Hæstiréttur íslands
Mál nr. 446/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Þriðjudaginn 25. október 2005. |
|
Nr. 446/2005. |
A(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að barn A skyldi vistast utan heimilis í tólf mánuði með heimild í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2005 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila og barn sóknaraðila vistað utan heimilis hennar til 1. mars 2006. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. Barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað verði kröfu varnaraðila um vistun barns sóknaraðila utan heimilis en til vara að vistuninni verði markaður skemmri tími. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum. Sóknaraðili gerir og kröfu um endurmat á gjafsóknarkostnaði í héraði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá mótmælir hann kröfu sóknaraðila um málskostnað, en gerir ekki kröfu um kærumálskostnað.
Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram hefur sóknaraðili verið í áfengismeðferð. Af nýjum gögnum sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt sést að sóknaraðili mun hafa lokið þeirri áfengismeðferð 29. september sl. og hafið nær strax áfengisneyslu að nýju. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Að virtu umfangi málsins þykir ekki ástæða til að hrófla við ákvörðun héraðsdóms um gjafsóknarkostnað sóknaraðila í héraði.
Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2005.
Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur 22. ágúst 2005 og var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð þess 20. september 2005.
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, hér eftir nefnd sóknaraðili, gerir þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, að B, [kt. fædd 2004], verði vistuð utan heimilis móður, A í 12 mánuði, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
A, hér á eftir nefnd varnaraðili, krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila um að telpan B [kt.], dóttir varnaraðila, verði vistuð utan heimils móður í 12 mánuði, verði hafnað, en til vara að vistun utan heimilis verði markaður mun skemmri tími, en krafa sóknaraðila lýtur að. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila í máli þessu, varnaraðila að skaðlausu, og verði hann dæmdur eins og málið sé ekki gjafsóknarmál.
Málavextir.
Varnaraðili málsins er 36 ára gömul kona og varðar málið dóttur hennar sem fæddist [...] 2004, þá 10 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. [...] Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík mun lögregluaðstoðar tvívegis hafa verið óskað á meðgöngutíma barnsins vegna ölvunar varnaraðila. Í gögnum málsins kemur einnig fram, að varnaraðili hefur átt við alvarlegan áfengisvanda og andlega vanlíðan að stríða í nokkur ár. Í ljósi vanda síns hefur varnaraðili, að mati sóknaraðila, nánast frá fæðingu barnsins ekki getað veitt því þá umönnun, aðhald og það öryggi sem forsjáraðilum er að lögum skylt að veita börnum sínum.
Varnaraðili á fyrir soninn C fæddan 1989, sem býr í dag hjá föður sínum í [...], en á árunum 2001 og 2002 bárust barnaverndaryfirvöldum ítrekaðar tilkynningar um vanrækslu drengsins vegna áfengisneyslu varnaraðila. Afskipti barnaverndaryfirvalda af mæðgunum hófust hins vegar í desembermánuði 2004 þegar tilkynning barst frá heilsugæslustöðinni í [...] vegna gruns um áfengisneyslu varnaraðila. Málið var þá sett í hefðbundna könnun skv. 21. gr. barnaverndarlaga og var varnaraðili boðuð í viðtal þann 1. febrúar 2005.
Áður en til viðtalsins kom, eða 27. janúar sl., barst tilkynning frá föður telpunnar um að varnaraðili hefði neytt mikils áfengis, vodka, og gæti sökum rænuleysis ekki sinnt barninu. [...].
