Hæstiréttur íslands
Mál nr. 26/2014
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Aðild
|
|
Miðvikudaginn
28. maí 2014. |
|
Nr. 26/2014. |
Benedikt Skarphéðinsson (Jóhannes
Bjarni Björnsson hrl.) gegn Arion banka
hf. (Karl Óttar
Pétursson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki.
Lánssamningur. Gengistrygging. Aðild
A hf. krafði B um greiðslu samkvæmt láni sem hann hafði
tekið hjá S og D hf. tók síðar yfir og framseldi til A hf. Var þess einnig
krafist að viðurkenndur yrði veðréttur í fasteign B til tryggingar láninu.
Greindi aðilana á um hvort lánið teldist lán veitt í íslenskum krónum tryggt
með gengi erlendra gjaldmiðla svo í bága færi við ákvæði 14. gr., sbr. 13. gr.
laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hæstiréttur vísaði til þess að
lánssamningur hefði komist á milli aðila með því að S hefði tekið tilboði B sem
fólst í beiðni hans um fjölmyntareiknislán að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í
íslenskum krónum. Í ljósi atvika yrði að líta svo á að í beiðni B, degi síðar,
um reiknislán í erlendum myntum, þar sem fjárhæð lánsins var tilgreind í
japönskum jenum, og staðfesting S sama dag á fjölmyntareikningsláni hefði falið
í sér samkomulag B og S um frekari útfærslu á skyldum þeirra samkvæmt þeim
lánssamningi sem áður hefði komist á. Að virtu efni skjalanna og samhengi
þeirra féllst Hæstiréttur á með héraðsdómi að lánssamningurinn hefði í upphafi
kveðið á um gilda skuldbindingu í japönskum jenum og hefði því ekki verið
breytt með þeim breytingum sem síðar hefðu verið gerðar á skilmálum lánsins.
Var B gert að greiða A hf. hina umkröfðu fjárhæð auk þess sem viðurkenndur var
veðréttur A hf. í fasteign B fyrir fjárhæðinni.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og
Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2014. Hann krefst sýknu
af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms um greiðsluskyldu áfrýjanda og
staðfestingu veðréttar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir útgáfu áfrýjunarstefnu framseldi Drómi hf. stefnda lán það er um
ræðir í málinu.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi skrifaði áfrýjandi 30. nóvember 2006
undir umsókn um lán í erlendri mynt hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis,
SPRON, sem tryggt skyldi með veði í fasteign áfrýjanda, og var umsóknin fyllt
út á þar til gert eyðublað sparisjóðsins. SPRON áritaði umsóknina samdægurs um
samþykki á sama eyðublað þar sem fram kom að upphæð lánsins væri 10.000.000
krónur og til tryggingar því væri fasteignaveð. Í samþykkinu sagði að um væri
að ræða fjölmynta reikningslán í jenum og álag á LIBOR væri 1,8%. Í framhaldi
þessa undirritaði áfrýjandi 1. desember 2006 skjal sem bar fyrirsögnina „Beiðni
um reiknislán í erlendum myntum“ þar sem sagði að hann óskaði eftir því að
SPRON veitti sér fjölmyntareiknislán að upphæð 17.152.659 japönsk jen með þeim
skilmálum að fjárhæðin yrði til reiðu á tilgreindum reikningi áfrýjanda sem var
í íslenskum krónum og skuldfærðist af honum í einu lagi ásamt vöxtum og kostnaði
á gjalddaga, að vextir yrðu 12 mánaða LIBOR að viðbættu 1,8% álagi og
lántökugjald yrði 1%.
Af hálfu sparisjóðsins var undirritað skjal 1. desember 2006 sem bar heitið
„Staðfesting á fjölmyntareikningsláni“. Þar var vísað til beiðni áfrýjanda „um
reikningslán bundið erlendum gjaldmiðlum ... og hefur SPRON samþykkt þessa
beiðni. Lánsfjárhæðin verður lögð inn á reikning ... og endurgreiðist með þeim
kjörum og skilmálum sem hér fara á eftir: ... SPRON lánar í formi fjölmyntareikningsláns
á útgáfudegi skjals þessa í eftirfarandi mynt: JPY sbr. neðar, m.v. kaupgengi
Sparisjóðabanka Íslands hf. 2 dögum fyrr.“ Í framhaldinu sagði að mynt væri
JPY, lánsfjárhæð í mynt 17.152.659, kaupgengi 1. desember 2006 0,5830, LIBOR
vextir sama dag 0,7325% og álag á LIBOR 1,8%. Þá sagði að á „gjalddaga þann 01.
desember 2007 er SPRON heimilt að skuldfæra ofangreindan reikning fyrir
andvirði lánsins í ISK að viðbættum vöxtum sem taka mið af 12 mánaða LIBOR
útlánsvöxtum ... hverrar myntar eins og þeir eru skráðir á Reuterssíðu
... um kl. 12 að hádegi að íslenskum tíma, tveimur dögum fyrir útborgunardag
láns, að viðbættu álagi sem ákveðst 1,8% eða 180 grunnpunktar. Vextir reiknast
á grundvelli actual/360 daga. Útreikningur í ISK mun
miðast við sölugengi Sparisjóðabanka Íslands hf. (SPB) á gjalddaga: Skuldari er
skuldbundinn til að hafa til ráðstöfunar á ofangreindum reikningi sínum á
gjalddaga fjárhæð er svarar til uppgreiðslu lánsins, þ.e. höfuðstóls og vaxta
auk afgreiðslugjalds skv. gjaldskrá ... Óski samningsaðili að ljúka uppgjöri
samnings þessa fyrir gjalddaga 01. desember 2007, áskilur SPRON sér rétt til að
hækka álag sitt á 12 mánaða útlánsvexti erlendra mynta, skv. LIBOR“. Þá er þess að geta að 1. desember 2006 gaf
áfrýjandi út tryggingarbréf að fjárhæð 20.500.000 japönsk jen, þar sem fram kom
að til tryggingar skuldum sínum við SPRON eða þá er síðar kynnu að eignast
tryggingarbréfið á löglegan hátt setti áfrýjandi að veði með 8. veðrétti fasteign
sína að Frostaskjóli 87 í Reykjavík, en lán þetta hvílir samkvæmt gögnum
málsins nú á 6. veðrétti eignarinnar.
