Hæstiréttur íslands
Mál nr. 391/2008
Lykilorð
- Þinglýsing
- Skaðabætur
- Málsástæða
- Kröfugerð
|
|
Fimmtudaginn 12. mars 2009. |
|
Nr. 391/2008. |
Glitur ehf. (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl. |
Þinglýsing. Skaðabætur. Málsástæður. Kröfugerð.
G krafði Í um skaðabætur vegna tjóns sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir vegna mistaka þinglýsingarstjórans í Reykjavík. Hefðu mistökin valdið því að veðskuld við B hefði um tíma fallið út af tilgreindum hluta fasteignar sem G keypti af S með kaupsamningi 7. desember 2002. Hefði þetta valdið G tjóni sem Í bæri ábyrgð á samkvæmt 49. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. G byggði á því að félagið hefði orðið fyrir fjártjóni 27. febrúar 2004 er það greiddi B 2.000.000 króna til að fá umræddri veðskuld aflétt. Það er skilyrði skaðabótaskyldu Í samkvæmt a. lið 49. gr. þinglýsingarlaga að sá sem bóta krefst hafi treyst þinglýsingarvottorði. G var ekki talinn hafa sýnt fram á að félagið hefði við kaupsamningsgerðina sérstaklega treyst á veðbókarvottorð eða aðrar tilteknar upplýsingar frá þinglýsingarstjóra um að hin umdeilda veðskuld hvíldi ekki á eigninni en ekkert var að slíkum upplýsingum vikið í kaupsamningnum. Ekki var fallist á að G teldist hafa sannað að fjártjón það, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir 27. febrúar 2004, stafaði af mistökum þinglýsingarstjórans í Reykjavík þannig að til ábyrgðar leiddi fyrir Í samkvæmt 49. þinglýsingarlaga. Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. júlí 2008. Hann krefst þess nú að stefnda verði gert að greiða sér 1.656.559 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.384.464 krónum frá 27. febrúar 2004 til 1. september sama ár en af 1.656.559 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn niður falla.
Áfrýjandi hefur stefnt Guðjóni Ágústi Sigurðssyni og Byr sparisjóði til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Þeir hafa ekki látið málið til sín taka.
Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Í málinu krefur áfrýjandi stefnda um skaðabætur vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna mistaka þinglýsingarstjórans í Reykjavík. Hafi mistökin valdið því að veðskuld við réttargæslustefnda, Byr sparisjóð, hafi um tíma fallið út af tilgreindum hluta fasteignarinnar að Suðurlandsbraut 16 í Reykjavík. Hafi þetta valdið áfrýjanda tjóni sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt 49. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi taldi áfrýjandi tjón sitt felast í því að hann hefði neyðst til að greiða réttargæslustefnda, Byr sparisjóði, 2.000.000 krónur 27. febrúar 2004 til að fá umræddri veðskuld létt af eigninni auk þess sem hann gerði kröfu um greiðslu á 218.550 krónum samkvæmt reikningi 1. september 2004 vegna kostnaðar við lögfræðilega aðstoð í tilefni af uppboðsmeðferð á nefndum eignarhluta. Var þar ekki talinn með virðisaukaskattur sem áfrýjandi kveðst hafa þurft að greiða í viðbót, þar sem áfrýjandi væri „virðisaukaskattskyldur aðili“. Samtals nam krafa áfrýjanda í héraði því 2.218.550 krónum. Krafðist hann dráttarvaxta af 2.000.000 krónum frá 27. febrúar 2004 til 1. september sama ár en af 2.218.550 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Héraðsdómur sýknaði stefnda af kröfu áfrýjanda en felldi niður málskostnað. Í áfrýjunarstefnu og greinargerð til Hæstaréttar gerði áfrýjandi sömu kröfu og hann hafði gert í héraði.
Með bréfi til Hæstaréttar 2. mars 2009, daginn fyrir munnlegan flutning málsins, tilkynnti áfrýjandi réttinum að hann breytti dómkröfu sinni. Kvaðst hann nú krefjast greiðslu á 1.656.559 krónum auk dráttarvaxta af 1.384.464 krónum frá 17. mars 2003 til 1. september 2004 en af 1.656.559 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Við málflutninginn skýrði áfrýjandi kröfu sína svo að krafist væri þeirrar samanlögðu fjárhæðar sem réttargæslustefndi, Guðjón Ágúst Sigurðsson, hefði greitt seljendum eignarhlutans að Suðurlandsbraut 16, Olgu Guðmundsdóttur og Birni Óla Péturssyni, 5. desember 2002, en eins og fram kemur í héraðsdómi nam þessi fjárhæð samtals 1.384.464 krónum (565.000 krónur + 819.464 krónur). Jafnframt krafðist áfrýjandi nú fjárhæðar sem samsvaraði fyrrgreindum reikningi fyrir lögmannsaðstoð en bætti virðisaukaskattinum, 53.545 krónum, við þann kröfulið, þannig að hann nam nú 272.095 krónum. Samtals næmi dómkrafan því 1.656.559 krónum.
