Hæstiréttur íslands
Mál nr. 383/2000
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 22. febrúar 2001. |
|
Nr. 383/2000. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Þórði Braga Jónssyni (Ólafur Birgir Árnason hrl.) |
Ómerking. Heimvísun.
Þ var ákærður fyrir manndráp með því að hafa skotið þremur riffilskotum í höfuð föður síns með þeim afleiðingum að hann lést. Bar Þ fyrir dómi að fyrsta skotið hefði hlaupið af fyrir slysni er faðir hans greip í hlaup riffils, sem Þ sagðist hafa ætlað að nota til að taka sitt eigið líf. Þ kvaðst hins vegar enga skýringu geta gefið á síðustu tveimur skotunum aðra en sturlun. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekkert hefði komið fram í málinu, sem útilokaði að framburður Þ gæti verið réttur í öllum meginatriðum og sýknaði hann af broti gegn 211. gr. almennra hegningarlaga, en sakfelldi hann fyrir að hafa sýnt gáleysi við meðferð skotvopnsins, sem leiddi föður hans til dauða. Var hann dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hæstiréttur taldi frásögn Þ tortryggilega auk þess sem athuganir reyndra lögreglumanna gæfu tilefni til að efast um sannleiksgildi frásagnarinnar. Málið hefði því legið þannig fyrir héraðsdómi að rökstuddur grunur var fyrir hendi um að Þ hefði unnið verk sem varðaði við 211. gr. almennra hegningarlaga. Þótti á það hafa skort við meðferð málsins að litið væri til annarra fyrirliggjandi atriða en frásagnar Þ. Fyrir hendi hefðu verið aðstæður sem gáfu héraðsdómi tilefni til að hlutast til um frekari gagnaöflun. Að þessu athuguðu þótti verða að ómerkja héraðsdóminn og vísa málinu heim í hérað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. október 2000. Krefst hann þess aðallega að ákærði verði sakfelldur að fullu samkvæmt ákæru og honum ákvörðuð refsing í samræmi við það, en til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dómsálagningar að nýju.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
I.
Fyrir Hæstarétt hefur ríkissaksóknari lagt bréf læknaráðs 12. desember 2000. Í bréfinu svarar læknaráð sex spurningum sem ríkissaksóknari lagði fyrir það með bréfi 7. nóvember 2000, sem einnig hefur verið lagt fram fyrir Hæstarétti. Í svarbréfinu kemur fram sú niðurstaða læknaráðs að ljóst sé að fyrsta skotið, sem hleypt var af, hafi valdið andláti hins látna nær samstundis og að vefjaskaði þeirra sem eftir fylgdu hafi því verið hlutfallslega mun minni. Læknaráð telur á hinn bóginn að ekki verði ráðið hvert hinna þriggja skota hafi riðið af fyrst, þótt nokkrar líkur séu fyrir því að það hafi verið skot sem hæfði hinn látna yfir vinstra hákinnbeini. Að þeirri forsendu gefinni að fyrsta skotið, sem hljóp í höfuð hins látna, hafi verið voðaskot, fellst læknaráð á að ákærði hafi verið ófær um að ráða gerðum sínum þegar hann skaut hinum síðari tveimur skotum í hinn látna. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir sagði aðspurður fyrir dómi að hann teldi mögulegt að ákærði hefði verið ófær að ráða gerðum sínum á þessari stundu. Af spurningu ríkissaksóknara til læknaráðs mátti hins vegar ráða að geðlæknirinn hefði í svari sínu fullyrt að svo hefði verið.
II.
Ákærða er gefið að sök manndráp samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa skotið þremur riffilskotum í höfuð föður síns, Jóns Frímanns Jónssonar, aðfaranótt 18. mars 2000 á heimili þeirra að Bláhvammi í Reykjahreppi í Þingeyjarsýslu. Er upphaf máls þessa það að ákærði hringdi í lögregluna á Húsavík kl. 08.10 að morgni laugardagsins 18. mars 2000 og tilkynnti um lát föður síns. Fóru lögreglumenn og læknir á staðinn. Í frumskýrslu Aðalsteins Júlíussonar varðstjóra, sem fyrstur kom að hinum látna, segir að hann hafi verið í svefnherbergi í suðausturhluta hússins. Greinilegt hafi verið að ekkert lífsmark var með honum og svo hafi virst sem hann hefði svipt sig lífi. Segir í skýrslunni að hinn látni hafi legið á baki í tvíbreiðu rúmi, undir sæng sem hafi verið til hálfs yfir honum og á bringu hans hafi legið 22 cal. riffill. Við frumathugun á rifflinum hafi virst sem hleypt hefði verið úr honum skoti og í honum verið eitt tómt skothylki. Í skýrslunni er nánar greint frá skoðun lögreglumannsins og læknis á líkinu og lýst inngangsopi riffilkúlu á enni, milli augna hins látna, og hafi ummerki verið með þeim hætti að hann hefði haldið hlaupi riffilsins þétt að enni er hann hefði hleypt skotinu af. Mikil blóðfylla hafi verið í augum hans, augnlok verið lokuð en blásvört og þrútin, svo og allur efri hluti andlits. Blóð hafði komið frá vitum hins látna og augum og hafi mikið blóð og blóðlifrar verið við höfðalag og efri hluta rúms og rúmdýnu. Blætt hafi einnig úr eyrum hans. Læknirinn áætlaði á staðnum að um það bil þrír til fjórir tímar væru liðnir frá andláti. Þá segir svo í skýrslu lögregluvarðstjórans:
„Hinn látni var íklæddur hlýrabol og nærbuxum og var sæng yfir hinum látna frá mitti og niður úr. Á báðum höndum hins látna var blóð og blóðlituð fingraför á hlýrabol yfir bringu. Báðar hendur lágu á bringu hins látna, en tveir fingur hinnar hægri voru krepptir um framskefti riffilisins. Hinn látni bar hring á hægri baugfingri. Blóð var á vinstri upphandlegg hins látna. Blóð hafði slettst á höfðagafl rúmsins og upp á vegg, til vinstri frá líki hins látna og yfir lampa sem hékk á veggnum. Við þessa skoðun virtist sem hinn látni hefði ekki látist samstundis, eða í það minnsta hefðu handar og höfuðhreyfingar hins látna verið nokkrar eftir að hann hefði hleypt skoti úr rifflinum, þar sem blóð hafði komið á vinstri upphandlegg trúlega með þeim hætti að hinn látni hefði strokið upphandlegg eftir kinn og eyrnasvæði vinstra megin og mátti því til marks sjá blóðlituð för á kinn, eins og eftir strok sem samrýmdust blóðstrokum á upphandlegg. Einnig voru blóðslettur á vegg, sem gætu hafa samrýmst því að höfuð hins látna hafi kastast til hliðar, ef til vill þegar skotið hljóp úr rifflinum, en ef til vill eftir á.“
Í skýrslunni segir og að vitað hafi verið að ákærði hafi komið heim að Bláhvammi af dansleik í Ýdölum, sem lokið hafi um kl.04.00 undangengna nótt. Var haft eftir honum að hann hafi farið að sofa þegar hann kom heim, en hafi vaknað kl. 08.00 við hringingu í vekjaraklukku í herbergi föður síns. Þar sem hún hefði hringt látlaust hefði hann farið þangað inn til að líta eftir föður sínum og slökkva á klukkunni, en þá hefði hann komið að honum látnum. Að sögn hans hefði hann ef til vill hrist föður sinn eitthvað til en síðan komist fram og hringt eftir hjálp.
Ljósmyndir voru teknar á vettvangi, meðal annars af hinum látna, eins og hann lá, er að var komið. Var lík hans síðan flutt á brott. Jafnframt tóku lögreglumenn allt á brott, sem var smitað blóði og förguðu því. Var vettvangur þrifinn og gengið þannig frá að ekki væri neins staðar sjáanlegt blóð.
Eins og fram kemur í héraðsdómi tók mál þetta nýja stefnu, er Þorgeir Þorgeirsson yfirlæknir við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hafði samband við lögreglu hinn 21. mars 2000 og skýrði frá því, að við upphaf krufningar á líki Jóns Frímanns Jónssonar þann dag hafi komið í ljós þrjú skotsár en ekki eitt, eins og áður hafði verið gengið út frá. Var ákærði handtekinn þennan sama dag og yfirheyrður af lögreglunni á Húsavík. Skýrði hann svo frá að hann hefði ætlað að stytta sér aldur. Hefði hann sest við rúm föður síns með riffilinn og snúið baki að honum, en faðir hans hefði skyndilega gripið í riffilhlaupið með þeim afleiðingum að skot hljóp úr rifflinum í höfuð hans. Var hann viss um að hann hefði látist þá þegar. Kvaðst hann hafa orðið þess var, er hann hugði að honum, að auga hans hafði bólgnað. Hann hefði síðan staðið upp og skotið tveimur skotum í viðbót í höfuð föður síns. Hefði hann haldið á rifflinum í hefðbundinni skotstöðu. Kvaðst hann vita að skotin hefðu hæft í ennisstað þótt hann hefði litið undan í bæði skiptin. Við síðari yfirheyrslu kom fram hjá ákærða að verið gæti að faðir hans hefði ekki vaknað og skotið hlaupið í höfuð hans er ákærði hefði hrasað eða rekið riffilinn í vegg. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins í héraði hélt ákærði í megindráttum við þann framburð, er hann gaf í upphafi. Er í héraðsdómi nánar greint frá honum. Þar kemur meðal annars fram viðurkenning hans á því að hann hafi ákveðið að láta þetta líta út sem sjálfsvíg. Hafi hann lagt riffilinn ofan á föður sinn og lagt hægri hönd hans á riffilinn. Jafnframt hafi hann fargað tveimur skothylkjum af þeim þremur skotum, sem hann notaði.
III.
Af gögnum málsins verður ráðið að ákærði hafi komið heim til sín að Bláhvammi um kl. 03.30 aðfaranótt 18. mars 2000 af fyrrnefndum dansleik. Samkvæmt upplýsingum frá Landssímanum hófst símtal ákærða við fyrrverandi unnustu sína úr síma að Bláhvammi kl. 03.34.45. Fyrir liggur einnig að símtali föður hans við Kolbrúnu Jennýju Sigurjónsdóttur úr sama síma lauk kl. 03.11, eða 23 mínútum áður. Samkvæmt vætti hennar var Jón Frímann þá ekki genginn til náða. Kvað hún hann og alltaf hafa verið hræddan um ákærða, þegar hann var á dansleikjum. Er því ekki ósennilegt að Jón Frímann hafi verið vakandi þegar ákærði kom heim u.þ.b. 20 mínútum eftir að framangreindu símtali hins fyrrnefnda lauk.
Ákærði segir að ekkert ljós hafi verið í herbergi föður síns, þegar umræddir atburðir gerðust. Það hafi hins vegar verið tunglbjart. Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands um veður í nágrenninu, eða á Staðarhóli kl. 09.00 að morgni 18. mars 2000, höfðu verið þar skúrir og él á síðustu þremur klukkustundum, en vindátt var úr suð-suðvestri. Ekkert liggur hins vegar fyrir óyggjandi um það hvort snjór var yfir.
IV.
Fram kom við aðalmeðferð málsins í héraði að það var samdóma álit þeirra lögreglumanna, sem stóðu að rannsókn þess, að frásögn ákærða af ætluðu slysaskoti gæti tæpast staðist með tilliti til aðstæðna og verksummerkja á vettvangi. Í fyrsta lagi telja þeir að lýsingar ákærða á stöðu sinni við hlið rúms föður síns geti illa samræmst lengd riffilsins og/eða því hvernig skot lentu í höfði hans. Í öðru lagi benda þeir á að blóð í rúminu og á höfðagafli og vegg bendi eindregið til þess að maðurinn hafi legið á kodda fremur en að hann hafi verið að reisa sig við, eins og líklegt sé að hann hefði gert ef hann hefði vaknað og gripið í riffilinn hjá ákærða. Í þriðja lagi er bent á að svo virðist sem skotið hafi verið úr rifflinum í öll þrjú skiptin úr lítilli fjarlægð.
Í málinu liggur fyrir skýrsla um athuganir og niðurstöður Bjarna J. Bogasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns á tæknirannsóknastofu ríkislögreglustjóra. Gerir hann þar meðal annars grein fyrir athugun á umræddum riffli og átaksprófun, sem hann gerði á gikk hans. Var niðurstaða prófunarinnar sú, að 1305 gramma átak þurfi til að skot hlaupi úr vopninu. Spenntur riffillinn var látinn falla fimm sinnum lóðrétt niður á skefti úr 30 cm hæð á steingólf með línolíumdúk og hljóp aldrei skot úr rifflinum. Slegið var með „trékjullu“ á hlið gikkbjargar nokkrum sinnum og hljóp aldrei skot úr rifflinum. Niðurstaða þessarar prófunar leiddi í ljós að gikkurinn var ekki hvikur og að stöðugt, eðlilegt átak, um 1,3 kg., þurfi til þess að hleypa af.
Þá er í skýrslunni gerð ítarleg grein fyrir fjarlægðaprófunum, sem fram fóru með því að skjóta úr umræddum riffli skotum, sem voru haldlögð á vettvangi, og munu hafa verið í kassa þeim, sem ákærði tók umrædd þrjú skot úr. Er það niðurstaða lögreglumannsins að yfirgnæfandi líkur séu á því að fjarlægð frá hlaupenda riffils að höfði Jóns Frímanns Jónssonar hafi verið um 5 cm. Hann taldi ólíklegt að um snertiskot hafi verið að ræða svo og að fjarlægð hefði verið 10 cm eða meira.
Að lokum gerir skýrsluhöfundur grein fyrir athugunum á ferli skota í höfði Jóns Frímanns með stuðningi röntgenmynda af höfði hans. Er það álit hans að innskotsop á vinstra kinnbeini og útskotsop á hvirfli séu eftir sama skotið. Skotáverkar á enni séu ekki með sama áfallshorni á höfuð, en innbyrðis sé áfallshorn þeirra svipað.
Fyrir dómi skýrði Bjarni J. Bogason svo frá að hann hefði starfað í tæknideild rannsóknarlögreglu ríkisins frá 1981 og hefði hann unnið við nokkur mál af þessu tagi. Jafnframt væri hann félagi í erlendum sérfræðisamtökum, er fást við byssu- og skotfærarannsóknir og hafi hann nýtt sér þau sambönd við rannsókn sína í þessu máli. Hann hefði verið viðstaddur krufningu á líki Jóns Frímanns Jónssonar og hlutast til um að höfuð hans var röntgenmyndað. Hann kvaðst hafa kynnt sér þær myndir sem lögregla tók af vettvangi og hafi hann reynt að framkalla blóðferla á höfðagafli rúmsins, á veggjum og á lampa, en myndirnar hafi ekki verið af þeim gæðum að það nýttist til að fullyrða um það nákvæmlega hvernig ferlarnir voru. Hafi hann ekki getað séð þessa blóðferla með óyggjandi hætti þegar hann var búinn að stækka upp myndirnar. Þegar hann hafi komið til að rannsaka vettvang hafi verið búið að þrífa hann. Hann sagði hins vegar að hafi verið blóðslettur á miðjum höfðagafli, sem hafi komið frá útskotsopi, þá fyndist sér langlíklegast að höfuðið hafi verið á koddanum þegar skotið var. Verður ráðið af framburði hans að meiri blóðspýtingur hefði komið á vegginn en sýnilegt var, ef hinn látni hefði reist sig upp frá kodda. Hann tók fram að hann gæti ekki lagt mat á blóðferla, sem hann hafi ekki séð, en hann kvaðst hafa kynnt sér svolítið rannsóknir á blóðslettum og sótt námskeið þetta varðandi hjá lögregluháskóla í Stokkhólmi og miði hann álit sitt við þekkingu sína þaðan.
Vitnið Aðalsteinn Júlíusson sagði fyrir dómi aðspurður um blóðferla er hann sá við komu á vettvang, að sér fyndist afar ólíklegt að hinn látni hafi verið í annarri stöðu en liggjandi á kodda, þegar skot fór í hann. Hann sagði að hann hefði helst tekið eftir blóði á höfðagafli og upp á vegginn í átt að lampa. Litlar blóðslettur eða blettir hefðu verið ofar. Vitnið taldi það og ekki ganga upp að ákærði hefði setið eða kropið með riffilinn þegar skotið hljóp af miðað við rannsóknir lögreglunnar varðandi fjarlægð riffilhlaups frá andliti hins látna og það hvar kúlan kom út úr höfði hans.
Vitnið Bjarni Höskuldsson lýsti verksummerkjum þannig að blóðslóð hefði byrjað á miðjum höfðagafli og taldi líklegt að höfuð hins látna hefði verið neðarlega þegar skot kom út úr því að aftan. Miðað við skýringar ákærða um að hann hefði hugsanlega kropið við rúmið, hefði faðir hans þurft að reisa sig mjög mikið upp í rúminu til þess að ferillinn á því skoti, sem fór inn neðan við auga, samrýmist því. Blóðferlar á vettvangi hafi og ekki samrýmst því að hann hefði reist sig mikið upp í rúminu.
Sigurður Brynjúlfsson yfirlögregluþjónn á Húsavík vann að rannsókn máls þessa, en kom ekki á vettvang í upphafi. Hann stjórnaði sviðsetningu, er ákærði sýndi á vettvangi hvernig hann héldi að staðsetning sín hefði verið er ætlað slysaskot hljóp af. Taldi hann fyrir dómi nánast óhugsandi að ákærði hafi setið og komið rifflinum fyrir eins og hann lýsti í upphafi, en það gæti frekar verið ef hann hefði kropið. Það vanti hins vegar heildstæða mynd í frásögn hans. Hann opni á ýmsa möguleika án þess að geta staðfest nokkurn þeirra. Þá taldi hann það nánast útilokað að kúlan hafi farið þá leið sem raun varð á miðað við að ákærði hafi setið eða kropið með riffilinn í þeirri skotstöðu að hann hafi ætlað að taka sitt eigið líf. Blóðferillinn á höfðagafli og veggnum passi mun betur við það að faðir hans hafi legið út af þegar þetta fyrsta skot, sem talið sé að hafi farið í gegnum vinstra kinnbein og út um hvirfil, hljóp af.
V.