Í framangreindri umsókn áfrýjanda 30. nóvember 2006 um lán í erlendri mynt
fólst tilboð um lántöku sem SPRON samþykkti með áritun sinni á skjalið og er
fallist á með héraðsdómi að með því samþykki hafi komist á lánssamningur milli
áfrýjanda og sparisjóðsins. Í ljósi atvika málsins verður að líta svo á að beiðni
sú um reiknislán í erlendum myntum, sem áður greinir frá og áfrýjandi undirritaði
1. desember 2006, og staðfesting SPRON sama dag á fjölmyntareikningsláni hafi
falið í sér samkomulag áfrýjanda og sparisjóðsins um frekari útfærslu á skyldum
þeirra samkvæmt þeim lánssamningi sem áður hafði komist á. Að virtu efni
framangreindra skjala er lánveitinguna varða og samhengi þeirra er fallist á þá
niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að lánssamningurinn hafi í upphafi kveðið á um
gilda skuldbindingu í japönskum jenum. Jafnframt verður lagt til grundvallar að
því eðli skuldbindingarinnar hafi ekki verið breytt með þeim breytingum á
skilmálum lánsins sem síðar voru gerðar og nánar greinir frá í héraðsdómi.
Verður hann því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir um greiðsluskyldu
áfrýjanda og veðrétt stefnda fyrir tildæmdri fjárhæð.
Í stefnu til héraðsdóms gerði stefnandi málsins, Drómi hf., kröfu um að
staðfestur yrði réttur sinn „til að fá gert fjárnám í veðinu fyrir skuldinni
auk dráttarvaxta og kostnaðar“ en áfrýjandi féll frá þeirri kröfu við flutnings
málsins fyrir Hæstarétti.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti
falli niður.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Benedikt Skarphéðinsson, greiði stefnda, Arion
banka hf., 25.294.835 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2010 til greiðsludags, allt
að frádreginni innborgun 29. desember 2011 að fjárhæð 10.000.000 krónur.
Staðfestur er veðréttur stefnda í fasteigninni Frostaskjól 87 í Reykjavík
samkvæmt tryggingarbréfi með þinglýsingarnúmeri R-12831/2006, útgefnu af
áfrýjanda 1. desember 2006 að fjárhæð 20.500.000 japönsk jen, fyrir tildæmdri
fjárhæð.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2013.
Mál
þetta, sem var dómtekið 19. september 2013, að loknum munnlegum málflutningi,
er höfðað af Dróma hf., kt. [...], Lágmúla 6,
Reykjavík, með stefnu birtri 10. janúar 2013, á hendur Benedikt Skarphéðinssyni,
kt. [...], Frostaskjóli 87, Reykjavík.
Dómkröfur
stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 25.294.835
kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og
verðtryggingu, frá 1. nóvember 2010 til greiðsludags, allt að frádreginni
innborgun 29. desember 2011 að fjárhæð 10.000.000 kr.
Stefnandi
krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til að þola staðfestingu á 6.
veðrétti stefnanda í fasteign að Frostaskjóli 87, Reykjavík, með fastanúmer
202-4371, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 1. desember 2006, að fjárhæð
20.500.000 japönsk jen, fyrir framangreindri skuld og að staðfestur verði með
dómi réttur stefnanda til að fá gert fjárnám í veðinu fyrir skuldinni auk
dráttarvaxta og kostnaðar.
Stefnandi
krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu samkvæmt mati
dómsins.
Dómkröfur
stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.
Stefndi
krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnanda sér að skaðlausu, að teknu
tilliti til virðisaukaskatts, í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.
II
Málsatvik
þessa máls eru að mestu óumdeild. Stefndi sótti um lán hjá Sparisjóði
Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON hf.) með lánsumsókn, dagsettri 30. nóvember
2006. Samkvæmt framlögðu afriti af umsókninni er hún handrituð á staðlað form
frá SPRON hf. Umsóknin ber yfirskriftina „Umsókn um lán í erlendri mynt“. Með
umsókninni óskaði stefndi eftir því að taka lán í erlendri mynt hjá SPRON hf.
með þeim skilmálum sem um þau giltu og hann hefði þegar kynnt sér. Fram kemur
að viðmiðunarfjárhæðin í íslenskum krónum hafi verið 10.000.000 kr., 100% í
japönskum jenum. Lánið skyldi tekið til eins árs og gjalddagi þess vera 1.
desember 2007. Til tryggingar láninu vildi stefndi veðsetja fasteign sína. Þá
óskaði stefndi eftir því að SPRON hf. millifærði greiðslur hans á afborgunum og
vöxtum af láninu af reikningi hans nr. 127. Hann skyldi ábyrgjast að ávallt
yrði næg innistæða fyrir greiðslum. Undir þetta ritar stefndi.
Stefndi
kveður að sér hafi ekki verið kynntir þeir skilmálar sem um þessi lán giltu,
hvorki þá né síðar.
Neðsti
hluti lánsumsóknarinnar er útfylltur af starfsmanni SPRON hf. Er þar merkt við
að lánsumsóknin sé samþykkt að upphæð 10.000.000 kr. með fasteignaveði.
Handskrifað stendur: „ATH. fjölm. reikningslán í
jenum.“ Jafnframt kemur fram að lánið skuli bera LIBOR-vexti með 1,8% álagi og
að lántökugjald sé 1%. Lánið skyldi greitt út 5. desember 2006. Þessi neðsti
hluti virðist undirritaður af tveimur starfsmönnum SPRON hf.
Stefndi
undirritaði aðra beiðni um reiknislán í erlendum myntum daginn eftir, 1.
desember 2006. Fram kemur á þeirri beiðni að hann óski eftir því að SPRON hf.
veiti honum fjölmyntareiknislán að upphæð 17.152.659 japönsk jen. Hann óski
eftir því að fjárhæðin verði til reiðu á reikningi hans, nr. 1150-26-000127, 5.
desember 2006 og að sami reikningur verði skuldfærður fyrir láninu ásamt vöxtum
og kostnaði á gjalddaga 1. desember 2007. Vextir skyldu vera 12 mánaða
LIBOR-vextir með 1,8% álagi og lántökugjald vera 1%. Stefndi kveður þetta skjal
hafa verið útbúið af stefnanda.
Sama
dag, 1. desember 2006, undirritaði starfsmaður SPRON hf. skjal sem ber heitið
„Staðfesting á fjölmyntareikningsláni“. Í því skjali kemur fram að SPRON hf.
hafi samþykkti beiðni stefnda um reikningslán bundið erlendum gjaldmiðlum.
