Hæstiréttur íslands
Mál nr. 453/2000
Lykilorð
- Skaðabætur
- Bifreið
- Búfé
- Tilkynning
- Aðild
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Miðvikudaginn 23. maí 2001. |
|
Nr. 453/2000. |
Gunnar David Jones og Hildur Eysteinsdóttir (Valgarður Sigurðsson hrl.) gegn Guðlaugi S. Einarssyni og Váryggingafélagi Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) |
Skaðabætur. Bifreiðir. Búfé. Tilkynning. Aðild. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.
GJ ók bifreið á hrút í eigu GE með þeim afleiðingum að bifreiðin skemmdist og hrúturinn drapst. GJ og H, eigandi bifreiðarinnar, kröfðu GE og vátryggingafélagið V, sem GE hafði keypt ábyrgðartryggingu hjá, um bætur vegna fjártjóns sem þau hefðu orðið fyrir. Kröfum GJ á hendur GE og V var vísað frá dómi, enda var ekki talið að skýrt hefði verið af hvaða sökum hann gæti átt aðild að málinu. Vegna aðstæðna á slysstað leiddi af vegalögum að lausaganga búfjár var þar bönnuð. GE var eigi að síður sýknaður af kröfum H þar sem ekki þótti hafa verið færðar fyrir því sönnur að hann hefði sýnt af sér gáleysi. Málinu hafði áður verið vísað til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að bæta ætti tjón á bifreiðinni úr ábyrgðartryggingu GE. Kvaðst V hafa sent nefndinni bréf og tilkynnt að félagið myndi ekki una niðurstöðu hennar. Sagðist V jafnframt hafa sent H afrit þess bréfs. Gegn mótmælum H þótti það hins vegar ekki sannað og var því talið að V hefði orðið bundið af niðurstöðu nefndarinnar. Kröfu hennar á hendur V var hins vegar vísað frá dómi vegna vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 14. desember 2000 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þau krefjast þess að stefndu verði í sameiningu dæmdir til að greiða sér 283.253 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. desember 1999 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og greinir í héraðsdómi á málið rætur að rekja til þess að áfrýjendur voru á ferð í fólksbifreið af gerðinni Toyota laust eftir kl. 22 að kvöldi 25. ágúst 1995 sem leið lá austur þjóðveg nr. 1 í Vestur-Eyjafjallahreppi. Áfrýjandinn Gunnar ók bifreiðinni, sem bar skráningarnúmerið G 5802. Skammt vestan við býlið Efstu-Grund varð á vegi þeirra svartur hrútur í eigu stefnda Guðlaugs, sem rekur bú að Ysta-Skála II í áðurnefndum hreppi. Áfrýjendur lýsa nánari atvikum svo að hrúturinn hafi skyndilega stokkið inn á veginn frá hægri. Ökumaðurinn hafi hemlað, en ekki komist hjá því að aka á hrútinn, sem hafi kastast við það upp á vélarhlíf bifreiðarinnar og síðan fram af henni. Bifreiðin hafi að endingu farið til hálfs yfir hrútinn, sem drapst. Hafi bifreiðin orðið fyrir talsverðum skemmdum af þessu og ekki verið ökufær. Áfrýjendur kveðast sjálf hafa unnið að viðgerð hennar, en jafnframt orðið að greiða fyrir vinnu annarra í því sambandi og kaupa varahluti. Kostnaður þeirra af þessu sé sú fjárhæð, sem þau krefji stefndu um í málinu.
Fyrir liggur í málinu að þegar umferðarslys þetta varð hafði stefndi Guðlaugur ábyrgðartryggingu hjá hinu stefnda vátryggingafélagi. Er óumdeilt að með henni sé hann meðal annars vátryggður gegn skaðabótaábyrgð, sem kunni að falla á hann vegna tjóns af völdum dýra úr bústofni hans. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjendur hafi árangurslaust leitast við að fá fyrrgreint tjón sitt bætt úr ábyrgðartryggingunni. Hafi ágreiningi um þetta verið skotið til tjónanefndar vátryggingafélaganna og síðan úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem ákvað í úrskurði 8. október 1999 að bæta ætti tjón á bifreiðinni úr ábyrgðartryggingunni. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, sem voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 336/1996, tilkynnti stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. nefndinni með bréfi 14. október 1999 að hann mundi ekki una við niðurstöðu hennar. Framlagt ljósrit af bréfinu ber með sér að senda hafi átt afrit þess til áfrýjenda.
