Hæstiréttur íslands
Mál nr. 235/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 15. júní 2000. |
|
Nr. 235/2000. |
Sýslumaðurinn í Kópavogi (Tryggvi Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Erlendur Gíslason hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Talið var að sterkur grunur væri kominn fram um að X hefði framið manndráp og þótti verknaður sá, sem X var grunaður um, vera þess eðlis að gæsluvarðhald væri nausðynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júní 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. júlí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Að virtum gögnum málsins er fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið afbrot, sem varðað getur við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á því ákvæði getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Sá verknaður, sem varnaraðili er grunaður um, þykir þess eðlis að ætla má að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júní 2000.
Ár 2000, föstudaginn 9. júní er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði af Sveini Sigurkarlssyni, héraðsdómara kveðinn upp úrskurður í málinu nr. R-31/2000: Beiðni sýslumannsins í Kópavogi um framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir X:
Rannsókn stendur yfir vegna kæru á hendur X vegna gruns um að vera valdur að dauða stúlku sem fannst látin við bakdyrainngang að fjölbýlishúsinu nr. 9 við Engihjalla í Kópavogi þann 27. maí sl. kl. 09:27. Sakborningur hefur viðurkennt að hafa orðið valdur að því sem hann kallar slysi sem varð þess valdandi að hin látna féll til jarðar af svölum á 10. hæð með þeim afleiðingum að hún lést eins og áður greinir.
Kærði var fyrir dóminum spurður að því hvað hann ætti við þeim orðum sínum ,, en hann eigi sök á því að stúlkan féll fram af ²og svaraði hann því til að hann viðurkenni hrint henni að svölunum og þannig hafa orðið valdur að slysi.
Af hálfu rannsóknara hefur krafa um framhald gæsluvarðhalds verið rökstudd bæði með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og eins með vísan til 2. mgr. 103. gr.
Telur dómari að rannsókn málsins sé svo vel á veg komin að ekki sé hægt að fallast á kröfuna um framhald gæsluvarðhaldsins á grundvelli rannsóknarhagsmuna eins og gert er þegar byggt er á ákvæði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Á hinn bóginn verður að telja að rökstuddur og sterkur grunur liggi fyrir um að kærði hafi gerst sekur um afbrot sem varði við 211. gr. almennra hegningarlaga, eða í það minnsta við 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Báðar þessar greinar eru með refsiramma sem getur leitt til 10 ára fangelsis eða meira.
Telur dómarinn að skilyrði um nauðsyn þess að gæsluvarðhaldi sé beitt með tilliti til almannahagsmuna verði að teljast uppfyllt. Byggir dómari þessa skoðun sína á því að kærði hefur viðurkennt fyrir dóminum að hafa orðið valdur að slysi sem bani hlaust af með því að hrinda hinni látnu og sé óhjákvæmilegt að líta á slíkt atferli sem a.m.k. líkamsárás sem leiði til bana. Í ljósi þessarar viðurkenningar telur dómari að hinar ströngu sönnunarkröfur sem beita verður svo fallast megi á gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfylltar og því rétt að fallast á kröfu rannsóknara um gæsluvarðhald yfir kærða allt til mánudagsins 3. júlí nk. kl. 16:00.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. júlí 2000 kl. 16:00.