Lánsfjárhæðin verði lögð inn á reikning nr. 1150-26-000127 og endurgreiðist með
þeim kjörum og skilmálum sem greint sé frá í skjalinu. Í staðfestingunni kemur
fram að SPRON hf. láni í formi fjölmyntareikningsláns á útgáfudegi skjalsins
17.152.659 japönsk jen, miðað við kaupgengi tveimur dögum fyrr. Kaupgengið
virðist þó dagsett sama dag og staðfestingin, 1. desember 2006. Jafnframt kemur
fram að á gjalddaga, 1. desember 2007, verði SPRON hf. heimilt að skuldfæra
framangreindan reikning stefndu fyrir andvirði lánsins í íslenskum krónum, að
viðbættum vöxtum sem taki mið af 12 mánaða LIBOR-vöxtum hverrar myntar að
viðbættu 1,8% álagi. Útreikningur í íslenskar krónur muni miðast við sölugengi
Sparisjóðabanka Íslands hf. á gjalddaga. Þá segir í skjalinu að skuldari sé
skuldbundinn til að hafa til ráðstöfunar á reikningi sínum á gjalddaga fjárhæð
sem svari til uppgreiðslu lánsins.
Í
framlagðri kaupnótu, útgefinni 1. desember 2006, er höfuðstóll lánsins, nr.
665, tilgreindur 17.152.659 japönsk jen og 1% lántökugjald reiknað af
höfuðstólnum þannig tilgreindum, 171.527 japönsk jen. Neðst á kaupnótunni kemur
fram að 5. desember 2006 hafi 9.896.150 kr. verið greiddar vegna lánsins.
Stefndi
gaf út tryggingarbréf til SPRON hf., 1. desember 2006, til tryggingar skilvísri
og skaðlausri greiðslu á skuldum sínum við SPRON hf., að fjárhæð 20.500.000
japönsk jen, tryggt með 8. veðrétti í fasteign stefnda að Frostaskjóli 87,
Reykjavík, með fastanúmer 202-4371. Bréfið hvílir núna á 6. veðrétti í samræmi
við framlagt veðbandayfirlit fasteignarinnar.
Í
samræmi við skilmála samningsaðila var andvirði lánsins lagt inn á
framangreindan reikning stefnda 5. desember 2006.
Stefndi
undirritaði beiðni um framlengingu láns, nr. 665, 3. desember 2007. SPRON hf.
framlengdi lánið í samræmi við beiðnina, sem einnig er undirrituð af
starfsmanni félagsins. Í stað gjalddaga lánsins 3. desember 2007 skyldi
gjalddagi höfuðstóls þess verða 1. desember 2008. Báða þessa daga skyldu
greiðast vextir af láninu. Í beiðninni kemur fram að staða lánsins hafi þann
dag verið með stöðu erlendra mynta, 17.152.659 japönsk jen. Framlengingin
miðaðist við að mynt lánsins yrði óbreytt. Fram kemur að lántakandi staðfesti
að hann hefði verið upplýstur um, og hann fyllilega skilið, að áhrif
hugsanlegra gengissveiflna gætu orðið þau að heildarskuld hans, í þeim
gjaldmiðlum sem lánið væri í, gæti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð. Sami
reikningur skyldi skuldfærður og samkvæmt upphaflegum samningi aðila. Vextir
skyldu vera 12 mánaða LIBOR-vextir með 2,3% álagi.
Stefndi
undirritaði aðra beiðni um framlengingu láns, nr. 665, 1. desember 2008. SPRON
hf. framlengdi lánið í samræmi við beiðnina, sem einnig er undirrituð af
starfsmanni félagsins. Í stað gjalddaga lánsins 1. desember 2008 skyldi
gjalddagi höfuðstóls þess verða 1. desember 2009. Báða þessa daga skyldu
greiðast vextir af láninu. Í beiðninni kemur fram að lánið hafi þann dag verið
með stöðu erlendra mynta, 17.152.659 japönsk jen. Framlengingin miðaðist við að
mynt lánsins yrði óbreytt. Sami fyrirvari er í þessari beiðni og þeirri fyrri
um áhættu af gengissveiflum. Sami reikningur skyldi skuldfærður og samkvæmt
upphaflegum samningi aðila. Vextir skyldu vera 12 mánaða LIBOR-vextir með 2,3%
álagi.
Samkvæmt
ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 var stofnað sérstakt
hlutafélag, Drómi hf., stefnandi málsins, í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og
nágrennis hf., sem tók við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum
tryggingaréttindum, þar með talið öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum
sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON um aðilaskipti að
kröfuréttindum í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.
Stefndi
undirritaði breytingu á „greiðsluskilmálum lánasamnings með erlendu
myntviðmiði“ 22. desember 2009. Skilmálabreytingarnar eru á formi útbúnu af Arion banka hf. Númer lánssamningsins, banki, höfuðbók og
númer, er á skjalinu tilgreint 0398-35-9968. Upphafleg lánsfjárhæð er tilgreind
17.152.659 japönsk jen. Með skilmálabreytingunni var áföllnum vöxtum 1.
desember 2009 bætt við höfuðstól lánsins sem varð þá, þann dag, 17.749.819
japönsk jen. Nýr gjalddagi skyldi vera 1. apríl 2010. Sami reikningur skyldi
skuldfærður og samkvæmt upphaflegum lánssamningi og vextir áfram vera
LIBOR-vextir, en með 2,5% álagi frá 1. desember 2009. Að öðru leyti skyldu
ákvæði lánssamnings aðila haldast óbreytt. Skjalið er einnig undirritað af
starfsmanni Arion banka hf. Fram kemur að Arion banki hf. geri þessa skilmálabreytingu samkvæmt
umboði og heimild í samningi milli skilanefndar SPRON og Arion
banka hf.
Stefndi
undirritaði aðra breytingu á „greiðsluskilmálum lánasamnings með erlendu
myntviðmiði“ 12. maí 2010. Skilmálabreytingarnar eru á formi útbúnu af Arion banka hf. Númer lánssamningsins, banki, höfuðbók og
númer, er á skjalinu tilgreint 0398-35-9968. Upphafleg lánsfjárhæð er tilgreind
17.152.659 japönsk jen. Einnig kemur fram að staða lánsins 6. apríl 2010 hafi
verið 17.750.499 japönsk jen. Með skilmálabreytingunni var greiðslu afborgana
og vaxta frestað til 1. nóvember 2010. Sami reikningur skyldi skuldfærður og
samkvæmt upphaflegum lánssamningi og vextir skyldu vera óbreyttir frá fyrri
skilmálabreytingu. Að öðru leyti skyldu ákvæði lánssamnings aðila haldast
óbreytt. Skjalið er einnig undirritað af starfsmanni Arion
banka hf. Fram kemur að Arion banki hf. geri þessa
skilmálabreytingu samkvæmt umboði og heimild í samningi milli skilanefndar
SPRON og Arion banka hf.