II.
Mál þetta er sem áður greinir höfðað til heimtu bóta fyrir tjón, sem varð á bifreiðinni G 5802 í umferðarslysinu 25. ágúst 1995. Í lögregluskýrslu, sem var gerð samdægurs vegna slyssins, var eigandi bifreiðarinnar sagður vera áfrýjandinn Hildur. Það sama er staðhæft í héraðsdómsstefnu. Í málatilbúnaði áfrýjenda er engin viðhlítandi skýring á því af hvaða sökum áfrýjandinn Gunnar geti átt aðild að máli um bótakröfu á þessum grunni. Er málið að þessu leyti svo vanreifað að óhjákvæmilegt er að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi að því er þennan áfrýjanda varðar.
III.
Í aðilaskýrslu stefnda Guðlaugs fyrir héraðsdómi kom meðal annars fram að Ysti-Skáli II sé norðan við þjóðveginn, þar sem umferðarslysið varð. Tveimur dögum fyrir slysið hafi hann verið að setja sauðfé upp á bifreið í fjárrétt sunnan þjóðvegarins, um þremur kílómetrum frá umræddu býli hans. Að því gerðu hafi átt að taka hrútinn, sem áður er getið, en hann sloppið frá stefnda og stokkið yfir réttarvegginn. Þaðan hafi hrúturinn haldið til vesturs inn á afgirt tún, sem heyri til annarrar jarðar. Kvaðst stefndi hafa ákveðið, svo sem alsiða væri, að láta hrútinn óáreittan á túninu fremur en að ráðast þangað „með hunda og læti“ og flæma þannig burt annað fé. Hafi hann ráðgert að bóndinn á þeirri jörð mundi á síðari stigum smala af túninu, reka hrútinn aftur í réttina og gera stefnda aðvart um það.
Óumdeilt er að vegurinn, þar sem umferðarslysið varð, hafi verið girtur af báðum megin. Samkvæmt 56. gr. vegalaga nr. 45/1994 var lausaganga búfjár því bönnuð á vegsvæðinu. Af því verður á hinn bóginn ekki leitt að stefndi Guðlaugur geti án sakar borið ábyrgð á tjóni áfrýjandans Hildar. Í áðurnefndri lögregluskýrslu frá 25. ágúst 1995 var þess getið að girðingin við vegarstæðið hafi verið „heilleg að sjá.“ Fyrir dómi svaraði stefndi Guðlaugur spurningu um girðinguna utan um túnið, þar sem hann skildi við hrútinn, á þann veg að „hún var í lagi örugglega, ekki veit ég annað.“ Í málinu liggja engar frekari upplýsingar fyrir um ástand þessara girðinga á þeim tíma, sem hér um ræðir, hlið á vegum eða staðhætti að öðru leyti. Áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á að meta megi stefnda Guðlaugi af öðrum ástæðum til gáleysis að hafa skilið við hrútinn á þeim stað, sem raun varð á, og gæta ekki frekar að honum fram að slysinu. Samkvæmt þessu verður að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu stefnda Guðlaugs af kröfu áfrýjandans Hildar.
IV.
Vegna framangreindrar niðurstöðu um kröfu áfrýjandans Hildar á hendur stefnda Guðlaugi þarf ekki að taka afstöðu til röksemda áfrýjandans fyrir kröfu hennar á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., sem lúta að ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.
