Hæstiréttur íslands

Mál nr. 91/2017

Þorgeir og Ellert hf. (Árni Ármann Árnason lögmaður)
gegn
Þörungaverksmiðjunni hf. (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Verksamningur
  • Uppgjör
  • Efndabætur

Reifun

Í málinu deildu ÞE hf. og Þ hf. um uppgjör á verksamningi um endursmíði og viðgerðir á tilteknu skipi í eigu Þ hf. og aukaverkum sem þeim tengdust, svo og samningi sem þeir gerðu um skil og afhendingu á skipinu. Þ hf. hafði rift verksamningnum vegna ætlaðra vanefnda ÞE hf. á samningnum og útgáfu tilhæfulausra reikninga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að framganga ÞE hf. við verkið hefði ekki leitt til tafa eða raskað hagsmunum Þ hf. þannig að réttlætt hefði riftun á verksamningnum. Var Þ hf. gert að greiða ÞE hf. greiðslur vegna ýmissa samningsverka og viðbótarverka og var sú niðurstaða í flestum atriðum reist á mati yfirmatsmanna en í nokkrum atriðum á mati undirmatsmanna. Þá var talið að Þ hf. hefði ofgreitt fyrir verkið að hluta og var ofgreiðslan dregin frá kröfu ÞE hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Jóhannes Sigurðsson landsréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. febrúar 2017. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 41.693.757 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 25. júní 2010 til greiðsludags. Jafnframt krefst hann þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 13.631.645 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. fyrrgreindra laga frá 6. ágúst 2010 til 18. nóvember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 10. maí 2017. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 53.401.811 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 6. ágúst 2010 til greiðsludags, allt að frádregnum 9.160.219 krónum miðað við 16. mars 2014. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu er deilt um uppgjör aðila á verksamningi 20. nóvember 2009 um endursmíði og viðgerðir á skipinu Fossá ÞH-362 og aukaverkum sem þeim samningi tengdust, svo og samningum sem aðilar gerðu um skil og afhendingu skipsins 8. nóvember og 11. desember 2010. Upphaflegi verksamningurinn var gerður á grundvelli útboðs. Gagnáfrýjandi rifti verksamningnum með bréfi 4. ágúst 2010 vegna ætlaðra verulegra vanefnda aðaláfrýjanda á honum og útgáfu tilhæfulausra reikninga.

Í hinum áfrýjaða dómi var dæmt um kröfur sem settar voru fram í stefnum í þremur dómsmálum sem höfðuð voru vegna framangreindra samninga. Með héraðsdómsstefnu sem þingfest var 21. júní 2011 krafðist aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjandi greiddi sér 87.423.084 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Þá krafðist hann þess með stefnu til héraðsdóms sem þingfest var þann 18. október 2011 að gagnáfrýjandi greiddi sér 26.616.533 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Loks krafðist gagnáfrýjandi þess í stefnu sem þingfest var 1. nóvember 2011 að gagnáfrýjandi greiddi sér 135.826.631 krónu með nánar tilgreindum vöxtum. Málin voru sameinuð í þinghaldi 16. apríl 2012 samkvæmt heimild í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og dæmd í einu lagi.

Í fyrri stefnu aðaláfrýjanda 11. júní 2011 var krafan sundurliðuð samkvæmt 34 reikningum, en í síðari stefnunni var í fyrsta lagi krafist bóta vegna ólögmætrar riftunar gagnáfrýjanda á verksamningi aðila, í öðru lagi var krafist bóta vegna galla í útboðslýsingu, breytinga sem gagnáfrýjandi hafi gert á aðalverkinu, viðbótarverka á verktíma og seinkunar sem hafi orðið á afhendingu teikninga og búnaðar, og í þriðja lagi var krafist bóta vegna aukinnar vinnu sem tilteknir starfsmenn aðaláfrýjanda hefðu þurft að inna af hendi vegna hinnar ólögmætu riftunar. Í fyrrnefndri stefnu gagnáfrýjanda krafðist hann viðurkenningar á riftun hans á verksamningnum. Þá krafðist hann greiðslu tiltekinna fjárhæða vegna ofgreiðslu samningsverks eftir verksamningi og ofgreiðslu reikninga vegna aukaverka. Þá var krafist greiðslu vegna ofgreiðslna fyrir suðuvinnu, viðgerðar hliðarfærslusleða, kostnaðar við drátt skipsins til Akureyrar, aukalegrar aðstoðar tryggingafélags, vinnu Slippsins á Akureyri, útgáfu bankaábyrgðar og dagsekta vegna seinkunar verkloka.

Í þinghaldi 11. desember 2014 lækkaði aðaláfrýjandi höfuðstól kröfu sinnar samkvæmt fyrsttöldu stefnunni niður í 56.546.298 krónur og kröfu samkvæmt seinni stefnunni í 21.695.085 krónur. Þá lækkaði gagnáfrýjandi í sama þinghaldi kröfu sína um 2.000.000 krónur.

II

Héraðsdómur Vesturlands kvað upp dóm í málinu 9. janúar 2015 þar sem gagnáfrýjanda var gert að greiða aðaláfrýjanda 30.433.898 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 25.288.873 krónum frá 21. júní 2011 en af 30.433.898 krónum frá 18. nóvember 2011 til greiðsludags. Þá var gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda 18.000.000 krónur í málskostnað.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2015. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 246/2015 var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, þar sem héraðsdómur hefði ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til rökstuðnings fyrir niðurstöðu dóms um sönnunar- og lagaatriði eftir f. lið 114. gr. laga nr. 91/1991.

Málið var tekið fyrir að nýju í Héraðsdómi Vesturlands og kveðinn upp dómur 16. nóvember 2016.

Undir rekstri málsins fyrir héraði var aflað tveggja matsgerða sem unnar voru af Ólafi Friðrikssyni tæknifræðingi og Stefáni Sigurðssyni framkvæmdastjóra skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. Matsgerðirnar voru gefnar út í júní 2013. Þá var aflað tveggja yfirmatsgerða sem unnar voru af Páli Ragnari Sigurðssyni vélaverkfræðingi, Grími Sveinbirni Sigurðssyni tæknifræðingi og Daníel Gísla Friðrikssyni skipatæknifræðingi. Yfirmatsgerðirnar voru gefnar út í mars 2013.

Niðurstöður hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, eru einkum reistar á mati yfirmatsmanna en í nokkrum atriðum á mati undirmatsmanna.

III

Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að mikil breyting varð á verkinu frá upphaflegum samningi. Verkinu átti samkvæmt honum að ljúka 30. maí 2010 eða á 26 vikum. Vegna mikils fjölda aukaverka sem gagnáfrýjandi óskaði eftir og seinkunar hans á afhendingu búnaðar, tækja og teikninga hafi verkið tafist. Yfirmatsmenn töldu að verkið hefði af þessum sökum tafist um 24 vikur og að auki hefðu komið til tafir vegna leyndra galla á skipinu. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að framganga aðaláfrýjanda við verkið hafi ekki leitt til tafa eða raskað hagsmunum gagnáfrýjanda þannig að réttlætt hafi riftun verksamningsins 4. ágúst 2010.

Þá verður lögð til grundvallar niðurstaða héraðsdóms um að ekki séu efni til þess að hafna reikningum aðaláfrýjanda almennt á þeim forsendum að þeir hafi ekki verið forsvaranlega gerðir. Jafnframt er fallist á mat héraðsdóms á því að Björn Samúelsson hafi verið í hlutverki eftirlitsmanns gagnáfrýjanda og haft heimild til þess að skuldbinda gagnáfrýjanda við aukaverk sem hann óskaði eftir.

Í hinum áfrýjaða dómi er kröfu aðaláfrýjanda um lokagreiðslu samkvæmt verksamningnum, sem upphaflega var 21.771.400 krónur, en aðaláfrýjandi hafði lækkað í 4.333.727 krónur, hafnað. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms byggir á því að vegna annmarka á mati yfirmatsmanna á stöðu verksins sem miðaðist við riftun samningsins hafi verið rétt að leggja til grundvallar niðurstöðu undirmatsmanna um verkstöðuna. Samkvæmt mati undirmatsmanna var 78,96% af útboðsverkinu lokið þegar samningnum var rift.  Samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms var því ólokið vinnu fyrir 20.461.500 krónur. Lokið hafi verið vinnu fyrir 76.844.007 krónur og gagnáfrýjandi greitt 87.209.700 krónur inn á útboðsverkið. Samkvæmt þessu hafi gagnáfrýjandi verið búinn að ofgreiða 10.365.693 krónur.    

Aðaláfrýjandi byggir kröfur sínar fyrir Hæstarétti á því að undirmatsmenn hafi  dregið frá verkstöðunni liði sem ekki hafi verið rétt að draga frá. Í fyrsta lagi telur hann að leiðrétta eigi stöðuna um 12.500.000 krónur vegna rafmagns- og trésmíðavinnu sem matsmenn telji ranglega að ekki hafi verið unnin. Í öðru lagi telur aðaláfrýjandi að matsmenn hafi óumbeðið gefið viðbótarafslátt af tveimur verkliðum sem aðaláfrýjandi hafði samið við gagnáfrýjanda um að taka út úr útboðsverkinu á tilteknu verði. Þar var annars vegar um að ræða að taka andveltigeymi út úr verkinu og hins vegar breytingu á lestarkörmum.

Aðaláfrýjandi bendir á að í 3. gr. samnings aðila 11. desember 2010 hafi verið samið um uppgjör á rafmagns- og trésmíðavinnu í tengslum við afhendingu skipsins. Rétt sé að líta svo á að þar með hafi allri rafmagns- og trésmíðavinnu við útboðsverkið verið lokið. Í matsgerð undirmatsmanna er tekið fram að rafmagns- og tækjavinna í stýrishúsi hafi verið komin lítið áleiðis og öll tæki sem flytja átti væru ennþá í gömlu brúnni. Ákvæði 3. gr. framangreinds samnings fjallar um uppgjör á reikningum vegna rafmagns- og trésmíðavinnu sem þegar höfðu verið gefnir út. Í samningnum kemur ekki fram að allri rafmagns- og trésmíðavinnu í útboðsverkinu hafi verið lokið. Ekki liggja fyrir í málinu önnur gögn en mat undirmatsmanna um stöðu á rafmagns- og trésmíðavinnu. Því mati hefur aðaláfrýjandi ekki hnekkt og verður krafa hans um þennan þátt því ekki tekin til greina.

Aðaláfrýjandi byggir á því að búið hafi verið að semja um verð fyrir að taka út andveltigeyminn og gera breytingarnar á lestarkörmum. Undirmatsmönnum hafi ekki verið heimilt að gera breytingar á því verði sem þegar hafi verið samið um. Undirmatsmenn drógu frá verkstöðunni 3.387.000 krónur vegna endurmats á andveltigeymi og 2.022.000 krónur vegna endurmats á verki um lækkun á lestarkörmum. Bendir aðaláfrýjandi á að Bjarni Ásmundsson sem starfaði fyrir gagnáfrýjanda hafi staðfest að búið hafi verið að semja um verð fyrir andveltigeyminn.  Gagnáfrýjandi hefur ekki andmælt því að samið hafi verið um fast verð fyrir þessa þætti þegar verksamningnum var breytt um þessa verkliði. Þá liggur ekki fyrir í málinu að fyrirvari hafi verið gerður við þessa verðlagningu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á það með aðaláfrýjanda að matsmönnum hafi verið rétt að miða við það verð sem aðilar höfðu samið um enda hefði ekki verið óskað endurmats á þessum þáttum af hálfu gagnáfrýjanda. Samkvæmt þessu telst gagnáfrýjandi hafa ofgreitt fyrir samningsverkið 4.844.693 krónur en ekki 10.253.693 krónur eins og komist var að niðurstöðu um í hinum áfrýjaða dómi. Að fenginni þessari niðurstöðu og að virtri kröfugerð gagnáfrýjanda lækkar krafa hans vegna ofgreiðslu samningsverksins úr 5.054.193 krónum í 4.844.693 krónur og kemur hún til frádráttar kröfum aðaláfrýjanda.

Í héraðsdómi var kröfu aðaláfrýjanda að fjárhæð 8.646.879 krónur um skaðabætur, vegna óunninnar vinnu við viðbótarverk á tímagjaldi, hafnað á þeim grundvelli að riftun samningsins hafi ekki verið bein orsök þess að aðaláfrýjandi varð af framlegð vegna verkanna. Í 6. gr. verksamnings aðila 20. nóvember 2009, sem fjallar um viðbótarverk, kemur fram að verkkaupi skuli greiða fyrir undirbúning viðbótarverka sem hann hefur óskað eftir jafnvel þótt ekki verði af framkvæmdum vegna ástæðna er varða verkkaupa. Af ákvæðinu má ráða að aðaláfrýjandi gat ekki vænst þess að fá greiddar skaðabætur vegna tapaðrar framlegðar af aukaverkum sem gagnáfrýjandi hætti við. Í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar um að aðaláfrýjandi hafi lagt í undirbúningskostnað vegna viðbótarverka. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, verður þessari kröfu aðaláfrýjanda hafnað. Að því gættu sem nú hefur verið rakið verður niðurstaða héraðsdóms um aðrar kröfur aðila staðfest með vísan til forsendna.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 26.841.453 krónur. Rétt er að dráttarvextir reiknist á hina dæmdu fjárhæð frá þingfestingardegi héraðsdómsstefna aðaláfrýjanda, annars vegar 21. júní 2011 og hins vegar 18. október sama ár, eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir atvikum verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði segir.  

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Þörungaverksmiðjan hf., greiði aðaláfrýjanda, Þorgeiri og Ellert hf., 26.841.453 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 21.856.687 krónum frá 21. júní 2011 til 18. október 2011, en af 26.841.453 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 13.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 16. nóvember 2016                                         

Mál þetta, sem dómtekið var 28. september 2016, er höfðað af Þorgeir & Ellert hf. Bakkatúni 26, Akranesi, á hendur Þörungaverksmiðjunni hf., Reykhólum, Reykhólahreppi, með stefnu birtri 14. júní 2011. Með stefnu birtri 16. september 2011 höfðaði Þorgeir & Ellert hf. annað mál á hendur Þörungaverksmiðjunni hf. Loks höfðaði Þörungaverksmiðjan hf. gagnsakarmál á hendur Þorgeir & Ellert hf. með stefnu birtri 27. október 2011. Í þinghaldi 16. apríl 2012 voru öll málin sameinuð í eitt og það rekið áfram undir ofangreindu málsnúmeri.

Í dómi þessum verður eftir atvikum notað heitið aðalstefnandi, stefnandi eða gagnstefndi um Þorgeir & Ellert hf. og aðalstefndi, stefndi eða gagnstefnandi um Þörungaverksmiðjuna hf.

Í fyrstnefnda málinu eru kröfur stefnanda þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 56.546.298 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.177.000 krónum frá 25. júní 2010 til 20. júlí 2010, af 3.869.738 krónum frá þeim degi til 22. júlí 2010, af 11.303.227 krónum frá þeim degi til 11. ágúst 2010, af 18.805.177 krónum frá þeim degi til 1. september 2010, af 20.592.177 krónum frá þeim degi til 3. september 2010, af 25.269.465 krónum frá þeim degi til 20. september 2010, af 28.252.203 krónum frá þeim degi til 21. september 2010, af 33.775.780 krónum frá þeim degi til 23. september 2010, af 50.273.670 krónum frá þeim degi til 20. október 2010, af 52.993.710 krónum frá þeim degi til 20. nóvember, af 55.817.562 krónum frá þeim degi til 28. nóvember 2010, af 56.546.298 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af framangreindum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Í öðru málinu gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 21.695.085 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 6. ágúst 2010 til 18. nóvember 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af framangreindum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Í þriðja málinu, sem er gagnsakarmál, krefst gagnstefnandi þess að viðurkennd verði riftun hans á verksamningi við gagnstefnda, dagsettum 20. nóvember 2009, sem lýst var yfir 6. ágúst 2010. Gagnstefnandi gerir jafnframt kröfu um að gagnstefndi verði dæmdur til greiðslu 53.396.387 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 15.682 krónum frá 6. ágúst 2010 til 17. september 2010, en með dráttarvöxtum af 17.082.642 krónum frá þeim degi til 28. október 2010, en með dráttarvöxtum af 17.682.642 krónum frá þeim degi til 13. desember 2010, en með dráttarvöxtum af 24.482.642 krónum frá þeim degi til 12. janúar 2011, en með dráttarvöxtum af 24.782.642 krónum frá þeim degi til 14. janúar 2011, en með dráttarvöxtum af 31.582.642 krónum frá þeim degi til 26. apríl 2011, en með dráttarvöxtum af 31.975.642 krónum frá þeim degi til 16. maí 2011, en með dráttarvöxtum af 34.044.972 krónum frá þeim degi til 1. júní 2011, en með dráttarvöxtum af 34.624.972 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2011, en með dráttarvöxtum af 53.396.387 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 8.847.419 krónum sem miðaðst við 16. mars 2014. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Gagnstefndi krefst þess að hann verði sýknaður af framangreindum kröfum gagnstefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi gagnstefnanda.

Þann 9. janúar 2015 var kveðinn upp héraðsdómur vegna málsins. Sá dómur var ómerktur með dómi Hæstaréttar 21. janúar 2016 með vísan til f-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Málsatvik eru þau að stefndi, Þörungaverksmiðjan hf., varð eigandi kúfiskveiðiskips, Fossár ÞH-362, skipaskrárnúmer 2406, með afsali dagsettu 30. september 2009. Seljandi skipsins var Ísfélag Vestmannaeyja hf. og var kaupverðið 600.000 bandaríkjadalir. Með verksamningi 20. nóvember 2009 tók stefnandi að sér að endursmíða skipið og var tilgangurinn sá að breyta því í þangflutningaskip og nota í stað annars skips, Karlseyjar BA. Til grundvallar verksamningnum lágu útboðsgögn, með nánari lýsingu á einstökum verkþáttum, er samin voru af verkfræðiráðgjafa stefnda, Bjarna Ásmundssyni skipatæknifræðingi. Þar er verkinu m.a. lýst á eftirfarandi hátt:

This repair/rebuilding of the vessel consists of major alteration of the General Arrangement as a new Wheelhouse is to be built and located in the fore ship and various new equipment is to be installed such as new propeller with intermediate gearbox, new deck crane, new Ballast Tanks to be built and ballast tanks in aft ship altered to fuel oil tanks, extension of the hold and finally new “side keels” on both sides. The hold is to be enlarge to the extent that it can carry ca. 120 sacks of Sea Weeds.

Umsamin verklaun samkvæmt samningnum voru 108.857.000 krónur, en til frádráttar komu 11.551.493 krónur þar sem stefndi óskaði fljótlega eftir því að tiltekin verk yrðu ekki unnin. Að teknu tilliti til þessa námu verklaun vegna samningsverksins 97.305.507 krónum, en þau átti að greiða með fimm jöfnum greiðslum á nánar tilgreindum gjalddögum með lokagreiðslu við verklok. Þá var einnig andveltugeymir felldur úr tilboðinu og vinna vegna glussageymis og mat stefnandi kostnað við þá útfellingu 245.000 krónur. Greiðslur vegna verksins skyldu samkvæmt samningi miðast við áætlaðan tímaramma en ekki verkstöðu.

Um viðbótarverk segir í 6. gr. samningsins að stefnanda væri óheimilt að undirbúa eða framkvæma viðbótarverk nema fyrir lægi skriflegt samþykki stefnda. Þá segir þar að verkkaupi skuli greiða fyrir undirbúning viðbótarverka sem hann hefur óskað eftir jafnvel þótt ekki verði af framkvæmdum vegna ástæðna er varða verkkaupa.

Um verktíma segir í 3. gr. samningsins:

Verkið telst hafið við undirritun þessa samnings. Verktími er 26 vikur frá því upphafsgreiðsla berst inn á reikning verksala ...

Þá segir í ákvæðinu að viðbótarverk geti haft áhrif á verktíma og er það ítrekað í 7. gr. samningsins en þar segir að þegar samið er um viðbótarverk skuli jafnframt semja um það hvort verkið hafi áhrif á verktíma.

Upphafsgreiðsla samkvæmt samningnum var innt af hendi 30. nóvember 2009 og átti verkinu því samkvæmt framangreindu að ljúka 30. maí 2010. Ef dráttur yrði á afhendingu skipsins átti, samkvæmt 7. gr. samningsins, að greiða í dagsektir 0,5% af heildarverðmæti samningsins en hámark sekta gat numið 10% af heildarverðmæti samningsins. Þá sömdu aðilar um „grace period“ sem skyldi vera ein vika frá afhendingardagsetningu en á því tímabili skyldu dagsektir ekki leggjast á. Þá segir í 8. gr. samningsins að stefndi eignist allt efni, hluti, vélar og tæki um leið og þau yrðu til eða þeirra væri aflað til verksins jafnóðum og verkinu miðaði áfram og stefndi stæði skil á greiðslum.

Frá upphafi verksins var vitnið Björn Samúelsson vélstjóri, starfsmaður stefnda á verkstað, en aðila greinir á um hvort hann hafi haft hlutverk eftirlitsmanns verksins í samræmi við ákvæði 1.11 í útboðsgögnum. Í ákvæðinu er hlutverki hans lýst svo að hann sé: „... the only person who is authorized to take any decision regarding changes in plans, ordering spare parts or in other respect change the terms of the specification. This also covers all decisions, regarding any „extra works“ taken on location after the vessels arrival. There are undir no circumstances allowed to start any extra works without written acceptance from the owner´s representative.“

Samkvæmt 1. gr. verksamningsins skyldi verkkaupi sjá um hönnunar/tæknivinnu en stefndi byggir á því að stefnandi hafi átt að sjá um að vinna aðrar teikningar. Í 3. gr. segir að verktími sé háður því að verkkaupi standi tímanlega skil á öllum teikningum og þeim búnaði sem hann útvegar. Samkvæmt útboðsgögnum, grein 1.02, átti stefnandi að vinna nauðsynlegar teikningar utan þeirra sem þarf að fá samþykktar frá flokkunarfélagi skipsins, Lloyd‘s.

Eftir að stefnandi hóf vinnu við verkið komu í ljós meintir gallar á skipinu, m.a. reyndist einangrunarklæðning skipsins vera eldfim og ekki samkvæmt samþykktri smíðateikningu skipsins. Þá kom í ljós að búið var að skera í sundur burðarbita á dekki þar sem loftræstilagnir eru. Í framhaldi af því gerði Lloyd‘s á Íslandi, tryggingafélag skipsins, athugasemd við þetta og kröfu um að skipt yrði út allri einangrunarklæðningu skipsins. Þá var dómkvaddur matsmaður til að skoða hugsanlegan galla. Varð það til þess að samkvæmt ósk stefnda var vinnu við skipið frestað að einhverju leyti, á tímabilinu frá 6. apríl til 9. júlí 2010.

Þá liggur fyrir að breytingar voru gerðar á verkinu frá því sem upphaflega var ákveðið. Einnig var unninn fjöldi verka sem féllu ekki undir útboðslýsingu og verksamning aðila. Stefndi byggir á því að hann hafi greitt 87.209.700 krónur upp í verklaun og 17.677.256 krónur vegna viðbótarverka á verktímanum. Þegar leið á verktímann kom upp ágreiningur milli aðila um ýmis atriði er lutu að framgangi verksins, seinkun verktíma, útgefnum reikningum o.fl. Á vormánuðum og sumarið 2010 funduðu málsaðilar ítrekað til að freista þess að leysa þann ágreining sem upp var kominn. Af hálfu stefnda var lögð áhersla á að verkinu yrði lokið sem fyrst þar sem skipið átti að leysa af hólmi annað skip en haffærniskírteini þess átti að renna út 30. júní 2010 en var síðar framlengt til 1. október sama ár.

Af hálfu stefnanda er á því byggt í máli þessu að drátt á vinnslu verksins megi rekja til þess að fljótlega eftir að vinna við skipið hófst hafi komið í ljós að nauðsynlegt var að framkvæma fjölmörg viðbótarverk á skipinu. Eftirlitsmaður stefnda hafi, fyrir hönd stefnda, óskað eftir 131 viðbótarverki í tímavinnu auk þess sem aðilar sömdu um að stefnandi tæki að sér að vinna 11 umfangsmikil viðbótarverk í skipinu á föstu gjaldi. Mörg af þessum viðbótarverkum þurfti að vinna samhliða og áður en haldið var áfram með tilboðsverkin og olli þetta því óhjákvæmilega töfum á tilboðsverkinu. Þá voru fjölmörg þeirra verka sem unnin voru samkvæmt verksamningi aðila umfangsmeiri og kostnaðarsamari en leiða mátti af útboðslýsingu verksins. Þetta, ásamt því að stefndi fór í meiri breytingar á skipinu en upphaflega var áætlað, sem og vinnustöðvun vegna galla, það að samþykktar teikningar af einstökum verkliðum og ýmis búnaður skiluðu sér seint hafi leitt til þess að verkið fór fram yfir upphaflega áætlaðan verktíma.

Stefndi telur að rekja megi tafir til þess að þegar leið á verktímann hafi komið upp ágreiningur á milli aðila um framgang verksins. Í lok marsmánaðar 2010 kom í ljós að búið var að rífa nær allan búnað úr vélarrúminu, utan aðalvélar, án þess að fyrirmæli hafi verið gefin um að fjarlægja annað en upprunalega lensikerfið. Þá var rafmagnstafla skipsins, sem til stóð að færa úr vélarrúmi upp í dekkhús á aðalþilfari, færð á verkstæði undirverktaka stefnanda og rifin í sundur, án þess að nokkur fyrirmæli hefðu verið gefin um slíkt. Þá hafi framganga verkefnastjóra stefnanda, Lárusar Skúlasonar, verið verkinu til trafala, og var óskað eftir því 27. maí 2010 að hann yrði tekinn frá verkinu, sem var gert. Þá laut ágreiningur aðila jafnframt að verulegu leyti að seinkun á verklokum og útgáfu reikninga stefnanda vegna viðbótarverka sem stefndi taldi að ekki hafi verið pöntuð og fengju ekki staðist. Þá var ágreiningur um verkferla við framkvæmd verksins. Athugasemdir stefnda við reikninga lutu bæði að því hvernig samþykki þeirra hefði átt að vera háttað og að því að hluti þeirra væri vegna vinnu sem félli undir verksamninginn og ætti því ekki að gera sérstaka reikninga fyrir, aðrir reikningar væru vegna vinnu sem ekki hefði enn verið framkvæmd, auk þess sem fjárhæðir vegna tímaskráninga og efniskostnaðar væru óeðlilegar í mörgum tilvikum.

Stefnandi lýsir atvikum svo að 28. maí 2010 hafi framkvæmdastjóra stefnda og stjórn fyrirtækisins verið afhent skýrsla unnin af stefnanda, um stöðu verksins ásamt áætlun um framkvæmd verksins bæði samkvæmt verksamningi og pöntuðum aukaverkum. Í skýrslunni kom einnig skýrt fram að óhjákvæmilega myndu hin fjölmörgu viðbótarverk hafa í för með sér tafir á upphaflegum verktíma samkvæmt verksamningi. Þann dag náðist samkomulag milli aðila um að fresta verklokum til 6. ágúst 2010. Fljótlega hafi orðið ljóst að verklok yrðu ekki þann dag. Stefndi byggir á því að hann hafi ekki samþykkt aðrar tillögur stefnanda að breyttum verklokatíma en stefnandi telur að stefndi hafi um tíma miðað við að verklokum yrði frestað til 15. september 2010.

Þann 20. júlí sendi stjórnarmaður stefnda framkvæmdastjóra stefnanda bréf þar sem lýst var áhyggjum af stöðu og framkvæmd verksins og þar sem krafist var úrbóta, ellegar sæi stefndi sig tilneyddan til að fá verkinu lokið annars staðar. Því svaraði framkvæmdastjóri stefnanda, með bréfi dagsettu 20. júlí 2010, þar sem tilkynnt var um að vinna við aukaverk hefði verið stöðvað vegna þess að stefndi hefði ekki greitt hina umdeildu reikninga. Með tölvupósti, dagsettum 22. júlí 2010, staðfesti framkvæmdastjóri stefnanda að öll vinna við umbeðin reikningsverk hefði verið stöðvuð sökum þess að ekki hefði verið staðið við fyrirheit um greiðslu. Einnig kom fram að síðustu reikningar vegna þessara verka hefðu verið ritaðir þann dag og að unnið yrði eftir upphaflegu tilboði að því marki sem óunnin aukaverk hömluðu ekki framkvæmdum. Þessu erindi svaraði framkvæmdastjóri stefnda með tölvupósti 23. sama mánaðar og voru þá ítrekaðar athugasemdir stefnda vegna framvindu verksins og því haldið fram að reikningar vegna viðbótarverka væru ekki studdir fullnægjandi gögnum. Þá kom þar fram að stefnda væri nauðsynlegt að fá skipið afhent eigi síðar en 15. september, en stefnandi hefði ekki talið það mögulegt, og að stefndi teldi dráttinn á verklokum varða dagsektum samkvæmt 7. gr. verksamnings aðila, auk þess sem áskilinn var réttur til að krefjast skaðabóta vegna dráttarins. Jafnframt var áréttað að ágreiningur væri um viðbótarverk, en þar fyrir utan var vefengt að þessi verk hefðu að öllu leyti verið unnin.

Hinn 29. júlí 2010 var haldinn fundur með fyrirsvarsmönnum málsaðila til að fara yfir framgang verksins og útgefna reikninga. Liggur frammi í málinu frásögn af þeim fundi þar sem reikningar eru tilgreindir með númerum og þeir ýmist sagðir greiddir eða ógreiddir og framkomnar athugasemdir vegna þeirra.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að fyrirsvarsmaður stefnda hafi lýst yfir riftun á verksamningnum á fundi fyrirsvarsmanna aðila 29. júlí 2010 og krafist þess að allri vinnu yrði hætt við skipið. Aðilar eru hins vegar sammála um að samningnum var rift með bréfi stefnda 4. ágúst 2010. Þar var ágreiningi aðila lýst frá sjónarhorni, stefnda, settar fram athugasemdir við reikninga og því lýst að hann teldi sig þegar hafa greitt of mikið inn á verkið. Þá komu fram hjá honum athugasemdir við framgang útboðsverksins og sú ætlun hans að leggja fram bankaábyrgð vegna meintrar kröfu og láta ljúka viðgerð skipsins annars staðar og gerði kröfu um að vinnu við skipið yrði hætt. Þá var gerður áskilnaður um skaðabætur vegna vanefnda. Stefnandi mótmælti riftuninni og vísaði til þess að dráttur á vinnslu verksins væri vegna atriða er vörðuðu stefnda. Með tölvupósti 6. ágúst 2010 áréttaði stefndi riftun og vísaði til þess að samningi hefði verið rift vegna afhendingardráttar stefnanda.

Þann 17. ágúst 2010 krafðist stefndi þess að stefnandi afhenti skipið gegn greiðslu bankaábyrgðar og bauð fram bankaábyrgð að fjárhæð 100.000.000 króna. Af hálfu stefnanda var afhendingu skipsins hafnað og vísað til þess að skilyrði 2. mgr. 200. gr. siglingalaga nr. 34/1985 væru ekki uppfyllt með framlagningu bankaábyrgðar þar sem stefndi hafi ekki sýnt fram á hver tölulegur ágreiningur aðila væri. Með bréfi dagsettu 27. ágúst 2010 sendi lögmaður stefnda lögmanni stefnanda bréf þar sem krafa um afhendingu skipsins var ítrekuð og fylgdi bréfi því afrit af bankaábyrgð að fjárhæð 100.000.000 krónur. Fór svo að stefndi krafðist þess að fá skipið afhent með beinni aðfarargerð. Undir rekstri aðfararmálsins lagði stefnandi fram viðbótarbankaábyrgð að fjárhæð 35.000.000 króna. Héraðsdómur féllst á kröfu stefnda og heimilaði 27. september 2010 að skipið yrði tekið úr vörslum stefnanda með beinni aðfarargerð. Innsetningarbeiðni var send sýslumanninum á Akranesi 30. september 2010 vegna málsins. Stefndi tók til varna við fyrirtöku beiðninnar og fór svo að sýslumaður hafnaði kröfunni og gerðu aðilar með sér samning 8. nóvember 2010 um suðuvinnu á skrokk fyrir neðan sjólínu á skipinu Fossá ÞH-362. Í honum fólst að stefnandi myndi klára vinnu við skipið og enduruppbyggingu á hliðarfærsluvagni gegn greiðslu svo að unnt væri að sjósetja skipið. Þá gerðu aðilar 11. desember 2010 með sér samkomulag sem í fólst breyting á 9. gr. þess samnings. Auk stefnanda og stefnda voru einnig undirverktakar stefnda, Straumnes hf. og Rudolf B. Jósefsson slf., aðilar að samkomulaginu. Þar voru skilgreind verklok undirverktakanna og samið um uppgjör á reikningsverkum þessara aðila. Samkomulagið gekk eftir og var skipið sjósett og flutt úr skipasmíðastöð stefnda til Slippsins á Akureyri 13. desember s.á., þar sem endurbyggingu skipsins var lokið í maí 2011.

Í fyrsta málinu er deilt um greiðslu reikninga nr. R27462, R27488, R27519, R27526, R27527, R27528, R27533, R27530, R27531, R27457, R27459, R27461, R27470, R27468, R27485, R27486, R27486, R27487, R27435, R27476, R27500, R27509, R27510, R27511 og R27512, sem nánar er lýst þegar rakinn er í málatilbúnaður stefnanda hér að neðan. Upphaflega var ágreiningur á milli aðila um fleiri reikninga og hljóðaði krafan þá upp a 87.423.084 krónur en hefur nú verið lækkuð í 56.546.297 krónur.

Mistök urðu til þess að einhverjir reikningar stefnanda, vegna vinnu við skipið, voru gefnir út með virðisaukaskatti en það var leiðrétt með bakfærslu reikninga og útgáfu nýrra án virðisaukaskatts. Stefndi greiddi hluta af þessum reikningum og fékk stefnandi, sökum þessarar leiðréttingar, endurgreiddar 21.846.793 krónur frá skattyfirvöldum 7. febrúar 2011 og var þeirri fjárhæð ráðstafað inn á skuld stefnda við stefnanda. Komu þessar innborganir til frádráttar höfuðstól skuldarinnar á þeim degi sem hver og einn reikningur var greiddur.

Í öðru málinu er varðar stefnu sem birt var 16. september 2011 gerir stefnandi kröfu um efnda- og skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar verksamnings, á grundvelli sömu málsatvika. Krafan hljóðar nú upp á 21.695.085 krónur, en upphaflega var hún að fjárhæð 26.616.533 krónur. Hún samanstendur í fyrsta lagi af kröfu um efndabætur að fjárhæð 10.380.370 krónur. Í öðru lagi bótakröfu vegna galla í útboðslýsingu, breytinga sem stefndi gerði á aðalverkinu og viðbótarverkum á verktíma og seinkunar sem varð á afhendingu teikninga og búnaðar, 3.251.275 krónur. Í þriðja lagi vegna aukinnar vinnu sem framkvæmdastjóri, bókari, tæknifræðingur og verkstjórar stefnanda þurftu að inna af hendi vegna hinnar ólögmætu riftunar, 8.063.440 krónur.

Í þriðja málinu gerir stefndi, sem gagnstefnandi, á grundvelli sömu málsatvika, kröfu um að viðurkennd verði lögmæti riftunar hans á verksamningi. Þá krefst hann þess að gagnstefndi greiði honum samtals 53.435.603 krónur og er krafa hans í níu liðum. Upphaflega hljóðaði krafa hans upp á 135.826.631 krónu en var lækkuð í framangreinda fjárhæð með framlagningu bókunar í þinghaldi 23. maí 2016.

Í fyrsta lagi er um að ræða kröfu vegna ofgreiðslu fyrir samningsverk samkvæmt verksamningi. Upphaflega hljóðaði krafan upp á samtals 23.836.480 krónur en hefur nú verið lækkuð í 5.054.193 krónur. Í öðru lagi er gerð krafa um endurgreiðslu vegna ofgreiðslu reikninga nr. R24810 og R25050, vegna aukaverka, sem greiddir voru með fyrirvara, upphaflega að fjárhæð 3.483.842 krónur en krafan hefur nú verið lækkuð í 922.398 krónur og stendur því einungis eftir reikningur nr. R24810.

Í þriðja lagi er gerð krafa vegna ofgreiðslu vegna suðuvinnu á skrokk upphaflega að fjárhæð 8.000.000 króna en hefur nú verið lækkuð í 5.300.000 krónur. Í fjórða lagi er gerð krafa vegna ofgreiðslu vegna vinnu við hliðarfærsluvagn, upphaflega að fjárhæð 5.000.000 króna en var við meðferð málsins lækkuð, fyrst í 3.000.000 króna í þinghaldi 11. desember 2014 en síðan í 1.500.000 krónur með framlagningu bókunar 23. maí 2016 og loks í 1.200.000 krónur við málflutning við aðalmeðferð vegna ákvæðis í samningi aðila frá 8. nóvember 2010 um að stefndi greiddi ávallt 60% af kostnaði vegna viðgerðar á hliðarfærsluvagni. Þá er í fimmta lagi krafist greiðslu kostnaðar vegna dráttar skipsins til Akureyrar að fjárhæð 6.800.000 krónur, í sjötta lagi kostnaðar vegna aukalegrar aðstoðar Loyd´s á Íslandi að fjárhæð 2.069.330 krónur, í sjöunda lagi kostnaðar vegna vinnu Slippsins á Akureyri, upphaflega að fjárhæð 73.675.928 krónur en hefur nú verið lækkuð í 18.771.415 krónur, í áttunda lagi kostnaðar vegna útgáfu bankaábyrgðar, 3.273.000 krónur og í níunda lagi dagsekta vegna seinkunar verkloka, 9.706.051 króna.

Fyrir liggur skýrsla Frímanns A. Sturlusonar, skipasmiðs, skipatæknifræðings og starfsmanns Navis ehf., um verkstöðu og kostnað af samningsverki miðað við 12. ágúst 2010, dagsett 31. ágúst 2011. Taldi Frímann að um 2400 vinnustundum hafi verið ólokið í samningsverkinu og að mestallt efni liggi fyrir vegna ólokinna samningsverka. Taldi hann að þá hafi 1600 vinnustundum verið ólokið vegna umsaminna aukaverka. Varðandi skil á teikningum taldi hann að teikningar, svo sem fyrir stýri, hækkun lestarkarma, púlt í stýrishús, kranaundirstöðu o.fl., hafi skilað sér seint og að sumar hafi ekki enn legið fyrir þegar Frímann framkvæmdi gerði skýrslu sína. Hafi það ekki haft þýðingu að leggja mat á tafir vegna síðbúinna afhendinga á einstaka búnaði þar sem fyrir liggi að ógrynni aukaverka voru unnin á sama tíma. Þá telur hann að útboðslýsing hafi verið ónákvæm, þ.e. „verulegar breytingar verða á verkinu eftir að það hefst“ og að „aukaverkin hafa tvímælalaust veruleg áhrif á verktímann“. Varðandi kranann sé ljóst að afhending hans var komin rúma tvo mánuði fram yfir umsamin verklok. Þá telur Frímann að leyndir gallar hafi haft töluverð áhrif á framgang verksins vegna afleiddra verka. Sé litið til verkáætlunar stefnanda frá því 28. maí 2010 þá komi þar fram framangreind áætlun um 9710 klukkustundir í aukaverk en á þeim tíma á að hafa verið búið að vinna 11.700 klukkustundir í samnings- og aukaverk. Af því megi álykta sem svo að samningsverkinu kunni að hafa lokið um þremur vikum fyrr ef engin aukaverk hefðu komið til. Svo hafi þó ekki verið því að á saman tíma hafi smíði stýrishúss (álhúss) ekki verið lokið og verði ekki séð að aukaverk hafi tafið þann verkþátt. Þá telur hann að ef aukaverk hefðu ekki komið til hefði stefnandi átt að ljúka verkinu á tilsettum tíma. Einnig kom fram að hann telur að stefnandi hafi ekki orðið fyrir beinum kostnaði vegna breytinga, niðurfellingar verka eða tafa á afhendingu búnaðar.

