Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/2005


Lykilorð

  • Skip
  • Veðsetning
  • Vátryggingarsamningur


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. nóvember 2005.

Nr. 209/2005.

Sparisjóður Vestmannaeyja

 (Sigurður Jónsson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Skip. Veðsetning. Vátryggingasamningur.

Ú, útgerðarfélag fiskiskipsins B tók húftryggingu fyrir skipið hjá T í september 1999. Í upphafi árs 2000 var allt hlutafé í Ú selt til S og létu forsvarsmenn Ú jafnframt af trúnaðarstörfum fyrir félagið, en eina eign þess var fiskiskipið B ásamt búnaði, aflahlutdeild og aflamarki. Skömmu síðar fórst skipið. Með dómi Hæstaréttar í október 2003 var T sýknað af kröfu S um greiðslu húftryggingafjárhæðar skipsins, þar sem skipið hefði verið sett undir aðra útgerðarstjórn án samþykkis T, og tryggingin því verið fallin út gildi þegar skipið fórst samkvæmt tryggingarskilmálum. SV, sem átti veð í skipinu, taldi að T bæri þrátt fyrir þetta ábyrgð á greiðslu veðkrafnanna að svo miklu leyti sem þær rúmuðust innan verðmætis húftryggingarinnar. T var sýknað af kröfu SV, enda væri T ekki aðili að þeim veðskjölum sem um ræddi í málinu og því á engan hátt bundinn af ákvæðum þeirra, m.a. um skyldu til viðhalds veðandlagsins og vátryggingar þess. Þá þóttu engin rök fyrir því að túlka ætti tryggingarskilmála SV í hag, en í þeim var sérstaklega tekið fram að veðhafi öðlaðist ekki meiri rétt gagnvart tryggingafélaginu en eigandinn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. maí 2005 og var áfrýjunarstefna gefin út þan dag með vísan til 3. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 36. gr. laga nr. 15/1998. Hann krefst þess að viðurkenndur verði skaðabótaréttur sinn vegna veðkrafna á hendur útgerðarfélagi Bjarma ehf., er tryggðar hafi verið með veði í Bjarma VE 66, skipaskrárnúmer 1103, sem fórst 23. febrúar 2002, enda standi kröfurnar þannig í veðröð að þær eigi að greiðast af húftryggingarverðmæti skipsins. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sparisjóður Vestmannaeyja, greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf.,  300.000  krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2005.

I

Mál þetta sem dómtekið var 27. janúar 2005 var höfðað 25. júní 2004.  Stefnandi er Sparisjóður Vestmannaeyja, kt. 610269-5839, Bárustíg 15, Vestmannaeyjum en stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-5839, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkenndur verði skaðabótaréttur hans á hendur stefnda vegna veðkrafna hans á hendur Útgerðarfélagi Bjarma ehf. sem tryggðar eru með veði í Bjarma VE 66, skipaskrárnúmer 1103, sem fórst 23. febrúar 2002, enda standi kröfurnar þannig í veðröð að þær eigi að greiðast af húftryggingarverðmæti skipsins.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.

Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu og að honum verði dæmdur málskostnaður.

II

Málavextir eru þeir að 30. september 1999 tók Útgerðarfélagið Bjarmi ehf. húftryggingu hjá stefnda fyrir fiskiskipið Bjarma VE 66, sem þá hét Otur EA 162.  Vátryggingin var svo endurnýjuð árlega og seinast 1. janúar 2002.  Útgerðarfélagið Bjarmi ehf. veðsetti stefnanda skipið vegna tveggja veðskuldabréfa, öðru dagsettu 23. september 1999 að fjárhæð JPY 14.500.000 eða jafnvirði þess í íslenskum krónum og hinu dagsettu 21. febrúar 2000 að fjárhæð 2.000.000 króna.  Þá var stefnanda enn fremur veðsett skipið vegna tryggingabréfs 21. janúar 2001 allt að fjárhæð 600.000 krónur.  Hvíla framangreind bréf á 2. 3. og 4. veðrétti skipsins og í þeim öllum eru ákvæði um að veðandlagið skuli vera húftryggt.

