Hæstiréttur íslands

Mál nr. 520/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun barns
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta
  • Gjafsókn
  • Aðfinnslur


                                     

Fimmtudaginn 20. ágúst 2015.

Nr. 520/2015.

A

(Oddgeir Einarsson hrl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Kópavogs

(Pálmi Þór Másson hdl.)

Kærumál. Vistun barns. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun frá Hæstarétti að hluta. Gjafsókn. Aðfinnslur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að úrskurður B um vistun sonar hennar utan heimilis í tvo mánuði yrði felldur úr gildi en fallist var á kröfu B um að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis í allt að 10 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins. Var ekki talið að A hefði lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð B felldan úr gildi þar sem liðinn væri sá tími sem þar var mælt fyrir um að gilda skyldi um vistun barnsins. Var þeirri kröfu A því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti. Þá var niðurstaða hins kærða úrskurðar um vistun barnsins utan heimilis í allt að tíu mánuði staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. ágúst 2015 sem barst réttinum 11. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. júlí 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að úrskurður barnaverndar Kópavogs frá 11. júní 2015 yrði felldur úr gildi en fallist á kröfu varnaraðila um að barnið B yrði vistað utan heimilis síns í allt að tíu mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að felldur verði úr gildi fyrrgreindur úrskurður varnaraðila og hafnað kröfu hans um vistun barnsins utan heimilis en til vara að henni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Hinn 11. ágúst 2015 rann út sá tveggja mánaða tími sem kveðið var á um í úrskurði varnaraðila 11. júní sama ár að gilda skyldi um vistun barnsins utan heimilis sóknaraðila. Af þeim sökum hefur hún ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðinn felldan úr gildi og verður þeirri kröfu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Samkvæmt því sem rakið er í hinum kærða úrskurði um hæfi sóknaraðila, samskipti hennar við barnið og um líðan þess er fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. laga. nr. 80/2002 til að barnið sé vistað utan heimilis. Verður sú niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Um samningu dóma og úrskurða gildir sú regla að þeir eiga að vera stuttir og glöggir. Þessa hefur ekki verið gætt við samningu hins kærða úrskurðar.

Dómsorð:

Vísað er frá Hæstarétti þeirri kröfu sóknaraðila, A, að úrskurður varnaraðila, barnaverndarnefndar Kópavogs, 11. júní 2015 verði felldur úr gildi.

Varnaraðila er heimilt að vista B utan heimilis í tíu mánuði frá 11. júní 2015 að telja.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.

Úrskurður Héraðs­dóms Reykjaness 27. júlí 2015.

Sóknaraðili er A, kt. [...], [...], [...] en varnaraðili er Barnaverndarnefnd Kópavogs.

                Krafa sóknaraðila er að úrskurður Barnaverndarnefndar Kópavogs dags. 11. júní 2015, um að B, kt. [...], verði vistaðar á heimili á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði frá og með 11. júní 2015 að telja, verði felldur úr gildi með úrskurði. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Sóknaraðili hefur fengið gjafsóknarleyfi í máli þessu.

                Með greinargerð framlagðri 9. júlí sl. krafðist varnaraðili þess að úrskurður varnaraðila frá 11. júní sl. verði staðfestur. Þá krafðist sóknaraðili að drengurinn verði vistaður utan heimilis á vegum Barnaverndarnefndar Kópavogs í allt að 12 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar skv. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fékk sóknaraðili stuttan frest til að leggja fram greinargerð vegna nýrra krafna varnaraðila. Fór aðalmeðferð fram þann 20. júlí sl. 

Málavextir.

Samkvæmt því sem kemur fram í málsskjölum kom sóknaraðili til Íslands í [...] árið [...] og þá með drenginn B með sér, þá þriggja ára gamlan. Faðir hans er frá [...] og býr þar. Sóknaraðili fór fyrst til [...] og giftist þar íslenskum manni en þau skildu eftir tveggja mánaða hjónaband. Sóknaraðili kynntist núverandi eiginmanni sínum, C, árið 2010 og hófu þau búskap inná heimili foreldra hans að [...] í [...]. Sóknaraðili var send úr landi í febrúar 2011 eftir að lögskilnaður hennar við fyrri eiginmann gekk í gegn. Þá fór hún til [...] með B og var þá barnshafandi. Í desember 2011 fékk sóknaraðili heilablóðfall og hefur verið lömuð vinstra megin síðan. Þá eignaðist sóknaraðili stúlkubarn í [...], D. Núverandi eiginmaður hennar fór til sóknaraðila og barnanna í [...] í desember 2011 og giftu þau sig þar í febrúar 2012. Í byrjun apríl 2012 kom C til Íslands en sóknaraðili kom til landsins í byrjun nóvember 2012 ásamt börnum sínum tveimur. Sóknaraðili og C fara nú sameiginlega með forsjá B. Bjó fjölskyldan áfram inni á heimili tengdaforeldra sóknaraðila í þriggja herbergja íbúð. Svaf B á bedda inni hjá stjúpömmu sinni og afa, C í sófa í stofunni og sóknaraðili í herbergi með yngra barn þeirra. Var fjárhagur sóknaraðila bágur og höfðu þau ekki efni á að fara á almennan leigumarkað. Fengu þau úthlutað íbúð á vegum Félagsþjónustu Kópavogs i júlí 2014. Sóknaraðili eignaðist aftur barn [...] 2014.

                B byrjaði í skóla í janúar 2013 en hann flutti aftur til landsins í nóvember 2012. Hafði hann ekki verið skráður í skóla þá. Þá hafði B persónulegan ráðgjafa á vegum barnaverndar Kópavogs frá desember 2013 til maí 2015 í allt að tuttugu klukkustundir á mánuði. Fékk B stuðningsfjölskyldu í maí 2015 og átti að fara þangað aðra hvora helgi. B hefur dvalið hjá þeim síðan þá. Var B vel kunnugur stuðningsfjölskyldu sinni þar sem sonur þeirra var jafnaldri B og vinur hans. Undi B sér vel hjá stuðningsfjölskyldunni.

                Samkvæmt gögnum málsins hafði lögregla fyrst afskipti af heimili sóknaraðila vegna ágreinings þeirra hjóna í nóvember 2013. Var tilkynning send til barnaverndaryfirvalda í kjölfarið. Í ódagsettri skýrslu starfsmanns Barnaverndar Kópavogs var farið í skóla B í kjölfar og rætt við hann. Er haft eftir B að amma, afi og stjúpfaðir séu góð við sig en móðir hans sé leiðinleg við sig og slái sig fast, sérstaklega í höfuðið og stundum klípi hún. Hann fari oftast út þegar hún byrji að slá. Þá er haft eftir kennara B að hann sé góður strákur, fljótur að læra, blíður og hafi eignast vini. Hann komi alltaf með gott nesti að heiman en hann hafi ekki efni á að fá mat í skólanum né vera í dægradvöl eftir skóla.

                Fyrir liggur tölvupóstur frá „E“ sem sinnti aðstoð inn á heimili sóknaraðila til starfsmanns Barnaverndar Kópavogs frá 17. desember 2013. Segir hún að sóknaraðili sendi sér endalaus skilaboð og segir að illa gangi hjá sóknaraðila að skilja tilgang aðstoðarinnar sem henni var veitt. Sóknaraðili þurfi að gera sér grein fyrir því að aðstoðin sé tímabundin en ekki hvenær sem sóknaraðila þóknist. Sóknaraðili sendi E endalaus sms þar sem hún sé að kvarta yfir störfum E. Þá hafi sóknaraðili orðið reið vegna þess að E keypti ekki kjöt og hrísgrjón fyrir sóknaraðila og greiddi sjálf fyrir.

                Fundargerð Barnaverndarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2013, meðferðarfundur, liggur frammi í gögnum málsins,. Kemur þar fram að mál fjölskyldunnar hafi nýlega borist til barnaverndar i gegnum bakvakt og lögreglu. Hafi sóknaraðili óskað eftir aðstoð lögreglu við að komast í Kvennaathvarf með börnin. Hafi könnun leitt í ljós að sóknaraðili búi við erfiðar aðstæður á heimili tengdamóður sinnar og manns hennar. Sé sóknaraðili fötluð en hún hafi fengið heilablóðfall stuttu eftir að hún eignaðist stúlku í október 2011 úti í [...] og sé lömuð öðru megin. Vinstri hönd hennar sé alveg lömuð og styrkur í vinstri fæti sé skertur. Hún gangi hægt. Þá sé hún flogaveik og taki lyf vegna þess auk þess að vera ófrísk að þriðja barni sínu og komin þrjá mánuði á leið. Eiginmaður hennar starfi hjá [...] í fullu starfi til kl. 18.00 alla virka daga og fjárhagur fjölskyldunnar sé slæmur. Þá er sambandi sóknaraðila við tengdamóður sína lýst sem afar slæmu. Segir í bókun að könnun sé lokið og gerð verði meðferðaráætlun skv. 23. gr. barnaverndarlaga. Aðstæður fjölskyldunnar séu mjög alvarlegar og staða móður óljós. Samstarf verði við mæðravernd vegna ófædda barnsins, við [...] vegna B og við leikskóla D. Samþykktar voru greiðslur fyrir dægradvöl og skólamat fyrir B veturinn 2013/2014. Einnig var samþykktur persónulegur ráðgjafi fyrir B, sextán klukkustundir á mánuði. Auk þess var samþykktur styrkur til greiðslu lækniskostnaðar vegna mæðraskoðunar. Þá var ákveðið að skrifa bréf og óska eftir forgangi í félagslegt leiguhúsnæði vegna aðstöðu fjölskyldunnar.

                Tilkynning liggur fyrir frá 26. desember 2013 en þá hafði lögreglan afskipti af heimili sóknaraðila vegna ágreinings heimilisfólksins. Var tilkynning send í kjölfar til barnaverndaryfirvalda. Fór starfsmaður barnaverndar á heimilið í framhaldi.

                Í gögnum málsins liggur fyrir greinargerð vegna könnunar skv. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga í kjölfar tilkynningar 12. nóvember 2013 en tilkynnt hafði verið um vanrækslu varnandi umsjón og eftirlit barna sóknaraðila. Er í greinargerðinni þröngum aðbúnaði fjölskyldunnar lýst á heimili tengdaforeldra sóknaraðila. Kemur fram að samband sóknaraðila og tengdamóður hennar sé slæmt. Má lesa það úr gögnum málsins fram til þessa dags. Einnig kemur fram í greinargerðinni að sóknaraðili hafi oft viljað leita til Kvennaathvarfsins en ekki gert. Þá er kvartað yfir því af eiginmanni sóknaraðila og tengdamóður að sóknaraðili hugsi ekki vel um börnin, B sé smeykur við móður sína, hún sé oft reið og öskri á hann. Hún klípi og slái drenginn. Drengurinn beri merki um rótleysi og óstöðugleika að mati tengdamóður sóknaraðila. Sóknaraðili kvað tengdamóður sína koma illa fram við sig, haldi frá sér mat, tali niður til sín og vilji halda börnum hennar frá henni. Hafi sóknaraðili verið mjög reið og upplifað sig mjög valdalausa inni á heimilinu auk þess sem andleg líðan hennar sé slæm, hún lýsi miklu þunglyndi og vanlíðan en sóknaraðili var þunguð á þessum tíma af þriðja barni sínu.

Í kjölfar fyrrgreindrar könnunar var gerð áætlun um meðferð málsins í samráði við forsjáraðila B sem gilti frá 1. janúar 2014 til 31. ágúst 2014. Var hlutverk forsjáraðila að vinna markvisst að því að bæta stöðu B samkvæmt þeim markmiðum sem stefnt var að eða að skapa honum öryggi og festu þar sem aðstæður hans voru fyrirsjáanlegar og B fengi þá athygli og umhyggju sem hann virtist leita sterkt eftir. Var hlutverk barnaverndar að veita persónulegan ráðgjafa sextán til tuttugu og fimm klukkustundir á mánuði. Viðtöl áttu að vera mánaðarlega við foreldrana til að styrkja þau í foreldrahlutverkinu, aðstoða með stuðningsfjölskyldu og koma B á sumarnámskeið.

8. janúar 2014 fóru starfsmenn barnaverndar Kópavogs á heimili sóknaraðila. Var D heima og sóknaraðili að reyna að skipta um bleyju á henni með annarri hendinni en gekk illa. Hafði áður verið rætt við sóknaraðila um að fara á LSH og ræða þar við lækni vegna líðan hennar. Lét sóknaraðili til leiðast og átti samtal við tvo lækna og sálfræðing í tvær klukkustundir. Var sóknaraðila boðið að leggjast inn á geðdeild til að hvíla sig og fá meðferð við vanlíðan sinni en hún var ófáanleg til að þiggja þá aðstoð. Ekki þótti ástæða til að nauðungarvista sóknaraðila en miklum áhyggjum var lýst vegna hennar. Lýsti sóknaraðili miklum erfiðleikum heima fyrir og kvað tengdamóður sína reyna að drepa fóstrið sem hún gengi með. Fóru starfsmenn með sóknaraðila heim aftur þar sem B opnaði fyrir þeim. Virtist hann ekki glaður að sjá móður sína.  

9. janúar 2014 var haldinn meðferðarfundur hjá Barnaverndarnefnd Kópavogs vegna barna sóknaraðila. Kemur þar fram að B hafi ítrekað sagt frá því að móðir hans sé vond við hann og hann vilji ekki hafa hana á heimilinu. Voru ýmsar ákvarðanir teknar í þeim tilgangi að veita stuðning inn á heimili sóknaraðila.

22. janúar 2014 var lögreglan kölluð til á heimili sóknaraðila að beiðni hennar og var kvörtunarefnið að varnaraðili hefði tekið fyrir munn hennar og kreist kinnar hennar saman. Kvað sóknaraðili ástand milli þeirra hjóna ekki gott. Var B sofandi inni í herbergi og varð ekki var við atvikið. Var atvikið tilkynnt til barnaverndaryfirvalda. Var sóknaraðila boðin fylgd í Kvennaathvarfið en hún vildi ekki þangað. Var haft eftir eiginmanni sóknaraðila og tengdamóður hennar að sóknaraðili beitti börnin ofbeldi á heimilinu.

Greinargerð sálfræðings sem ræddi við B í febrúar og mars 2014 liggur fyrir. Er viðbrögðum B vegna viðtalanna lýst í greinargerðinni, óöryggi hans og vanlíðan. Var það mat sálfræðingsins að án breyttra heimilisaðstæðna B yrði árangur af viðtalsmeðferð takmarkaður. Mikilvægt væri að skapa B öryggi og festu þar sem aðstæður hans væru fyrirsjáanlegar og B fengi þá athygli og umhyggju sem hann virtist leita svo sterkt eftir. Þegar búið væri að skapa slíkt öryggi og festu í lífi hans væri mikilvægt að hann fengi aðstoð við að mynda jákvæðara viðhorf til sjálfs síns og mismunandi aðstæður og hann fengi stuðning og hvatningu til að takast á við vandamál og erfiðar aðstæður sem hann kynni að lenda í ásamt því að byggja upp trú á eigin getu.

10. apríl 2014 fóru starfsmenn Barnaverndar Kópavogi í heimsókn á heimili sóknaraðila. Var fyrst rætt við tengdamóður sóknaraðila sem kvað sóknaraðila ekki gera annað en vera inni í herberginu sínu og þær tali helst ekki saman. Lýsti tengdamóðir sóknaraðila samskiptum þeirra sem slæmum. Þá hafi samskipti við E og sóknaraðila einnig verið slæm. Kvað tengdamóðir sóknaraðila B líða vel núna, hann sé góður heima og ánægður með þá aðstoð sem hann fái frá persónulegum ráðgjafa. Þá kvað hún B ekki læra heima þar sem móðir hans sinni því ekki. Hún láti hann stroka út úr skriftarbókinni þar til hann fari að gráta og hún vilji að hann skrifi þrátt fyrir það. Hann lesi ekki heima og sóknaraðili sé vond við hann, slái hann m.a. í hausinn. Starfsmenn skoðuð svefnaðstæður sóknaraðila og töldu hana óviðunandi. Svefnsófinn væri lélegur og svefnaðstaðan öll hin versta. Lakið á dýnunni hafi verið skítugt og ekkert ver hafi verið utan um sængina. Barnarúmið hafi verið skárra en ekki notalegt að sjá. Rúmfatnaður hafi verið í skítugri kantinum. Herbergið væri mjög lítið og í því sé svefnsófi, barnarimlarúm og kommóða. Rétt sé hægt að komast inn að glugganum við enda herbergisins því svo þröngt sé þar inni. Mjög þungt loft hafi verið í herberginu. Þá hafi sóknaraðili lýst áhyggjum sínum um að barnaverndarstarfsmenn taki af henni börnin og láti tengdamóður hennar fá þau.  