Samkvæmt 5. mgr. 5. gr. áðurnefndra samþykkta fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, sbr. auglýsingu nr. 336/1996, eru úrskurðir nefndarinnar ekki bindandi fyrir neytendur, sem geta ávallt borið mál undir dómstóla þótt þau hafi verið lögð fyrir hana. Í 6. mgr. sömu greinar er á hinn bóginn mælt svo fyrir að úrskurður sé bindandi fyrir hlutaðeigandi vátryggingafélag nema það „tilkynni neytandanum og nefndinni sannanlega innan tveggja vikna frá því að það fékk úrskurð í hendur, að það muni ekki hlíta honum.“
Áfrýjandinn Hildur hefur eindregið mótmælt því að hafa fengið það afrit af áðurnefndu bréfi stefnda vátryggingafélagsins frá 14. október 1999, sem það kveðst hafa sent henni. Hafi henni fyrst orðið kunnugt um afstöðu félagsins til niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum um bótakröfuna með svarbréfi félagsins 12. nóvember 1999 við bréfi lögmanns hennar 9. sama mánaðar, þar sem óskað var eftir greiðslu til samræmis við úrskurð nefndarinnar. Félagið hefur haldið fram í málinu að umrætt afrit bréfs hafi verið sent áfrýjandanum í almennum pósti samhliða því að frumritið var sent úrskurðarnefndinni. Sá háttur á sendingu afrits bréfsins var ekki í samræmi við ótvírætt ákvæði fyrrnefndrar 6. mgr. 5. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, en sérreglan í þessu ákvæði um að vátryggingafélag sendi tilkynningu sína sannanlega gengur framar almennri reglu 1. mgr. 33. gr. laga nr. 20/1954, sem hið stefnda félag hefur vísað til í málatilbúnaði sínum. Með því að ósannað er að áfrýjandanum hafi borist afrit bréfsins varð félagið bundið af niðurstöðu nefndarinnar samkvæmt tilvitnuðu ákvæði samþykkta fyrir hana.
Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjandans Hildar er fjárhæð kröfu hennar fundin þannig að varahlutir hafi verið keyptir til að gera við bifreiðina G 5802 fyrir samtals 111.295 krónur, auk þess sem unnið hafi verið við réttingar á bifreiðinni fyrir 77.000 krónur og málningu hennar fyrir 61.119 krónur, en á tvo síðastnefndu liðina leggist virðisaukaskattur, alls 33.839 krónur, þannig að í heild verði krafan 283.253 krónur. Um kaupverð varahluta hefur áfrýjandinn lagt fram lista dagsettan 14. október 1999, þar sem hlutirnir eru taldir upp í sextán liðum og verð greint við hvern þeirra. Lista þennan kveðst áfrýjandinn hafa fengið frá innflytjanda bifreiða af gerðinni Toyota. Um aðra áðurnefnda kröfuliði hefur áfrýjandinn lagt fram yfirlit, þar sem kostnaði af málningu er skipt milli klefagjalds og vinnu við vélarhlíf, tvö frambretti og framstykki, en kostnaður af réttingum rakinn til vinnu í 35 klukkustundir, sem hver kosti 2.200 krónur. Ekki hafa verið lagðir fram reikningar um einstaka liði eða önnur gögn um þá en hér hefur verið getið.
Hið stefnda vátryggingafélag hefur mótmælt öllum liðum í kröfu áfrýjandans Hildar sem ósönnuðum. Eins og áfrýjandinn hefur rökstutt einstaka liði samkvæmt framansögðu er kröfugerð hennar að þessu gættu svo vanreifuð að ófært er að leggja efnisdóm á málið að þessu leyti. Verður kröfu áfrýjandans á hendur félaginu því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Rétt er að allir aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Kröfu áfrýjanda, Gunnars David Jones, á hendur stefndu, Guðlaugi S. Einarssyni og Vátryggingafélagi Íslands hf., er vísað frá héraðsdómi.
Stefndi Guðlaugur er sýkn af kröfu áfrýjanda, Hildar Eysteinsdóttur.
Kröfu áfrýjanda Hildar á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2000.
I
Mál þetta, sem sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 13. september sl., er höfðað með stefnu, sem árituð er um birtingu, en áritunin er ódagsett. Málið var þingfest 21. mars sl.
Stefnendur eru Gunnar David Jones, kt. 100246-4069 og Hildur Eysteinsdóttir, kt. 110158-4679, bæði til heimilis að Álfholti 10, Hafnarfirði.
Stefndu eru Guðlaugur S. Einarsson, kt. 200164-2619, Ysta Skála II, Vestur-Eyjafjallahreppi og Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnendur krefjast þess að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða þeim skaðabætur að fjárhæð 283.253 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. desember 1999 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndu krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara krefst stefndi, Guðlaugur, þess að bætur verði lækkaðar og honum dæmdur málskostnaður.
II
Málavextir eru þeir að föstudagskvöldið 25. ágúst 1995 ók stefnandi, Gunnar, bifreið stefnanda, Hildar, austur Suðurlandsveg. Þegar bifreiðin var stödd skammt vestan við bæinn Efstu-Grund í VesturEyjafjallahreppi stökk skyndilega svartur hrútur fyrir bifreiðina frá hægri. Stefnanda tókst ekki að forða árekstri og lenti hrúturinn á bifreiðinni og drapst. Allnokkrar skemmdir urðu á bifreiðinni og var hún óökufær eftir óhappið.
