Hæstiréttur íslands
Mál nr. 633/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 24. nóvember 2008. |
|
Nr. 633/2008. |
Ákæruvaldið(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn X(Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Litið verður svo á að varnaraðili hafi kært úrskurðinn í því skyni að hann verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2008.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að dómfellda, X, verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. febrúar 2009 kl. 16:00.
Kröfunni til stuðnings er vísað til c. liðar 103. gr. sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og fyrirliggjandi dóms.
Í greinargerð kemur fram að dómfelldi hafi 31. október 2008 með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-1230/2008 verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir ýmis brot s.s. valdstjórnarbrot, auðgunarbrot og ítrekuð umferðarlagabrot. Dómfelldi hafi áfrýjað dómnum, áfrýjunarstefna var gefin út 14. þ.m. og hafi hún verið birt dómfellda.
Dómfelldi hafi setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 frá 11. ágúst sl. í ljósi brotaferils hans. Síðast hafi gæsluvarðhald verið framlengt 31. október til dagsins í dag, sbr. úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. R-590/2008, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 595/2008 frá 5. nóvember sl. Nauðsynlegt þyki að dómfelldi sitji áfram í gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar hjá Hæstarétti. Með vísan til fyrirliggjandi dóms og c-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106 gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist, að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuldi haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laganna stendur, svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðra dómi, ef því er að skipta.
Með vísan til ofangreinds rökstuðnings ríkissaksóknara og fyrirliggjandi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-1230/2008 þykja uppfyllt skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og 106. gr. sömu laga til þess að verða við umbeðinni kröfu, og verður hún tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. febrúar 2009 kl. 16:00.