Hæstiréttur íslands
Mál nr. 136/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
|
|
Föstudaginn 21. maí 2004. |
|
Nr. 136/2004. |
Úthlíð ehf. og Mótás hf. (Garðar Briem hrl.) gegn Lindarvatni ehf. (Pétur Þór Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing.
Ú ehf. og M hf. kröfðust þess að sýslumanni yrði gert að afmá úr veðmálabókum kauptilboð L ehf. um tilteknar lóðir og honum gert að þinglýsa á ný kaupsamningi og afsali um sömu lóðir milli Ú ehf. og M hf., sem afmáð var úr fasteignabók samkvæmt ákvörðun sýslumanns. Í málinu lá fyrir að kauptilboð L ehf. hafði verið móttekið til þinglýsingar á undan kaupsamningnum og afsalinu. Með vísan til 15. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 naut kauptilboð L ehf. forgangs og bar því að vísa kaupsamningnum og afsalinu frá þinglýsingu á grundvelli 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga. Þar sem það hafði ekki verið gert var talið að sú ákvörðun sýslumanns að afmá kaupsamninginn og afsalið úr fasteignabók hafi verið rétt. Var kröfu Ú ehf. og M hf. því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. apríl sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að sýslumanninum í Reykjavík yrði gert að afmá úr veðmálabókum kauptilboð varnaraðila 6. desember 2003 um tilteknar lóðir að Sóleyjarima í Reykjavík og honum gert að þinglýsa á ný kaupsamningi og afsali um sömu lóðir milli sóknaraðila 19. desember 2003, sem afmáð var úr fasteignabók samkvæmt ákvörðun sýslumannsins 13. janúar 2004. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreindri ákvörðun sýslumannsins verði hrundið. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Kemst krafa hans um málskostnað í héraði því ekki að fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðilar hafa lagt fyrir Hæstarétt tilkynningu til þinglýsingarstjóra 29. janúar 2004 um málskot til héraðsdóms í samræmi við 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Úthlíð ehf. og Mótás hf., greiði óskipt varnaraðila, Lindarvatni ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2004.
Í máli þessu er borin undir Héraðsdóm Reykjavíkur úrlausn þinglýsingarstjórans í Reykjavík, frá 13. janúar 2004, um þinglýsingu varðandi Sóleyjarima 19, 21 og 23 í Reykjavík. Beiðnin var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. janúar 2004. Málið var þingfest 6. febrúar 2004 og tekið til úrskurðar 18. febrúar 2004.
Sóknaraðilar eru Mótás ehf., kt. 580489-1259 og Úthlíð ehf., kt. 581298-3749, Dimmuhvarfi 27, Kópavogi.
Varnaraðili er Lindarvatn ehf., kt. 610593-2919, Borgartúni 27, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru eftirfarandi:
Að þinglýsingastjóranum í Reykjavík verði gert að afmá úr veðmálabókum kauptilboð Lindarvatns ehf., kt. 610593-2919, dagsett 6. desember 2003, með skilyrtu samþykki Úthlíðar ehf. um lóðirnar Sóleyjarima 19, Sóleyjarima 21, og Sóleyjarima 23 í Reykjavík.
Að þinglýsingastjóranum í Reykjavík verði gert að þinglýsa á ný kaupsamningi og afsali um sömu lóðir milli Úthlíðar ehf og Mótáss ehf., dagsettum 19. desember 2003, sem aflýst var í samræmi við ákvörðun þinglýsingarstjóra, dagsetta 13. janúar 2004.
Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er þess krafist, að staðfest verði ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, frá 13. janúar 2004, um að afmá úr fasteignabók afsal, með þinglýsinganúmeri B28808/2003, til Mótáss ehf.
Einnig krefst varnaraðili þess að sóknaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað.
Málsatvik
Sóknaraðili, Úthlíð ehf., varð eigandi allrar lóðarinnar Sóleyjarima 19, 21 og 23 á grundvelli kaupsamnings við Grænabæ ehf. í febrúar 2003. Hin þinglýsta eignarheimild Úthlíðar ehf. er svonefnt stofnskjal fasteigna í Reykjavík fyrir lóðirnar 1-23 við Sóleyjarima, dagsett 21. nóvember 2003, en skjalið var móttekið til þinglýsingar 25. nóvember 2003 og innfært sama dag.
Sóknaraðila, Úthlíð ehf., barst skriflegt tilboð í lóðina Sóleyjarima 1 í Reykjavík (Landsímalóð) 3. apríl 2003. Óumdeilt er að um var að ræða lóðirnar nr. 19, 21. og 23 við Sóleyjarima. Tilboðsgjafi var Helgi Rafnsson fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags og bauð hann 95.000.000 krónur í lóðirnar. Tilboðsgjafi gerði nokkra fyrirvara í tilboðinu, meðal annars um samþykki Búnaðarbanka Íslands varðandi afléttingu veðbanda. Þá gerði tilboðsgjafi þann fyrirvara að staðfesting fjármögnunar skyldi liggja fyrir eigi síðar en 10. apríl 2003 en að öðrum kosti félli kauptilboðið niður. Kauptilboðið var áritað um samþykki af hálfu Úthlíðar ehf. innan samþykkisfrests.
Verulegur dráttur varð á að tilboðsgjafi lyki þeirri fjármögnun sem áskilin var í hinu samþykkta kauptilboði og fór svo að Forsvarsmenn Úthlíðar ehf. urðu óþolinmóðir. Fyrir milligöngu fasteignasölunnar Hússins var Helga Rafnssyni veittur frestur til kl. 16.00 miðvikudaginn 8. desember 2003 til þess að leggja fram staðfestingu um fjármögnun frá lánastofnun fyrir greiðslu kaupverðs lóðarinnar ella teldist tilboðið ógilt.
