Hæstiréttur íslands
Mál nr. 583/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 31. október 2011. |
|
Nr. 583/2011.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 24. nóvember 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 24. nóvember 2011 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í nótt í kjölfar þess að lögregla hafi haft af honum afskipti þar sem hann hafi verið að aka bifreiðinni [...] með skráningarnúmerunum [...] sem áður höfðu verið tilkynnt stolin.
Kærði hafi margsinnis komið við sögu lögreglu og sé nú grunaður um þjófnaði, gripdeildir, fjársvik, nytjastuld, aðild að ránum og umferðarlagabrot allt frá því í um miðjan september, fyrir utan eitt brot frá því í maí sl. Kærði hafi hlotið fjöldamarga fangelsisdóma fyrir samskonar brot. Þyki að mati lögreglu ljóst að kærði hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans. Eftirfarandi mál séu til rannsóknar hjá embættinu og munu líklega öll sæta ákærumeðferð á næstunni:
007-2011-26825
Þann 6. maí sl. hafi verið tilkynnt um gripdeild á handtösku úr bifreið á gatnamótum Grettisgötu og Vitastígs í Reykjavík. Kærði hafi viðurkennt við skýrslutöku að hafa opnað farþegahurð bifreiðarinnar og tekið töskuna sem bílstjórinn hafði lagt frá sér í farþegasætið við hliðina á sér.
007-2011-59709
Kærði hafi viðurkennt við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa þann 11. september sl. dælt eldsneyti að fjárhæð kr. 11.041 á bifreið með skráningarmerkinu [...], sem hafi verið stolin, og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.
007-2011-59701
Kærði hafi viðurkennt við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa þann 16. september sl. dælt eldsneyti að fjárhæð kr. 8.549 á bifreið með skráningarmerkinu [...], sem hafi verið stolin, og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.
007-2011-60666
Kærði hafi viðurkennt við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa þann 24. september sl. dælt eldsneyti að fjárhæð kr. 8.075 á bifreið með skráningarmerkinu [...], sem hafi verið stolin, og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.
007-2011-60662
Þann 6. október sl. hafi verið tilkynnt um rán við Þórsgötu í Reykjavík. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi þar setið gömul kona á bekk og hafi vegfarendur verið að hlúa að henni. Kvaðst hún hafa verið á göngu er tveir einstaklingar komu skyndilega aftan að henni, hrintu henni og hrifsuðu veskið hennar af henni. Kærði hafi viðurkennt við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa átt þátt í ráninu ásamt annarri stúlku.
007-2011-60685
Þann 6. október sl. hafi verið tilkynnt um rán í undirgöngum við Lautasmára við Fífuhvammsveg í Kópavogi. Hafi kona leitað aðstoðar á “Stöðinni” við Hagasmára í Kópavogi. Er lögregla hafi komið þangað var konan í miklu sjokki og kvaðst finna til eymsla í sköflungi eftir að árásaraðili hafði sparkað í hana. Kvað hún tvo aðila, mann og konu, hafa verið fyrir aftan sig þar sem hún var að ganga í undirgöngunum og þar hafi konan ráðist á sig og þær slegist í stutta stund en konan náð að hrifsa af henni veskið og hlaupa burt. Kvað hún manninn ekki hafa ráðist á sig heldur staðið álengdar og fylgst með.
Kærði hafi viðurkennt í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa verið þarna með annarri stúlku og að þau hafa ákveðið í sameiningu að ná veskinu af konunni en það hafi verið skyndiákvörðun.
007-2011-61990
Kærði hafi viðurkennt við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa þann 8. október sl. blekkt starfsfólk í staðgreiðsluviðskipum í verslun [...], með því að framvísa og greiða með greiðslukorti í eigu annars aðila og þannig svikið út vörur að fjárhæð kr. 89.920.
007-2011-61916
Þann 14. október sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að Sundhöll Reykjavíkur vegna gripdeildar. Þar var kona sem kvaðst hafa verið að koma úr sundi og verið að ganga heim til sín er par hefði komið að henni og hrifsað til sín töskuna hennar. Hún kvaðst hafa haldið fast í töskuna og fallið fram fyrir sig er töskunni var kippt af henni.
Kærði sé grunaður um aðild að þessu máli en ekki hafi unnist tími til að taka af honum skýrslu vegna þess.
007-2011-64086
Kærði hafi verið handtekinn í nótt í kjölfar þess að lögregla hafði af honum afskipti þar sem hann hafi verið að aka bifreiðinni [...] með skráningarnúmerunum [...] sem höfðu áður verið tilkynnt stolin. Hafi kærði verið í annarlegu ástandi. Hafi kærði við skýrslutöku greint frá því að hann hafi fengið bifreiðina lánaða hjá öðrum aðila sem hafði stolið henni. Hafi kærði viðurkennt að hafa stolið skráningarmerkjunum [...] til þess að setja á bifreiðina [...] þar sem hann vissi að hún væri stolin.
Kærði eigi langan sakaferil að baki og hafi margsinnis hlotið fangelsisdóma fyrir hegningarlagabrot, s.s. þjófnaði, gripdeildir, rán og líkamsárás.
Með vísan til framangreinds og ferils kærða telur lögregla yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæta dómsmeðferð.
Sakarefni málanna eru talin varða við 244., 245., 248., 252. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geta varðað fangelsi allt að 10 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Gögn málsins bera með sér að kærði á að baki nokkuð langan sakarferil og hefur margsinnis hlotið fangelsisdóma fyrir hegningarlagabrot, svo sem þjófnaði, gripdeildir, rán og líkamsárás. Í greinargerð lögreglustjóra, sem nú liggur frammi er rakin brotastarfsemi kærða frá 6. maí sl. til 27. október. Þau brot eru talin varða við 244., 245, 248, 252. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing sannist sök. Fallist er á það með lögreglustjóra að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið fyrir dómi, fari hann frjáls ferða sinna. Með vísan til c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 24. nóvember 2011 kl. 16:00.