Hæstiréttur íslands

Mál nr. 182/2000


Lykilorð

  • Bifreið
  • Umferðarlög
  • Sönnun


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. september 2000.

Nr. 182/2000.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Tómasi Jónssyni

(Pétur Þór Sigurðsson hrl.)

                                              

Bifreiðir. Umferðarlög. Sönnun.

T var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sinni með 124 km hraða miðað við klukkustund á vegarkafla, þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km. Ekki var öðru til að dreifa um akstur ákærða en frásögn og skýrslugerð eins lögreglumanns, sem mældi hraða bifreiðar T og stöðvaði akstur hans. T hafði ekki staðfest með undirritun sinni, að honum hefði verið sýnd ratsjáin eftir hraðamælingu og sú tala, sem þar kom fram. Gegn staðfastri neitun T fyrir dómi var ekki talin komin fram sönnun þess að hann hefði brotið gegn  2. mgr. 37. gr., sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, og var hann því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 18. apríl 2000 að ósk ákærða að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst ákæruvaldið staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst sýknu en hvorki ómerkingar og heimvísunar málsins né frávísunar frá héraðsdómi, eins og fram kom í áfrýjunaryfirlýsingu hans og áfrýjunarstefnu.

Eins og rakið er í héraðsdómi stöðvaði lögreglumaður við embætti sýslumannsins á Selfossi akstur ákærða austur Hellisheiði aðfaranótt 19. október 1999. Lögreglumaðurinn var einn á ferð í ákveðnum erindagjörðum og taldi hann sig á leiðinni hafa mælt á ratsjá, að ákærði, sem kom úr gagnstæðri átt, hefði ekið á 128 km hraða miðað við klukkustund. Ágreiningur er um réttmæti þeirrar staðhæfingar, en ákærði hefur neitað því fyrir dómi, að sér hafi verið sýnd tala á ratsjánni, þegar hann var kvaddur inn í lögreglubifreiðina. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 18. nóvember 1999 hafði ákærði hins vegar sagt, að hann myndi ekki, hvort lögreglumaðurinn hefði sýnt sér töluna né hvort hann hefði séð hana á ratsjánni. Ekki er þó um það deilt, að lögreglumaðurinn hafi tjáð ákærða, að hann teldi hann hafa ekið á umræddum hraða, en ákærði kvaðst ekki hafa svarað því sérstaklega. Hann hélt því á hinn bóginn fram bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hann hefði ekið á um 100 km hraða eða tæplega það.

Í frumskýrslu lögreglumannsins 19. október segir, að ákærði hafi komið inn í lögreglubifreiðina og séð „töluna læsta á skjá radarsins og kvaðst hann ekki rengja mældan hraða.“ Í dagbókarfærslu um hraðamælingu með ratsjá bókar sami lögreglumaður eigin hendi um tímasetningu hraðamælingar og mældan hraða bifreiðar ákærða auk upplýsinga um bifreiðina og prófun ratsjárinnar fyrir og eftir mælingu. Nokkurrar ónákvæmni gætir í færslu dagbókarinnar og misræmis við frumskýrsluna. Fyrir dómi sagði lögreglumaðurinn, að dagbókin hefði verið í bifreiðinni á þessum tíma, en ekki er ljóst, hvort skráð hefur verið í hana þá eða síðar. Á dagbókarblaðinu er ekki gert ráð fyrir, að skráðar séu upplýsingar um ökumann. Sérstakur dálkur er hins vegar í dagbókinni með yfirskriftinni: „Mæling staðfest – aths.“ Þar hefur lögreglumaðurinn skráð í allt rýmið: „Lögr.maður einn. Ökumanni sýnd talan.“ Ekki liggur fyrir, hvort ætlað sé, að ökumenn geti ritað nafn sitt hér eða eftir atvikum athugasemdir, en miðað við uppsetningu dagbókarblaðsins blasir það ekki við. Ákærði hefur ekki áritað þetta blað og skrifar lögreglumaðurinn einn undir. Annarra gagna um hraðamælinguna nýtur ekki við.