Af hálfu stefnda var hinum nýju kröfuháttum mótmælt og talið að áfrýjandi hefði með þeim breytt þeim grundvelli málsóknar sinnar sem lagður hefði verið fyrir héraðsdóm. Jafnframt mótmælti stefndi sérstaklega breytingu áfrýjanda á upphafsdegi dráttarvaxta aftur í tímann, þannig að nú miðaði hann við 17. mars 2003 en hefði áður miðað við 27. febrúar 2004. Áfrýjandi brást við þessu í síðari málflutningsræðu sinni á þann veg að hann breytti upphafsdegi dráttarvaxtakröfu sinnar í fyrra horf og lýsti jafnframt yfir því að hann byggði enn á að tjón hans hefði orðið 27. febrúar 2004, er hann greiddi réttargæslustefnda, Byr sparisjóði, fyrrgreindar 2.000.00 krónur. Hann hefði hins vegar lækkað fjárhæð kröfunnar og væri honum það heimilt.
Dómur í málinu verður ekki byggður á sjónarmiðum áfrýjanda um að tjón hans hafi orðið 5. desember 2002, þegar réttargæslustefndi, Guðjón Ágúst Sigurðsson, gerði eftirstöðvar kaupverðs umrædds eignahluta upp við seljendur eignarhlutans, en áfrýjandi telur að það hafi réttargæslustefndi gert í trausti þess að seljendurnir hafi þá verið búnir að uppfylla samningsskuldbindingu sína um að aflétta veðkröfu réttargæslustefnda, Byrs sparisjóðs, af hinni seldu eign. Á þessu var ekki byggt í héraði og verður ekki úr því bætt fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Áfrýjandi kveðst eins og að framan var greint ennþá byggja á því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni 27. febrúar 2004, er hann greiddi réttargæslustefnda, Byr sparisjóði, 2.000.000 krónur til að fá umræddri veðskuld aflétt og stefndi beri ábyrgð á því vegna mistaka þinglýsingarstjórans í Reykjavík. Áfrýjandi keypti eignina af Suðurlandsbraut 16 ehf. með kaupsamningi 7. desember 2002. Það er skilyrði skaðabótaskyldu stefnda samkvæmt a. lið 49. gr. þinglýsingalaga að sá sem bóta krefst hafi treyst þinglýsingavottorði. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi við kaupsamningsgerðina sérstaklega treyst á veðbókarvottorð eða aðrar tilteknar upplýsingar frá þinglýsingarstjóra um að hin umdeilda veðskuld hvíldi ekki á eigninni en ekkert var að slíkum upplýsingum vikið í kaupsamningnum.
Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á að áfrýjandi teljist hafa sannað að fjártjón það, sem hann telur sig hafa orðið fyrir 27. febrúar 2004, stafi af mistökum þinglýsingarstjórans í Reykjavík þannig að til ábyrgðar leiði fyrir stefnda samkvæmt 49. gr. þinglýsingalaga. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Áfrýjandi verður með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, Glitur ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2008.
I
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 17. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Glitri ehf., kt. 420702-2480, Suðurlandsbraut 16, Reykjavík, með stefnu birtri 8. og 26. marz 2007, á hendur íslenzka ríkinu, og til réttargæzlu Guðjóni Ágústi Sigurðssyni, kt. 150854, Hákotsvör 2, Bessastaðahreppi, og Byr sparisjóði, kt. 610269-2229, Borgartúni 18, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmdur til greiðslu kr. 2.218.550, ásamt dráttarvöxtum af kr. 2.000.000 samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. febrúar 2004 til 1. september s.á., en með sömu vöxtum af kr. 2.218.550 frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda, íslenzka ríkisins eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins, en til vara, að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.
Engar kröfur eru gerðar af hálfu réttargæzlustefndu, enda engar kröfur gerðar á hendur þeim.
II
Málavextir
Með kaupsamningi, dags. 22. marz 2001, keypti réttargæzlustefndi, Guðjón Ágúst Sigurðsson, af þeim Olgu Guðmundsdóttur, kt. 140847-4969, og Birni Óla Péturssyni, kt. 281070-5929, hluta hússins nr. 16 við Suðurlandsbraut í Reykjavík ásamt tilheyrandi lóðarréttinum og öðru, er fylgja ber. Voru auðkenni eignarinnar hjá Fasteignamati ríkisins þannig tilgreind í samningnum: Staðgreinir 0000-01 1263102; fastanúmer 221-8377; landnúmer 103523; matshluti nr. 01; eign nr. 0204.
Kaupandinn átti fyrir annan hluta fasteignarinnar og aðliggjandi, eignarhluta M-0205, fnr. 221-8378.
Í nefndum kaupsamningi skuldbundu seljendur sig til að leysa af hinni seldu eign veðbönd Sparisjóðs vélstjóra, kt. 691086-2249, samkvæmt veðskuldabréfi, upphaflega að fjárhæð kr. 7.000.000, útgefnu til Sparisjóðs vélstjóra af VDO-verkstæðinu ehf. þann 6. nóvember 2000. Kveður stefnandi skuldabréfið hafa hvílt á fleiri veðandlögum.
Umsamið kaupverð hins selda eignarhluta, M-0204, fnr. 221-8377, var kr. 20.500.000, sem skyldi greiðast í sjö áföngum, m.a. með greiðslu við undirritun kaupsamnings, kr. 2.000.000, og að fengnu veðleyfi, samkvæmt 2. tl. bréfsins, kr. 12.000.000. Lá þá þegar fyrir loforð Burnham International á Íslandi hf. um að veita kaupanda skuldabréfalán fyrir þessum greiðslulið, að fengnu veðleyfi. Lokagreiðsla kaupverðsins skyldi innt af hendi þann 10. febrúar 2002. Fram var tekið, að kaupandi gæfi út víxla fyrir útborgunargreiðslum, en þeir teldust ekki fullnaðargreiðsla, fyrr en þeir í raun væru greiddir.
