Hæstiréttur íslands

Mál nr. 535/2015

BL ehf. (Heiðar Örn Stefánsson hrl.)
gegn
A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)

Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Slysatrygging
  • Uppgjör
  • Frádráttur
  • Gjafsókn
  • Tómlæti

Reifun

A slasaðist á fæti við vinnu sína hjá forvera B ehf. á árinu 2005 en fyrirtækið var þá með frjálsa ábyrgðartryggingu og samningsbundna slysatryggingu launþega fyrir starfsmenn sína hjá V hf. A tilkynnti V hf. fyrst um slysið á árinu 2014 og fékk í kjölfarið greiddar skaðabætur en við uppgjör þeirra var dregin frá bótum fyrir varanlega örorku sú fjárhæð sem svaraði til réttar A til greiðslna úr slysatryggingu launþega, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í málinu deildu aðilar um réttmæti þess frádráttar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar A tilkynnti V hf. um slysið hefði krafa til bóta úr slysatryggingu launþega verið fyrnd. Var talið að sú vanræksla A að láta undir höfuð leggjast að sækja um bætur úr tryggingunni, sbr. 21. gr. laga nr. 50/1954 um vátryggingarsamninga, þrátt fyrir að hann hefði haft einkenni frá fætinum allt frá slysdegi, væri á hans ábyrgð, en honum hefði borið í samræmi við meginreglur skaðabótaréttar að takmarka tjón sitt. Var B ehf. því sýknaður af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 2015. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

I

Stefndi slasaðist á fæti við vinnu sína hjá forvera áfrýjanda, Ingvari Helgasyni hf. 30. maí 2005, en fyrirtækið var þá með frjálsa ábyrgðartryggingu og samningsbundna slysatryggingu launþega fyrir starfsmenn sína hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. Stefndi leitaði strax til læknis og á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss var tekin röntgenmynd af ökkla hans sem leiddi í ljós brot á völubeini. Hann kom aftur til vinnu 6. júní sama ár, en versnaði í kjölfar þess og leitaði á heilsugæslustöð 9. sama mánaðar. Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi leitaði næst 15. janúar 2008 til læknis á heilsugæslustöð vegna langvarandi verkja í fæti og fór til skoðunar hjá bæklunarskurðlækni 28. janúar 2008, sem sendi hann í segulómun. Skoðunin sýndi ekki ákveðin áverkamerki og leiddi ekki til sérstakrar meðferðar. Stefndi leitaði aftur til læknis á heilsugæslustöð 12. janúar 2011 vegna verkja um allan líkamann, en þá gekk hann haltur. Í mars 2012 leitaði hann á heilsugæslustöð vegna verkja í mjóbaki með leiðni niður í fótlegg. Í læknisvottorði bæklunarskurðlæknis 2. febrúar 2014 var því lýst að stefndi hafi eftir slysið verið með álagsbundna verki í hægri ökkla og fæti, en hann hafi leitað vegna þessa til læknisins 9. desember 2013. Gekkst hann undir sterasprautumeðferð, en í fyrrgreindu læknisvottorði kom fram að líklegasta langtímalausn stefnda kynni að vera staurliður í neðanvölulið.

Það var fyrst með bréfi stefnda 10. mars 2014 sem hann upplýsti Vátryggingafélag Íslands hf. um slysið. Í kjölfar þess var tjón stefnda metið af lækni og lögfræðingi og gekk stefndi til uppgjörs við vátryggingafélagið á grundvelli þess. Viðurkenndi áfrýjandi skaðabótaskyldu sína vegna slyssins en sök var skipt og stefndi látinn bera hluta tjónsins vegna eigin sakar. Við uppgjör skaðabóta var meðal annars dregin frá skaðabótum fyrir varanlega örorku sú fjárhæð sem svaraði til réttar stefnda til greiðslna úr slysatryggingu launþega miðað við það mat á varanlegu líkamstjóni sem fyrir lá, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ágreiningur málsins lýtur að réttmæti þess frádráttar.