Í héraðsdómi er greint frá skýrslu Brynjólfs Ingvarssonar geðlæknis um geðrannsókn á ákærða og skýrslu Kristjáns M. Magnússonar sálfræðings um sálfræðiathugun í tengslum við hana. Í skýrslu sinni setur geðlæknirinn fram ályktanir og skýringartilgátur. Útilokar hann þar meðal annars þann möguleika að ákærði „hafi gengið hreint til verks og banað föður sínum vísvitandi, yfirvegaður og „með köldu blóði“ “. Vanti einnig allar ástæður (mótíf), þar sem ekkert haldbært hafi komið fram um ósætti milli feðganna. Í framhaldi þessa segir læknirinn að samkvæmt kenningum um alvarlegustu áfallakreppur sé fræðileg skýring fengin á atburðarásinni, „þ.e. ef sú tilgáta reynist rétt að hann hafi setið á rúmstokknum framan við föður sinn þegar fyrsta skotið reið af.“ Er þetta tilgáta, sem geðlæknirinn sjálfur hefur sett fram, en á sér ekki stoð í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi. Jafnframt kemur fram sú tilgáta læknisins að ákærði „hafi í rauninni verið ófær um að rifja upp atvikið nákvæmlega rétt, og enn þann dag í dag á síðasta degi geðlæknisrannsóknarinnar er hann ófær um að rifja upp nákvæma lýsingu. Aðspurður hvort hann kunni að hafa setið á rúmstokknum fyrir framan föður sinn en ekki setið á gólfinu framan við svarar hann því til að það kunni vel að vera, en hann sé með öllu ófær um að svara með ákveðnu jái eða neii. Að vel athuguðu máli telur undirritaður geðlæknir þetta síðastnefnda vera líklegustu skýringuna á atburðarásinni.“
Í framhaldi þessa kemur fram sú niðurstaða geðlæknisins að líklegast sé að ákærði hafi „orðið fyrir þeirri ógæfu - í geðshræringu og að því kominn að stytta sjálfum sér aldur - að handleika hlaðinn riffil með þeirri barnalegu ógætni að skot hljóp af slysni í höfuð föður hans og særði til ólífis. Við það áfall komst hugur hans í það alvarlegt ójafnvægi á loststigi áfallakreppunnar, að hann tók mjög órökréttar ákvarðanir í framhaldi af því og eru sumar þeirra með öllu óútskýrðar, sumar að nokkru leyti útskýranlegar með röksemdum hans.“
Við mat á skýrslu geðlæknisins ber að líta til þess að það er ekki hlutverk geðlæknis að leggja dóm á einstök atvik máls eða atburðarás heldur er tilgangur geðrannsóknar samkvæmt d. lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að leiða í ljós atriði, sem geri dómara fært að meta sakhæfi sakbornings.
Í niðurstöðu Kristjáns M. Magnússonar sálfræðings segir að persónuleikapróf á ákærða sýni að um sé að ræða þunglyndan, kvíðinn og viðkvæman pilt, sem jafnframt búi yfir innibyrgðri reiði og gemju. Áberandi sé í fari hans hve honum sé tamt að aðlaga raunveruleikann því sem hann vilji sjá. Bendi prófin á að hann geti auðveldlega séð tvær algjörlega andstæðar hliðar á sama máli (svart og hvítt) og í afneituninni nái hann að loka á þá hlið, sem hann kærir sig ekki um. Í þessu ferli loki hann svo sterkt á eigin tilfinningar, að unnt sé að segja að oft takist honum að aftengja sig frá þeim. Þótt hann hafi tiltölulega lágan þolþröskuld gagnvart mótlæti, takist honum oft að komast hjá að horfast í augu við hlutina á þennan hátt. Takist það hins vegar ekki bregðist hann við meðal annars með hvatvísi og ásökunum á aðra.
Þá segir í niðurstöðu sálfræðingsins að á grunni persónuleikaprófanna sé hægt að segja að líkleg viðbrögð ákærða við þeirri höfnun sem hann varð fyrir frá fyrrum unnustu sinni hina afdrifaríku nótt séu reiði út í aðra, en ekki hann sjálfan. Dæmigerð viðbrögð hans séu að yfirfæra eigin tilfinningar á aðra en ekki að beina reiði að sjálfum sér. Ekki sé unnt að svara því hvort reiðin út í stúlkuna í þessu tilviki hafi yfirfærst á föður hans. Þótt ákærði hafi margsinnis endurtekið að hann hafi ætlað að fyrirfara sér sé sú yfirlýsing ekki sennileg þegar litið sé á dæmigerð tilfinningaleg viðbrögð hans. Að mati sálfræðingsins sé ákærði full sjálfsmiðaður, hafi full mikla tilhneigingu til að beina reiðinni að öðrum, sé full tilbúinn til að fegra hlutina fyrir sjálfum sér og full sjálfselskur til að gera alvöru úr sjálfsvígi. Tal hans um sjálfsvíg virki fremur sem ákall á vorkunn annarra og tilraun til að hafa áhrif á viðhorf þeirra og hegðun en að hún sé sprottin af raunverulegri ósk um að deyja. Ljóst sé að ákærði hafi þróað með sér „færni“ í að bæla minningar og aftengja sig tilfinningum sínum. Þetta persónueinkenni geti skýrt að hann geti ekki lengur haldið fast í atburðarásina þegar skotin féllu. Hvort það hins vegar hafi leitt til nægilegrar firringar til að hann gæti skotið föður sinn af ásetningi, sé erfiðara að meta. Tilfinningalega þurfi mikla firringu og reiði til að beina byssu að andliti nákominnar manneskju og hleypa af. Engu að síður sé ljóst að ákærði gerði þetta tvisvar (síðari skotin tvö). Víndrykkja gæti hafa ýtt undir firringuna og ljósleysið í herberginu minnkað nálægðina við andlitið og auðveldað honum að sjá það sem var að gerast í einhvers konar fjarlægum „kvikmyndaveruleika“. Ljóst sé af frásögn hans sjálfs og af aðstæðum á vettvangi að hann hafi ekki misst stjórn á sér og bendi ekkert til dæmis til stjórnlausrar reiði. Enda þótt bæði firring og reiði væru til staðar hjá ákærða treysti sálfræðingurinn sér ekki til að meta hvort þessir persónuþættir hafi verið af nægilegum styrk umrædda nótt til að stýra honum til að skjóta fyrsta skotinu og bana föður sínum viljandi.
VI.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir um frásögn ákærða um ætlað slysaskot, að hann hafi ekki getað gert skýra grein fyrir atvikum er varða það skot og orðið tvísaga um það fyrir lögreglu hvernig hann bar sig að. Segir og að ekkert hafi komið fram í málinu, sem útiloki að framburður hans geti verið réttur í öllum meginatriðum, en ekki sé unnt að gera þá kröfu til ákærða að hann sé fær um að lýsa nákvæmlega staðsetningu sinni við rúm föður síns eða hvernig hann hélt á rifflinum. Að öðru leyti er ekki lýst mati dómsins á trúverðugleika framburðar ákærða. Að mati héraðsdómsins byggði framburður vitna um „ómöguleika lýstrar atburðarásar“ hins vegar ekki á óhrekjanlegum staðreyndum eða reynslu. Er í því sambandi vísað til þess að vettvangur hafi ekki lengur verið óspilltur þegar í ljós hafi komið að útilokað var að um sjálfsvíg hefði verið að ræða. Þá segir að ekkert hafi komið fram í málinu um að ákærði hafi haft nokkra ástæðu til að vilja föður sinn feigan. Að lokum er vísað til fyrri tilburða ákærða til að svipta sig lífi.
Við munnlegan málflutning í Hæstarétti lagði ríkissaksóknari áherslu á að í málinu lægju fyrir ýmis atriði, auk framburðar ákærða, sem veiti upplýsingar um atburðarás og málavexti. Hafi héraðsdómurinn hins vegar fjallað um fæst þessara atriða og þýðingu þeirra í málinu. Telur ákæruvaldið að gögn málsins virt í heild og í eðlilegu samhengi leiði afdráttarlaust til þeirrar niðurstöðu að næg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um það að ákærði hafi framið þann verknað, sem hann er ákærður fyrir.
Á það verður að fallast með ákæruvaldinu að framferði ákærða gefi ákveðnar vísbendingar um sekt hans. Þegar lögregla kom á vettvang eftir tilkynningu ákærða símleiðis um lát föður síns hafði hann breytt vettvangi og fjarlægt sönnunargögn. Lét hann líta svo út að um sjálfsvíg hefði verið að ræða. Blekkti hann þar með lögreglumenn og leiddi þetta til þess að ummerkjum á vettvangi var eytt. Þrír dagar liðu þar til krufning hófst, en ákærði gerði ekkert til að hið sanna kæmi í ljós. Bendir framburður vitna til þess að hann hafi ætlað að halda við upphaflega sögu sína.
Frásögn ákærða, eftir að í ljós kom að upphafleg saga hans stóðst ekki, verður og að teljast tortryggileg að mörgu leyti. Má þar meðal annars nefna þá skýringu að hann hafi ákveðið að svipta sjálfan sig lífi við rúmstokk föður síns. Í öðru lagi að faðir hans hafi gripið í hlaup riffilsins með þeim afleiðingum að skot hljóp í höfuð hans. Í þriðja lagi að hann hafi eftir þetta slysaskot tvívegis hlaðið riffilinn, sem nokkurt átak þarf til, og skotið tveimur skotum í enni föður síns, nær því á sama stað, í ljóslausu herbergi jafnframt því sem hann hafi samtímis litið undan. Við þetta bætist að fram hafa komið röksemdir, byggðar á athugunum reyndra lögreglumanna, sem gefa ákveðið tilefni til að efast um að atburðir hafi getað gerst með þeim hætti sem ákærði lýsir.
Samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, lá málið þannig fyrir héraðsdómi að rökstuddur grunur var fyrir hendi um að ákærði hefði unnið verk, sem varðaði við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þótt hann væri einn til frásagnar um atburði, lágu fyrir önnur atriði, sem til greina komu við sönnunarmat og rík ástæða var til að huga sérstaklega að. Þykir hafa á það skort við meðferð málsins og er dómur var á það lagður í héraði að til þessara atriða væri litið eins og tilefni var til. Þannig hefði héraðsdómi verið rétt við sakarmat sitt að hafa til hliðsjónar slík atriði, meðal annars þau, sem tilgreind eru í III. kafla hér að framan. Þótt vettvangur hafi ekki vegna rangrar frásagnar ákærða legið óspilltur fyrir voru fyrir hendi myndir af vettvangi, eins og hann var, er fyrst var að komið. Skýrslur og vætti lögreglumanna, þar sem settar voru fram rökstuddar efasemdir um að frásögn ákærða stæðist, hlutu hér einnig að vega þungt. Við þessar aðstæður hefði héraðsdómi verið rétt með hliðsjón af 3. mgr. 128. gr. og 131. gr. laga nr. 19/1991 að hlutast til um, áður en dómur yrði lagður á málið, að aflað yrði frekari gagna um ýmis þau atriði, sem fram höfðu komið og gátu varpað skýrara ljósi á málið. Er hér meðal annars átt við rökstutt sérfræðilegt mat á því hvort eða hvernig ætlaðar staðsetningar ákærða við rúm hins látna geta komið heim og saman við frásögn hans um slysaskot og við skotáverka á hinum látna. Í því sambandi þyrfti að gera sérstaka athugun á því, hvort unnt sé að meta út frá blóði á líkinu og umhverfis það, hver staða höfuðs hins látna hafi verið þegar skotum var hleypt af. Rétt er og að kanna til þrautar, hvort unnt sé með tæknilegum rannsóknum að fá fram frekari vísbendingar af ljósmyndum, sem teknar voru á vettvangi 18. mars 2000. Þá er eðlilegt að rökstuddar niðurstöður skýrslu Bjarna J. Bogasonar séu metnar sérstaklega af sérfræðingum, svo sem frekast eru föng á. Eins og atvikum máls þessa er háttað þykir óhjákvæmilegt að gögn sem þessi og önnur, er skipt gætu máli, komi fram áður en það er til lykta leitt. Einnig þykir nauðsynlegt að héraðsdómur kveði skýrt á um mat sitt á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar ákærða.
Að þessu athuguðu þykir verða að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til frekari gagnaöflunar samkvæmt framansögðu og málsmeðferðar eftir því sem efni verða til að henni lokinni, svo og til dómsálagningar að nýju.
Um greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti skal fara eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til frekari gagnaöflunar og dómsálagningar að nýju.
Allur kostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti skal greiddur úr ríkissjóði. Ákvörðun héraðsdóms um málsvarnarlaun Örlygs Hnefils Jónssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða, Þórðar Braga Jónssonar, er staðfest. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Ólafs B. Árnasonar hæstaréttarlögmanns, ákveðast 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. september 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. þ.m., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara, útgefnu 14. júní 2000 á hendur Þórði Braga Jónssyni, kt. 170279-5149, Bláhvammi í Reykjahreppi, Þingeyjarsýslu;
„fyrir manndráp, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 18. mars 2000, í svefnherbergi föður síns, Jóns Frímanns Jónssonar á heimili þeirra feðga að Bláhvammi í Reykjahreppi, skotið þremur riffilskotum í höfuð Jóns Frímanns með þeim afleiðingum að hann lést.
Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Þá krafðist Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari þess jafnframt fyrir dómi, að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Verjandi ákærða, Örlygur Hnefill Jónsson héraðsdómslögmaður, hefur fyrir hönd ákærða gert þær kröfur aðallega í málinu, að ákærði verði sýknaður af broti á 211. gr. almennra hegningarlaga. Til vara krefst hann þess að ákærði verði einungis dæmdur fyrir brot á 215. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 124. gr. almennra hegningarlaga. Í báðum tilfellum krefst hann þess, að dæmt verði að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun.
I.
Að morgni laugardagsins 18. mars 2000, kl. 08:10, hringdi ákærði í síma lögreglunnar á Húsavík frá heimili sínu að Bláhvammi í Reykjahreppi og tilkynnti um lát föður síns, Jóns Frímanns Jónssonar. Aðalsteinn Júlíusson varðstjóri tók við tilkynningu ákærða og hringdi hann strax á læknavakt sjúkrahússins á Húsavík og óskaði eftir sjúkrabifreið og lækni í Bláhvamm. Þá hafði Aðalsteinn samband við Bjarna Höskuldsson varðstjóra, sem búsettur er að Aðalbóli í Aðaldal, og var ákveðið á þeir Aðalsteinn og Bjarni færu þegar í Bláhvamm.
Kom Bjarni fyrstur í Bláhvamm, um kl 08:30, og fann hann ákærða sitjandi við síma á gangi hússins. Næstur á vettvang var Aðalsteinn og fór hann þegar inn í herbergi Jóns Frímanns. Varð lögreglu þá fyrst ljóst, að andlát Jóns Frímanns hefði ekki borið að með eðlilegum hætti. Lá Jón Frímann í rúmi sínu og var greinilegt skotsár á enni hans og ofan á honum lá riffill. Ekkert lífsmark var með Jóni Frímanni og virtist sem hann hefði svipt sig lífi með rifflinum. Stuttu síðar kom á vettvang Ingimar Hjálmarsson læknir og eftir skoðun úrskurðaði hann Jón Frímann látinn. Ekki fór fram nákvæm skoðun á líki hins látna á vettvangi þar sem ljóst var að til réttarkrufningar kæmi vegna andlátsins.
Lögregla aflaði samþykkis barna hins látna fyrir því að fram færi krufning á líkinu og óskaði sýslumaðurinn á Húsavík eftir því við Þorgeir Þorgeirsson, yfirlækni á meinafræðideild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, með bréfi dags. 21. mars 2000, að hann framkvæmdi krufningu á líki Jóns Frímanns. Við yfirlitsskoðun Þorgeirs síðar sama dag komu í ljós þrjú innskotsop á höfði hins látna. Þorgeir hafði þegar samband við lögreglu og upplýsti um innskotsopin þrjú. Nefndan dag kl. 16:10 héldu fjórir lögreglumenn í Bláhvamm og handtóku ákærða. Eftir handtökuna var ákærði færður í lögreglubifreið og ekið með hann á lögreglustöðina á Húsavík þar sem hann gaf skýrslu. Í skýrslunni kvaðst ákærði hafa haft riffilinn undir höndum er skot hafi hlaupið úr honum af slysni í föður hans. Hann hafi síðan skotið tveimur skotum í viðbót í höfuð föður síns. Í framhaldi af skýrslutökunni var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald 22. mars s.l., þar sem hann hefur setið síðan.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá í upphafi, að atvikið hafi orðið með þeim hætti að hann hafi setið eða kropið til hliðar við rúm föður síns og ætlað að stytta sér aldur, þegar faðir hans hafi skyndilega gripið í riffilhlaupið með þeim afleiðingum að skot hafi hlaupið úr rifflinum í höfuð hans. Við þennan framburð hélt ákærði í fyrstu hjá lögreglu, en við skýrslugjöf þann 3. apríl s.l. skýrði ákærði svo frá að verið gæti að faðir hans hafi ekki vaknað og skotið hlaupið í höfuð hans er ákærði hafi hrasað eða rekið riffilinn í vegginn.
II.
Ákærði bar fyrir dómi, að hann hafi farið til vinnu sinnar á Hveravöllum að morgni 17. mars s.l. og lokið þar störfum um miðjan dag. Því næst hafi hann farið heim í Bláhvamm, fengið sér að borða, farið í sturtu og klætt sig. Kvað ákærði föður sinn hafa verið heima, þegar hann hafi komið úr vinnu og hafi þeir spjallað nokkuð saman. Kvað ákærði föður sinn hafa tjáð sér, að hann myndi ekki fara á samkomu í Ýdölum, sem honum hafði verið boðið til líkt og öllum öðrum áburðarkaupendum á svæðinu, vegna mikilla blóðnasa, sem hann hafði haft þá um daginn.
Um kl. 18:00 kvaðst ákærði hafa hringt til vinar síns Páls Ólafssonar á Hveravöllum, en rætt hafi verið um að ákærði yrði samferða Páli og konu hans á skemmtunina. Nokkru síðar hafi þau komið og sótt ákærða. Hafi verið ekið sem leið lá í átt að Ýdölum, niður Hvammabrekkuna og komið við í Brekku og ábúendur þar, Reynir og Bogga, tekin með á skemmtunina.