Frímann vann skýrslu sína að beiðni stefnda. Stefndi byggir á því að með þessari skýrslu hafi hann verið að leitast við að fá mat óháðs aðila á stöðu verksins og gildi umdeildra reikninga í því skyni að ná sáttum í málinu og tryggja sönnun. Stefnandi virðist ekki hafa haft aðkomu að því að öðru leyti en því að koma með athugasemdir áður en Frímann skilaði af sér skýrslunni í endanlegri mynd og getur Frímann um það í skýrslu sinni. Fyrir liggur að stefnandi leit ekki á Frímann sem óháðan aðila og hefur hann mótmælt skýrslunni.

Einnig liggur fyrir verkstöðuúttekt Guðmundar Péturssonar sem unnin var af hálfu Aflvís ehf. að beiðni stefnda, dagsett 25. mars 2011, og miðaði hún við stöðu verksins 5. janúar 2011. Skýrslan er úttekt á verkstöðu samnings- og aukaverka við komu skips til Akureyrar. Meðal þeirra athugasemda sem þar koma fram eru athugasemdir við form reikningsgerðar stefnanda.

Þá liggur fyrir greinargerð Þorsteins Haukssonar vegna málningarvinnu, dagsett 20. október 2010. Skýrsla þessi var fyrst lögð fram við aðalmeðferð málsins nú og ber með sér að hafa verið send vitninu Gunnari Richter hjá Daníelsslipp. Þar kemur fram að Þorsteinn hafi að beiðni Gunnars metið hvað var eftir af málningarvinnu í skipinu og hafi skoðað það 7. október 2010. Í niðurstöðu hans segir að það sé hans mat að eftir sé ca sex daga málningarvinna fyrir 4-6 menn. Byggist það mat á því að skipið sé inni í húsi og aðstæður til þeirrar vinnu eins og best verður á kosið. Þá sé hægt að vinna við ýmis svæði á sama tíma en alltaf þurfi að vinna sumt í ákveðinni röð.

Þann 16. apríl 2012 voru þeir Stefán Sigurðsson framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, og Ólafur Friðriksson skipatæknifræðingur dómkvaddir sem matsmenn að beiðni stefnda til að leggja mat á fimm atriði sem nánar voru sundurliðuð í matsbeiðni; útboðsverk og breytingar á því, reikninga vegna tilboðsverka á föstu gjaldi, reikninga fyrir vinnu unna á tímagjaldi, vinnu tengda flutningi skipsins til Akureyrar og lok endurbyggingar skipsins á Akureyri. Þá lagði stefnandi 25 spurningar til viðbótar fyrir matsmennina. Niðurstaða matsmanna liggur fyrir í tveimur matsgerðum, annars vegar dagsettri 7. júní 2013 og hins vegar 20. júní sama ár og kemur fram í matsgerð að þeir hafi skoðað skipið.

Í fyrri matsgerðinni svara þeir spurningunni um það hversu miklum hluta útboðsverksins hafi verið lokið þegar riftun verksamnings átti sér stað 6. ágúst 2010. Þá er þess óskað að matsmenn meti hvort framvinda og verkstjórn með verkinu á verktíma hafi verið með forsvaranlegum hætti. Í matsgerðinni kemur fram að við mat á stöðu tilboðsverksins hafi verið stuðst við útreikninga sem Skipasmíðastöð Njarðvíkur gerði þegar hún bauð í þetta sama verk. Það tilboð hafi verið upp á 114,9 milljónir króna án virðisaukaskatts og innifalið í því teikningavinna samkvæmt tilboði frá Navis ehf. upp á 1.250.000 krónur og rafmagnshlutinn samkvæmt tilboði frá Raftíðni ehf. upp á 13.500.000 krónur. Sandblástur hafi verið undanþeginn tilboðinu og gert ráð fyrir 10.400 seldum tímum í verkinu, án vinnu rafvirkja, tæknimanna, tankahreinsara og gólfefnamanna. Þá segir í matinu að upphaflegt tilboð stefnanda hafi verið 108.857.000 krónur eftir leiðréttingu, þ.e. lækkun vegna niðurfellingar á vélarupptekt að fjárhæð 7.928.000 krónur sem talin var innifalin í öðrum verkþætti og umsaminn afsláttur 5.400.000 krónur, og hafði þá verið samið um að verkkaupi sæi um teiknivinnu. Miðuðu matsmenn við að almennur kostnaður lækkaði um 1.250.000 krónur eftir að teiknivinna færðist yfir á verkkaupa en afsláttur að öðru leyti deildist niður á verkliði. Mátu matsmenn það svo að 78,96% af útboðsverkinu hafi verið lokið er samningnum var rift.

Um framvindu verksins og verkstjórn segir í matinu:

Strax í upphafi verks var samið um breytingar á verkinu og síðan var óskað eftir mörgum viðbótarverkum. Sum af þessum viðbótarverkum höfðu áhrif á tilboðsverkið og einnig kom inn á stöðvun[] á verktíma vegna meintra leyndra galla. Allt hefur þetta neikvæð áhrif á framvindu verksins, þó var töluvert af breytingunum sem voru til minnkunar á tilboðsverkinu. Ekki virðast hafa verið haldnir reglulegir verkfundir til að fylgja eftir framvindu verksins fyrr en undir lok áætlaðs verktíma.

Matsmenn hafa því ekki nægilegar upplýsingar til að leggja mat á hvort framvinda og verkstjórn með verkinu hafi verið með forsvaranlegum hætti.

Þá segir í matinu hvað það varðar hvort einstakar breytingar hafi verið til hækkunar eða lækkunar á verði:

… Að hætt var við að hafa andveltigeymi á skipinu. Matsmenn töldu að endurmetið samningsverð fyrir andveltugeymi hafi verið 6.609.000 krónur. Samið var um lækkun á samningsverði við brottfall geymisins um 3.222.000 krónur sem er augljóslega mun lægri fjárhæð en sem nemur verði geymisins en á móti kemur að verkið sem eftir stendur tekur breytingum sem kosti peninga. Eðlilegt sé að álykta að þau verk séu innifalin.

… Breytingar á kjallara stýrishúss, þ.e. útfellingar á stálsmíð og álvinna í staðinn. Þar sem ekki var ákveðið samhliða brottfalli á andveltugeymi að flytja vindur er ekki hægt að sjá annað en að brúarkjallari hafi þurft að vera utan um vindurnar og því telja matsmenn að hér sé ekki um viðbótarverk að ræða og tilheyri samkomulagi um brottfall á andveltigeymi. Engin breyting á verði.

… Breyting (lækkun) á lúgukörmum, þannig að þeir yrðu 1,10 metrar á hæð í stað 1.5 metrar. Hækka átti lestarkarma um 1,1, m en hætt var við það og þeir eingöngu hækkaðir um 700 mm. Áætluð voru 6 sex tonn af stáli skv. útboði, en þau urðu rétt rúmlega 3. Sanngjarnt má telja að þessi liður lækki um þriðjung eða kr. 2.022.000.

… Breytingar á stýrisbúnaði, þ.e. stýrisvél færð 250 mm aftar en upphaflega var gert ráð fyrir og lenging á hæltölu sem því nemur. Matsmenn hafa áætlað hækkun 529.000 krónur …

… Breytingar vegna krana, þ.e. auknar styrkingar og breytingar á dekkhúsi. Breytingar á dekkhúsi eru unnar samkv. aukareikningslið 27011 sem matsmenn telja ásættanlegt verð, 459.041 krónur. Áætluð stálþyngd á styrkingum voru 1500 k[g] en matsmenn telja að þau hafi verið 1740 kg og mismunur 240 kg á 2.275 kr/kg samkv. einingarv. 546.000 krónur. Samtals til hækkunar 1.005.041 krónur.

Þá töldu matsmenn að við verkslit hafi í heild verið búið að framkvæma fyrir um 121 milljón króna og ólokið hafi verið samningsverk fyrir um 20 milljónir króna og tilboðsverk á föstu gjaldi fyrir um 12 milljónir króna. Þannig hafi heildarumfang verksins verið komið í 153 milljónir króna auk umbeðinna og fyrirséðra reikningsverka. Samningsverðið hafi verið tæpar 109 milljónir króna og sé því ljóst að umfang verksins hafi verið komið a.m.k. 44 milljónir króna fram yfir samningsverðið eða yfir 40%, sem verði að teljast veruleg aukning og geti ekki rúmast innan umsamins verktíma. Þá kemur fram í mati að matsmenn gera ekki athugasemd við form reikninga.

Um reikning nr. R24810 er varðar slipptöku vegna botnskoðunar skips segir í mati að skipið hafi komið til Akraness 7. nóvember 2009 og þá hafi ekki verið búið að semja um verkið og það hafi ekki staðið til fyrr en að lokinni botnskoðun Lloyd´s Register. Taka þurfti skipið upp vegna botnskoðunar og vegna þess þurfti að trimma skipið (dæla vatni í stafnhylki), tæma sjó úr lest og laga eitthvað til um borð. Menn stefnanda hafi tekið við skipinu 7. nóvember þar sem áhöfnin fór strax í land. Verkliðir samkvæmt þessum reikningi teljast því utan útboðslýsingar.

Þá töldu matsmenn að verkfundir væru hluti af stjórnunarkostnaði stöðvarinnar og gátu því ekki fallist á þann lið reikningsins. Einnig töldu þeir að kostnaður vegna endurbyggingar á hliðarfærsluvagni stefnanda sé hluti af viðhaldskostnaði á tækjum og búnaði stöðvarinnar.

Í seinni matsgerðinni meta matsmenn það svo að reikningar nr. R27527 og R27528 vegna aukinnar álsmíði í brúarkjallara og uppgangi til brúar varði ekki viðbótarverk og að fjárhæð reikninganna sé ekki sanngjörn og eðlileg. Miðað við lækkun vegna brottfalls andveltigeymis og þar sem ekki var ákveðið jafnhliða að flytja vindur sé ekki hægt að sjá annað en að brúarkjallarinn hafi þurft að vera utan um vindurnar og því sé ekki um viðbótarverk að ræða.

Hvað varðar reikninga nr. R27519 og R27526 vegna flutnings á stýrisvél og aukinnar lengingar á hæl töldu matsmenn að vegna þessa hafi þurft að smíða stokk sem í fóru um 90 kg af stáli. Vinna við botnstokka og frágangur á stýrisvél o.fl. var óbreytt. Hæll skipsins þurfti að lengjast sem þessu nemur og krefst það töluverðrar aukinnar styrkingar. Telja matsmenn að um viðbótarverk sé að ræða auk hönnunar en teikningar bárust ekki af þessum verkþáttum. Þá telja matsmenn að verð fyrir stálvinnu vegna verksins sé óeðlilega hátt en verð fyrir hönnun eðlilegt.

                Hvað varðar reikning nr. R27488 vegna viðbótarstyrkingar vegna þilfarskrana þá töldu matsmenn að svo miklar breytingar hafi verið gerðar á verkinu að semja hefði átt um það upp á nýtt. Töldu þeir að aukin styrking, 240 kg, hafi átt að kosta 2.275 krónur fyrir hvert kg eða 546.000 krónur í stað 3.698.750 króna, eins og reikningur stefnanda hljóðaði um.

Þá töldu matsmenn að sandblástur í lest hafi verið innan útboðs. Lestin hafi verið sandblásin þar sem verktaki hafði ekki yfir að ráða háþrýstidælu sem dygði til að alhreinsa lestina með vatni.

Matsmenn töldu að vinna stefnanda vegna suðuvinnu á skrokki fyrir neðan sjólínu á skipinu á grundvelli samnings aðila frá 8. nóvember 2010 hafi verið utan útboðsins. Þá voru matsmenn beðnir um að meta hvort samningsverð vegna vinnu á grundvelli samnings aðila frá 8. nóvember 2010, 8.000.000 króna, hafi verið eðlilegt og sanngjarnt m.t.t. umfangs vinnunnar. Töldu matsmenn að áætlaður kostnaður vegna vinnu við skipið eftir verkslit og fram að afhendingu hafi verið 2.000.000 króna.

Loks mátu matsmenn það svo að líta verði á kostnað verktaka vegna endurbyggingar á nauðsynlegum búnaði á borð við hliðarfærsluvagn sem hluta af viðhaldskostnaði á tækjum og búnaði stöðvarinnar. Þá töldu þeir að samningsverð aðila, 3.000.000 króna, vegna endurbyggingar hliðarfærsluvagnsins hafi ekki verið eðlilegt og sanngjarnt m.t.t. umfangs vinnunnar. Þar sem verulegar endurbætur hafi verið gerðar á vagninum þegar matsmenn skoðuðu hann hafi ekki verið hægt að meta verkstöðu á þeim tíma sem spurt var um til að meta breytingar sem þá voru unnar.

Fyrir liggur matsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna, Daníels Gísla Friðrikssonar skipatæknifræðings, Gríms Sveinbjörns Sigurðssonar tæknifræðings og Páls Ragnars Sigurðssonar vélaverkfræðings, er unnin var í tveim hlutum, dagsett í mars 2014. Þeir voru dómkvaddir að beiðni stefnanda til þess að meta með yfirmati sömu atriði og áður höfðu verið metin.

Í samantekt yfirmatsmanna í yfirmatsgerð segir að við skipasmíðar sé mikilvægt að vandað sé til verka. Oftast sé kostnaður mjög hár og því borgi sig að undirbúningur sé eins góður og hægt er. Aukaverk séu oftast dýrari en tilboðsverk og sé því reynt að hafa verklýsingu nákvæma. Þetta verk hafi að vissu leyti liðið fyrir það að samningurinn gerði ekki ráð fyrir að greiðsla fyrir tilboðsverk væri í takt við framgangs verksins. Reikningsútskriftir séu ekki auðskiljanlegar þegar verkþættir breytast og bætast við. Aðilum málsins var fyrirmunað að koma sér saman um að gerð yrði sameiginleg úttekt af óháðum aðila sem báðir skuldbundu sig til að sætta sig við. Þar með var alltaf óvissa um hve langt hin mismunandi verk væru komin þegar leiðir aðila skildu og hafi veruleg verðmæti farið forgörðum þegar ákveðið var að færa skipið í aðra skipasmíðastöð. Þá segir að í mörgum tilfellum sé hægt að áætla hve margar klukkustundir fari í ákveðin verk en það sé háð afkastagetu og tækjabúnaði hver áhrifin verða á heildarverktíma. Afkastagetan sé háð því hver staða annarra verka er á hverjum tíma. Í matsspurningum er oft spurt um áhrif verktíma í einstökum viðbótarverkum en svar við því hver heildartöf þessara verka varð fer eftir aðstæðum, tækjum og mannafla á hverjum tíma. Varðandi seina afhendingu á tækjum og búnaði sé greinilegt að verkið tafðist verulega vegna þess hve seint teikningar sem verkkaupi átti að leggja til bárust.

Þá töldu yfirmatsmenn að mikið beri á milli aðila varðandi verkstöðuna við riftun og að raunhæfasta verkstöðumatið sé skýrsla Frímanns. Það lýsi stöðunni á trúverðugan hátt og beri lýsingu hans saman við þær ljósmyndir sem fylgdu matsgögnum. Erfitt sé að skýra hinn mikla mun á þeirri upphæð, 15.150.000 krónur, sem Frímann telur að eftir sé af tilboðsverkinu, og tæplega 36.000.000 króna kostnaði sem Slippurinn tók fyrir að ljúka verkinu. Að hluta til skýrist þetta hugsanlega af því að verk sem Þ&E hafa undirbúið skila sér ekki sem undirbúin til Slippsins. Til dæmis má sjá á ljósmyndum merkta rafmagnskapla en í gögnum Slippsins segir að engar merkingar hafi verið fyrir hendi. Lýsingum verksala á ástandi skipsins við brottför frá Akranesi ber ekki saman við lýsingar Slippsins á ástandi þess við komuna til Akureyrar. Yfirmatsmenn eiga erfitt með að skilja hvers vegna klæðningar hafi getað verið eins illa farnar eftir sjóferðina og sagt er í lýsingum. Þeim ber engan veginn saman. Samningsverðið var 108.857.000 krónur. Frá þeirri upphæð dróst 11.551.493 krónur vegna verka sem felld voru út. Tilboðsverðið endaði í 97.305.507 eftir að búið var að draga frá upphæðir þeirra liða sem felldir voru út. Yfirmatsmenn meta að ef eðlileg samskipti hefðu verið á milli verkkaupa og verksala hefði mátt ljúka tilboðsverkinu fyrir 15.150.000 krónur eins og Frímann áætlar sem er 15,57% af 97.305.507 krónum. Í samtali við Björn Samúelsson eftirlitsmann verkkaupa kom fram að á köflum vantaði starfsmenn til verksins vegna anna Þ&E í öðrum verkefnum. Yfirmatsmenn treysta sér ekki til að meta hvort verkstjórn hafi verið með forsvaranlegum hætti en þar sem mikið a[f] viðbótarverkum kom seint á verktímanum er hægt að sjá fyrir sér að erfitt hafi verið að skipuleggja verkþættina.

Þá svöruðu yfirmatsmenn spurningum um það hvort tilteknar breytingar hafi verið til hækkunar eða lækkunar á verði m.a. svo:

… Andveltigeymir. Til lækkunar á samningsverði um 3.222.000.

Andveltigeymir var teiknaður aftast í brúarkjallara í útboðsgögnum. Lækkun vegna brottfellingar andveltigeymis var samþykkt 3.222.000 en ekki 6.609.000 samkvæmt kílóverði 1980 kr/kg. Ekkert er um í gögnum málsins sem segir að ákvörðun hafi verið tekin um að lækka brú við brottfall andveltigeymis og akkerisspila. Yfirmatsmenn gera ráð fyrir að mismunurinn 3.387.000,- sé vegna smíði á brúarkjallara í staðinn fyrir þann hluta andveltigeymis úr stáli sem féll út. Samkvæmt gögnum var í upphafi verksins gert ráð fyrir að fjarlægðar væru akkerisvindur á fundi 3. desember 2009 (sjá fundur nr. 1,3. des 2009 liður nr. 1). Samþykktar Lloydsteikningar af undirstöðum undir akkerisspil bárust 27 maí 2010. Ekki er hægt að sjá annað en að samkomulag hafi verið um að færsluna á þessum vindum.

Breytingar á brúarkjallara stál í ál. Óbreytt frá samningsverði.

Við upphaflega hönnun á brú og kjallara undir brú var nauðsynlegt að smíða einangrað stálgólf undir brúna þar sem kjallarinn var opin[n] að framan. Engin gögn finnast um að við breytingu hafi verið fallið frá því að hafa brúarkjallara, eða stiga upp í brú. Þegar ákveðið var að færa vindurnar fram fyrir brúna var örugglega gert ráð fyrir að loka framþili á brúarkjallara. Þar með var stálgólfið undir brúnni óþarft. Flatarmál á þessu stálgólfi er nokkurn veginn það sama og flatarmál á framþilinu sem bættist við og stálþiljunum sem byggja þurfti vegna brottfalls andveltigeymisins. Alltaf var gert ráð fyrir að smíðað yrði upphækkað grindargólf úr timbri í brúna og ekki mikill munur á undirbyggingunni undir það hvort gólfið sé t.d. 300 mm yfir stálgólfi eð 1000 mm. Yfirmatsmenn komast að þeirri niðurstöðu að endanleg klæðning á brúarkjallara komi upp á móti þeirri klæðningu sem þurfti á upphaflegt brúargólf. Yfirmatsmenn komast að þeirri niðurstöðu að mismunurinn 3.387.000, vegna andveltigeymis nægi til breytinga í áli.

… Lækkun á lúgukörmum úr 1,5 m í 1,1 m. Til lækkunar á samningsverði um 4.296.600. Útboðsgögn gera ráð fyrir 6000 kg í þessum lið, en smíðað var úr 3830 kg. Yfirmatsmenn komast að þeirri niðurstöðu að mismunurinn 2170 kg@1980 komi til lækkunar.

… Breytingar á stýrisbúnaði 250 mm aftur (+hæll og tala). Til hækkunar á samningsverði um 1.338.800. Fyrir liggur samþykkt tilboð í smíði hæltölu upp á 464.400.

Aukaverk á föstu tilboði.

Yfirmatsmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að 419.500 sé sanngjarnt fyrir lengingu á hæl 250mm. Yfirmatsmenn […] hafa komist að þeirri niðurstöðu að 454.900 sé sanngjarnt fyrir smíði á skáp fyrir stýrisvél og bát við stamma.

… Breytingar og styrkingar v. Krana. Til hækkunar á samningsverði um 3.698.750. Í samningsverði er 60 tonn x metra krani með innbyggðri dælustöð. Endanlegi kraninn er 110 tonn x metra. Uppsetning á þetta stærri krana með sjálfstæðri dælustöð ásamt breytingum á fyrirkomulagi undirstaða gerir umfang verksins talsvert meira. Þetta ásamt töfum á afgreiðslu teikninga verður til þess að yfirmatsmenn [eru] hafa komist að þeirri niðurstöðu að 3.698.750 sé eðlilegt fyrir þessa breytingu.

Hvað varðar reikning nr. R24810, dagsettan 20. desember 2009, slipptaka vegna eigandaskipta telja matsmenn að þar sem slipptakan fór fram fyrir undirritun samnings og ekki var tekið fram að slipptakan skyldi vera innifalin í samningi verði að skoða hann sem utan útboðs. Þá telja þeir að sanngjörn og eðlileg fjárhæð reikningsins sé 961.614 krónur.

Þá töldu yfirmatsmenn að undirbúningur fyrir og frágangur eftir sandblástur ætti að vera innifalinn í fermetraverði sandblásturs og málningar. Þá töldu þeir að teiknivinna væri utan útboðs og hún ætti að vera unnin af stefnda og að sú ákvörðun að taka gír úr skipinu og senda til Danmerkur og breyta honum þar hafi haft veruleg áhrif til lengingar verktímans um átta vikur frá áætluðum verktíma samkvæmt upprunalegum samningi.

Yfirmatsmenn töldu einnig að form og framsetning reikninganna væri eðlileg en texti knappur. Eitt af hlutverkum eftirlitsmanns verkkaupa sé að óska eftir aukaverkum, fylgjast með framgangi þeirra og að fara yfir þessa reikninga. Komi eitthvað óeðlilegt í ljós við yfirferð reikninga, óski hann eftir undirgögnum.

Hvað varðar suðuvinnu á skrokki neðan sjólínu þá mátu yfirmatsmenn það svo að vinna við lokun á kili taki 270 tíma, forpikk og neglugöt 60 tíma, að setja tvo blindflansa og athuga botnloka 16 tíma. Samtals séu þetta 346 tímar á 5500 kr/tími. Áætlaður efniskostnaður sé 300.000 krónur og ófyrirséður kostnaður 500.000 krónur. Samtals geri þetta 2.700.000 krónur. Þá telja þeir eðlilegt að viðhald og endurbygging verkfæra og tækja verksala sé á hans kostnað.

Þá var borið undir yfirmatsmenn hve stór hluti vinnu Slippsins á Akureyri, að verðmæti 164.657.459 krónur, hafi fallið undir útboðsgögn og hefði átt að vinnast af stefnanda ef ekki hefði komið til rifunar. Vísuðu þeir til þess að samkvæmt skýrslu Frímanns áætli hann að eftir séu 2410 vinnustundir, eða 15.150.000 krónur, í tilboðsverkinu. Mat stefnanda hafi verið það að eftir hafi verið 5.886.180 krónur. Útreikningar frá Slippnum vegna þeirra verka sem tilheyrðu upphaflega tilboðinu og unnin voru eftir komu skipsins til Akureyrar eru samtals 35.912.835 krónur. Þarna beri mikið á milli. Að hluta til geti mismunur á milli Frímanns og Slippsins legið í óhagræði af færslu verksins milli verktaka, þar sem nýr verktaki kemur að hálfunnu verki og þarf í sumum tilfellum að endurvinna verkið. Einnig kemur til ný slipptaka, endurhreinsun á skipinu undir málningu. Yfirmatsmenn telja að verkstöðuskýrsla Frímanns gefi trúverðugasta mynd af stöðunni, þar sem henni ber saman við ljósmyndir sem fylgdu matsgögnum. Þar af leiðandi meti yfirmatsmenn það svo að niðurstaða hans, 15.150.000 krónur, sé vel rökstudd.

                Einnig kemur fram í mati yfirmatsmanna að þeir telji að öll þau verk sem stofnað var til á Akranesi hafi verið umbeðin jafnvel þótt ekki hafi legið fyrir skrifleg undirskrifuð verkbeiðni.

Hvað varðar reikning nr. R27527 að fjárhæð 2.639.200 krónur og reikning nr. R 27528 að fjárhæð 237.000 krónur, vegna brúarkjallara og stiga, þá telja matsmenn að þeir varði ekki viðbótarverk og að þeir eigi ekki rétt á sér. Í útboðsgögnum var stiginn í opnum brúarkjallara og hefði þurft að byggja vatnshelt þil utan um hann. Endanlega fyrirkomulagið varð þannig að stiginn er allur í gegnum lokað rými og sé smíði nýs stiga umfangminni ef eitthvað er.

Yfirmatsmenn meta það svo að færsla stýrisvélar og lenging hælstykkis, sbr. reikninga nr. R27519 og R27526, sé viðbótarverk og að fjárhæð reikninganna sé sanngjörn og eðlileg. Þá sé viðbótarstyrking þilfars vegna þilfarskrana, sbr. reikningar R27488, viðbótarverk og telja yfirmatsmenn að fjárhæð reikningsins sé sanngjörn og eðlileg. Þá telja þeir að verkið lengi verktímann um 30 dagsverk.

Einnig töldu yfirmatsmenn að lest falli ekki undir „exterior“ og þar af leiðandi sé sandblástur á lest utan útboðs. Töldu þeir að út frá matsgögnum megi sjá að ráðgjafar stefnda hafi talið sandblástur nauðsynlegan.

Yfirmatsmenn voru beðnir um að leggja mat á það hveru vel útboðsgögnin lýstu raunverulegu verki sem unnið var samkvæmt útboðinu sjálfur. Lýsa þeir því í matsgerð að það sem gert var samkvæmt útboðslýsingu hafi verið rif á gálga, stýrishúsi, byggð brú, hækkun á lúgukörmum og að ballasttönkum í afturskipi var breytt í olíutanka. Öðrum verkum í útboðsgögnum var verulega breytt eða þau felld niður. Verkkaupi lagði til íhluti í brú, andveltigeymir var felldur niður, hætt var við að breyta síðugeymum í andveltigeyma, hætt var við klefa í vélarúmi og glussageymir var felldur niður. Verkundirbúningnum virðist hafa verið áfátt og menn höfðu ekki gert sér grein fyrir ástandi skipsins. Verklýsingin var þar af leiðandi ónákvæm. Yfirmatsmenn töldu sig ekki hafa gögn til að svara því hversu stór hluti útboðsverksins var í samræmi við fyrirliggjandi útboðsgögn.

Þá var þess óskað að yfirmatsmenn legðu mat á það hvort undirbúningur verkkaupa í aðdraganda útboðs og verksamnings teljist vera fullnægjandi m.t.t. umsamins verktíma útboðs og ef svo er hversu miklar tafir hlutust af nánar tilgreindum þáttum. Hvað varðar teikningar þá töldu matsmenn að margar teikningar hafi borist mjög seint. Stefndi hafi krafist þess að vinna hæfist ekki fyrr en samþykktar teikningar lægju fyrir. Þá hafi tafir verið mismunandi miklar vegna breytinga á útboðsverki. Yfirmatsmenn töldu sig ekki geta metið nákvæm áhrif seint kominna teikninga og búnaðar á heildarverkið en hafa metið áhrif hvers verkþáttar fyrir sig á verkið í fyrri matsspurningum. Búnaður hafi komið seinna en verksali gerði ráð fyrir. Hluti hans var ekki kominn þegar riftun samningsins átti sér stað og það raskaði óhjákvæmilega framgangi verksins.

                Þá telja yfirmatsmenn að leyndir gallar á einangrun sem komu í ljós þegar klæðning var rifin frá í íbúðum hafi leitt til þess að stefndi stöðvaði vinnu verksins og hafi það orsakað tafir á verkinu en hversu mikil áhrif þær höfðu á heildarverktímann geti þeir ekki metið. Einnig telja þeir að beiðnir vegna aukaverka hafi komið of seint og þau verið umfangsmeiri en eðlilegt geti talist og hafi riðlað öllum áætlunum verksala varðandi framvindu verksins. Samkvæmt skýrslu Frímanns hafi verkmagn á bak við aukaverk verið svipað af stærðargráðu og upprunalegt samningsverk. Þar af leiðandi varð veruleg lenging á verkinu óumflýjanleg. Venjulega reyni menn að ná utan um heildarverkið í verklýsingum þannig að aukaverk verði sem allra minnst og eru þau sjaldan meiri en 20% af heildarverkinu. Yfirmatsmenn geti ekki metið hversu tafirnar urðu miklar vegna aukaverkanna. Til þess hefði þurft nánari gögn frá málsaðilum og lengri tíma til útreikninga. Þá hafi stefnandi í mörgum tilfellum þurft að bíða með að framkvæma verk vegna þess að ekki hafði verið tekin ákvörðun um það hvort þau skyldu framkvæmd eða hvort á þeim yrðu breytingar. Stefndi dró í einhverjum tilfellum undirritun verkbeiðna sem töfðu verkið enn frekar. Tafir af þessum orsökum urðu verulegar en gögn vanti til að geta metið nákvæm áhrif þess á verktímann. Einnig varð það niðurstaða yfirmatsmanna að sumarfrístími starfsmanna minnki afkastagetu verksala og að mjög líklega hafi verksali orðið fyrir aukakostnaði vegna framangreindra tafa. Ómögulegt sé að meta þann kostnað nema fara kyrfilega ofan í verkstöðu verksala á hverjum tíma fyrir sig þegar þessi aukaverk komu til. Einnig hefði þurft að yfirfara allar vinnuskýrslur sem tilheyra þessum verkum og kanna hvort verksali hafi þurft að sleppa öðrum ábatasömum verkum vegna þeirra.

Þá var lagt fyrir yfirmatsmenn að meta hversu vel útboðsgögn lýstu aðkomu eftirlitsmanns verkkaupa hvað varðar ákvarðanatöku á verkstað. Töldu þeir það venju að þegar verið sé að vinna að breytingu eða smíði skipa sé eftirlitsmaður á vegum verkkaupa á staðnum sem hafi fullt umboð til að skuldbinda verkkaupa vegna aukaverka, samþykkja unnin verk og fylgjast með því að verkið sé unnið samkvæmt útboðsgögnum. Þetta sé í fullu samræmi við það sem stendur í útboðsgögnum.

Þá voru yfirmatsmenn beðnir um að leggja mat á það hversu raunhæf krafa stefnanda um framlegðartap sé. Þeir lögðu ekki mat á réttmæti kröfunnar en töldu að 40% meðalframlegð tilboðsverksins sem verksali byggir kröfu sína á sé of mikil. Tilboðið hafi verið reiknað á þeim tíma þegar lítið var að gera hjá skipasmíðastöðvum og gera megi ráð fyrir að reiknuð framlegð af verkum sem boðið er í á svona tímum sé mjög lág. Mikið nær væri að reikna með að stefnandi hafi gert ráð fyrir 10%-15% framlegð af tilboðinu. Auðsjáanlegt er hins vegar að verksali hefði mátt gera ráð fyrir talsverðu af viðbótarverkum þar sem útboðsgögn voru ekki mjög yfirgripsmikil. Oftar en ekki sé sá leikur leikinn að hafa tilboðin lág þegar gert er ráð fyrir miklu af viðbótarverkum í þeirri von að ná verkinu og vinna hagnaðinn og framlegðina upp á viðbótarverkunum sem væru þá reiknuð á fullu verði. Yfirmatsmenn meta að ætluð framlegð vegna tilboðsverks sé hæfileg 10-15% en af viðbótarverkum á föstu verðlagi og reikningsverkum sé hún 40%. Yfirmatsmenn vísa til þess að stefnandi reikni með að eftir sé 5.886.180 krónur af tilboðsverkinu. Þar sem yfirmatsmenn telja eftirstöðvar samningsverksins 15.150.000 krónur þá sé niðurstaðan sú að krafa um bætur vegna framlegðartaps af samningsverki ætti að vera 1.515.000 til 2.272.500 krónur. Þá miði þeir við að ólokið sé viðbótarverkum á föstu gjaldi að fjárhæð 2.154.360 krónur. Af því leiði að bætur vegna framlegðarmissis viðbótarverkanna séu hæfilegar 861.744 krónur eða 40% af fjárhæðinni. Loks telja yfirmatsmenn vafasamt að fara fram á bætur fyrir viðbótarverk sem beðið hafi verið um en ekki unnin.

Yfirmatsmenn eru sammála um að útboðslýsing hafi verið ófullnægjandi og ekki tæmandi. Verksala hafi mátti vera það ljóst frá byrjun. Þeir töldu að tafir vegna seint afhentra teikninga og búnaðar væru ekki ofmetnar. Þá töldu þeir að verksali hafi sannanlega orðið fyrir tjóni sökum stöðvunar vegna leyndra galla, en vilji ekki taka afstöðu til hvort 11. gr. í upprunalegum verksamningi eigi við hér.

Loks voru yfirmatsmenn beðnir um að meta hversu raunhæf væri krafa stefnanda um greiðslur vegna aukinnar vinnu framkvæmdastjóra, bókara, tæknifræðings og verkstjóra vegna riftunar stefnda. Yfirmatsmenn gerðu ekki athugasemdir við þann tíma og kostnað sem lýst er í bótakröfunni en taka ekki afstöðu til réttmætis hennar.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri stefnanda, og Magnús Helgason, stjórnarmaður stefnda. Þá voru leidd fyrir dóminn til skýrslugjafar sem vitni Páll Sigurðsson og Daníel Gísli Friðriksson, dómkvaddir yfirmatsmenn, Björn Samúelsson, starfsmaður stefnda, Frímann A. Sturluson, skipatæknifræðingur og starfsmaður Navis ehf., Ólafur Friðriksson skipatæknifræðingur og dómkvaddur matsmaður, og Stefán Sigurðsson, fjármálastjóri hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur og dómkvaddur matsmaður, Valdimar Smári Axelsson, aðalbókari hjá stefnanda, Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra hjá Landhelgisgæslunni, Þorgeir Már Samúelsson, starfsmaður stefnda, Anton Benjamínsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Slippsins á Akureyri, Lárus Skúlason, starfsmaður stefnanda, Valgeir Valgeirsson, verkstjóri hjá stefnanda, Guðmundur Pétursson, Rudolf Björgvin Jósefsson, fyrirsvarsmaður RBJ slf., Ellert Rúnar Ingvarsson, fyrirsvarsmaður Straumness ehf., Gunnar Stefán Richter, fyrirsvarsmaður Daníelsslipps, Hilmar Þór Georgsson, starfsmaður Skipaþjónustu Íslands, Þorsteinn Hauksson, starfsmaður Flügger, Atli Georg Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda, og Bjarni Ásmundsson, starfsmaður Navis ehf.

Málsástæður og lagarök stefnanda, Þorgeirs & Ellerts hf., vegna stefnu birtrar 14. júní 2011. Mál 1.

Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 56.546.298 krónur auk vaxta og kostnaðar. Upphaflega hljóðaði stefnukrafan upp á 87.423.084 krónur en hún var í þinghaldi 11. desember 2014 lækkuð í framangreinda tölu. Er þá búið að fella á brott allar kröfur sem varða rafmagns- og trésmíðavinnu á grundvelli samkomulags aðila frá 11. desember 2010. Samhliða því detta út á móti þær innborganir eða kreditreikningar sem tilgreindir voru undir þessari kröfu samtals 26.554.718 krónur.

Stefnukrafan er byggð á þeim ógreiddu reikningum sem gerð er grein fyrir í stefnu. Þar er því lýst að krafan byggist á því að stefndi hafi vanefnt að greiða reikninga vegna unninnar vinnu við skipið. Um er að ræða verk sem stefndi óskaði eftir að yrðu framkvæmd og ber að greiða fyrir á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins um greiðslu fjárskuldbindinga. Þrátt fyrir að stefndi hafi rift verksamningi ber honum að greiða stefnanda fyrir unnin verk samkvæmt samningi. Stefnandi hafi margoft lýst því yfir við stefnda að riftunin sé ólögmæt enda hafi hún komið í kjölfar þess að stefnandi hætti vinnu við viðbótarverkin sökum þess að hann fékk ekki greiðslur fyrir þau á umsömdum gjalddögum. Engin aðvörun um riftun hafi komið frá stefnda eins og venja sé þegar um meintar tafir á verki er að ræða.

Í fyrsta lagi gerir stefnandi kröfu um greiðslu reikninga vegna leiðréttinga á magntölum og viðbótarverka sem fólu í sér frávik frá verksamningi, sbr. lið 5.2.2 í stefnu, að fjárhæð 16.497.890 krónur. Þessir reikningar eru tilkomnir vegna leiðréttinga á magntölum auk viðbótarverka vegna frávika frá verksamningi. Þeir voru allir dagsettir 3. september 2010 og með gjalddaga sama dag og voru án virðisaukaskatts.

Stefnandi telur að upplýsingar í útboðsgögnum og verklýsingu hafi verið ófullnægjandi miðað við umfang verksins og forsendur fyrir tilboðsverði stefnanda hafi þar af leiðandi brostið. Eftirlitsmaður stefnda hafi viðurkennt að stefnda hafi verið ljóst frá upphafi að verklýsingin væri ekki endanleg og nákvæm lýsing á verkinu. Stefnda mátti einnig vera ljóst að þörf væri á meira magni af stáli o.fl. en gert var ráð fyrir í útboðsgögnum, þar sem hönnunargögn og teikningar sem stefndi lét stefnanda í té gerðu hreinlega ráð fyrir því. Stefnandi vann verkið samkvæmt fyrirmælum stefnda og fór því eftir hönnunargögnum og teikningum stefnda þrátt fyrir að þessi gögn hafi falið í sér frávik frá verklýsingu í útboðsgögnum. Stefnandi telur enn fremur að frávik frá upphaflegri verklýsingu hafi verið meiri en við mátti búast og verður stefndi því að bera hallann af óskýrri verklýsingu í útboðsgögnum enda voru allar breytingar framkvæmdar á ábyrgð stefnda sem verkkaupa. Í ljósi ofangreinds telur stefnandi að stefnda beri að greiða eftirfarandi útgefna reikninga, sem allir eru dagsettir 3. september 2010:

Reikning nr. R27462 að fjárhæð 983.000 krónur vegna kostnaðar stefnanda við viðbótarfrárifsþyngdir og vinnu vegna aukins umfangs verksins. Í kafla 2.01 og 2.02 í útboðslýsingu er áætlað að frárifsþyngd sé 35 tonn af stáli. Raunveruleg frárifsþyngd reyndist vera 65,5 tonn.

