Hæstiréttur íslands
Mál nr. 434/2007
Lykilorð
- Skuldamál
|
|
Fimmtudaginn 13. mars 2008. |
|
Nr. 434/2007. |
Veiðarfæraverslunin Dímon ehf. (Anton Björn Markússon hrl.) gegn Hanway Shipping Co. Ltd. (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) |
Skuldamál.
V ehf. og japanska fyrirtækið H voru í viðskiptum frá árinu 1999 til 2005 vegna sölu á beitu. H krafði V ehf. um eftirstöðvar skuldar samkvæmt reikningum útgefnum af H vegna þessara viðskipta frá 9. febrúar 2001 til 25. febrúar 2005. Í málinu lá fyrir skjal undirritað af fyrirsvarsmanni V ehf. sem H kvað geyma sundurliðun umkrafinnar skuldar og handritaða greiðsluáætlun V ehf. vegna hennar. Því var mótmælt af hálfu V ehf. sem gaf aðrar skýringar á tilurð og efni skjalsins. Ekki var fallist á að þær skýringar ættu við rök að styðjast og talið að skjalið hefði að geyma viðurkenningu V ehf. á skuld félagsins við H. Þá þótti H ekki hafa sýnt af sér tómlæti við að halda fram kröfu sinni og var niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu V ehf. staðfest. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu miðuðust dráttarvextir af fjárhæðinni við þær dagsetningar sem tilgreindar voru á skjalinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. ágúst 2007. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar er nægilega rakið í héraðsdómi voru aðilar í viðskiptum frá árinu 1999 til 2005 vegna sölu á beitu. Í stefnu í héraði krafðist stefndi greiðslu á 152.427,62 bandaríkjadölum sem væru eftirstöðvar skuldar samkvæmt reikningum útgefnum af honum á tímabilinu frá 9. febrúar 2001 til 25. febrúar 2005. Sundurliðun kröfugerðar stefnda er að finna í hinum áfrýjaða dómi, en með honum var áfrýjandi dæmdur til greiðslu 149.463,94 bandaríkjadala en ekki var fallist á að áfrýjandi skyldi greiða þrjá tilgreinda reikninga samtals að fjárhæð 2.963,68 bandaríkjadalir.
Í gögnum málsins er prentað skjal á bréfsefni stefnda frá 15. júlí 2005 þar sem hann sundurliðar skuld áfrýjanda. Tilgreinir hann þar meðal annars að draga skuli frá skuldinni 89.650 bandaríkjadali vegna viðskipta með beitu við fyrirtæki á Grænlandi eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Þá er á skjalinu getið innborgunar áfrýjanda 22. desember 2004 að fjárhæð 50.000 bandaríkjadalir sem kemur til frádráttar. Eftir standa 152.427,62 bandaríkjadalir, miðað við 15. júlí 2005. Er það sama fjárhæð og stefnufjárhæð í héraði. Fyrir neðan framangreinda útlistun á skjalinu eru handritaðar í dálk fimm tölur og dagsetning við hverja þeirra. Efsta handritaða talan er ekki skýrlega rituð. Virðist sem þar standi annað hvort 50.000 eða 30.000. Hafi staðið til að rita hina síðarnefndu þá stemmir samanlögð fjárhæð talnanna fimm við stefnufjárhæð málsins í héraði 152.427 bandaríkjadali. Neðan við þessar tölur á skjalinu ritar Arnór Stefánsson fyrirsvarsmaður áfrýjanda nafn sitt. Verður ekki annað ráðið en að það hafi hann gert á fundi síðar í júlí 2005 með fyrirsvarsmanni stefnda Sy Hong. Sá síðarnefndi kvað fyrir dómi skjalið hafa að geyma sundurliðun umkrafinnar skuldar og jafnframt handritaða greiðsluáætlun áfrýjanda vegna hennar. Aðspurður fyrir dómi kvað Arnór það hins vegar ekki vera svo. Skjalið hafi komið til vegna hlutabréfakaupa, þar sem staðið hafi til að hann keypti hlut í verksmiðju stefnda í Suður Ameríku fyrir 250.000 bandaríkjadali. Hafi skjalið kveðið á um greiðsluáætlun vegna hluta af þeirri greiðslu, eða 172.000 bandaríkjadali. Nánar aðspurður um hvers vegna handritað hafi verið um ætluð kaup á þetta tiltekna blað, sem kvað á um kröfu stefnda á hendur áfrýjanda, sagði Arnór: „Við vorum að krassa bara þarna inni á skrifstofu, enda sérðu að þetta er bara krass út í loftið hérna. Enda eru þessar tölur ekki í samræmi við uppgjör hans sem hann taldi vera á milli félaganna. Þetta er í engu samræmi við, við bækur Dímons, þetta uppgjör.“
Engin gögn styðja fullyrðingar áfrýjanda um ætluð viðskipti vegna ótilgreindrar verksmiðju í Suður Ameríku. Þegar litið er til framanritaðs og efnis umrædds skjals, sem er tilkomið eftir að ágreiningur reis með aðilum í viðskiptum þeirra og samræmist stefnukröfu í héraði, er fallist á með héraðsdómi að ekki verði miðað við skýringar áfrýjanda um tilurð og efni skjalsins. Verður ekki annað ráðið en að það hafi að geyma viðurkenningu áfrýjanda á skuld hans við stefnda, eins og hún er þar handrituð, 152.427 bandaríkjadalir, og áætlun um greiðslu hennar. Þá er fallist á með héraðsdómi að stefndi hafi ekki sýnt af sér tómlæti við að halda fram kröfu sinni. Verður því áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda þessa skuld að frádregnum 2.963,68 bandaríkjadölum, en stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi.
Í framangreindu skjali eru tilgreindir gjalddagar einstakra greiðslna á skuld áfrýjanda við stefnda. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu skulu dráttarvextir af dæmdri fjárhæð miðast við þær dagsetningar sem tilgreindar eru í skjalinu. Eins og áður segir féllst héraðsdómur ekki á skyldu áfrýjanda um greiðslu þriggja tilgreinda reikninga, samtals að fjárhæð 2.963,68 bandaríkjadalir. Verður því höfuðstóll fyrstu greiðslu samkvæmt umsömdum gjalddögum lækkaður sem nemur þessari fjárhæð.