Skemmtunina kvað ákærði hafa gengið sinn vanagang. Boðið hafi verið upp á mat og drykk og þá hafi einhver söngatriði verið til skemmtunar. Dansleikurinn hafi síðan staðið til kl. 03:00. Kvaðst ákærði hafa skemmt sér þokkalega, en hann hafi þó verið mjög þunglyndur á þessum tíma. Ákærði kvaðst hafa verið mjög þunglyndur gegnum árin og hafi hann fyrst fundið til þunglyndis um það leyti, sem móðir hans andaðist. Þunglyndið hafi síðan verið að aukast gegnum árin.
Aðspurður um neyslu áfengis umrætt kvöld kvaðst ákærði hafa drukkið ½ bjór, sem faðir hans hafi gefið honum, áður en hann hafi farið á skemmtunina, en þar hafi hann drukkið eitthvað meira. Hann hafi fundið til áfengisáhrifa, en þó ekki verið drukkinn. Vísaði ákærði um magn áfengis til framburðar síns fyrir lögreglu, en þar kemur fram að ákærði hafi drukkið 2-3 bjóra, 4 staup af rauðvíni og 2 staup af hvítvíni.
Ákærði kveður þau hjón, Heiðbjörtu og Pál, hafa ekið sér heim eftir skemmtunina og hafi sama leið verið ekin og áður. Er komið hafi verið í Bláhvamm hafi ákærði fyrst farið örsnöggt yfir í Laufahlíð, en síðan farið yfir í Bláhvamm. Aðspurður kvaðst ákærði hafa haldið til í Bláhvammi á þessum tíma. Hann hafi áður verið mikið í Laufahlíð, en eftir að Böðvar bróðir hans hafi fengið krabbamein hafi ákærði flutt sig yfir í Bláhvamm, þar sem veikindi Böðvars hafi tekið mjög á föður hans og einnig ákærða og hafi honum því fundist betra að þeir væru saman í Bláhvammi, frekar en í sitt hvoru húsinu.
Kvaðst ákærði hafa ætlað að fá sér eitthvað að borða er hann hafi komið yfir í Bláhvamm, en ekki fundið neitt, sem hann hafi langað í. Því næst hafi hann hringt í Önnu Karin Jónsdóttur, fyrrverandi kærustu sína. Nánar aðspurður um stöðu sambands hans og Önnu Karinar á þessum tíma kvað ákærði því hafa verið lokið, en Anna hafi samt verið að hringja um miðjar nætur í Bláhvamm og skella á. Þá hafi hún verið að koma í Bláhvamm og sækja einn hlut í einu, sem hún hafi þar átt. Ákærði kvaðst hafa haft frumkvæði að sambandsslitum þeirra og hafi Anna Karin brugðist reið við þeim.
Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta gert sér nákvæma grein fyrir því, hvað hann hafi verið búinn að vera lengi í Bláhvammi er hann hafi hringt í Önnu Karin, en giskaði á um 5 mínútur. Hafi hann náð sambandi við Önnu Karin og þau byrjað að spjalla, en fljótlega hafi samtalið snúist upp í illindi og hafi þau rifist nokkuð. Aðspurður kvaðst ákærði hafa hækkað röddina nokkuð, en þó ekki öskrað. Kvað ákærði það í sjálfu sér ekki hafa verið óeðlilegt að þau rifust, þar sem Anna Karin sé skapmikil.
Kvaðst ákærði hafa hringt í nokkur skipti í Önnu Karin, fyrst úr þráðlausum síma, sem verið hafi í hleðslu inni á baði, en hann borið með sér inn í eldhús.
Eftir rifrildið við Önnu Karin kvaðst ákærði hafa verið mjög svekktur og fundist ekkert ganga upp hjá sér. Hann hafi byrjað í skóla um haustið, en gefist upp á honum og hafi veikindi Böðvars spilað þar inn í, þunglyndi hans hafi ágerst og að endingu hafi hann hætt að nenna að mæta í skólann. Ákærði hafi því á þessari stundu ákveðið að fyrirfara sér. Hann hafi farið í herbergi þar sem riffillinn hafi verið geymdur í skáp, en aðspurður kvað ákærði ljós hafa verið kveikt á ganginum. Því næst hafi hann farið í herbergi föður síns, staðráðinn í að stytta sér aldur, en skot í riffilinn hafi verið geymd þar í kommóðuskúffu. Hafi hann hvolft úr skotapakkanum í lófa sér og hafi þrjú skot fallið í lófa hans, en hin skotin dreifst um skúffuna. Ákærði kvaðst ekki reka minni til, að af þessu hafi stafað hávaði. Kvaðst ákærði hafa ákveðið að taka fleiri en eitt skot til að vera öruggur, myndi hann ekki deyja við fyrsta skot. Ákærði kvaðst á þessari stundu hafa verið í miklu uppnámi. Hann hafi því næst ákveðið að fyrirfara sér við rúmstokkinn hjá föður sínum, líklega viljað vera nærri honum þegar hann færi. Kvaðst ákærði hafa álitið föður sinn sofandi. Kvaðst hann hafa kropið við rúmið, en nánar aðspurður þó ekki muna hvort hann hafi kropið eða setið við rúmið, en líklega hafi hann þó setið. Hann hafi verið búinn að hlaða byssuna, beint rifflinum að höfði sér og verið að biðja, er faðir hans hafi gripið í hlaupið og við það hlaupið skot í höfuð föður hans. Við skotið hafi faðir hans fallið og vinstri hönd hans fallið út úr rúminu og frá honum komið „öndunarhljóð“, hljóð líkt því sem komi þegar kindur séu aflífaðar, djúpt korrandi hljóð. Ákærði kvaðst hafa tekið vinstri hönd föður síns upp og hafi hún verið gersamlega máttlaus. Þá hafi ákærði ekki heyrt neinn andardrátt og einhverju síðar séð, að faðir hans hafi bólgnað við augað. Hafi ákærði kallað á föður sinn en hann ekki svarað, algerri þögn hafi slegið á. Faðir hans hafi því látist við skotið. Ákærði kvaðst í kjölfarið hafa stirðnað gersamlega. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa þreifað eftir púls hjá föður sínum eða leitað sérstaklega eftir andardrætti á þessari stundu.
Kvað ákærði einhverja sturlun hafa gripið sig í kjölfarið, hann hafi farið yfir um og hleypt tveimur skotum til viðbótar í föður sinn. Kvaðst ákærði telja að hann hafi staðið er hann hleypti þeim af og ekki miðað heldur beint byssunni að föður sínum. Skotin hafi hann haft í vasanum og hlaðið byssuna ofanfrá í hvort skipti, en ekki notast við skotgeyminn (magasínið). Ákærði kvaðst ekki geta útskýrt tvö síðustu skotin, hann hafi hreinlega sturlast eftir fyrsta skotið. Hann kvaðst ekki hafa séð fyrr en birti um morguninn hvar síðari tvö skotin lentu. Tók ákærði fram að hann myndi ekki vel eftir síðustu tveimur skotunum.
Eftir skotin þrjú kvaðst ákærði hafa gert einhverjar tilraunir til að bjarga föður sínum: „Ég var orðinn bara svo, ég vissi ekki upp né niður.“ Kvaðst ákærði hafa klifrað upp á föður sinn, „ ... ætla bara að blása í hann lífi eða hafa hjartahnoð eða eitthvað, en hann var náttúrulega dáinn.“ Við þetta hafi hann fengið blóð á hendurnar sem hann hafi þurrkað í kodda, sem hann hafi tekið undan höfði föður síns. Kvaðst ákærði hafa dvalist í herberginu eitthvað fram eftir morgni og grátið eins og lítið barn. Hafi honum á þessari stundu komið í hug að stytta sér aldur, en er hann hafi hugsað um hvað fólk myndi segja ef það kæmi að föður hans með þrjú skot í sér en hann eitt, hafi hann hætt við. Þá kvaðst hann einnig hafa talið það vera nógu erfitt fyrir systkini sín að faðir hans væri látinn, en að við bættist, að hann færi líka.
Ákærði kvaðst um morguninn hafa farið að hugsa um hvað hann ætti að segja systkinum sínum, hvernig hann ætti að segja frá þessum atburðum, hvernig hann gæti mögulega útskýrt þetta fyrir einhverjum manni. Þá hafi það flogið í huga hans, að láta þetta líta út sem sjálfsvíg. Hann hafi því lagt riffilinn ofan á föður sinn og lagt hægri hönd hans á riffilinn, en því næst farið út úr herberginu og sest niður á ganginum. Þar hafi hann hugsað um hvað um hann yrði.
Hann viti síðan ekki hvernig tímanum líði en í framhaldinu heyri hann í vekjaraklukku föður síns og fari því inn í herbergi hans til að slökkva klukkunni. Þá sjái hann raunverulega fyrst hvað gerst hafi og hringi þá beint í lögregluna. Á þessum tíma hafi verið orðið bjart, en tunglskin hafi verið um nóttina en ekkert ljós kveikt í herberginu.
Aðspurður um seinni frásögn hans af atvikum tengdum hinu fyrsta skoti, tók ákærði fram, að hann hafi á þeim tíma verið búinn að vera í miklum skýrslutökum hjá lögreglunni og hafi lögreglunni ekki fundist frásögn hans ganga upp. Hafi lögreglumennirnir orðið harðari og harðari við sig og sagt að þetta gæti ekki verið, þetta væri bara bull, og hafi þá átt við þá frásögn ákærða, að faðir hans hafi risið upp og gripið í byssuna. Kvað ákærði Bjarna Höskuldsson varðstjóra hafa gengið sérstaklega hart fram, hann hafi ekki leyft ákærða að svara heldur öskrað á hann. Þá hafi Bjarni staðið fastur á því, að ekkert sem ákærði segði, væri rétt.
Að lokinni einhverri yfirheyrslunni hafi einn lögregluþjónninn spurt ákærða hvort verið gæti að hann hafi haldið á byssunni svona og svona og rekið hana í vegginn og skot hlaupið úr henni. Lögregluþjónninn hafi því næst beðið ákærða að hugsa vel um þetta þar til næst yrði talað við hann. Kvaðst ákærði hafa verið í einangrun á þessum tíma og því ekki getað gert neitt annað en að hugsa. Í næstu skýrslutöku hafi hann síðan verið inntur eftir því hvort hann myndi eitthvað nýtt.
Ákærði bar jafnframt, að á einhverjum tímapunkti í yfirheyrslunum hafi lögreglan spurt hann hvort hann vildi fara afsíðis með Hreiðari Hreiðarssyni lögreglumanni og hafi hann samþykkt það. Hreiðar hafi síðan tjáð ákærða ,að þeir skyldu nú tala saman eins og litlir strákar. Hann hafi því næst sagt ákærða, að hann ætlaði að tala dálítið mikið. Hann hafi síðan spurt ákærða að því, hvort það gæti verið, að faðir hans hafi ekki vaknað. Hvort ekki gæti verið að ákærði hefði hrasað eða rekið byssuna í vegginn og skot hlaupið úr henni og að hann hafi ekki viljað greina frá því, þar sem í því tilviki væri lát föður ákærða svolítið meira honum að kenna. Kvaðst ákærði þá hafa ætlað að svara Hreiðari, en hann stoppað ákærða af og sagt, nei, nei, ég ætla að tala miklu lengur. Svona hafi þetta haldið áfram í dálitla stund. Seinni frásögn hans af atburðum hafi verið afleiðing þessa samtals. Kvað ákærði lögregluna hafa hætt að þjarma að sér eftir síðastnefnda skýrslutöku og allar skýrslutökur verið miklu léttari. Kvað ákærði hafa litið út fyrir, að lögreglan hafi sett upp fyrir sér ákveðna mynd og ekki viljað stíga frá henni, þetta hafi bara átt að vera svona. Þau orð skýrslunnar frá 3. apríl s.l. að; „ ... það hafi verið svo ofboðslega erfitt að viðurkenna atburðinn bæði fyrir sjálfum sér og öðrum að hann hafi ekki getað sagt frá því. Þess vegna hafi hann gripið til þess að segja að faðir hans hafi gripið í hlaupið á rifflinum, þeirri mynd af atburðunum hafi ekki fylgt eins mikil sök af hans hálfu“, væru ekki sín orð heldur hafi þau komið frá Hreiðari Hreiðarssyni.
Ákærði kvaðst næstu daga eftir atburði 18. mars s.l. hafa ætlað að reyna að skýra frá því, sem raunverulega hefði gerst, en kvað enga stund rétta til að skýra svona hluti og hafi hann aldrei haft kjark til að gera það.
Spurður um hvort hann hafi áður leitt hugann að því að stytta sér aldur, kvað ákærði svo vera. Hann hafi eitt sinn lokað sig inni í herbergi í Laufahlíð og verið að hugsa um að fyrirfara sér. Hafi hann verið með sama riffil og 18. mars s.l., en hann hafi þá verið geymdur í Laufahlíð. Kvaðst ákærði í það skipti hafa verið mjög drukkinn. Það sem komið hafi í veg fyrir að hann gerði alvöru úr ætlan sinni hafi verið að Anna Karin hafi brotist inn í herbergið til hans. Fleiri tilvik af þessu tagi tengd nefndum riffli kannaðist ákærði ekki við. Hins vegar hafi hann eitt sinn ætlað að skera sig á púls, en vinur hans séð til hans og kallað til lögreglu, sem hafi komið og haft afskipti af ákærða. Það var hins vegar að skilja á ákærða, að hann hafi í fleiri skipti hugleitt sjálfsvíg án þess að aðhafast neitt í þá veru.
Ákærði kvaðst telja að samband þeirra feðga hafi verið gott og hafi þeir oft spjallað saman. Þeim hafi þótt vænt hvorum um annan, en uppeldið hafi verið þannig að ekki hafi verið um neitt augljóst tilfinningaflæði að ræða. Þeir feðgar hafi þó stundum móðgast hvor við annan og því fylgt þegjandi fýla, en þeir hafi hins vegar aldrei rifist. Aðspurður kvaðst ákærði kannast við, að gert hafi verið upp á milli þeirra systkinanna, en það hafi ekki vakið honum reiði. Kvaðst hann sakna föður síns mikið.
Aðspurður um einhver tilvik þar sem honum hafi sárnað mjög við föður sinn, vildi ákærði ekki gera mikið úr því, en nefndi þó að faðir hans hafi eitt sinn látið lóga hundi, sem honum hafi verið mjög kær. Kvaðst ákærði þó hafa skilið þá gjörð föður síns. Ákærði kvaðst vera mikill dýravinur og hafa ánægju af að umgangast dýr. Hann hafi einnig áhuga á bústörfum og kvaðst ákærði ekki kannast við að sér hafi verið ýtt til hliðar af föður sínum varðandi þau.
Ákærði kvað föður sinn einhverju sinni hafa spurt sig hvort hann hefði áhuga á að taka við búskap í Bláhvammi að honum gengnum og hafi hann lýst yfir áhuga á því. Kvaðst ákærði hafa vitað, að faðir hans hafi verið að hugsa um að selja sauðfjárkvótann af jörðinni, en kvað hann ekki hafa verið búinn að taka ákvörðun um það.
III.
Vitnið Páll Ólafsson kvaðst ásamt konu sinni hafa sótt ákærða í Bláhvamm undir kvöld þann 17. mars s.l. og farið ásamt honum á skemmtun að Ýdölum í Aðaldal. Kvaðst vitnið ekki hafa annað séð en ákærði hafi skemmt sér ágætlega og sæmilega hafi legið á honum um kvöldið. Vitnið kvað ákærða ekki hafa verið mikið drukkinn.
Eftir skemmtunina, um kl. 03:30, hafi verið haldið frá Ýdölum og ákærða ekið í Bláhvamm, en færð kvað vitnið hafa verið mjög góða þessa nótt. Kvað vitnið bifreiðina hafa staðið í 1-2 mínútur á hlaðinu í Bláhvammi, meðan ákærða hafi verið hleypt út og hafi vél bifreiðarinnar verið í gangi. Hafi ákærði farið í átt til Laufahlíðar eftir að hann yfirgaf bifreiðina. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart ferða Jóns Frímanns í þá stuttu stund, sem stoppað hafi verið í Bláhvammi. Aðspurt kvað vitnið ljós hafa verið kveikt í Laufahlíð.
Næst kvaðst vitnið hafa hitt ákærða að morgni 18. mars s.l., um kl. 10:00, er ákærði hafi komið að Hveravöllum. Hafi vitnið verið með ákærða fram eftir degi, en öll samskipti eðlilega verið dofin og erfið, og ákærði sagt fátt. Kvaðst vitnið hafa hvatt ákærða til að leita sér áfallahjálpar, en ákærði ekki verið tilbúinn til þess, alla vega ekki þann daginn.
Aðspurt kvaðst vitnið kannast við að ákærði hafi svarað því til, er vitnið hafi verið að ræða við ákærða um líðan hans, og það að koma að föður sínum á þennan hátt, að hann væri svo vanur dauðanum. Kvaðst vitnið hafa skilið ummæli ákærða í því ljósi, að hann hafi alist upp við að fólk dæi í kringum hann og einnig dýrin hans. Þá kvaðst vitnið hafa skynjað það af kynnum sínum af ákærða, að ákærða fyndist að honum væri oft hafnað, bæði af hans nánustu og öðrum. Vitnið tók það hins vegar fram, að ákærði og vitnið hafi aldrei rætt heimilislífið í Bláhvammi eða samband ákærða við föður hans. Vitnið kvaðst aðspurt hafa komið frekar sjaldan í Bláhvamm gegnum tíðina, þrátt fyrir vinfengi sitt við ákærða, en fyrir því hafi ekki verið nein sérstök ástæða.
Vitnið kvaðst telja að ákærði hefði áhuga á bústörfum, en jafnframt, að hann hefði ekki fengið að njóta sín mikið við þau, þar sem faðir hans hafi að mestu séð um þau verk. Þá kvaðst vitnið hafa haft vitneskju um, að til greina hafi komið að selja sauðfjárkvóta Bláhvamms og kvaðst vitnið ekki hafa getað fundið annað í samtölum sínum við ákærða, en honum litist ágætlega það.