1. maí 2014 kom tilkynning til lögreglu frá heimili sóknaraðila um að ófrísk kona væri með krampa. Hafði sóknaraðili fengið flogakast eftir ágreining við eiginmann og tengdamóður um fatagjöf til barna þeirra.

Starfsmaður barnaverndarnefndar fór á heimili sóknaraðila 7. maí 2014. Er greint frá því í skýrslunni að sóknaraðila hafi misboðið að verið væri að gefa börnum þeirra föt og hafði klippt náttföt í sundur sem B hafði fengið að gjöf. Var rætt um slæmt ástand á heimilinu og á því yrði að finna lausn. Kvaðst C leita ítrekað að nýju húsnæði fyrir fjölskylduna en ekki fengið. Var C fenginn ráðgjafi sem átti að aðstoða hann í íbúðarleit. Þá kemur fram að sóknaraðili hafi hætt í sjúkraþjálfun á [...] þar sem hún hafi verið ósammála læknum þar og þjálfun. Fram kom í skýrslunni að B æfi fótbolta og hafi orðið fyrir aðkasti. Stjúpfaðir hans hafði ekki rætt við þjálfarann þar sem hann vissi ekki hver hann væri né hvert hann ætti að hringja. Í lok skýrslunnar kemur fram að tengdamóðir sóknaraðila vilji sóknaraðila út af heimilinu en að börnin verði eftir hjá sér. Voru miklar áhyggjur af heimilisaðstæðum fjölskyldunnar og líðan barnanna.

8. maí 2014 var meðferðarfundur hjá Barnaverndarnefnd vegna málsins og liggur sú fundargerð frammi. Segir þar m.a. að mjög slæmt ástand ríki á heimilinu en sóknaraðila og tengdamóður, sem sóknaraðili ásamt eiginmanni sínum og börnum búi hjá, komi mjög illa saman og tali ekki saman. Sóknaraðili sé inni í herbergi sínu allan daginn þar til C kemur heim.

5. júní 2014 var meðferðarfundur hjá Barnaverndarnefnd vegna málsins. Þá kemur fram að ekki hafi tekist að koma að almennilegri aðstoð inn á heimilið þar sem tengdamóðir sóknaraðila sé því mótfallin. Að auki kemur fram að unnið sé að því að styðja fjölskylduna í því að fá annað húsnæði.

Sóknaraðili eignaðist þriðja barn sitt 27. júní 2014. Sendi fæðingardeild Landspítalans tilkynningu til barnaverndar Kópavogs. Ástæða tilkynningarinnar var að komið hafi fyrir að sóknaraðili hafi hringt bjöllu til að fá aðstoð og hafi barnið þá ítrekað verið eitt á litlu skiptiborði inn á herbergi og sóknaraðili ekki í nálægð. Starfsmenn hafi verið að fylgjast með tengslamyndun en móðirin virst sýna drengnum takmarkaða ást og umhyggju. Maður hennar hafi verið mjög lítið hjá henni í sængurlegu. Þurfi sóknaraðili mikla hvatningu við umönnun drengsins, hún hafi lítið viljað annast hann annað en að gefa honum brjóst.

Dagmóðir yngsta barns sóknaraðila svaraði spurningum barnaverndar þann 22. maí 2015 um líðan drengsins og samskipti við foreldra. Segir m.a. að umhirða drengsins sé góð og hann komi alltaf í hreinum fötum og sé snyrtilegur. Hann sé glaður og sáttur en afi hans sæki hann á daginn. Samskipti við föður hafi verið skýr. Samskipti við móður séu flóknari, hún eigi það til að hringja nokkrum sinnum á dag og spyrja hvort drengurinn fái að drekka. Dagmóðirin hafi átt að gefa barninu með sprautu þá sjö mánaða gamalt en það hafi aldrei fram að því verið matað með skeið, notað pela eða glas með gúmmítúttu. Átti dagmóðirin að beiðni móður að gefa barninu með sprautu þar til að færi að skríða. Þá eru góð meðmæli með miðbarninu frá leikskóla. Umsögn skólastjóra frá 28. mars 2014 um B eru einnig góð en þar segir að B eigi það til að standa upp í kennslustund til að fá faðmlag frá kennara. Umhirða og aðbúnaður séu í góðu lagi.

10. júlí 2014 óskaði sóknaraðili eftir aðstoð lögreglu vegna ágreinings á heimilinu. Var ástæða tilkynningarinnar sú að sóknaraðili vildi ekki dvelja hjá tengdamóður sinni á meðan C flutti búslóð þeirra að [...] þar sem þau höfðu fengið leigða íbúð. Vildi hún að lögreglan æki sér í Kvennaathvarfið á meðan á flutningunum stæði.

16. júlí 2014 var meðferðarfundur hjá Barnaverndarnefnd vegna málsins. Kemur þar fram að sóknaraðili hafi eignast son 27. júní 2014 og hafi verið á kvennadeild til 3. júlí 2014 með barnið. Hafi félagsráðgjafi á kvennadeild haft samband við starfsmann barnaverndar og lýst miklum áhyggjum af sóknaraðila og barninu. Kvað hún mikið hafa gengið á á meðan sóknaraðili var á kvennadeildinni. Kvað hún foreldrana ekki höndla það að vera með barnið. Sóknaraðili hafi að minnsta kosti tvisvar skilið barnið grátandi eftir á mjög mjóu skiptiborði og sjálf farið á salerni. Sóknaraðili hafi lent upp á kant við starfsfólk Kvennadeildar, hún sé óútreiknanleg, dónaleg og með yfirgang og frekju að sögn starfsfólk. Hún neiti að hafa barnið of mikið, hún hringi endalaust eftir aðstoð, hún verði illgjörn og reið ef henni sé neitað um aðstoð eða sagt að hún geti gert hlutina sjálf. Hún taki ekki ráðgjöf eða leiðbeiningum og strax hafi verið tekið eftir því að hún tengist ekki barninu.  Þá kemur fram að við heimsóknina til sóknaraðila hafi hún ekki getað lyft barninu eða lagt það til til að gefa því brjóst. Hún geti ekki verið ein með barnið vegna hættu á að hún fái flogaveikiskast. C muni verða í fæðingarorlofi í fjóra mánuði. Séu hjónin sammála um að þiggja sem mesta aðstoð. Ákveðið var á hvaða tímum aðstoð og liðveisla kæmi inn á heimilið daglega. Er bókað að verulegar áhyggjur séu af ástandinu á heimili sóknaraðila og jafnframt er dregið í efa að sóknaraðili sé haldin flogaveiki og dæmi tekin því til stuðnings. Fram kemur að farið hafi verið á heimilið ásamt starfsmanni frá deild málefnis fatlaðra. Þar komi fram að verulegar áhyggjur séu af móðir og barni. Sóknaraðili sé ekki til samvinnu og taki ekki mark á þeim leiðbeiningum og ráðgjöf sem henni hafi verið veitt. Sem dæmi fari hún inn í svefnherbergi til að sækja drenginn og komi með hann fram án þess að halda undir höfuð drengsins. Hún hlusti ekki á starfsmenn og það sama segi tengdamóðir hennar sem sé til staðar. Hún segi mjög skýrt að sóknaraðili geti ekki annast barnið. Bókað er að viðhorf sóknaraðila sé mikið áhyggjuefni þar sem hún virðist ekki hafa áhuga eða burði til að annast börnin. Ítrekað hafi verið rætt við hana um ábyrgð foreldra varðandi stuðning og umönnun með börnum hennar. Hún hafi ekki tileinkað sér þær leiðbeiningar. Hafi hún oft á tíðum verið í mótþróa gagnvart barnavernd þegar pressað hafi verið á hana. Sótt hafi verið um FBM teymi á LSH. Þá segir að þegar sóknaraðili hafi verið í meðferð á [...] hafi hún neitað að taka þátt og verið vísað frá og óvissa hvort hún komist að aftur. Þá kemur fram að C sé að bugast undan álaginu en hann sjái alfarið um börnin. Unnið sé að meðferðaráætlun með móður þar sem stefnt verði að því að reyna að vinna að bættum samskiptum við eiginmann hennar og reynt að auka hæfni sóknaraðila til þess að veita börnunum ást og umhyggju. Þá er bókað að þann 4. júlí 2014 hafi verið tekin sú ákvörðun að útvega fjölskyldunni félagslega íbúð í [...]. C hafi ekki verið búinn að borga húsaleigu fyrir júlí og kvaðst ekki eiga krónu upp í leiguna. Þann 10. júlí hafi fjölskyldan verið flutt. Þann 15. júlí 2014 hafi starfmenn barnaverndar farið á heimili þeirra vegna samskiptavanda foreldranna. C hafi rætt það að hann vildi skilnað. Bókað er að staða fjölskyldunnar sé alvarleg þar sem sóknaraðili sé ekki tilbúin að taka við leiðbeiningum og aðstoð og faðir geti ekki sinnt börnunum þremur einn. Hafi meðferðaráætlun verið gerð til fjögurra mánaða.

21. júlí 2014 var gerð áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga sem aðilar skrifuðu undir. Átti áætlunin að gilda frá 21. júlí til 21. nóvember 2014. Samkvæmt henni átti sóknaraðili og maður hennar að mæta í viðtöl hjá félagsráðgjafa barnaverndar og taka á móti boðuðum og óboðuðum heimsóknum á heimilið. Taka á móti tilsjón á heimilið, allt að sextíu klukkustundir á mánuði. Samþykkja viðtöl hjá sálfræðingi barnaverndar fyrir B. Samþykkja sveitardvöl í allt að fjórar vikur sumarið 2014. Samþykkja Vinasetur eða stuðningsfjölskyldu allt að fjóra sólahringa á mánuði. Taka á móti heimilishjálp á heimilið. Tryggja að B nýtti sér stuðning persónulegt ráðgjafa tuttugu klukkustundir á mánuði. Heimila samstarf barnaverndar við þá fagaðila sem koma að fjölskyldunni, Þjónustudeild fatlaðra, þjónustudeild aldraðra vegna heimilishjálpar, [...], heilsugæslu og við aðrar stofnanir og sækja fjölskylduviðtöl/ hjónaviðtöl.  Var sambærileg áætlun gerð vegna yngri barnanna.

15. ágúst 2014 hringdi sóknaraðili til lögreglu og tilkynni að maður hennar hafi farið með yngsta barnið í heimsókn til móður hans fyrir tæpri klukkustund en barnið væri á brjósti.

25. nóvember 2014 var haldinn teymisfundur vegna tilsjónar og handleiðslu málsins. Er bókað m.a. að C hafi verið að setja alla ábyrgð á barnavernd og þurfi „pepp“ í að fara að taka ábyrgð á sinni fjölskyldu og því sem fylgi að vera faðir. Yngsta barnið sem sé tæplega fimm mánaða sé ekki farið að hjala og séu áhyggjur af því. Skoða þurfi stuðningsfjölskyldu fyrir B og fjölskyldumeðferð fyrir foreldra sem eitt sinn hafi verið samþykkt. Umræða er um forsjárhæfnismat. Rætt var um hvort B þyrfti að fara frekar í fóstur en til stuðningsfjölskyldu. Þá var rætt um að fækka tímum F sem virtist vera meira í að passa barnið en að sinna tilsjón.

Í nóvember 2014 skilar F skýrslu vegna liðveislu hennar inni á heimili sóknaraðila en hún hafi sinnt því síðastliðna fjóra mánuði. Segir hún að hún sé búin að vera hjá þeim í næstum fjóra mánuði. Í byrjun á hverjum degi, en núna sé hún hjá þeim virka daga. Aðstoðar hún við að baða yngsta barnið, klæðir það, móðirin gefur því brjóst en svo sofni barnið hjá F sem setji það síðan í sitt rúm. Segir hún að það sé mikið vantraust á milli sóknaraðila og C. Fyrst kvað hún aðstoð við þrif hafa verið þrisvar sinnum í viku en þegar skýrslan er gerð þá séu þau einu sinni í viku. Segir hún að sóknaraðili fái oft þráhyggju yfir hinu og þessu og hætti þá ekki að tala um það sem hún fær þráhyggju yfir og sé þá allan sólahringinn. Sóknaraðili sendi þá F sms á næturnar, fyrrverandi konu C og dóttur hans sem sé átján ára. Sóknaraðili geti ekki verið ein með börnin. Sóknaraðili sé dugleg, hún vaski upp, ryksugi, eldi og tali við yngsta barnið þegar hún er að gefa því og hún þrífi barnið með aðstoð. Mikið óöryggi sé á heimilinu vegna fjárhag þess og óöruggrar sambúðar.

11. desember 2014 var meðferðarfundur haldinn vegna málsins. Er m.a. bókað að áhyggjur hafi verið af sóknaraðila, tengslamyndun hennar við börnin og getu hennar til að annast þau. C segir hana beita börnin ofbeldi í uppeldistilgangi. Þá er fjárhagi þeirra lýst sem er mjög bágur og fjárhagsaðstoð sem þeim verði veitt.

30. desember 2014 var ný áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga gerð vegna barna sóknaraðila og þar með B. Segir í áætluninni að tilkynningar hafi komið frá skóla og lögreglu vegna samskiptavanda á heimlinu og átaka milli foreldra. Kemur fram að foreldrar hafi rætt skilnað og að þau verði studd í því ferli með réttindaupplýsingum til móður. Þá kemur fram að hlutverk forsjáraðila sé að vinna markvisst að því að bæta stöðu B, samkvæmt þeim markmiðum sem stefnt sé að. Sýna öllum starfsmönnum barnaverndar Kópavogs samstarfsvilja. Forsjáraðilar komi til félagsráðgjafa eftir þörfum og ræði það sem áunnist hafi og hvað á vanti. Samþykki stuðningsfjölskyldu allt að fjóra sólahringa á mánuði. Taki á móti heimilishjálp á heimilið. Tryggi að B nýti sér stuðning persónulegs ráðgjafa tuttugu klukkustundir á mánuði. Heimili samstarf barnaverndar við þá fagaðila sem komi að fjölskyldunni. Þiggi ráðgjöf frá ráðgjafa- og íbúðadeild Velferðarsviðs. Þiggi fjármálaráðgjöf og samþykki að samvinna verði með málefni fjölskyldunnar á milli deilda Velferðarsviðs. Átti áætlunin að gilda frá 30. desember 2014 til 30. apríl 2015.

9. apríl 2015 var meðferðarfundur vegna málsins haldinn hjá barnavernd Kópavogs. Var gerð breyting á fyrri meðferðaráætlun skv. 23. gr. barnaverndarlaga. Í fyrri bókun kom fram að foreldrar fengju aðstoð við að leita sér félagslegrar ráðgjafar varðandi skilnað og fjármálaráðgjöf.  Móðurinni verði einnig leiðbeint með að sækja viðtöl í Kvennaráðgjöfinni. Veittur verði styrkur til greiðslu dægradvalar og hádegismatar fyrir B á vorönn 2015. Samstarf verði við [...] vegna málefna hans. B fái stuðningsfjölskyldu tvær helgar í mánuði og persónulegur ráðgjafi haldi áfram að styðja hann tuttugu klukkustundir á mánuði. Veittur verði styrkur til greiðslu leikskólagjalda D í þrjá mánuði. Samstarf verið við leikskólann [...]. Veittur verði styrkur til greiðslu dagmóður fyrir G í þrjá mánuði og heimilishjálp komi til fjölskyldunnar einu sinni í viku en tilsjón hætti stuðningi þegar G byrji hjá dagforeldrum. Óskað verði eftir forgangi um félagslegt leiguhúsnæði. Samstarf verið við mæðravernd og stuðningur verði fenginn fyrir sóknaraðila. Þá verði sóknaraðili tengd við deild um málefni fatlaðra. Er markmið áætlunarinnar að efla foreldra í uppeldishlutverki sínu. Samskiptaágreiningur hafi verið á milli foreldra sem talið sé að hafi áhrif á börn þeirra. Unnið verði að því að finna þessum ágreiningi farveg með velferð barnanna að leiðarljósi. Foreldrar hafi rætt skilnað og verði þau studd í því ferli með réttindaupplýsingum til móður. Þá segir að sóknaraðili sé tekjulaus en fái 100.000 krónur  í barnabætur á þriggja mánaða fresti. C hafi hafið störf hjá [...] um áramót og fái útborguð laun milli 300-350.000 krónur á mánuði. Skuld við leikskóla og gömul skuld eiginmanns uppá 77.000 krónur á mánuði sem hann sé að greiða niður. Þá var samþykkt að veita áfram styrk fyrir daggæslu G í apríl og maí.     

