Hæstiréttur íslands

Mál nr. 12/1999


Lykilorð

  • Bifreið
  • Ölvunarakstur
  • Neyðarréttur


___

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 20. maí 1999.

Nr. 12/1999.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Davíð Sigurðssyni

(Bjarni Þór Óskarsson hdl.)

Bifreiðir. Ölvunarakstur. Neyðarréttur.

Stúlkan B og D ákváðu að næturlagi að fara frá starfsmannahúsi við Búrfellsvirkjun að Þjórsárdalssundlaug og ók B, sem var án ökuréttar. Á leiðinni til baka missti hún stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún valt. Var B í miklu uppnámi eftir slysið og kvartaði mjög undan verkjum í baki og hálsi og var ekki í ástandi til að aka. Ók D því bifreiðinni um vegaslóðann aftur að virkjuninni, til að koma B undir læknishendur, þótt hann væri undir áhrifum áfengis. Var hann ákærður fyrir ölvunarakstur. Talið var nægilega sýnt fram á að B hefði verið ófær um að ganga eða aka sjálf frá slysstað og að D hefði ekki verið stætt á því að skilja hana eina þar eftir á meðan hann gengi til byggða eftir aðstoð. Þá var talið að D hefði haft ástæðu til að ætla að meiðsl B væru alvarlegri en raun varð á og að henni væri brýnt að fá aðstoð læknis. Var fallist á að D hefði ekki átt annarra kosta völ en að aka sjálfur bifreiðinni, en engin umferð var á veginum og áfengismagn í blóði hans fór ekki verulega fram úr lágmarki umferðarlaga. Var talið að þrátt fyrir það að háttsemi D væri andstæð ákvæði 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga hefði hún verið nauðsynleg til að vernda fyrir yfirvofandi hættu lögmæta hagsmuni, sem voru stórum meiri en þeir hagsmunir sem skertir voru. Var verknaðurinn því refsilaus samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga og niðurstaða héraðsdóms um sýknu D staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. desember 1998 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing og svipting ökuréttar.

Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

I.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Selfossi var henni tilkynnt aðfaranótt þriðjudagsins 14. júlí 1998 að bifreið hafi oltið út af vegi að sundlaug í Þjórsárdal og farþegi slasast. Hafi ákærði ekið bifreiðinni, sem hafi verið í eigu hans og af gerðinni Mitsubishi Colt árgerð 1990. Lögreglan hafi verið kvödd að heilsugæslustöð í Laugarási, en þangað hafi farþeginn, Barbara Inga Albertsdóttir, 16 ára að aldri, verið flutt með sjúkrabifreið. Á heilsugæslustöðinni hafi ákærði greint frá því að þau hafi verið ein á ferð frá sundlauginni í Þjórsárdal þegar hann hafi misst stjórn á bifreiðinni, sem hafi oltið. Áfengisþefur hafi fundist af ákærða og öndunarpróf verið tekið af honum, en það hafi sýnt sem svaraði 0,75o/oo áfengis í blóði. Hafi ákærði þá verið handtekinn og ákveðið að taka sýni af blóði hans og þvagi. Barbara hafi fundið til eymsla í höfði, hálsi, baki og hendi. Hafi læknir saumað skurð á hendi hennar og hún síðan verið flutt á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Samkvæmt gögnum málsins var ákærði vistaður í fangageymslu eftir komu á lögreglustöð á Selfossi og skýrsla tekin þar af honum eftir hádegi fyrrgreindan dag. Í skýrslunni var haft eftir honum að hann hafi kvöldið áður setið að spjalli með nokkrum kunningjum sínum að Sámsstöðum 4, sem sé íbúðarhús við Búrfellsvirkjun, þar til um eða laust eftir miðnætti. Hafi hann þá haldið þaðan ásamt Barböru Ingu Albertsdóttur á áðurnefndri bifreið, sem hann hafi ekið, að sundlauginni í Þjórsárdal. Þau hafi upphaflega ætlað að fara í sundlaugina, en hætt við það þegar þangað var komið. Hafi þá Barbara fengið að aka bifreiðinni stuttan spöl, en ákærði síðan tekið aftur við akstri. Hafi þau ætlað að fara aftur að Búrfelli, en í fyrstu beygjunni á leið frá sundlauginni hafi ákærði misst stjórn á bifreiðinni, sem hafi farið tvær veltur og hafnað á hjólunum. Hafi þau Barbara „bæði verið í sjokki fyrst eftir veltuna“, en eftir nokkra stund hafi hann gangsett bifreiðina og ekið að Sámsstöðum 4. Ákærði gekkst við því að hafa neytt áfengis fyrir aksturinn, svo og að sér hafi verið kunnugt um að Barbara hafi ekki haft ökuréttindi þegar hann heimilaði henni að aka bifreiðinni.