Kveður stefnandi seljendur hafa haft í hyggju að nýta kaupsamningsgreiðslurnar til að ná fram afléttingu áhvílandi lána, eins og um hafi samizt.
Í samræmi við framangreint gaf Sparisjóður vélstjóra út þann 10. maí 2001 skilyrt veðleyfi, sem móttekið var til þinglýsingar þann 15. maí 2001 og innfært þann 31. maí 2001. Veðleyfið er áritað af Burnham Int. hf. Veðleyfið var háð því skilyrði, að Burnham Int. hf. ábyrgðist uppgreiðslu skuldar á tékkareikningi VDO verkstæðis ehf. við Sparisjóð vélstjóra, kr. 2.835.000, og greiðslu ógreiddra afborgana og vaxta af láni samkvæmt framangreindu veðskuldabréfi nr. 1195-74-032410, með gjalddögum 17.01. 2001 til 17.04. s.á., samtals um kr. 3.321.000.
Stefnandi kveður greiðsludrátt af hálfu kaupanda hafa leitt til þess, að ekki varð að fullu gengið frá viðskiptum aðilanna fyrr en 5. desember 2002, sbr. uppgjörssamning samningsaðila. Uppgjörsgreiðslu hafi kaupandi þá greitt með peningum, kr. 565.000, og kr. 819.464 með þremur tékkum, og kveður stefnandi hann þá hafa verið grandlausan um þá breyttu stöðu í þinglýsingabókum, sem mál þetta er af sprottið.
Hinn 17. marz 2003 gáfu seljendur út afsal fyrir eigninni, sem lagt var inn til þinglýsingar hinn 20. sama mánaðar. Var afsalið gefið út til Guðjóns Á. Sigurðssonar og Suðurlandsbrautar 16 ehf., kt. 430502-4250, en kaupandinn, Guðjón, stofnaði það fyrirtæki á árinu 2002, og lagði þá umrædda eign inn í fyrirtækið, samkvæmt stofnefnahagsreikningi, dags. 27. apríl 2002, sbr. yfirlýsingu þar að lútandi, dags. 15. maí 2002, sem þinglýst var 5. desember 2002 sem eignarheimild félagsins að umræddri fasteign, M-204, fnr. 221-8377, auk þeirrar fasteignar, sem Guðjón átti fyrir, nr. M-205, fnr. 221-8378.
Í yfirlýsingu þessari eru áhvílandi lán tilgreind fyrir báða eignahlutana, og er þar ekki getið fyrrnefnds veðláns Sparisjóðs vélstjóra frá árinu 2000, upphaflega að fjárhæð kr. 7.000.000. Yfirlýsingin var innfærð sem eignarheimild án athugasemda.
Þegar unnið var að undirbúningi fyrrnefnds afsals, (frá seljendunum Olgu og Birni Óla, dags. 17. marz 2003) kveður stefnandi loks hafa verið komið í ljós, að veðlán Sparisjóðs vélstjóra, sem hafði verið afmáð úr veðmálabókum, hafði verið fært inn á eignina að nýju. Reynt hafi verið til fullnustu, en án árangurs, að fá afsalsgjafa til að hlutast til um, að veðinu yrði aflýst. Hafi því ekki hjá komizt að viðurkenna orðinn hlut, svo að hægt yrði að þinglýsa afsalinu réttilega.
Í afsalinu kemur eftirfarandi athugasemd aðila fram undir liðnum „greiðsla kaupverðs“:
Umsamið kaupverð er að fullu greitt Áhvílandi veðskuld á 3. veðrétti við Sparisjóð vélstjóra, kr. 7.000.000 frá 6.11.2000 er skuld afsalsgjafa og afsalshafa óviðkomandi. Afsalsgjafar eru skuldbundnir til að aflétta henni, sem var endurþinglýst í óþökk afsalshafa. Allar aðrar áhvílandi skuldir eru afsalsgjöfum óviðkomandi enda til þeirra stofnað af afsalshafa.
Með kaupsamningi, dags. 7. desember 2002, seldi Suðurlandsbraut 16 ehf. stefnanda máls þessa, Glit ehf., umrædda fasteign, M-204, fnr. 221-8377. Í samningnum var margumrædds veðláns Sparisjóðs vélstjóra ekki getið meðal áhvílandi skulda. Samningur þessi var afhentur til þinglýsingar þann 10. desember 2002. Embættið gerði þá einu athugasemd við hann, dags. 11. desember 2002, að ókomið væri afsal frá þeim Olgu og Birni Óla. Kveður stefnandi, að svo virðist, sem samningnum hafi verið vísað frá í bili, eða hann settur í bið. Engin athugasemd var gerð um tilgreindar áhvílandi veðskuldir.
Stefnandi kveður þinglýsingu kaupsamningsins frá 22. marz 2001 (milli þeirra Guðjóns Á. Sigurðssonar annars vegar og hins vegar þeirra Olgu og Björns Óla) hafa dregizt af ýmsum ástæðum, og hafi afsal fyrir eigninni ekki fengizt útgefið fyrr en 17. marz 2003, eins og áður sé rakið.
