Hæstiréttur íslands
Mál nr. 454/2001
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Miskabætur
- Fyrning sakar
|
|
Fimmtudaginn 14. mars 2002. |
|
Nr. 454/2001. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur. Fyrning sakar.
X var ákærður fyrir að hafa framið kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni, A, um árabil, þegar A var á aldrinum 9-14 ára. A lagði kæru sína fram hjá lögreglu er hún var orðin 27 ára gömul. Var framburður A talinn einkar trúverðugur, og naut hann að nokkru stuðnings í gögnum málsins og framburði vitna, en framburður X var metinn ótrúverðugur. Var X sakfelldur fyrir samræði við A á ýmsum stöðum á árunum 1983 til 1987. Eins og atferlinu var háttað var litið á það sem framhaldandi röð brota, sem lokið hefði á árinu 1987. Þar sem hámarksrefsing vegna brota X var 12 ára fangelsi, bæði samkvæmt þágildandi og núgildandi hegningarlögum, skyldu brot hans fyrnast á 15 árum samkvæmt 81. gr. hegningarlaga. Voru brot ákærða ekki talin fyrnd. Litið var svo á að X hefði gerst sekur um alvarleg kynferðisbrot gagnvart A sem staðið hefðu yfir í langan tíma er hún var ung að aldri. X hefði misnotað gróflega vald sitt yfir henni og þannig brugðist trúnaðarskyldum sínum gagnvart henni. Talið var að honum hefði mátt vera ljóst hve alvarlegar afleiðingar atferli hans hlaut að hafa fyrir líf og sálarheill A. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 5 ár og sex mánuði. Þá voru A dæmdar miskabætur úr hendi X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2001 eftir ósk ákærða og krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, en þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða A 4.200.000 krónur í skaðabætur auk vaxta og kostnaðar eins og greinir í ákæru málsins.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en ella verði hann sýknaður af refsi- og bótakröfum. Komi til sakfellingar krefst hann mildunar refsingar.
I.
Ómerkingar- og heimvísunarkrafa ákærða er á því reist að rannsókn málsins hafi ekki verið sem skyldi þar sem ekki hafi verið kölluð til vitni sem hugsanlega hefðu getað borið um atvik málsins, án þess að slík vitni séu nafngreind. Einnig hefði verið rétt að rannsókn færi fram á kæranda og ákærða.
Þegar litið er til þess, hve langt er síðan atvik þau, sem kæruefni málsins lýtur að, eiga að hafa átt sér stað, er ljóst að mjög er örðugt um sönnunarfærslu. Þykir ekki liggja fyrir að frekari vitnayfirheyrslur hafi verið líklegar til að varpa betra ljósi á sakarefni. Ákærði og kærandi komu fyrir héraðsdómara, sem hafa ekki talið nauðsynlegt að efna til sérfræðilegra rannsókna á geðheilsu eða sálrænum högum þeirra. Eins og málið liggur fyrir þykja ekki efni til að hagga því mati. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á ómerkingar- og heimvísunarkröfu ákærða.
II.
Í héraðsdómi er greint frá atvikum málsins. Úrslit þess ráðast fyrst og fremst af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Í héraðsdóminum er rakinn framburður A um ætlað kynferðislegt athæfi ákærða gagnvart sér á árunum 1982 til 1987, þegar hún var á aldrinum 9 14 ára. Kæru sína lagði hún fram hjá lögreglu 2. júní 2000, er hún var orðin 27 ára gömul. Ákærði hefur frá upphafi neitað öllum sakargiftum, eins og rakið er í héraðsdómi. Þá er þar sagt frá framburði móður og systur stúlkunnar, sem dómurinn telur veita framburði hennar stuðning um ákveðin atvik. Einnig liggja fyrir gögn til staðfestingar frásögn hennar um ferð til læknis, er hún var tæplega 14 ára gömul, vegna gruns um þungun, en samkvæmt framburði móðurinnar fór hún þá ferð með ákærða og vissi móðirin ekki um hana fyrr en eftir á. Við sönnunarmat héraðsdóms er og litið til framburðar tveggja vitna, sem bera að stúlkan hafi, eftir að á hana var gengið, sagt þeim frá kynferðislegri misneytingu af hálfu ákærða. Sagði hún öðru vitninu frá þessu á árinu 1993, en hinu 1998.
Héraðsdómur, sem skipaður var þremur embættisdómurum, hefur metið framburð stúlkunnar einkar trúverðugan, eins og nánar er lýst í niðurstöðu dómsins. Þar er ekki tekin bein afstaða til framburðar ákærða í heild en dómurinn metur fráleitar skýringar hans á ástæðum þess að stúlkan kærir hann nú. Verður að telja að framburður ákærða hafi verið metinn ótrúverðugur.