Héraðsdómur verður staðfestur um málskostnað.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Það athugast að áfrýjandi hefur við meðferð málsins ekki borið fyrir sig að krafa stefnda sé fyrnd að hluta eða að öllu leyti. Voru því ekki efni til að héraðsdómur tæki það atriði til afgreiðslu eins og hann gerði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Veiðarfæraverslunin Dímon ehf., greiði stefnda, Hanway Shipping Co. Ldt., 149.463,32 bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 27.036,32 bandaríkjadölum frá 21. júlí 2005 til 21. ágúst sama ár, en af 57.036,32 bandaríkjadölum frá þeim degi til 21. september sama ár, en af 87.036,32 bandaríkjadölum frá þeim degi til 21. október sama ár, en af 117.036,32 bandaríkjadölum frá þeim degi til 21. nóvember sama ár, en af 149.463,32 bandaríkjadölum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað með stefnu birtri 15. ágúst 2006 af Hanway Shipping Co., Ltd., 159 Samsong Dong, Kangnam-Gu, Seoul, Suður Kóreu, á hendur Veiðarfæraversluninni Dímon ehf., Tunguhálsi 8, Reykjavík.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð USD (Bandaríkjadollarar) 152.427.62 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 22. desember 2004 til greiðsludags og að vextir verði höfuðstólsfærðir. Þá er krafist málskostnaðar með virðisaukaskatti að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist af hálfu stefnda að kröfur stefnanda verði lækkaðar og krafist er málskostnaðar úr höndum stefnanda eins og í aðalkröfu. Til þrautavara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni
Málsaðilar áttu viðskipti með beitusmokkfisk og makríl á árunum 1999 til 2005, en stefndi lýsir viðskiptunum þannig að hann hafi keypt vöruna af stefnanda og endurselt. Vorið 2000 var ópökkuðum beitusmokkfiski stefnanda úr flutningsskipinu Sea Frost landað í Hafnarfirði og sett í kæligám. Samkomulag varð um að stefndi seldi beituna fyrir stefnanda og greiddi fyrir það magn sem hann fékk úr kæligeymslu hverju sinni.
Málsaðila greinir á um eftirstöðvar reikninga vegna sölu á beitu frá árunum 2001 og 2002 sem stefnandi krefur stefnda um í málinu. Af hálfu stefnda er reikningunum mótmælt. Enn fremur er því haldið fram að stefndi hafi gert upp við stefnanda vegna viðskipta málsaðila í desember 2003 með greiðslum og skuldajöfnuði á tveimur reikningum, annars vegar frá 12. ágúst 2002 vegna beitu sem stefnandi hafi keypt af stefnda, að fjárhæð 187.171,70 dollara, og hins vegar frá 2. desember sama ár vegna tjóns, er stefndi hafi orðið fyrir, vegna þess að hluti af beitunni úr Sea Frost sem seldur var til Grænlands hafi verið skemmdur. Tjón stefnanda sé vegna söluandvirðis beitunnar, geymslugjalda og flutningskostnaðar sem stefnandi hafi þurft að greiða en fái ekki greitt úr hendi kaupanda þar sem hann hafi hafnað vörunni vegna gallans og neitað að greiða fyrir hana. Sá reikningur er að fjárhæð 192.040,80 dollarar.
Krafa stefnanda í málinu er einnig byggð á reikningum fyrir sýnishorn af makríl, sem stefnandi kveðst hafa sent stefnda á árinu 2004, samtals að fjárhæð USD 842,36. Stefndi mótmælir að hann hafi átt að greiða fyrir þessi sýnishorn og að auki hafi þau verið stöðvuð af Fiskistofu við komu til landsins þar sem um óvottuð sýni hafi verið að ræða.
Þá er krafa stefnanda í málinu byggð á reikningi stefnanda vegna dráttarvaxta, sem komið hafi til af því að bankaábyrgðir, sem stefndi hafi átt að láta stefnanda í té, hafi ekki verið í samræmi við samninga málsaðila. Þessari kröfu er mótmælt af hálfu stefnda sem heldur því fram að stefnandi hafi fengið allar bankaábyrgðir eins og samið hafi verið um.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að vorið 2000 hafi skipið M/V Sea Frost siglt úr höfn frá Falklandseyjum með 4.922.000 MT (metric tons) af smokkfiskbeitu frá stefnanda. Eigandi skipsins sé flutningsfyrirtækið Eastwind. Þegar skipið hóf ferðina hafi þegar verið búið að selja rúm 3.900.000 MT af beitunni til Kanada. Ekki hafi tekist að selja alla beituna þar, enda um mjög mikið magn að ræða. Eastvind og stefnandi hafi því leitað eftir heppilegum markaði til að selja þau 1.021.529 MT sem eftir hafi verið af farminum. Þar sem beitan var ópökkuð hafi Ísland verið eina landið á þessum tíma, þar sem leyfilegt hafi verið að afferma beituna. Það hafi verið gert í Hafnarfirði 16. apríl og beitan geymd á athafnasvæði Eimskips, upphaflega í nafni Eastwind, en stuttu eftir affermingu í nafni stefnanda.
Chris Plogienniczak, forstjóri Eastwind, hafi haft milligöngu um sölu farmsins, sem og samningsviðræður milli málsaðila, en samningur hafi komist á þeirra á milli 28. júní 2000. Samningurinn hafi verið á þann veg að stefndi hafi átt að greiða 600 USD fyrir MT, og kæligeymslukostnað frá 28. júní 2000. Stefndi hafi þó ekki keypt allan farminn heldur hafi hann átt að greiða fyrir það magn sem hann keypti og fékk afhent hverju sinni. Vöruna hafi stefndi fengið afhenta þannig að þegar hann hafði áframselt hana hafi hann óskað eftir ákveðnu magni úr farminum með því að hafa samband við stefnanda í gegnum Eimskip. Stefnandi hafi heimilað afhendingu uppgefins magns til stefnda og hafi stefndi fengið það magn úr farminum úr vörugeymslu. Eftir hverja afhendingu hafi stefnandi gefið út reikning í samræmi við framangreindan samning aðila og sent stefnda.
Vegna viðskipta málsaðila hafi stefnandi gefið út sjö reikninga árið 2001 og þrjá reikninga árið 2002. Útgefnir reikningar árið 2001 nemi samtals USD 486.624,05, en af þeirri fjárhæð hafi stefndi greitt USD 238.639,50, og árið 2002 nemi reikningar samtals USD 3.259.644,26 og hafi stefndi greitt af þeirri fjárhæð USD 3.218.514,87, eins og fram komi í viðskiptayfirliti stefnda frá 5. október 2005. Að frádregnum innborgunum nemi eftirstöðvar skuldar stefnda vegna viðskipta áranna 2001-2002 USD 292.077,62.
Málsaðilar hafi eftir þetta átt í áframhaldandi viðskiptasambandi, sem ekki sé ágreiningur um, en stefndi hafi þó ekki enn greitt hluta þeirra reikninga sem stefnandi hafi gefið út vegna viðskiptanna. Á árinu 2004 hafi stefnandi sent flugleiðis til stefnda sýnishorn af makríl (saury), samkvæmt beiðni stefnda. Stefnandi hafi gefið út tvo reikninga vegna sýnishornanna, samtals að fjárhæð USD 842,36, sem stefndi hafi enn ekki greitt.