21. apríl 2015 kom tilkynning til lögreglu vegna heimilisófriðar á heimili sóknaraðila og fór lögregla á staðinn ásamt starfsmanni barnaverndar. Á heimilinu voru þrjú börn aðila. Kvað sóknaraðili C hafa slegið sig með flötum lófa í andlitið. Í skýrslu barnaverndar  um málið segir að sóknaraðili vilji ekki láta fjarlægja C af heimilinu.

27. apríl 2015 fóru stuðningsforeldrar B, H og I, í viðtal til barnaverndar Kópavogs. Er haft eftir þeim að B sé mikið á heimili þeirra. Hann sé mættur mjög snemma um helgar og sé fram yfir kvöldmat hjá þeim. Þau hafi aldrei heyrt frá foreldrum B. B sé yfirleitt í skítugum fötum, þó heilleg, og illa skóaður á veturna. Útiflíkur hans séu ekki viðunandi, t.d. vanti hann hlífðarbuxur. Hafi H ítrekað þvegið fötin af B og fengið hann til að fara í föt af syni þeirra, J, á meðan. Hafi þau frá áramótum aðstoðað B við heimalærdóm. Töldu þau að B hafi verið ólæs um síðustu áramót og hafa frá áramótum aðstoðað hann við heimanámið. B komi mjög oft heim til þeirra eftir skóla með J og sækist eftir aðstoð við heimanámið. Þá sögðu þau frá því að B hafi stungið upp á því sjálfur að halda upp á afmæli sitt með öðrum strák í bekknum sem hafi gengið eftir. Móðir B hafi ætlað að mæta í afmælið en ekki gert og B hafi ekki verið sóttur af foreldrum sínum eftir afmælið. Þá hafi H og I haldið smá afmælisveislu fyrir B. Höfðu I og J miklar áhyggjur af B og sögðu að lítið eftirlit væri með drengnum. B hafi ekki farið með á fótboltamót þar sem það hefði kostað að senda hann með.

29. apríl 2015 kom C, eiginmaður sóknaraðila í viðtal til barnaverndar Kópavogs. Var ljóst á honum að staða þeirra hjóna og barnanna væri mjög alvarleg og hafi ekki farið batnandi á þeim tíma sem unnið hafi verið með barnavernd Kópavogs. Kvaðst C alveg vera búinn á því og ekki sjá hvernig þau geti haldið áfram. Sóknaraðili sé með þá þráhyggju að börnin verið tekin af henni. Foreldrar hans sæki D og G úr leikskóla og daggæslu um fjögur leytið og séu með börnin heima hjá sóknaraðila þar til C kemur úr vinnu um hálfsjö leytið. Samskipti milli foreldra hans og sóknaraðila séu engin, sóknaraðili sitji inni í eldhúsi og lesi á meðan beðið er eftir C en foreldrar hans séu í stofunni með börnin. B fari sjálfur til J eftir dægradvölina og sé að koma heim um sjöleytið. Sóknaraðili geri þá kröfu að börnin fari í rúmið klukkan átta svo samverustund foreldranna með börnunum er lítill sem enginn. C sjái nær alltaf um að elda, baða börnin og þrífa að eigin sögn. Sóknaraðili sé aðgerðarlaus með öllu allan daginn. Ræddi C um tengslaleysi barnanna þriggja við sóknaraðila og jafnvel við C þar sem sóknaraðili telji hann vera að stela börnunum frá henni með því að sinna þeim betur en kostur er. Þá megi hann ekki leika við þau þar sem sóknaraðili telji hann þá vera að gera börnin hændari að sér en henni. Hún hafi aldrei tekið utan um börnin sín  heldur öskri á þau og skammi þau mikið. Hún tali [...] við B á heimili þeirra svo C veit ekki hvað þeim fer á milli og kveður hann B oft verða reiðan og leiðan á mömmu sinni. Engar gæðastundir foreldra sé um að ræða með börnum þeirra. B sé mikið hjá vini sínum um helgar og það sem fjölskyldar geri saman sé að C keyri sóknaraðila milli verslana og bíði í bílnum eftir henni með börnin á meðan sem oft þá sofa í bílnum. Samþykkti C að stuðningur við B yrði aukinn, m.a. með sumarbúðum og sumardvöl og hann verði í auknu mæli hjá stuðningsfjölskyldu, t.d. aðra hvora helgi.

30. apríl 2015, gerðu aðilar samning við stuðningsfjölskyldu til eins árs þar sem B átti að dvelja fjóra sólahringa á mánuði hjá stuðningsfjölskyldunni. Var fyrsta stuðningshelgin 1. til 3. maí sl. og síðan aðra hvora helgi eftir það.

30. apríl 2015 var meðferðarfundur haldinn hjá barnavernd Kópavogs vegna stöðu barna sóknaraðila og eiginmanns hennar. Var þar aukið við fyrri stuðning.

15. maí 2015 kom miðbarn sóknaraðila, D þá þriggja ára á bensínstöð N1 við [...] í [...], um milli klukkan 9:00 og 9:30. Var rigning en stúlkan klædd í sokkabuxur og kjól, strigaskó, flíspeysu og með húfu á höfði og blaut í fæturna. Hafði hún verið á bensínstöðinni um klukkustund þegar starfsmaður barnaverndar kom þangað. Gat barnið ekki gert grein fyrir sér, en þekkti andlit föður síns af ljósmynd sem lögreglan sýndi barninu úr ökutækjaskrá. Var haft samband við föður barnsins. Kvaðst hann hafa hringt í sóknaraðila um 9:30 um morguninn til að láta hana vita um breytingu á komu vikulegrar aðstoðar vegna heimilisþrifa en þá hafi sóknaraðili sagt sér að hún væri að leita að stúlkunni. Hafði sóknaraðili ekki samband við lögregluna vegna hvarf barnsins. Var farið með barnið á heimili sitt í framhaldi. Meðan starfsmaður barnaverndar dvaldi á heimilinu í kjölfar þessa, fann hann lítil tengsl á milli móður og barns og virtist eins og móðirin hafi ekki kippt sér mikið upp við það að barnið hafði farið að heiman og verið týnt í um klukkustund. Fór C með barnið í kjölfar til móður sinnar þar sem barnið var ekki talið öruggt hjá móður. Var sóknaraðili ósátt við það fyrirkomulag. Þá lýsti sóknaraðili því yfir að hún vildi að fyrrverandi tengdamóðir hennar á [...] tæki B að sér.

21. maí 2015 var meðferðarfundur haldinn hjá barnavernd Kópavogs. Var bókað um áframhaldandi stuðning við fjölskylduna. Kemur fram að mál barnanna þriggja verði lagt fram til umræðu á næsta meðferðarfundi vegna þeirrar vinnu sem starfsmenn heimilisofbeldisteymis barnaverndar hafi unnið í málum þeirra síðastliðna viku. C hafi bókað tíma hjá sýslumanni vegna umsóknar um skilnað og eigi hann viðtal 14. júlí 2015. C sé farinn af heimili þeirra hjóna og sé með yngstu tvö börnin að beiðni barnaverndar Kópavogs.

Í umsögn deildarstjóra [...] 18. maí 2015 kemur fram að B mæti alltaf hreinn og snyrtilegur í skólann með nesti og skóladótið sitt. Hann mæti snemma og jafnvel á undan kennaranum. Hann sé jákvæður og farinn að lesa léttan texta en þurfi að vera duglegri að lesa heima. Hann segi að vinur hans hjálpi honum við heimanámið. Lesskilningur sé ekki góður en hlustun og skilningur séu betri. Í stærðfræði gangi honum ekki nógu vel en það vanti meiri skilning og hjálp. Samskipti við önnur börn í skólanum séu góð og hann almennt vel liðinn. Mat kennara B er að hann sé oft áhyggjufullur og kvíðinn yfir því að skilja ekki nógu vel það sem fram fari en sé þó duglegur að leita sér aðstoðar. Hann hafi áhyggjur af því þegar hlutirnir séu ekki að ganga upp hjá honum heima og sé óöruggur ef hann skilji ekki allt sem sé í gangi. Það hafi verið að trufla hans einbeitingu.

18. maí 2015 var samningur gerður vegna þjónustu talsmanns skv. 46. gr. barnaverndarlaga til handa B. Segir m.a í samningnum að hlutverk talsmanns sé að fá fram afstöðu barnsins til líðan á eigin heimili, líðan í samskiptum við móður, líðan í samskiptum við stjúpföður, líðan í samskiptum við systkini, líðan á heimili stuðningsforeldra, varpa ljósi á afstöðu B til þess að búa á eigin heimili og fjarri heimili og varpa ljósi á hugmyndir B er varði framtíð hans. Var óskað eftir því að talsmaðurinn skilaði skýrslu um málið.

19. maí 2015 hitti K félagsráðgjafi  B í skólanum og ræddi við hann. Virtist B líða vel í aðstæðum sínum, var farinn að æfa fótbolta. B kvaðst, að fyrra bragði, ekki vilja heim til sín aftur en hann dvelur hjá stuðningsfjölskyldu. Lýsti B því yfir að hann vildi dvelja hjá stuðningsfjölskyldu sinni áfram. Gaf hann ítrekað í skyn að hann vildi ekki vera heima og að hann vildi ekki hitta móður sína og stjúpföður saman en vildi hitta þau í sitt hvoru lagi. Þá segir í skýrslunni að í samtali nú og áður við B sé greinilegt að hann leiti með tengsl sín af eigin heimili  til stuðningsforeldranna, en þau hafi tekið ábyrgð á þáttum sem vanræktir hafi verið af foreldrum hans, m.a. heimanám, áhugamál og virkt atlæti. Fór starfsmaður með B heim til sóknaraðila í framhaldi til að ræða við hana um áframhaldandi veru B hjá stuðningsfjölskyldu eða fram í júní. Óskaði B eftir því að móðir hans hringdi ekki ítrekað í hann daglega heldur annað slagið.

27. maí 2015 var gerð áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga vegna B og systkina hans. Gilti áætlunin frá 27. maí til 27. september 2015. Segir í henni að hlutverk forsjáraðila sé að samþykkja tímabundna vistun B skv. 84. gr. barnaverndarlaga. Heimila samstarf barnaverndar við þá fagaðila og starfsmenn stofnana sem komi að fjölskyldunni. Þiggja ráðgjöf frá ráðagjafa- og íbúðadeild Velferðarsviðs. Samþykkja að samvinna verði með málefni fjölskyldunnar á milli deilda Velferðarsviðs. Samþykkja persónulegan ráðgjafa fyrir B, tuttugu klukkustundir á mánuði. Samþykkja hlutverk talsmanns fyrir B og samþykkja stuðningsfjölskyldu fyrir B fjóra sólahringa á mánuði.

28. maí var haldinn meðferðarfundur hjá barnavernd Kópavogs vegna fjölskyldunnar. Ástæða málsins var ný meðferðaráætlun og afturköllun samþykkis sóknaraðila á vistun B skv. 84. gr. barnaverndarlaga og umræða um umgengni barnanna við móður. Er bókað um stöðu málsins að frá fyrirlögn þann 30. apríl hafi B verið vistaður utan heimilis með samþykki forsjáraðila. Starfsmenn barnaverndar hafi þrívegis rætt við B og einnig hafi borist skýrsla talsmanns hans þar sem gerð sé grein fyrir skýrum vilja drengsins um að búa á öðrum stað en á eigin heimili, neikvætt viðhorf hans í garð móður sinnar en jákvæðara í garð stjúpföður. Sóknaraðili hafi dregið til baka undirskrift sína, bæði munnlega og skriflega. Henni hafi verið kynntar tillögur barnaverndar, þ.e.a.s. að samþykkja vistun fram að næsta barnaverndarnefndarfundi 11. júní nk. ellegar þyrfti að beita 31. gr. barnaverndarlaga vegna skýrs vilja drengsins og mats starfsmanna barnaverndar á  skaðsemi ofbeldismynsturs og vanrækslu á heimili.

K heimsótti einnig stuðningsfjölskyldu B 3. júní sl.  Kom þar fram að sóknaraðili hringdi ítrekaði í B á stuttum tíma og hefði það sjáanlega mikil slæm áhrif á hann, hann verði kvíðinn og ómögulegur. B hafi upplýst þau um að móðir hans hafi hringt og skammað B fyrir að hafa sagt starfsmönnum barnaverndar frá því að hún hefði beitt hann ofbeldi. Kváðu  þau B almennt lokaðan en hann hafi opnað sig aðeins á þeim tíma sem hann dvaldi hjá stuðningsfjölskyldu, sennilega farinn að treysta þeim og finna fyrir öryggi á heimilinu. Þá kom fram að B vilji alltaf sofna með kveikt ljós. Þegar ljósið sé svo slökkt eftir að hann sé sofnaður bregðist hann ávallt þannig við að bera hendur fyrir höfuð sér, í ákveðinni varnarstöðu líkt og hann sé að verjast einhverju. Þá kemur fram að B hafi ekki sinnt hreinlæti sínu sem skyldi við komu á heimilið en hann sé nú farinn að fara í sturtu en erfitt hafi verið í upphafi að fá hann til þess. Stjúpfaðir B hefur lýst því sjálfur að sóknaraðili hafi sýnt B hranaleg handtök við böðun.

Mál B var tekið fyrir í barnavernd Kópavogs 11. júní sl. og sú krafa gerð að B yrði vistaður utan heimilis í tvo mánuði. Mótmælti sóknaraðili kröfunni og skilaði greinargerð til Barnaverndarnefndar vegna þess. Taldi sóknaraðili hagsmuni barnsins ekki standa til þess að hann skuli vitaður utan heimilis síns, hvorki til tveggja mánaða né tólf mánaða eins og komið hafði til tals. Í greinargerðinni kvaðst sóknaraðili skilja afstöðu B að vilja ekki búa á heimilinu þar sem samskipti hennar og eiginmanns hafi verið afar erfið undanfarna mánuði og ár. Það hafi bitnað á heimilislífi þeirra allra og valdið því að samskipti hennar og B hafi ekki þróast með þeim hætti sem eðlilegt væri. Þá taldi sóknaraðili enga ástæðu til þess að undirgangast forsjárhæfnismat eins og barnaverndarnefndin hafi lagt til. Þá telur sóknaraðili frumskilyrði þess að hægt sé að vista barn utan heimilis í tvo eða tólf mánuði, að fyrir liggi að forsjárhæfni foreldris sé skert eða háttsemi þess sé verulega skaðleg gagnvart umræddu barni. Sóknaraðili kvaðst vera að skilja við eiginmann sinn og því verði aðstæður hennar mun betri til að sinna drengnum og ná tengslum við börn sín, byggja sjálfa sig upp og vera þeim enn betri móðir en hún hafi verið hingað til.

10. júní sl. samþykkti stjúpfaðir B að hann yrði vistaður utan heimilis frá 11. júní 2015 til 11. júní 2016. Ritaði sóknaraðili ekki undir það samþykki.   

11. júní sl. gekk úrskurður hjá Barnaverndarnefnd Kópavogs þar sem ákveðið var að B skyldi vistaður utan heimils í allt að tvo mánuði frá og með 11. júní sl.

