Hæstiréttur íslands

Mál nr. 215/2001


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Slysatrygging
  • Kjarasamningur
  • Vátryggingarsamningur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001.

Nr. 215/2001.

Áburðarverksmiðjan hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Jóni Páli Guðmundssyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Líkamstjón. Örorka. Slysatrygging. Kjarasamningur. Vátryggingarsamningur.

J, starfsmaður Á hf., varð fyrir slysi á vinnusvæði félagsins. Af þessu tilefni leitaði J til örorkunefndar sem taldi varanlegan miska hans samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga 50% en varanlega örorku samkvæmt 5. gr. sömu laga 100%. Í kjarasamningi frá árinu 1997, sem gilti um kjör J, var framlengdur gildistími ákvæðis kjarasamnings frá árinu 1990 þar sem kveðið var á um skyldu Á hf. til að slysatryggja starfsmenn sína með nánar tilgreindum hætti, meðal annars fyrir varanlegri örorku. Skyldu bæturnar greiddar samkvæmt metinni varanlegri örorku. J krafðist greiðslu bóta úr framangreindri slysatryggingu miðað við niðurstöðu örorkunefndar um varanlega örorku hans. Í málinu deildu aðilar um hvort bæturnar skyldu miðaðar við fjárhagslega eða læknisfræðilega örorku. Af hálfu Á hf. var byggt á því að þrátt fyrir tilkomu skaðabótalaga, sem miði við varanlega fjárhagslega örorku í stað læknisfræðilegrar örorku, hefði síðarnefnda örorkan ekki horfið sem viðmiðun um slysatryggingu launþega, sem miðist við fyrirfram umsamdar bótafjárhæðir en ekki fjártjón hins slasaða. Í dómi Hæstaréttar segir að engin haldbær rök hafi verið færð fyrir því að með orðalagi kjarasamningsins um bætur fyrir varanlega örorku geti verið átt við miskabætur. Mat fyrir varanlegan miska kom því ekki til álita í málinu. Hugtakið varanleg örorka hafi nú fengið lögákveðna merkingu, sem sé fjárhagsleg örorka. Því verði ekki einungis beitt við uppgjör skaðabótakrafna, heldur einnig margs kyns krafna um vátryggingabætur. Ekki sé vísað til ákveðinna vátryggingaskilmála í áðurnefndum kjarasamningi. Hafi Á hf. ekki skotið stoðum undir að þrátt fyrir breytt lagaumhverfi eigi áfram að miða uppgjör slysatryggingabóta við læknisfræðilega örorku, auk þess sem vátryggingafélag Á hf. hafi nú sjálft lagt það af í skilmálum sínum og tekið upp aðra viðmiðun í staðinn. Var því fallist á að miða bætur J við fjárhagslega örorku.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2001. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms að því gættu þó að krafa hans beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Ágreiningur málsaðila er sprottinn af slysi, sem stefndi varð fyrir 22. apríl 1998 á vinnusvæði áfrýjanda og leiddi til þess að nema varð brott vinstri fótlegg hans rétt ofan við hnjálið. Leitaði stefndi í kjölfarið til örorkunefndar um að meta afleiðingar slyssins og er álitsgerð hennar dagsett 25. apríl 2000. Taldi nefndin varanlegan miska hans samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vera 50%, en varanlega örorku samkvæmt 5. gr. sömu laga vera 100%.

Stefndi starfaði sem rafvirki hjá áfrýjanda, en þegar slysið varð fór um kjör hans samkvæmt kjarasamningi 9. apríl 1997 milli Vinnuveitendasambands Íslands fyrir hönd áfrýjanda og Félags íslenskra rafvirkja og fleiri stéttarfélaga. Með þeim samningi og eldri samningum var framlengdur gildistími ákvæðis úr kjarasamningi nokkurra stéttarfélaga starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins 28. mars 1990 um slysatryggingu fyrir þá starfsmenn hennar, sem félögin sömdu fyrir. Samkvæmt því skyldi Áburðarverksmiðja ríkisins og síðar áfrýjandi slysatryggja starfsmenn sína með nánar tilgreindum hætti, meðal annars fyrir varanlegri örorku. Skyldu bæturnar greiddar samkvæmt metinni varanlegri örorku, eins og nánar er gerð grein fyrir í héraðsdómi.