Lögregla var kölluð til og gerði hún skýrslu um málið þar sem fram kemur að í umrætt sinn var myrkur en aksturskilyrði að öðru leyti góð, veður var skýjað, yfirborð vegar olíuborið og slétt. Samkvæmt skýrslunni var haft samband við eiganda hrútsins, stefnda Guðlaug, og kom hann á staðinn. Lögreglan hefur eftir stefnda að hrúturinn hafi sloppið úr rétt tveimur dögum áður og farið út á tún og verið þar eftir því sem hann best vissi. Þá segir í skýrslu lögreglunnar að við árekstursstaðinn sé girðing beggja megin við veginn og sé hún heilleg að sjá.
Stefndi, Guðlaugur, hefur ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., og leituðu stefnendur til stefnda, Vátryggingafélagsins, og spurðust fyrir um það hvort það teldi sig ábyrgt fyrir tjóni þeirra. Stefndi hafnaði ábyrgð og var þeirri ákvörðun skotið til tjónanefndar vátryggingafélaganna, sem komst að þeirri niðurstöðu að félaginu bæri að bæta stefnendum allt tjón þeirra. Stefndi skaut þessari niðurstöðu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem staðfesti úrskurð tjónanefndarinnar. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., undi ekki þessum úrskurði og höfðuðu því stefnendur mál þetta með kröfu um bætur.
III
Krafa stefnenda á hendur stefndu byggist í fyrsta lagi á því að stefndi, Guðlaugur, hafi valdið þeim tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og beri því að bæta það að fullu. Hann hafi látið hrútinn ganga lausan við þjóðveginn þar sem lausaganga búfjár sé með öllu bönnuð og hafi hann með því brotið gegn skýru ákvæði 56. gr. vegalaga nr. 45/1994. Hrúturinn hafi sloppið úr rétt tveimur dögum fyrir slysið og hafi stefnda verið kunnugt um að hann gengi laus á þessu svæði án þess að hann gerði ráðstafanir til að koma honum aftur í helda girðingu. Þetta hirðuleysi stefnda verði að meta honum til saka. Stefndi, Guðlaugur, var ábyrgðartryggður hjá meðstefnda fyrir tjóni af völdum bústofns hans og beina stefnendur af þeim sökum kröfum sínum að meðstefnda með vísan til 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga.
Stefnendur byggja kröfugerð sína á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., einnig sjálfstætt á ákvæðum samþykkta fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, sem staðfest hafi verið af ráðherra 24. maí 1996. Í 6. mgr. 5. gr. samþykktanna segi að úrskurður nefndarinnar sé bindandi fyrir hlutaðeigandi vátryggingafélag nema það tilkynni neytandanum og nefndinni sannanlega innan tveggja vikna frá því að það fékk úrskurð í hendur að það muni ekki hlíta honum. Stefnendum hafi ekki borist slíkt bréf en þar sem stefndi synji þeim enn um bætur hafi lögmaður þeirra ritað bréf til félagsins 17. nóvember 1999 þar sem hann hafi óskað eftir upplýsingum um það hvort og þá með hvaða hætti tilkynning félagsins um höfnun úrskurðarins hefði verið afhent stefnendum. Svör við þessari fyrirspurn hafi ekki borist en þess í stað hafi verið sent afrit af bréfi til nefndarinnar sem stefndi fullyrðir að hafi verið sent stefnendum. Þessari fullyrðingu hafna þeir sem rangri og benda á að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir henni. Þar sem félagið hafi ekki tilkynnt stefnendum um þessa afstöðu sína innan tilskilins frests sé stefndi með lögformlegum hætti bundinn við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.
Stefnendur kveða að vegna synjunar stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., um greiðslu bóta hafi þeir sjálfir orðið að láta annast viðgerð bifreiðarinnar. Keyptir hafi verið varahlutir fyrir 111.295 krónur, málningarvinna hafi kostað 61.119 krónur og réttingarvinna 77.000 krónur. Með virðisaukaskatti hafi því heildarkostnaðurinn við viðgerð bifreiðarinnar verið 283.253 krónur, sem sé stefnufjárhæðin. Stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., hafi verið sent kröfubréf 9. nóvember 1999 og í samræmi við það sé dráttarvaxta krafist frá 9. desember sama ár.