II

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga sem í gildi voru er stefndi slasaðist, skyldi vátryggður þegar í stað skýra félaginu frá því ef hann ætlaði að hafa uppi kröfur á hendur því vegna vátryggingaratburðar. Eins og að framan er rakið var það fyrst með bréfi 10. mars 2014 sem tryggingafélag áfrýjanda var upplýst um líkamstjón stefnda. Þá var krafa til bóta úr slysatryggingu launþega fyrnd og átti stefndi því ekki kost á því að sækja bætur úr þeirri tryggingu. Sú vangæsla stefnda að láta undir höfuð leggjast að sækja um bætur úr slysatryggingu launþega, sbr. áðurnefnda 21. gr. laga nr. 20/1954, þrátt fyrir að hann hafi haft einkenni frá fætinum allt frá slysdegi, er á ábyrgð hans, en honum bar í samræmi við meginreglur skaðabótaréttar að takmarka tjón sitt. Það fjártjón sem stefndi hefur orðið fyrir vegna þessa er ekki á ábyrgð áfrýjanda, en eins og rakið hefur verið dró áfrýjandi þá fjárhæð frá skaðabótum stefnda sem hann hefði átt rétt til úr slysatryggingu launþega, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Ítrekað hefur komið fram í dómum Hæstaréttar, sbr. meðal annars dóm réttarins 28. febrúar 2013 í máli nr. 544/2012, að ákvæði skaðabótalaga um frádrátt greiðslna samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna séu ekki andstæð 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er sú málsástæða stefnda að frádráttur við bótauppgjör hans hafi falið í sér skuldajöfnuð engum rökum studd og verður henni hafnað.

Samkvæmt framangreindu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest svo og niðurstaða hans um gjafsóknarkostnað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en um gjafsóknarkostnað stefnda fer svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, BL ehf., er sýkn af kröfu stefnda, A. 

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní  2015.

Mál þetta var höfðað 19. september 2014 og dómtekið 13. maí 2015.

Stefnandi er A, […].

Stefndi er BL ehf. […].

Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf. Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 1.610.590. kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. ágúst 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.Réttargæsluaðili gerir ekki kröfur í málinu en tekur undir rök og málsástæður stefnda.

I.

Málavextir

Ekki er ágreiningur á milli málsaðila um atvik máls þessa. Stefnandi var á þeim tíma starfsmaður stefnda sem þá hét Ingvar Helgason hf. Slysið varð þann 30. maí 2005 með þeim hætti að stefnandi stóð í lausum álstiga sem rann til. Við það féll hann úr stiganum og festi hægri fót í einu stigaþrepinu svo að hann snerist eða beyglaðist upp á hann. Röntgenmyndataka á slysa- og bráðadeild leiddi í ljós brot, sem nánar er lýst sem afrifu á völubeini og þurfti stefnandi að notast við hækjur. Þann 9. maí 2005 var hann hins vegar skoðaður af lækni á heilsugæslustöð og var greindur með tognun á ökkla. Hann leitaði til B bæklunarskurðlæknis á árinu 2008 sem lét framkvæma segulómskoðun. Sú skoðun leiddi ekki í ljós áverkamerki og kom ekki til meðferðar. Stefnandi leitaði til C, bæklunarskurðlæknis á árinu 2013 vegna viðvarandi verkja og leiddi skoðun í ljós að hann gekk ekki eðlilega. Fram kemur í læknisvottorði C að talið hafi verið að vandamálið stafaði frá ristargöngum og hafi stefnandi fengið deyfinga- og sterasprautur sem hafi dregið úr verkjum. Slík sprautumeðferð var talin geta verið til bóta eða þá aðgerðir þar sem líklegasta langtímalausnin kynni að vera staurliður á neðanvölulið.

Fyrir liggur að slysið var hvorki tilkynnt til Vinnueftirlitsins né Tryggingastofnunar ríkisins.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 10. mars 2014, til réttargæslustefnda var þess krafist að viðurkennt yrði að um skaðabótaskylt atvik hefði verið að ræða. Í kjölfarið áttu sér stað tölvupóstsamskipti á milli lögmannsins og starfsmanns réttargæslustefnda og var niðurstaðan sú að félagið viðurkenndi skaðabótaskyldu en sök var skipt og bar stefnandi sjálfur fjórðung tjónsins vegna eigin sakar. Fram kemur í tölvubréfi réttargæslustefnda frá 20. júní 2014 að þörf sé á matsgerð.