Á árinu 2004 hafi stefndi keypt vörur af stefnanda og hafi stefnandi gefið út þrjá reikninga sem stefndi hafi greitt og enginn ágreiningur sé um. Málsaðilar hafi samið um að stefndi fengi bankaábyrgð fyrir sendingunni, sem hafi átt að greiðast við sýningu vörunnar (Letter of credit at sight). Stefndi hafi hins vegar ekki fengið bankaábyrgð nema með 90 daga sýningartíma (Letter of credit+90 days). Þegar stefnandi hafi fengið þær upplýsingar í bankanum í Kóreu, hafi hann sent stefnda tölvupóst, þar sem hann hafi beðið stefnda um að sjá um að hafa bankaábyrgðina eins og um hafi verið samið, ef hægt væri, eins og fram komi í tölvupósti stefnanda til stefnda 26. nóvember 2004. Stefnandi hafi jafnframt tekið fram að ef ekki væri hægt að breyta bankaábyrgðinni, bæri stefndi ábyrgð á og ætti að greiða tjón stefnanda vegna vaxtakostnaðar sem hlytist af þessari seinkun á greiðslunni. Stefnandi hafi síðan sent stefnda reikning í lok febrúar 2005 fyrir þessum kostnaði, samtals USD 2.121,32, sem stefndi hafi enn ekki greitt, þrátt fyrir loforð þar um.
Vegna sölu á 163.300 kg úr farmi Eastwind til Grænlands hafi stefndi kvartað við stefnanda um að varan hefði verið gölluð. Stefndi hafi endurkrafið stefnanda um andvirði gölluðu vörunnar með reikningi 2. desember 2002, að fjárhæð USD 192.040,80. Stefndi hafi sagt að kaupandinn í Grænlandi hefði hafnað vörunni þar sem hún væri gölluð og ekki hæf til beitu. Stefnandi hefði ætíð hafnað þessum reikningi og tekið fram að salan til Grænlands væri alfarið á ábyrgð stefnda. Stefnda hafi borið að ganga úr skugga um gæði vörunnar áður en hún var send af stað. Hann hefði ekki átt að afgreiða vöruna í skip heldur hafna henni eða fleygja, ef hún var skemmd, eins og fram komi í tölvupóst milli aðila í október 2003.
Þar sem málsaðilar hafi ætlað að eiga í áframhaldandi viðskiptasambandi hafi stefnandi samþykkt að koma til móts við stefnda án þess að viðurkenna greiðsluskyldu vegna meints galla vörunnar. Stefnandi hafi veitt stefnda afslátt og lækkað kröfu sína sem nemi USD 89.650, eins og fram komi í tölvupósti í október 2003. Stefndi hafi samþykkt þessa lækkun með því að greiða í banka inn á skuld sína 22. desember 2004, samtals USD 50.000,00, og með samkomulagi aðila á fundi í júlí 2005, þar sem Arnór Stefánsson hafi undirritað yfirlýsingu og áætlun um greiðslu skuldarinnar, eins og fram komi í því skjali frá 15. júlí 2005. Eftir þessa innborgun og lækkun vegna afsláttar nemi krafa stefnanda á hendur stefnda samtals USD 152.427,62 sem sé stefnufjárhæð þessa máls.
Stefnandi hafi margítrekað reynt að innheimta skuldina hjá stefnda og hafi stefndi lofað að greiða hana, eins og fram komi í tölvupósti milli aðila í júní og júlí 2005, en hann hafi ekki staðið við það. Stefnandi hafi því leitað aðstoðar lögmanns við innheimtu kröfunnar sem hafi sent innheimtubréf 12. október 2005. Lögmaður stefnda hafi mótmælt kröfunni með bréfi 14. sama mánaðar. Í bréfinu haldi stefndi því fram að uppgjör hafi farið fram á milli aðila um kröfuna með því að stefndi hafi bakfært stóra sendingu á smokki til Grænlands, sem hafi verið hafnað af kaupanda vegna galla, en varan hafi verið óhæf til beitu. Um væri að ræða kröfu að fjárhæð USD 379.212 sem stefndi hafi endurkrafið stefnanda um. Þessum viðskiptum hafi lokið í desember 2003. Með bréfinu hafi lögmaður stefnda sent afrit tveggja reikninga 12. ágúst og 2. desember 2002. Þetta hafi verið í fyrsta sinn sem stefndi hafi mótmælt kröfu stefnanda og aldrei fyrr hefði hann krafið stefnanda um umrædda reikninga. Reikningur 12. ágúst 2002, að fjárhæð USD 187.171, sé að auki ranglega gefinn út á nafn stefnanda, því samkvæmt yfirliti stefnda frá árinu 2002, hafi stefndi sent fyrirtækinu Wu Pioneers reikninginn, en stefnandi hafi aldrei fengið þennan reikning. Bréfaskipti og fundarhöld aðila hafi haldið áfram, án þess að leiða til niðurstöðu. Hið stefnda félag hafi ekki greitt skuld sína við stefnanda þrátt fyrir ítrekuð greiðsluloforð og innheimtutilraunir og því hafi málssóknin verið nauðsynleg til greiðslu hennar.
Stefnandi byggi málsástæður sínar á samningi aðila frá 28. júní 2000, sem kveði á um að stefndi hafi pantað og keypt tiltekið magn af beitu úr farmi stefnanda, en stefndi hafi einungis átt að greiða fyrir það magn sem hann hafi fengið afhent úr farmi stefnanda hverju sinni. Um samninginn sé ekki ágreiningur.
Krafa stefnanda sé byggð á óumdeildum, útgefnum reikningum til stefnda. Á grundvelli samningsins hafi stefnandi gefið út sjö reikninga árið 2001, þrjá reikninga árið 2002, tvo reikninga árið 2004 og einn reikning árið 2005, eða samtals 13 reikninga. Stefnukrafan sundurliðist á eftirfarandi hátt:
|
Nr. |
Útgáfudagur |
USD |
|
INVOl-009 |
09.02.2001 |
35.998,50 |
|
INV01-010 |
09.02.2001 |
32.472,00 |
|
INVOl-028 |
20.02.2001 |
11.700,00 |
|
INVOl-048 |
30.04.2001 |
45.708,00 |
|
INVOl-111 |
09.11.2001 |
35.409,00 |
|
INVOl-112 |
09.11.2001 |
77.352,00 |
|
INV01-114 |
30.04.2001 |
247.984,55 |
|
INV02-004 |
12.11.2002 |
1.266.449,38 |
|
INV02-008A |
12.11.2002 |
245.137,54 |
|
INV02-009 |
12.11.2002 |
1.748.057,34 |
|
INV04-008 |
19.05.2004 |
420,36 |
|
INV04-009 |
11.03.2004 |
422,00 |
|
INVOl-001 |
25.02.2005 |
2.121,32 |
|
Samtals USD |
|
3.749.231,99 |
|
Samtals innborgað árið 2001, USD |
238.639,50 |
|
Samtals innborgað árið 2002, USD |
3.218.514,87 |
|
Afsláttur veittur árið 2003, USD |
89.650,00 |
|
Samtals innborgað árið 2004, USD |
50.000,00 |
|
Samtals eftirstöðvar skuldar í USD |
152.427.62 |
Ekki sé ágreiningur um fjárhæð innborgana frá stefnda. Stefndi hafi aldrei mótmælt reikningum stefnanda, útgefnum árin 2004 og 2005, vegna sýnishornasendinga og vaxtakostnaðar vegna annarrar bankaábyrgðar en um hafi verið samið. Í samræmi við þetta byggi stefnandi á því að krafa hans sé óumdeild.
