Hæstiréttur íslands
Mál nr. 7/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 13. febrúar 2014. |
|
Nr. 7/2014.
|
Þrotabú Jafets Ólafssonar (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Veigi ehf. (Skúli Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi tiltekinni fjárkröfu þrotabús J á hendur V ehf., sem var aðalkrafa þrotabúsins í málinu, en hafnað kröfu um frávísun á varakröfu þess. Í málinu krafðist þrotabúið þess aðallega að V ehf. yrði gert að greiða því tiltekna fjárkröfu en til vara að rift yrði greiðslu J að sömu fjárhæð sem fram fór sama dag og að V ehf. yrði dæmt til að greiða þrotabúinu sömu fjárhæð auk dráttarvaxta. Héraðsdómur taldi rökstuðning þrotabúsins fyrir aðalkröfu þess ekki fullnægja skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá væri lagalegur grundvöllur aðalkröfunnar ekki nægilega rökstuddur þar sem vísað væri einvörðungu með almennum hætti til reglna kröfuréttar og skaðabótaréttar henni til stuðnings. Skorti því verulega á að grundvöllur aðalkröfunnar hafi verið skýrður með þeim hætti að V ehf. gæti varist henni á fullnægjandi hátt og bæri að vísa henni frá dómi með vísan til e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins kærða úrskurðar með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2013 þar sem vísað var frá dómi tiltekinni fjárkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem var aðalkrafa hans í málinu. Hafnað var kröfu um frávísun á varakröfu sóknaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka aðalkröfu hans í málinu til löglegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, þrotabú Jafets Ólafssonar, greiði varnaraðila, Veigi ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2013.
Stefnandi, þrotabú Jafets Ólafssonar, Aðalstræti 6, Reykjavík, höfðaði mál þetta 12. september 2012 á hendur stefnda Veigi ehf., kt. [...], Langagerði 26, Reykjavík. Málið var tekið til úrskurðar 16. október sl. að loknum munnlegum flutningi um frávísunarkröfu stefnda. Stefnandi krefst þess að kröfu stefnda um frávísun verði hafnað og að stefnda verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu vegna þessa þáttar málsins. Stefndi krefst einnig málskostnaðar að mati dómsins vegna þessa þáttar málsins.
Dómkröfur stefnanda eru svohljóðandi: Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. júlí 2011 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins. Til vara krefst stefnandi þess að rift verði greiðslu Jafets Ólafssonar til stefnda að fjárhæð 4.000.000 króna er fram fór þann 4. júlí 2011. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. nóvember 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins með hliðsjón af málskostnaðarreikningi sem áskilinn er réttur til að leggja síðar fram.
I
Í stefnu er því lýst að bú Jafets Ólafssonar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 6. júlí 2011. Þorsteinn Einarsson hrl. hafi verið skipaður skiptastjóri sama dag. Héraðsdómi hafi borist krafa um gjaldþrotaskipti á búi þrotamanns 22. mars 2011 sem sé því frestdagur. Innköllun hafi birst í fyrra sinn í Lögbirtingarblaðinu 13. júlí 2011 og kröfulýsingarfresti því lokið 13. september 2011. Kröfum samtals að fjárhæð 958.166.856 krónur hafi verið lýst í þrotabúið. Stefndi sé nákominn þrotamanni, sbr. 3. gr. laga nr. 21/1991, en eiginkona þrotamanns og börn séu eigendur alls hlutafjár í félaginu. Athugun skiptastjóra á málefnum búsins hafi leitt ljós að 4. júlí 2011, eða rétt tveimur dögum fyrir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar og rúmum þremur mánuðum eftir frestdag við skiptin, hafi þrotamaður millifært 4.000.000 króna af reikningi sínum nr. 505050 í Íslandsbanka hf. yfir á reikning stefnda.
