Hæstiréttur íslands

Mál nr. 498/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 18

 

Mánudaginn 18. nóvember 2002.

Nr. 498/2002.

Eyrún Sæmundsdóttir og

Einar Þorsteinsson

(Einar Sigurjónsson hdl.)

gegn

Ingibjörgu Ásgeirsdóttur

dánarbúi Margrétar Ásgeirsdóttur

Þresti Óskarssyni

Guðgeiri Ásgeirssyni

Sigurði Ásgeirssyni

Kristni Stefánssyni

Ástu Ósk Stefánsdóttur og

Kjartani Stefánssyni

(enginn)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

ES og EÞ höfðuðu mál á hendur I o.fl. og kröfðust þess í fyrsta lagi að landskipti færu fram á milli tveggja jarða á grundvelli landskiptagerðar frá 1944, í öðru lagi að túnum, sem höfðu verið færð til með makaskiptum, yrði skipt á grundvelli jarðamats frá 1922 og í þriðja lagi að félagsræktun frá 1956 yrði tekin til skipta. Málinu var vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að slíkir annmarkar væru á reifun málsins af hendi ES og EÞ að óhjákvæmilegt væri að vísa því frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 23. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. nóvember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 11. október 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fallist verður á með héraðsdómara að slíkir annmarkar séu á reifun málsins af hendi sóknaraðila að óhjákvæmilegt sé að vísa því frá dómi. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 11. október 2002.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 13. september sl., var höfðað 1. febrúar 2002.

Stefnendur eru Eyrún Sæmundsdóttir og Einar Þorsteinsson, bæði til heimilis að Sólheimahjáleigu, Mýrdalshreppi, Vestur-Skaftafellssýslu.

Stefndu eru Ingibjörg Ásgeirsdóttir, Hrísateigi 12, Reykjavík, dánarbú Margrétar Ásgeirsdóttur, Þröstur Óskarsson, Holtsgötu 12, Hafnarfirði fyrir hönd sjálfs sín og dánarbús Margrétar, Ásgeir Óskarsson, Háukinn 6, Hafnarfirði f.h. dánarbús Margrétar, Óskar Óskarsson, Digranesvegi 46, Kópavogi f.h. dánarbús Margrétar, Guðgeir Ásgeirsson, Álfhólsvegi 139, Kópavogi, Sigurður Ásgeirsson, Gunnarsholti, Hellu, Kristinn Stefánsson, Raufarfelli 1, Hvolsvelli, Ásta Ósk Stefánsdóttir, Laxakvísl 21, Reykjavík og Kjartan Stefánsson, Sigtúni 8, Vík.

Dómkröfur stefnenda eru þær að ,,viðurkennt verði með dómi að landskipti fari fram á milli Sólheimatungu og Framness í Mýrdalshreppi, V-Skaftafellssýslu á grundvelli landsskiptagerðar frá 1944, en þá hétu jarðir þessar Sólheimar III sbr. nú Framnes og Sólheimar V, nú Sólheimatunga. Landskipti byrjuðu að tilhlutan eigenda og fyrir atbeina sýslumanns. Landskiptum er ekki lokið og er þess krafist nú að skiptum verði lokið á grundvelli landsskiptagerðar frá 1944. Jafnframt er krafist að túnum sem færð höfðu verið til með makaskiptum, verði skipt og að skipti þessi fari fram á grundvelli jarðamats frá 1922, þar sem Sólheimar V, nú Sólheimatunga, var metið 20,0 hundrað og Ytri Sólheimar III, nú Framnes var metið 9,0 hundruð. Jafnframt er gerð sú dómkrafa að félagsræktun frá árinu 1956 á Sólheimasandi verði tekin  til  skipta í sömu eignarhlutföllum og að ofan greinir”. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndu Ingibjörg Ásgeirsdóttir, Þröstur Óskarsson persónulega og vegna db. Margrétar Ásgeirsdóttur, Ásgeir og Óskar Óskarsbörn vegna db. Margrétar Ásgeirsdóttur og Guðgeir Ásgeirsson krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara krefjast þau sýknu af kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krefjast þau þess að stefnendur verði in solidum dæmdir til greiðslu málskostnaðar að mati réttarins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi. Aðrir stefndu hafa ekki látið mál þetta til sín taka.

Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað og málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins.

Málsatvik.

Samkvæmt gögnum málsins komu landskipti milli bæjanna Framness, áður Sólheima III, og Sólheimatungu, áður Sólheima V, til kasta úttektarmanna Dyrhólahrepps, þeirra Stefáns Hannessonar og Kjartans L. Markússonar í maí 1944. Þeir höfðu verið fengnir að ósk Sólheimabændanna Ólafs H. Jónssonar, Ásgeirs Pálssonar, Ísleifs Erlingssonar og Maríusar Einarssonar til þess að framkvæma skipti á Slægjulandi (Útslægjum) Ytri-Sólheimajarða. Í landskiptagerð landskiptamanna segir m.a. um hið umþrætta land: ,,í sameiningu hlutu þeir Ásgeir Pálsson (Sólheimar III) og Ólafur Jónsson Eystri-Sólheimum land allt austan í Sólheimanesi frá Nýbýlisgirðingu Ásgeirs og innúr merkjalæk. Hallar þessu landi mót suðaustri, en uppi á há-holtinu er mark upp sett milli þessa lands og þess er Einar Einarsson hlaut…Ólafur Jónsson Eystri-Sólheimum og Ásgeir Pálsson hafa fallist á að skipta sjálfir áður nefndu landi, sem liggur austan í Nesinu (land Sólheimar III og V.)”

  Í stefnu segir að þannig hafi málin staðið þar til árið 1998, að landi sem þeir Ólafur og Ásgeir fengu sameiginlega út úr landskiptagerð árið 1944 var óskipt, utan landspildu á Sólheimasandi.

Stefnendur eru eigendur Sólheimatungu, en af gögnum málsins má ráða að stefndu séu meðal eigenda Framness.  Stefnendur óskuðu eftir því  við sýslumanninn í V-Skaftafellssýslu, með bréfi dags. 10. ágúst 1998, að hann skipaði skiptanefnd til þess að skipta heimalandi jarðarinnar Sólheimatungu, sem væri enn í sameign við jörðina Framnes og skipaði sýslumaður skiptanefnd. Fundir voru haldnir í skiptanefnd og í gögnum málsins kemur fram að stefnendur lögðu fram sáttaboð um eignarhlutföll hins óskipta lands sem stefndu, Sigurður Ásgeirsson, Kjartan Stefánsson, Kristinn Stefánsson og Ásta Ósk Stefánsdóttir samþykktu. Stefnendur höfnuðu hins vegar gagntilboði lögmanns annarra stefndu. Þá tilkynnti sýslumaður aðilum málsins að þar sem hvorki hafi náðst samkomulag um eignarhlutföll á landi eða túnum milli aðila hefði landskiptanefnd vísað málinu frá í samræmi við 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga, nr. 46/1941.  Í framhaldi af því báru stefnendur málið undir dóminn.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Stefnendur kveða að land það sem gerð krafa um skipti lúti að, liggi sunnan og austan á Sólheimanesi og sé það bæði ræktuð tún og bithagar. Bæirnir Framnes og Sólheimatunga standi syðst í því, skammt frá þjóðvegi nr. 1. Þar að auki sé túnspilda vestur á Sólheimasandi, 11,2 ha. að stærð og spilda í Sólheimavelli 4,0 ha að stærð. Þegar skiptin hafi farið fram 1944 hafi Ólafur H. Jónsson verið eigandi að Ytri-Sólheimum III (Framnesi). Ásgeir Pálsson hafi hinsvegar haft Ytri-Sólheima V að mestu til ábúðar og því hafi ekki verið skipt landi milli þessara jarða, hvorki austan á Sólheimanesinu, né landi sem þeim hafi sameiginlega verið úthlutað í Velli sem var 4,0 ha að stærð. Ólafur H. Jónsson á Eystri-Sólheimum hafi á þessum tíma átt Ytri-Sólheima V og ,,þar að auki 5 hundruð í Ytri-Sólheima jörðinni sem honum var skipt út landi samkvæmt landsskiptagerðinni á Æsumýri og í Gjóstu og víðar fyrir þessi hundruð, sem Eystri-Sólheimabóndi á enn og nytjar”. Frekari landskiptagerð hafi verið frestað til 21. nóvember 1944, en þá hafi ekki verið lokið landskiptum milli Ólafs H. Jónssonar og Ásgeirs Pálssonar. Ólafur hafi eignast sitt land með kaupsamningi dags. 24. nóvember 1914 og á sama hátt hafi Ásgeir Pálsson eignast sitt land með kaupsamningi dags. 29. júní 1924. 