14. júní 2015 hringdi fósturmóðir B í bakvakt barnaverndar í gegnum neyðarlínuna. Kvaðst hún vera með B í fóstri en móðir drengsins hefði verið að hringja í sig og drenginn alla helgina. Þá voru komin um sextán símtöl sem hún vissi um og meðal annars hringdi hún í sig í vinnuna. Kvað H konuna kvað eftir annað brotna niður og það hefði greinilega mjög mikil áhrif á drenginn. Vildi H fá ráðleggingar um það hvað hún ætti að gera. Hún vissi ekki til þess að það ætti að vera nein umgengi þessa helgi og taldi víst að það yrði þá að vera undir eftirliti. Var H ráðlagt frá því að senda drenginn í umgengni þessa helgi þar sem ekki hafði verið samið um hana. Þá var henni ráðlagt að taka símann af drengnum. Stuttu síðar hringdi sóknaraðili á bakvakt barnaverndar, mjög reið og taldi að það væri mannréttindabrot að taka símann af stráknum. Hann ætti að geta talað við móður sína og honum liði mjög illa með að fá ekki að heyra í henni. Var sóknaraðila bent á þau slæmu áhrif sem inngrip hennar hefði á drenginn. Þá var henni tjáð að bakvaktin gæti ekki tekið ákvörðun um umgengni, það yrði að bíða til mánudags. Segir í bókuninni að sóknaraðili hafi verið illa skiljanleg og skyndilega lagt á.

15. júní sl. fór starfsmaður barnaverndar í heimsókn til B á fósturheimili hans vegna ofangreindrar kvörtunar og símtala frá sóknaraðila. Var B glaður og játaði því að vilja hitta móður sína. Þá var rætt við hann um að hann yrði kannski hjá I og H í sumar og kannski lengur. Kvaðst B glaður með það. Þá var ákveðið að B færi í umgengni til móður sinnar daginn eftir. Gerði sóknaraðili athugasemdir við að H kynni ekki að þrífa húð B né greiða hár hans þar sem hann væri með dökka húð. Þá kemur fram að sóknaraðili svari illa síma þegar hringt sé frá Barnaverndarnefnd. Að auki liggur fyrir dagnóta þar sem fram kemur að sóknaraðili hafi ítrekað hringt í fósturfoldrana á laugardeginum eða samtals þrjátíu og fimm sinnum og meðal annars skilið eftir ljót skilaboð.

16. júní 2015 var umgengni komið á milli sóknaraðila og B undir eftirliti en á heimili sóknaraðila. Var fyrirhugað að B yrði kominn þangað klukkan þrjú. Þegar þau komu á heimili sóknaraðila var þar opið en enginn heima. Kom sóknaraðili heim tuttugu mínútur yfir þrjú og þá með bæði yngri börnin með sér. Höfðu þau átt að vera í gæslu til klukkan fjögur og liðveitandi sóknaraðila átti að sækja þau. Var sóknaraðili beðin um að láta liðveitanda vita um breytt fyrirkomulag. Samkvæmt skýrslu K voru lítil samskipti milli sóknaraðila og B á meðan á heimsókninni stóð. Sóknaraðili sat inni í eldhúsi að gefa yngsta barninu jógúrt en B sat í stofunni að horfa á sjónvarp. Var fyrirfram um samið við B að ef hann vildi fara þá léti hann K vita. Að sögn K talaði sóknaraðili til B á [...] og, að hún taldi, í reiðitón. Hreytti sóknaraðili nokkrum sinnum ónotum í K. Segir að áberandi hafi verið hversu ábótavant samskipti barnanna hafi verið við sóknaraðila. Þá hafi B tilkynnt að hann vildi fara og hafi hann klætt sig í skó sem vistforeldar höfðu keypt fyrir hann. Hann hafi sýnt móður sinni skóna en hún svarað honum á [...] með reiðum tón og síðan ráðist að starfsmann með orðræðu um að vistforeldrarnir ættu ekki að kaupa handa B skó og föt, hún gæti séð um sín börn sjálf. Hafi sóknaraðili ekki sýnt beiðni B um athygli, neinn áhuga. Þá hafi D, miðbarnið viljað fara með starfsmanninum en verið skilin eftir grátandi hjá móður sinni. B hafi ekki viljað ræða þessa heimsókn eftirá né hvað honum og móður hans hafi farið á milli á [...].

18. júní sl. hringdi H, vistforeldri B í starfsmann barnaverndar og kvaðst finna létti á B eftir heimsóknina til móður sinnar. B hafi sóst í að sitja í fangi H þá um kvöldið þegar fjölskyldan var að horfa á sjónvarpið og leitað eftir umhyggju. B hafi þó ekki rætt um heimsókn sína til móður sinnar. Þá skýrði hún frá því að B hafi ekki viljað hafa síma sinn á sér eftir helgina þegar að móðir hans  hringdi sem oftast í hann og láti sem hann heyri ekki þegar smáskilaboð komi í símann.

18. júní 2015 var meðferðarfundur haldinn hjá barnavernd Kópavogs og var ástæðan umgengni B við móður. Kemur fram að stjúpfaðir B sé fluttur út af heimilinu vegna skilnaðar. Er bókað að sóknaraðili hafi neitað að samþykkja tillögur barnaverndar um umgengi og símasamskipti á fundi þann 16. júní. Kvaðst sóknaraðili vilja að drengurinn færi til [...] á meðan á þessum tveimur mánuðum stæði sem hann væri vistaður utan heimilis. Þá neitaði sóknaraðili að hafa beitt B ofbeldi. Hafi sóknaraðili neitað því að hún ætti við andleg veikindi að stríða og taldi sig ekki þurfa að fara í forsjárhæfnimat því hún hugsi vel um börnin sín. Var tillaga barnaverndar um að umgengni yrði einu sinni í mánuði undir eftirliti í húsnæði á vegum Velferðarsviðs.

25. júní 2015 gekk úrskurður Barnaverndarnefndar Kópavogs um reglulega umgengi sóknaraðila við B á meðan á vistun hans utan heimilis stendur. Skyldi umgengni vera annan hvern miðvikudag í tvo tíma í senn undir eftirliti barnaverndar í húsnæði á vegum nefndarinnar. Umgengnin skyldi fara fram á ensku. Þá voru símasamskipti óheimiluð. Í úrskurðinum kemur fram að drengurinn hafi verið vistaður með skriflegu samþykki móður þann 18. maí 2015 og síðan úrskurði nefndarinnar í framhaldi. Frá þeim tíma hafi drengurinn farið í tvær heimsóknir á heimili móður með starfsmanni barnaverndar. Fyrri heimsóknin hafi átt sér stað 19. maí sl. Að mati starfsmanns sem hafi verið viðstaddur hafi skort á tengsl milli móður og barns. Í heimsókn á fósturheimili drengsins þann 3. júní sl. hafi fósturforeldrar greint frá áhyggjum af neikvæðu áreiti móður í garð drengsins, en hún hringi stöðugt í drenginn og sendi honum og fósturfjölskyldu skilaboð. Næsta umgengi hafi verið 16. júní sl. undir eftirliti starfsmanns barnaverndar. Hafi sóknaraðili talað við drenginn á [...] og í reiðilegum tón. Eftir umgengnina hafi drengurinn ekki viljað ræða um heimsóknina eða hvað móðir hans hefði sagt við hann. Þá hafi hann ekki viljað vera með gsm síma vegna stöðugra símhringinga frá móður sinni. Leggja starfsmenn barnaverndar til að umgengni móður við drenginn verið einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn og að samskiptin verði á ensku. Umgengni skuli fara fram undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndar. Einnig er lagt til að engin símasamskipti eigi sér stað milli þeirra. Hafi móðirin farið fram á umgengni aðra hverja helgi án eftirlit. Í forsendum segir að barnaverndarnefnd telji í ljósi ásakana drengsins um að móðirin beiti hann ofbeldi og með hliðsjón af þeim samskiptum sem starfsmenn hafi orðið vitni að þeirra í milli, að ekki sé hægt að fallast á tillögu móður um að umgengi fari fram aðra hverja helgi án eftirlits.

 Í greinargerð til barnaverndar Kópavogs, dagsett 25. júní sl., frá K félagsráðgjafa kemur fram að samskipti við sóknaraðila hafi verið erfið og erfitt hafi verið að ná í hana símleiðis. Oft hafi þurft að koma skilaboðum til hennar í gegnum lögmann hennar þar sem hún hafi ýmist skellt á símann eða talhólf svarað. Kemur einnig fram að niðurstaða barnaverndar um að B skuli vistaður hjá vistforeldrum í tvo mánuði, hafi glatt hann.

3. júlí 2015 fór starfsmaður barnaverndar Kópavogs með B á veitingastað í þeim tilgangi að kanna líðan hans en ekki hafði fundist tími að degi til. Er því lýst að B hafi verið glaður og í jafnvægi, rætt um fótboltamót sem hann hafði tekið þátt í á Selfossi, hann hefði sofið í fellihýsi í fyrsta sinn og hann hafi rætt ýmsa hluti sem hann geri með „fjölskyldu sinni“. Þá vildi B vita hvort hann gæti ekki verið áfram hjá H og I og jafnvel gista þar fram yfir jól „eða bara alltaf“.

Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð L læknis frá 6. júlí 2015 að beiðni Barnaverndarnefndar Kópavogs. Er sérstaklega óskað eftir upplýsingum um skemmd (líffræðilega) sem heilablóðfallið hafi valdið, mögulegum áhrifum skemmdarinnar á geðslag, viðbrögð, tímaskyn, skap og annað, útfrá þekktum svæðum í heilanum. Af hvaða ástæðum læknirinn hafi tekið þá ákvörðun um að óska eftir geðmati hjá geðdeild LSH og hvernig samstarfið hafi verið við sóknaraðila. Segir eftirfarandi í vottorðinu: „Fram kemur þar að A er [...] ára gömul kona frá [...], hún kemur fyrst til Íslands 2009 með öðrum manni en þeim sem hún býr með nú. Send aftur út til [...] í febrúar 2011 af Útlendingastofnun. Hún átti svo barn úti í [...] í október 2011. Núverandi sambýlismaður mun vera faðir þess barns. Fengið síðan í desember stroke eða blóðtappa í heila, sennilega tengt hormónastaf sem hún fékk. Hún er með spastíska lömun vinstra megin eftir þetta og flogaveik. Hún kemur svo aftur hingað til Íslands eftir að hún giftist núverandi eiginmanni, C. Verið í einhverju eftirliti hjá C, taugalækni, m.t.t. sinnar flogaveiki en það verið eitthvað slitrótt. Fram kemur þar að hún er talin létt frontal skert eftir stroke og sennilega vitmunaskert. Skv. eiginmanni, sem fylgir með henni í heimsókn núna eru miklar skapsveiflur og skapofsaköst, oftast upp úr þurru. Var skapstór fyrir heilablóð en hálfu verri núna. Eftir heilablóðfall ekki rökvís eins og áður, tímavillur og stundum bara bull, skv. honum. Skv. eiginmanni einnig borið mikið á þráhyggju og ofsóknar hugmyndum sem tengjast börnum og hrædd um að allir ætli að taka börnin frá henni. Endurtekur sig mjög mikið, mjög sveiflótt andlega en oft þung andlega. Eiginmaður vinnur hjá [...] frá 8.00 til 18.00 5 daga vikunnar 8 ára drengur í skóla 3 ára stelpa í leikskóla og 7 mánaða kríli hjá dagmömmu og A illa fær um að sinna þessu öllu. Hún hefur loks sæst á að móðir C nái í eldri börnin í lok dags. Fram kemur einnig að hún hafi verið í þjálfun á [...] sem hefur engu skilað, gerir ekki eins og henni er sagt og er með skrýtnar hugmyndir um að einhverjir galdralæknar í [...] ætli að lækna hana og er ekki að meðtaka hlutina almennt.“ Þá segir einnig í vottorðinu: „Við skoðun er hún vel klædd og snyrtileg, talar bara ensku og stundum erfitt að skilja hana og hún misskilur töluvert. Líkamleg skoðun eðlileg, nema taugaskoðun þar sem hún er með svokallaðan droppfót vinstra megin eða létta lömun í fætinum, annars er nokkuð eðlilegur gangur. Hún er með spastiska lömun í vinstri hendi, verst í hendi þar sem fingur eru krepptir í hnefa og gengur illa að opna. Einnig klárt minnkaður kraftur i vinstri fæti en ekki spastisk þar. Skynjun eðlileg og heilataugar eðlilegar. Geðslag: Erfitt að meta m.t.t. tungumálaerfiðleika en þungt yfir henni en verið svo áður sk. lýsingu frá [...], virðist mjög flöt tilfinningalega og sýnir lítil svipbrigði. Í niðurstöðum segir að sóknaraðila hafi verið vísað til göngudeildar geðdeildar í nánara mat með tilliti til geðheilsu hennar. Þar hafi beiðninni verið hafnað á þeim forsendum að ekki væri tekið við einstaklingum sem séu undir umsjá barnaverndar eða á vegum félagsþjónustu og bent á sjálfstætt starfandi fagfólk. Sóknaraðili kvaðst hvorki hafa peninga né vilja til að fara til geðlæknis á stofu. Sóknaraðili hafi farið í segulómskoðun af heila 10. apríl sl. þar sem fram hafi komið stórt lágþéttnisvæði temoralt og svolítið frontalt hægra megin. Virðist vera næringarsvæði bæði arteria cerebri media æðarinnar og einnig cerebri anterior að hluta til. Það sé greinilegt parenchymalt tap með svolítilli víkkun á hægri hliðar ventricle og töluverð gliosa. Það sé heilavefur á milli þessara lágþéttnisvæða sem virðist vera í lagi og gæti hugsanlega bent til þess að lokunin hafi ekki verið í meginstofni heldur meira í útæðum á þessum svæðum. Þá er tekið fram að helstu spurningum sé svarað en svar við annarri spurningu sé nánar að framheilaskaði geti valdið hömluleysi og skorti á framtakssemi og skapsveiflum. Geti einnig valdið erfiðleikum við að leysa vandamál, tilhneiging sé til endurtekningar og stundum óeðlilegrar hegðunar. Lömunin tengist sennilega einnig hennar framheilaskaða og væri heilaskaðinn vinstra megin hefði þetta sennilega einnig haft áhrif á tal. Temporal eða gagnaugaskemmdin geti hins vegar haft töluverð áhrif á minni og valdið erfiðleikum við að finna orð yfir hluti. Getur einnig leitt til reiðikasta og hótandi hegðunar eða jafnvel valdbeitingar. Geti líka leitt til alveg öfugs, áhugaleysis og meðfærileika. Tímaskyn oft truflað. Geti haft áhrif á heyrn og aðra skynjun og ekki óalgengt að valdi flogaveiki eins og hún sé með. Svar við spurningu þrjú sé að fram komi einnig að það sé kannski fyrst og fremst mat með tilliti til þráhyggju og þunglyndis og sömuleiðis vitsmunaskerðingar. Þá kvað C að erfitt hafi verið að ná í sóknaraðila, hún hafi ekki svarað síma og komið hálftíma of seint í viðtalið 9. janúar sl.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila í aðalsök og gagnsök.

Sóknaraðili krefst þess fyrst og fremst að úrskurður Barnaverndarnefndar Kópavogs frá 11. júní sl., um að B verði vistaður á heimili á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði frá 11. júní sl. að telja verði felldur úr gildi.

Þá krefst sóknaraðili þess að krafa varnaraðila um að B verði vistað utan heimilis á vegum barnaverndar í allt að tólf mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar verði hafnað. Til vara krefst sóknaraðili að vistun utan heimilis vari í skemmri tíma er tólf mánuði verðu krafa varnaraðila tekin til greina.

Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila ásamt virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Sóknaraðili telur hagsmuni barnsins B, ekki standa til þess að hann skuli vista utan heimilis, hvorki til tveggja mánaða, né til 12 mánaða. Sóknaraðili telur rétta málsmeðferð í máli þessu vera að veita sóknaraðila hjálparhönd til þess að bæta tengsl hennar og barnsins og veita henni hjálp til þess að geta verið með barnið á sínu heimili, í ljósi þess að hún og eiginmaður hennar séu skilin að skiptum og hún því einstæð. Sóknaraðili telur að vissu leyti skiljanlegt að B vilji ekki búa á heimili hennar. Samskipti sóknaraðila og C hafi verið afar erfið undanfarna mánuði og ár. Hafi það bitnað á heimilislífi þeirra allra og valdið því að samskipti sóknaraðila og B hafi ekki þróast með þeim hætti sem eðlilegt væri. Nú standi hins vegar til að sóknaraðili og C ætli að skilja og munu því þeir samskiptaörðuleikar sem einkennt hafa heimilislífið síðustu misseri ekki koma til með að hafa áhrif í framtíðinni. Jafnvel þó þessi afstaða hafi komið fram hjá B telji sóknaraðili þessa vistun utan heimilis ekki vera barninu til framdráttar til lengri tíma litið þó honum virðist líða vel að svo stöddu, enda þekki hann til núverandi dvalarstaðar og sé besti vinur barns fósturforeldra. Sóknaraðili telji ekkert koma í veg fyrir að B haldi þeim tengslum sem myndast hafi hjá honum og fósturforeldrum, þar sem það ætti að vera mögulegt að halda þeirri fjölskyldu sem stuðningsfjölskyldu við B. Með vísan til þess að Barnaverndarnefnd Kópavogs telji það í úrskurði sínum forsendu þess að móðir geti sinnt barni sínu og veitt því þroskavænleg uppeldisskilyrði að hún sæki sér meðferðar vegna veikinda sinna vill sóknaraðili taka það fram að hún mun taka á móti öllum stuðningi með það að markmiði að hún eigi betra með að sjá um sig sjálf, hvort sem það er endurhæfing eða önnur meðferð. Sóknaraðili telji þó getgátur þær sem finna megi í úrskurði Barnaverndarnefndar  um skert andlegt hæfi hennar úr lausu lofti gripnar, þ.e hvað varði skerta heilastarfsemi og atferlisbreytingar. Ekki sé hægt að fullyrða að atferli sóknaraðila hafi breyst vegna blóðtappa burtséð frá því hvort fyrir liggi að einhver ákveðinn hluti í heila hennar sé með skerta starfsemi. Fjöldi fólks verði ekki vart við atferlisbreytingar við heilaskaða og telur sóknaraðili engar sönnur færðar fram á að sú sé raunin í tilfelli hennar. Þá bendir sóknaraðili á að þessi heilaskaði hafi verið til staðar allt frá árinu 2011 þegar hún varð fyrir honum og því hafi það ástand verið óbreytt allan þann tíma. Hún hafi á því tímabili eignast tvö börn og verið gift eiginmanni sínum til margra ára. Sóknaraðili stundaði endurhæfingu við [...] vegna heilaskaða þegar hún var ófrísk af yngsta barni sínu. Hún átti þess ekki kost að halda áfram í þeirri endurhæfingu síðustu vikur meðgöngu sinnar né eftir fæðingu barnsins þar sem hún var með barnið á brjósti og gat því ekki farið frá barninu í lengri tíma vegna endurhæfingar. Í úrskurði Barnaverndarnefndar sé jafnframt lagt til að sóknaraðili undirgangist forsjárhæfnismat. Sóknaraðili telur enga ástæðu til þess að undirgangast slíkt mat og hafnar því að gera það, að svo stöddu.

Sóknaraðili telur engin skilyrði vera til þess að vista B utan heimilis. Frumskilyrði þess að hægt sé að gera kröfu um vistun utan heimilis, hvort sem er til tveggja eða tólf mánaða sé að fyrir liggi að forsjárhæfni foreldris sé skert eða háttsemi þess sé verulega skaðleg gagnvart umræddu barni sbr. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Þegar gögn málsins séu skoðuð megi sjá að engin tilkynning hafi verið send til barnaverndar sem varði B sem ekki sé að undirlagi sóknaraðila, þ.e tilkynningar sem sendar séu til barnaverndar þar sem sóknaraðili hafi ásakað eiginmann sinn um ofbeldi í sinn garð eða deilur séu til staðar á milli þeirra. Skóli B hafi ekki sent inn tilkynningar vegna hans, hvorki vegna þess að grunur sé um að B sé beittur ofbeldi, né vegna þess að hann stundi ekki skóla, komi ekki á réttum tíma til skóla, hann sé ekki með réttan búnað í skóla, o.s.frv. Þvert á móti komi fram í gögnum frá skóla að B mæti ávallt á réttum tíma í skólann, hann sé ávallt með öll námsgögn, hann sé snyrtilegur og hegði sér almennt vel. Það liggi þó fyrir að hann eigi við einhverja námsörðugleika að stríða, sem þó einskorðist við ákveðin fög. Í bréfi frá skólastjóra [...] 28. mars 2014 komi fram að B gangi vel í námi og að hann sé fljótur að læra. Kennurum finnist hann vera duglegur en auk þess sé tekið fram að umhirða og aðbúnaður hans sé að öllu leyti í góðu lagi. Í gögnum sé einnig að finna bréf frá kennara B dagsett 18. maí 2015 og taki kennarinn þar fram að almennt líði B vel í skólanum. Hann komi hreinn og snyrtilegur í skólann og sé ávallt með nesti og skóladótið sitt. Í bréfinu taki kennarinn fram að B sé jákvæður og mæti alla daga í skólann. Sú staðreynd að sóknaraðili sé fötluð telur sóknaraðili að eigi engan veginn að stjórna því hvort vista eigi B utan heimilis. Það sé af augljósum ástæðum mun auðveldara fyrir sóknaraðila að annast B, en önnur yngri börn sín, enda þurfi hún ekki að beita líkamlegum burðum með sama hætti við uppeldi gagnvart ungabörnum, sem þurfi eftir atvikum að halda meira á, skipta um bleyjum á o.s.frv.

Sóknaraðili telur jafnframt meðalhófsreglu barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga ekki uppfyllta með því að úrskurða um vistun utan heimilis. Sóknaraðili telur að ekki hafi verið látið reyna á vægari úrræði, svo sem gerð áætlunar um meðferð máls, stuðning við sóknaraðila og barnið, fjölskylduráðgjöf eða önnur úrræði sem miða að því að treysta bönd barnsins og sóknaraðila. Eins og bent sé á verða verulegar breytingar á heimilishögum sóknaraðila á næstu mánuðum, þegar sóknaraðili og eiginmaður hennar skilja að skiptum. Fyrir liggi að sóknaraðili og eiginmaður hennar hafi verið verulega ósátt hvort við annað á undanförnum árum sem hafi leitt til togstreitu og ástands á heimili sóknaraðila og hafi það bitnað á B, sem og öðrum börnum sóknaraðila. Nú þegar þau búi ekki á sama stað til frambúðar sé alls óljóst hvernig uppeldisaðstæður hjá sóknaraðila séu og þá hvort þær verði verri eða betri við þessa breytingu. Sóknaraðili trúir því að nú geti hún einbeitt sér betur að því að ná tengslum við börn sín, byggja sjálfa sig upp og vera þeim enn betri móðir en hún hefur verið hingað til. Sóknaraðili telur engan veginn efni til að vista barnið utan heimilis við þessar kringumstæður. Það eitt að barnið sem um ræðir hafi lýst vilja sínum til að búa til frambúðar hjá fósturforeldrum leiðir ekki sjálfkrafa til þess að barnið beri að vista utan heimilis. Fyrir liggi að almennar aðstæður umræddra fósturforeldra geti talist betri en sóknaraðila, enda sóknaraðili í dag einstæð móðir, sem eigi við líkamlega fötlun að stríða með lágmarkstekjur. Sóknaraðili telji því á vissan hátt skiljanlegt að B vilji til skamms tíma búa á heimili fósturforeldra, enda séu þau í betri fjárhagslegum aðstæðum, búa í stærra og betra húsnæði og eiga jafnframt son sem er bundinn B vinatengslum. Það leiði ekki til þess að forsjárhæfni sóknaraðila sé svo slæm að barnið beri að vista utan heimilis. Nauðsynlegt sé að beita frekari almennum stuðningsúrræðum áður en beitt sé svo viðurhlutamiklu úrræði eins og vistun utan heimilis.

Þá telur sóknaraðili rannsóknarreglu barnaverndar- og stjórnsýslulaga brotna. sbr. 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga nr. 88/2002.  Nauðsynlegt sé að kanna nánar hvort önnur úrræði henti betur heldur en vistun utan heimilis. Vísað sé til þess er fram komi að framan um aðstæður sóknaraðila. Nauðsynlegt sé að leyfa þessum breytingum á högum að ganga í gegn áður en hægt sé að fullyrða nokkuð um nauðsyn þess að vista barnið utan heimilis.

Sóknaraðili byggir enn fremur á því að úrskurðurinn brjóti í bága við markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 sem tilgreint er í 2. gr. Markmið laganna sér m.a að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Verði með engu móti fallist á að úrskurður barnaverndar Kópavogs um vistun drengsins utan heimilis leiði til styrkingar fjölskyldunnar, heldur þvert á móti sé hann til þess fallinn að stía fjölskyldunni í sundur og brjóta hana niður. Um sé að ræða afar íþyngjandi úrræði sem nota ætti þegar aðrar vægari  leiðir eru fullreyndar, sbr. 23., 24., og 26. gr. barnaverndarlaga.

Sóknaraðili byggir einnig á því að úrskurður Barnaverndarnefndar brjóti í bága við grundvallarreglu barnaverndarlaga nr. 80/2002 sem lögfest er í 4. gr. laganna. Reglan feli í sér að við úrlausn barnaverndarmála beri að beita þeim ráðstöfunum sem séu barni fyrir bestu, þá skuli hagsmunir barna ætíð vera í fyrirrúmi. Það hljóti að teljast barni fyrir bestu að reyna að styðja kynmóður þess sem sinnt hefur uppeldi þess frá fæðingu í því að geta annast barnið á heimili sínu, jafnvel þó stuðnings þurfi að njóta við,  frekar en að vista það utan heimilis.  Í greininni komi jafnframt fram að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða sem og beitt sé ávallt vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt.Telur sóknaraðili að ekki hafi verið farið eftir þessu í úrskurði barnaverndarnefndar.

Nauðsynlegt sé að hafa jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins í huga þegar lögmæti úrskurðar barnaverndarnefndar Kópavogs er metinn. Reglan sér lögfest í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 6. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2000 sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Við ákvarðanatöku í máli sóknaraðila hafi Barnaverndarnefnd Kópavogs borið að taka tillit til stöðu sóknaraðila í samfélaginu og veita henni meðferð og leiðbeiningar í samræmi við þá stöðu til að tryggja að henni yrði ekki mismunað vegna heilsufars síns, uppruna, tungumáls, fjárhagsstöðu eða annarra þátta. Varnaraðila hafi því borið að kynna sóknaraðila betur þau úrræði sem einstaklingum í viðlíka stöðu standi til boða hér á landi og kanna hvort aðstæður sóknaraðila og barnsins breyttust til hins betra með auknum stuðningi.  Í ljósi ofangreinds sé gengið miklu lengra en nauðsyn krefji. Sóknaraðili vilji koma því á framfæri að hún telji nauðsynlegt að litið sé til hagsmuna barnsins áður en teknar séu ákvarðanir um vistun utan heimilis og annarra leiða sé leitað en því að barnið fái ekki að sofa á heimili sínu um kvöld og nætur. Sóknaraðili telur að vinna þurfi ötullega í málefnum þeirra beggja til þess að bæta stöðu og samband þeirra og lýsir hún sig reiðubúna til að gera það í samvinnu við barnaverndarnefnd, skóla og félagsþjónustu.  Beri því að fella hinn kærða úrskurð úr gild.

Varðandi kröfu sína um að krafa varnaraðila um að B verði vistaður í tólf mánuði utan heimilis, vísar sóknaraðili til sömu raka og að framan er ritað.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili gerir þá kröfu að úrskurður nefndarinnar frá 11. júní sl. um tveggja mánaðar vistun sonar sóknaraðila utan heimilis verði staðfestur. Jafnframt er gerð sú krafa að vistunartíminn verði lengdur þannig að vistunin vari í 12 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar í málinu með vísan til 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Varnaraðili vísar kröfu sinni til stuðnings til málavaxta og gagna máls sem sýna að drengurinn hafi um langt skeið búið við óviðunandi heimilisaðstæður þar sem átök milli foreldra og geðræð einkenni sóknaraðila hafi skert forsjárhæfi hennar. Þá hafi lögregla ítrekað verði kölluð til vegna uppnáms sem sóknaraðili hefur valdið á heimilinu og sýni hversu alvarlegt geðrænt ástand hennar sé og hvernig öll hennar hegðun einkennist af tortryggni og þráhyggju. Við vinnslu málsins hafi borið á innsæisleysi sóknaraðila sem birtist í m.a. því að hún hafni allri aðstoð, neiti að hafa beitt ofbeldi, segir samband sitt við börnin mjög gott og að hún sé góð móðir. Skýrslur tilsjónar með umgengni segja hins vegar að geðtengsl hennar við börnin séu ekki sterk og að hún sýni þeim litla hlýju.  Í tilkynningu sem kom frá meðgöngu- og sængurlegudeild 3. júlí 2014 segi að fylgst hafi verið með tengslamyndun sóknaraðila við þá nýfætt barn hennar og að hún virtist sýna barninu takmarkaða ást og umhyggju. Verulegar áhyggjur voru af tengslamyndun, að sóknaraðili væri ekki í samvinnu og tæki ekki leiðbeiningum.

Sóknaraðila hafi verið tíðrætt um að eiginmaður hennar og fjölskylda hans séu að reyna að stela börnum hennar af henni. Tal hennar um það sé þráhyggjukennt og hafi verið allt frá opnun málsins hjá barnavernd Kópavogs. Í vinnslu málsins hafi ekkert komið fram sem styðji frásögn sóknaraðila hvað þetta varði. Sóknaraðili hafni því algjörlega að hún kunni að glíma við geðræn veikindi eða persónuleikatruflun vegna þess skaða sem varð á framheila eftir heilablóðfall. Miklar líkur séu til þess að forsjáhæfni móður sé skert vegna hennar veikinda og ekki sé að sjá að tilfinningaleg tengsl hennar og drengsins séu sterk. Sóknaraðili neiti hins vegar að undirgangast forsjárhæfnimat.

Í læknisvottorði L dags. 6. júlí sl. sé rakin niðurstaða segulómunar er sóknaraðili undirgekkst í apríl 2015 og afleiðingar þess skaða sem heilablóðfall sóknaraðila olli. Þar komi m.a. fram að  framheilaskaði geti valdið hömluleysi og skort á framtakssemi, skapsveiflum og óeðlilegri hegðun. Gagnaugaskemmdin geti hins vegar haft áhrif á minni og valdið erfiðleikum við að finna orð yfir hluti. Einnig geti það leitt til reiðikasta, hótandi hegðunar og jafnvel valdbeitingar. Aukinheldur komi fram í vottorði læknisins að hann hafi ákveðnar efasemdir um hverju geðlæknismeðferð myndi skila fyrir sóknaraðila m.t.t. við vinnufærni hennar eða getu til að hugsa um börn þar sem hún virtist hingað til hafa meðtekið allar upplýsingar illa og ekki farið að leiðbeiningum. Varnaraðili vísar aukinheldur til þess þess að líkamlegri- og andlegri heilsu drengsins sem og þroska hans sé hætta búin í umsjá sóknaraðila. Allt frá því að málið hafi verið tilkynnt fyrst til barnaverndar hafi drengurinn sagt ítrekað frá ofbeldi sem sóknaraðili hafi beitt. Frásögn drengsins um ofbeldið sé staðföst og viðvarandi og studd viðtölum við stjúpföður, stjúpömmu og tilsjónaraðila sóknaraðila.

Í viðtölum sálfræðings barnaverndar Kópavogs við drenginn í mars og apríl 2014 hafi komið fram mjög neikvætt viðhorf hans til sóknaraðila, hann sagt frá ofbeldi hennar í hans garð að hún slái hann utan undir, klípi hann í kinnarnar og öskri á hann. Niðurstaða sálfræðingsins sé að án breyttra heimilisaðstæðna yrði árangur af viðtalsmeðferð takmarkaður. Þegar búið sé að skapa öryggi og festu í hans lífi sé mikilvægt að hann fái aðstoð við að mynda jákvæðara viðhorf til sjálfs sín og efla getu hans til þess að takast á við aðstæður Þá sé jafnframt vísað til þess að sóknaraðili hafi vanrækt forsjárskyldur sínar þegar litið sé til alls utanumhalds s.s. heimanáms, tómstunda, félagasamskipta og örvunar. Vanræksla drengsins birtist m.a. í því að drengurinn hafi verið vanur að mæta kl. 7:30 í skólann og komi ekki heim til sín fyrr en kl. 19 á kvöldin og hafi verið sofnaður kl. 20. Öllum helgum hafi hann eytt hjá vinum. Sóknaraðila hafi ekki verið kunnugt um tómstundaiðkun hans, félagsgjöld hafi ekki verið greidd og hann ekki tekið þátt í mótum. Fjölskylda vinar hans hafi séð um heimanámið hans og að þvegið fötin hans meðan hann var í heimsókn og foreldrar bekkjarfélaga héldu honum afmælisveislu sem sóknaraðili mætti ekki til.