Stefnandi segir að í ljós hafi komið að um hafi verið að ræða fjármuni sem þrotamaður hafi verið eigandi að sem kröfuhafi á Ferjuvað 13-15 ehf. Þrotamaður hafi á sínum tíma átt 10 skuldabréf áhvílandi á Ferjuvaði 13-15. Í nóvember 2010 hafi hluthafar í Ferjuvaði 13-15 ehf. framselt veðskuldabréf sín til félagsins, þar með talið Jafet Ólafsson. Á móti hafi verið gerðir lánssamningar við fyrri eigendur veðskuldabréfanna. Þrotamaður hafi því í nóvember 2010 framselt 10 skuldabréf sín til félagsins og í stað þeirra hafi komið 10 lánssamningar milli hans og félagsins þar sem félagið hafi skuldbundið sig til að greiða þrotamanni umsamda lánsfjárhæð.
Fasteignin að Ferjuvaði hafi verið seld sumarið 2011 fyrir um 80% af nafnverði skuldabréfa og söluverð eignarinnar hafi verið greitt seljanda í áföngum. Ferjuvarð 13-15 ehf. hafi greitt þrotamanni 4. júlí 2011 4.200.000 krónur sem hafi verið fyrsti hluti söluverðs eignarinnar, sem greitt hafi verið hluthöfum og lánveitendum. Þrotamaður, sem hafi verið eigandi kröfu samkvæmt lánssamningum, hafi móttekið fyrrgreinda greiðslu og millifært þegar til stefnda. Eftir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrot Jafets hafi komið í ljós að þrotamaður hafi freistað þess fyrir hönd stefnda að fá móttekna fjármuni í eigu þrotabúsins á grundvelli lánssamninga þrotamanns og Ferjuvaðs 13-15 ehf. Einnig sé upplýst að stjórnarmenn í stefnda, þrotamaður og eiginkona hans, Hildur Hermóðsdóttir, hafi krafist þess af forsvarsmanni Ferjuvaðs 13-15 ehf. að félagið gerði upp lánssamninga á milli félagsins og þrotmanns með því að leggja greiðslur inn á reikning stefnda. Því til stuðnings að stefndi væri réttur eigandi krafna samkvæmt lánssamningum hafi stjórnarmenn framvísað afriti kaupsamnings dagsettum 1. janúar 2010 milli stefnda og Jafets Ólafssonar. Þar segi að stefndi hafi keypt 10 skuldabréf af Jafet, hvert að nafnverði 4.500.000 krónur áhvílandi á Ferjuvaði 13-15, Reykjavík. Í samningnum sé kaupverð sagt hafa verið 31.000.000 krónur og í 3. gr. sé mælt fyrir um greiðslukjör. Undir þennan samning riti Hildur Hermóðsdóttir og Jafet Ólafsson fyrir hönd stefnda og Jafet Ólafsson sem seljandi skuldabréfanna.
Stefnandi telur fyrrgreindan kaupsamning vera marklausan og bera það skýrt með sér að um málamyndagerning sé að ræða sem gerður hafi verið í því skyni að koma verðmætum undan fullnustu kröfuhafa. Veðskuldabréfin, sem sögð hafi verið framseld með fyrrgreindum kaupsamningi, hafi ekki verið árituð um eignarhald stefnda á þeim. Þvert á móti segi í bréfunum sjálfum að Jafet Ólafsson hafi framselt bréfin til Ferjuvaðs ehf. þann 5. maí 2010 eða um fimm mánuðum eftir ætlað framsal bréfanna til stefnda. Í kjölfar framsals bréfanna til Ferjuvaðs 13-15 ehf. hafi félagið gengið frá lánssamningum þar sem félagið hafi skuldbundið sig til að endurgreiða þrotmanni andvirði veðskuldabréfa þeirra sem hann hafði framselt félaginu. Undir þá lánssamninga hafi þrotamaður ritað en ekki stefndi en stefndi hafi ekki verið aðili að lánssamningum þrátt fyrir fullyrðingu stjórnar stefnda um að stefndi hafi „keypt þessa hagsmuni“ á nýársdag 2010. Sú fullyrðing stjórnar stefnda sé ósannfærandi og í hrópandi mótsögn við gjörðir þrotmanns síðar þar sem þrotmaður framselji veðskuldabréf sín, undirriti lánssamninga við félagið og félagið skuldbindi sig til að endurgreiða þrotamanni fjárhæðir veðskuldabréfa en ekki stefnda. Eins og fyrr segi hafi stefndi freistað þess að innheimta lánssamninga á nafni þrotamanns eftir uppsögu gjaldþrotaúrskurðar en stefnandi hafi komist að þeim tilraunum stefnda. Ferjuvað 13-15 ehf. hafi hafnað kröfum stefnda og endurgreitt þrotabúinu fjármuni sem þrotabúið átti tilkall til samkvæmt lánssamningum.