Reikning nr. R27488 að fjárhæð 3.698.750 krónur vegna kostnaðar stefnanda við viðbótarstyrkingar vegna þilfarskrana og vinnu vegna aukins umfangs verksins vegna stækkunar kranans. Í kafla 6.00 í útboðslýsingu er áætlað stálmagn 1.5 tonn. Raunverulegt stálmagn var 2,5 tonn. Þá var staðsetningu kranans breytt að beiðni stefnda en það kostaði töluverða vinnu sem ekki hafði verið gert ráð fyrir.

Reikning nr. R27519 að fjárhæð 454.900 krónur vegna færslu stýrisvélar. Í kafla 4.00 í útboðslýsingu var gert ráð fyrir 400 mm færslu. Síðar kom í ljós að þörf var á 250 mm færslu til viðbótar. Af þeim sökum var nauðsynlegt að ráðast í hönnunarvinnu og í framhaldinu þurfti að útbúa skot inn í skutgeymi.

Reikning nr. R27526 að fjárhæð 419.500 krónur vegna kostnaðar og vinnu stefnanda við lengingu hælstykkis sem kom til vegna viðbótarfærslu á stýrisvél.

Reikning nr. R27527 að fjárhæð 2.639.200 krónur vegna aukins kostnaðar og vinnu stefnanda við brúarsmíði vegna breytinga stefnda á verklýsingu.

Reikning nr. R27528 að fjárhæð 237.000 krónur vegna aukins kostnaðar og vinnu stefnanda við uppgang til brúar vegna breytinga stefnda á verklýsingu.

Reikning nr. R27533 að fjárhæð 562.800 krónur vegna aukins kostnaðar og vinnu stefnanda vegna breytinga stefnda á verklýsingu en stefndi keypti nýja ljósavél í skipið á verktímanum en vélin átti að dæla sjó í botngeyma skipsins. Vegna breytingarinnar þurfti viðbótaröndun á botngeymana og var því fjórum öndunarrörum komið fyrir.

Reikning nr. R27530 að fjárhæð 2.305.200 krónur vegna kostnaðar og vinnu stefnanda við viðbótarsandblástur á 204 fermetra svæði.

Reikning nr. R27531 að fjárhæð 5.197.540 krónur vegna undirbúningskostnaðar vegna viðbótarverka.

Í öðru lagi geri stefnandi kröfu um greiðslu reikninga vegna tilboðsverka sem unnin voru á föstu gjaldi, sbr. lið 5.2.3 í stefnu, að fjárhæð 10.465.950 krónur.

Reikningar í þessum kafla byggjast á verkum sem stefndi óskaði eftir að stefnandi ynni á föstu gjaldi samkvæmt fyrirfram ákveðnu tilboði. Hvað reikninga fyrir viðbótarverk varðar þá vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. verksamnings aðila en þar segir: Verksala er óheimilt að undirbúa eða framkvæma viðbótarverk nema fyrir liggi skriflega samþykkt frá verkkaupa. Verkkaupi skal greiða fyrir undirbúning viðbótarverka sem hann hefur óskað eftir jafnvel þó ekki verði af framkvæmdum vegna ástæðna sem varða verkkaupa. Framangreindur háttur hafi verið viðhafður í samskiptum aðila en í hvert skipti sem stefnandi gerði stefnda grein fyrir því að þörf væri á framkvæmd viðbótarverks, þá var viðkomandi verki gefið heiti og verknúmer og aflað skriflegs samþykkis frá stefnda fyrir framkvæmd verksins.

Þá vísar stefnandi til þess að ein af meginröksemdum stefnda fyrir því að fyrirtækinu beri ekki skylda til að greiða framangreinda reikninga sé sú að þeir eigi að falla undir verksamninginn en teljist ekki vera viðbótarverk. Er þessu haldið fram þrátt fyrir að fyrirsvarsmenn stefnda hafi samþykkt þessi verk sérstaklega sem aukaverk gegn föstu gjaldi eins og fram komi í fylgiskjölum sem beri með sér að þessi verk séu ýmist samþykkt af Birni eftirlitsmanni stefnda á verkstað, Bjarna ráðgjafa stefnda, eða Atla Árnasyni, framkvæmdastjóra stefnda.

Þá hafi stefndi haldið því fram að Björn hafi ekki haft umboð til að samþykkja reikninga vegna aukaverka. Um þetta vísar stefnandi m.a. til undirritaðrar verkfundargerðar aðila frá 29. júlí 2010. Telur hann að þessi röksemd stefnda standist ekki því að í útboðslýsingunni sé beinlínis tekið fram að eftirlitsmaður hafi þetta umboð. Ákvæði þriggja fyrstu málsgreina greinarinnar um þetta eru eftirfarandi:

                1.11 Supervision

An authorized representative on owner´s account is to be assigned to supervise and inspect all work carried out by the contractor.

The representative is to have free access to all contractors and his subcontractor´s workshops and working areas, during all working hours and at any time when the work is in progress.

The authorized representative (the owner´s superintendent) is the only person who is authorized to take any decision regarding changes in plans, ordering spare parts or in other respect change the terms of the specification. This also covers decisions, regarding any „extra works“ taken on location after the vessels arrival. There are under no circumstances allowed to start any extra works without written acceptance from the owner´s representative.

Stefnandi telur að ýmislegt bendi til þess að stefnda hafi strax við samningsgerðina verið kunnugt um að þörf væri á að framkvæma mörg viðbótarverk og að áætlaður verktími gæti því aldrei staðist. Í því sambandi vísar stefnandi til bréfs verkfræðiráðgjafa stefnda til starfsmanns stefnanda sem dagsett er 7. mars 2010:

Við vissum alltaf, og höfum talað um það alveg frá byrjun, að verklýsingin var ekki, gat ekki og átti ekki vera nein endanleg lýsing á verkinu eða umfangi þess. Við vissum semsagt allan[n] tímann að það myndu koma fullt af aukaverkum þegar verk væri hafið og það færi að koma í ljós hvert ástandið á skipinu í raun væri.

... það er fullt af hlutum sem enn eru að koma inn og ekki voru í lýsingu og mun verða það eitthvað áfram.

Það er meðvituð ákvörðun að setja austurlagnir ekki inn í lýsinguna frekar en aðrar lagnir í vélarúmi. Það var eingöngu vegna þess að við töldum að þær breytingar sem þyrfti að gera væru minniháttar og það væri hægt að vinna þau verk út í reikning. Við bjuggumst samsagt alls ekki við því að þetta yrði jafn umfangsmikið og raun ber.

Þá bendir stefnandi á að hluti af vinnu hafi verið bakfærð með reikningi nr. R27525 í samræmi við samkomulag aðila frá 11. desember 2010. Hin bakfærðu verk eru vegna vinnu undirverktaka stefnanda en þessari vinnu var ekki lokið þegar stefndi rifti verksamningi aðila.

Eftirfarandi reikningar sem falla undir þennan kafla 5.2.3.1 í stefnu eru:

Reikningur nr. R27457 (áður R25864), dagsettur 15. júní 2010, með gjalddaga 25. júní s.á., að fjárhæð 866.000 krónur. Reikningurinn er vegna tilboðsverks nr. T2123 sem sneri að vinnu við síðukjöl.

Reikningur nr. R27459 (áður R25865), dagsettur 15. júní 2010, með gjalddaga 25. júní s.á., að fjárhæð 63.000 krónur. Reikningurinn er vegna tilboðsverks nr. T2124 sem sneri að lækkun lestarþils.

Reikningur nr. R27461 (áður R25866), dagsettur 15. júní 2010, með gjalddaga 25. júní s.á., að fjárhæð 248.000 krónur. Reikningurinn er vegna tilboðsverks nr. T2125 sem sneri að því að fjarlægja eldri ristar fyrir bógskrúfu og smíði á nýjum.

Reikningur nr. R27470 (áður R26038), dagsettur 22. júlí 2010, með gjalddaga 11. ágúst s.á., að fjárhæð 7.501.950 krónur. Reikningurinn er vegna tilboðsverks nr. T2131 sem sneri að sandblæstri og málun á 540 fermetra svæði, aukalega við það sem verklýsingin kvað á um. Gefinn var 50% afsláttur af verkinu en raunkostnaður verksins var 15.003.900 krónur.

Reikningur nr. R27468 (áður R26845), dagsettur 1. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð 1.787.000 krónur. Reikningurinn er vegna tilboðsverks nr. T2190 sem sneri að því að fjarlægja ballest úr stefni.

Í þriðja lagi gerir stefnandi kröfu um greiðslu reikninga vegna viðbótarverka sem unnin voru á tímagjaldi, sbr. lið 5.2.4 í stefnu, að fjárhæð 14.803.514 krónur. Þessi liður var að fjárhæð 12.042.376 krónur en hefur nú verið hækkaður þar sem innborgun, 6.839.750 krónum hefur verið skipt á milli krafna samkvæmt köflum 5.2.3 og 5.2 4.

Reikningar þessir byggjast á umbeðnum viðbótarverkum sem voru unnin á tímagjaldi stefnanda og var stefnda kunnugt um það. Um er að ræða: Reikning nr. R27485 (áður R25964), dagsettur 30. júní 2010, með gjalddaga 20. júlí s.á., að fjárhæð 3.050.022 krónur. Reikningurinn er vegna reikningsverks B776.08.10 (verknr. 27012, 27057, 27060, 27074, 27100, 27101, 27141, 27144, 27145, 27155, 27165, 27170, 27186). Verkin snéru m.a. að smíði og suðu á festingum fyrir klæðningar í keðjukassa, vinnu við að skipta um einangrun í dekkhúsi o.fl. Reikning nr. R27486 (áður R26040), dagsettur 22. júlí 2010, með gjalddaga 22. júlí s.á., að fjárhæð 11.277.751 krónur. Reikningurinn er vegna reikningsverks B776.09.10 (verknr. 26369, 26498, 26638, 26646, 26655, 26689, 26875, 26911, 26912, 26930, 26963, 26966, 26980, 27023, 27025, 27038, 27056, 27068, 27075, 27076, 27096, 27104, 27123, 27171, 27182, 27184, 27188, 27190, 27192, 27198, 27202, 27234, 27243, 27274, 27285, 27286, 27300, 27362, 27394, 27395, 27396, 27397, 27398, 27399, 27400, 27401, 27402, 27403, 27404). Verkin snéru m.a. að vinnu við vökvakerfi skipsins, viðgerð á rafmagnstöflu, loftræstingu á íbúðum, vinnu við púströr o.fl.

Reikningur nr. R27535, dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð 4.677.288 krónur. Reikningurinn er vegna kaupa stefnanda á efni að beiðni stefnda, vegna reikningsverka sem stefnandi hafði byrjað á þegar stefndi rifti samningi aðila. Efnið var geymt í skipinu og var því afhent þegar skipið var sjósett og flutt úr skipasmíðastöð stefnanda 13. desember 2010.

Reikningur nr. R27487 (áður R26769), dagsettur 22. júlí 2010, að fjárhæð -122.935 krónur. Um er að ræða kredit reikning vegna reikningsverks B776.09.10 (verknr. 26963 og 27188). Þessi hluti reikningsins var bakfærður þar sem síðar var gert tilboð um að verkið skyldi unnið á föstu gjaldi.

Aðilar þessa máls og undirverktakar stefnanda, Straumnes hf. og Rúdólf B. Jósefsson slf., gerðu með sér samkomulag 11. desember 2010. Þar kemur fram að stefndi greiði 6.839.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti til stefnanda vegna sjósetningar skipsins. Umrædd fjárhæð var hugsuð sem greiðsla til áðurgreindra undirverktaka stefnanda vegna þeirrar vinnu sem þeir höfðu innt af hendi vegna verksins. Stefnandi greiddi fjárhæðina beint til Straumness hf. og Rúdólfs B. Jósefssonar slf. í samræmi við samkomulag aðila. Fjárhæðin kemur hins vegar í heild sinni til frádráttar á skuld stefnda við stefnanda 11. desember 2010, sbr. R27486 og R27485.

Í fjórða lagi gerir stefnandi kröfu um greiðslu reikninga vegna eftirstöðva á verksamningi aðila og vegna stöðugjalda á grundvelli verksamnings aðila, sbr. lið 5.2.5 í stefnu, að fjárhæð 5.523.577 krónur.

Stefnandi telur að skuld stefnda við hann samkvæmt þessum hluta stefnunnar sé tvíþætt: Í fyrsta lagi er skuldin samkvæmt útgefnum reikningi vegna eftirstöðva á verksamningi aðila en stefndi átti eftir að greiða um 20% af heildarfjárhæð verksamningsins þegar samningnum var rift. Frá fjárhæð reikningsins dregur stefnandi 11.551.493 krónur en það byggist á því að stefndi óskaði eftir því við stefnanda að hætt yrði við fimm tiltekna hluta verksins, sbr. kreditreikning nr. R27491, sem er m.a. tilkominn vegna þess að hætt var við andveltigeymi. Þá lækkar fjárhæð reikningsins einnig vegna óunninna verka stefnanda og undirverktaka hans samkvæmt verklýsingu í verksamningi aðila, sbr. kreditreikninga nr. R27493, R27495, R27497, og R27499. Í öðru lagi er skuldin samkvæmt útgefnum reikningi vegna stöðugjalda sem kveðið er á um í verksamningi aðila. Um er að ræða eftirfarandi reikninga:

Reikning nr. R27476, dagsettur 1. september 2010, með gjalddaga 21. september s.á., að fjárhæð 21.771.400 krónur. Um er að ræða reikning sem gefinn var út vegna lokagreiðslu á verksamningi aðila, vegna um 20% eftirstöðva af verksamningi. Hluti af þessum reikningi hefur verið bakfærður.

Reikning nr. R27500, dagsettur 3. september 2010, með gjalddaga 23. september s.á., að fjárhæð 1.189.850 krónur. Um er að ræða reikning vegna stöðugjalda í samræmi við viðauka við verksamning aðila fyrir 53 daga á 22.450 krónur dagurinn, á tímabilinu frá áætluðum verklokum 6. júní 2010 og fram að riftunardegi 29. júlí s.á.

Í fimmta lagi gerir stefnandi kröfu um greiðslu reikninga vegna stöðu- og geymslugjalda fyrir skipið eftir riftun á verksamningi aðila, sbr. lið 5.2.6 í stefnu, að fjárhæð 9.255.366 krónur.

Skuld stefnda við stefnanda samkvæmt þessum hluta stefnunnar er samkvæmt útgefnum reikningum stefnanda vegna stöðu- og geymslugjalda fyrir skipið frá deginum eftir að samningi aðila var rift á ólögmætan hátt, 29. júlí 2010, og til 8. nóvember s.á. er aðilar gerðu með sér samning um að stefnandi myndi klára vinnu svo að mögulegt væri að sjósetja skipið. Stöðu- og geymslugjöldin eigi sér stoð í gjaldskrá stefnanda en samkvæmt gjaldskránni séu gjöldin 90.688 krónur á dag.

Um sé að ræða eftirfarandi reikninga:

Reikning nr. R27509, dagsettur 31. ágúst 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð 2.982.738 krónur. Reikningurinn er vegna stöðu- og geymslugjalda í 33 daga, frá 30. júlí 2010 til 31. ágúst s.á.

Reikning nr. R27510, dagsettur 30. september 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð 2.720.040 krónur. Reikningurinn er vegna stöðu- og geymslugjalda í 30 daga, frá 1. september 2010 til 30. september s.á.

Reikning nr. R27511, dagsettur 31. október 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð 2.823.852 krónur. Reikningurinn er vegna stöðu- og geymslugjalda í 31 dag, frá 1. október 2010 til 31. október s.á.

Reikning nr. R27512, dagsettur 8. nóvember 2010, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð 728.736 krónur. Reikningurinn er vegna stöðu- og geymslugjalda í 8 daga, frá 1. nóvember 2010 til 8. nóvember s.á.

Dráttarvaxtakröfu sína styður stefnandi við 1. og 2. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist er dráttarvaxta af skuldinni frá gjalddaga sérhvers reiknings en gjalddagarnir koma fram á reikningum stefnanda sem sendir voru stefnda.

Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til almennra reglna kröfuréttarins um greiðslu fjárskuldbindinga og til ákvæða samningalaga nr. 7/1936. Sérstaklega er vísað í reglur verktakaréttar um stofnun viðbótarkrafna verktaka vegna aukins umfangs verks og umbeðinna viðbótarverka. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki er gerð krafa um virðisaukaskatt á málskostnað, sbr. lög nr. 50/1988, þar sem stefnandi er virðisaukaskattsskyldur. Varnarþing í umdæmi Héraðsdóms Vesturlands styðst við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 og 12. gr. verksamnings aðila.

Málsástæður og lagarök stefnda, Þörungaverksmiðjunnar hf., vegna stefnu birtrar 14. júní 2011. Mál 1.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu aðallega á því að riftun verksamnings hans við stefnanda og aukaverka sem honum tengjast hafi verið lögmæt vegna verulegra vanefnda stefnanda og að stefndi hafi átt rétt til endurgreiðslu úr hendi stefnanda sem nemi að minnsta kosti fjárhæð hverra þeirra krafna sem stefnandi kunni að eiga á hendur honum í kjölfar riftunarinnar. Þá byggir stefndi jafnframt á því að reikningsgerð stefnanda sé með öllu óforsvaranleg og að honum beri ekki að greiða reikninga vegna verka sem hann hafi ekki samþykkt, auk þess sem alvarlegar athugasemdir hafi verið gerðar við bæði form og efni reikninganna. Varðandi reikningsgerð stefnanda, þá hvíli á honum þríþætt sönnunarbyrði. Í fyrsta lagi á því að verk eða verkþættir sem sérstakir reikningar hafi verið gefnir út fyrir hafi fallið utan útboðslýsingar, í öðru lagi að samþykkt hafi verið að ráðist yrði í og greitt yrði fyrir slík verk og að lokum að verkin hafi verið innt af hendi.

Í þessu sambandi byggir stefndi aðallega á ákvæðum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup (kpl.) auk meginreglna kaupa- og verktakaréttar. Verði kpl. ekki talin eiga við beinlínis um lögskipti aðila þá er byggt á því að beita eigi þeim með lögjöfnun eða eftir atvikum með vísan til undirstöðuraka þeirra. Þá byggir stefndi jafnframt til hliðsjónar á ákvæðum ÍST 30 staðalsins um almenn útboð og samningsskilmála með verkframkvæmdum, þar sem tekið séu saman meginreglur verktakaréttar að verulegu leyti, en stefndi telur staðalinn til leiðbeiningar um eðlilega verkframkvæmd.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi vanefnt aðalskyldu sína til að skila verkinu á réttum tíma og í réttu ástandi en samkvæmt meginreglum kröfuréttar sé það aðalskylda verktaka samkvæmt verksamningi. Í þessu sambandi byggir stefndi á 1. mgr. 22. gr. kpl. um greiðsludrátt og 1. mgr. 30. gr. sömu laga um galla, en þar sé mælt fyrir um heimildir kaupanda til að krefjast riftunar og skaðabóta, sbr. einnig 27. gr., 3. mgr. 34. gr. og 40. gr. laganna. Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi og valdið stefnda tjóni með háttsemi sinni og því hafi verið nauðsynlegt fyrir stefnda að rifta samningnum við stefnanda. Að öðru leyti vísar stefndi til almennra vanefndareglna kröfuréttar og til hliðsjónar til 25. gr. í ÍST 30, sérstaklega undirmálsgreina 25.7.4 og 25.7.5.

Samkvæmt ákvæðum verksamnings aðila var markmið verksins að breyta skipinu sem taka átti við af MB Karlsey, en haffærniskírteini MB Karlseyjar átti að renna út 30. júlí 2010. Þannig var það veruleg forsenda fyrir stefnda að verkinu væri skilað á réttum tíma, en verklok samkvæmt verksamningi skyldu vera 31. maí 2010 að viðbættri einni viku þar til dagsektir féllu á. Var stefnanda því vel kunnugt um að stefndi gæti orðið fyrir verulegu tjóni ef dráttur yrði á verklokum.

Óumdeilt er að verklok drógust fram yfir 31. maí 2010. Þrátt fyrir að samþykktur hafi verið viðbótarfrestur til 6. ágúst 2010 var engu að síður ljóst af verkfundum aðila í júní og júlí árið 2010 að verklok yrðu ekki fyrir það tímamark og breyttist fyrirhuguð verklokadagsetning frá viku til viku. Því er mótmælt sem fram kemur í stefnu að í verkfundargerðum stefnanda frá því tímabili komi „glögglega fram hvað var unnið við smíðina á milli verkfunda og hvað var pantað af viðbótarverkum“. Þá mótmælir stefndi jafnframt efni einhliða skýrslna/verkfundagerða stefnanda sem aldrei voru samþykktar af stefnda og er verulegt misræmi milli þeirra og þeirra fundargerða sem framkvæmdastjóri stefnda ritaði og sendi stefnanda til samþykktar.

Þegar stefndi rifti verksamningi aðila 6. ágúst 2010 lá fyrir að enn var verulegum hluta vinnu við skipið ólokið og hafði stefnandi lýst því yfir að hann gæti ekki klárað verkið fyrir þann tíma sem var stefnda nauðsynlegur. Þá hafði stefnandi ítrekað lýst því yfir að vinna við verkið yrði stöðvuð ef ekki yrðu greiddir reikningar sem stefndi hafði gert athugasemdir við og ítrekað óskað frekari skýringa á og undirliggjandi gagna. Var stefnda því bæði nauðsynlegt og rétt að rifta verksamningnum, krefjast afhendingar skipsins og fela öðrum að ljúka verkinu, bæði vegna þeirra vanefnda sem þegar höfðu orðið að verkinu og fyrirsjáanlegra vanefnda.

Þá byggir stefndi á því að reikningsgerð stefnanda hafi ekki verið forsvaranleg. Ágreiningur var milli aðila um útgefna reikninga stefnanda vegna aukaverka sem hann taldi stefnda hafa pantað. Óskaði stefndi ítrekað eftir undirliggjandi gögnum til stuðnings og skýringar reikningunum, sem voru upphaflega gefnir út vegna mikils fjölda meintra aukaverka á tímagjaldi, án þess þó að nokkrar skýringar fylgdu um umfang verksins, hvaða vinna hefði verið unnin og hvenær hún hefði verið samþykkt. Eftir að slík gögn höfðu loksins verið afhent stefnda kom í ljós að verulegur hluti þeirra meintu aukaverka sem stefnandi hafði gefið út reikninga fyrir féll undir útboðsverkið, auk þess sem stefndi gerði athugasemdir við fjárhæðir efniskaupa og tímaskráningar starfsmanna stefnanda, auk þess sem þau höfðu ekki verið réttilega samþykkt af stefnda. Þó voru reikningar stefnanda enn illskiljanlegir þar sem verklýsingar voru aðeins á stikkorðaformi og erfitt að ráða í hvaða vinnu væri um að ræða hverju sinni. Þá var ítrekað rukkað fyrir vinnu sem þegar höfðu verið gerðir reikningar fyrir. Stefnandi skrifaði síðan út enn frekari reikninga sem einungis byggðust á undirritun eftirlitsmanns stefnda, þrátt fyrir að ítrekað hefði verið af stefnda að slík undirritun gæti ekki talist fullnægjandi samþykki fyrir greiðslu á aukaverki og að staðfest hefði verið af stefnanda að ekki yrði ráðist í aukaverk án slíks samþykkis. Auk mikils fjölda meintra aukaverka í tímavinnu var þar m.a. um að ræða reikninga vegna vinnu við sandblástur og að fjarlægja ballest úr kili en ekki hafði verið óskað eftir þessum verkum. Engin gögn liggi fyrir sem styðji fullyrðingar stefnanda um að þau verk sem gefnir hafa verið út reikningar fyrir falli ekki undir útboðsverkið. Þá sé í fjölda tilfella ekki um aðrar vísbendingar um samþykki stefnda að ræða en undirritun starfsmanns hans á óljósan lista, auk þess sem ekki sé ljóst hvort umrædd verk hafi verið unnin. Máli sínu enn frekar til stuðnings bendir stefndi á að eftir riftun samnings aðila hafi stefnandi gefið út fjölda kreditreikninga vegna vinnu sem ekki hafði verið unnin og efnis sem ekki hafði verið pantað. Stefnandi hafi því ekki fært sönnur fyrir því að stefndi beri greiðsluskyldu vegna reikninganna vegna framangreindra atriða, eftir því sem við á.

Stefndi telur að ofangreint verklag stefnanda við reikningsgerð og hótanir um verkstöðvun ef reikningarnir yrðu ekki greiddir, sé nægur grundvöllur til riftunar verksamnings. Þannig hafi fyrrgreindar hótanir um verkstöðvun verið veruleg vanefnd á aðalskyldu stefnanda, sem verktaka, að vinna það verk sem hann tók að sér.

Enn fremur byggir stefndi á því að framkvæmd riftunarinnar hafi verið með öllu forsvaranleg, en því er mótmælt að enginn viðbótarfrestur eða viðvörun um riftunina hafi verið veittur. Stefnanda hafi verið veittur níu vikna viðbótarfrestur til að ljúka við verkið og hafi stefnandi ekki getað gefið nein skýr svör um hvenær verklok gætu orðið og hafi ítrekað leitast einhliða við að seinka verklokum.

Stefndi byggir á því að samkvæmt 2. mgr. 25. gr. kpl. sé verkkaupa heimilt að rifta samningi að loknum viðbótarfresti. Viðbótarfrestur vegna verksins hafi verið veittur til 6. ágúst 2010, en riftun verksamnings aðila fór fram sama dag, enda verkinu ekki lokið. Verði litið svo á að riftun samningsins hafi átt sér stað áður en viðbótarfresturinn til 6. ágúst var liðinn, þá byggir stefndi á því að honum hafi engu að síður verið heimil riftunin á grundvelli 3. mgr. 25. gr. kpl. enda hafi verið um fyrirsjáanlegar vanefndir að ræða. Ekki verða gerðar miklar kröfur til sönnunar um fyrirsjáanlegar vanefndir, enda er ljóst að samningnum var rift á sama degi og viðbótarfresturinn var úti.

Stefndi byggir jafnframt á því að sá mikli dráttur sem varð á verklokum hafi ekki verið tilkominn vegna atriða sem vörðuðu hann. Telur stefndi að í öllu falli hefði stefnanda borið að haga vinnu sinni og samskiptum á þann hátt að stefnda mætti vera ljóst að verklokum kynni að seinka vegna slíkra atriða. Þá sé því mótmælt sem haldið er fram í stefnu að af ákvæðum verksamnings aðila um verktíma megi ætla að stefndi hafi strax við samningsgerðina gert sér grein fyrir því að áætlaður verktími væri óraunhæfur, en ákvæði á borð við tilvísað samningsákvæði í stefnu er að finna í nánast öllum verksamningum og er ákvæðið keimlíkt gr. 16 í ÍST 30. Einnig mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu að skýrsla Frímanns staðfesti að stefnanda hefði verið kleift að skila skipinu á tilsettum tíma hefðu aukaverk ekki komið til þar sem sú athugasemd hans byggist á gögnum frá stefnanda, en stefndi mótmælir því að þau geti haft nokkurt sönnunargildi.

Stefndi bendir á að samkvæmt 7. gr. verksamnings aðila er tekið fram að þegar samið sé um viðbótarverk skuli jafnframt semja um hvort verkið hafi áhrif á verktíma. Stefnandi hafi hins vegar ekki tilkynnt stefnda um áhrif á verktíma áður en hafin var vinna við nokkurt aukaverk. Stefndi bendir enn fremur á að samkvæmt meginreglum verktakaréttar, sem hafa verið teknar saman í ÍST 30, skuli gera sérstakar kröfur um breytingar á umfangi verks og kröfur um framlengingu verktíma. Er hér til hliðsjónar m.a. vísað til greina 16.1, 24.2.0 og 24.2.1 í ÍST 30. Stefndi byggir á því að það hvíli á verktaka að sanna að breytingarkröfur verkkaupa hafi raunverulega leitt til tafa. Stefndi byggir á því að þar sem stefnandi hafi ekki fyrr en við lok upphaflegs verktíma óskað eftir frestun á verkskilum vegna aukaverka eða breytinga á verkinu þá hafi verklok samkvæmt verksamningnum verið óbreytt. Stefnandi hefur ekki sannað með neinu móti að hann hafi átt rétt á framlengingu. Breytingar frá útboðsgögnum sem ákveðnar voru í upphafi verks og þeir verkliðir sem felldir voru út síðar höfðu í för með sér einföldun á heildarverkinu og styttingu verktíma. Þá byggir stefndi á því varðandi meintar pantanir aukaverka og reikningsgerð fyrir þeim að verulegur hluti þeirra reikninga sem stefnandi gaf út hafi verið með öllu óforsvaranlegur.

Stefndi bendir á að samkvæmt ákvæðum verksamnings aðila hafi stefnanda verið óheimilt að hefja vinnu við aukaverk án þess að fyrir lægi skriflegt samþykki stefnda. Í því sambandi hafi stefnanda mátt vera ljóst að undirritun Björns á lista sem innihélt takmarkaða verklýsingu og ekkert fast verð eða verðbil, gæti ekki skoðast sem fullnægjandi samþykki stefnda á því að ráðast skyldi í aukaverk. Þá mátti stefnanda enn fremur vera ljóst að fyrrgreindur Björn gegndi engri slíkri stöðu hjá stefnda að hann gæti skuldbundið hann fjárhagslega og er fullyrðingum í stefnu um hið gagnstæða mótmælt. Í þessu sambandi er bent á að það ferli sem viðhaft var í upphafi verksins var þannig að eftir að þörf á aukaverki hafði verið metin gerði stefnandi tilboð í verkið á föstu verði. Tilboðið var síðan borið undir framkvæmdastjóra og verkfræðiráðgjafa stefnda sem ýmist féllust á eða höfnuðu tilboðinu. Í þeim tilvikum kvittaði eftirlitsmaður stefnda gjarnan upp á tilboðið fyrir hönd stefnda eftir að það hafði verið samþykkt af framkvæmdastjóra og verkfræðiráðgjafa stefnda. Stefndi telur algjörlega óforsvaranlegt að stefnandi hafi einhliða ætlað sér að falla frá þessu samþykkisferli og hafi ráðist í fjölda aukaverka án nokkurs annars samþykkis en undirritunar eftirlitsmanns stefnda á umrædda lista, þrátt fyrir að orðalag greinar 1.11 í útboðsgögnunum geri ráð fyrir aðkomu eftirlitsmannsins við pöntun aukaverka.

Þá mótmælir stefndi því sem fram kemur í stefnu að afhending teikninga hafi haft áhrif til seinkunar verklokatíma og telur að sönnunarbyrði um slíkt hvíli á stefnanda. Þessu til stuðnings sé til hliðsjónar bent á ákvæði greinar 21.3 í ÍST 30 þar sem fram kemur að verktaki beri sönnunarbyrðina fyrir því að afhending búnaðar og teikninga hafi leitt til tjóns fyrir hann. Stefnandi hafi að engu leyti útlistað hvaða teikningar hafi verið afhentar of seint og hvernig þær hafi haft áhrif á framgang verksins og eru fullyrðingar hans því ósannaðar. Þá bendir stefndi sérstaklega á að þar sem um hafi verið að ræða breytingar á skipinu, frekar en nýsmíði, hafi verið fullnægjandi að nota upprunalegar teikningar sem voru um borð í skipinu þar sem ekki þurfti samþykki Lloyd‘s fyrir breytingum. Þannig hafi einungis þurft takmarkað magn teikninga frá stefnda og alls ekki fyrir allri þeirri vinnu sem tengdist verkinu.

Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um að afhending búnaðar hafi haft áhrif til þess að seinka verklokum, enda hafi í öllum tilfellum verið hægt að vinna í kringum þann búnað sem hafði ekki þegar verið afhentur. Þá byggir stefndi jafnframt á því að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa. Þá bendir stefndi á til hliðsjónar að samkvæmt grein 24.3 í ÍST 30 skal verktaki tafarlaust senda verkkaupa rökstudda tilkynningu telji hann sig eiga rétt til framlengingar verktíma vegna seinnar afhendingar búnaðar. Stefnandi gerði hins vegar engar athugasemdir við fyrirhugaðan afhendingartíma búnaðar á venjulegum verktíma og lýsti því ekki yfir að hann teldi sig eiga rétt til framlengingar fyrr en 28. maí 2010 eða þremur dögum fyrir umsamin verklok. Þá hafi stefnandi að engu leyti gert grein fyrir því hvaða búnaður hann telji að hafi verið afhentur of seint. Stefndi bendir sérstaklega á að ágreiningur var á milli aðila um nauðsyn þess að undirstaða undir kranann yrði afhent.

Varðandi fullyrðingar í stefnu um að tiltekinn búnaður hafi ekki enn borist þegar samningnum var rift, bendir stefndi á að nýr krani og ljósavél voru vísvitandi ekki afhent stefnanda þegar búnaðurinn barst þar sem stefndi óttaðist að honum yrði haldið eftir á athafnasvæði stefnanda ef til riftunar samningsins kæmi.

Þá mótmælir stefndi því sem haldið er fram í stefnu að dráttur á verkinu hafi að verulegu leyti orsakast af hinum leyndu göllum sem upp komu í skipinu. Þeir áttu einungis við um afmarkaðan þátt verksins og hefði stefnanda átt að vera auðvelt að haga verkinu þannig að ekki hlytist af seinkun.

Þá byggir stefndi á því að þar sem verksamningnum hafi verið rift eigi stefnandi einungis rétt á greiðslu fyrir verkið að því marki sem því var lokið þegar samningnum var rift. Meginregla við riftun sé að hvor aðili um sig eigi kröfu á endurheimtu greiðslu sinnar. Riftun verksamninga geti eðli máls samkvæmt einungis tekið til þess hluta verksins sem ólokið er. Stefndi telur sig hafa greitt stefnda of háa fjárhæð miðað við hve miklu af vinnu við verksamninginn var lokið þegar til riftunar kom, og eigi því rétt á endurgreiðslu þess sem ofgreitt var. Kröfugerð stefnda byggist á upphaflegu heildarverði verksamningsins, að frádregnum þeim breytingum sem gerðar voru á honum. Af skoðunum Frímanns og Guðmundar, auk athugasemda verkfræðiráðgjafa stefnanda, Bjarna, megi ráða að mikil vinna hafi verið eftir þegar stefndi fékk loks skipið afhent og einungis hafi verið búið að ljúka um 65% verksins. Mismunurinn á 89,5% heildarverksins, 87.209.700 krónum sem stefndi hafði greitt, og 65% heildarverksins, 63.248.580 krónum, sé 23.836.480 krónum. Stefndi byggir á því að hann eigi rétt til mismunarins, 23.836.480 króna úr hendi stefnanda. Kröfu sína um endurgreiðslu byggir stefndi á meginreglum verktakaréttar og undirstöðurökum greinar 25 í ÍST 30, sérstaklega undirmálsgreinum 25.7.4 og 25.7.5.

Stefndi byggir á því að hann hafi greitt reikninga nr. R24810 og R25050 með fyrirvara um endanlegt samþykki verkfræðiráðgjafa stefnda. Þeir reikningar hafa hins vegar enn ekki verið samþykktir og telur stefndi sig því eiga rétt til endurgreiðslu vegna þeirra sem nemur 3.483.842 krónum. Samanlagt eigi stefndi því inni 27.320.322 krónur úr hendi stefnanda sem komi til skuldajafnaðar hverjum þeim kröfum sem stefnandi verði talinn eiga á hendur stefnda, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá mótmæli stefndi þeim fjárkröfum sem stefnandi hefur uppi með vísan til framangreindra sjónarmiða og ítrekar að fjárhæð reikninganna sé mótmælt í hverju tilviki, enda telur stefndi tímaskráningu og efnisnotkun óeðlilega. Einnig mótmælir stefndi kröfum um dráttarvexti, enda hafi reikningarnir ekki verið í slíkum búningi að hægt væri að ætlast til þess að stefndi samþykkti og greiddi þá athugasemdalaust, auk þess sem fyrir liggi að reikningar hafi í sumum tilvikum verið gefnir út án þess að umrædd vinna hefði þegar verið innt af hendi. Þá beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að reikningarnir hafi borist til stefnda fyrir gjalddaga, en því sé mótmælt að svo hafi verið, sérstaklega hvað varðar reikninga í kafla 5.2.6 í stefnu.

Hvað varðar þá reikninga sem tilgreindir eru í kafla 5.2.2 í stefnu þá séu þeir tilkomnir vegna leiðréttinga á magntölum og viðbótarverka sökum frávika frá verksamningi. Þeirri fullyrðingu stefnanda að útboðsgögn hafi verið ófullnægjandi og forsendur hafi brostið fyrir tilboðsverði stefnanda sé mótmælt. Stefndi byggir á því að það sé meginregla í verktakarétti að verktaka beri að tilkynna verkkaupa tafarlaust ef hann verður var við villu eða mishermi í útboðsgögnum. Fyrrgreind meginregla kemur jafnframt fram í grein 14.4 í ÍST 30, sem stefndi telur að hafa megi til hliðsjónar. Þær breytingar sem stefnandi krefst greiðslu á voru tilkynntar snemma í verkferlinu og fólu m.a. í sér breytingar sem leiða hefðu átt til lækkunar samningsverðsins. Stefnandi tilkynnti hins vegar ekki um neinn aukakostnað vegna breytinga á verkinu.

Stefndi byggir jafnframt á því að breytingar á magntölum hafi einnig, í nokkrum tilvikum, verið til lækkunar á kostnaði við verkið, t.d. við brúarsmíði, en í öllum tilvikum verði þó að liggja fyrir samþykki stefnda áður en greiðsluskylda stefnda stofnast. Þá sé einnig deilt um það hvort hluti af útgefnum reikningum hafi verið vegna verka sem tilheyrðu upphaflegri útboðslýsingu. Stefndi telur að í einhverjum tilvikum sé ekki óeðlilegt að greiða fyrir aukið magn vegna breytinga á verklýsingu, en hefur hins vegar sett fyrirvara við greiðslu reikninga stefnanda af ýmsum ástæðum. Í flestum tilvikum fengust ekki fullnægjandi svör frá stefnanda varðandi sundurliðun reikninga eða tiltekna kostnaðarliði á reikningum og var þeim reikningum hafnað að svo stöddu. Þau atriði sem krafist er greiðslu fyrir í þessum lið er fjallað um bæði í skýrslu Frímanns og Guðmundar en báðir skýrsluhöfundar komast að þeirri niðurstöðu, hvor í sínu lagi, að reikningsgerð stefnda vegna sumra þessara atriða sé óeðlileg, einkum og sér í lagi þar sem umfang verksins hafi minnkað frekar en aukist við frávik frá útboðslýsingunni og þeir afslættir sem stefnandi hafi gefið vegna útfelldra verkhluta séu í raun mun lægri en hefði átt að vera. Þá bendir stefndi á að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að stefndi beri greiðsluskyldu vegna fyrrgreindra atriða og hver fjárhæð hennar skuli vera. Um þetta sé ekki til að dreifa neinum sönnunargögnum öðrum en einhliða útgefnum reikningum. Þvert á móti liggi fyrir gögn í málinu sem bendi til þess að greiðsla vegna fyrrgreindra reikninga sé óeðlileg og að frávik frá útboðslýsingu hefðu átt að leiða til lækkunar samningsverðsins frekar en hækkunar.