Stefnandi kveður Guðjón Á. Sigurðsson hafa, hinn 24. september 2002, lagt kaupsamninginn frá 22. marz 2001 inn til þinglýsingar. Við móttöku skjalsins hafi starfsmaður embættisins greint Guðjóni frá því, að öll lánin, sem seljendur áttu að fá aflýst og tilgreind voru á bls. 2 í kaupsamningnum, væru farin út úr veðmálabókum embættisins, og því væri óþarft að tilgreina þau í samningnum. Hafi starfsmaðurinn ráðlagt Guðjóni að strika yfir þau í samningum en færa hins vegar inn á bakhlið samningsins þau lán, sem þá væru áhvílandi og tekin höfðu verið vegna kaupanna. Hafi það verið tvö veðlán á 1. og 2. veðrétti frá Burnham Int. hf., bæði útg. 7. maí 2001, (kr. 8.000.000 og kr. 4.000.000), og á þriðja veðrétti veðlán Sjóvár-Almennra trygginga hf., útg. 26. júlí 2001, að fjárhæð kr. 4.000.000. Hafi Guðjón gert það, sem fyrir hann var lagt af starfsmanni embættisins. Skjalið hafi síðan verið innfært án athugasemda hinn 26. september 2002.
Stefndi kveður réttargæzlustefnda, Guðjón Á. Sigurðsson, ekki einungis hafa stofnað Suðurlandsbraut 16 ehf., heldur hafi hann einnig stofnað stefnanda, Glitur ehf., á árinu 2002, og sé félagið, a.m.k. að hluta, í eigu fjölskyldu hans. Dóttir hans, Alda Björg Guðjónsdóttir, sé stjórnarformaður stefnanda og tilgreind í fyrirtækjaskrá sem forráðandi fyrirtækisins.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir á því, að þegar í september 2002 hafi verið fram komnar efndir seljenda um lofaðar aflýsingar, og hafi það legið skjallega fyrir. Hafi kaupandinn, Guðjón Á Sigurðsson, á þessum tíma, verið grandalaus með öllu um þau mistök sýslumannsins í Reykjavík, sem síðar hafi komið í ljós. Hafi hann því innt af hendi greiðslur sínar að fullu til seljenda í góðri trú um, að þeir hefðu efnt samningsskyldur sínar, sbr. uppgjörssamninginn, dags. 5. desember 2002. Grandleysið hafi einnig tekið til Suðurlandsbrautar 16 ehf., enda hafi Guðjón verið fyrirsvarsmaður þess. Með sama hætti hafi stefnandi máls þessa, Glitur ehf., verið grandlaus við gerð kaupsamningsins 7. desember 2002, þegar það félag keypti eignina af Suðurlandsbraut 16 ehf.
Með veðbókarvottorðum, dags. 05. september 2002 og 13. nóvember 2002, athugasemdalausri þinglýsingu 26. september 2002 á kaupsamningnum frá 22. marz 2001 og fyrirfarandi afskiptum sýslumanns af tilgreiningum veðskulda í því skjali, athugasemdalausri þinglýsingu 5. desember 2002 á yfirlýsingunni frá 15. maí 2002, svo og athugasemd sýslumanns 11. desember 2002 varðandi kaupsamninginn frá 7. desember 2002, liggi fullsannað fyrir í máli þessu, að umrætt veðlán Sparisjóðs vélstjóra hafi ekki verið áhvílandi á fasteigninni M-204, fnr. 221-8377, þegar Guðjón Á. Sigurðsson, Suðurlandsbraut 16 ehf. og stefnandi máls þessa, Glitur ehf., hafi, í grandleysi, gengið frá óafturkræfum fjárráðstöfunum og skuldbindingum, þ.m.t. lokagreiðslum Guðjóns gagnvart seljendunum, Olgu og Birni Óla.
Einhvern tímann eftir fyrrgreindar dagsetningar, og að því er virðist eftir 11. desember 2002, hafi sýslumannsembættið hins vegar einhliða breytt skráningum í veðmálabókum. Engar tilkynningar hafi þó borizt þeim aðilum, sem hafi átt hagsmuna að gæta, sbr. fyrrgreinda upptalningu, þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli þar um í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 39/1978.
Eftir að borizt hafði fyrrnefnd athugasemd embættisins, dags. 11. desember 2002, varðandi kaupsamning Glits ehf. og Suðurlandsbrautar 16 ehf. um, að ekki nyti við þinglýstrar eignarheimildar seljanda, (Suðurlandsbrautar 16 ehf.), og unnið hefði verið að frágangi afsals frá Olgu og Birni Óla til Suðurlandsbrautar 16 ehf., hafi hlutaðeigandi loks orðið ljóst, að embættið hefði gert þá breytingu í veðmálabókum, sem lýst hafi verið.
Suðurlandsbraut 16 ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 15. september 2003, og hafi skiptum í búinu lokið samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 hinn 21. maí 2004.