Í málinu krefst stefndi greiðslu bóta úr framangreindri slysatryggingu og að lagt verði til grundvallar við uppgjör þeirra mat örorkunefndar um 100% varanlega örorku hans. Telur hann að eftir gildistöku skaðabótalaga feli hugtakið varanleg örorka í kjarasamningnum í sér tilvísun til varanlegrar fjárhagslegrar örorku samkvæmt 5. til 7. gr. laganna. Áfrýjandi miðaði uppgjör bótanna til stefnda hins vegar við mat sömu nefndar um 50% varanlegan miska stefnda. Stendur deila aðilanna um við hvaða mat skuli miða greiðslu bótanna, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

II.

Meðal málsgagna eru vátryggingarskilmálar, sem óumdeilt er að teljast hluti samnings áfrýjanda við Vátryggingafélag Íslands hf. um kaup hins fyrrnefnda á slysatryggingu launþega samkvæmt nefndum kjarasamningum. Til skilmálanna er þó ekki vísað í kjarasamningi áfrýjanda og stéttarfélaganna. Í 12. gr. skilmálanna, sem fjallar um bætur fyrir varanlega örorku, er að finna töflu til hliðsjónar við örorkumat og er óumdeilt að þar sé um að ræða svonefnda læknisfræðilega örorku. Telur áfrýjandi að ráða megi af töflunni að læknisfræðileg örorka stefnda sé minni en 50%. Þar sem örorkunefnd hafi ekki metið síðastnefnda örorku hans sé ekki við annað að styðjast en mat hennar á varanlegum miska, en þessar tvær aðferðir við mat falli um margt saman. Með greiðslu á 2.431.582 krónum 4. maí 2000 hafi áfrýjandi gert að fullu upp þær bætur, sem stefndi hafi átt rétt á.

Áfrýjandi styður sýknukröfu sína við það að fyrir gildistöku skaðabótalaga hafi jafnan verið miðað við læknisfræðilega örorku þegar gerðar hafi verið upp bætur fyrir varanlega örorku. Þrátt fyrir tilkomu laganna, sem miði við varanlega fjárhagslega örorku í stað hinnar læknisfræðilegu örorku, hafi síðarnefnda örorkan ekki horfið sem viðmiðun þar sem hún geti átt við. Slysatrygging launþega falli þar undir, enda sé hún ekki tengd skaðabótaskyldu vinnuveitandans, heldur sé hún óháð henni og miðist við fyrirfram umsamdar bótafjárhæðir en ekki fjártjón hins slasaða. Lögin hafi þannig ekki hróflað við læknisfræðilegri örorku sem viðmiðun í slíkum samningum. Þá hafi aðilar kjarasamningsins, sem um ræðir í málinu, gengið út frá læknisfræðilegri örorku við samningsgerð, en í flestum kjarasamningum sé tekin upp bein tilvísun til þessara skilmála í ákvæðum samninganna um slysatryggingar. Hefði þurft lagafyrirmæli til að breyta þessari viðmiðun úr hinni læknisfræðilegu örorku í hina varanlegu fjárhagslegu örorku, eins og krafa stefnda sé reist á.

Við rekstur málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu áfrýjanda að skilmálum vátryggingafélaga fyrir slysatryggingum launþega hafi almennt verið breytt á þann veg að í stað mats á læknisfræðilegri örorku sé nú við uppgjör bóta miðað við mat á varanlegum miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga. Séu töflur örorkunefndar um miska þá lagðar til grundvallar. Hafi Vátryggingafélag Íslands hf., sem áfrýjandi hafi samið við um kaup á slysatryggingum, breytt sínum skilmálum að þessu leyti á miðju ári 2000.

III.