Hvað varðar reikning nr. R27462 vegna viðbótar frárifsþyngda þá er því haldið fram í stefnu að í útboðsgögnum hafi verið áætlað að frárifsþyngd væri 35 tonn, en raunveruleg frárifsþyngd hafi hins vegar verið 65,5 tonn. Stefndi byggir hins vegar á því að samkvæmt útboðsgögnum hafi áætluð frárifsþyngd á hreinu stáli verið um 35 tonn, en inni í þeirri tölu sé m.a. þyngd á stáli í brú, þili í lest, dekkhlutum, radarmastri o.fl. Þyngd á þeim búnaði sem fylgi þessu frárifi sé ekki gefinn upp, enda ómögulegt að tilgreina slíkt. Í lið 2.00 í útboðsgögnunum var því hins vegar lýst að fjarlægja ætti allt af afturskipinu og talinn upp hluti þess búnaðar sem því tilheyrði auk þess sem teikning af upprunalega skipinu og margar myndir fylgdu. Því er þannig mótmælt að stefnandi hafi ekki haft nægilegar forsendur til að reikna áætlaða heildarfrárifsþyngd og byggja tilboð sitt vegna þessa verkliðs á því.

Hvað varðar reikning nr. R27488 þá telur stefndi óumdeilt í málinu að undirbygging krana varð viðameiri en upphaflega var gert ráð fyrir. Heildarþyngdaraukning stáls var hins vegar eingöngu um 1.000 kg og hefði reikningsgerð átt að taka mið af því. Stefndi byggir á því að kostnaður við lúgukarm sem lækkaði úr 1,5 m í 1,1 m hafi átt að koma á móti viðbótarkostnaði vegna kranans. Bendir hann sérstaklega á að samkvæmt skýrslu Frímanns var lækkun á stálþyngd vegna breytingarinnar á lúgukarminum 3.300 kg, eða miklum mun meiri en aukningin vegna kranans og hefðu þessar breytingar því raunverulega átt að lækka samningsverðið.

Hvað varðar reikning nr. R27519 þá telur stefndi óumdeilt að stýrisvél hafi verið færð 250 mm aftar en gert var ráð fyrir. Stefndi gerir hins vegar athugasemdir við fjárhæð reikningsins, enda sé um einfalt verk að ræða og fái sú athugasemd stuðning í bæði skýrslu Frímanns og Guðmundar. Þá telur stefndi að í öllu falli jafnist umræddur reikningur út á móti öðrum breytingum á skipinu sem minnkuðu umfang verksins.

Hvað varðar reikning nr. R27526 vegna lengingar hælstykkis þá telur stefndi óumdeilt að við færslu stýrisvélar aftar um 250 mm hafi þurft að lengja hælstykkið. Stefndi gerir hins vegar athugasemdir við fjárhæð umrædds reiknings, enda sé um einfalt verk að ræða og fá þær athugasemdir stuðning í skýrslu Frímanns. Þá telur stefndi að í öllu falli jafnist umræddur reikningur út á móti öðrum breytingum sem minnkuðu umfang verksins.

Hvað varðar reikning nr. R27527 vegna viðbótar vegna brúarsmíði þá bendir stefndi á að í upphaflegu útboðslýsingunni sé gert ráð fyrir að brúin myndi standa að hluta til á andveltigeymi, auk þess sem hún stæði á tveimur kjöllurum sem ásamt brúnni sjálfri myndaði hólf utan um ankerisspilin. Þegar ákveðið var að hætta við andveltigeyminn og í ljós kom að ankerisspilunum þyrfti að skipta út var ákveðið að lækka brúna, en þó ekki það mikið að hún myndi standa á þilfarinu. Því sé mótmælt sem haldið er fram í fylgiskjali með umræddum reikningi að hugmyndin hafi verið sú að láta brúna standa á bakkaþilfarinu. Ákveðið var að hafa „falskt“ gólf í brúnni og kjallara undir til að auðvelda alla aðkomu kapla til brúarinnar auk þess sem þar væri hægt að setja upp minni tæki. Upphaflegt fyrirkomulag hefði orðið flóknara bæði hvað varðar uppgöngu í stýrishúsið og tengingu á milli áls og stáls. Stefnda sé því óskiljanleg reikningsgerð stefnanda vegna þessa liðar. Þessi fullyrðing stefnda fær stoð bæði í skýrslu Frímanns og Guðmundar. Þá sé því mótmælt sem fram kemur í fylgiskjali með reikningnum að búið hafi verið að einangra og klæða kjallarann, en þeirri vinnu hafi ekki verið lokið þegar skipið kom til Akureyrar.

Hvað varðar reikning nr. R27528 vegna breytingar á uppgangi til brúar telur stefndi að reikningsgerð stefnanda vegna þessa liðar sé óskiljanleg, enda hafi breytingar á uppgangi til brúar verið til þess fallnar að einfalda og minnka verkið en stiginn styttist úr 1,5 m í 0,8 m. Þessi fullyrðing stefnda fái stoð bæði í skýrslu Frímanns og Guðmundar.

Hvað varðar reikning nr. R27533 vegna viðbótaröndunarröra í fjóra botntanka þá telur stefndi að breytingar sem gerðar voru í tengslum við sjókjölfestukerfi skipsins hafi leitt til þess að „svera þurfti upp“ öndunarrörin. Stefndi gerir athugasemdir við fjárhæð reikningsins enda sé um einfalt verk að ræða og fá þær athugasemdir stuðning í skýrslu Frímanns. Þá telur stefndi að í öllu falli jafnist umræddur reikningur út á móti öðrum breytingum á skipinu sem minnkuðu umfang verksins.

Hvað varðar reikning nr. R27530 vegna viðbótar sandblásturs þá kom fram í útboðslýsingu að botn skipsins skyldi sandblásinn upp að sjólínu og var gert ráð fyrir að heildarflatarmál þess flatar væri 470 fermetrar. Verkefnastjóri stefnanda og verkfræðiráðgjafi stefnda urðu sammála um það þegar skipið var komið á þurrt að óþarft væri að fara út í svo viðamikla hreinsun á botninum og ákveðið að vatnsþvottur upp á 1.000 bör ætti að vera fullnægjandi. Í stað sandblásturs á botninum skyldu þau svæði ofandekks sem litu hvað verst út sandblásin og máluð. Í tölvupósti verkfræðiráðgjafa stefnda til verkefnastjóra stefnanda, dagsettum 17. desember 2009, var tekið fram að gengið væri út frá því að sú fjárhæð tilboðsins sem ætluð hefði verið til sandblásturs á botninum nægði til að blása dekk og dekkhús. Þegar undirverktaki stefnda hóf vinnu við sandblásturinn kom hins vegar í ljós að hann var alls ófær um að vinna verkið á þann hátt sem viðunandi var fyrir stefnda. Var þá brugðið á það ráð að hætta við sandblásturinn og skipið skyldi allt þvegið með 500 börum í staðinn. Þegar því var lokið kom í ljós að þvotturinn var ófullnægjandi. Óskaði stefndi þá eftir því að skipið yrði þvegið með 1200 börum. Það hafi stefnandi ekki gert heldur sandblés hann lestina og dekkið án nokkurs formlegs samþykkis af hálfu stefnda. Um sandblásturinn sé ekki til að dreifa neinu skriflegu samkomulagi eða samþykki stefnda á því að hann færi fram eins og gerð er krafa um í 1. mgr. 6. gr. verksamnings aðila. Í ljósi þess að deilur voru milli aðila um gildi reikninga og samþykkisferli fyrir aukaverkum, telur stefndi að stefnanda hafi borið sérstaklega rík skylda til að tryggja sér sönnun fyrir samþykki stefnda á umræddri vinnu. Tilvísanir stefnanda til samþykkis framkvæmdastjóra og verkfræðiráðgjafa eru ósannaðar, en stefnandi vekur athygli á tölvupósti verkfræðiráðgjafa stefnda, dagsettum 17. desember 2009, þar sem sérstaklega var tekið fram að ekki væri gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna sandblásturs.

Hvað varðar reikning nr. R27531 vegna undirbúningskostnaðar vegna viðbótarverka þá telur stefndi að reikningsgerð stefnanda vegna þessa liðar sé óskiljanleg. Virðist stefnandi vera að rukka fundarsetu stjórnenda félagsins á verkfundum í janúar-ágúst 2010. Verkfundarseta og nauðsynlegt skipulag vegna útboðsverksins var innifalið í útboðinu og verkfundarseta vegna aukaverka á föstu gjaldi hefði átt að vera innifalin í því fasta gjaldi. Það sé meginregla verktakaréttar að þegar boðið sé í verk þá skuli slíkt boð innihalda alla þá vinnu sem nauðsynleg sé. Þá telur stefndi að fyrir verkfundarsetu vegna aukaverka, sem unnin hafi verið í tímavinnu, hafi átt að rukkast með viðkomandi aukaverki hverju sinni og gera ráð fyrir slíkum kostnaði í álagningu. Í þessu sambandi er enn fremur bent á að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. í verksamningi aðila skyldu reikningar vegna viðbótarverka gefnir út fyrir vinnu sem átt hefði sér stað næstliðinn mánuð. Þá er sérstaklega vakin athygli á því að með tölvupósti 22. júlí 2010 staðfesti framkvæmdastjóri stefnanda við framkvæmdastjóra stefnda að allir síðustu reikningarnir vegna umbeðinna reikningsverka hefðu verið skrifaðir út þann dag.

Í kafla 5.2.3 í stefnu er stefnandi að krefjast greiðslu fyrir reikninga vegna verka sem stefndi óskaði eftir að stefnandi ynni á föstu gjaldi samkvæmt fyrirfram ákveðnu tilboði. Í þessu sambandi er bent á að stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að umrædd verk hafi verið unnin, en gögn málsins bendi til þess að ágreiningur hafi verið þar um.

Varðandi reikning nr. R27470 vegna sandblásturs bendir stefndi á að umrætt verk hafi aldrei verið samþykkt af stefnda eða gert um það skriflegt samkomulag. Um upphaflegt umfang sandblásturs samkvæmt útboðslýsingu og frávik frá þeirri framkvæmd vísar stefndi til fyrri umfjöllunar um það efni í athugasemdum við reikning nr. R27530 að framan. Tilvísanir stefnanda til samþykkis framkvæmdastjóra stefnda á reikningi sem var samstundis endursendur eru með öllu ófullnægjandi. Þá er því jafnframt mótmælt að einhliða lýsing stefnanda á málavöxtum sem lögð er fram með umræddum reikningi geti haft nokkurt gildi. Jafnframt er því mótmælt að greinargerð Þorsteins Haukssonar hjá Flügger, dagsett 13. september 2010, geti haft nokkurt gildi í málinu sem sönnun á samþykki stefnda fyrir verkinu. Í ljósi skýrrar kröfu verksamnings aðila um skriflegt samþykki fyrir hvers konar aukaverkum, þá telur stefndi að stefnandi beri alla sönnunarbyrði fyrir því að stefndi hafi nokkurn tímann samþykkt að ráðist yrði í umrætt verk og að allur sandblástur til viðbótar við það sem gert var ráð fyrir í útboðsgögnum hafi verið ósamþykktur.

Varðandi reikninga nr. R27468 (áður R26845) vegna flutnings ballestar úr stefni, nr. R27457 (áður 25864), nr. R27459 (áður R25865) og nr. R27461 (áður 25866), vegna síðukjala, lækkunar lestarþils og ristar fyrir bógskrúfu þá gerir stefndi ekki lengur athugasemdir við þá.

Varðandi reikninga sem tilgreindir eru í kafla 5.2.4 í stefnu, þá bendir stefndi á að stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að umrædd verk hafi fallið utan útboðsverksins, að samþykkt hafi verið að ráðist yrði í umrædd verk og að þau hafi verið unnin. Þá bendir stefndi á að reikningsgerð stefnanda vegna umræddra reikninga hefur sætt ítrekuðum athugasemdum af hálfu stefnda, m.a. vegna þess sem hann telur vera óeðlilegar tímaskráningar og óeðlilegur kostnaður við efniskaup. Til viðbótar við þær athugasemdir sem lýst hefur verið að framan gerir stefndi sérstakar athugasemdir við hvern lið að neðan:

Hvað varðar reikning nr. R27485 (áður R25964) þá telur stefndi að tímaskráning vegna verkliða innan þessa verks sé mjög óeðlileg, en þar séu skráðir mjög margir tímar á einföld verk, verkstjórar séu ítrekað skráðir með marga tíma á hvert verk og að mikill hluti vinnunnar sé unninn í yfirvinnu. Stefndi hafði þegar gert athugasemdir við þessa þætti reikningsins og óskað undirliggjandi gagna, en þau gögn höfðu aldrei verið afhent. Í öllu falli telur stefndi að hann eigi rétt til skuldajafnaðar vegna ofgreiðslu aðalverks og ofgreiðslu reikningsverka.

Hvað varðar reikning nr. R27486 (áður R26040), þá hafi stefndi áður gert verulegar athugasemdir við form umrædds reiknings, enda væri þar um að ræða mörg mismunandi verk sem tengdust ekkert innbyrðis og hefðu ekki verið samþykkt með viðhlítandi hætti. Sérstaklega er vakin athygli á því að meint samþykki fyrir verulegum fjölda umræddra verkliða er til komið eftir að stefndi hafði ítrekað samþykkisferlið við stefnanda. Þá á hluti verkliða samkvæmt þessum reikningi skýrlega undir útboðsverkið eða önnur tilboð sem stefndi hafði samþykkt og greitt fyrir. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við verkliði innan þessa reiknings í verkstöðuskýrslu Guðmundar. Stefndi telur að tímaskráningar séu óeðlilegar vegna sömu atriða og fjallað eru um að ofan varðandi reikning nr. R27485. Þá sé efniskostnaður óeðlilega hár.

Hvað varðar verk nr. 27243, 27182, 27285, 27286, 27300 og 27362 vegna atriða er varða sandblástur er vísað til þess sem áður hefur verið sagt varðandi reikninga nr. R27530 og R27470, en stefndi telur að sandblástur hafi fallið innan útboðsverksins og ekki hafi verið samþykkt aukagreiðsla vegna sandblásturs ofan kjalar, sbr. tölvupóst verkfræðiráðgjafa stefnda til verkefnisstjóra stefnanda, dagsettan 17. desember 2010.

Hvað varðar verk nr. 26963 og 27188 varðandi grind og rist í hliðarskrúfu þá telur stefndi þessa verkliði til marks um slælega reikningsgerð stefnanda, en þegar hafði verið samið um vinnu þessa verks í tilboðsverki T2125. Þessir verkliðir eru þannig vegna verks sem þegar var búið að gera tilboð í, samþykkja og greiða fyrir.

Hvað varðar verk nr. 26930 varðandi tiltekt þá bendir stefndi á að tiltekt í skipinu hafi á öllum stundum verið ábótavant þegar skipið var á athafnasvæði stefnda, en ástand skipsins þegar það kom til Akureyrar má sjá af myndum sem þá voru teknar. Þá mótmælir stefndi því að hægt sé að skilgreina þrif sérstaklega sem vegna aukaverka, en góð umgengni á verkstað falli undir útboðsverkið.

Hvað varðar reikning nr. R27535 telur stefndi að þessi reikningsgerð sé óskiljanleg og virðist sem hún sé beinlínis óheiðarleg. Stefndi mótmælir þeim fullyrðingum sem fram koma um hin meintu efniskaup og að efni hafi verið um borð í skipinu sem ósönnum. Þannig var um að ræða að stefnandi hafði ítrekað boðið stefnda að kaupa umrætt efni, en stefndi hafði hafnað því og óskað eftir því að efnið yrði fjarlægt úr skipinu áður en það væri flutt til Akureyrar. Verkstjórar stefnanda fluttu efnið úr skipinu og var það ekki um borð þegar það kom til Akureyrar. Stefndi gerir alvarlegar athugasemdir við og telur vítavert af lögmanni stefnanda að leggja fram óundirritað tilboð um efniskaup sem fylgiskjal með umræddum reikningi án nokkurra frekari skýringa þar að lútandi.

Reikningur nr. R27476, sbr. kafla 5.2.5 í stefnu, er gefinn út vegna lokagreiðslu á verksamningi aðila. Óumdeilt er að verkinu var ekki lokið og á stefnandi því ekki rétt til meiri greiðslu en vegna þess hluta verksins sem sannanlega var unninn. Eins og áður hefur verið lýst hafði stefndi þegar greitt 89,5% af heildarfjárhæð verksins og telur stefndi að mun minni vinnu hafi verið lokið við útboðsverkið og því hafi hann átt rétt til endurgreiðslu vegna ofgreiðslu í því sambandi. Í öllu falli bendir stefndi á að hefði stefnandi ætlað að krefja um eftirstöðvar samningsverksins eftir riftun, hvort sem hún hefði verið talin lögmæt eða ólögmæt, hefði verið eðlilegt að slík krafa væri sett fram sem krafa um efndabætur, en ekki í formi reiknings, enda samningssambandi aðila lokið við riftunina. Stefndi mótmælir því að hann beri nokkra greiðsluskyldu vegna umrædds reiknings.

Reikningur nr. R27500 er vegna stöðugjalda fyrir tímabilið frá því að verkinu átti að vera lokið þar til stefnandi heldur því fram að riftun hafi átt sér stað. Stefndi mótmælir því að hann geti borið nokkra greiðsluskyldu gagnvart stefnanda á þessu tímabili, enda er þarna um það tímabil að ræða þar sem stefnandi er að vanefna verksamning aðila og er það eina ástæða þess að skipið er á athafnasvæði hans á þessum tíma. Þá bendir stefndi sérstaklega á að hann óskaði ítrekað eftir því við stefnanda að skipið yrði tekið út úr húsi stefnanda á þessu tímabili.

Útgefnir reikningar stefnanda í kafla 5.2.6 í stefnu eru vegna stöðu- og geymslugjalda fyrir skipið eftir af verksamningi aðila var rift. Stefndi mótmælir því að hann beri nokkra greiðsluskyldu vegna þessara reikninga, enda hafi skipið ekki verið á athafnasvæði og því síður inni í húsi stefnanda, að ósk stefnda. Strax eftir riftun óskaði stefndi eftir að fá skipið afhent og óskaði stefndi ítrekað eftir því að fá þriðja aðila til að framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á skipinu þannig að hægt væri að sjósetja það og krafðist innsetningar til að fylgja réttindum sínum eftir. Virðist stefnandi ætla sér að rukka umrædda fjárhæð á grundvelli reikninga eins og um samningssamband milli aðila hafi verið að ræða meðan aðilar stóðu í málaferlum varðandi vörslur skipsins. Hefði stefnandi ætlað sér að krefja stefnda um bætur vegna aðstöðumissis á þeim tíma sem um ræðir hefði honum borið að haga málatilbúnaði sínum eftir því og setja kröfu sína fram í þeim búningi. Stefnandi kaus hins vegar að byggja kröfu sína á fyrrgreindum reikningum, sem stefndi telur algjörlega marklausa. Stefndi bendir á að stefnanda hafi borið skylda til að takmarka tjón sitt og flytja skipið úr húsi. Varðandi fjárhæð umræddra reikninga, þá bendir stefndi á að hún virðist vera fjórföld sú fjárhæð sem kveðið er á um í verksamningi aðila. Þá hafi stefnandi áður lagt fram proforma reikning vegna stöðugjalda frá 29. júlí til 29. ágúst þar sem verðið var helmingur þess sem krafist er í sambærilegum reikningum nú. Varakrafa stefnda um lækkun dómkröfu byggist á öllum sömu sjónarmiðum og aðalkrafa.

Um lagarök vísar stefndi, auk ofangreindra lagaákvæða, til meginreglna kaupalaga og meginreglna samninga- og kröfuréttar, sérstaklega um vanefndaúrræði og riftun. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnanda, Þorgeirs & Ellerts hf., vegna stefnu sem birt var 16. september 2011. Mál 2.

Stefnukrafa þessa máls er nú 21.695.085 krónur en var upphaflega 26.616.533 krónur og sundurliðast í þrjár kröfur.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann eigi rétt á bótum úr hendi stefnda vegna alls þess tjóns sem stefndi bakaði honum með ólögmætri og fyrirvaralausri riftun á verksamningi aðila frá 20. nóvember 2009 og samningum um vinnu við ýmis viðbótarverk ýmist á föstu gjaldi eða í tímavinnu. Stefnandi hefur strax frá móttöku riftunaryfirlýsingar mótmælt henni harðlega. Í því sambandi hefur stefnandi bent á að ekkert tilefni hafi verið til riftunar auk þess sem engin aðvörun um riftun hafi verið send áður en til hennar kom.

Í riftunaryfirlýsingu stefnda frá 6. ágúst 2010 er riftunin rökstudd með því að stefnandi hafi vanefnt samning sinn við stefnda og er byggt á því að vafnefndirnar hafi falist í hægum framgangi verks og „vafasamri“ reikningsgerð eins og það er orðað í riftunaryfirlýsingu. Stefnandi mótmælir framangreindu og bendir á að þó svo að á riftunardegi hafi verkið verið komið sjö vikur fram yfir upphaflega umsaminn verktíma, þá hafi það eingöngu verið vegna atriða er vörðuðu stefnda sjálfan, s.s. vegna óska hans um frestun á verki vegna áðurnefnds matsmáls við Ísfélag Vestmannaeyja hf., vegna þess að teikningar og búnaður skiluðu sér ekki frá stefnda á réttum tíma, vegna gríðarlegs magns af viðbótarverkum sem stefndi krafðist þess að farið yrði í og vegna greiðsludráttar af hálfu stefnda á reikningum vegna viðbótarverka. Hvað málsástæðu stefnda um reikningsgerð stefnanda varðar, þá er henni mótmælt sem rangri og bent á að útgefnir reikningar stefnanda eru allir í samræmi við samning aðila, beiðnir stefnda um vinnu við viðbótarverk og raunverulega tímaskráningu og efnisnotkun stefnanda.

Í fyrsta lagi er um að ræða kröfu um efndabætur vegna ólögmætrar riftunar að fjárhæð 10.380.370 krónur. Krafan er samsett af 40% framlegð af því sem er óklárað af samningsverki sem er 4.333.727 (4.333.727*0,4) = 1.733.491 krónu og 40% framlegðar af óloknum aukaverkum á tímagjaldi sem eru 21.617.198 krónur (21.617.198*0,4) = 8.646.879 krónur.

Krafa um efndabætur að fjárhæð 2.354.472 krónur er vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir í kjölfar hinnar ólögmætu fyrirvaralausu riftunar stefnda á verksamningi aðila. Tjón stefnanda felst í því að hann gat ekki lokið við vinnu við aðalverkið en þegar stefndi rifti verksamningnum var eftir vinna sem stefnandi telur að sé að virði 4.333.727 krónur að meðtöldum efniskostnaði. Þar sem meðalframlegð stefnanda af verkinu (útseldri vinnu og sölu á efni) er 40%, þá er gerð krafa um efndabætur sem jafngilda 40% af þeim verkliðum (efni og vinnu) sem eftir voru af aðalverkinu þegar samningi um það var rift, 4.333.727 krónum eða 1.733.491 króna. Þá er á sama hátt gerð krafa um 40% framlegð af óloknum aukaverkum á tímagjaldi, samtals að fjárhæð 21.617.198 krónur, eða samtals 8.646.879 krónur. Af hálfu stefnanda hefur verið fallið frá kröfu um efndabætur vegna viðbótarverka á föstu verði að fjárhæð 861.744 krónur.

Stefnandi byggir kröfu um efndabætur á því að þar sem stefndi rifti verksamningi aðila og samningum um viðbótarverk með fyrirvaralausum og ólögmætum hætti, þá beri honum að greiða stefnanda bætur sem geri stefnanda eins settan og ef hann hefði fengið fullar efndir samninganna, þ.e. fengið að ljúka vinnu við aðalverkið sem og umbeðin viðbótarverk á föstu gjaldi og á tímagjaldi. Stefnandi telur að orsakasamband sé á milli þessa tjóns sem krafa hans byggist á og vanefnda stefnda, þ.e. hinnar ólögmætu fyrirvaralausu riftunar. Jafnframt telur stefnandi að það tjón sem hann krefur stefnda um undir þessum lið, sé sennileg afleiðing vanefndar stefnda. Stefnandi telur að hann sjálfur eigi enga sök á tjóni sínu enda gerði hann ekkert sem heimilaði stefnda að rifta samning aðila fyrirvaralaust.

Krafa vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir í kjölfar hinnar ólögmætu riftunar stefnda á samningum um viðbótarverk á tímagjaldi byggist á því að hann hafi orðið fyrir tjóni þar sem hann gat ekki lokið vinnu við verkin þar sem stefndi rifti samningnum. Taldi stefnandi að þá hafi 29.159.504 krónur, að meðtöldum efniskostnaði, verið ólokið en byggir nú á því að fjárhæðin hafi verið 21.617.198 krónur.

Þegar stefndi rifti verksamningi aðila var eftir óunnin vinna við verkið sem stefnandi telur nú að sé að virði 4.333.727 krónur að meðtöldum efniskostnaði. Stefnandi hefur lagt fram fjóra kreditreikninga ásamt fylgiskjölum en í þeim eru bakfærðir þeir verkliðir sem stefnandi telur að hafi verið eftir þegar samningi aðila var rift. Þar sem hin óunna vinna við aðalverkið, sem er grundvöllur efndabótakröfu stefnanda, hafi verið bakfærð með kreditreikningnum voru engar fjárkröfur gerðar vegna hennar í stefnu sem þingfest var 21. júní sl. Um er að ræða fjóra kreditreikninga. Sá fyrsti er nr. R27493, útgefinn 13. desember 2010, að fjárhæð 1.905.115 krónur, en á fylgiskjölum með honum kemur fram að undirverktaki stefnanda, Straumnes ehf., hafi metið verkstöðu á þeim hluta verksins sem hann annaðist, þannig að það tæki 471 klukkustund að ljúka við vinnu við brú, brúarþak, vélarúm og krana og að efniskostnaður vegna þessara verkliða væri 697.000 krónur. Á áðurnefndum kreditreikningi er miðað við tímagjaldið 2.565 krónur og er fjárhæð kreditreikningsins samtala hinnar óunnu vinnu og efniskostnaðarins (471 x 2.565 + 697.000 = kr. 1.905.115,-). Annar reikningurinn er nr. R27495, útgefinn 13. desember 2010, að fjárhæð 941.250 krónur en á fylgiskjölum með honum kemur fram að undirverktaki stefnanda, Rúdólf B. Jósefsson slf., hafi metið verkstöðu á þeim hluta verksins sem hann annaðist, þannig að það tæki 250 klukkustundir að ljúka vinnu við brú og að efniskostnaður vegna þess verkliðar væri 300.000 krónur. Á áðurnefndum kreditreikningi er miðað við tímagjaldið 2.565 krónur og er fjárhæð kreditreikningsins samtala hinnar óunnu vinnu og efniskostnaðarins (250 x 2.565 + 300.000 = 941.250 krónur). Sá þriðji er nr. R27497, útgefinn 13. desember 2010, að fjárhæð 2.352.395 krónur en á fylgiskjölum með honum kemur fram að stefnandi hafi metið verkstöðu á þeim hluta verksins sem hann annaðist sjálfur þannig að það tæki 583 klukkustundir að ljúka við óunnin verk í aðalverki samkvæmt verksamningi og að efniskostnaður þessara verkliða væri 857.000 krónur. Á áðurnefndum kreditreikningi er miðað við tímagjaldið 2.565 krónur og er fjárhæð kreditreikningsins samtala hinnar óunnu vinnu og efniskostnaðarins (583 x 2.565 + 857.000 = 2.352.395 krónur). Loks er sá fjórði nr. R27499, útgefinn 13. desember 2010, að fjárhæð 687.420 krónur en á fylgiskjölum með honum kemur fram að undirverktaki stefnanda, Daníelsslippur ehf., hafi metið verkstöðu á þeim hluta verksins sem hann annaðist þannig að það tæki 268 klukkustundir að ljúka við sandblástur og málun skipsins. Á áðurnefndum kreditreikningi er miðað við tímagjaldið 2.565 krónur og er fjárhæð kreditreikningsins því fjöldi áætlaðra tíma margfaldað með áðurnefndu tímagjaldi (268 x 2.565 = 687.420 krónur).

Í öðru lagi er um að ræða kröfu stefnanda um bætur upphaflega að fjárhæð samtals 3.673.075 krónur, sem nú hefur verið lækkuð í 3.251.75 krónur, vegna galla í útboðslýsingu, breytinga sem stefndi gerði á aðalverkinu og viðbótarverkum á verktíma og seinkunar sem varð á afhendingu teikninga og búnaðar. Krafan var lækkuð í framangreinda tölu eftir að stefnandi féll frá kröfu um bætur vegna klæðningarvinnu. Í stefnu var einnig gerð krafa um greiðslu vegna tjóns vegna stöðvunar á vinnu en stefnandi hefur nú fallið frá þeirri kröfu.

Krafan er samsett annars vegar af 2.819.475 krónum vegna tjóns stefnanda af breytingum sem stefndi gerði á þeim verklið er lýtur að brúarsmíði auk seinkunar á afhendingu teikninga vegna þess og hins vegar af 431.800 krónum vegna tjóns stefnanda af breytingum sem stefndi gerði á þeim verklið er lýtur að uppsetningu á skipskrana auk seinkunar á afhendingu teikninga og búnaðar vegna þess. Krafan byggist á því að vanefndir stefnda við afhendingu teikninga og búnaðar og sífelldar breytingar hans á umsömdu verki hafi valdið stefnanda verulegum aukakostnaði og beri stefnda að bæta honum allt tjón vegna þess á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar um bótaábyrgð innan samninga. Stefnandi telur að orsakasamband sé á milli þess tjóns sem krafa hans byggist á og athafna stefnda, þ.e. þeirra breytinga sem stefndi gerði á verkinu og þar með forsendum útboðsins, þ.e. útboðslýsingunni, sem og þeirrar seinkunar sem varð á afhendingu teikninga og búnaðar. Jafnframt telur stefnandi að það tjón sem hann krefur stefnda um undir þessum lið sé sennileg afleiðing af athöfnum stefnda. Framangreindri bótakröfu til stuðnings bendir stefnandi á að hann hafi miðað tilboð sitt við það verk sem lýst er í útboðslýsingu og þær áætlanir sem þar komi fram. Að sama skapi miðaði stefnandi tilboð sitt í viðbótarverk á föstu verði í klæðningar- og einangrunarvinnu við ákveðnar forsendur sem hann var upplýstur um af hálfu stefnda. Stefnandi telur vissulega að eðlilegt sé að ákveðin aðlögun eigi sér stað í umfangsmiklum verkefnum en þegar þær breytingar eru orðnar svo miklar að forsendur og grundvöllur verks hafa breyst, eins og í þessu máli, þá er ljóst að stefnda ber að greiða stefnanda bætur sem jafngilda þeim aukakostnaði sem breytingarnar hafi í för með sér.

                Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna breytinga sem stefndi gerði á verklið er varðar brúarsmíði og seinkun á afhendingu teikninga vegna þess. Þegar stefnandi hófst handa við verkið var engin nothæf teikning til og þ.a.l. hafði stefnandi ekki upplýsingar um það hver þörfin væri á efni í þennan verklið. Þegar fyrstu teikningar vegna þessa verkliðar bárust stefnanda voru þær stimplaðar: „ófullgerð teikning“ en þær teikningar sem áttu að vera endanlegar bárust ekki fyrr en 24. janúar 2010. Frá því að hinar „endanlegu“ teikningar bárust stefnanda óskaði stefndi eftir því að breytingar yrðu gerðar á brúarmastri en vinnuteikningar vegna þess bárust stefnanda 18. maí 2010. Teikningar vegna brúarpúlts, stigauppgangs, innréttinga, handriða og inngangs að brú bárust stefnanda aldrei. Þrátt fyrir framangreindan skort á teikningum og ósk stefnda um breytingar á brúarmastri, þá reyndi stefnandi að halda áfram vinnunni. Í því sambandi er bent á að hann varð sjálfur að hanna brúargólf o.fl. á staðnum, þar sem ítrekaðar óskir hans um teikningar báru ekki árangur. Framangreindar breytingar og tafir á afhendingu teikninga höfðu veruleg áhrif á framgang og verklok á brúarsmíðinni og urðu til þess að seinkun varð á því að undirverktakar stefnanda gætu hafist handa við sína þætti verksins. Stefnandi telur að tjón sitt af framangreindu sé varlega metið 2.819.475 krónur eða 4,5% af leiðréttri samningsupphæð en brúarsmíðin er hluti þess verks.

                Þá byggir stefnandi á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna breytinga er varða uppsetningu á skipskrana og seinkunar á afhendingu teikninga og búnaðar vegna þess. Þegar stefnandi hóf vinnu við aðalverkið hafði stefndi ekki enn pantað kranann. Þegar stefndi pantaði loks kranann þá valdi hann mun öflugri krana en gert hafði verið ráð fyrir í útboðslýsingu. Kraninn sjálfur barst aldrei á starfsstöð stefnanda en kranaundirstaðan kom 23. júní 2010 eða löngu eftir upprunalega áætluð verklok. Stefnandi óskaði ítrekað eftir teikningum af undirstöðunni frá stefnda og bárust honum margar ófullgerðar útfærslur af teikningum en samþykkt teikning með athugasemdum barst frá flokkunarfélaginu Lloyd´s Register 21. apríl 2010 en á henni var frágangur styrkinga við botnstokka mjög óljós og var stefnandi því nauðbeygður til þess að fela starfsmönnum sínum að hanna sjálfir þessar styrkingar. Framangreindar breytingar stefnda á verkinu, vanefndir við afhendingu búnaðar og seinkun á afhendingu teikninga ollu miklu tjóni og óhagræði fyrir stefnanda, ekki síst vegna þess að hann varð sjálfur að ráðast í hönnunarvinnu sem ekki var gert ráð fyrir í útboðsgögnum. Stefnandi telur að tjón sitt af framangreindu sé varlega metið 431.800 krónur eða 10% af leiðréttri samningsupphæð vegna verksins.

                Í þriðja lagi er um að ræða bótakröfu stefnanda vegna aukinnar vinnu sem framkvæmdastjóri, bókari, tæknifræðingur og verkstjórar stefnanda þurftu að inna af hendi vegna riftunar, samtals að fjárhæð 8.063.440 krónur. Hér er átt við vinnu framangreindra aðila í framhaldi af riftun stefnda, þ.e. vinnu við að mótmæla riftuninni, vinnu í tengslum við ágreining um afhendingu skipsins sem og undirbúning og gagnaöflun í framhaldinu, þ.m.t. í innsetningarmáli fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, ágreiningsmáli um aðför fyrir héraðsdómi og fyrir sýslumanni þegar stefnandi varðist innsetningarbeiðni stefnda.

Krafan er fjórþætt og byggist í fyrsta lagi á því að verkstjórar stefnanda þurftu að inna af hendi 200 klukkustunda vinnu í tengslum við framangreint og þar sem tími verkstjóra hjá stefnanda er seldur út á 4.853 krónur er gerð krafa um 970.600 krónur. Í öðru lagi byggist krafan á því að tæknifræðingur stefnanda hafi þurft að inna af hendi 300 klukkustunda vinnu og þar sem tími tæknifræðings er seldur út á 8.225 krónur er gerð krafa um 2.467.500 krónur. Í þriðja lagi byggist krafan á því að bókari félagsins hafi þurft að inna af hendi 300 klukkustunda vinnu og þar sem bókarinn selji tíma sinn út á 8.225 krónur er gerð krafa um 2.467.500 krónur. Í fjórða lagi byggist krafan á því að framkvæmdastjóri stefnanda hafi eytt sem nemur eins og hálfs mánaðar vinnu í framangreint og þar sem verktakalaun hans eru 1.438.560 krónur á mánuði sé gerð krafa um 2.157.840 krónur. Bótakrafan er á því byggð að hin ólögmæta fyrirvaralausa riftun stefnda hafi leitt til aukins kostnaðar fyrir stefnanda og stefnda beri að bæta stefnanda allt tjón vegna þess á grundvelli almennra reglna skaðabóta- og verktakaréttar. Þessi aukni kostnaður stefnanda felist í því að hann hafi þurft að kaupa aukna vinnu af bókara sínum, auk þess sem starfsmenn hans hafi þurft að verja miklum tíma í að gæta hagsmuna félagsins.

Um lagarök vísar stefnandi til bótareglna verktakaréttar, almennu skaðabótareglunnar og reglna um bótaábyrgð innan samninga. Sérstaklega er vísað í reglur verktakaréttar um stofnun viðbótarkrafna verktaka vegna aukins umfangs verks og umbeðinna viðbótarverka. Þá er vísað til reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og reglna um ólögmæta riftun.

Þess er krafist að kröfur stefnanda beri vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er stefndi rifti verksamningi aðila og samningum um viðbótarverk, þ.e. 6. ágúst 2010. Enn fremur er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 að liðnum mánuði frá þingfestingardegi máls þessa, 18. nóvember 2011, en þá verður liðinn mánuður frá því að stefnandi lagði sannanlega fyrir stefnda þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki er gerð krafa um virðisaukaskatt á málskostnað, sbr. lög nr. 50/1988, þar sem stefnandi er virðisaukaskattsskyldur. Varnarþing í umdæmi Héraðsdóms Vesturlands styðst við 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 12. gr. verksamnings aðila.

Málsástæður og lagarök stefnda, Þörungaverksmiðjunnar hf., vegna stefnu sem birt var 16. september 2011. Mál 2.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu aðallega á því að riftun verksamningsins og aukaverka tengdra honum hafi verið lögmæt vegna verulegra vanefnda stefnanda. Stefnandi eigi því engan rétt til bóta vegna riftunarinnar. Byggir stefndi aðallega á ákvæðum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, auk meginreglna kaupa- og verktakaréttar og til hliðsjónar á ákvæðum ÍST 30 eins og nánar er rakið vegna stefnu sem birt var 14. júní 2011. Þá byggir stefndi á því að bótakröfur stefnanda séu með öllu ósannaðar, bæði hvað varðar bótagrundvöll og tilvist og umfang hins meinta tjóns. Háttsemi stefnda sem krafist sé bóta vegna hafi í engu verið saknæm eða ólögmæt og beri hann því enga bótaskyldu. Loks byggir stefndi á því að í öllu falli eigi hann kröfur á hendur stefnanda til skuldajafnaðar hverjum þeim kröfum sem stefndi gæti verið talinn eiga á hendur honum vegna ofgreiðslu til stefnanda.

