Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-15

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Misneyting
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 7. janúar 2022, sem barst réttinum 10. febrúar sama ár, leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 3. desember 2021 í máli nr. 479/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 10. sama mánaðar. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir kynferðisbrot samkvæmt 2. mgr. 194. gr. og 198. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa fróað brotaþola í þrjú skipti og notfært sér þannig andlega og líkamlega fötlun hans. Dómurinn leit meðal annars til niðurstöðu tveggja matsgerða um þroska og andlegt heilbrigði brotaþola og framburða vitna. Talið var að leyfisbeiðanda hefði verið fullljós staða brotaþola, þroski og skilningur og að hann hefði hvorki haft forsendur né getu til að óska eftir eða gefa samþykki sitt fyrir verknaðinum. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í þrjú ár auk þess sem honum var gert að greiða brotaþola miskabætur.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að hinn áfrýjaði dómur sé bersýnilega rangur að efni til þar sem skilyrði sakfellingar hafi ekki verið fyrir hendi auk þess sem refsing hans hafi verið ákvörðuð alltof þung. Í málinu reyni á beitingu og túlkun reglna refsiréttar með hliðsjón af mannréttindum fatlaðra sem mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um. Skera þurfi úr um hvort leyfisbeiðandi og brotaþoli hafi verið í trúnaðarsambandi í skilningi 198. gr. almennra hegningarlaga. Það sé jafnframt skilyrði fyrir heimfærslu háttsemi undir ákvæðið að gerandi sé fagaðili og að misnotkun teljist vera gróf en hvorugt eigi við í máli þessu. Þá hafi túlkun Landsréttar á niðurstöðum yfirmatsgerðar ekki verið forsvaranleg. Leyfisbeiðandi hafi strax gengist við verknaðinum og öll viðbrögð hans borið þess merki að hann hafi verið að liðsinna brotaþola.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.