Fram hefur verið lagt í málinu skjal sem ber yfirskriftina „TILBOÐ -- GAGNBOÐ --" Skjalið er gert fyrir milligöngu fasteignasölunnar Stórhúss ehf. Tilboð þetta er í raun gagntilboð sóknaraðila Úthlíðar ehf. til varnaraðila Lindarvatns ehf. varðandi sömu lóð og Helgi Rafnsson hafði áður gert tilboð í vegna óstofnaðs hlutafélags. Tilboðsfjárhæðin var 93.600.000 krónur. Af hálfu Úthlíðar ehf. var gerður eftirfarandi fyrirvari:
„Gagnboð þetta er undirritað að hálfu seljanda með þeim fyrirvara að fyrra kauptilboð um sömu lóð við Helga Rafnsson, kt. 220854-5669, og Friðrik Hansen Guðmundsson, kt. 041258-2459, f. hönd óstofnaðs hlutafélags verði ekki uppfyllt. Fyrri kaupandi hefur frest til kl. 16.00 þann 08. 12. 2003 til þess að uppfylla kauptilboðið, en að þeim tíma liðnum öðlast gagnboð þetta gildi hafi hann ekki greitt seljanda andvirði lóðarinnar."
Í niðurlagi 2. gr. gagnboðsins sagði að kaupandi byggði útborgunargreiðslu á láni frá lánastofnun og ef tilboðið yrði samþykkt myndi staðfesting á útborgunargreiðslu frá lánastofnun liggja fyrir innan sjö daga frá samþykki tilboðsins. Að öðrum kosti teldist tilboðið ógilt og niður fallið. Í 5. gr. gagntilboðsins var ákvæði um að aðilar væru sammála um að seljandi annaðist alla jarðvinnu á hinu selda. Endurgjald skyldi miðast við almennt markaðsverð á rúmmetra og myndu kaupandi og seljandi gera með sér sérstakan viðauka varðandi jarðverktöku. Forsenda kaupanna væri að aðilar kæmust að samkomulagi, samhliða samþykki kauptilboðs, varðandi einingarverð, tímasetningar og annað varðandi jarðvinnuna og skyldi það skoðast sem hluti af kauptilboðinu.
Gagnboðið var samþykkt af hálfu varnaraðila 6. desember 2003 með áritun á tilboðsblaðið.
Í málinu liggur fyrir eintak af fyrrnefndu tilboði Helga Rafnssonar, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, þar sem eftirfarandi hefur verið skrifað neðan við meginmál tilboðsins. „Reykjavík 8. 12. 2003. Kauptilboð þetta er framselt með öllum réttindum og skyldum til Mótás hf. 580489-1259 og með samþykki samningsaðila." Undir þetta rituðu nefndur Helgi, fyrirsvarsmenn Úthlíðar ehf og fyrirsvarsmenn Mótáss ehf.
Lögð hefur verið fram í málinu staðfesting frá Íslandsbanka, útibúi 0526, Suðurlandsbraut 30, dagsett 8. desember 2003, þess efnis að næg innistæða væri fyrir hendi á reikningi Mótáss ehf. í bankanum til þess að ganga frá kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 86.000.000 krónur. Þá liggur fyrir yfirlýsing Óskars Sigurmundssonar starfsmanns fasteignasölunnar Hússins um að staðfesting bankans um þessa fjármögnun hefði borist umræddan dag fyrir kl. 16.00.
Í framhaldinu gerðu sóknaraðilar með sér kaupsamning og afsal vegna lóðanna Sóleyjarima 19, 21 og 23. Fram kom að lóðirnar væru hluti af Sóleyjarima 1-23 í Reykjavík. Skjalið var undirritað 19. desember 2003, móttekið til þinglýsingar 19. desember 2003 og innfært 22. desember 2003. Kaupverðið var tilgreint 85.500.000 krónur í stað 96.000.000 milljóna í upphaflegu tilboði og er verðlækkunin til komin vegna þess að samkvæmt tilboðinu var gert ráð fyrir hægt væri að koma fyrir 50 íbúðum á lóðinni en í kaupsamningnum var fjöldi þeirra kominn niður í 45.
Forsvarsmenn varnaraðila fengu veður af því að sóknaraðili, Úthlíð ehf., stæði í samningsgerð við annan aðila. Fyrir liggur í málinu að hið samþykkta gagnboð var móttekið til þinglýsingar hjá Sýslumanninum í Reykjavík 9. desember 2003. Skjalið var innfært í þinglýsingabækur 23. desember 2003. Ritað var á skjalið að því væri þinglýst sem yfirlýsing á Sóleyjarima 19, 21 og 23 með fyrirvara vegna veðskuldabréfs að nafnverði 500.000.000 krónur.
Sóknaraðila, Úthlíð ehf., barst símskeyti frá Stórhúsi ehf., að kvöldi 15. desember 2003, þar sem skorað var á forsvarsmenn félagsins að koma til fundar til að undirrita kaupsamning við varnaraðila á grundvelli boðsins. Í skeyti þessu er staðhæft að fyrir lægi yfirlýsing um fjármögnun og einnig staðhæft að kaupandi hefði látið þinglýsa kauptilboðinu.
Af hálfu sóknaraðila Úthlíðar ehf. er því haldið fram að þessu skeyti hafi verið svarað munnlega á þann veg að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við Mótás ehf. á grundvelli hins fyrra boðs, sem framselt hafði verið til þess félags.
Á veðbandayfirliti sem fyrirsvarsmenn sóknaraðila, Mótáss ehf., öfluðu sér 2. janúar 2004 kom fram að hinu samþykkta gagnboði hefði verið þinglýst. Stefán Hrafn Stefánsson hdl. ritaði síðan bréf til Sýslumannsins í Reykjavík, fyrir hönd Mótáss ehf., 5. janúar 2004 og krafðist þess að skjalinu yrði aflýst þar sem það hefði ekkert gildi, enda hefði kaupsamningi og afsali til Mótáss ehf. verið þinglýst athugasemdalaust. Vísað var til þess að Mótás ehf. nyti forgangs í þinglýsingarröð auk þess sem enginn samningur hefði stofnast á milli Úthlíðar ehf. og varnaraðila.