Þegar gögn málsins í heild eru virt þykir ekkert hafa fram komið, sem gefur tilefni til að draga í efa mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og öðru því, sem fyrir liggur. Verður sakarmat dómsins staðfest, en samkvæmt því er ákærði sakfelldur fyrir samræði við stúlkuna á ýmsum stöðum á árunum 1983 til 1987, eins og nánar er lýst í héraðsdómi og ákæru. Eins og atferlinu var háttað verður að líta á það sem framhaldandi röð brota, sem samkvæmt ákæru verður að miða við að lokið hafi á árinu 1987. Er atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í héraðsdómi og er þar gerð grein fyrir þeim breytingum, sem urðu á viðeigandi ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með lögum nr. 40/1992. Hámarksrefsing vegna brota ákærða var 12 ára fangelsi bæði fyrir og eftir þá breytingu, sbr. áður 1. mgr. 200. gr. en nú 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Brotin fyrnast á 15 árum samkvæmt 81. gr. laganna, sbr. áður 5. gr. laga nr. 20/1981 og nú 1. gr. laga nr. 63/1998. Samkvæmt því eru brot ákærða ekki fyrnd.
Ákærði gerðist sekur um alvarleg kynferðisbrot gagnvart A, sem stóðu yfir í langan tíma er hún var ung að aldri. Hann misnotaði gróflega vald sitt yfir henni, en hann var stjúpfaðir hennar og brást þannig trúnaðarskyldum sínum gagnvart henni. Mátti honum vera ljóst hve alvarlegar afleiðingar atferli hans hlaut að hafa fyrir líf og sálarheill telpunnar. Að þessu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár og sex mánuði.
Eins og fram kemur í héraðsdómi er ljóst af því, sem fram hefur komið hjá A og vitnum, að umræddir atburðir hafa orðið henni þungbærir. Hin alvarlegu brot ákærða voru til þess fallin að valda mikilli röskun á högum hennar, heilsu og tilfinningalífi. Engin sérfræðileg gögn hafa þó verið lögð fram í málinu um þetta til frekari stuðnings bótakröfu hennar. Að því virtu verður niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð miskabóta staðfest, en rétt þykir að þær beri dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan, eins og nánar segir í dómsorði. Jafnframt verður ákærði dæmdur til að greiða réttargæslumanni stúlkunnar þóknun fyrir Hæstarétti eins og þar greinir.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og réttargæslulaun. Dæma ber ákærða til greiðslu áfrýjunarkostnaðar eins og segir í dómsorði
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 ár og sex mánuði.
Ákærði greiði A 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. febrúar 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og réttargæslulaun.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og réttargæsluþóknun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2001.
Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 24. apríl 2001 á hendur:
X, kennitala [ ],
[ ], Reykjavík,
,,fyrir kynferðisbrot með því að hafa á árunum 1982 til 1987, margoft haft samræði og önnur kynferðismök við stjúpdóttur sína A, fædda [ ] 1973, sem hér er rakið:
Á heimili þeirra að [ ], Z, frá árinu 1982 er A var 9 ára, margsinnis þuklað á líkama hennar og látið hana þukla á og fróa sér og frá árinu 1983 margsinnis haft samræði við telpuna.
Í skipinu K, sem ákærði var skipverji á, þrisvar sinnum haft samræði við A.
Á heimili móður ákærða að [ ], Reykjavík, frá því A var 11 ára og þar til hún var 13 ára, margoft haft samræði við hana.
Að [ ] við Y, tvisvar sinnum haft samræði við A.
Telst þetta varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. áður 1. mgr. 200. gr. og 201. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 4.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 1. janúar 1985 og til 2. júní 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 2. júní 2000 til greiðsludags, auk bóta vegna kostnaðar við lögmannsaðstoð.”
Við aðalmeðferð var gerð leiðrétting á ákæru þar sem sagt er [ ] en á að vera [ ].
Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa. Þá er þess krafist að málskostnaður, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, greiðist úr ríkissjóði.
Málavextir.
Föstudaginn 2. júní 2000 lagði A, sem fædd er 1973, fram kæru á lögreglustöðinni í Reykjavík á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart henni á árunum 1982 til 1987. Ákærði var fósturfaðir kæranda en móðir hennar hafði kynnst honum þegar kærandi var innan við eins árs gömul. Ákærði og móðir kæranda eignuðust 3 börn, C, sem fædd er 1975, D, sem fæddur er í nóvember 1982, auk sonar E. Hjónin slitu samvistum árið 1995.