Vitnið Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir kvaðst hafa unnið með ákærða 17. mars s.l. og hafi hann þá verið „ ... indæll eins og venjulega“. Um kvöldið hafi vitnið farið ásamt eiginmanni sínum, Páli Ólafssyni, og ákærða á skemmtun í Ýdölum, sem lokið hafi rúmlega 03:00. Vitnið kvað föður ákærða hins vegar ekki hafa viljað koma á skemmtunina, vegna þrálátra blóðnasa, sem hann hafði haft. Að samkomunni lokinni hafi vitnið ekið ákærða heim og hafi verið komið að Bláhvammi kl. 03:40. Aðspurt kvað vitnið ekkert hafa verið að færð um nóttina. Vitnið kvað ljós hafa verið kveikt í Laufahlíð, en allt slökkt í Bláhvammi, er þangað hafi verið komið. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart ferða Jóns Frímans í þann tíma, sem stoppað hafi verið í Bláhvammi, en bar jafnframt, að ekki hafi verið um langan tíma að ræða, einungis um 3-4 mínútur.
Vitnið kvað ákærða hafa verið undir áhrifum áfengis þetta kvöld, en ekki ofurölvi. Kvaðst vitnið oft hafa séð ákærða daprari en umrætt kvöld, en einnig kátari. Ekkert hafi því að mati vitnisins verið eftirtektarvert við ákærða að þessu leyti.
Ákærða kvaðst vitnið hafa hitt næst um kl. 10:00 að morgni 18. mars s.l. á heimili tengdamóður sinnar og hafi vitnið og eiginmaður þess verið hjá ákærða og reynt að halda utan um hann og styðja eins og þau hafi getað. Kvað vitnið ákærða hafa verið í sjokki og hafi vitnið ekki talið það óeðlileg viðbrögð, eins og mál hafi þá staðið.
Vitnið kvaðst fyrst hafa hitt ákærða þegar hann hafi verið 7 ára gamall og hafi hann alla tíð verið í miklu uppáhaldi hjá vitninu og þyki mjög vænt um ákærða. Kvað vitnið ekki hægt að hafa betri mann í vinnu en ákærða, hafi hann alltaf verið hress og skemmtilegur og engin vandamál verið í samskiptum við hann. Vitnið kvaðst hafa vitað, að ákærði hafi átt erfitt og lýsti honum sem lokuðum persónuleika. Hafi vitnið skynjað dapurleika hjá ákærða og ákveðinn biturleika út í lífið.
Ákærða kvað vitnið á yngri árum hafa átt hund, Hédda, sem verið hafi hans besti vinur. Dag einn hafi ákærði verið beðinn um að fara heim með hundinn, en þá hafi verið búin að vera einhver vandræði með hann. Í framhaldinu hafi Jón Frímann farið með hundinn til Húsavíkur og látið svæfa hann. Kvað vitnið þetta atvik hafa haft mjög slæm áhrif á ákærða, en vitnið kvað hundinn á þessum tíma hafa verið ákærða allt.
Vitnið kvaðst telja að ákærði hefði gaman af bústörfum og að hann væri sérlega mikill dýravinur. Hann hafi hins vegar ekki tekið mikinn þátt í búskap í Bláhvammi þar sem faðir hans hafi viljað vera einn við búskapinn.
Kvað vitnið Böðvar bróður ákærða hafa verið í uppáhaldi hjá föður þeirra og jafnvel fengið hól fyrir hluti, sem hann hafi ekki gert.
Vitnið kvaðst hafa þekkt Jón Frímann frá árinu 1988 og hafi hann verið ósköp indæll maður, en lokaður og ekki gefið mikið af sér. Kvaðst vitnið hafa haft mikil samskipti við elstu systur ákærða og hafi samskipti vitnisins við Jón Frímann einkum verið í gegnum hana. Kvaðst vitnið telja að samskipti þeirra feðga hafi ekki verið mjög náin og þeir ekki rætt mikið saman.
Vitnið kvaðst hafa vitneskju um það, að öllum líkindum frá tengdaföður sínum, að Jón Frímann hafi, er hann lést, verið búinn að taka ákvörðun um að selja sauðfjárkvóta jarðarinnar.
Vitnið Anna Karin Jónsdóttir, fyrrverandi unnusta ákærða, kvaðst hafa kynnst ákærða fyrst fyrir u.þ.b. 3 árum og hafi þau þá tekið upp fast samband, en slitnað hafi upp úr því eftir nokkurn tíma. Þau hafi síðan tekið saman að nýju og eftir það hafi samband þeirra varað í tæplega 2 ár, eða þar til ákærði hafi slitið sambandi þeirra um 3 vikum fyrir andlát Jóns Frímanns. Kvað vitnið samband þess við ákærða stundum hafa verið stormasamt. Ástæður rifrilda þeirra kvað vitnið aðallega hafa verið afbrýðisemi og afstöðu foreldra vitnisins til ákærða. Vitnið kvað ákærða hafa ljáð máls á því eftir sambandsslitin, að þau tækju upp samband að nýju, en það hafi vitnið ekki viljað.
Vitnið kvað ákærða hafa hringt til þess um kl. 03:30 aðfaranótt 18. mars s.l., en vitnið hafi þá verið að koma heim af balli. Í fyrstu hafi ákærði verið í góðu skapi, en síðan farið að vera með kjaft og spyrja út í samband vitnisins við strák, sem vitnið hafði verið með eftir sambandsslitin við ákærða. Kvaðst vitnið hafa tjáð ákærða, að það vildi ekki rífast við hann og því skellt á. Ákærði hafi hringt tvisvar eða þrisvar eftir það og ávallt byrjað með það sama og áður og hafi vitnið því ítrekað skellt á hann. Kvaðst vitnið að endingu hafa tekið hringinguna af símanum. Aðspurt kvað vitnið ákærða ekki hafa virst mjög reiðan, heldur hafi hann frekar talað í hæðnistón.
Vitnið kvaðst hafa komið í Bláhvamm til að sækja föt sem það hafi átt þar, á miðvikudegi eða fimmtudegi fyrir andlát Jóns Frímanns. Hafi ákærði þá greint vitninu frá því, að þeir feðgar væru að hugsa um að selja sauðfjárkvóta jarðarinnar. Kvað vitnið ákærða hafa virst sáttan við þá hugmynd. Vitnið kvað ákærða ekki hafa tekið mikinn þá í búskapnum með föður sínum, hann hafi þó hjálpað honum að heyja o.þ.h.
Kvað vitnið ákærða oft hafa orðið reiðan, hann orðið „brjálaður“, meðan á sambandi þeirra stóð.
Vitnið kvað ákærða oft eftir rifrildi við vitnið hafa læst sig inni í herbergi með byssu, en hann þó einungis einu sinni haft orð á því, að hann ætlaði að fremja sjálfsmorð. Kvaðst vitnið hafa tekið þetta háttalag ákærða alvarlega. Hafi vitnið eitt sinn verið orðið svo hrætt við þessar athafnir ákærða, að það hafi tekið riffilinn og farið með hann til Böðvars, bróður ákærða, og beðið hann að geyma riffilinn. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa haft hugmynd um hvar skotfæri í riffilinn hafi verið geymd.
Kvaðst vitnið hafa átt góð samskipti við föður ákærða. Hafi vitnið einu sinni átt alvarlegt samtal við Jón Frímann. Það hafi verið í kjölfar þess, að Jón Frímann hafi reiðst ákærða mjög fyrir að færa rúm ákærða frá Laufahlíð yfir í Bláhvamm, án þess að ræða það fyrst. Kvaðst vitnið alls ekki hafa skilið ástæður þess, að Jón Frímann reiddist þessu svo mjög.
Vitnið kvað þá feðga ekki hafa verið mjög samrýmda, þeir hafi þó alveg getað talað saman og hafi vitnið aldrei heyrt þá rífast. Hins vegar hafi ákærða fundist faðir hans gera upp á milli hans og Böðvars og honum þótt vænna um Böðvar. Kvað vitnið ákærða hafa tekið þetta nærri sér.
Vitnið Ólafur Skúli Guðjónsson, hálfbróðir ákærða, kvaðst hafa búið í Laufahlíð um tíma árið 1991. Á þeim tíma hafi verið töluverður samgangur milli heimilis vitnisins og Bláhvamms. Þá kvaðst vitnið hafa unnið með ákærða sumarið 1998 og það sumar hafi hann alltaf borðað í Bláhvammi. Kvað vitnið mjög gott hafa verið að vinna með ákærða. Vitnið kvað ákærða ávallt hafa verið mjög auðveldan í umgengni og hafi samskipti fjölskyldu vitnisins við ákærða alltaf verið mjög góð. Kvaðst vitnið hafa haft áhyggjur af ákærða síðastliðinn vetur, er hann hafi verið í skóla á Húsavík. Hann hafi ekki stundað skólann mikið og greinilegt hafi verið, að eitthvað væri að, hann fyndi sig ekki og liði ekki nógu vel.
Jón Frímann, stjúpföður sinn, kvað vitnið hafa verið lokaðan um sumt og hafi hann ekki rætt óþægilega hluti. Vitnið kvað ákærða og Jóni Frímanni hafa lynt ágætlega, en þó hafi gætt pirrings hjá ákærða út í föður sinn og kvaðst vitnið hafa skilið þann pirring vel, því eins hafi verið um vitnið þegar það hafi verið krakki. Ástæðuna kvað vitnið hafa verið, að Jón Frímann hafi gert upp á milli barnanna á heimilinu og hafi Böðvar alltaf verið í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Vitnið tók hins vegar fram, að samskipti þess við stjúpföður sinn hafi lagast um það leyti sem vitnið hafi verið komið undir tvítugt.
Vitnið kvaðst hafa haft miklar áhyggjur af Jóni Frímanni eftir andlát móður sinnar árið 1988, einkum og sér í lagi eftir andlegt áfall Jóns Frímanns árið 1991. Hafi það tekið Jón Frímann þó nokkurn tíma að vinna sig upp aftur eftir það. Þá hafi andlát móður vitnisins að sjálfsögðu haft mikil áhrif á öll börnin á heimilinu, en vitnið kvað allt of lítið hafa verið unnið úr málum gagnvart börnunum. Kvaðst vitnið telja að börnin hefðu þurft að fá miklu meiri hjálp til að vinna sig út úr þessu áfalli. Aðspurt kvaðst vitnið hafa verið elst í systkinahópnum, en ákærði yngstur.
Vitnið kvaðst hafa heyrt stjúpföður sinn tala um það, að hann væri að hugsa um að hætta búskap, en þó halda eftir 10-20 kindum og búa áfram í Bláhvammi. Ákærða kvað vitnið hafa áhuga á búskap og sé hann mikill dýravinur, svo mikill að eftir því sé tekið.
Aðspurt um hvort það hefði komið vitninu á óvart, er litið hafi verið á andlát Jóns Frímanns sem sjálfsvíg, að hann fremdi slíkan verknað, kvað vitnið það ekki hafa verið svo mjög. Jóni Frímanni hafi verið búið að líða heldur illa, hann hafi verið óánægður með búskapinn, sem ekki hafi lengur verið neinn glæsibragur yfir. Þá hafi Jón Frímann, að áliti vitnisins, aldrei náð sér fyllilega eftir andlát konu sinnar. Kvað vitnið það fyrst hafa flogið í huga þess, er það hafi heyrt af andláti Jóns Frímanns, að hann hefði fengið svo slæmar fréttir af Böðvari, en Böðvar sé krabbameinssjúklingur, að hann hefði hreinlega bognað. Þó hafi vitninu eitt ekki þótt passa, en það hafi verið að Jón Frímann hafi verið búinn að lenda í því að falla saman og vera lagður inn á geðdeild, og því hafi vitnið undrast að hann skyldi ekki, í ljósi þessa, frekar leita sér hjálpar.
Vitnið Böðvar Jónsson, bróðir ákærða, kvaðst vegna veikinda sinna hafa verið búsettur „fyrir sunnan“ frá mánaðarmótum september-október 1999 til mars 2000.
Um samskipti ákærða og föður þeirra bræðra, þá bar vitnið það geta verið erfitt að mörgu leyti, að vaxa upp sem unglingur með einungis eitt foreldri. Milli þeirra feðga hafi komið upp smávægileg vandamál, en það hafi ekki verið neitt öðru vísi en verið hafi með hin systkinin. Kvað vitnið samskipti á heimilinu hafa verið þannig, að í raun hafi frekar verið hörfað undan, en að sest hafi verið niður og málin rædd. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna eftir neinum sérstökum atvikum, sem tengst hafi samskiptum ákærða við föður þeirra.
Vitnið kvað ekki neitt markvisst hafa verið gert til að vinna úr sorg þeirra systkinanna við fráfall móður þeirra, það hafi ekkert verið rætt. Áfallahjálp hafi ekki verið í tísku á þessum tíma. Faðir þeirra hafi haldið þessu fyrir sig og hver þurft að vinna fyrir sig eftir bestu getu.
Aðspurt kvaðst vitnið svo sem geta tekið undir það, að það hafi af þeim systkinunum verið í mestu uppáhaldi hjá föður þeirra. Kvað vitnið þá skýringu líklegasta, að það hafi í gegnum tíðina verið mest áberandi þeirra systkinanna á mörgum sviðum og hafi faðir þeirra verið ánægður með að sjá getið um eitthvert barna sinna opinberlega. Hafi þetta þó einkum verið eftir að vitnið hafi verið komið á framhaldsskólaaldur. Vitnið kvað þetta þó ekki hafa verið þannig, að það hafi notið forgangs hjá föður þeirra umfram hin systkinin.
Almennt kvað vitnið samskipti ákærða við föður þeirra bræðra hafa verið mjög heilbrigð miðað við margt annað sem vitnið hafi séð, en vitnið kvaðst hafa starfað mikið með börnum og unglingum. Þá hafi samskipti ákærða og föður þeirra bræðra undir það síðasta verið komin á annað stig, þeir hafi verið farnir að ræða framtíð búsins og gera áætlanir, t.a.m. hafi faðir þeirra innt ákærða eftir því, hvort hann hefði áhuga á að taka við búinu. Vitnið kvað ákærða hafa haft áhuga á að vera áfram í Bláhvammi og þá með einhverskonar rekstur, búfénað eða ferðaþjónustu. Kvað vitnið ákærða hafa af þeim systkinunum verið þann, sem mestan áhuga hafi haft á bústörfum, en sjálft kvaðst vitnið ekki hafa sérstakan áhuga á slíku. Aðspurt um afstöðu ákærða til mögulegrar sölu á sauðfjárkvóta jarðarinnar kvað vitnið þá bræður hafa verið sammála um, að ef selja ætti kvótann yfir höfuð, þá væri rétt að gera það nú. Kvað vitnið marga aðra möguleika vera í stöðunni hvað jörðina snerti, þar sé jarðvarmi og staðsetningin góð m.t.t. ferðaþjónustu. Það hafi því ekki verið nein ástæða til að hengja sig á sauðfé eingöngu. Aðspurt kvaðst vitnið vera mjög tengt Bláhvammi og væri svo einnig um ákærða.
Vitnið kvaðst kannast við að ákærði væri mikill dýravinur, en aðspurt kvaðst vitnið ekki muna eftir því, að ákærði hefði tekið hundsmissi neitt sérstaklega nærri sér. Á tímabili hafi verið nokkuð ör skipti á hundum á bænum, en þannig gangi hlutirnir fyrir sig í sveit. Aðspurt kvaðst vitnið ekki einu sinni muna eftir hundinum Hédda.
Um samskipti ákærða við Önnu Karin Jónsdóttur bar vitnið, að það hafi verið „ansi mikill hávaði í kringum þetta hjá þeim“.
Vitnið kvaðst muna til þess að hafa tekið riffilinn yfir í Bláhvamm, en ekki muna hvort það hafi verið að ósk Önnu Karinar eða að eigin frumkvæði. Skot kvað vitnið ekki hafa verið geymd á neinum ákveðnum stað í Bláhvammi í gegnum tíðina.
Vitnið Kolbrún Jenný Sigurjónsdóttir kvaðst hafa kynnst Jóni Frímanni Jónssyni í mars 1998. Hafi kynni þeirra í fyrstu verið í gegnum síma, en síðan hafi vitnið heimsótt Jón Frímann nokkrum sinnum í Bláhvamm og hafi þau orðið mjög góðir og nánir vinir. Kvaðst vitnið hafa hitt ákærða nokkrum sinnum. Gat vitnið þess, að því hafi fundist mjög gott á milli þeirra feðga í þau skipti, sem vitnið hafi komið í Bláhvamm.
Vitnið kvaðst hafa talað við Jón Frímann í síma aðfaranótt 18. mars s.l. og hafi þau rætt um allt milli himins og jarðar. Kvað vitnið Jón Frímann hafa verið þreyttan og ergilegan. Vitnið kvað Jón Frímann hafa tjáð sér að sambandi ákærða við Önnu Karin Jónsdóttur væri lokið og að það væri erfitt, en meira hafi hann ekki rætt það mál. Þá kvað vitnið Jón Frímann einnig hafa tjáð sér, að honum hefði verið boðið á ball, en hann ekki farið. Aðspurður um hvort hann hafi drukkið hafi hann kveðið það lítið, hann hefði farið og keypt sér eina kippu af bjór, en þegar hann hafi ætlað að drekka bjórinn hafi verið búið að taka það mikið af honum, að hann hafi verið næstum búinn. Vitnið kvað Jón Frímann hafi tjáð sér að ákærði hefði tekið bjórinn og tekið þannig til orða, að ákærði hefði „runnið á lyktina“. Aðspurt kvaðst vitnið hafa skynjað gremju hjá Jóni Frímanni út í ákærða. Þá hafi í samtali þeirra komið fram, að ákærði hafi beðið föður sinn að keyra sig á ballið, en hann neitað því.
Kvað vitnið Jón Frímann hafa verið stuttan í spuna er þau hafi kvaðst, en það hafi verið óvenjulegt. Aðspurt kvað vitnið Jón Frímann ekki hafa verið háttaðan þegar vitnið hafi rætt við hann og kvaðst vitnið telja að símtalinu hafi lokið um kl. 03:00.