Svo sem fram er komið hvíldi sú skylda á áfrýjanda að slysatryggja starfsmenn sína. Náði hún til þess meðal annars að tryggja þá fyrir varanlegri örorku. Til úrlausnar er í málinu hvort þar hafi verið um að ræða læknisfræðilega örorku, sem jafnan var miðað við fyrir gildistöku skaðabótalaga við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku, eða varanlega örorku samkvæmt 5. gr. nefndra laga, en sú grein lýtur að fjárhagslegri örorku, sem leysti hina læknisfræðilegu örorku af hólmi sem viðmiðun fyrir uppgjör skaðabóta vegna tjónsatvika, sem urðu eftir 1. júlí 1993. Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir því að með orðalagi kjarasamningsins um bætur fyrir varanlega örorku geti verið átt við miskabætur. Mat fyrir varanlegan miska, sem áfrýjandi kveður Vátryggingafélag Íslands hf. miða við í skilmálum sínum frá miðju ári 2000 og hefur að auki miðað uppgjör bóta til stefnda við, kemur því ekki til álita í málinu.

Hugtakið varanleg örorka hefur nú fengið lögákveðna merkingu, sem er fjárhagsleg örorka. Því mati er ekki einungis beitt við uppgjör skaðabótakrafna, heldur einnig margs kyns krafna um vátryggingabætur. Ekki er vísað til ákveðinna vátryggingarskilmála í áðurnefndum kjarasamningi. Hefur áfrýjandi ekki skotið stoðum undir að þrátt fyrir breytt lagaumhverfi eigi áfram að miða uppgjör slysatryggingabóta við læknisfræðilega örorku, eins og gert var fyrir 1993, auk þess sem vátryggingafélag hans hefur sjálft lagt það af í skilmálum sínum og tekið upp í staðinn aðra viðmiðun. Þegar alls þessa er gætt verður ekki fallist á með áfrýjanda að efni séu til þess að styðjast við læknisfræðilega örorku við uppgjör bóta til stefnda. Verður krafa hins síðastnefnda því tekin til greina að teknu tilliti til innborgunar Vátryggingafélags Íslands hf. 4. maí 2000.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Áburðarverksmiðjan hf., greiði stefnda, Jóni Páli Guðmundssyni, 3.393.618 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. apríl sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 22. júní sl.

Stefnandi er Jón Páll Guðmundsson, kt. 080935-5019, Suðurgötu 104, Hafnarfirði.

Stefndi er Áburðarverksmiðjan hf., kt. 680569-0109, Gufunesi, Reykjavík.

Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 5.825.200 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. maí 2000 til greiðsludags, allt að frádregnum 2.431.582 kr., sem greiddar voru 4. maí 2000.

Jafnframt verði stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað skv. gjaldskrá Löggarðs ehf.

Dómkröfur stefnda:

Aðallega krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Til vara er  þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar kröfur enda eru engar kröfur gerðar á hendur réttargæslustefnda.

Málavextir

Stefnandi, sem er rafvirkjameistari, hóf störf hjá stefnda á árinu 1996. Um launakjör stefnanda hjá stefnda fór samkvæmt kjarasamningi stéttarfélaga, þar með talið Rafiðnaðarsambands Íslands við stefnda.

Hinn 22. apríl 1998 varð stefnandi fyrir slysi þá er  hann var að koma til vinnu. Atvik að slysinu voru þau að bifreiðinni R-92094 var ekið inn á vinnusvæðið. Ökumaður bifreiðarinnar fékk að sögn flogaveikikast og missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að henni var ekið á kyrrstæða bifreið sem við það kastaðist á starfsmannarútu sem stefnandi var að koma út úr. Stefnandi varð á milli starfsmannarútunnar og kyrrstæðu bifreiðarinnar og klemmdist illa á fótleggjum. Stefnandi var sendur á Sjúkrahús Reykjavíkur þar sem framkvæmt var stúfhögg tæplega þverhandarbreidd ofan við vinstra hné. Stefnandi hefur ekki getað horfið aftur til fyrri starfa eftir slysið og er að sögn algjörlega óvinnufær.

Að ósk stefnanda skilaði örorkunefnd álitsgerð, dags. 25. apríl 2000, varðandi varanlega örorku og miskastig stefnanda.  Niðurstaða nefndarinnar var að varanlegur miski stefnanda væri 50% og varanleg örorka 100%.