Við málflutning fyrir Hæstarétti lýsti ríkissaksóknari því, að ákæruvaldið hefði ekki gefið út sérstakar leiðbeiningar til lögreglustjóra landsins um það, hvort eða hvernig reynt skyldi að leita staðfestingar ökumanna á því, að þeim hefði verið sýnd ratsjá eftir hraðamælingu og sú tala, sem þar kæmi fram. Hann sagði hins vegar, að í sumum lögregluumdæmum væri það gert með einhverjum hætti, en ekki eru nánari upplýsingar um þetta í málinu.

Samkvæmt framansögðu er ekki öðru til að dreifa um akstur ákærða en frásögn og skýrslugerð eins lögreglumanns. Engin gögn hafa verið færð fram, er stutt geti staðhæfingar hans. Við svo búið og gegn staðfastri neitun ákærða fyrir dómi er ekki komin fram sönnun þess, að honum hafi verið sýnd ratsjáin með þeirri niðurstöðu, sem lögreglumaðurinn skráði. Með hliðsjón af 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber því að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Eftir þessum úrslitum er rétt, að allur kostnaður sakarinnar í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Tómas Jónsson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Péturs Þórs Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 130.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 25. febrúar 2000.

Mál þetta var höfðað með ákæru Sýslumannsins á Selfossi, dagsettri 26. nóvember 1999, á hendur Tómasi Jónssyni, kt. 270670-4239, Lækjartúni, Ölfusi.  Hann er talinn hafa gerst sekur um "… umferðarlagabrot með því að hafa, laust eftir miðnætti þriðjudaginn 19. október 1999, ekið bifreiðinni OT 949 með 124 km hraða á klukkustund austur Suðurlandsveg á vegarkafla vestast á Hellisheiði í sveitarfélaginu Ölfusi.  Leyfður hámarkshraði á vegarkaflanum var 90 km á klukkustund.  Hraði bifreiðarinnar OT 949 var mældur með ratsjá lögreglubifreiðarinnar nr. 33-203."

Þetta er talið varða við 2. mgr. 37. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. 

Ákæruvald krefst til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Verjandi ákærða krefst sýknu og málsvarnarlauna. 

 

Laust eftir miðnætti aðfaranótt 19. október 1999 var Sveinn Ægir Árnason lögreglumaður einn í lögreglubifreið á leið vestur eftir Hellisheiði.  Var hann með kveikt á radar í bílnum, sem hann hafði prófað áður en hann lagði af stað frá Selfossi.  Er hann nálgaðist Hveradali kom ákærði á móti honum á bifreið sinni.  Samkvæmt skýrslum Sveins Ægis og framburði hans fyrir dómi sýndi radar lögreglubifreiðarinnar að ákærði æki á 128 km hraða.  Kveðst hann hafa læst þá tölu inni og sýnt ákærða er hann hafði stöðvað akstur hans og kallað hann yfir í lögreglubifreiðina. 

Fyrir dómi staðfesti ákærði að hann hefði ekið austur umrætt sinn og verið stöðvaður af lögreglu.  Hann kvaðst hafa litið á hraðamælinn skömmu áður en lögreglan stöðvaði hann og þá hafi mælirinn sýnt 95-100 km/klst.  Hann kvaðst telja sig hafa haldið þeim hraða.  Hann kvað lögreglumanninn hafa sagt sér frá því að hann hefði ekið á 128 km hraða, en taldi að hann hefði ekki sýnt sér töluna á radarnum. 

Sveinn Ægir Árnason, lögreglumaður, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa verið meira og minna starfandi sem lögreglumaður frá 1990 og hafa lokið prófi frá Lögregluskólanum 1998.  Hann hafi frá 1992 verið mikið við radarmælingar.  Hann kvaðst umrætt sinn hafa verið á leið að Litlu-kaffistofunni til að fylgja flutningabíl austur yfir. 

Hann kvaðst hafa lagt af stað frá Selfossi um 20 mínútur fyrir tólf.  Radarinn hafi verið opinn á leiðinni og er ákærði kom inn í geislann hafi hann sýnt 132, hann hafi þá gripið til byssunnar og læst töluna inni.  Hann kvaðst síðan hafa stöðvað ákærða skammt frá Hveradalabrekkunni.  Radarinn hafi sýnt það mikið yfir hámarkshraða að ekki hafi verið fært að láta ákærða afskiptalausan.  Hann kvað það vera öruggt að enginn annar bíll hafi getað truflað mælinguna.  Hann kvaðst hafa kynnt ákærða tilefnið og síðan sýnt honum töluna á radarnum.  Hann hafi spurt ákærða hvort hann rengdi mælinguna, en hann hafi ekki gert það. 