Þórarinn Jónsson hdl. sendi þinglýsingastjóra bréf dagsett 6. janúar 2004, f.h. varnaraðila, þar sem vakin var athygli á því að kaupsamningi og afsali Úthlíðar ehf. til Mótáss ehf. hefði verið þinglýst í bága við rétt varnaraðila og óskað leiðréttingar á þeim mistökum með vísan til 27. gr. þinglýsingalaga.
Lögmaður Úthlíðar ehf. sendi deildarstjóra þinglýsingadeildar símbréf 9. janúar 2004, þar sem vísað var til meðfylgjandi símskeytis lögmannsins til fasteignasölunnar Stórhúss, dagsetts 7. janúar 2004, sem hafði að geyma yfirlýsingu um að tilboðið hefði enga þýðingu.
Deildarstjóri þinglýsingardeildar embættisins ritaði bréf, dagsett 13. janúar 2004, í tilefni af bréfum Þórarins Jónssonar hdl. og Stefáns Hrafns Stefánssonar hdl. f.h. Mótáss ehf., þar tilkynnt var sú ákvörðun að kaupsamningur og afsal til Mótáss ehf hefði verið afmáð úr þinglýsingarbókum og að beiðni um aflýsingu fyrrnefnds samþykkts gagntilboðs hefði verið hafnað. Deildarstjóri sýslumanns sendi lögmönnum varnaraðila og Úthlíðar ehf. afrit þessa bréfs.
Málsástæður og lagarök
Sóknaraðilar telja að gagnboð það sem Úthlíð ehf. hafi gert varnaraðila, Lindarvatni ehf., hafi enga þýðingu og að þinglýsingastjóra beri að afmá það úr þinglýsingabókum. Gagnboðið hafi haft að geyma veigamikla fyrirvara af hálfu beggja aðila.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að tilboð Helga Rafnssonar fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags hafi verið framselt með löglegum hætti til fyrirtækisins Mótáss ehf. með algerlega óbreyttum skilmálum og það fyrirtæki hafi fengið staðfestingu frá lánastofnun fyrir kl. 16.00 hinn 8. desember 2003 um að það ætti nægjanlegt fé til þess að greiða kaupverðið. Sóknaraðilar vísa til staðfestingar Óskars Sigurmundssonar fasteignasala um að staðfestingin hafi borist fyrir kl. 16.00 og yfirlýsingar Íslandsbanka hf. um að klukkan í faxtæki hafi ekki verið rétt stillt og útskrift á símbréfi sé þannig ekki sönnun þess að símbréfið hafi verið sent eftir kl. 16.00.
Kauptilboðið hafi upphaflega verið gert af Helga Rafnssyni fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags. Fyrirsvarsmaður Lindarvatns ehf. hafi þannig vitað að annar aðili myndi kaupa eignina en sá sem undirritað hafi tilboðið. Engu breyti því varðandi gildi umrædds kaupsamnings og afsals að búið hafi verið að stofna hlutafélagið Mótás ehf. þegar framsal tilboðsins hafi átt sér stað. Vilji Helga hafi staðið til þess að framselja tilboðið óbreytt með sömu skilmálum en framsöl á rétti samkvæmt tilboðum séu heimil og algeng. Úthlíð ehf. hafi verið heimilt að samþykkja framsalið og samþykkið hafi rúmast innan þess fyrirvara sem félagið hafi gert við gagnboð sitt gagnvart varnaraðila. Með hliðsjón af því að tilboðið hafi verið opið varðandi það við hvaða aðila samningur yrði gerður á grundvelli tilboðsins hefði það ekki átt að hafa áhrif á þinglýsingu skjalsins að kaupandi samkvæmt kaupsamningi og afsali var annar en sá aðili sem tilboðið stafaði upphaflega frá. Óþarft hafi því verið að geta um framsal tilboðsins í kaupsamningi og afsali.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að tilboð það, sem með óskýrum og ónákvæmum hætti hafi verið vísað til í fyrirvara í gagnboði til varnaraðila, hafi verið framselt til Mótáss ehf. og fjármögnunarstaðfesting fengin innan þess tímamarks sem í fyrirvaranum greindi. Hafi því verið litið á gagnboðið sem markleysu og Agnari Agnarssyni, fasteignasala hjá Stóreign verið tilkynnt um það munnlega að það væri úr gildi fallinn.
Af hálfu sóknaraðila er jafnframt bent á að skilyrði í 5. gr. gagnboðsins til varnaraðila um samkomulag um jarðvinnu hafi ekki verið uppfyllt en það hafi verið forsenda kaupanna af hálfu Úthlíðar ehf. samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins. Annar þeirra aðila sem staðið hafi að Úthlíð ehf. sé fyrirtæki á sviði jarðvegsframkvæmda og samningur um jarðvinnu því mikilvæg forsenda fyrir því að samningur kæmist á. Enginn jarðvinnusamningur eða neitt samkomulag um jarðvinnu hafi verið gert milli samningsaðila og enginn gagnboðið því aldrei orðið skuldbindandi.
Þá er bent á að það skilyrði í 2. gr. tilboðsins, að kaupandi sýndi fram á að útborgunargreiðsla væri til staðar, hafi ekki verið uppfyllt í tæka tíð. Í símskeyti sem Stórhús hafi sent 15. desember 2003 hafi verið staðhæft að staðfesting um fjármögnun hefði borist en fyrirsvarsmönnum Úthlíðar ehf. hafi engin slík staðfesting verið sýnd fyrr en með faxbréfi sem lögmanni Úthlíðar ehf. hafi borist frá fasteignasölunni Eignanaust 20. janúar 2004. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að miða verði við að staðfesting á fjármögnun hafi ekki borist þeim fyrr en þann dag. Samkvæmt fyrrnefndri 2. gr. hafi varnaraðila verið veittur sjö daga frestur frá samþykki kauptilboðs til að afla staðfestingar á fjármögnun. Tilboðið hafi verið samþykkt með nefndum skilyrðum 6. desember 2003 og því hafi verið liðnir meira en sjö dagar þegar skeytið hafi borist.