Þann 6. febrúar 2002 rituðu þáverandi eigendur Útgerðarfélagsins Bjarma ehf., Davíð Þór Einarsson og María Pétursdóttir, persónulega og sem stjórnarmenn í félaginu, undir kaupsamning og afsal við Skeglu ehf. sem þannig keypti af þeim allt hlutafé í Útgerðarfélagi Bjarma ehf.  Kom fram í þessum samningi að eina eign Útgerðarfélagsins Bjarma ehf. væri skipið Bjarmi ásamt öllum búnaði sem því fylgdi, svo og aflahlutdeild og aflamark.  Sama dag lét Davíð Þór Einarsson af trúnaðarstörfum hjá útgerðarfélaginu en hann hafði fram að því stýrt útgerð skipsins.  Hvorki stefnanda né stefnda var tilkynnt um þessar ráðstafanir.  Þann 23. febrúar 2002 sökk Bjarmi VE 66 vestur af Vestmannaeyjum er skipið var á leið til Grindavíkur og fórust tveir af fjögurra manna áhöfn með skipinu.

Skömmu eftir að skipið fórst kröfðust eigendur Bjarma þess að fá húftryggingarfjárhæð skipsins greidda en stefndi hafnaði greiðsluskyldu sinni á þeim forsendum að tryggingin hefði verið fallin úr gildi þegar skipið fórst. Útgerðarfélagið Bjarmi ehf. höfðaði í kjölfarið mál á hendur stefnda til greiðslu vátryggingafjárins.  Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 23. október 2003 í máli nr. 157/2003 var stefndi sýknaður af kröfum útgerðarinnar um greiðslu húftryggingarfjárhæðarinnar með vísan til greinar 28.1 í tryggingaskilmálum stefnda þar sem skipið hefði verið sett undir aðra útgerðarstjórn og þar sem samþykkis stefnda hefði ekki verið aflað fyrir því að húftrygging skipsins yrði látin standa óröskuð hafi tryggingin fallið úr gildi 6. febrúar 2002.

Stefnandi telur, þrátt fyrir ofangreinda niðurstöðu Hæstaréttar, að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart honum, og að stefnandi sem veðhafi eigi kröfu í húftryggingarverðmæti skipsins að svo miklu leyti sem veðkröfur hans rúmist innan þess.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að þrátt fyrir að stefndi hafi verið sýknaður af bótakröfu Útgerðarfélags Bjarma ehf. vegna húftryggingarverðmætis Bjarma VE 66 beri stefndi engu að síður ábyrgð á greiðslu þeirra veðkrafna stefnanda sem á skipinu hvíli að svo miklu leyti sem þær rúmist innan húftryggingarverðmætis skipsins.  Við uppgjör húftryggingarverðmætis þegar skip farist sé það ævinlega greitt til veðhafanna í samræmi við veðröð enda tryggingin oft beinlínis tekin þeim til hagsbóta.  Hafi stefnandi veitt Útgerðarfélaginu Bjarma ehf. lán með veði í skipinu með þeim skilmálum að skipið væri jafnan húftryggt.  Sé í veðbréfum ákvæði þess efnis að veðþola sé skylt að halda hinni veðsettu eign við og hafa hana jafnan vátryggða fyrir eldsvoða eða tjóni, en veðrétturinn nái einnig til tryggingabóta, ef eignin brenni eða farist svo og til allra bóta er veðþola kunni að berast vegna þess að hin veðsetta eign skemmist eða eyðileggist.  Þá sé veðþola skylt að láta veðhafa í té hvenær sem hann krefjist skilríki fyrir því að hin veðsetta eign sé tryggð.  Að öðrum kosti sé veðhafa heimilt að vátryggja hana á kostnað veðþola.

