Hæstiréttur íslands

Mál nr. 86/2013

A (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)
gegn
B og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabótamál
  • Fyrning


Líkamstjón. Skaðabótamál. Fyrning.

A varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi 25. júní 2001. Í málinu krafðist A viðurkenningar á að krafa hans á hendur B og V hf. um bætur hafi ekki verið fyrnd er málið var höfðað. V hf. hafði innt af hendi greiðslur til A 21. apríl 2004 og 17. mars 2011 á grundvelli matsgerða sem þá lágu fyrir. A aflaði álits örorkunefndar og gerði viðbótarkröfu á hendur B og V hf. á grundvelli þess. Héraðsdómur taldi tíu ára fyrningarfrest samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hafa verið liðinn þegar A höfðaði málið á hendur V hf. 1. mars 2012 og á hendur B 4. september 2012. Féllst dómurinn ekki á að áðurnefndar greiðslur V hf. til A hefðu falið í sér viðurkenningu á kröfu A og rofið fyrningarfrest ákvæðisins. Breytti engu um þá niðurstöðu hvort álits örorkunefndar hafði verið aflað án mótmæla frá B og V hf. eða hvort sérstakur áskilnaður hafði verið gerður af þeirra hálfu vegna þess. Þá var heldur ekki talið að fyrirvari A í tjónskvittun vegna uppgjörs 17. mars 2011, um mat á varanlegum afleiðingum og frekari kröfu ef endurmat reyndist hærra, hefði áhrif á þessa niðurstöðu. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu B og V hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2013. Hann krefst þess að viðurkennt verði að krafa sín á hendur stefndu um bætur fyrir líkamstjón, sem hann hlaut í umferðarslysi 25. júní 2001, hafi ekki verið fyrnd er mál þetta var höfðað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hver málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. nóvember 2012, var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 1. mars 2012, af A, […], á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, og með sakaukastefnu áritaðri um birtingu 3. september 2012 á hendur sakaukastefndu, B, […].

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda og sakaukastefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda bætur vegna líkamstjóns stefnanda eftir umferðarslys hinn 25. júní 2001, alls að fjárhæð kr. 4.753.141, auk 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 25. júní 2001 til þingfestingardags, og dráttarvaxta samkvæmt 4. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags, vegna ábyrgðartryggingar bifreiðarinnar [...].

Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda og sakaukastefndu að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Endanlegar dómkröfur stefnda og sakaukastefndu, sem hér eftir verður vísað til sem stefndu, eru þær aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar til muna. Stefndu krefjast í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Í þinghaldi máls þessa 4. september sl. var þingfest sakaukastefna á hendur B og var málið sameinað þessu máli í kjölfarið. Í sama þinghaldi var ákveðið samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að skipta sakarefninu þannig að fyrst yrði dæmt um þann ágreining aðila hvort krafa stefnanda í málinu væri fyrnd og er dómurinn kveðinn upp til úrlausnar á því. Féllu stefndu jafnframt frá frávísunarkröfum sínum í málinu.

Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að dæmt verði að kröfur hans í málinu séu ekki fyrndar. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál. Stefndu krefjast sýknu á þeim grundvelli að bótakrafa stefnanda sé fyrnd og krefjast jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 2. febrúar 2012, var stefnanda veitt gjafsóknarleyfi í máli gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. til greiðslu á kröfu úr ábyrgðartryggingu ökutækis vegna afleiðinga umferðarslyss 25. júní 2001. Gjafsóknin er takmörkuð við réttargjöld, þóknun lögmanns og útlagðan kostnað vegna „öflunar örorkunefndar.“

I.

Í stefnu er málavöxtum lýst þannig að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni í umferðarslysi hinn 25. júní 2001, þegar hann þá níu ára gamall, var aftursætisfarþegi í bíl foreldra sinna er ekið var aftan á bifreiðina, með þeim afleiðingum að hún kastaðist yfir á öfugan vegarhelming og í veg fyrir aðra bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Hlaut stefnandi við áreksturinn lærbrot á vinstra fæti og gekkst undir meðferð vegna þess. Komu síðar í ljós verulegar afleiðingar af áverka þessum. Lýsa þær sér m.a. í því að hann gekkst strax eftir slysið undir aðgerð þar sem brotið var fest með pinnum, sem síðar voru fjarlægðir í tveimur aðgerðum. Var stefnandi lengi að ná upp styrk eftir aðgerðina, auk þess sem vinstri fótur er styttri en sá hægri, og snýr út á við um u.þ.b. 30°. Þreytist stefnandi mjög fljótt, einkum í vinstra hné, og fær hann jafnframt verki í bak eftir langan vinnudag, auk þreytuverkja í vinstra hné og stirðleika í ökkla. Á hann erfitt með hlaup og þreytist mjög við vinnu þegar mikið er að gera. Þá er stefnandi ennþá mjög bílhræddur.

Vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir í slysinu var gerð skaðabótakrafa af hans hálfu til stefnda fyrst í október 2001 og var þá aflað matsgerðar um afleiðingar stefnanda af slysinu sameiginlega af málsaðilum. Matsgerðin var gerð af læknunum C og D, dags. 15. október 2003 og var það þá niðurstaða þeirra að ekki væri tímabært að meta varanlegar afleiðingar slyssins þar sem sterklega kæmi til greina að gera aðgerð á stefnanda vegna skekkju sem hafði myndast um brotstaðinn. Aðrar afleiðingar slyssins voru metnar í matsgerðinni og var gert hlutauppgjör vegna þess, sem greitt var af stefnda þann 21. apríl 2004, í samkomulagi við stefnanda.

Í samráði við stefnda óskaði stefnandi eftir mati á varanlegum afleiðingum slyssins í apríl 2008 og var sömu læknum falið það mat, C og D, sem þeir skiluðu 22. september 2010. Var það niðurstaða þeirra í fyrri matsgerðinni að tímabundið tjón væri ekki fyrir hendi og að varanlegan miska og örorku væri þá ekki tímabært að meta. Þá var stefnandi talinn veikur í skilningi skaðabótalaga í eitt ár eftir slysið, þar af með rúmlegu frá 25. júní 2001 til 30. júní 2001, og aftur þann 10. september 2001 og 15. apríl 2002. Ástand stefnanda var ekki talið orðið stöðugt eftir slysið. Í seinni matsgerðinni var það niðurstaða sömu lækna að tímabundið atvinnutjón væri ekkert, tímabil veikinda eitt ár, þar af sjö sólarhringar í rúmlegu. Stöðugleikapunktur var metinn þann 25. júní 2002, varanlegur miski 5 stig og varanleg örorka engin.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu matgerðarinnar frá 2010 bauð stefndi stefnanda uppgjör skaðabóta í samræmi við niðurstöðu þeirrar matsgerðar, og í samskiptum lögmanns stefnanda og félagsins kom fram að stefnandi hefði í hyggju að skjóta málinu til örorkunefndar þar sem hann sætti sig ekki við niðurstöðu matsmanna um mat á varanlegum afleiðingum slyssins. Stefnandi féllst engu að síður á tillögu stefnda um að ganga mætti frá uppgjöri á grundvelli fyrirliggjandi matsgerðar, en með fyrirvara um niðurstöðu örorkunefndar. Var þetta samþykkt af hálfu lögmanns stefnda án nokkurra athugasemda í febrúar 2011. Var greiðsla móttekin í kjölfarið þann 22. mars 2011, alls að fjárhæð kr. 577.701. Var svohljóðandi fyrirvara að finna í tjónskvittun stefnda: ,,M/fyrirv. um mat á varanlegum afleið. og frekari kröfu ef endurmat reynist hærra.“ Leitaði stefnandi í kjölfarið eftir áliti örorkunefndar, með erindi dags. 15. apríl 2001 og stóðu að áliti nefndarinnar E hrl., og læknarnir F og G. Var það niðurstaða álitsins að varanlegur miski stefnanda væri hæfilega metinn 10% og varanleg örorka hans 10%. Lá álitið fyrir þann 8. ágúst 2011.

Að fengnu áliti örorkunefndar óskaði stefnandi eftir frekari greiðslu frá stefnda í samræmi við hið endanlega mat, með vísan til fyrirvara í tjónsuppgjöri, sbr. bréf lögmanns stefnanda dags. 9. ágúst 2011. Í bréfi stefnda frá 22. ágúst 2011 var frekari greiðslu hafnað með vísan til fyrningar, skv. 99. gr. umferðarlaga. Taldi stefndi að fyrningarfrestur hefði hafist á slysdegi og ekki verið rofinn síðan, og að allar kröfur á hendur félaginu hafi því fyrnst þann 25. júní 2011. Hafnaði lögmaður stefnanda þessari túlkun stefnda, með bréfi dags. 21. desember 2011, en stefndi ítrekaði afstöðu sína með bréfi dags. 3. janúar 2012. Stefnanda var veitt gjafsókn vegna málsins með gjafsóknarleyfi dags. 2. febrúar 2012.