Byggt er á því af hálfu sóknaraðila að sú ákvörðun þinglýsingarstjóra að þinglýsa gagnboðinu hafi verið röng þar sem skjalið hafi haft að geyma mikilvæga fyrirvara. Á þinglýsingastjóra hafi í öllu falli hvílt sú skylda að framkvæma lágmarks könnun á því hvort hin veigamiklu skilyrði hefðu verið uppfyllt. Sérstaklega beri að horfa til þess að löglegur kaupsamningur og afsal hafði borist embættinu áður en tilboði varnaraðila var þinglýst og hafi þinglýsingastjóra borið að kanna sérstaklega ástæður þess.
Sóknaraðilar telja það engu hafa átt að breyta að þess hafi ekki verið getið í kaupsamningi og afsali Úthlíðar ehf til Mótáss ehf. að framsal kauptilboðs hefði átt sér stað, enda hafi Agnari Agnarssyni fasteignasala verið kunngjört um það framsal og staðfestingu fjármögnunar strax eftir kl. 16.00 hinn 8. desember og þá hafi verið litið svo á að gildi tilboðs varnaraðila væri niður fallið. Því hafi verið treyst að Agnar hefði kunngjört fyrirsvarsmanni varnaraðila um það. Við skoðun veðbandayfirlita við gerð umrædds kaupsamnings og afsals hafi engar athugsemdir sést um tilboð varnaraðila og því eðlilegt að líta svo á að staðhæfingar Agnars í símskeyti 15. desember um þinglýsingu þess væru úr lausu lofti gripnar.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að þeir hafi treyst því, eftir að kaupsamningi og afsali hafði verið þinglýst athugasemdalaust, að tilboðinu hefði verið vísað frá þinglýsingu. Það hafi því komið þeim verulega á óvart þegar þeir hefðu fengið vitneskju um það í byrjun janúar að skjalinu hefði verið þinglýst.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að umrætt gagnboð, sem þinglýsingastjóri hafi ákveðið að þinglýsa á eignina, uppfylli ekki þau skilyrði sem þinglýsingalög hafi að geyma um heimildarskjöl yfir fasteign. Samkvæmt 23. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 megi skjal vera bundið skilorði en efni þess verður þó að vera endanlega ákveðið til þess að því megi þinglýsa. Í umræddum tilboði hafi verið svo margir og viðamiklir fyrirvarar um gildi þess að það verði ekki lagt að jöfnu við bindandi kaupsamning. Sá fyrirvari sem Úthlíð ehf. hafi gert varðandi uppfyllingu á fyrra tilboði og sú staðreynd að það tilboð hafi verið uppfyllt innan uppgefinna tímamarka hafi leitt til þess að síðara tilboðið hafi í raun aldrei öðlast gildi. Sama megi segja um framangreindan fyrirvara um samningsgerð varðandi jarðvinnu og um staðfestingu á fjármögnun af hálfu varnaraðila. Bindandi samningur hafi ekki komist á milli aðila með tilboðinu. Efni síðara tilboðsins hafi því alls ekki verið endanlega ákveðið og því hafi sýslumanni verið óheimilt að þinglýsa skjalinu.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga styðji það að ekki hafi átt að þinglýsa síðara kauptilboðinu en í ákvæðinu sé mælt fyrir um að vísa skuli skjali frá þinglýsingu ef ekki sé ótvírætt við hvaða eign skjal eigi, hvaða aðila skjal varði eða hvert efni þess sé að öðru leyti.
Af hálfu sóknaraðila er þeirri varnarástæðu varnaraðila mótmælt sem of seint fram kominni að gagnboð hans til varnaraðila hafi öðlast gildi þar sem andvirði lóðarinnar hafi ekki verið greitt fyrir það tímamark sem sett var í fyrirvara Úthlíðar ehf. Þessari málsástæðu hafi verið teflt fram við munnlegan flutning málsins en ekki hafi verið að henni vikið í greinargerð varnaraðila.
Af hálfu varnaraðila er byggt á því að hann hafi, á grundvelli upplýsinga frá Agnari Agnarssyni löggiltum fasteignasala um að lóðir við Sóleyjarima í Reykjavík væru til sölu á vegum sóknaraðilans Úthlíðar ehf., gert kauptilboð í lóðirnar í byrjun desember 2003 fyrir milligöngu fasteignasalans. Því tilboði hafi verið hafnað, en tilboðshafinn gert gagnboð með fyrirvara 5. desember 2003. Varnaraðili hafi tekið þessu tilboði daginn eftir með áritun sinni á gagnboðið. Þar með hafi verið kominn á bindandi kaupsamningur með aðilum með þeim eina fyrirvara af hálfu seljanda að fyrra kauptilboð um sömu lóð við Helga Rafnsson og Friðrik Hansen Guðmundsson fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags yrði ekki uppfyllt. Í fyrirvaranum hafi því verið nákvæmlega lýst að fyrri kaupandi hefði frest til kl. 16:00 hinn 8. desember 2003 til að uppfylla kauptilboðið en að þeim tíma liðnum öðlast gagnboðið gildi hefði hann ekki greitt seljanda andvirði lóðarinnar.
Varnaraðili bendir á að sá samningur við Helga Rafnsson og Friðrik Hansen Guðmundsson sem vísað sé til í fyrirvaranum hafi ekki verið lagður fram í málinu svo séð verði. Hvorki varnaraðila né fasteignasalanum hafi borist tilkynning um efndir fyrri viðsemjenda fyrir kl. 16 hinn 8. desember. Skömmu eftir kl. 16 þann dag hafi fasteignasalinn fengið veður af því frá sölumanni á fasteignasölunni Húsinu að sóknaraðilinn Úthlíð ehf. væri að selja sóknaraðilanum Mótási ehf. lóðirnar. Því til staðfestingar hafi hann sent í símbréfi ljósrit af yfirlýsingu frá Íslandsbanka hf. Útprentun úr bréfsíma um tímasetningu sendingarinnar sýni að skjalið hafi verið sent í símbréfi úr bankanum kl. 16:05 þennan dag. Yfirlýsing fasteignasalans Óskars Sigurmundssonar um að hann hafi móttekið símbréf frá Íslandsbanka hf. þar sem fram hafi komið að fjármagn væri fyrir hendi til kaupa 45 lóða við Sóleyjarima 19, 21 og 23 hefði því augljóslega verið röng.
