Hæstiréttur íslands
Mál nr. 343/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Fimmtudaginn 29. júní 2006. |
|
Nr. 343/2006. |
Sýslumaðurinn á Eskifirði(enginn) gegn X (Gísli M. Auðbergsson hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X sætti nálgunarbanni gagnvart A og heimili hennar samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en gildistími bannsins styttur í þrjá mánuði frá uppsögu dóms Hæstaréttar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 31. maí 2006, þar sem varnaraðila var með nánar tilteknum hætti gert að sæta nálgunarbanni, en úrskurðurinn var birtur honum 13. júní 2006. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að tímalengd nálgunarbannsins verði stytt, svæðið sem nálgunarbannið nái til verði látið afmarkast af [...] að ofanverðu og að úrskurðurinn verði felldur úr gildi að því er varðar bann við símasamskiptum. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður á báðum dómstigum greiðist úr ríkissjóði.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Það athugast að rannsókn lögreglu er ábótavant að því leyti að hvorki hafa verið yfirheyrð vitni sem tilgreind eru í málsgögnum né tekin skýrsla af varnaraðila. Þrátt fyrir þetta liggur fyrir að varnaraðili hefur komið á heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar án samþykkis hennar og haft uppi yfirlýsingar um að sér væri það heimilt. Meðal gagna málsins er greinargerð félagsmálastjóra Suðurfjarða 24. maí 2006, þar sem meðal annars er greint frá komu varnaraðila á heimili konunnar 22. maí sama ár er félagsmálastjórinn var þar staddur. Kemur fram í greinargerðinni að félagsmálastjórinn hafi verið vitni að því er varnaraðili hafði í hótunum við konuna og sagt að „hún myndi ekki lifa lengi“.
Upplýst er að deila vegna bráðabirgðaforsjár yfir dætrum varnaraðila og konunnar er til meðferðar hjá Héraðsdómi Austurlands og skipaður hefur verið skiptastjóri til að annast fjárskipti þeirra vegna skilnaðar.
Með vísan til framangreinds og forsendna hins kærða úrskurðar að öðru leyti verður nálgunnarbann staðfest, en hæfilegt þykir að það gildi í þrjá mánuði frá uppsögu dóms þessa.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að nálgunarbannið skal gilda í þrjá mánuði frá uppsögu dóms þessa.
Allur kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Gísla M. Auðbergssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 31. maí 2006.
Lögreglustjórinn á Eskifirði hefur með beiðni dagsettri 23. maí sl. krafist þess, með vísan til 110. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, að X, [...] verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði og að í því felist bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [...], nánar tiltekið af svæði, sem markast af 200 metrum eða hringi í hana. Þá er þess jafnframt krafist að honum verði jafnframt bannað að heimsækja hana, veita henni eftirför eða koma sér með öðru móti í samband við hana. Á dómþingi 24. maí sl. var kröfu lögreglu breytt á þann hátt að í stað orðanna “...nánar tiltekið af svæði sem markast af 200 metrum....” komi “....nánar tiltekið á svæði, sem markast af 50 metra radíus umhverfis húsið að [...]
Í kröfu lögreglu segir að í rannsóknargögnum lögreglu komi fram að tilefni beiðninnar sé sú að A hafi orðið fyrir miklu ónæði af hálfu eiginmanns síns, X. A búi með dætrum sínum á [...] og sé skilnaðarmál hennar og kærða nú rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands. Eins og fram komi í gögnum lögreglu hafi A orðið fyrir endurteknum hótunum af hálfu eiginmanns síns, svo og líkamsárás þann 20. maí sl., sem sæti nú rannsókn. Lögregla hafi verið kölluð á heimili A þann 22. þessa mánaðar, en þá hafði eiginmaðurinn hótað henni ófarnaði, nánar tiltekið að hún myndi “deyja fyrir þetta”, en þar sé væntanlega átt við skilnað aðila og ágreining um forsjá dætranna. Vitni að þessum ummælum hafi verið B, félagsmálastjóri. Sé nú svo komið að A óttist um líf sitt.