Hinn 16. júlí 1998 kom Barbara Inga Albertsdóttir að eigin frumkvæði til lögreglunnar á Selfossi, þar sem hún gaf skýrslu. Hún kvaðst hafa ekið fyrrnefndri bifreið frá Sámsstöðum 4 að sundlauginni í Þjórsárdal umrædda nótt og ákærði verið einn með henni. Þar hafi þau staldrað við um stund og ákveðið síðan að halda aftur að Búrfelli. Hún hafi ekið af stað, en eftir skamma stund misst stjórn á bifreiðinni, sem hafi oltið. Hafi hún drepið á hreyfli bifreiðarinnar og farið út til að gæta að því hvort ákærði, sem hafi setið í hægra framsæti, væri slasaður. Þau hafi bæði „verið í sjokki eftir veltuna en ekki mikið slösuð enda hafi þau bæði verið með bílbeltin spennt.“ Eftir um hálfa eða eina klukkustund hafi þau ákveðið að gangsetja bifreiðina og aka henni að Búrfelli, „þar sem þeim hafi fundist of langt að ganga þangað.“ Hún hafi skipað ákærða að aka, sem hann hafi gert. Þegar þau hafi komið aftur að Sámsstöðum 4 hafi komið fólk úr nærliggjandi húsum og aðstoðað þau við að komast til læknis í Laugarási. Hún kvaðst ekki hafa neytt áfengis sjálf og efaðist um að ákærði hafi gert slíkt eftir að þau héldu af stað í ferð sína.

Ákærði kom á ný fyrir lögregluna á Selfossi 16. júlí 1998 og kvaðst vilja breyta framburði sínum, því Barbara Inga Albertsdóttir hafi ekið bifreiðinni umrædda nótt að sundlauginni í Þjórsárdal og aftur þaðan þar til bifreiðin valt. Hafi hann verið farþegi í bifreiðinni, en tekið við akstri hennar eftir veltuna og ekið að Sámsstöðum 4, sem hafi verið á að giska 5 til 6 km leið. Kvaðst hann hafa ætlað að taka á sig akstur Barböru, því hann hafi vitað að hún væri án ökuréttar. Hafi hann ákveðið þetta upp á sitt eindæmi, en daginn eftir slysið hafi þau sammælst um að láta það sanna koma fram.

Samkvæmt vottorði rannsóknastofu í lyfjafræði 21. júlí 1998 reyndist áfengismagn í blóðsýni úr ákærða vera 0,71o/oo, en í þvagsýni 1,10o/oo.

Með ákæru í málinu 17. september 1998 var ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 14. júlí 1998 ekið bifreiðinni DX 475 undir áhrifum áfengis suður eftir vegi frá Þjórsárdalssundlaug í Gnúpverjahreppi og sem leið lá að Sámsstöðum 4 við Búrfellsvirkjun. Taldist þessi háttsemi vera brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og varða refsingu og sviptingu ökuréttar samkvæmt 100. gr., 101. gr. og 102. gr. laganna með áorðnum breytingum.

II.