Þegar varnaraðila hafi orðið ljóst að sóknaraðilinn Úthlíð ehf. hafi verið að leitast við að komast undan samningsskyldum sínum hafi hann lagt kaupsamninginn inn til þinglýsingar 9. desember 2003 í því skyni að gæta hagsmuna sinna.
Varnaraðili hafi gætt þess að efna allar sínar skyldur og því aflað yfirlýsingar, dagsettrar 12. desember 2003, um fjármögnun kaupanna en það hafi verið vel innan þeirra sjö daga sem áskilnaður hafi verið um samkvæmt 2. gr. gagnboðs Úthlíðar ehf. Hafi sóknaraðilanum Úthlíð ehf. verið sent skeyti 15. desember 2003 þar sem meðal annars hafi verið getið um þá yfirlýsingu en það hafi einnig verið innan sjö daga frestsins. Upphaf þess frest verði að miða við 8. desember 2003 þegar gagnboðið hafi endanlega orðið skuldbindandi.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að krafa hans byggi fyrst og fremst á meginreglu 15. greinar þinglýsingalaga nr. 39/1978 um forgangsáhrif þinglýsingar. Í því ákvæði sé skýrt kveðið á um að forgangsáhrifin teljist frá þeim degi þegar skjal sé afhent til þinglýsingar, enda sé það tækt til þinglýsingar.
Hið samþykkta gagnboð frá Úthlíð ehf. til varnaraðila hafi verið móttekið til þinglýsingar 9. desember 2003. Skjalið hafi augljóslega verið tækt til þinglýsingar að mati þinglýsingarstjóra því það hafi verið innfært 23. desember 2003. Það skjal, sem sóknaraðilar geri kröfu um að þinglýsingastjóra verði gert að þinglýsa á ný hafi verið móttekið til þinglýsingar 19. desember 2003 og hafi síðan fyrir mistök verið innfært 22. desember 2003. Ákvörðun þinglýsingarstjóra um að bæta úr, er hann hafi orðið þess áskynja að mistök höfðu orðið, hafi því augljóslega verið hárrétt og verði ekki haggað.
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að í 7. grein þinglýsingalaga sé því að nokkru lýst að hverju skuli huga við mat á því hvort skjal sé tækt til þinglýsingar. Hvorki sé kveðið á um það þar né annars staðar í lögunum að kaupsamningur um fasteign sé ekki tækur til þinglýsingar ef hann sé bundinn skilyrði, enda algengt að slíkum skjölum sé þinglýst. Það er því fráleitt að þinglýsingarstjóra hafi borið að kanna sjálfstætt hvort eitthvað atvik hafi gengið eftir eða ekki.
Af úrlausn þinglýsingarstjóra megi einnig ráða að kaupsamningi og afsali málsaðila hefði verið vísað frá þinglýsingu ef frá upphafi hefði verið gætt að þinglýsingargildi samnings varnaraðila og sóknaraðilans Úthlíðar ehf. Þetta eigi enn frekar við ef litið er til þess að viðsemjandi Úthlíðar ehf., samkvæmt kaupsamningnum og afsalinu, sé allt annar en þeir einstaklingar sem nafngreindir hafi verið í fyrirvaranum í hinu samþykkta gagnboði. Hefði verið hugað að fyrirvaranum hefði kaupsamningur og afal sóknaraðila Mótáss ehf. verið skjalfest sönnun þess að fyrirvarinn væri niður fallinn.
Varnaraðili mótmælir því að fyrirvari sóknaraðilans Úthlíðar ehf í gagnboðinu hafi haldið og hafi sóknaraðilar ekki reynt að sýna fram á að þau atvik hafi gerst sem áskilin hafi verið í fyrirvaranum. Um hafi verið að ræða fyrirvara sem sóknaraðili Úthlíð ehf. hafi sjálfur samið og því hafi það atvik orðið að gerast nákvæmlega eins og lýst hafi verið í fyrirvaranum til þess að samningurinn yrði óskuldbindandi fyrir Úthlíð ehf.. Skuldbindingargildi hins samþykkta gagnboðs, hvað sóknaraðilann Úthlíð ehf. varðar gagnvart varnaraðila, sé ótvírætt því það atvik sem fyrirvarinn hafi verið bundinn við hafi ekki gengið eftir. Framlögð skjöl beri það ótvírætt með sér þeir tveir tilgreindu einstaklingar sem vísað sé til í fyrirvaranum hafi ekki greitt kaupverðið til Úthlíðar ehf. fyrir kl. 16:00 hinn 8. desember 2003.
Þá mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að hann hafi ekki efnt skyldur sínar samkvæmt hinu samþykkta gagnboði. Yfirlýsingar um fjármögnun hafi verið aflað innan tilskilinna tímamarka og sóknaraðilinn Úthlíð ehf. átt þess kost að sjá hana strax. Þá kveður hann ákvæði 5. gr. gagnboðsins nægjanlega ákveðið til þess að seljandi væri bundinn af því. Á endanlega útfærslu á þessu ákvæði hafi ekki reynt þar sem Úthlíð ehf. hafi neitað að ganga til kaupsamningsgerðar. Varnaraðili kveður algengt að samningsaðilar setji ýmis skilyrði í samninga um kaup á fasteignum. Það komi hins vegar ekki í veg fyrir að heimilt sé að þinglýsa slíkum samningum sem eignarheimild.