Stefndi
kveðst hafa sett sig í samband við starfsmann Arion
banka hf. þegar líða hafi tekið að endanlegum gjalddaga lánsins. Sjá megi af
framlögðum tölvupóstsamskiptum að stefndi hafi tvívegis gert slitastjórn SPRON
hf., nú stefnanda, tilboð um uppgjör lánsins. Kveði stefndi að samkvæmt
framangreindum starfsmanni Arion banka hf. hafi
slitastjórn SPRON hf. í báðum tilvikum hafnað tilboðunum. Stefndi hafi svo sent
sama starfsmanni bréf 11. janúar 2011 og óskað eftir því að lánið yrði
uppreiknað í samræmi við lög nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001 um
vexti og verðtryggingu. Stefndi hafi gert ráð fyrir að ganga frá uppgjöri
lánsins í framhaldi af endurútreikningi þess en ekki hafi verið orðið við ósk
hans þar um.
Stefndi
greiddi 10.000.000 kr. vegna lánsins 29. desember 2011.
Stefnandi
sendi stefnda innheimtubréf, dagsett 26. september 2012, til innheimtu
eftirstöðva skuldarinnar, vaxta og kostnaðar. Lögmaður stefnda svaraði
stefnanda með bréfi, dagsettu 24. október sama ár, og reifaði þar sjónarmið
stefnda. Hann óskaði jafnframt eftir því að farið yrði með lán stefnda sem lán
í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Ekki var orðið við því af
hálfu stefnanda.
Í
málsatvikakafla greinargerðar stefnda kemur fram að í stefnu sé ekki getið um
skuldabréf, útgefið 30. nóvember 2007, sem stefndi hafi gefið út til greiðslu
upphaflegs láns. Óljóst sé um afdrif skuldabréfsins. Stefndi skorar þar á stefnanda
að leggja fram frumrit skuldabréfsins auk annarra gagna sem tengist bréfinu
ásamt því að veita upplýsingar sem geti varpað ljósi á ástæður að baki útgáfu
skuldabréfsins og á afdrif þess. Í bókun stefnanda í þinghaldi 12. mars 2013 kemur
fram að í gögnum stefnanda, sem áður hafi tilheyrt SPRON hf., finnist hvorki
frumrit né afrit framangreinds skuldabréfs. Engin kaup vegna bréfsins séu skráð
í kerfi félagsins og engin krafa sé skráð á stefnda vegna þess í lánakerfum. Af
því leiði að SPRON hf. hafi aldrei keypt skuldabréfið af stefnda.
III
Stefnandi
byggir kröfur sínar á ákvæðum framangreinds lánssamnings milli aðila málsins,
tryggingarbréfum og viðaukum, almennum reglum samninga- og kröfuréttar um
skuldbindingargildi loforða og greiðslu skulda. Stefndi hafi lofað að greiða
skuldina á gjalddaga og skuldbundið sig til þess að hafa á gjalddaga til
ráðstöfunar á reikningi sínum fjárhæð sem svaraði til uppgreiðslu lánanna, það
er, höfuðstóls og vaxta auk afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá í íslenskum krónum.
Skuld samkvæmt lánssamningi nr. 9968 hafi verið í vanskilum frá 1. nóvember
2010. Innheimtuaðgerðir hafi engan árangur borið og því sé málshöfðun
nauðsynleg.
Krafa
stefnanda sundurliðist þannig:
|
Höfuðstóll í
japönskum jenum |
17.750.499 |
|
Samningsvextir
í japönskum jenum |
530.739 |
|
Samtals skuld
í japönskum jenum |
18.281.238 |
Á
gjalddaga lánsins 1. nóvember 2010 hafi sölugengi japansks jens verið skráð
1,38365. Samtals nemi því krafa stefnanda vegna lánsins 25.294.835 kr. og sé
það stefnukrafa málsins. Krafan beri vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu frá gjalddaga 1. nóvember 2010 til
greiðsludags. Hinn 29. desember 2011 hafi 10.000.000 kr. verið greiddar og sé
þeirrar innborgunar getið í kröfugerð stefnanda.
Stefnanda
beri nauðsyn til að fá veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi, dagsettu 1. desember
2006, staðfestan með dómi til þess að geta gengið að hinni veðsettu eign. Því
krefjist stefnandi þess jafnframt að stefndi verði dæmdur til að þola
staðfestingu á veðrétti og að staðfestur verði með dómi réttur stefnanda til að
fá gert fjárnám fyrir skuldinni, auk dráttarvaxta og kostnaðar.
Stefnandi
byggir kröfu sína um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála og kröfu um dráttarvexti á ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 um
vexti og verðtryggingu.
IV
Stefndi
byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi þegar greitt að fullu þá skuld sem
stefnandi krefji hann um greiðslu á. Krafa stefnanda sé þannig niður fallin.
Verði talið að málsástæður stefnda leiði ekki til sýknu krefst stefndi þess að
krafa stefnanda verði lækkuð verulega með tilliti til málsatvika og málsástæðna
stefnda.
Stefndi
kveður skuldina, sem stefnandi krefji hann um greiðslu á, vera vegna láns í
íslenskum krónum sem hafi verið bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með
ólögmætum hætti. Lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu heimili ekki að lán
í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra
gjaldmiðla. Samkvæmt 2. gr. laganna séu ákvæði 13. gr. og 14. gr. þeirra ófrávíkjanleg
og ekki verði samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum.
Ákvæði samnings aðila málsins um gengistryggingu hafi verið í andstöðu við fyrirmæli
laga nr. 38/2001 og séu því óskuldbindandi fyrir stefnda. Stefndi hafi að fullu
greitt stefnanda með innborgun 29. desember 2011, sem hafi svarað til fjárhæð
skuldarinnar á þeim tíma, endurreiknaðri án hinnar ólögmætu gengistryggingar.