Ágreiningur snúist í raun um tvo reikninga stefnda, annars vegar 2. desember 2002, USD 192.040.80, og hins vegar 12. ágúst 2002, USD 187.171.70, eða samtals USD 379.212.50. Í bréfi lögmanns stefnda 14. október 2005 sé því haldið fram að uppgjör hafi farið fram á milli aðila, eins og áður er komið fram. Stefnandi mótmæli því sem röngu að uppgjör hafi farið fram, en stefndi hafi enga heimild haft til þess að skuldajafna framangreindum reikningum upp í skuld sína hjá stefnanda. Stefndi beri sönnunarbyrði fyrir fullyrðingu sinni en hann hafi ekkert lagt fram eða sýnt fram á að hún eigi við rök að styðjast.
Varðandi fyrrnefnda reikninginn byggi stefnandi á því að eftir útgáfu hans hafi aðilar samið um í tölvupósti 29. október 2003 að stefnandi veitti stefnda afslátt sem hafi numið USD 89.650. Afslátturinn byggðist á því að stefnandi félli frá greiðslu á 163.000 kg af beitu á USD 550 fyrir hvert kg. Þessu samkomulagi hafi stefndi aldrei mótmælt fyrr en með framangreindu bréfi lögmanns stefnda, en mótmælin séu of seint fram komin. Stefndi hafi viðurkennt skuld sína og framangreint samkomulag með innborgun á skuldina 22. desember 2004 og með því að undirrita yfirlýsingu um greiðsluáætlun skuldarinnar 15. júlí 2005 og í tölvupósti 27. júlí s.á.
Stefndi beri sjálfur ábyrgð á vörusendingunni til Grænlands og verði að bera tjón sitt sjálfur vegna þess. Stefnandi hafi þegar komið til móts við stefnda vegna vörunnar með því að veita afslátt af henni. Stefndi hafi þar að auki ekkert lagt fram sem sanni að varan hafi yfirhöfuð verið skemmd eða gölluð, en hafi svo verið liggi heldur ekki fyrir hvar eða í meðförum hvers hún hafi skemmst; í frystigeymslu Eimskips, á leið í skip eða í skipi. Hafi varan verið gölluð í frystigeymslu Eimskips, hefði stefndi átt að uppgötva gallann, enda hafi honum borið að rannsaka hana við kaupin. Stefndi hefði ekki átt að afgreiða vöruna í skip heldur kvarta við stefnanda eða farga vörunni. Áhættan af vörunni hafi flust til stefnda við afgreiðslu eða afhendingu vörunnar til hans. Því sé krafa kaupanda í Grænlandi vegna galla alfarið á ábyrgð stefnda þar sem farmurinn hafi komist í vörslur stefnda við afhendingu og hann hafi afgreitt í skip og sent til Grænlands. Stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að beitan hafi skemmst á meðan hún var í vörslum stefnanda en stefndi hafi ekki sýnt fram á það. Hér verði einnig að líta til þess að af öllu því magni af beitu, sem stefndi hafi keypt af stefnanda, hafi þetta verið eini hlutinn úr vörusendingunni, sem stefndi haldi fram að hafi verið gallaður. Stefndi hafi heldur ekki sýnt fram á að um sé að kenna ástæðum fyrir meintum galla í beitunni sem rekja megi til vanefnda af hálfu stefnanda.
Síðarnefnda reikningi stefnda sé ekki beint að réttum aðila og því geti stefndi ekki skuldajafnað fjárhæðinni á móti skuld sinni hjá stefnanda. Samkvæmt fyrrnefndu bréfi lögmannsins hafi reikningnum verið skuldajafnað við skuld stefnda hjá stefnanda vegna gallaðrar vöru. Reikningurinn beri það þó alls ekki með sér, heldur þvert á móti, en verið sé að krefja um greiðslu fyrir seldan smokkfisk. Stefnandi hafi aldrei átt þessi viðskipi við stefnda. Yfirlit frá stefnda bendi til þess að Wu Pioneers sé rétti aðilinn til að beina kröfu stefnda að, enda komi þar fram að stefndi hafi gefið út reikning til Wu Pioneers fyrir nákvæmlega sömu fjárhæð. Stefnandi mótmæli skuldajöfnuði og að uppgjör milli málsaðila hafi farið fram eins og stefndi haldi fram. Fyrirsvarsmaður stefnda hafi lofað að greiða en stefnandi mótmæli því að greiðslur, sem gerðar hafi verið áætlanir um, hafi verið út af öðru en skuldinni sem hér um ræði.
Kröfurnar byggi stefnandi á reglum kaupa-, samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga og alþjóðlegum viðskiptareglum. Kröfur um dráttarvexti og verðtryggingu, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en dráttarvaxta sé krafist frá þeim degi er stefndi greiddi síðast inn á kröfuna. Um varnarþing vísist til 32. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er málavaxtalýsingu í stefnu talið verulega ábótavant, einkum vegna ónákvæmni sem víða gæti í málatilbúnaði stefnanda. Upphafi umsýsluviðskipta með beitu úr M/V Sea frost sé þó réttilega lýst. Málsaðilar hafi átt með sér umfangsmikil viðskipti með beitusmokk og makríl (saury) á árunum 1999 til 2005. Andvirði þeirra viðskipta hafi numið á fjórðu milljón Bandaríkjadala samkvæmt viðskiptayfirlitum. Mest af þeim viðskiptum hafi verið með þeim hætti að stefndi hafi keypt beituna af stefnanda og endurselt. Í flestum tilvikum hafi verið gerður kaupsamningur milli aðila þar sem farmurinn hafi verið afhentur CIF Reykjavík, gegn útgáfu bankaábyrgðar (Letter of Credit) af viðskiptabanka stefnda með 60 eða 90 daga greiðslufresti, án frekari kostnaðar fyrir stefnda. Við afhendingu vörunnar í Reykjavík hafi stefnandi gefið út reikning svo unnt væri að tollafgreiða vöruna inn í landið. Í nokkrum tilvikum hafi stefnandi keypt beitu af stefnda, sbr. reikning 12. ágúst 2002, að fjárhæð USD 189.171, en stefnandi hafi aldrei fyrr en nú haft uppi mótmæli við þeim reikningi, þó hans hafi greinilega verið getið á viðskiptayfirliti stefnda fyrir árið 2002 sem hluta af uppgjöri aðila.
