Hæstiréttur íslands

Mál nr. 586/2014


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • XVII. kafli laga nr. 91/1991


                                     

Fimmtudaginn 19. mars 2015.

Nr. 586/2014.

Gissur Tryggvason

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Olíuverzlun Íslands hf.

(Eyvindur Sólnes hrl.)

Skuldabréf. XVII. kafli laga nr. 91/1991.

G gaf út skuldabréf að fjárhæð 20.000.000 krónur til handhafa í júlí 2003. Var skuldabréfið ekki greitt á gjalddaga í júlí 2006, en G greiddi tvisvar inn á skuldina og ráðstafaði O hf. innborgununum til greiðslu vaxta samkvæmt samningnum. O hf. höfðaði mál til heimtu skuldarinnar 15. október 2012 en málið var fellt niður 18. febrúar 2013. Í kjölfarið sendi O hf. aðfararbeiðni til sýslumanns, sem ákvað að gerðin færi ekki fram þar sem ekki væri fyrir hendi gild aðfararheimild. Höfðaði O hf. á ný mál 28. september 2013 til heimtu skuldarinnar. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var skuldabréfið talið vera í réttu formi og krafa samkvæmt því ekki fyrnd. Jafnframt var fallist á með O hf. að tvær innborganir G hefðu farið til greiðslu vaxta en ekki til lækkunar á höfuðstól, en það hefði O hf. verið heimilt. Þá fengu málsástæður G er lutu að lögskiptum milli aðila ekki komist að í málinu, sbr. 1. og 3. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991. Var G gert að greiða O hf. hina umkröfðu fjárhæð ásamt dráttarvöxtum frá 28. september 2009, en krafa O hf. um dráttarvexti fyrir það tímamark var á hinn bóginn talin fyrnd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. september 2014. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en að því frágengnu að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Verði ekki á þetta fallist krefst hann sýknu að svo stöddu af kröfu stefnda, en ella að hún verði lækkuð og „höfuðstóll verði kr. 6.827.313 að teknu tilliti til innborgana 28. september 2006 kr. 4.066.385, 25. apríl 2007 kr. 5.000.000 og innborgunar að fjárhæð kr. 4.106.302 og að dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en frá dómsuppsögu, en til vara frá þingfestingardegi.“ Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi mál þetta til heimtu skuldabréfs að fjárhæð 20.000.000 krónur útgefnu af áfrýjanda til handhafa 16. júlí 2003. Í bréfinu sagði að vextir af því reiknuðust frá 26. júlí 2002 en gjalddagi bréfsins var tilgreindur 26. júlí 2006 með einni afborgun. Samkvæmt þessu getur það ekki haggað gildi bréfsins þótt það hafi verið gefið út eftir tilgreindan upphafsdag vaxta og í því segði að fjöldi mánaða væri 48 milli afborgana. Verður heldur ekki fallist á það með áfrýjanda að vaxtaákvæði bréfsins séu óljós. Að þessu gættu eru engir þeir ágallar á bréfinu að mál til heimtu þess verði ekki rekið eftir reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Krafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á því að stefndi hafi frá öndverðu verið eigandi bréfsins og því þurfi hann að sæta að áfrýjandi komi að öllum mótbárum. Heimild til að hafa varnir uppi í skuldabréfamálum er takmörkuð samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991 og breytir engu í því tilliti þótt upphaflegur eigandi bréfsins hafi höfðað málið. Kröfu áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms verður því hafnað.  

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Gissur Tryggvason, greiði stefnda, Olíuverzlun Íslands hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014.

Mál þetta höfðaði Olíuverzlun Íslands h.f., kt. [...], Höfðatorgi, Höfðatúni 2, Reykjavík, með stefnu birtri 28. september 2013 á hendur Gissuri Tryggvasyni, kt. [...], Laufásvegi 15, Stykkishólmi.  Málið var dómtekið 23. maí sl. 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 20.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. október 2008 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar. 

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Til vara krefst hann lækkunar á stefnukröfu, a.m.k. sem svari til innborgana á skuldina sem námu 4.066.385 krónum þann 28. desember 2006 og 5.000.000 króna þann 25. apríl 2007. 

Í greinargerð krafðist stefndi frávísunar málsins en þeirri kröfu var hafnað í úrskurði 20. desember 2013. 

Stefnandi krefst greiðslu samkvæmt skuldabréfi, sem stefndi gaf út til hand­hafa þann 16. júlí 2003.  Í stefnu segir raunar að stefnandi hafi verið upphaflegur kröfuhafi.  Bréfið er að höfuðstól 20.000.000 króna og skyldi greiðast á einum gjald­daga, 26. júlí 2006.  Skuldin skyldi bera vexti, kjörvexti óverðtryggðra lána „samkvæmt útreikningi“ Landsbanka Íslands.  Skyldu þeir reiknast frá 26. júlí 2002. 

