Hæstiréttur íslands
Mál nr. 532/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Þriðjudaginn 10. desember 2002. |
|
Nr. 532/2002. |
Birna Lárusdóttir og Sturlaugur Eyjólfsson (Helgi Birgisson hrl.) gegn Friðbirni Níelssyni og Soffíu Steinunni Jónsdóttur (Ingi H. Sigurðsson hdl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Málskostnaður í máli B og SE gegn F og SJ var felldur niður, en málinu var að öðru leyti lokið með dómsátt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. desember sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 30. október 2002, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli sóknaraðila gegn varnaraðila, sem var lokið að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðilum verði gert að greiða þeim málskostnað í héraði. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt þykir að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 30. október 2002.
Mál þetta var höfðað 19. september 2001 og tekið til úrskurðar 25. október 2002. Stefnendur eru Birna Lárusdóttir og Sturlaugur Eyjólfsson, bæði til heimils að Brunná í Saurbæjarhreppi, en stefndu Friðbert Níelsson og Soffía Steinunn Jónsdóttir, bæði til heimilis að Efri Brunná í Saurbæjarhreppi. Málið er einnig höfðað 2. maí 2002 með meðalgöngustefnu Kristins Ingólfssonar.
Stefnendur höfðuðu málið til viðurkenningar á eignarétti þeirra að 9.993 fermetra spildu úr jörðinni Efri Brunná umhverfis íbúðarhúsin Brunná og Jaðar í Saurbæjarhreppi með nánar tilgreindum landamerkjum. Meðalgöngustefnandi er eigandi Jaðars, sem stefndur á leigulóð úr jörðinni, og gerði hann þá kröfu að dómur í málinu félli í samræmi við kröfur stefnenda.
Í samræmi við ósk málsaðila var ákveðið með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, að skipta sakarefni þannig að fyrst yrði dæmt hvort leigulóð meðalgöngustefnanda væri innan eða utan spildu stefnenda. Dómur um það atriði gekk 9. júlí 2002 og var fallist á það með stefnendum og meðalgöngustefnanda að leigulóðin væri innan spildu stefnenda. Í kjölfarið gerðu síðan málsaðilar sátt 25. október sama ár um merki spildu stefnenda, en lögðu í úrskurð dómsins ágreining um málskostnað.
Stefnendur og meðalgöngustefnandi krefjast málskostnaðar úr hendi stefndu en stefndu krefjast aftur á móti málskostnaðar úr hendi stefnenda.
I.
Með lóðarleigusamningi 25. febrúar 1964 leigði Eyjólfur Stefánsson, bóndi á Efri Brunná í Saurbæjarhreppi, Guðmundi Rögnvaldssyni landspildu úr jörðinni til 80 ára. Í lóðarleigusamningnum segir að spildan sé á svonefndum Skyldi í landi jarðarinnar og sé stærð hennar 600 fermetrar. Um mörk lóðarinnar segir að þau verði endanlega ákveðin síðar í samráði við byggingafróða menn. Samningi þessum var þinglýst 16. október sama ár.
Hinn 17. mars 1964 seldi Eyjólfur Stefánsson syni sínum, stefnanda Sturlaugi, jörðina Efri Brunná. Í afsali er tekið fram að undanskilið sé við söluna „landspilda um 1 ha að stærð frá þjóðvegi og upp með svonefndum Skjaldarlæk með nánari ummerkjum samkvæmt samkomulagi aðila.“
Um sumarið 1964 voru reist tvö hús sitt hvorum megin við Skjaldarlæk, annars vegar hús sem Eyjólfur byggði á spildu þeirri sem hann hafði undanskilið við sölu jarðarinnar og hins vegar hús sem Guðmundur reisti á landspildu þeirri sem hann hafði fengið leigða frá Eyjólfi. Hús Eyjólfs var nefnt Brunná, en húsið sem Guðmundur byggði hefur gengið undir nafninu Jaðar.
Með afsali 11. nóvember 1971 seldi Guðmundur Rögnvaldsson meðalgöngustefnanda húsið Jaðar ásamt leigulóðarréttindum sem fylgdu eigninni. Afsali þessu var þinglýst 23. sama mánaðar.
Hinn 23. október 1991 seldi Guðlaug Guðlaugsdóttir, ekkja Eyjólfs, stefnendum, syni sínum og tengdadóttur, Brunná ásamt skikanum undir húsinu. Í afsalinu er hið selda sagt vera hús við Skjaldarlæk í landi Efri Brunnár ofan þjóðvegar, „ásamt landspildu ca. einum ha að stærð upp með nefndum læk“. Einnig er tekið fram að eignin sé án kvaða og veðbanda.
Með samningi 24. apríl 1997 keyptu stefndu jörðina Efri Brunná af stefnendum. Í kaupsamningnum er tekið fram að undanskilið sé við söluna sumarhús á jörðinni ásamt einum hektara lands, sem þegar er sögð vera sjálfstæð eign. Í afsali fyrir jörðinni 23. apríl 1998 er samhljóða ákvæði að þessu leyti, auk þess sem tekið er fram að eignin sé seld án kvaða og veðbanda, annarra en þeirra sem kaupendur sjálfir kunni að hafa stofnað til.
Árið 1999 reis ágreiningur með stefnendum og stefndu um mörk landspildu stefnenda í landi jarðarinnar. Af því tilefni var að frumkvæði sýslumannsins í Búðardal haldinn fundur með aðilum 27. október sama ár til að leita sátta. Sú viðleitni sýslumanns reyndist árangurslaus.
II.
Þegar Eyjólfur Stefánsson seldi syni sínum, stefnanda Sturlaugi, jörðina Brunná 17. mars 1964 undanskildi hann einn hektara lands. Um merki spildunnar sagði í afsalinu að þau mörkuðust af þjóðvegi og upp með svonefndum Skjaldarlæk með nánari merkjum samkvæmt samkomulagi aðila. Í málinu nýtur ekki við gagna um það samkomulag. Áður en Eyjólfur seldi jörðina hafði hann með samningi 25. febrúar sama ár leigt spildu á sama svæði undir Jaðar án þess að mörk leigulóðarinnar væru afdráttarlaust sett niður í lóðarleigusamningi. Stefnendur eignuðust síðan Efri Brunná með afsali frá ekkju Eyjólfs 23. október 1991.
Þegar jörðin var seld stefndu með kaupsamningi 24. apríl 1997 og afsali 23. apríl 1998 var nauðsynlegt að tilgreina landamerki þeirrar spildu sem stefnendur undanskildu, enda voru þinglýst gögn um spilduna ekki viðhlítandi í þessu tilliti. Þetta mátti stefnendum vera ljóst og var þeim í lófa lagið að bæta úr þessum annmarka sem varð tilefni ágreinings með málsaðilum. Að þessu virtu þykir rétt að málsaðilar beri sinn kostnað af málinu.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Málskostnaður fellur niður.