Fyrir héraðsdómi gekkst ákærði við þeim sökum, sem bornar voru á hann með fyrrgreindri ákæru. Hann bar á hinn bóginn fyrir sig að verknaður hans ætti að vera refsilaus, því akstur hans í umrætt sinn eftir neyslu áfengis hafi helgast af neyð, sbr. 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð ítarleg grein fyrir framburði ákærða og vitna, sem lýtur að framangreindri málsvörn. Eins og þar er lýst nánar bar ákærði fyrir dómi að Barbara Inga Albertsdóttir hafi verið í miklu uppnámi eftir að bifreiðin valt og hafi ekki tekist að róa hana á þeim tíma, sem þau héldu kyrru fyrir á slysstað. Hún hafi getað gengið um, en engu að síður hafi hann haft miklar áhyggjur af því að hún væri verulega slösuð, því hún hafi æpt og farið „að finna til í hálsi.“ Hafi hún hvorki getað gengið né ekið til byggða og hafi ekki verið unnt að skilja hana eftir eina á vettvangi á meðan hann gengi til að sækja aðstoð. Ekki hafi mátt búast við mannaferðum að sundlauginni fyrr en síðari hluta dagsins og hafi sími hvorki verið þar né í fórum þeirra. Hann hafi því ekið aftur til Sámsstaða og ferðin tekið minnst 20 mínútur, enda bifreiðin illa leikin eftir veltuna, en á leið þeirra hafi þau engri bifreið mætt. Framburður Barböru fyrir dómi var í meginatriðum á sama veg. Hún kvaðst hafa getað gengið eftir slysið, en óttast að áverkar sínir væru alvarlegir vegna verkja í baki og hálsi. Hvorki hafi komið til greina að ákærði færi einn síns liðs til byggða til að leita aðstoðar né að hún gengi með honum þangað eða æki sjálf.

Maður, sem flutti Barböru Ingu Albertsdóttur í sjúkrabifreið frá Sámsstöðum til heilsugæslustöðvar í Laugarási, bar fyrir héraðsdómi að Barbara hafi verið í miklu ójafnvægi og með vægt taugaáfall, en þó getað gengið. Hann hafi sett á hana hálskraga og búið um hana á sjúkrabörum með tilliti til hættu á að hún kynni að vera með alvarleg meiðsl á hrygg. Læknir við heilsugæslustöðina í Laugarási greindi frá því í skýrslu fyrir héraðsdómi að Barbara hafi við komu þangað borið sig illa. Hún hafi ekki verið með einkenni hálsáverka, en verið mjög aum í hryggnum. Hafi hún því verið send með sjúkrabifreið á sjúkrahús. Hann taldi að „afskaplega slæmt“ hefði verið að skilja Barböru eina eftir á slysstað og hefði hún alls ekki verið fær, líkamlega eða andlega, um að ganga til byggða. Ekki hafi verið hægt að slá því föstu fyrr en eftir myndatöku á sjúkrahúsi að Barbara hefði engin beinbrot hlotið, en fyrir leikmann hefði getað virst vera hætta á að hún væri þannig slösuð að lömun gæti hlotist af.

Af hálfu ákæruvalds hefur verið lagt fyrir Hæstarétt vottorð læknis við slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, þar sem meðal annars kemur fram að Barbara Inga Albertsdóttir hafi við komu þangað snemma morguns 14. júlí 1998 kvartað um verki í hálsi og baki. Hafi verið teknar röntgenmyndir, sem hafi ekki leitt í ljós beinbrot. Hafi því meiðsl verið greind sem tognun á hálsi og lendarhrygg. Varðandi meðferð Barböru segir eftirfarandi: „Talið var að hér væri um háorkuáverka að ræða og konan með töluvert mikil einkenni. Af þessum sökum var hún lögð inn á Lsp. til eftirlits.“ Þá hefur verið lagt fyrir Hæstarétt vottorð sérfræðings við bæklunarskurðdeild Landspítalans, þar sem staðfest er að Barbara hafi legið þar inni til 15. júlí 1998.

III.