Föstudaginn 28. janúar sl. um kl. 13:00 fóru starfsmenn barnaverndar Reykjavíkur í vitjun á heimili varnaraðila til að kanna ástand og öryggi barnsins. Enginn svaraði þá á bjöllu en lágur grátur barnsins heyrðist hins vegar öðru hvoru. Faðir barnsins var þá kallaður til og hleypti hann starfsmönnum barnaverndar inn í íbúðina. Þar fundu starfsmenn varnaraðila rænulausa í rúmi sínu. Barnið lá hins vegar undir handarkrika varnaraðila með höfuðið á þykkum kodda og með stóra sæng yfir höfðinu. Illa gekk að vekja varnaraðila og var hún drafandi í tali, illa áttuð og jafnvægislaus. Varnaraðili var ósamvinnufús og vildi ekki viðurkenna að hún væri undir áhrifum. Að mati starfsmanna var varnaraðili ekki í viðunandi ástandi til að annast barnið og tryggja öryggi þess. Þá kvaðst faðir barnsins ekki tilbúinn að taka barnið til sín þar sem hann væri húsnæðislaus. Var því tekin ákvörðun um kyrrsetningu barnsins á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga og ákveðið að barnið skildi vistað á vegum barnaverndaryfirvalda til 8. febrúar 2005.
[...]
Mál varnaraðila og dóttur hennar var tekið til afgreiðslu á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 8. febrúar sl. og staðan metin svo að öryggi barnsins þætti ekki tryggt í umsjá varnaraðila að óbreyttum forsendum. Þar sem samþykki varnaraðila skorti fyrir vistun barnsins utan heimilis, var úrskurðað á grundvelli b- liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga að barnið skyldi vistað utan heimilis í 2 mánuði frá úrskurðardegi. Jafnframt var starfsmönnum falið að halda áfram könnun málsins fram til þess tíma. Í skýrslu frá Vistheimili barna 1. mars sl. kemur fram að varnaraðili hafi ekkert heimsótt barnið á tímabilinu 27. janúar til 10. febrúar sl. en eftir það hafi varnaraðili komið á hverjum degi og sinnt barninu. Skipulag um viðveru hafi alveg staðist, varnaraðili hafi hugsað mjög vel um barnið og allir samningar við hana staðist.
Hinn 15. mars sl. ritaði varnaraðili undir meðferðaráætlun sem fól það m.a. í sér að hún myndi undirgangast forsjárhæfnismat, annast barnið daglega á Vistheimili barna, standa við áfengisbindindi og vinna með áfengisvanda sinn með því að sækja AA fundi fjórum sinnum í viku og setja upp „prógram“ með Óttari Guðmundssyni lækni. Í bréfi læknisins til barnaverndar, 1. apríl sl., kynnti hann meðferðaráætlun varnaraðila og tók m.a. fram að hann teldi varnaraðila ágætlega hæfa sem uppeldisaðila barnsins ef hún héldi sig frá áfengi og tækist að koma jafnvægi á líf sitt.
Áskell Örn Kárason sálfræðingur var fenginn til að kanna forsjárhæfni varnaraðila. Í sálfræðilegri athugun hans 4. apríl sl. segir m.a. að varnaraðili eigi að baki átakasama fortíð og hafi á fullorðinsárum glímt við áfengisvanda. Eftir kyrrsetningu á dóttur hennar hafi varnaraðili viðurkennt vanda sinn og hafið endurhæfingu sem alkóhólisti. [...] Niðurstaða forsjárhæfnismatsins er sú að gera megi ráð fyrir því að forsjárhæfni varnaraðila sé fullnægjandi en þó háð því að varnaraðili nái tökum á áfengisvanda sínum. Er tekið fram að varnaraðili virðist vera að vinna í þeim vanda sínum af fullri alvöru. [...]
Málið var tekið til afgreiðslu á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 5. apríl sl. Taldi nefndin ástæðulaust að barnið dveldi á Vistheimili barna til 8. apríl 2005 ef varnaraðili undirritaði meðferðaráætlun fyrir þann tíma. Í framhaldi af fundinum fékk varnaraðili barnið til sín eftir að hafa ritað undir meðferðaráætlun. Áætlunin hafði það að markmiði að varnaraðili myndi standa við áfengisbindindi og veita dóttur sinni örugg uppeldisskilyrði. Skuldbatt varnaraðili sig til að fylgja mjög ítarlegri áætlun. Einnig samþykkti varnaraðili óboðað eftirlit á heimili sitt sem og að svara án undantekninga þegar dyrabjöllu væri hringt. Meðferðaráætlunina átti síðan að endurskoða í síðasta lagi 13. júlí sl.