IV
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., byggir sýknukröfu sína á því að meðstefndi hafi keypt hjá sér frjálsa ábyrgðartryggingu en sá vátryggingasamningur veiti stefnendum ekki beinan aðgang að stefnda. Það beri því að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 95. gr. laga um vátryggingasamninga. Stefndi heldur því fram að krafan um að dæma stefndu óskipt til að greiða stefnendum skaðabætur sé því röng.
Þá byggir stefndi á því að 14. október 1999 hafi stefndi póstlagt til stefnanda bréf þar sem fram komi að stefndi muni ekki una úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum frá 8. október sama ár. Stefndi heldur því fram að stefnendur geti ekki byggt kröfur sínar á því að félagið hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt 6. mgr. 5. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Stefnendur beri sönnunarbyrðina fyrir því að þeim hafi ekki borist tilkynning stefnda eins og þau halda fram.
Stefndi, Guðlaugur, heldur því fram að um bótaábyrgð sína fari eftir sakarreglunni og almennum reglum skaðabótaréttarins. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ósannað sé með öllu að hann beri sakarábyrgð á tjóni stefnenda. Hins vegar beri stefnendur sjálf ábyrgð á tjóninu vegna eigin sakar ökumanns bifreiðarinnar. Þá beri stefnandinn, Hildur, sem eigandi bifreiðarinnar, hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnda vegna dauða hrútsins, sbr. 88. og 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Geti stefnendur því aldrei átt víðtækari bótarétt en sem svari eigin sök stefnda á tjóni sínu, ef um einhverja sök væri að ræða. Það sé skilyrði fyrir bótaábyrgð stefnda að hann hafi gerst sekur um saknæma vanrækslu, er leitt hafi til þess að hrúturinn slapp úr hólfinu. Að því hafi stefnendur engar líkur leitt. Í málinu sé ekkert fram komið um að viðkomandi vegasvæði falli undir 56. gr. vegalaga. Verið gæti að þarna hefði einungis verið girðing á tiltölulega stuttum kafla en stefnendur bera sönnunarbyrði fyrir því að lausaganga búfjár hafi í reynd verið bönnuð vegna ákvæða nefndrar greinar vegalaganna.
Stefnendur virðist byggja á að líkur bendi til að annmarkar hafi verið á girðingunni, sem liggi með fram Suðurlandsvegi. Þessir annmarkar hafi valdið því að hrúturinn slapp úr vörslu í umrætt sinn. Einu upplýsingarnar um ástand girðingarinnar, séu úr lögregluskýrslu þar sem segi að þarna sé girðing beggja vegna vegar og sé hún heilleg að sjá. Vísbendingarnar séu því í þá átt að stefndi hafi ekki vanrækt að halda girðingu umhverfis tún sitt í lagi.
V
Stefndi, Guðlaugur, býr á jörðinni Ysta-Skála í Vestur-Eyjafjallahreppi. Svo hagar til að Suðurlandsvegur, þjóðvegur nr. 1, liggur um land jarðarinnar og klífur það. Við vettvangsgöngu og skýrslutökur var leitt í ljós, að tveimur dögum áður en stefnandi, Gunnar, ók á hrútinn hafði fé verið rekið saman í rétt, sem er fyrir neðan þjóðveginn en ekki í landi stefnda. Hrúturinn svarti var þar á meðal og er stefndi hugðist handsama hann í réttinni, stökk hann yfir réttarvegginn og út á girt tún. Stefndi gerði engan reka að því að handsama hrútinn, enda hann styggur og kvað stefndi það ekki venjulegt að atast að nauðsynjalausu í fé í tilfellum sem þessum, heldur væri þess beðið að rekið væri saman næst. Er ekki annað fram komið en þetta hafi verið eiganda túnsins að meinalausu.
Við vettvangsgöngu kom í ljós að árekstursstaðurinn er allnokkurn spöl frá réttinni og taldi stefndi hann vera um einn og hálfan kílómetra. Þarna koma saman tveir skurðir, sem eru vel grónir, og var ekki annað að sjá en að girðingar væru heillegar og kemur það saman við lýsingu í lögregluskýrslu, er gerð var um áreksturinn. Þarna er á löngum kafla með fram þjóðveginum girt báðum megin.