Í kjarasamningi þeim sem við á um réttindi og skyldur starfsmanna stefnda eru ákvæði um bætur til handa starfsmönnum hennar er þeir verða fyrir slysi í vinnu og til eða frá vinnu. Samkvæmt gr. 6.08 skal stefndi slysatryggja alla starfsmenn sína vegna slíkra slysa. Bætur fyrir varanlega örorku eru skilgreindar í 4. tl. tilvitnaðrar greinar. Þar segir um bætur fyrir varanlega örorku:

"Bætur vegna varanlegrar örorku greiðist í hlutfalli við vátryggingarfjárhæð kr. 2.583.686 þó þannig að hvert örorkustig 26%-50% verkar tvöfalt og hvert örorkustig 51%-100% verkar þrefalt………"

Þannig eru bætur fyrir 100% varanlega örorku sagðar vera 5.296.370 kr.

Réttargæslustefndi tók að sér slysatryggingu launþega stefnda samkvæmt skilmálum nr. SÞ20. Hinn 4. maí 2000 greiddi réttargæslustefndi stefnanda 2.431.582 kr. á grundvelli þessarar tryggingar. Réttargæslustefndi miðaði við hundraðshluta varanlegs miska en neitaði að gera upp bætur á grundvelli 100% varanlegrar örorku. Tekið var við bótum með fyrirvara.

Ágreiningur aðila er um það hvort miða skuli bætur til handa stefnanda við varanlega örorku eða varanlegan miska.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt að  ákvæði kjarasamnings stéttarfélags hans og stefnda segi til um að hann eigi rétt á bótum fyrir varanlega örorku. Örorkunefnd hafi metið varanlega örorku hans 100% og því eigi bætur samkvæmt samningsbundinni slysatryggingu launþega að samsvara bótum fyrir 100% varanlega örorku. Réttargæslustefndi, sem vátryggingafélag stefnda, hafi einungis greitt bætur fyrir 50% örorku í stað 100%.

Eftir gildistöku skaðabótalaga sé gerður skýr greinarmunur á bótum fyrir varanlegan miska og varanlega örorku. Ekki sé hægt að gera upp bætur samkvæmt ákvæðum kjarasamnings um varanlega örorku eftir hundraðshluta varanlegs miska. Kjarasamningar sem gerðir eru eftir gildistöku skaðabótalaga verði að skoðast í ljósi þeirra laga og túlkast með hliðsjón af þeim hugtökum sem þar séu fram sett. Eftir gildistöku laganna hefði þurft að taka sérstaklega fram ef ætlunin hefði verið að miða við varanlegan miska en ekki varanlega örorku eins og orðalag í ákvæðum kjarasamnings beri með sér.

Ákvæði 1. til 16. gr. skaðabótalaga  nr. 50/1993 séu auk þess ákvæði um lágmarksrétt, sbr. 1. málslið 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Þannig sé samningur um lakari rétt til handa tjónþola ógildur samkvæmt framangreindu ákvæði. Ákvæði í tryggingarskilmálum sem segi að miða eigi bætur fyrir varanlega örorku við varanlegan miska gangi þannig á skjön við ákvæði laganna og rýri rétt launþega og gildi því ekki um réttarsamband stefnanda og stefnda, Áburðarverksmiðjunnar hf. Þannig eigi um bætur til handa stefnanda að fara eftir skilgreiningu laganna á varanlegri örorku en ekki varanlegum miska.

Með hugtakinu "varanlegum miska" í skilningi 4. gr. skaðabótalaga sé auk þess verið að bæta allt annað en varanlega örorku þar sem því ákvæði hafi m.a. verið ætlað að koma í stað 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. eftirfarandi athugasemd í frumvarpi að skaðabótalögum:

"Reglur frumvarpsins um varanlegan miska koma í stað ákvæðisins um

fégjald fyrir (varanleg) óþægindi, lýti og óprýði í 1. mgr. 264. gr. hegingarlaga nr. 19/1940."

Af hálfu réttargæslustefnda hafi því verið haldið fram að miða ætti greiðslu bóta við varanlegan miska þar sem hann hafi komið í stað þess sem áður fyrr var kallað "læknisfræðileg örorka". Þessu er mótmælt af hálfu stefnanda. Hugtakið "varanlegur miski" nái til allt annarra og fleiri þátta en læknisfræðilegrar örorku. Þannig feli hugtakið m.a. í sér fégjald fyrir óþægindi, lýti og óprýði. Ákvæðum skaðabótalaga um varanlega örorku sé hins vegar ætlað að mæla þá skertu starfsorku sem viðkomandi starfsmaður verði fyrir hverju sinni, sbr. ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993. Ákvæði kjarasamnings sé ætlað að bæta mönnum skerta starfsorku sbr. fyrirsögn kaflans þar um: "Bætur fyrir varanlega örorku". Þannig eigi bætur samkvæmt kjarasamningi fyrir varanlega örorku ekki að gerast upp eftir ákvæðum um varanlegan miska heldur ákvæðum um varanlega örorku.