Samkvæmt kærunni fólst atferli ákærða í því að hann hafi á árinu 1982, þegar kærandi var 9 ára gömul, byrjað á því að láta hana þukla ákærða og fróa en árið eftir hafi hann haft við hana samfarir. Lýsti hún í skýrslunni nokkrum tilvikum og staðháttum þar sem ákærði hafði við hana samfarir í hjónarúminu, inni á baðherbergi og í eldhúsinu að [ ]. Kvað hún móður sína einu sinni hafa komið að þegar þetta átti sér stað og bankað á baðherbergishurðina, sem var læst, og spurt hvað gengi á. Þá kvað hún móðurina einu sinni hafa komið inn í svefnherbergi systranna þegar ákærði var uppí rúmi hjá henni undir sæng að hafa við hana kynmök og spurt hvað hann væri að gera. Taldi hún að systir hennar hefði einnig orðið þessa vör. Þá lýsti hún samförum í þrjú skipti um borð í skipi ákærða, K, og í nokkur skipti á [ ] í Reykjavík en það var heimili foreldra ákærða. Kærandi lýsti enn fremur kynmökum hennar og ákærða að [ ] hjá frændfólki ákærða svo og um verslunarmannahelgina 1987 eða 1988 í Atlavík. Kærandi skýrði frá því að ákærði hafði farið með hana til læknis um 14 ára aldur vegna ótta við að hún væri ófrísk en þá hafði hún ekki í nokkurn tíma haft blæðingar. Hafi hún, að tilmælum ákærða, sagst hafa verið með einhverjum strák sem hún vildi ekki segja hver væri. Á þessum tíma hafi hún þá ekki verið með neinum strák. Kærandi taldi að ákærði hefði haft sáðlát inn í hana áður en hún byrjaði á blæðingum en hann hafi reynt að passa sig eftir það. Í maí 1989 eftir að skóla lauk í [ ] hafi hún farið til afa síns og þá talað við ákærða í síma. Hafi hún sagst ekki koma aftur heim nema hann léti hana í friði. Hafi ákærði látið af kynferðislegu ofbeldi eftir það en kærandi kvaðst lítið hafa búið á heimilinu eftirleiðis. Hún hafi engum sagt frá þessu en á árunum 1994 til 1995 hafi frænka hennar gengið á hana og spurt beint út hvort ákærði hafi misnotað hana í æsku. Hafi hún neitað í fyrstu en síðan viðurkennt það. Þá hafi hún einnig viðurkennt þetta fyrir annarri frænku sinni fyrir um tveimur árum er hún hafi spurt hana að þessu sama.
Aflað var gagna frá heilsugæslustöðinni Z þar sem staðfest er að kærandi kom í viðtal við lækni 5. maí 1987. Í sjúkraskrá er skráð m.a:." Blæðingar fyrsta skipti í janúar, ekki síðan, hefur verið með strákum. Þvagstatur, pregtest."
Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 12. janúar 2001, var óskað skriflegra upplýsinga frá Ó, heimilislækni kæranda á þessum tíma. Í svari læknisins kemur fram að þar sem svo langt er um liðið frá því atvikið átti sér stað geti læknirinn lítið greint frá umfram það sem fram kemur í sjúkraskrá. Taldi læknirinn að skoðun hafi farið fram á Heilsugæslustöðinni á Z.
Ákærði neitar sök bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Aðspurður um einstök atvik, sem honum er gefið að sök í ákæru, kveður hann þau ekki rétt og kveðst ekki minnast þess að hafa verið nokkurn tíma einn með stúlkunni á þessum stöðum og á þessum tímum sem hér um ræðir. Fjölskyldan hafi yfirleitt verið saman á ferð þegar hann var í landi, en ákærði var sjómaður. Vegna fjarveru hans hafi uppeldið lent að mestu á móðurinni. Ákærði mundi ekki eftir neinum samskiptum við kæranda inni á baðherbergi að [ ]. Hann kannaðist ekki við að hafa farið með kæranda til læknis vegna þungunarprófs og kvað hann eiginkonu sína aldrei hafa rætt við hann um það.
Ákærði kvaðst ekki minnast þess að eiginkona hans hafi komið inn í herbergi þar sem hann hefði verið með stúlkunum tveim og spurt hvað væri um að vera. Þá minnist hún þess ekki heldur að hún hafi talað um það daginn eftir né í önnur skipti. Eiginkona hans hafi aldrei rætt við hann um grun hennar um að eitthvað kynferðislegt ætti sér stað milli hans og kæranda. Hann hafi alltaf litið á kæranda sem dóttur sína og þótt vænt um hana og minntist hann þess ekki að hafa komið öðruvísi fram við hana en hin börnin. Hafi hann ætíð hugsað um velferð barna sinna og þau verið honum kær. Kvaðst hann hafa fundið frá þeim kærleika allt þar til hann hafi verið kominn með erlenda konu fyrir um þremur árum. Hafi hann aðstoðað kæranda við skólann og útvegað henni peninga fyrir námsbókum, auk þess sem hún hafi unnið hjá honum í verslun á árinu 1999. Taldi hann samskipti við kæranda hafa verið góð allt þar til seinni konan hafi orðið ófrísk, en þá hafi bæði kærandi og móðir hennar hringt í hann mjög reiðar. Ákærði kvað kæranda hafa haft samband við hann eftir þetta símtal og boðið honum og eiginkonu hans í leikhús. Ákærði kvaðst hafa komið, eftir fæðingu sonarins D í nóvember 1982, akandi með eiginkonu sinni og barninu til Z. Lýsti hann sérstaklega ferðinni og atviki sem gerðist á[ ] á leiðinni.