Eins og ráðið verður af framangreindu virðast hvorki ákærði né Barbara Inga Albertsdóttir hafa borið fyrir lögreglu um meiðsl hennar eða einkenni á fyrstu stigum eftir slysið. Hvorugt þeirra virðist hafa fært þar í tal að ákærði hafi ekið í umrætt sinn af neyð, heldur var því fyrst borið við fyrir héraðsdómi.  Verður ekki séð að leitað hafi verið skýringa á þessu við skýrslugjöf ákærða eða Barböru fyrir dómi. Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá því að vegna vitneskju lögreglunnar um atvik málsins, þar á meðal um flutning Barböru á sjúkrahús, var ríkt tilefni vegna ákvæðis 2. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að beina spurningum til ákærða með tilliti til þessa þegar hann gaf fyrrnefndar skýrslur sínar 14. og 16. júlí 1998 án þess að óska eftir því að réttargæslumaður yrði kvaddur til. Getur tómlæti ákærða um að bera fyrir sig neyðarrétt því ekki orðið honum til réttarspjalla.

Í hinum áfrýjaða dómi er staðháttum lýst svo að vegurinn, sem bifreið ákærða var ekið út af, liggi að sundlaug, sem sé í miðri sandauðn í Þjórsárdal. Séu 8 til 11 km frá slysstað að malbikuðum þjóðvegi, en þaðan 3 til 4 km til byggða. Af hálfu ákæruvalds hefur ekki verið leitast við að hnekkja þessari lýsingu með nýjum gögnum. Ber því að leggja hana til grundvallar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á það með héraðsdómara að sýnt sé nægilega fram á að Barbara Inga Albertsdóttir hafi verið ófær um að ganga eða aka sjálf frá slysstað, svo og að ákærða hafi ekki verið stætt á að skilja hana þar eina eftir. Af framburði vitna, sem hefur nú fengið frekari stuðning í fyrrgreindum læknisvottorðum, er jafnframt nægilega leitt í ljós að ákærði sem leikmaður hafði ástæðu til að ætla að meiðsl Barböru væru alvarlegri en raun varð á og að henni væri brýnt að fá aðstoð læknis. Eins og atvikum var háttað verður að fallast á að ákærði hafi ekki átt annarra kosta völ til að sinna þessum þörfum en að aka sjálfur bifreiðinni til byggða, enda gátu þau ekki vænst mannaferða í námunda við slysstað fyrr en að liðnum þó nokkrum tíma. Áfengismagn í blóði ákærða fór ekki verulega fram úr því lágmarki, sem um ræðir í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997. Leggja verður til grundvallar að hann hafi ekið hægt eftir vegum, sem aðrir áttu ekki leið um á sama tíma. Þessi háttsemi ákærða var að sönnu andstæð fyrrnefndu ákvæði umferðarlaga. Í ljósi framangreinds verður hins vegar að telja sýnt að hún hafi verið nauðsynleg til að vernda fyrir yfirvofandi hættu lögmæta hagsmuni, sem voru stórum meiri en þeir hagsmunir sem skertir voru. Verknaður ákærða var því refsilaus samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Verður allur áfrýjunarkostnaður vegna málsins felldur á ríkissjóð, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður vegna málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Bjarna Þórs Óskarssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 4. desember 1998.

Ár 1998, föstudaginn 4. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-85/1998: Ákæruvaldið gegn Davíð Sigurðssyni kveðinn upp svofelldur dómur:

                Mál þetta var þingfest hinn 12. október 1998, en tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi hinn 12. nóvember sl. Málið var höfðað með svofelldri ákæru Sýslumannsins á Selfossi, dagsettri 17. september sl., á hendur Davíð Sigurðssyni, kt. 120379-3059, Skarði, Gnúpverjahreppi, Árnessýslu „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 14. júlí 1998 ekið bifreiðinni DX-475 undir áhrifum áfengis suður vegslóða skammt frá Þjórsárdalssundlaug í Gnúpverjahreppi og síðan sem leið liggur að Sámsstöðum 4 við Búrfellsvirkjun í Gnúpverjahreppi.

                Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 44, 1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 23, 1998.”.

                Við meðferð málsins krafðist sækjandi þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinna saksóknarlauna til ríkissjóðs.

                Verjandi ákærða hefur krafist þess að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjandans.

               

Málavextir

                Með játningu ákærða, sem samræmist framburði vitna og gögnum málsins er sannað að ákærði sýndi af sér þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Hins vegar er því haldið fram af hálfu ákærða að háttsemi hans beri að meta refsilausa á grundvelli neyðarréttar. 

                Að kvöldi miðvikudagsins 13. júlí 1998, var ákærði var ásamt kunningjum sínum að Sámsstöðum 4, sem er íbúðarhús við Búrfellsvirkjun. Þau sátu þar að spjalli fram yfir miðnætti, en þá ákváðu ákærði og Barbara Inga Albertsdóttir að fara í sundlaugina í Þjórsárdal. Bæði voru þau starfsmenn Búrfellsvirkjunar. Samkvæmt framburði ákærða og Barböru fyrir dómi var Barbara ökumaður bifreiðarinnar, en u. þ. b. einum kílómetra frá sundlauginni missti Barbara stjórn á bifreiðinni og valt bifreiðin tvo hringi niður kant út af vegi, með þeim afleiðingum að Barbara og ákærði meiddust, auk þess sem bifreiðin skemmdist töluvert. Þau fóru bæði út úr bifreiðinni strax eftir veltuna. Meiðsli ákærða voru lítil, en Barbara kvartaði sáran undan eymslum í baki og í hálsi. Um það bil hálfri klukkustund eftir atvikið greip ákærði til þess ráðs að aka bifreiðinni til Sámsstaða 4, sem var næsta byggða ból. Ók hann sömu leið og þau höfðu áður farið. Fyrst eftir vegarslóða að þjóðvegi, alls um 8-11 kílómetra, en þá 3-4 kílómetra eftir malbikuðum þjóðveginum. Barbara sat í farþegasæti frammí, en inni í bifreiðinni var mikið af glerbrotum. Ákærði ók rólega og sóttist þeim ferðin seint þar sem Barbara var slösuð og í miklu ójafnvægi, auk þess sem bifreiðin var vart í ökuhæfu ástandi, framrúðan sprungin, en afleggjarinn að þjóðveginum var harður og slæmur vegur. Þegar að Sámsstöðum 4 var komið var hringt eftir sjúkrabíl, en samkvæmt skýrslu lögreglu barst henni tilkynning um slysið klukkan 02:25. Barbara var flutt í sjúkrabifreiðinni á heilsugæslustöðina í Laugarási og var komið þangað um klukkan 03:15. Var ákærði með í för. Eftir aðhlynningu læknis þar var Barbara flutt með sjúkrabíl til Reykjavíkur. Lögregla mætti einnig á heilsugæslustöðina og eftir samræður lögreglumanna við ákærða, þótti lögreglu rétt að ákærði gæfi blóð- og þvagsýni vegna gruns um ölvun við akstur. Var ákærði raunar handtekinn og færður í fangaklefa og dvaldi ákærði þar til tæplega tvö daginn eftir, er hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Samkvæmt gögnum málsins gaf ákærði þvagsýni klukkan 04:05 þá um nóttina, en blóðsýni fimm mínútum síðar. Niðurstaða mælinga sýndi 1,10 %o alkóhóls í þvagi, en 0,71%o í blóði. Samkvæmt skýrslu Guðmundar Hartmannssonar varðstjóra var ákærði ekki áberandi ölvaður er hann kom á lögreglustöðina á Selfossi klukkan 05:30, en áfengislykt lagði frá vitum hans og voru augu hans vot og dauf. Bæði ákærði og Barbara voru með bílbeltin spennt er bifreiðin valt.