Vegna uppboðsaðgerða Sparisjóðs vélstjóra gagnvart fasteigninni M-204, fnr. 221-8377, út af veðláni því, sem lýst hafi verið og sem þá hafi staðið í tæpum þremur milljónum króna, hafi stefnandi verið knúinn til að greiða veðhafanum það, sem eftir stóð af láninu. Áður hafi þess verið krafizt, að sýslumaður aflýsti aftur veðláninu. Sá erindisrekstur hafi reynzt árangurslaus, sbr. bréf embættisins, dags. 2. marz 2004, en munnlegar upplýsingar hafi fengizt frá embættinu, áður en greiðslan var innt af hendi, um að eigi væri unnt að fá veðbréfinu aflýst aftur, og að formleg svör embættisins yrðu neikvæð, eins og staðfest yrði bréflega.
Að undangengnum samningaviðræðum hafi kröfuhafinn, Sparisjóður vélstjóra, fallizt á, að veðskuldabréfinu yrði aflýst af eigninni gegn greiðslu á kr. 2.000.000, enda bærist greiðslan í síðasta lagi þann 27. febrúar 2004. Tilneyddur vegna uppboðsmeðferðarinnar og ella af brýnni þörf fyrir að fá veðláninu aflétt af eigninni hafi stefnandi innt þessa greiðslu, kr. 2.000.000, af hendi til Sparisjóðs vélstjóra. Sé sú fjárhæð tjón hans á þeim tíma, auk kostnaðar af nauðsynlegri lögfræðilegri aðstoð, kr. 272.095, sem honum hafi þá verið nauðsynleg. Tjónið hafi í báðum tilfellum verið vávænt og í beinum orsakartengslum við gjörðir sýslumanns. Komi til þess, að eigi verði unnt í dómsniðurstöðu að dæma nefndan kostnað, kr. 218.550, sem hluta af höfuðstól dómkröfu, óskist sá kostnaður dæmdur með málskostnaði málsins.
Fyrirvari hafi verið settur, áður en greiðslan var innt af hendi, þar sem ekki hafi, á því stigi, notið við upplýsinga um hugsanlega ábyrgð Sparisjóðsins eða meðábyrgð. Sparisjóðurinn hafi hins vegar beitt stefnanda þeirri nauðung að heimta, að stefnandi félli frá fyrirvaranum gagnvart Sparisjóðnum, því ella félli niður sá verulegi afsláttur af kröfunni, sem í boði var. Stefnandi hafi verið fjárvana umfram framboðnar 2 milljónir króna og hafi því neyðzt til að draga fyrirvarann til baka.
Sparisjóðurinn hafi ekki getað skilað frumriti skuldabréfsins eftir umsamda uppgreiðslu. Því hafi hins vegar verið aflýst, og sé hugsanlegt, að það hafi, fyrir misgáning, verið sent skuldara bréfsins eftir aflýsingu.
Stefnandi telji fyrir liggja, í ljósi gagna málsins, að bótaskylt sé það tjón, sem af athöfnum embættisins hafi hlotizt, þar sem stefnandi, sem og aðrir, sem viðskiptunum tengdust, hafi verið grandlausir um mistök embættisins, sem seint og um síðir hafi verið leiðrétt með þeim hætti, sem lýst hafi verið.
Um bótaskyldu ríkissjóðs í tilvikum sem þessum séu bein fyrirmæli í VIII. kafla þinglýsingarlaga, enda verði tjónið talið vera sennileg afleiðing af mistökum þinglýsingastjóra.
Í máli þessu liggi fyrir skjalleg sönnun um mistök þinglýsingastjóra, sem sé, hvað veðlán Sparisjóðs vélstjóra áhrærir, fólgin í eftirfarandi:
Að aflýsa fyrst nefndu veðskjali, - ranglega að því er séð verði.
Að gefa út 5. september 2002 og 13. nóvember 2002 tvö „hrein“ veðbókarvottorð.
Að þinglýsa athugasemdalaust þann 26. september 2002 kaupsamningnum frá 22. marz 2001 með innáfærðum breytingum að fyrirlagi þinglýsingarstjóra, án þess að þar væri veðlánsins getið.
Að þinglýsa athugasemdalaust þann 5. desember 2002 yfirlýsingunni frá 15. maí 2002, án þess að veðlánsins væri þar getið.
Að geta í engu í gerðri athugasemd um óinnkomið afsal, dags. 11. desember 2002, við kaupsamninginn frá 7. desember 2002, að eigi væri í skjalinu getið um áhvílandi veðlán Sparisjóðs vélstjóra.
Af þessu verði sú ályktun dregin, að einhvern tímann eftir 11. desember 2002 hafi þinglýsingastjóri innfært á ný áður aflýst veðlán Sparisjóðs vélstjóra til að leiðrétta fyrri mistök. Allt hafi þetta verið fallið til að móta það álit og traust viðkomandi aðila, að upphaflegir seljendur eignarinnar í þessu samhengi, þau Olga og Björn Óli, hafi einhvern tímann fyrir 5. september 2002 verið búnir að fá veðláninu aflétt í samræmi við skyldur sínar sem seljenda í kaupsamningi við Guðjón Á. Sigurðsson. Fyrir liggi því, eins og áður greini, að stefnandi og fyrri hagsmunaaðilar hafi verið grandlausir um, að veittar upplýsingar þinglýsingastjóra væru rangar. Sé ekkert fram komið í málinu, sem bendi til annars.
Þá sé og fullsannað í málinu, að mistökin hafi valdið því tjóni, sem stefnt sé út af og uppfylli sönnuð málsatvik ríflega þær kröfur, sem gerðar séu um sönnunarfærslu bótakrefjanda í 49. gr. þinglýsingalaga.