Hafi sú breyting sem orðið hafi á eignarhaldi útgerðarfélagsins Bjarma ekki verið tilkynnt stefnanda og hafi hann hvorki vitað nokkuð um hana né getað ráðið nokkru um útgerðarstjórn skipsins og hafi stefnandi því verið grandlaus um þær breytingar sem leitt hafi til þess að stefndi var sýknaður af bótakröfu Útgerðarfélagsins Bjarma ehf.  Hafi hann staðið í þeirri trú að skipið væri húftryggt og að tryggingin myndi standa til tryggingar áhvílandi veðskuldum ef skipið færist.

Telur stefnandi að stefnda, sem sérfræðingi í sölu húftrygginga til fiskiskipa, hafi borið sérstök skylda um vönduð vinnubrögð og hafi honum ekki átt að dyljast að veðhafar litu þannig á að húftryggingin væri í fullu gildi þar til þeir hafi fengið tilkynningu frá stefnda um að tryggingin myndi falla úr gildi innan tiltekins frests.  Beri að túlka tryggingarskilmála að þessu leyti stefnanda í hag í þá veru að stefnanda gefist kostur á að bregðast við ef brottfall tryggingar sé yfirvofandi.  Það að stefndi hafi verið grandlaus um breytingu á útgerðarstjórn skipsins geti ekki átt að leiða til þess að stefnandi eigi í stað stefnda, fyrirvaralaust, að sitja uppi með alla áhættu af því að veðandlagið færist.  Stefnanda hafi verið ómögulegt að átta sig á eigendaskiptum á hlutum í útgerðarfélaginu og sé út frá réttaröryggissjónarmiðum ótækt annað en áhættan hvíli fremur á tryggingafélaginu en þeim.  Hefði stefnandi hringt í stefnda daginn áður en skipið fórst og spurst fyrir um tryggingu veðandlagsins hefði hann örugglega fengið þær upplýsingar að skipið væri húftryggt.  Telur stefnandi að þeir skilmálar í vátryggingaskilmálum skipsins sem sýknudómur Hæstaréttar byggi á og fjalli um sviptingu bótaréttar eiganda skipsins geti ekki átt að ná til stefnanda sem hafi talið veðandlagið fulltryggt og hafi hvorki vitað né mátt vita að tryggingavernd þeirra væri í hættu.

Kveðst stefnandi byggja á því að niðurstaða Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nái aðeins til útgerðarfélagsins sjálfs en ekki til þess að svipta stefnanda bótarétti sínum og beri stefnda að greiða veðhöfum bætur í samræmi við tryggingarverðmæti skipsins og stöðu þeirra í veðröð.

Um hafi verið að ræða algert tjón sem sé bótaskylt samkvæmt 20. tölulið vátryggingaskilmála skipsins enda eigi stefndi rétt á hrakvirði þess samkvæmt 22. tölulið skilmálanna.  Útilokað sé að stefnandi fái fullnægju veðkrafna sinna af andvirði flaksins á sjávarbotni.  Varanlegar fiskveiðiheimildir skipsins séu að vísu enn á skipinu en samkvæmt yfirliti Skipamiðlunarinnar Bátar & kvóti hafi aflahlutdeild og aflamark verið metið að verðmæti 6.183.055 krónur þann 6. febrúar 2002.  Stefnda beri þannig að greiða bætur vegna skips sem farist hafi enda eignist hann þau verðmæti sem í skipinu kunni að leynast.  Veðkröfur stefnanda séu uppreiknaðar samkvæmt kröfulýsingum í þrotabú Útgerðarfélagsins Bjarma  ehf. samtals um 15.994.453 krónur.

Þá kveðst stefnandi byggja á því að Útgerðarfélagið Bjarmi ehf. sé gjaldþrota og því falli sá hluti krafna stefnanda sem ekki greiðist af andvirði fiskveiðiheimilda skipsins í flokk almennra krafna á hendur búinu og muni því ekki greiðast af eignum búsins.  Enda þótt skiptum sé ekki lokið í þrotabúinu sé fyrirsjáanlegt að engar greiðslur komu upp í almennar kröfur.