Samkvæmt
dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands ráðist það, hvort skuldbinding sé í íslenskum
krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, eða í erlendum myntum, öðru
fremur af skýringu á texta viðkomandi samnings sem lýsi skuldbindingu lántaka.
Skipti þá mestu sú fjárhæð sem sé tilgreind beint eða óbeint í samningnum. Dugi
orðalag samnings um skuldbindingu ekki eitt og sér til að komast að niðurstöðu
um gjaldmiðil hennar hafi Hæstiréttur Íslands talið að gæta verði að því
hvernig ákvæðum samningsins um efndir aðila hafi verið háttað og hvernig hafi
verið staðið að þeim í raun.
Öll
skjöl málsins séu samin einhliða af SPRON hf. sem hafi verið lánastofnun og því
verði að skýra allan vafa, sem kunni að vera í samningi aðila, stefnda í hag,
meðal annars í samræmi við 36. gr. b samningalaga nr. 7/1936.
Með
lánsumsókn 30. nóvember 2006 hafi komist á samningur milli aðila. Í umsókninni
komi fram að stefndi hafi óskað eftir að taka lán að fjárhæð 10.000.000 kr. sem
skyldi bundið við gengi japanskra jena. Stefndi hafi óskað eftir því að
afborganir yrðu skuldfærðar af reikningi hans hjá SPRON hf. í íslenskum krónum.
Í umsókninni sé undirritað samþykki SPRON hf. við lánsumsókn stefnda, dagsett
sama dag. Í samþykki SPRON hf. komi fram að samþykkt sé lán að upphæð
10.000.000 kr. Stefndi telur að þetta bendi til þess að skuldbindingin hafi
verið ákveðin í íslenskum krónum bundin við gengi japanskra jena.
Stefndi
telur að skjal, undirritað 1. desember 2006, hafi ekki falið í sér beiðni um
reikningslán því fyrir hafi legið að degi fyrr hafi þegar verið samþykkt beiðni
stefnda um slíkt lán. Ekki sé vitað til þess að beiðnin frá 1. desember 2006
hafi komið til afgreiðslu innan SPRON hf. eða farið fyrir lánanefnd. Slíkt
hefði enda verið tilgangslaust þar sem beiðni stefnda frá 30. nóvember 2006
hafi verið samþykkt.
Að
því leyti sem skilmálar lánsins komi ekki fram í samþykktri lánsumsókn verði að
ætla að þeir birtist í staðfestingu SPRON hf. á láninu. Staðfestingin beri með
sér að lánið hafi verið gengistryggt en ekki í erlendum myntum. Í
staðfestingunni sé vísað til beiðni stefnda um reikningslán „bundið erlendum
gjaldmiðlum“. Jafnframt segi að lánsfjárhæðin verði lögð inn á reikning, sem
óumdeilt sé að sé tékkareikningur stefnda í íslenskum krónum. Stefndi telur
ljóst að samkvæmt staðfestingunni skyldi lánið greitt út og endurgreitt í
íslenskum krónum. Þau kjör og skilmálar sem vísað sé til um endurgreiðslu
lánsins feli í sér að lánið hafi verið gengistryggt. Staðfestingin hafi kveðið
á um að SPRON hf. lánaði stefnda 10.000.000 íslenskra króna og að lánið skyldi
gengistryggt miðað við gengi japanskra jena, þannig að við útborgun lánsins
yrði lánsfjárhæðin í mynt, 17.152.659 japönsk jen, miðað við kaupgengi 1.
desember 2006, 0,5830. Á gjalddaga 1. desember 2007 skyldi stefndi endurgreiða
í íslenskum krónum fjárhæð sem svaraði til andvirðis 17.152.659 japanskra jena
miðað við sölugengi Sparisjóðsbanka Íslands á gjalddaga.
Í
framlögðum beiðnum stefnda um framlengingu á láninu, frá 3. desember 2007 og 1.
desember 2008, óski stefndi eftir því að SPRON hf. framlengi lánið um ár þannig
að vextir greiðist á framlengingardegi og á nýjum gjalddaga. Í beiðnunum komi
fram staða lánsins í erlendri mynt. Tilgreind fjárhæð sé 17.152.659 japönsk
jen. Fram komi að framlenging lánsins miðist við óbreyttar myntir. Þá komi fram
að lántakandi staðfesti að hann hafi verið upplýstur um og hafi fyllilega skilið
að áhrif hugsanlegra gengissveiflna gætu orðið þau að heildarskuld hans í
gjaldmiðlum lánsins gæti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð. Þessi skjöl hafi
verið samin einhliða af SPRON hf. Framangreint bendi til þess að upphafleg
lánsfjárhæð hafi verið í íslenskum krónum og að hún hafi verið bundin við gengi
japanskra jena og því hafi lánið verið með ólögmætri gengistryggingu.
Stefndi
telur í öllu falli ljóst að tilvísun til japanskra jena í samningi aðila sé
ekki nægileg til þess að stefnandi teljist eiga kröfu á hendur stefnda í þeim
gjaldmiðli. Verði ekki fallist á það með stefnda að ráða megi af tilgreiningu á
skuldbindingu aðila að hún sé í íslenskum krónum verði, með vísan til
dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands, að gæta að því hvernig efndum aðila samkvæmt
ákvæðum samningsins hafi verið háttað og hvernig að þeim hafi verið staðið í
raun. Ljóst sé að öll gögn sem tengist lánveitingunni beri með sér að láninu
skyldi ráðstafað inn á íslenskan tékkareikning stefnda og að sami reikningur
skyldi skuldfærður fyrir greiðslum afborgana og vaxta. Sú hafi og verið raunin
að stefndi hafi fengið 9.896.150 íslenskar krónur greiddar inn á íslenskan
tékkareikning þegar lánið hafi verið greitt út. Þá hafi stefndi greitt vexti af
láninu í íslenskum krónum. Báðir aðilar hafi því efnt skyldur sínar samkvæmt
samningnum í íslenskum krónum og það verið í samræmi við ákvæði samningsins um
efndir.
Að
öllu framangreindu virtu telji stefndi ljóst að skuldin sem stefnandi krefji
hann um sé vegna láns í íslenskum krónum, bundið með ólögmætum hætti við gengi
japanskra jena.
Stefndi
telur sig hafa greitt að fullu skuld sína við stefnanda með innborgun 29.
desember 2011, sé skuldin á þeim tíma endurreiknuð án hinnar ólögmætu gengistryggingar.
