Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðilaskýrsla


                                                         

Föstudaginn 28. maí 1999.

Nr. 179/1999.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Dreifingu ehf.

(Hreinn Loftsson hrl.)

Kærumál. Aðilaskýrsla.

Hlutafélagið D, sem höfðað hafði mál til endurgreiðslu sérstaks tryggingargjalds, krafðist þess að fyrirsvarsmaður íslenska ríkisins, ráðherrann G, gæfi aðilaskýrslu fyrir dómi. Sýnt þótti að G, sem ekki hafði gegnt starfi ráðherra þegar atvik málsins áttu sér stað, gæti engu svarað um þau. Þá þótti ekki verða ætlast til þess að fyrirsvarsmaður kæmi fyrir dóm til þess að svara spurningum um hvers vegna hann kysi að bera tilteknar málsástæður fyrir sig eða hvers vegna hann vildi ekki ljúka málinu með sátt. Samkvæmt þessu þótti skýrsla G fyrir dómi þarflaus og var kröfu D því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. maí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 1999, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, yrði kvaddur fyrir dóm til að gefa aðilaskýrslu í málinu. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að kveðja Geir H. Haarde fyrir dóm til skýrslugjafar. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Samkvæmt héraðsdómsstefnu höfðaði varnaraðili málið til að krefja sóknaraðila um endurgreiðslu sérstaks tryggingagjalds, merktu „B“, sem varnaraðili kveður sér hafa verið gert að greiða á tímabilinu frá september til desember 1991 við innflutning á kartöflum og vörum unnum úr þeim. Varnaraðili telur enga stoð hafa verið fyrir því að taka þetta gjald af þeim vörum, sem hann flutti til landsins á umræddum tíma og málið varðar. Þá telur varnaraðili kröfu sína að engu leyti fyrnda, en í því sambandi vísar hann einkum til 7. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Í greinargerð til Hæstaréttar færir varnaraðili þau rök fyrir kröfu sinni um að Geir H. Haarde verði kvaddur fyrir dóm til skýrslugjafar að þótt hann hafi ekki verið fjármálaráðherra á þeim tíma, sem varnaraðili greiddi fyrrnefnd gjöld, þá hafi hann gegnt því starfi þegar varnaraðili hafi komist að raun um að hann hafi verið látinn greiða svokallað „B-tryggingagjald“ á árinu 1991 af vörum, sem hafi alls ekki átt að bera slíkt gjald. Á árinu 1994 hafi sóknaraðili að eigin frumkvæði endurgreitt varnaraðila hluta þessara gjalda, en beri nú fyrir sig fyrningu á kröfu um endurgreiðslu eftirstöðva þeirra. Varnaraðili hafi talið greiðsluna 1994 vera fullnaðargreiðslu, en hafi nú, rúmum fjórum árum síðar, komist að því að svo hafi ekki verið. Telji hann óeðlilegt að sóknaraðili beri fyrir sig fyrningu þegar óumdeilt sé að hér hafi verið um að ræða mistök innheimtumanns ríkissjóðs. Sé nauðsynlegt að fjármálaráðherra gefi skýrslu meðal annars til að skýra þennan þátt málsins. Þá vísar varnaraðili jafnframt til þess að við meðferð málsins fyrir héraðsdómi hafi ríkislögmaður borið þau boð frá fjármálaráðherra að ekki væri grundvöllur fyrir sáttum í því. Í tengslum við þetta telji varnaraðili sig eiga rétt á upplýsingum frá fjármálaráðherra um „hvernig staðið er að ákvörðun um slík efni af hálfu ráðherrans og hvernig samráði embættis ríkislögmanns og fjármálaráðherra var háttað í þessu tilviki“, eins og í greinargerð varnaraðila segir.

II.

Samkvæmt auglýsingu nr. 21/1998 um staðfestingu forsetaúrskurðar um breytingu á forsetaúrskurði nr. 75 23. apríl 1995, um skipting starfa ráðherra tók Geir Hilmar Haarde við starfi fjármálaráðherra 16. apríl 1998. Hann gegndi því ekki starfinu þegar varnaraðili greiddi gjöldin, sem málið snýst um, eða ákvarðanir voru teknar um að leggja þau á. Er þannig sýnt að hann geti engu svarað um atriði, sem varða þessi atvik málsins.

Í málinu ber sóknaraðili fyrir sig fyrningu á kröfum varnaraðila. Eðli málsins samkvæmt verður ekki ætlast til að fyrirsvarsmaður sóknaraðila komi fyrir dóm til að svara spurningum um ástæður þess að hann kjósi að bera þessa málsástæðu fyrir sig, enda er á færi málflytjanda að skýra það eftir þörfum við munnlegan flutning málsins. Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila hefur ríkislögmaður lýst því yfir við meðferð málsins að sóknaraðili vilji ekki ljúka málinu með sátt. Með þeirri málflutningsyfirlýsingu eru komnar fram upplýsingar um afstöðu fjármálaráðherra til þessa atriðis. Ekki verður ætlast til þess af sóknaraðila fremur en öðrum, sem aðild eiga að einkamáli, að slík afstaða hans verði skýrð eða rökstudd frekar. Varnaraðili hefur ekki í málatilbúnaði sínum getið annarra spurninga, sem hann hefði hug á að leggja fyrir fjármálaráðherra við skýrslugjöf í málinu. Verður því að fallast á með sóknaraðila að skýrsla ráðherrans fyrir dómi sé þarflaus, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. og 4. mgr. sömu greinar verður að hafna kröfu varnaraðila um að Geir H. Haarde komi fyrir dóm til skýrslugjafar í málinu.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Dreifingar ehf., um að Geir H. Haarde fjármálaráðherra verði kvaddur fyrir dóm til að gefa aðilaskýrslu í málinu.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.