Stefnandi kveðst telja að þrotamaður hafi gengið gegn hagsmunum þrotabúsins og kröfuhafa þess með því að sækja greiðslu til Ferjuvaðs 13-15 ehf. að fjárhæð 4.200.000 krónur og að millifæra 4. júlí 2011 4.000.000 króna af þeirri fjárhæð til stefnda sem ekki hafi átt lögvarða kröfu til fjárins.
Því er einnig lýst í stefnu að þrotamaður hafi mætt til skýrslugjafar hjá skiptastjóra 18. ágúst 2011, 7. mars 2012 og 25. maí 2012. Í skýrslutöku 18. ágúst 2011 hafi þrotamaður sagt að hann væri að mestu eignalaus. Þrotamaður hafi ekki upplýst skiptastóra um kröfur þrotabúsins á hendur Ferjuvaði 13-15 ehf. samkvæmt fyrrgreindum lánssamningum. Þrotamaður hafi sérstaklega verið spurður að því hvort hann hefði ráðstafað einhverjum eignum til nákominna, svo sem maka eða barna, síðastliðin tvö ár. Þrotamaður hafi þá upplýst að hann hefði afsalað 20% hlut sínum í Langagerði 26, Reykjavík, til eiginkonu sinnar árið 2008. Öðrum eignum hefði hann ekki ráðstafað til nákominna. Við skýrslugjöfina hafi þrotamaður lýst því yfir að hann myndi verða við kröfu skiptastjóra og senda honum yfirlit yfir ráðstöfun eigna sinna á tímabilinu 2008 til 2011. Það hafi þrotamaður ekki gert. Þrotamaður hafi því leynt stefnanda upplýsingum um fyrrgreindar kröfur á hendur Ferjuvaði 13-15 ehf.
Í stefnu er aðalkrafan rökstudd með eftirfarandi hætti: Stefnandi segir hana byggja á því að hann eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda um endurgreiðslu á þeim fjármunum sem þrotamaður hafi ranglega millifært til stefnda 4. júlí 2011. Stefndi hafi ekki átt lögvarða kröfu á hendur Ferjuvaði 13-15 ehf., hvorki þá né áður, enda hafi lánssamningar verið milli þrotamanns og félagsins. Þrotamaður, sem jafnframt hafi verið og sé forsvarsmaður stefnda, hafi fært fjármunina sem honum hafi verið greiddir sem lánveitanda samkvæmt lánssamningum yfir á reikning stefnda sem ekki hafi átt lögvarða kröfu til fjárins. Stefnandi telur að með fyrrgreindum gjörningi hafi þrotamaður og stefndi komið fyrrgreindum fjármunum undan skiptum þrotabúsins. Gjörningurinn hafi verið gerður í þágu hagsmuna Veigs ehf. sem með ólögmætum hætti hyggist hagnast á kostnað stefnanda. Þrotamaður og forsvarsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og því sé stefndi skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda. Skaðabótakrafa stefnanda nemi 4.000.000 króna, sem sé það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna háttsemi þrotmanns og stjórnar stefnda.