Dómkröfur stefnanda og allur málatilbúnaður hans sé byggður á því að
skuldbinding stefnda sé vegna lögmæts láns í erlendri mynt. Í stefnu sé ekki
gerð krafa til vara um að stefndi verði dæmdur til að greiða tiltekna fjárhæð
sem kynni að standa eftir af skuld stefnda sé fallist á málsástæður stefnda um
að lánið hafi verið gengistryggt með ólögmætum hætti. Fari svo að málsástæður
stefnda verði teknar til greina byggir stefndi á því að vegna þessara annmarka
á málatilbúnaði stefnanda beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Verði
ekki fallist á að sýkna beri stefnda vegna annmarka á málatilbúnaði stefnanda
byggir stefndi á því að tvær síðustu vaxtaskuldbindingar samkvæmt láninu séu
óskuldbindandi fyrir stefnda á grundvelli reglna um brostnar forsendur og III.
kafla samningalaga nr. 7/1936. Ástæða þess að stefndi hafi óskað eftir því að
framlengja lánið hafi verið sú að greiðsluskylda hans hafði margfaldast sökum
hinnar ólögmætu gengistryggingar. Stefndi hafi því ekki haft fjárhagslegt
bolmagn til að greiða lánið á gjalddögum 1. desember 2008 og 1. desember 2009.
Stefndi hafi því óskað eftir framlengingu lánsins á framangreindum gjalddögum
til að ráða bót á fjárhag sínum svo hann gæti efnt skuldbindingu sína. Stefnda
hafi verið veittur þessi frestur en í staðinn hafi hann þurft að greiða tvær
vaxtagreiðslur í viðbót þar sem vextir skyldu greiðast á framlengingardögum og
nýjum gjalddögum. Fyrri greiðslan hafi verið hnýtt við höfuðstól lánsins 1.
desember 2009. Síðari greiðslan sé útistandandi miðað við gjaldfellingu lánsins
1. nóvember 2010. Verði komist að þeirri niðurstöðu að lán stefnda hjá
stefnanda hafi verið gengistryggt með ólögmætum hætti byggir stefndi á því að
forsendur hafi brostið fyrir beiðnum hans til framlengingar lánsins og fyrir
því að hann hafi greitt áfram vexti af láninu. Það hafi verið ákvörðunarástæða
og veruleg forsenda stefnda fyrir framlengingum að lánið væri lögmætt. Hefði
stefndi vitað að lánið væri gengistryggt með ólögmætum hætti og höfuðstóll þess
þar af leiðandi lægri í íslenskum krónum hefði stefndi ekki framlengt lánið á
fyrrgreindum dögum og haldið áfram að greiða af því vexti. Þvert á móti hefði
stefndi greitt lánið á gjalddaga 1. desember 2008. Þetta hafi stefnandi mátt
vita. Stefnandi hafi einnig mátt vita að gengistrygging lánsins hafi verið
ólögmæt. Sömu kröfur verði ekki gerðar til vitneskju stefnda vegna augljóss
aðstöðumunar á honum og stefnanda.
Stefndi
telur að stefnandi verði að bera hallann af hinni ólögmætu gengistryggingu og
að það hvíli á stefnanda að sýna fram á að stefndi hefði framlengt lánið þrátt
fyrir að höfuðstóll lánsins hefði ekki verið gengistryggður. Stefndi telur að
með tilboði sínu 27. apríl 2010 um 19.000.000 kr. lokagreiðslu og innborgun 29.
desember 2011 hafi hann sýnt það í verki að hann hefði getað borgað lánið á
gjalddaga 1. desember 2008 hefði höfuðstóll þess ekki verið bundinn með
ólögmætum hætti við gengi japanskra jena. Í öllu falli hafi stefndi sýnt fram á
að hann hefði getað borgað lánið á gjalddaga 1. desember 2009. Verði ekki
fallist á að forsendur hafi brostið fyrir framlengingu lánsins á gjalddaga 1.
desember 2008 byggir stefndi á því að forsendur hafi að minnsta kosti brostið
fyrir vaxtagreiðslu sem hafi verið útistandandi þegar lánið hafi fallið í
gjalddaga 1. nóvember 2010.
Með
vísan til framangreinds telji stefndi að 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr.
36. gr. c sömu laga, leiði til sömu niðurstöðu. Stefndi telji ljóst með
hliðsjón af stöðu samningsaðila og atvika við og eftir samningsgerðina að
ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnanda að krefja
stefnda um tvær síðustu vaxtaskuldbindingarnar með gjalddaga 1. desember 2009
og 1. nóvember 2010.
Stefndi
mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda og krefst þess að hann verði
sýknaður af henni. Með vísan til framangreinds telji stefndi slíkan annmarka á
málatilbúnaði stefnanda að sýkna beri stefnda af öllum kröfum hans, þar á meðal
kröfu um dráttarvexti. Verði ekki fallist á þá kröfu stefnda byggi stefndi á
því að það hafi verið atvik sem hafi varðað stefnanda sem hafi valdið því að
greiðsla hafi ekki verið innt af hendi á réttum tíma og því beri að hafna kröfu
stefnanda um dráttarvexti. Það sé meginregla í kröfurétti, sbr. 7. gr. laga nr.
38/2001, að valdi atvik, sem kröfuhafa og skuldara verði ekki um kennt, því að
greiðsla fari ekki fram skuli ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem
greiðsludráttur verði af þeim sökum. Í fyrsta lagi verði stefnanda um kennt að
hafa veitt stefnda lán sem hafi með ólögmætum hætti verið bundið við gengi
japanskra jena. Þetta hafi haft áhrif á öll síðari samskipti aðila og hafi
stefndi ekki viljað greiða lánið að fullu með eingreiðslu á gjalddaga líkt og
gengistryggingin væri lögmæt. Til þess hefði stefndi ekki haft fjárhagslegt
bolmagn og hafi stefnanda mátt vera það ljóst. Stefndi hafi sýnt það í verki að
hann hefði greitt lánið á gjalddaga ef ekki hefði verið fyrir hina ólögmætu
gengistryggingu. Í annan stað hafi stefndi oftar en einu sinni gert stefnanda
löglegt greiðslutilboð sem hafi numið hærri fjárhæð en stefnda hafi borið að
greiða miðað við að lán hans hjá stefnanda væri ólögmætt. Þetta hafi stefndi
gert þrátt fyrir að vera í afar íþyngjandi samningssambandi við stefnanda.
