Hæstiréttur íslands
Mál nr. 797/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 10. desember 2014 |
|
Nr. 797/2014. |
Lögreglustjórinn á
höfuðborgarsvæðinu (Jón
H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Unnsteinn Örn Elvarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga
nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar
sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95.
gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á
gæsluvarðhaldinu stæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún
Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2014, sem
barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur
8. desember 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til
mánudagsins 15. desember 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur.
Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili
krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til
vara að gæsluvarðahaldinu verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki
gert að sæta einangrun. Jafnframt krefst hann þess, verði honum gert að sæta
gæsluvarðhaldi, að tilhögun þess verði þannig að takmörkunum samkvæmt c., d. og
e. lið 99. gr. laga nr. 88/2008 verði aflétt.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur ekki borið undir héraðsdóm kröfu sína um tilhögun
gæsluvarðhalds og kemur hún því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot sem varðar
fangelsisrefsingu samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940. Þá eru vegna rannsóknarhagsmuna uppfyllt skilyrði a. liðar 1.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að
varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er og einangrun meðan á
því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Samkvæmt því verður hinn kærði
úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2014.
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta
áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 15. desember 2014 kl. 16:00.
Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í
greinargerð lögreglu kemur fram að að kvöldi 23. nóvember sl. hafi lögreglu
borist tilkynning um slasaðan mann að [...] í [...]. Þegar lögreglan kom á
vettvang hafi komið í ljós að þar hafði maður, A verið stunginn í brjóstholið.
Hafi hann verið lífshættulega slasaður og hafi vart verið hugað líf við komu á
slysadeild. Tveir menn hafi verið á vettvangi með brotaþola, B og C. Skömmu
síðar hafi Y og Z komið á vettvang og hafi þeir allir verið handteknir í þágu
rannsóknar málsins.
Eftir
að mennirnir höfðu verið yfirheyrðir hafi verið tekin ákvörðun um að farið yrði
fram á gæsluvarðhald yfir Y og Z og hafi Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðað þá í
gæsluvarðhald til dagsins í dag. Samkvæmt upplýsingum lögreglu höfðu Z og Y
komið að [...] ásamt þriðja manninum, X skömmu áður en lögreglu hafi borið að
garði. Hafi það verið grunur lögreglu að út frá þeim upplýsingum sem hafi legið
fyrir að þeir þrír væru valdir að áverkum brotaþola. X hafi síðan verið
handtekinn nokkrum dögum síðar og gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins.
Samkvæmt
upplýsingum lögreglu liggi nú fyrir að sakborningarnir hafi ráðist með höggum á
brotaþola og vitnið C á heimili B umrætt sinn. Í kjölfar barsmíðanna sé
brotaþoli stunginn en ekki sé ljóst hver það hafi verið sem stakk brotaþola en
út frá gögnum lögreglu og framburði aðila af vettvangi séu Z og X grunaðir um
það.
Kærði
hafi verið yfirheyrður 5 sinnum vegna málsins en neiti sök. Hann kannast þó við
að hafa verið á vettvangi og að hafa þar lent í átökum við C og brotaþola.
Framburður sakborninga hafi verið óstöðugur og reikull en ítrekað hafi komið í
ljós að sakborningar hafi ekki greint rétt frá atvikum máls og ferðum þeirra
þetta kvöld. Mikil vinna hjá lögreglu hafi farið í að rannsaka sannleiksgildi
frásagna. Þá liggi ekki ljóst fyrir hvort fleiri einstaklingar hafi upplýsingar
um málsatvik, þá fyrir utan þau vitni sem lögregla eigi enn eftir að ræða við.
Það sé mat lögreglustjóra að
lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í máli þessu enda sé kærði nú undir
sterkum rökstuddum grun um tilraun til manndráps, þannig að varði við 211. gr.,
sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé rannsókn málsins hvergi nærri lokið en
yfirheyra þurfi vitni sem ekki hafi náðst í og fjölda þeirra vitna sem áður
hafi verið yfirheyrð aftur. Því sé afar brýnt að kærða verði gert að sæta áfram
gæsluvarðhaldi, þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókninni, s.s. með því að koma
undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni en í því ljósi sé rétt að
benda á að enn hafi árásarvopnið ekki fundist.
Sakarefni
málsins sé talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot
gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi ævilangt ef sök sannast. Um heimild til
gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála
nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á
meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu
laga.
Niðurstaða:
Að mati dómsins er fyrir
hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi átt þátt í því broti sem að ofan er
lýst og er ætlað brot talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20.
gr. sömu laga. Er því uppfyllt skilyrði 1. málsliðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008. Rannsókn málsins er í fullum gangi og enn á eftir að ljúka
skýrslutökum af vitnum og taka skýrslur af kærða. Þá liggur niðurstaða DNA
rannsóknar ekki fyrir. Þykir því nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi
til að fyrirbyggja að hann torveldi rannsókn málsins á nokkurn hátt, sbr. a-lið
1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá er fallist á að uppfyllt séu skilyrði til
að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur sbr. b-lið 1. mgr. 99.
gr. sömu laga. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti
gæsluvarðhaldi með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigrún
Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi,
allt til mánudagsins 15. desember 2014 kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun á
meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.