Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-239

Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson lögmaður)
gegn
Jóni Höskuldssyni (Lúðvík Örn Steinarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Stjórnsýsla
  • Stöðuveiting
  • Dómstóll
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 20. nóvember 2018 leitar íslenska ríkið eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október sama ár í málinu nr. E-723/2018: Jón Höskuldsson gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jón Höskuldsson leggst ekki gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu Jóns um skaðabætur úr hendi leyfisbeiðanda vegna fjártjóns og miska af þeim sökum að hann hafi ekki verið skipaður í eitt af fimmtán embættum dómara við Landsrétt í júní 2017. Jón var einn þeirra fimmtán umsækjenda sem dómnefnd samkvæmt lögum nr. 15/1998 um dómstóla hafði metið hæfasta til að gegna embætti dómara við Landsrétt en var ekki á meðal þeirra umsækjenda sem dómsmálaráðherra lagði til við Alþingi að yrðu skipaðir. Með dómum Hæstaréttar 19. desember 2017 í málum tveggja annarra umsækjenda sem eins var ástatt um, nr. 591/2017 og 592/2017, var komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð ráðherra við skipun í embætti dómara við Landsrétt hafi verið andstæð lögum. Með framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var krafa Jóns tekin til greina á þann hátt að leyfisbeiðanda var gert að greiða honum 5.100.000 krónur í bætur.

Leyfisbeiðandi bendir á að álitamál sé hvort sakarefnið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti en leggja verði í mat réttarins hvort það skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 sé uppfyllt. Leyfisbeiðandi telur að öðrum skilyrðum ákvæðisins sé á hinn bóginn fullnægt. Vísar hann í þeim efnum til þess að ekki sé í forsendum héraðsdóms tekin með afgerandi hætti afstaða til ákvæðis IV til bráðabirgða við lög nr. 50/2016 sem hljóti að hafa grundvallarþýðingu við úrlausn málsins, auk þess sem að þar sé ekki vikið að dómi Hæstaréttar 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018 sem einnig hafi þýðingu. Loks bendir leyfisbeiðandi á að yrði dóminum áfrýjað til Landsréttar myndu að líkindum allir dómarar við Landsrétt víkja sæti og jafnframt dómsmálaráðherra ef til þess kæmi að skipa þyrfti varadómara samkvæmt 25. gr. laga nr. 50/2016. Mæli því hagkvæmnisrök með að héraðsdóminum verði áfrýjað beint til Hæstaréttar.

Að öllu virtu er ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 að þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti. Er beiðninni því hafnað.