Ákærði hefur skýrt svo frá að Barbara hafi verið í mjög miklu uppnámi eftir bílveltuna. Hafi honum lítið sem ekkert tekist að róa hana, þann tíma sem leið áður en þau lögðu af stað aftur. Barbara hafi getað gengið eitthvað um en hann hafi eigi að síður haft verulegar áhyggjur af því að hún væri alvarlega slösuð, þar sem hún hafi æpt og kvartað sáran yfir sársauka í hási. Hafi Barbara hvorki verið í ástandi til að ganga eða aka bifreiðinni til baka. Ákærði kvað hins vegar að mögulegt hefði verið fyrir sig að ganga til byggða, hann hafi verið kunnugur staðháttum og meiðsli hans óveruleg, auk þess sem veður hafi verið ágætt. Kvaðst ákærði telja að sú ganga hefði tekið hann tæplega tvær klukkustundir. Hins vegar hafi það einnig verið ómögulegt að skilja Barböru eftir eina á vettvangi, vegna meiðsla hennar, auk þess sem Barbara hafi verið í miklu ójafnvægi og því „tryllst og farið eitthvað langt í burtu”, eins og ákærði komst að orði. Ákærði kvaðst hafa unnið í Búrfelli fjögur undanfarin sumur. Ákærði kvað ekki hafa verið von mannaferða fyrr en einhvern tíma daginn eftir, er starfsmenn Búrfellsvirkjunar kæmu til að hreinsa sundlaugina sem var fyrir starfsfólk virkjunarinnar, en ákærði kvaðst hafa vitað til þess að sundlaugin yrði lokuð daginn eftir. Þá kvaðst ákærði vita að sími væri í sundlauginni á daginn, en starfsmaður laugarinnar tæki hann alltaf með sér heim á kvöldin. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með síma meðferðis og enginn hafi vitað af ferð þeirra Barböru að sundlauginni. Ákærði kvaðst hafa fundið til áfengisáhrifa er hann var við drykkju kvöldið áður. Kvaðst ákærði hafa drukkið sennilega þrjá áfenga bjóra. Ákærði kvaðst þó ekki hafa fundið til áfengisáhrifa við aksturinn „alla vega ekki mikið”, eins og hann bætti við. Ákærði kvað aksturinn til baka hafa tekið alla vega 20 mínútur, en þó ekkert geta fullyrt nákvæmlega um það. Ákærði kvaðst hafa þurft að aka með höfuðið út um hliðarrúðuna þar sem framrúðan hafi verið svo sprungin, auk þess hafi mikið af glerbrotum verið um allan bíl. Þá hafi annað framhjól bifreiðarinnar verið sprungið, en ljós bifreiðarinnar hafi sennilega verið í lagi. Ákærði kvaðst hafa þurft að halda í hönd Barböru allan tímann meðan á akstri stóð og einnig stöðvað bifreiðina nokkrum sinnum á leiðinni til að róa Barböru niður, auk þess sem erfitt hafi verið að aka bifreiðinni. Ákærði kvað þau ekki hafa mætt bifreið á leiðinni að Sámsstöðum 4. Ákærði kvaðst ekki hafa rætt við Barböru um að stöðva bifreiðina einhvern tíma á leiðinni og ganga þaðan.

Vitnið Barbara Inga Albertsdóttir lýsti atvikum á sömu lund og ákærði. Hún kvaðst alls ekki hafa verið í stakk búin til að ganga til baka að Sámsstöðum 4. Vitnið kvaðst aldrei mundu hafa leyft ákærða að yfirgefa sig, en vitnið kvaðst hafa óttast mjög að eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir sig, en hún hafi haft verki í baki og hálsi. Vitnið kvaðst þó hafa getað gengið. Vitnið kvað meiðsli þau sem hún fékk greint sinn hrjá sig að nokkru leyti enn í dag. Vitnið kvaðst hafa skipað ákærða að aka bifreiðinni og hafi ákærði ekið bifreiðinni hægt til baka, m. a. vegna hættu á að hún yrði fyrir hnjaski. 