Með vísan til þess sem að framan er ritað og þess að stefndi hefur ekki sinnt kröfum stefnanda um greiðslu fullra bóta fyrir tjón hans er stefnanda nauðsynlegt að stefna málinu fyrir dóm. 

Sundurliðun stefnukröfu.

Miskabætur 5%                                                     465.753             kr.

Bætur fyrir varanlega örorku                           4.062.388             kr.

Útlagður kostnaður við matsgerð                      225.000             kr.

                                                               Samtals 4.753.141             kr.

Útreikningur miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku stefnanda byggir á álitsgerð örorkunefndar, þar sem niðurstöðu á mati á tjóni stefnanda voru þær að varanlegur miski hans væri 10% og varanleg örorka hans 10%.

Miskabótakrafa stefnanda miðast við grunn miskabóta samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga margfaldað með 5%, þ.e. vegna 10% miskastuðuls, að frádregnum þeim 5%, sem stefndi hefur þegar greitt stefnanda, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Bætur fyrir varanlega örorku stefnanda miðast við aldur hans á tjónsdegi og reiknast þannig að lágmarksbætur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, eru margfaldaðar með aldursstuðli stefnanda á tjónsdegi og með örorkustigi stefnanda, 10%.

II.

Í þessum þætti málsins byggist skaðabótakrafa stefnanda á því að krafa hans um uppgjör bóta vegna slyssins sé ekki fyrnd, enda sé í þessu tilviki aðeins um viðbótarkröfu að ræða vegna mats örorkunefndar, í fullu samræmi við fyrirvara í tjónsuppgjöri aðila. Þá hafi fyrning verið rofin þegar krafa stefnanda var greidd að hluta hinn 22. mars 2011, en skv. meginreglum um fyrningu slítur slík greiðsla fyrningu, og því er krafa stefnanda ekki fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Bótaskylda stefnda úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar sé því enn fyrir hendi og vegna þess eigi stefnandi rétt á greiðslu bóta úr hendi stefnda.

Þá byggir stefnandi á því að máli hans hafi verið vísað til örorkunefndar í fullu samráði við stefnda, án þess að nokkur áskilnaður hafi verið gerður af hálfu stefnda um að byggt yrði á fyrningu af hálfu stefnda, lægi niðurstaða nefndarinnar ekki fyrir, fyrir þann 25. júní 2011. Með tilliti til eðlilegs málsmeðferðartíma hjá nefndinni hafi verið ljóst þá þegar að niðurstaða örorkunefndar yrði ekki tilbúin fyrir þann dag. Þá hafi stefndi tekið fullan þátt í málsmeðferð hjá örorkunefnd, án þess að gera áskilnað um fyrningu í tengslum við þá matsvinnu og að greiðsluréttur stefnanda félli með öllu niður hinn 25. júní 2011. Stefndi ekki heldur gert slíkan áskilnað í bréfaskiptum við lögmann stefnanda vegna framsendingar málsins til nefndarinnar. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að stefnda hefði borið að gera áskilnað um fyrningu þegar málinu var vísað til örorkunefndar, sem hafi verið gert án nokkurs dráttar og hafi málsmeðferðartími hjá nefndinni verið eðlilegur miðað við það sem tíðkist í sambærilegum málum. Hafi stefndi látið hjá líða að upplýsa um afstöðu sína til fyrningar kröfunnar við meðferð málsins hjá nefndinni en sú málsmeðferð hafi hafist nokkru áður en krafan eigi að hafa fyrnst að mati stefnda og hafi stefnda mátt vera fullkunnugt um að málsmeðferð hjá örorkunefnd lyki ekki fyrr en eftir það tímamark.

Stefnandi byggir kröfur sínar um greiðslu bóta á almennum reglum skaðabótaréttarins, ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, ákvæðum laga nr. 30/2004, um vátryggingasamninga, og lögum nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, 99. o.fl. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og skilmálum ábyrgðartryggingar ökumanns hjá Vátryggingafélagi Íslands hf.

Kröfu um vexti styður stefnandi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 og krafa um dráttarvexti er byggð á ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa stefnanda um málflutningsþóknun byggist á reglum XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vegna málskostnaðarkröfu er jafnframt vísað til gjafsóknarleyfis stefnanda. Varðandi varnarþing er vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991.

III.

