Hæstiréttur íslands
Mál nr. 109/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 12. febrúar 2015 |
|
Nr. 109/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 16. febrúar 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu um gæsluvarðhald hafnað, til vara að honum verði gert að sæta farbanni og úrræðum samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 16. febrúar 2015 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að, að kvöldi 23. nóvember sl. hafi lögreglu borist tilkynning um slasaðan mann að [...] í [...]. Þegar lögreglan kom á vettvang hafi komið í ljós að maður, A hefði þar verið stunginn í framanvert brjósthol. Hann hafi verið lífshættulega slasaður og vart verið hugað líf við komu á slysadeild, enda hafi hann misst mikið blóð. Tveir menn hafi verið á vettvangi með brotaþola, B og C. Skömmu síðar hafi Y og kærði komið á vettvang og hafi þeir verið handteknir í þágu rannsóknar málsins. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi kærði og Y komið að [...] ásamt þriðja manninum, Z skömmu áður en lögreglu bar að garði. Hafi það verið grunur lögreglu, út frá þeim upplýsingum sem legið hafi fyrir, að þeir þrír hefðu verið valdir að áverkum brotaþola. Z hafi síðan verið handtekinn nokkrum dögum síðar. Y hafi sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til 8. desember sl. og Z til 12. desember sl. en kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi til dagsins í dag.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu mun kærði hafa verið í átökum við C á heimili B í umrætt sinn og hafi brotaþoli blandast inn í átökin. Í kjölfarið hafi brotaþoli verið stunginn í brjóstið. Y, Z og kærði hafi verið yfirheyrðir 5 til 6 sinnum vegna málsins og neiti allir að hafa stungið brotaþola og segist ekki geta upplýst lögreglu um hver það hafi verið sem hafi stungið hann. Brotaþoli hafi hinsvegar skýrt frá því að hann hafi blandast í átök milli kærða og C umrætt sinn og lýst því að kærði hefði verið sá sem stakk hann. Þá beri vitnið B um að hafa séð kærða sveifla hníf á heimili hans skömmu fyrir átökin. Þá hafi bæði Y og D skýrt frá því að kærði hafi verið mjög pirraður þegar C hafi komið inn á heimilið því honum væri illa við hann og hafi þeir lent í átökum.
Kærði hafi verið yfirheyrður 5 sinnum vegna málsins en neiti sök. Hann kannist þó við að hafa verið á vettvangi og að hafa lent þar í átökum en neiti að hafa stungið brotaþola. Kærði segist ekki vera þekktur fyrir að slást með hnífum en hann kannist við að ganga stundum með hníf á sér.
Við handtöku hafi fundist blóð bæði á fatnaði kærða og höndum hans. Í málinu hafi því verið send til rannsóknar tíu sýni sem varðveitt hefðu verið við réttarlæknisskoðun á kærða svo og við rannsókn á fatnaði hans. Með gögnunum hafi verið send samanburðarsýni frá kærða og brotaþola. Frumrannsókn á sýnunum hafi leitt í ljós að blóð hafi verið til staðar í þeim öllum og hafi þau þá verið rannsökuð áfram og greind með DNA greiningaraðferðum. Sýni á úlpu og buxum kærða hafi ekki gefið niðurstöður þar sem þau reyndust ekki innihalda nægilegt magn DNA til samkenningar. Sýni af höndum kærða hafi öll reynst hafa sama DNA snið og hafi það snið verið eins og DNA snið kærða sjálfs. Á bol kærða sjálfs hafi fundist DNA snið frá a.m.k. tveim einstaklingum. Það snið sem verið hafi í meirihluta í sýninu hafi verið samkennt við kærða en DNA snið sem verið hafi í minnihluta í sýninu hafi hins vegar ekki verið nægilegt til samkenningar.
Í síðustu viku hafi lögregla hlustað heimsóknir kærða á Litla-Hrauni og hafi hann skýrt gestum sínum frá því að Y sé sá sem hafi stungið brotaþola. Fyrir helgi hafi kærða verið boðið að gefa að nýju skýrslu vegna málsins en hann hafi ekki talið ástæðu til að breyta fyrri framburði sínum. Framangreindar upplýsingar hafi verið bornar undir Y nú fyrr í dag og neiti hann alfarið sök og segist ekki skilja hvað kærða gangi til og hafi hann bent á að brotaþoli hafi bent á kærða.
Brotaþoli hafi, við komu á slysadeild, verið í bráðri lífshættu. Samkvæmt læknisvottorði hafi hann hlotið stórt gat á framvegg hjartans, verið nánast útblæddur og hjarta hans hefði stöðvast. Samkvæmt vottorðinu sé það mikil mildi að brotaþoli hafi lifað árásina af.
Í framhaldi af handtöku kærða hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðahald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga, fyrst þann 24. nóvember sl. en síðast þann 8. desember sl., með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 323/2014 sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar. Þann 15. desember sl. hafi kærða, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 336/2014, síðan verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til dagsins í dag en Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna með dómi réttarins nr. 829/2014.
Rannsókn málsins sé komin langt á veg en beðið sé skýrslu réttarmeinafræðings og sé lagt kapp á að þeim rannsóknum verði lokið sem fyrst. Málið verði síðan sent Ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar.
Kærði liggi undir sterkum grun um að hafa ráðist á brotaþola með hníf, stungið hann í brjóstið og veitt honum áverka sem hefðu hæglega geta dregið brotaþola til dauða. Brot kærða sé sérstaklega alvarlegt og talið varða við 211. gr. sbr. 20 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og kunni að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og sé það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða
Lögregla hefur til rannsóknar mál vegna alvarlegrar hnífstunguárásar 23. nóvember sl. og er meint brot talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði hefur frá upphafi neitað sök í málinu, en samkvæmt gögnum málsins voru fleiri menn á vettvangi er atvikið varð. Í rannsóknargögnum kemur fram að brotaþoli hefur borið kennsl á kærða við myndsakbendingu sem þann mann er stakk hann með hnífi í umrætt sinn. Hefur brotaþoli borið að atlagan hafi átt sér stað eftir að hann blandaðist í átök kærða og annars manns. Þá liggur fyrir framburður vitnis um að kærði hafi sveiflað hnífi á vettvangi skömmu áður en til átakanna kom. Er fallist á það með lögreglustjóra að sterkur grunur sé um að kærði hafi framið brotið. Með tilliti til almannahagsmuna er jafnframt á það fallist að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 829/2014. Er skilyrðum fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi kærða því fullnægt og verður krafa lögreglustjóra tekin til greina svo sem í úrskurðarorði greinir.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 16. febrúar 2015, kl. 16:00.