Varnaraðili vísar ennfremur til þess vilja drengsins að vera vistaður utan heimilis. Í viðtölum við talsmann hafi gætt mikils pirrings hjá drengnum í garð móður sinnar. Honum hafi verið tíðrætt um að hún væri alltaf svo pirruð og að rífast og að hann nennti ekki að hlusta á hana. Hann sagðist ekki sakna móður, en að hann saknaði stjúpföður og systkina sinna. Í skýrslunni komi fram skýr afstaða drengsins til þess að búa ekki á heimili foreldra sinna og að vera ekki í miklum samskiptum við móður

Þá sé því hafnað af hálfu varnaraðila að meðalhófs hafi ekki verið gætt í beitingu úrræða barnaverndarlaga. Sóknaraðili hafi ekki sinnt endurhæfingu í kjölfar heilablóðfalls og hafni því að eiga við geðrænan vanda að stríða. Varnaraðili hafi því ekki geta veitt henni stuðning hvað þau atriði varði annað en að tryggja henni þann rétt sem hún eigi á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá hafi fjölskyldan fengið forgang í félagslegt leiguhúsnæði. Gerðar hafa verið fjórar meðferðaráætlanir í málinu frá 1. janúar 2014 sem hafi að geyma ýmis stuðningsúrræði sem rakin hafa verið í málavaxtalýsingu. Úrræði eins og tilsjón, þar sem aðili komi inná heimili sóknaraðila til þess að aðstoða hana við uppeldi og umönnun barnanna, hafi til að mynda ekki gengið vegna undirliggjandi geðrænna erfiðleika sóknaraðila, þráhyggju og tortryggni. Þrátt fyrir yfirlýsingar þess efnis að sóknaraðili vilji þiggja aðstoð til að bæta tengsl hennar við drenginn hafi sóknaraðili hafnað slíkri aðstoð á fundi með varnaraðila, síðast þann 25. júní sl. þegar umgengni hennar við drenginn var tekin fyrir á fundi Barnaverndarnefndar. Hún hafi jafnframt neitað að skrifa undir meðferðaráætlun og sé því engin slík í gildi.

Nauðsynlegt sé að tryggja drengnum viðunandi uppeldisskilyrði, stöðugleika og meðferð við þeim áföllum sem hann hafi gengið í gegnum á lífsleiðinni. Þrátt fyrir langan tíma og virka vinnslu í málinu hafi ekki tekist að vinna að bættum samskiptum innan fjölskyldunnar eða efla hæfi sóknaraðila til að veita börnum sínum ást og umhyggju. Uppeldisskilyrði drengsins og systkina hafi þrátt fyrir allt ekki farið batnandi og drengurinn sé skýr í sinni afstöðu. Hann vilji ekki búa hjá móður. Hann hafi ennfremur sýnt þennan vilja sinn í verki með því að skapa sér tengsl og stöðu innan þeirrar fjölskyldu sem nú hafi fengið hlutverk fósturfjölskyldu hans.

Varnaraðila beri samkvæmt barnaverndarlögum að tryggja börnum stöðugleika og öryggi í uppeldi og í þeim tilgangi skuli eftir föngum grípa til þeirra vægustu úrræða sem unnt sé. Gögn málsins sýni að þau almennu stuðningsúrræði sem beitt hafa verið hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Vistun utan heimilis sé að mati varnaraðila nauðsynlegt úrræði til að tryggja öryggi og velferð drengsins. Með vísan til 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga séu hagsmunir drengsins hafðir í fyrirrúmi. Varnaraðili telji það ekki samrýmast hagsmunum drengsins að búa áfram við þær aðstæður sem hann hafi búið við hjá sóknaraðila þar sem hann þurfi að þola ofbeldi og annarskonar vanrækslu. Sóknaraðili verði að viðurkenna og leita sér aðstoðar við vanda sínum og gangast undir forsjárhæfnimat áður en hún taki aftur við uppeldi drengsins. Réttur barna til þess að njóta viðunandi uppeldis og umönnunarskilyrða skuli vega þyngra en forsjárréttur foreldra. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og endurspeglist í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé skylt að veita börnum þá vernd sem mælt sé fyrir í 3. mgr. 76. gr. Stjórnarskrár Íslands, Barnaverndarlögum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Um lagaheimild sé vísað til 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ekki er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Skýrslur fyrir dómi.

Dómari ræddi við B við upphaf aðalmeðferðar og kannaði afstöðu hans með vísan til 3. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

                A kom fyrir dóminn og kvaðst aðspurð ekki hafa beitt B ofbeldi. Kvaðst hún hafa verið í ofbeldisfullri sambúð og eiginmaður hennar viljað losna við B af heimilinu. Kvað hún engar tilkynningar eða athugasemdir hafi borist frá skóla B um að aðbúnaður hans sé ábótavant. B sé úrvals nemandi og vakni snemma á morgnanna eða um hálf sjö. Hún kvað B og sig vera mjög tengd tilfinningalega. Aðspurð um athugasemdir starfsmanna um að hún sé kuldaleg við B, kvaðst hún ekki kannast við það en viti í raun ekki við hvað sé átt en mikill menningamunur sé á milli hennar heimalands og Íslands. Kvaðst hún ekki geta skýrt það frekar en ekkert barn fæðist níu ára gamalt, hún hafi alið hann upp og sé einstæð móðir. Sóknaraðili kvaðst búa við líkamlega fötlun, hún hafi fengið heilablóðfall 2011 og sé fötluð vinstra megin. Áfallið hafi ekki breytt henni andlega. Öll hugsun og andleg viðbrögð séu eins og áður. Þá telur hún fötlun sína hamla því að hún geti sinnt öllum þörfum B og sé mjög veik um þessar mundir en návist sonar hennar styrki hana. Kvaðst hún ekki hafa séð son sinn í einn mánuð. Kvaðst hún hafa undirritað samkomulag 14. maí sl. um mánaðar sumarleyfi fyrir B og hann kæmi aftur 14. júní sl. en hún hafi ekki séð síðan þá. Aðspurð kvað hún sig og eiginmann sinn vera að skilja en hann hafi flutt út af heimilinu 23. maí sl. með tvö yngri börn þeirra. Skýrsla talsmanns B þar sem fram kemur að B vilji vera áfram hjá vistforeldrum sínum, var borin undir sóknaraðila. Kvað sóknaraðili vera á móti því að hann verði þar áfram því hún sé í sambandi við föður B í [...] og hann hafi lagt áherslu á að vera í sambandi við B. Samkvæmt [...] venjum og siðum muni það valda barninu vandamálum að alast ekki upp hjá móður sinni. Aðspurð kvaðst sóknaraðili geta annast B ef hann kemur aftur á heimili hennar. Þá geti hún fengið aðstoð frá M inn á heimili sitt.  Kvað sóknaraðili eiginmann sinn ætíð hafa viljað skilja B og yngri systkini hans að. Þá kvaðst sóknaraðili að sér hafi farið fram í þeirri endurhæfingu sem hún hafi fengið og sé í meðferð vegna handleggsins og þurfi frekari endurhæfingu vegna fótarins. Sóknaraðili kvað aðstæður sínar muni batna þar sem eiginmaður hennar sé farinn af heimilinu. Mikil togstreita hafi verið á milli þeirra hjóna og sé ástæðan sú að C vilji ekki hafa B með hinum börnunum. Aðspurð kvað sóknaraðili B hafa farið fótgangandi í skólann en áður hafi hún aðstoðað hann með tannburstun og morgunverð. Hann sé ákaflega umhyggjusamt barn og taki tillit til fötlunar hennar. Kvað hún B vera nógu gamlan til að sjá um sig sjálfur. Aðspurð hvers vegna B segi hana beita sig ofbeldi svaraði hún því til að B væri bara barn og þegar hún hækkaði við hann röddina vildi hann ná sér niður á henni. Sóknaraðili neitaði því að hún lemdi B í höfuðið ef hann sinnti ekki heimanáminu. Væri enginn menningarmunur á milli landa þar á. Sóknaraðili kvað B alltaf vera kominn heim úr skóla klukkan hálf sex á daginn. Það kæmi stundum fyrir að hann hringdi í sig og óskaði eftir að fara heim með vini sínum og borða kvöldmat þar, sem hún þá heimilaði. Það gerðist hins vegar ekki oft. Það komi þó fyrir að hann komi seint heim og svari því til að hann hafi borðað kvöldmat heima hjá vini sínum. Aðspurð kvað hún B vera með vini sínum um helgar og biðji um leyfi til þess. Aðspurð um afmælisveislur, kvaðst hún halda upp á afmæli hans heima hjá þeim ásamt því að bjóða vinum hans heim. Þá kvaðst hún einu sinni hafa hitt B eftir að hann fór til vistforeldra 15. maí sl. Það hafi verið fyrir 14. júní sl. Þá hafi hann sagst vera kominn til að kanna hvernig sóknaraðili hafi það. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa hitt hann síðan fyrir tilstilli barnaverndaryfirvalda. Ítrekað aðspurð um umgengni fyrir tilstilli barnaverndaryfirvalda 16. júní sl., kvaðst hún muna eftir því að komið hafi verið með B í eitt sinn. Aðspurð um samskipti þeirra í þeirri heimsókn, kvað sóknaraðili heimsóknina hafa varað innan við klukkustund en sonur hennar hafi sagt sér að þetta væri ekki það sama og ætti að vera heima hjá sér. Kvað hún aðspurð B ekki hafa verið ánægðan, hann sakni sóknaraðila og systkina sinna. Aðspurð nánar útí M og aðstoð hennar, kvað sóknaraðili móður sína þekkja hana og sóknaraðili hafi þekkt hafa frá árinu 2009. Móðir hennar búi í [...] og þekki M þaðan. Aðspurð um þá einstaklinga sem hafi sinnt aðstoð inni á heimili sóknaraðila og þá samskiptaerfiðleika sem hafa verið við þá, kvað sóknaraðili enga spennu verða á milli þeirra. Aðspurð um synjun hennar fram til þessa um að láta meta forsjárhæfni hennar, kvaðst sóknaraðili hafa haft sínar ástæður fyrir því, heilablóðfallið og að hún hugsi fyrst og fremst um börnin sín en kvaðst vera tilbúin til þess í dag. Taldi sóknaraðili að staða hennar sé mun betri í dag án C og þá einnig staða barnanna. Þá kvaðst sóknaraðili nú vera tilbúin til að láta meta andlega heilsu sína. Þá kvaðst sóknaraðili aðspurð ekki hafa hugleitt það að fara til [...] þar sem henni sé óheimilt að fara með börn C úr landi fyrir utan að hún hafi ekki efni á því. Sóknaraðili kvaðst ræða við B á [...] og ensku. B fái aðstoð við námið sem tengist íslensku. Sóknaraðili kvað samband hennar og C ekki vera gott og ekkert samband væri á milli hennar og tengdamóður hennar, þær hafi aldrei verið vinkonur. Sóknaraðili kvaðst hafa farið á sjúkrahús 4. júlí sl. vegna andlegs áfalls og vera þar enn. Aðspurð um margítrekuð símtöl til B kvaðst sóknaraðili ekki treysta því fólki sem B búi hjá og sé að kanna hvernig honum líði. Hún hafi aðeins hitt það fólk einu sinni og geti því ekki treyst þeim.

                Vitnið C gaf skýrslu fyrir dóminum. Aðspurt kvað vitnið sóknaraðila hafa verið skapmikla fyrir heilablóðfallið en eftir það hafi hún ætíð talið alla vera að svindla á sér eða stela börnunum af henni. Þá sé munnsöfnuður sóknaraðila ekki börnunum bjóðandi. Kvað vitnið öll samskiptin frá henni vera þau sömu, allir væru sóðar og allir væru að stela börnunum frá henni. Því hafi hún einnig haldið fram þegar hún skildi við fyrri eiginmann sinn. Eftir heilablóðfallið hafi hún miklu minna þol og hafi sýnt meira ofbeldi. Vitnið og systir þess hafi horft á sóknaraðila taka í kinn B, klípa hann og snúa uppá. Þá hafi baðtímar verið kvöl fyrir strákinn. Vitnið hafi heyrt B kveinka sér undan sóknaraðila og gráta. Þegar vitnið hafi skipt sér af þessu, hafi hún sagst vera móðir drengsins og megi gera það sem henni sýnist við hann. Sóknaraðili sé búin að einangra sig alveg, hún fari ekkert nema vitnið keyri hana, hún geri ekkert með börnunum, sitji annað hvort inni í eldhúsi eða sé í tölvunni. Kvað vitnið samband sitt við B hafa verið gott en eftir að hann fór í fóstur hafi samband þeirra ekki verið mikið. Þeir hafi þó hist nokkrum sinnum. B komi til hans á heimili móður hans í heimsókn og hitti þau og systkini sín. Kvað vitnið B hafa liðið illa á heimilinu og því oft mætt mjög snemma í skólann og farið heim til vinar síns eftir skóla. Kvaðst vitnið ekki hafa getað sinnt B með heimanám hans eftir skóla því vitnið hafi þurft að sinna yngri börnunum þegar það kom heim úr vinnu um hálf sjöleytið á kvöldin. Kvað vitnið samband B við móður þess og stjúpföður einnig hafa verið gott. Kvað vitnið móður þess og stjúpföður hafa sótt börnin á leikskóla og til dagmóður daglega eftir að vitnið lauk fæðingarorlofi og farið með þau heim til sóknaraðila og gætt þeirra þar þangað til vitnið komi heim úr vinnu. Vitnið hafi ætíð farið með börnin á leikskóla á morgnanna en sóknaraðila hafa séð um nesti fyrir B á morgnanna. Kvað vitnið sóknaraðila aldrei hafa tekið utan um B og sýnt honum þannig tilfinningar. Vitnið kvað B ætíð hafa sagt sér frá því hvert hann fór eftir skóla. Þá hafi hann sýnt vitninu í hverju aðstoð foreldra vinar hans við heimanámið fólst. Hafi vitnið verið glatt með það því vitnið hafi ekki getað sinnt þessum þætti. B hafi yfirleitt ekki komið heim fyrr en um sjöleytið á kvöldin. Sóknaraðili hafi síðan rekið B í rúmið klukkan átta á kvöldið. Aðspurt um M, kvað vitnið konuna heita M og vera fyrrverandi tengdamóður sóknaraðila og búa á [...]. Vitnið kvaðst styðja það að drengurinn fari í vistun utan heimilis því honum líði mjög vel í dag og mikil framför átt sér stað. Vitnið kvaðst hafa farið út af heimili aðila 15. maí sl. með tvö yngri börnin en sóknaraðili væri ófær um að annast börnin. Vitnið kvaðst margoft hafa farið með börnin í heim til sóknaraðila í heimsókn eftir að hann fór út af heimilinu auk þess að heimsækja hana með börnin upp á spítala. Það sé þó erfitt því sóknaraðili rífist ætíð í sér í áheyrn barnanna. Vitnið kvaðst hafa farið til sýslumanns 14. júlí sl. til að sækja um skilnað og krafist þess að fá fulla forsjá yngri barnanna. Vitnið telji það ekki forsvaranlegt að þau alist upp við ofbeldi hjá sóknaraðila. Vitnið kvað sóknaraðila hafa farið og sótt börnin á leikskólann eftir að vitnið fór af heimilinu og notað til þess ferðaþjónustu fatlaðra og þá sótt þau klukkan tvö að deginum. Vitnið kvaðst hafa séð um mest öll heimilisstörf sem til féllu utan þegar þau fengu aðstoð frá félagsþjónustunni í Kópavogi auk þess að hafa eldað kvöldmat. Vitnið kvaðst ekki telja að sóknaraðili geti séð um þarfir B, hún hafi t.d. aldrei getað tekið utan um hann.