Kærandi lýsti samskipti sínum við ákærða fyrir dóminum. Kvað hún ákærða hafa drukkið mikið á þessum árum þegar hann var í landi. Kvaðst hún minnast þess þegar bróðir hennar D fæddist í nóvember 1982 að ákærði hafi komið á undan móður hennar aftur heim til Z, en móðirin lá þá á fæðingardeildinni í Reykjavík. Kvað hún ákærða þá hafa látið hana sofa hjá sér í hjónarúminu og byrjað að þukla hana og látið hana snúa baki í sig en síðan haft við hana samfarir. Kvaðst hún ekki muna eftir sársauka eða að eitthvað hafi blætt í umrætt sinn. Það hafi verið í fyrsta skipti sem hann misnotaði hana. Eftir á hafi hann bannað henni að segja frá atvikinu og sagt að móðir hennar væri veik og gæti dáið. Ekki mundi hún hvernig ákærði hefði komið frá Reykjavík til Z umrætt sinn, en taldi að móðir hennar hefði flogið. Kæranda var bent á að þessi framburður hennar væri frávik frá því sem hún greindi frá í lögregluskýrslu og ákæran byggir á og kvað hún framburð sinn fyrir dóminum réttan.
Kærandi kvaðst minnast eins tilviks þegar ákærði var skipverji á togaranum K, að hann hafi beðið hana að koma með sér um borð og ná í óhreinan þvott og skipta um á rúminu. Hann hafi þá læst klefanum og haft samfarir við hana aftan frá. Lýsti hún því í smáatriðum fyrir dóminum. Telur hún að það hafi gerst í tvö eða þrjú skipti og kveðst minnast þess að í eitt skipti hefði verið bankað á hurðina. Ekki kveðst hún minnast orðaskipta við fólk þarna, en hurðin á klefanum hefði ekki verið opnuð. Þetta hafi gerst þegar hún var 12 til 13 ára og hafi hún ekki þorað að mótmæla þessu. Hún minnast þess að í eitt skipti hafi buxurnar verið teknar niður að skóm, en ekki hafi hún farið úr þeim alveg. Ákærði hafi tekið buxurnar niður að skóm.
Varðandi atvik sem áttu að hafa gerst að [ ] kveðst hún minnast atviks í eldhúsi, þar sem ákærði hefði látið hana beygja sig fram á bekk undir glugga og fylgjast með því hvort einhver væri að koma að húsinu. Hann hafi síðan haft samfarir við hana aftan frá. Í eitt skipti er þau hjón voru á dansleik hafi ákærði komið heim og vakið kæranda og látið hana koma fram í eldhús og fylgjast með út um gluggann hvort móðirin kæmi heim á meðan hann hafði samfarir við hana. Kvaðst hún muna eftir þremur slíkum tilfellum. Hún hafi þá verið 13 til 14 ára. Í eitt sinn hafi þetta gerst inni á klósetti er ákærði hafi komið heim mjög drukkinn, þannig að hann hafi varla getað staðið. Hafi hann þá látið hana beygja sig yfir baðkar og reynt að hafa samfarir við hana, en ákærði hafi dottið á hurðina og af orðið hávaði. Móðir hennar hafi bankað á hurðina og spurt hvað hann væri að gera. Ákærði hafi verið búinn að hysja upp um sig buxurnar þegar hann opnaði og móðirin þá spurt hvað hann væri að gera og sent hann inn í herbergi. Í þetta sinn hafi samfarir tekist að einhverju leyti, en hann hafi ekki getað lokið sér af. Vitnið lýsti því að ákærði hafi stundum látið renna í baðkar eftir kvöldmat og beðið sig að raspa á sér fæturna og stundum að koma ofan í baðið. Þá hafi hann beðið hana um að þvo sér og fróa sér í baðinu. Þá hafi hann einnig komið ofan í baðið til hennar.
Hún lýsti enn einu tilviki á heimilinu, þar sem hún og hálfsystir hennar hafi sofið í sama herbergi. Rúmin hafi verið þannig að höfðagaflar sneru saman en sjónvarp hafi verið inní herberginu. Hafi þær systur verið að horfa á sjónvarp að kvöldi til þegar ákærði kom upp í rúmið til kæranda. Ákærði hafi legið fyrir aftan hana og haft við hana samfarir eftir að hafa klætt hana úr nærbuxunum. Móðirin hafi verið að vaska upp en komið inn í herbergið og spurt hvað ákærði væri að gera. Kveðst vitnið ekki minnast þess að ákærði hefði svarað nokkru, en þau hjónin gengið fram.