Kveður stefnandi að sú almenna grundvallarregla, um öryggi grandlauss veðhafa um að veðhafinn eigi þess kost að veðandlagið sé vátryggt, vegi þyngra en þeir hagsmunir stefnda að tryggingatakinn skýri honum frá breytingu á útgerðarstjórn.  Sé það grundvallarforsenda veðsamnings að veðhafinn viti og geti treyst því að veðandlagið sé vátryggt og þá jafnframt að veðhafinn eigi þess kost að fá vitneskju um ef svo sé ekki til að hann getið þá strax brugðist við til að tryggja hagsmuni sína.  Sú breyting á útgerðarstjórn sem leitt hafi til þess að stefndi var sýknaður í Hæstarétti hafi verið fullkomlega dulin stefnanda enda engin sýnileg breyting á hlutafélaginu.  Engin skuldskeyting hafi átt sér stað eða nokkuð það sem gat gefið tilefni til viðbragða af hálfu stefnanda.  Grundvallarmunur sé hér á réttarstöðu grandlauss veðhafa og grandsams vátryggingartaka.  Vanræksla útgerðarfélagsins hafi leitt til sýknu en veðhafinn hafi enga vanrækslu sýnt heldur treyst á stefnda.  Samkvæmt því eigi stefnandi bótarétt á hendur stefnda en stefndi eigi hugsanlega endurkröfurétt á hendur útgerðarfélaginu.

Varðandi greiðsluskyldu stefnda kveðst stefnandi byggja á lögum um vátryggingasamninga og meginreglum skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga og reglna um ábyrgð.  Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988.  Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991 og til 25. gr. sömu laga varðandi viðurkenningarmál og 19. gr. sömu laga varðandi aðild.

IV

Stefndi kveður það vera misskilning hjá stefnanda að hann eigi skaðabótarétt á hendur stefnda.  Lúti ágreiningur í málinu að því hvort stefnandi sem veðhafi í skipinu Bjarma VE 66 geti átt betri rétt gagnvart stefnda vegna veðkrafna sinna en vátryggingatakinn sjálfur.

Sé forsenda þess að greiðslur verði inntar af hendi úr vátryggingu að trygging sé í gildi þegar tjónsatburður eigi sér stað.  Hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að þann 6. febrúar 2002 hafi húftrygging skipsins fallið úr gildi og réttur til greiðslu vátryggingafjárhæðarinnar hafi því ekki verið fyrir hendi þegar skipið fórst 23. febrúar 2002.

Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að réttur hans eigi að vera betri en réttur vátryggingatakans og bendir í því sambandi á 29. gr. vátryggingarskilmálanna, en þar komi fram að veðhafi öðlist ekki meiri rétt gagnvart félaginu en eigandinn.  

Þá telur stefndi það ekki skipta máli að í lánssamningum stefnanda séu ákvæði um að hið veðsetta skip skuli jafnan vera húftryggt.  Stefndi hafi ekki verið aðili að þessum lánasamningum og því geti innihald þeirra ekki verið bindandi fyrir hann.  Þá sé ekki dregið í efa að stefnandi hafi verið grandlaus um brottfall tryggingarinnar en áhætta af því sé hans en ekki stefnda.  Vangaveltur stefnanda um að stefndi hafi átt að tilkynna stefnanda um brottfall tryggingarinnar séu ekki raunhæfar þar sem stefnda hafi ekki verið kunnugt, frekar en stefnanda, um þær breytingar á eignarhaldi og útgerðarstjórn skipsins sem leitt hafi til þess að tryggingin hafi fallið úr gildi.

