Hæstiréttur íslands
Mál nr. 540/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Föstudaginn 17. september 2010. |
|
|
Nr. 540/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Arnar Kormákur Friðriksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. september 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að sér verði ekki gert að sæta einangrun á gæsluvarðhaldstíma.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um að varnaraðili skuli sæta gæsluvarðhaldi. Þá er einnig fallist á að rannsóknarhagsmunir leiði til þess að varnaraðila verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi hans stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 6. október n.k. kl. 16:00.
Þá er gerð krafa um að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú ætluð stórfelld brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og gegn peningaþvættisákvæði almennra hegningarlaga sbr. 264 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Upphaf þessa máls séu tilkynningar frá Íslandsbanka og frá Arion banka um peningafærslur sem hafi þótt grunsamlegar og ekki samrýmast upplýsingum og eða viðskiptum hjá reikningshöfum í bönkunum.
Við nánari skoðun lögreglu hafi komið í ljós að um hafi verið að ræða greiðslur inn og út af reikningum tveggja fyrirtækja A, kt. [...], og B, kt. [...]. Hafi reikningsyfirlit sýnt háar fjárgreiðslur frá tollstjóra inn á reikninga þessar tveggja fyrirtækja. Fjárhæðirnar hafi síðan smám saman verið teknar út af reikningunum fyrirtækjanna að mestu í reiðufé. Innlagnir og úttektir sem til rannsóknar séu hafi átt sér stað frá október 2009 til júní 2010.
Við upplýsingaöflun lögreglu m.a. hjá skattrannsóknarstjóra hafi komið í ljós að hinar háu greiðslur inn á reikningana hafi verið endurgreiðslur á innskatti vegna endurbóta á húsnæði en slíkar endurgreiðslur séu gerðar á grundvelli sérstakrar skráningar á virðisaukaskattsskrá skv. reglugerð nr. 577/1989. Við nánari eftirgrennslan um grundvöll þessara endurgreiðslna vöknuðu grunsemdir um að tilefni þeirra byggði á röngum og tilhæfulausum gögnum.
Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að það húsnæði sem félögin hafi fengið endurgreiddan innskatt af hafa aldrei hafa verið í eigu félaganna og/eða þeirra einstaklinga sem þeim tengjast. Endurgreiðslur til A, samtals að fjárhæð kr. 174.330.155 sé vegna endurbóta húsnæði að [...] í Reykjavík. Það húsnæði hafi skv. gögnum málsins aldrei verið í eigu A. Endurgreiðslur til B, samtals að fjárhæð kr. 103.000.000 hafi verið vegna endurbóta á iðnaðarhúsnæði að [...] í Reykjavík. Það húsnæði sé hins vegar í eigu annars félags, C, og virðist aldrei hafa verið í eigu B.
Sakborningur, X, sé sá starfsmaður í virðisaukaskattdeild skattstjóra sem hafi afgreitt erindi fyrrnefndra tveggja félaga um sérstaka skráningu og endurgreiðslu. Að mati lögreglu sé afgreiðsla þessara erinda afar grunsamleg.
Samkvæmt reglugerð nr. 577/1989 sé skylt að leggja fram ýmis gögn er sýni fram á eignarhald á húsnæði og fyrirhugaðar endurbætur áður en unnt er að afgreiða erindi um sérstaka skráningu og endurgreiðslu. Meðal þeirra gagna sem leggja þurfi fram séu kaupsamningar um húsnæðið. Sakborningur segist hafa móttekið þau gögn sem krafist sé skv. reglugerð m.a. kaupsamninga um húsnæði. Við leit hjá skattstjóra hafi hins vegar engin þau gögn fundist sem X segi að lögð hafi verið fram vegna fyrrnefndra félaga. Mappa sem innihaldi gögn í tengslum við A fannst en engin gögn hafi verið í möppunni. Mappa sem hafi átt að innihalda gögn varðandi B hafi ekki fundist. Ekki hafi fengist skýringar á því af hverju þessi gögn séu horfin. Þá þyki einnig grunsamlegt að áætlaðar endurbætur sem endurgreiðslan byggi á séu langt yfir fasteignamati þeirra eigna sem endurbæta átti. Hér hafi því verið um að ræða mjög háar greiðslur sem greiddar hafi verið úr ríkissjóði án þess að gögn hafi verið skoðuð nánar.