                Eins og hvað varðar stefnu sem birt var 14. júní 2011 byggir stefndi á sömu málsástæðum og áður hafa verið raktar vegna þeirrar stefnu, að stefnandi hafi vanefnt aðalskyldu sína um að skila verkinu á tíma í réttum ástandi, en reikningsgerð stefnda hafi ekki verið forsvaranleg. Framkvæmd riftunarinnar hafi verið forsvaranleg, dráttur á verklokum hafi ekki verið vegna atriða er vörðuðu stefnda. Hvað það varðar vísaði stefndi til þess að stefnandi hafi ekki óskað eftir viðbótarfresti vegna aukaverka, meint aukaverk höfðu ekki verið samþykkt réttilega, afhending teikninga hafði ekki áhrif á verklokatíma, afhending búnaðar hafði ekki áhrif á verklokatíma og leyndir gallar höfðu ekki áhrif á verklokatíma.

Burtséð frá niðurstöðu dóms um lögmæti riftunar gerir stefndi athugasemdir við einstaka liði fjárkrafna stefnanda sem sundurliðaðir eru í stefnu. Í öllum tilvikum eru fjárhæðir og verktímar einhliða áætlaðir af stefnanda eða undirverktökum hans og er því mótmælt að þær tölur geti haft nokkurt sönnunargildi í málinu. Þá séu bótakröfur stefnanda með öllu ósannaðar, bæði hvað varðar bótagrundvöll, tilvist og umfang tjóns. Þannig skortir í öllum tilvikum á að sýnt sé fram á að hin meinta háttsemi stefnda hafi verið ólögmæt eða saknæm, en hvort tveggja eru skilyrði skaðabóta. Þá sé ekki í neinu tilfelli leitast við að sýna fram á eða einangra raunverulegt tjón stefnanda vegna meintrar bótaskyldrar háttsemi stefnda, heldur einungis stuðst við „áætlaða meðalframlegð“ eða „varlega áætlaðar“ tölur. Stefndi byggir á því að skaðabótakrafa geti ekki grundvallast á slíkum forsendum, enda sé það meginregla að tjónþoli verði að sanna tilvist og umfang tjóns síns. Stefnanda hafi jafnframt, í öllum tilvikum, borið að tilkynna stefnda um að hann teldi meinta háttsemi hans skaðabótaskylda og að hún væri til þess fallin að valda honum tjóni. Engri slíkri tilkynningu var hins vegar beint að stefnda og er það fyrst rúmum tveimur árum eftir að verksamningi aðila var rift að bótakrafa stefnanda kemur fram. Stefndi telur því hverjar slíkar skaðabótakröfur fallnar niður vegna tómlætis hefðu þær nokkurn tímann verið til staðar. Þá bendir stefndi einnig á að í öllu falli hefði stefnanda í öllum tilvikum borið skylda til að takmarka hið meinta tjón sitt.

Til viðbótar við þau almennu sjónarmið varðandi kröfur stefnanda sem lýst hefur verið að ofan m.t.t. lögmætis riftunarinnar og almennra annmarka á bótakröfum gerir stefndi jafnframt eftirfarandi athugasemdir við einstaka liði kröfugerðar stefnanda:

Hvað varðar kröfu um efndabætur að fjárhæð 10.380.370 krónur vegna óunninnar vinnu við aðal- og viðbótarverk þá krefst stefnandi þess að fá greidd 40% af henni, samtals að fjárhæð 4.333.727 krónur. Byggir hann á því að um hafi verið að ræða verk sem búið var að áætla að yrðu unnin en voru aldrei unnin. Stefndi mótmælir umræddri kröfu og telur hana með öllu ósannaða, bæði hvað varðar bótagrundvöll og tilvist og umfang tjóns. Í þessu sambandi ítrekar stefndi að bótakrefjandi beri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði skaðabóta séu uppfyllt, auk þess að sanna þarf fjárhæð tjóns. Stefnandi reynir ekki með nokkru móti að sanna að umræddir liðir hafi valdið honum tjóni á nokkurn hátt. Ekki er að finna neinar röksemdir eða gögn sem styðja útreikning þessarar meðalframlegðar og er í besta falli um að ræða áætlun. Þessum útreikningum stefnanda hvað varðar meðalframlegð er mótmælt sem ósönnuðum, auk þess sem 40% álag ofan á kostnað og efni sé verulega hærra en almennt tíðkist í verktakaviðskiptum. Þá er ekki sýnt fram á að sú ákvörðun stefnda að láta ekki vinna umrædd verk hafi verið saknæm og ólögmæt eða til þess fallin að valda stefnanda tjóni.

Hvað varðar efndabætur vegna óunninnar vinnu við viðbótarverk á tímagjaldi, lið 4.2.1.3 í stefnu, þá mótmælir stefndi þeim kröfulið þar sem aldrei hafi verið til staðar bindandi samningur milli aðila um vinnu umræddra viðbótarverka sem geti verið grundvöllur efndabóta. Í þessu sambandi vísar stefndi til fyrri umfjöllunar um samþykkisferli aukaverka og ágreining þar að lútandi. Efndabótakrafa stefnanda vegna þessa kröfuliðar byggist alfarið á undirritun eftirlitsmanns stefnda á lista, en þar er ekki að finna neinar upplýsingar um fyrirhugaðan tímafjölda, efniskostnað eða annað sem veitt gæti nokkra vísbendingu um umfang verkanna. Stefndi telur að undirritun eftirlitsmanns stefnda ein og sér, án samþykkis framkvæmdastjóra eða verkfræðiráðgjafa, sé ekki skuldbindandi fyrir stefnda sem endanlegt samþykki á aukaverkunum.

Þá bendir stefndi sérstaklega á að stefnanda mátti vera ljóst, a.m.k. eftir samskipti þeirra 7. júní 2010, að stefndi taldi undirritanir eftirlitsmannsins á listana ekki skuldbindandi. Stefnandi virðist ætla sér að rukka enn frekari vinnu vegna þeirra viðbótarverka sem þegar var búið að greiða fyrir, og sem í fjölda tilvika voru gerðar athugasemdir við.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um bætur vegna galla í útboðslýsingu að fjárhæð 3.673.075 krónur og telur að bótagrundvöllur sé ekki til staðar auk þess sem fjárhæð skaðabóta sé ósönnuð. Þannig sé ekki leitast við að sanna á nokkurn hátt að hin meinta bótaskylda háttsemi stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt. Þá er því haldið fram að stefnandi hafi orðið fyrir verulegum aukakostnaði vegna þessara liða, án þess að í nokkru sé leitast við að gera grein fyrir slíkum kostnaði. Allt tjón stefnanda vegna þessa kröfuliðar er sagt „varlega áætlað“. Þar sem stefnandi hefur ekki gert tilraun til þess að sanna tjón sitt, verður þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda. Þá bendir stefndi einnig á að í öllu falli hefði stefnanda í öllum tilvikum borið skylda til að takmarka hið meinta tjón.

Til viðbótar við framangreind sjónarmið gerir stefndi eftirfarandi athugasemdir við einstaka kröfuliði vegna skaðabóta sem hér segir:

Hvað varðar kröfu um bætur vegna breytinga á brúarsmíði og seinkun teikningar, sbr. lið 4.2.2.1 í stefnu, bendir stefndi á að samkvæmt meginreglum verktakaréttar er verkkaupa heimilt að krefjast breytinga á umfangi verks innan eðlilegra marka, sbr. einnig til hliðsjónar grein 16.1 í ÍST 30. Telji verktaki sig verða fyrir sérstökum kostnaði vegna slíkrar breytingar verður hann að gera kröfu um aukalega greiðslu áður en hann byrjar vinnu við breytingarnar, sbr. grein 16.2 í ÍST 30. Stefnandi hafi hins vegar ekki krafist neinnar slíkrar greiðslu heldur hafist handa við vinnu samkvæmt breytingunum án athugasemda. Mátti stefndi því gera ráð fyrir að ekki yrði um sérstakan kostnað að ræða enda voru þær breytingar sem urðu á brúarsmíði til þess fallnar að einfalda og flýta fyrir verkinu og draga úr kostnaði, en sú fullyrðing stefnda fær stoð í bæði skýrslu Frímanns og Guðmundar. Þannig telur stefndi fráleitt að stefnandi hafi orðið fyrir sérstöku tjóni vegna breytinganna, enda uppfyllir umræddur kröfuliður ekki þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo að hægt sé að krefjast aukagreiðslna vegna viðbótarverka í verksamningum. Varðandi þá fullyrðingu stefnanda að teikningar vegna brúarinnar hafi verið afhentar of seint er vakin athygli á því að samkvæmt útboðsgögnum átti gerð teikninga að vera á ábyrgð verktaka. Það var aðeins eftir að skrifað var undir verksamning aðila að ákveðið var að stefndi skyldi sjá um gerð teikninga, eins og lýst hefur verið að ofan. Liggur því fyrir að stefnandi hefði alltaf þurft að gera ráð fyrir þeim tíma sem færi í gerð teikninga þegar hann setti fram upphaflegt tilboð sitt í verkið.

Þá mótmælir stefndi því jafnframt að afhending teikninga vegna brúarinnar hafi verið sein, en stefnanda var send ósamþykkt teikning af nýja stýrishúsinu strax 24. nóvember 2009 og hafði stefndi samþykki Lloyd‘s fyrir því að panta efni og hefja vinnu þó svo að teikningin hefði ekki verið samþykkt, eins og er venja í skipasmíðum. Teikningin var samþykkt af Lloyd‘s með litlum breytingum 13. janúar 2010 og stefnandi látinn vita af því, en hann fékk síðan senda stimplaða teikninguna 29. janúar 2010. Þrátt fyrir að hafa haft undir höndum fyrrgreinda teikningu hófst stefnandi hins vegar ekki handa við smíði stýrishússins fyrr en um mánaðamótin febrúar/mars 2010. Verður því ekki séð hvernig afhending fyrrgreindra teikninga hafi valdið stefnanda sérstöku tjóni. Þá er því hafnað að þörf hafi verið á þeim síðari teikningum sem stefndi vísar til í stefnu enda hefði mátt notast við eldri teikningar þar sem samþykki Lloyd‘s fyrir breytingum á þessum þáttum var ekki nauðsynlegt eða slíkar teikningar unnar á staðnum, eins og venja er varðandi teikningar á búnaði í brúm skipa, enda geti það verið að breytast fram undir verklok hvernig uppsetning búnaðarins verði.

Með vísan til ofangreinds er því mótmælt að breytingar á stýrishúsi og afhending teikninga þar að lútandi hafi getað leitt til bótaskyldu fyrir stefnda, en stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir bæði bótagrundvelli og því tjóni sem hann varð fyrir. Þá skal jafnframt tekið fram að stefnandi hefur höfðað mál til innheimtu reikninga vegna breytinga á brúarsmíðinni og er því fráleitt að ætla að hann hafi jafnframt orðið fyrir skaðabótaskyldu tjóni af þeim sökum.

Hvað varðar kröfu um bætur vegna breytinga á uppsetningu skipskrana, búnaðar og teikninga þá mótmælir stefndi því að breytingarnar geti stofnað til bótaskyldu fyrir hann, en krafan sé of seint fram komin, bótagrundvöllur órökstuddur og meint tjón stefnanda með öllu óljóst.

Varðandi heimildir til breytingar á verki vísast til fyrri umfjöllunar og þess að stefnandi krafðist ekki sérstakrar greiðslu vegna breytinganna. Þannig mátti stefndi gera ráð fyrir því að ekki yrði krafist sérstakrar greiðslu vegna breytinga sem tengdust þilfarskrananum. Þá hefur stefndi í engu sýnt fram á hið meinta tjón sem hann hafi orðið fyrir af breytingunum

Varðandi upphaflegt fyrirkomulag vinnu við teikningar vísast jafnframt til umfjöllunar að framan og hefði stefnandi því alltaf þurft að áætla tíma til vinnu við teikningar. Stækkun kranans var ekki hluti af upphaflegum útboðsgögnum og því ekki hægt að búast við því að teikningar vegna stækkunarinnar væru afhentar þegar í stað. Stefnandi samþykkti hins vegar að umræddar breytingar yrðu á verkinu og hefur krafist greiðslu vegna þeirra í öðru dómsmáli. Verður því ekki séð hvernig stefnandi hyggst einnig krefjast skaðabóta þegar ljóst var að samþykki hans fyrir umræddum breytingum lá fyrir. Þá var krananum vísvitandi haldið í tollgeymslu eftir að hann kom til landsins þar sem stefndi vildi forðast að honum yrði haldið eftir á athafnasvæði stefnda ef til riftunar verksamnings kæmi.

Þá mótmælir stefndi kröfu um bætur vegna aukinnar vinnu starfsmanna stefnanda að fjárhæð 8.063.440 krónur. Þannig virðist krafan byggjast á því að starfsmenn stefnanda selji vinnu sína út sem verktakar til hans. Stefndi eigi þannig að bera ábyrgð á þeirri vinnu sem starfsmenn stefnanda eiga að hafa innt af hendi innanhúss vegna lögskipta aðila. Sá kostnaður innan fyrirtækis sem fer í samskipti starfsmanna þess við aðra lögaðila eða einstaklinga og hugsanleg málaferli í kjölfar þeirra er eðlilegur rekstrarkostnaður innan fyrirtækis, sem á sér stað á vinnutíma starfsmanna. Stefndi mótmælir kröfunni og bendir á að í dómaframkvæmd hafi ekki einu sinni verið litið svo á að hægt væri að krefjast málskostnaðar vegna vinnu lögmanns innanhúss í tengslum við málaferli, hvað þá annarra starfsmanna.

Í stefnu er því lýst að umrædd vinna eigi að hafa farið fram í tengslum við m.a. innsetningarmál sem rekið var í milli aðila fyrir héraðsdómi og Hæstarétti og síðan fullnustu innsetningargerðarinnar fyrir sýslumanninum á Akranesi og frekari málaferlum fyrir héraðsdómi. Í þessu sambandi bendir stefndi á að dómur í fyrrgreindu innsetningarmáli féll honum í vil og því sé erfitt að sjá hvernig stefndi á að geta borið nokkra ábyrgð á kostnaði stefnanda vegna þess. Var stefnda raunar dæmdur málskostnaður vegna þess máls og stefnanda því gert að greiða kostnað hans. Þá var málaferlum aðila varðandi fullnustu innsetningarinnar lokið með því að málið var fellt niður samkvæmt samkomulagi aðila. Þá gerir stefndi jafnframt athugasemdir við þær meintu tímaskráningar sem stefnandi hefur lagt fram og telur þær ekkert sönnunargildi geta haft í málinu og séu ekki studdar neinum gögnum úr bókhalds- eða tímaskráningarkerfi stefnanda. Þá virðist raunar sem flestir hinna meintu tíma séu skráðir á tímabilinu mars til ágúst 2011, en á því tímabili áttu sér engin samskipti stað á milli stefnda og stefnanda.

Þá byggir stefndi á því að verði komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi að einhverju leyti kröfur á hendur stefnda þá eigi hann gagnkröfu til skuldajafnaðar sem er hærri en stefnukrafa stefnanda.

Stefndi byggir á því að þar sem verksamningnum hafi verið rift eigi stefnandi einungis rétt á greiðslu fyrir verkið að því marki sem því var lokið þegar samningnum var rift. Meginregla við riftun er að hvor aðili um sig á kröfu á endurheimtu greiðslu sinnar. Stefndi telur sig hafa greitt stefnanda of háa fjárhæð miðað við hve miklu af vinnu við verksamninginn var lokið þegar til riftunar kom, og eigi því rétt á endurgreiðslu þess sem ofgreitt var. Kröfugerð stefnda byggist á hinu upphaflega heildarverði verksamningsins, að frádregnum þeim breytingum sem gerðar voru á honum. Þannig hafði stefndi greitt 87.209.700 krónur af samningsverkinu, eða 89,5% þegar tekið er tillit til niðurfellinganna sem áður var lýst.

Af skoðunum Frímanns og Guðmundar auk athugasemda verkfræðiráðgjafa stefnda, Bjarna, megi hins vegar ráða að mikil vinna hafi verið eftir þegar stefndi fékk loks skipið afhent og einungis hafi verið búið að ljúka um 65% verksins. Mismunurinn á 89,5% heildarverksins, 87.209.700 krónum, og 65% heildarverksins, 63.248.580 krónum er 23.836.480 krónur. Stefndi byggir á því að hann eigi rétt til mismunarins, 23.836.480 krónum úr hendi stefnanda, enda eigi stefnandi ekki rétt til greiðslu umfram þá vinnu sem hafi sannanlega verið innt af hendi. Kröfu sína um endurgreiðslu byggir stefndi á meginreglum verktakaréttar og undirstöðurökum greinar 25 í ÍST 30, sérstaklega undirmálsgreinum 25.7.4 og 25.7.5.

Þá hafði stefndi greitt reikninga nr. R24810 og R25050 með fyrirvara um endanlegt samþykki verkfræðiráðgjafa stefnda. Þeir reikningar hafa hins vegar enn ekki verið samþykktir og telur stefndi sig því eiga rétt til endurgreiðslu vegna þeirra sem nemur 3.483.842 krónum. Samanlagt eigi stefndi því inni 27.320.322 krónur hjá stefnanda sem komi til skuldajafnaðar hverjum þeim kröfum sem stefnandi verði talinn eiga á hendur stefnda, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Varakrafa stefnda um lækkun dómkröfu byggist á öllum sömu sjónarmiðum og aðalkrafa.

Um lagarök vísar stefndi til 22., 25., 27., 30., 34. og 40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, auk meginreglna fyrrgreindra laga um lausafjárkaup, meginreglna verktakaréttar, þ. á m. undirstöðuraka staðalsins ÍST 30:2003, og meginreglna samninga- og kröfuréttar, sérstaklega um vanefndaúrræði og riftun. Þá er vísað til meginreglna kröfuréttar um skaðabætur innan samninga. Um heimild til skuldajafnaðar vísast til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda, Þörungaverksmiðjunnar hf., vegna gagnstefnu sem birt var 27. október 2011. Mál 3.

Kröfur gagnstefnanda í máli þessu byggjast á því að háttsemi gagnstefnda við framkvæmd verksamnings aðila hafi verið með öllu óforsvaranleg og riftun gagnstefnanda á verksamningnum hafi verið lögmæt vegna verulegra vanefnda gagnstefnda. Framgangur verksins hafi verið í engu samræmi við ákvæði verksamnings aðila, þá sérstaklega hvað varðar framkvæmd verksins, tímasetningu verkloka og fyrirkomulag aukaverka. Gagnstefnandi byggir einnig á því að hann eigi rétt til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem ofgreidd hafði verið vegna aðalverksins. Greiðslur vegna aðalverksins námu 89,5% af heildarverkinu, en gagnstefnandi telur ljóst að mun minni hluta þeirrar vinnu hafi verið lokið við riftun verksamningsins. Jafnframt byggir hann á því að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi gagnstefnda vegna tjóns sem hann varð sannanlega fyrir þegar honum var nauðsynlegt að leita til annars aðila um að ljúka verkinu, með tilheyrandi kostnaði. Þá byggir gagnstefnandi á því að hann eigi rétt til skaðabóta vegna þess kostnaðar sem honum varð nauðsynlegt að leggja út í þar sem gagnstefndi meinaði honum um að njóta lögformlegra réttinda sinna til varslna á skipinu.

Eins og hvað varðar þau mál er byggjast á stefnum birtum 14. júní og 16. september 2011 byggir gagnstefnandi aðallega á ákvæðum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup (kpl.) auk meginreglna kaupa- og verktakaréttar og til hliðsjónar á ákvæðum ÍST 30 staðalsins eins og nánar er rakið hvað varðar málsástæður vegna stefnu sem birt var 14. júní 2011. Þá byggir gagnstefnandi á því að bótakröfur gangstefnda séu með öllu ósannaðar, bæði hvað varðar bótagrundvöll og tilvist og umfangs hins meinta tjóns. Háttsemi gagnstefnanda sem krafist sé bóta vegna hafi í engu verið saknæm eða ólögmæt og beri hann því enga bótaskyldu. Loks byggir gagnstefnandi á því að í öllu falli eigi hann kröfur á hendur gagnstefnda til skuldajafnaðar hverjum þeim kröfum sem gagnstefndi gæti verið talinn eiga á hendur honum vegna ofgreiðslu til gagnstefnda. Þá byggir hann einnig á sömu málsástæðum og áður hafa verið raktar vegna þeirrar stefnu, að gagnstefndi hafi vanefnt aðalskyldu sína um að skila verkinu á réttum tíma í réttu ástandi, reikningsgerð gagnstefnda hafi ekki verið forsvaranleg, framkvæmd riftunarinnar hafi verið forsvaranleg, dráttur á verklokum hafi ekki verið vegna atriða er vörðuðu gagnstefnanda. Hvað það varðar vísar gagnstefnandi til þess að gagnstefndi hafi ekki óskað eftir viðbótarfresti vegna aukaverka, meint aukaverk höfðu ekki verið samþykkt réttilega, afhending teikninga hafði ekki áhrif á verklokatíma, afhending búnaðar hafði ekki áhrif á verklokatímann og leyndir gallar höfðu ekki áhrif á verklokatíma.

Varðandi kröfu sína um endurgreiðslu vegna ofgreiðslu byggir gagnstefnandi á sömu málsástæðum eins og þeim er lýst í kröfu um viðurkenningu á riftun, eftir því sem við á. Þá byggir gagnstefnandi á því að þar sem verksamningnum hafi verið rift eigi gagnstefndi einungis rétt á greiðslu fyrir verkið að því marki sem því var lokið þegar samningnum var rift. Meginregla við riftun er að hvor aðili um sig á kröfu á endurheimtu greiðslu sinnar. Riftun verksamnings geti eðli máls samkvæmt einungis tekið til þess hluta verksins sem ólokið er. Gagnstefnandi byggir einnig á því að þær upphæðir sem gagnstefndi rukkaði fyrir vinnu við undirbúning við að gera skipið sjóklárt hafi verið langt umfram það sem eðlilegt geti talist og þær séu raunar þess eðlis að gagnstefnandi hefði aldrei átt að bera þann kostnað. Gagnstefnandi gerir eftirfarandi kröfur um endurgreiðslu vegna ofgreiðslna til stefnda:

Gagnstefnandi krefst endurgreiðslu vegna ofgreiðslu fyrir tilboðsverk. Telur hann sig hafa greitt gagnstefnda of háa fjárhæð miðað við hve miklu af vinnu við verksamninginn var lokið þegar til riftunar kom, og eigi því rétt á endurgreiðslu þess sem ofgreitt var. Kröfugerð gagnstefnanda byggist á hinu upphaflega heildarverði verksamningsins, að frádregnum þeim breytingum sem gerðar voru á honum. Þannig hafði gagnstefnandi greitt 87.209.700 krónur af samningsverkinu, eða 89,5% þegar tekið er tillit til niðurfellinganna.

Af skoðunum Frímanns og Guðmundar auk athugasemda verkfræðiráðgjafa stefnanda megi hins vegar ráða að mikil vinna hafi verið eftir þegar gagnstefnandi fékk loks skipið afhent og einungis hafi verið búið að ljúka um 65% verksins. Mismunurinn á 89,5% heildarverksins, 87.209.700 krónum, og 65% heildarverksins, 63.248.580 krónum er 23.836.480 krónur. Gagnstefnandi byggði á því í stefnu að hann ætti rétt til mismunarins, 23.836.480 króna úr hendi gagnstefnda en hefur nú lækkað kröfu sína í 5.054.193 krónur. Kröfu sína um endurgreiðslu byggir gagnstefnandi á meginreglum verktakaréttar og undirstöðurökum greinar 25 í ÍST 30, sérstaklega undirmálsgreinum 25.7.4 og 25.7.5.

Þá gerir gagnstefnandi kröfu um endurgreiðslu vegna reikninga sem greiddir voru með fyrirvara um endanlegt samþykki verkfræðiráðgjafa gagnstefnanda, nr. R24810 og R25050. Hann hefur nú fallið frá kröfu um endurgreiðslu vegna síðarnefnda reikningsins og hljóðar krafa hans nú upp á 922.398 krónur í stað 3.483.842 krónur. Krafa gagnstefnanda að þessu leyti fái stoð í skýrslu Guðmundar en þar eru gerðar athugasemdir við ýmsa verkliði á umræddum reikningum.

Þá gerir gagnstefnandi kröfu um endurgreiðslu vegna greiðslu fyrir suðuvinnu á skrokk. Krafan er vegna kostnaðar sem er tilkominn af háttsemi gagnstefnda. Það er meginregla verktakaréttar að verktaki skuli bæta verkkaupa allt það tjón sem hinn síðarnefndi hefur orðið fyrir vegna skiladráttar verktaka. Skipið var ekki í slíku ástandi að hægt væri að sjósetja það með öruggum hætti þegar réttindi gagnstefnanda til varslna yfir því höfðu verið staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 568/2010. Gagnstefndi heimilaði gagnstefnanda ekki að láta þriðja aðila framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á skipinu, þess í stað krafðist gagnstefndi þess að hann mundi framkvæma viðgerðirnar á því verði sem hann setti upp vegna þess, þrátt fyrir að upplýsingar gagnstefnanda bentu til þess að uppsett verð gagnstefnda væri miklum mun hærra en markaðsverð. Fór svo að aðilar gerðu með sér samning, dagsettan 8. nóvember 2010, um nauðsynlega suðuvinnu sem gagnstefndi skyldi framkvæma þannig að hægt yrði að sjósetja skipið og flytja það af athafnasvæði gagnstefnda. Vegna suðuvinnunnar greiddi gagnstefnandi 8.000.000 króna, en þó með fyrirvara um réttmæti og fjárhæð greiðslunnar, enda taldi hann verkið rúmast innan útboðsverksins enda ljóst að loka hefði þurft skipinu áður en verkinu yrði lokið. Því bæri honum ekki sérstaklega að greiða fyrir það, auk þess sem uppsett fjárhæð gagnstefnda væri óeðlilega há fyrir vinnuna. Lokagreiðsla vegna suðuvinnunnar fór fram 13. desember 2010. Þá byggir gagnstefnandi á því að suðuvinnan hafi einungis komið til sem sérstakt verk vegna riftunar samningsins í kjölfar vanefnda gagnstefnda og beri gagnstefnda að endurgreiða gagnstefnanda kostnaðinn. Verði talið að suðuvinnan falli utan verksamnings aðila, þá byggir gagnstefnandi á því að greiðslan hafi verið langt yfir raunkostnaði við umrædda suðuvinnu sem tilgreind er í 1. gr. samningsins og er krafist endurgreiðslu á því sem ofgreitt var.

Varðandi fjárhæð greiðslunnar bendir gagnstefnandi á að í bréfi dagsettu 8. nóvember 2010 mat fulltrúi Lloyd‘s á Íslandi, Páll Kristinsson, vinnustundir við að sjóða hverja einstaka plötu á miðkjöl skipsins (samtals 17 plötur) tvær til þrjár klukkustundir eða samtals um 51 klukkustund. Þá gerði hann ráð fyrir að vinna við að sjóða byrðingsplötu í forpikk (stafnhylki) tæki einn mann þrjá daga miðað við venjulegan vinnudag. Miðað við 8 stunda vinnudag væri því um að ræða 24 klukkustunda vinnu eða samtals 76 klukkustunda suðuvinnu til að loka götunum.

Af reikningum útgefnum af gagnstefnda vegna aukaverka sem voru unnin á tímagjaldi megi sjá að tímagjald vegna vinnu starfsmanna gagnstefnda var 4.622 krónur fyrir verkstjóra og 3.798 krónur fyrir verkamann. Sé gert ráð fyrir að umrædd vinna skiptist jafnt á milli verkstjóra og verkamanna má ætla að þar væri um að ræða vinnu að fjárhæð um 319.960 krónur. Sú fjárhæð sem stefndi krafðist, þ.e. 8.000.000 króna, gerði þannig ráð fyrir nær ellefu manna flokki verkamanna og verkstjóra sem ynnu 8 tíma á dag alla virka daga í mánuð, en stefnandi telur fráleitt að þörf hafi verið á svo mikilli vinnu. Máli sínu enn frekar til stuðnings bendir gagnstefnandi á að hann hafði fengið tilboð til samanburðar frá Slippnum á Akureyri, dagsett 1. nóvember 2010, við að gera skipið Fossá ÞH-362 sjóklárt ef það væri statt þar, en tilboðsverðið var 3.700.000 krónur án virðisaukaskatts. Í tilboðinu var innifalið að loka stefni og öðrum götum, setja blindflangsa á öll sjóinntök sem voru opin, sjósetja skipið, setja vatn á a.m.k. tvo botntanka vegna stöðugleika, svo og hver önnur vinna við að gera skipið klárt fyrir drátt og koma fyrir öllum búnaði sem tilheyrði skipinu. Þá er tekið fram í tilboðinu að einingarverð sem notað hafi verið fyrir útsölu iðnaðarmanns hafi verið 4.700 krónur og verkamanns 3.500 krónur. Gagnstefnandi bendir á að fyrrgreint tilboð hafi kveðið á um mun meiri vinnu en gert sé ráð fyrir í samningi aðila frá 8. nóvember 2010, þar sem ekki er gert ráð fyrir sjósetningu, flutningi búnaðar eða annarri vinnu við undirbúning dráttar. Séu þau verð sem fram koma í tilboði Slippsins á Akureyri notuð til samanburðar megi m.a. sjá að uppsett verð gagnstefnda vegna einungis suðuvinnu við skipið var langt umfram það sem eðlilegt og sanngjarnt gæti talist.

Loks gerir gagnstefnandi kröfu um endurgreiðslu kostnaðar vegna viðgerðar hliðarfærsluvagns að fjárhæð 1.500.000 krónur en krafan var upphaflega að fjárhæð 5.000.000 króna. Byggir hann á því að hér sé um að ræða tjón sem gagnstefndi sé skaðabótaskyldur fyrir, enda hefði gagnstefnandi aldrei orðið fyrir þessum kostnaði ef ekki hefði komið til háttsemi gagnstefnda. Eins og áður hefur verið lýst réðst gagnstefndi í viðgerðir og endurbyggingu á hliðarfærsluvagni sem nauðsynlegur var til að flytja skipið af athafnasvæði hans og út í skipalyftu skömmu eftir að úrskurðað hafði verið um rétt gagnstefnanda til varslna og afhendingar skipsins. Þegar gagnstefnandi freistaði þess að fá skipið afhent með atbeina sýslumanns og skaut ákvörðun sýslumanns til Héraðsdóms Vesturlands neitaði gagnstefndi að setja hliðarfærsluvagninn aftur saman þannig að hægt væri að nýta hann til að flytja skipið nema að gagnstefnandi greiddi það sem gagnstefndi kallaði kostnað þar að lútandi. Fór svo að gagnstefnandi greiddi gagnstefnda 3.000.000 króna vegna vinnu við endurbyggingu hliðarfærsluvagnsins. Þó var gerður sérstakur fyrirvari um réttmæti og fjárhæð greiðslunnar og áskildi gagnstefnandi sér rétt til að endurkrefja gagnstefnda um greiðslu í dómsmáli. Lokagreiðsla vegna endurbyggingar hliðarfærsluvagnsins fór fram 13. desember 2010.

Gagnstefnandi byggir á því að honum hafi ekki borið nein skylda til greiðslu til gagnstefnda vegna vinnu við endurbyggingu hliðarfærsluvagnsins, enda sé þar um að ræða viðgerð á búnaði stefnda, en ástand vagnsins hafi verið gagnstefnanda óviðkomandi að öðru leyti en að hann var nauðsynlegur til flutnings skipsins úr slipp gagnstefnda og í skipalyftu. Viðgerð á vagninum, einmitt á þeim tíma sem um ræðir, hafi einungis verið í því skyni að hamla flutningi skipsins frá athafnasvæði hans. Í öllu falli hafi meint viðgerð hans og styrking verið til þess fallin að auka notagildi hans og þannig verðmæti hans fyrir gagnstefnda og ætti gagnstefnandi í engu tilviki að þurfa að bera kostnað af því. Sú greiðsla sem gagnstefndi gerði að skilyrði fyrir flutningi skipsins í skipalyftu var því gróf misnotkun á aðstöðu hans, enda var gagnstefnanda ómögulegt að njóta lögformlegra réttinda sinna til að fara með vörslur yfir skipinu án þess að hliðarfærsluvagninn væri starfhæfur.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að gagnstefnandi skuli bera hluta kostnaðar við endurbyggingu vagnsins, byggir gagnstefnandi á því að sú vinna sem gagnstefndi segir að lögð hafi verið í endurbyggingu vagnsins sé í engu samræmi við raunkostnaðinn við slíka endurbyggingu. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til bréfs Páls Kristinssonar, fulltrúa Lloyd‘s á Íslandi, dagsetts 8. nóvember 2010, þar sem fram kemur að hægt ætti að vera að ljúka endurbyggingu vagnsins á þremur dögum. Sú fjárhæð sem gagnstefndi rukkaði fyrir endurbygginguna nægi hins vegar til að halda tæplega sjö mönnum í fullri vinnu alla virka daga í mánuð m.v. tímagjald gagnstefnda.

Gagnstefnandi byggir á því að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi gagnstefnda. Tjón gagnstefnanda var í beinum tengslum við vanefndir gagnstefnda, en gagnstefnanda var nauðsynlegt að leggja í verulegan kostnað til þess að hægt væri að ljúka viðgerðum skipsins á Akureyri. Byggir hann á því að gagnstefndi beri bótaábyrgð á tjóni hans samkvæmt 27. og 40. gr. kpl. sem beita megi um verksamninga, enda hafi gagnstefndi ekki sýnt fram á að afhendingardráttur og gallar á verkinu hafi orðið vegna hindrunar sem hann fékk ekki ráðið við. Þá byggir gagnstefnandi jafnframt á meginreglum verktakaréttar og undirstöðurökum greina 25.7.4 og 25.7.5 í ÍST 30 þar sem kveðið er á um að verktaki skuli greiða bætur vegna kostnaðarauka sem leiðir af því að verkið er unnið af öðrum og fyrir annað tjón sem verktaki verður fyrir vegna vanefnda verktaka, auk þess sem verkkaupi geti krafist bóta umfram sannanlegan kostnaðarauka ef vanefndir stafa af vísvitandi eða grófri vanrækslu verktaka.

Það tjón gagnstefnanda sem leiddi af riftun hans á verksamningi aðila vegna vanefnda gagnstefnda og hér er gerð krafa um að gagnstefndi greiði honum er eftirfarandi:

Gagnstefnandi krefst þess að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur vegna kostnaðar af flutningi skipsins til Akureyrar. Fjárhæð kröfunnar byggist á reikningi útgefnum af Landhelgisgæslunni, dagsettum 10. janúar 2011 að fjárhæð 6.800.000 krónur. Reikningurinn var greiddur 14. janúar 2011. Krafan er skaðabótakrafa enda um að ræða kostnað sem er tilkominn vegna verulegra vanefnda gagnstefnda á verksamningi aðila og gagnstefnandi hefði ekki orðið fyrir nema vegna skaðabótaskyldrar háttsemi gagnstefnda. Gagnstefnanda var nauðsynlegt að flytja skipið af athafnasvæði gagnstefnda til Akureyrar þannig að ljúka mætti við endursmíði þess og var það krafa Lloyd‘s á Íslandi og vátryggjanda skipsins, VÍS, að Landhelgisgæslan myndi annast slíkan flutning. Gagnstefnandi telur að tjónið sé í beinu orsakasambandi við háttsemi gagnstefnda og sé sennileg afleiðing af háttsemi gagnstefnda.

Þá gerir gagnstefnandi kröfu vegna kostnaðar af aukalegri aðstoð frá Lloyd´s á Íslandi. Krafan byggist á auknum kostnaði sem hann varð fyrir vegna aðkomu fulltrúa Lloyd‘s á Íslandi við flutning skipsins af athafnasvæði gagnstefnda, samkvæmt reikningi Lloyd‘s, dagsettum 10. maí 2011, en reikningurinn var greiddur 16. maí 2011. Gagnstefnandi taldi að honum væri nauðugur sá einn kostur að flytja skipið í annan slipp til að láta ljúka breytingavinnu þess í kjölfar riftunar verksamnings hans við stefnda auk þess sem nauðsynlegt var að láta framkvæma nokkrar viðgerðir á skipinu áður en öruggt þótti að flytja það. Í ljósi þess að flytja átti skipið í hálfkláruðu ástandi taldi gagnstefnandi nauðsynlegt að fulltrúi Lloyd‘s á Íslandi útlistaði þær viðgerðir sem hann teldi nauðsynlegt að færu fram áður en óhætt væri að flytja skipið. Sömdu aðilar um að gagnstefndi framkvæmdi þær viðgerðir sem fulltrúi Lloyd´s taldi nauðsynlegar. Staðfesti fulltrúinn síðar að þeim væri lokið með fullnægjandi hætti og að viðgerðir á hliðarfærsluvagni væru nægilegar til að hægt væri að flytja skipið úr slipp gagnstefnda og yfir í skipalyftu. Varð gagnstefnandi fyrir kostnaði vegna þessarar vinnu fulltrúans sem hann krefst nú greiðslu á.

Þá krefst gagnstefnandi skaðabóta vegna kostnaðar við að fá þriðja aðila, Slippinn á Akureyri, til að ljúka verkinu en honum var það nauðsynlegt til að ljúka verkinu. Kostnaður gagnstefnanda vegna þessa var verulegur, enda var ástand skipsins mjög slæmt við komu til Akureyrar og er því nánar lýst í ástandsskýrslu Antons Benjamínssonar, framkvæmdastjóra Slippsins á Akureyri, til stjórnarmanns gagnstefnanda, dagsettri 20. júlí 2011.

Þrátt fyrir að hluti kostnaðar vegna verkloka á Akureyri hafi verið tilkominn vegna atriða sem féllu utan útboðslýsingar og gagnstefndi hafði ekki tekist á hendur að vinna, var meginhluti kostnaðarins vegna vinnu samkvæmt útboðslýsingu og aukaverka sem gagnstefndi hafði tekið að sér. Þá var verulegur hluti kostnaðarins við vinnuna á Akureyri vegna ástands skipsins við komuna þangað, en samkvæmt framangreindri ástandsskýrslu tæmdi gagnstefndi vélarrúm skipsins án þess að nokkur fyrirmæli hefðu verið gefin að því leyti. Þá hafði gagnstefndi fjarlægt rafmagnstöflu skipsins og bútað hana í sundur án þess að nein fyrirmæli þess efnis hefðu verið gefin frá gagnstefnanda. Einungis hafði verið óskað eftir því að hert yrði á skinnum á rafmagnstöflunni og bætt við einum rofa. Þá var rafkerfi skipsins í slæmu ástandi, eins og nánar er lýst í ástandsskýrslunni, þegar það kom til Akureyrar, en allir rafmagnsvírar höfðu verið skornir og engar merkingar að finna.