Stefnufjárhæðin samanstandi af þeirri fjárhæð annars vegar, kr. 2.000.000, er stefnandi hafi neyðzt til að greiða Sparisjóði vélstjóra þann 27. febrúar 2004, og hins vegar af reikningi vegna lögfræðilegrar aðstoðar vegna uppboðsmeðferðarinnar á eignarhlutanum M-204, fnr. 221-8377, vegna tilrauna við að fá leiðrétta innfærslu veðsins og vegna samskipta við Sparisjóð vélstjóra og uppgjör. Reikningurinn sé útgefinn 1. september 2004 og sé að fjárhæð kr. 218.550 auk virðisaukaskatts, kr. 53.545, samtals kr. 272.095. Þar sem stefnandi sé virðisaukaskattsskyldur aðili, nemur krafa hans um skaðleysi af þessum kostnaði einungis sem þóknuninni nemi, kr. 218.550. Samtals nemi þetta stefnufjárhæðinni, kr. 2.218.550.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar vegna tjóns af greiðslu á kr. 2.000.000 vegna þinglýsingarmistaka á ákvæðum VIII. kafla laga nr. 39/1978, einkum upphafsákvæði 49. grein laganna og staflið a, og almennum reglum skaðabótaréttarins. Krafa um skaðabætur vegna kostnaðar, sem af þessu hafi hlotizt á sínum tíma, kr. 218.550, byggi á sömu lagasjónarmiðum.
Málsástæður stefnda
Stefndi kveður ekki um það deilt, að af óþekktum orsökum hafi veðlán Sparisjóðs vélstjóra fallið út úr tölvukerfi þinglýsingabóka á þessum tíma. Af hálfu stefnda sé bótakröfum stefnanda hins vegar eindregið vísað á bug.
Samkvæmt a- lið 49. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 sé það skilyrði bótaréttar, að um endanlegt tjón sé að ræða. Þá verði tjónið að vera sennileg afleiðing af mistökum þinglýsingastjóra, og megi bótakrefjandi ekki sjálfur eiga sök á tjóninu, og verði hann að vera grandlaus, stafi tjónið af því, að hann hafi treyst þinglýsingarvottorði þinglýsingastjóra samkvæmt 9. gr., eða vottorði þinglýsingastjóra um efni þinglýsingabóka (veðbókarvottorði). Sama eigi við um þann, sem hann leiði rétt sinn frá, og þurfi öllum þessum skilyrðum að vera fullnægt til að stofnazt geti bótaábyrgð. Engum þessara skilyrða sé fullnægt í máli þessu.
Ekki sé uppfyllt það skilyrði, að stefnandi hafi treyst þinglýsingarvottorði eða vottorði um efni þinglýsingabóka. Kaupsamningi, dagsettum 7. desember 2002, sem stefnandi hafi framvísað 10. desember 2002, hafi ekki verið þinglýst, og athugasemdir á lausu athugasemdablaði varðandi skort á þinglýstri eignarheimild seljanda séu ekki þinglýsingarvottorð í skilningi 9. gr. þinglýsingarlaga. Áritun á afsal frá Olgu og Birni til Guðjóns og Suðurlandsbrautar 16 ehf. á dskj. nr. 13, um tilvist veðskuldarinnar, hafi verið ótvíræð. Á engan hátt fái heldur staðizt, að stefnandi hafi, við gerð kaupsamnings og afsals 7. desember 2002, treyst eða mátt treysta gömlum vottorðum um efni þinglýsingabóka, útgefnum 5. september og 13. nóvember 2002, og sé ekkert til þeirra vísað í kaupsamningi hans, sem vísað hafi verið frá þinglýsingu, né sé í honum vitnað til kaupsamnings Guðjóns Á. Sigurðssonar, sem þinglýst hafi verið 26. september, eða til yfirlýsingar Suðurlandsbrautar 16 ehf., sem þinglýst hafði verið 5. desember 2002.
Því sé eindregið vísað á bug sem röngu og ósönnuðu, að stefnandi, eða þeir sem hann hafi leitt rétt sinn frá, hafi verið grandlausir um áhvílandi lán Sparisjóðs vélstjóra. Samkvæmt 19. gr. sé með grandleysi í lögunum átt við það, að rétthafi samkvæmt samningi eða löggerningi hvorki þekki né ætti að þekkja óþinglýst réttindi. Við gerð kaupsamnings milli Guðjóns Á. Sigurðssonar og Olgu Guðmundsdóttur og Björns Óla Péturssonar hafi legið fyrir, að lánið hvíldi á eigninni og skýrt komi fram af skilyrtu veðleyfi Sparisjóðs vélstjóra á dskj. nr. 6, að skuldin skyldi áfram hvíla á fasteigninni Suðurlandsbraut 16, merkt M-204. Fái ekki staðizt, að Guðjón, eða síðari viðsemjendur um eignina, sem báðir hafi verið einkahlutafélög, sem stofnuð hafi verið af honum sjálfum, hafi getað verið í góðri trú um, að veðinu hefði verið aflétt. Hafi skuldabréfið verið í vanskilum allar götur frá nóvember 2001 samkvæmt yfirliti frá Sparisjóði vélstjóra á dskj. nr. 14. Hafi símbréf frá sparisjóðnum hinn 3. desember 2002 af frumriti veðskuldabréfsins á dskj. nr. 3 borið það skýrlega með sér, að því hefði ekki verið aflýst.