Samkvæmt 56. gr. vegalaga nr. 45/1994 er lausaganga búfjár bönnuð þar sem svo hagar til eins og hér var lýst. Engin gögn hafa hins vegar verið lögð fyrir dóminn um að hreppsnefnd Vestur-Eyjafjallahrepps hafi ákveðið að búfé í hreppnum skuli vera í vörslu, allt árið eða tiltekinn hluta þess, sbr. 5. gr. laga nr. 46/1991 um búfjárhald, forðagæslu o.fl.
Af framangreindu ákvæði vegalega leiðir að búfjáreigendum er óheimilt að beita skepnum sínum í vegkanta og í lok þess er Vegagerðinni heimilað að fjarlægja búfé af lokuðum vegsvæðum á kostnað eigenda. Í þessu máli hefur hins vegar verið leitt í ljós að hrútur stefnda slapp frá honum inn á afgirt tún og var kominn tveimur dögum síðar inn á lokað vegsvæði þar sem hann varð fyrir bifreið stefnanda, Hildar. Það var því ekki á nokkurn hátt fyrir tilverknað stefnda að hrúturinn var við veginn og verður honum því ekki gefið að sök að hrúturinn komst þangað, enda hvíla engar skyldur á honum, lögum samkvæmt, að hafa fé sitt í vörslu á þessum árstíma. Það er því niðurstaða dómsins að stefndi, Guðlaugur, eigi enga sök á því að hrúturinn varð fyrir bifreið stefnanda og ber því að sýkna hann af öllum kröfum stefnenda í málinu.
Stefnendur byggja kröfur sínar á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. sjálfstætt á samþykktum fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum frá 24. maí 1996, nr. 336 í B deild stjórnartíðinda 1996. Nefndin kvað upp úrskurð í máli þessu 8. október 1999 og var það niðurstaða hennar að tjón stefnenda skyldi bætt úr ábyrgðartryggingu stefnda, Guðlaugs. Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. samþykktanna er úrskurður nefndarinnar bindandi fyrir hlutaðeigandi vátryggingafélag nema það tilkynni neytandanum og nefndinni sannanlega innan tveggja vikna frá því að það fékk úrskurð í hendur, að það muni ekki hlíta honum.
Meðal gagna málsins er bréf frá stefnda til nefndarinnar dagsett 14. október 1999 þar sem hann tilkynnir henni að hann uni ekki úrskurðinum. Samkvæmt áritun á bréfið var afrit þess sent stefnendum. Stefnendur kveðast ekki hafa fengið þetta bréf og fyrst verið upplýstir um afstöðu stefnda með bréfi hans til lögmanns þeirra 12. nóvember 1999.
Stefndi hefur upplýst að bréfið til stefnenda hafi verið sent í almennum pósti og starfsmaðurinn, sem sendi það, hefur borið að hafa sett það í póstbakka, þar sem voru önnur bréf, er send voru út á vegum stefnda. Þá bar hann og að bréfið hafi ekki verið endursent stefnda sem óskilapóstur. Samkvæmt gögnum málsins er heimilisfang stefnenda hið sama nú og þegar áreksturinn varð og við munnlegan flutning málsins var upplýst að þau hafi ekki búið annars staðar í millitíðinni. Þau hafi spurst fyrir um bréfið í húsinu en enginn kannast við það.
Ekki er annað fram komið í málinu en að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi borist bréf stefnda. Það eru því yfirgnæfandi líkur fyrir því að stefnendum hafi verið sent afrit bréfsins um leið og þeim hafi borist það þótt þeir vilji ekki við það kannast. Á það er að líta að stefndi kveður bréfið ekki hafa verið endursent sér og ekkert liggur fyrir í málinu um að óreiða hafi verið á útburði pósts til stefnenda eða í hverfi þeirra um þetta leyti. Það er því niðurstaða dómsins að telja stefnda sannanlega hafa tilkynnt stefnendum, innan tilskilins frests, að hann yndi ekki niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og verður stefndi því einnig sýknaður af kröfum stefnenda.
Málskostnaður skal falla niður.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndu, Guðlaugur S. Einarsson og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknaðir af kröfum stefnenda, Gunnars David Jones og Hildar Eysteinsdóttur. Málskostnaður fellur niður.