Krafa gagnstefnanda, nú samtals að fjárhæð 18.771.415, byggist á verkbókhaldi Slippsins á Akureyri og sundurliðun verkfræðiráðgjafa gagnstefnanda á þeim verkliðum. Þannig hafi Bjarni m.a. skipt vinnunni á Akranesi í flokka eftir því hvort um hafi verið að ræða vinnu sem féll undir útboðsverkið, 35.912.835 krónur, verk sem hefðu ekki þurft að koma til nema vegna flutningsins, 3.621,415 krónur, og síðan verk sem voru afleiðing af því sem gert var á Akranesi án samþykkis gagnstefnanda, t.d. varðandi vélarrúmið og rafkerfið, 34.141.678 krónur.

Gagnstefnandi telur að hér sé um að ræða tjón sem hann varð fyrir vegna háttsemi gagnstefnda, enda sé kostnaðurinn eingöngu tilkominn vegna vanefnda gagnstefnda. Kostnaður gagnstefnanda er tilkominn vegna þess að honum varð nauðsynlegt að láta ljúka þeirri vinnu annars staðar sem gagnstefndi hafði skuldbundið sig til að vinna. Þá varð gagnstefnandi einnig fyrir aukalegum kostnaði vegna ráðstafana sem gagnstefndi réðst í án samþykkis gagnstefnanda varðandi vélarrúm og rafkerfi skipsins. Þá var ástand skipsins almennt mjög slæmt vegna umgengni og vinnu gagnstefnda við það, en eins og lýst er í ástandsskýrslu Antons þurfti að yfirfara öll raftæki í brú skipsins þar sem þau höfðu ekki verið geymd á öruggum stað, stilla þurfti aðalvél, gírkassa og öxul upp á nýtt og nánast allt klæðningarefni var ónothæft vegna þess að ekki hafði verið réttilega gengið frá því, auk þess sem mikillar tiltektar hafi þurft við í skipinu.

Allur framangreindur kostnaður er tjón sem gagnstefnda ber að bæta gagnstefnanda. Um grundvöll bótaskyldu er vísað til sömu málsástæðna og að framan, en gagnstefnandi bendir einnig á ákvæði gr. 25.6.10 í ÍST 30 til hliðsjónar. Gagnstefnandi telur kröfu sína vera mjög hófsama, en í tölvupósti til stjórnarmanns gagnstefnanda lýsti Anton því að mun minna en 90% vinnunnar hefði verið unnin. Er það í samræmi við skýrslur Frímanns og Guðmundar.

Þá gerir gagnstefnandi bótakröfu vegna greiðslu kostnaðar við útgáfu bankaábyrgða til gagnstefnda. Gagnstefndi neitaði að afhenda gagnstefnanda skipið eftir að verksamningi aðila var rift og hélt því fram að hann ætti haldsrétt í skipinu fyrir kröfum sínum. Í því skyni að fá notið lögformlegra réttinda sinna yfir vörslum skipsins var gagnstefnanda því nauðsynlegt að leggja fram bankaábyrgðir að fjárhæð annars vegar 100.000.000 króna frá Arion-banka hf. og hins vegar 35.000.000 króna hjá MP-banka hf. Kostnaðurinn við útgáfu bankaábyrgðanna er annars vegar 1.873.000 krónur vegna ábyrgðarinnar frá Arion-banka hf., en 1.400.000 krónur vegna útgáfu ábyrgðarinnar frá MP-banka hf. Í báðum tilvikum byggist kostnaðurinn á gjaldskrá viðkomandi banka og var hann greiddur af stefnanda. Gagnstefnandi byggir á því að hér sé um að ræða kostnað sem hann hefði ekki orðið fyrir nema vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi gagnstefnda. Kostnaðurinn er í beinum tengslum við neitun gagnstefnda á því að afhenda gagnstefnanda vörslur skipsins eftir að verksamningi aðila var rift. Eftir riftun verksamningsins átti gagnstefndi engar kröfur á hendur gagnstefnanda og því engan rétt til varslna yfir skipinu. Þar sem gagnstefndi hélt hins vegar fram ósönnuðum og ósamþykktum kröfum á hendur gagnstefnanda var honum sá kostur einn nauðugur að leggja fram fyrrgreindar bankaábyrgðir.

Loks gerir gagnstefnandi kröfu um greiðslu dagsekta. Samkvæmt verksamningi aðila reiknast sekt sem nemur 0,5% af heildarverðmæti samningsins fyrir hvern virkan vinnudag sem afhendingin dregst, verði seinkun á afhendingu umfram eina viku, sbr. 3. og 7. gr. Hámark slíkrar greiðslu skal þó vera 10% af heildarverðmæti samningsins. Veruleg seinkun varð á verklokum áður en verksamningi aðila var rift og hafði gagnstefnandi lýst því yfir við gagnstefnda að hann áskildi sér rétt til dagsekta vegna seinkunarinnar. Til að gæta ýtrustu hófsemi miðar gagnstefnandi við heildarverðmæti samningsins eftir að honum var breytt til lækkunar en þannig er miðað við að heildarfjárhæð samningsins sé 97.060.507 krónur og eru hámarksdagsektir því 10% af þeirri fjárhæð eða 9.706.051 króna. Dagsektir reiknast frá 6. júní og til þess dags sem samningnum var rift, 6. ágúst, og er því um að ræða 45 virka daga sem leiða til hámarksdagsekta að fjárhæð 9.706.051 króna.

Krafa gagnstefnanda um dráttarvexti byggist á því að krafist sé dráttarvaxta vegna liðar 1, 2 og 9 frá riftunardegi 6. ágúst 2010. Þá að viðbættum liðum 3 og 4 frá 13. desember 2010, en þá var lokagreiðsla vegna þessara liða innt af hendi. Þá að viðbættum liðum 5 og 6 frá 14. janúar og 16. apríl en þá voru reikningar Landhelgisgæslunnar og Lloyd‘s greiddir. Þá að viðbættum lið 7 frá 31. ágúst 2011, en þá voru síðustu reikningar vegna vinnu Slippsins á Akureyri greiddir. Dráttarvaxta vegna liðs 8 er krafist frá 28. október 2010, 12. janúar, 26. apríl og 1. júní 2011 þegar greiðslur vegna bankaábyrgðar Arion-banka hf. fóru fram og 17. september 2010 þegar greiðsla kostnaðar vegna bankaábyrgðar MP-banka hf. fór fram.

Um lagarök er, auk ofangreindra lagaákvæða, vísað til meginreglna kaupalaga nr. 50/2000 og meginreglna samninga- og kröfuréttar, sérstaklega um vanefndaúrræði, riftun og rétt til skaðabóta. Vaxtakrafa gagnstefnanda byggist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök gagnstefnda, Þorgeirs & Ellerts hf., vegna stefnu sem birt var 27. október 2011. Mál 3.

Krafa gagnstefnda um að ekki verði fallist á kröfu gagnstefnanda um riftun á verksamningi aðila og að gagnstefndi verði jafnframt sýknaður af öllum fjárkröfum gagnstefnanda byggist á því að tafir á verkinu verði alfarið að skrifast á reikning gagnstefnanda og að ekki hafi verið um neinar vanefndir að ræða af hálfu gagnstefnda. Gagnstefndi fullyrðir að hann hafi að öllu leyti staðið við verksamninginn. Þá hafi gagnstefnandi ekki lagt fram nein marktæk sönnunargögn málsástæðum sínum til stuðnings og virðist málsgrundvöllur gagnstefnanda eingöngu byggður á huglægu mati hans sjálfs og starfsmanna hans og á skýrslum sem hann hefur aflað einhliða og mótmælir gagnstefndi sönnunargildi allra gagna sem stafa frá gagnstefnanda.

Gagnstefndi vísar til þess að almennt sé það skilyrði fyrir riftun að gagnaðili hafi vanefnt samning verulega. Í þessu tilviki sé ekki um vanefndir að ræða af hálfu gagnstefnda og því hafi riftun sú sem lýst var yfir af hálfu gagnstefnanda verið ólögmæt.

Gagnstefndi telur að tafir og vanefndir gagnstefnanda hafi falist í eftirfarandi:

Útboðslýsing gagnstefnanda reyndist algjörlega ófullnægjandi þegar á reyndi. Eftir að verkið hófst gerði gagnstefnandi 15 breytingar á tilboðsverkinu sem áhrif höfðu á verktímann. Þrátt fyrir það að gagnstefndi neiti því að skýrsla frá Aflvís ehf. hafi nokkurt sönnunargildi í málinu, sökum þess að hún var unnin einhliða fyrir gagnstefnanda, er þó athyglisverð tilvísun í skýrslunni, þar sem því er lýst hvernig nánast allir verkþættir í útboðslýsingu tóku breytingum í upphafi verks. Í sömu skýrslu kemur fram að verkkaupi hafi ekki haft fyrir því að gera nýjar verklýsingar þegar hann breytti verkinu. Þáverandi framkvæmdastjóri gagnstefnanda hefur lýst breytingunum svo að þeir hafi breytt nánast öllu sem hægt var að breyta í skipinu: Skipið var afturbyggt með stórum gálga og hælþungt en léttist mikið við breytinguna. Lestin var stækkuð, skipt var úr fastri skrúfu yfir í skiptiskrúfu og stýrisbúnaður endurnýjaður. Við keyptum einnig öflugan krana frá Ítalíu sem er aðalverkfærið um borð. Gagnstefndi vill benda á að þetta svokallaða „aðalverkfæri“ hafði ekki enn verið afhent af hálfu gagnstefnanda þegar riftun fór fram en komið hafði fram hjá gagnstefnanda á samningstímanum að hann hafði tekið ákvörðun um að fara í mun stærri krana en útboðsgögn gerðu ráð fyrir og hafði sjálfur keypt slíkan stærri krana, erlendis frá, en ekki afhent gagnstefnda. Sumar ákvarðanir um breytingu á verkinu komu til þegar vel var liðið á upphaflegan verktíma og undirbúningur verkanna í sumum tilvikum byrjaður. Þannig töfðu þessar breytingar verkið í mörgum tilvikum því að í stað þessara verka var á sama tíma tekin ákvörðun um að fara í þeirra stað í fjölmörg önnur aukaverk sem seinkuðu verkinu.

Gagnstefnandi stóð ekki við afhendingar á teikningum vegna tilboðsverks á réttum tíma, sem varð til þess að verkinu seinkaði. Í 1. gr. verksamnings aðila kom fram að verkkaupi skyldi sjá um alla hönnunar/tæknivinnu. Í þessu fólst m.a. að gagnstefnandi átti að útvega allar teikningar vegna tilboðsverksins. Í 3. gr. verksamningsins kom fram að verktími væri háður því að gagnstefnandi stæði tímanlega skil á öllum teikningum. Gagnstefnandi stóð ekki við að afhenda teikningar á réttum tíma og vanefndi þar með verksamninginn fyrir sitt leyti. Fyrir liggur yfirlit gagnstefnda þar sem fram kemur hvenær teikningar vegna aðalverksins bárust honum. Yfirlitið sýnir að þær bárust allt of seint og að teikningar bárust ekki fyrr en eftir upphaflega áætluð verklok. Fyrstu teikningar bárust stefnda 13. janúar 2010 eða tæpum sjö vikum eftir að verktíminn hófst samkvæmt verksamningi. Yfirlitið sýnir einnig að níu teikningar vegna tilboðsverksins bárust aldrei til gagnstefnda.

Þá hefur gagnstefnandi lagt fram skýrslu sem Navis ehf. vann fyrir hann. Þar kemur skýrt fram að hann stóð ekki við að afhenda teikningar á réttum tíma og að þetta hafi tvímælalaust haft áhrif á framgang verksins. Þar kemur einnig fram að þegar skýrslan hafi verið gerð í ágúst 2010 hafi enn vantað nokkrar teikningar. Þrátt fyrir að það komi skýrt fram í þessari skýrslu að hann stóð ekki við að afhenda teikningar á réttum tíma og það hafi tafið samningsverkið telur hann samt að afhending teikninga hafi ekki haft áhrif á verklokatíma.

Gagnstefndi telur að í málsatvikalýsingu og málsástæðukafla í stefnu sé að finna margar rangfærslur varðandi teikningaskil sem nauðsynlegt sé að leiðrétta. Efst á síðu 3 í stefnu komi fram að teikningar þær sem teknar voru út hafi verið smíðateikningar af nýrri brú, auk teikninga af sjóballestar- og lensikerfi. Gagnstefndi telur að með framangreindri tilvitnun sé gagnstefnandi að gefa til kynna að hann hafi aðeins átt að sjá um hluta teikninga sem sé alls ekki rétt, því að hann átti að sjá um allar teikningar samkvæmt skýru ákvæði í 1. gr. verksamnings aðila. Hvað varðar teikningar af sjóballestar- og lensikerfi þá bárust þær mjög seint. Miklar breytingar þurfti að gera á þessu lagnakerfi í tengslum við nýjan búnað sem keyptur var í vélarrúmið. Gagnstefnandi fékk Guðmund Pétursson hjá Aflvís ehf. til að teikna austurkerfið. Samþykkt teikning frá honum barst 9. júní 2010 sem var tæpum tveim vikum eftir að upphafleg verklok áttu að vera. Gagnstefndi notaði þessa teikningu við þær breytingar sem gerðar voru á austri úr lest skipsins en ekki náðist að ljúka þessu verki fyrir riftun.

Í stefnu kemur fram að teikningum af síðukjölum, skrúfubúnaði og stýri hafi verið komið til gagnstefnda fljótlega eftir að verk hófst. Gagnstefndi mótmælir þessu sem röngu. Fyrstu samþykktu teikningarnar af síðukjölum bárust gagnstefnda 13. janúar 2010 en verkið hófst formlega 20. nóvember 2009. Teikningar af síðukjölum hefðu átt að geta verið tilbúnar strax en fyrstu teikningar bárust þó ekki fyrr en sjö vikum síðar. Hvað teikningar af skrúfubúnaði varðar fullyrðir gagnstefnandi að engar teikningar af skrúfubúnaði hafi borist honum en strax í upphafi verksins breyttist þessi verkhluti frá útboðsgögnum. Í stað þess að setja nýjan skiptigír milli aðalgírs og skrúfu var ákveðið að breyta skrúfugírnum sem var í skipinu. Til þess þurfti að rífa skrúfugírinn ásamt skrúfuöxli og skrúfu úr skipinu en við það þurfti að fjarlægja ógrynni af rörum til að komast að honum og festiboltum hans. Ákvörðun gagnstefnanda um að breyta þessum stóra gír, miðað við upphaflega útboðslýsingu, hafði ein og sér þau áhrif að verktíminn þurfti að lengjast verulega frá því sem upphaflega var áætlað. Að síðustu vill gagnstefndi benda á að engar endanlegar teikningar bárust af stýrisbúnaði heldur einungis útlitsteikning í febrúar 2010.

Í gagnstefnu kemur fram að uppkasti að teikningu að stýrishúsi hafi verið komið til gagnstefnda 24. nóvember 2009. Gagnstefndi mótmælir þessu sem röngu. Þann 24. nóvember 2009 sendi gagnstefndi bréf til Bjarna með fyrirspurn um hvort eitthvað sé tiltækt þannig að hægt sé að panta efni í síðukili og ál í brúna og fleira. Bjarni hafi svarað litlu en sagst skoða það seinna í vikunni. Þann 7. desember 2009 kom óformleg PDF-teikning frá aðila sem teiknaði brúna fyrir Bjarna og aftur kemur teikning frá honum 8. desember sama ár, þar sem hann tekur fram að eftir sé að samþykkja teikninguna. Þann 7. desember 2009 sendi Páll, starfsmaður Lloyd´s, bréf til gagnstefnda þar sem hann varar við að kaupa efnið í brúna áður en teikningin sé komin inn til samþykktar. Hann bendir um leið á að ef efnisþykktir og þar á meðal plötuþykktir séu ekki réttar þá geti þurft að skipta um það efni. Atli áréttar svo þessi orð Páls í bréfi til stefnda 7. desember 2009. Þann 8. desember 2009 er sent bréf frá gagnstefnda til Bjarna og óskað eftir að allri teiknivinnu yrði hraðað og tekið fram að enn sé ekki hægt að panta álið í brúna, þar sem engin endanleg teikning af brúnni hafi borist. Í því bréfi er einnig bent á að breyting sem búið er að gera á síðukjölum frá upprunalegu formi þeirra hafi áhrif á verktímann. Það er því strax 8. desember 2009 bent á að breytingar frá útboðsgögnum hafi áhrif á verktímann. Þann 8. desember 2009 var Bjarni að hugsa um að fella út andveltigeyminn sem brúin átti að standa á að hluta og þurfti því að fara í að verðleggja það og seinkaði því enn frekar að rétt teikning af brúnni kæmi. Síðan eru að koma hinar og þessar breytingar á brúnni í janúar 2010 en endanleg samþykkt teikning af brúnni kom ekki fyrr en 29. janúar.

Gagnstefnandi var stöðugt að gera breytingar á samningsverkinu sem kölluðu á nýjar teikningar sem bárust seint gagnstefnda. Í þessu sambandi má nefna að ákveðið var í byrjun júní 2010 að láta teikna allt vélarrúmið í þrívíddar-teikniforriti til að sjá hvernig hægt væri að koma öllum rörakerfunum fyrir þar sem gagnstefnandi hafði keypt mikið af nýjum búnaði inn í vélarúm skipsins og nauðsynlegt var að endurskipuleggja það. Gagnstefnandi stóð ekki við afhendingar á búnaði vegna aðalverks á réttum tíma, sem varð til þess að verkinu seinkaði og hann vanefndi samninginn en í 3. gr. hans kom fram að verktími væri háður því að gagnstefnandi stæði tímanlega skil á öllum búnaði sem hann útvegaði. Í útboðslýsingu kemur einnig fram að það muni hafa áhrif á verktímann hvenær verkkaupi afhendi verktaka búnaðinn. Tekið skal fram að gagnstefndi lýsti því margoft yfir á verktímanum að ef gagnstefnandi afhenti ekki búnað á réttum tíma myndi verkið tefjast.

Gagnstefndi hefur tekið saman hvenær búnaður sá sem gagnstefnandi átti að útvega, vegna tilboðsverksins, skilaði sér til gagnstefnda. Af yfirlitinu má ráða að mikið af búnaðinum skilaði sér til gagnstefnda á síðasta hluta verktímans og sumt aldrei. Þessar vanefndir gagnstefnanda urðu til þess að verkinu seinkaði.

Gagnstefnandi hefur beinlínis viðurkennt það í stefnu að hann hafi brugðið á það ráð að halda eftir búnaði, krana og ljósavél, sem borist hafði til landsins og setja átti í skipið í því skyni að hann festist ekki inni á athafnasvæði gagnstefnda ef til riftunar kæmi. Þetta komi fram í stefnu og telur gagnstefndi að í þessu felist viðurkenning af hálfu gagnstefnanda um að hann hafi ekki afhent búnað sem hann var kominn með og bar að afhenda gagnstefnda til að verkið gæti gengið hraðar fyrir sig.

Í skýrslu Frímanns, sem gagnstefnandi byggir á, kemur skýrt fram að sumt af þeim búnaði sem gagnstefnandi átti að leggja til hafði ekki skilað sér 10. september 2010 og nefnir hann kranann sem dæmi.

Verulegar tafir urðu á samningsverkinu vegna þess að gagnstefnandi taldi að leyndir gallar væru í skipinu. Eftir að skipið var tekið í slipp taldi gagnstefnandi að skipið væri haldið leyndum göllum í vélarrúmi, vistarverum og á burðarvirki skipsins. Í bréfi lögmanns gagnstefnanda til lögmanns seljanda skipsins frá 17. apríl 2010 kom skýrt fram að gallarnir í skipinu myndu leiða til þess að endursmíði skipsins tefðist. Í bréfi Bjarna til lögmanns gagnstefnanda, dagsettu 25. apríl 2010, fer hann yfir nokkra leynda galla sem hann telur að hafi komið í ljós og ályktar að þetta muni tefja vinnu við enduruppbyggingu skipsins. Framkvæmdastjóri gagnstefnanda hefur einnig látið hafa það eftir sér að tafir hafi orðið á verkinu vegna leyndra galla í skipinu frá því að það var smíðað í Kína á sínum tíma. Að síðustu má nefna að í skýrslu Frímanns kemur skýrt fram að hinir svokölluðu leyndu gallar hafi tafið verkið töluvert og leitt til þess að verkplan fór úr böndunum sem er í andstöðu við það sem haldið hefur verið fram af hálfu gagnstefnanda.

Gagnstefnandi hefur rekið matsmál vegna ætlaðra galla á skipinu og var vinna við ákveðna þætti verksins stöðvuð tímabundið af gagnstefnanda, vegna skoðunar á skipinu í tengslum við matsmálið. Um var að ræða stöðvun á vinnu við vélarúm samkvæmt verksamningi aðila og vinnu við vistarverur áhafnar samkvæmt pöntuðu viðbótarverki. Vinnustöðvunin varði frá 6. apríl 2010 til 9. júlí s.á. eða í 13 vikur og tafðist verkið meðal annars af þessum sökum fram yfir umsaminn verktíma.

Á verktímanum óskaði gagnstefnandi eftir því að unnin yrðu 13 aukaverk á föstu verði sem varð til þess að samningsverkinu seinkaði. Í 3. og 7. gr. verksamningsins komi fram að viðbótarverk gætu haft áhrif á verktíma. Þá kemur fram í skýrslu Frímanns að aukaverkin hafi veruleg áhrif á verktímann en þar segir: Strax á fyrsta verkfundi milli stöðvar og útgerðar er ljóst að fjöldi aukaverka er í umræðunni og sífellt bætist við eftir því sem líður á verkið. Aukaverkin hafa tvímælalaust veruleg áhrif á verktímann. Þá telur hann að verkinu hefði átt að ljúka á tilsettum tíma ef aukaverk hefðu ekki komið til.

Gagnstefnandi stóð ekki við afhendingu á teikningum vegna aukaverka á réttum tíma og tafði það verkið. Teikningar vegna aukaverka voru að berast gagnstefnda allan verktímann og sumar teikningar vegna pantaðra aukaverka bárust aldrei. Af hálfu gagnstefnda er einnig hvað þetta varðar vísað til fyrri umfjöllunar vegna dráttar á teikningum vegna aðalverks.

Gagnstefnandi stóð ekki við afhendingu búnaðar vegna aukaverka á réttum tíma og tafði það verkið. Gagnstefndi bendir á að nokkrir íhlutir bárust honum undir lok júní 2010 og að nokkrir bárust aldrei. Þá hafi gagnstefnandi viðurkennt að hafa haldið eftir búnaði sem fluttur var inn erlendis frá til að setja í skipið og hafi vísvitandi aldrei afhent hann til gagnstefnda og vísast hvað þetta varðar til fyrri umfjöllunar.

Gagnstefnandi greiddi ekki reikninga vegna aukaverka á réttum tíma og veruleg vanskil mynduðust vegna þeirra. Sökum vanskila lýsti gagnstefndi því yfir 22. júlí 2010 að hann yrði að hætta vinnu við aukaverkin þar til gagnstefnandi leysti úr skuldavanda sínum. Gagnstefndi telur að 23. júlí 2010 hafi ógreiddir reikningar vegna aukaverka verið að fjárhæð 53.523.539 krónur án virðisaukaskatts.

Þá hafi gagnstefndi þurft á verktímanum að leggja mikla vinnu í það með gagnstefnanda að skilgreina öll þau aukaverk sem þurfti að vinna og höfðu ýmist vantað inn í útboðslýsingu eða komu til vegna þess að gagnstefnandi breytti verkinu verulega eftir að verktíminn hófst. Hluti af þessari vinnu var vegna þeirra 152. aukaverka á tímagjaldi og þeirra 13 aukaverka á föstu gjaldi sem pöntuð voru. Til viðbótar við þetta þurfti gagnstefndi að eyða miklum tíma með gagnstefnanda í að útbúa lista í júlí 2010 yfir 339 önnur aukaverk sem gagnstefnandi vildi að yrðu unnin og óskaði eftir tilboði í frá gagnstefnda.

Þann 22. júlí 2010 lýsti gagnstefndi því yfir að hann myndi ekki vinna meira í aukaverkum fyrr en gagnstefnandi gerði upp vanskil vegna þeirra. Þetta varð til þess að viku seinna lýsti fyrirsvarsmaður gagnstefnanda yfir riftun á verksamningi aðila og krafðist þess að allri vinnu yrði hætt við skipið. Þessi ólögmæta riftun varð til þess að gagnstefndi neyddist til að hætta allri vinnu við samningsverkið. Tekið skal fram að gagnstefnandi var áður búinn að lýsa því yfir margsinnis einhliða við gagnstefnda að ásættanleg verklok væru 15. september 2010.

Einnig byggir gagnstefndi á því að verklýsingar í útboðslýsingu hafi verið rangar og hafi það tafið verkið. Fjölmörg þeirra verka sem unnin voru samkvæmt verksamningi aðila voru umfangsmeiri og kostnaðarsamari en leiða mátti af útboðslýsingu verksins og þurfti gagnstefndi þ.a.l. að leggja til meira efni og vinnu en verklýsing í útboðsgögnum gerði ráð fyrir. Þetta tafði framgang verksins frá því sem upphaflega var áætlað. Gagnstefndi gaf af þessum sökum út reikninga vegna leiðréttinga á magntölum og viðbótarverka sem fólu í sér frávik frá verksamningi aðila.

Þá mótmælir gagnstefndi fullyrðingum gagnstefnanda um að riftun hafi verið lögmæt á grundvelli þess að gagnstefndi hafi vanefnt skyldur sínar verulega. Gagnstefnandi byggi riftun á seinkun verkloka, á því að framkvæmd verksins hafi verið óforsvaranleg og að reikningsgerð gagnstefnda hafi ekki verið forsvaranleg. Gagnstefndi mótmælir þessu og fullyrðir að hann hafi staðið við allar sínar skyldur og að allar tafir frá upphaflegri verkáætlun megi rekja til vanefnda gagnstefnanda sjálfs. Þá telur gagnstefndi að riftun gagnstefnanda sé vanreifuð að því leyti að ekki sé greint á milli riftunar hans á aukaverkum annars vegar og riftunar á áframhaldandi vinnu við verksamning aðila hins vegar.

Með bréfi lögmanns gagnstefnanda dagsettu 4. ágúst 2010 var riftun ítrekuð og þess krafist að allri vinnu við skipið yrði hætt þegar í stað. Þá lýsti lögmaðurinn yfir riftun samningsins með tölvuskeyti tveimur dögum síðar. Engin aðvörun um riftun var send áður en til hennar kom. Gagnstefndi mótmælti riftuninni og benti á að þrátt fyrir að verkið væri komið sjö vikur fram yfir upphaflega umsaminn verktíma þá væri það eingöngu vegna atriða er vörðuðu gagnstefnanda sjálfan.

Meðal annars komi fram hjá gagnstefnanda að gagnstefndi hafi vanefnt aðalskyldu sína um að skila verkinu í réttu ástandi og því hafi riftun verið réttlætanleg. Þá hafi gagnstefndi ekki fullnægt skyldum sínum um árangur verksins en óljóst sé í gagnstefnu í hverju þær vanefndir fólust þannig að þetta atriði er algjörlega vanreifað og sökum þess getur gagnstefndi ekki svarað fyrir sig hvað þetta varðar að öðru leyti en með því að fullyrða að engar sannanir eru í málinu um annað en að gæði þeirrar vinnu sem gagnstefndi framkvæmdi hafi verið í góðu lagi. Þá hafi gagnstefnandi ekki gert kröfu í verkábyrgð sem gagnstefndi lagði fram í upphafi verksins.

Þá byggir gagnstefnandi riftun sína á því að verkið hafi dregist og að forsenda hans hafi verið sú að skipið hafi átt að taka við MB Karlsey en haffærisskírteini þess skips hafi átt að renna út 30. júlí 2010 og því hafi það verið veruleg forsenda hjá honum að verklok yrðu 31. maí 2010. Ekkert kemur fram um þetta í verksamningi aðila og gagnstefndi veit ekki betur en að haffærisskírteini MB Karlseyjar hafi verið framlengt allt þar til Fossá leysti það af hólmi þannig að gagnstefnandi varð ekki fyrir tjóni sökum þess.

Stendur þá eftir hvort verkið hafi dregist fram yfir 6. ágúst 2010 af ástæðum sem kenna má gagnstefnda um. Hvað þetta varðar bendir gagnstefndi á að allar tafir á verklokum hafi orðið vanefnda gagnstefnanda. Þá er dagsetningin 6. ágúst 2010 ekki rétt hjá gagnstefnanda því að hann var margbúinn að lýsa því yfir einhliða að ásættanlegt væri að skipið yrði afhent 15. september 2010.

Gagnstefnandi rifti hins vegar verksamningnum í júlí 2010 eða löngu fyrir þann tíma sem hann hafði gefið gagnstefnda upp að væru ásættanleg verklok. Gagnstefnandi byggi á því að gagnstefndi hafi ítrekað lýst því yfir að vinna við verkið yrði stöðvuð ef ekki yrðu greiddir reikningar sem gagnstefnandi hafði gert athugasemdir við. Þetta sé rangt en fram hafi komið hjá gagnstefnda að vinnu við samningsverk yrði ekki hætt nema þar sem óunnin aukaverk stöðvuðu framkvæmdir.

Gagnstefnandi byggir riftun sína einnig á því að reikningsgerð gagnstefnda vegna aukaverka hafi ekki verið forsvaranleg. Gagnstefndi mótmælir þessu alfarið og bendir á að tekist sé á um ógreidda reikninga og að enginn grundvöllur sé til að rifta verksamningi á þeim grundvelli að ágreiningur hafi verið á milli aðila um greiðslu á reikningum fyrir aukaverk sem gagnstefnandi vanefndi greiðslur á. Þá mótmælir gagnstefndi fullyrðingum gagnstefnanda um að gagnstefndi hafi ekki sent gögn til skýringar á reikningum fyrr en eftir ítrekanir af hálfu gagnstefnanda heldur hafi hann ítrekað sent þær. Þá mótmælir gagnstefndi fullyrðingum um að margir reikningar vegna aukaverka hafi verið vegna vinnu við verkefni sem féll undir samningsverkið enda hafi engin dæmi verið nefnd því til stuðnings. Einnig er því mótmælt að gagnstefnandi hafi ekki fengið afhentar tímaskýrslur vegna athugasemda við tímaskráningar, þær séu ætíð afhentar með reikningum og eftirlitsmaður gagnstefnanda á verkstað hafði aðgang að verkbókhaldi gagnstefnda. Hvað varðar athugasemdir gagnstefnanda um að verklýsingar hafi aðeins verið á stikkorðaformi þá samdi hann sjálfur verklýsingarnar á blöðin þar sem hann óskaði eftir framkvæmd aukaverka. Í mörgum tilvikum bætti gagnstefndi við þessar lýsingar og sendi nákvæmari lýsingar á aukaverkunum með reikningum. Þá er því mótmælt að gerðir hafi verið reikningar vegna vinnu sem áður hafi verið gerðir reikningar fyrir. Loks hafnar gagnstefndi alfarið athugsemdum verkfræðiráðgjafa gagnstefnanda vegna reikningsgerðar gagnstefnda enda einhliða skýrsla gagnstefnanda auk þess sem þær fullyrðingar sem þar eru standast ekki. Þá er því hafnað að Björn, eftirlitsmaður gagnstefnanda, hafi ekki haft umboð til að skrifa upp á beiðnir um aukaverk, að gefnir hafi verið út reikningar vegna aukaverka sem ekki var beðið um og fullyrðir gagnstefndi að verkbeiðnir hafi verið til vegna allra verka sem farið var í.

Þá haldi gagnstefnandi því fram að eftir riftun samnings hafi gagnstefndi gefið út fjölda kreditreikninga vegna vinnu sem ekki hafði verið unnin og efnis sem ekki hafði verið pantað. Engin leið sé að átta sig á því hvað átt er við með þessu en gagnstefndi vill þó nefna að kreditreikningar voru gefnir út vegna óunninna liða í samningsverkum.

Þá er fundið að því í stefnu að gagnstefndi hafi ekki gefið tilboð í að ljúka verkinu endanlega og var þá vísað til 339 óunninna aukaverka. Af hálfu gagnstefnanda hafi ekki verið skilningur fyrir því að það tæki tíma að reikna út verð í 339 aukaverk.

Í gagnstefnu vísar gagnstefnandi í bréf sitt frá 22. júlí 2010 þar sem hann hafi krafist þess að fá skipið afhent eigi síðar en 15. september, en að gagnstefndi hafi ekki talið það mögulegt. Bréf það sem gagnstefnandi vísar hér í er sent daginn eftir að listinn með aukaverkunum 339 var gefinn út af aðilum máls þessa sameiginlega og eftir var að semja um þau og framkvæma. Þar að auki lá fyrir á þessum tíma að ýmis búnaður sem gagnstefnandi átti að afhenda vegna aðalverksins var enn ekki kominn á verkstað og óvíst hvenær hann kæmi. Það að gagnstefnandi hafi sent þetta bréf á þessum degi ber vott um það að hann hafi talið sig geta horft fram hjá því að eilífar breytingar á verkinu hefðu áhrif á verktímann og það að bæta við 339 aukaverkum myndi lengja verktímann enn frekar.

Þá vísar gagnstefndi til þess sem áður hefur verið rakið að það sé rangt hjá gagnstefnanda að aðilar hafi ekki samið um að upphaflegur verktími yrði lengdur. Einnig mótmælir gagnstefndi því sem röngu og villandi að formleg tilkynning um seinkun á verkinu hafi ekki verið lögð fram fyrr en á verkfundi í maímánuði 2010 þegar gagnstefndi lagði fram verkáætlun sem gerði ráð fyrir verklokum í desember 2010. Báðir aðilar voru meðvitaðir um það að veruleg seinkun yrði á verkinu enda höfðu forsendur í útboðsgögnum engan veginn staðist.

Hvað varðar tilvísanir gagnstefnanda til ákveðinna greina í ÍST 30 vill gagnstefndi árétta að það var fyrst og fremst verksamningurinn og útboðslýsingin sem giltu um samningssamband aðila en ekki ÍST 30. Því til viðbótar lýsti gagnstefnandi því yfir að hann sætti sig við framlengingu á verktíma til 15. september 2010. Ef gagnstefnandi vill hins vegar einblína á ÍST 30 vill gagnstefndi benda á gr. 24.2, a- og b-lið þar sem fram kemur að verktaki geti krafist framlengingar á verktíma ef breytingar hafa orðið á verkinu og þær fresta framkvæmdum og ef verkkaupi leggur ekki í tæka tíð til teikningar og búnað á réttum tíma en þetta hafi einmitt verð eitt af mörgum atriðum sem stefnandi vanefndi.

Gagnstefndi mótmælir því að aukaverk hafi ekki verið samþykkt réttilega. Í 2. gr. verksamnings aðila kemur fram að útboðslýsingin sé partur af verksamningnum. Í gr. 1.11 í útboðslýsingunni er fjallað um fulltrúa verkkaupa á verkstað o.fl. Þar kemur fram að verkkaupi skuli útnefna sérstakan fulltrúa sinn sem kemur til með að hafa eftirlit með framkvæmdum. Björn var eftirlitsmaður og fulltrúi gagnstefnanda á verkstað. Gagnstefndi telur að á grundvelli 3. mgr. gr. 1.11 hafi Björn haft stöðuumboð til að samþykkja öll aukaverkin á þann hátt sem hann gerði. Í stefnu kemur fram að listar með verkbeiðnum sem Björn óskaði eftir hefðu ekki fengist afhentir fyrr en sumarið 2010. Þessu mótmælir gagnstefndi sem röngu og ósönnu. Listarnir voru afhentir reglulega til eftirlitsmanns gagnstefnanda sem sendi þá áfram til framkvæmdastjóra gagnstefnanda og ráðgjafa.

Hugleiðingum í stefnu í þá veru að öll aukaverk hafi átt að vinnast samkvæmt föstu tilboði en ekki hafi átt að vera um tímavinnu að ræða er mótmælt. Báðum aðilum hafi verið ljóst að sum aukaverk grundvölluðust á tilboðum á föstu verði en langflest voru unnin á grundvelli tímagjalds.

Þá telur gagnstefndi að hafna beri öllum kröfum gagnstefnanda um endurgreiðslu vegna meintrar ofgreiðslu og eru rökin fyrir því eftirfarandi:

Gagnstefndi mótmælir því að gagnstefnandi eigi rétt til endurgreiðslu vegna ofgreiðslu fyrir útboðsverk. Við riftun var gagnstefnandi búinn að greiða fjórar greiðslur eða 87.085.600 krónur vegna tilboðsverksins en eftir var að greiða lokagreiðsluna sem átti að greiðast við samningslok. Lokagreiðslan átti að vera 21.771.400 krónur. Til frádráttar frá lokagreiðslunni dragast 17.437.673 krónur samkvæmt samkomulagi aðila þannig að eftirstöðvar af lokagreiðslu sem gagnstefnandi skuldi gagnstefnda eru 4.333.727 krónur.

Gagnstefndi telur að endurgreiðslukrafa gagnstefnanda sé ekki dómtæk og beri dómara að vísa henni frá ex officio. Gagnstefnandi byggir á því að hafa greitt 87.209.700 krónur af verksamningi aðila. Hér er um ranga tölu að ræða en rétt tala er 87.085.600 krónur. Ekki fæst séð hvernig hægt er að draga þá ályktun af skoðunum Frímanns, Guðmundar og Bjarna að einungis hafi verið búið að vinna 65% af samningsverkinu við riftun, enda hefur gagnstefnandi ekkert haft fyrir því að sýna fram á það. Til viðbótar bendir gagnstefndi á að Guðmundur og Bjarni geta ekki talist hlutlausir í málinu. Endurgreiðslukrafa gagnstefnanda um 23.836.480 krónur er því algjörlega vanreifuð og enginn fótur fyrir henni.

Gagnstefndi hafnar alfarið þessari fullyrðingu gagnstefnanda um að framangreindir reikningar hafi verið greiddir með fyrirvara enda hefur hann ekki haft fyrir því að sýna fram á í hverju sá fyrirvari fólst. Umræddir reikningar eru fyrir verk sem voru umbeðin af gagnstefnanda og sannanlega unnin og á því gagnstefnandi enga kröfu um endurgreiðslu á þessum reikningum.

Gagnstefndi hafnar því einnig að gagnstefnandi eigi nokkra kröfu til endurgreiðslu vegna suðuvinnu á skrokk enda var sú vinna ekki partur af verksamningi aðila. Þegar gagnstefnandi hafði rift verksamningi aðila á ólögmætan hátt kom upp sú staða að hann gat fengið skipið afhent gegn afhendingu bankaábyrgðar sem hann framvísaði. Ástand skipsins á þessum tíma var hins vegar þannig að ekki var hægt að sjósetja skipið nema með því að gera það sjóklárt, sem var talsverð vinna. Í þeim tilgangi gerðu aðilar með sér samkomulag um suðuvinnu á skrokk. Gagnstefndi framkvæmdi verkið á réttan hátt og fékk greiddar 8.000.000 króna frá gagnstefnanda sem ekki eru afturkræfar. Hvað varðar órökstudda fullyrðingu gagnstefnanda um það að endurgreiðslan byggist á því að suðuvinnan hafi fallið undir verksamning aðila telur gagnstefndi það ekki geta staðist. Fyrir liggur að það lá fyrir pöntun á aukaverki frá gagnstefnanda um að fjarlægja ballest úr skipinu og var það aukaverk framkvæmt. Það liggur í hlutarins eðli að við slíka framkvæmd þarf að setja göt í skipið sem þarf síðan að loka aftur.