Með matsbeiðni, dagsettri 2. júlí 2014, óskaði stefnandi eftir því að D bæklunarlæknir og E lögfræðingur legðu mat á afleiðingar slyssins frá 30. maí 2005. Niðurstaða þeirra var sú að stefnandi hefði hlotið áverka á hægri ökkla sem nú hafi leitt til slitgigtar í sinus tarsi, þykknunar á vefjum í kringum ytri ökklakúlu, sem hafi gert það að verkum að göngugeta hans væri skert vegna verkja. Stöðugleikadagur stefnanda, er frekari bata var ekki að vænta, var talinn vera 30. ágúst 2005. Var varanlegur miski stefnanda vegna slyssins talinn 10 stig og varanleg örorka 10%. Þá taldist stefnandi hafa verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 30. maí 2005 til 6. júní 2005 en þó ekki rúmfastur.

Með bréfi, dagsettu 6. ágúst 2014, til réttargæslustefnda krafðist stefnandi greiðslu bóta í samræmi við niðurstöður ofangreindrar matsgerðar. Gengu aðilar til uppgjörs 20. ágúst 2014 og voru stefnanda greiddar bætur úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda. Til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku, til viðbótar við frádrátt vegna eigin sakar, komu samtals 1.610.590 krónur, annars vegar 1.115.200 krónur, sem svaraði til ógreiddra örorkubóta úr launþegatryggingu og hins vegar 495.370 krónur vegna áætlaðra örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Stefnandi samþykkti uppgjör bóta með fyrirvara um ofangreinda frádráttarliði. Hann höfðaði mál þetta í kjölfarið og krafði stefnda um greiðslu 1.610.590 króna sem samsvarar ofangreindum frádrætti réttargæslustefnda frá þeim skaðabótum sem honum voru greiddar.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir mál sitt fyrst og fremst á því að hinu stefnda félagi sé óheimilt að draga frá skaðabótum greiðslur úr launþegatryggingu sem aldrei hafa verið greiddar, sem og áætlaðar bætur frá almannatryggingum. Vísar stefnandi því á bug að unnt sé að byggja á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga í þessu sambandi en um undantekningarreglu sé að ræða. Meginreglan sé sú að bætur frá þriðja aðila dragist ekki frá skaðabótakröfu. Þar að auki hafi engin raunveruleg greiðsla farið fram, hvorki á grundvelli launþegatryggingar né frá almannatryggingum.

Þá telur stefnandi rök standa til þess að leggja ríka skyldu á vinnuveitanda, þ.e. vátryggðan, að upplýsa launþega sína um að atvinnuslysatrygging sé fyrir hendi. Hinn almenni borgari eigi oft erfitt með að átta sig á réttarstöðu sinni þegar slys ber að garði. Í þessu tilfelli hafi stefnandi aldrei verið upplýstur um að fyrir hendi væri atvinnuslysatrygging og ætti það ekki að koma niður á honum.

Þá bendir stefnandi jafnframt á að ástæða þeirra undantekninga sem fram koma í 4. mgr. 5. gr. laganna, varðandi slysatryggingu ökumanns og launþegatryggingu, sé sú að umræddar bætur væru í raun skaðabætur sem ákveðnar væru eftir almennum reglum skaðabótaréttar um ákvörðun bóta fyrir líkamsspjöll. Tjónþoli myndi því fá tvisvar sinnum greitt fyrir sama tjón eftir sömu bótareglum, ef hann gæti krafið hinn bótaskylda um fullar skaðabætur. Byggir stefnandi á því að þetta sé meginforsenda fyrir settu lagaákvæði. Þegar tjónþoli eigi ekki rétt á bótum úr launþegatryggingu eða hann fái ekki greitt fyrir slíka tryggingu, sé ljóst að hann muni ekki fá tvígreitt fyrir sama tjón eftir sömu bótareglum. Þar af leiðandi sé sú réttlæting fyrir frádrættinum sem fram komi í lögskýringargögnum ekki til staðar í tilviki stefnanda.