Sveinn Ægir kvaðst hafa prófað ratsjána áður en hann lagði af stað frá Selfossi og aftur er hann kom tilbaka.  Um bókun í ratsjárdagbók segir hann að hann hafi skrifað tímasetninguna 00:00 ofan í tímasetninguna sem hann hafði fyrst skráð.  Þetta hafi hann gert af því að á miðnætti sé skráð á nýtt blað í ratsjárbókinni til að allt sé haft á sama degi.  Hann hafi síðan prófað ratsjána aftur er hann kom úr leiðangri sínum síðar um nóttina. 

Samkvæmt frumskýrslu var ákærða sýndur mældur hraði á radarnum og segir að hann rengi hann ekki.  Ákærði neitaði þessu fyrir dómi. 

Ákærða var sent sektarboð vegna þessa máls með tíðkanlegum hætti, en hann svaraði með bréfi dagsettu 4. nóvember 1999.  Þar segir að hann mótmæli hraðamælingunni og dragi mjög í efa áreiðanleika mælingarinnar.  Hann telji sig hafa ekið á um 100 km hraða og því hafni hann kærunni og sektarboðinu. 

 

Niðurstaða.

Verjandi ákærða hefur einkum fært fram tvö atriði til stuðnings kröfu sinni um sýknu ákærða.  Annars vegar telur hann að gegn neitun ákærða dugi ekki framburður eins lögreglumanns.  Þá telur hann vinnubrögð við skýrslugerð hafa verið vítaverð. 

Varðandi fyrra atriðið benti hann einkum á dóm Hæstaréttar 1975-952.  Þar var maður sýknaður af ákæru fyrir of hraðan akstur með svofelldum orðum héraðsdómara, en dómurinn var staðfestur í Hæstarétti:  "Gegn neitun ákærða telst vætti [lögreglumanns] eigi nægileg sönnun þess, að ákærði …". 

Samkvæmt 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála metur dómari gildi þeirra sönnunargagna og framburða vitna og ákærða sem fram koma undir rekstri máls.  Er sönnunarmatið frjálst að því leyti að ekki er bundið hvert vægi tiltekin sönnunargögn eða framburðir hafi, t.d. að framburð tveggja lögreglumanna þurfi til að sakfella gegn neitun ákærðs manns.  Framangreindur dómur verður ekki talinn fordæmi fyrir því að gegn neitun ákærða dugi ekki framburður eins lögreglumanns.  Í hverju tilviki verður að meta sönnunargildi þeirra skýrslna sem teknar eru af ákærða og vitnum og önnur þau sönnunargögn sem hugsanlega hafa verið lögð fram. 

Í áðurgreindum hæstaréttardómi háttaði svo til að lögreglumaður var einn á ferð og mældi hraða ákærða með því að halda jöfnu bili milli bifreiðanna.  Ekki er að sjá að radar hafi verið notaður.  Í því máli sem hér er dæmt er á sama hátt frásögn eins lögreglumanns, en af mælingu á hraða sem var gerð með radar.  Lögreglumaður þessi hefur lokið prófi frá Lögregluskólanum og kveðst hafa mikla reynslu af notkun radars.  Hann kveðst hafa prófað radarinn fyrir og eftir mælingu með þeim aðferðum sem viðurkenndar eru og hann lýsti nákvæmlega fyrir dómi.  Ónákvæmni í skráningu prófunartíma í radardagbók skiptir ekki máli. 

Þegar metinn er skýr framburður lögreglumannsins og neitun ákærða, sem kveðst hafa ekið á 95-100 km hraða skömmu áður og telja að hann hafi ekki aukið hraðann frá því, er komist að þeirri niðurstöðu að nægilega sé sannað að ákærði hafi ekið með 124 km hraða á klukkustund umrætt sinn eins og segir í ákæru.  Verður hann sakfelldur, en brot hans er réttilega fært til refsiákvæða.  Refsing er ákveðin 12.000 króna sekt, en vararefsing skal vera fangelsi í tvo daga.

Sakarkostnað ber ákærða að greiða.  Málsvarnarlaun eru ákveðin 55.000 krónur.

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Tómas Jónsson, greiði 12.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í tvo daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun, 55.000 krónur.