Þannig hafi stefndi boðist til þess að greiða slitastjórn SPRON hf. 19.000.000
kr. lokagreiðslu sem slitastjórnin hafi hafnað, sbr. framlagðan tölvupóst
dagsettan 27. apríl 2010. Í kjölfar þess hafi stefndi lagt fram útfært tilboð í
þeirri viðleitni að greiða skuld sína eins og fram komi í fyrrgreindum
tölvupósti. Þessu tilboði hafi slitastjórnin einnig hafnað. Stefndi telur að
framangreind tilboð hafi uppfyllt öll skilyrði löglegs greiðslutilboðs.
Sönnunarbyrðin um annað hvíli á stefnanda. Það sé því ljóst að stefnda verði
ekki kennt um greiðsludráttinn og að ekki beri að reikna dráttarvexti af kröfu
stefnanda.
Með
vísan til framangreinds byggi stefndi einnig á því að það væri ósanngjarnt og
andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnanda að bera dráttarvextina fyrir
sig. Þeir séu því óskuldbindandi fyrir stefnda, sbr. 36. gr. og 36. gr. c
samningalaga nr. 7/1936.
Af
framangreindu leiði að einnig beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um
staðfestingu á veðrétti.
Um
lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum
2., 7., 13., 14. og 18. gr. þeirra. Einnig vísar stefndi til meginreglna
samninga- og kröfuréttar og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda
löggerninga, einkum III. kafla laganna. Stefndi byggir auk þess á reglum
kröfuréttar um að kröfuhafi glati frekari kröfum með útgáfu fullnaðarkvittana.
Stefndi vísar jafnframt til dóma Hæstaréttar Íslands sem hafa gengið um ólögmæt
gengistryggð lán.
Kröfu
um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála.
V
Í máli
þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu eftirstöðvar skuldar á grundvelli lánssamnings
aðila. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort skilmálar samningsins feli í sér að
lánið sé í erlendri mynt eða í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra
gjaldmiðla með ólögmætum hætti, samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001
um vexti og verðtryggingu.
Samkvæmt
dómum Hæstaréttar Íslands verður við úrlausn framangreinds ágreiningsefnis
fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til
grundvallar skuldbindingum. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig skuldbindingin
sjálf er tilgreind í þeim gerningum og skal þá litið til heitis samnings eða
skuldabréfs, tilgreiningu lánsfjárhæðar og hvort vaxtakjör séu í samræmi við
það að lán sé í erlendri mynt.
Stefndi
þessa máls skrifaði undir umsókn til SPRON hf. um lán í erlendri mynt 30.
nóvember 2006. Verður að líta svo á að lánssamningur hafi komist á milli
stefnda og SPRON hf. þann sama dag enda kemur fram á umsókninni að hún hafi þá
verið samþykkt af starfsmanni eða starfsmönnum SPRON hf. Tvö skjöl voru gefin
út vegna lánveitingarinnar daginn eftir, 1. desember 2006, og fjórar
skilmálabreytingar gerðar á árunum 2007-2010. Framangreind umsóknin er „um lán
í erlendri mynt“, fram kemur að viðmiðunarfjárhæð lánsins sé 10.000.000 kr. og
hlutfall erlendra mynta sé 100% japönsk jen. Lánið skyldi bera LIBOR-vexti með
1,8% álagi. Þá skyldi tékkareikningur stefnda í íslenskum krónum skuldfærður
fyrir afborgunum og vöxtum af láninu.
Daginn
eftir að lánsumsókn stefnda var samþykkt undirritaði hann aðra beiðni „um
reiknislán í erlendum myntum“. Í þeirri beiðni kemur fram að stefndi óski eftir
því að honum verði veitt lán að upphæð 17.152.659 japanskra jena, vextir verði
12 mánaða LIBOR-vextir með 1,8% álagi og lántökugjald verði 1%. Í framlagðri
kaupnótu, útgefinni 1. desember 2006, kemur fram að lánsfjárhæðin sé 17.152.659
japönsk jen og 1% lántökugjaldið, sem er reiknað af þeirri fjárhæð, er einnig
tilgreint 171.527 japönsk jen. Ekki kemur fram á kaupnótunni hvaða dag
myntgengið er miðað við en í staðfestingu starfsmanns SPRON hf. á láninu,
dagsettri 1. desember 2006, er kaupgengið dagsett þann sama dag. Í
staðfestingunni er jafnframt kveðið á um að útreikningur í íslenskar krónur
muni miðast við sölugengi Sparisjóðabanka Íslands hf. á gjalddaga.
Staðfestingin er ekki undirrituð af stefnda en hann byggir hins vegar á því í
greinargerð málsins að skilmálar hennar séu hluti af samningi aðila og verður
því við það miðað. Ekki er um það deilt að stefndi fékk lánið greitt út í
íslenskum krónum.
Með
tveimur staðfestum beiðnum um framlengingu á lánstímanum, dagsettum 3. desember
2007 og 1. desember 2008, var gjalddagi lánsins færður aftur um eitt ár og
skyldu vextir, í báðum tilfellum, greiðast bæði á upphaflegum og nýjum
gjalddaga. Vextir skyldu áfram vera 12 mánaða LIBOR-vextir en með 2,3% álagi. Í
beiðnunum kemur upphæð lánsins í íslenskum krónum ekki fyrir en staða þess er
tilgreind 17.152.659 japönsk jen. Upphæð lánsins í japönskum jenum var því, í
báðum framlengingarbeiðnum, óbreytt frá upphaflegri lánsfjárhæð í sömu mynt. Í
beiðnunum kemur fram að lántakandi staðfesti að hann hefði verið upplýstur um
og skilji fyllilega að áhrif hugsanlegra gengissveiflna geti orðið þau að
heildarskuld hans í gjaldmiðlum lánsins geti orðið hærri en upphafleg
lánsfjárhæð. Þá skyldi sami reikningur og áður, tékkareikningur stefnda í
íslenskum krónum, vera skuldfærður fyrir láninu, ásamt vöxtum og kostnaði.