Samkvæmt rannsóknargögnum eru nokkrar kærur A á hendur kærða til rannsóknar hjá lögreglunni á Eskifirði og þá eru nokkrar bókanir í dagbók lögreglu vegna ætlaðra brota gegn henni:
Mál númer 028-2005-[...].
Hinn 30. apríl 2005 hringdi C í gegnum neyðarlínu og óskaði eftir því að lögregla skipti sér af deilum á milli X og eiginkonu hans, A. Sagði C að A hefði komið til landsins í dag eftir að hafa verið í Bosníu í 8 mánuði, en þau X væru að skilja. Hann kvað A búa tímabundið heima hjá sér en X hefði komið þar stuttu áður en hann hefði hringt og hótað henni öllu illu og verið mjög æstur. Fram kemur í dagbókarfærslum lögreglu að farið hefði verið og rætt við A, sem hefði verið komin á heimili bróður X í [...]. Er haft eftir A að X vildi skilja við hana og ná af henni börnunum. Hann væri ítrekað búinn að hóta henni lífláti o.s.frv. og sagði að hann hefði gengið í skrokk á henni áður en hún flutti út frá honum.
Mál númer 028-2005-[...].
Hinn 24. október 2005 mætti A á lögreglustöðina á [...] og lagði fram kæru á hendur eiginmanni sínum, X. Fram kom hjá A að hún hefði tjáð X fyrir um hálfum mánuði að hún hefði óskað eftir skilnaði frá honum. Í gærkvöldi hefði hún rætt við hann vegna barna þeirra og þá hefði hann hótað henni að ef hún drægi ekki kröfu sína um skilnað til baka innan 7 daga myndu börn þeirra alast upp hjá vandalausum og að hann myndi ákveða um hennar líf. A hafi tjáð lögreglu að hún væri mjög hrædd við X þar sem hann hefði lagt hendur á hana og gefið það í skyn við hana að hann ætlaði að drepa hana. Hefði hann sagt að þótt hún leitaði til lögreglu gæti lögreglan ekki passað hana fyrir honum.
Mál númer 028-2006-[...].
Í dagbókarfærslum lögreglu hinn 26. febrúar 2006 segir að starfsmaður félagsmálaráðs hafi haft samband um bakvaktarsíma og tjáð lögreglu að erlend kona að [...] óskaði eftir lögregluaðstoð þar sem fyrrverandi sambýlismaður væri búinn að brjóta sér leið inn í húsið. Þegar lögregla koma á vettvang var X inni í húsinu á neðri hæð þess ásamt dætrunum tveimur, en A hafði læst sig inni í herbergi á efri hæð. Í dagbók lögreglu segir að engin merki hafi verið um innbrot né neinar skemmdir á útihurð eða öðru. X hafi verið hinn rólegasti og virst hissa á því að sjá lögreglu. Rætt hafi verið við A, sem hafi tjáð lögreglu að X hefði komið að heimilinu mjög æstur og barið mjög harkalega að dyrum þar til eldri dóttir þeirra hefði opnað fyrir honum. Sagði A að X hefði verið með hótanir og að hún hefði þá flúið upp í herbergið og læst að sér. A sagðist jafnframt vera mjög hrædd við X þar sem hann hefði oft lagt á hana hendur. Fram kemur að X er búsettur í Reykjavík en var á þessum tíma í nokkurra daga heimsókn á [...]. X hafi sat að ekki væri rétt að hann hefði verið með einhver læti og sagði A tilkynna alls konar hluti til lögreglu til að láta hann líta illa út vegna forsjárdeilu þeirra hjóna. Sagðist hann eiga helminginn í húsinu og börnin væru hans líka og því væri hann í fullum rétti til að vera þarna. Að lokum hefði A samþykkt að yfirgefa heimilið og koma aftur daginn eftir til að verja tíma með börnunum.