Bréfið var ekki greitt á gjalddaga.  Þann 28. desember 2006 greiddi stefndi 4.066.385 krónur inn á skuldina.  Stefnandi segir að þann dag hafi áfallnir samnings­vextir numið 12.875.562 krónum.  Þá greiddi stefndi 5.000.000 króna þann 25. apríl 2007.  Stefnandi segir að báðar þessar innborganir hafi farið til greiðslu samnings­vaxta, en ekki hafi verið greitt inn á höfuðstól. 

Stefnandi segir skuldabréfið hafa verið gjaldfellt á gjalddaga þann 26. júlí 2006.  Hann reiknar dráttarvexti frá 15. október 2008, en dráttarvextir frá fyrri tíma séu fyrndir.  Hann hafi höfðað mál vegna þessarar skuldar með stefnu er birt var 15. október 2012.  Það mál hafi verið fellt niður 18. febrúar 2012.  Í kjölfarið sendi stefnandi aðfararbeiðni til sýslumanns þann 25. mars 2013.  Beiðnin var tekin fyrir 12. júní 2013 og ákveðið að gerðin færi ekki fram þar sem ekki væri fyrir hendi gild aðfararheimild. 

Stefnandi vísar til meginreglna samningsréttarins um skuldbindingargildi lof­orða og skyldu til að efna samninga.  Þá vísar hann til vanefndaákvæða skulda­bréfsins.  Hann kveðst reka málið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála.  Varðandi innborganir vísar stefnandi til meginreglna um valheimild kröfuhafa.  Málið er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt heimild í skuldabréfinu. 

Í greinargerð stefnda er því lýst að hann hafi annast olíusölu fyrir stefnanda í Stykkishólmi í mörg ár.  Breyting hafi verið gerð á fyrirkomulagi uppgjörs á árinu 1998.  Þessi breyting hafi leitt til þess að allar úttektir sem færðar voru á viðskipta­reikning viðskiptavina hafi verið skráðar beint inn í bókhaldskerfi stefnanda og hafi viðskiptavinir bensínstöðvarinnar greitt stefnanda beint í stað þess að stefndi væri milliliður.  Stefnandi hafi gert þau mistök að viðskiptareikningar sumra viðskiptavina bensínstöðvarinnar hafi áfram verið skuldfærðir á stefnda persónulega, þótt uppgjör þeirra færi fram við stefnanda.  Þetta hafi leitt til þess að í bókhaldskerfi stefnanda stofnaðist skuld í nafni stefnda sem hafi hækkað stöðugt, þrátt fyrir að búið væri að gera upp við stefnanda beint. 

Stefndi segir að ítrekaðar tilraunir sínar til að fá mistökin leiðrétt hafi verið árangurslausar.  Nokkrum árum síðar hafi stefnandi krafist þess af stefnda að hann skrifaði undir skuldabréf vegna kröfu stefnanda.  Stefndi kveðst hafa neitað að skrifa undir, en gert það að lokum með því skilyrði að farið yrði yfir málið aftur og að hann fengi aðgang að bókhaldinu.  Af því hafi ekki orðið.  Hafi hann verið krafinn um inn­borgun á skuldina þann 28. desember 2006 og aftur þann 25. apríl 2007.  Hann hafi orðið við þessu, en ekki talið sig skulda eftirstöðvarnar og farið fram á að málið yrði tekið upp aftur.  Stefnandi hafi ekki reynt frekari innheimtu fyrr en með bréfi dags. 27. júlí 2012.  Þannig hafi málið legið óhreyft í rúm fimm ár.  Stefndi kveðst ítrekað hafa farið fram á að fá aðgang að uppgjörsgögnum úr bókhaldi stefnanda en án árangurs.  Stefnandi hafi loks upplýst haustið 2012 að búið væri að eyða uppgjörsgögnum vegna umræddra ára. 

Stefndi byggir á því að skuldabréf það sem um er deilt byggist á óréttmætri kröfu sem ekki hafi verið sönnuð með neinum hætti.  Sýknukrafa byggi á því að stefndi sé ekki réttur skuldari sbr. a-lið 1. tl. 1. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991.  Viðskiptin á bak við bréfið séu byggð á mistökum í bókhaldi stefnanda sem ekki hafi verð leiðrétt.  Endanlega sönnun um þessi mistök sé að finna í bókhaldi stefnanda, sem hann hafi ekki viljað veita stefnda aðgang að.  Stefnandi verði því að bera hallann af þeim mistökum sínum. 

Stefndi kveðst hafa skrifað undir skuldabréfið vegna þrýstings, ella hefði stefnandi ekki viljað eiga frekari viðræður um skuldastöðu hans.  Hann hafi verið ein­staklingur í samningum við atvinnurekanda.  Tekur stefndi svo til orða að háttsemi stefnanda varði við 36. gr. samningalaga.  Skuldabréfið sé því ógildanlegt og óskuldbindandi.  Hann hafi greitt inn á kröfuna þá fjárhæð sem hann hafi talið sig skulda.  Frá því að síðasta greiðsla var innt af hendi séu liðin rúm sex ár og hafi stefnandi ekki sýnt neina tilburði allan þann tíma til að innheimta kröfuna með hefð­bundnum innheimtuaðgerðum.  Sýni það hversu óviss stefnandi hafi verið um kröfu sína. 