Beri að hafa í huga að trygging sú sem hér um ræði sé ekki lögbundin og því ávallt fyrir hendi sá möguleiki að tryggingin falli niður af einhverjum örsökum.  Sé reyndar ljóst að stefnandi hafi gert sér grein fyrir þeim möguleika, sbr. það sem fram komi í texta framangreindra veðbréfa, en þar segi að veðþola sé skylt að láta veðhafa í té hvenær sem hann krefjist, skilríki fyrir því að hin veðsetta eign sé tryggð.  Að öðrum kosti sé veðhafa heimilt að vátryggja eignina á kostnað veðþola.  Hér sé beinlínis gert ráð fyrir tilteknum úrræðum veðhafa hafi trygging af einhverjum ástæðum fallið niður og hafi stefndi ekki ábyrgst gagnvart veðhöfum að tryggingin falli ekki niður.  Sé áhættan af því að slíkt gerist á ábyrgð veðhafans eða lánastofnunar enda sé lánastarfsemi í eðli sínu áhættusöm starfsemi.

Þá kveður stefndi það misskilning hjá stefnda að umrædd niðurstaða Hæstaréttar geti ekki haft lögfylgjur fyrir aðra en aðila þess máls.  Sé óhjákvæmilegt að niðurstaðan hitti einnig þá fyrir sem átt hafi veðrétt í skipinu og geri kröfur í vátryggingaféð.   Þá telur stefndi engin rök vera fyrir því að hagsmunir stefnanda eigi að vega þyngra í málinu en hagsmunir stefnda.  Hafi stefnanda sem fagaðila í lánastarfsemi mátt vera það ljóst að þegar ekki sé um að ræða lögbundna tryggingu geti hún fallið niður.  Þá telur stefndi engu máli skipta fyrir niðurstöðu þessa máls að bú útgerðarfélagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.

V

Í vátryggingaskilmálum stefnda, sem gilda um húftryggingu þá sem Útgerðarfélagið Bjarmi ehf. tók hjá stefnda vegna skipsins Bjarma VE 66 segir í grein 28.1 að verði eigendaskipti á skipi eða það sett undir aðra útgerðarstjórn falli vátryggingin úr gildi.  Þá segir í grein 29.1 að séu hinir vátryggðu hagsmunir veðsettir teljist vátryggingin einnig vera veðhafa til hagsbóta, þó þannig að veðhafi öðlist ekki meiri rétt gagnvart félaginu en eigandinn.

Í dómi Hæstaréttar uppkveðnum 23. október 2003, í máli þar sem stefndi og Útgerðarfélagið Bjarmi ehf. deildu um það hvort framangreind vátrygging væri fallin niður vegna sölu eigenda útgerðarfélagsins á öllu hlutafé sínu í því félagi til Skeglu ehf. og létu þar með af öllum trúnaðarstörfum fyrir félagið, segir meðal annars að með þeim ráðstöfunum hafi skipið verið sett undir aðra útgerðarstjórn í skilningi framangreindrar greinar 28.1 í vátryggingarskilmálum stefnda.  Með því að ekki hafi verið aflað samþykkis stefnda fyrir því að húftrygging skipsins yrði látin standa óröskuð vegna þessara breytinga féll tryggingin úr gildi 6. febrúar 2002.  Var stefndi því sýknaður af kröfum útgerðarfélagsins í málinu.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu Hæstaréttar telur stefnandi að stefndi beri ábyrgð á greiðslu veðkrafna stefnanda að svo miklu leyti sem þær rúmist innan verðmætis húftryggingarinnar. Byggir stefnandi kröfur sínar meðal annars á því að í umræddum veðskjölum séu ákvæði þess efnis að skylda sé að halda hinni veðsettu eign vel við og hafa hana jafnan vátryggða.  Þá hafi sú breyting sem varð á eignarhaldi útgerðarfélagsins ekki verið tilkynnt stefnanda og því hafi hann verið grandlaus um þær.

