Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögreglurannsókn
  • Hæfi
  • Stjórnsýsla


                                                        

Mánudaginn 26. apríl 2010.

Nr. 179/2010.

Ákæruvaldið

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Lögreglurannsókn. Hæfi. Stjórnsýsla.

X var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa skallað A í andlitið. Fram kom í málinu að faðir A var varðstjóri hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi, með vísan til 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008, þar sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi, með vísan til 6. töluliðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993, verið vanhæfur til að fara með rannsókn þess og til að höfða málið og fara með það fyrir dómi. Hæstiréttur felldi niðurstöðu héraðsdóms úr gildi með vísan til niðurstöðu í málum réttarins nr. 155/2010 og 206/2010.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. mars 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til fordæmis í dómi Hæstaréttar 23. apríl 2010 í máli nr. 206/2010, sbr. dóm réttarins 19. apríl 2010 í máli nr. 155/2010, verður ekki talið að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi verið vanhæfur til að stjórna rannsókn lögreglu á því ætlaða broti sem varnaraðila er gefið að sök í málinu. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka mál þetta til efnismeðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 15. mars 2010

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 16. febrúar sl., höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru, útgefinni 15. desember 2009, á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir líkamsárás, með því að hafa miðvikudaginn 17. september 2008, í félagsmiðstöð [...], [...] við [...] í [...], skallað A, kt. [...], í andlitið með þeim afleiðingum að vinstri framtönn brotnaði.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi og allur sakarkostnaður þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda greiddur úr ríkissjóði, til vara að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og allur sakarkostnaður þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda greiddur úr ríkissjóði, en til þrautavara að ákærða verði ekki gerð refsing í málinu og allur sakarkostnaður þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ásamt virðisaukaskatti verði felldur á ríkissjóð.

I.

Fram kemur í málinu að faðir kæranda máls þessa, A, B, er [...] hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, með starfsstöð í [...]. Frávísunarkrafa ákærða er sett fram með stoð í 26. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt 108. og 109. gr. laganna hvíli sú skylda á ákæruvaldinu að færa fram í máli þessu sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Af hálfu ákærða sé talið að þessi sönnunarskylda verði ekki uppfyllt í máli þessu. Beri með réttu að fella málið niður og fela löghæfum manni að taka ákvörðun um réttmæti sakasóknar á hendur ákærða, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008. Í íslenskri löggjöf sé ekki að finna almennar reglur eða sérstök ákvæði um vanhæfi lögreglustjóra til meðferðar einstaks máls, en það sé viðurkennd grundvallarregla í íslenskum rétti að stjórnvald geti undir vissum kringumstæðum verið vanhæft til að fara með einstaka mál. Reglur um dómarahæfi í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og fleiri ákvæði laga um hæfi veiti leiðsögn í þessu efni. Faðir kæranda sé [...] með starfsstöð í [...], hjá embætti lögreglustjórans  á höfuðborgarsvæðinu, sem er saksóknari í málinu. Sé þessa hvergi getið í gögnum málsins.

Í  upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 2. október 2009, sé þetta haft eftir forráðamanni kæranda: „B lagði á það áherslu að mál þetta færi ekki til sáttameðferðar. Var honum tjáð að málið yrði á ný sent til ákærusviðs þar sem lagt væri mat á framhald málsins“. Ákærði hafi lagt fram kæru á hendur A í skýrslugjöf 30. september 2009 og hafi það mál verið fellt niður með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 10. desember 2009 eða skömmu áður en ákæra máls þessa var gefin út. Óljós sé hvort skýring þess að mál þetta sæti ákæru sé afskipti forráðamanns kæranda af meðferð málsins andstætt ákvæðum lögreglulaga og siðareglan lögreglu.

Af hálfu ákæruvalds var frávísunarkröfu ákærða mótmælt og þess krafist að kröfunni yrði hrundið. Bendir sækjandi á að faðir brotaþola B sé [...] á starfsstöð lögreglustjóra í [...]. Málið hafi ekki verið rannsakað í [...] heldur í starfsstöð lögreglustjóra í [...].

II.

Ákærða er með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gefin að sök líkamsárás gegn A, sem er sonur B [...] á lögreglustöð lögreglustjóra í [...]. Rannsóknarlögreglumaður við sama embætti með starfsstöð í [...] fór með rannsókn málsins. Fram kemur í gögnum málsins að á fundi með ákærða og foreldrum hans hafi komið fram vilji af þeirra hálfu að ljúka málinu með sáttameðferð. Þetta var borið undir B [...] því ekki fallist á að B hafi haft áhrif á rannsókn málsins sem lögreglumaður. Hann kom einvörðungu að málinu sem forráðamaður ætlaðs brotaþola. Er því ekkert komið fram um að þessi tengsl hafi haft einhver áhrif á rannsókn málsins eð ákvörðun um saksókn. Á hinn bóginn verður að horfa til ákvæða 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, en þar er kveðið á um að lögreglustjórar og aðrir þeir sem fara með lögregluvald megi ekki rannsaka brot ef þeir eru vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum. Kemur fram í ákvæðinu að starfsmenn þess lögreglustjóra sem vanhæfur er, geti ekki rannsakað mál nema rannsókn fari fram undir stjórn annars lögreglustjóra, enda séu þeir ekki sjálfir vanhæfir til að fara með málið samkvæmt stjórnsýslulögum. Í 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru ákvæði um vanhæfi starfsmanna, m.a. í 6. tl. ákvæðisins, en þar segir að starfsmaður sé vanhæfur: „Ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu”. Í 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir: „Nú hefur ákæra verið gefin út og skal dómari þá, annaðhvort að eigin frumkvæði eða samkvæmt kröfu aðila, vísa máli frá dómi ef hann telur að ákærandi hafi verið vanhæfur til að höfða málið eða lögreglustjóri vanhæfur til að rannsaka það. Ef maður er vanhæfur til að fara með mál fyrir dómi sem ákærandi skal dómari á sama hátt vísa því frá dómi.“

Að mati dómsins eiga framangreind ákvæði við í þessu máli og verður því að telja að lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með lögreglustjórn þar hafa, með vísan til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verið vanhæfan til að fara með rannsókn málsins og til að höfða málið og fara með það fyrir dómi, sbr. 26. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til 5.  mgr. 26. gr. sömu laga ber því að vísa máli þessu frá dómi. Eftir þessum úrslitum ber að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð, samtals 160.110 krónur, sem skiptist í kostnað samkvæmt yfirliti sækjanda 40.110 krónur og þóknun skipaðs verjanda ákærða, Ásdísar J. Rafnar hrl., 120.000 krónur að meðtöldum 25,5% virðisaukaskatti.

Úrskurð þennan kveður upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður, 160.110 krónur, þar með talin málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Ásdísar J. Rafnar hrl., 120.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.