Mál númer 028-2006-[...].
Hinn 20. maí 2005 mætti A á lögreglustöðina á [...] og lagði fram kæru á hendur fyrrverandi eiginmanni sínum, X, vegna líkamsárásar, sem hún kvaðst hafa orðið fyrir af hans hálfu nóttina áður. Sagðist hún hafa verið heima hjá sér ásamt vinafólki sínu og hafi þau setið í eldhúsinu og verið að tala saman og drekka kaffi. Um kl. 00.15 hefði X skyndilega birst á heimilinu og byrjað að öskra á hana og saka hana um að banna dætrum þeirra að tala við hann. Hann hefði síðan ráðist skyndilega hana þar sem hún sat við eldhúsborðið og náð að slá hana í aftanvert höfuðið. Sagðist hún ekki gera sér grein fyrir hvernig hann bar sig að þar sem hún hefði lotið höfði og reynt að verja sig. Vinafólk hennar hefði gengið á milli þeirra, en X hefði þá enn verið mjög æstur og heimtað að fá hníf svo hann gæti “ákveðið um líf [A]” eins og hann hefði orðið það. Vinafólk hennar hefði getað talið hann á að yfirgefa heimilið í fylgd þeirra um kl. 01.00. Í framhaldinu hefði hún hringt á lögreglu, sem komið hafi á vettvang. A tjáði lögreglu að hún hefði farið í læknisskoðun og væri með kúlur á höfði, roða í hársverði og bólgur í andliti, svo og verki. Í vettvangsskýrslu lögreglu dags. 22. maí 2005 segir að A hafi tekið á móti lögreglu við útidyrnar og verið grátbólgin. Þá hafi mátt sjá áverka eða mar við hægra gagnauga hennar.
Mál númer 028-2006-[...].
Hinn 23. maí 2006 hringdi B félagsmálastjóri í bakvaktarsíma lögreglu og sagðist vera stödd á heimili A þangað sem X hefði komið og neitað að yfirgefa húsið. Óskaði B eftir aðstoð lögreglu fyrir hönd A vegna þessa. Í dagbókarfærslum lögreglu segir að farið hefði verið á vettvang og X vísað út að beiðni A enda X ekki með lögheimili á þessum stað og ekki búið þar um nokkurt skeið. Fram kemur að X hafi talið sig vera í fullum rétti inni á heimilinu þar sem börn hans væru þar til húsa.
Meðal rannsóknargagna er greinargerð B, félagsmálastjóra, um afskipti sín af málefnum A og tveggja dætra hennar, D, fæddrar 1997 og E, fæddrar 2001. Fram kemur að A hafi hringt í B fyrir hádegi laugardaginn 20. maí 2006 og verið sleginn vegna atburðarins nóttina áður. Einnig kemur fram að B hafi farið til A og rætt við hana um atburðinn og líðan hennar. Segir að A hafi verið með mikinn roða í hársverði í hnakkanum og einnig kúlur á höfði. Þá hefði hún verið með marbletti í andliti við bæði augu og eymsli í nefi. Einnig kemur fram að B hafi hitt A aftur mánudaginn 22. maí og hún tjáð henni að X hefði komið óboðinn í heimsókn á sunnudeginum þegar hún hélt upp á afmæli eldri dóttur sinnar. Eftir að afmælisboðinu lauk hefði hann dvalið á heimili hennar í tvo tíma og hún ekki þorað að stugga við honum á nokkurn hátt. Í greinargerð B segir að hún hafi boðist til að vera heima hjá A um kvöldið þegar X kæmi heim með dæturnar, en hann hefði sótt þær fyrr um daginn án samráðs við móður þeirra. X hefði komið með stúlkurnar heim á réttum tíma og gengið með þeim inn í húsið. Þegar hann hefði ekki sýnt á sér neitt fararsnið hefði hún sagt við hann að A óskaði eftir því hann færi. Hann hefði neitað því að sagt að þetta væri hans hús og að hann hefði borgað fyrir það. Að lokum hefði hún hringt á lögreglu, sem fljótlega hefði komið á vettvang. X hefði þá látið sig hverfa upp á loft til dætra sinna sem þar hefðu verið að leika sér. Hefði þurft að fara upp á loft til að fjarlægja X, en hann hafi þó yfirgefið heimilið með ró og spekt. Loks segir í greinargerðinni að á meðan félagsmálastjórinn hringdi í lögreglu hefði X hótað A að hún myndi ekki lifa lengi.