Vitnið Gylfi Haraldsson, læknir við heilsugæslustöðina að Laugarási, kvað Barböru hafa borið sig mjög illa er hann sá hana. Kvaðst vitnið fyrst hafa kannað hvort Barbara væri með þannig áverka að hætta væri á lömun, en þó hafi hann ekki fengið endanlega vissu um að hún væri óbrotin fyrr en síðar er röntgenmynd hafði verið tekin af Barböru á spítala. Hún hafi verið mjög aum milli þriðja og fjórða hálsliðs, þ. e. hryggtinda, og einnig niður á brjósthrygg frá um ellefta brjóstlið og alveg niður á lendarsvæði. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt um það hvort það hafi skipt meginmáli fyrir Barböru ef hún hefði ekki komist undir læknishendur fyrr en klukkustund síðar en hún gerði, en áverkar hefðu verið þess eðlis að það hafi verið nauðsynlegt að hún kæmist sem fyrst til læknis. Vitnið fullyrti að Barbara hefði ekki verið fær um að ganga frá vettvangi til byggða. Vegna andlegs og líkamlegs ástands Barböru hafi það heldur ekki verið forsvaranlegt fyrir ákærða að skilja Barböru eftir og ganga til byggða. Kvaðst vitnið telja að hið eina rétta hafi verið að meðhöndla Barböru m. t. t. þess að hún væri með þannig brotáverka á hálsi að möguleiki væri á lömun. Nefndi vitnið raunar að hann þekkti vel til vettvangs og að ákærði hefði að sínu mati gert hið eina rétta. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir því að ákærði var undir áhrifum áfengis, aðallega vegna áfengislyktar af honum.

Vitnið Bjarni Ragnarsson var sjúkraflutningamaður á þeim sjúkrabíl sem flutti Barböru frá Sámstöðum 4 og til læknis. Vitnið lýsti ástandi Barböru þannig að hún hafi verið í miklu ójafnvægi, með vægt taugaáfall, hún hafi bæði hlegið og grátið. Barbara hafi þó getað gengið um. Barbara hafi kvartað um eymsli á höfði, baki og hálsi. Vitnið kvaðst því hafa sett hálskraga á Barböru, lagt hana út af á börur og búið um hana með tilliti til þess að hún væri með mikinn hryggskaða, en nefndi að þegar fólk væri eins æst og Barbara hafi verið, þá væri hætta á að það fengi lost.

Lögreglumennirnir Magnús Kolbeinsson og Jóhannes Björgvin Björgvinsson komu á heilsugæslustöðina í Laugarási. Vitnið Magnús flutti ákærða á lögreglustöðina á Selfossi. Vitnið kvaðst aðeins þekkja staðhætti á slysstað og nefndi að umferð þangað væri lítil og nánast engin að nóttu til. Vitnið Jóhannes var annar af þeim tveimur sem sáu um að flytja Barböru í sjúkrabíl frá Laugarási til Reykjavíkur. Vitnið sá Barböru fyrst á heilsugæslustöðinni á Laugarási. Vitnið kvað Barböru þá hafa verið nokkuð miður sín, en virkað þó róleg. Þó kvaðst vitnið ráma í að Barbara hafi kvartað undan meiðslum í hálsi og baki. Vitnið kvað ákærða hafa virst nokkuð miður sín, en hið eina sem vakið hafi grunsemdir um ölvun ákærða hafi verið að áfengislykt hafi lagt frá vitum hans. Vitnið Guðmundur Hartmannsson varðstjóri á Selfossi tók á móti ákærða þar. Hann kvaðst ekki muna eftir ölvunarástandi ákærða. Vitnið kvaðst hafa tekið við tilkynningu um slysið og hafi hann dregið þá ályktun að víst væri að hin slasaða yrði flutt með sjúkrabifreið alla leið til Reykjavíkur.

Engin gögn eru um ástand bifreiðarinnar, en sakarflytjendur töldu ekki ástæðu til þess að leiða þá lögreglumenn fyrir dóm sem skoðuðu bifreiðina. Þá liggur ekki frammi læknisvottorð um áverka Barböru Ingu Árnadóttur.