Varnaraðili telur að efni umrædds gagnboðs hafa verið endanlega ákveðið og hafi 23. gr. þinglýsingalaga ekki átt að koma í veg fyrir að því yrði þinglýst. Á sama hátt hafi verið ótvírætt hvert efni skjalsins hafi verið þannig að ekki hafi borið að vísa því frá dagbók á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að í greinargerð hans hafi fyrirvarinn í gagnboði Úthlíðar ehf. verið orðrétt tekinn upp og byggt á því að þeir einstaklingar sem nefndir hafi verið í fyrirvaranum hafi ekki efnt samning sinn fyrir kl. 16 hinn 8. desember 2003. Þar hafi að sjálfsögðu verið átt við að þeir aðilar sem nefndir hafi verið í fyrirvaranum hafi ekki staðið að kaupsamningi og afsali og að sú greiðsla sem berast hafi átt fyrir tímamarkið hafi ekki borist. Í því hafi að sjálfsögðu falist mótmæli við því að yfirlýsing banka um inneign kaupanda jafngilti greiðslu. Varnaraðili kveður Úthlíð ehf. hafa orðað umræddan fyrirvara og verði að túlka hann samkvæmt orðanna hljóðan. Engu máli skipti þótt lóðirnar hafi verið veðsettar þar sem samningsaðilum hafi verið í lófa lagið að afla veðleyfis hjá veðhafa, gegn framsali á greiðslu kaupverðsins, til þess að greiðsla gæti farið fram. Sú málsástæða varnaraðila að greiðsla hafi ekki borist fyrir þann tíma sem greindur var í fyrirvaranum hafi því komið fram strax í greinargerð og verði því að hafna því sjónarmiði sóknaraðila að hún sé of seint fram komin.
Niðurstaða
Sóknaraðilar hafa á grundvelli heimildar í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur þinglýsingu á samþykktu gagnboði sóknaraðila Úthlíðar ehf. til varnaraðila Lindarvatns ehf. við tilboði varnaraðili í lóðir nr. 19, 21 og 23 við Sóleyjarima í Reykjavík. Skjalið var móttekið til þinglýsingar 9. desember 2003 og innfært í þinglýsingabækur 23. sama mánaðar. Einnig hafa þeir skotið til dómsins þeirri ákvörðun þinglýsingastjórans í Reykjavík frá 13. janúar 2004, að afmá úr fasteignabók kaupsamning og afsal Úthlíðar ehf. til Mótáss ehf., vegna sömu lóða, dagsett 19. desember 2003, en skjalið var móttekið til þinglýsingar 19. desember 2003 og innfært í þinglýsingabók 22. sama mánaðar.
Sóknaraðilar kveðast hafa fengið vitneskju um þinglýsingu kauptilboðsins þegar þeir hafi fengið afhent veðbandayfirlit vegna umræddra lóða 2. janúar 2003. Þar sem umrætt málskot barst Héraðsdómi Reykjavíkur 29. janúar 2004 teljast úrlausnir þinglýsingastjóra hafa verið bornar undir dóm innan þess fjögurra vikna frests sem áskilinn er í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga.
Í málinu hefur ekki verið lögð fram sérstök skrifleg tilkynning til þinglýsingastjóra um málskot til héraðsdóms eins og gert er ráð fyrir samkvæmt 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga. Í málinu hafa hins vegar verið lögð fram staðfest endurrit frá sýslumanninum í Reykjavík af þeim skjölum sem máli skipta. Þá hafa verið lagðar fram útprentanir úr tölvutæku þinglýsingakerfi sýslumanns sem sýna meðal annars að hið samþykkta kauptilboð við varnaraðila var þinglýst 23. desember 2003 sem athugasemd á umræddar þrjár lóðir og að afsal Úthlíðar ehf. til Mótáss ehf. var aflýst af umræddum eignum 14. janúar 2004, með vísan til bréfs þinglýsingastjóra frá 13. janúar 2004. Þá bera þessi gögn með sér að 5. febrúar 2004 var þinglýst á eignirnar þeirri athugasemd að úrlausn þinglýsingastjóra um þinglýsingu kauptilboðs Lindarvatns ehf. hefði verið borin undir héraðsdóm.
Með vísan til framangreinds þykir ekki koma að sök þótt fyrirmælum 4. og 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga hafi ekki verið fylgt nákvæmlega við málskotið, enda hafa málsaðilar ekki gert athugasemdir þar að lútandi.
Við meðferð máls á grundvelli 3. gr. þinglýsingalaga verður ekki skorið úr öðrum álitaefnum en þeim er varða úrlausn þinglýsingastjóra um þinglýsinguna.
Fyrir liggur að hið samþykkta gagnboð sóknaraðila Úthlíðar ehf. til varnaraðila var móttekið til þinglýsingar 9. desember 2003 en kaupsamningur og afsal milli sóknaraðila var ekki móttekið til þinglýsingar fyrr en 19. sama mánaðar. Samkvæmt 15. gr. þinglýsingarlaga teljast forgangsáhrif þinglýsingar frá þeim degi er skal var afhent til þinglýsingar, enda sé skjalið tækt til þinglýsingar.
Óumdeilt er að umrætt kauptilboð, sem nefnt hefur verið gagnboð hér að framan, var gagntilboð Úthlíðar ehf. við tilboði sem Lindarvatn ehf. hafði gert í umræddar lóðir. Það tilboð liggur hins vegar ekki fyrir í málinu. Gagnboð þetta var undirritað af hálfu fyrirsvarsmanna Úthlíðar ehf. með fyrirvara sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Túlka verður fyrirvarann þannig að gagnboðið yrði ekki endanlega skuldbindandi fyrr en 8. desember 2003 kl. 16.00 og þá því aðeins að fyrir þann tíma hefði fyrra tilboð um sömu lóð, við tvo nafngreinda einstaklinga fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, ekki verið uppfyllt með þeim hætti að fyrri kaupandi hefði greitt seljanda andvirði lóðarinnar.