Viðskiptum aðila hafi að mestu lokið á árinu 2002, en endanlegt uppgjör hafi farið fram í lok desember 2003 þar sem stefndi hafi skuldajafnað tveim reikningum, annars vegar vegna síðasta hluta af sendingu til Grænlands úr farmi stefnda, sem kom til landsins í apríl 2000 með M/V Sea frost, sbr. reikning 2. desember 2002. Þeim farmi hafi verið hafnað af kaupendum í Grænlandi sem óhæfum og greiðsla ekki fengist frá þeim, eins og fram komi í bréfi þeirra 22. október 2006. Hins vegar hafi reikningi verið skuldajafnað vegna sölu til stefnanda á beitu vegna fyrirtækisins Wu Pioneers á Taiwan, en salan hafi farið fram í gegnum og fyrir atbeina stefnanda. Engin mótmæli hafi borist frá stefnanda við uppgjörið, enda hafi ekkert heyrst í forsvarsmanni stefnanda fyrr en um mitt ár 2005 varðandi skuldina sem stefndi krefji stefnanda um í máli þessu. Í millitíðinni, eða árin 2004 til 2005, hafi aðilar átt í áframhaldandi viðskiptum með beitu.
Í stefnu komi fram að innflutningur á farmi af beitu með flutningafyrirtækinu Eastwind í apríl árið 2000 hafi verið fyrir atbeina stefnanda. Stefndi hafi aldrei gert samning við stefnanda, beint eða óbeint, um kaup á þessum farmi af ópakkaðri beitu sem geymdur hafi verið í frystigeymslum Eimskip í Hafnarfirði. Forsvarsmaður stefnda hafi hins vegar fallist á beiðni stefnanda í lok árs 2000 eða í byrjun árs 2001, eftir að farmurinn hafði verið í geymslum um langt skeið, um að annast sölu hans á tilteknu verði, en að viðbættri þóknun, sem lagst hafi ofan á söluverð, auk kostnaðar stefnda af sölunni, svo sem geymslukostnaðar. Hér hafi verið um greiðasemi stefnda að ræða gagnvart stefnanda sem gerð hafi verið í ljósi umfangsmikilla viðskipta þeirra á þeim tíma.
Viðskipti málsaðila með þennan farm hafi farið þannig fram að stefndi hafi fyrst gert sölusamning við þriðja aðila um kaup á tilteknu magni af beitu úr farminum. Þar sem varan hafi verið ótollafgreidd hafi stefnandi þurft að gefa út reikning til stefnda í hvert sinn svo unnt væri að gera aðflutningsskýrslu og tollafgreiða vöruna inn í landið. Stefndi hafi síðan gert sjálfstæðan samning um sölu við þriðja aðila með heimild og fyrir reikning stefnanda sem hafi verið eigandi farmsins. Stefndi hafi þá leitað eftir samþykki í hvert skipti fyrir sölu á ákveðnu magni og heimild stefnanda til þess að uppgefið magn yrði afhent út geymslu Eimskips. Þegar heimild hafði verið veitt á grundvelli sölu stefnda til þriðja aðila hafi stefndi annast tollafgreiðslu þess hluta farmsins, útskipun og afhendingu til kaupanda. Stefndi hafi tekið þóknun fyrir að annast sölu farmsins sem lögð hafi verið ofaná verð farmsins fyrir hvert tonn, ásamt kostnaði, aðallega geymslugjöld og flutningskostnað til kaupanda.
Stefndi hafi aldrei ábyrgst greiðslur frá kaupanda með kaupum á farminum, heldur hafi hann selt jafnóðum og kaupandi fékkst að ákveðnu magni og framsent þá greiðslu til stefnanda eftir því sem hún hafi borist stefnda. Stefndi hafi aldrei haft umráð eða ráðstöfunarrétt á farminum og því tilhæfulaust með öllu af hálfu stefnanda að halda því fram að stefndi hafi orðið eigandi tiltekins magns af beitu eftir því sem afhending var heimiluð af stefnanda úr vörugeymslu Eimskips og send til kaupenda.
Stefnandi hafi sent stefnda sýnishorn af beitu, bæði makríl (saury) og smokki, sem ætlað hafi verið kaupendum. Stefndi hafi aldrei beðið um þessi sýnishorn. Stefndi mótmæli greiðsluskyldu samkvæmt skjali sem stefnandi segi vera reikning vegna sýnishorna. Sýnishornin hafi verið stöðvuð af Fiskistofu við komu til landsins þar sem þau hafi verið óvottuð.
Samningar við stefnanda hafi aldrei falið í sér greiðslu á dráttarvöxtum eða kostnaði við bankaábyrgð við sýningu. Samningsdrög frá 24. september 2004, sem stefnandi hafi sent stefnda þess efnis, hafi aldrei verið undirrituð af hálfu stefnda. Stefndi hafi á þeim tíma ávallt keypt beitu með bankaábyrgð í 60-90 daga en ekki við sýningu, sbr. samningur 28. janúar 2005.
Stefndi hafni alfarið staðhæfingu stefnanda sem tilhæfulausri og ósannaðri að samkomulag hafi verið undirritað af forsvarsmanni stefnda 5. júlí 2005, eða að þær tölur sem þar standi megi túlka sem viðurkenningu á kröfu stefnanda í máli þessu, enda ekki um áætlun á greiðslu skuldar við stefnanda að ræða heldur gert vegna fyrirætlana aðila um að fjárfesta í beituverksmiðju. Af því tilefni hafi stefnandi sent stefnda nokkra reikninga vegna tilgreindrar þjónustu sem „Consultancy Fee“, sbr. dskj. 32. Tölurnar sem fram komi á skjalinu frá 5. júlí 2005 hafi verið ætlað framlag stefnda til fjárfestingarinnar, enda um svipaðar fjárhæðir að ræða. Ekkert hafi orðið úr þeim áformum. Þau viðskipti hafi hins vegar ekkert með kröfu stefnanda í þessu máli að gera.
Stefndi byggi aðalkröfu sína á því að enginn samningur liggi fyrir í málinu um kaup á beitu úr farmi stefnanda, en stefndi hafni alfarið að aðilar hafi gert með sér samning um það 28. júní 2000.