Niðurstöður

                Eins og að framan er rakið valt bifreiðin tvær veltur út af vegarslóða sem lagður hefur verið að sundlaug sem Landsvirkjun hefur látið gera í miðri sandauðninni í Þjórsárdal. Eftir veltuna var ökumaður bifreiðarinnar, Barbara Inga Árnadóttir, í þannig líkamlegu og andlegu ástandi að ómögulegt var að hún héldi áfram akstri. Þrátt fyrir að Barbara hafi gengið eitthvað um eftir bílveltuna var hún þannig slösuð að ákærði mátti búast við hinu versta. Af framburði ákærða og vitna má fullyrða að Barbara var ófær um að aka eða ganga til byggða. Læknir sá sem skoðaði Barböru eftir slysið taldi raunar að nauðsynlegt hefði verið að koma henni sem fyrst undir læknishendur, þar sem hætta hafi verið á alvarlegum afleiðingum, jafnvel lömun. Telja verður að það hefði tekið ákærða um það bil tvær klukkustundir að ganga til byggða ef allt hefði gengið að óskum. Af framburði ákærða og vitna er ljóst að Barbara var í verulega miklu ójafnvægi, en ákærði mátti ætla að ástand Barböru gæti versnað. Þrátt fyrir að veður hafi verið ágætt var líklega rigning, en líta má til þess að veður getur ætíð breyst og var löskuð bifreiðin eina skjólið sem ákærði og Barbara höfðu fyrir veðri. Af framburði ákærða að dæma vissi enginn um ferðir hans og Barböru greinda nótt. Nánast engin von var um hjálp þar sem ekki mátti búast við mannaferðum á þessum slóðum fyrr en í fyrsta lagi einhvern tíma daginn eftir, en vegarslóði sá sem um ræðir lá einungis að sundlauginni og átti slysið sér stað í töluverðri fjarlægð frá þjóðveginum. Því verður að telja að eins og á stóð hafi verið varhugavert fyrir ákærða að fara til byggða og skilja Barböru eina eftir á vettvangi. Vegna meiðsla Barböru og aðstæðna að öðru leyti ók ákærði bifreiðinni löturhægt stystu leið til byggða og þurfti ákærði raunar oftar en einu sinni að stöðva bifreiðina til að reyna að róa Barböru. Ganga verður út frá þeim framburði ákærða að ljós bifreiðarinnar hafi verið í lagi eftir bílveltuna. Þá ber að hafa í huga að aksturinn átti sér stað að nóttu til á fáförnum vegi, enda urðu ákærði og Barbara ekki vör við aðra umferð á leiðinni heim. Af lýsingum vitna á ástandi ákærða var ákærði ekki áberandi ölvaður greinda nótt, en samkvæmt framburði ákærða og Barböru neytti ákærði áfengs bjórs áður en þau yfirgáfu Sámsstaði 4, um miðnættið. Samkvæmt því og niðurstöðum rannsókna á þvag- og blóðsýnum, sem tekin voru úr ákærða þá um nóttina, má ætla að víman hafi verið að renna af ákærða er hann ók bifreiðinni nefnt sinn, enda er miðað við það í ákæru að ákærði hafi ekki verið óhæfur til að stjórna ökutæki, samkvæmt 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, heldur að hann hafi ekki geta talist stjórna ökutæki örugglega, samkvæmt 2. mgr. 45. gr. Þegar allt þetta er virt þykir akstur ákærða umrætt sinn eiga að vera refsilaus samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ber því að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

                Með vísan til 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal allur sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Þórs Óskarssonar héraðsdómslögmanns, 70.000 krónur.

                Ólafur Börkur Þorvaldsson dómstjóri kveður upp þennan dóm, en dómsuppsaga hefur dregist um nokkra daga vegna mikilla anna dómara.

Dómsorð:

                Ákærði, Davíð Sigurðsson, er sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

                Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Þórs Óskarssonar héraðsdómslögmanns, 70.000 krónur.