Gagnboðið var sem fyrr segir móttekið til þinglýsingar 9. desember 2003. Í fyrrgreindu bréfi Þóris Hallgrímssonar aðstoðardeildarstjóra þinglýsinga- og skráningardeildar við embætti Sýslumannsins í Reykjavík frá 13. janúar 2004 segir að í kauptilboði Úthlíðar ehf. og Lindarvatns ehf. hefðu lóðirnar ekki fengið nægjanlega sérgreiningu en fljótlega hafi fengist skýringar á því hvað raunverulega hafi verið að selja. Fyrir vangá hafi kauptilboðið ekki verið fært inn á ofangreindar eignir fyrir móttöku og þinglýsingu afsalsins til Mótáss ehf.
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga er það meginregla að vísa skal skjali frá þinglýsingu ef útgefanda þess brestur þinglýsta heimild til ráðstöfunar eignar á þann veg er í skjali greinir. Þinglýsta eignarheimild hefur sá sem þinglýsingabók nefnir eiganda. Þinglýstur kaupsamningur veitir kaupanda vernd gegn ráðstöfunum seljanda sem fara í bága við kaupsamninginn.
Í 1. mgr. 7. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 segir að samningur um kaup á fasteign sé bindandi þegar skriflegt tilboð hafi verið samþykkt af móttakanda þess með undirskrift, enda felist í því skuldbinding um greiðslu tilgreinds kaupverðs og afhendingu fasteignar.
Samkvæmt framangreindu telst samþykkt tilboð eða eftir atvikum samþykkt gagntilboð fela í sér að kaupsamningur um fasteign telst kominn á og á afhending slíks skjals til þinglýsingar að koma í veg fyrir að seljandi geti látið þinglýsa kaupsamningi til annars aðila. Samkvæmt 15. gr. þinglýsingalaga er það þó skilyrði þess að kauptilboðið fái forgangsáhrif að það sé tækt til þinglýsingar.
Í máli þessu liggur sem fyrr segir fyrir tilboð Helga Rafnssonar fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags til Úthlíðar ehf. um kaup á umræddum lóðum en tilboðið var samþykkt 3. apríl 2003. Sem fyrr segir var ekki staðið við tilboðið af hálfu kaupanda og kaupanda veittur lokafrestur til þess að standa við það til 8. desember 2003 kl. 16.00. Á því eintaki tilboðsins sem lagt hefur verið fram er ritað að kauptilboðið sé framselt með öllum réttindum og skyldum til Mótáss ehf. með samþykki samningsaðila og er framsalið dagsett 8. desember 2003. Á skjalinu er hins vegar ekki að finna neina staðfestingu á að kaupverð hafi verið greitt eins og áskilið var í fyrirvara þeim sem Úthlíð ehf. gerði í gagnboði til varnaraðila. Þetta kauptilboð Helga Rafnssonar var aldrei afhent til þinglýsingar og hefur það því ekki áhrif við endurskoðun á þeirri ákvörðun þinglýsingastjóra að þinglýsa hinu samþykkta gagnboði.
Í kauptilboð um fasteignir er tíðkanlegt að setja ýmis skilyrði auk þess sem sá almenni fyrirvari gildir um endanlega yfirfærslu að kaupverðið sé greitt. Það að þau atvik gerast sem umrædd skilyrði eða fyrirvarar lúta að getur orðið þess valdandi að ekki kemur til efnda á samningi í samræmi við efni hans.
Þrátt fyrir þann fyrirvara sem Úthlíð ehf. gerði um endanlegt gildi hins skriflega gagnboðs var við samþykki varnaraðila 6. desember 2003 kominn á bindandi kaupsamningur, frá 8. desember 2003 að telja, sem formlega séð var til þess fallið að stuðla að yfirfærslu eignarréttar að fasteigninni að telja að tilteknum skilyrðum fullnægðum.
Hvað varðar 2. gr. tilboðsins um staðfestingu lánastofnunar á fjármögnun og 5. gr. um að samkomulag varðandi jarðvinnu yrði hluti af kauptilboðinu, er það að segja að um var að ræða skilyrði sem gátu komið í veg fyrir að kaupsamningur aðila yrði skuldbindandi fyrir Úthlíð ehf.
Með hliðsjón af framangreindu verður ekki fallist á með sóknaraðilum að umrædd skilyrði hins samþykkta gagnboðs hafi verið þess eðlis að efni skjalsins hafi af þeim sökum talist tvírætt og því hafi borið að vísa því frá dagbók á grundvelli f-liðs 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga.
Þinglýsingastjóri gat ekki ráðið af umræddu gagnboði hvort þau atvik hefðu komið fram eða myndu koma fram sem Úthlíð ehf. gerði að skilyrði fyrir því að gagnboðið öðlaðist endanlegt gildi og var ekki rétt að hefja rannsókn á því. Þrátt fyrir þennan fyrirvara um endanlegt gildi gagnboðsins og ágreining málsaðila um það hvort þau atvik hafi komið fram sem fyrirvarinn laut að verður ekki fallist á með sóknaraðilum að efni umrædds skjals hafi ekki verið endanlega ákveðið þannig að borið hafi að vísa því frá þinglýsingu á grundvelli 23. gr. þinglýsingalaga.
Kaupsamningur og afsal Úthlíðar ehf. til Mótáss ehf. og önnur gögn sem þinglýsingastjóri hafði undir höndum, bar það ekki skýrlega með sér að vera staðfesting þess að þeir atburðir hefðu gerst sem fyrirvari Úthlíðar ehf. í gagnboðinu laut að. Er þar bæði til þess að líta að kaupsamningurinn og afsalið var undirritað 19. desember 2003 eða 11 dögum eftir að frestur samkvæmt fyrirvaranum rann út og þess að í skjalinu kemur fram að kaupverð skyldi greitt með peningum við kaupsamning. Ekki varð heldur séð af skjalinu að þeir einstaklingar sem nefndir voru í umræddum fyrirvara tengdust kaupandanum og þannig ekkert sem tengdi skjalið við fyrirvarann.
