Hæstiréttur íslands

Mál nr. 278/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. maí 2008.

Nr. 278/2008.

B

(Eva B. Helgadóttir hrl.)

gegn

A

(Þórdís Bjarnadóttir hdl.)

 

Kærumál. Lögræði. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Úrskurður héraðsdóms um að svipta B sjálfræði í sex mánuði vegna geðsjúkdóms var ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 13. maí 2008, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er þess krafist að skipuðum verjanda sóknaraðila verði dæmd þóknun.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er um niðurstöðu vísað til framburðar geðlæknis fyrir dómi sem hafði haft afskipti af sóknaraðila fyrir um tveimur árum síðan og vottorðs annars geðlæknis frá 8. þessa mánaðar um geðhagi sóknaraðila. Sá læknir kom ekki fyrir dóm og heldur ekki sóknaraðili. Í 11. gr. lögræðislaga er áréttað að dómara beri að tryggja að mál sé nægilega upplýst áður en hann kveður upp úrskurð um sviptingu lögræðis. Í ákvæðum greinarinnar eru svo frekari reglur um framkvæmd rannsóknar dómara á skilyrðum fyrir slíkri sviptingu. Þar segir meðal annars að dómari skuli kalla fyrir dóm þann sem krafa beinist að, kynna honum kröfuna og gefa honum kost á að tjá sig um hana, nema ástandi hans sé svo háttað samkvæmt vottorði læknis að það sé tilgangslaust. Í framangreindu vottorði frá 8. þessa mánaðar er ekkert að slíku vikið. Þá getur héraðsdómari í engu hvers vegna sóknaraðila hafi ekki verið gefinn kostur á að mæta fyrir dóm. Telst þessi meðferð vera í slíkri andstöðu við framangreindar reglur 11. gr. lögræðislaga að ekki verður hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdóm að bæta úr greindum annmörkum á meðferð málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, sem er hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný.

Þóknun Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda sóknaraðila, B, 100.000 krónur og Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs talsmanns varnaraðila, A, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

                                          Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 13. maí 2008.

Með beiðni, sem dagsett er 6. þ.m. hefur sóknaraðili, A, [kennitala], [heimilisfang], krafist þess að dóttir hans, B, kt. [...], [heimilsfang] , verði svipt sjálfræði í sex mánuði vegna geðræns sjúkdóms. Var málið þingfest 9. maí sl. og tekið til úrskurðar í dag. Um aðild sóknaraðila vísast til a-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.  Varnaraðili mótmælir kröfunni.

Fyrir liggur vottorð C geðlæknis, um að varnaraðili hafi haft a.m.k. 4 ára sögu um geðhvarfasjúkdóm, Bipolar Affective Disorder og áfengissýki, Alcohol Dependence Syndrom. Hún hafi verið nauðungarvistuð í nærri 3 vikur vegna sjúkdóms síns og misnotkunar á áfengi, en þrátt fyrir allverulega meðferð við örlyndi sé hún enn skammt á veg komin í bataferli. Sé hún enn í manísku geðrofsástandi. Þurfi hún talsvert lengri tíma í meðhöndlun, sem eðlilegast sé að byggja fyrst og fremst upp á geðrofs- og geðjöfnunarlyfjum. Ef hún útskrifist nú sé hættan á sjálfsskaða nokkur en heilsu hennar muni hraka mjög hratt vegna lélegrar meðferðarheldni og skorts á innsæi. Hættan sem öðrum geti stafað af henni sé talsverð vegna geðrofsástands hennar en að auki sé mikil hætta á að örlyndi hennar og skert dómgreind geti leitt hana fljótt í aðstæður sem geti verið henni hættulegar. Í ljósi þessa telji C óhjákvæmilegt að styðja beiðni um allt að 6 mánaða sjálfræðissviptingu til að B nái sér af núverandi sjúkdómskrísu og til að tryggja að bati hennar verði orðinn stöðugur áður en af útskrift verður. 

Þá kom fyrir dóminn D geðlæknir. Staðfesti D að hafa meðhöndlað B en B hafi D verið málkunnug allt frá árinu 1982. D kvað B hafa fyrir um tveim árum verið vistaða nauðungarvistun í 3 vikur. Hafi B þá verið í maníu og drukkið illa. Hafi hún á þeim tíma verið mjög veik. Þá hafi hún verið mjög reið m.a. út í lögreglumenn sem þá hafi haft afskipti af henni. Kvaðst D vera þeirrar skoðunar að 3 vikur hafi á sínum tíma verið of skammur tími fyrir B til að vera nauðungarvistaða m.v. sjúkdóm hennar. B hafi nýlega haft samband við D og hún þá greinilega aftur verið komin í maníu. Hafi hún þá verið að rifja upp þann tíma er hún hafi áður verið nauðungarvistuð og aftur orðið reið út í ýmislegt tengt því. D kvaðst ekki vera annarrar skoðunar en C geðlæknir varðandi nauðsyn á sjálfræðissviptingu yfir B.

Dómarinn álítur alveg vafalaust af því sem rakið er hér að framan að varnaraðili sé í manísku geðrofsástandi og alls ófær um að ráða högum sínum. Sé hætta á að hún skaði sjálfa sig sem og aðra vegna ástands síns. Þá álítur hann að skilyrði a-liðar 4. gr. laga nr. 71/1997 eigi við um varnaraðila og að þörf sé á því að svipta hann sjálfræði.  Ber að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli svipt sjálfræði í sex mánuði. 

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þ.m.t. þóknun til talsmanna aðilanna, Þórdísar Bjarnadóttir héraðsdómslögmanns og Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur til hvors um sig.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, B, kt. [...], til heimilis að [...], er svipt sjálfræði í sex mánuði.

Kostnaður af málinu, þar með talin þóknun til skipaðra talsmanna aðilanna, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur, og Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.