Hún kveðst minnast annars skiptis að nóttu til, þar sem eiginlega það sama hafi gerst, móðirin hafi komið inní herbergið. Hún sagði að móðir hennar hefði reynt að spyrja hana um kynferðisleg samskipti hennar við stjúpföður sinn, en hún hafi alltaf neitað því. Móðirin hefði ekki spurt beint hvort hann hefði haft við hana samfarir.
Kærandi lýsti samskiptum sínum við ákærða að [ ] á heimili móður ákærða. Kvaðst hún hafa verið þar ásamt systur sinni og frænku, en ákærði hafi sent þær út í búð til að kaupa eitthvað. Hún hafi verið í baði og ákærði þá látið hana beygja sig yfir baðkarið og haft við hana samfarir. Kveðst hún minnast alls þriggja tilvika á þessum stað alltaf á baðherberginu og minntist hún þess að amma hennar hafi verið heima í eitt skiptið.
Kærandi lýsti ferðalagi að Y þar sem bræður ákærða bjuggu. Þar hafi verið tvö hús, eitt nýlegt og hafi ákærði látið hana fara með sér þangað inn í herbergi og haft samfarir. Í þessari ferð hafi öll fjölskyldan verið og minnist hún þess að móðirin hafi verið í hinu húsinu að tala við konuna inní eldhúsi, en hún man ekki hvar hitt fólkið var. Kveðst hún muna eftir tveimur tilvikum þarna á Y. Í hitt skiptið kveðst hún ekki muna hvar móðir hennar var. Bæði tilvikin hafi verið að degi til og hafi ákærði haft samfarir við hana aftan frá í báðum tilvikunum.
Hún kvaðst hafa verið að ljúka grunnskóla þegar hún hafði símasamband við ákærða, þar sem hún var stödd hjá frænku sinni á S og sagðist ekki koma aftur á heimilið nema hann léti hana í friði. Hafi hann þar með látið af kynferðislegum tilburðum við hana.
Kærandi skýrði frá því að hún hafi þurft að fara til læknisins á F, en sami læknir var fyrir Z og F. Hafi hún talið að hún væri ólétt, þar sem hún hafði ekki byrjað á blæðingum og hafi ákærði farið með hana. Hafi hann sagt lækninum að hún vildi ekki segja með hvaða strák hún hafi verið. Kærandi kvaðst hafa sagt móður sinni að hún væri ólétt eftir strák, sem hún vildi ekki nafngreina en hún hafi ekki verið með neinum strák á þessum tíma.
Kærandi kvað atburðina hafa haft mikil áhrif á líf sitt. Henni hefði gengið illa í skóla og gert allt sem hún mátti ekki gera til að fá athygli og hafi eiginlega verið hálf stjórnlaus. Hún hafi skýrt M, frænku sinni, frá því fyrir nokkrum árum sem gerst hafi, en hún hefði gengið á hana. Kærandi hafi hins vegar lokað á þetta og ekki viljað horfast í augu við það, en frænka hennar, N, hefði fengið hana til að leita aðstoðar. Hún kveðst ekkert hafa haft á móti nýju eiginkonu ákærða og kveðst hafa unnið með henni. Kærandi minntist ekki á nein sérstök illindi eða ósætti á heimilinu milli hennar og ákærða og minnist hún ekki nema þessa eina tilviks þegar hún skammaði hann fyrir að hafa ekki sagt fjölskyldunni frá núverandi konu sinni og taldi samskiptin hafa verið að öðru leyti eðlileg eftir atvikum.
Vitnið, B, móðir kæranda, upplýsti að heimilisaðstæður hafi verið mjög erfiðar á þessum tíma og fjölskyldan í raun undir miklu andlegu álagi. Ákærði hefði verið mikið úti á sjó, en drukkið þegar hann var í landi. Hún kveðst ekki hafa neytt áfengis. Hana hafi alltaf grunað að ákærði hafi haft kynferðislegt samneyti við stúlkuna. Sá grunur hafi fyrst vaknað þegar hún fór eitt sinn í heimsókn til vinkonu sinnar að kvöldi til. Þá hafi börnin verið búin að fara í bað áður og hafi stúlkurnar verið í nærfötunum, en drengirnir farnir að sofa. Þegar hún hafi komið heim hafi kærandi legið uppí sófa fyrir framan ákærða og hafi bolur hennar verið ranghverfur. Hún kvaðst oftar en einu sinni hafa gengið á kæranda og ákærða, en alltaf hafi verið þrætt og ákærði vísað þessu á bug. Hún kvaðst hafa unnið mikið á þessum tíma oft frá 7 til 19. Hún kvaðst ekki muna eftir neinu sérstöku í sambandi við baðferðir kæranda og ákærða. Hún kvaðst muna eftir því að eitt sinn þegar hjónin komu heim eftir skemmtun hafi hún farið inn í herbergi til stúlknanna. Þá hafi ákærði staðið yfir rúmi kæranda með nærbuxurnar niður um sig en myrkur var í herberginu. Henni hafi brugðið og spurt hvað væri um að vera. Ákærði, sem hafi snúið baki í hana, hafi þá verið fljótur að kippa upp um sig nærbuxunum sem hafi verið niður á hnjám. Í umrætt sinn hefði ákærði verið búinn að hátta sig áður en hann fór inn til stúlknanna. Hún hafi ekki þorað að ræða við hann þá um kvöldið þar sem hann var undir áhrifum áfengis. Daginn eftir hafi hún spurt hvað hann hefði verið að gera, en hann hafi talið sig saklausan af öllu og þrætt fyrir að hafa verið með nærbuxurnar niður um sig. Hún kvaðst ekki minnast þess sérstaklega að hafa komið að læstu baðherbergi þar sem kærandi og ákærði hafi verið inni. Þá kveðst hún ekki minnast þess að hafa komið inn í herbergi, þar sem kærandi og systir hennar hafi verið að horfa á sjónvarp og ákærði hafi legið uppí rúmi hjá kæranda.
