Hæstiréttur íslands
Mál nr. 74/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Málshöfðunarfrestur
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 15. febrúar 2013. |
|
Nr. 74/2013.
|
LBI hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Erste Group Bank AG (Sigríður Rut Júlíusdóttur hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L hf. gegn E var vísað frá dómi. Fjármálafyrirtækið L hf. sætti slitameðferð og hafði höfðað mál gegn E til riftunar á greiðslu L hf. á peningamarkaðsinnláni til E. Talið var að málið hefði verið höfðað þegar liðinn var lengri tími en 30 mánuðir frá lokum kröfulýsingarfrests. L hf. hélt því fram að ekki verði unnt að höfða málið fyrr þar sem ekki hefði legið fyrir lokauppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum frá L hf. til N hf. Ekki var talið að L hf. hefði náð að sýna fram á að umrætt uppgjör hefði verið forsenda þess að unnt væri að hafa uppi kröfu um þá riftun sem málið laut að. Með vísan til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var því talið að málið hefði verið of seint höfðað og var því þess vegna vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eftir uppkvaðningu hin kærða úrskurðar hefur heiti varnaraðila verið breytt úr Landsbanka Íslands hf. í LBI hf.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, LBI hf., greiði varnaraðila, Erste Group Bank AG, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2013.
Mál þetta, sem þingfest var 29. maí 2012, var tekið til úrskurðar miðvikudaginn 18. desember sl., að loknum munnlegum málflutningi, um kröfu stefnda, Erste Group Bank AG, Am Graben 21, Vínarborg í Austurríki, um frávísun. Stefnandi, Landsbanki Íslands hf. (í slitameðferð), Austurstræti 16, Reykjavík, krefst þess að kröfu stefnda um frávísun verði hafnað. Báðir aðilar krefjast málskostnaðar. Við sömu fyrirtöku málsins var einnig tekinn til úrskurðar ágreiningur aðila um framlagningu tiltekinna skjala af hálfu stefnanda.
Í málinu hefur stefnandi uppi þær efniskröfur að staðfest verði með dómi riftun á greiðslu Landsbanka Íslands hf. (áður NIB hf.) á peningamarkaðsinnláni að fjárhæð 3.104.800.840 kr. til stefnda 9. október 2008. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda sömu fjárhæð með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. október 2008 auk nánar tilgreindra dráttarvaxta. Til vara er krafist vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 auk nánar tilgreindra dráttarvaxta. Í efnisþætti málsins krefst stefndi sýknu.
Atvik málsins lúta að peningamarkaðsinnláni (e. Money Market Deposit) sem stefnandi veitti stefnda 6. október 2008 að fjárhæð 3.103.400.000 kr. Skyldi fjárhæðin bera 16,25% ársvexti og var umsaminn gjalddagi lánsins 7. október 2008, en samkvæmt stefnu var um að ræða framlengingu fyrra peningamarkaðsláns. Í stefnu segir einnig að hinn 9. október 2008 hafi verið innt af hendi greiðsla til stefnda vegna ofangreindrar kröfu með því að fjárhæðin 3.104.800.840 kr. hafi verið lögð inn á bankareikning stefnda hjá NBI hf. Sú fjárhæð svarar til lánsfjárhæðarinnar auk vaxta. Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í meginatriðum á því að á þessum tíma hafi stefnandi verið ógjaldfær og honum hafi verið óheimilt að efna aðrar skuldbindingar en nauðsynlegt var til að komast hjá verulegu tjóni eða skuldbindingar sem myndu greiðast við gjaldþrotaskipti. Á þessum tíma hafi bankinn hvorki haft laust reiðufé í íslenskum krónum né erlendum gjaldeyri og hafi greiðslan því verið fjármögnuð með lánum.
Samkvæmt stefnu varð skráningarvilla í kerfum stefnanda þess valdandi að riftunaryfirlýsing stefnanda vegna greiðslunnar var send dótturfélagi stefnda, Erste bank der Oesterreicheischen Sparkassen AG, hinn 15. ágúst 2011. Stefnandi höfðaði í framhaldinu mál gegn því félagi sem þingfest var 1. desember 2011. Það mál var hins vegar fellt niður að beiðni stefnanda sem höfðaði þá mál þetta gegn stefnda.