                Vitnið I kom fyrir dóminn og kvaðst hafa kynnst B í júní 2014 en hann hafi komið á heimili þess með J syni vitnisins. Í júlí hafi B nánast verið á heimilinu frá morgni til kvölds. Þau hjónin hafi yfirleitt sent B til síns heima um kvöldmatarleytið. Þannig hafi það verið allt sumarið. Eftir að skóli byrjaði hafi þau farið að hjálpa B með heimanám hans. Í desember 2014 hafi þau sótt um að gerast stuðningsfjölskylda B. Hafi sú beiðni verið samþykkt í apríl 2015. Hafi B nánast verið heima hjá þeim síðan. Kvað vitnið B og J ekki vera saman í bekk en þeir hafi verið leikfélagar í skólanum. B hafi í raun verið að flakka á milli heimila og verið þar sem hann hafi fengið að vera og heimili vitnisins hafi greinilega verið góður staður þar sem B kom þangað á hverjum degi. Vitnið kvað aðstoð við heimanámið hafa farið fram á milli klukkan fimm og sjö á daginn en þau hafi vitað að heimanámi hans var ekki sinnt heima hjá honum. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í sambandi við skóla B en dægradvöl skólans hafi haft samband við þau hjónin ef sækja þurfti B í dægradvölina vegna veðurs eða annarra hluta. Vitnið kvaðst ekki vita hvort það hafi verið í samráði við foreldra B. Vitnið kvaðst vera viss um að B hafi ekki verið í símasambandi við foreldra sína þegar hann kom á heimili þeirra. Einu skiptin hafi verið þegar þau fóru fram á að B léti vita af sér heim ef klukkan var orðin margt, t.d. komið fram yfir matartíma. Vitnið kvaðst hafa séð mjög mikla breytingu til batnaðar á B eftir að hann fékk aðstoð við heimanámið. Hann hafi verið nánast ólæs þegar þau fóru að hjálpa honum með námið. Hann hafi getað lesið en ekki skilið. Núna sé hann kominn með einkunnir uppá 6,5 sem sé gott. Vitnið kvaðst hafa upplifað umhirðu B þannig að hann var ætíð í sömu fötunum, átti ekki vetrarföt en H hafi oft þvegið og þurrkað föt af B, sem hafi fengið föt af J á meðan. Þetta hafi byrjað strax í skólabyrjun haustið 2014. B hafi stundað fótbolta hjá [...] en væntanlega hafi hann ákveðið sjálfur að mæta á æfingar en ekki hafi verið greitt fyrir hann. B hafi formlega verið tekinn inn í [...] þegar vitnið  skráði hann í fótboltamót og greiddi fyrir það núna í vor. B hafi tekið þátt í þremur fótboltamótum í vor með J. Vitnið kvaðst fyrst hafa hitt foreldra B þegar þau skrifuðu undir samning um vistforeldri. Foreldrar hans hafi aldrei haft samband við þau en vitnið kvaðst telja það skyldu foreldra að kanna hvar barn þeirra dvelji. Samskipti við foreldra B  hafi ekki verið mikil en þau hafi fengið hótanir með smáskilaboðum um lögreglu frá sóknaraðila. Kvað vitnið B hafa hitt móður sína tvisvar sinnum frá því í apríl. Hann hafi farið með K í bæði skiptin og heimsóknirnar varað stutt. B hafi heimsótt C þrisvar sinnum minnti vitnið á þessum tíma. C hafi þá hringt í B. Vitnið taldi B vera hræddan við sóknaraðila en hann líti á C sem vin sinn. Aðspurt um erfiðleika í baði, kvað vitnið engin vandamál hafa verið en eina sem hafi verið að það mátti ekki koma við andlit hans í upphafi. Þrifnaðarstuðull B hafi í upphafi verið lágur en í dag þvoi hann sér t.d. um hendur eftir salernisferðir án þess að vera sagt það. Vitnið kvað B virðast líta svo á að hann eigi engin systkin. Hann tali aldrei um þau og svo virðist að þau séu ekki til. B sé mjög dulur og segi ekki mikið en hann tali ætíð vel um C en tjái sig aldrei um móður sína. Vitnið taldi B samsvara sér vel þroskalega séð. Vitnið kvað aðspurt að móðir eins skólafélaga B hafi boðið B að halda upp á afmæli sitt með skólafélaga sínum. B hafi verið mjög spenntur og tilkynnti að móðir sín myndi koma. H, vistmóðir hans hafi farið í veisluna en foreldrar B hafi ekki komið. H hafi þá ekið B heim eftir veisluna. Vitnið kvaðst hafa síðan haldið afmælisveislu fyrir B. Þau hafi ekki verið orðnir stuðningsforeldrar þá. Vitnið kvað rétt að B hafi upphaflega ekki kunnað vikudagana og ekki kunnað á klukku en það sé allt komið í dag. Vitnið kvað aðspurt ítrekaðar símhringingar sóknaraðila hafa farið mjög illa í B. Þegar B hafi verið á fótboltamóti í sumar hafi hann fengið um fimmtíu símtöl frá sóknaraðila á þremur dögum og það farið illa í hann. B hafi í lokið spurt að því hvort hann þyrfti að svara símanum þegar móðir hans hringdi. Þau hafi sagt honum að hann þyrfti þess ekki og hafi B greinilega róast eftir það. B hafi einnig rætt þetta við K sem hafi gefið honum sömu svör og sagt honum að hann þyrfti ekki að svara henni. Vitnið kvaðst í raun ekki visst um að þau gætu rætt saman því tungumálið sem B notaði væri einn hrærigrautur, í raun þrjú tungumál.  Nú í dag sé mikil ró yfir honum, hann sofi út þegar hann megi. Áður fyrr hafi hann verið kominn á fætur klukkan sjö á morgnanna en núna sé háttsemi hans í eðlilegum farvegi. Aðspurt um það hvort vitnið væri tilbúið að vera áfram stuðningsfjölskylda B, ef sóknaraðili fengi drenginn aftur inn á heimilið, kvað vitnið þau vera tilbúin til þess.    

                K félagsráðgjafi kom fyrir dóminn og kvað aðspurð meðferðaráætlanir sem gerðar hafi verið við sóknaraðila vegna B, hafi allar gengið nokkuð vel eftir en þær hafi aðallega snúist um fjárhagsstuðning. Síðasta áætlun hafi snúist aðallega um að styðja börnin félagslega eftir að skilnaður foreldranna kom til. Þá hafi þau fengið stuðning varðandi leiðbeiningar vegna félagslegra erfiðleika. Tilsjón inni á heimili sóknaraðila hafi gengið erfiðlega. Tilsjónin hafi verið sett inná heimilið vegna fötlunar sóknaraðila og einnig vegna upplýsinga um vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnunum. Sóknaraðili hafi breytt tilsjón eftir hentugleika og ekki farið að tilmælum barnayfirvalda. Tilsjón hafi verið veitt í þrígang inn á heimili sóknaraðila og hafi tilsjónaraðilar óskað eftir því að hætta vegna hegðunar sóknaraðila í þeirra garð. Vitnið kvað B hafa skýrt frá því mjög skýrt, allt frá því í nóvember 2013, að móðir hans hafi beitt hann líkamlegu ofbeldi, allt frá því að hann var í [...]. B segi aftur frá því þegar útkall er vegna heimilisaðstæðna í desember 2013 og hafi skýringar móðurinnar styrkt mat barnaverndaryfirvalda á frásögn B. Aðspurt um samskipti sóknaraðila og B fyrir og eftir vistun kvað vitnið samskiptin hafa verið mjög lítil áður en hann fór í vistun 18. maí sl. B hafi verið kominn í skólann klukkan 7:30 á morgnanna, verið í dægradvöl eftir skóla til klukkan 17:00 og þá farið sjálfur heim til þeirra foreldra sem hann vistast hjá núna. Hafi hann gert það núna í heilt ár. B hafi farið heim um kvöldmatartíma og verið kominn í rúmið um kl. 20.00. Eftir að hann vistaðist utan heimilis hafi samvera verið mjög takmörkuð, það hafi tvisvar verið skipulögð umgengni en B hafi gefið mjög skýr til greina um að hann vildi ekki hitta móður sína og ekki aleinn. Innihald þeirra samskipta sem starfsmenn barnaverndar hafi orðið vitni að, hafa verið mjög bágborin. Óyrt samskipti séu mjög lítil, enga ástúð sé að sjá á milli þeirra. Yrt samskipti séu mjög lítil. Hann varla svari henni en samskipti séu lítil. Vitnið kvaðst sjálf hafa verið viðstödd báðar heimsóknirnar. Í fyrri heimsókninni hafi annar starfsmaður barnaverndar einnig verið viðstaddur en umgengnin  hafi verið 19. maí sl. sennilega staðið í um tuttugu til tuttugu og fimm mínútur.  Síðari umgengnin hafi verið í júní sl. og staðið í um fjörutíu mínútur. Hafi vitnið þá verið eitt ásamt B og móður. Í fyrra skiptið hafi sóknaraðili verið heima og heilsað B en lítil viðbrögð verið frá B. Sóknaraðili hafi rétt fram höndina eins og hún hafi viljað taka utan um B en hann vikið sér undan henni og sest í sófa í stofunni við hlið starfsmanna barnaverndar. B hafi áður verið búinn að undirbúa það að vitnið túlkaði á ensku við sóknaraðila þar sem B segði. Í seinna skiptið hafi sú heimsókn verið skipulögð í samráði við sóknaraðila. Sóknaraðili hafi þó ekki verið heima á tilskildum tíma og komið tuttugu mínútum seinna heim. Hún hafi þá verið með yngri systkini B en samskipti milli sóknaraðila og B hafi verið mjög lítil. Sóknaraðili hafi meira sinnt yngsta barninu, yrt á B á [...] í hastarlegum tón. B hafi reynt að ná athygli móður sinnar með því að sýna henni nýja skó sem hann hafði fengið. Sóknaraðili hafi ekki gefið því gaum en skammað vitnið fyrir framan B fyrir að kaupa nýja skó og föt á B, hún gæti séð um það sjálf. Aðspurt um afskipti sóknaraðila af yngri systkinum B, kvað vitnið miðbarnið t.d. ekki leita til móður sinnar, frekar hafi hún sótt í starfsmenn barnaverndar en móður sína þegar þeir hafi verið á heimilinu. Aðspurt um hvarf D, taldi vitnið hana hafa verið týnda í um eina og hálfa klukkustund. Viðbrögð móðurinnar og barnsins þegar komið var með barnið heim hafi verið lítil. Sóknaraðili hafi ekki sýnt að hún hafi verið fegin að sjá barnið aftur né hafi barnið leitað þá til móður sinnar. Vitnið kvað sóknaraðila tvisvar hafa neitað á fundi Barnaverndarnefndar að láta framkvæma forsjárhæfismat. Það hafi hún gert á fundi í júní sl. og á fundi vitnisins með sóknaraðila og lögmanni hennar. Auk þess hafi hún neitað að láta framkvæma geðmat á sér. Vöntun á forsjárhæfismati torveldi barnaverndaryfirvöld mjög í því að finna málum réttan farveg og rétta aðstoð. Neitun sóknaraðila setji málið í mjög erfiða stöðu varðandi framhaldið. Aðspurð um M, kvaðst vitnið halda að það væri fyrrum tengdamóðir sóknaraðila sem búi fyrir vestan. Sá aðili hafi ekki komið að fjölskyldunni svo vitað sé til utan að sóknaraðili hafi talað um að hún vilji að B fari til hennar. Aðspurt kvað vitnið flestar ásakanir um ofbeldi af hálfu C gagnvart sóknaraðila hafi verið dregnar til baka og séu ekki til meðferðar sem slíkar hjá barnavernd. Aðspurt um það hvort frekari samskipti B og sóknaraðila hafi verið skipulögð af hálfu barnaverndar kvað vitnið að í upphafi hafi verið lagt til að umgengni væri frjáls og væri útfrá löngun barnsins og móður. Fyrst hafi heimsókn verið í hádegi 19. maí sl. og fljótlega hafi komið í ljós að ósk B væri að hitta móður sína ekki eina en hann vildi gjarnan hitta C. Það sama hafi komið í ljós síðar í talsmannsskýrslu við B. Vitnið hafi hitt drenginn vikulega og ætíð komið inná það hvort hann vilji ekki hitta móður sína en hann neitað því. Í fyrstu hafi ekki verið lagt upp með símtöl en eftir að sóknaraðili hafi farið að ganga mjög hart fram í þrálátum símhringingum til B, sem greinilega orsakaði kvíða hjá dregnum, hafi verið rætt við sóknaraðila og lögmann hennar um að það þyrfti að blokka símtöl frá henni þannig að hún gæti ekki hringt í drenginn. Það hafi skapað ákveðna ró hjá drengnum. Vitnið kvaðst enn vera að hitta drenginn vikulega og ætíð verið rætt um umgengni við móður hans en áætlað hafi verið að hitta hana tvo miðvikudaga í mánuði eftir síðasta úrskurð. Eftir það hafi sóknaraðili lagst inn á sjúkrahús og því ekki orðið af heimsóknum en fyrir lægi að umgengnin færi fram í húsnæði barnaverndarnefndar. Því hafi ekki verið farið með drenginn á sjúkrahúsið. Auk þess sé mjög erfitt að ná til sóknaraðila, hún skelli á eða svari ekki þegar vitnið hringi í hana. Vitnið kvaðst aðspurt, athugasemdir hafa verið gerðar við framkomu sóknaraðila, m.a. sú þráhyggja að verið sé að reyna að stela börnum hennar af henni, hún sé með þrálátt tal um nornir o.fl. Þá séu tilfinningatengsl við börnin mjög bágborin. Sem dæmi sé háttsemi sóknaraðila þegar D týndist í rigningunni, hún hafi ekki sýnt neinar tilfinningar þegar barnið fannst. Þá séu C og B tengdari en B og sóknaraðili. Aðspurt kvað vitnið allar tilkynningar hafa komið frá lögreglu og í öllum tilvikum varðandi vandamál á heimilinu. Að auki hafi komið tilkynningar frá fæðingardeild Landspítalans þegar hún átti yngsta barnið og áhyggjum lýst af ástandi sóknaraðila og tengslum við barnið. Vitnið kvað skóla B hafa svarað bréfum Barnaverndarnefndar og þá komið fram að drengurinn sé ávallt mættur um kl. 7:30 á morgnanna, verið lítill í sér og leitað til kennara með væntumþykju, faðmlög og knús. Ekki hafi verið sett út á klæðnað hans. B sé í skólamat og dægradvöl á vegum barnaverndar þannig að hann sé í skóla til klukkan fimm á daginn. Ekki liggi fyrir frá skóla upplýsingar um það hvernig B standi námslega en síðar hafi komið upplýsingar um að foreldrar hafi ekki sinnt heimanámi hans heldur hafi aðrir gripið þar inní. Vitnið taldi breytta hjúskaparstöðu sóknaraðila ekki hafa nein áhrif á getu sóknaraðila til að annast B, m.a. vegna þess ofbeldis sem B hafi skýrt frá af hálfu móður sinnar. Sóknaraðili hafi lýst því yfir að hún ráði því sjálf hvað hún geri við sitt barn og neitað því að hún hafi beitt hann ofbeldi. Taldi vitnið breytingu á hjúskaparstöðu hennar ekki hafa nein áhrif á getu hennar til uppeldis B. Vitnið taldi nauðsyn þess að vista B tólf mánuði utan heimilis grundvallast á því að sóknaraðili vilji ekki samvinnu og vinna úr frásögnum B. Kvartanir B séu mjög alvarlegar og hafi staðið yfir í langan tíma. Kvað vitnið aldrei hafa komið fram hjá barnavernd að líkamleg fötlun sóknaraðila standi í vegi fyrir getu hennar til að annast drenginn. Fyrst hafi verið óskað eftir forsjárhæfnismati fyrir barnaverndarnefndinni 11. júní sl. og í viðtali við hana áður en mál hennar var lagt fyrir nefndina. Ástæða þess að ekki var farið fram á það fyrr, sé að málið hafi verið mjög flókið og það hafi ætíð verið sóknaraðili sem hafi ásakað mann sinn um líkamlegt ofbeldi. Í raun hafi ekki verið rök fyrir meintu heimilisofbeldi og þegar málið hafi púslast saman hafi verið nauðsyn til að sóknaraðili færi í forsjárhæfismat. Aðspurt kvað vitnið mjög erfitt að finna málinu annan farveg þegar sóknaraðili hafi ekki verið til samvinnu. Fyrir drenginn sé það ekki gott að móðirin sé ekki tilbúin til samstarfs með barnavernd, sérstaklega með tilliti til þess að drengurinn hafi skýrt frá ofbeldi sem hafi varað í langan tíma. Þá hafi sóknaraðili einnig hafnað því að fara í geðmat snemma þessa árs. Vitnið kvað sóknaraðila nú vera í 3ja herbergja íbúð á vegum félagsmálayfirvalda og væri miðuð við foreldra með þrjú börn. Vitnið kvað ástæðu skipunar talsmanns fyrir B hafa verið til að fá fram óskir og afstöðu barnsins og það spurt spurninga um það sem sé viðkomandi því. Þá sé líðan og viðhorf barnsins kannað, fyrir og eftir vistun. Aðspurt um persónulegan ráðgjafa sem B hafi verið fenginn, kvað vitnið þann ráðgjafa hafa verið með B í um tuttugu klukkustundir á mánuði í þeim tilgangi að kynna honum íslenskt samfélag, fara á bókasafn, bíó og fleira og hafi gott samband verið á milli þeirra. Hafi samstarfs við foreldra B verið með ágætum varðandi þann ráðgjafa. Þá kvaðst vitnið hafa hitt sóknaraðila varðandi upplýsinga til sóknaraðila t.d. varðandi skilnað o.fl. Vitnið kvað samvinnu sóknaraðila við einstaklinga sem hafi komið inn á heimilið með stuðning á þrifum o.fl., hafi verið erfið. Hún hafi sýnt geðræna þætti þar sem barnavernd hafi haft áhyggjur af og viðkomandi aðilar hafi óskað eftir því að hætta. Vitnið kvaðst hafa áhyggjur af því að sóknaraðili geti sinnt andlegum og líkamlegum þáttum B. Hún hafi ekki haldið utan um félagslega þætti drengsins og tómstundir, það hafi aðrir gert án þess að sóknaraðili hafi komið að því.