Varnaraðila tókst ekki að standa við meðferðarætlunina og 4. júní sl. barst barnaverndarnefnd tilkynning um áfengisneyslu varnaraðila. Erfiðlega gekk í framhaldinu að ná sambandi við varnaraðila og þann 6. júní virtist varnaraðili hafa verið að drykkju. Hafði faðir barnsins þann sama dag tekið barnið til sín þar sem varnaraðili var fallin á áfengisbindindi. Eftir ítrekaðar tilraunir starfsmanna til að ræða við varnaraðila á heimili hennar náðu þeir sambandi við hana í gegnum dyrasíma seinnipart þriðjudagsins 7. júní sl. Augljóst var að varnaraðili hafði verið við áfengisneyslu og samþykkti varnaraðili að barnið dveldi hjá föður fram að fundi barnaverndarnefndar 21. júní sl. sbr. 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga.
Mál varnaraðila og dóttur hennar var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 21. júní sl. Lá þá fyrir greinargerð starfsmanns barnaverndar, dags. 21. júní sl., þar sem fram kom að varnaraðili væri fallin á bindindi og virtist hafa verið í drykkju í einhvern tíma. Segir þar m.a. að B sé fyrirburi sem þarfnist sérstakrar örvunar og umhyggju sem ekki sé hægt að tryggja hjá varnaraðila þrátt fyrir góðan vilja hennar að því er virðist. Stuðningsaðgerðir og eftirlit hafi ekki skilað árangri og er staðan metin svo að það sé ekki forsvaranlegt að taka frekari áhættu enda sé líf barnsins í bráðri hættu þegar varnaraðili drekki frá sér ráð og rænu. Er því lagt til að barnið verði vistað utan heimilis í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs. Á fundinum var kveðinn upp sá úrskurður að B skyldi kyrrsett á heimili á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur í tvo mánuði frá úrskurðardegi að telja. Á fundinum tók Barnaverndarnefnd Reykjavíkur jafnframt þá ákvörðun að krefjast þess fyrir dómi að telpan skyldi vistuð utan heimilist í 12 mánuði sbr. 1. mgr. 28. gr. Barnaverndarlaga.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila um að telpan B verði vistuð utan heimilis móður í 12 mánuði byggist á því að varnaraðili eigi við alvarlegan áfengisvanda að etja sem henni hefur ekki tekist að sigrast á. Þannig liggur fyrir að varnaraðili hefur ítrekað drukkið sig ofurölvi á meðan hún hefur haft dóttur sína í umsjá sinni og barnið einu sinni verið í lífshættu vegna ölvunar og rænuleysis varnaraðila. Af framangreindu sé fulljóst að varnaraðili er í dag óhæf til að bera ábyrgð á og sinna uppeldisskyldum gagnvart dóttur sinni sökum alvarlegs áfengisvanda. Að mati barnaverndarnefndar þarf varnaraðili að fara í áfengismeðferð til að geta tekist á við daglegt líf og skapa barni sínu nægjanlega þroskavænlegt umhverfi, öryggi og festu. Á meðan varnaraðili leitar aðstoðar vegna áfengisvanda síns er nauðsynlegt að barnið verði vistað utan heimilis móður. Þar sem varnaraðili hefur ekki fengist til að samþykkja slíka ráðstöfun og nauðsynlegt þykir að vistun barnsins standi lengur en í tvo mánuði, sbr. b-lið 27. gr. barnaverndarlaga, gerir barnaverndarnefnd þá kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að dómurinn úrskurði að barnið skuli vistast utan heimilis móður í 12 mánuði, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili hafnar alfarið kröfu sóknaraðila í málinu og telur sig í dag fullfæra til að rækja móðurhlutverkið og ala önn fyrir dóttur sinni, B. Hún telur sig hafa allar aðstæður, félagslegar sem tilfinningalegar og fullyrðir að áfengismeðferðin hafi virkað. Hún telur einnig að mikil og náin tilfinningatengsl séu á milli hennar og barnsins og telur mikilvægt að þau verði ekki rofin meira en orðið er. Þá minnir hún á að hún hafi umgengist barnið daglega samkvæmt samkomulagi þar um.