Af hálfu varnaraðila er þess aðallega krafist að krafa lögreglu um að honum verði gert að sæta nálgunarbanni verði vísað frá dómi, til vara að henni verði synjað og til þrautavara er þess krafist að tímalengd nálgunarbannsins verði stytt og umfang þess minnkað frá því sem krafist sé í beiðninni. Í öllum tilvikum er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða allan sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að til stuðnings frávísunarkröfu sinni vísi varnaraðili til þess að umbeðin aðgerð sé algerlega ónauðsynleg og að ekkert liggi fyrir um að aðstæður séu með þeim hætti að tilefni sé til þess að honum verði gert að sæta nálgunarbanni. Krafa sóknaraðila sé algjörlega vanreifuð, t.d. hafi ekki verið lagt fram sakavottorð varnaraðila svo sjá megi hvort hann eigi feril sem hættulegur einstaklingur.
Til stuðnings varakröfu segir að algjörlega ósannað sé að varnaraðili hafi hagað sér með þeim hætti, sem 110. gr. a laga nr. 19/1991 geri kröfu um. Þau gögn, sem fram hafi verið lögð, séu aðeins framburðir A sjálfrar, en ekki frá öðrum aðilum.
Verði fallist á kröfu um nálgunarbann sé þess krafist að tímalengd þess verði stytt þar sem ekki sé tilefni til að halda varnaraðila frá eðlilegum samskiptum við fyrrverandi eiginkonu sína og börn þeirra. Jafnframt sé mótmælt banni við því að varnaraðili tali við A í síma, enda ekkert fyrirliggjandi um það að slík samskipti hafi verið óeðlileg af hans hálfu. Þá er þess krafist að það svæði, sem nálgunarbannið nái til, verði skilgreint með þeim hætti að varnaraðili geti heimsótt ættingja sína á [...] og komist gegnum bæinn eftir aðalgötunni. Kveður varnaraðili tvo bræður sína vera búsetta á [...].
Niðurstaða:
Af framlögðum gögnum er ljóst að varnaraðili hefur ítrekað birst óboðinn á heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar, A, hafst þar við gegn vilja hennar og hótað henni þar og ögrað í votta viðurvist. Þá er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa lagt hendur á fyrrverandi eiginkonu sína aðfaranótt 20. maí sl. Með vísan til rannsóknargagna og þess sem fram er komið í málinu þykir vera rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði fyrrverandi eiginkonu, A. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans á Eskifirði og ákveðið með heimild í 110. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000 að taka kröfu lögreglustjórans til greina eins og hún var endanlega sett fram af hálfu lögreglu í þinghaldi 24. maí sl. og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykir ástæða til að marka nálgunarbanninu skemmri tíma eða takmarka það frekar en krafist er. Ekki er verður á því byggt í máli um nálgunarbann að bannið muni hugsanlega raska umgengnisrétti barna við þann aðila sem banninu á að sæta.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber varnaraðila að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur og er þar með talinn virðisaukaskattur. Ekki er að sjá að annan sakarkostnað hafi leitt af máli þessu.
Ragnheiður Bragadóttir, dómstjóri, kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, X, [...], skal sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [...], á svæði, sem markast af 50 metra radíus umhverfis húsið að [...], og jafnframt er honum bannað að hringja í hana, veita henni eftirför, eða koma sér með öðru móti í samband við hana.
Varnaraðili greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hdl., að fjárhæð 100.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.