Að beiðni lögreglu hafi farið fram könnun á vegum skattrannsóknarstjóra ríkisins þar sem farið hafi verið yfir afgreiðslu X á umsóknum A og B um sérstaka skráningu. Í greinargerð skattrannsóknarstjóra, sem liggi fyrir meðal gagna málsins komi m.a. fram að engin gögn vegna mála félaganna tveggja hafi fundist. Við skoðun á afgreiðslu X á umsóknum um sérstaka skráningu komi í ljós að önnur mál sem X hafi séð um uppfylltu öll skilyrði og gögn vegna þeirra fundust á viðeigandi stöðum. Skjöl sem hafi komið inn vegna umsókna hafi verið skönnuð inn í málakerfi, GoPro en slíkt hafi ekki verið gert í tilviki B og A. Í greinargerðinni komi einnig fram að samkvæmt upplýsingum starfsmanns skattstjórans lokaði samstarfsmaður X númerum A 2010 og B vegna sérstakrar skráningar samkvæmt munnlegri beiðni frá X. Á þessu stigi málsins hafi ekki fundist gögn þar sem handhafar númeranna óski eftir að þeim yrði lokað. Vísist að öðru leyti í greinargerð skattrannsóknarstjóra.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu neiti X sök. Hafi hann sagst hafa afgreitt þessi erindi með venjubundnum hætti. Hann hefði fengið þau gögn sem krafist sé í hendur og samþykkt endurgreiðslur á grundvelli þeirra. Aðspurður um hvort hann hefði ekki gert einhvers konar könnun á lögmæti þeirra gagna sem honum bárust hafi hann neitað því.
Með vísan til framangreinds og til gagna málsins telji lögregla sig hafa rökstuddan grun um að sakborningur hafi tekið þátt í eða gert öðrum kleift þau umfangsmiklu brot gegn skattalögum sem hér um ræði þar sem sviknar hafa verið yfir 274 milljónir af ríkissjóði. Einnig kunni hann að hafa brotið gegn ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga er varði brot í opinberu starfi.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Að mati lögreglu sé uppi rökstuddur grunur um að sakborningur eigi aðild að því broti sem til rannsóknar er. Þegar hafi 7 aðilar verið handteknir í tengslum við málið og liggi fyrir umfangsmikil vinna við yfirheyrslur og gagnaöflun. Lögregla leiti nú samverkamanna sakbornings eins eða fleiri, m.a. þess aðila sem talinn sé hafa skipulagt brotin. Megi ætla að ef sakborningur verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa samband við ætlaða samverkamenn og koma undan gögnum. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að reyna að hafa uppi á þessum framangreindum aðilum og til að koma í veg fyrir að sakborningur geti spillt rannsókn málsins. Af framangreindum ástæðum sé einnig farið fram á að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi standi.
Meint sakarefni séu stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti en brotin séu talin geta varðað við almenn hegningarlög nr. 19/1940 og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Við þessum brotum liggur allt að 6 ára fangelsisrefsing. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Kærði hefur neitað sök. Hann afgreiddi erindi nefndra tveggja félaga um sérstaka skráningu þeirra og endurgreiðslu á innskatti. Engin gögn finnast vegna þessa. Þau hafa ekki verið skönnuð inn í skjalakerfið þrátt fyrir að það sé almenn verklagsregla. Um háar fjárhæðir er að ræða. Með vísan til þessa og þess sem að framan greinir, þykir kærði vera undir rökstuddum grun um brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og gegn peningaþvættisákvæði almennra hegningarlaga sbr. 264 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en það getur varðað hann fangelsisrefsingu.
Rannsókn málsins er á frumstigi og kærði var handtekinn í gærkvöldi. Í ljósi þessa þykir hætta á að kærði muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á vitni og samseka, fari hann frjáls ferða sinna.
Með vísan til þess sem að framan greinir svo og til rannsóknargagna málsins er fallist á að fullnægt sé skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 24. september nk. kl. 16:00.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 24. september n.k. kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.