Til skýringar á makaskiptakröfu kveða stefnendur að Ásgeir Pálsson hafi flutt bæ sinn frá gamla bæjarstæðinu að Ytri-Sólheimum þangað sem bærinn standi nú. Um 1936 hafi hann fengið makaskipti á gömlum túnum frá Ytri-Sólheimum III og Ytri-Sólheimum V við nágranna sína og hafi fengið í staðinn stærra land af óræktuðu landi, sem hafi verið ræktað og myndi nú sameiginleg heimatún þessara jarða. Krafist er skiptingar þessara túna á grundvelli landskiptanna frá 1944.

Stefnendur kveða að þannig hafi mál þetta staðið árið 1998, að landi sem Ólafur og Ásgeir hafi fengið sameiginlega út úr landskiptagerð árið 1944 hafi verið óskipt fyrir utan landspildu á Sólheimasandi.

Því hafi stefnendur hlutast til um að sýslumaður V-Skaftfellinga skipaði skiptanefnd til þess að skipta heimalandi jarðarinnar Sólheimatungu sem enn sé í sameign við jörðina Framnes. Sýslumaður hafi skipað skiptanefnd, en ekki hafi tekist samkomulag um skiptingu landsins vegna andstöðu stefnda, Þrastar Óskarssonar og Einars Jónssonar lögfræðings f.h. Ingibjargar Ásgeirsdóttur. Sættir hafi ítrekað verið reyndar án annars árangurs en þess að stefndu, Sigurður Ásgeirsson, Kjartan Stefánsson, Kristinn Stefánsson og Ásta Ósk Stefánsdóttir samþykktu sáttatilboð stefnenda.

Stefnendur kveða kröfu sína um ákvörðun á hlutföllum á stærð hins útskipta lands vera byggða á jarðamati frá 1922 sem stuðst hafi verið við skiptingu innbyrðis milli aðila að Sólheimatorfunni. Hlutur Ytri-Sólheima III hafi verið metinn á 9,0 hundruð, þ.e.a.s. Framnes og Ytri-Sólheima V, þ.e.a.s. Sólheimatunga 20,0 hundruð. Við sáttagerð hafi verið boðið að þessu landi yrði skipt til helminga.

Stefnendur kveða að reynt hafi verið til þrautar að fá niðurstöðu í mál þetta án árangurs og sé þeim því nauðugur einn kostur að leita úrlausnar dómsins. Um lagarök vísa stefnendur til meginreglu landskiptalaga, nr. 46/1941. Þá vísa stefnendur til jarðalaga nr. 65/1976, laga um landamerki nr. 41/19191. Þá byggja stefnendur á meginreglum samninga-og kröfuréttar eftir því sem við eigi.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu kveða að skilja verði kröfur stefnenda þannig að því sé haldið fram að landskiptum sem hafist hafi árið 1944 sé ekki lokið. Stefnendur geri nú kröfu um að skipti fari fram á grundvelli umræddrar gerðar. Þar sem um sé að ræða meira en hálfrar aldar gamla gerð, verði að gera sérstaklega ríkar kröfur á hendur stefnendum að þeir sanni inntak gerðarinnar og fullyrðingar sínar um að skiptum sé ekki lokið.   Stefndu staðhæfa að skipti hafi farið fram milli umræddra jarða og með landskiptagerð frá 1944. Eins og krafa stefnenda sé fram sett sé hún verulega vanreifuð og beri m.a. af þeim sökum að vísa málinu frá dómi í heild sinni.