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun í fyrsta lagi á því að málið sé ranglega höfðað fyrir íslenskum dómstólum þar sem stefndi eigi ekki varnarþing hér á landi. Heimild til að höfða málið sé þannig hvorki fyrir hendi í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála né öðrum íslenskum lögum. Stefndi telur í annan stað að málatilbúnaður stefnanda í stefnu sé ófullnægjandi með ýmsum hætti og í andstöðu við 80. gr. laga nr. 91/1991. Einkum vísar stefndi til þess að ekki sé útskýrt í stefnu hvernig greiðslugeta stefnanda hafi talist skert vegna greiðslunnar til stefnanda. Þá hafi riftunaryfirlýsingu verið beint gegn röngum aðila auk þess sem í dómkröfu sé hvergi tilgreind dagsetning þeirrar riftunaryfirlýsingar sem krafist er staðfestingar á. Stefndi telur einnig að ófullnægjandi grein sé gerð fyrir aðild stefnanda með hliðsjón af því að NBI hf. hafi endurgreitt stefnda umrætt lán en ekki stefnandi. Þá telur stefndi að á skorti að stefnandi vísi með fullnægjandi hætti til dómskjala til stuðnings kröfu sinni og telur að ósamræmi sé á milli aðal- og varakröfu stefnanda. Loks virðist varakrafa samkvæmt orðum sínum aðeins fjalla um vexti, en þó megi skilja hana þannig að hún gangi lengra en aðalkrafan. Í þriðja stað krefst stefndi frávísunar þar sem lögbundinn málshöfðunarfrestur til að höfða málið sé liðinn. Í þessu sambandi telur stefndi annars vegar að þær breytingar sem gerðar hafi verið á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki á þá leið að lengja málshöfðunarfrest hafi verið andstæðar stjórnarskrá og að vettugi virðandi. Hins vegar byggir stefndi á því að þótt miðað sé við 30 mánaða málshöfðunarfrest hafi sá frestur verið liðinn þegar stefna var birt 3. maí 2012. Skipti engu í því sambandi þótt önnur stefna vegna sama sakarefnis hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu 27. apríl 2012. Sú birting hafi verið ólögmæt þar sem birting stefnu erlendis hafi tekið eðlilegan tíma, auk þess hafi sú stefna ekki verið þingfest í málinu.
Stefnandi mótmælir málsástæðum stefnda um að varnarþing sé ekki fyrir hendi eða að stefna fullnægi ekki kröfum 80. gr. laga nr. 91/1991. Vísar hann einkum til þess að úr þessum álitaefnum hafi verið skorið í nýlegum dómum Hæstaréttar sem beri að leggja til grundvallar sem fordæmi. Sama eigi við um stjórnskipulegt lögmæti málshöfðunarfrests samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, eins og málsgreininni hafi síðar verið breytt. Stefnandi telur að miða eigi málshöfðun við birtingu stefnu í Lögbirtingablaðinu 27. apríl 2012, en skilyrði fyrir stefnubirtingu í Lögbirtingablaðinu hafi verið uppfyllt samkvæmt b-lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991. Í öllu falli hafi málshöfðunarfrestur samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 ekki byrjað að líða fyrr en lokauppgjör lá fyrir milli stefnanda og NIB hf. (Landsbankans hf.) 15. desember 2009, en þetta fjárhagslega uppgjör hafi verið nauðsynleg forsenda þess að unnt væri að taka afstöðu til riftunar á umræddri greiðslu til stefnda.
Niðurstaða
Málsástæður stefnda á þá leið að stefna í máli þessu fullnægi ekki skilyrðum 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og málið sé höfðað á röngu varnarþingi eru efnislega þær sömu og skorið var úr um með hæstaréttardómi 21. september 2012 í máli nr. 485/2012. Stefndi hefur ekki fært fram fyrir því haldbær rök að víkja beri frá niðurstöðu Hæstaréttar um þessi atriði. Verður umræddur hæstaréttardómur því lagður til grundvallar sem fordæmi og málsástæðum stefnda þar að lútandi hafnað. Er því ekki þörf á því að fjalla um þýðingu þess að sótt var þing af hálfu stefnda við þingfestingu málsins án fyrirvara um rangt varnarþing málsins.