Stefndi mótmæli framlögðum reikningum frá árunum 2001 og 2002 sem grundvelli greiðsluskyldu stefnda, enda allir reikningar að fullu greiddir samkvæmt bókhaldi stefnda. Reikningar vegna umsýslukaupa á beitu frá árunum 2001 og 2002 hafi verið greiddir af stefnda á þeim tíma eftir því sem greiðsla hafi borist frá kaupendum, og kaup stefnda á beitu á árunum 2004 og 2005 hafi verið lítil en greidd jafnóðum samkvæmt viðskiptayfirliti stefnda. Stefndi beri brigður á sönnunargildi reikninga stefnanda, en í mörgum tilfellum virtist um afrit endurskoðaðra reikninga að ræða af hálfu stefnda sem fráleitt sé að leggja til grundvallar kröfu í dómsmáli. Sumir þeirra hafi ekki verið lagðir til grundvallar í bókhaldi stefnda. Reikningarnir sem stefnandi leggi fram beri ekki með sér að tekið sé tillit til greiðslu virðisaukaskatts af meintri sölu til stefnda, eins og áskilið sé í lögum af öllum skattskyldum viðskiptum, en umsýsluviðskipti séu undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 563/1989. Reikningarnir séu því ekki lögformlegir.
Stefnandi leggi ekki fram neina reikninga útgefna árin 2004 og 2005, eingöngu yfirlit sem nái yfir árin 2000-2002. Stefnandi hafi hins vegar lagt fram tvö skjöl tilgreind „Debit Note“, sem stefndi mótmæli alfarið að geti verið grundvöllur að kröfu gagnvart stefnda. Engar sönnur séu fyrir því að aðilar hafi samið um greiðslu vegna sýnishornasendinga eða vaxtakostnaðar af bankaábyrgð. Í „Debit Note“ á dskj. 14 sé tilvísun til „INTERESTS FOR USANCE LC“ sem væntanlegrar tegundar ábyrgðar. Tilgangur slíkrar ábyrgðar „Usance credit“ sé að fresta greiðsludegi án þess að hreyfa við greiðsluskyldu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að sérstaklega sé tiltekið í ábyrgðinni að stefndi beri halla af áföllnum vöxtum þar sem bankinn greiði ekki ábyrgðina fyrr en á síðara degi.
Ágreiningur málsaðila snúist að meginstefnu um 1.027 tonn af smokkfiskbeitu sem stefnandi hafi sjálfur flutt til landsins í apríl 2000. Samkvæmt yfirlýsingu yfirmanns frystigeymslu Eimskips hafi ekki mátt losa farminn í Evrópu eða Bandaríkjunum þar sem hann hafi verið ópakkaður. Stefndi hafi samþykkt í lok árs 2000 eða byrjun árs 2001, af greiðasemi við stefnanda, að reyna að selja farminn í umsýslu til aðila erlendis. Stefndi hafi því tekið að sér að selja farminn í eigin nafni smátt og smátt samkvæmt heimild stefnanda sem veitt var þegar sala á tilteknu magni hafði farið fram. Stefnandi hafi borið fjárhagslega áhættu þar sem farmurinn hafi ávallt verið á nafni hans í geymslum Eimskips. Stefndi hafi tekið ákveðna þóknun fyrir að koma á viðskiptum milli stefnanda og kaupanda að viðbættum flutningskostnaði. Stefndi hafi aldrei ábyrgst gagnvart stefnanda að kaupandi vörunnar efndi skyldur sínar að fullu enda hafi reikningar þeir sem stefnandi beindi til stefnda vegna viðskipta með farminn einvörðungu verið gerðir í þeim tilgangi að halda utan um umsýslusöluna og tollafgreiðslu ákveðins magns af farmi í hvert skipti. Reikningarnir, sem stefnandi leggi fram í málinu, séu því ekki í löglegu formi, heldur nánast sem „Pro forma“ reikningar, en þar sé hvorki tilgreint rétt nafn eða kennitala stefnda né komi fram að um frumrit reiknings sé að ræða.
Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að um beina sölu stefnanda hafi verið að ræða til stefnda á vörum úr farmi M/V Seafrost. Engin gögn liggi fyrir um að aðilar hafi gert með sér sölusamning, heldur bendi gögn málsins til þess að um umsýsluviðskipti hafi verið að ræða. Í tölvupósti frá forsvarsmanni stefnda 8. febrúar 2001 komi fram að stefndi muni hafa milligöngu um sölu á beitunni fyrir stefnanda á tilteknu verði fyrir hvert tonn að viðbættum geymslukostnaði. Stefndi hafi selt 163.000 kg af beitu úr farminum til kaupanda á Grænlandi. Kaupandi hafi hafnað vörunni sem óhæfri til endursölu. Kaupanda hafi þá verið gert kunnugt að varan kæmi úr farmi sem stefnandi ætti og stefndi hefði í umsýslusölu. Stefndi hafi sent stefnanda bréf frá kaupanda í Grænlandi á árinu 2001 þessa efnis og komi þar fram að kaupandi hafi neitað að greiða fyrir vöruna. Verulegt tjón hafi hlotist af þessum viðskiptum fyrir stefnda, sem borið hafði kostnað af flutningi vörunnar og greitt geymslukostnað til Eimskips, þar sem stefnandi hafi ekki verið þess umkominn. Stefndi hafi því bakfært heildarviðskiptin til Grænlands, eins og fram komi í viðskiptayfirliti, vegna hinnar gölluðu vöru á stefnanda og hafi gert honum reikning 2. desember 2002 að fjárhæð USD 192.040. Þessum reikningi hafi stefnandi aldrei mótmælt fyrr en nú. Þar sem um umsýsluviðskipti hafi verið að ræða hafi stefnandi borið áhættu af þeim og því hafi stefndi gert endurkröfu á stefnanda vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna galla á vörunni. Tjónið hafi ekki eingöngu falist í andvirði vörunnar, heldur einnig geymslukostnaði og flutningskostnaði til Grænlands. Þá endurkröfu hafi stefndi skuldajafnað í viðskiptareikningi sínum gagnvart stefnanda og sent honum reikninginn. Stefndi hafi haft fulla heimild sem umsýslumaður að krefja stefnanda um bætur vegna tjónsins sem hann hafi orðið fyrir enda hafi stefnanda verið fullkunnugt um efni bréfsins frá kaupendum.
Stefndi mótmæli eftirfarandi rangfærslum og tilhæfulausum fullyrðingum í stefnu:
Stefndi hafi aldrei fallist á meintan afslátt að fjárhæð USD 89.650 sem stefnandi haldi nú fram að hafi verið veittur í tölvupósti 29. október 2003. Í meintum afslætti hafi falist að stefnandi bæri kostnað af vörunni sjálfri en að stefndi bæri flutningskostnað á beitunni til Grænlands. Ekki verði annað séð af gögnum og yfirlýsingu stefnanda en að í umræddum afslætti felist viðurkenning hans á þeim sjónarmiðum stefnda að farmurinn til Grænlands hafi verið óhæfur til sölu.
Stefndi mótmæli framlagningu á skjali varðandi greiðslu að fjárhæð USD 50.000, sem sé á erlendri tungu og alls óvíst um frá hverjum stafi, enda beri skjalið ekki með sér hvaða skuld sé verið að greiða. Fram komi á skjalinu að greiðsla hafi verið innt af hendi 23. janúar 2006 af hálfu stefnda að fjárhæð USD 50.000 og tengdist það því síðar til komnum viðskiptum málsaðila.