Nái krafa stefnenda fram að ganga um að landskipti fari fram á grundvelli fyrrgreindrar landskiptagerðar, reyni á síðari hluta kröfugerðar stefnenda, þess efnis að túnum sem færð hafi verið til með makaskiptum verði skipt og að skiptin fari fram sem fyrr greinir. Stefnendur telji að þar sé um að ræða tvær lendur, annars vegar ,,Heimaland”  41,2 ha og ,,Völlur”, 4,0 ha. Stefndu halda því fram að landi þessu hafi þegar verið skipt í öðrum hlutföllum en 20.0/9.0. Stefndu kveða þessi hlutföll milli jarðanna Sólheimatungu og Framness röng og sé nauðsynlegt að fá fyrst dóm um hvaða hlutföll skuli gilda við skiptin. Dómur verði því ekki lagður á málið að þessu leyti og  því beri að vísa því frá dómi. Með þessari kröfu séu stefnendur enn fremur að gera kröfur um stærri hlutdeild í óskiptu landi Ytri-Sólheimatorfunnar, en stefndu telja að þeim beri. Slík krafa beinist í raun jafnframt að öðrum eigendum torfunnar og verði að gefa þeim kost á að gæta hagsmuna sinna. Þess hafi ekki verið gætt.

 Samkvæmt teikningum um svokallað ,,Heimaland” liggi íbúðarhús og lóð í Sólheimatungu innan þess svæðis. Eigendur íbúðarhúss og meðfylgjandi lóðar ættu því að vera aðilar þessa máls og gæta hagsmuna sinna. Þess hafi ekki verið gætt í stefnu og gögnum málsins. Breyti þar engu þótt náinn skyldleiki sé milli stefnenda og eigenda þessarar eignar.

Í stefnu byggi stefnendur á því að afsalað hafi verið allri jörðinni Sólheimatungu (áður Ytri-Sólheimar V). Það sé ekki í samræmi við skiptagerð, sem geti þess sérstaklega að haldið hafi verið eftir 5 hundruðum. Ólafur Jónsson hafi samkvæmt jarðamati 1922 átt 5 hundruð í Ytri-Sólheimum sem hann nytjaði sjálfur.  Skjöl málsins renni jafnframt stoðum undir að fyrrgreind krafa um skipti í hlutföllunum 20.0/9.0 sé röng.

  Stefndu telja að úrslit máls þessa kunni að skipta eiganda Eystri-Sólheima máli. Benda stefndu á að í þeim skiptum sem fram hafi farið um landið sunnan og austan á Sólheimanesi, milli fyrrgreindra eigenda Framness og Eystri-Sólheima, sem hafi verið vestan svo nefnds Merkjalæks hafi hluti þess lands ,,5 hundruð í Ytri-Sólheimum” (1/4 hluti) gengið til Eystri-Sólheima. 

  Gefa verði eiganda Eystri-Sólheima kost á að gæta hagsmuna sinna en þess hafi ekki verið gætt og verði því að vísa málinu frá dómi.

Þá verði landamerki sem dregin séu á loftmynd á dómskjali nr. 13 ekki skilin öðru vísi en að í því felist viðurkenning á því af hálfu stefnenda að gerð hafi verið landamerki (líklega árið 1947) milli Eystri-Sólheima og Framness, þ.e.a.s. þess hluta sem nefndir voru Ytri-Sólheimar V. Landamerki þessi liggi NA-SV, vestan Halalækjar. Þessu til stuðnings vísa stefndu til dómskjals nr. 44, sem sé í Landamerkjabók Skaftafellssýslu.

Varðandi kröfu stefnenda um skiptingu félagslegrar ræktunar frá árinu 1956 á Sólheimasandi, haldi  stefnendur því fram að spildu þessari hafi verið skipt, en krefjist engu að síður skiptingar á henni. Þessi málatilbúnaður eigi að leiða til frávísunar, a.m.k. á þessum kröfulið.