Réttargæslustefndi hafi hafnað greiðslum úr slysatryggingu launþega á þeim grundvelli að slík krafa kæmist ekki að með vísan til ákvæða vátryggingasamninga. Af því leiði að stefnandi hafi enga greiðslu fengið úr atvinnuslysatryggingu launþega. Telur stefnandi engar forsendur til að draga andvirði slíkrar greiðslu frá bótum vegna varanlegrar örorku, svo sem stefndi hafi gert við uppgjör vegna tjóns stefnanda. Þessi frádráttur gangi í berhögg við markmið skaðbótalaga og leiði í þessu tilfelli til þess að ekki fáist fullar bætur fyrir líkamstjón. Umræddur frádráttur sé því ekki heimill á grundvelli laga.

Þá byggir stefnandi á því að frádráttur vátryggingafélagsins feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda og geti því vart staðist. Í aflahæfi manna eru fólgin eignarréttindi, sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrár, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

Þá vísar stefnandi jafnframt til þess, að samkvæmt 49. gr. og 122. gr. vátryggingasamningalaga, sé öll skuldajöfnun, nema skuldajöfnun vangoldins iðgjalds, bönnuð samkvæmt lögum um vátryggingasamninga.

Hvað varði frádrátt stefnda á áætluðum bótum frá Tryggingastofnun, sbr. þágildandi 29. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar þá sé þeim frádrætti hafnað með sömu rökum og rakin hafa verið. Ljóst sé að slysið hafi ekki verið tilkynnt til Tryggingastofnunar á sínum tíma og því geti ekki komið til greiðslu frá almannatryggingum.

Stefnandi byggir stefnufjárhæð sína á tilboði réttargæslustefnda sem aftur byggi á mati sérfræðimatsmanna þar sem reiknuð sé út skaðabótakrafa stefnanda í samræmi við skaðabótalög og fjórðungur bótanna dreginn frá í samræmi við samkomulag málsaðila. Dómkrafa stefnanda samanstandi af þessum tveim frádráttarliðum sem samanlagt myndi stefnufjárhæð málsins. Þá er krafist dráttarvaxta á viðkomandi stefnufjárhæð frá því að tilboð stefnda var samþykkt með fyrrgreindum fyrirvörum.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að stefnanda hafi verið skylt að halda til haga rétti sínum til bóta úr hendi þriðja manns og gæta þess að réttur hans til bóta úr atvinnuslysatryggingu launþega hjá réttargæslu­stefnda og til slysabóta frá almannatryggingum glataðist ekki, enda aðeins sjálfsagt, eðlilegt og sanngjarnt að stefnandi gætti þess. Hið sama eigi við um rétt stefnanda til bóta frá almannatryggingum. Vísar stefndi í þessu sambandi til meginreglu skaðabótaréttar um skyldu stefnanda  til tjónstakmörkunar. 

Stefnandi geti ekki gert rétt vinnuveitandans til að njóta góðs af atvinnuslysatryggingu að engu með því að láta hjá líða að sækja slysa­bæturnar eða glata réttinum til bóta úr tryggingunni. Sama gildir um aðrar þriðja manns bætur. Þvert á móti sé tjónþolanum skylt að takmarka tjón sitt með því að halda til haga réttinum til bóta frá þriðja manni, sem koma eigi til frádráttar skaðabótakröfu skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, þ. á m. bótum úr atvinnuslysa­tryggingu og bótum frá almannatryggingum.

Stefndi byggir á því að tapist þær bætur fyrir fyrningu eða vangæslu tjónþola á að tilkynna slysið sé það eigið tjón tjónþolans, sem hann geti ekki velt yfir á vinnuveitanda sinn eða ábyrgðartryggingu vinnuveitandans. Að sama skapi geti tjónþoli ekki látið hjá líða að halda til haga rétti sínum til bóta frá almannatryggingum og lífeyris­sjóðum og velt því sem hann hefði ella fengið þar yfir á hinn skaða­bóta­ábyrga eða vinnuveitanda sinn.