Hún kveðst minnast þess að fjölskyldan hafi farið nokkrum sinnum til [ ] og þá dvalið á heimili tengdamóður sinnar að [ ] og í eitt skipti hafi ákærði keyrt hana upp í [ ] til vinkonu sinnar. Þá hafi hún hringt og beðið hann að sækja sig. Mjög langur tími hafi liðið þar til hann kom og kærandi verið þá með ákærða. Þetta hafi verið um áramótin 1986 til 1987. Þá hafi ákærði tvívegis farið með kæranda til Reykjavíkur á meðan þau bjuggu á Z vegna heimsókna til læknis. Vitnið kvaðst ekki minnast neins sérstaks af ferðalagi fjölskyldunnar að Y.
Hún kvaðst minnast þess að ákærði hefði farið með kæranda í þungunarpróf skömmu fyrir 14 ára afmælisdaginn. Hún mundi ekki hvort þeirra sagði henni frá þessu, en það hafi þurft að fara með stúlkuna á F. Hafi hún vitað um þessa ferð eftir að hún var farin. Hún hafi ekki rætt þetta við dóttur sína, þar sem vitnið var svo andlega illa statt og hafi talað lítið um tilfinningamál. Hana hafi grunað að ekki var allt með felldu vegna ferðar þeirra vegna þungunarprófsins, en hún kvaðst ekki hafa gengið á kæranda hver þessi piltur væri, sem hún hafi sagst hafa verið með. Hún kvaðst þess fullviss að hún hafi ekki farið með kæranda til þessarar skoðunar en minnist þess að ákærði hafi sagst hafa farið með kæranda. Svar við þungunarprófi hafi komið frá konu sem vann á Heilsugæslustöðinni á Z og það hafi verið neikvætt og hafi konan haft samband við vitnið. Á þessum tíma hafi kærandi ekki átt neinn kærasta.
Hún kvað kæranda fyrst hafa sagt henni frá kynferðisbroti ákærða á síðastliðnu ári þegar kæran kom fram. Eftir samvistarslit hennar og ákærða 1995 hafi hann farið til útlanda og komið heim með erlenda konu fyrir um 3 árum. Hún hafi hitt þessa konu í jólaboði fyrir um tveimur árum, en það hafi ekki skipt vitnið neinu máli, þar sem hún hafi verið skilin við mann sinn. Hún kvaðst ekki kannast við símtal ákærða, þar sem slegið hafi í brýnu á milli þeirra vegna þess að ákærði var að verða faðir á nýjan leik. Hún lýsti sambandi hennar og kæranda þannig, að tengslin hafi ekki verið tilfinningalega náin milli þeirra en kærandi hafi verið opnari síðustu árin og liði bersýnilega betur. Kvað hún kæranda ekki hafa verið erfitt barn, en hún hafi átti erfitt í skóla og gengið illa að læra. Hún kvaðst hafa farið með flugvél austur viku eftir fæðingu sonarins, D, 2. nóvember 1982, en ákærði hafi farið austur 4. sama mánaðar. Hún kvað það tilvik sem ákærði nefndi, með bíl á [ ], eiga við þegar sonurinn, E, var lítill.
Vitnið, C, hálfsystir kæranda, kvaðst ekki hafa orðið vör við kynferðislegt samneyti ákærða kæranda, en minnast eins atviks er þær deildu herbergi. Kvaðst hún hafa vaknað upp við það að móðir þeirra kom inn í herbergið og spurði ákærða hvað hann væri að gera þarna, en þá hafi hann legið upp í rúmi hjá kæranda. Þetta sé eina tilvikið sem hún muni. Þetta hafi gerst þegar þau bjuggu í [ ]. Kveðst hún ekki hafa orðið vör við við slíka háttsemi frá föður sínum í annan tíma. Heimilisaðstæður á þessum árum hafi ekki verið góðar, þar sem ákærði hefði drukkið mikið og oft erfitt heima fyrir.