Ósannað sé, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, sem telja megi sennilega afleiðingu þinglýsingarmistaka, sem hann eigi ekki sjálfur sök á. Samkvæmt stefnu og framlögðum gögnum hafi stefnandi greitt Sparisjóði vélstjóra 2 milljónir króna sem fullnaðargreiðslu hinn 27. febrúar 2003, og hafi veðinu verið aflýst í kjölfar þess. Stefnandi hafi ekki í höndum framselt frumrit veðskuldabréfsins. Ljóst sé, að skuldari samkvæmt veðskuldabréfinu hafi verið VOD-verkstæðið ehf., sem síðar hafi heitið Gamla verkstæðið ehf., með sömu kennitölu, og sjálfskuldarábyrgðarmaður samkvæmt því hafi verið Olga Guðmundsdóttir. Þá hafi hvílt á henni og Birni Óla Péturssyni sú skylda, samkvæmt kaupsamningi og afsali á dskj. nr. 5 og 13, að aflétta veðskuldinni. Af stefnu verði ráðið, að enginn reki hafi verið gerður að því að heimta ætlað tjón úr hendi framangreindra aðila á grundvelli skuldbindinga þeirra. Þá hafi heldur ekki verið hlutazt til um það, af hálfu réttargæzlustefnda Guðjóns Á. Sigurðssonar, við útgáfu afsals 17. marz 2003 á dskj. nr. 13. Meint tjón geti heldur aldrei talizt annað en bein afleiðing vanefnda framangreindra aðila, en ekki sennileg afleiðing þinglýsingarmistaka. Samkvæmt því sé hvorki fullnægt skilyrðum um endanlegt tjón, um sennilega afleiðingu þinglýsingarmistaka, né um að stefnandi eigi ekki sjálfur sök á tjóni sínu.
Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallizt, sé til vara krafizt stórkostlegrar lækkunar stefnukröfunnar. Í því sambandi sé á því byggt, að aðgæzluleysi og eigin sök stefnanda, sbr. framangreinda umfjöllun, leiði til þess, að honum verði gert að bera tjón sitt að mestu leyti sjálfur. Jafnframt beri að taka tillit til þess, að tjón sé fyrst og fremst að rekja til vanefnda Olgu Guðmundsdóttur og Björns Óla Péturssonar. Kröfum stefnanda, að fjárhæð kr. 218.550, vegna lögfræðikostnaðar sé alfarið mótmælt og krafizt sýknu af þeim lið. Kröfum stefnanda um dráttarvexti frá 27. febrúar 2004 til greiðsludags sé mótmælt og þess krafizt, að dráttarvextir miðist ekki við fyrri tíma en dómsuppsögu í málinu.
IV
Forsendur og niðurstaða
Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar réttargæzlustefndi, Guðjón Á. Sigurðsson bílamálari, Bent Bjarnason, fyrrum útibússtjóri Sparisjóðs vélstjóra í Síðumúla, og Auður Arna Eiríksdóttur, útibússtjóri hjá Byr, áður þjónustustjóri Sparisjóðs vélstjóra.
Ekki er um það deilt í málinu, að umrætt veðlán féll niður úr þinglýsingabókum fyrir mistök af hálfu sýslumannsembættisins í Reykjavík. Byggir stefnandi kröfur sínar á því, að hann hafi orðið fyrir fjárhagstjóni vegna þeirra mistaka. Af hálfu stefnda er því hafnað, að meint tjón stefnda sé sennileg afleiðing af þinglýsingarmistökum og því m.a. haldið fram, að réttargæzlustefndi, Guðjón Á Sigurðsson, sem stefnandi leiðir rétt sinn af, hafi ekki verið grandlaus.
Kaupsamningur milli réttargæzlustefnda, Guðjóns Á Sigurðssonar, sem kaupanda, og Olgu Guðmundsdóttur og Björns Óla Péturssonar, sem seljenda, er dagsettur 22.03. 2001. Er þar m.a. getið um framangreint veðlán, sem þá hvíldi á eigninni. Kaupandi lagði samninginn fyrst inn til þinglýsingar 24. september 2002, eða rúmu hálfu öðru ári eftir undirskrift hans. Fyrir þann tíma hafði hann fengið í hendur veðbókarvottorð, dags. 05.09. 2002, þar sem umrætt veðlán kemur ekki fram sem áhvílandi á eigninni. Fyrir dómi gat réttargæzlustefndi ekki skýrt hvers vegna hann hefði farið með samninginn í þinglýsingu með láninu áhvílandi, enda þótt það kæmi ekki fram á veðbókarvottorðinu, og taldi helzt, að hann hefði ekki borið skjölin saman og ekki verið að velta því neitt fyrir sér. Réttargæzlustefndi skýrði jafnframt svo frá fyrir dómi, að þegar hann kom með kaupsamninginn til þinglýsingar hafi stúlkan í afgreiðslunni bent honum á, að búið væri að greiða upp lán, sem tilgreind voru í samningnum sem áhvílandi á eigninni, þ.m.t. umrætt veðlán, og tjáð honum jafnframt, að það væri óþarfi að fara með skjalið og láta breyta því, heldur væri nóg að hann strikaði yfir lánin, skrifaði aftan á plaggið áhvílandi lán og setti stafina sína við. Þetta hafi hann gert. Kaupsamningnum var síðan þinglýst án athugasemda.
