búið verður ákvörðunin borin undir dóminn eftir ótvíræðu orðalagi umræddrar lagagreinar, enda hafði sóknaraðili uppi kröfu þess efnis við sýslumann áður en lengra var haldið við gerðina. Verður þá ekki fallist á það með varnaraðila að skýra eigi ákvæðið með öðru móti í ljósi lögskýringargagna.

Hinn 3. apríl 2009 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstafanir í samræmi við kaupsamning sóknaraðila og Arion banka hf. (þá Nýi Kaupþings banki hf.). Krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila er almenn krafa, en um þær segir í ákvörðuninni að þær kröfur verði greiddar með þeim hætti og að því marki sem greinir í kaupsamningi bankans og sóknaraðila. Einnig kemur fram í forsendum þessarar ákvörðunar að bankinn hafi skuldbundið sig til að greiða sóknaraðila fjármuni og hlutafé til að standa lánardrottnum skil samkvæmt þeirri tillögu sem meginþorri þeirra hafi samþykkt og gert sé ráð fyrir að verði staðfest sem formlegur nauðasamningur. Að þessu virtu verður með engu móti talið að Fjármálaeftirlitið hafi tekið ákvörðun sem fæli í sér skuldaraskipti þannig að Arion banki hf. hafi tekið við skuldbindingum sóknaraðila og að sóknaraðili hafi að sama skapi verið leystur undan kröfum lánardrottna. Þarf þá ekki að skera úr um hvort Fjármálaeftirlitið hafi yfir höfuð heimild að lögum til að taka ákvörðun af því tagi. Jafnframt verður ekki fallist á það með sóknaraðila að varnaraðili hafi í tölvupósti 26. mars 2009 samþykkt skuldaraskipti þótt því hafi verið lýst yfir að varnaraðili féllist á tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu sóknaraðila og samruna við Arion banka hf. Samkvæmt þessu er sóknaraðili skuldbundinn gagnvart varnaraðila samkvæmt þeim nauðasamningi sem var staðfestur hér fyrir dómi 15. desember 2009. Aðfarar verður því krafist hjá sóknaraðila samkvæmt hljóðan aðfararheimildar, sbr. 3. gr. og 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför.

Í málinu liggur fyrir að deila hefur risið milli Arion banka hf. og Seðlabanka Íslands annars vegar og varnaraðila hins vegar um uppgjör vegna yfirtöku fyrrgreindra banka á innistæðum hjá varnaraðila. Telur varnaraðili að þessu uppgjöri hafi lokið með fyrirvaralausri móttöku Seðlabanka Íslands á endurgjaldinu fyrir sína hönd og Arion banka hf. Aftur á móti er því haldið fram af hálfu bankanna að þeir hafi ekki farið skaðlausir frá þessum viðskiptum og því hefur Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun 23. desember 2009 þar sem lagt er fyrir skilanefnd varnaraðila að færa tilteknar eignir til viðtakenda endurgjaldsins. Við þessum tilmælum hefur varnaraðili ekki orðið. Hvað sem líður þeim ágreiningi varnaraðila og Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir að krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila var ekki meðal þeirra eigna sem ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tók til. Þegar af þeim sökum verður ekki fallist á það með sóknaraðila að varnaraðili sé ekki réttur viðtakandi greiðslu, enda verður ekki fallist á það með sóknaraðila að varnaraðili hafi misst forræði á kröfunni vegna þess ágreinings sem hér hefur verið lýst.    

Samkvæmt framansögðu verður ekki tekin til greina krafa sóknaraðila um að hrundið verði kröfu varnaraðila um fjárnám í eignum sóknaraðila.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir. Er þá ekki fallist á það með varnaraðila að efni séu til að úrskurða álag á málskostnað þar sem hafðar hafi verið uppi kröfur, staðhæfingar og mótbárur, sem sóknaraðili vissi eða mátti vita að væru haldlausar, sbr. c-liður 1. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Sparisjóðs Mýrasýslu, um að hrundið verði kröfu varnaraðila, Sparisjóðabanka Íslands hf., um fjárnám í eignum sóknaraðila.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.