Í þessu sambandi leggur stefndi áherslu á að ekki sé nema sanngjarnt að krefjast þess af tjónþola, að hann haldi til haga rétti sínum til þriðja manns bótanna, enda næsta auðvelt og útlátalaust fyrir hann að gera það. Bar stefnanda sjálfum að hlutast til um að tilkynning væri send, hafi vinnuveitandinn ekki gert það. Að lögum hvíli sjálfstæð skylda á vátryggðum til að sjá til þess að Tryggingastofnun og vátryggingafélagi sé tilkynnt um vinnuslys, hvað sem skyldum vinnuveitanda líður. Stefndi vísi í þessu sambandi til 28. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar sem þá voru í gildi, laga nr. 100/2007 og þágildandi 21. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.

Stefndi telur að það fái ekki staðist sem stefnandi haldi fram, að einungis greiddar þriðja manns bætur skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eða bætur til útgreiðslu geti komið til frádráttar skaðabótakröfu tjónþola. Slík takmörkun á megin­reglunni um skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt eigi sér ekki lagastoð. Verði það og ekki ráðið af lögskýringu á texta ákvæðis 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og er það nánar rakið í greinargerð. Hvað sem því líði þá skerði það ekki meginreglu skaðabótaréttarins um tjónstakmörkunarskyldu tjónþola. Réttargæslustefnda hafi því verið rétt að beita frádrætti eins og gert hafi verið við bótauppgjörið á grundvelli reglunnar um tjónstakmörkunarskyldu tjónþola.

Krafa stefnanda í launþegatrygginguna sætti fyrningu samkvæmt 4 ára fyrningarreglu laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, sem giltu á þeim tíma er slysið varð, þ.e. 30. maí 2005. Stefnandi hafi átt þess kost að hefjast handa við að leita fullnustu kröfu sinnar í launþegatrygginguna. Það hafi hann ekki gert. Vegna þeirrar vangæslu stefnanda hafi krafan til bóta úr launþegatryggingunni fallið niður fyrir fyrningu í árslok 2010 og í öllu falli ekki síðar en í árslok 2012. Því hafi réttargæslustefnda ekki verið stætt á að greiða slysa­bætur úr tryggingunni. Með vangæslu sinni hafi stefnandi þannig orðið þess valdandi að bætur úr launþegatryggingunni hafi ekki getað komið til frádráttar skaðabótakröfu hans á hendur stefnda. Þann skaða eigi stefnandi að bera samkvæmt tjónstakmörkunar­reglunni en ekki stefndi.

Hið sama eigi við um rétt stefnanda til bóta frá almannatryggingum. Þó að Ingvar Helgason hf. hafi vanrækt þá skyldu sína að tilkynna slysið strax og innan ársfrestsins til TR hafi hvílt sjálfstæð skylda á stefnanda til að sjá til þess að tilkynningarskyldunni væri fullnægt og hafi hann getað leitað aðstoðar lögreglustjóra í því sambandi, sbr. 23. gr. laga nr. 117/1996. Þar sem stefnandi hafði greinst með brot í fætinum og verkir í fætinum ekki lagast hafi hann haft tilefni til að gæta þess að tilkynningarskyldunni yrði fullnægt innan ársfrestsins. Þó að það færist fyrir hafi bótaréttur stefnanda ekki þar með verið endanlega glataður, þar sem heimilt hafi verið að greiða bætur eftir að ársfresturinn var liðinn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Stefnandi hafi orðið þess valdandi með vangæslu sinni að bæturnar frá almanna­tryggingum komu ekki til frádráttar skaðabótakröfu hans á hendur stefnda. Þann skaða telur stefndi að stefnandi verði að bera samkvæmt tjónstakmörkunar­reglunni og gildi einu þó að krafan sé enn til og stefnandi hafi ekki sótt um bæturnar.