Vitnið, M, en kærandi og vitnið eru systradætur, upplýsti að hún hafi farið vestur til kæranda á [ ], þar sem hún bjó 1992 og 1993. Á þeim árum hafi kærandi drukkið mikið og hagað sér þannig að það hafi ekki verið allt í lagi með hana að mati vitnisins. Kærandi hafi flutt aftur í bæinn haustið 1993 og hafi vitnið spurt hana beint um kynferðisbrot gagnvart henni. Kærandi hafi neitað en játað eftir að vitnið gekk á hana og þá sagt henni frá atferli ákærða án þess að lýsa því nánar. Hún hafi búið á Z og verið í sama skóla og kærandi og þær mikið saman á þeim árum. Hún taldi að kærandi hefði ekki verið með neinum strák á Z, en samskipti þeirra voru það náin að hún taldi að það hefði ekki farið fram hjá henni ef svo hefði verið.
Vitnið, Björg Guðrún Gísladóttir, ráðgjafi hjá Fræðslu- og ráðgjafamiðstöð Stígamóta, kvað kæranda hafa fyrst komið í viðtal í maí 2000 hjá samtökunum og verið í nokkrum viðtölum síðar. Vitnið lýsti kæranda sem mjög tilfinningadofinni konu sem upplifir mikla skömm eins og algengt sé um þolendur kynferðis ofbeldis. Vitnið kvaðst telja að kærandi bæri sterkar afleiðingar kynferðisofbeldis. Vitnið er ekki sérfræðimenntuð, en hefur starfað sem ráðgjafi í rúm þrjú ár hjá samtökunum.
N, sem er frænka kæranda, kvaðst af eigin reynslu þekkja ýmis einkenni kynferðisofbeldis. Hafi hún fyrir tveimur árum gengið á kæranda og spurt hana hvort hún hafi orðið fyrir slíku. Kærandi hafi játað því að ákærði hefði misnotað hana í æsku en ekki farið nákvæmlega ofan í það mál. Hefði kærandi sagt að henni liði illa og hafi vitnið bent henni á að fara til Stígamóta og leita sér aðstoðar. Vitnið kvaðst sjálf hafa farið í meðferð fyrir um 7 árum og lýsti þeim einkennum sem hún taldi sig geta séð á þeim aðilum sem hefðu orðið fyrir slíkri reynslu. Vitnið bar að hún hefði umgengist kæranda í gegnum tíðina mismikið en það hafi verið mest eðlileg fjölskyldutengsl.
Niðurstaða.
Mál það sem hér um ræðir kom upp þegar kærandi lagði fram kæru í júní 2000 vegna kynferðisbrota ákærða gagnvart henni á árunum 1982 til 1987. Ákærði hefur staðfastlega neitað frá upphafi að hafa haft kynferðislega tilburði við kæranda.
Fyrir dóminum lýsti kærandi því hvernig ákærði hafði fyrst við hana kynmök í nóvember 1982, þegar móðir hennar lá á sæng í Reykjavík, og síðan hvernig hann hafði við hana samfarir og önnur kynferðismök allt til ársins 1987. Frásögn kæranda er einkar trúverðug. Hún lýsti nákvæmlega umhverfi því þar sem atburðir gerðust, aðferð þeirri sem ákærði viðhafði við kynmökin hverju sinni og mundi einstaka atburði mjög vel. Hún tengir upphaf kynmaka ákærða við hana því er hann kom á undan móður hennar á Z en móðirin lá þá á fæðingardeildinni í Reykjavík. Ákærði hefur borið að þau hjónin hafi komið saman austur umrætt sinn. Móðir kæranda ber hins vegar að hún hafi komið austur með flugi viku eftir fæðinguna, sem var 2. nóvember 1982, en ákærði hafi farið austur 4. sama mánaðar. Að mati dómsins er vitnisburður móðurinnar trúverðugur um þetta atriði og rennir stoðum undir vitnisburð kæranda um athæfi ákærða umrætt sinn. Þá hefur kærandi nefnt það tilvik er ákærði á að hafa farið með hana til læknis, sem reyndist hafa verið 5. maí 1987 samkvæmt sjúkraskrá, vegna ótta við að hún væri orðin þunguð. Ber kærandi að hún hafi að tilstuðlan ákærða sagst hafa verið með strák á þessum tíma, enda þótt svo hafi ekki verið raunin. Í sjúkraskrá er skráð að hún hafi verið með strákum og að hún hafi farið í þungunarpróf. Móðir kæranda og vitnið, M, báru að þeim vitanlega hefði kærandi ekki verið með strák á þessum tíma. Þá bar móðirin að ákærði hafi farið með kæranda til læknis í áðurnefndum tilgangi og að hún hafi fyrst vitað af því eftir á. Þykir þetta renna enn frekari stoðum undir framburð kæranda um að á þessum tíma hafi kynferðisbrot átt sér stað. Vitnið, C, sem deildi herbergi með kæranda á þessum árum, minntist þess að móðir þeirra hafi komið inn í herbergið eitt sinn og spurt ákærða hvað hann væri að gera en hann hafi þá legið uppí rúmi hjá kæranda. Þá lýsti móðir kæranda því einnig að hún hafi komið að ákærða í herbergi systranna eftir að ákærði var háttaður og hafi hann þá verið með nærbuxurnar niður um sig við rúm kæranda. Vegna þess að ákærði hafi verið ölvaður hafi hún spurt hann daginn eftir hvað hann hefði verið að gera. Hann hafi talið sig saklausan af öllu og þrætt fyrir að hafa verið með nærbuxurnar niður um sig.