Með
tveimur skuldbreytingum, undirrituðum af stefnda og starfsmönnum Arion banka hf., samkvæmt umboði, var skilmálum
lánssamnings aðila breytt. Fyrri skuldbreytingin er undirrituð 22. desember
2009 og ber fyrirsögnina „Breyting á greiðsluskilmálum lánasamnings með erlendu
myntviðmiði“. Í fyrri skjölum hafði verið vísað til láns nr. 665 en í þessari
skuldbreytingu er vísað til lánasamnings með númer sem miðast við banka,
höfuðbók og númer. Höfuðbókin er nr. 35 sem eru reikningar í erlendum myntum. Í
skjalinu er lánsfjárhæðin hvergi tilgreind í íslenskum krónum en upphafleg
lánsfjárhæð tilgreind 17.152.659 japönsk jen. Með skilmálabreytingunni var
áföllnum vöxtum 1. desember 2009 bætt við höfuðstól lánsins sem var þá þann
dag, 17.749.819 japönsk jen. Nýr gjalddagi skyldi vera 1. apríl 2010. Sami
reikningur skyldi skuldfærður og samkvæmt upphaflegum lánssamningi og vextir
skyldu áfram vera LIBOR-vextir en með 2,5% álagi frá 1. desember 2009. Að öðru
leyti skyldu ákvæði lánssamnings aðila haldast óbreytt. Í skjalinu er enginn
fyrirvari um áhættu af gengissveiflum líkt og í fyrri skilmálabreytingum
lánssamningsins og hvergi fjallað um að við afborganir og greiðslu vaxta skuli
miðað við gengi á tilteknum degi. Eina viðmiðunin í þeim efnum er það sem fram
kemur á framangreindri staðfestingu starfsmanns SPRON hf. frá 1. desember 2006
um að útreikningur í íslenskar krónur muni miðast við sölugengi Sparisjóðsbanka
Íslands hf. á gjalddaga. Skuldbreytingin sem er undirrituð 12. maí 2010 er eins
að öðru leyti en því að fram kemur að höfuðstóll lánsins hafi 6. apríl 2010
verið, að viðbættum áföllnum vöxtum, orðinn 17.750.499 japönsk jen og að
greiðslu afborgana og vaxta sé frestað til 1. nóvember 2010.
Með
þessum síðastnefndu skilmálabreytingum frá 22. desember 2009 og 12. maí 2010
sömdu aðilar að lánssamningnum um breytingu á greiðsluskilmálum samningsins.
Fyrirsögn skilmálabreytinganna gefur til kynna að lán samkvæmt samningi aðila
sé í íslenskum krónum með erlendu myntviðmiði. Hins vegar kemur fjárhæð
skuldbindingar stefnda skýrt fram í samningsákvæðum skilmálabreytinganna.
Fjárhæð höfuðstóls lánsins er tilgreind í japönskum jenum án nokkurrar
tilvísunar til íslenskrar krónu eða jafnvirðisviðmiðunar við hana. Er það í
samræmi við tilgreiningu höfuðstóls í fyrri samningum aðila um skilmálabreytingar
lánsins. Lánið bar frá upphafi og eftir skilmálabreytingarnar LIBOR-vextir með
tilgreindu álagi og þykir það renna frekari stoðum undir það að lánið hafi
verið í japönskum jenum en ekki í íslenskum krónum. Þá er enginn fyrirvari í
skilmálabreytingunum um áhættu af gengissveiflum en áfram miðað við það að við
afborganir og greiðslu vaxta skyldi útreikningur í íslenskar krónur miðast við
sölugengi á gjalddaga. Enn fremur eru áfallnir vextir í báðum tilvikum
reiknaðir út í japönskum jenum og felldir við höfuðstól lánsins, einnig í
japönskum jenum.
Þegar
samningur aðila með framangreindum skilmálabreytingum er virtur í heild sinni,
verður að líta svo á að hann kveði ótvírætt á um gilda skuldbindingu í
japönskum jenum.
Stefndi
byggir meðal annars á því að hann hafi samkvæmt tilgreindum reikningi í
lánssamningi aðila, sem og í raun, fengið lánið greitt út í íslenskum krónum.
Sami reikningur, tékkareikningur í íslenskum krónum, skyldi skuldfærast fyrir
afborgunum og vöxtum af láninu og hann hafi í raun, samkvæmt framlögðum gögnum,
greitt vexti af láninu í íslenskum krónum. Báðir aðilar skyldu því og hafi í
raun efnt skyldur sínar samkvæmt samningi þeirra í íslenskum krónum. Af dómum
Hæstaréttar Íslands, meðal annars frá 2. maí 2013 í máli nr. 715/2012, verður
hins vegar ályktað að ekki skipti máli þótt greiðslur fari fram í íslenskum
krónum þegar skýrt komi fram í lánssamningi að skuldin sé í erlendri mynt og
haggar sú greiðslutilhögun því ekki fyrrgreindri niðurstöðu.
Málsástæður
stefnda sem lúta að því að ógilda beri eða lækka tvær síðustu
vaxtaskuldbindingar lánsins og málsástæður hans sem varða dráttarvaxtakröfu
stefnanda byggja á því að lánssamningur aðila sé um lán í íslenskum krónum
bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Þar sem komist hefur
verið að þeirri niðurstöðu að lánssamningur aðila kveði á um gilda
skuldbindingu í japönskum jenum koma þessar málsástæður ekki til skoðunar.
Með
vísan til framangreindrar niðurstöðu verður staðfestur veðréttur stefnanda í
fasteigninni að Frostaskjóli 87, Reykjavík, með fastanúmer 202-4371, samkvæmt
tryggingarbréfi útgefnu 1. desember 2006, í samræmi við dómkröfur málsins, og
réttur hans til að fá gert fjárnám í veðinu.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til þess að greiða
stefnanda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 500.000 kr. Við ákvörðun
málskostnaðar var tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða
virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Dóminn kveður upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Benedikt Skarphéðinsson, greiði stefnanda, Dróma hf., 25.294.835
kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og
verðtryggingu, frá 1. nóvember 2010 til greiðsludags, allt að frádreginni
innborgun 29. desember 2011 að fjárhæð 10.000.000 kr.
Staðfestur
er 6. veðréttur stefnanda í fasteigninni að Frostaskjóli 87, Reykjavík, með
fastanúmer 202-4371, samkvæmt tryggingarbréfi, með þinglýsingarnúmer
R-12831/2006, útgefnu af stefnda 1. desember 2006, að fjárhæð 20.500.000
japönsk jen, fyrir tildæmdri fjárhæð. Staðfestur er réttur stefnanda til að fá
gert fjárnám í veðinu fyrir tildæmdri fjárhæð, dráttarvöxtum og kostnaði.
Stefndi
greiði stefnanda 500.000 kr. í málskostnað.