Ekki er ágreiningur um að í umræddum veðskjölum stefnanda eru ákvæði um skyldu eiganda veðsins til að hafa eignina jafnan vátryggða og með undirritun sinni á þau skjöl gekkst eigandi skipsins undir þær skyldur.  Stefndi er hins vegar ekki aðili að þeim veðskjölum sem um ræðir í máli þessu og er því á engan hátt bundinn af ákvæðum þeirra og hefur ekki tekið á sig skyldur gagnvart stefnanda samkvæmt þeim.  Bar stefndi ekki ábyrgð á því að eigandi skipsins sinnti þeirri skyldu sinni gagnvart stefnanda, sem kemur fram í lánasamningum þeirra, að halda tryggingu veðandlagsins til haga.  Þá verður ekki séð að á stefnda hvíli skylda gagnvart veðhöfum þeirra skipa sem hjá honum eru tryggð að tilkynna um breytingar sem kunna að verða á eignarhaldi eða útgerðarstjórn þeirra enda liggur fyrir að stefnda var allsendis ókunnugt um þær ráðstafanir sem gerðar voru á útgerðarstjórn Útgerðarfélagsins Bjarma ehf. og leiddu til þess að hann var sýknaður af kröfum félagsins með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar.

Stefndi tók að sér að tryggja umrætt fiskiskip fyrir eiganda þess en átti engin viðskipti við stefnanda máls þessa.  Hefur ekkert komið fram í máli þessu sem bendir til þess að stefndi hafi ekki viðhaft vönduð vinnubrögð sem sérfræðingur á sviði skipatrygginga í þeim viðskiptum eða að áhættan af því að veðandlag fari forgörðum eigi að hvíla á stefnda.  Stefnandi hins vegar, sem lánastofnun, veitti eiganda skipsins lán með veði í skipi, sem ekki var skylt samkvæmt lögum að tryggja og hafði hann sjálfur hagsmuni af því að veðandlagið væri tryggt og verður sjálfur að bera áhættuna af því að svo var ekki. 

Þá verður ekki séð að stefnandi geti byggt kröfur sínar á hendur stefnda á því að hann hafi treyst á stefnda og staðið í þeirri trú að skipið væri tryggt, eða að grundvallarforsenda lánveitingarinnar væri að skipið væri tryggt.  Stefndi var ekki aðili að samningum stefnanda við eiganda skipsins.  Þá eru engin rök fyrir því að réttlætissjónarmið leiði til þess að stefndi eigi að bera áhættuna af því að trygging sem eigandi skips ákveður að kaupa af stefnda falli úr gildi eða að túlka eigi tryggingarskilmála stefnanda í hag. 

Húftryggingin, sem útgerðarfélagið tók hjá stefnda, var fengin til að verja hagsmuni útgerðarfélagsins sem atvinnufyrirtækis og eins og rakið hefur verið stóð ekki lagaskylda til að taka hana.  Stefndi og útgerðarfélagið gerðu samning um kaup þess síðarnefnda á tryggingu hjá stefnda.  Um þau viðskipti giltu vátryggingaskilmálar og í grein 29.1 í þeim skilmálum eru skýr ákvæði um rétt veðhafa og sérstaklega tekið fram að veðhafi öðlist ekki meiri rétt gagnvart félaginu en eigandinn.  Þar sem Hæstiréttur hefur slegið því föstu að tryggingin hafi fallið úr gildi gagnvart Útgerðarfélaginu Bjarma ehf. þann 6. febrúar 2002 er ljóst að stefnandi sem veðhafi á ekki betri rétt gagnvart stefnda en eigandi skipsins.  Á stefnandi því ekki kröfu á hendur stefnda á grundvelli húftryggingar sem fallin var úr gildi þegar umræddur tjónsatburður átti sér stað.  Ekki verður séð að gjaldþrotaskiptameðferð á búi eiganda skipsins eða verðmæti skipsflaksins á sjávarbotni hafi þýðingu í máli þessu.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. 

Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurður Jónsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Guðmundur Pétursson hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sparisjóðs Vestmannaeyja.

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.