Af hálfu stefnda hefur framangreind lýsing réttargæzlustefnda á atvikum tengdum þinglýsingu kaupsamningsins ekki verið vefengd og þykir hún trúverðug.
Samkvæmt kaupsamningi skyldu seljendur láta leysa hina seldu eign úr veðböndum þegar í stað, þ.m.t. hina umræddu skuld við Sparisjóð vélstjóra. Þykir þannig ljóst, að lánið hafi ekki átt að standa áfram á eigninni, enda þótt lesa megi annað úr hinu skilyrta veðleyfi á dskj. nr. 6.
Réttargæzlustefndi skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði aldrei fengið í hendur þá peninga, sem Burnham Int. lánaði samkvæmt veðleyfinu. Það hefði verið ákvörðun Burnham og sparisjóðsins að deila þeim peningum samkvæmt samningnum. Því hafi hann ekki vitað, að peningarnir hefðu ekki farið að öllu leyti í að greiða upp lánið hjá Sparisjóði vélstjóra, heldur einungis að hluta, en einnig í að greiða ýmsar vanskilaskuldir seljenda.
Hinn 13. nóvember 2002, eða um hálfum öðrum mánuði eftir að kaupsamningnum var þinglýst, fékk réttargæzlustefndi í hendur veðbókarvottorð, þar sem umdeilds láns er að engu getið.
Samkvæmt öllu framansögðu þykir ekki leika vafi á því, að réttargæzlustefndi hafi verið með öllu grandlaus um, að lánið væri áfram áhvílandi á eigninni, þegar uppgjör milli hans og seljenda fór fram hinn 5. desember. Þykir ekki skipta máli þótt fyrirliggjandi veðbókarvottorð væri orðið þriggja vikna gamalt, með hliðsjón af því, sem á undan var gengið, en engar upplýsingar liggja fyrir um það af hálfu stefnda, hvenær lánið var fært á ný inn í þinglýsingabækur. Þá liggur fyrir, að kaupanda var ekki tilkynnt um það sérstaklega, þegar lánið var fært inn á ný. Stefnandi, Glitur ehf., leiðir rétt sinn frá réttargæzlustefnda, og liggur ekki fyrir, að fyrirtækið hafi haft aðra vitneskju um veðskuldina en réttargæzlustefndi, þannig að um grandsemi fyrirtækisins geti verið að ræða, en réttargæzlustefndi er nátengdur fyrirtækinu. Er skilyrðum þinglýsingarlaga nr. 39/1978, um grandleysi tjónþola, því fullnægt.
Stefndi byggir á því, að tjón stefnanda sé ekki sennileg afleiðing þinglýsingarmistakanna, þar sem ekki hafi verið reynt að innheimta kröfuna hjá skuldurum, þeim Olgu Guðmundsdóttur og Birni Óla Péturssyni.
Samkvæmt kaupsamningi milli réttargæzlustefnda og Olgu og Björns Óla bar seljendum að aflétta veðskuldinni. Hvorki í stefnu né gögnum málsins kemur fram, að reynt hafi verið að innheimta kröfuna hjá þeim. Stefnandi hefur lagt fram yfirlit úr vanskilaskrá Lánstrausts hf., annars vegar varðandi Olgu og hins vegar varðandi Björn Óla. Kemur fram í yfirliti yfir vanskil Olgu, að þar er getið um fyrirtöku nauðungarsölubeiðni 14.02. 2003, byrjun uppboðs 30.05 sama ár og framhaldsuppboð 20.06. 2003. Í yfirliti yfir vanskil Björns Óla er getið um byrjun uppboðs 15. marz 2003 og 3. maí s.á., framhaldsuppboð 30.08. s.á, áritaðar stefnur á sama ári og síðan fjögur árangurslaus fjárnám í desember 2004. Er ekki séð, að stefnandi eða þeir, sem hann leiðir rétt sinn af, hafi látið reyna á gjaldfærni seljenda á þeim tíma, sem ljóst mátti vera, að lánið var komið aftur á eignina. Samkvæmt óundirrituðu afsali á dskj. nr. 12, dags. 11. febrúar 2003, mun það hafa gerzt einhvern tímann eftir að það skjal er dagsett, en réttargæzlustefndi skýrði svo frá fyrir dómi, að sig minnti, að þegar hann hafi ætlað að þinglýsa afsalinu, hafi komið í ljós, að lánið væri komið inn. Nýtt afsal var síðan undirritað 17. marz 2003, þar sem lánið var tilgreint.
Þar sem ósannað er, með vísan til framanritaðs, að stefnandi, eða sá, sem hann leiðir rétt sinn af, hafi gert reka að því að innheimta skuldina hjá seljendum eða sanna ógjaldfærni þeirra á þeim tíma, sem hann vissi eða mátti vita, að lánið hvíldi aftur á eigninni, hefur hann ekki sýnt fram á, að tjónið sé sennileg afleiðing þinglýsingarmistakanna og er skilyrðum 1. mgr. 49. gr. þinglýsingarlaga þannig ekki fullnægt. Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenzka ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Gliturs ehf.
Málskostnaður fellur niður.