Vitnið kvaðst eitthvað hafa rætt við Jón Frímann í gegnum tíðina um samband hans við ákærða, en Jón Frímann hafi þó ekki viljað ræða það mikið. Kvaðst vitnið hafa skynjað, að Jón Frímann hafi viljað vernda ákærða mikið og hafi hann verið sérstaklega hræddur um ákærða þegar hann hafi verið á böllum.
Vitnið Bergþóra Á. Reynisdóttir geðhjúkrunarfræðingur kvað sín fyrstu kynni af Jóni Frímanni Jónssyni hafa verið er það var barn að aldri og var í sveit í Fagranesi í Aðaldal. Jón Frímann hafi komið talsvert inn á það heimili í tengslum við kórstarf.
Kvað vitnið eiginlega vináttu sína og Jóns Frímanns hins vegar hafa hafist sumarið 1992. Vitnið kvað samskipti sín við Jón Frímann upp frá því hafa verið mikil, en þau hafi mest farið fram í gegnum síma.
Vitnið kvað Jón Frímann hafa verið mikinn mann, góðhjartaðan og skilningsríkan. Kvað vitnið Jón Frímann hafa orðið fyrir miklu áfalli við skyndilegt fráfall eiginkonu sinnar og í kjölfar þess lagst í þunglyndi, sem leitt hafi til innlagnar á geðdeild tveimur árum seinna. Hann hafi hins vegar rifið sig upp úr því, en vitnið kvaðst þó telja, að hann hafi aldrei verið sami maður eftir það og í honum hafi blundað þunglyndiseinkenni. Jón Frímann hafi eftir andlát konu sinnar verið einn með börnin og haft af þeim vissar áhyggjur alla tíð, en þó sérstaklega af ákærða.
Vitnið kvaðst hafa merkt það á Jóni Frímanni síðustu tvö árin, að hann væri farinn að draga sig í hlé, hann hafi t.d. farið síður á böllin í sveitinni og verið hættur í karlakórnum. Kvað vitnið það hafa verið merki um ákveðið þunglyndi.
Kvaðst vitnið hafa hitt ákærða talsvert oft og lýsti vitnið samskiptum ákærða og föður hans sem mjög ljúfum. Ákærða kvaðst vitnið telja lokaðan og ræddi hann ekki tilfinningamál sín opinberlega. Kvaðst vitnið telja að ákærði hafi byrgt inni reiði og sorg yfir móðurmissinum. Samskipti vitnisins við ákærða hafi hins vegar verið mjög skemmtileg og hafi ákærði verið ákaflega ljúfur gagnvart vitninu.
Vitnið kvað Jón Frímann hafa haft áhyggjur af ákærða í vetur sem leið, einkum eftir að hann hafði slitið samskiptum við unga stúlku. Jón Frímann hafi vitað að ákærða liði illa, en ákærði hafi hins vegar ekki rætt neitt um það.
Kvaðst vitnið hafa rætt við Jón Frímann í síma aðfaranótt 18. mars s.l. og hafi hann verið að drekka bjór, en það hafi hann gert gjarnan þegar hann hafi hringt í vitnið. Hafi Jón Frímann verið í mjög góðu skapi og m.a. tjáð vitninu, að sonur hans Böðvar væri að fara í mergskiptaaðgerð til Svíþjóðar vegna krabbameins. Hafi Jón Frímann verið mjög glaður yfir því að þessi aðgerð væri hugsanlega skref í rétta átt. Þá hafi Jón Frímann getið þess, að hann ætlaði að hætta búskap næsta haust og myndi fá út úr því einhverja peninga og gæti því farið að sjá fram á notalega tíð. Í samtalinu hafi það einnig komið fram, að ákærði hefði farið á ball, en Jón Frímann ekki nennt að fara.
Vitnið Ingimar Hjálmarsson, læknir, kvaðst hafa verið vakthafandi á heilsugæslustöðinni á Húsavík að morgni 18. mars s.l. Kvaðst vitnið hafa fengið um það boð eftir hefðbundnum leiðum, að mannslát hefði átt sér stað í Bláhvammi og að óskað væri eftir lækni og sjúkrabíl á staðinn. Hafi vitnið þegar farið í sjúkrabifreið í Bláhvamm. Þegar þangað var komið hafi ákærði verið í eldhúsinu ásamt lögreglumanni og hafi hann verið mjög niðurbeygður og grátandi. Kvaðst vitnið hafa farið inn í svefnherbergi Jóns Frímans ásamt Aðalsteini Júlíussyni lögregluvarðstjóra. Þar inni hafi Jón Frímann legið í rúmi sínu hálf hulinn sæng og hafi riffill legið ofan á sænginni. Við hafi blasað verulegir áverkar á höfði og blóðugur koddi, sem legið hafi við hlið hins látna.
Vitnið kvaðst hafa staðfest það að Jón Frímann væri látinn, en ekki gert á honum ítarlega skoðun þar sem þegar á þeirri stundu hafi legið fyrir að fram myndi fara réttarkrufning og læknum hafi borist þau tilmæli frá réttarlæknum, að hrófla við sem minnstu. Við lauslega skoðun kvaðst vitnið hafa fundið áverka á höfði hins látna, en ekki skoðað þá ítarlega á staðnum. Kvað vitnið áverkana hafa verið greinilega á enni, blætt hafi í vefi þar í kring og bæði augu verið umlukin blæðingum. Þá hafi töluverð blæðing verið undir höfði hins látna.
Við skoðun sína kvaðst vitnið jafnframt hafa fundið góðan hita í holhöndum. Ekki hafi verið um að ræða verulega stirðnun en þó hafi líkblettir aðeins verið að byrja að koma fram. Aðspurt kvaðst vitnið ekki búa yfir nægjanlegri sérfræðiþekkingu til að segja nákvæmlega til um dánarstund, en við mat á því spili margt inn í, t.a.m. hitinn í herberginu og sú staðreynd að hinn látni hafi legið undir sæng. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í neinum vafa um það að Jón Frímann hlyti að hafa látist samstundis af áverkum sínum.Eftir lauslega skoðun vitnisins kvaðst það hafa beðið meðan lögregla framkvæmdi sína skoðun, en síðan hafi verið gengið frá hinum látna til flutnings.
Kvaðst vitnið hafa verið alveg lokað fyrir því að um annað en sjálfsvíg hefði verið að ræða.
Vitnið Aðalsteinn Júlíusson, varðstjóri í lögreglunni á Húsavík, vann frumskýrslu lögreglu í málinu. Vitnið bar fyrir dómi, að rúmlega kl. 8:00 að morgni 18. mars 2000 hafi ákærði hringt í bakvaktarsíma lögreglu og tilkynnt að faðir sinn væri látinn. Kvaðst vitnið hafa heyrt það á ákærða að honum hafi verið mjög brugðið, hann hafi verið grátandi eða kjökrandi og átt erfitt með að tala. Hafi ákærði einungis sagt, að faðir hans væri dáinn og hvort vitnið vildi ekki koma. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða um hvar faðir hans væri og hafi ákærði svarað því til, að hann væri inni í herbergi. Hafi ástand ákærða verið þannig að vitnið hafi metið það svo, að það fengi ekki frekari upplýsingar frá ákærða að sinni.
Í kjölfar símtals ákærða kvaðst vitnið hafa hringt í neyðarsíma sjúkrahússins á Húsavík og óskað eftir sjúkrabíl og lækni á staðinn. Að því loknu hafi vitnið hringt í Bjarna Höskuldsson varðstjóra í lögreglunni á Húsavík, sem búi á Aðalbóli í Aðaldal, og fengið hann til að koma með vitninu á staðinn.
Vitnið kvaðst síðan hafa flýtt sér á vettvang í lögreglubifreið og hafi það verið komið á vettvang um 20 mínútum síðar. Þá hafi Bjarni Höskuldsson verið nýkominn í Bláhvamm og hafi hann verið hjá ákærða, sem setið hafi á stól í gangi hússins. Kvaðst vitnið þá hafa farið að leita Jóns Frímans og hafi það fundið hann í herbergi, sem sé inn af stofu hússins. Vitnið kvað sér hafa brugðið nokkuð er það hafi komið að Jóni, þar sem það hafi ekki, miðað við tilkynningu ákærða, gert ráð fyrir þessari aðkomu. Vitnið hafi þó strax kannað hvort lífsmark væri með Jóni Frímanni, en svo hafi ekki verið.
Örskömmu síðar hafi komið á vettvang sjúkraflutningsmenn og Ingimar Hjálmarsson læknir. Hafi vitnið ásamt Ingimari framkvæmt hina hefðbundnu stuttu líkskoðun, m.a. reynt að meta hvenær Jón Frímann hefði látist, hvort velgja væri enn til staðar o.s.frv. Vitnið kvað mikið blóð hafa verið á vettvangi, blóðkám hafi verið á fötum, höndum og fingrum hins látna og einnig á byssuskeftinu. Við höfðalag hafi blætt í gegnum dýnuna og niður í rúmbotn. Aðspurt kvaðst vitnið telja að blóð hafi jafnframt verið á byssuhlaupinu. Þá hafi mikið blóð verið í andliti hins látna. Vitnið kvað lögreglu fljótlega eftir komu sína á vettvang hafa fengið upplýsingar um, að hinn látni hefði haft ítrekaðar og miklar blóðnasir.
Kvað vitnið það hafa verið mat lögreglu, læknis og sjúkraflutningsmanna á þessari stundu, miðað við útlit vettvangs, að um sjálfsvíg væri að ræða. Aðgerðir lögreglu í framhaldinu hafi markast af greindu mati, t.a.m. sé hefð fyrir því að hrófla ekki við látnum mönnum, sem svipt hafi sig lífi, heldur senda líkin beint til krufningar. Sé þessi háttur hafður á vegna óska krufningarlækna. Hinum látna hafi verið komið í líkpoka og út í sjúkrabifreið, eftir að vitnið hafði ljósmyndað vettvang. Tók vitnið fram að lögregla, læknir eða sjúkraflutningsmenn hafi ekkert verið búnir að hreyfa við hinum látna, þegar vettvangur hafi verið myndaður.
Vitnið kvaðst á vettvangi ekki hafa skynjað neitt sem ekki gengi upp miðað við það mat manna, að um sjálfsvíg hefði verið að ræða. En þegar vitnið hafi sest niður við frumskýrslugerð og tekið að skoða myndir af vettvangi, þá hafi vitninu hins vegar þótt staðsetning byssunnar sérkennileg, en byssan hafi legið á bringu hins látna, líkt og hún hefði verið lögð þar. Kvað vitnið lögreglu hafa verið komna af stað með eftirgrennslan vegna þessa áður en krufningarlæknir hafi upplýst um að fleiri en eitt skotsár væri á höfði hins látna. Þá kvað vitnið legu koddans hafa verið sérstaka, en hann hafi legið til hliðar, en vitnið hafi þó sett legu koddans í tengsl við blóðnasir ákærða og talið hann hafa getað legið á koddanum og fengið blóðnasir og þannig komist blóð í koddann. Koddanum hafi hins vegar verið hent og sé hann því ekki til staðar sem gagn í málinu. Kvað vitnið koddann einungis hafa verið blóðugan að ofan. Aðspurt kvaðst vitnið ekki reka minni til þess að kúlugat hafi verið á koddanum.
Vettvang kvað vitnið hafa verið þrifinn m.t.t. þess, að átt hefði sér stað sjálfsvíg. Þrifið hafi verið með vatni og sápu og allt hafi verið fjarlægt úr rúminu, rúmplata, rúmdýna, rúmföt og allt annað, sem atað hafi verið blóði.
Kvaðst vitnið hafa tekið eftir blóði á höfðagafli og upp á vegg í átt að lampa, sem verið hafi á veggnum. Þá hafi fundist litlar slettur í lofti við loftljós, sem við svokallað forpróf hafi reynst vera blóðslettur, og uppi við mynd sem verið hafi ofan við rúmið. Jafnframt hafi ýrst blóð á bækur, sem legið hafi á rúmi hins látna.
Vitnið kvaðst hafa velt fyrir sér blóði á vegg og höfðagafli og getið sér þess til, að höfuð hins látna hefði getað kastast til við skotið, eða þá slest blóð á vegg og rúmgafl við fall hins látna niður í rúmið, að því gefnu að hann hefði setið uppréttur í rúminu, er skotið reið af. Vitninu hafi þó ekki þótt þessi ályktun sín ganga alveg upp.
Vitnið kvað kúlubrot, sem síðar hafi fundist á vettvangi, hafa legið ofan við rúmplötu uppi við höfðagafl, hægra megin við hinn látna, fyrir miðjum hægri hluta rúmsins. Engar ákomur hafi hins vegar fundist á höfðagafli, þrátt fyrir gaumgæfilega rannsókn.
Vitnið kvaðst hafa tekið þátt í handtöku ákærða þann 21. mars s.l. í Bláhvammi. Farið hafi verið á tveimur lögreglubifreiðum, í annarri hafi verið vitnið og Bjarni Höskuldsson en í hinni Hreiðar Hreiðarsson varðstjóri og Sigurður Brynjúlfsson yfirlögregluþjónn. Er komið hafi verið að Bláhvammi hafi ákærði verið á gangi milli Laufahlíðar og Bláhvamms og hafi vitnið ásamt Bjarna kallað til ákærða og beðið hann að koma og tala við þá. Hafi þeir útskýrt ástæður komu lögreglunnar, tilkynnt ákærða að hann væri handtekinn og kynnt honum rétt hans. Ákærði hafi stirðnað upp og tekið að skjálfa og fljótlega hafi hann brostið í grát. Því næst hafi ákærði verið leiddur inn í lögreglubifreið og þar hafi vitnið setið hjá honum í 10-15 mínútur áður en farið hafi verið með ákærða til Húsavíkur. Hafi ákærði grátið mest allan þann tíma og hafi þeir því rætt lítið saman.
Kvað vitnið Sigurð Brynjúlfsson og Hreiðar Hreiðarsson hafa tekið Ólaf Skúla Guðjónsson, hálfbróður ákærða, tali á meðan vitnið og Bjarni Höskuldsson hafi handtekið ákærða. Sigurður og Hreiðar hafi í framhaldinu farið með ákærða til Húsavíkur en vitnið og Bjarni orðið eftir í Bláhvammi og rætt þar við ættingja og gert ráðstafanir til að loka herbergi því, sem Jón Frímann hafi fundist í.
Vitnið kvaðst hafa tekið myndir á vettvangi þann 22. mars s.l. að viðstöddum, Bjarna Bogasyni aðstoðaryfirlögregluþjóni og Sævari Jóhannessyni lögreglufulltrúa. Á þeim tíma hafi því ekki verið til staðar á vettvangi maður líkari ákærða að stærð og þyngd og því hafi Bjarni verið myndaður við rúm hins látna. Kvað vitnið tilgang myndatökunnar hafa verið, að sýna fjarlægð rúms frá suðurvegg og kanna beitingu 1 m langs riffils í nefndu bili.
Aðspurt kvaðst vitnið hafa verið viðstatt sviðsetningu aðburðarins þann 2. maí 2000 í Bláhvammi.
Fram kom hjá vitninu að það hafi gert þær vettvangsteikningar, sem fyrir liggja í málinu. Staðfesti vitnið að samkvæmt teikningu VII.2.1. væri 30 cm frá gólfi upp að rúmbrík.
Vitnið kvaðst aðspurt telja, að það skot, sem bæði hafði inn- og útskotsop í höfði hins ákærða, hafi verið fyrsta skotið. Kvaðst vitnið, miðað við ummerki, telja afar ólíklegt, að hin látni hafi setið uppi er skotið hafi lent í honum og taldi vitnið að höfuð hins látna hafi legið á kodda er skotið hafi hæft hann.
Aðspurt kvað vitnið það sína skoðun, að erfitt væri að fá frásögn ákærða, um að hann hafi annað hvort setið eða kropið við rúm föður síns, til að ganga upp. Miðað við það sem rannsókn málsins hafi leitt í ljós, þ.e. áætlaða fjarlægð hlaups frá andliti hins látna er skotið hafi hlaupið úr byssunni og blóðferilinn þegar kúlan hafi komið út, þá sé það álit vitnisins, að frásögn ákærða gangi ekki upp. Vitnið kvaðst þó ekki geta fullyrt neitt um hvort framburður ákærða þess efnis, að faðir hans hafi risið upp í rúminu og þannig fengið í sig skotið, gæti staðist, en til þess hefði, að mati vitnisins, byssan þurft að vera nærri lárétt og hlaupendinn mjög nálægt andliti hins látna en þá hefði blóðslóðin átt að byrja ofar á veggnum og fara hærra upp á vegginn.
Vitnið Bjarni Höskuldsson, varðstjóri í lögreglunni á Húsavík, bar fyrir dómi, að Aðalsteinn Júlíusson varðstjóri hafi hringt í vitnið að morgni 18. mars s.l. og greint því frá símtali, sem Aðalsteinn hafði átt við ákærða skömmu áður. Vitnið kvaðst í framhaldinu hafa haft samband við séra Þorgrím, prest á Grenjaðarstað, en því næst haldið í Bláhvamm. Kvaðst vitnið hafa þekkt þar aðeins til og því farið inn bakdyramegin og hitt þar á ákærða, þar sem hann hafi setið við símann á gangi hússins. Kvað vitnið ástand ákærða hafa verið slæmt, hann hafi verið í mikilli geðshræringu, hrists og sagt fátt. Vitnið hafi kropið niður hjá ákærða og verið hjá honum þar til Aðalsteinn hafi komið á vettvang. Aðalsteinn hafi strax farið inn í herbergi Jóns Frímanns og þá hafi komið í ljós, að andlát Jóns Frímans hefði ekki borið að með þeim hætti, sem vitnið hafði búist við miðað við tilkynningu ákærða.
Stuttu eftir komu lögreglu í Bláhvamm hafi hringt kona af næsta bæ og á vettvang komið fólk frá bæjunum Litlu-Reykjum og Hveravöllum. Þá hafi fljótlega komið á staðinn Ingimar Hjálmarsson læknir ásamt sjúkraflutningsmönnum og hafi Ingimar úrskurðað Jón Frímann látinn. Vitnið kvað það hafa verið ályktun þess og Aðalsteins eftir skoðun á vettvangi, að um sjálfsvíg væri að ræða og hafi aðgerðir lögreglu verið við það miðaðar. Hinn látni hafi í framhaldinu verið fluttur til Húsavíkur og lögregla því næst þrifið herbergið og tekið rúmfatnað, báðar dýnurnar, hálfan rúmbotninn og ýmislegt annað, til eyðingar.