Engu máli skipti þótt tryggingafélög hafi í skilmálum sínum ákvæði þess efnis að um sé að ræða bætur fyrir "læknisfræðilega örorku". Slíkt sé einungis samningsatriði milli viðkomandi vinnuveitanda og tryggingafélags hans en eigi ekki að hafa áhrif á rétt hins einstaka launþega sem taki rétt sinn samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Þeir skilmálar séu ekki hluti af reglum þess kjarasamnings er stefnandi hafi tekið laun eftir.

Samkvæmt útreikningi réttargæslustefnda séu bætur fyrir 100% örorku 5.825.200 kr. Réttargæslustefndi hafi þegar greitt 2.431.582 kr. sem tekið hafi verið við með fyrirvara um að reikna eigi bætur miðað við 100% örorku.

Réttargsæslustefnda sé stefnt inn í málið með vísan til 1. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem réttargæslustefndi hafi gert samning við stefnda um að vátryggja starfsmenn stefnda fyrir slysum í starfi, svokallaðri samningsbundinni slysatryggingu launþega.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að stefndi hafi með kaupum á þeirri atvinnuslysatryggingu, sem stefnanda var bætt úr, uppfyllt tryggingarskyldu sína gagnvart stefnanda samkvæmt kjarasamningi og eigi stefnandi ekki rétt til frekari bóta úr hendi stefnda.

Af hálfu stefnda er því sjónarmiði stefnanda mótmælt að stefndi hafi vanefnt  ákvæði um slysatryggingu launaþega í kjarasamningi sínum og stéttarfélags stefnanda og því eigi hann að fá greiddar 50% hærri bætur en honum hafa þegar verið greiddar á grundvelli framangreinds samnings. Stefnandi hafi fengið greiddar þær bætur sem honum hafi borið á grundvelli umrædds kjarasamnings og því beri að sýkna stefnda.

Bætur slysatryggingar launþega samkvæmt kjarasamningi beri að reikna út miðað við hina hefðbundnu vátryggingarskilmála sem stefndi hafi samið um við réttargæslustefnda og sé að finna í skjölum málsins. Þessir skilmálar séu í takt við það sem almennt gerist og hafi tíðkast á vátryggingarmarkaði hér á landi og venja sé að samið sé um á grundvelli framangreinds ákvæðis í kjarasamningum vinnuveitenda við stéttarfélög.

Í þessum skilmálum komi skýrt fram í 12. gr. að við ákvörðun bóta skuli fylgja ákveðnum reglum sem meðal annars geri ráð fyrir að læknisfræðilegt örorkumat sé notað við ákvörðun bóta vegna varanlegra afleiðinga slyss. Tiltekin áverkatafla þar sem fram komi hvert örorkustig skuli vera vegna tiltekinna áverka sé höfð til hliðsjónar við örorkumat. Hér sé með öðrum orðum um að ræða læknisfræðilegt örorkumat. Sérstaklega sé tekið fram í 12. gr. (d) að við ákvörðun örorku skuli ekki taka tillit til starfs, sérstakra hæfileika hins slasaða né þjóðfélagsstöðu, eða með öðrum orðum að ekki eigi að miða við fjárhagslega örorku. Á þessum grundvelli hafi bætur alla tíð verið greiddar launþegum, þ.e. á grundvelli slysatryggingar launþega sem vinnuveitendur hafi samið um við stéttarfélög að þeir skyldu kaupa til hagsbóta fyrir launþega. Þessi venja sé staðfest í bréfum annars vegar frá Sambandi íslenskra vátryggingarfélaga og hins vegar frá Íslenskri endurtryggingu en í bréfum þessum komi skýrt fram að bætur þessar hafi alla tíð miðast við læknisfræðilega örorku.