Stefnandi kveðst einnig telja svokallaðan kaupsamning, dagsettan 1. janúar 2010, vera til málamynda og því enga þýðingu hafa enda hafi þrotamaður löngu eftir gerð ætlaðs samnings undirritað samninga sem eigandi þeirra hagsmuna sem nú sé fullyrt að framseldir hafi verið til stefnda á nýársdag 2010.
Varakrafa stefnanda er rökstudd með eftirfarandi hætti: Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda sé þess krafist að greiðslu til stefnda verði rift með vísan til ákvæða laga nr. 21/1991. Fyrrgreind greiðsla þrotamanns til Veigs ehf. hafi átt sér stað löngu eftir frestdag. Þess sé krafist að greiðslunni verði rift með vísan til 139. gr. laga nr. 21/1991. Riftun byggi í fyrsta lagi á 2. mgr. 139. gr. laga 21/1991 og skilyrði riftunar samkvæmt þeirri lagagrein séu fyrir hendi. Greiðslan hafi verið gerð eftir frestdag, hún hafi hvorki verið nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar þrotamanns né eðlileg með tilliti til sameiginlegra hagsmuna kröfuhafa eða til að fullnægja daglegum þörfum. Krafan á hendur Ferjuvaði 13-15 ehf. hafi verið samkvæmt lánssamningum í eigu þrotamanns og greiðslan hafi verið lögð inn á reikning hans. Stefndi hafi ekki átt lögvarða kröfu til fjárins og því ljóst að greiðslan sé riftanleg með vísan til 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi þá skuld verið greidd stefnda, sem ekki hafi verið skilyrði til samkvæmt því ákvæði. Þá leggur stefnandi áherslu á grandsemi stefnda en þrotamaður hafi á þeim tíma, líkt og nú, verið stjórnarmaður í félaginu og framkvæmdastjóri.
Krafa stefnanda um riftun styðst jafnframt við meginreglu 131. gr. laga nr. 21/1991 en greiðsla þrotamanns til stefnda feli í raun í sér gjöf sem sé riftanleg samkvæmt fyrrgreindu ákvæði og jafnframt 139. gr. laganna.
Stefnandi byggir á því að framangreind greiðsla til stefnda sé einnig riftanleg á grundvelli almennu riftunarreglu 141. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni, hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem hafi leitt til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið kunnugt um ógjaldfærni þrotamanns enda þrotamaður stjórnandi félagsins. Þá var stefnda ljóst að ráðstöfunin var ótilhlýðileg eða mátti a.m.k. vita að svo var. Stefnandi telur öll skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 vera til staðar og því megi rifta gerningnum á þeim grunni einnig.
Stefnandi segir fjárkröfuna byggða á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 þar sem krafa um riftun sé reist á 131. gr. þeirra laga. Þá styðjist fjárkrafa hans á hendur stefndu við 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, þar sem krafa um riftun sé reist á 139. og 141. gr. þeirra laga. Stefnandi telur ljóst að stefndi hafi haft hag að hinni umdeildu greiðslu. Sú fjárhæð svari einnig til þess tjóns sem þrotabúið hafi orðið fyrir vegna ráðstöfunarinnar, þar sem samsvarandi eign sé ekki til reiðu í búinu til fullnustu kröfuhöfum. Einnig kveðst stefnandi telja ljóst að stefnda hafi vegna tengsla við þrotamann verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar og beri því að greiða búinu skaðabætur vegna þess tjóns sem það hafi orðið fyrir. Stefndi hafi ásamt þrotamanni sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og beri m.a. af þeim sökum að dæma stefndu til greiðslu fjárkröfu stefnanda.
Um lagarök almennt vísar stefnandi einkum til reglna kröfuréttar og skaðabótaréttar til stuðnings aðalkröfu sinni. Varakrafa stefnanda er byggð á ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, einkum 3. gr., 131. gr., 139. gr. 141. gr., 142. gr., 148. gr. og 194. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til reglna kröfuréttar og skaðabótaréttar. Krafa um dráttarvexti í aðalkröfu og varakröfu byggir á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.