Stefndi telur ekki um það að ræða að frádráttur réttargæslu­stefnda við bótauppgjörið sé „óeiginlegur skuldajöfnuður“ eða skuldajöfnuður yfirhöfuð, heldur sé um að ræða skerðingu á skaðabótarétti stefnanda á hendur stefnda vegna vanrækslu hans á skyldu sinni til tjónstakmörkunar. Sú skerðing sé heldur ekki brot á rétti stefnanda skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar til verndar á aflahæfi.  

IV.

Niðurstaða

Stefnandi slasaðist 30. maí 2005 en þá var hann starfsmaður stefnda. Ekki er ágreiningur á milli aðila máls um bótaskyldu, enda var hún viðurkennd af hálfu réttargæslustefnda og fór uppgjör skaðabóta fram eins og áður segir. Ágreiningur lýtur hins vegar að því hvort stefnandi geti krafið stefnda um þá fjárhæð sem réttargæslustefndi dró frá bótum fyrir varanlega örorku við uppgjör á milli aðila, þ.e. ógreiddar bætur annars vegar úr launþegatryggingu stefnda og hins vegar almannatryggingabætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Vegna frádráttarins telur stefnandi sig ekki fá fullar bætur fyrir varanlega örorku.

Stefndi reisir kröfu sína um sýknu á því að stefnandi eigi ekki lögvarinn rétt til frekari skaðabóta úr hendi stefnda en þær sem gerðar voru upp við stefnanda með uppgjöri frá 20. ágúst 2014. Hafi réttargæslustefnda verið rétt að draga frá bótunum þá fjárhæð sem svaraði slysabótum úr launþegatryggingu og bótum frá Tryggingastofnun ríkisins þrátt fyrir að þær kæmu ekki til greiðslu. Stefnanda beri skylda til að takmarka tjón sitt og láti hann það hjá líða verði hann að bera tjón sitt sjálfur.

Í kjölfar þess að stefnandi leitaði til lögmanns snemma árs 2013 var réttargæslustefndi upplýstur um slysið og viðræður fóru fram um viðurkenningu á bótaskyldu. Í tölvubréfssamskiptum á milli lögmanns stefnanda og lögfræðings réttargæslustefnda í aðdraganda uppgjörs er ekkert vísað til þess frádráttar sem hér er um deilt. Lá það fyrst fyrir við uppgjörið og var ástæða þess að fyrirvari var sérstaklega gerður þar að lútandi af hálfu stefnanda.

Fyrir liggur að réttargæslustefndi hafnaði beiðni stefnanda um greiðslu úr launþegatryggingu áður en til uppgjörs kom þar sem ekki hafði verið sótt um bæturnar innan tilskilinna tímamarka. Ágreiningslaust er að krafa stefnda til bóta úr þeirri tryggingu er fyrnd samkvæmt fyrningarreglum vátryggingarlaga er giltu  þegar slysið varð en þar sagði í 29. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga að kröfur, sem rísa af vátryggingarsamningi, fyrnist á 4 árum frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafinn fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess kost að leita fullnustu hennar. Kröfur um greiðslu bóta eða vátryggingarfjárhæðarinnar fyrnast þó í síðasta lagi á 10 árum frá því að vátryggingaatburðurinn gerist.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi með vanrækslu sinni, þ.e. skorti á tilkynningu til réttargæslustefnda, fyrirgert rétti sínum til bóta úr hans hendi. 

Samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal sá sem ber skaðabótaábyrgð á líkamstjóni greiða tjónþola skaðabætur fyrir það tjón sem þar er tilgreint, m.a. bætur fyrir varanlega örorku. Í 5. gr. laganna er fjallað um varanlega örorku, m.a. hvernig hún skuli metin og reiknuð. Í 4. mgr. ákvæðisins er kveðið á um frádrátt frá skaðabótakröfu, m.a. vegna greiddra bóta frá almannatryggingum auk þess sem greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega dragast frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Þá segir að aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns dragist ekki frá skaðabótakröfu. Þannig er ljóst að frádráttur frá skaðabótum vegna greiðslna frá þriðja manni er undantekning og er það sérstaklega áréttað í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna. Þá er jafnframt að finna röksemdir fyrir frádrætti samkvæmt undantekningarreglunni en ein þeirra er sú að koma í veg fyrir að sá sem nýtur greiðslu úr tryggingu hagnist. Þá segir að reglur um rétt launþega til bóta frá atvinnuslysatryggingu séu yfirleitt reistar á þeim forsendum að atvinnurekandi, sem annast kaup á slysatryggingunni, skuli njóta góðs af henni þegar líkamstjón verður rakið til atvika sem hann ber skaðabótaábyrgð á.