Varnaraðili tekur fram að hún hafi m.a. farið í áfengismeðferð á Vogi 15. júlí sl. sem lauk 8. ágúst sl. og einnig hefur hún verið í meðferð á deild 31A Teigi geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss frá 22. ágúst sl. og sú meðferð muni halda áfram fram í byrjun októbermánaðar. Sú meðferð er virka daga frá kl. 9 á morgnana til kl. 14 nema á föstudögum, þá lýkur meðferðinni kl. 12. Þá hefur varnaraðili upplýst að hvern virkan dag vikunnar sæki hún dóttur sína til dagmóður og hafi hana til kl. 20 er hún fari með hana til föður.
Forsendur og niðurstaða.
Í gögnum málsins kemur fram, að varnaraðili málsins hefur átt við alvarlegan áfengisvanda og andlega vanlíðan að stríða í nokkur ár og hafa barnaverndaryfirvöld ítrekað haft afskipti af henni.
Samkvæmt gögnum málsins hefur B dvalist minni hluta ævi sinnar í umsjá móður og í tvö skipti verið tekin af heimili móður vegna óhóflegrar áfengisneyslu hennar. Fyrir liggur að eftir að B var síðast tekin frá varnaraðila hefur varnaraðili verið rúmlega þrjár vikur í áfengismeðferð á Vogi, þ.e. frá 15. júlí til 8. ágúst sl. Í framhaldi þess eða 22. ágúst sl. fór varnaraðili í meðferð á deild 31A Teigi, vímuefnadeild Landspítalans og mun þeirri meðferð ljúka eftir u.þ.b. tvær vikur eða í byrjun október nk. Í læknisvottorði frá Teigi kemur fram, að varnaraðili hafi stundað meðferðina vel og hún hafi í einu og öllu farið eftir leiðsögn og tekið góðum framförum. Í öðrum gögnum málsins, svo sem bréfi hjúkrunar-fræðings á Heilsugæslunni í [...] frá 23. febrúar 2005, bréfi forstöðumanns vistheimilis barna frá 1. mars 2005 og bréfi yfirlæknis barnadeildar Landspítalans frá 11. mars 2005, kemur fram að varnaraðili hafi hugsað vel um B. Þá kemur fram í niðurstöðu Áskels Arnar Kárasonar, yfirsálfræðings frá 4. apríl sl., að hann telji forsjárhæfni varnaraðila fullnægjandi, en hæfni hennar sé þó háð því að hún nái tökum á áfengisvanda sínum. Sama álit gefur Óttarr Guðmundsson í bréfi sínu 1. apríl sl., en þar kemur fram, að hann telji varnaraðila ágætlega hæfa sem uppeldisaðila litlu stúlkunnar, ef hún haldi sig frá áfenginu og takist að koma jafnvægi á líf sitt.
Svo virðist sem áfengismeðferð varnaraðila gangi vel og jafnframt að hún hafi góðan vilja og fastan ásetning til að standa sig og halda sig frá áfenginu. Varnaraðili verður þó að sýna að hún geti haldið bindindið. Einnig ber að líta til þess, að breytingar eru í nánustu framtíð hjá varnaraðila, þar sem hún líkur meðferð sinni á Teigi og hefur hug á að fara út á vinnumarkaðinn á ný og jafnframt að skipta um húsnæði. Eftir atvikum þykir því rétt að fallast á kröfu sóknaraðila, um að vista B utan heimili móður allt til 1. mars 2006.
Varnaraðili hefur gjafsókn í máli þessu. Kostnaðurinn greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Róberts Árna Hreiðarssonar hdl., ákveðin 180.000 krónur.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Sóknaraðila, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, er heimilt að vista B, [kt.], sem lýtur forsjá móður sinnar, varnaraðila, A, utan heimilis móður allt til 1. mars 2006.
Málskostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Róberts Árna Hreiðarssonar hdl., ákveðin 180.000 krónur.