Í samræmi við þessa venju og ákvæði í skilmálum slysatryggingarinnar hafi stefnanda verið greiddar bætur sem miðuðust við 50% örorku.

Þrátt fyrir að skilmálarnir geri ráð fyrir að stúfhögg á báðum fótlimum um hnélið leiði til 75% örorku, sem aftur leiði til þess að ef um einn fótlim er að ræða ætti að miða við helming af því, hafi verið tekin ákvörðun um að greiða stefnanda bætur miðað við 50% læknisfræðilega örorku.

Stefnandi hafi ekki lagt fram sérfræðilegt álit um læknisfræðilega örorku sína. Hins vegar hafi hann lagt fram álit örorkunefndar þar sem fram komi að vinstri fótur stefnanda hafi nánast farið af um hné. Ekki hafi tekist að bjarga fætinum og því hafi verið framkvæmt stúfhögg fyrir  ofan vinstra hné. Niðurstaða örorkunefndar sé sú að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins sé hæfilega metinn 50%. Það sé rökstutt með nánari lýsingu á læknisfræðilegum afleiðingum slyssins.

Hugtakið "varanlegur miski" eins og það er notað í þessu áliti sé ekkert annað en mat á því hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði í samræmi við staðlaða örorkutöflu örorkunefndar. Vegna þessa hafi réttargæslustefndi haft hliðsjón af þessu mati við ákvörðun bóta úr slysatryggingunni.

Með vísan til þessa sé ljóst að sýkna verði stefnda þar sem fyrir liggi að bætur hafi verið greiddar í samræmi við umsamda skilmála sem og venju. Hafi því ekki verið um að ræða neina vanefnd á  framangreindum kjarasamningi eins og stefnandi haldi fram.

Þeirri fullyrðingu stefnanda, að kjarasamningar sem gerðir voru eftir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 verði að skoðast í ljósi laganna og túlkast af þeim hugtökum sem þar eru fram sett, er alfarið mótmælt sem rangri. Þvert á móti verði að túlka ákvæði í kjarasamningum um slysatryggingu launþega að þessu leyti í takt við það sem fáist tryggt á vátryggingamarkaði og þá venju sem skapast hafi um ákvörðun bóta sem fást greiddar úr slysatryggingu launþega. Sé fráleitt að halda því fram að réttur launþega til bóta úr samningsbundinni slysatryggingu eigi að vera víðtækari en sú trygging sem vinnuveitendum standi til boða á vátryggingamarkaði.

Hvað hugtakið "varanleg örorka" í áliti örorkunefndar varðar bendir stefndi á að með því sé augljóslega verið að tala um fjárhagslegar afleiðingar slyssins þar sem skýrt komi fram í álitinu að 100% varanleg örorka vegna slyssins sé miðuð við aldur stefnanda og að ekki sé raunhæft að gera ráð fyrir að stefnandi komist aftur til vinnu á almennum vinnumarkaði vegna afleiðinga slyssins. Hér sé því klárlega ekki um mat á læknisfræðilegri örorku að ræða.

Skaðabótalög nr. 50/1993 gildi um skaðabætur utan samninga. Þar sem mál þetta snúist um skaðabætur innan samninga gildi þau ekki um réttarsamband aðila í þessu máli. Af þeim sökum hafi skilgreiningar í lögum og önnur ákvæði þeirra, eins og t.d. 27. gr., engin áhrif á túlkun ákvæðis í kjarasamningi um slysatryggingu launþega.

Eins og fram komi í framlögðum kjarasamningum stefnda og stéttarfélags stefnanda fyrir og eftir setningu skaðabótalaga hafi ekki verið gerðar breytingar á ákvæði samninganna um slysatryggingu launþega. Ekki sé að finna neina bókun með þessum samningum eftir setningu laganna um að túlka beri þessi ákvæði á annan veg en venja sé.

Eftir gildistöku skaðabótalaga hefði þurft að taka sérstaklega upp í kjarasamninga að örorkubætur ættu að miðast við fjárhagslega örorku en ekki læknisfræðilega örorku ef ætlunin hefði verið að breyta kjarasamningi að þesu leyti. Það hafi ekki verið gert. Sé því enginn grundvöllur fyrir kröfum stefnanda.