Kærandi skýrði vitnunum, M, árið 1993 og N 1998 frá því að að ákærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi á unga aldri. Eftir ráðleggingu síðara vitnisins leitaði kærandi sér aðstoðar.
Af gögnum málsins og framburði kæranda fyrir dómi er ljóst að atburðir þessir hafa hvílt þungt á kæranda og að hún hefur haft einkenni sem benda til kynferðisofbeldis. Fær það álit dómsins stoð í framburði vitnisins, Bjargar Guðrúnar Gísladóttur ráðgjafa.
Kærandi er sjálfri sér samkvæm í vitnisburði sínum. Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn frá atburðum þeim sem í ákæru greinir dregur það, að mati dómsins, ekki úr trúverðugleika vitnisburðar hennar. Hann er skýr og nákvæmur og borinn fram af einlægni án þess að vart verði nokkurs haturs eða reiði í garð ákærða. Því þykir sú skýring ákærða að kæran sé sprottinn af því að ákærði hafi eignast barn með nýrri konu fráleit að mati dómsins. Þá hefur ekkert komið fram í gögnum málsins sem skýrir þær alvarlegu sakir sem hún ber ákærða annað en að hún hafi orðið fyrir þeim brotum af völdum ákærða sem hún hefur skýrt frá.
Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn sannað með vitnisburði kæranda, sem fær stoð af vitnisburði móður stúlkunnar og hálfsystur hennar og öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem í ákæru greinir með þeim athugasemdum sem hér fara á eftir. Eins og ákæra er úr garði gerð verður ákærði ekki sakfeldur fyrir samræði við kæranda fyrr en 1983 þrátt fyrir framburð hennar um að það hafi byrjað 1982. Þá ber að leggja til grundvallar að ákærði hafi tvívegis haft samræði við kæranda um borð í skipinu K í stað þrívegis og þrívegis að [ ] en ekki margoft eins og í ákæru greinir. Að öðru leyti er ákærði sakfelldur fyrir brot þau sem greinir í ákæru. Ákærði framdi brot sín fyrir gildistöku laga nr. 40/1992, sem breyttu þeim lagaákvæðum sem brotin varða við. Þau brot ákærða, sem nú varða við 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga, vörðuðu áður við 201. gr. laganna. Hámarksrefsing fyrir brot gegn því ákvæði fyrir lagabreytinguna var fangelsi í 4 ár en er nú fangelsi í 10 ár. Þau brot ákærða, sem nú varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, vörðuðu áður við 1. mgr. 200 gr. laganna. Greininni hefur verið breytt nokkuð en hámarksrefsing er óbreytt. Ákærða verður gerð refsing eftir nýrri lögununum, sbr. meginreglu 2. gr. almennra hegningarlaga.
Með atferli sínu gerðist ákærði sekur um gróft kynferðislegt ofbeldi gagnvart kæranda. Ofbeldið var margítrekað og stóð yfir í langan tíma allt frá því að kærandi var á unga aldri. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að ákærði var stjúpfaðir kæranda og hafði foreldraskyldum að gegna gagnvart henni. Þeim skyldum brást hann algjörlega og misnotaði sér gróflega vald fullorðins manns yfir barni. Ákærði hefur ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi sem áhrif hefur á mat refsingar í máli þessu. Þykir refsing ákærða, sem ákvörðuð er með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár og sex mánuði.
Með broti sínu gerðist ákærði sekur um refsiverða meingerð gegn persónu og friði stúlkunnar sem var til þess fallin að valda henni erfiðleikum í lífinu svo sem rakið hefur verið. Þykja miskabætur henni til handa hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna og skal fjárhæðin bera dráttarvexti frá dómsuppsögudegi. Þá ber ákærða að greiða réttargæslumanni brotaþola, Sigmundi Hannessyni hæstaréttarlögmanni, 150.000 krónur í réttargæslulaun.
Ákærða ber að dæma til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragnheiður Harðardóttir saksóknari.
Dóm þennan kváðu upp héraðsdómararnir Valtýr Sigurðsson, sem dómsformaður, ásamt meðdómendunum Guðjóni St. Marteinssyni og Páli Þorsteinsyni.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 ár og sex mánuði.
Ákærði greiði A 1.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi.
Ákærði greiði Sigmundi Hannessyni hæstaréttarlögmanni, 150.000 krónur í réttargæslulaun.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.