II
Um atvik segir stefndi m.a. að Jafet Ólafsson hafi ákveðið að afsala framangreindum veðskuldabréfum til stefnda um áramótin 2009/2010. Hann hafi ekki haft bréfin undir höndum þegar kaupin hafi átt sér stað þar sem þau hafi verið vistuð í fjárvörslu hjá Auði Kapital ehf. og því hafi farist fyrir að rita á þau framsal enda hafi það ekki verið talið skipta máli eins og á hafi staðið. Um raunverulega sölu á bréfunum hafi verið að ræða en ekki málamyndagerning. Tilgangurinn hafi verið að nýta það skattalega tap sem líklega yrði á viðskiptunum. Um þetta hafi verið gerður skriflegur og vottfestur samningur 1. janúar 2010. Samningurinn sé í fullu gildi og honum hafi ekki verið hnekkt. Umdeild millifærsla að fjárhæð 4.000.000 króna hafi verið gerð vegna fjárkröfunnar sem stefndi hafi eignast á hendur Ferjuvaði ehf. en sjálf skuldabréfin hafi þá verið framseld félaginu eyðuframsali og þau þar með úr sögunni. Höfuðatriði sé að stefndi sé rétthafi greiðslunnar á grundvelli samnings aðila. Hvað stefnanda finnist um samninginn að öðru leyti verði stefnandi að eiga við sjálfan sig, engin ógildingar- eða riftunarkrafa sé höfð uppi í málinu.
Krafa stefnda um frávísun er á því reist að útilokað sé að festa hendur á málatilbúnaði stefnanda. Verulega skorti á samhengi milli krafna og málsástæðna og málatilbúnaðurinn sé að öðru leyti svo óskýr og andstæður 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum e. og f. lið 1. mgr., að erfitt sé að fóta sig í vörninni, sem hljóti að leiða til frávísunar.
Fjárkrafan í aðalkröfunni sé bæði algerlega órökstudd og óútfærð með lögfræðilegum hætti. Helst virðist hún vera einhvers konar sjálfstæð bótakrafa en ekki endurgreiðslukrafa. Bótakrafan hangi í lausu lofti því engin tilraun sé gerð til þess að sýna fram á bótagrundvöll, huglæg bótaskilyrði eða önnur bótaskilyrði, svo sem orsakasamband. Að krefjast bóta í sambandi við gjaldþrotaskipti, algerlega óháð riftun, standist enga skoðun og sé því mótmælt. Bóta verði ekki krafist með sjálfstæðum hætti eins og tilraun sé gerð til í aðalkröfu.
Þá sé varakrafan einnig ódómtæk sem hljóti að leiða til sýknu eða frávísunar. Krafan feli eingöngu í sér riftun á milligöngu um hluta greiðslunnar samkvæmt kaupsamningnum frá 1. janúar 2010 án þess að höfð sé uppi krafa um riftun þess samnings. Meðan ekki sé gerð krafa um riftun þess samnings sé hann að sjálfsögðu í fullu gildi. Efndir á þeim samningi, þ.e. greiðsla sem á honum sé byggð, verði ekki rift sjálfstætt meðan samningurinn standi. Líkja megi tilvikinu við það að þrotamaður hefði ráðstafað fasteign með einhverjum þeim hætti sem þrotabúið teldi riftanlegt. Í stað þess að láta á það reyna myndi þrotabúið láta það yfir sig ganga en freista þess að rifta sjálfstætt einstökum leigugreiðslum sem af fasteigninni stafi.
Einu gildi þó að stefnandi telji samkvæmt stefnu að samningurinn sé marklaus. Það breyti auðvitað ekki því að hann hafi hvorki uppi ógildingar- né riftunarkröfu af því tilefni. Stefndi telur að málatilbúnaði stefnanda, bæði í aðalkröfu og varakröfu, sé svo áfátt og sé svo óljós að ekki verði komist hjá frávísun málsins enda fái hann ekki séð hvernig hann fái ella varist. Lögmaður stefnda hélt því einnig fram við munnlegan flutning að kröfugerð stefnanda fæli í sér valkvæða kröfugerð andstætt almennum reglum réttarfars.
Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu andmælti lögmaður stefnanda framangreindum sjónarmiðum stefnda. Kröfugerð stefnanda væri í samræmi við 80. gr. laga nr. 91/1991 og málið væri tækt til efnismeðferðar.
III
Í máli þessu krefst stefnandi aðallega þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 4.000.000 króna auk dráttarvaxta frá 4. júlí 2011 til greiðsludags en til vara að rift verði greiðslu Jafets Ólafssonar til stefnda að sömu fjárhæð sem fram fór 4. júlí 2011 og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda sömu fjárhæð auk dráttarvaxta frá 4. nóvember 2011 til greiðsludags. Enda þótt þessar dómkröfur stefnanda miði báðar að sömu efnislegu niðurstöðunni verður ekki fallist á það með stefnda að þessi framsetning á þeim feli í sér svo óákveðna og óljósa kröfugerð að varði frávísun málsins. Ljóst er að varakrafan gengur skemur en aðalkrafan, þar sem krafist er dráttarvaxta skemur aftur í tímann en í aðalkröfu, auk þess sem í stefnu er gerður nægilega skýr greinarmunur á málsástæðum sem stefnandi styður þær við.
Samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Rökstuðningur stefnanda fyrir aðalkröfu fullnægir ekki þessu skilyrði þar sem í einu orðinu er byggt á því að stefnandi eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda um endurgreiðslu á þeim fjármunum sem þrotamaður hafi ranglega millifært á stefnda 4. júlí 2011 en í hinu að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda þar sem hann hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Lagalegur grundvöllur aðalkröfunnar er heldur ekki nægilega rökstuddur en stefnandi vísar einvörðungu með almennum hætti til reglna kröfuréttar og skaðabótaréttar kröfunni til stuðnings. Samkvæmt þessu skortir verulega á að grundvöllur aðalkröfu stefnanda hafi verið skýrður með þeim hætti að stefndi geti varist henni á fullnægjandi hátt. Ber því að vísa aðalkröfu stefnanda frá dómi með vísan til e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Af stefnunni og gögnum sem stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins verður hins vegar ráðið hverjar þær málsástæður eru sem varakrafa hans byggir á, svo og hvert sé samhengi þeirra, auk þess sem þar er vísað til helstu lagaákvæða og réttarreglna sem hann reisir málatilbúnað sinn á, sbr. e., f. og g. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þannig er varakrafan byggð á tilgreindum ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og af stefnunni verður m.a. ráðið hvers vegna stefnandi telur að stefndi hafi mátt vita að krafa um gjaldþrotaskipti var komin fram þegar greiðslan átti sér stað og að hún væri ótilhlýðileg. Þótt stefnandi hefði getað markað málsókn sinni skýrari farveg verður ekki séð að málatilbúnaður hans hafi gert stefnda erfitt um vik að taka til efnisvarna, svo sem hann gerði í greinargerð sinni í héraði. Verður ekki annað séð en að grundvöllur varakröfu sóknaraðila sé nægilega skýr til að dómur verði felldur um hana. Þá verður ekki dregin sú ályktun af þeim reglum gjaldþrotalaga sem varakrafa stefnanda byggir á að krafa um riftun umdeildrar greiðslu verði ekki höfð uppi án kröfu um riftun samningsins sem stefndi segir hana byggða á. Varakröfu stefnanda verður því ekki vísað frá dómi.
Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áður en úrskurður var kveðinn upp en ákvæðið hefur verður talið gilda um úrskurði þar sem afstaða er tekin til frávísunarkröfu stefnda og málflutningur hefur farið fram af því tilefni samkvæmt 2. mgr. 100. gr. laganna.
Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ
Aðalkröfu stefnanda, þrotabús Jafets Ólafssonar, er vísað frá dómi. Kröfu stefnda, Veigs ehf., um að varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi, er hafnað.
Málskostnaðarákvörðun bíður efnisdóms.