Það komi fram í framlögðu bréfi frá Íslenskri endurtryggingu, dags. 20. okt. 2000, að skilmálar um slysatryggingu launþega hafi verið kynntir fyrir hagsmunaaðilum, þ.e. fulltrúum stéttarfélaga og vinnuveitenda, án þess að athugasemdir hefðu verið gerðar við það hvernig bætur skyldu ákvarðaðar en fyrir liggi staðfesting á því að miðað sé við læknisfræðilega örorku við ákvörðun bóta í þessu tilviki.

Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að víkja eigi frá þessari venju og að ætlun stéttarfélags stefnanda og stefnda hafi verið að breyta út frá henni er þeir gerðu með sér kjarasamning sem í gildi var þegar stefnandi varð fyrir slysinu. Þá hafi þeir mátt vita að skaðabótalög um skaðabætur utan samninga nr. 50/1993 höfðu tekið gildi.

Niðurstaða

Réttur stefnanda gagnvart stefnda byggist á kjarasamningi stefnda við Rafiðnaðarsamband Íslands og fleiri en ekki vátryggingarskilmálum þeim sem stefndi hefur samið um við réttargæslustefnda. Meðal skjala málsins eru kjarasamningar þessara aðila frá árunum 1990, 1995 og 1997.

Í 6. kafla  er fjallað um veikinda-, slysa- og barnsburðarlaun. Í gr. 6.08.4. er kveðið á um bætur fyrir varanlega örorku. Þar segir:

"Bætur vegna varanlegrar örorku greiðist í hlutfalli við vátryggingarfjárhæð kr. 2.583.686 þó þannig að hvert örorkustig 26%-50% verkar tvöfalt og hvert örorkustig 51%-100% verkar þrefalt."

Þetta  ákvæði er óbreytt í öllum framangreindum kjarasamningum. Þannig var stefnda skylt að tryggja starfsmenn sína sem falla undir þessa kjarasamninga vegna varanlegrar örorku en ekkert er minnst á tryggingar vegna varanlegs miska í kjarasamningunum.

Elsti kjarasamningurinn sem lagður hefur verið fram er frá 1990, það er fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993, hinn 1. júlí 1993.

Fyrir gildistöku skaðabótalaga voru tjónþolum ákvarðaðar bætur vegna skerts aflahæfis sem kölluðust örorkubætur. Örorkubætur voru ákvarðaðar á grundvelli læknisfræðilegs örorkumats að teknu tilliti til tekna eða áætlaðra tekjumöguleika tjónþola. Talið var að í sumum tilvikum, þ.e. þegar um litla örorku var að ræða þá væru örorkubætur áætlaðar of háar en gætu verið of lágar þegar örorkustig var hátt. Vegna óþæginda og lýta voru tjónþolum ákvarðaðar bætur sem kölluðust miskabætur. Miskabætur voru almennt mjög lágar enda var því haldið fram að í örorkutjónsútreikningum væru innifaldar bætur vegna óþæginda og lýta.

Fyrir setningu skaðabótalaga var hugtakið "varanlegur miski" almennt ekki notað í íslenskum rétti. Verður því að telja útilokað, að þá er í kjarasamningum frá 1990 er fjallað um bætur fyrir varanlega örorku, merki það bætur fyrir varanlegan miska. Þessu orðalagi í kjarasamningunum, þ.e. "bætur vegna varanlegrar örorku" var ekki breytt eftir gildistöku skaðabótalaga.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi tekið á sig skyldu til þess að tryggja stefnanda fyrir tjóni vegna varanlegrar örorku. Örorkunefnd hefur metið varanlega örorku 100%. Því mati hefur ekki verið hnekkt.

Krafa stefnanda, sem ekki hefur verið tölulega véfengd, er því tekin til greina þó þannig að dráttarvextir dæmast frá þingfestingu málsins 29. júní 2000 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 750.000 kr. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari dæmir málið.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Áburðarverksmiðjan hf., greiði stefnanda, Jóni Páli Guðmundssyni, 5.825.200 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 2000 til greiðsludags og 750.000 kr. í málskostnað. Allt að frádregnum 2.431.582 kr., sem greiddar voru 4. maí 2000.