Stefndu byggja sýknukröfu sína í þessum þætti málsins á því, að umstefnd bótakrafa stefnanda hafi áður en mál þetta var höfðað fallið niður fyrir fyrningu samkvæmt  99. gr. umferðarlaga nr. 50/1997. Vísa stefndu til þess að 10 ára fyrningarregla ákvæðisins sé fortakslaus og miðist upphaf fyrningarfrestsins þar við tjónsatburð, hvernig sem á stendur. Hinn 25. júní hafi 10 ár verið liðin frá tjónsatburði. Greiðslur stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., á bótum 21. apríl 2004 og 17. febrúar 2011 rjúfi ekki fyrningu, enda hafi í báðum tilvikum verið greidd sú fjárhæð sem fyrir lá á hverjum tíma að stefndi skuldaði stefnanda og því hafi einungis verið viðurkennd skuld þeirrar fjárhæðar sem greidd var. Í uppgjöri á þekktum afleiðingum slyss felist ekki viðurkenning á skyldu til að greiða annað og meira tjón en þá var þekkt og rjúfi greiðslan því ekki fyrningarfrest á viðbótartjóni. Aðeins viðurkenning á greiðsluskyldu eða birting stefnu rjúfi fyrningarfrestinn. Þá sé sérstaklega á því byggt að hvorki fyrirvarar stefnanda né sú staðreynd að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., áskildi sér ekki sérstaklega rétt til að bera fyrir sig fyrningu, breyti engu um fortakslaus ákvæði laga um fyrningu og fyrningarrof.

Stefndu byggja einnig á því, að krafa stefnanda sé fyrnd á grundvelli fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaganna. Beri samkvæmt dómvenju að beita hlutlægum mælikvarða á það, hvenær tjónþoli má gera sér grein fyrir kröfu sinni og geti fyrst leitað fullnustu hennar, enda myndi önnur viðmiðun leiða til þess, að tjónþoli réði því í reynd sjálfur, hvenær fyrningarfresturinn byrjaði að líða. Gæti tjónþoli þá til að mynda dregið árum saman, án ástæðu, að leita læknis eða sérfræðings til að staðreyna afleiðingar slyss, án þess að það hefði nokkur áhrif á upphaf fjögurra ára fyrningarfrestsins. Fái slíkt ekki staðist þegar horft sé til þess að fjögurra ára fyrningarregla 99. gr. umferðarlaga sé, eins og aðrar fyrningarreglur, sett í þágu bótagreiðanda og almannahagsmuna en ekki til hagsbóta fyrir kröfuhafa. Beri því við mat á upphafi fyrningarfrestsins að líta fyrst og fremst til þess, hvenær fyrst var tímabært að meta afleiðingar slyssins að mati sérfróðra manna en ekki eigi að miða alfarið við það, hvenær tjónþoli lét loks meta einkenni sín.

Í tilviki stefnanda hafi, allt frá því í október 2003 þegar stefnanda barst matsgerð læknanna C og D, legið fyrir að tímabært yrði að meta afleiðingar slyssins þegar stefnandi næði 14 til 15 ára aldri. Stefnandi hafi náð 15 ára aldri um miðjan desember 2006. Jafnvel þótt stefnanda yrði gefið fram að næstu áramótum til að gera sér grein fyrir kröfu sinni, hefði fyrningarfrestur byrjað að líða 1. janúar 2008 og krafa stefnanda því fyrnd 1. janúar 2012.

Hafi því bótakrafa stefnanda verið fallin niður vegna fyrningar í samræmi við ákvæði framangreindrar 99. gr. umferðarlaga þegar mál þetta var höfðað með birtingu stefnu á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., hinn 1. mars 2012 og ennfremur er málið var höfðað gegn stefndu, B, með birtingu sakaukastefnu hinn 3. september 2012.

IV.

                Óumdeilt er að um fyrningu bótakröfu stefnanda fer eftir ákvæðum 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í ákvæðinu segir að allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, um fébætur og vátryggingu, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Síðan segir að kröfur þessar fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.

                Eins og áður er rakið varð stefnandi fyrir slysi því, sem bótakrafa hans byggist á, hinn 25. júní 2001 þegar hann var 9 ára. Samkvæmt fyrri matsgerð læknanna C og D, dagsettri 15. október 2003, taldist stefnandi hafa verið rúmfastur eftir slysið frá 25. júní 2001 til 30. júní 2001 og  lá auk þess á sjúkrahúsi í tvo daga. Hann var talinn hafa verið veikur í skilningi skaðabótalaga í eitt ár eftir slysið. Var ástand hans ekki talið vera orðið stöðugt eftir slysið. Kemur fram að ótímabært sé að meta varanlegar afleiðingar slyssins þar sem sterklega komi til greina að gera verði aðgerð á stefnanda sem kæmi til greina að gera þegar  hann væri orðinn 14 til 15 ára. Í kjölfarið fór fram hlutauppgjör 21. apríl 2004 og voru stefnanda þá greiddar bætur vegna þess tjóns sem mat var lagt á í þeirri matsgerð.