Þar sem þau gögn sem þinglýsingastjóri hafði með höndum báru það ekki með sér að hið samþykkta gagntilboð væri augljóslega óskuldbindandi fyrir Úthlíð ehf. og frekari rannsóknarskylda hvíldi ekki á þinglýsingastjóra um það atriði var móttaka afsals Mótáss ehf. til þinglýsingar ekki til þess fallin að hafa áhrif á það hvort þinglýsingastjóri þinglýsti hinu samþykkta gagnboði.
Þar sem hið samþykkta kauptilboð var samkvæmt framangreindu tækt til þinglýsingar var þinglýsingastjóra rétt að þinglýsa skjalinu, þrátt fyrir að kaupsamningur og afsal, sem síðar var móttekið til þinglýsingar, hafi áður verið innfært í þinglýsingabækur. Var skjalið því réttilega fært í þinglýsingabók 23. desember 2003, innan þeirra tveggja vikna sem mælt er fyrir um í 5. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga. Með vísan til þess bera að hafna þeirri kröfu sóknaraðila að þinglýsingastjóranum í Reykjavík verði gert að afmá umrætt samþykkt gagnboð úr veðmálabókum.
Með vísan til 15. gr. þinglýsingalaga naut hið samþykkta gagnboð því forgangs gagnvart umræddum kaupsamningi og afsali.
Þar sem forgangsáhrif þinglýsingar eru samkvæmt 15. gr. miðuð við móttöku skjals til þinglýsingar og hið samþykkta gagntilboð var heimildarskjal sem formlega séð fól í sér yfirfærslu á eignarrétti að umræddum lóðum telst varnaraðili hafa haft þinglýsta eignarheimild að umræddum lóðum, í skilningi 25. gr. þinglýsingalaga, frá móttöku gagnboðsins til þinglýsingar 9. desember 2003, með þeim takmörkunum sem leiða af því að afsal hafði ekki verið gefið út.
Þar sem umræddur kaupsamningur og afsal var ekki gerður fyrr en 19. desember 2003 brast útgefanda skjalsins, varnaraðila Úthlíð ehf., formlega heimild til þeirrar ráðstöfunar eignarinnar sem fólst í gerð kaupsamnings og afsals við Mótás ehf. og bar þinglýsingastjóra því að vísa skjalinu frá þinglýsingu á grundvelli 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga. Eins og réttilega kemur fram í ákvörðun aðstoðarþinglýsingastjóra frá 13. janúar 2003 var skjalið fært í þinglýsingabók fyrir vangá.
Í 1. mgr. 27. gr. segir að þegar þinglýsingastjóri verði þess áskynja að færsla í þinglýsingabók sé röng eða mistök hafi orðið um þinglýsinguna ella skuli hann bæta úr.
Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að þinglýsingalögum nr. 39/1978 segir meðal annar svo í athugasemdum við 27. gr.:
„Ef dómari kemst að raun um að skjal, sem vísa skyldi frá þinglýsingu, hefur verið þinglýst, þá er ekki gerlegt að vísa skjalinu frá þinglýsingu á þessu stigi, heldur er dómar þá unnt að gera athugsemd um þetta efni í þinglýsingabók. Vera má, t.d., að útgefanda afsals hafi skort þinglýsta heimild til eignar, en skjal hefur allt að einu verið tekið til þinglýsingar. Ber dómara þá að gera athugasemd um þetta í þinglýsingabók, þegar er mistök þessi verða honum kunn."
Dómstólar hafa markað nokkuð aðra stefnu en lýst er í greinargerð með þinglýsingalögum varðandi viðbrögð við því að skjali sem vísa hefði átt frá þinglýsingu er þinglýst. Hafa dómstólar í slíkum tilvikum fallist á að það skjal sem frávísa hefði átt sé afmáð úr þinglýsingabókum og virðist sú aðferð við að leiðrétta mistök vera í betra samræmi við það orðalag 1. mgr. 27. gr. að þinglýsingastjóri skuli „bæta úr". Sú niðurstaða fellur einnig betur að nútímaaðferðum við rafræna færslu í þinglýsingabók en sú aðferð við leiðréttingu mistaka sem gert er ráð fyrir í greinargerð með þinglýsingalögum.
Með hliðsjón af framangreindu verður talið að sú ákvörðun þinglýsingastjóra, frá 13. janúar 2004, að afmá kaupsamning og afsal um lóðirnar Sóleyjarima 19, 21 og 23, með þinglýsinganúmeri B-28808, úr fasteignabók hafi verið rétt. Samkvæmt því verður að hafna kröfu sóknaraðila um að þinglýsingastjóranum í Reykjavík verði gert að þinglýsa umræddu skjali á ný.
Sú niðurstaða að hafna kröfum sóknaraðila felur í sér að krafa varnaraðila um staðfestingu á ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, frá 13. janúar 2004, um að afmá úr fasteignabók afsal til Mótáss ehf. er tekin til greina og þykir ekki ástæða til að ítreka þessa niðurstöðu í úrskurðarorði.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að sóknaraðilar greiði varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Af hálfu sóknaraðila flutti mál þetta Garðar Briem hrl. en Pétur Þór Sigurðsson hrl. af hálfu varnaraðila.
Vegna embættisanna dómarans og umfangs málsins hefur meðferð þess dregist nokkuð fram yfir þær þrjár vikur sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga og er beðist velvirðingar á því.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfum sóknaraðila, Úthlíðar ehf. og Mótáss ehf., um að þinglýsingastjóranum í Reykjavík verði gert að afmá úr veðmálabókum kauptilboð Lindarvatns ehf., kt. 610593-2919, dagsett 6. desember 2003, með skilyrtu samþykki Úthlíðar ehf. um lóðirnar Sóleyjarimi 19, Sóleyjarimi 21, og Sóleyjarimi 23 í Reykjavík og að honum verði gert að þinglýsa á ný kaupsamningi og afsali um sömu lóðir milli Úthlíðar ehf og Mótáss ehf., dagsettum 19. desember 2003, sem aflýst var í samræmi við ákvörðun þinglýsingarstjóra, dagsetta 13. janúar 2004.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila, Lindarvatni ehf. samtals 100.000 krónur í málskostnað