Stefndu kveða mál stefnenda og stefnukröfur verulega vanreifaðar og þess efnis að ekki verði lagður á þær dómur. Þá hafi ekki verið gætt réttrar aðildar, þannig að þeir sem hagsmuna kunni að eiga að gæta, hafi ekki verið stefnt inn í málið til að gæta hagsmuna sinna. Af þessum sökum og hvorri málsástæðunni sem er, beri að vísa málinu frá dómi.

Niðurstaða.

Stefnendur kveða að skiptum sé ekki lokið samkvæmt landskiptagerð frá 1944. Þeir krefjast þess engu að síður að skiptum verði lokið á grundvelli landskiptagerðarinnar, þótt eignarhlutföll hins umþrætta lands komi þar ekki fram. 

 Stefnendur hafa ekki krafist þess að dómurinn skipti hinu óskipta landi í tilteknum eignarhlutföllum þótt af skjölum málsins megi ráða að landskipti hafi stöðvast vegna ágreinings um eignarhlutföll.

Samkvæmt landskiptalögum, nr. 46/1941, skulu landskiptamenn skipta landi jarða. Undir dómstóla má bera gildi landskiptagerða og eftir atvikum krefjast þess að þær verði felldar úr gildi. Dómsmál verður hins vegar ekki höfðað til að fá skorið úr því hvernig landi skuli skipt, þótt ágreining um eignarhlutföll óskipts lands megi samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 46/1941, bera undir dómstóla.  Sakarefnið á samkvæmt framangreindu ekki undir dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnendur hafa einnig gert kröfu um að ,,túnum sem færð höfðu verið til með makaskiptum” verði skipt og skipti fari fram á grundvelli jarðamats frá 1922,  þar sem Sólheimar V voru metnir á 20,0 hundruð og Ytri-Sólheimar III á 9,0 hundruð”. Í lýsingu málsástæðna kemur fram hjá stefnendum að krafist sé skiptingar á túnum þessum á grundvelli landskiptanna frá 1944. Hvorki verður af stefnu né öðrum gögnum málsins glögglega ráðið um hvaða tún er að ræða og af landskiptagerðinni verður hvergi ráðið að tún þau sem þar greinir séu þau sömu og færð höfðu verið til með makaskiptum. Þessi krafa stefnenda er því svo vanreifuð og óskýr að ekki verður á hana lagður dómur.

Loks hafa stefnendur krafist þess að ,,félagsræktun frá árinu 1956 á Sólheimasandi verði tekin til skipta í sömu eignarhlutföllum og að ofan greinir”.

Í stefnu kemur fram að árið 1998 hafi land það sem fyrrverandi eigendur Sólheima III og Sólheima V fengu sameiginlega út úr landskiptagerð árið 1944 verið óskipt fyrir utan landspildu á Sólheimasandi. Verður því ekki betur séð en landspildunni sem krafist er skiptingar á, hafi þegar verið skipt.  Krafa þessi er því svo vanreifuð að ekki verður lagður á hana dómur.

 Í málinu hafa verið hafðar uppi kröfur sem varðað geta hagsmuni eigenda lóðar og íbúðarhúss í landi Sólheimatungu og hefði því samkvæmt  1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 átt að gefa þeim kost á gæta réttar síns. Það hefur ekki verið gert og varðar það frávísun málsins samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

Af framlögðu veðbókarvottorði fyrir Framnes verður ráðið að ekki hafi verið gætt að því að stefna öllum þeim sem hugsanlega gætu átt hagsmuna að gæta í máli þessu og varðar það frávísun málsins  samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

Mál þetta varðar flókin úrlausnarefni vegna ágreinings í tengslum við landskipti. Miklu skiptir að gerð sé grein fyrir forsögu málsins á skýran og greinargóðan hátt. Sakarefnið þarf að vera afmarkað og lýsing málavaxta og málsástæðna skýr.  Verulega skortir á að þessa sé gætt í málatilbúnaði stefnenda.

Með vísan til ofangreinds og skírskotun til til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður ekki hjá því komist að vísa öllum kröfum stefnenda frá dómi.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnendum gert að greiða stefndu in solidum 150.000 krónur í málskostnað.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnendur greiði stefndu in solidum 150.000 krónur í málskostnað.