                Í síðari matsgerð framangreindra lækna, dagsettri 22. september 2010, er lagt mat á varanlegar afleiðingar vegna slyss stefnanda og er varanlegur miski metinn til 5 stiga en varanleg örorka talin vera engin. Fullnaðaruppgjör fór fram á grundvelli niðurstöðu matsmannanna 17. mars 2011. Er óumdeilt að fallist hafi verið á að ganga mætti frá uppgjöri á þessum grundvelli en í tjónskvittun vegna uppgjörsins kemur fram að það sé gert með fyrirvara um mat á varanlegum afleiðingum og frekari kröfu ef endurmat reynist hærra. Stefnandi leitaði álits örorkunefndar og er álitsgerð nefndarinnar dagsett 27. júlí 2011. Komst örorkunefnd að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda vegna umferðarslyssins teldist vera 10% en varanleg örorka væri metin til 10%. 

                Stefnandi byggir á því að skaðabótakrafa hans sé ófyrnd þar sem aðeins sé um að ræða viðbótarkröfu vegna álits örorkunefndar og sé það í fullu samræmi við fyrirvara í tjónsuppgjöri aðila. Þá byggir stefnandi á því að fyrning hafi verið rofin með innborgunum stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. Jafnframt hafi álits örorkunefndar verið aflað í fullu samráði við stefnda og hafi enginn áskilnaður verið gerður af hans hálfu um að byggt yrði á fyrningu, lægi niðurstaða nefndarinnar ekki fyrir áður en tíu ára fyrningarfrestur liði hinn 25. júní 2011.

                Þessu hafa stefndu mótmælt með vísan til þess að ákvæði 99. gr. umferðarlaga um upphaf tíu ára fyrningarfrests séu fortakslaus, auk þess sem ekki sé unnt að líta svo á að framangreindar greiðslur stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., hafi rofið fyrningarfrestinn þar sem um hafi verið að ræða greiðslur óumdeildrar skuldar og feli því ekki í sér viðurkenningu á hugsanlegu síðar metnu tjóni stefnanda.

                Eins og áður er rakið liggur fyrir að tjón það, sem stefnandi reisir bótakröfu sína á, verður rakið til umferðarslyss sem hann lenti í 25. júní 2001. Mál stefnanda á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., er höfðað 1. mars 2012 og á hendur stefndu, B, hinn 4. september 2012. Var þá liðinn tíu ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en ákvæðið er fortakslaust um það, að upphafstími hans miðast við tjónsatburð. Fyrir liggur að af hálfu stefnanda var ekki óskað eftir því við stefndu að fyrningarfresturinn yrði lengdur.

Ekki verður fallist á það með stefnanda að áðurnefndar greiðslur stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., til stefnanda 21. apríl 2004 og 17. mars 2011, sem greiddar voru á grundvelli niðurstöðu fyrirliggjandi matsgerða, feli í sér viðurkenningu á bótakröfu stefnanda, sem byggð er á álitsgerð örorkunefndar sem dagsett er 27. júlí 2011, eftir að tíu ár voru sannanlega liðin frá tjónsatburði, og hafi rofið hinn fortakslausa fyrningarfrest ákvæðisins. Breytir engu um þá niðurstöðu, hvort álits örorkunefndar var aflað án mótmæla frá stefndu eða hvort sérstakur áskilnaður var gerður af þeirra hálfu vegna þess. Þá verður ekki fallist á það með stefnanda að áðurgreindur fyrirvari hans í tjónskvittun vegna fullnaðaruppgjörs 17. mars 2011 um mat á varanlegum afleiðingum og frekari kröfu, ef endurmat reyndist hærra, breyti nokkru um þá niðurstöðu.

Samkvæmt framangreindu var tíu ára fyrningarfrestur liðinn, án þess að fyrning væri rofin með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir þegar stefnandi höfðaði mál þetta. Krafa stefnanda er því fallin niður fyrir fyrningu. Ber því, þegar af þeirri ástæðu, að sýkna stefndu af bótakröfu stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 650.000 krónur án virðisauka­skatts.

                Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., og sakaukastefnda, B, eru sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., 650.000 krónur án virðisaukaskatts.