Hvað varðar samanburð gagnstefnanda við tilboðið frá slippnum á Akureyri þá er það tilboð engan veginn raunhæft enda lá fyrir á þessum tíma að Bjarni ráðgjafi gagnstefnanda, var starfsmaður slippsins og til stóð að slippurinn tæki að sér að klára viðgerðir á skipinu. Tilboð slippsins miðaðist einnig við að þeir ynnu verkið í aðstöðu gagnstefnda og með tækjum frá honum án endurgjalds til gagnstefnda fyrir þau not. Gagnstefndi hafnar því sem röngu og ósönnuðu að samþykkt tilboð hans í verkið hafi verið óraunhæft.

Gagnstefndi hafnar því alfarið að gagnstefnandi eigi nokkra kröfu til endurgreiðslu vegna viðgerðar á hliðarfærsluvagni. Þegar gagnstefnandi hafði rift verksamningi aðila á ólögmætan hátt kom upp sú staða að ekki var hægt að ná skipinu út úr skipasmíðastöðinni á þessum tíma nema með viðgerð á hliðarfærsluvagni en viðgerðir og endurbætur stóðu yfir á honum á þessum tíma og er þessu lýst nákvæmlega í 5. gr. í samningi aðila frá 8. nóvember 2010. Þar kemur fram að gagnstefnandi var tilbúinn að greiða 3.000.000 króna gegn því að gagnstefndi myndi flýta viðgerð. Þessi greiðsla var ekki innt af hendi af gagnstefnanda með neinum fyrirvara um réttmæti hennar, eins og fram kemur í stefnu, heldur áskildi hann sér aðeins rétt til þess í 2. mgr. 6. gr. samningsins að fá endurskoðun á fjárhæð greiðslunnar yrði hún talin of há og áskildi gagnstefnandi sér rétt til endurgreiðslu þess sem umfram væri. Gagnstefndi telur að atvikalýsing undir þessum lið hjá gagnstefnanda sé röng í öllum meginatriðum og vísar aftur til samnings aðila þar sem rétt atvikalýsing kemur fram.

Gagnstefndi hafnar því alfarið að honum beri að greiða reikning vegna kostnaðar við drátt skipsins frá Akranesi til Akureyrar enda var um ólögmæta riftun að ræða og verður gagnstefnandi að bera allan kostnað sem af því hlýst. Gagnstefndi hafnar því að skilyrði skaðabótaskyldu séu fyrir hendi og jafnvel þó svo væri geti gagnstefnandi aldrei átt kröfu á gagnstefnda, fyrir því að hafa valið dýrasta möguleika sem í boði var hvað flutning skipsins varðar.

Gagnstefndi hafnar því að honum beri að greiða reikning vegna kostnaðar við aukalega aðstoð frá Lloyd´s á Íslandi enda kom vinnan til vegna þess að gagnstefnandi rifti samningi sínum á ólögmætan hátt og því eru skilyrði skaðabótaskyldu ekki fyrir hendi. Gagnstefndi gerir einnig athugasemdir við reikninginn og fjárhæð hans. Skipið var dregið frá Akranesi 13. desember 2010 og lauk þar með vinnu Lloyd´s. Þrátt fyrir það ber reikningurinn það með sér að hann er vegna vinnu frá 4. nóvember 2010 og til loka janúar 2011.

Gagnstefndi hafnar því alfarið að honum beri að greiða skaðabætur vegna kostnaðar við að fá þriðja aðila til að ljúka verkinu enda var um ólögmæta riftun að ræða og verður gagnstefnandi að bera allan kostnað sem af því hlýst. Þá hafi vinna við samningsverkið verið meira og minna búin þegar skipið kom til Akureyrar. Gagnstefndi bendir einnig á að skýrslur frá Antoni og Bjarna sem gagnstefnandi byggir kröfur sínar á, hafi ekkert sönnunargildi í málinu enda tók slippurinn á Akureyri að sér verkið og hafði hagsmuni af því að geta skuldað sem mest út á það.

Þá vísar gagnstefndi til þess að gagnstefnandi hafi lagt fram skjal sem stafar einnig frá Antoni því til enn frekari sönnunar að ekki hafi verið búið að vinna 90% af verkinu. Gagnstefndi mótmælir innihaldi þessa skjals sem ósönnu og fjarstæðukenndu. Gagnstefndi telur sig hafa verið búinn að vinna 93,95% af samningsverkinu við riftun og hefur gefið út kreditreikninga vegna 6,05% sem eftir stóðu og eru þeir að hluta til byggðir á samkomulagi á milli aðila.

Gagnstefndi hafnar því alfarið að honum beri að greiða skaðabætur vegna kostnaðar við útgáfu bankaábyrgðar til handa gagnstefnanda enda var um ólögmæta riftun að ræða og verður gagnstefnandi að bera allan kostnað sem af því hlýst. Eftir hina ólögmætu riftun átti gagnstefndi haldsrétt í skipinu vegna vangreiddra verka og því stóð gagnstefnandi frammi fyrir því að koma þessu í skil eða útvega bankaábyrgðir til að losa haldsréttinn. Kaus hann að leggja fram bankaábyrgðir og á enga kröfu á gagnstefnda vegna kostnaðar við að verða sér úti um þær.

Gagnstefndi hafnar því alfarið að honum beri að greiða dagsektir enda var um ólögmæta riftun að ræða. Eins og áður hefur komið fram neitar gagnstefndi því að skýrsla frá Aflvís ehf. hafi nokkurt sönnunargildi í málinu, sökum þess að hún var unnin einhliða fyrir gagnstefnanda. Gagnstefndi er þó sammála skýrsluhöfundi þar sem hann segir: Viðbótarverkin, bæði fjöldi verka, fjöldi vinnustunda að baki verkanna og hlutfall kostnaðar viðbótarverka miðað við heildarupphæð, gerir það að verkum að ekki er um að ræða dagsektir að mínu mati.

Gagnstefndi bendir á að gagnstefnandi setji fram skaðabótakröfur með virðisaukaskatti þótt fyrir liggi að þær beri ekki virðisaukaskatt.

Gagnstefndi mótmælir kröfu um dráttarvexti og bendir á að hann var ekki krafinn um greiðslu á stefnukröfu málsins fyrr en með þingfestingu máls þessa 1. nóvember 2011. Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæða 21. kafla laganna.

Forsendur og niðurstaða

Aðilar gerðu með sér verksamning 20. nóvember 2009 um endursmíði og endurbyggingu skips, Fossár, og átti verkinu upphaflega að vera lokið 30. maí 2010. Hér er um að ræða þrjú mál sem sprottin eru af þessum viðskiptum aðila. Ágreiningur aðila snýst um uppgjör vegna verksins og hvort skilyrði fyrir riftun verksamnings hafi verið fyrir hendi.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefndi hafi óskað eftir því að verkin yrðu framkvæmd og honum beri því að greiða reikninga vegna þeirra á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins um greiðslu fjárskuldbindinga. Einnig byggir hann á því að riftun stefnda á samningnum hafi verið ólögmæt og hafi hún komið í kjölfar þess að stefnandi hætti vinnu við viðbótarverk þar sem hann hafi ekki fengið greiðslu fyrir þau á umsömdum gjalddögum. Við riftun höfðu síðast verið greiddir reikningar 17. maí 2010. Þá hafi ekki komið aðvörun um riftunina fyrirfram frá stefnda þar sem viðbótarfrestur væri gefinn að viðlagðri riftun. Þá vísar stefnandi til þess að stefndi hafi sönnunarbyrði um að reikningarnir standist ekki.

Stefndi byggir á því að riftun stefnda á verksamningi hafi verið lögmæt þar sem stefnandi hafi vanefnt að skila verkinu á réttum tíma í réttu ástandi, reikningsgerð stefnanda hafi ekki verið forsvaranleg, að stefndi hafi framkvæmt riftun á forsvaranlegan hátt, dráttur á verklokum hafi ekki verið vegna atriða er vörðuðu stefnda, stefnandi hafi ekki óskað eftir viðbótarfresti vegna aukaverka, meint aukaverk hafi ekki verið réttilega samþykkt, afhending teikninga og búnaðar hafi ekki haft áhrif á verklokatíma, leyndir gallar hafi ekki haft áhrif á verklokatíma og að stefndi eigi rétt á endurgreiðslu vegna ofgreiðslu sem koma eigi til skuldajafnaðar verði stefnandi talinn eiga kröfu á hendur honum, sbr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Af hálfu stefnda er einnig byggt á því að líta beri til ákvæða IST 30 við úrlausn málsins. Staðalinn verður ekki hluti af samningi aðila nema sérstaklega sé um það samið. Svo var ekki í þessu tilviki og verður því ekki litið sérstaklega til ákvæða staðalsins við úrlausn málsins.

Með bréfi dagsettu 4. ágúst 2010 og tölvupósti dagsettum 6. ágúst 2010 lýsti stefndi yfir riftun samningsins. Málsaðilar eru sammála um að á þeim tíma hafi verið kominn upp ágreiningur varðandi verklok. Þá byggir stefndi einnig á því að upp hafi verið kominn ágreiningur varðandi tiltekna reikninga. Í bréfinu vísar stefndi til þess að þá hafi hann verið búinn að greiða 20-30% umfram það sem búið var að vinna af verkinu. Þá var vísað til þess að nær engin þróun hafi verið á vinnunni síðan í apríl 2010.

Eins og að framan er rakið liggja fyrir matsgerðir dómkvaddra matsmanna, tvö undirmöt og tvö yfirmöt. Allir matsmenn, utan Gríms Sveinbjörns Sigurðssonar yfirmatsmanns, staðfestu möt sín við aðalmeðferð málsins. Verður það eitt að Grímur staðfesti ekki mat sitt við aðalmeðferð málsins ekki talið rýra gildi yfirmats. Framangreind möt auk skýrslu Frímanns A. Sturlusonar vegna Navis ehf., sem einnig liggur fyrir, eru allt heildstæð möt sem taka til allra meginþátta verksins.

Fyrir liggur að skipið var ekki skoðað af yfirmatsmönnum en samkvæmt yfirmatsgerð þekktu þeir allir til skipsins frá fyrri tíð. Þeir tveir yfirmatsmenn sem gáfu skýrslu fyrir dómi, Páll Ragnar Sigurðsson og Daníel Gísli Friðriksson, viku þar að einhverju leyti frá mati sínu en auk þess kom fram í mati þeirra og skýrslu fyrir dómi að þeir hafi, hvað varðar verkstöðu við riftun, tekið mið af skýrslu Frímanns. Er óhjákvæmilegt að dómurinn taki mið af framangreindu við mat á sönnunargildi matsins.

Þá hefur skýrslu Frímanns verið mótmælt af hálfu stefnanda með vísan til þess að hún sé unnin einhliða fyrir stefnda. Óumdeilt er að stefndi óskaði eftir gerð skýrslunnar og að stefnandi hafði ekki aðkomu að gerð hennar þrátt fyrir að hafa staðið það til boða. Verður því ekki byggt á skýrslunni gegn andmælum stefnanda.

Þá liggja einnig, eins og framar er rakið, fyrir álitsgerðir vegna afmarkaðra þátta málsins sem ýmist var óskað eftir af stefnanda eða stefnda.

Af málatilbúnaði aðila er ljóst að mikil breyting varð á verkinu frá því að samningurinn var gerður og fjöldi verka bættust við auk þess sem umsömdum verkum var breytt. Óumdeilt er að aðilar voru um tíma sammála um að fresta verklokum til 6. ágúst 2010 en ekki náðist samkomulag milli aðila um síðari tímamörk þó af málsgögnum megi ráða að stefndi hafi um tíma miðað við að verklok yrðu 15. september 2010. Þá fæst ekki séð að af hálfu stefnda hafi verið skorað á stefnanda að ljúka verki fyrir 6. ágúst 2010 að viðlagðri riftun.

Í samantekt yfirmatsmanna í matsgerð þeirra segir um framgang verksins:

Við skipasmíðar er mikilvægt að vandað sé til verka. Oftast er kostnaður mjög hár og því borgar sig að undirbúningur sé eins góður og hægt er. Aukaverk eru oftast dýrari en tilboðsverk og er því reynt að hafa verklýsingu nákvæma. Þetta verk leið að vissu le[y]ti fyrir það að samningurinn gerði ekki ráð fyrir að greiðsla fyrir tilboðsverk væri í takt við framgangs verksins. Reikningsútskriftir séu ekki auðskiljanlegar þegar verkþættir breytast og bætast við. Aðilum málsins var fyrirmunað að koma sér saman um að gerð yrði sameiginleg úttekt af óháðum aðila sem báðir skuldsettu sig að sætta sig við. Þar með varð alltaf óvissa um hve langt hin mismunandi verk voru komin þegar leiðir aðila skildu og hafi veruleg verðmæti farið forgörðum þegar ákveðið var að færa skipið í aðra skipasmíðastöð.

Það er almennt talið skilyrði riftunar að gagnaðili hafi verulega vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningi. Þegar gögn um framvindu verksins eru skoðuð með hliðsjón af þessu má sjá að báðum aðilum var ljóst að fyrri áætlun hlaut að raskast í þá veru að lengja verktíma. Þá liggur fyrir að það dróst að einhverju leyti að stefndi kæmi nauðsynlegum búnaði, tækjum og teikningum til stefnanda. Þetta mat dómsins fær stuðning í mati yfirmatsmanna en þar segir að strax á fyrstu mánuðum hafi verið ljóst að aukaverk vegna verksins yrðu umfangsmikil og langt umfram það sem eðlilegt gat talist. Þá kom fram hjá þeim að greinilegt sé að verkið hafi tafist verulega vegna þess að teikningar og búnaður sem verkkaupi átti að leggja til bárust seint. Samkvæmt mati yfirmatsmanna á töfum vegna þessa hafi mátt reikna með að um 24 vikna framlengingu hefði þurft á upphaflegan verktíma eða nánast tvöföldun á verktíma. Í samningi stefnanda og stefnda var gert ráð fyrir 26 vikna verktíma og átti því að ljúka verkinu 30. maí 2010. Sé hins vegar miðað við að viðbótartíma upp á 24 vikur hefði þurft til að ljúka verkinu, hefðu verklok átt að vera í lok nóvember 2010. Stefndi hafi hins vegar, að sögn stefnanda, tilkynnt um riftun 29. júlí 2010 og fyrir liggur að hún var ítrekuð með bréfum dagsettum 4. og 6. ágúst 2010 en það var aðeins rúmum 8 vikum eftir að samningstímanum lauk, 16 vikum fyrir eðlileg verklok að mati yfirmatsmanna. Þá kom fram í skýrslu Frímanns að hann teldi að stefnandi hefði klárað verkið á tilsettum tíma ef aukaverk og breytingar hefðu ekki komið til. Þá er í 3. gr. verksamningsins sérstaklega tiltekið að verktími sé háður því að verkkaupi standi tímanlega skil á öllum teikningum og þeim búnaði sem hann útvegar. Einnig kemur fram í ákvæðinu, og er áréttað í 7. gr. samningsins, að viðbótarverk geti haft áhrif á verktíma. Ljóst er t.d. að skrúfugír, krana og ljósavél var ekki skilað á tilsettum tíma auk ýmissa teikninga. Þá er ljóst að þegar leið á verktímann kom upp ágreiningur um einstaka reikninga sem aðilum tókst ekki að leysa. Telur dómurinn að stöðvun á greiðslum frá stefnda, sem einnig er óumdeilt að hafi átt sér stað, hafi haft áhrif á verkið en stefndi átti m.a. þann kost að greiða reikninga með fyrirvara um endurskoðun þeirra síðar en fór ekki þá leið. Þá varð það niðurstaða yfirmatsmanna að leyndir gallar í einangrun hafi orsakað tafir á verkinu en þeir gátu ekki sagt fyrir um það hversu mikil áhrif það hafi haft á heildarverktímann.

Með vísan til framangreinds mats yfirmatsmanna verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að stefnandi hafi vanrækt að klára verkið á réttum tíma og í réttu ástandi heldur sé ástæða þess að verkið dróst á ábyrgð stefnda. Það er mat dómsins, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmönnum, að með hliðsjón af framangreindu, verkinu í heild og þeim breytingum sem þegar voru orðnar á því frá því að verksamningur var gerður, verði ekki talið að framganga stefnanda hafi verið til þess fallin að valda töfum og raska hagsmunum stefnda þannig að talið verði að um verulega vanefnd eða fyrirsjáanlega verulega vanefnd stefnanda hafi verið að ræða. Er það því mat dómsins að stefndi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði riftunar hafi verið fyrir hendi og að riftun stefnda á verksamningnum hafi verið ólögmæt.

Stefndi byggir á því að reikningsgerð stefnanda hafi ekki verið forsvaranleg og hafi hann ítrekað þurft að óska eftir gögnum til skýringa og verklýsingar hafi verið í stikkorðaformi. Fær þessi málsástæða að einhverju leyti stuðning í mati yfirmatsmanna, en þeir töldu að reikningsútskriftir hafi ekki alltaf verið auðskiljanlegar þegar verkþættir breytast og bætast við. Af hálfu stefnanda er bent á að lýsingar verka á reikningum séu komnar frá stefnda. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að færð hafi verið fram rök fyrir því af hálfu stefnda að þessi málsástæða leiði til sýknu stefnda af greiðslu reikninganna en kann ásamt öðru að koma til skoðunar hvað einstaka reikninga varðar.

Þá verður, með vísan til 3. og 7. gr. verksamnings, ekki talið að skortur á formlegum beiðnum um viðbótarfrest vegna aukaverka hafi girt fyrir að líta eigi til stækkunar verksins vegna aukaverka. Þetta fær einnig stuðning í ofangreindu mati yfirmatsmanna þar sem fram kemur að báðum aðilum hafi verið ljóst að fyrri áætlun hlaut að raskast í þá veru að lengja verktíma. Hvað varðar þá málsástæðu stefnda að meint aukaverk hafi ekki verið réttilega samþykkt þá er til þess að líta að þrátt yfir þann framburð Björns Samúelssonar, starfsmanns stefnda, að hann hafi ekki gegnt hlutverki eftirlitsmanns á verkstað þá bendir t.d. framburður Bjarna, ráðgjafa stefnda, fyrir dómi og málsgögn, er ljósi varpa á hlutverk Björns, til þess að svo hafi verið. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 568/2010, sem kveðinn var upp 12. október 2010, var fjallað um innsetningarkröfu stefnda í skipið. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms þar sem því var slegið föstu að ekki verði talið að með áritun Björns á yfirlitsblaði þar sem viðbótarverk eru talin hafi verið fallist fyrirvaralaust á alla reikninga stefnanda. Sjálfur hefur Björn borið um það fyrir dómi að með áritun sinni hafi hann verið að staðfesta að verk hafi verið unnin. Þá telja yfirmatsmenn að verkbeiðnir vegna aukaverka undirritaðar af Birni séu löglegar og gerð þeirra sé a.m.k. jafn góð og tíðkast í sambærilegum verkum og er á því byggt af dómnum að svo sé. Við mat á greiðsluskyldu stefnda vegna neðangreindra reikninga er litið til ofangreinds, þeirrar niðurstöðu yfirmatsmanna að öll þau verk sem unnin voru hjá stefnanda hafi verið umbeðin af stefnda og eftir atvikum einnig til annarra þátta.

Stefna Þorgeirs & Ellerts hf. á hendur Þörungaverksmiðjunni hf., birt 14. júní 2011. Mál 1.

Í máli þessu gerir aðalstefnandi, hér eftir nefndur stefnandi, kröfur um greiðslur vegna samningsverka og viðbótarverka og byggir hann kröfur sínar á neðangreindum reikningum sem áður hefur verið lýst nánar. Samtals er krafan að fjárhæð 56.546.298 krónur.

Í kafla 5.2.2 í stefnu er gerð krafa um greiðslu níu reikninga, samtals að fjárhæð 16.497.890 krónur. Stefnandi byggir á því að þessir reikningar séu vegna leiðréttinga á magntölum og viðbótarverka sem fólu í sér frávik frá verksamningi.

Reikningur nr. R27462 byggist á magnaukningu í frárifi og er vegna viðbótar frárifsþyngda samkvæmt sundurliðun sem lögð var fram með reikningi og hljóðar upp á 983.000 krónur. Aðalstefndi, hér eftir nefndur stefndi, byggir varnir sínar á því að samkvæmt útboðsgögnum hafi ætluð frárifsþyngd á hreinu stáli verið um 35 tonn en inni í þeirri tölu sé m.a. þyngd á stáli í brú, þili í lest, dekkhlutum, radarmastri o.fl. Þyngd á þeim búnaði hafi ekki verið gefin upp enda sé ómögulegt að tilgreina hana. Í útboðsgögnum var því lýst að fjarlægja ætti allt af afturskipinu og talinn upp hluti þess búnaðar sem því tilheyrði auk þess sem teikningar og myndir fylgdu. Þannig sé því mótmælt að stefnandi hafi ekki haft nægilegar forsendur til að byggja tilboð á. Upphaflega var áætlað samkvæmt verklýsingu að frárif væri upp á 35 tonn en raunverulega hafi verið um 65,5 tonn að ræða og kemur fram á fylgigögnum að sú tala hafi verið fundin með vigtun og er hún nánar sundurliðuð í málsgögnum. Þá er því lýst, í sundurliðun er fylgdi reikningi, hvað var rifið úr skipinu og dregið frá það sem sett var í það á ný. Ekki hefur verið sýnt fram á annað magn í framlögðum matsgerðum eða neitt fram komið í öðrum gögnum sem bendir til þess að þær magntölur sem reikningur byggist á séu rangar. Dómurinn telur magnaukninguna eðlilega með hliðsjón af þeim breytingum er urðu á verkinu frá því sem lýst er í útboðsgögnum og þeim miklu breytingum sem gerðar voru á skipinu. Einnig liggur fyrir að gefinn var mikill afsláttur á verði. Þá verður ekki fram hjá því litið að vitnið Bjarni sagði í framburði sínum fyrir dómi að hann kannaðist við þennan reikning og hafi gert ráð fyrir að hann yrði greiddur. Þá er reikningurinn sundurliðaður í einstaka frárifshluta sem hægt er að reikna út. Loks liggur fyrir að stefndi var á verktíma með eftirlitsmann á verkstað og hann hafi ekki haft athugasemdir við að frárif væri orðið umfram það sem tilboð byggist á. Af hálfu stefnda hafa ekki verið gerðar neinar tilraunir til að hnekkja þeim gögnum sem reikningurinn byggist á. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefndi verður dæmdur til greiðslu reikningsins.

Reikningur nr. R27488 er vegna viðbótarstyrkingar vegna þilfarskrana og vinnu vegna aukins umfangs verksins vegna stækkunar kranans úr 60 í 110 tonn per metra, að fjárhæð 3.698.750 krónur. Með reikningnum var lögð fram greinargerð Ingólfs Árnasonar, f.h. stefnanda, um frávik frá aðaltilboði sem leiddi til viðbótarkostnaðar þar sem gerð er grein fyrir því að kostnaður þessi sé tilkominn þar sem ákveðið var að gera framangreindar breytingar. Stefndi byggir vörn sína á því að kostnaður vegna lúgukarms sem lækkaður var úr 1,5 metrum í 1,1 metra hafi átt að koma á móti viðbótarkostnaði vegna kranans og vísar því til stuðnings til skýrslu Frímanns sem taldi lækkun vegna breytinga á lúgukarmi hafa verið meiri en aukning vegna kranans og því hafi þessar breytingar átt að lækka samningsverð.

Auk þess að vera þyngri var nýi kraninn með lengri útleggi og var dælustöð hans ekki innbyggð eins og í þeim krana sem upphaflega var ætlunin að setja í skipið. Með breytingunum var kraninn fluttur frá dekkhúsinu og látinn standa sjálfstætt á þilfarinu. Við það varð að gera nýjar undirstöður með stáltunnu frá þilfari niður í kjöl. Teikningu af þessari breytingu gerði Bjarni í mars 2010 og barst stefnanda, að hans sögn, 21. apríl 2010. Samkvæmt þeirri teikningu jókst stálmagn í styrkingunni um rúm 1.000 kg, auk þess sem styrking olli miklum breytingum þar sem hún gekk frá þilfari gegnum vélahúsið niður í kjöl. Þá kemur fram í mati dómkvaddra yfirmatsmanna að uppsetning á þetta stærri krana með sjálfstæðri dælustöð ásamt breytingum á fyrirkomulagi undirstaða geri umfang verksins talsvert meira. Þetta varð til þess að yfirmatsmenn komust að þeirri niðurstöðu að 3.698.750 krónur væri eðlilegt verð fyrir þessa breytingu. Tveir af þremur yfirmatsmönnum, Daníel og Páll, gáfu, eins og áður hefur verið rakið, skýrslu við aðalmeðferð málsins og staðfestu matsgerð sína hvað þetta varðar. Staðfesti Páll þá að þeir hafi ekki litið svo á, eins og lesa mætti úr mati, að seinkun á afhendingu teikninga hafi haft áhrif á verð. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefnda beri að greiða þennan reikning.

Reikningur nr. R27519 er vegna færslu stýrisvélar að fjárhæð 454.900 krónur. Með reikningnum var lögð fram greinargerð um frávik frá aðaltilboði sem leiðir til viðbótarkostnaðar þar sem nánar er gerð grein fyrir því hvernig kostnaður þessi er tilkominn. Verkið miðaði að því að koma fyrir nýjum skrúfubúnaði og stýri og til þess þurfti að færa til stýrisvél og lengja hælstykki. Því hafi þurft að búa til skot inn í skutgeymi til að koma stýrisvélinni aftur um 250 mm. Samkvæmt gögnum málsins komu aldrei teikningar frá stefnda af þessari breytingu og er reikningur að hluta til vegna hönnunar á staðnum. Stefndi mótmælti reikningnum sem of háum og vísaði því til stuðnings í skýrslu Frímanns og Guðmundar Péturssonar, starfmanns Aflvís ehf. Þá samþykkti hann við meðferð málsins að greiða 325.000 krónur vegna þessarar kröfu. Í mati dómkvaddra yfirmatsmanna, sem yfirmatsmennirnir Daníel og Páll staðfestu fyrir dómnum hvað þetta varðar, kom fram að þeir teldu þetta vera viðbótarverk og fjárhæð reikningsins hafi verið sanngjörn fyrir smíði á skáp fyrir stýrisvél og stamma. Þessu mati þeirra verður ekki hnekkt með skýrslum Frímanns og Guðmundar sem unnar voru einhliða fyrir stefnda, eins og áður er rakið. Telur því dómurinn rétt með vísan til framangreinds að byggja beri á mati dómkvaddra yfirmatsmanna. Er það því niðurstaða dómsins að dæma stefnda til að greiða reikninginn.

Reikningur nr. R27526 er vegna lengingar hælstykkis að fjárhæð 419.500 krónur. Með reikningi var lögð fram greinargerð um frávik frá aðaltilboði sem leiðir til viðbótarkostnaðar og nánar er gerð grein fyrir því hvernig kostnaður þessi er tilkominn. Kemur þar fram að auk þess að lengja hælstykkið um 250 mm hafi þurft að styrkja það enn frekar vegna aukinnar lengdar og þá hafi „stýrisbátur“ upp undir skut orðið viðameiri. Þá hafi teikning ekki borist og því hafi hönnun farið fram á staðnum. Stefndi telur óumdeilt að lengja hafi þurft hælstykkið en mótmælir fjárhæðinni og vísar því til stuðnings í skýrslu Frímanns. Í mati dómkvaddra yfirmatsmanna, sem Páll og Daníel staðfestu fyrir dómnum hvað þetta varðar, kom fram að þeir teldu þetta vera viðbótarverk og fjárhæð reikningsins hafi verið sanngjörn og eðlileg vegna lengingar hælsins um 250 mm. Stefndi gerir þá athugasemd við þessa niðurstöðu matsmanna að hún sé ekki rökstudd í mati. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins staðfestu Páll og Daníel mat sitt hvað þetta varðar og báru um að niðurstaða þeirra hafi verið byggð á útreikningum. Með vísan til þess verður mati þeirra ekki hnekkt með skýrslu Frímanns sem unnin var einhliða fyrir stefnda. Er það niðurstaða dómsins að framangreint verð sé eðlilegt og verður stefndi því dæmdur til greiðslu reikningsins.

Reikningur nr. R27527 varðar viðbót vegna brúarsmíði (kjallari og brúargólf) og er samtals að fjárhæð 2.639.200 krónur og reikningur nr. R27528 er vegna breytingar á uppgangi til brúar og er að fjárhæð 237.000 krónur. Með þessum reikningum fylgdu greinargerðir stefnanda um frávik frá aðaltilboði sem leitt hafi til viðbótarkostnaðar. Þar er því lýst að verkkaupi hafi hætt við að hafa andveltugeymi og yfirbygginguna yfir gömlu akkerisvindurnar undir brú skipsins. Var þá ákveðið að gömlu akkerisspilin skyldu fjarlægð og ný staðsett framan við brúna. Þá hafi legið beinast við að brúin sæti á bakkaþilfarinu enda hafi verksali gefið út verðlækkun vegna þessara breytinga. Þá hafi verkkaupi ákveðið að halda brú í sömu hæð og búa til kjallara úr áli undir brúnni. Þetta hafi ekki komið í ljós fyrr en teikning kom að brúnni og hafi það leitt til verulegrar viðbótarsmíði úr áli ásamt því að klæða þurfti fjórar úthliðar kjallarans með steinull og krossvið að innanverðu. Þá varð smíði brúargólfs umfangsmeiri. Af hálfu stefnda er því sérstaklega mótmælt, sem fram kemur í framlögðum fylgiskjölum með reikningi, að ætlunin hafi verið sú að láta brúna standa á bakkaþilfarinu. Ákveðið hafi verið að hafa falskt gólf fyrir ýmis tæki og leiðslur og fyrirkomulagið hafi, hvað þetta varðar og uppgang, verið einfaldara en upphaflega var áætlað og hefði því átt að leiða til lækkunar á samningsverði. Þá hafi breyting á uppgangi til brúar einnig verið til þess að einfalda verkið. Þessu til stuðnings er af hálfu stefnda vísað til skýrslna Frímanns og Guðmundar. Einnig mótmælir hann því að búið hafi verið að einangra og klæða kjallara þegar skipið kom til Akureyrar. Þá byggir stefndi kröfu sína um sýknu af greiðslu reikningsins á því að aukakostnaður vegna þessa sé látinn koma á móti því að andveltigeymir var felldur út.

Þessir tveir reikningar eru, eins og rakið hefur verið, vegna breytinga úr stáli í ál og breytinga á uppgangi til brúar. Niðurstaða yfirmatsmanna varð sú að þeir töldu að verðlækkun vegna brottfalls andveltigeymis kæmi á móti þessum breytingum og því bæri stefnda ekki að greiða þessa tvo reikninga. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins báru bæði Páll og Daníel um að þessi niðurstaða þeirra væri röng. Hún hafi byggst á röngum útreikningum þegar þeir hafi áætlað kostnað pr. kg í aukaverkum í magni en þeim hafði yfirsést að búið var að semja um að fjarlægja andveltugeymi. Þeir hafi reiknað út hvað geymarnir hefðu kostað sem hafi verið rangt þar sem viðbótarverk hafi verið á öðru verði en tilboðsverk. Þá hafi þeir ekki haft nýju teikninguna af brúnni. Báðir töldu þeir fyrir dómi að rétt niðurstaða væri sú að stefndi greiddi báða reikningana.

Með vísan til breytts framburðar tveggja yfirmatsmanna um þetta atriði og þeirrar staðreyndar að þriðji yfirmatsmaðurinn kom ekki fyrir dóminn til að staðfesta og eftir atvikum útskýra mats sitt þá verður niðurstaða hvað varðar greiðsluskyldu stefnda vegna þessara reikninga ekki byggð á matinu. Dómurinn lítur hins vegar til breytts álits framangreindra tveggja matsmanna í skýrslu þeirra fyrir dómi. Framburður þeirra fær stoð í framlögðum gögnum og byggist á sérþekkingu þeirra, skoðun á málsgögnum og að einhverju leyti þekkingu á skipinu. Það er því niðurstaða dómsins, með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og þess verks sem liggur að baki kröfunni, að dæma stefnda til að greiða báða reikningana.

Reikningur nr. R27533 er vegna viðbótar öndunarrörs í fjóra botntanka og er að fjárhæð 562.000 krónur. Með reikningi fylgdi greinargerð um frávik frá aðaltilboði sem leiðir til viðbótarkostnaðar þar sem fram kemur nánari skýring. Stefndi gerir athugasemd við fjárhæð reiknings enda sé um einfalt verk að ræða og vísar því til stuðnings í skýrslu Frímanns og hefur stefndi fallist á að greiða 250.000 krónur í samræmi við niðurstöðu hans.

Eins og að framan hefur verið rakið hafnar dómurinn því að byggja niðurstöðuna á skýrslu Frímanns, gegn andmælum stefnda. Að öðru leyti er ekkert fram komið af hálfu stefnda er bendir til þess að fjárhæð reikningsins sé í ósamræmi við unnið verk. Að teknu tilliti til umfangs verksins og aðstæðna á verkstað er það mat dómsins að fjárhæð reikningsins sé hæfileg og verður stefndi því dæmdur til greiðslu hans.

Reikningur nr. R27530 er vegna viðbótar sandblásturs og er að fjárhæð 2.305.200 krónur. Samkvæmt stefnu er hér um að ræða kostnað við sandblástur á 204 fermetra svæði á dekki. Með reikningnum fylgdi greinargerð um frávik frá aðaltilboði sem leiddi til viðbótarkostnaðar og kemur þar fram að miðað sé við að fermetraverðið sé 22.600 krónur, sem er í samræmi við samning aðila, og að gefinn sé 50% afsláttur af einingarverði. Þar kemur fram að bletti, sem áður var talið að dygði að þvo með 500 bara vatnsþrýstingi, þyrfti að sandblása og að Atli Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda, og Bjarni hafi sérstaklega óskað eftir að þetta yrði framkvæmt og sagt að greitt yrði sérstaklega fyrir sandblásturinn. Stefndi byggir vörn sína á því að ekki hafi verið óskað eftir þessum sandblæstri. Þá hafi þetta verk ekki verið samþykkt af stefnda. Vísar hann sérstaklega til þess að af hálfu stefnda hafi sérstaklega verið tekið fram að ekki væri gert ráð fyrir aukakostnaði vegna sandblásturs.

Samkvæmt gr. 8.01 í útboðsgögnum, þar sem fjallað er um þrif á skipinu „exterior“, eða að utan, átti upphaflega að sandblása botn skipsins að sjólínu en afganginn af skipinu átti að háþrýstiþvo með 1.000 bara þrýstingi. Meðal framlagða gagna er tölvupóstur Bjarna, dagsettur 15. desember 2009, til Lárusar Skúlasonar, starfsmanns stefnda. Þar segir að stefndi samþykki aðeins að sandblásin verði þau svæði undir vatnslínu skipsins sem augljóslega þarfnist þess en í stað þess að heilblása botninn verði aðaldekkið og dekkhús sandblásin. Þeir gangi út frá því að sú fjárhæð tilboðsins sem ætluð var til sandblásturs á botninum sé næg til að blása dekk og dekkhús sem þýði að þeir samþykki ekki viðbótarkostnað vegna þessa. Óumdeilt er að hluti af þeirri vinnu sem átti að fara í það að sandblása botninn var notaður til að háþrýstiþvo dekk og dekkshús. Stefndi byggir á því að það hafi verið gert með 500 börum og í ljós komið að það var ekki nægjanlegt. Hafi hann þá óskað eftir því að það væri þvegið með 1000 börum en ekki sandblásið. Það hafi ekki verið gert heldur hafi dekkið verið sandblásið þegar í ljós kom að þvotturinn dygði ekki.

Gunnar Richter undirverktaki stefnanda er vann við sandblásturinn gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Fram kom hjá honum að hann telji að ekki hafi þurft að hækka tilboð vegna sandblásturs þó að honum hafi verið breytt eftir að hætt var við að sandblása botn heldur hafi vinnan komið út „á pari“. Þá liggur fyrir ofangreindur tölvupóstur frá 15. desember 2009 en af honum má ráða að stefndi gerði ekki ráð fyrir viðbótarkostaði vegna sandblástursins. Loks er til þess að líta að sú vinna sem lögð var í undirvinnu fyrir málningu er mun minni en sú vinna sem lýst er í lýsingunni og gildi það bæði sandblásturinn og háþrýstiþvottinn, enda reginmunur á að þvo með 500 börum og 1000 börum. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að sýkna stefnda af greiðslu reikningsins.

Reikningur nr. R27531 varðar aukakostnað vegna viðbótarverka og er að fjárhæð 5.197.540 krónur. Með reikningnum var lagt fram yfirlit þar sem fram kemur að um sé að ræða kostnað vegna aukaverka og verkfunda tiltekinna starfsmanna stefnanda á tímabilinu janúar til ágúst 2010. Samkvæmt málsgögnum er um að ræða vinnu við gerð lista vegna ólokinna aukaverka. Af hálfu stefnda er byggt á því að fundarseta og nauðsynlegt skipulag vegna útboðsverksins hafi verið innifalin í útboðsverkinu og verkfundaseta vegna aukaverka á föstu gjaldi hefði átt að vera innifalin í því fasta gjaldi. Þá lítur hann svo á að fundarseta vegna aukaverka á tímagjaldi skuli rukkast með verki og gera þurfi ráð fyrir kostnaði sem þessum í álagningu. Dómurinn telur að ekki hafi verið sýnt fram á það með framlögðum gögnum eða framburði fyrir dómi að stefndi hafi beðið um listann en engin beiðni liggur fyrir um að hún verði gerð. Þá telur dómurinn að stjórnunarkostnaður stefnanda sé innifalinn í tilboði og verðlagningu vegna verksins og verður stefndi því sýknaður af kröfu um greiðslu reikningsins.

Í kafla 5.2.3 í stefnu var upphaflega gerð krafa um greiðslu 11 reikninga en nú er gerð krafa um greiðslu fimm eftirfarandi reikninga, sem áður hefur verið lýst nánar, samtals að fjárhæð 10.465.950 krónur.

Af hálfu stefnda var því lýst yfir við aðalmeðferð málsins að hann samþykkti fjóra reikninga, þ.e. reikning nr. R27457 vegna vinnu við síðukjöl, að fjárhæð 866.000 krónur, nr. R27459 vegna lækkunar á lestarþili að fjárhæð 63.000 krónur, nr. R27461 rist fjarlægð að fjárhæð 248.000 krónur, og nr. R27468 ballest fjarlægð úr stefni að fjárhæð 1.787.000 krónur. Sæta þessir reikningar því ekki ágreiningi og verður stefnda gert að greiða þá.

Reikningur nr. R27470 er vegna sandblásturs og málunar, að fjárhæð 7.501.950 krónur, m.a. í lest. Stefnandi byggir á því að reikningurinn sé til kominn vegna tilboðsverks nr. T2131 sem varði sandblástur og málun á 540 fermetra svæði aukalega við það sem verklýsing kvað á um og er svæðið nánar sundurliðað í fylgigögnum með reikningi. Hafi hann gefið 50% afslátt á verkinu en raunkostnaður þess hafi verið 15.003.900 krónur. Samkvæmt reikningi er um að ræða verk sem Atli Árnason bað um að unnið yrði. Við meðferð málsins féllst stefndi á að greiða 3.672.500 krónur vegna verksins en vörn hans byggðist á því að hann hafi ekki samþykkt verkið.