Blóðkám kvað vitnið hafa verið mikið á hinum látna, á höndum og á bol og jafnframt á rifflinum og kodda, sem legið hafi við hlið hins látna. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta staðsett blóðið nákvæmlega á rifflinum. Þá hafi mikið blóð verið í andliti hins látna og á rúmdýnunni. Kvað vitnið lögreglu hafa á vettvangi fengið upplýsingar um að hinn látni hefði verið með miklar blóðnasir kvöldið áður. Þá hafi eitt af því fáa, sem ákærði hafi tjáð vitninu á vettvangi, verið, að hann hafi komið að föður sínum og hugsanlega eitthvað hreyft við honum, en ákærði þó lítið getað gert grein fyrir því, sem hann hafi gert. Vitnið kvað nefnt blóðkám af þessum sökum ekki hafa vakið verulega furðu hjá lögreglu, en vitnið hafi þó af blóðkáminu einnig dregið þá ályktun, að hinn látni hefði ekki látist samstundis.
Vitnið kvaðst á vettvangi hafa veitt athygli blóðslettum frá miðjum höfðagafli og upp á vegg, m.a. á lampa, sem hangið hafi á veggnum. Það hafi hins vegar ekki verið að merkja nein för eftir byssukúlu á rúmgaflinum. Kvaðst vitnið, eftir könnun á rannsóknargögnum málsins, telja líklegast, að höfuð hins látna hafi verið neðarlega þegar skotið hafi komið út úr hnakkanum.
Kvaðst vitnið hafa verið viðstatt er brot úr kúlu fannst hægra megin í rúmi hins látna, þar sem það lá upp við höfðagaflinn. Vitnið kvaðst telja, að staðsetning kúlunnar segði ekkert um mögulega skotstefnu, kúlan hafi upphaflega getað legið í laki, á dýnu, í sænginni eða í hverju sem var, en búið hafi verið að þrífa vettvang og taka þar til, er kúlan hafi fundist.
Aðspurt um hvort frásögn ákærða af atburðum fyrir dómi gæti staðist að mati vitnisins, bar vitnið, að því fyndist sú frásögn ákærða, að hann hafi setið við rúmið með riffilinn milli fóta sinna, ekki trúverðug, en sú lýsing hafi vitninu fundist frá upphafi ekki geta gengið upp, vegna lengdar riffilsins. Ef ákærði hafi hins vegar kropið, útiloki lengd riffilsins ekki að frásögn ákærða geti staðist, en þá hafi hinn látni þurft að reisa sig mjög upp í rúminu til að kúluferillinn passaði við það skot, sem farið hafi inn neðan við augað. Vitnið kvað blóðferla á vettvangi hins vegar ekki passa við þessa atvikalýsingu.
Kvaðst vitnið aðspurt hafa aflað samþykkis ákærða fyrir að fram færi réttarkrufning á líki föður hans og hafi ákærði veitt það samþykki möglunarlaust.
Vitnið kvaðst hafa átt þátt í handtöku ákærða þann 21. mars s.l. Er vitnið, ásamt þremur öðrum lögreglumönnum, hafi komið á vettvang, hafi þeir strax komið auga á ákærða og vitnið ásamt Aðalsteini Júlíussyni gengið að ákærða. Hafi þeir gert ákærða grein fyrir ástæðu komu lögreglunnar, kynnt ákærða rétt hans, leitt hann að lögreglubifreið, fært hann í járn og hafi ákærði því næst sest inn í lögreglubifreiðina með Aðalsteini. Aðspurt kvað vitnið viðbrögð ákærða við handtökunni hafa verið nær engin, hann hafi virst frosinn og fjarrænn.
Vitnið staðfesti það aðspurt, að hafa m.a. verið í því hlutverki við yfirheyrslur þann 30. mars og 1. apríl s.l. að ganga á ákærða. Aðspurt kvað vitnið ákærða hafa grátið við yfirheyrslur. Þá staðfesti vitnið að það hafi ekki komið að fleiri yfirheyrslum yfir ákærða, en kvað það einfaldlega hafa verið vegna vinnutilhögunar en ekki vegna kröfu ákærða.
Þá kvaðst vitnið hafa verið viðstatt sviðsetningu atburða með ákærða þann 2. maí s.l. í Bláhvammi.
Vitnið Sigurður Brynjúlfsson, yfirlögregluþjónn, kvaðst hafa verið á vettvangi er ákærði var handtekinn þann 21. mars s.l. í Bláhvammi. Kvað vitnið Bjarna Höskuldsson varðstjóra í upphafi hafa rætt við ákærða, sem síðan hafi verið færður inn í lögreglubifreið. Vitnið kvaðst í Bláhvammi hafa rætt við nokkra ættingja ákærða, sem þar hafi verið staddir, m.a. hálfbróður hans Ólaf Skúla Guðjónsson.
Fram kom hjá vitninu að það hafi unnið að skýrslutökum af ákærða í málinu. Kvað vitnið samskipti sín við ákærða hafa verið allan tímann mjög góð og á rólegu nótunum og hafi ákærði í upphafi lýst sig samstarfsfúsan.
Vitnið kvaðst geta fullyrt að ákærða hafi hvergi verið lögð orð í munn við skýrslutökur. Vitninu hafi strax í upphafi máls orðið það ljóst, að gæta þyrfti þess að leita eftir túlkun ákærða á atburðunum og passa sig á því að leiða hann ekki áfram í gegnum atburðarásina með því að gefa honum einhverja punkta, sem hann síðan prjónaði í kringum, en slíkrar tilhneigingar hafi gætt hjá ákærða. Hann hafi leitað mjög sterkt eftir því hvað lögregla vissi og punktum frá henni. Hafi vitnið talið ákærða sýna ýmis merki sefnæmi og hafi verið gætt sérstakrar varúðar við yfirheyrslur vegna þess.
Vitnið kvað það hafa verið mat þess og Hreiðars Hreiðarssonar varðstjóra á fyrstu stigum yfirheyrslna yfir ákærða, að það væri einhver hjalli í málinu, sem ákærði ætti erfitt með að komast yfir. Af þeim sökum hafi verið brugðið á það ráð, í samráði við verjanda ákærða, að bjóða ákærða að ræða einslega við Hreiðar, en ákærði hafi áður og að fyrra bragði opnað sig við hann. Aðspurt um hvort ákærða hafi í þeirri skýrslutöku, sem fylgdi á eftir eintali ákærða og Hreiðars, verið lögð orð í munn, neitaði vitnið alfarið að svo hefði verið.
Kvað vitnið framburð ákærða varðandi atburðarásina fyrir og eftir fyrsta skotið frá upphafi hafa virst nokkuð ljósan. Kvað vitnið ákærða hins vegar aldrei hafa getað gert lögreglu fyllilega grein fyrir atburðarásinni í kringum fyrsta skotið. Þar hafi frásögn hans verið mjög á reiki og aldrei fengist nein heildstæð mynd. Ákærði hafi talað um að það væru tvær myndir sem væru að brjótast um í höfði hans. Í fyrstu hafi hann skýrt þannig frá, að faðir hans hafi átt hlut að máli með því að vakna og taka í riffilinn, en síðan hafi hann horfið frá þeirri frásögn og í síðari skýrslum verið alveg klár á því að faðir hans hefði aldrei vaknað. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt, að frásögn ákærða fyrir dómi og í upphafi yfirheyrslna hjá lögreglu geti ekki staðist, en vitnið kvað það þó vera sína skoðun, að síðari frásögn ákærða af atburðum við skýrslutökur væri sennilegri.
Kvað vitnið nánast óhugsandi miðað við að ákærði hafi setið við rúm föður síns að frásögn hans gæti staðist. Nefndi vitnið sérstaklega lengd riffilsins í þessu sambandi, í þeirri stöðu hefði riffillinn verið kominn yfir höfuð ákærða. Ákærði hafi frekar geta komið rifflinum fyrir hafi hann kropið. Kvað vitnið nánast útilokað að fyrsta skotið hafi getað farið þá leið í gegnum höfuð hins látna, sem hún virðist hafa farið, miðað við að hinn látni hafi alltaf legið útaf og ákærði setið eða kropið með riffilinn í þeirri skotstöðu að hafa ætlað að taka sitt eigið líf. Þá kvað vitnið blóðferilinn á höfðagafli og vegg passa mun betur við að hinn látni hafi legið útaf þegar fyrsta skotið hafi hlaupið úr byssunni. Kvað vitnið aðspurt hægt að hugsa sér, að hinn látni hafi risið upp og lotið að hlaupi riffilsins, en taldi vitnið að hefði það gerst hefðu blóðferlarnir orðið öðruvísi. Vitnið benti einnig á að ýmislegt annað hefði gengið á í herbergi hins látna en riffilskotin og kvað vitnið seint hægt að fullyrða hvort blóðsletturnar uppi í lofti væru afleiðing skotanna.
Vitnið kvað leit hafa verið gerða að beinflísum á vettvangi, en vitninu væri ekki kunnugt um að nokkuð slíkt hafi fundist.
Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta séð að tímasetningin hafi skipt öllu máli er farið var með ákærða á vettvang til sviðsetningar á atburðum.
Aðspurt um menntun kvaðst vitnið auk lögreglumenntunar sinnar vera kennaramenntað og jafnframt hafi það sótt námskeið varðandi sefnæmi við yfirheyrslur.
Vitnið Hreiðar Hreiðarsson, lögregluvarðstjóri, kvaðst fyrst hafa komið að málinu þann 21. mars s.l. er vitnið ásamt þremur öðrum lögreglumönnum hafi farið í Bláhvamm. Aðalsteinn Júlíusson og Bjarni Höskuldsson, lögregluvarðstjórar, hafi þar handtekið ákærða með formlegum hætti við Laufahlíð og kvað vitnið ákærða hafa verið mjög niðurlútan við handtökuna. Vitnið og Sigurður Brynjúlfsson yfirlögregluþjónn hafi hins vegar farið að heimilinu þar sem fólk hafi verið inni. Því næst hafi vitnið og Sigurður tyllt sér inn í lögreglubifreið ásamt Ólafi Skúla Guðjónssyni, hálfbróður ákærða, en ákærði verið færður í aðra lögreglubifreið. Hafi vitnið og Sigurður rætt við Ólaf Skúla nokkra stund, en að því loknu hafi verið haldið til Húsavíkur með ákærða.
Kvaðst vitnið hafa verið um 10-15 mínútur á vettvangi í Bláhvammi, en síðan hafi vitnið og Sigurður eins og áður sagði flutt ákærða í lögreglubifreið til Húsavíkur, en Aðalsteinn og Bjarni orðið eftir í Bláhvammi. Kvaðst vitnið hafa setið við hlið ákærða í aftursæti lögreglubifreiðarinnar og hafi ákærði ekki sagt neitt á leiðinni, hann verið snöktandi og nánast alveg stjarfur og miður sín.
Við komuna til Húsavíkur hafi ástand ákærða verið metið þannig, að ekki væri ráðlegt að loka hann inni í fangaklefa og því hafi hann verið færður í setustofu á lögreglustöðinni og hafi vitnið sest þar hjá honum. Hafi ákærði verið mjög illa á sig kominn, niðurlútur og miður sín og sýnt miklar geðsveiflur, en ekki sýnt þau viðbrögð, sem vitnið hafi áður séð hjá handteknum mönnum, sem eftir á að hyggja hafi kannski ekkert af sér gert. Kvaðst vitnið ekki hafa rætt neitt við ákærða inni í setustofunni utan þess, að vitnið hafi svarað spurningum ákærða um hvert framhaldið yrði í grófum dráttum. Vitnið kvað ákærða hafa nefnt að hann væri hræddur og að hann vildi ekki að hann yrði skilinn eftir einn og hafi verið við því orðið. Þá hafi ákærði óskað eftir því, að þegar til skýrslutöku kæmi, þá yrði það vitnið, sem tæki þá skýrslu.
Kvað vitnið ákærða hafa gegnum grátinn og ekkann gefið vitninu grófa mynd af því sem gerst hefði, ákærði hafi eitthvað nefnt um að hann hafi orðið valdur að dauða föður síns, að hann hefði ætlað að fara sjálfur og að um þrjú skot hefði verið að ræða. Kvaðst vitnið ekki hafa viljað spyrja ákærða neitt, en beðið hann um að tjá sig ekki frekar heldur reyna að slaka á þar til yfirheyrslu kæmi.
Vitnið kvað ástæðu þess, að ákærði ræddi einslega við það meðan á yfirheyrslum stóð, vera að ákærði hafi litið á vitnið sem e.k. trúnaðarvin, miðað við hvernig samskipti þeirra hafi þróast í upphafi. Kvað vitnið það hafa verið álit lögreglu á þessum tíma, miðað við þær skýrslur sem þá höfðu verið teknar og út frá samanburði á efni þeirra og vettvangi, að í skýrslunum væru atriði sem engan vegin gætu staðist. Nefndi vitnið sérstaklega lýsingu ákærða á því hvernig hann hefði borið sig að við fyrsta skotið, þ.e.a.s. að hann hafi setið með bakið að rúmi í bilinu milli rúms og veggjar. Kvað vitnið mælingar hafa verið gerðar sem lögreglu hafi ekki fundist geta gengið upp miðað við þennan framburð ákærða og beitingu vopnsins í nefndu bili. Lögregla hafi því talið mögulegt, að ákærði væri í einhverri klemmu og að hann kæmist ekki rétta leið með sinn framburð, jafnvel vegna þess að hann væri búinn að segja ósatt frá einhverju. Hafi lögregla talið mögulegt að ákærði vildi ekki brjóta þann trúnað, sem hann teldi hugsanlega að skapast hefði við yfirheyrslurnar, með því segja öðru vísi frá en hann hafði gert í upphafi. Vitnið kvaðst ásamt Sigurði Brynjúlfssyni hafa skýrt þessi atriði út fyrir verjanda ákærða og hafi hann ekki verið því mótfallinn, að vitnið ræddi einslega við ákærða. Tók vitnið fram að það hafi í nefndu samtali tjáð ákærða, að það vildi ekki að ákærði segði vitninu í trúnaði frá einhverju, heldur væri tilgangur samtals þeirra að koma framangreindum skilaboðum til ákærða.
Aðspurt kvaðst vitnið í samtali þess við ákærða ekki hafa gefið honum upp neina möguleika á því hvernig hann hefði hugsanlega borið sig að við fyrsta skotið. Hafi vitnið gætt sín sérstaklega á því að nefna ekkert slík, þ.e. ekkert leiðandi. Jafnframt kvað vitnið ákærða ekki hafa verið gerð grein fyrir því hver þau atriði væru, sem lögreglu fyndist ekki geta gengið upp. Kvað vitnið ákærða hafa nefnt að hugsanlega sæi hann fyrir sér tvær myndir, en lengra hafi hann ekki komist þar sem vitnið hafi stoppað hann og beðið að nefna engin málsatvik við vitnið í þessu samtali. Aðspurt um hvort vitninu þætti hin nýja mynd ákærða geta gengið upp kvaðst vitnið ekki þora að leggja mat á það.
Vitnið kvaðst hafa verið viðstatt skýrslutöku af ákærða þann 3. apríl s.l., sem fram hafi farið í framhaldi af lýstu samtali vitnisins við ákærða. Kvað vitnið það, sem bókað sé í skýrslunni eftir ákærða, hafa komið frá honum sjálfum. Aðspurt um hvort mynd, sem sýnir Bjarna J. Bogason aðstoðaryfirlögregluþjón reyna að koma sér niður í bilið milli rúms og veggjar í herbergi hins látna, hafi haft mikil áhrif á rannsóknina, kvað vitnið myndina hafa haft töluverð árhrif. Tók vitnið fram að lögregla hafi jafnframt sett upp samskonar aðstæður á lögreglustöðinni og prófað á ýmsa kanta hvernig hægt væri að bera sig að í nefndu bili. Kvaðst vitnið kannast við að ákærði hafi óskað eftir að fá að sviðsetja gerðir sínar á einhvern hátt. Hafi það ekki verið gert strax, en það hafi þó verið gert síðar í Bláhvammi.
Kvað vitnið lögreglu hafa fundist það nokkuð sérkennilegt, að mynd ákærða af atburðarásinni hafi virst vera mjög skýr, þ.e. framan af, þangað til komið hafi að fyrsta skotinu, þá hafi atburðarás virst vera mjög óljós, en eftir það hafi rás atburða aftur virst nokkuð ljós.
Kvað vitnið lögreglu hafa fundið það fljótlega á ákærða að hann sækti í að vera spurður spurninga frekar en hann segði sjálfstætt frá og þannig sótt í að vera leiddur í gegnum skýrslutökur. Hafi lögregla verið algerlega meðvituð um þetta og gætt sín að leiða ákærða ekki í gegnum þær.
Að lokum kvaðst vitnið aðspurt geta fullyrt að lýsing ákærða á því hvernig hann hafi borið sig að við fyrsta skotið gæti ekki staðist. Vitnið kvaðst hins vegar ekki geta fullyrt að síðari lýsing ákærða af fyrsta skotinu gæti staðist.
Vitnið Skarphéðinn Aðalsteinsson lögreglumaður kvaðst hafa komið í Bláhvamm 18. mars s.l. Þá hafi þegar verið komnir á vettvang Bjarni Höskuldsson og Aðalsteinn Júlíusson lögregluvarðstjórar, Ingimar Hjálmarsson læknir, sjúkraflutnings-menn og Þorgrímur prestur að Grenjaðarstað. Kvað vitnið hlutverk sitt hafa verið að aðstoða varðstjórana við frágang á vettvangi, þrif og annað slík.
Kvaðst vitnið hafa tekið eftir blóðferli sem legið hafi frá miðjum höfðagafli og upp að lampa á veggnum. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð blóð á suðurvegg herbergisins.
IV.