Í málinu liggur fyrir að stefna var birt í Lögbirtingablaðinu 27. apríl 2012. Stefnan var hins vegar ekki þingfest við fyrirtöku málsins 29. maí 2012 heldur lögð fram síðar sem dómskjal í málinu. Sú stefna sem lögð var fram við þingfestingu málsins 29. maí 2012, og þá þingmerkt sem dómskjal nr. 1, var birt fyrirsvarsmanni stefnda í Austurríki 3. maí 2012 fyrir milligöngu íslensku utanríkisþjónustunnar. Við úrlausn málsins verður því að leggja til grundvallar að mál þetta sé höfðað 3. maí 2012 og þingfest 29. maí 2012. Hafa álitamál um lögmæti birtingar umræddrar stefnu í Lögbirtingablaðinu 27. apríl 2012 því ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins.
Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og greininni var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009 og 1. gr. laga nr. 146/2011, sbr. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., var frestur stefnanda til að höfða riftunarmál 30 mánuðir frá því slitastjórn stefnanda átti þess kost að gera kröfu um riftun, en fresturinn skyldi þó aldrei byrja að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Með vísan til ítrekaðra fordæma Hæstaréttar verður ekki á það fallist að lenging á málshöfðunarfresti samkvæmt 1. gr. laga nr. 146/2011 hafi verið andstæð stjórnlögum.
Óumdeilt er að kröfulýsingarfrestur vegna slita stefnanda rann út 30. október 2009. Samkvæmt þessu voru liðnir meira en 30 mánuðir frá lokum kröfulýsingarfrests þegar málið var höfðað 3. maí 2012. Kemur því til skoðunar sú málsástæða stefnanda að slitastjórn hans hafi ekki átt þess kost að höfða riftunarmál þetta fyrr en lokauppgjöri vegna ráðstöfunar eigna frá stefnanda til NBI hf. (nú Landsbankans hf.) skyldi lokið hinn 15. desember 2009.
Án tillits til umrædds lokauppgjörs er ekki um það deilt að eigi síðar en 21. nóvember 2008 lá fyrir að peningamarkaðsinnlán eða kröfur vegna þeirra skyldu ekki flytjast til NIB hf. heldur vera áfram hjá stefnanda. Þá verður ráðið af skjölum málsins að öll nauðsynleg gögn um það peningamarkaðsinnlán, sem mál þetta lýtur að, hafi verið í vörslum stefnanda frá upphafi. Er því ekki um það að ræða að nauðsynlegt hafi verið fyrir slitastjórn að afla gagna vegna lánsins og hún hafi ekki átt þess kost að taka afstöðu til riftunar fyrr en að lokinni slíkri gagnaöflun. Að þessu leyti var þannig ekkert því til fyrirstöðu að slitastjórn stefnanda tæki afstöðu til riftanleika umræddrar ráðstöfunar fyrir lok kröfulýsingarfrests.
Þótt fjárhagslegri stöðu stefnanda með tilliti til aðskilnaðar gagnvart NBI hf., nú Landsbankans hf., kunni að hafa verið slegið endanlega fastri með umræddu lokauppgjöri, hefur ekki verið útskýrt með hvaða hætti uppgjörið gat talist forsenda þess að unnt væri að hafa uppi kröfu um þá riftun gegn stefnda sem mál þetta lýtur að. Er þá litið til þess að í málinu er því ekki borið við að forsenda málshöfðunar stefnanda hafi verið yfirlýsing kröfuhafa um að þeir bæru ábyrgð á hugsanlegum kostnaði vegna málsins, en ekkert er komið fram um að stefnanda hafi skort fjárhagslega burði til þess að hafa uppi kröfu sína um riftun. Að mati dómsins hafa því ekki verið færð að því viðhlítandi rök að því að miða beri frest samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 við annað tímamark en lok kröfulýsingarfrests.
Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að mál þetta hafi verið höfðað eftir það tímamark sem kveðið er á um í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 sem áður greinir. Verður af þessari ástæðu fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins. Er þá ekki þörf á því að taka afstöðu til ágreinings aðila um gagnaframlagningu stefnanda við fyrirtöku málsins 18. desember sl.
Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, þó þannig að við ákvörðun málskostnaðar verður einnig litið til þess að hluti af þeim málsástæðum sem stefndi hefur haldið til streitu til stuðnings frávísunarkröfu sinni eru haldlausar, svo sem áður greinir. Þykir málskostnaður samkvæmt þessu hæfilega ákveðinn 300.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnda flutti máli Sigurður Örn Hilmarsson hdl.
Af hálfu stefnanda flutti málið Þórir Júlíusson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Landsbanki Íslands hf., greiði stefnda, Erste Group Bank AG, 300.000 krónur í málskostnað.