Þegar litið er til ofangreindra sjónarmiða í lögskýringargögnum verður að fallast á það með stefnanda að sanngjarnt verði að telja að atvinnurekandi, sem er sá aðili sem greiðir fyrir trygginguna og á að njóta góðs af frádrætti vegna greiðslna úr henni, upplýsi starfsmann sinn um tilvist hennar og tilgang. Sömuleiðis má á það fallast með stefnda að starfsmanni sem slasast sé unnt með tiltölulega einföldum hætti að leita upplýsinga um slíkt. Hvorugur þeirra sinnti þessu. Eins og rakið hefur verið var engum tilkynningum til að dreifa, hvorki til Vinnueftirlitsins né til réttargæslustefnda af hálfu stefnanda í samræmi við 21. gr. laga nr. 20/1954 þar sem segir að vátryggður skuli þegar í stað skýra félaginu frá því þegar vátryggingaratburðurinn hefur gerst, ef hann ætlar að hafa uppi kröfur á hendur því vegna þess. Samkvæmt þessu hvíldi sjálfstæð skylda á stefnanda hafi það verið ætlun hans að hafa uppi kröfu um bætur á hendur réttargæslustefnda. Ákvæðið verður hins vegar ekki skýrt svo að með því að gera það ekki hafi hann fyrirgert rétti sínum til bóta úr hendi þess aðila er hann telur bera skaðabótaábyrgð á líkamstjóni hans.

Þegar litið er til atvika málsins er það mat dómsins að stefnda hafi staðið nær að upplýsa stefnanda um möguleika hans til þess að sækja bætur úr launþegatryggingu óháð því hvort endanleg greining á líkamstjóni hans lá fyrir eða ekki. Fyrst eftir slysið hafði stefnandi verið greindur með brot/afrifu í völubeini þó að síðar hafi greiningin verið sú að um tognun hafi verið að ræða. Gekk stefnandi við hækjur fyrst eftir slysið og voru verkir nokkuð viðvarandi, eins og saman er tekið í matsgerð þeirri sem er á meðal gagna málsins. Stefnandi leitaði leiða næstu árin til þess að fá bót meina sinna. Var það ekki fyrr en hann leitaði til C bæklunarskurðlæknis á árinu 2013 sem hann fékk meðferð við verkjum sem talin var geta linað þjáningar hans þó að varanlegasta lausnin fælist í aðgerð. Eftir að álit læknisins lá fyrir var réttargæslustefndi upplýstur um hið bótaskylda tjón eins og áður er rakið.

Dómurinn telur að túlka skuli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga samkvæmt orðanna hljóðan. Stefnandi á í dag ekki kost á greiðslu úr launþegatryggingu stefnda. Hann hvorki afsalaði sér þeim rétti né tók meðvitaða ákvörðun um að nýta sér hann ekki. Dómurinn telur sakarefnið því ekki sambærilegt við það sem leyst er úr í dómi Hæstaréttar í máli nr. 307/2007 þar sem tjónþoli hafði afsalað sér tilteknum bótum og krafðist þeirra síðar úr hendi vinnuveitanda síns. Talið var að með því hefði hann ekki takmarkað tjón sitt við kröfugerð á hendur vinnuveitanda.

Að ofangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefnda beri að greiða stefnanda það sem nemur frádrætti vegna bóta úr launþegatryggingu, samtals 1.115.220 krónur.