Þá telur stefndi að krafa stefnanda um vexti sé fyrnd, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Þá mótmælir hann því að unnt sé að miða fyrningarfrest við fyrri máls­höfðun stefnanda.  Stefna í þessu máli hafi verið birt þann 28. september 2013.  Því sé dráttarvaxtakrafa ekki nægilega sundurliðuð og svo óljós að ótækt sé að leggja á hana efnisdóm. Kröfugerð sé að þessu leyti svo vanreifuð og röng að sýkna beri stefnda. 

Verði ekki fallist á sýknukröfu beri a.m.k. að lækka stefnukröfu um sömu fjár­hæð og innborganir nemi, samtals 9.066.385 krónur.  Rangt hafi verið að ráðstafa inn­borgunum til greiðslu samningsvaxta, sem ekki hafi verið lögmætir samkvæmt skulda-bréfinu.  Stefndi telur að stefnandi hafi ekki reiknað vexti í samræmi við 2. tl. skilmála skuldabréfsins, sem mæli fyrir um að skuldari skuldbindi sig til að greiða tilgreinda ársvexti, sem skuli vera kjörvextir óverðtryggða lána, samkvæmt útreikningi Lands­banka Íslands hverju sinni.  Vextir skyldu reiknast frá tilgreindum upphafsdegi vaxta­útreiknings bréfsins og greiðast eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir.  Afborgun hafi verið ein samkvæmt texta bréfsins og var gjalddaginn 26. júlí 2006.  Það sé því ljóst að stefndi hafi rangt fyrir sér þegar hann segi í stefnu að þann 28. desember 2006 hafi uppreiknaðir samningsvextir numið 12.875.562 krónum.  Verði ekki fallist á sýknu beri að líta svo á að innborganir hafi farið inn á höfuðstól skuldabréfsins.  Telur stefndi að það eigi að verða til lækkunar fjárhæðar skuldabréfsins. 

Stefndi vísar til a-liðar 1. tl. 1. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991, 36. gr. samningalaga og 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905. 

Niðurstaða

Stefnandi byggir kröfu sína á skuldabréfi því sem að framan er lýst og rekur málið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991.  Skuldabréfið er í réttu formi og krafa samkvæmt því er ekki fyrnd.  Stefnandi hefur fullyrt og skýrt með útreikningum að innborganir stefnda hafi ekki dugað til að greiða að fullu áfallna vexti og því hafi höfuðstóll skuldabréfsins ekki lækkað.  Vaxtaákvæði skuldabréfsins verður að skilja svo að vextir af skuldinni skuli á hverjum tíma vera jafn háir kjörvöxtum Landsbanka Íslands.  Stefndi hefur ekki hnekkt vaxtaútreikningi stefnanda og verður fallist á að innborganir stefnda hafi farið til greiðslu vaxta en ekki til lækkunar á höfuðstól.  Kröfuhafi hefur heimild til að færa innborganir til greiðslu áfallinna vaxta áður en innborgun er færð til lækkunar á höfuðstól. 

Að framan eru raktar málsástæður stefnda sem lúta að lögskiptum aðila.  Þessar varnir komast ekki að gegn mótmælum stefnanda, sbr. 1. og 3. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991. 

Mál var áður höfðað vegna skuldar þessarar, en það var fellt niður 18. febrúar 2012.  Stefnandi krafðist í kjölfarið fjárnáms en sú krafa náði ekki fram að ganga.  Stefna í þessu máli var birt 28. september 2013. 

Um fyrningu skuldarinnar sem hér um ræðir og vaxta af henni gilda lög nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007.  Fyrningu vaxta var slitið með höfðun fyrra málsins, en þau slit ónýttust er mál var ekki höfðað á ný innan sex mánaða frá því að málið var fellt niður, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905.  Fjárnámsbeiðni slítur ekki fyrningu samkvæmt lögum nr. 14/1905.  Dráttarvextir dæmast því frá 28. september 2009, en krafa um vexti frá fyrri tíma er fyrnd. 

Stefnukrafan verður samkvæmt þessu dæmd með dráttarvöxtum frá 28. september 2009.  Í samræmi við þessa niðurstöðu og að teknu tilliti til þess að málið var flutt sérstaklega um frávísunarkröfu stefnda, sem var hafnað, verður stefnda gert að greiða stefnanda 600.000 krónur í málskostnað. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Stefndi, Gissur Tryggvason, greiði stefnanda, Olíuverzlun Íslands hf., 20.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. september 2009 til greiðsludags og 600.000 krónur í málskostnað.