Vísað sé á bug fullyrðingu stefnanda sem rangri og ósannaðri að stefndi hafi lofað að greiða umkrafða skuld við stefnanda í skjali 27. júlí 2005. Þetta skjal varði áframhaldandi viðskipti aðila og sé alls óskyld þeim viðskiptum sem fram hafi farið 2000 til 2002. Á bls. 2 á sama skjali, sem stefnandi hafi lagt fram og sé tölvupóstur frá stefnanda 2. júní 2005, hafi í fyrsta skipti frá því í október 2003 verið gerð krafa um greiðslu vegna fyrri viðskipta. Stefndi hafi hafnað kröfu stefnanda símleiðis.
Einnig sé vísað á bug staðhæfingu stefnanda um að með því að undirrita yfirlýsingu um greiðsluáætlun skuldarinnar 5. júlí 2005 hafi stefndi viðurkennt skuld sína við stefnanda. Hér hafi verið um alls óskyld viðskipti aðila að ræða, sem tengdust reikningum varðandi „Consultancy Fee“, sem stefnandi hafi sent vegna hugsanlegrar fjárfestingar í verksmiðju í S-Ameríku, enda samsvari heildaupphæð meintrar greiðsluáætlunar ekki þeirri upphæð sem tilgreint sé að stefndi skuldi á sama skjali og greiðsluáætlunin.
Þá vísi stefndi alfarið á bug þeirri málsástæðu stefnanda að reikningi stefnanda 12. ágúst 2002 sé beint að röngum aðila. Reikningi þessum hafi aldrei fyrr verið mótmælt af stefnanda, en beitan hafi verið send fyrirtækinu Wu Pioneers að beiðni stefnanda, og kaupin gerð af stefnanda líkt og komi fram á yfirliti stefnda sem stefnandi hafi lagt fram í málinu. Samkvæmt yfirlitinu hafi reikningur, að fjárhæð USD 187.171, verið tekinn sem innborgun við uppgjör á viðskiptum aðila á árinu 2002. Stefnanda hafi því verið fyllilega ljóst að gerð var krafa um skuldajöfnun á reikningnum gagnvart öðrum viðskiptum við stefnda, enda komi það fram í viðskiptayfirliti stefnda.
Stefndi telji heimilt að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar, sbr. 28. gr. laga nr. 91/1991, vegna reiknings að fjárhæð USD 187.171 á móti kröfum stefnanda í máli þessu, þar sem skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi, um samkynja kröfu sé að ræða milli sömu aðila, báðar kröfurnar fallnar í gjalddaga og hæfar til að mætast að öðru leyti.
Þá byggi stefndi á því að stefnandi hafi sýnt af sér einstakt tómlæti með því að aðhafast ekkert við að halda meintri kröfu sinni við um alllangt skeið eða frá árinu 2003 og fram á mitt ár 2005, þegar stefnandi hafi fyrst hafið máls á því að enn væru óuppgerðar kröfur milli aðila. Stefndi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að uppgjör hefði farið fram milli aðila á árinu 2002, enda hefðu aðilar átt í áframhaldandi viðskiptum árin 2003-2005. Það sé fyrst með innheimtubréfi 12. október 2005 að kröfu hafi verið beint að stefnda. Með þessu háttalagi hafi stefnandi glatað rétti til að halda uppi kröfu vegna tómlætis.
Varakrafa stefnda sé byggð á því að lækka beri dómkröfur stefnanda verulega, verði að einhverju leyti fallist á þær. Í fyrsta lagi haldi stefndi því fram að reikningarnir, sem stefnandi leggi fram í málinu frá árunum 2001 og 2002 hafi þegar verið greiddir af stefnda og uppgjör samkvæmt þeim farið fram milli aðila. Í öðru lagi hafi verið um umsýsluviðskipti að ræða milli aðila um sölu stefnda fyrir stefnanda á farmi af beitu sem geymd hafi verið hjá Eimskip. Sala á beitu til Grænlands, sem hafnað hafi verið af kaupanda sem óhæfri til endursölu hafi verið á ábyrgð og fyrir reikning stefnanda. Í þriðja lagi hafi stefndi hvorki fallist á greiðslu fyrir sýnishorn af beitu, sem ætluð hafi verið viðskiptavinum stefnanda, né geti stefnandi nú krafið stefnda eftirá um greiðslu dráttarvaxta vegna bankaábyrgðar. Í fjórða lagi geri stefndi gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna reiknings að fjárhæð USD 187.171 vegna sölu til stefnanda. Í fimmta lagi hafi stefnandi sýnt af sér mikið tómlæti við að halda við meintri kröfu sinni í ljósi áframhaldandi viðskipta aðila sem staðið hafi fram á mitt ár 2005. Tómlæti stefnanda hafi haft þau áhrif að skapa óvissu um uppgjör aðila sem stefndi hafi talið að farið hafi fram árið 2003. Við munnlegan málflutning var því mótmælt af hálfu stefnda að fyrning hefði verið rofin með innborgun en greiðslan, sem stefnandi vísi til í því sambandi, sé vegna síðari viðskipta málsaðila.
Stefndi mótmæli upphafstíma dráttarvaxta 22. desember 2004, en stefnandi vísi til innborgunar stefnda sem sé til komin vegna síðari viðskipta aðila. Dagsetning á innborgunarskjalinu sé misvísandi. Krafa um dráttarvexti geti fyrst komið til álita frá 12. nóvember 2005, sbr. innheimtubréf lögmanns stefnanda, eða frá þingfestingu málsins, sbr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Stefnandi vísi um kröfu sína til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins um umsýsluviðskipti, greiðsluloforð, skuldajöfnuð, tómlæti og efndir fjárskuldbindinga, sbr. einkum lög nr. 7/1936 um samningagerð. Þá sé vísað til 1. og 2. gr. laga nr. 50/1998, sbr. 11. og 12. gr. sömu laga og reglugerð nr. 563/1989. Krafa um málskostnað styðjist við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstöður
Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda og gögnum málsins krefst stefnandi greiðslu á eftirstöðvum reikninga vegna viðskipta með beitu, annars vegar frá árinu 2001, að fjárhæð USD 247.984,55 úr skipinu Sea Frost, og hins vegar frá árinu 2002, að fjárhæð USD 41.129,39 úr K. Sopka og Saramati. Stefnandi hefur lagt fram umrædda reikninga og gert grein fyrir þeim, en hann vísar til samnings málsaðila um kaupverð fyrir hvert MT og byggir á útreikningum sem ekki virðist ágreiningur um þótt andmæli stefnda séu að vísu óljós um það atriði. Mótmæli stefnda varðandi reikningana eru einkum þess efnis að þeir séu ekki lögformlegir og geti ekki verið grundvöllur geiðsluskyldu stefnda, enda hafi verið um umsýsluviðskipti að ræða. Stefndi heldur því jafnframt fram að hann hafi gert upp að fullu við stefnanda vegna þessara viðskipta.