Forsendur og niðurstaða.

Frá því 12. nóvember 2013 til 15. maí 2015 eða á átján mánaða tímabili tilkynnti  lögreglan til Barnaverndarnefndar Kópavogs afskipti lögreglu af heimili sóknaraðila í átta skipti. Er ástæða oftast tilkynning um ágreining milli foreldra eða heimilisofbeldi. Í framhaldi af fyrstu afskiptum Barnaverndarnefndar Kópavogs fóru starfsmenn á heimili sóknaraðila og könnuðu aðstæður skv. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga. Kom þá strax í ljós að mikillar aðstoðar var þörf við heimilið auk stuðningsúrræða. Var í kjölfar gerð áætlun um meðferð máls vegna B og var hlutverk forsjárforeldra að vinna markvisst að því að bæta stöðu hans, sýna starfsmönnum barnaverndar samstarfsvilja ofl. Gilti áætlunin frá 1. janúar 2014 til 31. ágúst 2014. Aftur þann 21. júlí 2014 var ný áætlun gerð vegna B og skyldur settar á sóknaraðila til að sinna þörfum hans. Ný áætlun var gerð 2. janúar 2015 sem átti að gilda til 30. apríl 2015. Aftur var gerð áætlun þann 27. maí 2015 sem átti að gilda til 27. september 2015. Er efni þeirra rakið undir kaflanum „Málsatvik“.  Þann 30. apríl 2015 var gerður samningur um stuðningsfjölskyldu fyrir B og átti hann að vera aðra hverja helgi hjá stuðningsforeldrum, fyrst helgina 1-3 maí sl. Þá var gerður samningur vegna þjónustu talsmanns fyrir B þann 18. maí 2015 sem átti að kanna aðstæður hans og líðan. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að B hefur skýrt frá ofbeldi móður sinnar, fyrst í nóvember 2013, og segir hafa hafa gert það allt frá því þau bjuggu í [...].

                Sóknaraðili byggir á því, bæði í aðalsök og gagnsök að þær tilkynningar sem hafi borist varnaraðila séu allar að undirlagi sóknaraðila og tengjast heimilisofbeldi og hafi ekkert með vanrækslu á börnum hennar að gera. Eiginmaður hennar sé nú fluttur af heimilinu og því séu skilyrði hennar til að sinna þörfum B mun betri en áður hafi verið. Engar tilkynningar hafi komið frá skóla B um vanrækslu af nokkru tagi.

Í máli þessu hefur það ekki þýðingu við úrlausn málsins hvaðan eða hvernig tilkynningar bárust um erfiðar heimilisaðstæður B og fjölskyldu hans. Þegar beiðni um aðstoð inná heimili sóknaraðila barst lögreglu, bar lögreglu að tilkynna það til barnaverndarlaga. Í kjölfar, eftir heimsókn á heimilið, bar barnaverndaryfirvöldum að láta fara fram könnun á aðstæðum barnanna á heimilinu, sem gert var í nóvember 2013. Voru stuðningsúrræði undirbúin í framhaldi í samráði við sóknaraðila og eiginmann hennar.

Þá byggir sóknaraðili á því að meðalhófsregla barnaverndarlaga hafi ekki verið uppfyllt með því að úrskurða um vistun B utan heimilis og ekki hafi verið látið reyna á vægari úrræði eins og gert væri ráð fyrir í lögum.

Áður en til þess kom að úrskurða um vistun B utan heimilis þann 11. júní sl. hafði sóknaraðili og fjölskylda hans fengið öll þau stuðningsúrræði og þann fjárstyrk sem þörf var á til að styrkja fjölskylduna og styðja hana eða frá nóvember 2013 fram til maí 2015. Sóknaraðili og fjölskylda hennar bjó í fyrstu við afar þröngan kost inni á heimili tengdamóður hennar og eiginmanns í 3ja herbergja íbúð. Barnaverndaryfirvöld höfðu milligöngu um að sóknaraðila ásamt fjölskyldu hennar yrði úthlutað íbúð á vegum félagsmálayfirvalda og býr sóknaraðili þar enn. Þá fékk sóknaraðili tilsjón inn á heimilið, B var skipaður sérstakur persónulegur ráðgjafi, hann fékk styrk til matarkaupa í skólanum og til dægradvalar eftir skóla, leikskólagjöld vegna dagmóður voru greidd fyrir yngri börnin og aðstoð var veitt inn á heimilið til að þrífa og aðstoða sóknaraðila við umönnun barnanna. Verður því ekki annað ályktað, bæði með vísan til gagna málsins og framburðar vitna sem komu fyrir dóminn að meðalhófs hafi verið gætt áður en til þess kom að úrskurða um vistun B utan heimilis.

Sóknaraðili byggir einnig á að rannsóknarregla barnaverndarlaga hafi verið brotin. Nauðsynlegt hafi verið að kanna nánar hvort önnur úrræði hafi ekki hentað betur en vistun utan heimilis. Af gögnum málsins og framburði vitna verður ekki annað séð en að starfsmenn barnaverndaryfirvalda hafi ítrekað heimsótt sóknaraðila, átt fundi með henni og eiginmanni hennar ásamt því að vera í mjög nánum samskiptum við B áður en sú ákvörðun var tekin að vista B utan heimilis. Hafi því nægjanleg könnun farið fram til að hægt væri að taka ákvarðanir um framhald málsins. Er ekki tekið undir þau sjónarmið sóknaraðila að rannsóknarregla barnaverndarlaga hafi verið brotin við úrslausn málsins fyrir nefndinni.

Að auki byggir sóknaraðili á því að úrskurður Barnaverndarnefndar brjóti í bága við markmið barnaverndarlaga sbr. 2. gr. laganna. Þá fari úrskurðurinn einnig gegn grundvallarreglu 4. gr. barnaverndarlaga, en með því að vista B utan heimilis sé ekki verið að horfa til hagsmuna barnsins.

Í 2. gr. laga nr. 80/2002 segir að markmið barnaverndarlaga sé að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofni heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það eigi við. Í 4. gr. laganna segir m.a. að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Þá kemur fram í 2. mgr. að taka skuli tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefi tilefni til. Í 7. mgr. segir að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gera ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Eins og rakið er undir kaflanum „Málsatvik“ hefur Barnaverndarnefnd ítrekað þurft að hafa afskipti af heimili sóknaraðila og börnum hennar. Sóknaraðili er lömuð að nokkru leyti vinstra megin, bæði á hendi og fæti. Varð hún fyrir framheilaskaða við heilablóðfall á árinu 2011. Í læknisvottorði sem liggur fyrir dóminum, eru skemmdir í framheila sóknaraðila sem benda til að sóknaraðili eigi við nokkur geðræn vandamál að stríða. Ekkert frekar liggur fyrir í málinu um afleiðingar þess áfalls. Sóknaraðili hefur ekki verið samvinnufús varðandi rannsóknir á andlegu ástandi hennar og ekki samþykkt að fara í nánari rannsóknir vegna þessa. Hafa sóknaraðili og eiginmaður hennar nú slitið samvistir og býr sóknaraðili ein í íbúðinni en faðir yngri barnanna, C, er með þau í vistun í sinni umsjá.

Þá hafa þeir sem hafa sinnt aðstoð inn á heimilinu sagt sóknaraðila oft fá þráhyggju yfir ýmsum hlutum sem erfitt sé að eiga við. Má í því tilefni nefna yfir fimmtíu símtöl til hans í vor þegar hann var að keppa í fótbolta. Skýrði sóknaraðili svo frá að tilgangurinn hafi verið að vita hvernig drengurinn hefði það því hún treysti ekki vistforeldrum hans. Þá hefur sóknaraðili neitað að fara í forsjárhæfnismat. Í viðtölum starfsmanna varnaraðila við B er ekki annað að merkja en honum líði vel hjá stuðningsfjölskyldu og vilji vera þar áfram. Lýsti hann vilja sínum einnig í viðtali við dómara. Þrátt fyrir að engar kvartanir hafi komið frá skóla B, verður ekki annað séð en að heimilisaðstæður hans hafi verið óviðunandi og staðið í vegi fyrir andlegum og félagslegum framförum.

                Frá því Barnaverndarnefnd hafði fyrst afskipti af heimili sóknaraðila hafa starfsmenn ítrekað komið á heimili hennar í þeim tilgangi að veita aðstoð og bregðast við erfiðum heimilisaðstæðum. Hafa þau fengið aðstoð við þrif, aðstoð við að sinna börnunum, sérstaklega yngsta barninu sem fæddist í júní 2014, fjárhagsaðstoð vegna leikskólagjalda, kostnaðar við dægradvöl B eftir skóla og kostnað vegna hádegisverðar í skóla. Þá liggur fyrir að B hefur sótt heim til vinar síns eftir skóla frá því í júní 2014 og ekki komið heim til sín fyrr en um kvöldmatarleytið og verið kominn í rúm um áttaleytið að kröfu sóknaraðila. Hafði sóknaraðili aldrei fyrir því að hafa samband við það heimili sem B fór á og dvaldi öll síðdegi, fékk aðstoð við heimanám og dvaldi allar helgar. Gefur þetta tilefni til að ætla að hann sæki ekki í heimili sitt, foreldra eða systkin.

                Þrátt fyrir alla þá aðstoð sem veitt hefur verið inn á heimilið af barnaverndaryfirvöldum, hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að geta hennar hafi aukist eða batnað til að annast B á þann hátt sem honum er fyrir bestu. Sóknaraðili talar ekki íslensku og er því ljóst að hún getur illa sinnt heimanámi B. Hefur komið fram í málinu að fyrst þegar foreldrar vinar B og síðar vistforeldrar hans fóru að hjálpa honum við heimanámið urðu mikil framför hjá honum. Það hefur vitnið I og C, stjúpfaðir B, staðfest. Þá kom fram í gögnum málsins að B hafði aldrei farið í afmælisboð vina eða skólafélaga á meðan hann bjó hjá sóknaraðila en vistforeldrar héldu upp á afmæli B auk foreldrar skólafélaga hans. Hvorki sóknaraðili né stjúpfaðir mættu í afmælisveislu sem haldin var fyrir hann þrátt fyrir væntingar B til þess að sóknaraðili kæmi. Þá var hann heldur ekki sóttur eftir afmælið. Barnaverndaryfirvöld hafa haft áhyggjur af stöðu B inni á heimili sóknaraðila vegna frásagna hans um ítrekað ofbeldi af hendi sóknaraðila. Hefur B verið staðfastur í þeirri frásögn en sóknaraðili neitað því. Vitnið C skýrði frá því fyrir dóminum að hann hafi séð sóknaraðila klípa B í kinnina og snúa uppá. Þá hafi hann einnig heyrt grát og kvein frá B þegar sóknaraðili hefur verið með hann inni á baðherbergi. Telur dómurinn frásögn B sem fær stuðning í framburði C, trúverðuga.

                Þykir dóminum fullsannað að öll þau úrræði sem stutt gátu sóknaraðila í að ala önn fyrir B hafi verið veitt af hálfu barnaverndaryfirvalda. Þrátt fyrir það hafa þau ekki nýst sóknaraðila til að sinna B á þann hátt sem honum ber og á rétt til samkvæmt barnaverndarlögum og Stjórnarskrá Íslands. B hefur þrátt fyrir alla aðstoð inná heimilið, verið beittur ofbeldi á niðurlægjandi hátt með þeim afleiðingum að hann vill ekki umgangast móður sína nema í litlu mæli og undir eftirliti. Þá hefur grunnþörfum B ekki verið sinnt, svo sem aðstoð með heimanám, samvera með systkinum og foreldrum, afmælisboð sem hlýtur að skipta níu ára gamlan dreng miklu máli, hvatning eða samvinna með íþrótta- eða félagslífs og ekki síst skilaboð um væntumþykju, hlýju og ást sem B virðist sækja út fyrir heimilið.

                Verður að virða þann rétt sem drengurinn á til mannsæmandi lífsskilyrða og styrkja og styðja hann til að ná þeim tilgangi. Telur dómurinn sóknaraðila ófæra til þess að svo stöddu þar sem sóknaraðili hefur lítið innsæi í sín vandamál. Kemur það best fram í því að neita að fara í forsjárhæfismat og geðmat svo og samskiptaerfiðleika hennar við starfsmenn barnaverndar. Breytt skoðun hennar nú fyrir dóminum hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins.

Verður því kröfu sóknaraðila um að úrskurður Barnaverndarnefndar Kópavogs frá 11. júní um að hann verði felldur úr gildi, hafnað.

                Varnaraðili gerði þá kröfu í fyrsta lagi að úrskurður hans frá 11. júní sl. yrði staðfestur. Í öðru lagi gerði sóknaraðili þá kröfu að drengurinn B yrði vistaður utan heimilis í tólf mánuði frá og með uppkvaðningu úrskurðar.

                B virðist glaður á þeim stað sem hann er staddur á í lífi sínu núna. Hann umgengst stjúpföður sinn og ömmu og getur umgengist móður sína nánast að eigin ósk. Takmörkun á umgengi nú er að hans beiðni og eftir atvikum. Honum fer fram í námi og fær að taka þátt í félags- og íþróttastarfi sem hæfir honum og hann fær þá hlýju og væntumþykju sem hann þarfnast. Ekki hefur verið sýnt fram á að sóknaraðili muni í nánustu framtíð vera fær um að sinna þessum þáttum þannig að það raski ekki eðlilegum þroska drengsins. Verður að þessu leyti að horfa til hagsmuna drengsins og þess sem honum er fyrir bestu. Þá verður að horfa til þess að vistun utan heimilis sé ekki lengri en nauðsyn krefur en þó þann tíma að sóknaraðila gefist færi á að bæta stöðu sína og aðstöðu. Að þessu virtu þykir rétt að taka kröfu varnaraðila til greina þannig að B verði vistaður utan heimilis í tíu mánuði frá uppkvaðningu þessa úrskurðar.  

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Varnaraðili fékk gjafsókn þann 19. júlí sl. Skal gjafsóknarkostnaður varnaraðila, sbr. 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, greiddur úr ríkissjóði, sem eru málsvarnarlaun lögmanns varnaraðila, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., og þykja hæfilega ákveðin 610.000 krónur.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Kröfu sóknaraðila um að úrskurður barnaverndar Kópavogs frá 11. júní sl. verði felldur úr gildi er hafnað.

Fallist er á kröfu varnaraðila, Barnaverndarnefndar Kópavogs, um að barnið B, verði vistað utan heimilis síns, þó ekki lengur en í tíu mánuði frá  uppkvaðningu úrskurð þessa að telja.

                Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila sem eru málsvarnarlaun lögmanns hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., 610.500 krónur greiðist úr ríkissjóði.