Þorgeir Þorgeirsson, yfirlæknir á meinafræðideild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, framkvæmdi krufningu á líki Jóns Frímans Jónssonar. Í niðurstöðum krufningarskýrslu Þorgeirs dags. 22. mars 2000, segir eftirfarandi:
„Við ytri skoðun, röntgenmyndatöku og krufningu hefur verið staðfest, að maðurinn hefur orðið fyrir alvarlegum skotáverka með verulegri heilaskemmd, og jafnframt blæðingum í og við heilann, en þrjú innskotsop fundust í andliti. Er áverkinn þess eðlis að hafa leitt til dauða með skjótum hætti. Rétt er að taka fram, að ekkert hefur fundist við krufninguna sem bendir til þess, að umræddur kransæðasjúkdómur hafi verið meðverkandi þáttur.“
Þann 28. apríl 2000 skilaði Þorgeir viðbótarniðurstöðum í tilefni af smásjárskoðun.
„Við smásjárskoðun hafi fyrri athuganir verið staðfestar í megin atriðum, sérstaklega hvað varðar heila og hjarta, auk þess sem það er staðfest að hvekk-kirtilofvöxtur af góðkynja. Til viðbótar ber einkum að nefna, að dálitlar blæðingar hafa fundist í lungnavef og væg fitubreyting í lifur.
Samkvæmt matsgerð Lyfjafræðistofnunar var etanólmagn í blóði 0,5 pró mill, í þvagi 1,27 pró mill, bendir þetta til þess að maðurinn hafi verið „undir lítilsháttar áhrifum“ er hann lést.“
Sigurður Brynjúlfsson yfirlögregluþjónn í lögreglunni á Húsavík lagði eftirfarandi spurningar fyrir Þorgeir með bréfi dags. 6. apríl 2000:
„ 1. Er unnt að leiða að því gild rök, eða jafnvel fullyrða, að kúlan með innskotsop yfir
hákinnbeininu vinstra megin myndi útskotsopið yfir hægra hvirfilbeini?
2. Eru þeir áverkar sem kúlan með innskotsop yfir v. kinnbeini banvænir?
3. Er unnt að fullyrða eitthvað um ástand mannsins eftir að hafa fengið kúluna frá þessu skoti í sig; þ.e. lést hann samstundis, var hann illa særður eða hefði verið mögulegt að bjarga lífi hans?
4. Voru áverkar frá hverju skoti fyrir sig banvænir?
Þorgeir svaraði spurningum yfirlögregluþjóns með bréfi dags. 11. apríl 2000 á eftirfarandi hátt og vísa númer Þorgeirs til númera á spurningum yfirlögregluþjóns:
„1. Það er vel hugsanlegt að svo sé, en verður þó ekki stutt óyggjandi rökum, þar
sem ekki hefur tekist að ákvarða einstakar skotstefnur nákvæmlega né aðgreina
fyrirliggjandi áverka á höfuðkúpu og heila, en þeir renna saman í eitt.
2. Þótt það sé raunar líklegt, er ekki hægt að fullyrða slíkt.
3. Það er í sjálfu sér ekki, hægt, en að öllum líkindum hefur hann verið lífshættulega særður, hins vegar er engan vegin víst, að hann hafi látist samstundis.
4. Það er vel mögulegt, en þetta er þó ekki hægt að fullyrða, því að til að mynda er ekki útilokað, að einhver skotáverkanna hafi verið því sem næst einskorðaður við ennisblað heilans.“
Vitnið staðfesti skýrslu þessa og bréf fyrir dómi og bar, að það sem dregið hafi Jón Frímann til dauða hafi verið heilaskemmd ásamt blæðingum. Kvað vitnið heilaskemmd geta verið það gagntæka, að öll starfsemi leggist af um leið, en til viðbótar skemmdinni bætist svo blæðingar. Í heila hins látna hafi stór og þýðingarmikil svæði verið skemmd. Lýsti vitnið því, að smátt og smátt valdi heilaskemmdir bjúgmyndun og gjarnan endi með því að heilastofninn þrýstist niður í mænugatið og það þrengist að honum, með þeim áhrifum að öndun upphefjist vegna lömunar öndunarmiðstöðvarinnar í heilastofninum. Í þeim tilvikum sé það því ekki sjálfur áverkinn, sem valdi dauða, heldur afleiðingar hans, þá einkum í formi heilabjúgs. Aðspurt kvað vitnið heilabjúg myndast á nokkrum mínútum.
Kvað vitnið ekki þurfa nema eitt skot af því tagi sem um ræði í málinu, til að valda heilabjúg, sem geti valdið dauða. Vitnið kvað skemmdir vegna skotanna hafa runnið saman í eitt og hafi ekki verið hægt að aðgreina afleiðingar hvers skots fyrir sig.
Vitnið kvað mikla áverka hafa verið á vinstra auga hins látna, það hafi verið saman- og innfallið. Þá hafi hægra hvirfilbeinið verið það sprungið að ekki hafi verið hægt að greina á því sérstakt op. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta séð fyrir sér að mikill blóðspýtingur hafi orðið við að riffilkúlan hafi farið út úr höfðinu.
Vitnið tók undir þá ályktun Bjarna J. Bogasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns, að skotið sem farið hafi inn neðan við vinstra auga hins látna, hafi verið skotið sem hafi útskotsop. Þá kvaðst vitnið aðspurt einungis geta dregið þá almennu ályktun af því, að opið neðan við vinstra auga hafi verið stærst, að byssuhlaupið hafi þá verið í minnstri fjarlægð frá andliti hins látna. Vitnið gerði athugasemd við staðsetningu útskotsops á líkani því, sem Bjarni J. Bogason útbjó, kvað vitnið opið hafa verið aðeins aftar á höfði hins látna.
Kvað vitnið það fræðilegan möguleika, að maður lifði af áverka eins og um væri að ræða. Séu þessa dæmi í tilvikum þar sem afturhluti heilans skaddist ekki, en þar séu m.a. hinar mikilvægu stöðvar sem stýri öndun, en umræddar stöðvar hafi ekki skaðast í tilviki Jóns Frímans. Hins vegar verði það að athuga, að í umræddum undantekningartilvikum missi viðkomandi meðvitund á stundinni og verði áfram í dái. Nefndi vitnið að í um 98-99 % tilvika deyi þeir, sem hljóti áverka eins og hér um ræðir, með skjótum hætti.
Bjarni J. Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóranum framkvæmdi rannsóknir á virkni riffils þess, sem um ræðir í málinu, fjarlægð hlaupenda frá höfði hins látna er skotin hlupu úr rifflinum og á skotstefnum. Niðurstöður hans koma fram í skýrslu dags. 26. maí 2000 og eru eftirfarandi:
„4. Niðurstöður
4.1 Virkni riffils
Virkni riffilsins er eðlileg þar með talið öryggi, átakslengd gikks, fall- og ásláttarprófun. Gikkurinn er ekki kvikur, stöðugt, eðlilegt átak, um 1,3 kg þarf til þess að riffillinn hleypi skoti af.
4.2 Fjarlægð Púðurbruni
Álit undirritaðs er að yfirgnæfandi líkur séu á að fjarlægð frá hlaupenda riffils að höfði Jóns Frímanns Jónssonar hafi verið um 5 cm. Undirritaður telur ólíklegt að um snertiskot hafi verið að ræða og að fjarlægðin hafi verið 10 cm eða meira.
4.3 Skotstefnur
Álit undirritaðs er að innskotsop á vinstra kinnbeini og útskotsop á hvirfli séu eftir sama skotið. Skotáverkar á enni eru ekki með sama áfallshorni á höfuð. Innbyrðis er áfallshorn áverkanna tveggja á enni svipað.“
Bjarni J. Bogason kom fyrir dóminn. Kvað vitnið það niðurstöðu rannsókna sinna, að engar líkur væru á því að skot hlaupi úr rifflinum án þess að tekið sé í gikkinn. Riffillinn sé ekki kvikur og við ítrekaðar fall- og ásláttarprófanir þá hafi hann ekki hleypt af án þess að tekið væri í gikkinn.
Kvaðst vitnið einnig hafa gert fjarlægðarprófanir og hafi niðurstaða vitnisins verið sú, að útilokað sé að um hafi verið að ræða snertiskot og nefndar prófanir, sem vitnið hafi gert með því að skjóta á pappaskífur og svínshaus, hafi gefið þá niðurstöðu miðað við samanburð á innskotsopum þeim, sem verið hafi á höfði hins látna, að púðurferlar sýni að öllum skotunum hafi verið skotið úr um 5 cm fjarlægð miðað við hlaupenda. Til prófananna hafi vitnið notað umræddan riffil og skot, sem haldlögð hafi verið á vettvangi. Vitnið sýndi í dóminum hluta úr umræddum svínshaus og skýrði út þær ákomur sem á honum voru og leiddu til ofangreindrar niðurstöðu.
Vitnið kvaðst hafa unnið í tæknideild Rannsóknarlögreglu ríkisins frá 1981 þar til hún var lögð niður 1997. Kvaðst vitnið vera félagi í erlendum sérfræðisamtökum sem fáist við byssu- og skotfærarannsóknir og nýti þau sambönd til að leita upplýsinga hjá kollegum erlendis. Fyrir þá rannsókn sem unnin hafi verið í máli þessu hafi vitnið sérstaklega leitað upplýsinga um það með hvaða hætti væri hægt að gera skottilraunir í húð til að fá sem líkastar niðurstöður miðað við ákomur á líkinu. Vitnið hafi fengið þær upplýsingar hjá starfsbræðrum sínum í Noregi, að best væri að skjóta í svínshaus, þar sem húðin væri svipuð á mönnum og svínum.
Þá kvaðst vitnið einnig hafa framkvæmt rannsókn í málinu á skotstefnum. Hafi vitnið skoðað áverka utan á höfði hins látna. Vitnið hafi verið viðstatt krufningu og að áeggjan vitnisins hafi höfuð hins látna verið röntgenmyndað. Kvað vitnið það skoðun sína, að kúlubrot, sem sjáist á röntgenmynd framarlega í höfði, séu hlutar þeirrar kúlu sem farið hafi inn neðan við vinstra auga. Vitnið kvaðst við skotstefnurannsókn sína ekki hafa getað stuðst við þá áverka, sem urðu á heila. Kvað vitnið ekki líklegt að annað skotanna tveggja, sem farið hafi í enni hins látna, hafi verið það sem hafi útskotsop.
Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð blóðferla á vettvangi og hafi stækkun á ljósmyndum, sem teknar hafi verið á vettvangi að morgni 18. mars s.l., ekki skilað myndum af þeim gæðum sem hafi getað nýst vitninu til að leggja mat á blóðferlana. Þegar vitnið hafi fyrst komið á vettvang hafi hins vegar verið búið að þrífa hann. Kvaðst vitnið því ekki geta lagt neinn dóm á það útfrá nefndum ferlum, hver staða hins látna hafi verið í rúminu, er fyrsta skotið hljóp í hann. Vitnið bar þó, að ef blóðslettur hafi verið á miðjum höfðagafli og þær blóðslettur verið afleiðing af útskotsopinu, þá væri það álit vitnisins að langlíklegast væri að höfuð hins látna hafi verið á koddanum er skotið hljóp í höfuðið. Hins vegar kvað vitnið mjög erfitt að fullyrða um það hvar riffillinn hafi verið þegar skotið hljóp úr honum. Kvað vitnið ástæðu þess m.a. vera þá hve skotferillinn taki miklum breytingum við sérhverja hreyfingu höfuðsins.
Kvað vitnið það líklegt að við hreinsun á vettvangi hafi kúlubrot það, sem fundist hafi á vettvangi, hrunið niður þangað sem það fannst.
Vitnið kvað blóðpróf hafa verið gert á blettum í lofti og hafi þeir gefið jákvæða svörun sem blóð. Þá kvað vitnið hafa verið leitað beinflísa á vettvangi, en þær hafi ekki fundist. Ekki hafi heldur fundist kúlufar á höfðagafli, en sérstaklega hafi verið eftir því leitað.
Kvaðst vitnið hafa tekið ákvörðun um það að mynda vitnið á vettvangi í því bili milli rúms og veggjar, sem ákærði hefur borið að hann hafi komið sér fyrir í. Vitnið kvaðst hafa verið að sýna með þessari myndatöku, að það hafi verið erfitt að setjast niður og setja bakið við hliðina á rúminu.
Kvaðst vitnið aðspurt í raun hafa stjórnað vettvangsrannsókninni.
Að ósk sýslumannsins á Húsavík framkvæmdi Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir, geðrannsókn á ákærða. Skýrsla Brynjólfs um geðrannsóknina er dags. 6. júní 2000 og eru helstu niðurstöður hans eftirfarandi:
„VI Ályktanir og skýringartilgátur
A. Sú tilgáta út frá niðurstöðum sálfræðirannsóknar, að voðaverkið geti orsakast af dómgreindarbilun vegna byrjunareinkenna geðklofa er langsótt, en ekki með öllu útilokuð.
B. Sá möguleiki að hann hafi gengið hreint til verks og banað föður sínum vísvitandi, yfirvegaður og „með köldu blóði“, er enn fjarlægari og reyndar án alls rökstuðnings. Það vantar einnig allar ástæður til manndráps (mótíf), Þ.B.J átti ekkert sökótt við föður sinn og langflestum heimildum ber saman um að með feðgunum hafi verið góð vinátta alla tíð og aldrei slest upp á vinskapinn umfram það sem almennt gerist. Einstök atvik og dæmi um ósamkomulag milli feðganna, sem fram koma í yfirheyrslum geta varla talist það sérstök eða alvarleg að hugsanlegt sé að Þ.B.J. hafi getað banað föður sínum til að jafna þá reikninga.
C. Þá er aðeins eftir að nefna þann áðurnefnda skýringarmöguleika að fyrsta skotið hafi lent í höfði föðurins af slysni, eins og Þ.B.J. hefur fullyrt við undirritaðan geðlækni allan tímann og að við það áfall hafi Þ.B.J misst stjórn á rökréttri hugsun og tekið órökréttar ákvarðanir með afdrifaríkum hætti.
Samkvæmt kenningum um alvarlegustu áfallakreppur er fræðileg skýring fengin á atburðarásinni, þ.e. ef sú tilgáta reynist rétt, að hann hafi setið á rúmstokknum framan við föður sinn þegar fyrsta skotið reið af. Óvíst er hvort þetta verður með nokkru móti sannprófað á næstunni, en vandi Þ.B.J. við að greina rétt frá þessu atviki gæti hæglega orsakast af þeirri afneitun og bælingu sem niðurstöður sálfræðirannsóknarinnar gáfu mjög sterklega til kynna og geta jafnframt samkvæmt kreppukenningum verið aðferðir til að afbera nístandi skelfingu eftir stóráfall. Í lögreglurannsókn voru gerðar ítarlegar tilraunir til að fá endanlega í ljós hvað gerðist umrædda nótt þegar fyrsta skotið hljóp úr rifflinum. Við sviðsetningu atburðarins urðu útskýringar Þ.B.J. mjög ósannfærandi. Tilgáta undirritaðs geðlæknis er sú að hann hafi í rauninni verið ófær um að rifja upp atvikið nákvæmlega rétt, og enn þann dag í dag á síðasta degi geðlæknisrannsóknarinnar er hann ófær um að rifja upp nákvæma lýsingu. Aðspurður hvort hann kunni að hafa setið á rúmstokknum fyrir framan föður sinn, en ekki setið á gólfinu framan við svarar hann því til að það kunni vel að vera, en hann sé með öllu ófær um að svara með ákveðnu jái eða neii. ... “
Síðar segir í skýrslu Brynjólfs:
„Geðrannsókn var framkvæmd á tímabilinu 24. mars til 6. júní 2000 og sat Þ.B.J. í gæsluvarðhaldi á Akureyri allan tímann. Læknisrannsóknin gekk eðlilega og greiðlega fyrir sig og sakborningur var í alla staði samvinnuþýður. Ýmislegt olli hins vegar töfum við lokafrágang skýrslugerðar, m.a. lyf sem Þ.B.J. tók við kvíða og drógu sálfræðirannsókn á langinn.
Ábyggilegar upplýsingar um lykilatriði atburðarásarinnar, þ.e.a.s. hvernig fyrsta riffilskotið bar að, eru ekki fyrirliggjandi. Sakborningur virðist hafa „þurrkað“ þann atburð út úr minni sínu og orðið tvísaga við að reyna til þrautar að rifja hann upp.
Það er líklegast að mati undirritaðs geðlæknis að þessi 21 árs gamli verkamaður hafi orðið fyrir þeirri ógæfu í geðshræringu og að því kominn að stytta sjálfum sér aldur að handleika hlaðinn riffil með þeirri barnalegu ógætni að skot hljóp af slysni í höfuð föður hans og særði til ólífis. Við það áfall komst hugur hans í það alvarlegt ójafnvægi á loststigi áfallakreppunar, að hann tók mjög órökréttar ákvarðanir í framhaldi af því og eru sumar þeirra með öllu óútskýrðar, sumar að nokkru leyti útskýranlegar með röksemdum hans.“
Fyrir dómi var skýrsla vitnisins dags. 6. júní 2000 lögð fyrir vitnið til staðfestingar.
Vitnið kvað það hafa verið niðurstöðu sína, að taka yrði trúanlegan þann framburð ákærða, að fyrsta skotið hafi verið slysaskot en ekki hin tvö. Kvaðst vitnið telja að ákærði hafi verið í áfalli, er hann hafi skotið síðustu tveimur skotunum, en í áfalli sé þannig vitundarástand að ekki sé auðvelt að skera alveg úr um hvort viðkomandi ráði yfir hverju smáatriði gerða sinna. Sé allt til í því hvernig líkamlegt ástand manna sé í áfalli, það geti verið stjórnlaust en einnig rólegt, þó svo hugsunin sé öll út og suður. Kvað vitnið fræðikenningar segja, að lostsstig geti varað frá 2 klst. upp í tvær vikur og geri sjálfsvarnarviðbragðakerfið allt til þess að ýta voðalegasta hluta atburðarrásarinnar út úr hugsanaferlinu. Kvaðst vitnið hafa velt því fyrir sér hvort eftirfarandi atburðir, handtaka og frelsisskerðing, hafi gert það að verkum að nefnt loststímabil hafi orðið lengra í tilviki ákærða, en vitnið kvaðst þó ekki vilja slá neinu föstu um það.