Fram kemur í samskiptum málsaðila í tölvupósti 29. október 2003 að þeir reyndu að semja um uppgjör vegna 163 tonna af beitu, sem seld var til Grænlands og ekkert fékkst greitt fyrir þar sem kaupandi taldi hana ónýta, eins og hér að framan hefur verið lýst. Af hálfu stefnda kemur þar fram að semja þyrfti um uppgjörið áður en samið yrði um kaup á beitu fyrir árið 2004. Í orðsendingu fyrirsvarsmanns stefnanda kemur fram að stefnandi ætlaði ekki að krefja stefnda um greiðslu vegna vörunnar en taldi að stefndi ætti að bera flutningskostnað, enda hefði hann ekki átt að senda vöruna til Grænlands hafi hún verið gölluð sem stefnandi telur þó ósannað. Í tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnanda til stefnda 2. júní 2005 er gerð grein fyrir eftirstöðvum umræddra reikninga og á yfirlitsblaði 5. október s.á. eru eftirstöðvar þeirra sýndar. Þessar tölur eru sambærilegar að öðru leyti en því að á fyrra skjalinu hafa 163 tonn verið dregin frá magni þess sem selt var á árinu 2001. Á yfirlýsingu 5. júlí 2005, sem fyrirsvarsmaður stefnda hefur undirritað, er fjárhæðin vegna 163 tonna dregin frá skuldinni. Greiðsluáætlun er handskrifuð á síðastnefnda skjalið en skýringar fyrirsvarsmanns stefnda á því að þar sé um að ræða greiðsluáætlun vegna hlutabréfakaupa, sem aldrei hafi orðið úr, þykja ekki trúverðugar og eru ekki studdar viðhlítandi gögnum. Verður því að telja ósannað að um aðra greiðsluáætlun hafi verið að ræða en vegna uppgjörs á skuldinni sem hér um ræðir. Ekki liggur fyrir að athugasemdir hafi komið fram af hálfu stefnda um réttmæti reikninganna eða að þeir væru ekki lögformlegir fyrr en í greinargerð. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að reikningarnir séu byggðir á röngum forsendum og hann hefur heldur ekki lagt fram gögn, sem staðfesta að kröfur stefnanda vegna þessara viðskipta beri að reisa á öðrum grundvelli en gert er með umræddum reikningum. Af viðskiptayfirlitum, sem stefndi vísar til, og öðrum gögnum málsins verður ekki ráðið að reikningsgerð stefnanda sé röng. Í ljósi alls þessa verður ekki fallist á þau rök stefnda að reikningarnir geti ekki verið grundvöllur kröfu stefnanda.
Stefndi greiddi stefnanda USD 50.000 22. desember 2004, sem stefnandi ráðstafaði sem innborgun á kröfuna, en telja verður ósannað í málinu að stefndi hafi gefið stefnanda fyrirmæli um aðra ráðstöfun á greiðslunni. Verður að líta svo á að með þessari innborgun hafi fyrning verið rofin og hefur krafan þar með hvorki fallið niður fyrir fyrningu né tómlæti, eins og haldið er fram af hálfu stefnda. Að öllu þessu virtu verður að telja að stefnandi hafi fært fullnægjandi rök fyrir kröfunni hvað varðar eftirstöðvar umræddra reikninga og ber því að taka kröfu stefnanda um greiðslu þeirra til greina.
Stefndi krefst þess að tveir reikningar frá honum komi til skuldajöfnunar við kröfu stefnanda. Fyrri reikningurinn frá 12. ágúst 2002 er vegna sölu stefnda á smokkfiski en stefnandi mótmælir því að hann hafi verið kaupandi vörunnar. Á yfirlitsblaði stefnda frá árinu 2002 kemur fram að reikningur sömu fjárhæðar hefur verið dreginn frá skuld stefnda vegna kaupa á vöru frá Wu Pioneers. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna ótvírætt að stefnandi hafi verið kaupandi vörunnar eða að stefnandi hafi samþykkt skuldajöfnuð vegna þessara viðskipta. Með vísan til þess er því hafnað að stefnda sé heimilt að skuldajafna umræddum reikningi við kröfur stefnanda. Síðari reikningurinn frá 2. desember sama ár er vegna 163 tonna af smokkfiski til Grænlands, sem kaupandi hafnaði eins og að framan er lýst, en fram kemur á reikningnum að reiknað er söluverð, flutningskostnaður og geymslukostnaður. Eins og fram hefur komið féll stefnandi frá því að krefja stefnda um greiðslu fyrir þessa vöru og af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi hafi greitt stefnanda fyrir hana. Reikningur stefnda er því ekki í samræmi við kostnað hans og lýsing hans á tjóninu er í ósamræmi við það sem komið hefur fram í málinu um greiðslu fyrir vöruna. Að auki hafa engin haldbær gögn verið lögð fram um að varan hafi verið gölluð við afhendingu hennar eða að stefnandi beri ábyrgð á hinum meinta galla. Ber samkvæmt þessu að hafna því að stefnda sé heimilt að skuldajafna umræddum reikningi við kröfu stefnanda.
Kröfu stefnanda um greiðslu reikninga vegna sýnishorna á árinu 2004 er mótmælt af hálfu stefnda sem vísar til þess að aldrei hafi verið samið um að hann greiddi fyrir þau. Þar sem stefnandi hefur ekki lagt fram gögn um þá fullyrðingu sína að stefndi hafi beðið um sýnishornin eða að málsaðilar hafi samið um að stefndi greiddi fyrir þau verður að telja staðhæfingar stefnanda í þessum efnum ósannaðar. Stefnandi hefur heldur ekki lagt fram gögn til staðfestingar á því að stefndi hafi ekki efnt samning málsaðila um bankaábyrgðir eins og stefnandi heldur fram. Verður því einnig að telja þær staðhæfingar stefnanda ósannaðar og reikning stefnanda vegna dráttarvaxta verður í ljósi þessa að telja órökstuddan. Undirskrift fyrirsvarsmanns stefnda á yfirlýsingu um greiðsluáætlun frá 5. júlí 2005 nægir heldur ekki sem sönnun fyrir umræddum kröfum stefnanda. Verður samkvæmt þessu að sýkna stefnda af þeim.
Samkvæmt framangreindu ber stefnda að greiða stefnanda samtals USD 149.463,94 (247.984,55 + 41.129,39 89,650 50.000) ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Veiðarfæraverslunin Dímon ehf., greiði stefnanda, Hanway Shipping Co., Ltd., USD 149.463,94 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 22. desember 2004 til greiðsludags en vextir leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 22. desember 2005, og 600.000 krónur í málskostnað.