Hvað varðar greiðslur bóta frá Tryggingastofnun ber að líta til þess að þær eru annars eðlis en þær sem greiðast úr launþegatryggingu. Sanngirnisrök standa því ekki til þess með alveg sama hætti og að ofan greinir að stefndi upplýsi stefnanda um rétt sinn til greiðslu bóta frá stofnuninni. Þá eru menn alla jafna vel upplýstir um lögbundinn rétt sinn til bótagreiðslna úr almannatryggingum og kanna oftast fyrst af öllu hvort þeir eigi rétt á þeim. Þó er til þess að líta að samkvæmt 23. gr. þágildandi laga um almanntryggingar, sem er óbreytt í gildandi lögum, bar atvinnurekanda tafarlaust að senda tilkynningu til Tryggingastofnunar um slys sem ætla mátti bótaskylt. Sjálfstæð skylda var jafnframt lögð á hinn slysaða til þess að fylgjast með því að tilkynningarskyldunni væri fullnægt og gat hann leitað aðstoðar lögreglustjóra ef svo bar undir ef atvinnurekandi vanrækti skyldu sína. Vanrækslan kæmi þó ekki í veg fyrir að hinn slasaði gæti gert kröfu til bóta innan árs.

Ekki verður annað séð af dómaframkvæmd en að nokkuð rík skylda sé lögð á tjónþola til þess að takmarka tjón sitt í þeim efnum og fylgja rétti sínum eftir áður en bótaskyldur aðili svarar til bóta. Til þess standa rýmri tímamörk en þegar um er að ræða rétt sem sóttur er úr launþegatryggingu, m.a. var að finna undantekningarreglur er lúta að frestum til að tilkynna slys í reglugerð nr. 356/2005 sem enn er í gildi.

Stefnandi heldur því fram að hann eigi þess ekki lengur kost að sækja bætur til Tryggingastofnunar ríkisins. Engin staðfesting þess efnis hefur hins vegar verið lögð fram af hans hálfu. Því er ekki unnt að fullyrða um að stefnandi eigi þess ekki kost að sækja þangað bætur. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið og að þessu virtu verður ekki fallist á kröfu stefnanda um bætur úr hendi stefnda er svara til frádráttar vegna örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 495.370 krónur.

Stefnandi byggir á því að hinn umdeildi frádráttur réttargæslustefnda feli í sér brot gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar sem verndar eignarrétt manna. Telur stefnandi að frádráttarreglur 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga brjóti í bága við vernd aflahæfis þess sem á rétt til skaðabóta.

Ofangreint ákvæði stjórnarskrárinnar hefur vissulega verið túlkað svo af dómstólum og fræðimönnum að í aflahæfi manna séu fólgin eignarréttindi, sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrár. Hins vegar sé það hlutverk löggjafans að setja reglur um það hvernig ákveða skuli bætur manna með skert aflahæfi svo að fullar bætur komi fyrir. Ákvörðun um bætur til stefnanda, þ.e. útreikning þeirra, er byggð á slíkum lagareglum. Er þessari málsástæðu stefnanda því hafnað.

Þá byggir stefnandi á því að öll skuldajöfnun nema skuldajöfnun vangoldins iðgjalds sé óheimil samkvæmt 49. og 122. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Sambærileg lagaákvæði voru ekki í lögunum á þeim tíma er atvik þessi áttu sér stað. Telur stefnandi að sömu sjónarmið eigi þó við og frádráttur réttargæslustefnda frá bótum sé í reynd óeiginlegur skuldajöfnuður. Engin haldbær rök eru þó færð fyrir þessu í greinargerð og er þessari málsástæðu stefnanda því hafnað.

Með vísan til ofangreinds er niðurstaða máls þessa sú að stefnanda er gert að greiða stefnda 1.115.220 krónur. Kröfu stefnanda um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 er ekki mótmælt og er því fallist á hana.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu, dagsett 12. janúar 2015, sem er takmörkuð við rekstur málsins fyrir dómi. Allur gjafsóknarkostnaður hans greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þormóðs Skorra Steingrímssonar, hdl., sem er ákveðinn, 838.860 krónur.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, BL ehf., greiði stefnanda, A, 1.115.220 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. ágúst 2014 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þormóðs Skorra Steingrímssonar, hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 838.860 krónur.