Yfirmatsmenn töldu í mati sínu að lest félli ekki undir það að vera „exterior“ og að sandblástur á lest væri utan útboðs og er það í samræmi við verklýsingu. Eins og framar er rakið varðar ákvæði 8.01 í útboðsgögnum önnur svæði en lestina og tóku breytingar sem miðuðu að því að sandblása eða háþrýstiþvo skipið annars staðar í stað botns því ekki til lestar.

Reikningurinn tekur, eins og rakið hefur verið, m.a. til sandblásturs í lest sem er samkvæmt málsgögnum 325 fermetrar. Fyrir liggur bréf vitnisins Þorsteins Haukssonar, starfsmanns Flügger, þar sem fram kemur að í ljós hafi komið að þvottur með 500 bara þrýstingi hafi ekki verið nægur til að hreinsa lest. Þar sem lestin þyrfti að uppfylla kröfur um geymslu matvæla þurfi að hreinsa gamla málningu í burtu. Þetta staðfesti vitnið í skýrslu sinni fyrir dómi. Þar sem verktakinn, Daníelsslippur, hafi ekki yfir að ráða stærri dælu hafi hann ekki haft tök á því að fara í alhreinsun með vatni og hafi starfsmaður slippsins talað um að ef hann ætlaði að hreinsa lestina yrði hann að sandblása hana. Af framangreindu má ráða að nauðsynlegt hafi verið að sandblása lestina. Reikningurinn byggist á einingarverði tilboðs sem er 22.600 krónur á fermetra og gefinn er 50% afsláttur af reikningi þar sem einingarverðið miðaðist við sandblástur í geymum sem sé töluvert dýrari. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að reikningurinn, eins og hann er fram settur, standist ekki. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að um aukaverk sé að ræða. Þá þykir dómnum mat yfirmatsmanna sanngjarnt með hliðsjón af verki og verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 3.672.500 krónur.

Í kafla 5.2.4 er gerð krafa um greiðslu þriggja reikninga, auk þess sem þar er gerð grein fyrir þremur kreditreikningum og er krafa samkvæmt þessum kafla samtals að fjárhæð 14.803.514 krónur, að teknu tilliti til kreditreikninganna.

Af hálfu stefnda var því lýst yfir við aðalmeðferð málsins að hann samþykkti reikning nr. R27485 sem er tilkominn vegna ýmissa viðbótarverka að fjárhæð 3.050.022 krónur. Sætir þessi reikningur því ekki ágreiningi og verður stefnda gert að greiða hann.

Ekki er ágreiningur um þrjá kreditreikninga, en það eru reikningar nr. R27487 sem tilkominn er vegna hliðarskrúfu, að fjárhæð -122.935 krónur, reikningur nr. R27486 vegna rafmagns- og trésmíðavinnu, að fjárhæð -3.721.327 krónur og reikningur nr. R27485 vegna trésmíði, vegna verks nr. 27074, að fjárhæð -357.285 krónur. Koma framangreindar fjárhæðir til lækkunar þeim reikningum í kafla þessum sem stefndi kann að verða dæmdur til að greiða.

Reikningur nr. R27486 er vegna ýmissa viðbótarverka. Stefnandi byggir á því að hann sé vegna vinnu við vökvakerfi skipsins o.fl. og er hann að fjárhæð 11.277.751 króna. Stefndi hefur fallist á greiðslu 8.636.182 króna vegna þessarar kröfu. Í kröfugerð stefnanda eru felldir út aukareikningar vegna vinnu sem tengist sandblæstri, sem dómurinn telur að felist í einingarverði sandblásturs og einnig verkliðir sem eru hluti af tilboði, samtals er fjárhæð reikninga sem dregnir eru frá kröfunni 2.641.569 krónur og lækkar hún sem því nemur. Með vísan til þess verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnda 8.636.182 krónur vegna reikningsins.

Reikningur nr. R27535 er að fjárhæð 4.677.288 krónur. Byggir stefnandi á því að hann sé m.a. vegna efnis sem selt var stefnda. Með reikningnum lagði stefnandi fram óundirritað samkomulag aðila vegna sölu á efni er keypt var að beiðni stefnda vegna reikningsverka. Stefndi hafnar alfarið greiðsluskyldu vegna þessa reiknings en þær varnir sem hann hefur fært fram varða efniskaupin en ekki aðra liði reikningsins. Þá hefur hann sérstaklega mótmælt framlagningu óundirritaðs samkomulags. Stefndi byggir á því í greinargerð sinni að hann hafi hafnað því að kaupa efnið af stefnanda og krafist þess að það yrði fjarlægt úr skipinu áður en það færi til Akureyrar og segir að verkstjórar stefnanda hafi flutt efnið úr skipinu og hafi það ekki verið um borð í skipinu þegar það kom til Akureyrar.

Reikningurinn varðar efni í vökvakerfi, sem var pantað af Birni 2. mars 2010 samkvæmt skrá yfir viðbótarverk, auk gírs og olíuskilju, leigu á brothömrum vegna ballestar og sandblásturs lestar. Fyrir dómi miðaði sönnunarfærsla stefnanda aðallega að því að sýna fram á að röraefni í háþrýstilagnir hafi verið um borð í skipinu þegar það var afhent stefnda. Staðfesti Björn að eitthvað af háþrýstirörum hefði verið um borð í skipinu og sagði þau hafa verið tekin úr skipinu og hafi ekki farið með til Akureyrar. Þá báru starfsmenn stefnanda, Valdimar Smári Axelsson, Lárus Skúlason og Valgeir Valgeirsson, um að hafa sett hluti í lestina áður en skipið var afhent í skipalyftunni, og nefndu Lárus og Valgeir að það hafi m.a. verið rör og Lárus að bæði hafi verið um að ræða búnað sem stefnandi og stefndi hefðu keypt. Þá bar Bjarni einnig um að hafa tekið hluti úr lest skipsins áður en brúin var sett í lestina og skipið dregið til Akureyrar. Er framangreint í samræmi við markmið aðila með gerð samnings um suðuvinnu frá 8. nóvember 2010 en samkvæmt honum átti að setja allan búnað sem tengist skipinu og staðsettur er í skipasmíðahúsi stefnanda um borð í skipið fyrir sjósetningu. Það má einnig ráða af framlögðum ljósmyndum að efnið hafi verið sett um borð í skipið.

Dómurinn telur að með framangreindu hafi verið sýnt fram á að efnið var í skipinu þegar það var afhent stefnda í skipalyftu í starfsstöð stefnda á Akranesi og hafi hann því fengið vörslur þess. Hvað varðar þá liði reikningsins er varða leigu á brothömrum og sandblástur þá hefur ekki verið nánar upplýst um þá. Er það því niðurstaða dómsins að dæma stefnda til greiðslu reikningsins að frádregnum þeim liðnum, þ.e. að frádregnum reikningum nr. R27461 og R27495, sem samtals eru að fjárhæð 47.165 krónur. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 4.630.123 krónur.

Í kafla 5.2.5 var upphaflega gerð krafa um greiðslu sex reikninga, samtals að fjárhæð 56.546.298 krónur. Eftir þær breytingar sem stefndi gerði á kröfugerð sinni í þinghaldi 11. desember 2014 standa eftir tveir reikningar. Annars vegar er um að ræða reikning nr. R27476 að fjárhæð 21.771.400, sem er áfangareikningur verksamnings (Lokagreiðsla T2036), og er samkvæmt reikningi um að ræða 20% eftirstöðva verksamnings. Stefnandi hefur nú lækkað þessa kröfu sína í 4.333.727 krónur. Hins vegar er um að ræða reikning nr. R27500 vegna stöðugjalda að fjárhæð 1.189.850 krónur.

Hvað varðar reikning nr. R27476 þá byggir stefnandi á því að verði talið að mat yfirmatsmanna sé haldið galla hvað varðar þetta atriði þá standi reikningur eins og hann sé settur fram en einnig kom fram í málflutningi hans að þá komi einnig til greina að líta til undirmats. Stefndi byggir á því að stefnandi eigi ekki rétt á frekari greiðslum vegna þess hluta verksins sem sannanlega hafi verið unninn og taldi að hann hafi við riftun verið búinn að greiða 89,5% af heildarfjárhæð. Þá telur stefndi, eins og fram kemur í stefnu birtri 27. október 2011, að hann eigi rétt á endurgreiðslu vegna þess sem hann hefði ofgreitt vegna verksamnings. Stefndi byggir einnig á því að líta beri til undirmats verði niðurstaðan ekki byggð á yfirmati.

Eins og áður hefur verið rakið komu tveir af þremur yfirmatsmönnum fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins, þeir Páll og Daníel. Fram kom hjá þeim báðum að við mat á því hve mikil vinna var eftir við samningsverkið við riftun hafi þeir fylgt niðurstöðu Frímanns. Þá má einnig af framburði þeirra ráða að þeir hafi talið að þau gögn sem þá lágu fyrir um stöðu verksins og þeir höfðu til að byggja niðurstöðu sína á hafi verið misvísandi, og vísuðu sérstaklega til gagna um málningarvinnu. Því hafi þeir farið þessa leið í vinnu sinni. Auk framangreinds er til þess að líta að rafmagns- og trésmíðavinna hafði ekki verið gerð upp þegar Frímann skilaði skýrslu sinni og yfirmatsmenn höfðu ekki aðgang að skýrslu Þorsteins Haukssonar um stöðu á málningarvinnu 7. október 2010, sem fyrst var lögð fram við aðalmeðferð málsins 26. september 2016. Eins og rakið hefur verið þá er skýrsla Frímanns unnin einhliða fyrir stefnda og verður því niðurstaða málsins ekki henni byggð gegn andmælum stefnanda. Ákvæði IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála byggist á því að dómkvöddum matsmönnun beri að leggja sjálfstætt mat á þau atriði sem þeir eru dómkvaddir til að meta og byggja þar á sérþekkingu sinni. Með framburði sínum við aðalmeðferð málsins hafa tveir af þremur yfirmatsmönnum lýst annmörkum á mati þeirra sem dómurinn telur leiða til þess að niðurstaða málsins, hvað þennan kröfulið varðar, verði ekki á því byggð.

Þá kemur til skoðunar undirmat sem framkvæmt var af Ólafi Friðrikssyni og Stefáni Sigurðssyni en þeir komu báðir fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og staðfestu matsgerðir sínar. Í fyrri matsgerðinni er þeirri spurningu m.a. beint til matsmanna hversu miklum hluta útboðsverksins hafi verið lokið þegar riftun verksamnings aðila átti sér stað 6. ágúst 2010. Í matsgerðinni kemur fram að við mat á stöðu tilboðsverksins hafi verið stuðst við útreikninga sem Skipasmíðastöð Njarðvíkur gerði þegar hún bauð í þetta sama verk. Það tilboð hafi verið upp á 114,9 milljónir króna án virðisaukaskatts og innifalið í því teikningavinna samkvæmt tilboði frá Navis ehf. upp á 1.250.000 krónur og rafmagnshlutinn samkvæmt tilboði frá Raftíðni ehf. upp á 13.500.000 krónur. Sandblástur hafi verið undanþeginn því tilboði og gert ráð fyrir 10.400 seldum tímum í verkinu, án vinnu rafvirkja, tæknimanna, tankahreinsara og gólfefnamanna. Þá segir í matinu að upphaflegt tilboð stefnanda hafi verið 108.857.000 krónur eftir leiðréttingu, þ.e. lækkun vegna niðurfellingar á vélarupptekt að fjárhæð 7.928.000 krónur sem talin var innifalin í öðrum verkþætti, og umsaminn afsláttur 5.400.000 krónur, og hafði þá verið samið um að verkkaupi sæi um teiknivinnu. Miðuðu matsmenn við að almennur kostnaður lækkaði um 1.250.000 krónur eftir að teiknivinna færðist yfir á verkkaupa en afsláttur að öðru leyti deildist niður á verkliði. Mátu matsmenn það svo að 78,96% af útboðsverkinu hafi verið lokið er samningnum var rift.

Dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmönnum, lítur ekki svo á að það rýri gildi undirmatsins að matsmenn litu við mat sitt til útreikninga sem Skipasmíðastöð Njarðvíkur gerði vegna tilboðs í sama verk, enda um að ræða gögn er urðu til áður en ágreiningur varð milli aðila um verkið, auk þess sem ætla verður að svipaðar forsendur hafi búið að baki útreikningum þeirra og þeim sem tilboð stefnanda byggðist á og stefndi samþykkti. Dómurinn telur, á grundvelli framlagðra gagna, umfangs samningsverksins og þeirra breytinga sem gerðar voru á því, að líta beri til niðurstöðu undirmatsmanna við úrlausn um réttmæti kröfu þessarar. Með vísan til ofangreindrar niðurstöðu undirmatsmanna er það niðurstaða dómsins að ólokið hafi verið vinnu fyrir 20.461.500 krónur við riftun, verki lokið fyrir 76.844.007 krónur og að stefndi hafi þá verið búinn að greiða 87.209.700 krónur. Er það því niðurstaða dómsins að stefndi hafi við riftun verksins verið búinn að ofgreiða m.v. stöðu samningsverksins 10.365.693 krónur. Verður stefndi því sýknaður af kröfu þessari.

Hvað varðar reikning nr. R27500 þá byggir stefnandi á því að hann sé vegna stöðugjalda í samræmi við viðauka við verksamning aðila, fyrir 53 daga á 22.450 krónur dagurinn, á tímabilinu frá áætluðum verklokum 7. júní 2010 að riftunardegi 29. júlí 2010, að fjárhæð 1.189.850 krónur. Af hálfu stefnda er reikningnum mótmælt og vísað til þess að um sé að ræða tímabil þar sem stefnandi hafi vanefnt samninginn og stefndi hafði veitt honum viðbótarfest til að ljúka verkinu.

Umkrafið verð byggist á gjaldskrá stefnanda og er þar um að ræða einingarverð sem gefið er upp í fylgiskjali með verksamningi aðila dagsettum 21. október 2009 sem ber heitið „leiðrétt verðtilboð verksala“. Þar er ákveðið einingarverð fyrir „extra docking day“ 22.450 krónur. Óumdeilt er með aðilum að skjal þetta er hluti verksamnings aðila. Dómurinn hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að seinkun á verkinu sé eðlileg vegna aukaverka og vegna atriða sem stefndi stóð ekki skil á innan eðlilegs tíma, þ.e. teikningar og tæki, og riftun hafi því verið ólögmæt. Verður því ekki fallist á framangreindar varnir stefnda. Með vísan til framangreinds er stefndi dæmdur til að greiða stefnanda stöðugjöld í samræmi við framangreindan reikning samtals 1.189.850 krónur.

Í kafla 5.2.6 er gerð krafa um greiðslu fjögurra reikninga, samtals að fjárhæð 9.255.366 krónur vegna stöðu og geymslugjalda. Um er að ræða reikning nr. R27509 vegna stöðugjalda frá 30. júlí til 31. ágúst 2010, að fjárhæð 2.982.738 krónur, reikning nr. R27510 vegna stöðugjalda frá 1. til 30. september 2010 að fjárhæð 2.720.040 krónur, reikning nr. R27511 vegna stöðugjalda frá 1. til 31. október 2010 að fjárhæð 2.823.852 krónur og reikning nr. R27512 vegna stöðugjalda frá 1. til 8. nóvember 2010 að fjárhæð 28.736 krónur. Allir þessir reikningar taka til tímabilsins frá 29. júlí 2010 til þess dags er samningur var gerður milli aðila um að stefnandi mundi framkvæma þá vinnu sem þyrfti til að sjósetja skipið. Reikningarnir byggjast á því að stöðugjald sé á bilinu 90.386 krónur til 91.092 krónur á dag. Stefndi byggir varnir sínar á því að hann beri ekki greiðsluskyldu vegna þessara reikninga þar sem skipið hafi ekki á þessum tíma verið á athafnasvæði stefnanda eða innandyra hjá stefnanda að beiðni stefnda sem þá hafði rift samningi og krafist þess að fá skipið afhent. Hafi hann þurft að krefjast innsetningar í skipið til að fylgja eftir kröfu sinni.

Þar sem niðurstaða dómsins varð sú, eins og áður hefur verð rakið, að riftun samningsins hafi verið ólögmæt, er fallist á kröfu stefnanda um að stefndi verði dæmdur til greiðslu stöðugjalda vegna slippsins á framangreindu tímabili. Með sömu rökum er því hafnað að hægt sé að miða kröfu við aðra gjaldskrá en þá sem gilti milli aðila á grundvelli verksamningsins og nánar er lýst hér að framan vegna reiknings nr. R27500. Verður stefnda því á grundvelli framangreindra reikninga gert að greiða stefnanda stöðugjöld að fjárhæð 22.450 krónur á dag í 102 daga vegna tímabilsins frá 30. júlí 2010 til 8. nóvember 2010, samtals 2.289.900 krónur.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefnda beri að greiða stefnanda 31.225.380 krónur vegna krafna samkvæmt stefnu birtri 14. júní 2011.

Stefna Þorgeirs & Ellerts hf. á hendur Þörungaverksmiðjunni hf., birt 16. september 2011. Mál 2.

Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um að stefnda verði gert að greiða honum 21.737.085 krónur í skaðabætur. Alls setur stefnandi í máli þessu fram efndabótakröfur í þremur liðum sem hann byggir á almennu skaðabótareglunni. Telur hann sig eiga rétt til bóta vegna tjóns sem stefndi hafi bakað honum með ólögmætri og fyrirvaralausri riftun á verksamningi aðila og byggir kröfu sína á dómafordæmum Hæstaréttar. Stefndi telur hins vegar að riftun á verksamningnum hafi verið lögmæt vegna verulegra vanefnda stefnanda. Eins og rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða dómsins að riftun stefnda á samningi aðila hafi verið ólögmæt eins og á stóð. Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því kröfur stefnanda séu niðurfallnar vegna tómlætis þar sem þær hafi fyrst verið settar fram þegar rúm tvö ár voru liðin frá riftun samnings. Samningnum var rift 6. ágúst 2010 og stefna vegna málsins var birt fyrir stefnda 16. september 2011. Með vísan til þess að á þeim tíma voru rekin önnur dómsmál vegna ágreinings málsaðila og umfangs verksins verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti hvað þessar kröfur sínar varðar og er því þessari málsástæðu hafnað.

Í fyrsta lagi er um að ræða kröfu um efndabætur vegna ólögmætrar riftunar á verksamningnum, samtals að fjárhæð 10.380.370 krónur. Krafan var upphaflega í þremur liðun en nú standa eftir tveir kröfuliðir af þremur, annars vegar krafa um greiðslu efndabóta vegna ólögmætrar riftunar að fjárhæð 1.733.491 króna og hins vegar krafa um greiðslu efndabóta vegna aukaverka á tímagjaldi að fjárhæð 8.646.879 krónur en stefnandi hefur fellt niður kröfu sína vegna aukaverka á tilboðsverði en um var að ræða kröfu vegna eftirstöðva samnings við Rúdolf B. Jósefsson og Straumnes hf. Telur hann að orsakasamband sé á milli þess tjóns sem hann krefur stefnda um greiðslu á og vanefnda stefnda. Miðar stefnandi við að bæturnar eigi að gera hann eins settan og ef hann hefði fengið fullar efndir samnings, þ.e. fengið að ljúka vinnu við aðalverkið, umbeðin aukaverk og umbeðin viðbótarverk á tímagjaldi en stefnandi hefur fallið frá kröfu um bætur vegna viðbótarverka á föstu gjaldi.

Kröfu sína byggir stefnandi á dómafordæmum Hæstaréttar og vísar til þess að þar komi fram að hafi verksamningi verið rift á ólögmætan hátt skuli verktaki fá bætur sem svarar til þeirrar framlegðar sem hann varð af vegna þess. Ekki liggja fyrir útreikningar á því hvaða framlegð verkið hefði skilað stefnanda hefði hann klárað það eða hann reiknaði sér þegar hann gerði tilboðið. Stefndi krefst sýknu af kröfunni og byggir vörn sína á því að krafan sé ósönnuð bæði hvað varðar bótagrundvöll og tilvist og umfang tjóns og að kröfur um efndabætur verði ekki byggðar á reikningum.

Með vísan til atvika er það mat dómsins að skilyrði bótaskyldu séu fyrir hendi. Eins og áður hefur verið rakið þá er það mat dómsins að ekki verði byggt á mati dómkvaddra yfirmatsmanna hvað það varðar hvað ógreitt var af greiðslum stefnda vegna samnings. Í samræmi við þá niðurstöðu dómsins sem þar er lýst telur dómurinn að eftirstöðvar verksamnings hafi við riftun verið 20.466.500 krónur. Þrátt fyrir að dómurinn telji ekki rök til að leggja niðurstöðu yfirmatsmanna til grundvallar hvað varðar fjárhæð eftirstöðva þá lítur dómurinn til niðurstöðu þeirra hvað það varðar að ætluð framlegð vegna tilboðsverka sé hæfilega ákveðin 10-15%. Með vísan til þess er það niðurstaða dómsins að miða beri við 12,5% framlegð vegna eftirstöðva verksins. Þar sem stefnandi hefur lækkað kröfu sína í 1.733.491 krónu verður stefnda ekki gert að greiða hærri fjárhæð en krafan hljóðar um. Er því fallist á kröfu stefnanda og er stefndi dæmdur til að greiða honum 1.733.491 krónu.

Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu efndabóta vegna óunninnar vinnu við viðbótarverk á tímagjaldi að fjárhæð 8.646.879 krónur. Stefnandi byggir á því að ólokið hafi verið aukaverkum að fjárhæð 21.617.198 krónur og miðar kröfu sína við að framlegð vegna verkanna hefði orðið 40%. Hann hefur, máli sínu til stuðnings, lagt fram „proformareikning“ þar sem fjárhæðin er sundurliðuð. Stefndi krefst sýknu af þessum lið og vísar m.a. til þess að ekki hafi verið fyrir hendi bindandi samningur um vinnslu þessara verka sem geti verið grundvöllur efndabóta og tjón og bótagrundvöllur sé ósannaður.

Af málsgögnum má ráða að hér sé um að ræða verk sem beðið hefur verið um en hafi ekki verið unnin. Niðurstaða yfirmatsmanna varð sú að þeir telja að vafasamt sé að fara fram á bætur fyrir viðbótarverk í slíkum tilvikum. Krafan er, eins og rakið hefur verið, sett fram sem krafa um efndabætur og byggð á almennu skaðabótareglunni. Þrátt fyrir að verkin hafi verið pöntuð er ekki hægt að fallast á að riftun samningsins sé bein orsök þess að stefnandi varð af framlegð vegna verkanna. Með vísan til þess er það niðurstaða dómsins að sýkna stefnda af kröfu þessari.

Þá gerir stefnandi í öðru lagi kröfu um greiðslu efndabóta að fjárhæð 3.251.275 krónur vegna galla í útboðslýsingu, breytinga sem stefndi gerði á verkinu og viðbótarverkum á verktíma og seinkunar sem varð á afhendingu teikninga og búnaðar. Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo að gerð sé krafa um að stefndi greiði 2.819.475 krónur vegna þess hve seint teikningar af skipinu bárust honum og 431.800 krónur vegna þess að tiltekinn búnaður kom ýmist seint eða aldrei. Telur hann að orsakasamband sé milli þess tjóns sem krafist er greiðslu á og athafna stefnda, þ.e. þeirra breytinga sem gerðar voru á verkinu og seinkunar á afhendingu búnaðar og teikninga og að tjónið sé sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfunni með vísan til þess að bótagrundvöllur sé ekki til staðar auk þess sem fjárhæð skaðabóta sé ósönnuð.

Yfirmatsmenn töldu í mati sínu að útboðslýsing hafi verið ófullnægjandi og ekki tæmandi og að verksala hafi mátt vera það ljóst frá byrjun. Þá töldu þeir að tafir vegna seint afhentra teikninga og búnaðar séu ekki ofmetnar og að verksali hafi sannanlega orðið fyrir tjóni sökum þessara atriða. Dómurinn tekur undir álit yfirmatsmanna um að útboðslýsing stefnda hafi verið gölluð og það hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Þá hafi allt skipulag vinnu hafi raskast verulega og ítrekað. Einnig telur dómurinn að skilyrði bótaskyldu séu að öðru leyti uppfyllt og að ákvæði 11. gr. í samningi aðila standi ekki í vegi fyrir því að krafa stefnanda verði tekin til greina. Telur dómurinn að bótakröfur stefnanda vegna þessa séu sanngjarnar og verður stefndi dæmdur til greiðslu beggja krafnanna.

Þá gerir stefnandi í þriðja lagi kröfu um bætur að fjárhæð 8.063.440 krónur vegna aukinnar vinnu framkvæmdastjóra, bókara, tæknifræðings og verkstjóra stefnanda vegna ólögmætrar riftunar. Byggt er á því af hálfu stefnanda að ólögmæt og fyrirvaralaus riftun stefnda hafi leitt til vinnu þessara aðila í framhaldi af riftun, þ.e. vinnu við að mótmæla riftun og í tengslum við ágreining um afhendingu skipsins, sem og undirbúning og gagnaöflun í framhaldinu, þ.m.t. í innsetningarmáli fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, o.fl. Af hálfu stefnda er þessari kröfu alfarið hafnað og byggt á því að vinna þessi sé hluti af rekstrarkostnaði stefnanda. Þá byggir hann vörn sína einnig á því að tímagjald sé hátt og fjöldi tíma mikill auk þess sem bótagrundvöllur sé óljós og krafan órökstudd að öllu leyti.

Samkvæmt stefnu er hér samtals um að ræða 800 vinnustundir starfsmanna stefnanda auk eins og hálfs mánaðar vinnu framkvæmdastjóra. Kröfu sinni til stuðnings lagði stefnandi fram lista yfir unna tíma starfsmanna, sundurliðaðan eftir dagsetningum, en af honum verður hins vegar ekki ráðið hvaða verkefni var unnið á hverjum tíma.

Í mati dómkvaddra yfirmatsmanna kemur fram að yfirmatsmenn geri ekki athugasemdir við þann tíma og kostnað sem nefndur er í bótakröfunni en taka ekki afstöðu til réttmætis kröfunnar. Það er niðurstaða dómsins að kostnaður eins og sá sem hér er gerð krafa um greiðslu á sé stjórnendakostnaður stefnanda og eigi hann samkvæmt venju að vera innifalinn í gjaldtöku vegna verksins. Með vísan til þess er stefndi sýknaður af kröfu um greiðslu reikningsins.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda samtals 4.984.766 krónur, vegna krafna samkvæmt stefnu birtri 16. september 2011.

Gagnstefna Þörungaverksmiðjunnar hf. á hendur Þorgeir & Ellert hf., birt 27. október 2011. Mál 3.

Í gagnstefnu Þörungaverksmiðjunnar hf. er þess krafist að viðurkennd verði riftun hans á verksamningi aðila. Byggir gagnstefnandi kröfu sína á sömu málsástæðum og áður hafa verið raktar. Eins og að framan er rakið telur dómurinn að skilyrði riftunar hafi ekki verið uppfyllt í umrætt sinn.

Gagnstefnandi krefst þess að gagnstefndi greiði honum samtals 53.396.387 krónur og er krafan í níu liðum. Þá krefst hann dráttarvaxta frá riftunardegi vegna fyrstu kröfunnar sem tilgreind er í stefnu en frá 13. desember 2010 vegna þeirrar þriðju. Af hálfu gagnstefnda er krafist sýknu af öllum kröfunum og mótmælir hann dráttarvaxtakröfu sérstaklega og vísar til þess að hann hafi ekki verið krafinn um greiðslu stefnukröfu málsins fyrr en við þingfestingu málsins 1. nóvember 2011.

Í fyrsta lagi gerir gagnstefnandi nú kröfu um greiðslu á 5.054.193 krónum vegna ofgreiðslu vegna samningsverks. Í kafla 5.2.5 vegna stefnu sem birt var 14. júní 2011 komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að gagnstefnandi hefði þegar ofgreitt vegna samningsverks 10.365.693 krónur og er vísað til rökstuðnings dómsins sem þar kemur fram. Gagnstefnda verður ekki gert að endurgreiða gagnstefnanda hærri fjárhæð en kröfu gagnstefnanda nemur. Með vísan til framangreinds er gagnstefndi dæmdur til að greiða gagnstefnanda 5.054.193 krónur, sem eftir atvikum koma til skuldajafnaðar vegna krafna gagnstefnda.

Í öðru lagi er gerð krafa um endurgreiðslu vegna reiknings nr. R24810, að fjárhæð 922.398 krónur. Um er að ræða reikning vegna slipptöku vegna botnskoðunar skipsins. Gagnstefnandi vísar til þess að hann hafi greitt reikninginn með fyrirvara og fái krafa hans stoð í skýrslu Guðmundar. Gagnstefndi krefst sýknu af endurgreiðslukröfunni og vísar til þess að af hálfu gagnstefnanda hafi ekki verið sýnt fram á í hverju fyrirvarinn fólst, verkið hafi verið umbeðið af gagnstefnanda og sannanlega unnið.

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri stefnanda, staðfesti í framburði sínum fyrir dómi að hafa lyft skipinu og tekið í land vegna kaupa gagnstefnanda á skipinu af Ísfélagi Vestmannaeyja hf. Þá kemur fram í matsgerð yfirmatsmanna að þar sem slipptakan hafi farið fram fyrir undirritun samnings og ekki var tekið fram í samningi að hún skyldi vera innifalin í honum verði að skoða hana sem utan útboðs. Þá verður ekki talið að skýrsla Guðmundar sé til þess fallin að styðja kröfu gagnstefnanda en líta verður svo á að hún hafi verið unnin fyrir gagnstefnanda án aðkomu gagnstefnda. Þá liggur fyrir tölvupóstur frá þáverandi framkvæmdastjóra gagnstefnanda, Atla Árnasyni, frá 8. og 12. nóvember 2009, þar sem hann annars vegar óskar eftir skoðun Lloyd´s á botninum þegar gagnstefndi verði búinn að draga skipið upp og hins vegar þar sem hann staðfestir við Lárus að hann hafi óskað eftir aðstoð hafnsögubáts vegna slipptökunnar. Loks liggur fyrir að gagnstefnandi samþykkti og greiddi reikninginn. Með vísan til framangreinds og þeirrar staðreyndar að ekkert er fram komið af hálfu gagnstefnanda sem rennir stoðum undir kröfu hans verður ekki hjá því komist að sýkna gagnstefnda af kröfunni.

Í þriðja lagi gerir gagnstefnandi kröfu um endurgreiðslu vegna ofgreiðslna vegna suðuvinnu á skrokk að fjárhæð 5.300.000 krónur. Aðilar gerðu með sér samning 8. nóvember 2010 um suðuvinnu á skrokk fyrir neðan sjólínu á skipinu. Sömdu aðilar þá um að gagnstefnandi greiddi 8.000.000 króna fyrir vinnu gagnstefnda við að gera skipið sjóklárt eftir að verksamningi hafði verið rift og var fjárhæðin greidd af hálfu gagnstefnanda með fyrirvara um réttmæti og fjárhæð greiðslu. Þá kom fram í samningnum að verkhluti þessi væri ekki hluti af eldri verksamningi aðila. Skyldi vinnan vera þannig úr garði gerð að fulltrúi Lloyd´s Register EMEA á Íslandi staðfesti að hún væri fullnægjandi og var vinnan nánar skilgreind í fylgiskjali af hálfu fulltrúa Lloyd´s auk þess að vera tilgreind í samningnum. Þar segir að hann taki nánar tiltekið til vinnu gagnstefnda við að loka hinum ýmsu götum á botni skipsins neðan sjólínu þannig að unnt sé að sjósetja það og það megi fljóta. Innifalið í samningnum sé öll vinna, efni, vélar og önnur aðstaða sem þarf til að ljúka þessu verki. Þá taki samningurinn til þess að gagnstefndi flýti og ljúki við endurbyggingu á hliðarfærsluvagni svo að unnt sé að flytja skipið í skipalyftu gagnstefnda. Markmiðið sé þannig að við efndir samnings þessa verði skipið sjósett í skipalyftu gagnstefnda og allur búnaður sem tengist skipinu og staðsettur er í skipasmíðahúsi stefnanda verði settur um borð í skipið fyrir sjósetningu í samræmi við samning. Gagnstefndi hafnar alfarið kröfunni og byggir á því að gerður hafi verið samningur milli aðila um þessa vinnu sem hafi ekki verið hluti af verksamningi aðila. Það hafi verið í kjölfar ólögmætrar riftunar gagnstefnanda sem afhending skipsins fór fram og ástand skipsins hafi verið þannig að ekki var hægt að afhenda það án þessarar vinnu.

Yfirmatsmenn mátu kostnað við suðuvinnu 2.700.000 krónur. Þá mátu undirmatsmenn annan kostnað gagnstefnda við að gera skipið sjóklárt 766.000 krónur. Það er mat dómsins með hliðsjón af verkinu og framangreindum samningi að hæfilegur kostnaður vegna verksins sé í samræmi við framangreind möt eða samtals 3.466.000 krónur. Verður gagnstefndi því dæmdur til að endurgreiða gagnstefnanda mismuninn, 4.524.000 krónur.

Í fjórða lagi gerir gagnstefnandi kröfu um endurgreiðslu vegna ofgreiðslu reiknings vegna viðgerðar á hliðarfærsluvagni að fjárhæð 1.200.000 krónur. Gagnstefndi hafnar kröfunni og byggir á því að ekki hafi verið gerður fyrirvari við greiðslu hennar. Þá hafi stefndi verið tilbúinn til að greiða þessa fjárhæð til að flýta því að hann fengi skipið afhent. Aðilar gerðu með sér samkomulag dagsett 8. nóvember 2010 um að gagnstefnandi greiddi gagnstefnda 3.000.000 króna fyrir að lagfæra hliðarfærsluvagninn með fyrirvara um fjárhæð greiðslunnar. Þá áskildi gagnstefnandi sér rétt til að krefja gagnstefnda um greiðsluna til baka í dómsmáli eða nota hana til skuldajafnaðar og krefst nú endurgreiðslu hluta af fjárhæðinni. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða eign skipasmíðastöðvarinnar og tæki sem gagnstefnandi mátti gera ráð fyrir að gagnstefndi hefði til afnota þegar verksamningur var gerður þá gerðu aðilar með sér framangreint samkomulag. Ekkert er fram komið sem leiðir til þess að ekki verði á því byggt. Er það því niðurstaða dómsins að sýkna gagnstefnda af þessari kröfu gagnstefnanda.

Í fimmta lagi gerir gagnstefnandi kröfu um greiðslu kostnaðar vegna dráttar skipsins til Akureyrar að fjárhæð 6.800.000 krónur, í sjötta lagi er krafa að fjárhæð 2.069.330 krónur vegna aukalegrar aðstoðar Loyd´s á Íslandi, í sjöunda lagi krafa að fjárhæð 18.771.415 krónur vegna vinnu Slippsins á Akureyri, í áttunda lagi krafa að fjárhæð 3.273.000 krónur vegna útgáfu bankaábyrgðar og í níunda lagi krafa um greiðslu dagsekta, samtals að fjárhæð 9.706.051 króna, vegna seinkunar verkloka.

                Kröfur þessareru tilkomnar vegna riftunar á samningi aðila utan níundu kröfunnar. Gerð er krafa um dagsektir frá 6. júní 2010 til riftunardags 6. ágúst 2010 með vísan til 3. og 7. gr. verksamnings. Gagnstefndi hafnar því að gagnstefnandi geti átt rétt til dagsekta þar sem um ólögmæta riftun hafi verið að ræða. Hvað þá kröfu varðar þá er það niðurstaða dómsins, eins og áður hefur verið rakið, að dráttur á verki verði rakinn til atvika er varða gagnstefnanda. Með vísan til þess og þeirrar niðurstöðu dómsins að riftun samningsins hafi verið ólögmæt verður gagnstefndi sýknaður af kröfu um greiðslu dagsekta. Hinar kröfurnar fjórar eru vegna kostnaðar gagnstefnanda sem stofnaðist til vegna riftunar hans á samningi aðila. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að á grundvelli riftunar, sem dómurinn hefur þegar metið ólögmæta, eða á annan hátt hafi stofnast bótaskylda á hendur gagnstefnda vegna þessa kostnaðar. Er því framangreindum fimm kröfum gagnstefnanda hafnað.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að gagnstefndi verði dæmdur til að endurgreiða gagnstefnanda samtals 9.578.193 krónur, vegna krafna samkvæmt gagnstefnu birtri 27. október 2011.

Samandregið felur niðurstaða málsins í sér að teknar eru til greina kröfur aðalstefnanda að fjárhæð 36.210.146 krónur. Þá eru teknar til greina kröfur gagnstefnanda að fjárhæð 9.578.193 krónur. Verður krafa gagnstefnanda látin mæta kröfu aðalstefnanda, sbr. 28. gr. laga nr. 91/1991, þannig að gagnstefnandi verði dæmdur til að greiða aðalstefnanda 26.631.953 krónur.

Með vísan til atvika, niðurstöðu málsins og 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er stefndi dæmdur til greiðslu dráttarvaxta frá þingfestingardegi gagnstefnu 27. október 2011.

Málsaðilar gera báðir kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 246/2015 frá 21. janúar 2016, þar sem fyrri héraðsdómur í máli þessu var ómerktur, segir að rétt þyki að hvort aðili beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum og segir í dómsorði að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 129. gr. sömu laga telst þóknun matsmanna einnig til málskostnaðar. Með dómi Hæstaréttar hefur verið tekin bindandi afstaða til krafna málsaðila til greiðslu málskostnaðar hvað varðar fyrri meðferð málsins fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti, sbr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og kemur því sú krafa ekki til álita nú. Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndi greiði honum 1.326.797 krónur vegna reikninga matsmanna vegna vinnu þeirra eftir að matsgerðum var skilað. Um er að ræða reikninga frá því í desember 2014 og september 2016 og byggir stefnandi á því að þeir séu vegna vinnu matsmanna vegna skýrslugjafar fyrir héraðsdómi og undirbúnings fyrir þá skýrslugjöf. Telja verður að reikningar matsmanna vegna þóknunar taki jafnframt til þeirrar vinnu. Verður stefndi því ekki dæmdur til greiðslu þessa kostnaðar. Eftir atvikum verður stefndi, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað vegna meðferðar málsins nú, sem ákveðinn er 4.000.000 króna.

Vegna embættisanna dómsformanns hefur uppkvaðning dómsins dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Lögmenn aðila og dómsformaður voru sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt sérfróðu meðdómsmönnunum Sævari Birgissyni skipatæknifræðingi og Vífli Oddssyni verkfræðingi. Dómsformaður tók við meðferð málsins 11. mars 2016 en hafði fram að þeim tíma engin afskipti af meðferð þess.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Þörungaverksmiðjan hf., greiði stefnanda, Þorgeir & Ellert hf., 26.631.953 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. október 2011 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 4.000.000 króna í málskostnað.