Nánar aðspurt kvað vitnið mögulegt að ákærði hafi, er hann hleypti af síðustu tveimur skotunum, verið ófær um að ráða gerðum sínum. Vitnið kvaðst hins vegar ekkert geta fullyrt í þeim efnum.
Í rannsókn þess á ákærða kvaðst vitnið ekki hafa fundið nein merki geðsjúkdóms. Hins vegar hafi vitnið fundið merki um þunglyndi, en það hafi kannski sumpart verið til komið vegna kringumstæðna og frelsisskerðingar, en einnig hafi verið saga um þunglyndi ákærða frá fyrri tíð eins og rakið væri í skýrslu vitnisins.
Vitnið kvað ákærða í fyrstu ekki hafa séð atburði máls raunveruleikatengda, honum hafi t.d. fundist frekar stutt í að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi og færi heim og gæti tekið til við sín verk eins og lítið hefði í skorist. Seinna meir hafi vitninu skilist það á ákærða, að honum fyndist öll atburðarásin honum ofviða og hann væri að ýta henni út úr vitundinni.
Vitnið kvað það hafa tekið ákærða langan tíma að átta sig á öllum hugsanlegum afleiðingum þess, sem gerst hafði. Þá kvað vitnið það hafa verið óljóst fyrir sér allan tímann hvar ákærði hafi nákvæmlega verið staddur þegar fyrsta skotið hafi hlaupið af.
Um möguleika þess að ákærði gerði alvöru úr sjálfsvígsyfirlýsingum kvað vitnið mjög erfitt að alhæfa og kvaðst vitnið ekki geta tekið undir það með Kristjáni M. Magnússyni, sálfræðingi, að ákall um hjálp væri af eigingjörnum tilgangi. Kvaðst vitnið hafa séð svo margvíslegar útgáfur af hjálparbeiðnum og óskum um að deyja, að vitnið væri löngu hætt að ímynda sér einhverjar hreinar línur hvað það varðaði.
Vitnið kvaðst hafa lagt þann skilning í athafnir ákærða við rúm hins látna, að innst inni hafi hann verið að vona að hann yrði stöðvaður. Vitnið benti hins vegar á, að fyrir lægi í málinu að skothylkin hefðu verið inni í umræddu herbergi og því hefði ákærði þurft að fara þangað inn til að sækja þau.
Í tengslum við geðrannsókn Brynjólfs Ingvarssonar geðlæknis var Kristján Már Magnússon, sálfræðingur, fenginn til þess að framkvæma sálfræðiathugun á ákærða. Niðurstöður þeirrar athugunar eru eftirfarandi, sbr. skýrslu Kristjáns dags. 31. maí 2000: „Hér er um að ræða 21 árs gamlan pilt með greind í góðu meðallagi. Persónuleikinn er óþroskaður á sumum sviðum og pilturinn á erfitt með að taka mótlæti. Persónuleikapróf sýna að meginvarnarhættir felast í afneitun og bælingu, jafnvel á augljósum hlutum. Prófin sýna ennfremur að hér er um að ræða þunglyndan, kvíðinn og viðkvæman pilt, sem jafnframt býr yfir innibyrgðri reiði og gremju. Áberandi í fari hans er hve honum er tamt að aðlaga raunveruleikann að því sem hann vill sjá. Prófin benda á að hann geti auðveldlega séð tvær algjörlega andstæðar hliðar á sama máli (svart og hvítt) og í afneituninni nær hann að loka á þá hlið sem hann kærir sig ekki um. Í þessu ferli lokar hann svo sterkt á eigin tilfinningar, að hægt er að segja að oft takist honum að aftengja sig frá tilfinningum sínum. Þrátt fyrir að Þórður Bragi hafi tiltölulega lágan þolþröskuld gagnvart mótlæti, tekst honum oft að komast hjá að horfast í augu við hlutina á þennan hátt. Takist það hins vegar ekki bregst hann við með hvatvísi og ásökunum á aðra, tilraunum til að stjórna öðrum eða með fremur barnalegum kvörtunum. Þegar menn þróa með sér varnarhætti eins og hér er lýst hefur það afdrifaríkar afleiðingar fyrir viðkomandi persónu. Í tilviki Þórðar Braga hefur þetta haft í för með sér að hann kann ekki að takast á við áskoranir lífsins að hætti fullorðinna, heldur finnur sér mismunandi flóttaleiðir og hann nær ekki nánum persónulegum tengslum. Ekki verður vart eiginlegra geðveikieinkenna, þó mögulega sé hér um að ræða einstakling með byrjunarstig geðklofa (meginatriði þar er hve rækilega hann aftengir sig raunveruleikanum og eigin tilfinningum). Ekkert bendir til að hér sé um að ræða persónuleika sem missir stjórn á sér eða geri hluti í æðiskasti meginvarnarhættirnir vinna gegn slíku og þó varnarhættirnir séu ekki árangursríkir, er afleiðing þess að þeir bresta ekki stjórnleysi, heldur aftenging tilfinninganna einhverskonar tómleikatilfinning.
Afleiðingar fyrir mat á gerðum Þórðar aðfaranótt 18. mars. Erfitt er af niðurstöðu úr sálfræðimati á Þórði Braga að segja til um hvernig líkleg atburðarrás var nóttina sem Jón faðir hans dó. Erfitt er að svara spurningum eins og „Er/var Þórður fær um að bana föður sínum?“, „Gæti verið að hann hafi ætlað að bana föður sínum en aldrei sjálfum sér?“ og „Man hann það sem hann vill muna af atburðarásinni?“.
Á grunni niðurstöðu persónuleikaprófanna er hægt að segja að líkleg viðbrögð Þórðar við þeirri höfnun sem hann varð fyrir frá Önnu Karin þessa afdrifaríku nótt séu reiði út í aðra, en ekki hann sjálfan. Dæmigerð viðbrögð hans eru að yfirfæra eigin tilfinningar á aðra en ekki beina reiði að sjálfum sér. Hvort reiðin út í Önnu Karin í þessu tilviki yfirfærðist á föður hans, er ekki hægt að svara.
Þrátt fyrir að Þórður hafi margsinnis endurtekið að hann hafi ætlað að fyrirfara sér, er þessi yfirlýsing ekki sennileg þegar litið er á dæmigerð tilfinningaleg viðbrögð hans. Að mati undirritaðs er Þórður full sjálfsmiðaður, hefur full mikla tilhneigingu til að beina reiðinni á aðra, er full tilbúinn til að fegra hlutina fyrir sjálfum sér og full sjálfselskur til að gera alvöru úr sjálfsvígi. Tal hans um sjálfsvíg virkar fremur sem ákall á vorkunn annarra og tilraun til að hafa áhrif á viðhorf og hegðun annarra (dulin stjórnsemi), en sprottin af raunverulegri ósk um að deyja.
Ljóst er að Þórður hefur þróað með sér „færni“ í að bæla minningar og aftengja sig frá tilfinningum sínum. Þetta persónueinkenni getur skýrt að hann getur ekki lengur haldið fast í atburðarásina þegar skotin féllu. Hvort það hins vegar hefur leitt til nægilegrar firringar til að hann gæti skotið föður sinn af ásetningi, er erfiðara að meta. Tilfinningalega þarf mikla firringu og reiði til að beina byssu að andliti nákominnar manneskju og hleypa af. Engu að síður er ljóst að Þórður gerði þetta tvisvar (síðari skotin tvö). Víndrykkjan gæti hafa ýtt undir firringuna og ljósleysið í herberginu minnkað nálægðina við andlitið og auðveldað honum að sjá það sem var að gerast í einhverskonar fjarlægum „kvikmyndaveruleika“. Ljóst er af frásögn hans sjálfs og af aðstæðum á vettvangi að hann hefur ekki misst stjórn á sér, ekkert bendir t.d. til stjórnlausrar reiði. Þrátt fyrir að bæði firring og reiði séu til staðar hjá Þórði, treystir undirritaður sér ekki til að meta hvort þessir persónuþættir hafi verið til staðar af nægilegum styrk aðfaranótt 18. mars, til að stýra honum til að skjóta fyrsta skotinu og bana föður sínum viljandi.“
Kristján M. Magnússon kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína.
Kvað vitnið það niðurstöðu greiningar þess, að ákærði búi yfir góðri meðalgreind. Vitnið kvað áberandi í niðurstöðum prófana á persónuleika ákærða, hvað ákærði sé óviss á því hvað hann vilji staðhæfa um hluti. Ákærði segist geta séð bæði svart og hvítt á málum, þ.e. tvær algerlega andstæðar hliðar, en vitnið kvað þetta bæði hafa komið fram í viðtölum þess við ákærða og í persónuleikaprófum. Niðurstaðan sýni hins vegar að stundum loki ákærði algerlega á aðra hliðina og haldi síðan fast við þá hlið, sem hann vilji sjá á málunum. Kvað vitnið í þessu felast fyrst og fremst e.k. sjálfsblekkingu.
Í persónuleikaprófum kvað vitnið ákærða nota einhverja staðreynd og búa sér til heild út frá henni. Kvað vitnið niðurstöður prófanna jafnframt benda til þess að ákærði hafi tilhneigingu til að setja sig fram á sem jákvæðastan hátt.
Vitnið kvað ekkert koma fram í greiningu ákærða um að hann sé haldinn einhverjum geðsjúkdómi. Aðspurt kvað vitnið ekkert hafa komið fram í prófunum um að ákærði sé haldinn þunglyndi.
Kvað vitnið það niðurstöðu sína, að ákærði sé ekki líklegur til að gera alvöru úr sjálfsvígshótun. Minni líkur séu á því að fólk sem sé sjálfmiðað og hafi tilhneigingu til að yfirfæra reiði á aðra en ekki á sjálft sig, líkt og sé um ákærða, geri alvöru úr sjálfsvígi. Það geti eigi að síður haft uppi tilburði til þess, t.d. til að kalla á vorkunn annarra.
Vitnið kvað það hafa verið sína tilfinningu frá því að það hafi hitt ákærða fyrst, að hann væri mun uppteknari af sjálfum sér, hvernig honum liði, hvað væri að gerast með hann, hvernig farið væri með hann o.s.frv., heldur en af dauða föður síns. Kvað vitnið þetta geta verið dæmi um þá tilhneigingu ákærða, að bægja óþægilegum atriðum frá sér.
Vitnið kvað það, hvernig ákærði aftengi sig frá tilfinningum sínum, hvernig hann bæli minningar, hvernig hann beini athyglinni í burtu frá því sem sé óþægilegt, geta skýrt að ákærði muni illa atvik, sem tengist fyrsta skotinu. En hvort það sé vegna þess að ákærði hafi skotið því viljandi eða að það skot hafi verið óviljaskot, sé engin leið að sjá út úr prófunum. Aðspurt kvað vitnið mögulegt að ákærði hreinlega muni þessi atvik ekki.
Mikla firringu kvað vitnið hafa þurft til þess að hleypa af hinum tveimur síðari skotum, jafnvel þó gengið sé út frá því að fyrsta skotið hafi verið slysaskot. Þó svo faðir ákærða hafi verið dáinn, þá hafi andlit hans verið andlit, sem ákærði hafi þekkt.
Vitnið kvað ekkert sýna að ákærði hafi misst gjörsamlega tökin við hið fyrsta skot. Kom fram hjá vitninu, að ef menn missi sig út í reiði verði tilviljanakennt hvernig þeir ráðist gegn öðrum. Þeim mun meiri sem reiðin verði, þeim mun meiri líkur séu til þess, að það verði tilviljanakennt hvernig viðkomandi ráðist á náungann.
Aðspurt kvað vitnið þess vera dæmi, að börn fyllist reiði út í látna foreldra og finnist sem þeir hafi brugðist sér með fráfallinu.
V.
Ákærði er einn til frásagnar um atvik þau, er áttu sér stað í Bláhvammi aðfaranótt 18. mars s.l., og leiddu til dauða föður hans, Jóns Frímanns Jónssonar. Eins og rakið hefur verið ítarlega að framan bar ákærði fyrir dómi, að fyrsta skotið hafi hlaupið í föður hans fyrir slysni, er faðir hans greip í hlaup riffils, sem ákærði ber að hann hafi ætlað að nota til að taka sitt eigið líf. Ákærði hefur hins vegar enga skýringu getað gefið á síðustu tveimur skotunum aðra en þá, að eftir fyrsta skotið hafi gripið hann sturlun og hann skotið tveimur skotum til viðbótar í höfuð föður síns.
Skýrslur af ákærða fyrir lögreglu bera með sér, að hann hefur frá upphafi haldið því fram að fyrsta skotið hafi verið slysaskot. Hann hefur hins vegar ekki getað gert skýra grein fyrir atvikum er varða það skot og orðið tvísaga um það fyrir lögreglu hvernig hann bar sig að og hvort faðir hans hafi verið vakandi eða sofandi. Fyrir dómi bar ákærði á sama veg um atvik hvað fyrsta skotið varðar og hann gerði í upphafi yfirheyrslna hjá lögreglu.
Ákærði hefur borið að hann hafi áður haft uppi tilburði til að taka sitt eigið líf með umræddum riffli. Vitnið Anna Karin Jónsdóttir staðfesti að slíkt hafi gerst eftir ósætti þeirra í milli. Þá hafa bæði ákærði og vitnið borið að þau hafi orðið ósátt í símtölum sínum umrædda nótt, eins og að framan er rakið.
Framburðir vitna fyrir dómi um ómöguleika lýstrar atburðarásar byggja að áliti dómsins ekki á óhrekjanlegum staðreyndum eða reynslu. Fyrir liggur að ekki fór fram ítarleg rannsókn á blóðslettum á vettvangi af þeirri ástæðu, að vettvangur var ekki lengur óspilltur er í ljós kom, að útilokað væri að Jón Frímann Jónsson hefði tekið sitt eigið líf, eins og talið var í fyrstu. Vitnið Bjarni J. Bogason hefði hugsanlega getað vegna þekkingar sinnar og reynslu með hliðsjón af blóðslettum og blóðferlum, upplýst um stöðu hins látna í rúminu þegar fyrsta skotið hæfði hann. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa séð sletturnar og ferlana og því ekki geta borið um þetta atriði.
Í framburðum vitna kom ekkert fram um að ákærði hafi haft nokkra ástæðu til að vilja föður sinn feigan. Í öðrum gögnum málsins er ekki heldur að finna neina vísbendingu í þá átt.
Er það mat dómsins samkvæmt því sem hér hefur verið rakið, að ekkert hafi komið fram í málinu sem útiloki að framburður ákærða fyrir dómi geti verið réttur í öllum megin atriðum, en ekki er hægt að gera þá kröfu til ákærða að hann sé fær um að lýsa nákvæmlega staðsetningu sinni við rúm föður síns eða hvernig hann hélt á rifflinum. Þrátt fyrir að það hafi verið athafnir ákærða, sem komu í veg fyrir að fullkomin rannsókn gæti farið fram á vettvangi og hugsanleg sönnunargögn þannig spillst, verður að öllu framansögðu röktu og með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, ekki á öðru byggt en framburði ákærða, hvað varðar atvik að hinu fyrsta skoti.
Ákærði hefur borið að eftir fyrsta skotið hafi gripið hann sturlun og hann skotið tveimur skotum til viðbótar í höfuð föður síns. Kristján M. Magnússon sálfræðingur segir í niðurstöðum sálfræðirannsóknar sinnar, að tilfinningalega þurfi mikla firringu og reiði til að beina byssu að andliti nákominnar manneskju og hleypa af. Svo sem áður segir hefur ekkert komið fram um að ákærði hafi haft ástæðu til að vilja föður sinn feigan. Ákærði bar fyrir dómi að við fyrsta skotið hafi komið hljóð frá föður hans líkt því sem heyrist þegar kindum er lógað og jafnframt að hann hafi tekið um vinstri hönd föður síns, sem verið hafi algerlega máttlaus. Bar ákærði, að á þeirri stundu hafi hann talið föður sinn látinn og styður framburður Þorgeirs Þorgeirssonar yfirlæknis þá ályktun ákærða. Með hliðsjón af þessu verður að telja þann verknað ákærða, að skjóta í framhaldinu tveimur skotum í höfuð föður síns óskiljanlegan og án nokkurs sýnilegs tilgangs. Með vísan til alls þessa og framburðar vitnisins Brynjólfs Ingvarssonar geðlæknis þess efnis, að mögulegt sé að ákærði hafi, er hann hleypti af síðustu tveimur skotunum, verið ófær um að ráða gerðum sínum, verður að telja líkur komnar fram fyrir því að ástand ákærða á umræddri stundu hafi verið slíkt sem greinir í 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Verður ákærða því ekki gerð refsing í málinu vegna umræddra skota, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála.
Með vísan til framangreinds verður ákærði sýknaður af broti gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Til þess ber að líta að ákærði fór inn í þröngt og hálf myrkvað herbergi föður síns þar sem hann hlóð riffil og handlék í þrengslum við hliðina á rúmi, sem faðir hans svaf í. Telur dómurinn að með þessu atferli sínu hafi ákærði sýnt gáleysi við meðferð skotvopnsins sem leiddi til dauða föður hans þannig að varði við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Verður ákærða því gerð refsing fyrir það brot.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi, sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar í máli þessu. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingar og hún falli niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955. Komi refsingin til framkvæmda hefur ákærði þegar afplánað hana með gæsluvarðhaldsvist sinni frá 22. mars s.l.
Rétt þykir að dæma ákærða til greiðslu 1/5 hluta sakarkostnaðar, en að 4/5 hlutum greiðist hann úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Örlygs Hnefils Jónssonar héraðsdómslögmanns, sem ákveðast í einu lagi bæði vegna starfa hans við rannsókn málsins og flutnings þess fyrir dómi, kr. 1.200.000,-.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri, ásamt meðdómendunum Halldóri Halldórssyni dómstjóra og Ásgeiri Pétri Ásgeirssyni héraðsdómara.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Þórður Bragi Jónsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955. Komi refsing ákærða til framkvæmda hefur ákærði þegar afplánað hana með gæsluvarðhaldsvist sinni frá 22. mars s.l.
Ákærði greiði 1/5 hluta sakarkostnaðar, en að 4/5 hlutum greiðist hann úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Örlygs Hnefils Jónssonar héraðsdómslögmanns, kr. 1.200.000,-.